Hvanneyrar-pistlar I

Page 1

Hvanneyrar-pistlar

Bjarna Guðmundssonar I 2022

Hvanneyrar-pistlar Bjarna Guðmundssonar I, 2022. ISBN 978-9935-25-271-5 https://issuu.com/bjgudm

Öll réttindi áskilin. Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild án skriflegs leyfis rétthafa efnis hennar.

Forsíðumynd: Hvanneyri sumarið 2022. Ljósm. Magnús Magnússon/Skessuhorn. Uppsetning: Þórunn Edda Bjarnadóttir.

Efnisyfirlit Þar sem englajurtin vex ...................................................................................................................................... 5 Saga og byggð ..............................................................................................................8 Frá bújörð til búnaðarháskóla 9 Gamla skólahúsið 17 Skólastjórahúsið ................................................................................................................................................ 19 Grasgarðurinn .................................................................................................................................................... 25 Leikfimisalurinn ................................................................................................................................................. 31 Altarismyndin í Hvanneyrarkirkju 37 Gömlu fjósin – Tímamótabyggingar 42 „Byggingin“ – gripahúsin í Þórulág .................................................................................................................... 46 Skemman .......................................................................................................................................................... 49 Nokkrir minjaþættir frá Hvanneyri ............................................................................... 58 Nátthagi og kvíar 59 Minjar í fornum búlöndum Hvanneyrarkirkju ..................................................................................................... 65 Kista – fornbýli og fleira við Andakílsá ............................................................................................................... 73 Beðasléttur ......................................................................................................................................................... 78 Örnefni í Hvanneyrartúni og tilurð þeirra 80 Sögur af einu og öðru .................................................................................................. 86 Hvanneyrarmjólk ................................................................................................................................................ 87 Hvítársiglingar – Hvanneyrarlending ................................................................................................................ 96 Kistuhöfði ......................................................................................................................................................... 100 Kolbur og hvítir sloppar 103 Veðurathuganir á Hvanneyri 112 Komist frá krít og blýanti ................................................................................................................................. 115 Ræðustóllinn hans Ríkarðs ............................................................................................................................... 123 Refabúið á Hvanneyri 1937-1949 ..................................................................................................................... 125 Álagabruni á Hvanneyri? 135 Af berangri í Bútæknihús 142 Sagt frá merkismönnum ........................................................................................... 148 Farsæll brautryðjandi ....................................................................................................................................... 149 Hann gladdi með tónlist sinni 152 Fyrsti íslenski búvísindakennarinn 155 Við minningamark á Mylluhóli ......................................................................................................................... 159 „við lesum eins og flóðhestar í flagi“ ................................................................................................................ 162 Ungmennafélagið Íslendingur – undan þaki Bændaskólans ........................................ 178
4

Þar sem englajurtin vex

Hvanneyri? Það var áreiðanlega erkienglajurtin Angelica archangelica – Ætihvönn – sem var tilefni nafnsins. Ef til vill þegar Grímur háleyski, sagður fylgdarmaður Skalla-Gríms, gerði sér þar bústað. Ef til vill fyrr. Að þessi gróskumikla jurt hafi þá prýtt lækjarbakka og lindadrög í meira mæli en menn þekktu á öðrum stöðum.

Og komumenn völdu sér bústað á þurrlendum klettaásnum, einum af þeim mörgu sem þarna ganga frá norðaustri til suðvesturs, skammt frá hentugum bæjarlæk sem líklega réði mestu um val bæjarstæðis. Mýraflákarnir á milli þeirra og austan við klettaásinn, sem þarna ber hátt, voru hið mesta ótræði. Það var því ekki auðvelt að skjótast til næstu nágranna landveginn. Með tímanum kusu menn líka að leggja þjóðleiðina víðs fjarri þessum stað; nær fjöllunum þar sem þurrara var og byggð samfelldari.

Má vera að þessi einangrun hafi ýtt undir myndun byggðahverfis á Hvanneyri –Hvanneyrarhverfisins. Það var meira að segja um tíma kallað fylki. Það urðu til kot og smábýli umhverfis aðalbýlið – heimajörðina. Eiginlega ögn sérstæð byggðaskipan í Borgarfirði þar sem stakbýli varð hin ráðandi skipan svo sem víðast um landið. Um aldabil virðast fleiri eða færri fjölskyldur hafa átt sér bólstað í Hvanneyrarhverfinu, allt eftir árferði og afkomumöguleikum. Lifðu þar á kvikfjárrækt. Sóttu áreiðanlega einnig vertíðir í fjarlægum verstöðvum.

Hvanneyri. Málverk Ásgríms Jónssonar. Borgfirskir vinir Halldórs

Vilhjálmssonar skólastjóra gáfu honum verkið á fimmtugs afmæli hans árið 1925. (Eigandi myndar: Sveinn Runólfsson).

Ætli engja- og fitjalöndin með Hvítánni hafi ekki snemma þótt góð beitilönd kúnum? Minjar og örnefni benda til þess að kvíaánum hafi verið haldið til beitar stekkjarveg sunnan við byggðina – þar sem við nú köllum „suður í Landi“. Jafnvel að bændur haft málnytupeninginn þar í seli. Ef til vill gæti hvönnin sagt okkur söguna um það ef tala mætti? Hún var og er ein eftirsóttasta beitarjurt sem sauðfé þekkir. Svo getur verið að Hvanneyringar fyrri tíðar hafi grafið hvannarætur sér til næringar ellegar notað hina helgu jurt á annan máta. Ef til vill hefur kunnáttan glatast í umróti síðustu alda. En svo komu framandi menn ríðandi austan yfir Hvanneyrarmýrina, þurftu ef til vill að leiða hesta sína yfir og um verstu pælurnar.

5

Höfðu með sér vitneskju um nýjan himinn og nýja jörð. Ætluðu, eins og þeir í útlöndum, að gera þjóðina sjálfstæða og ríka í krafti búfræða og nýrrar búnaðarkunnáttu, sem þar spratt sífellt fram. Þeir þurftu ekki aðeins á heimajörðinni að halda heldur einnig kotunum og smábýlunum umhverfis. Hverfið breyttist.

Stofnaður var búnaðarskóli og umsvif búrekstrar aukin til jafns við það sem verið hafði hjá amtmanninum, Stefáni Stephensen, er sat Hvanneyri fyrstu ár 19. aldar við mikla rausn. Þótt flestar jarðir væru og séu betur fallnar til sauðfjárræktar varð sauðfé margt á þessum skeiðum báðum. Sauðféð sótti stíft í hvönnina og á tímabili virtist nafn jarðarinnar fjarri raunveruleika; svo lítið fór fyrir hvönninni.

En tímar breyttust og menn breyttu líka skipulaginu; vildu nýta tiltæk lönd með öðrum hætti. Sauðfé hvarf frá Hvanneyri þangað sem aðstæður voru betri. Hvönnin tók aftur að breiðast út meðfram lækjum og lindum. Annars konar hverfi varð til. Margmennt svo sem var tíðum áður en ekki lengur lokað og einangrað af mýrum og vilpum. Menn þjóta þaðan og þangað hvern dag um langa vegu og geta átt samskipti við allar heimsins álfur á meðan þeir eta morgunverðinn sinn.

En hvönnin breiðir úr sér hægt og rólega svo sem hæfir jurt erkiengilsins. Hún hefur lært það að sígandi lukka er best. Og við höfum lært það að hlutirnir hanga saman: Að lítið þarf oft til þess að raska samspili náttúru og umhverfis.

Ég kom fyrst að Hvanneyri um mánaðamótin september-október 1961. Hef verið viðloða staðinn síðan, með misnánum tengslum þó. Ýmislegt hefur borið fyrir augu og eyru mín á þessum áratugum. Sumt af því hef ég hripað hjá mér. Annað hefur sest að í mis traustu minni. Nú hef ég dregið nokkuð af þessu efni saman í syrpu þá sem hér birtist. Pistlarnir eru afar sundurlausir. Líka er nokkuð um skörun efnis þeirra, enda pistlarnir skrifaðir á ýmsum tímum. Afsakið það.

Þórunn mín Edda hefur brotið efnið um og gengið frá því til þessarar birtingar.

Ekki má líta á öll skrifin sem garfaða sagnfræði. Til þess hef ég ekki kannað tiltæk gögn allra efniskaflanna til hlítar. Á nokkrum stöðum glittir í munnmæli. Líka í eigið mat og skoðanir – að ógleymdu því að minni mitt er fráleitt svo trútt að ekki megi um deila. Ég vona að þrátt fyrir þessa annmarka hafi einhverjir gagn eða ánægju af lestrinum.

Svo bið ég ykkur bara að njóta.

Lækjartúni á Hvanneyri – Fyrsta vetrardag 2022.

Bjarni Guðmundsson

6
7

I. kafli Saga og byggð

Stofninn að þessum kafla rekur rót sína til sögugöngu sem Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt bað mig fara með nemendum LbhÍ (Umsk. IV) um Hvanneyri. Skyldi athyglinni einkum beint að staðarsögu, menningarminjum og þróun byggðar. Daginn, sem fara átti, viðraði ekki til gönguferðar svo úr varð 3-4 stunda myndskreyttur fyrirlestur í hlýrri kennslustofu. Hann var síðan endurtekinn um árabil með minni háttar breytingum. Meginefni hans fer hér á eftir, og í skyldum pistlum síðar í bókinni, en líka með viðbótum t.d. kafla um einstaka byggingar.

8

Frá bújörð til búnaðarháskóla

Sagan segir að Skallagrímur landnámsmaður Kveldúlfsson hafi gefið félaga sínum, Grími háleyska, land á Hvanneyri. Hafi engin byggð þá verið þar fyrir má velta því fyrir sér hvað gerði Hvanneyri að fýsilegum kosti til búsetu. Ekkert bendir til annars en að byggð hafi alla tíð staðið þar sem bæirnir stóðu allt fram að fyrri aldamótum og kallað var Hvanneyrarhverfið

Elsti hluti byggðarinnar á Hvanneyri fyrir miðri mynd. Við sjáum klettaásana ganga til SV; t.h. hallar niður að Engjum og Fit með Hvítá en t.v. austur á mýrlendið þar sem nú er Hvanneyrartún (LbhÍ).

Séð yfir Hvanneyrarland úr suðri; Andakílsá liðast fram og gerir tangann Kistu langt til að eyju. Í Kistu er fornt eyðibýli.1

Án efa hafa frumbyggjar Hvanneyrarjarðarinnar velt fyrir sér náttúruskilyrðum og landsháttum þegar þeir völdu sér bæjarstæði. Elsti hluti núverandi byggðar stendur á klettaás sem gengur frá SV til NA og er hluti af einkennandi landslagi Borgarfjarðar. Raunar deilir ásinn Hvanneyrarlandinu í tvennt: Til vesturs verður nokkur halli, Kinnin (Hvanneyrarkinn), niður að Engjunum, sem ásamt Fitinni, þurrasta hluta þessa mikla flatlendis, er mótað af framburði Hvítár. Til austurs eru m.a. miklar hallamýrar, slitnar í sundur af nokkrum klettahöftum. Fyrir daga framræslunnar voru mýrarnar ekki þægilegar yfirferðar og í þeim voru víða ókræsileg leirflög.

Víst má telja að Grímur háleyski og menn hans hafi komið sjóveg, enda herma sögur, t.d. Egils saga, að Hvítá hafi verið skipgeng a.m.k. upp að Hvítárvöllum þar sem kaupstefnur voru haldnar reglulega. Þá hefur grösug Kinnin, hallinn áðurnefndi mót Hvítánni, blasað við komumönnum. Þegar nær var komið er líklegt að efst í

1 Nær allar ljósmyndir, sem eru ómerktar, tók BG.

9

honum, á klettaásnum, hafi þótt fýsilegt að setja bústað. Þar var og er flatt og þurrlent en fleiri kostir gáfust, til dæmis hentugt grjót til húsagerðar. Þaðan var líka afar víðsýnt eins og enn má reyna með því að ganga upp á Kirkjuhólinn (þar sem fánastöngin er). Kirkjuhóllinn er einn hæsti punkturinn á svæðinu. Víðsýni hafa menn víst kunnað að meta þá eins og nú, þótt ekki væri til annars en að geta fylgst með mannaferðum. Það hefur líka gert þetta svæði fýsilegra til byggingar að skammt var í vatnsból, lækinn sunnan við hólinn er síðar var kallaður Hvanneyrarlækur en er nú oftast Tungutúnslækur. Vatnið var þá eins og nú lífsnauðsyn og því réði vatnsból án efa miklu er kom að vali bústaðar. Þegar búnaðarskóla var valinn staður á Hvanneyri og settur vorið 1889 voru þar fyrir nokkur býli. Þau kúrðu saman í hverfi á ásnum, sem áður var nefndur: afbýlin Tungutún, Staðarhóll og Hvítárós, hjáleigurnar Ásgarður, Svíri og Hamrakot og aðalbýlið Hvanneyri (kirkjujörðin). Nöfn nokkurra býlanna hafa varðveist í nöfnum húsa sem síðar voru reist og enn standa. Saman mynduðu býlin Hvanneyrarhverfið. Um sumt minnir byggðarformið á býli t.d. í Öræfasveit þar sem landshættir og óblíð náttúruöfl hafa hvatt menn til þess að þjappa byggðinni saman í þyrpingar/hverfi í stað þess að dreifa henni eins og algengast er í sveitum hérlendis.

Sýnilegar minjar um gömlu býlin eru nú fáar. Þó virðist mega greina merki um töluverðar byggðarleifar á kolli Ásgarðshólsins þar sem býlið Ásgarður stóð. Fróðlegt væri að rannsaka moldir þar. Afbýlið Hvítárós, sem tilheyrði Hvanneyrarhverfinu, stóð í Hólnum¸fast við Hvítána og ber undir Ferjubakka í NNV frá Hvanneyri. Þar má enn sjá glöggar tóftir og fleiri búsetuminjar, enda var þar búið til ársins 1925.

Fornt eyðibýli er einnig í Kistu, suður undir Andakílsá. Þar má enn sjá nokkra búsetuminjar m.a. garðbrot og tóftir. Um þær er fjallað í öðrum pistli.

Rissmynd af Hvanneyrarstað.1. Ásgarður (miðstöð LbhÍ); 2. Tungutún; 3. Skemman; 4. Leikfimihúsið; 5. Skólagarður; 6. Gamli skólinn; 7. Skólastjórahúsið; 8. Hvanneyrarkirkja; 9. Halldórsfjós með Landbúnaðarsafni og Ullarseli; 10. Mylluhóll; 11. Gamla Ullarselið; 12. Verkfærahús; 13. Hestaréttin (nú Kráin) og Hjartarfjós, nyrðri burstin; 14. Bút-húsið; 15. Ásgarður; 16. Rannsóknahús; 17. Hvanneyrarfjós.

10

Flatlendið með Hvítá, Fitin og Engjarnar, var gósenland á tímum útheysöflunar: Greiðfært og grasgefið víðlendi. Þar mátti afla mikils vetrarforða með góðri nýtingu vinnuafls. Þar var meðaldagsverk talið vera að slá 20 hestburði af heyi. Ekki síst af þessum ástæðum þótti gott undir bú á Hvanneyri.

Með göngu um land Hvanneyrarjarðarinnar má gera sér nokkra mynd af dreifbærum búskaparháttum fyrri alda. Um það bil 700-800 m suðvestur af Ásgarði (Nýjaskóla) eru Stekkjarholtin. Þarna hefur stekkurinn frá Hvanneyri verið, stekkjarveg frá bæjum. Þar mótar einnig fyrir rústum. Meira er þó áberandi þar nátthagi með fjárrétt. Réttin og mikill garður um nátthagann eru hlaðin úr grjóti. Er hvort tveggja mjög vel sýnilegt enn, minjar um gamla landnýtingarhætti með sauðfé, sjá síðar.

Syðst í landi Hvanneyrar, þar sem heitir í Kistu og áður var nefnd, er örnefnið Selhóll, sem bendir til selstöðu þar. Hvanneyrarkirkja átti líka selför í Indriðastaðaland, enda var ekki óalgengt að jarðir hefðu hefðu í seli á fleiri en einum stað. Ef til vill er Kista dæmi um býli sem ýmist var setið um ársins hring eða aðeins um seljatímann? Hugleiðing um það kemur hér síðar.

Upp úr miðri 19. öld óx áhugi á ræktunarumbótum hérlendis. Í Hvanneyrarhverfinu eru þær fyrstu taldar hafa verið framræsluskurður á milli Tungutúns og Ásgarðs (býlisins) og sléttugerð í Tungutúni árið 1874. Vera má að það hafi einnig verið merki þeirra er lengi sáust sem beðasléttur suðvestan við húsið Tungutún. Þær hurfu endanlega þegar Rannsóknahúsið var reist á níunda áratug síðustu aldar.

Og höfum við þá nefnt þær ræktunarminjar sem töluvert fer fyrir á Hvanneyri – beðaslétturnar. Beðaslétturnar eru mest áberandi í Ásgarðshól, í Kinninni og annars staðar á þurrlendinu heima við Gamla staðinn sem svo er oft nefndur. Meira um þær seinna.

Á Fit og Engjum má sjá mikla áveitu- og flóðgarða. Þeir eru fulltrúar engjaræktunartímabilsins í íslenskri búnaðarsögu. Ekki er vitað hvenær þeir fyrstu voru hlaðnir en á árunum eftir 1917 var mikið gert af þeim á Hvanneyri. Áveituvatnið var m.a. tekið úr Hvanneyrarlæknum (Tungutúnslæknum) en líka með miklum skurði úr Vatnshamravatni sem liggur austan við Hvanneyrarhverfið. Um skeið var fall vatns þaðan notað til raforkuframleiðslu (6 kW). Má enn sjá leifar virkjunargrunnsins neðan við Þórulág (þar sem hesthúsið er). Í áveituhólfin barst einnig flóðavatn úr Hvítá, auðugt af næringarríkum jarðefnum. Áveitur eru ræktunartækni sem á sér árþúsunda langa sögu hjá fornum og fjarlægum menningarþjóðum. Eins og beðaslétturnar voru þær lagaðar að íslenskum aðstæðum hvað efni, form og framkvæmd snerti. Hvort tveggja eru verndunarverðar minjar um forna verkhætti.

11
Í fönninni sjáum við að skafið hefur ofan af bökum beðasléttnanna í Hvanneyrarkinn.

Með komu véla til jarðvinnslu, grasfræs og tilbúins áburðar óx áhugi á túnrækt á kostnað engjaræktar og útheyskapar. Mýrlendið á Hvanneyri krafðist framræslu. Í fyrstu var mest um handgrafna skurði. Var þá byrjað í smáum stíl að þurrka landið austan og suðaustan við byggðina. Flestir skurðanna eru nú horfnir eða hafa verið grafnir upp.

Það voru fyrst og fremst nemendur skólans sem unnu að jarðræktinni á Hvanneyri allt til þess tíma að ræktunin varð einhliða vélavinna. Jarðrækt hvers konar var meginhluti verklegs náms þeirra í búfræðum.

Horft til norðausturs yfir byggðina um síðustu aldamót, Vatnahamravatn ofarlega á myndinni. Við sjáum framræslukerfið sem mótar svip ræktunarlandsins. Hluti þess fjærst byggðinni er dæmigerður fyrir íslenska ræktunarhætti á mýrlendi á tímabilinu eftir 1945 (LbhÍ).

12
Horft vestur yfir Hvanneyrarstað um síðustu aldamót. Sér í Hvítá og Fitina á bökkum hennar: Ásgarðsfit til vinstri við Heimastokk en Hvanneyrarfit til hægri. Flóð- og áveitugarðar áberandi (LbhÍ).

Á fimmta áratug síðustu aldar komu skurðgröfurnar. Með þeim opnuðust Hvanneyrarmýrarnar til túnræktar og til varð það svipmót sem nú einkennir Hvanneyrartúnið. Þar sem nú eru megintún skólabúsins voru áður „flóatetur, fífusund“ en líka mógrafir því þar eru töluverð mólög í jörðu, beitilönd hrossa og sauðfjár, og hin villta náttúra. Beitilönd Hvanneyrarkúnna voru á Engjunum. Á hverju ári var brotið land til nýræktar og var það m.a. liður í verknámi nemenda. Í Hvanneyrarmýrinni, ef við köllum hana einu nafni, var töluvert gert af lokræsum, einkum í mýrinni næst byggðinni. Það verk var líka liður í verknámi nemenda. Fæst af þessum lokræsum er lengur sýnilegt en þó má bæði af loftmyndum og á stöku stað greina reglulegar lægðir/rendur í túni sem vitna um undirliggjandi lokræsi.

Og fyrst nefnd eru lokræsi skulum við skjótast í dálítið jarðfall sem er rétt suðvestan hússins Ásgarðs, til hægri rétt eftir að komið er suður fyrir túnhliðið þar við lækinn. Þarna má sjá opnast í jarðfallið mynni vélgerðra lokræsa frá miðjum sjöunda áratugnum. Húnvetnskur maður, Eggert Hjartarson, hannaði lokræsaplóg fyrir jarðýtu sem hann reyndi þarna fyrsta sinni. Svo vel vann plógurinn að töluvert var unnið með honum í mýrlendinu þaðan „suður í Landi“ eins og svæðið er oftast nefnt. Við þessa framræslu þornaði landið og hlutur heilgrasa í gróðurþekjunni óx. Eggert fékk einkaleyfi á plógi sínum og mun hann vera eina íslenska landbúnaðarverkfærið sem formlegt einkaleyfi hefur hlotið.

Ef við bregðum okkur aftur heim að Tungutúnslæk og stoppum á göngubrúnni horfum við upp til Skemmunnar hægra megin við götuslóðann. Hún er elsta húsið sem nú stendur á Hvanneyri. Skemman var byggð árið 1896 og reyndist skólanum notadrjúg m.a. þegar skólahúsið brann árið 1903 og nemendur og starfsfólk stóðu uppi húsnæðislaus. Sjálfsagt rekur einhver augun í það að skemman stendur á skjön við önnur staðarhús. Ástæðan er sú að skemman var sett samsíða tröðinni heim að fyrsta skólahúsinu á Hvanneyri. Komum við þá að áhrifum samgangna á skipulag staðarins og kafla „siðaskiptanna“ í samgöngumálum Hvanneyrar. Þau breyttu undra miklu um svip staðarins í augum komumanna.

Væri Tröðinni áðurnefndu fylgt áfram til suðvesturs er mjög líklegt að okkur bæri eftir gömlum slóðum niður að Hvítá. Norðan við Ásgarðshöfðann rann Skipalækurinn fram og gæti nafnið komið upp um hlutverk hans. Hér má nefna að gömul lending mun einnig vera úti í Kistuhöfða, klettarananum sem gengur lengst til suðvesturs í Hvanneyrarlandi.

Sjóleiðin var hin algenga komuleið að skólastaðnum allt fram yfir 1930. Borgarnes var viðkomustaður Flóaskipa/-báta, eins konar samgöngumiðstöð fyrir Vestur- og Norðurland. Þegar komin var sjóleiðin úr Borgarnesi var farið upp í Hvanneyrarstokkinn eða uppundir Ásgarðshöfðann, í Skipalækinn áðurnefnda. Frá þessu sjónarhorni sjáum við hve gömlu skólahúsin njóta sín vel. Ekki er ósennilegt að húsameistararnir Rögnvaldur Ólafsson og Guðjón Samúelsson hafi haft það í huga þegar þeir gerðu uppdrætti sína að staðarhúsunum sem mynda eina einstæðustu heildarmynd húsa í sveit á Íslandi. Þau eru talin í aldursröð: Hvanneyrarkirkja, Gamli skólinn, Leikfimihúsið (sem telja má í þessum hópi, teiknað af Einari I. Erlendssyni), Skólastjórahúsið og Halldórsfjós.

13

Horft til gömlu staðarhúsanna á Hvanneyri úr suðvestri skömmu eftir miðja síðustu öld. Matjurtagarður í suðurhallanum að Tungutúnslæk (LbhÍ).

Þessi hús, sem hvert með sínum hætti eru merkilegur þáttur í byggingarsögu landsins að ógleymdri búmenntasögunni, mynda einkennandi heild – gömlu Hvanneyri sem úr engri átt nýtur sín betur en suðvestri og vestri.

Með skólahúsinu og leikfimihúsinu er reist voru 1910 og 1911 afmarkaðist garður suðvestan við skólahúsið sem fyrir var. Þar var áður „jarðeplagarður“ skrifaði Teitur bóndi Símonarson (1865-1945).2 Garðurinn frá 1910 var í fyrstu nefndur Grasgarður, og eins og nafnið bendir til, ætlað hlutverk í kennslu við skólann. Síðar var garðinum breytt í einskonar skrúðgarð, sem af mörgum var kallaður Frúargarðurinn. Skólagarðurinn mun þó vera það nafn sem oftast hefur verið haft um garðinn.

Þess má geta að skömmu eftir aldamótin fyrri (1901) var reist hús fyrir Mjólkurskólann á Hvanneyri. Það stóð nokkurn veginn þar sem nú er miðja Skólagarðsins. Hins vegar stóð það ekki lengi því í skólahússbrunanum mikla á Hvanneyri haustið 1903 varð það einnig eldinum að bráð.3

Eftir að brú kom á Hvítá við Ferjukot árið 1928, og bílfær vegur var gerður fyrir Hafnarfjall og um Hvalfjörð breyttist komuleið að Hvanneyri. Af þjóðvegi (Norðurlandsvegi) um Andakíl varð heimreið að staðnum skammt suðvestan Bárustaða heim klettaásinn (Gamla heimreiðin). Þegar Norðurlandsvegur var færður á Borgarfjarðarbrú um 1980 kom enn til færslu á heimreiðinni að Hvanneyri. Einkenni heimreiðanna beggja og einkum hinnar síðartöldu var að þær leiddu gesti eiginlega aftan að skólabyggingunum. Skipulag staðarins og stækkun hans hafa þó mildað þessa tilfinningu nokkuð. Við sjáum þó hér skýrt dæmi um áhrif tæknibreytinga í samfélaginu á skipulag einstakra staða og byggðakjarna.

Segja má að gervallt land Hvanneyrarjarðarinnar beri merki mikilla umsvifa og margs konar breytinga á notkun landsins og umgengni við það allt frá stofnun búnaðarskólans árið 1889. Annars vegar snúa breytingarnar að búrekstri og rannsóknum og tilraunum tengdum jarðrækt og búfjárhaldi. Hins vegar snúa breytingarnar að búsetu stækkandi hóps starfsmanna skólans og annarra sem og þeirra stofnana og fyrirtækja sem valið hafa sér setur á Hvanneyri.

Þegar hefur verið getið ræktunarminja á Hvanneyrarengjum og Hvanneyrarfit. Líka þess hvernig vélvæðing og þá einkum véltækni við framræslu breytti Hvanneyarmýrum í tún og

2 Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar 1996 N/1 Bændaskólinn, 50 ára.

3 Af skólanum segir í bók BG: Konur breyttu búháttum (2016).

14

akurlönd. Ógetið er þá ýmissa búsetuminja sem greina má í úthaga jarðarinnar, einkum á því svæði sem almennt gengur undir nafninu Suður í Landi. Það er svæðið suðvestan við byggðina og túnið á Hvanneyri.

Framræsla hefur breytt gróðurfari mikils hluta þess svæðis og greitt heilgrösum leið á kostnað hálfgrasa. Beitargildi gróðurs landsins hefur því vaxið að mun enda er það núorðið að mestu nýtt til hrossabeitar. Suður af Stekkjarholtunum, vestan vegarslóðans út að Andakílsá, má t.d. sjá merki brauta sem gerðar voru um miðbik sjöunda áratugsins til þess að auðvelda dreifingu tilbúins áburðar á úthaga sem þá þótti skynsamleg hagabót.

Á svæðinu má líka sjá tilraunir til trjá- og skógræktar sem hófust í kjölfar vaxandi áhuga manna á skógrækt er líða tók á níunda áratug síðustu aldar.

Þróun byggðar á Hvanneyri væri tilefni sérstakrar greinargerðar en orða má framvinduna þannig:

Yfir garð um gamla Nátthagann á Stekkjarholtunum og til hægri við vegarslóðann sjáum við minjar um hagabætur sem nýlunda þóttu um miðjan sjöunda áratuginn: Herfaðar brautir sem aka mátti dráttarvél með áburðardreifara. Á myndinni má sjá áhrifin.

Fyrir daga búnaðarskólans: Byggðarhverfi aðalbýlis með nokkrum afbýlum og hjáleigum í kring. Sjálfsþurftarbúskapur að hætti aldarfars. Eignarhald margbrotið. Hvanneyrarkirkja efnaður jarðaeigandi.

Búnaðarskóli frá 1889: Býlin í hverfinu hverfa undir vaxandi stórbýli skólans sem fengið hefur alla jörðina til umráða. Framan af má líta á nemendur sem ársmenn ráðna til bónda (skólastjóra) sem aftur hafði fræðsluskyldu við ársmenn sína (nemendur). Starfsmenn (kennarar) flestir einnig ársmenn í þjónustu hans. Tímabilið 1889 fram til 1936.

Bændaskóli: Stórbúskaparform á búrekstri og staðarstjórn en afskipta ríkis og reglna þess gætir í vaxandi mæli, þ.m.t. samræmis í rekstrarháttum við aðra opinbera skóla. Kennurum búin aðstaða til smábúskapar, svo sem aðgangur að landi. Tímabilið frá1936 fram undir 1970.

Bændaskóli – þorpsmyndun: Æ fleiri starfsmennn kjósa að setjast að á staðnum, einnig óskyldir aðilar. Skólinn er þó enn umráðaaðili lóða, lendna og lagna, og hefur forsögu um staðarskipulag. Þörf fyrir skipulag íbúðabyggða vaxandi, lóðir, lagnir o.fl. Áhersla á fremur stórar einbýlishúsalóðir og lágreista byggð. Þarfir annarra skóla koma til, s.s. grunnskóla og leikskóla. Tímabilið 1970 fram undir aldamótin 2000.

15

Hvanneyri sumarið 2022 (ljósm. Magnús Magnússon/Skessuhorn).

Sveitaþorp – Háskólaþorp: Sveitarfélagið hefur tekið að sér skipulagsmál, lóðir og lagnir en skólinn færist meira í þá átt að vera ein meðal fleiri stofnana og aðila á staðnum þótt sé hinn formlegi eigandi jarðarinnar í skilningi laga. Breyttir búsetuhættir nemenda kalla fram þörf á nýrri gerð bygginga – fjölbýli nemendagarða, gerð lóða fjölbreyttari (parhús, einbýlishús). Takmarkað landrými og fleiri sjónarmið kalla á minni lóðir en áður. Aðrar þarfir, svo sem útivist og hestamennska kalla á aðra landnýtingu en áður var. Tímabilið eftir aldamótin 2000.

16

Gamla skólahúsið

Skólahúsið var reist sumarið 1910 eftir teikningu og forsögn Rögnvaldar Ólafssonar húsameistara. Þá var Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri. Í skólahúsinu voru heimavistarherbergi nemenda á efstu hæðunum tveimur og kennslustofur á fyrstu hæð, bjartar og rúmgóðar. Fyrir framan þær er forsalur „ætlaður eingöngu til áfloga og skemmtana,“ eins og skólastjóri orðaði það í skýrslu um framkvæmdir. Í forsalnum var flogist á, glímt og dansað vetur eftir vetur.

Halldór taldi að um þrjár milljónir punda af byggingarefni (1500 tonn) hefðu farið í húsið sem er steinsteypt. Hefur skólahúsið reynst hafa verið afar traustbyggt í hvívetna.

Byggingarmeistari hússins var Stefán Egilsson, faðir Sigvalda Kaldalóns tónskálds. Vitað er að annar sonur Stefáns, Eggert, síðar stórsöngvari, lagði líka hönd að húsbyggingunni. Má því vera að afmorssöngvar og framandi hetjuaríur hafi heyrst úr Hvanneyrarbátnum þegar hann sótti byggingarefnið í Borgarnes.

Í kjallara skólahússins voru m.a. eldhús og borðstofa nemenda, þvottahús og hitunarvél, en mikil hersla var lögð á góða kyndingu hússins og loftræstingu þess. Þar niðri var svo sett olíuknúin ljósavél á þriðja áratugnum. Í kjallaranum var líka brunnur til vatnsöflunar. Öllu skolpi úr húsinu var safnað og það notað til áveitu yfir Hvanneyrarengjar.

Ósjaldan dvöldu í skólahúsinu 50-60 nemendur, í 2-6 manna herbergjum – stundum voru þeir fleiri saman. Um hríð var kennaraíbúð í skólahúsinu. Húsið var heimili, skóli og skemmtistaður Hvanneyringa í ríflega sextíu ár. Það geymir því sögu margra, mætti það mæla.

Og fleira má nefna úr sögu hússins:

dz Ungmennafélagið Íslendingur var stofnað í nyrðri skólastofunni á fyrstu hæð þann 12. desember 1911. Fundaði þar oft síðan.

dz Til var að messur væru sungnar skólahúsinu í vetrarkuldum. Jólatrésskemmtanir sóknarinnar voru haldnar þar um árabil – fram yfir 1970.

dz Þar var rekið barnaheimili á stríðsárunum síðari með allt að sextíu börnum í sumardvöl.

dz Sú fræga Skóla-Jóna er sögð hafa búið um sig í skólahúsinu á óskilgreindum tíma framanvert á ævi þess.

17
Gamla skólahúsið á Hvanneyri (ljósm. Guðrún Jónsdóttir)

dz

Þýski búfræðingurinn Hellmut Lotz stundaði þar rannsóknir á votheysveiki (Hvanneyrarveiki) í sauðfé árið 1928. Lét Halldór skólastjóri útbúa fyrir hann lokaða rannsóknaaðstöðu í kjallara hússins. Minnstu munaði að dr. Lotz, þá enn bráðungur fagmaður, næði að skýra til fulls orsök hinnar skæðu veiki.

dz

Háskólakennsla í búfræðum – fyrsta háskólakennslan hérlendis utan Reykjavíkur – hófst í þessu skólahúsi haustið 1947. Þá var þar líka settur vísir að kennslu-rannsóknastofu í efnafræði.

dz

Skólahúsið hefur a.m.k. í tvígang eftir óhöpp skotið þaki sínu yfir vegalausa starfsmenn skólans: fyrst við bruna skóla(stjóra)hússins haustið 1917, og síðan aftur haustið 1973, er þakið fauk af „Nýja verkfærahúsinu,“ því sem nú er gjarnan kallað Gamla-Bút.

Með tilkomu nýs skólahúss á Hvanneyri (nú Ásgarðs) á árunum 1965-70 fækkaði nemendum, er bjuggu í skólahúsinu. Það fékk því brátt nafnið Gamli skóli. Hluta herbergja á annarri hæð var breytt í kennslustofur og nokkur nemendaherbergi gerð að skrifstofum fyrir kennara skólans. Síðar var fleiri kennslustofum og snyrtingum komið fyrir í kjallara hússins.

Hagþjónusta landbúnaðarins hóf starfsemi sína á annarri hæð hússins árið 1990 og starfaði þar fram yfir aldamótin. Raunar hafði Guðmundur Jónsson, síðar skólastjóri, starfrækt búreikningastofu þar undir þaki þegar á fjórða áratug fyrri aldar.

Á sínum tíma var húsið með vönduðustu skólahúsum landsins hvað vist nemenda og kennsluaðstöðu snerti. Að megingerð og útliti heldur skólahúsið sinni upphaflegu gerð þótt það hafi verið bætt og því breytt á ýmsan veg í tímanna rás að kröfum þeirra. Bíslög voru til dæmis sett framanvið hvort anddyri og rúðusetningum glugga hefur verið breytt. Vatnssalerni innandyra leystu af kamra sem stóðu suðvestanundir gafli skólahússins árið 1937.

Nú er búið að koma upp þekkilegri gistiaðstöðu í fyrrum heimavistarherbergjum nemenda á annarri og þriðju hæð hússins.

Skólahúsið mótar með nálægum byggingum Gamla staðinn á Hvanneyri. Hann er einstakt safn verka fyrstu íslensku húsameistaranna, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar, Einars I. Erlendssonar og Guðjóns Samúelssonar. Skólahúsið er hluti af þeirri hverfisvernd sem Gamli staðurinn og umhverfi hans nýtur með friðlýsingu sem ákveðin var 2015.4

18
4 https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/vesturland/nr/1337

Skólastjórahúsið

Uppdráttur Einars I. Erlendssonar og „úniversið“ á Hvanneyri

Aðfaranótt 30. október 1917 brann íbúðarhúsið á Hvanneyri til kaldra kola. Eldurinn kom upp í kjallara hússin, sennilega í móstíu. Mikið tjón varð á eignum og munum skóla og einstaklinga sem í húsinu bjuggu. Það tókst, þrátt fyrir mikla röskun, að halda skólastarfinu áfram.5 Atburðurinn gekk mjög nærri skólastjóra og fólki hans, og ekki bætti úr skák að í hönd fór harður vetur og erfiður.6

Brátt var undinn bugur að því að reisa nýtt hús. Halldóri skólastjóra Vilhjálmssyni var að vonum í mun að koma skólanum aftur fyrir vind og hafði þegar samband við Stjórnarráðið um byggingu nýs húss. Framvindu húsbyggingarmálsins hefur verið lýst á öðrum stað.7

Hér verður saga Skólastjórahússins ekki rakin heldur mest fjallað um eina teikningu sem gerð var að nýju húsi. Hún gæti hafa verið fyrsta tillagan sem gerð var að húsinu; er skráð í janúar 1918. Teikninguna gerði Einar I. Erlendsson byggingameistari, þá starfandi húsameistari ríkisins.

Einar I. Erlendsson hefur staðið í nokkrum skugga húsameistaranna Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar. Hins vegar brúaði hann bilið sem varð á milli þeirra og gegndi starfi húsameistara ríkisins um tveggja ára skeið. „Einars Erlendssonar mun alltaf verða minnst sem lykilmanns í íslenskri byggingarlist og föður steinsteypuklassíkurinnar. Með húsum sínum hefur hann reist sér minnisvarða sem standa mun um ókomin ár“, segir Sigríður Björk Jónsdóttir listfræðingur í grein um Einar og verk hans.8

Áhugavert er að skoða teikningu Einars með hliðsjón af því hvað af henni má ráða um skólastarf og heimilishætti á Hvanneyri á árunum laust fyrir 1920. Eflaust hefur Einar að töluverðu leyti hlustað á hugmyndir Halldórs skólastjóra hvað snerti kröfur sem gera þyrfti til rýmis og skipulags í hinni nýju byggingu. Hafði hann m.a. í erindi til Stjórnarráðsins viðrað hugmynd um „stórt og veglegt staðarhús á Hvanneyri, þar sem húsrúm verði nægjanlegt handa skólastjóra og fjölskyldu, verkafólki Hvanneyrar og gestum og heimavistir fyrir 2030 nemendur svo fjölga megi í skólanum . . . Hér er um framtíðarbyggingu að ræða, við byggjum nú fyrir aðra, komandi kynslóðir, sennilega miklu heimtufrekari en við erum“ . . . var haft eftir Halldóri.9

5 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára (1939), 195.

6 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 99-103.

7 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 103-106.

8 http://www.mbl.is/greinasafn/grein/421601/ Nú (2022) er komin út bók Björns G. Björnssonar um Einar I. Erlendsson: Húsameistari í hálfa öld. Hið íslenska bókmenntafélag.

9 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 104.

19

Einar gerði ráð fyrir að húsið yrði 22,5x10,5 m2 að grunnfleti, kjallari, tvær íbúðarhæðir, og rishæð, auk nokkurs rýmis í hanabjálka. Úr steinsteypu átti byggingin að vera.

Tillögubygging Einars er afar svipmikil og reisuleg með sterk stíleinkenni höfundarins. Sérkennileg þakgerð, með brotnum stöfnum gefur byggingunni óneitanlega framandi og nýtískulegan svip. Gluggagerð og vegglínur á kjallara greina hann frá hæðunum tveimur og skapa gott jafnvægi í heildarsvip hússins.

Ætla má að Einar hafi haft grunn hins brunna íbúðarhúss í huga sem stað fyrir nýju bygginguna. Aðalinngangurinn skyldi snúa til suðurs, út í skólagarðinn, eins og verið hafði á hinni eldri byggingu, en tvenn anddyri til norðurs.

Aðalinngangurinn var mikill um sig: Tvennar tröppur leiddu upp að anddyri og síðan forstofu er var á fyrstu hæð. Svipmikið skraut mótaði handriðin. Ekki verður af teikningunni dæmt um hvort Einar hefur ætlað að nýta þak anddyrisins sem svalir. Vissulega hefði það þó talist tignarlegt.

Lítum þá á hverja hæð með hliðsjón af þörfum er þar skyldi mæta í gerð og skipulagi byggingarinnar:

KJALLARINN:

Kristjana Jónatansdóttir rjómabústýra

á Hvanneyri við vélknúna skilvinduna (Ljósm.safn Borgarfjarðar).

Tvennt skyldi kjallarinn einkum rúma: Annars vegar rúmgott eldhús og matsal með sérstöku anddyri vegna aðkomu að austan. Líklega var sú aðstaða einkum fyrir starfsmenn Hvanneyrarbúsins því mötuneyti nemenda var þá þegar til staðar í kjallara skólahússins sem byggt var árið 1910. Hins vegar var „rjómabúi“ skólans ætlaður staður í austurhluta kjallara hinnar nýju byggingar, en þar virðist hafa átt að vera ögn lægra undir loft. Til kælingar þurfti mikinn ís og rými undir hann skyldi vera undir aðalanddyri byggingarinnar. Hvanneyrarfjósið, með sínum 40 kúm, stóð norðan við skólahúsin. Því var sýnilega gert ráð fyrir að komið væri með mjólkina til vinnslu í rjómabúinu um anddyri við austurhorn kjallarans. Þar áttu fjósamenn að geta gengið að skjólum sínum rétt innan við dyrnar og skilað spenvolgri mjólkinni í skilvinduna þar í horninu. Síðan ráku rýmin hvert annað: smjörgerðin, skyrgerðin og dálítill ostaklefi. Anddyri var undir aðalanddyri er vissi til suðurs. Þannig getur maður séð fyrir sér mjólkurafurðirnar hafa „flætt“ þvert í gegnum bygginguna – frá mjólk til unninna afurða, sem tilbúnar voru til flutnings á markað,

20

og þá líklega sjó-/árleiðina í Borgarnes, þær sem ekki fóru til heimanota á Hvanneyri. Mjótt rými var fyrir móinn og þar handan gangs miðstöðin og rými sem kallað var „rafmagn“. Halldóri skólastjóra var snemma í mun að rafvæða skólann og þarna var þá gert ráð fyrir þeirri tækni.

1. HÆÐ:

Fyrstu og annarri hæð svipar saman um það að gangur er eftir endilangri byggingunni og herbergi til hvorrar handar. Úr forstofu aðalanddyris var til vinstri komið að skrifstofu (skólastjóra), en úr henni skyldi gengt til íbúðar hans til dagstofu, borðstofu, og svefnherbergja. Hins vegar er eldhús ekki að finna þarna og því væntanlega gert ráð fyrir að þar nýttist eldhúsið í kjallaranum. Norðan við ganginn skyldu koma tvö gestaherbergi en athygli vekur að gert var ráð fyrir herbergi fyrir ráðsmann og sjúkrastofu. Sjúkrastofa kom sér án efa vel á mannmörgum og þéttsetnum stað. Hvort gert var ráð fyrir að ráðsmaður væri án fjölskyldu er óvíst en vel kom sér að hann byggi nálægt vinnufólki sínu sem átti rými á 2. og 3. hæð.

2. HÆÐ:

Á þessari hæð fór mest fyrir rými handa vinnufólki, skv. tillögu Einars. Þótt nemendur tækju nokkurn þátt í búverkum þurfti þó allstóran hóp vinnumanna og –kvenna til þess að mynda hinn fasta kjarna vinnuaflsins um ársins hring. Áætla má að 4-5 manns af hvoru kyni hafi verið meðalfjöldinn. Athygli vekur að tvö lítil herbergi eru ætluð 1. og 2. ráðskonu. Halldór skólastjóri bjó við hjúasæld, hafði bæði ráðskonu og rjómabústýru, sem lengi þjónuðu honum, þær Þorbjörg Björnsdóttir og Kristjana Jónatansdóttir.

Í vesturenda hæðarinnar er sýnilega gert ráð fyrir fjölskylduíbúð, sennilega kennarafjölskyldu, og annarri slíkri í austurhluta hæðarinnar.

ÞAKHÆÐ:

Einar húsameistari hefur ekki gert ráð fyrir miklum innréttingum þakhæðarinnar: Hún skyldi vera geymsluloft að meginhluta. Vinnumannaherbergi og geymsla í vesturenda og þar einnig rúmgott bað, líklega fyrir vinnufólkið.

Skorsteinar í byggingunni skyldu vera fjórir og þeim komið fyrir með samhverfum hætti. Tvær pípur lágu frá smjörgerðarherberginu í kjallaranum enda þörf mikillar kyndingar þar. Hennar skyldi einnig njóta sjúkrastofan á 1. hæð. Fimm vatnssalerni skyldu vera í byggingunni. Athygli nútímafólks vekur hve langt er frá rjómabúinu til næsta salernis sem og að íbúð í austurenda 2. hæðar fylgir ekki vatnssalerni.

Miðað við heimildir gætu á þessum tíma um 20-30 manns hafa verið í hópnum sem þarna skyldi eiga heimili. Auk þeirra voru svo gestir sem jafnan voru þar, einkum á sumrin.

21

Teikning Einars I. Erlendssonar varð ekki að raunveruleika heldur var hús byggt eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar húsameistara. Grunnflötur þess var mjög svipaður en hins vegar var það einni hæð lægra. Kjallarinn var útfærður með öðrum hætti og að hluta var hann á tveimur hæðum – undir vesturhluta byggingarinnar. Fyrstu hæðum beggja húsanna svipar saman utan hvað Guðjón kaus að hafa aðalanddyrið á vesturgafli. Féll það mun betur að ríkjandi vindáttum.

Kvistirnir þrír fengu breytt form hjá Guðjóni; sóttu meira af útliti sínu til Bessastaðastofu og Stjórnarráðshússins í Reykjavík. Þótt leikmanni þyki tillaga Einars I. Erlendssonar bæði mikilfengleg og svipsterk skal viðurkennt að líklega tók Guðjón öllu meira tillit til skólahúss Rögnvaldar Ólafssonar, næsta nágrannahúss sem fyrir var á staðnum. Verður ekki annað séð og sagt en að vel fari á með þeim tveimur, skólahúsi Rögnvaldar frá 1910 og skólastjórahúsi Guðjóns frá 1920.

Tillaga Einars var barn síns tíma. Hún var einkum sérstæð fyrir hina umfangsmiklu iðju sem mjólkurvinnslan á stórbýlinu Hvanneyri var á þeirri tíð og gera þurfti ráð fyrir í rými og skipulagi. Hún var líka, rétt eins og verk þeirra Rögnvaldar og Guðjóns, dæmi um athyglisverða nýbreytni í íslenskri húsagerðarlist frá fyrstu árum heimastjórnar.

„ÚNIVERSIГ

Þetta var um hugmyndavinnu og aðdraganda endurbyggingar staðarhússins á Hvanneyri í kjölfar brunans mikla 1917. Það reis og hefur nú náð heilli öld að aldri. Aldarsaga þess er efni í heila bók. Ég ætla þó að láta algeran stytting ráða, mest til þess að Skólastjórahúsið, eins og það er jafnan kallað, fái stað í Hvanneyrarpistlasafni mínu. Í ljósi hlutverka Hvanneyrarhúsa í tímans rás held ég að Skólastjórahúsið komist hvað næst Hvanneyrarhúsa að kallast „únivers“, sé hugsað til þeirrar mörkuðu veraldar sem þar hefur tilheyrt. Svo ótal mörgum og ólíkum hlutverkum hefur það gegnt.

Kjarnahlutverkið var lengst af að vera „stýrishús“ Bændaskólans á Hvanneyri. Lengst af var það aðeins eitt herbergi: Skrifstofa skólastjóra í vesturhorni á miðhæð byggingarinnar. Þar var hún sem hluti af íbúð skólastjóra og fjölskyldu hans. Vissulega var það rúmgóð og lengst af mjög vel búin íbúð en hún þjónaði einnig þeim hlutverkum að vera móttaka gesta skólans og viðhafnarstofa. Einnig fundastaður. Þar var tekið á móti hinum fjölmörgu gestum skólans og alin önn fyrir þeim. Á tímum hægari samgangna var gisting oftar en ekki

Skólastjórahúsið veturinn 1938; óþekktur fimleikari sýnir listir sínar (ljósm. Þórður Gíslason).

22

hluti gestamóttöku – eins konar hótelrekstur. Vitað er að þetta hlutverk húss og skólastjórahjóna var afar umfangsmikið. Umsjón landssímastöðvar og raunar pósthirða einnig var í verkahring skólastjóra. Skólastjórafjölskyldan bjó þannig, að segja má „um þjóðbraut þvera“. Það lét þeim flestum afar vel. Ekki þoldu allir þó álagið en það er önnur saga.

Fyrstu fimm árin var rjómabú skólans á neðstu hæð hússins eins og rakið er í öðrum pistli. Því hlutverki lauk þegar farið var að senda Hvanneyrarmjólk í Mjólkursamlagið í Borgarnesi. Leið þá brátt að því mötuneyti skólapilta væri flutt úr Skólahúsinu í rými rjómabúsins. Raunar var fyrsta hæðin öll lögð undir sameinað mötuneyti skólapilta og skólastjóra. Þar stóð mötuneytið árabilið 1939-1976. Vék þá einnig smíðastofa er verið hafði sambýlingur við rjómabúið.

Fljótlega að horfnu mötuneyti var bókasafni skólans búin herleg aðstaða þar á fyrstu hæðinni. Bókageymsla var gerð í hinu eiginlega kjallararými og all vandaðar skjalageymslur í rýmum þeim sem áður höfðu geymt mjölvöru, saltfisk og sláturmeti mötuneytis skólapilta. Í austurhorni var komið fyrir bókasafni Tómásar Helgasonar og Vigdísar Björnsdóttur er þau gáfu Hvanneyrarskóla á aldar afmæli hans 1989 – líklega besta búnaðarbókasafni landsins.

Kennarar bjuggu einnig með fjölskyldum sínum í Skólastjórahúsinu. Þröngt að vísu eins og flestir máttu sætta sig við. Á efstu hæð hússins voru vistarverur þeirra og annars starfsfólks. Mjög rúmkaðist um þegar kennarabústaðirnir tveir, Svíri og Tungutún, risu, árið 1939. Líklega hefur Magnús Óskarsson átt lengstan búsetualdur þarna á lofti Skólastjórahússins. Í meira en þriðjung aldar bjó hann þar á suðurloftinu, alltaf einn, enda færðu nemendur á sjöunda áratugnum honum skilirí hvar á stóð að „betri væri vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.“ Sóttu þeir tilvitnunina í Biblíuna – Orðskviðina 21:9.

Merkilegt er það tímabil í sögu Skólastjórahússins er starfsstúlkur skóla og mötuneytis bjuggu í herbergjum annarrar hæða. Var þá oft líflegt þar á slóðum er piltar gerðu sig þar heimakomna ýmist með eindregnum vilja stúlknanna eða ákafri andstöðu þeirra en sjaldan kæruleysi. Mest af því lét herra hússins, skólastjóri, óátalið þótt vitað væri að ekki væri umgangur alltaf hljóðlátur. Margt mættu veggir þessara herbergja segja gætu þeir mælt. Vitað er að í þeim hefur verið stofnað til margra farsælla hjónabanda – en líka einhverra sem skemur entust. Líka að þar voru líf kveikt er urðu gæfufólk.

Nöfn herbergjanna þar á loftinu segja eflaust sögur þótt huldar séu skrifaranum að mestu: Sjálfstæðishúsið, Eden, Paradís, Kleppur, Skessuhorn, Ausa. . .

En svo rak að því að skólastjóri flutti í eigið húsnæði. Það var seint á áttunda áratugnum. Skólastjórahúsinu var gert til góða. Þar var skrifstofum skólastjórnar komið fyrir í vesturenda fyrstu hæðar þar sem þær voru fram á fyrstu daga LbhÍ, og íbúð lagfærð í austurenda. Rektor LbhÍ bjó með fjölskyldu sinni í húsinu fyrstu (5) árin en kaus síðan að búa annars staðar. Má segja að þá hafi hlutverki þess sem Skólastjórahúss brátt lokið.

23

Úr grasgarðinum/skólagarðinum til Skólastjórahússins sumarið 2020.

Síðan tók að falla út. Það hljóðnaði heldur yfir Skólastjórahúsinu. Nú er þar aðeins teiknistofa byggingafræðings, íbúðir fárra, safníbúð skólans, og skjala- og bókageymsla, auk þess sem prestur sóknarinnar hefur þar starfsaðstöðu. Húsið er hins vegar það vel byggt á flestan máta að það getur gegnt ýmsum hlutverkum í framtíð.10

10 Skrifað 28. júlí 2014; lagfært og endurskoðað 8. maí 2022.

24

Grasgarðurinn

Stutt saga um Skólagarðinn – Frúargarðinn á Hvanneyri

Suðvestan við skólastjórahúsið á Hvanneyri, sem reist var árið 1920, er garður sem hin síðari ár hefur ýmist gengið undir nafninu Skólagarðurinn eða Frúargarðurinn. Eins og annað á hann sér nokkra sögu þótt heimildir um hana séu fremur slitróttar.

Þegar Sveinn Sveinsson hóf búnaðarskóla á Hvanneyri vorið 1889 varð honum hvað fyrst fyrir að reyna ræktun ýmissa jurta, þar á meðal matjurta, svo sem þá voru tilraunaefni forystumanna í garðyrkju og öðrum ræktunarumbótum. Fyrsta haustið skrifaði hann um árangurinn:

Matjurtagarðar voru hjer tveir fyrir, báðir til samans 250 (fer) faðmar á stærð; upp úr þeim fengust 25 tunnur af gulrófum, 4 tunnur af bortfelzkum rófum [næpum] og 4 tunnur af kartöflum. Rhabarber, ribs, píll og laukur, sem jeg gróðursetti í vor, spratt líka mjög vel; þannig komu fullþroskuð ber á sumt af ribstrjánum, og greinarnar á pílnum urðu sumar 1-¼ alin á hæð.11

Muna verður að á þessum árum hafði tíðarfar verið erfitt. Þá var varla komin til sú varsla lands sem nauðsynleg var til þess að stunda mætti umtalsverða matjurtarækt. Þótt Sveinn segði ástand húsa og jarðar á Hvanneyri vera í lakara lagi er hann tók við er þó athyglisvert að sjá að þar skyldu vera fyrir tveir matjurtagarðar. Það er hreint ekki útilokað að rætur þeirra hafi náð allt aftur til Mörtu Maríu amtmannsfrúar Stephensen í byrjun sömu aldar er bjó þá um tíma á Hvanneyri. Marta María varð fræg fyrir matargerð sína og matreiðslubók.12 Kann vel að vera að hún hafi átt sér dálítinn urtagarð á skjólgóðum stað þarna á þurrlendiskambinum, sem byggðin húkti á, í búskapartíð þeirra Stefáns, síðar amtmanns á Hvanneyri.13

Hér má koma því að að elstu skrúðgarðar í Borgarfirði eru taldir hafa verið gerðir árið 1898 og þá á Hvítárvöllum og í Ferjukoti. Ennfremur er talið að ræktun rifsberjarunna hafi oftar en ekki verið upphaf að gerð skrúðgarða.14 Hvort svo hefur orðið með rifsberjaræktun Sveins skólastjóra þekkjum við engar heimildir um.

Halldór Vilhjálmsson réðist til skólastjórnar á Hvanneyri vorið 1907. Hann var nýmenntaður í Danmörku og hafði fjölbreyttan áhuga á landbúnaði. Hann vildi meðal annars efla garðrækt, og þá ekki síst matjurtarækt. Fljótlega hóf hann að láta reisa skólahús það sem enn stendur (1910) og daglega er kallað Gamli skólinn. Halldór skrifaði í skólaskýrslu:

11 Ísafold 80. tbl. (1889), 318.

12 Marta María Stephensen 1800: Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur. Eftirprentun 2008. Í formála endurútgáfunnar er að vísu látið að því liggja að höfundur bókarinnar sé í raun mágur Mörtu Maríu, hann Magnús Stephensen.

13 Stefán er sagður hafa búið á Hvanneyri árin 1793-1811 (Hvanneyrarskólinn 50 ára (1939), 25), en Marta María lést árið 1805 (Ísl. æviskrár IV, 336).

14 Einar Helgason, í Garðyrkjuritinu 1924, eftir Magnúsi Óskarssyni í bókinni Byggðir Borgarfjarðar I, (1998), 486.

25

Um leið og eg ákvað legu nýja skólahússins, mældi eg fyrir garðstæði og legu hins fyrirhugaða leikfimishúss. . . Vildi eg mynda garð úr þessum ferhyrning, sem myndaðist á milli húsanna, og planta í hann trjám og blómum15

Sumarið 1911 var steyptur veggur um blómagarðinn, eins og hann var þá kallaður, og taldist garðurinn vera hálf dagslátta að stærð. Með þessum gerðum varð til miðsvæði sem hús Bændaskólans hverfðust um og hefur einkennt umhverfið þarna allt til þessa dags. Hvort danskar stórbýlafyrirmyndir hafa mótað skipulagsákvörðun Halldórs skal ósagt látið.

Garðurinn skyldi gegn þríþættu hlutverki: Hann átti að vera matjurtagarður, fyrir jurtir sem illa þrífast á bersvæði. Hann átti að vera grasgarður með helstu fóðurjurtum og loks skyldi hann vera trjágarður. Það var svo sumarið 1913 sem dr. Helgi Jónsson grasafræðingur safnaði grösum og blómjurtum í reitinn sem kallaður var Grasgarður. Sýnilega var þá verið að styrkja hlutverk garðsins gagnvart kennslu – að nemendur lærðu að þekkja helstu jurtir: á þetta að verða nemendum skólans til hægðarauka, að læra að þekkja jurtirnar, sérstaklega þeim, sem eru hér að sumrinu við verklegt nám og heyskap, skrifaði Halldór ennfremur í áðurnefndri skólaskýrslu. Með grasgarðinum var verið að hrinda í framkvæmd ákvæði reglugerðar frá 1908 um að koma skyldi upp gróðrarstöð við skólann.

Ljósmynd frá öðrum áratug aldarinnar sýnir hvar gangstígar liggja um garðinn í mjúkum línum og þétt er plantað fjölbreyttum gróðri í fleti á milli þeirra. Benda þær til þess að grunnskipulag garðsins hafi tekið mið af þeirri tísku sem þá réði og sjá mátti t.d. í skipulagi garðsins Skrúðs á Núpi við Dýrafjörð. Sennilega hefur trjám einnig verið plantað í garðinn þegar á þessum fyrstu árum. Mig minnir nemanda geta þess í dagbók sinni að sóttar hafi verið trjáplöntur í Grundarskóg í Skorradal.

Halldór Vilhjálmsson lagði mikla herslu á matjurtarækt og hvatti til hennar, taldi hana bæði spara matarkaup sem og verða til þess að bæta mataræði fólks. Óljósar heimildir eru um Grasgarðinn á Hvanneyri frá öðrum áratug aldarinnar og fram til ársins 1937. Þó má ráða af líkum að hann hafi orðið fyrir áfalli þegar skólahúsið á Hvanneyri brann haustið 1917; að þá hafi aska, brak og átroðningur leikið garðinn grátt sem og hreinsunar- og uppbyggingarstarf við nýtt skólahús þremur árum seinna. Garðurinn var þó endurgerður án sýnisreits.16 Þær fáu ljósmyndir sem til eru frá árunum um og eftir 1930 og sýna garðinn benda til þess að þar hafi ekki margt verið utan gras og einhverjar trjáplöntur. Þannig minnist Tómás Helgason frá Hnífsdal, er í skólann kom haustið 1937, trjáa sem stóðu þétt upp við vegg skólastjórahússins og höfðu orðið fyrir snjó og öðru er fallið hafði ofan af þaki hússins.17

Það mun svo hafa verið haustið 1937 að til Hvanneyrar kom Lilja Sigurðardóttir frá Víðivöllum í Blönduhlíð. Fylgdi hún fóstursyni sínum, Friðjóni Hjörleifssyni, til náms á

15 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 86.

16 Magnús Óskarsson: Í Byggðir Borgarfjarðar I (1998), 486.

17 Tómás Helgason frá Hnífsdal í samtali við BG 24. júlí 2010.

26

Hvanneyri og hugðist vinna fyrir honum og aðstoða hann við nám sitt eins og hún mun hafa gert við dvöl hans á Héraðsskólanum að Núpi nokkru fyrr. Lilja, sem var óvenjuleg kona um frumkvæði, dugnað og hugmyndaflug, hafði m.a. menntað sig í hjúkrun, garðyrkju og til kennslu. Hún hafði einnig dvalið í Danmörku.18 Lilja gerði merkan garð heima á Víðivöllum – og reisti síðan nýbýlið Ásgarð þar í landi, með Biðlund og Brúsalund til hvorrar handar hins merkilega hliðs að bænum sem enn má sjá við þjóðveginn þar um Blönduhlíð. Lilja hélt garðyrkjunámskeið og fór um nærsveitir sínar til garðykjukennslu – ráðunautur og var brautryðjandi skógræktar í Skagafirði. Lilja stóð fyrir Skagfirðingabúð á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930: veitingum og skreytingum í stóru tjaldi. Það tjald var svo reist og notað á Hvanneyri á 50 ára afmælisafmælishátíð skólans 24. júní 1939 en þar var Lilja einnig, ásamt systrum sínum tveimur, er önnuðust kaffiveitingar. Lilja lét pilta sækja lyng til þess að skreyta súlur tjaldbúðarinnar með, sagði Tómás Helgason.19

Frá Hvanneyri á 50 ára afmælishátíð skólans árið 1939. Skólahúsin fánum prýdd. Skagfirðingabúð ber undir Svíra lengst til hægri. Gróðurhús sunnan undir Leikfimihúsinu (ljósm. T. Gravem).

Runólfur Sveinsson var um þessar mundir nýtekinn við skólastjórn á Hvanneyri. Hann fól Lilju að umbreyta garðinum, líklega sem hluta af umbótum vegna 50 ára afmælis skólans vorið 1939. Undir kunnáttusamlegri stjórn Lilju fékk garðurinn það meginform sem hann hefur nú. Þá virðist garðurinn hafa orðið skrúðgarður. „Í blómagarðinum var jafnan unnið, gróðursett tré og blóm, en mest og best var hann skipulagður af Lilju Sigurðardóttur frá Víðivöllum í Skagafirði“ . . . skrifaði Guðmundur Jónsson, síðar skólastjóri á Hvanneyri.20 Vorið 1939 segist Gunnar á Hjarðarfelli Guðbjartsson hafa unnið í garðinum í vikutíma í verknámi undir stjórn Lilju: „Grjót í hleðslu hringsins í miðjum garðinum var sótt upp í ás, neðan við Litla-Skarð í Stafholtstungum“. Gunnar segir að garðurinn hafi þá verið „lagfærður og plantað í hann trjáplöntum“.21

Eitt var það sem gert var í garðinum vorið 1939. Þá skyldi komið fyrir styttu af Halldóri Vilhjálmssyni áður skólastjóra. Tómás Helgason og skólafélagi hans, Örnólfur Örnólfsson, fengu það hlutverk að púkka undir stall er steyptur var undir undir styttuna er afhjúpa skyldi á afmælishátíðinni. Styttan kom með skipi erlendis frá og átti að landa henni í Stykkishólmi

18 Kolbrún Finnsdóttir: „Liljan í Ásgarði“. Skógræktarritið 2004 (2), 9-13.

19 Í samtali við Tómás Helgason frá Hnífsdal 24. júlí 2010. Tómás sagði Lilju einnig hafa verið með son sinn í skóla á Núpi. Sagt var, sagði Tómás eftir nokkra þögn, að hún hefði lesið allt fyrir hann. Hann lauk ekki prófi á Hvanneyri en nam þar veturna 1937-39. Lilja hugðist fylgja honum til Danmerkur og til frekara náms þar. Heimsstyrjöldin skaut loku fyrir þá ætlan. Friðjón var sonur Hjörleifs á Gilsbakka í Skagafirði; móðir hans dó við fæðingu hans og hann vóg þá aðeins sjö merkur. Lilja tók hann með sér og hjúkraði til lífs; ól síðan önn fyrir honum. Þau fósturmæðginin deildu herbergi á Hvanneyri.

20 Guðmundur Jónsson: Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára (1979), 174.

21 Gunnar Guðbjartsson o.fl.: Gunnar á Hjarðarfelli (1997), 96.

27

ef væri ofarlega í farmi og þangað skyldi hún sótt. Styttan var neðarlega í farminum svo það tókst ekki. Afhjúpunin varð því að bíða þar til við skólasetningu um haustið.

Lilja kenndi nemendum Bændaskólans einnig garðyrkju og var það liður í verknámi þeirra vorin sem Lilja bjó á Hvanneyri, sagði Tómás frá Hnífsdal. Garðurinn var vettvangur kennslunnar. Þannig eiga löngu horfnir nemendur Hvanneyrarskóla sinn þátt í tilvist garðsins.

Ljósmyndir frá fimmta áratug aldarinnar bera með sér að garðurinn varð staðarprýði í höndum Lilju, sem mest mun hafa unnið að honum árin 1937-1939. Áður er nefnd hin grjóthlaðna skeifa, hringurinn, sem Gunnar á Hjarðarfelli nefnir svo, en þar voru margar ljósmyndir teknar í áranna rás. Gosbrunnur var settur í garðinn og um garðinn lagðir gangstígar eftir beinum línum. Líklega hefur þá verið plantað því sem seinna varð að trjágöngum reynitrjáa og mörkuðu gangbraut frá Leikfimisal upp að skólastjórahúsi. Eiga ýmsir skólapiltar minningar um það er þeir leiddu Varmalandsnámsmey um göngin er marsérað var tignarlega við söng úr Leikfimisalnum til samsætis inni í borðsal skólans.

Belti ribsrunna var þvert um garðinn vestanverðan sem eftirsóttir voru. Á tímum Ragnhildar Ólafsdóttur sem húsfreyju lagði hún sig fram um að verja runnana og að nýta uppskeru þeirra. Annars var fátt matarkyns ræktað í garðinum er á þann tíma var komið en þeim mun meira af ýmsum fjölærum blómplöntum til skrauts og yndisauka.

Á sjötta og sjöunda áratugnum voru lagfæringar í garðinum fastur liður í verknámi nemenda á Hvanneyri hvert vor. Þá leiðbeindi Benedikt Guðlaugsson garðyrkjumaður frá Víðigerði í Reykholtsdal nemendum og stjórnaði verkum. Þá voru stungin beð, blómum og öðrum nýgróðri plantað auk þess sem leifar gróðurspjalla eftir veturinn voru fjarlægðar. Meðal annars man ég sem nemandi vorið 1962 eftir töluverðri vinnu í hinu svokallaða verknámi okkar skólafélaganna við að „hvítta“ lábarða steinana sem síðan var raðað á ný meðfram gangstígum garðsins. Þessi skipan garðhirðingar í vorverknámi nemenda Bændaskólans var á höfð líklega fram undir árið 1965 að sérstakt verknám við skólann að vori var lagt af.

28
Garðurinn á Hvanneyri, líklega á fimmta áratugnum; fólkið stendur í skeifunni sem í textanum er nefnd (ljósm. Árni G. Eylands)

Hirða garðsins fylgdi á þessum árum að öðru leyti ekki mjög öguðu skipulagi. Þannig minnir mig að sumarið 1969 hafi 25 ára búfræðingar heimsótt skólann til þess að fagna afmæli sínu. Höfðu þeir meðferðis allmargar greniplöntur sem gjöf til skólans. Óvíða var þá á staðnum sérstaklega afgirtur reitur til skógræktar. Varð skólastjóra þá fyrir að láta nemendurna stinga plöntunum niður í beðhorn og grasflatar- í vesturhluta garðsins. Fæstar af þeim náðu þroska í suðvestan-sviðrandanum þar.

Í garðinn komu styttur skólastjóranna ein af annarri. Áður er getið styttu af Halldóri Vilhjálmssyni. Stytta af Hirti Snorrasyni kom áratug á eftir henni, afhjúpuð af forgöngumanni framtaksins, Jörundi Brynjólfssyni, bónda og alþingismanni. Því næst mun hafa komið styttan af Runólfi Sveinssyni sömu gerðar og sú sem afhjúpuð var í Gunnarsholti og stendur þar enn. Vorið 1968 var afhjúpuð stytta af fyrsta skólastjóranum, Sveini Sveinssyni, við brautskráningu búfræðikandídata.22 Mig minnir að þá hafi röð styttanna verið endurgerð og Runólfur færður neðst í hana þannig að aldursröð væri að nokkru virt. Styttan af Guðmundi Jónssyni kom svo sumarið 1999 og var sett framan við hinar fjórar sem fyrir voru.

Og úr því að nefndur er Guðmundur skólastjóri er rétt að geta þess að hann hafði mikinn hug á því að endurverkja grasgarð skólans. Hann fól m.a. Magnúsi Óskarssyni nýráðnum að skólanum árið 1955 það sem fyrsta verkefni að safna fóðurjurtum og öðrum íslenskum plöntum í slíkan grasgarð. Ekki tókst að vinna það verk til enda.23

Laust upp úr 1960 var vestast í garðinum, á flötinni undir gluggum kennslustofa Gamla skólans, komið fyrir stórum bekk undir hartnær 60 Mitscherlich-potta. Voru það sérstakir pottar til nákvæmnisrannsókna á jarðvegi og gróðri, svo sem á útskolun og nýtingu næringarefna jarðvegsins. Voru anstölt þessi á vegum Tilraunastöðvarinnar á Hvanneyri og undir stjórn Magnúsar Óskarssonar tilraunastjóra. Aðstaða þessi var notuð um árabil. Til Hvanneyrar komu pottarnir frá Búnaðardeild Atvinnudeildar HÍ um Tilraunastöðina á Sámsstöðum þar sem þeir höfðu ekki komist í notkun. Magnús telur að pottana hafi Guðmundur skólastjóri fengið í tengslum við þann mikla áhuga sem hann hafði á því að koma upp „lysimeter“ við skólann en það er búnaður til nákvæmnisrannsókna á vatns- og efnajafnvægi jarðvegs.24

Fram undir 1980 var skólagarðinum lítið sinnt sérstaklega, svo ég muni. Þó var hann þrifinn á hverju vori og reynt eftir megni að hirða hann sumarlangt með slætti og hreinsun illgresis. Á einhverju haustanna eftir 1980 gerði stórvirði á ófreðna jörð svo reynitrén í garðinum gáfu sig mörg; rætur losnuðu og sum trjánna féllu eða varð að fella þau. Kveikti það þörf fyrir umbætur í garðinum sem gerðar voru 1996, m.a. með ráðgjöf Auðar Sveinsdóttur

22 Tómás Helgason kveðst hafa haldið útvarpserindi um Svein Sveinsson, sem hann nefndi Fyrsta búfræðinginn. Eftir útsendingu þáttarins hafði Ólafur, sonur Sveins, samband við Tómás og tjáði honum hug sinn til þess að minnast föður síns. Mun hann hafa haft forgöngu um að Ríkarður Jónsson gerði brjóstmynd af Sveini. Mér finnst eins og landbúnaðarráðuneytið, sem þá laut stjórn Ingólfs á Hellu, hafi átt hlut að verkinu, víst með afkomendum Sveins. Kassi með brjóstmyndinni var góða stund úti á kennsluverkstæði skólans sumarið 1966 eða 7, merktur ráðuneytinu, ef mig misminnir ekki. Frumgerð myndarinnar hvílir nú í kassa uppi á lofti Halldórsfjóss.

Sjá pistil um Magnús Óskarsson hér síðar í ritinu.

http://en.wikipedia.org/wiki/Lysimeter

29
23
24

landslagsarkitekts. Skipulagi garðsins var í engu breytt en margt lagfært og endurgert, meðal annars grjóthlaðna skeifan sem áður var nefnd. Þó var skipt um grjót í henni, fengnir hleðsluvænni steinar en fyrir voru. Í garðinum skyldi vera safn skrautjurta sem algengar voru í skrúðgörðum á fyrri hluta 20. aldar.25 Með slætti og reglulegri hirðingu, síðustu árin undir stjórn Kára Aðalsteinssonar garðyrkjustjóra LbhÍ, tókst að halda garðinum snotrum svo gott var að ganga þangað með gesti skólans þegar saga hans og starf fyrr og síðar var kynnt. Nú bíður þar töluvert umbótaverk.

En þá er það þetta með nafnið Grasgarður – Skólagaður – Frúargarður. Sennilega hefur nafnið Grasgarður ekki náð að festast við reitinn og því fljótlega horfið úr daglegu tali. Skólagarður er líklega það nafn sem flestir hafa notað og lengst af hefur fylgt garðinum. Frúargarður hefur þá skírskotun að garðurinn var heimilisgarður skólastjórafjölskyldunnar. Á tímum Ragnhildar Ólafsdóttur, konu Guðmundar Jónssonar, notaði hún garðinn oft til útiveru, svo sem sólbaða, með fólki sínu og gestum. Var þá ekki alltaf vel séð að vandalaust fólk væri þar á rápi eða að glápi. Það var heldur ekki vel séð að starfsfólk búsins flykktist þangað í hádegishléum til sólbaða eða ærsla en Ragnhildur lét sér annt um að garðurinn væri eftir hætti þokkalega um genginn. Lá þá beint við að kenna garðinn við þá sem þar réði ríkjum og kalla hann Frúargarðinn. Hefur nafnið orðið furðu lífseigt í ljósi þess að frúr síðari skólastjóra hafa ekki sérstaklega haslað sér völl á þessari hálfu dagsláttu sem í öndverðu var afmörkuð sem garður til yndis, fræðslu og annarra nytja. Þótt það liggi utan veggja Skólagarðsins má hér nefna framtak sem líklega skrifast á reikning Hauks Jörundarsonar (Brynjólfssonar, sem fyrr var nefndur) kennara. Hann var áhugasamur um skógrækt. Um tíma var hann formaður Skógræktarfélags Borgarfjarðar, gott ef ekki sá fyrsti. Þá mun hafa verið komið á fót eins konar gróðrarstöð fyrir trjáplöntur á Hvanneyri. Í tengslum við þetta starf var síðan plantað í lægðina við Tungutúnslækinn, einkum norðanvert við lækinn, með það í huga að þar yxi upp dálítill skógur. Ljósmyndir frá því um 1950 sýna að trjágróður þessi komst nokkuð af stað. Á þeim árum voru skiptar skoðanir um skógrækt. Það tókst misjafnlega að vernda þennan ungskóg fyrir ágangi og svo fór að hann komst aldrei á legg. Nokkrar reynihríslur í kröm norðvestan undir Ásgarðshólnum, sem lifað hafa til skamms tíma, vitna þó enn um framtakið sem og vöxtuleg grenitrén í Tungutúnsgarði en þar bjó Haukur með fjölskyldu sinni. Synd er að þessi gróður skyldi ekki fá að dafna eins og til var ætlast en tilraunin og útfall hennar lýsa viðhorfum og andblæ tímanna sem í dag er ekki auðvelt að setja sig sem dómara yfir.26

Magnús Óskarsson:

30
25
Í Byggðir Borgarfjarðar I (1998), 486. 26 Tekið saman 2. júlí 2010; endurskoðað 1. des. 2020.

Leikfimisalurinn

Þættir úr aldarsögu 1911-2011

I.

Í upphafi síðustu aldar var leikfimi- og íþróttakennsla fátíð í íslenskum skólum. Þegar Halldór Vilhjálmsson kom til skólastjórnar á Hvanneyri árið 1907 hóf hann strax að kenna leikfimi. Halldór hafði sjálfur sem ungur maður verið hneigður til íþrótta, og í námi sínu í Danmörku, einkum þó við Lýðháskólann í Askov, hafði hann kynnst þeirri herslu sem um þær mundir var lögð á líkamsmennt ungmenna samhliða bóklegri menntun. Var það einn þáttur hinnar þekktu skólastefnu, sem kennd hefur verið við danska prestinn Nikolaj Grundtvig. Fyrstu árin kenndi Halldór leikfimi við næsta frumstæðar aðstæður, m.a. á lofti Skemmunnar, sem nú hefur verið endursmíðuð sem safnaðarheimili.

Í hugmyndum sínum um bændaskóla og menntun sem Halldór kynnti í bréfi árið 1905, kom glöggt fram hve hann hafði hrifist af lýðháskólahreyfingunni dönsku og kenningu gamla Grundtvigs. Þar nefndi Halldór m.a. leikfimina. Hann mótaði strax hugmyndir sínar um skólabyggingar á Hvanneyri. Leikfimihús var ein þeirra og hluti húsaþyrpingarinnar er lykjast skyldi um grasgarð skólans. Láttu þingmenn vita að byggja þurfi leikfimishús og skólahús á Hvanneyri, skrifaði Halldór í bréfinu, sem var til frænda hans, sr. Þórhalls í Laufási, síðar biskups.

Í þorralokin 1911 skrifaði Halldór Alþingi bréf og bað um 4.000 krónur til þess að koma upp leikfimihúsi við Bændaskólann. Einar I. Erlendsson, síðar húsameistari ríkisins, hafði þá gert uppdrátt að húsinu, og áætlað að það mundi kosta 6.000 krónur. Af þeim töldust 2.000 krónur vera til í nothæfu afgangsefni frá skólahúss-byggingunni á Hvanneyri árið áður:

Um þörf leikfimishússins þarf jeg auðvitað ekki að ræða, skrifaði Halldór. En bætt get jeg því við, hve mikil bót það væri fyrir skólann að eignast stóran fyrirlestrasal við bændanámskeiðin og önnur fyrirlestrahöld. Kom það ljóslega fram við hið fjölsótta námskeið nú í vetur . . .

Engin ríkisfjárveiting fékkst til byggingarinnar. Halldór skólastjóri fylgdi málinu hins vegar fast eftir og mun sjálfur hafa snarað út úr eigin vasa drjúgum hluta byggingarkostnaðarins. Allavega reis Leikfimihúsið sumarið 1911, og Halldór skrifaði í skólaskýrslu:

Ekkert hefir verið þráð eins mikið hér við skólann og leikfimishús, og líklega af því, að ekkert hefir verið eins örðugt við að fást og óvíst hvort fengist. En nú er það þó komið: 36a x 13a, en þar af eru 6 álna breiðir skúrar við hvorn enda . . . Gluggar eru stórir á suðurhlið, ná þeir alveg niður að gólfi. Er það gert til þess að sólin skíni á gólfið og sótthreinsi það.

31

Húsið var og er járnklætt timburhús á steinlímdum grunni, sennilega kynt með einum ofni og þá örugglega með mó og kolum fyrstu árin.

Á þessum tíma höfðu verið reist sérstök leikfimihús við Menntaskólann í Reykjavík, Möðruvallaskóla og við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Leikfimihúsið hér á Hvanneyri er hins vegar eitt elsta leikfimihús á landinu sem í dag er notað til íþróttakennslu.

II. Leikfimisalurinn hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar á aldarinnar rás. Þannig benda ljósmyndir frá fyrstu dögum hans til þess að salurinn hafi verið panilklæddur að innan, bæði veggir og loft þar sem sást í sperrur. Á bak við klæðinguna hér á suðurveggnum eru gluggar sem ná allt niður að gólfi, en hlutverk þeirra var, eins og fyrr sagði, að hleypa inn sólarljósi er sótthreinsaði gólfið.

Bíður töluvert verk að færa húsið að þessum hlutum til upprunalegs horfs. Þá hefur kyndingarháttum að sjálfsögðu verið breytt. Lengi vel mun leikfimisalurinn hafa verið óupphitaður. Baðaðstaðan í austurenda leikfimihússins var lengi frumstæð. Um árabil var aðeins um kalt vatn að ræða í húsinu. En menn voru hraustir og gerðu sér ekki rellu út af því. Komið var upp gufubaði sem þótti mikið þing og var mikið notað.

Mig minnir að það hafi verið um miðjan sjöunda áratuginn að töluverð umræða varð um baðaðstöðuna. Nemendum þótti hún úr hófi takmörkuð og kröfðust úrbóta á henni. Skólayfirvöld réðust þá í það að bæta aðstöðuna. Varð það fréttnæmt, er frá leið, að hún hafði verið tvöfölduð: Í stað einnar sturtu á rörenda hafði þar verið sett T-rör, og þá með tveimur sturtuhausum. – En þannig verða nú framfarirnar, að bætt er úr frá degi til dags í samræmi við þarfir og getu.

Leikfimihúsið átti eftir að reynast mjög notadrjúgt Bændaskólanum og nágrenni hans. Leikfimi var kennd þar daglega. Á þessum árum var kennt í 6 tíma á dag og var síðasti tíminn alltaf leikfimi. Þar var líka kennd og iðkuð glíma.

Leikfimishúsið kom sér vel fyrir Bændaskólann við hin fjölsóttu bændanámskeið, sem flest voru haldin á árunum 1911-1918. Þau voru stórmerkilegur þáttur í skólastarfi hér á Hvanneyri og í menningarlífi héraðsins. Þar voru tekin til meðferðar fjölbreytt viðfangsefni, bæði um landbúnað og önnur þjóðþrifamál. Gestir skiptu tugum, og jafnvel hundruðum, þegar mest var. Upp úr námskeiðinu veturinn 1912 spratt t.d. stofnun Ungmennasambands Borgarfjarðar, og veturinn 1928 var á námskeiði rætt um héraðsskóla og hafin fjársöfnun til þess að efla hann í Reykholti.

Á fyrstu árum síðustu aldar störfuðu þrír skólar í Andakílshreppi og voru mikil samskipti á milli þeirra: Bændaskólans á Hvanneyri, Mjólkurskólans á Hvítárvöllum og Alþýðuskólans á Hvítárbakka. Rúmbesti samkomusalurinn til sameiginlegra skemmtana var Leikfimihúsið.

32

Þar var því oft fjörugt. Þótt húsið hafi ekki verið nema tæpir 190 fermetrar að grunnfleti var það . . . „um langt árabil stærsta samkomuhús í Borgarfirði“, skrifaði Guðmundur Jónsson.27

III.

Húsmæðraskóli Borgfirðinga að Varmalandi hóf starf árið 1946. Strax var tekið upp samstarf á milli skólanna tveggja. Skemmtanir Hvanneyringa og Varmalandsmeyja eru sérstakur kafli í ævisögu Leikfimihússins, allt fram til ársins 1976, að mig minnir, en þá voru þær færðar í nýjan matsal Bændaskólans. Vetur hvern voru gagnkvæm boð skólanna. Varmalandsmeyjar voru boðnar til árshátíðar Bændaskólans, sem lengi vel var haldin 30. nóvember („1.des. hátíðin“) sem þær endurguldu með árshátíðarboði á útmánuðum. Stundum var líka efnt til dansæfinga þar á milli. Árshátíðir Hvanneyringa í Leikfimisalnum hófust með skemmtiatriðum nemenda en síðan var tekið til við dans. Á einhverju stigi var liðið parað saman, oftast með því að fyrirfram hafði verið raðað saman nöfnum Hvanneyrings og Varmalandsmeyjar. En fleiri aðferðum var líka beitt. Síðan var marserað virðulega, fyrst nokkra hringi í salnum en síðan út í myrkrið og um reyniviðargöngin í Skólagarðinum og inn í borðsal þar sem sest var að veitingum. Þar bar hverjum herra að annast sína dömu í samræmi við ríkjandi mannasiði.

Leikfimisalurinn hefur aldrei verið mjög vel búinn ljósum og síst var við þau aukið á þessum skemmtunum skólanna. Gladdi það marga, ekki síst þá uppburðarminni, þegar leið á dansleikinn, og þótti mjög auka á hina rómantísku stemningu í leikfimisalnum. Guðmundur skólastjóri hafði litlar áhyggjur af hinu skuggum vafða umhverfi, en sama varð ekki sagt um a.m.k. Steinunni skólastýru Ingimundardóttur. Hún sagði að hinir fallegu kjólar stúlknanna yrðu að fá að njóta sín í birtu; vildi því fá aukið ljósmagn. En Guðmundur skólastjóri bauð henni og öðrum kennurum skólanna þá í kaffisopa í skólastjóraíbúðinni á meðan unga fólkið dansaði sem ákafast og ótruflað í salnum.

Tvennt má þá nefna dansinum tengt:

Annars vegar það að þegar leið á ævi hússins tók að gæta vaxandi mýktar burðarbita gólfs þess, einkum þegar margmenni safnaðist í salinn. Fór mýktin þó mjög eftir takti þeirrar danstónlistar sem leikin var hverju sinni. Sjálfur minnist ég þess þegar danstegundin jenka reið yfir á árunum í kringum 1965 að mjög reyndi á gólfið. Þegar tugir dansenda náðu samstilltum jenka-takti gætti verulegrar hviku gólfsins. Jenka féll úr móð, kannski sem betur fór, og gólfbitarnir hafa því dugað allt til þessa.

Það fór heldur ekki hjá því þegar æskufólk úr skólunum tveimur kom hér saman að neistar kviknuðu með einhverjum. Sumir urðu bara að saklausum skotum, sem nú er minnst með ljúfsárum trega, – eða með öllu gleymd. Aðrir urðu að föstum samböndum er báru ávöxt, sem nú má sjá í myndarlegum stórfjölskyldum víða um land. Vitað er að ærinn fjöldi ágætra

27 Guðmundur Jónsson: Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára (1979), 171.

33

hjónabanda rekur upphaf sitt til þessa húss. Húsið gæti því sagt marga sögu þar um, mættu veggir þess mæla. En þögn veggjanna er hluti af hinu sögulega verðmæti þeirra . . .

IV.

Halldór Vilhjálmsson skólastjóri var einhleypur er hann kom til skólastjórnar árið 1907. Árið 1911 kvæntist hann frændkonu sinni, Svövu Þórhallsdóttur, sem þar með varð skólastjórafrú á Hvanneyri. Svava var afar vel menntuð kona og þjálfuð á sviði félagsmála. Á Hvanneyri, og þá líklega í Leikfimissalnum nýjum hóf hún að segja nemendum Bændaskólans og heimafólki til í dönsum sem kallaðir voru þjóðdansar. Svava hafði dvalist á Lýðháskólanum að Nesi í Svíþjóð og kynnst þjóðdönsum þar. Hún starfaði í Umf. Iðunn í Reykjavík og hafði kennt þjóðdansa þar áður en hún kom að Hvanneyri. Þjóðdansarnir þótt hvað mesta tilbreytingin í skemmtanalífi þessara tíma. Ingimar Jóhannesson, sem var nemandi hér á Hvanneyri (1911-1913), skrifaði m.a.:

Þjóðdansar þessir þóttu sjálfsagt skemmtiatriði á öllum samkomum Hvanneyringa, stórum og smáum, enda þótt við værum margir hinir mestu dansarar og margar fallegar stúlkur voru á samkomum hjá okkur frá Hvítárvalla- og Hvítárbakkaskólunum, að ógleymdum ljóshærðu blómarósunum úr dölum Borgarfjarðar. En því segi ég þetta hér að ég minnist hrifningar okkar á dansleikjum, þegar okkur tókst að fá skólastjórahjónin til þess að „færa upp“ mars fyrir okkur.28

Dansmenntin í Leikfimisalnum hér á Hvanneyri breiddist án efa út um landið með nemendum skólans. Ég hef til dæmis grun um að danshættir fyrrum nágranna minna í Mýrahreppi við Dýrafjörð – m.a. sérstæð marsahefð, kunni að rekja sig allt aftur til óvenju margra sveitunga þaðan sem dvöldu í Hvanneyrarskóla á öðrum áratug síðustu aldar.

Leikfimisýning skólapilta á Hvanneyri í salnum, líklega á árunum 1923-1925 (óþekktur ljósmyndari).

28 Ingimar H. Jóhannesson í Morgunblaðinu 30. janúar 1979.

34

Í gögnum Ungmennafélagsins Íslendingur, sem stofnað var árið 1911, kemur allvíða fram að eftir fundi, sem gjarnan voru haldnir í annarri kennslustofu skólans, hafi verið haldið út í leikfimisal og dansað um stund. Sama virðist heimilisfólk skólans hafa gert, t.d. á sumarsunnudögum.29

V.

Hér verður ekki reynt að telja upp allt það sem farið hefur fram í þessu aldargamla leikfimihúsi. Þar kemur til íþróttakennsla og íþróttaþjálfun, fjölmenn bændanámskeið, skólaskemmtanir, brautskráning nemenda, leiksýningar, samkomur, markaðir, og nú síðustu tvo áratugina nýársnætursamkomur staðarbúa.

Vetrarsamkomur hér í húsinu á fyrri hluta síðustu aldar eru ýmsum hugstæðar: Til skamms tíma hafa verið meðal okkar hér í Borgarfirði rosknar konur, sem með gleðibragði á yfirborði dulins trega minntust vetrarsamkomanna, sem haldnar voru í salnum, þar sem þær ræktu hlutverk hinnar svokölluðu „Vetrarhjálpar.“ Hér voru nefnilega eingöngu piltar við nám. Því þurfti að leita út fyrir skólann eftir stúlkum. Reyndist það ekki vandasamt því óvíða á landinu voru saman komnir jafn fjallmyndarlegir menn og hér á Hvanneyri á þessum árum.

Fyrir mörgum árum lýsti heimamaður líka fyrir mér söngskemmtun MA-kvartettsins hér í salnum. Fjölmennið var slíkt að drepið var í hvert skot enda þar á ferð vinsælustu poppsöngvarar þeirra tíðar.30 Fyrrum húsmóðir á staðnum minntist sérstaklega hinna svokölluðu Húskarlaskemmtana hér í salnum. Húskarlar á Hvanneyri stóðu fyrir henni um árabil; Þar var haldið uppi skemmtun og leikum. Þóttu þær mikil og góð tilbreyting.

Landsfrægt var Landsmót UMFÍ hér á Hvanneyri sumarið 1943. Það var ekki síst rúmgott húsnæði sem réði staðarvalinu. Í skýrslu um mótið er m.a. sagt að 3-400 manns hafi verið á kvöldskemmtun í fimleikahúsinu troðfullu.

Vafalaust minnast ýmsir hinnar einstæðu sýningar, þegar Benedikt Erlingsson og Halldóra Geirharðsdóttir fluttu sögu Gunnlaugs Ormstungu hér í salnum fyrir mörgum árum. Og þannig má lengi telja.

VI.

Leikfimihúsið hefur síðustu öldina átt stóran þátt í félagslífi Hvanneyrarskóla og byggðarlagsins. Það, sem þetta hús hefur horft upp á, er ærið margt:

Það hefur heilsað meira en eitt hundrað kynslóðum Hvanneyringa. Það hefur séð lýðveldi verða til Það hefur upplifað það að rafmagn og jarðhiti leystu steinolíu, mó og kol af hólmi til ljósa og hitunar.

29 Frá ungmennafélaginu segir í riti BG: Ungmennastarf um aldarskeið. Ungmennafélagið Íslendingur 1911-2011.

30 Eygló Gísladóttir frá Hvanneyri staðfesti þetta í samtali við BG 31. júlí 2011.

35

Frá afmælishátíð Hvanneyrarskóla árið 1939 (ljósm. T. Gravem).

Það hefur mátt þola nær allar tegundir danstónlistar, allt frá vikivaka og norrænum forndönsum um rokk og tvist, til danshátta nútímans. Gólffjalir þess hafa slitnað undan berum iljum, ullarsokkum og sauðskinnskóm, leðurstígvélum og gerviefnasólum. Leikfimihúsið hefur séð Hvanneyri breytast úr einangruðu en fjölmennu stórbýli til háskólaþorps í alfaraleið . . .

Og í lokin getum við spurt okkur að því, hvaða breytingar á Leikfimihúsið eftir að upplifa og hvaða hlutverki á það eftir að gegna fyrir umhverfi sitt? Ef við hugsum hlýlega til hússins, verndum það og verjum mun það að sínu leyti geta orðið vettvangur félagslífs og annars menningarstarfs í byggðarlaginu önnur eitt hundrað ár hið minnsta.31

31 Tekið saman í júlí-september 2011 og flutt á 100 ára afmælishátíð hússins 29. september 2011; lagfært 3. desember 2020.

36

Altarismyndin í Hvanneyrarkirkju

Undur páskamorguns á engjum Andakíls

Þegar Suðuramtið hafði fengið Hvanneyrarjörðina til umráða til reksturs búnaðarskóla hóf það ýmsar umbætur á jörðinni. Strax árið 1889 var reist skólahús og árið eftir reis stórt fjós, eftir þeirrar tíðar mælikvarða. Kirkjan fylgdi jörðinni en hún var orðin ónothæf, herma heimildir32, þótt vönduð þætti í upphafi.33 Því reisti amtið nýja kirkju árið 1893. Var henni valinn staður á Kirkjuhólnum, sem svo heitir nú, en gamla kirkjan stóð inni í garðinum. Lítt mun hafa verið vandað til nýju kirkjunnar, sögð „illa gerð í fyrstu“. Því fór svo í „ofsaveðri á sunnan“, er skall á undir kvöld 15. nóvember 1902 og stóð til morguns, að kirkjan fauk:

Um nóttina kl. 2 fauk hér kirkjan að eins út í kirkjugarðinn og þar um koll, og náðist hver ögn úr henni, og hver spíta, skólapiltar og heimafólk áttu þar föt sín og hirslur sem brotnaði sumt en náðist flest nema kennarinn misti bækur sínar, nálægt hundrað kr. virði . . .

skrifaði ein þáverandi námsstúlkna Mjólkurskólans á Hvanneyri í dagbók sína.34 Eftir skaðann kannaði prófastur áhuga safnaðarins á að reisa nýja kirkju. Reyndist hann hverfandi því aðeins 2 af 22 sóknarmönnum, sem mættir voru, vildu byggja kirkjuna upp að nýju. Vilji amtsráðsins var að láta söfnuðinn taka við kirkjunni. Áður hafði til orða komið að sameina Hvanneyrar- og Bæjarsóknir með nýrri kirkju að Hesti, ábýlisjörð prests Hestþinga. Það fór hins vegar svo að amtið lét reisa nýja kirkju á Hvanneyri, þá er nú stendur. Prófasturinn, sr. Jón Sveinsson á Akranesi, vígði hana haustið 1905. Kirkjan var reist eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar húsameistara.

Hvanneyrarkirkja hin nýja var víst ekki ríkulega búin hið innra. Altarismynd mun ekki hafa verið í nýju kirkjunni fyrstu árin megi marka athugasemd séra Guðmundar prófasts Helgasonar gerða er hann skoðaði eldri kirkjuna, í ágúst 1894: Þá þótti honum á vanta að í kirkjunni væru hvorki orgel né altaristafla.35 Alla vega kviknaði hugmynd um það á fundi Ungmennafélagsins Íslendings haustið 1918 að kaupa altarismynd í kirkjuna. Á fundinum hafði verið vakin eftirfarandi spurning, segir í fundargerð félagsins: „Er það satt að vanræksla á kirkjuferðum sje U.M.F. að kenna, og hvað getum við gert fyrir kirkjuna?“ Þá hafði Ungmennafélagið starfað um sjö ára skeið; flest árin af þrótti, megi marka fundargerðir frá þeim tíma. Því er ekki ósennilegt að ungmennafélagsstarfið, sem eflaust þótti vera spennandi nýjung, hafi að einhverju marki orðið á kostnað kirkjusóknar unga fólksins. Um spurninguna urðu miklar umræður á fundinum. Að þeim loknum var samþykkt eftirfarandi tillaga frá Kristni Guðmundssyni, sem þá var héraðsmaður en síðar kenndur við Mosfell í Mosfellssveit:

32 Hér er byggt á frásögn Guðmundar Jónssonar: Hvanneyrarskólinn 50 ára (1939), 101-103.

33 Ari Gíslason: Kaupfélagsritið 38 (1973), 32.

34 Dagbók Guðmundu Maríu Guðmundsdóttur. Í vörslu Bj.Guðm.

35 Ari Gíslason: Kaupfélagsritið 38 (1973), 32.

37

Fundurinn ákveður að U.M.F. Íslendingur taki að sjer að safna fje til altaristöflukaupa í Hvanneyrarkirkju.36

Síðan var kjörin fimm manna nefnd til þess að koma málinu í framkvæmd. Í hana voru kosin þau Guðmundur Jónsson á Skeljabrekku (Ytri), áðurnefndur Kristinn Guðmundsson, Elísabet Þorsteinsdóttir á Miðfossum, Jóhanna Sigurðardóttir í Árdal og Sigríður Hjartardóttir á Grjóteyri.

Nefndin hóf þegar störf og á febrúarfundi Ungmennafélagsins árið 1919 var bókað: Altaristöflumálið. Fyrir hönd nefndarinnar skýrði Guðmundur Jónsson frá starfi hennar, og kom þá í ljós að töluvert fje hafði safnast saman til altaristöflukaupa í Hvanneyrarkirkjusókn. Síðan virðist hafa dofnað yfir málinu því næst finnum við þess getið á desemberfundi Ungmennafélagsins árið 1922. Þá gat Guðmundur þess að safnast hafi með vöxtum 400 krónur, þó væri það langt of lítið fje, einkum ef keyft væri Íslenskt málverk. Vildi hann að eitthvað væri í málinu gert. Þótti mönnum miður að félagið skyldi ekki geta safnað nægu fé og voru ræddar frekari leiðir til þess: G.J. fannst það engin vanvirða fyrir fjelagið, þó það gæti ekki fengið nóg fje og gerði það að tillögu, að nefndin safni eftir getu til vorsins og afhendi þá það sem safnast hefur Sóknarnefndinni til frekari framkvæmda og var það samþykkt.

Halldór Vilhjálmsson skólastjóri og kirkjubóndi á Hvanneyri tók málið upp á hreppsskilaþingi að Hvítárvöllum 25. október 1923. Án efa hafði hann fylgst náið með framvindu málsins í höndum Ungmennafélagsins og hlutast til um framkvæmdir því á þinginu lýsti hann yfir því

. . . að fáanleg væri altaristafla í Hvanneyrarkirkju. Væri það Brynjólfur Þórðarson málari í Rvík, er vildi taka að sér að mála töfluna fyrir 1000 krónur. Lýsti skólastjóri yfir því, að hann væri fús á að greiða 1/3 kostnaðar. Í sambandi við þetta mál var ákveðinn safnaðarfundur fyrir Hvanneyrarsókn þ. 11. nóv.br. nk.37

Eitt þúsund krónur voru mikið fé á þessum tíma. Það svaraði þá til verðmætis 95 dagsverka kaupamanns um sláttinn og nær þriggja kýrverða skv. verðlagsskrá Andakílshrepps.

Samskotaaðferðin til öflunar kirkjugripa var hreint ekkert einsdæmi á þessum árum því tæpum þrjátíu árum fyrr höfðu sóknarmenn í Bæjarsveit skotið saman til þess að kaupa altaristöflu fyrir Bæjarkirkju: . . . snotra altaristöflu, málaða af Þórarni bókbindara Þorlákssyni eftir altaristöflunni í Reykjavíkurkirkju.38

Og Brynjólfur Þórðarson listmálari var fenginn til þess að mála altaristöfluna fyrir Hvanneyrarkirkju. Hann lauk því verki á árinu 1924 skv. höfundarmarki á myndinni.

36 Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar: Skjöl Umf. Íslendings EF23 20-1/20-4.

Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar: Andakílshreppur ES7 7-2.

Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar: Andakílshreppur ES7 7-3.

38
37
38

Altarismyndin sýnir Krist í borgfirsku umhverfi, og skírskotar til upprisu hans þar sem konurnar tvær krjúpa við fætur hans.

Altarismynd Brynjólfs vekur jafnan athygli hinna fjölmörgu gesta kirkjunnar fyrir sérstöðu og fegurð. Saga myndarinnar hefur orðið ýmsum umhugsunar- og umræðuefni. Hér á eftir fara nokkrir þættir um hana.

Er þá fyrst að segja ögn frá listamanninum. Brynjólfur Þórðarson var fæddur árið 30. júlí 1896. Hann ólst upp hjá móður sinni og fóstra í Ráðagerði á Seltjarnarnesi. Brynjólfur nam teikningu hjá Þórarni B. Þorlákssyni og síðar við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn. Eftir teiknikennslu í Reykjavík og í Hafnarfirði árin 1920-1925 hélt hann til frekara listnáms í SuðurFrakklandi, Róm og París. Nam m.a. freskótækni. Kom heim árið 1929 og stundaði list sína og tók þátt í listsýningum. Brynjólfur hafði vinnustofu í Uppsölum við Aðalstræti, í elliheimilinu Grund og víðar í bænum. Brynjólfur átti við vanheilsu að stríða. Hann veiktist ungur af berklum og dvaldi um hríð á Vífilsstöðum. Það var þó krabbamein sem dró hann til dauða árið 1939, aðeins 43 ára gamlan. Hann dó ókvæntur og barnlaus.

Haldnar hafa verið sýningar í Reykjavík á myndum Brynjólfs, meðal annars yfirlitssýningar á verkum hans í Reykjavík árin 1971 og 198239. Brynjólfur var sagður meðal lærðustu listamanna síns tíma. Hann hafði meitlað handbragð sem hvelfist eins og skel utan um flestar myndir hans, en síðan kemur þögnin eða kyrrðin, sem grípur milliliðalaust hvert einasta mannsbarn . . . skrifaði Hjörleifur Sigurðsson. Brynjólfur fór oft eldsnemma á fætur og málaði er hann var á tjaldferðalögum um landið, var haft eftir Ragnheiði Jónsdóttur, unnustu hans og lífsförunaut . . . Það er ef til vill þess vegna sem mikil kyrrð er yfir myndum hans, honum fannst loftið kyrrt svona snemma á morgnana, litirnir skýrir og tærir, og allt umhverfið ósnortið.

Öll þessi einkenni hefur altarismynd Brynjólfs í Hvanneyrarkirkju. Eftir yfirlitssýningarnar voru blaðadómar um verk Brynjólfs allir á eina lund: tvímælalaust það hæsta sem íslensk málaralist hefur náð, skrifaði Ásgeir Bjarnþórsson og Valtýr Pétursson gladdist yfir því að enn mætti finna listamenn meðal þjóðar vorrar sem ekki voru á allra vörum á sínum tíma, en koma eins heilsteyptir og ferskir fram á sjónarsviðið og Brynjólfur Þórðarson að sinni.

39 Morgunblaðið 4. apríl 1982, 46-47.

40 Morgunblaðið 4. apríl 1982, 46.

39
40
Altarismyndin í Hvanneyrarkirkju (ljósm. Magnús Skúlason).

Brynjólfur var hlédrægur og góður listamaður sem barst ekki á í list sinni, skrifaði heimildarmaður.41

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hverjir hafi verið fyrirmyndir Brynjólfs að fólkinu sem á altarismyndinni er, svo skýrum andlitsdráttum það er þar dregið. Heyrst hafði sú flökkusaga meðal annars að það hafi verið unnusta málarans og vinkona hennar.

Sat Svava Þórhallsdóttir skólastjórafrú

á Hvanneyri fyrir þegar Brynjólfur Þórðarson málaði Maríu á upprisumynd sinni í Hvanneyrarkirkju? (ljósm. Magnús Skúlason).

Sumarið 2011 átti ég tal við Hildi Sigurðardóttur í Grindavík sem kvaðst þekkja nokkuð til málsins.42 Hildur hafði heyrt að fyrirmyndir kvennanna tveggja væru þær Ólafía Vilborg Þórðardóttir og Svava Þórhallsdóttir. Hildur sagði Ólafíu hafa verið afasystur sína, frá Ráðagerði á Seltjarnarnesi, dóttir Þórðar útvegsbónda Jónssonar í Hlíðarhúsum í Reykjavík. Ólafía Vilborg og Brynjólfur Þórðarson voru systrabörn. Munnmæli um að fyrirsæturnar hefðu verið Ragnheiður, unnusta málarans, og vinkona hennar, taldi Hildur vera á misskilningi byggð. Ekkert kvaðst Hildur vita fyrir víst um tengsl Ólafíu og Svövu. Ekki vissi Hildur heldur hvor þeirra væri hvor á altarismyndinni. Hún nefndi hins vegar að sér þætti þær Ólafía og Svava sláandi líkar, væri dæmt eftir myndum af þeim ungum. Undir það er tekið. Ávæning hafði Hildur heyrt af því að málarinn hafi skipt um háralit kvennanna við myndgerðina.

Nú, nú. Sé reynt að geta hér í eyður sögunnar er af nokkru að taka. Fyrst um tengsl Ólafíu og Svövu. Ólafía Vilborg Þórðardóttir var fædd árið 1888. Hún lauk kennaraprófi frá Flensborg árið 1905 en nam svo við Lýðháskólann í Askov. Kenndi teikningu, handvinnu og leikfimi við barnaskólann í Mýrarhúsum árin 1908-1911.43 Svava Þórhallsdóttir var fædd árið 1890. Hún lauk kennaraprófi í Reykjavík árið 1909, og kennaranámskeiði í Svíþjóð árið eftir. Hún var stundakennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1909-1910.44 Samkvæmt þessu var bakgrunnur þeirra Ólafíu og Svövu áþekkur og þær á svipuðum aldri. Þær giftust báðar vorið 1911. Ólafía giftist Halldóri Hansen lækni eldra en Svava Halldóri skólastjóra Vilhjálmssyni á Hvanneyri.

Svava hafði tekið virkan þátt í félagslífi bæjarins, m.a. fyrsta starfi Ungmennafélags Reykjavíkur, enda alin upp við mikið frelsi og mannjöfnuð.45 Ýmislegt bendir því til þess að

Eggert Ásgeirsson: Lesbók Morgunblaðsins. 23. apríl 1993.

Hildur Sigurðardóttir 9. ágúst 2011 í samtali við BG.

Kennaratal II (1965), 17.

Kennaratal II (1965), 202.

Svava Þórhallsdóttir: Móðir mín (1949), 101.

40
41
42
43
44
45

þær stöllur, Ólafía og Svava, hafi þekkst og jafnvel ræktað með sér nokkurn kunningsskap sem enst hafi fram eftir aldri þeirra.

Þegar Halldór Vilhjálmsson gekk fram fyrir skjöldu í því að ljúka altaristöflumálinu, sem Ungmennafélagið Íslendingur hafði ýtt af stað, er hreint ekki ómögulegt að hann og þau hjónin hafi komið á tengslum við Brynjólf málara Þórðarson, ef til vill í gegnum kunningskap Svövu og Ólafíu, náfrænku málarans. Afar sennilegt er einnig að a.m.k. við gerð frumdraga að altarismyndinni hafi Brynjólfur Þórðarson dvalið á Hvanneyri; til þess benda flestir drættir myndarinnar. Telja má öldungis víst að málarinn hafi þá verið í skjóli kirkjubóndans og konu hans, skólastjórahjónanna Halldórs og Svövu. Hvað var þá eðlilegra en að fá skólastjórafrúna og vinkonu hennar, náfrænku málarans, til þess að sitja fyrir? Þá voru þær báðar liðlega þrítugar – glæsilegar konur í blóma lífsins.

Og fyrst vakinn er grunur um hverjar muni vera fyrirmyndir kvennanna tveggja er vitni urðu að upprisunni í pensildráttum Brynjólfs, málara altaristöflunnar, er freistandi að leiða hugann að fyrirmyndinni að Kristi, hinum upprisna. Enga hugmynd höfum við um það. Hafi frumdrög altarismyndarinnar hins vegar verið lögð á Hvanneyri er hreint ekki ólíklegt að þar hafi málarinn séð fyrir sér einhvern af hinum hraustu kaupamönnum og námssveinum er þá gengu til heyskapar á Hvanneyri.

- o o o -

Að endingu má spyrja sig að því hvort hægt sé að ganga öllu nær í því að tengja saman minnið um upphaf og megininntak kristinnar trúar á aðra hliðina og það þekkilega umhverfi, sem hið stílhreina guðshús Hvanneyrarsóknar stendur í, á hina heldur en listamaðurinn Brynjólfur Þórðarson gerði með þessari fallegu og áhrifamiklu altarismynd sinni?

Má vel minnast þáttar Ungmennafélagsins Íslendings í tilurð altarismyndarinnar þegar fegurðar hennar og boðskapar er notið.

41
Hvanneyrarkirkja og Halldórsfjós sumarið 1939, horft af Kirkjuhólnum (ljósm. T. Gravem).

Gömlu fjósin – Tímamótabyggingar

HJARTARFJÓS

Þegar snúið er heim á hlað Gamla staðarins á Hvanneyri verða fyrir okkur á vinstri hönd tveggja bursta hús. Þessi saga er um húsið undir nyrðri burstinni. Síðustu misserin hafa sumir tekið að kalla það Hjartarfjós. Lengst af var það þó kallað Verkfærahús. Árið 1900 reisti Hjörtur Snorrason skólastjóri það sem fjós. Árið eftir var það stækkað. Fullbyggt tók það 40 kýr og 8 kálfa svo líklega var það þá stærsta fjós landsins. Það var notað allt til þess að Halldórsfjós, handan hlaðsins, leysti það af hólmi árið 1928. Hjartarfjós er merkilegt fyrir margt. Fyrst fyrir það að húsið er byggt úr steini: Afar þykkir veggir þess eru gerðir úr steinsteypu sem mikið af holtagrjóti hefur verið borið í. Sá byggingarháttur taldist vera fágætur á byggingartíma fjóssins. Hjartarfjósi svipar mjög til fjóssins í Ólafsdal sem reist var 1896-1897 og Barónsfjóssins í Reykjavík, sem reist var 18971898, af baróninum á Hvítárvöllum, sem svo var nefndur, hinum franska Charles Gouldrée Boilleau. Hjörtur skólastjóri var búfræðingur frá Ólafsdal, hafði numið þar en varð síðan kennari við skólann 1892-1894 áður en hann var ráðinn að Hvanneyri. Hjörtur varð auk þess tengdasonur Torfa skólastjóra, kvæntur Ragnheiði Torfadóttur. Mjög sennilegt er því að Hjörtur hafi litið til Ólafsdals eftir fyrirmynd að nýju Hvanneyrarfjósi en líka til fjósbyggingar nágranna síns, Hvítárvallabaróns, því að útliti svipar þeim mjög saman Hjartarfjósi á Hvanneyri og Barónsfjósinu.

Hjörtur skólastjóri var áhugasamur um nautgriparækt. Kona hans, Ragnheiður Torfadóttir frá Ólafsdal, hafði lært til mjólkurvinnslu. Frá Hvanneyri var þegar fyrir aldamótin 1900 flutt út nokkuð af smjöri, sem gott verð fékkst fyrir: Árið 1899 náði Hvanneyrarsmjörið hæsta verðinu sem fékkst fyrir íslenska smjörið á erlendum markaði. Hjörtur var því ekki með öllu sáttur þegar Mjólkurskóli var settur á Hvanneyri haustið 1900 undir stjórn dansks mjólkurfæðings, Hans J. Grönfeldts, og honum gert að útvega Mjólkurskólanum aðstöðu og mjólk til vinnslu.

Hvað varð um notkun Hjartarfjóss eftir að kýr voru fluttar yfir í hið nýja Halldórsfjós veit ég ekki nákvæmlega, en með innreið vélanna varð fjósið að verkfærahúsi –verkstæði og verkfærageymslu fyrir Bændaskólann í vaxandi vélvæðingu. Þegar kennsla í vélameðferð hófst varð húsið helsti vettvangur hennar.

Frá Hvanneyri 1906. Hjartarfjós næst til vinstri (ljósm. Magnús Ólafsson).

42

Í vesturhorn hússins var sett eldsmiðja sem vel kom sér. Í henni lærðum við skólafélagarnir m.a. að slá skeifur svo seint sem veturinn 1961-62. Vélakennslan flutti úr Hjartarfjósi þegar nýja verkfærahúsið kom til sögunnar árið 1963. Úr því var Hjartarfjós fyrst og fremst verkstæði skólabúsins allt fram yfir síðustu aldamót. Um langan aldur var húsið og stéttin framan við það eins konar miðstöð búrekstrarins á Hvanneyri og þaðan var hinum mörgu sumarstarfsmönnum búsins skipað til dagsverkefna.

Í austurenda hússins var á fimmta áratug síðustu aldar að undirlagi Valgerðar skólastjórafrúar á Hvanneyri og húsmæðrakennara komið fyrir steinsteyptum kerjum til þess að geyma í matvæli, s.s. kjöt og slátur. Reyndust þau betri geymslur en tunnur.46 Árið 1949 var þak sett á gömlu hestaréttina, sunnan við Hjartarfjós. Um leið munu stafnar þess hafa verið hækkaðir og þakið þá einnig, svo það hentaði betur fyrir vaxandi stærð og fjölda véla skólabúsins.

Það var svo fyrir fáum árum að Hjartarfjósi var breytt í aðstöðu fyrir garðyrkjudeild LbhÍ, og aðstaða bætt til geymslu bíls og búnaðar héraðsslökkviliðsins. Það hafði þá um nokkurt árabil haft aðstöðu í austurenda hússins.

Hjartarfjós er merkileg bygging, þó ekki sé fyrir annað en það að hún mun vera ein elsta gripahúss-steinbygging landsins, og eitt fyrsta „nútímafjósið“ sem reist var hérlendis.

Samhliða Hjartarfjósi, að suðvestanverðu, var reist hestarétt, sem nýtt var svo lengi sem hestar voru meginaflgjafinn við ræktunar- og heyskaparverk á skólabúinu. Þar voru hestarnir búnir undir vinnuna og frá þeim gengið. Þegar dráttarvélar leystu Hvanneyrar-hestana af hólmi, um 1950, var reft yfir réttina og hún gerð að geymsluhúsi fyrir vélar og verkfæri. Stóð svo allt fram til aldamóta að henni var breytt í smáverslun og síðar öldurhús.

HALLDÓRSFJÓS

Árið 1928 hratt Halldór Vilhjálmsson skólastjóri af stað byggingu fjóss og hlöðu fyrir Bændaskólann á Hvanneyri. Skyldi byggingin leysa af hið tæplega þrjátíu ára gamla Hjartarfjós. Halldór var stórhuga: Hann fékk Guðjón Samúelsson húsameistara til þess að teikna bygginguna, sem rúma skyldi 80 nautgripi, auk hlöðu, kálfafjóss, mjólkurklefa, haughúss og þvaggryfju. Mannvirkið kostaði 157.282,04 kr.

46 Búfræðingurinn (1944), 180.

Halldórsfjós í byggingu sumarið 1928 (Ljósm.safn Akraness).

43

Fjósið skyldi verða fyrirmyndarfjós og varð það, svo mörgum tækninýjungum sem það var prýtt: Rafknúninni heyhirðingu, loftræstingu að amerískri fyrirmynd, hengibrautum í lofti til fóðurflutninga fram á fóðurgang, mjaltavélum, votheysgryfjum, milligerðum úr galvaniseruðum pípum, svo það helsta sé nefnt. Stílum Halldórsfjóss og Korpúlfsstaða-fjóss svipaði saman um margt enda byggð á svipuðum tíma. Geta má þess að gott samband var á milli Halldórs skólastjóra og Thors Jensen, Korpúlfsstaðabónda. Sonur Thors, Lórentz, síðar bústjóri á Korpúlfsstöðum, var t.d. nemandi Bændaskólans árin 1924-1926.

Þúsundir gesta heimsóttu Halldórsfjós áranna rás, bæði sem almennir gestir skólans en einnig bændur er sjá vildu nútímalega aðstöðu til nautgriparæktar. Minnisstæð varð mörgum t.d. heimsókn Kristjáns X Danakonungs í fjósið árið 1930. Haft var eftir Bauja gamla, Böðvari Gíslasyni fjósamanni til áratuga, að svo vel hefði að jafnaði verið gengið um fjósið að ekki hefði einu sinni þurft að þrífa aukalega vegna heimsóknar kóngs í fjósið.

Fyrstu ár Halldórsfjóss var öll mjólk þaðan unnin heima á Hvanneyri. Kristjana Jónatansdóttir rjómabústýra stóð fyrir mjólkurverkum með stúlkum sínum. Mjólkurvinnslan fór fram í kjallara og undirkjallara Skólastjórahússins. Afurðir umfram heimanot voru seldar víða um land, mest þó í Reykjavík. Á þessum árum urðu til hugtökin Hvanneyrarskyr og –rjómi. Afurðirnar gátu sér orð og þóttu eftirsóttar fyrir gæði.

Skilyrði til heimavinnslu mjólkur breyttust með afurðasölulögunum svonefndu árið 1934. Þá var stutt í lok heimavinnslu mjólkur á Hvanneyri. Farið var farið að leggja alla Hvanneyrarmjólk inn í Mjólkursamlagið í Borgarnesi og heimavinnsla mjólkur á Hvanneyri lagðist af.

Margt dreif á daga Halldórsfjóss allt þar til kýrnar voru úr því fluttar í nýtt fjós 11. ágúst 2004. Nefna má nokkur atriði:

 Hinar góðu heygeymslur auðvelduðu nýtingu hinna miklu og náttúrugefnu Hvanneyrarengja og fitjanna til mjólkurframleiðslu. Hægt og sígandi tók taða af vaxandi túnum við af engjaheyinu.

 Fjósið varð vettvangur margra búnaðarnýjunga. Þess vegna voru ýmsar breytingar gerðar á því, breytingar sem einnig varpa ljósi á framvindu búnaðarsögunnar. Af nýjungum þessum má til dæmis nefna:

Súgþurrkunar heys í hlöðunum stóru, meira að segja með upphituðu lofti mjög snemma á súgþurrkunartímanum – 1947

Margvíslegra tilrauna með verkun votheys

Miðstöðvar fyrsta sæðingastarfs í Borgarfirði

44
Úr Halldórsfjósi, líklega á fjórða áratugnum (ljósm. óþ.)

Tilrauna með ristarflóra fyrir kýr, sem líklega voru heimsnýjung

 Prófanir fjölmargra tækja og véla til vinnuléttis og sparnaðar

 Eins fyrsta mjaltabássins, sem komið var upp í fjósi hérlendis (1962-1963) og síðar rörmjaltakerfi í stað fötukerfis sem var hin upphaflega tækni

 Og síðast en ekki síst: Fjósið var alla sína tíð kennslustofa nemenda Bændaskólans í hirðingu nautgripa.

Árið 1947 var hæð bætt ofan á fjóshluta byggingarinnar. Þar var komið fyrir íbúðum, efnarannsóknastofu, smíðakennslustofu og fóðurbætisgeymslu. Og var þó ekki allt rýmið innréttað. Reyndist þetta rými skólanum ótrúlega vel til ýmissa nýbreytniverka sem of langt er upp að telja. Þegar hafin var kennsla við LBH í umhverfisskipulagi var kennslustofu vegna hennar komið fyrir á fjósloftinu.

Um miðja fyrri öld var sett ökubrú í hlöðuna svo aka mátti heyvögnum og heybílum í gegnum hana frá norðri til suðurs, alls um 70 m brú. Þótti það auka hirðingarafköst til mikilla muna.

Ungur kaupamaður (kúskur) ekur af hlöðubrú Halldórsfjóss eftir affermingu, líklega sumarið 1954 (ljósm. Einar E. Gíslason).

Á áttunda og níunda áratugnum voru gerðar ýmsar endurbætur á Halldórsfjósi. Þak hlöðunnar var endurnýjað, loftræsting fjóssins endurhönnuð og lagfærð, settir ristarflórar, básum og bindslum breytt og nýjum mjaltabás komið fyrir, auk margs annars. Bæði var þetta gert til þess að bæta fjósið sem slíkt en ekki síður sem liður í tilrauna- og þróunarstarfi Bændaskólans, flest í samvinnu við Bútæknideild Rala.

Sem fyrr segir voru kýrnar fluttar úr Halldórsfjósi síðsumars 2004. Liðlega þremur árum síðar var ákveðið að leigja bygginguna Landbúnaðarsafni Íslands. Halldórsfjós varð miðstöð safnsins. Með nokkrum rétti má segja að byggingin sé stærsti gripur safnsins, svo sögurík er hún bæði í gerð sinni og minjamörkum sem þar má sjá.

45

„Byggingin“ – gripahúsin í Þórulág

Norðan við meginbyggðina á Hvanneyri, vestan gömlu heimreiðarinnar (Ásvegarins), þar sem heitir Þórulág47, stendur hús er lengi var kallað „Byggingin“. Fjárhús (ft) var það einnig nefnt og síðar Hesthús (et). Það var reist á árunum 1942 og 1943. Ef til vill kom „Byggingar“nafnið til af því að allmörg ár liðu áður en næsta nýbygging reis á Hvanneyri. „Byggingin“ var í samtímaheimild sögð vera steinsteypt hesthús

40 x 15 m að stærð, tekur um 80 gripi. Votheysgryfjur og þurrheyshlöður taka um 1500 hestburði af heyi og eru í miðri byggingunni. Yfir gripahúsunum, sitt hvoru megin við hlöðuna, er steypt loft, þar sem hægt verður að þurrka og geyma garðávexti og korn. Undir nokkrum hluta byggingarinnar er áburðarhús.48

Með vissum hætti má segja að bygging þessa útihúss hafi verið fjörbrot dráttarhestatímans á Hvanneyri. Hún var reist á meðan dráttarhestar voru enn notaðir fyrir allar heyvinnuvélar skólabúsins. Um þessar mundir gekkst skólinn líka fyrir tamningu dráttarhesta. Aðeins nokkrum árum seinna ýttu dráttarvélarnar vinnuhestunum til hliðar, líklega að fullu árið 1949.

Í hesthúsinu voru stórar votheysgryfjur. Aka mátti heyvögnum í gegnum þvert húsið og moka heyinu í gryfjurnar til hvorrar handar. Stutt var niður á grasgefnar Hvanneyrarengjarnar og störin þaðan var afbragðs hráefni til votheysgerðar og vetrarfóðurs hestanna. Runólfur skólastjóri Sveinsson nýtti sér með húsbyggingunni góða reynslu tengdaföður síns, Halldórs skólastjóra Vilhjálmssonar, er sagði vothey „ágætt fóður handa hrossum á vetrardegi, og má jafnvel fóðra hross á tómu votheyi um lengri tíma, sérstaklega ef þau hafa nokkra beit með því.“49

„Byggingin“ – Gripahúsin í Þórulág um miðjan sjötta áratug síðustu aldar. Um dyrnar þrjár mátti aka hesta-heyvögnum þvert í gegnum húsið og losa heyið í gryfjurnar sem voru í miðju hússins. Í forgrunni er hirðingartækni að hætti Guðmundar Jóhannessonar ráðsmanns. Heyinu ýtt upp á vagn, sem hafði fellanleg skut (ljósm. Ólafur Guðmundsson).

46
47 Þjóðsagan hermir að nafnið sé komið frá stúlku sem þar átti að hafa átt stefnumót við pilta, einn eða fleiri . . . 48 Búfræðingurinn (1943), 182. 49 Halldór Vilhjálmsson: Fóðurfræði (1929), 448.

Garðávaxtageymsla var í „Byggingunni“, að mig minnir undir einni ökubrautinni þvert um húsið. Lítið varð hins vegar úr kornræktinni. Á Hvanneyri var hún þó stunduð út fimmta áratuginn. Loftið var innréttað sem fjárhús þótt svo lágt væri undir súðina að beita þurfti sérstöku lagi við tilhleypingar ánna á fengitíð. Kálfar tóku brátt pláss hestanna í syðri helmingi hesthússins.

Hesthúsið öðlaðist hins vegar annað hlutverk upp úr 1950 þegar tamningakennsla hófst á Hvanneyri fyrir atbeina Gunnars Bjarnasonar kennara. Þótt ekki þætti hesthúsið beysið undu nemendur þar með hesta sína löngum stundum frá áramótum til sumarmála hvern vetur. Úr hópi þeirra spruttu flestir þeir er leiðandi urðu á sviði tamninga og reiðmennsku á endurreisnarskeiði nútíma hestamennsku hérlendis. Má þá ekki gleyma hinum hvetjandi áhrifum Morgunblaðsskeifunnar, viðurkenningarinnar sem varð strax mjög áhrifamikil meðal nemenda Bændaskólans. Í látleysi sínu og fremur frumstæðum búnaði er „Byggingin“ á Hvanneyri sannanlega einn helsti sögustaður íslenskrar reiðmennsku og hrossaræktar á síðustu öld. Þar liggja gildar rætur hennar.

Um miðjan sjötta áratuginn voru á vegum Tilraunaráðs búfjárræktar reistar tvær tilraunahlöður undir sama þaki norðan við „Bygginguna“. Í þeim gerðu Verkfæranefnd ríkisins um árabil gagnmerkar tilraunir með og rannsóknir á súgþurrkun, heyverkunaraðferð sem þá var að breiðast út um sveitir landsins. Síðar var tilraunahlöðunum breytt í kornþurrkunaraðstöðu og vísi að „reiðhöll“. Flatgryfjuverkun votheys (útistæða) var reynd sunnan undir „Byggingunni“ um miðjan sjöunda áratuginn. Taldist sú aðferð þá nýlunda hérlendis.

Í krikanum, þar sem síðar stóð hringgerði Ingimars Sveinssonar, er síðar verður getið, var sumarið 1964 í tilraunaskyni reist hlaða að hollenskri fyrirmynd, eins konar stakkur með lyftanlegu þaki á fjórum stólpum. Í stakknum mátti súgþurrka heyið. Hlaðan virkaði ágætlega allt fram á vetur að Skarðsheiðarveður hreif með sér þakið. Fannst það í smáatriðum sínum niðri á Hvanneyrarengjum einhverjum dögum seinna. Hin hollenska tækni var ekki reynd aftur.

Ýmsar fleiri tilraunir voru gerðar í þessu merkilega húsi. Meðal annars voru reyndir þar svokallaðir skurðflórar fyrir sauðfé. Þeir voru settir í syðri hesthúshelminginn. Þeir voru ein af mörgum hugmyndum Guðmundar Jóhannessonar ráðsmanns skólabúsins. Bæði áttu skurðflórarnir að auðvelda skítmokstur undan fénu og notast einnig sem þurrkunaraðstaða fyrir hey á sumrum. Það var einmitt við tilraun til heyþurrkunar með yljuðu lofti á þessum flórum sem eldur varð laus í húsinu 15. september 1968. Asbestklætt þak byggingarinnar á timbursperrum brann og féll en það tókst að verja tilraunahlöðurnar að mestu. Strax var ákveðið að endurbyggja húsið en þá þannig að hækkaðir yrðu veggir þess og þakið gert flatara. Formbreytinguna má sjá á austurgafli hússins. Einnig var ökudyrum á húsinu fækkað í eina eins og nú er. Við þessa breytingu varð fjárhúsið á loftinu til muna betra á allan máta: hátt til lofts og rými allt hentugra til sinna nota.

47

Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar var sauðfjárbúskap hætt á Hvanneyri. Varð efri hæð hússins þá geymsla, einkum fyrir vélar, sem og völlur „Sveitafitness“ Guðmundar Hallgrímssonar um tíma. Neðri hæðin var áfram um nokkurt skeið notuð fyrir hross og kálfa.

Í tilraunaskyni var mykjutanki þeim, sem stendur vestan við „Bygginguna“, komið fyrir. Gerðist það um miðjan tíunda áratuginn.

Hringgerði til tamninga var byggt norðan við „Bygginguna“ að fyrirsögn Ingimars Sveinssonar kennara. Þar kenndi hann um árabil nýstárlega aðferð sína við frumtamningu hrossa. Þótt algert aukaatriði sé má nefna það að skúr sá, sem var hluti af tamningagerðinu, var áður rannsóknahlaða Bútæknideildar Rala til heyþurrkunar. Stóð þá austan við Nýja verkfærahúsið (Gamla-Bút). Upphaflega var mannvirkið hins vegar sementsgeymsluskúr, reistur þegar framkvæmdir hófust við byggingu Nýja skólans, nú Ásgarðs, vorið 1965. Saga skúrsins varð því töluvert merkari en ætla hefði mátt af stærð hans og gerð.

48
Heyjað á Hvanneyrarfit sumarið 2021.

Skemman

Stutt samantekt um sögu hússins

Skemman á Hvanneyri, sem svo er kölluð, er elsta húsið á skólastaðnum; orðið einnar aldar gamalt og fjórðungi betur

Á aðalfundi amtsráðsins í Suðuramtinu um Jónsmessu sumarið 1896 var samþykkt að reisa á Hvanneyri „geymsluhús og þurrkhús, þar sem eigi lengur mátti nota gömlu kirkjuna þar sem skemmu. Áætlaður kostnaður við byggingar þessar var talinn 1550 kr.“ segir í fundar gerð amtsráðsins.50

Húsið var reist síðar um sumarið 1896. Á uppdrætti Magnúsar Jónssonar nemanda af skólastaðnum,sennilegafrá1897,másjáaðtröðláfráskólahúsinu,semþástóðnærþvíeins ognúverandiskólastjórahús,suðuraðbæjarlæknum(Tungutúnslæk).Skemmunnivarvalinn staður austanvert við tröð þessa og samsíða henni. Með breyttu skipulagi skólabygginganna, er síðar risu, í ramma um Gras-/Skólagarðinn stendur Skemman að því er virðist skökk í meginskipulagi húsaþyrpingarinnar. Gegnt Skemmunni handan traðarinnar stóð þá lítið timburhús með bröttu risi, er sneri eins og skemman. Þetta var smiðjan, sem Hjörtur Snorrason skólastjóri, byggði haustið 1894, 8x5 álnir að grunnfleti með 3,5 álna stafahæð. Norðvestan við smiðjuna var mikill kálgarður. Skemman var þá ein fimm bygginga skólans að kirkju meðtalinni.

kostaði 1.804 kr. og 72 aura og hafði „farið nokkuð fram úr áætlun.“51 Þá var timburkirkja nýreist á Hvanneyri, er vígð hafði verið á öðrum degi jóla árið 1893. Gamla kirkjan, sem þá mun hafa verið orðin mjög hrörleg, stóð í miðjum kirkjugarðinum, skrifaði Ari Gíslason.52 Er ljóst að það hefur vart verið hentug staðsetning skemmu og geymsluhúss.

í forgrunni

B-deild

B-deild

(1973),

49
Skemman
50 Stjórnartíðindi
1896, 129. 51 Stjórnartíðindi
1897, 152. 52 Kaupfélagsritið 38
32. Skemman
gömlu húsanna á Hvanneyri haustið 2021.

Skemman taldist vera 16x12 álnir að grunnfleti. Hjörtur skólastjóri lýsti henni svo í skýrslu skólaársins 1898-1899:

. . . Stafahæð 6 álnir. Húsið er með járnþaki og járnvarið á suðurhlið og vesturgafli, loft er í því öllu og tvö þverþil með treystiviðum skifta því í 3 rúm undir lofti, eitt þeirra (við vesturgafl) er notað sem hjallur og sérstaklega útbúið í þessu skyni. Þrennar útidyr eru á húsinu og 12 gluggar, 2 á norðurhlið og 5 á hvorum gafli.53

Skemman var byggð á hlöðnum grjótgrunni, sennilega steinlímdum strax í fyrstu. Var efnið í hleðsluna fengið úr „einum steini, sem verið hafði í túnbrekkunni. Var honum að mestu sundrað með handverkfærum, enda var efni hans grágrýti (dolerit)“, segir í frásögn Magnúsar Jónssonar og Jörundar Brynjólfssonar, nemenda á þessum árum, sem tóku þátt í verkinu.54 Því miður var ekki gætt að hirðu grjótsins þegar húsið var endurbyggt en það mun þó ekki vera glatað. Timbrið í Skemmuna hefur trúlega verið flutt úr Borgarnesi upp í Ásgarðshöfða eða Heimastokk undan Hvanneyrarbænum á áttæringi eða lagt í flota, eins og venja var á þessum árum, undir stjórn Vigfúsar er síðar bjó á Kvígsstöðum.55

Líklegt er að Skemman hafi gegnt hlutverki í samræmi við nafnið, er við hana festist; að hún hafi verið geymsluhús fyrir áhöld, matvæli og annað sem tilheyrði hinu stóra skólaheimili. Þrennar dyr voru á vesturhlið Skemmunnar, þeirri er sneri út að Tröðinni heim að bænum (Skólahúsinu), benda til margra hlutverka hússins. Við suðurgafl Skemmunnar var síðar reistur hjallur.

Svo gerðist það nóttina á milli 5. og 6. október 1903 að eldur kom upp í húsi Búnaðarskólans. Það brann til kaldra kola sem og nýbyggt hús Mjólkurskólans er stóð suðvestan við skólahúsið og óþægilega nærri því. Stóð þá Búnaðarskólinn uppi án íbúðarhúss. Í skýrslu skólaársins 1903-1904 segir svo:

. . . ekki var völ á öðru húsi til íbúðar en skemmu portbyggðri 16x12 álna, sem innrjetta varð til bráðabirgðaíbúðar. Varð þar að hýsa allt heimilisfólkið 35-40 manns, hafa eldstó og mjólkurmatseld og geyma mikið af matvælum, því annað geymsluhús var ekki til, svo teljandi sje. Í skemmu þessari var búið meir en ár, þó þröngbýlt væri, eða þar til í nóvember árið eptir.56

Þrátt fyrir áfallið gátu nemendur Búnaðarskólans, sem munu hafa verið sjö að tölu, dvalið áfram við „skepnuhirðing og grjótvinnu, en stunduðu líka bóklegt nám sem frekast var auðið eptir ástæðum“, segir ennfremur í skýrslunni. Mjólkurskólinn var hins vegar fluttur til Reykjavíkur þar sem hann var fram á næsta ár, að hann var byggður upp á Hvítárvöllum.

53

Skólaskýrsla Hvanneyrarskóla 1898-1899, 11.

54 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára (1939), 94.

55 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára (1939), 93-94.

56 Skólaskýrsla Hvanneyrarskóla 1903-1904.

50

Um sama leyti var byggður skúr, líklega áður nefndur hjallur, „við vesturgafl skemmunnar til eldiviðargeymslu 12 álna langur og 10 álna breiður; hæð: 3,5 alin.“57

Eftir bruna skólahúsanna á Hvanneyri var sem sagt ekki í önnur hús að venda því Skemman var eina húsið á staðnum sem þjónað gat sem íveruhús fyrir þennan mannfjölda.

Mikil umræða varð um endurbyggingu búnaðarskólans. Kom m.a. til tals að færa hann til Reykjavíkur. Hefði það verið gert, eins og varð um Mjólkurskólann, er óvíst hvort skólinn hefði verið endurbyggður á Hvanneyri. En Skemman gat hýst heimilisfólkið eftir brunann og þangað til nýtt hús var risið fyrir Búnaðarskólann.

Skemman hélt upphaflegri gerð sinni og hlutverki aðeins í sjö ár. Á ljósmynd frá 1912, einni elstu myndinni sem er til af Hvanneyrarstað, má sjá Skemmuna og Smiðjuna, hvort tveggja virðist ómálað en nálæg hús vel máluð: Skólastjórahúsið, skólahúsið og leikfimihúsið. Ekki er þá að sjá skorstein upp úr þaki Skemmunnar en útidyr þurrkhússhluta hennar standa opnar. Þak eldiviðarskúrsins við suðurgafl Skemmunnar virðist hafa náð upp fyrir gluggaröðina á gaflinum. Samkvæmt lauslegri athugun á ljósmyndum frá Hvanneyri virðist Skemman ekki hafa verið máluð fyrr en um og upp úr 1950.

Þegar Halldór Vilhjálmsson kom að skólanum árið 1907 var þar ekkert leikfimihús. Innblásinn anda danskra lýðháskóla var honum hins vegar í mun að kenna skólapiltum leikfimi. Halldóri varð því fyrir að gera Skemmuloftið að íþróttasal. Eru til myndrænar lýsingar skólapilta á fimleikum og öðrum íþróttum þar, svo og glímum og hólmgöngum en í þeim mátti hver beita þeim brögðum sem honum hentaði, öðrum en bolabrögðum og klækitökum, eins og frásagnir hermdu. Mun þá mjög hafa reynt á loftbita og milligólf hússins. Þessu hlutverki Skemmunnar lauk með tilkomu leikfimihúss Bændaskólans er byggt var handan Traðarinnar árið 1911.

Árið 1939 skrifaði Guðmundur Jónsson að Skemman stæði enn og að húsið væri mjög traust legt að viðum; það gæti með sæmilegu viðhaldi staðið enn í mörg ár eða áratugi. Reyndist hann sannspár.

Smám saman hvarf Skemman úr iðu skólalífsins og fjölmargir eru þeir nemendur Hvanneyrarskóla sem fráleitt festu þetta látlausa hús í minni sér. Löngum var Skemman líka óhrjáleg að sjá, og lítt um hana hirt, enda ekki auðsætt hvert erindi hún ætti við framtíðina.

Lengstan hluta tuttugustu aldarinnar, og að því er skrifarinn ætlar eftir 1920 þegar rýmkaðist um húsnæði skólans, var hlutverk Skemmunnar það að geyma ýmsa hluti sem voru í mislítilli notkun. Haustið 1993 sagði Guðmundur fyrrum skólastjóri mér að á hans tíð hefði fremur lítill umgangur verið um Skemmuna; hún hefði mest verið notuð sem geymsluhús. Í þeim

57 Skólaskýrsla 1898-1899.

51

efnum var það hlutverk hennar merkast að hýsa og vernda um langt árabil nokkra af þeim merkisgripum búnaðarsögu áranna eftir 1880 er Guðmundur var svo framsýnn og lánsamur að skjóta þar skjólshúsi yfir í kjölfar stofnunar Verkfærasafnsins á Hvanneyri árið 1940. Verkfærasafnið og gripir þess urðu svo vísirinn að Landbúnaðarsafni Íslands.

Í sögunni leynir Skemman þannig á sér, ekki aðeins fyrir það að vera einn fyrsti „skólaíþróttasalur“ landsins og að varðveita vísinn að Landbúnaðarsafni Íslands. Tilvist Skemmunnar var það að þakka að ekki þurfti að fella niður skólahald á Hvanneyri eftir brunann mikla haustið 1903. Ef til vill varð sú björgun afdrifaríkari en í fljótu bragði virðist því að um það leyti þótti ýmsum að fækka bæri búnaðarskólunum, m.a. vegna lélegrar aðsóknar, og til þess að spara í rekstri þeirra. Þær raddir heyrðust meðal annars eftir brunann að búnaðarskólann skyldi leggja niður á Hvanneyri og flytja til Reykjavíkur.58 Mjög líklega má því þakka Skemmunni það að enn er skólastarf á Hvanneyri.

Er kom fram á tíunda áratug síðustu aldar var séð að eitthvað yrði að gera í málefnum Skemmunnar, því óvarlegt sýndist að treysta eingöngu verndarhendi góðra vætta yfir húsinu. Þeir reyndust þó tryggir hrörnandi viðum þess og veggjum í Skarðsheiðarveðrum og öðrum ógnum daganna. Þó gerðist það vor eitt undir síðustu aldamót að eldur varð laus í Skemmunni í kjölfar fikts óvita er þangað höfðu laumast inn. Snarræði nærstaddra, m.a. úr hópi nemenda, varð til þess að húsið bjargaðist án teljandi skemmda.

Atburðurinn herti á aðgerðum. Bréfaskriftir og fundarhöld hófust. Húsafriðunarnefnd offraði einni milljón króna til endurbyggingar Skemmunnar. Dugði upphæðin nokkurn veginn fyrir launum arkitekts sem nefndin réði til þess að mæla upp húsið og teikna það. Verk arkitektsins fól ekki í sér mikla könnun á sögu hússins. Að hæfilegu skrafi loknu hófu kunnandi smiðir og aðrir vel hæfir handverksmenn endurgerð hússins, með árangri sem fyrirstöðumenn verksins tíunduðu og hrifnir gestir sáu með eigin augum þegar Skemman var tekin í notkun sem Safnaðarheimili sunnudaginn 7. febrúar 2010.

Það er því ljóst að Skemman, eins og við sjáum hana í dag, er töluvert annarrar gerðar en geymsluhúsið einfalda sem reist var árið 1896. Aðalatriðið er samt að húsið hefur fengið nýtt og fullgilt hlutverk. Við endurgerðina hið innra hefur verið reynt að halda til haga einkennum, sem kallað geta fram í hugum gesta hússins tilfinninguna fyrir aldurdómi Skemmunnar og merkilegri sögu hennar.

Að sínum hætti reyndist Skemman, þetta elsta hús skólastaðarins, hinn trúi þjónn í starfi skólans: Skemman var tilbúin og hlutverki sínu fullkomlega vaxin þegar mest á reyndi en hélt sér látlaus og þurftalítil til hlés þar í millum, stundum nær öllum gleymd. Því er myndarleg endurreisn Skemmunnar til nýrra og gefandi hlutverka í vaxandi byggð maklegt endurgjald fyrir langa og dygga þjónustu hússins við stað og skóla.59

58 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára. (1939), 104.

59 Skrifað 16. febrúar 2010 og í ágúst 2011; endurskoðað í desember 2020.

52

Nýja verkfærahúsið – Gamla Bút

„Ljóti andarungi“ Gamla staðarins á Hvanneyri?

Árið 1963 ákvað Guðmundur Jónsson skólastjóri að reisa fjölnota hús til ýmissa þarfa rannsókna og kennslu við Hvanneyrarskóla. Vélakostur skólabúsins tók æ meira pláss og verkstæðið í Hjartarfjósi uppfyllti ekki lengur kröfur sem kennsluverkstæði. Til skólans hafði líka ráðist ungur og öflugur vélakennari, Pétur Haraldsson. Trésmiður skólans, Haraldur Sigurjónsson, var á hrakhólum með aðstöðu. Verkfæranefnd ríkisins, sem var undir verndarvæng Hvanneyrarskóla, hafði líka ófullnægjandi aðstöðu til vaxandi verkefna sinna svo fátt eitt sé nefnt af því sem kallaði á meira húsrými.

Guðmundur skólastjóri samdi vafningalítið við verktaka á Akranesi um að reisa hús er sett var austan við hlaðið. Þannig luktist hlaðið og varð ferhyrningur markaður af norðurvegg kirkjugarðsins, Halldórsfjósi, gömlu hestaréttinni (Syðra verkfærahúsinu) og hinu nýja húsi, sem fljótlega var farið að kalla Nýja verkfærahúsið. Byggingin var um 500 m2, að mestu á einu gólfi með mikilli lofthæð. Byggt var úr forsteyptum einingum, sem þá þótti nokkur nýlunda, hannað af Björgvin Sæmundssyni verkfræðingi, síðar bæjarstjóra á Akranesi, muni ég rétt. Haustið 1963 unnu Haraldur Sigurjónsson smiður, Þórhallur Þórarinsson rafvirki og fleiri iðnaðarmenn við að innrétta bygginguna með margvíslegar þarfir skólans í huga. Þá um haustið var byggingin tekin í notkun.

Margt í húsinu var smíðað heima á Hvanneyri, m.a. hinar stóru verkstæðahurðir og allur lokubúnaður þeirra. Meira að segja einn miðstöðvarofninn, sem ekki mátti taka mikið rými og enn gerir fullt gagn, smíðaði staðarsmiðurinn Haraldur úr prófíljárni.

Byggingunni var skipt í fjóra jafnstóra hluta: Nyrsti fjórðungurinn varð verkfærasalur Verkfæranefndar ríkisins, nýttur í þágu verkfæraprófana nefndarinnar undir stjórn Ólafs Guðmundssonar. Þá kom salur sem Haraldur smiður Sigurjónsson fékk til starfsemi sinnar en hann annaðist um viðhald og hvers kyns smíðavinnu í þágu skólans. Í þeim fjórðungi var líka kyndiklefinn, en þrenn verkstæðahólfin voru yljuð með olíukyntum lofthitara. Þá kom salur sem notaður var til málmsmíða- og vélfræðikennslu skólans, en einnig sem vélaverkstæði. Þar réði Pétur Haraldsson vélakennari ríkjum. Syðsti fjórðungurinn var innréttaður sem tvær hæðir. Á neðri hæð voru snyrtingar, en þrjú herbergi sunnan gangsins sem inn í hann lá frá hlaðinu. Austasta herbergið fékk Verkfæranefnd en miðherbergið jarðræktarmennirnir Magnús Óskarsson og Óttar Geirsson. Þar fékk einnig inni sennilega fyrsti ritari skólans, hún Hafdís Pétursdóttir, haustið 1965. Fram að þeim tíma má segja að skólastjóri hafi einn annast öll skrifstofustörf fyrir skólann. Varð þetta eiginlegt upphaf að svo til samfelldu skrifstofuhaldi skólans sem ærið hefur vaxið með árunum. Vestasta herbergið var í fyrstu notað sem íbúðarherbergi fyrir starfsmenn skólabúsins. Síðar varð það bókasafn skólans þegar ekki dugði lengur til þess litla herbergið til vinstri við innganginn (en á nyrðri

53

vegg hans er áðurnefndur heimasmíðaði miðstöðvarofn!). Það herbergi var einnig nýtt sem skrifstofa fyrir starfsmann Bútæknideildar á árunum 1971-1973.

Þarna bjuggu menn strax við þann munað að eitt símtæki var á ganginum fram við skrifstofurnar. Eftir mismunandi hringingum hins handvirka símakerfis, sem þá tíðkaðist, voru menn kallaðir í símann: Verkfæranefnd hafði langa og stutta, jarðræktarmennirnir langa og tvær stuttar, en kennsluverkstæðið langa og þrjár stuttar, muni ég rétt.

Á loftinu urðu til tvær stórar stofur og tvær litlar geymslukompur austast undir súð. Á syðra loftinu var fljótlega komið fyrir fjölritunarstofu skólans, og ekki leið á löngu áður en útibú Kleppjárnsreykjaskóla fékk um nokkur ár inni á nyrðra loftinu sem kennslustofu, fram til vors 1973. Bændaskólinn nýtti rýmið á loftinu líka sem kennslustofu m.a. í verklegri eðlisfræði. Haustið 1972 var afgreiðsluskrifstofu skólans komið fyrir þar á loftinu um tíma. Í suðvesturhorni þar var innréttuð skrifstofa fyrir Ólaf R. Dýrmundsson yfirkennara Framhaldsdeildar, embætti sem stofnað var við skólastjóraskiptin haustið 1972.

Vart er hægt að ímynda sér nú, hálfri öld seinna, hve miklu Nýja verkfærahúsið breytti fyrir kennslu og tilraunastarf á Hvanneyri. Áhöld tilrauna- og rannsóknamanna höfðu verið geymd í hornum og skotum hér og hvar, helst á Fjóslofti og í Syðra verkfærahúsinu. Fagbókasafnið, þótt smátt væri í sniðum þá, bjó við þröngan kost á efnarannsóknastofu skólans á Fjósloftinu, og staðarsmiðurinn var á hrakhólum með áhöld sín og efni, það sem ekki rúmaðist í bílskúr við íbúðarhús hans. Kennarar höfðu skrifstofuaðstöðu heima hver hjá sér.

Með nýja verkfærahúsinu kom hins vegar rúmgott hús þar sem hver hafði sitt, enda virtist svo sem starfið í húsinu tæki brátt að blómstra. Til varð vinnuumhverfi 5-8 starfsmanna. Dró brátt að því að húsið yrði eins konar miðstöð skóla og bús, sem margir áttu leið um, bæði heimamenn og gestir. Starfsmenn voru flestir á líkum aldri – í yngri kantinum – og til varð frjótt og lifandi umhverfi.

Í tímans rás breyttust not hússins. Ýmislegt af því er nú horfið í gleymsku en nefna má nokkur atriði: Bútæknideild Rala sem tók við starfi Verkfæranefndar, í reynd á árunum 1966-1967, hafði nyrsta salinn til sinna þarfa allt fram til 1992 að deildin fékk eigið hús. Um 1970 fékk deildin einnig „miðsalinn“ svonefnda til ráðstöfunar, enda staðarsmiðurinn Haraldur þá horfinn til annarra starfa, og þarfir skólans á því sviði leystar með aðkomnum iðnaðarmönnum –

54

oftast verktökum. Vélakennslan var í sínum sal allt til ársins 2003 að henni var búinn staður í vesturenda hins nýja Bútæknihúss. Árið 1987 var Búvélasafninu búin aðstaða í „miðsalnum“. Markaði hún upphaf þess að safnið yrði gestum sýnilegt. Þar var nokkrum merkum gripum safnsins komið fyrir svo sumargestir að minnsta kosti gátu notið þeirra. Verktakafyrirtækið Jörvi hf fékk aðstöðu í Norðursalnum til aðhlynningar stórvéla sinna þegar Bútæknideild flutti í nýtt hús. Þar bjó Jörvi í sambýli við safnhornið um nokkurra ára skeið, og vann fyrir húsleigu með pússun nokkurra forndráttarvéla safnsins o.fl.

Það var svo árið 2003 sem salirnir allir þrír voru lagðir undir Búvélasafnið, síðar Landbúnaðarsafn Íslands. Stóð svo til síðsumars 2014 að safnið var opnað í Halldórsfjósi.

Þótt Nýja verkfærahúsið þætti ekki sterkviðað hefur það sloppið furðanlega vel við áföll í áranna rás. Þó gerðist það í stórvirði, sem gekk yfir Suðvesturland mánudaginn 24. september 1973, að þak hússins stórskemmdist. Ég gríp niður í dagbók mína frá þeim degi:

Við gátum lítið sofið vegna veðurgnauðar. Baromet féll um nær 5 mb/klst um miðnættið, fór niður undir 960 mb . . . Kl. 06.30 komu Kalli (Sig. Karl Bjarnason ráðsmaður) og Ól. Dýrm. (Ólafur R. Dýrmundsson yfirkennari Framhaldsdeildar) og sögðu þakið fokið af verkfærahúsinu. Fór ég þá heim og blasti við ljót sjón: Allar plötur af húsinu, og opið ofan í tóftina. Sem betur fór rigndi lítið. Fljótlega var skotið á fundi MÓ, ÓRD og BG til að ræða flutning verðmæta. MBJ var alveg við rúm (hafði verið veikur). . . Nemendur UBD (Undirbúningsdeildar) og fastafólk hóf síðan flutning alls úr suðurenda, lauk því kl. 17, einnig var rutt til í vélasölum og utan dyra. Járn lá eins og hráviður niður um Engjar og Fit. Sá dálítið á Fjósinu, en á því buldu plöturnar. Minnstu munaði að baggagat austan á Fjósi opnaðist. Hefði það gerst má telja víst að Hlaðan hefði skaddazt. – Tók að rigna undir kvöldið.

Tjónið á Nýja verkfærahúsinu varð verulegt og breytti ýmsu í starfi skólans. Flytja varð meginhluta starfseminnar í syðsta fjórðungi þess út í skólahúsið (Gamla skóla), þar sem rýmkast hafði við flutning skólastarfsins í Nýja skólahúsið (Ásgarð). Upp úr því urðu þær breytingar að kennarar sátu áfram þar úti en starfsmenn Bútæknideildar fengu mest af skrifstofurýminu á neðri hæð syðsta fjórðungsins til sinna þarfa. Er þeir fluttu út í Bútæknihúsið nýja var rýmið lagfært nokkuð og því breytt með þarfir Ullarselsins í huga sem þá flutti inn á neðri hæðina. Ullarselið fékk einnig rými á loftinu til sinna þarfa. Vegna komu Ullarselsins var suðurenda hússins gert nokkuð til góða með einangrun og útiklæðningu. Hafði hann þá látið ásjá af hörðu gnauði sunnanveðra um árabil. Þá má heldur ekki gleyma því að þar á ganginum var póstdreifing fyrir Hvanneyrarstað um árabil, áður en tekið var að bera póst í hvert hús.

Á loftinu, suðurhlutanum, hafði Andakílshreppur síðustu skrifstofu sína, áður en sameinaður var nágrannahreppum. Þar var einnig tölvumaðurinn Bjarki Már Karlsson með fyrirtæki sitt laust fyrir aldamótin (er síðar varð Nepal). Nú síðustu árin hefur Ungmennafélagið Íslendingur haft þar skrifstofu- og geymsluaðstöðu.

55

Um 1980 kom til álita að stækka húsið til austurs um helming af núverandi breidd m.a. með þarfir Verkfærasafns (síðar Búvélasafns) í huga. Karl Rochsén arkitekt hafið dregið upp hugmynd að einu og samhverfu þaki yfir bygginguna. Til sögunnar höfðu komið styrktarfjármunir til safnsins, m.a. frá búnaðarsamböndum og fleiri aðilum, til eflingar safninu. Voru þeir notaðir til þess að koma upp grunni að stækkuninni, þann er enn má sjá. Hins vegar þraut örendið og framkvæmdir stöðvuðust vegna fjárskorts. Þær voru ekki endurvaktar.

Ýmsir hafa hnýtt í útlit hússins sem og gerð þess – talið það bæði staðarlýti og ónýtt orðið fyrir löngu. Tillögur hafa verið um að jafna það við jörðu svo lóð þess mætti nýta til þekkilegri byggingar. Víst er um það að Verkfærahúsið, sem upp úr árinu 1992 fékk heitið Gamla-Bút, fellur ekki hvað arkitektúrinn snertir að hinum gömlu skólabyggingum á Hvanneyri. Vart er heldur hægt að segja að mjög hafi verið vandað til grunns hússins. Frá náttúrunnar hendi er hann afar erfiður þarna sem mætast mýri og klettaköst Hvanneyrarássins. Byggingarefni hússins og byggingaraðferð eru börn síns tíma, en þó afar athyglisverð tilraun til þess að byggja einfalt og ódýrt fjölnotahús.

Ég er ekki viss um að Guðmundur Jónsson skólastjóri hafi þurft mikinn tíma til þess að skipuleggja bygginguna. Engum var betur ljós þörfin sem hún átti að fylla. Þegar Guðmundur sá möguleika fátækrar ríkisstofnunar til framkvæmda, er alls óvíst að hann hafi þurft meira en eina samræðu við Ingólf landbúnaðarráðherra Jónsson um málið og síðan klárað það í einni ferð sinni á Oddfellow-fund úti á Skaga þar sem voru kunningjar hans er ráð höfðu á svona fjölnotahúsi. Það má fylgja sögunni að þeir reistu einnig annað hús, sömu gerðar en minna, fyrir Andakílsárvirkjun um svipað leyti. Stendur það enn, í góðu standi, fyrst húsa á vinstri hönd þegar ekið er heim að húsaþyrpingunni við Andakílsárfossa.

56
Þeir áttu oft leið um „Nýja verkfærahúsið“ Ólafur Guðmundsson frkvstj., Guðmundur Jóhannesson ráðsmaður og Magnús Óskarsson tilraunastjóri (ljósm. Sævar Geirsson).

Ég hef fylgst með þessu Nýja verkfærahúsinu allt frá október-byrjun 1963, að ég hóf nám við Framhaldsdeildina á Hvanneyri. Í húsinu átti ég vinnustað um nokkurra ára skeið, auk þess að hafa fylgt því á vegum Búvéla- og síðar Landbúnaðarsafns Íslands. Mér er til efs að önnur bygging á Hvanneyri hafi rentað sig betur en Gamla-Bút. Fyrir því hef ég m.a. þessi rök:

dz Búvélaprófanir Verkfæranefndar og síðar Bútæknideildar Rala spöruðu íslenskum bændum stórfé, sem og bútæknirannsóknir þessara aðila. Raunverulegt leiðbeiningastarf á þessu mikilvæga fagsviði fór líka fram í þessu húsi um langt árabil. Þangað leituðu margir bændur tækniráðgjafar.

dz Verkfæra- og vélfræðikennsla skólans fór þarna fram við býsna góðar aðstæður. Ófáir nemendur skólans hafa í mín eyru borið lof á það sem þeir lærðu þarna og varð þeim til gagns síðar í lífinu.

dz Metnaðarfullar og umfangsmiklar jarðræktarrannsóknir Hvanneyrarskóla áttu miðstöð í húsinu. Á löngu tímabili var skólinn leiðandi á þessu sviði á landsvísu, t.d. á hinum erfiðu kalárum í kringum 1970.

dz Nýja verkfærahúsið gat rúmað grunnskóladeild svæðisins á viðkvæmum tíma (um 1970) þegar tekist var á um að fá heimangönguskóla á Hvanneyri fyrir vaxandi barnafjölda þar í stað heimavistar barnanna á Kleppjárnsreykjum. Varð það upphaf að grunnskóla á staðnum sem haldist hefur síðan. Við það bötnuðu starfsskilyrði barnafjölskyldna á skólastaðnum til muna.

dz Hvanneyrarskóli bar gæfu til þess að skjóta skjólshúsi yfir Ullarselið sem bæði hefur skapað fjölda manns í héraðinu vettvang fyrir handverksvörur sínar og dregið þúsundir gesta á staðinn. Má því kalla Gamla-Bút atvinnuhúsnæði fjölda fólks, þótt ekki fari mikið fyrir því.

dz Hlutverk hússins í þágu safns um sögu og þróun landbúnaðarins hefur aukið veg skóla og staðar sem ekki þarf að fjölyrða um. Í húsinu hefur Landbúnaðarsafn Íslands orðið til.

dz Vegna einfaldrar hönnunar og ódýrs byggingarforms kostaði jafnan sáralítið að breyta byggingunni í samræmi við hinar síhviku þarfir eiganda síns og notenda. . .

Hlutskipti Gamla-Bút minnir um margt á gamlingjans sem kominn er í hornið: Hann er ef til vill ekki mjög ásjálegur lengur og sakir æsku sinnar vita fæstir að hann átti líka sína daga; daga þar sem hann vann verk er urðu grunnur að ýmsu því sem í dag stendur og þykir sjálfsagður hlutur og vart fréttnæmur.

Gamla-Bút getur með nokkru stolti horft til baka til þarfra og fjölbreyttra ævihlutverka sinna. Þann daginn sem hússins verður ekki lengur þörf og stórvirk tæki mola það niður og flytja byggingarleifarnar burtu má ganga út frá því sem vísu að fjarlægð verður fullnýtt fjárfesting. Eftir stendur hins vegar saga, ekki ómerkari en margra annarra húsa þótt fallegri kunni að þykja, saga sem átti sér upphaf, ris og endi í góðum takti við þarfir hvers tíma.60

60 Skrifað í september 2016.

57 - ooo -

II. kafli

Nokkrir minjaþættir frá Hvanneyri

Í áranna rás hef ég rekist á nokkrar minjar um gamla verkhætti á Hvanneyri eða jörðinni tilheyrandi. Tilviljun réði því lengst af hvaða athygli ég veitti þeim. Nú hef ég hins vegar reynt að safna helstu punktunum saman og orðið mér úti um fyllri upplýsingar um þá staði mér þykja hvað athyglisverðastir. Ekki vil ég nú kalla þetta minjarannsóknir, miklu frekar grufl og hugleiðingar göngumanns.

58

Nátthagi og kvíar

NÁTTHAGINN Á STEKKJARHOLTUNUM

Sunnanvert á Stekkjarholtunum, svo sem 700-800 metra suðvestan við Ásgarð, aðalbyggingu LbhÍ, eru minjar um nátthaga sem þar stóð. Um nátthagann hefur verið hlaðinn grjótgarður, allmikið mannvirki. Nátthagar eru frá þeim tíma þegar sauðamjaltir tíðkuðust. Þeir voru algengir og mjög nauðsynlegir á bæjum, dálitlar girðingar eða gerði nærri bæ, oft í túnjaðri og voru mest notaðar til þess að hafa kvíaær í þeim yfir nótt á meðan smalinn svaf. Þá voru ærnar tiltækar að morgni án þess þó að hafa staðið í þrengslum eða algerum svelti yfir nóttina. Nátthagar komu sér einnig vel við að hafa aðra stjórn á sauðfé.61 Með sínum hætti voru nátthagar einnig liður í ræktun lands, þannig að með þeim mátti stýra aðgangi beitarfjár og rækta upp land sem varð að góðu túni eftir áburð og traðk fjárins.62 Því má enn í allmörgum túnum finna spildunafnið Nátthaga.

Nátthagar voru meðal þeirra búnaðarbóta sem breiddust út við nýsköpun búnaðarhátta hérlendis er leið á nítjándu öld. Búnaðarfrömuðurinn Torfi Bjarnason skólastjóri í Ólafsdal mælti til dæmis með þeim, þótt hann vildi fremur kalla þá bæli því að í þeim hefðu ærnar enga beit.63 Hvað var þá eðlilegra en að tengdasonur hans, Hjörtur Snorrason skólastjóri á Hvanneyri, reyndi aðferðina á búi skólans þar?

Kristján Vilhjálmur Guðmundsson frá Kirkjubóli í Dýrafirði, þá nemandi á Hvanneyri, skrifaði Margrétu, systur sinni, þann 14. júlí 1906 m.a.:

Skólapiltar riðu til Þingvalla þann 29. júní . . . ekki neinir vinnumenn með . . . þótti ekki viðeigandi að biðja um leyfi, því nóg var að starfa. Þá var verið að keppast við grjótgarðinn kringum nátthagann, áður en farið væri að slá. Hann er hér nokkuð langt frá bænum . . . og er garðurinn ærið dýr, 12 eða 14 menn við hann í fleiri daga, fyrir utan það sem skólapiltar höfðu unnið við hann í vetur.64

Við norðvesturvegg nátthagans er dálítil kví, eða þó fremur rétt; svo stór er hún. Hún stendur hátt svo auðveldlega hefur runnið frá henni. Botn nátthagans var allvel gróinn þegar ég kannaði mannvirkið fyrst af alvöru, 6. júní 1990. Mest þar gæti verið seinni tíma gróður því líklega hefur nátthaginn ekki verið notaður lengi, eins og síðar verður vikið að.

Nú má nefna að vestur í Ólafsdal er að finna mjög áþekkan nátthaga/stekk. Sá er 0,96 hektarar að stærð og er tvískiptur. Í öðrum hlutanum er kví með langveggnum, 3,9 x 14,8 m að stærð. Þessum tveimur nátthögum svipar því mjög saman. Er ekki ósennilegt að

Sjá t.d. Kristján Eldjárn: „Uslaréttir“. Árbók Hins ísl. fornleifafélags 77 (1980), 109.

Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands I (1919), 116-117.

Torfi Bjarnason: „Um áburð“. Andvari X (1884), 162.

Bréf KVG til MG í vörslu BG.

59
61
62
63
64

Nátthaginn á Stekkjarholtunum. Gulu punktarnir eru við hvert horn hagans. Hvítu punktarnir marka réttina, sem er opin til suðvesturs. Rauðu punktarnir vísa til óljósra tófta sem kúra þarna vestanvert í Stekkjarholtunum og veggur nátthagans gengur yfir (Loftmyndir ehf).

Hjörtur hafi haft Ólafsdals-nátthagann að fyrirmynd, svo vel sem hann var kunnugur öllum aðstæðum þar vestra.65

Kristján Vilhjálmur skrifaði að garðurinn um nátthagann hafi verið „ærið dýr“. Má vel skilja það þegar leifar hans eru skoðaðar. Garðurinn hefur verið um það bil 1 meter á þykkt, tvíhlaðinn, sumpart úr stórum steinum; þannig hefur hann verið vörn á báða vegu. Hann er 280 m langur. Ekki er auðvelt að áætla hver hæð hans hefur verið því bæði er hann nú víðast siginn í svörð og gróður hefur safnast að honum. Undirstaða hans stendur þó enn vel. Varla hafa veggirnir um nátthagann verið lægri en 1 m á hæð, líklega þó fremur um 1,2 m. Grjótið í veggnum öllum hefur þá numið liðlega 300 m3 sem gæti hafa vegið meira en 600 tonn – auk grjótsins í réttarveggnum. Það er því ekki lítið sem skólasveinar og aðrir drógu að af efni. Það er ættað úr holtunum austan við nátthagann; sprungið grágrýti sem þar er nóg af í ýmsum stærðum. Flatarmál nátthagans er um það bil 5.000 m2 – hálfur hektari. Hann stendur í dálitlum slakka í gróinn klappaásinn sem umluktur er hallamýrum. Í nátthaganum hefur því verið þurrlent og úrkoma getað sigið í burtu. Ætti því að hafa farið vel um kvíaærnar í flestum sumarveðrum.

Í norðurhorni nátthagans eru allgreinilegar tóftir í þyrpingu og umhverfis þær stórþýfi. Þarna virðast þrennar tóftir liggja samsíða og er lengdarstefna þeirra í NV. Vestari tóftirnar tvær eru innan nátthagagarðsins. Þriðja tóftin er þeirra hvað greinilegust og liggur fast norðaustan við hann. Mannvirki þessi hafa snúið opum til NNV. Tóftirnar grænkuðu lengi vel nokkru meira en umhverfið, sbr. athugun mína árið 1990. Fátt annað virðist vera þarna nema hugsanlegt er að að húsabaki séu teikn fjórðu tóftarinnar sem þá hefur snúið hornrétt á þær sem áður var lýst. Frá tóftunum eru 1200-1300 m heim á gamla Hvanneyrarstað –vegalengd sem kalla hefur mátt miðlungs stekkjarveg. Skiljanlegt er að Hjörtur skólastjóri hafi kosið að leggja nátthaga fyrir kvíaær skólabúsins þar sem Hvanneyrarstekkurinn stóð – þarna vestan til í Stekkjarholtunum.

65 http://www.landbunadarsafn.is/static/media/raektunarminnjar.66d8015d.pdf, lesið 15. ágúst 2021.

60

Myndin sýnir dæmi um hleðslu í veggnum um nátthagann - norðaustur veggnum. Hann hefur verið um það bil 1 m á breidd, hlaðinn úr vönduðu hleðslugrjóti sem nóg hefur verið af þarna nærlendis.

Tóftabrot á Stekkjarholtum sitt hvorum megin við NA-vegg nátthagans. Myndin er lauslega dregin en gefur hugmynd um skipan mannvirkjanna sem sýnilega eru mjög gömul og hafa því eflaust aflagast.

Á fyrsta tug tuttugustu aldar lögðu margir bændur fráfærur af bæði vegna skorts á vinnuafli en líka af hagkvæmniástæðum – batnandi kjötmarkaði. Halldór Vilhjálmsson, sem tók við Hvanneyrarskóla vorið 1907, var einn af þeim. Af skrifuðum heimildum, svo sem dagbókum nemenda skólans o.fl. virðist Halldór ekki hafa nýtt sér fráfærur sauðfjár. Hafi Hjörtur hins vegar gert það til búskaparloka á Hvanneyri hefur nýting nátthagans í því skyni verið afar stutt –ef til vill aðeins eitt sumar? Hins vegar nýttust nátthaginn og réttin áreiðanlega vel við rúning og önnur verk er snertu sauðfjárhald Hvanneyrarbúsins langt upp eftir síðustu öld.

61
Horft yfir nátthagann til vesturs. Tóftirnar þrjár við austurvegg nátthagans næst en fjær sér til réttarinnar við NV-vegg hans. Hún stendur þar á dálítilli hæð. Myndirnar voru teknar 23. júlí 2021.

Réttin í nátthaganum er 5,1-5,3 m breið,17,5 m löng og liggur við NV-vegg nátthagans. Hún er opin í þann endann sem myndin er tekin úr; horft er til N.

Nátthaginn kom sér vel fram eftir tuttugustu öld þegar rétta þurfti fé skólabúsins, svo sem við rúning og fleira. Ég minnist þess ekki að talað hafi verið um Nátthagann þarna; hins vegar var talað um Réttina, muni ég rétt.

Vorrúningur á Hvanneyri snemma á síðustu öld. Það er Halldór skólastjóri sem þarna er á miðri mynd með heimilisfólki sínu (ljósm. frá Þórhalli Halldórssyni).

62

FLEIRI KVÍAR Í HVANNEYRARHVERFINU

En jafn auðskilinn og nátthaginn sjálfur er gildir ekki það sama um tóftirnar þrjár við NAhlið hans. Nærtækast er að álykta að þar hafi staðið stekkur, sbr. nafn holtanna, Stekkjarholt. Þarna er langt í vatnsból svo tæplega hefur verið þar um lengri en tímabundna mannvist að ræða, svo sem einhvers konar sel.

Nú varð það svo að í Hvanneyrarhverfinu voru áður nokkur býli auk heimajarðarinnar. Því er hugsanlegt að þarna hafi fleiri býli átt hvert sinn stekk eða verið saman um einn stekk. Hjörð kvíaáa tileinkar sér fljótt vanafasta hegðun. Ekki er ósennilegt að hjörð hvers býlis hafi verið haldið til beitar á „sínum stað“ í haglendi Hvanneyrar og þá rekin til mjalta hver í sinni kví? Miðað við lengd tveggja vestari tóftanna, um 5 m, má gera ráð fyrir að í þeim hafi rúmast 25 kvíaaær við mjaltir.

En fleira er. Fyrir nokkrum árum tók ég eftir minjum um kví í Suðurholtunum á Hvanneyri. Um er að ræða aflanga tóft sem er all vönduð, 1,9 x 8,0 m, grjóthlaðin, en nú vel vallgróin. Hnit hennar eru N 64°33,359 og V 21°45,932. Mjög líklega stóð þarna stekkur ellegar kví til sauðamjalta. Miðað við lengd hennar má gera ráð fyrir að í henni hafi rúmast 35-40 kvíaær.

Kvíin stendur á þurrlendum hrygg austanvert við allháa klettaborg og veit dyraop hennar til norðurs. Grunnur hennar hefur því haldist vel þurr og frá klettaborginni hefur sést vel til haganna umhverfis sem að mestum hluta er mýrlendi. Þarna er mjög fallegt stekk- eða kvíarstæði. Um það bil 1000 m gangur hefur verið frá kvínni heim að gamla Hvanneyrarbæ (heimajörð).

Ágiskun mín er sú að kvíin á Suðurholtunum sé yngri en kvíarnar hugsanlegu vestan við Stekkjarholtin. Nátthaginn þar hefur sennilega verið í notkun skamma hríð. Útlit kvíanna tveggja vestan við Stekkjarholtin bendir til þess að þær hafi verið aflagðar áður en nátthaginn kom til – og verið eins og örnefni holtanna bendir til, stekkur eða stekkir frá einhverjum býlanna í Hvanneyrarhverfinu.

63
Kvíin í Suðurholtunum á Hvanneyri; horft eftir lengdarstefnu hennar.

MINJAR Í LANDI STAÐARHÓLS – LEGOLANDI

Vegna áforma um hesthúsbyggingu í svokölluðu Legolandi Staðarhóls vorið 2011 hafði Ómar Pétursson byggingatæknifræðingur vakið athygli á sýnilegum minjum í landi þar sem liggja á framhald vegar um hesthúsahverfið þar. Að beiðni þáverandi rekstrarstjóra LbhÍ skoðaði ég minjarnar í maí 2011. Þá voru þær vel sýnilegar á yfirborði sem þarna er vel gróið grasi. Ég brá lauslegu máli á minjarnar, sjá meðf. uppdrátt.

Mest áberandi er býsna regluleg tóft sem liggur í brekkurótum ofan Engjanna, á að giska 3-5 m yfir yfirborði þeirra. Lengdarstefna tóftarinnar er h.u.b. SA-NV. Tóftin liggur undan hallanum í örlitlum slakka sem þarna verður í Kinninni mót NV. Þúfnakargi vestan við tóftina er ógreinilegur; gæti hugsanlega verið leifar gamallar tóftar en líka orðinn til vegna vatnsrennslis meðfram aðaltóftinni. Sömuleiðis er ógreinilegur kargi neðan (NV) við tóftina. Í honum er grjót sem gæti verið leifar af einhvers konar hleðslu.

Grunnmynd af tóftinni í Legolandi og ummerkjum næst henni.

Punktur í austurhorni tóftarinnar hefur hnitin N 64°34,317 og V 21°44,776. Vænt grjót er í tóftinni, einkum SA-gafli hennar, svo sýnilega hefur verið haft fyrir hleðslunni. Grafin var 40 cm prufuhola í miðju tóftarinnar. Efstu 35 cm voru nær hrein mold og svörður, en fyrir neðan tók við smágrýttur aur. Ekki var að sjá þar neitt gólflag. Aurlagið var í 85 cm dýpt miðað við núverandi hæð veggja tóftarinnar.

Hvaða gæti hafa verið þarna? Um notkun eða sögu minja þessara verður því um sinn að beita hreinum ágiskunum. Mannabústaður hefur varla verið þarna. Til þess er of langt er í nothæft neysluvatn og staðurinn fremur aðkrepptur:

dz Þarna gæti hins vegar hafa verið fjárrétt, eða að minnsta kosti mannvirki sem tilheyrði gripahirðingu. Veggjalag og stærð tóftar, svo og ágiskuð dýpt hennar gæti bent til þess. Mjaltakví er það þó ekki; til þess er réttin of breið. Ekki er útilokað að veggjabrotin framan við tóftina séu leifar e-s konar aðhalds við innrekstur fjár.

dz Hugsanlegt er að þetta hafi verið heygeymsla – heygarður: að í tóftinni hafi verið borið upp hey af Engjunum sem eru skammt undan. Góður þurrkvöllur fyrir hey hefur verið umhverfis tóftarstæðið og reiðingstorf ekki langt undan. Breiðu dyrnar – undan verstu úrkomuáttinni – gætu átt þá skýringu.

64

Minjar í fornum búlöndum Hvanneyrarkirkju

SKÓGARKOT

Hvanneyrarkirkju tilheyrðu ýmsar eignir, þar á meðal jörðin Skógarkot. Hún var yst/syðst jarða í Andakílshreppi. Í Jarðabók Árna og Páls fyrir Andakílshrepp frá 23. júní 1707 segir svo um jörðina: „Bygð fyrst þar sem aldrei hafði fyrr bær verið innan 40 ára, í landi því sem eignað er Hvanneyrarkirkju.“

Skógarkotið taldist þá vera sex hundruð að dýrleika og var kallað nýlenda (nýbýli?). Var þá meðtalið engi sem kotinu fylgdi frá því að það var byggt „og liggur sunnan til við Andakílsá.“66

Tveimur og hálfri öld fyrr (1463) er Hvanneyrarkirkja sögð hafa átt „skógarpart“ í Grjóteyrarskógi.67 Líklega hefur kotið verið reist á þeim parti. Árið 1560 voru taldar jarðeignir kirkjunnar og „að auki xc kot heiter j Tungu j eyði.“68 Þar sem Jarðabókarmenn skráðu Skógarkot sem nýlendu er það líklega ekki sú Tunga, sem þarna er nefnd, heldur Grjóteyrartunga.

Horft til gamla bæjarhólsins í Skógarkoti. Sér til róta Tungukolls nær en Hafnarfjalls fjær.

Þegar Jarðabókin var skráð 1707 voru í Skógarkoti þrír nautgripir, þar af tvær kýr, sautján fjár, þar af níu ær með lömbum, og tvö hross. Leigukúgildi voru eitt og hálft, og fyrir þau greitt í smjöri. Þetta voru kjör ábúandans, Runólfs Jónssonar, og fjölskyldu hans. Talið var að jörðin bæri aðeins tvær kýr og tólf lömb. Virðist því búpeningur Runólfs bónda hafa verið nokkuð umfram það sem kostir jarðarinnar voru taldir leyfa. Um það segir enda í Jarðabókinni: „Hvað meira er ásett, er vogað á vetrargæsku eður nábúa þolinmæði.“

Lömbin tólf og hálf kýrnyt hefur því nokkurn veginn verið það sem kom í hlut kotbóndans, að leigum greiddum, ef fullt tillit hefði verið tekið til landkosta við ásetning.

Sunnudaginn 31. júlí 1988 gerði ég ferð til þess að leita að Skógarkoti. Ég hafði aldrei haft sinnu á að spyrja einhvern kunnugan um bæjarstæðið. Sagt var að það stæði innst í Hafnarskógi og á kortum Landmælinga Íslands er kotið merkt.69 Við þá merkingu studdist ég í fyrstu.

66 Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók IV (1925 og 1927), 173-174.

67 Íslenskt fornbréfasafn V, 409.

68 Íslenskt fornbréfasafn XIII, 553.

69 Landmælingar Íslands: 26 Borgarfjörður NA; 1:50.000.

65

Eftir nokkra leit taldi ég mig finna allmikinn þúfnakarga sem minnti á tóftabrot. Er hann svo sem miðja vegu á milli fjallsróta og Borgarfjarðarbrautar, beint upp af þriðja staurapari í Skaga-raflínu talið frá hitaveitutankinum sem stendur þarna á Grjóteyrarhæðum, eins og sumir kalla nú. Fjallið Tungukollur gnæfir yfir staðnum. Þarna sást móta fyrir U-laga tóftum er snúa dyrum mót norðvestri. Þýfið er mjög gróft og í því er augljóslega mikið af grjóti. Þúfurnar voru þá snöggbitnar og trúlega mótaðar af langvarandi traðki beitarpenings: sauðfjár og ekki síst hrossa. Erfitt var nú sakir grasvaxtar (2021) að gera sér grein fyrir tóftaskipan en ljóst virtist mér að nokkuð stórt mannvirki hefur staðið þarna. Líklega hafa húsin verið fleiri og þá samstæð.

Tóftirnar standa fremst á allnokkru þurrlendiskasti sem allt er grasi gróið, svo og næsta umhverfi allt. Ofan og neðan við kastið er hins vegar deiglent. Enn neðar og innar (til NA) fer að bera á uppblæstri og rofi. Suður af líklegri bæjartóft er hringlaga grjótrúst á dálitlum hól með grónum fleti í miðju, sýnilega úr völdu grjóti sem þarna hefur verið borið saman. Ég giskaði á að þarna hefði verið hlað eða fjárborg, nú hrunin til grunna. Skammt vestan við hana sýnist hafa staðið kví, 1,8 x 3,0 m. Norðurveggur hennar er mjög hruninn og ógreinilegur. Dyr kvíarinnar hafa vitað í vestur og þar er veggstubbur sem ef til vill hefur auðveldað aðhald og innrekstur. Kvíin ætti að hafa rúmað svo sem 15 ær.

Merki um tún eru þarna engin. Styður það lýsingu Jarðabókarinnar sem segir: „tún er nær því ekkert“ . . . Hins vegar segir að þar sé hætt fyrir fjallskriðum og að þær vaxi árlega. Þótt smágil sé rétt inn af ætluðum tóftahól verður í dag ekki séð að skriður ógni þessum stað og grjóthrun úr fjallinu er óverulegt. Allt graslendi umhverfis tóftahólinn er þýft og ógreiðfært til sláttar; hvergi samfellda teiga að sjá.

Frá ætluðum tóftum sér vel yfir hérað, allt frá Andakíl í norðaustri (Vatnshamraholti) til róta Hafnarfjalls í vest-suðvestri. Sennilega er veðrasamt á tóftahólnum því hann ber nokkuð yfir næsta umhverfi sitt. Var heyjum enda hætt í stórviðrum, að því er segir í Jarðabók. Sitt hvorum megin hólsins falla litlar lækjarsitrur fram. Mynda þær tungu sem tóftirnar standa á. Lækirnir eru litaðir mýrarauða og geta því tæpast talist góðar lindir neysluvatns. Um það bil 200 m innan við tóftirnar fellur hins vegar fram tær lækur (í Flæðihöfðagil ?).

Sjáanlegar minjar í Skógarkoti; kvíin er þeirra greinilegust og það sem hugsanlega hefur verið hlað – eða fjárborg.

66

Um það bil 300-400 m austan við ætlaðan tóftahól mátti allglöggt greina gamla mógröf. Engar skógarleifar er nú að sjá í nágrenni tóftanna, enda segir í Jarðabókinni: „Skógur er so þrotinn, að nú er hann valla til kolagjörðar og eldiviðar bjargligur.“

Nú má leiða hugann að því sem þarna hefur gerst. Fyrst nafninu Skógarkot. Einfaldasta skýringin á því er kot í skógi. Þegar byggð var sett þarna á ofanverðri sautjándu öld, um 1670 (?), er sennilegt að skógur hafi verið þar nærlendis, hugsanlega á því svæði sem nú einkennist af jarðvegsrofi og –eyðingu. Að minnsta kosti greinir Jarðabókin frá skógi í landi Grjóteyrar, sem er næsti bær innan við Skógarkot, nægum til „raftviðar, kolgjörðar og eldiviðar, brúkast sjaldan til að bjarga peníngi í heyskorti.“ Í Tungu (Grjóteyrartungu) hafði skógur verið „en nú rifhrís alleina, brúkast til eldiviðar og kolgjörðar.“ Sömuleiðis í Árdal „en nú nær eyddur, brúkast þó til kolgjörðar og eldiviðar.“ Ekki getur Jarðabókin skóga á Ytri Skeljabrekku og þurfti þar „allan eldivið út að kaupa.“ Er því líklegast að skóglendi hafi teygt sig allt að Árdalsá að minnsta kosti, hugsanlega yfir það svæði sem nú einkennist af lynggróðri og hálfberum holtum. Má geta þess að í snarbröttum skriðuteigunum innanvert í Árdalsgilinu eru enn allnokkrar og sæmilega gildar birkihríslur. Kann Skógarkot því að hafa verið umlukt skógi, hafa verið kot í skógi eins og fyrr segir, og að það hafi að einhverju leyti skýrt þá landþröng kotsins sem Jarðabókin greinir frá? Með vísun til þess að Skógarkot var talið tilheyra Hvanneyrarkirkju langt fram á tuttugustu öld voru uppi hugmyndir hjá Hvanneyrarskóla, eiganda kirkjunnar, um að koma upp beitargirðingu í landi kotsins. Í dagbók Guðmundar skólastjóra Jónssonar segir að 25. apríl 1953 hann hafi ásamt Guðmundi Jónssyni á Hvítárbakka og Sigurði Sigurðssyni á YtriSkeljabrekku athugað land Skógarkots með tilliti til þess að koma þar upp girðingu fyrir naut og stóðhross. „Leizt okkur vel á þetta“, skrifaði Guðmundur. Samkvæmt sömu heimild mótmælti Óskar Hjartarson bóndi á Grjóteyri hugmyndinni þá um haustið, þar sem um væri að ræða ítak Hvanneyrar í Grjóteyrarlandi. Guðmundur skrifar að þá hafi hann fundið skjal um Skógarkot sem jörð (væntanlega sem sérmetna fasteign) og látið, þann 9. september, ýta

[Hér er skotið inn hluta af skrifum mínum á Facebook 16. febrúar 2021: . . . á heilsubótargöngu í sumarblíðu dagsins með sinni neðan við Skógarkot . . . Ég þóttist sjá bæjarhúsin þar sem við gengum hjá. Ég reisti við tóftakarga, sá ég ekki kotbæinn? Jú. Hækkaði þekjuna. Setti svo hrossin Runólfs austur á túnpentuna. Stækkaði hana ögn. Ímyndaði mér hana umlukta túngarði með birkiskóg utan við. Hann er minnsta kosti að vaxa núna. . . ES: Sagnfestufólk! Takið EKKI mark á þessu rissi.]

67

„fyrir girðingarstæði með jarðýtu.“70 Ekki mun hafa orðið af frekar framkvæmdum en sátta leitað. Tveimur árum seinna „eða þ. u. b. keypti Óskar Hjartarson Skógarkotið af Hvanneyri á fimm þúsund og fimm hundruð krónur og lagði undir Grjóteyri.“71

SELSTÖÐUR FRÁ HVANNEYRI

Hvanneyrarkirkja átti rétt til selfara sem Hvanneyrarbóndi hefur mjög líklega nýtt á tímum seljabúskapar. Samkvæmt máldaga frá árinu 1257 átti Hvanneyrarkirkja selför í Indriðastaðaland.72 Þremur öldum seinna er þeirrar selfarar enn getið en að auki selfarar í Kirkjutungur.73 Ekki er vitað hvenær selfarir frá Hvanneyri í þessi lönd lögust af. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1707 er þeirra ekki getið. Hins vegar segir þar um Horn í Skorradal en Kirkjutungur eru í landi þeirrar jarðar, sem var ein af jörðum Hvanneyrarkirkju: „Selstöðu hefur jörðin fyrir sig sjálfa í heimalandi, hana má ábúandinn öðrum ljá, ef hann vill ei sjálfur brúka, og hefur það sjaldan gjört verið, en þá skeð hefur, fyrir einhvörn góðvilja minni en xx álnir.“74 Má skilja frásögnina svo að á selstöðuna á Horni hafi verið litið sem sérstakan hluta jarðarinnar, eins konar „ítak“, sem fleiri en ábúandi gátu nýtt, til dæmis kirkjubóndinn á Hvanneyri. Ekki er ljóst hvort þarna er um að ræða sama ítak og skráð var í máldaga kirkjunnar á Hvanneyri. Orðalagið bendir ekki til þess að selstaðan hafi verið nýtt þegar Jarðabókin var tekin saman árið 1707. Seljabúskapur hafði þá líklega fallið niður því Jarðabókin getur ekki um neina jörð í Andakílshreppi sem hafði búpening í seli um þær mundir.

Í sóknalýsingum héraðsins skráðum veturinn 1840 segir: „Selstöður veit eg ei til að aðrir bæir eigi en Hvanneyri í Kaldárdal í Indriðastaðalandi sem orðin er óbrúkanleg af skriðum og fönnum og aðra í Kirkjutungum í Skarðsheiði norðanvert, er vel brúkanleg en notast nú ekki nema til að leigja hana nálægum bæjum til beitar og slægna . . . Nær þessar selstöður hafa niðurlagst held eg nú ei gott að uppgötva.“75 En hvar voru selstöður Hvanneyrarkirkju þær er sagðar voru í Kirkjutungum og í Indriðastaðalandi?

Skoðum fyrst Kirkjutungur: Kirkjutungur eru graslendi á milli Álfsteinsár og Hornsár í Skorradal. Tungurnar eru tvær og skilur Kirkjutungnalækur á milli þeirra. Land þetta er sérlega vel gróið, einkum þó vesturtungan: graslendi að meginhluta sem hallar til norðausturs. Þann 24. júlí 1983 gekk ég um Kirkjutungurnar og svipaðist um eftir mannvirkjaleifum sem bent gætu til selstöðunnar. Í vestari tungunni, nokkuð upp með Kirkjutungnalæknum, er eins konar hóll, eða þúfnakargi, á að giska 12 m á breidd og 23 m að lengd, og er lengd hans samsíða læknum. Þegar ég gekk þarna um var þúfnakarginn greinilega dekkri að grænum lit en umhverfið, einkum vegna þess að þar uxu aðrar grastegundir en í kring. Lýsinguna gat ég í aðalatriðum staðfest þegar ég leitaði staðarins 20. júlí 2021. Af þúfnakarganum var erfitt að

Dagbók Guðmundar Jónssonar skólastjóra. Óbirt. Í vörslu LbhÍ.

Orðsending Guðmundar B. Guðmundssonar til BG 17. febrúar 2021.

Íslenskt fornbréfasafn I, 589.

Íslenskt fornbréfasafn XIII, 553: „Jtem selfor. heiter Kyrkiutunga.“

Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók IV (1983), 156.

Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar. (2005), 256.

68
70
71
72
73
74
75

greina form sem bent gæti til skipulags mannvirkja. Þó sýndist mér mega greina þá skipan sem dregin er upp á meðfylgjandi mynd:

Þarna er sennilega um rúst hins forna sels frá Hvanneyri að ræða. Í þúfunum bar nokkuð á grjóti líkt og væri í veggjahleðslum en af grjóti er annars lítið þarna í næsta nágrenni. Minjarnar eru sýnilega mjög gamlar, svo grónar eru þær orðnar. Skammt er í vatnsból; aðeins á að giska 50 m austur í Kirkjutungnalækinn. Frá „selinu“ sést vel niður yfir vesturtunguna. Meintar minjar eru í fast að 200 m hæð. Áætla má að „selgatan“ frá Hvanneyri hafi verið 6-7 km löng.

Þarna í kring er mikið graslendi, þar sem skiptast á votlendisgróður og þurrlendi, sýnilega gott beitiland sem og heyskaparland. Þess má geta að um það bil 200 m neðan (norðan) við meintar seltóftir eru leifar af garði þvert um Kirkjutungurnar. Garðurinn er svo sem eitt fet á breidd og áberandi beinn. Bjarni Vilmundarson (1928-2016) bóndi á Mófellsstöðum kvað þetta vera garð sem hlaðinn var undir girðingu er þarna var gerð til þess að halda neðsta hluta Kirkjutungnanna hreinum fyrir fé svo slægjulönd þar spilltust ekki. Girðingin mun líklega hafa verið gerð á árunum upp úr 1930.

Lauslega dregin mynd af meintu seli frá Hvanneyri í Kirkjutungum í Skorradal.

Snemma á síðustu öld var Hvanneyrarfé jafnan fært í Kirkjutungurnar síðsumars og þar mun hafa verið fenginn maður til þess að ganga í kringum það daglega gegn nokkurri þóknun. Nemandi á Hvanneyri skrifaði 26. nóvember 1912: „Eg fór með tveimur öðrum mönnum uppí Skarðsheiði að sækja rollur Halldórs [skólastjóra Vilhjálmssonar], ca. 320 lömb var búið að taka áður og ca. 50 rollur.“76 Bjarni á Mófellsstöðum vissi ekki um sel frá Hvanneyri á þessum slóðum en benti mér á að selið frá Mófellsstöðum, Gljúfrasel, væri svo sem hálftíma gang frá Mófellsstaðabæ, fast austan við Hornsána.77

En þá var það selstaðan í Indriðastaðalandi. Ég innti Þorgeir Þorsteinsson (1902-1999) á Grund í Skorradal eftir henni, en Þorgeir var mjög vel kunnugur þeim slóðum. Þrátt fyrir örnefnin minntist Þorgeir ekki seltófta í Selskógi eða á Selflötum, grasi grónu mýrlendi upp af sumarbústöðunum í Indriðastaðalandi austanverðu. Hafði Þorgeir þó oft farið þar um, m.a. með símalínum í bilanaleit.78 Lausleg leit, sem ég gerði 30. júlí 1983 með dætrum mínum,

76 Aðalsteinn Magnússon frá Grund í Eyjafirði, nemandi í Hvanneyrarskóla, í óbirtri dagbók. Í vörslu LbhÍ.

77 Bjarni Vilmundarson á Mófellsstöðum í samtali við BG 26. desember 1983.

78 Þorgeir Þorsteinsson á Grund í Skorradal í samtali við BG 19. júlí 1982.

69

Tóftir af hinu meinta seli Hvanneyrar í Kirkjutungum eru á miðri mynd, vestan Kirkjutungulækjarins, eilítið grænni en umhverfið. Stafur stendur í meintri tóft. Fjær sér yfir Borgarfjörð/Hvítá og vestur um Mýrar.

Ásdísi Helgu og Sólrúnu Höllu, að hugsanlegri selstöðu í og upp af Selskógi bar ekki árangur. Þann 27. júlí 2021 gerði ég leit að selstöðunni með tilvísun áðurnefndra sóknarlýsinga frá 1840 í huga . . .„á Kaldárdal“. Og mikið rétt: Á vel gróinni eyri fast austanvert við Kaldá gekk ég fram á mjög greinilega kví, sjá meðfylgjandi mynd. Þarna er komið í um það bil 180 m hæð y.s.

Selstaðan við Kaldá. Tóft kvíarinnar fyrir miðri mynd; þúfnakraðakið til hægri gæti falið minjar fleiri mannvirkja.

70

Frá selinu, sem þarna virðist hafa verið, er útsýni til selhaganna mjög takmarkað. Aðeins u.þ.b. 80 m eru í Kaldána og þar hefur verið auðvelt að nálgast hleðslugrjót, sem mér sýndist allnokkuð vera í kvínni. Hún er töluvert mannvirki, 1,9 x 6,8 m með vænum veggjum. Gæti því hafa rúmað 30-35 ær við mjaltir. Þær virðast því hafa verið álíka stórar kvíin á Kaldárdal og kvíin/stekkurinn á Suðurholtunum heima á Hvanneyri sem sagt var frá hér að framan. Þær skyldu þó ekki hafa verið hlutar í sama fráfærna-/selstöðukerfi reistar fyrir sama ærhópinn –sem fyrst eftir fráfærur var heima á Hvanneyri, síðan hafður í seli um 4-6 vikna skeið og loks heima á Hvanneyri er ærnar tóku að geldast undir haust?

Skammt norður af kvínni er þúfnakraðak, eiginlega tvískipt. Ekki var mögulegt að greina tóftir þar en dekkri litur á gróðrinum vakti grun minn um að þar kunni fleiri mannvirki að hafa staðið.

Ekki sýnist mögulegt að stunda heyskap þarna nærlendis. Í landinu austur og upp af selinu skiptast á grasteigar, gil og holtaranar, en í þeim er ljóst líparítið áberandi og leyfir engan gróður. Lengra til norðurs tekur hins vegar við býsna þéttur birkiskógur.

Kindagötur greiddu leit mína að selstöðunni. Beggja megin hennar og samhliða Kaldánni eru göturnar býsna glöggar, raunar eins og manngerðar þar sem þær hafa myndað beina og skýra sneiðinga í brekkurnar. Er því líkt og selstaðan hafi verið um þvera götu sem lá annars vegar til skóglendisins norðan við selstöðuna en hins vegar suður og upp í teigana undir Skarðsheiði.

Minjar um selstöðu á Kaldárdal í landi Indriðastaða í Skorradal. Myndarleg kví er það helsta sem nú má greina þar.

Greiðust gönguleið að selinu er upp með Kaldá að vestanverðu þar sem skýr fjárgata liggur fast meðfram gili og gljúfrum Kaldár. Að austanverðu, Indriðastaðamegin, er leiðin hins vegar afar ógreiðfær því þar þarf að brjótast í gegnum birkiskóg, sem á pörtum er hávaxinn og afar þéttur.

Gera má tilraun til þess að bera selstöðurnar tvær saman. Engin leið er að giska á hvenær þær lögðust af eða eins og segir í sóknalýsingunum frá 1840: „Nær þessar selstöður hafa niðurlagst held eg nú ei gott að uppgötva.“79 Séu þær bornar saman við selstöður við Dýrafjörð80 er það ágiskun mín að Hvanneyrarselstöðurnar hafi varla verið í notkun eftir aldamótin 1800. Ég tel

79 Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar. (2005), 256.

80 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður við Dýrafjörð“. Rit LbhÍ nr. 133 (2020).

71

einnig líklegt að selstaðan í Kirkjutungum hafi lagst fyrr af, ef til vill vegna þess að það land var hentugra til annarra nota svo sem heyskapar og haustbeitar.

Selstöðurnar eru í svipaðri hæð yfir sjó, báðar eiga örskammt í vatnsból en útsýni yfir sellöndin og þá til hjarðanna er gerólíkt: mikið og gott í Kirkjutungum en nær ekkert við Kaldá. Sellönd á Kaldárdal bera meiri hálendiseinkenni en sellöndin í Kirkjutungum sem eru vel grösug – heil- og hálfgrösum. Þar hefur selfólkið getað stundað heyskap sem nær útilokað hefur verið nær selinu á Kaldárdal. Ósennilegt er annað en að selfólkið hafi dvalið í seljunum um seljatímann þó reglulega hafi afurðir verið fluttar heim að Hvanneyri. Leiðirnar eru of langar til daglegra ferða, um 6-7 km í Kirkjutungur en um 10-11 km í Kaldárdal.81 Ekki verður neitt af minjunum ráðið um íverustaði fólksins. Kvíin á Kaldárdal er sú eina sem skýra sögu segir um starfið í seljunum.

Sennilega hafa tvenn sel staðið í landi Indriðastaða: Áðurnefnt sel frá Hvanneyri á Kaldárdal annars vegar en hins vegar sel heimajarðarinnar nærri austurmörkum hennar megi marka örnefnin Selflatir og Selskógur sem þar eru. Máske finnast minjar um það einhvern daginn.82

Hér er byggt á líklegustu

Skrifað 2. ágúst

áætlun

72
81
leiðum og
með google earth. 82
2021.

Kista – fornbýli og fleira við Andakílsá

Suður með Andakílsá og vestur með Kistufirði myndar land Hvanneyrar totu sem segja má að mörkuð sé frá megin landi jarðarinnar með stokki, Litla-læk, sem fellur út í Andakílsána. Þannig afmarkast land sem er um 40 hektarar að flatarmáli. Að mestum hluta er það votlendi – engjaland – vaxið hálfgrösum. Meðfram ánni, mót austri, er þó röð klapparhóla með stefnuna SSV-NNA og er þar þurrlendi, að nokkru vallgróið, en að nokkru hálfhulið holtagróðri. Þarna stóð býlið Kista, en um það segir í örnefnalýsingu:

Var sjálfstætt býli, ein af þeim jörðum, sem Auðunn Salómonsson greiddi kirkjunni fyrir afa sinn 1420, er þá fyrst nefnd. Er þá í byggð til 1518, fer svo í eyði um tíma, er aftur byggð um 1570, svo um 1700 fer hún í eyði fyrir vatnsfjúk og fyr, er sagt, og hefur ekki byggst síðan. Var talin 12 hdr.83

Horft af Hrosshól norður yfir land Kistu. Dökkgrænn Bæjarhóllinn til hægri við miðja mynd.

Jörðin er sögð hafa verið í eyði í 15 ár árið 1707, áður byggð í 5 ár en lengi í eyði þar á undan. Síðan mun ekki hafa verið búið í Kistu.

Til heyskapar sýnist landið í dag hafa verið kostamikið með Kistuengið syðst. Þó segir í Jarðabókinni 1707:

Það ætla menn, að því hafi jörðin eyðst, að heyskapur var lítill, árið hart og landþröng fyrir jörðina Hvanneyri, ef það byggi peníngamaður . . . Örvænt þykir mönnum aftur hjer að byggja, nema til skaða jörðunni Hvanneyri og hennar býlum. Þar með og segja menn, að vatnsfjúk úr Andakílsá fyrir landsynníngs stórviðrum hafi hjer merkilega fordjarfað hús og hey, helst innhirð í garði.84

83 Örnefnaskrá Hvanneyrar. Örnefnaskrár í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

84 Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók IV (1925 og 1927), 179.

73

Langt hefur þó verið að sækja heyskap þangað frá Hvanneyri eftir að Kistu-byggð lagðist af, a.m.k. landveg. Hins vegar eru dæmi um að menn hafi komið langt af til heyskapar þar og þá sjóveg:

Skólapiltur á Hvanneyri skrifaði í dagbók sína 2. ágúst 1913: „Við Helgi vorum fram yfir miðdag úti í Kistu að taka saman hey undan flóði með fólkinu hans Jóh. Reykdals.“ 15. ág.: „Gísli var úti í Kistu að vinna fyrir Jóh. Reykdal.“ 16. ág.: „Var að binda hey fyrir Jóh. Reykdal.“ Og 17. ág.: „Ég svaf út í Kistu í nótt. Fór að vinna kl. 4 og vann til kl. 9 í morgun. Var að bera hey út í skip fyrir Jóh. Reykdal og flytja niður á bakkann.“85

Þurrlendishagar Kistu eru mjög knappir. Þar heitir þó á einum stað Rjómafit, meðfram Andakílsánni. Hún er að hluta vallgróin en að hluta votlend; nafnið gæti vísað til beitagæða þar. Bagi við búsetu í Kistu er að neysluvatn hefur verið afar takmarkað þar og líklega vont. Leirugt vatn Andakílsár eða sigvatn af votlendinu. Hvar átt hefur að fá eldivið er ekki ljóst. Hins vegar hefur Kistubýlið legið sérlega vel við samgöngum þarna við ós Andakílsár í botni Kistufjarðar. Örstuttur spölur hefur verið frá bæ og niður að ánni þar sem góð lending hefur verið, auk þess sem hleypa hefur mátt skipum upp í stokka á flóðum; „sjóargatan“ hefur verið mun styttri í Kistu en á bæjunum sunnan árinnar hvað þá á höfuðbýlinu, Hvanneyri. Raunar má ímynda sér að Kistubóndi hafi getað verið eins konar varðmaður þarna við ósinn með lendingarstaðinn Skiplæk rétt handan ár. Varla hefur mikið farið fram hjá honum á þeim tímum þegar Andkílingar, Skorrdælir og eflaust fleiri áttu þarna sjó- og vatnaleið.

Meðfylgjandi uppdráttur gefur hugmynd um form og legu Kistu-jarðarinnar. Með örnefnaskrá hennar í hendi gekk ég um landið 10. og 12. ágúst 2021, svipaðist um eftir minjum og brá máli á þær sem ég taldi mig greina. Flestar eru þær mjög óljósar svo greinargerð mín verður í ýmsu nær hugarflugi en harðmældum vísindum. Í henni er vísað til uppdráttarins.

Lauslegur uppdráttur af landi Kistu í Andakíl þar sem vísað er til helstu skráðra örnefna og talinna minja. (Ég hef fyrirvara á túlkun minni á örnefnalýsingu Kistu, einkum því hvar Litli-lækur liggur; tel þetta þó líklega legu).

85 Guðjón F. Davíðsson frá Álfadal: Dagbók. Óbirt, ljósrit í vörslu BG. Hér mun um að ræða Jóhannes Reykdal, sem þá rak bú á Setbergi við Hafnarfjörð en sótti heyskap um hinn langa sjóveg.

74

Án mikillar ábyrgðar er hér dregin hugmynd að bæjarhúsum í Kistu. Aðeins er lauslega stuðst við legu minja, sem virðast vera eftir hús sem þarna hafa staðið. Óvíst er þó hvort þau öll hafi gert það samtímis.

Fyrstur er Bæjarhóllinn (1), lágur en mikill um sig. Urmull stórra þúfna og önnur og dekkri gerð gróðurs (sem einkum er língresi) en umhverfis leyna þarna minjum um mannvirki. Hvað skýrust er tóft á NV-hluta hólsins ~2,2 x 5,5 m (N 64°32,404 og V 21°46,441) með stefnu SV-NA. Tófugras er ríkjandi í botni hennar. Þar sem einna hæst ber á hólnum virðist vera önnur tóft, óljós að lögun (N 64°32,395 og V 21°46,455). Fast vestan við hana sýnist sú þriðja vera, um 2,1 m á breidd en allt að 4,8-5,0 m á lengd; snýr til vesturs, grænni í tóftarbotninn en umhverfið. Þarna virðast vera mun fleiri tóftabrot. Þau benda til þess að Kista hafi ekki verið smákot, fremur býli þar sem töluvert var umleikis. Af þessum myndarlega bæjarhóli er mjög gott útsýni til umhverfis og á sólríkum sumardögum bylgjaðist gljáandi stargresið á Kistuenginu suður af bænum.

Gleggstu minjarnar í Kistu eru garður (2), sem hlaðinn hefur verið þvert yfir hólahrygginn nokkru norðan við Bæjarhólinn. Garðurinn liggur í mjúkum sveig frá austri til vesturs. Endahnit hans eru N 64°32,497 og V 21°46,294 að austan, en N 64°32,497 og V 21°46,424 í vesturenda. Hann er fast að 120 m langur. Garðurinn virðist að mestu hlaðinn úr torfi og hefur verið töluvert mannvirki. Vel má vera að hann sé mun yngri en bæjartóftirnar, svo vel sem hann heldur sér enn. Hvort hann hefur náð vestur yfir votlendið verður ekki greint. Garðurinn gæti til dæmis hafa verið hlaðinn um eða skömmu fyrir fyrri aldamót til þess að verja verðmætt slægjuland á Kistuengi, og að léttari girðing hafi þá verið sett upp yfir votlendið þar sem vetraflóð með ísreki geta farið hamförum?

Örnefnaskrá segir Hrosshól (3) vera frammi við Kistufjörðinn. Raunar eru hólarnir tveir og mjög skammt á milli þeirra. Verður ekki séð hvort hinn er ónefndur eða hvort um er að ræða ónákvæmni í örnefnalýsingu. Þá segir í örnefnaskrá: . . . „sjávarmegin við hann [Hrosshól] var byggð rétt til að rétta í fé.“ Þar var engar minjar að sjá enda eira vatnagangur og ísrek fáu sem þar er undir bergvegg hólsins. Hins vegar virtust mér í grasi gróinni austurhlið vestari hólsins vera misfellur í landinu sem gætu bent til réttar (N 64°32,293 og V 21°46,748). „Réttin“ gæti hafa verið svo sem 2,4 x 4,3 m að grunnfleti. Hvað greinilegastur er veggurinn sem upp í brekkuna veit og er heildreginn á meðfylgjandi rissi. Í „réttinni“ bar öllu meira á heilgrösum en í gróðri næsta umhverfis.

75

Sé nú haldið norður fyrir garðinn áðurnefnda (2), kemur Miðhóll. Þar var ekki að sjá neitt sem benti til minja. Hólaröðin rís allhátt nyrst þar sem við komum á Norðasta hól (5); þó er Miðhóll ívið hærri. Áðurnefnd Rjómafit sveigir sig um Norðastahól.

En þá á ég eftir að koma fyrir einum hóli enn og það er Selhóll. Hann er í örnefnaskrá sagður vera „norðvestan við Bæjarhólinn“ og ennfremur segir þar: „skammt norðan við hann rennur lítill lækur í Andakílsá, sem heitir Litli-lækur . . . næstum því á móti Fossaoddanum, þar var byggður yfirsetukofi við Selhól.“ Önnur lýsing, líklega byggð á sömu frumheimildum, er þessi:

Norðvestan við Kistu er Selhóll, rétt við Andakílsána. Þar var áður setið yfir kvíám. Skammt fyrir norðan Selhól er Litli-lækur og rennur hann í Andakílsá.86

Ekki verður af þessum lýsingum auðveldlega ráðið nú hvar Selhóllinn er. Norðvestan við Bæjarhólinn er engan hól að sjá. Hvað átt er við með seli hefur verið ýmislegt eins og vikið hefur verið að á öðrum stað, jafnvel allt frá einföldu skýli smalans í sellandinu til fullbúinnar aðstöðu til mjalta fastbúandi selfólks, vinnslu mjólkurinnar og jafnvel annarra verka, svo sem heyskapar.87 Sel voru jafnan sett nokkuð frá bæ. Fráleitt var þetta sel frá Kistu, til þess var það of nærri þeim bæ. Líklegra er að það hafi verið frá Hvanneyri eða einhverju býlanna þar í hverfinu. Votlendið, meginhluti Kistulandsins, hefur varla verið eftirsóknarvert beitiland fyrir kvíaær, megi marka almenna reynslu um kröfur sauðfjár á sumarbeit. Hins vegar vekur örnefnið Rjómafit grun: Vísar nafnið ef til vill á staðinn þar sem vænlegast var að halda ánum til beitar?

Eftir allnokkra rannsókn á Norðasta hól og næsta umhverfi sýndist mér að á tveimur stöðum gætu leynst minjar, á uppdrættinum merktar (6) og (7). Báðar eru á mishæðum, öllu minni en svo að kalla megi hóla. Númer (6) hefur hnitin N 64°32,710 og V 21°46,023. Kollur þeirrar hæðar er þéttvaxinn öðrum gróðri en umhverfi hans, eins og greina má á meðfylgjandi mynd.

Smáhóll (6) norðvestan í Norðasta hóli (5) í Kistu, hugsanlega eftir smalakofa úr torfi. Göngustafir rétt til hægri við miðja mynd vísa á staðinn.

86 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára. (1939), 40.

87 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður við Dýrafjörð“. Rit LbhÍ nr. 131 (2020), 39-41.

76

Vera kann að þarna hafi verið hlaðið skýli eða kofi fyrir smalann, sem hélt kvíaám til beitar þarna í næsta nágrenni Rjómafitjar. Dugði það ef til vill til þess að örnefnið Selhóll varð til? Ekkert grjót er þó að sjá úr hleðslu enda hefur þarna trúlega verið auðveldara að afla torfs en grjóts.

Ögn vestan við stað (6) er þúfnakraðak á dálítilli hæð (7) sem hefur hnitin N 64°32,682 og V 21°46,171. Hvort kraðakið leynir fornri tóft t.d. af kví verður ekki séð, en mætti vel rannsaka nánar. Því verður skilið svo við leitina að Selhól að hann sé annar hvor þessara staða og þá frekar staður (6). Það virðist oft hafa verið hjáverk smalanna og hluti af því að fá hjásetutímann til þess að líða að byggja einfalt skýli eða smalakofa. Um það gætu minjarnar verið. Við staðina (6) og (7) er alla vega skammt í Litla-læk, og þá má báða telja vera „rétt við Andakílsána“; hvort tveggja passar við örnefnalýsingarnar. Afar ólíklegt er að selstaða í Kistu hafi verið nýtt á sama tíma og jörðin var setin. Miklu líklegra er að þau ár sem ekki var föst búseta á jörðinni hafi landið verið nýtt sem selland á hásumrum. Þá hefur einnig legið beint við að nýta jarðarhús fyrir smalann og jafnvel til íveru fyrir annað selfólk. Leiðin frá Hvanneyri er þrátt fyrir allt það löng að tæplega hefur hentað að ganga þaðan til mjalta í Kistu á hverju máli. En jarðarhús fyrri tíma gengu úr sér á tveimur til þremur áratugum ef ekki var haldið við, m.a. með ábúð. Varla hefur komið til greina að halda þeim við aðeins til takmarkaðra sumarnota. Þá var einfaldara að reisa smalakofa. Tilvísun fólksins heima í Hvanneyrarhverfi varð einfaldari og Selhóll látið duga. Jafnvel gæti þá hafa verið átt við Norðasta holtið allt, ja, hver veit?

77

Beðasléttur

Á Hvanneyri má allvíða enn ganga fram á minjar um túnasléttun í beðum – beðasléttur. Sennilega má segja að þær séu áþreifanlegustu minjarnar um viðfangsefni Hvanneyrarskóla (og annarra búnaðarskóla) á fyrsta aldarfjórðungnum sem hann starfaði. Í verklegu námi sínu lærðu nemendur jarðrækt, ekki síst vinnubrögð við jarðvinnslu og sléttun túnanna. Þessum ræktunarhætti hafa verið gerð almenn skil á öðrum stað svo hér verður látið nægja að vísa til þess.88

Túnasléttun í beðum, sem raunar á sér mjög fornar rætur í evrópskum ræktunarháttum, breiddist mjög út hérlendis á nítjándu öld og þá ekki síst fyrir tilverknað búnaðarskólanna. Beðaslétturnar á Hvanneyri eru sennilega flestar frá tímabilinu 1889-1907 því vitað er að Halldór Vilhjálmsson, sem tók við skólastjórn 1907, hafði skömm á þeim enda hentuðu þær illa vélvæddum slætti, sem Halldór vildi beita. Eftir 1907 munu þær því ekki hafa verið gerðar á Hvanneyri.

Í dag eru hvað skýrastar eru minjar um beðasléttur í Kinninni, vestur af Gamla staðnum Ljósmyndir frá fyrri hluta síðustu aldar sýna að löng röð beðasléttna hefur verið þar allt frá lægðinni sem Tungutúnslækur fellur um og norður undir Þórulág. En má líka sjá breiðar beðasléttur utan í Ásgarðshólnum (N 64°33,808; V 21°45,185). Og fleiri svæði má nefna: Austan við Ásinn (Ásveg) eru merki um beðasléttur (N 64°33,951; V 21°45,701) og sömuleiðis á spildunni norðan við Svíra, þó mjög ógreinilegar (N 64°33,863; V 21°45,774).

Kinnin á Hvanneyri árið 1938, þétt mörkuð beðasléttum, sem áreiðanlega eru námsverkefni nemenda skólans.

Suðvestan við Tungutún sáust lengi vel minjar beðasléttna, sem hurfu við vegarlagningu og byggingu Rannsóknahúss á níunda tug síðustu aldar. Þær voru nokkurn veginn þar sem Gróðurhúsið stendur nú. Grunur minn er sá að þær hafi verið frá því fyrir stofnun Búnaðarskólans árið 1889. Páll Zóphóníasson taldi að fyrstu jarðabæturnar í Hvanneyrarhverfinu hafi verið gerðar árið 1874 og þá af Guðmundi Guðmundssyni bónda í Tungutúni: Skurðargerð og lítils háttar túnasléttun.89

88 Bjarni Guðmundsson: Yrkja vildi eg jörð. (2020), 109-123.

89 Páll Zóphóníasson: „Bændaskólinn á Hvanneyri þrjátíu ára.“ Óðinn XV (1919), 26.

78

Hér má þó nefna að getið er um jarðabætur á Hvanneyri allnokkru fyrr og þá innan vébanda Jarðyrkjufjelags í Andakýl og Bæjarsveit. Það var stofnað veturinn 1850.90 Þá þegar unnu bændurnir í Ásgarði, Tungutúni og Hvítárósi auk Hvanneyrarbónda (heimajarðarinnar) nokkuð að túnasléttun, samtals 340 ferfaðma (um 1100 m2). Í skýrslu um jarðabæturnar vekur það athygli að spildurnar, sem sléttaðar voru, virðast hafa verið af staðlaðri breidd, flestar 5 faðma breiðar (um 9 m).91 Mjög sennilega hafa bændurnir því viðhaft sléttun í beðum.

Þær beðasléttur á Hvanneyri, sem enn eru sæmilega greinanlegar, voru mældar. Helstu niðurstöður mælinganna eru dregnar saman í eftirfarandi töflu:

Staður Beð Breidd Vik Lengd Dýpt Halli beða Meðalbeð fjöldi m m m cm gráður m2 Ásgarður Nn92 8 5,5 4,0-7,2 24 40 12 132 Ásgarður Ne 2 8,6 8-9,8 26 50 13 224 Ásgarður A 5 9,6 6,4-12 31 35 20 298 Hvanneyrarkinn 5 7 8-12,5 36 65 17 252 Meðaltal 5 7,7 29 48 16 226 Staðalfrávik 2 1,8 5 13 4 70

Hér verður að geta þess að dýpt reina (rásanna) á milli beða segir ekki lengur til um hversu „há“ beðin voru upphaflega því marg endurtekinn vélsláttur, önnur umferð og heyslóði, sem safnast hefur í þær, hefur grynnt reinarnar. Samt má af tölunum ráða að mikil vinna hefur verið lögð í sléttunina. Má áætla að 10-15 dagsverk hafi farið í hvert beð, allt eftir því í hvaða mæli plógi var beitt, miðað við reglur um opinberan stuðning við jarðabætur undir lok nítjándu aldar.

Mörgum nemandum búnaðarskólans hefur gerð þessara beðasléttna orðið fyrstu kynni þeirra af jarðyrkju og túnasléttun sem þá taldist svo mikilvæg nýlunda. Þá kunnáttu báru þeir síðan með sér heim í og um sveitir. Því má kalla þessar minjar merkar og því er rétt að halda hlífiskildi yfir þeim.

90 Bjarni Guðmundsson: „Saga Búnaðarfélags Andakílshrepps . . .“. Rit LbhÍ nr. 145 (2022).

91 Þjóðólfur 3 (1851), 273-274.

92 Beðasléttur þessar eru norðan- og austanvert í Ásgarðshóli, vel sjáanlegar enn t.d. undir vor (N 64°33,808; V 21°45,185).

79
Frá Hvanneyri vorið 1962. Horft er til Hafnarfjalla og Tungutúns þar sem greina má gamlar beðasléttur í morgunsólinni (ljósm. BG).

Örnefni í Hvanneyrartúni og tilurð þeirra

Hvarvetna voru örnefni mikilvægur þáttur í daglegu lífi fólks – og eru víða enn. Þau voru nauðsynleg við mörkun og setningu staða í samræðu, tilvísunum og verkum, hvort heldur var á landi eða sjó, GPS-punktar sinnar tíðar. Örnefnin urðu til með ýmsum hætti. Mörg hver bárust á milli kynslóða og ábúenda einstakra jarða en önnur týndust, breyttust eða viku fyrir nýjum. Svo sem margir hafa rakið má ýmsan fróðleik til viðbótar staðarviðmiðuninni lesa úr örnefnum, fróðleik um staðhætti, náttúrufar, landnýtingu, atvik og sögu. Hér verður litlu við þau fræði bætt með almennum hætti heldur vikið að þeirri þörf fyrir ný örnefni sem fylgdi í kjölfar túnræktarbyltingar tuttugustu aldar þegar til urðu nýjar túnspildur, margar skýrt afmarkaðar af framræsluskurðum. Heyskapur færðist þá af engjalöndum, þar sem hver spilda hafði gjarnan sitt nafn, yfir á nýræktir, sem þá kölluðu á heiti svo auðvelda mætti viðmiðun í samræðum, og afmörkun í túnbók sem ýmsir tóku að færa sér til búnaðarbóta að hvatningu leiðbeiningaþjónustu landbúnaðarins. Mörgum varð að vísu fyrir að nota þar aðeins spildunúmer en spildunöfn hafa jafnan verið mönnum mun tamari í daglegu tali.

„Hver einn bær á sína sögu“ segir á einum stað og á það áreiðanlega við um það hvernig örnefni hinna nýju ræktunarlanda urðu til. Sem dæmi um slíka örnefnasmíði verður í þessari grein því fjallað um nokkur örnefni í Hvanneyrartúni.

HVANNEYRI – BYGGÐAHVERFI VERÐUR SKÓLASTAÐUR

Hvanneyri er talin vera landnámsjörð. Svo langt sem opinberar skrár ná var þar margbýli og byggðin sett umhverfis aðalbýlið (heimajörðina) svo talað var um Hvanneyrarhverfið. Árið 1889 var settur búnaðarskóli á Hvanneyri og hurfu smábýlin undir þá stofnun. Nöfn flestra smábýlanna lifa enn í nöfnum íbúðarhúsa á staðnum: Tungutún, Svíri, Staðarhóll og Ásgarður, það síðast nefnda er nú heiti á aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Helsta heyskaparlandið var á hinum gjöfulu engjalöndum vestan við byggðina – meðfram Hvítá og þá auðguð næringu frá vetrarflóðum hennar. Tún voru smá en tóku brátt að vaxa m.a. sem námsvettvangar verknámsnemenda skólans í ræktunarstörfum. Austan við Hvanneyrarhverfið var mýrlendi og flóar, svæði sem tekið var til túnræktunar í kjölfar nýrrar verktækni við framræslu og jarðvinnslu um miðbik síðustu aldar. Þar urðu Hvanneyrartún nútímans til; urðu helsta heyskaparland Hvanneyrarbúsins en þýðing engjalandanna minnkaði að sama skapi. Hvanneyrartúnin urðu því hvað helsti starfsvettvangur kaupafólks og verknámsnemenda Bændaskólans, og þá kom þörfin fyrir nöfn til staðartilvísunar að sjálfsögðu til sögunnar. Með dvínandi heyskaparumferð um Hvanneyrarengjar hurfu nöfn spildnanna þar í gleymsku. Þetta er saga sem sambærileg er mörgum öðrum íslenskum bújörðum. Hins vegar hefur Hvanneyri ekki haft sambærilega festu í búsetu fólks og víða hefur gerst á hefðbundnum bújörðum: Nemendur dvöldust aðeins um skamman tíma á skólastaðnum, sama gerðist um marga starfsmenn og þó að skólastjórar og ráðsmenn hafi flestir eignast drjúgan starfsaldur við skólann hefur „mannaveltan“ verið fremur hröð. Án

80

efa hefur hún haft áhrif á örnefnaflóruna á Hvanneyri; flýtt því að gömul örnefni hyrfu sem og því að ný örnefni yrðu til.

Um miðjan sjötta áratuginn var rannsóknastarf á sviði túnræktar stóreflt á Hvanneyri, m.a. til þess að leita svara við spurningum sem þá blöstu við bændum á miklu nýræktarskeiði, einkum hvað snerti val grastegunda, notkun tilbúins áburðar og sláttutíma. Nýræktaðar túnspildur voru valdar undir ræktunartilraunir þar sem hver tilraun spannaði marga smáreiti er hver hlaut sína skilgreindu ræktunarmeðferð. Valdar voru góðar spildur, einsleitar og vel unnar, á hentugum stöðum í Hvanneyrartúni. Mikið þurfti að snúast í kringum hverja tilraun svo ekki fór hjá því að oft þyrfti að vísa til hverrar tilraunaspildu, bæði í samtölum og í skráningu gagna. Kom þá að ákvörðun um nöfn spildnanna.

TILRAUNASTJÓRINN OG NÖFN TILRAUNALANDANNA

Magnús Óskarsson var árið 1955 ráðinn til þess að stjórna ræktunartilraunum og –rannsóknum Bændaskólans á Hvanneyri þegar ákvörðun hafði verið tekin um að efla þær til muna. Sinnti hann þeim rannsóknum allt til starfsloka, árið 1996. Magnús var mjög vel menntaður búvísindamaður og hafði á starfstíma sínum mikinn og lifandi áhuga á viðfangsefnum sínum sem og þjóðmálum almennt. Ræddi hann þau gjarnan við nemendur sína, en Magnús var áhrifamikill og einstaklega vel látinn sem kennari við Bændaskólann, þótti raunar frábær í því hlutverki. Og hefst þá sagan um tilraunastjórann og örnefni tilraunaspildnanna. Henni má skipta í þrjú skeið sem eru með sínum hætti tengd lífshlaupi tilraunastjórans.

▶ 1. skeið: Það má kenna við hefðir og formfestu vísindanna. Nýkominn til starfa, tæplega þrítugur, með ferska fræðimannsmenntun frá Danmörku í sínu farteski fékk Magnús þrjár mjög áþekkar nýræktarspildur til rannsókna sinna, á framræstri hallamýri austast í Hvanneyrartúni. Af fagmannlegri nákvæmni sinni kaus Magnús spildunum þremur nöfnin A-land, B-land og C-land. Hlutlaus og einföld nöfn rétt eins heiti tilraunaliða í hefðbundinni samanburðarrannsókn. Nöfn þessi lifðu góðu lífi á meðan tilraunir stóðu á spildunum en að tilraununum aflögðum hefur skafið yfir þau svo horfin eru úr daglegu tali.

▶ 2. skeið: Kemur þá að skeiði sem kenna má við rómantík. Brátt rak að því að jarðræktartilraunirnar á Hvanneyri krefðust meira lands en áðurnefndra A-, B- og C-landa. Beið þá framræst og nýbrotið mýrlendi austan gamla þjóðvegarins um Andakíl, austur undir Vatnshamravatni, hið prýðilegasta ræktunarland, sem deildist m.a. í fjórar fagurlagaðar spildur. Á nokkrum þeirra var stórum tilraunum komið fyrir, tilraunum er stóðu þar um árabil. Rannsóknastarfinu hafði vaxið fiskur um hrygg svo ráða þurfti sumarfólk til verka. Gjarnan voru það ungar stúlkur „að sunnan“, en einnig staðarkvinnur. Magnús tilraunastjóri var þá og æ síðan ókvæntur. Húmoristum, sem þótti kvennamálum Magnúsar miða rólega, varð þetta efni til ýmissa spaugsyrða og sáu hann jafnvel fyrir sér sem austurlenskan höfðingja í kvennabúri sínu þar sem tilraunafólkið hamaðist léttklætt við slátt tilraunareita, rakstur, vigtun, skráningu og sýnatöku á sólríkum hásumardögum. Ekkert af þessu lét Magnús raska ró sinni, brosti góðlátlega og færði til tilraunabókar

81

sinnar nöfn á hinum nýju spildum í rannsóknastarfinu: Hönnuvellir, Boggubali, Gyðutún Spildurnar voru einfaldlega kenndar við stúlkurnar sem unnu að tilraununum með Magnúsi og minna því elstu menn enn á hlut þeirra í ræktunarrannsóknunum. Nafngiftirnar áttu sér hliðstæðu í nöfnum búfjár á Hvanneyrarbúinu, svo sem kúa og refalæðna. Þeim voru gjarnan gefin nöfn stúlkna sem störfuðu við Bændaskólann. Örnefna 2. skeiðs biðu sömu örlög og þeirra sem getið er í kafla um 1. skeið.

▶3. skeið: Loks kemur að skeiði sem kenna má við heimskreppu. Áfram voru reknar tilraunir á Hvanneyri og enn þurfti að leggja ný lönd undir þær. Aftur var haldið á nýbrotnar mýraspildur vestan við hinn gamla þjóðveg og svæði sem fyrr var nefnt (2. skeið). Til vesturs bættust þær við ein af annarri eftir því sem árin liðu og þörfin kallaði á. Landnám þarna mun hafa hafist á áttunda áratugnum. Þá urðu ýmsar breytingar á veltingi heimsins og í umræðum um hann. Árin á undan höfðu margir íslenskir bændur glímt við kal í ræktunarlöndum sínum. Í mörgum sveitum var þungt fyrir fæti af þeim sökum. Magnús Óskarsson tók mikinn þátt í rannsóknum til úrbóta, alltaf upptekinn af samfélagslegri ábyrgð sinni, og varð upptekinn af umhverfismálum almennt. Hann var m.a. með fyrstu mönnum til þess að vekja athygli á tímamótabók bandaríska líffræðingsins Rachel Carson: „Silent spring“ og fylgdist einnig grannt með umræðu um kjör og stöðu þróunarlanda, sem mikið bar raunar á í fjölmiðlum þá og síðar. Leyndi Magnús sjaldan áhyggjum sínum af framvindu þeirra mála. Það var því ekki gripið úr lausu lofti nafnið á fyrstu spildunni sem tekin var undir ræktunartilraunir á hinu nýja svæði; hún hlaut nafnið Angola. Í hæsta máta varð það því rökrétt framhald er Magnús skráði í tilraunabækur nöfn næstu spildna til vesturs eftir því sem teknar voru til rannsóknaþarfanna: Biafra, Cuba, Dahomei, Eritrea . . . Grimm örlög fátækra og stríðshrjáðra þjóða í fjarlægum heimshlutum eignuðust þannig sín mörk til áminningar á friðsælum tilraunalöndum í Hvanneyrartúni. Nöfnin eru enn í notkun enda eru þarna yngstu tilraunalöndin á Hvanneyri frá síðustu öld.

KJARNORKUSLÉTTA

En stríð og heimsófriður tengjast fleiri örnefnum í Hvanneyrartún en nefnd voru hér að framan. Á árunum upp úr 1960 var kjarnorkustyrjaldarvá mönnum ofarlega í huga; höfðu áhyggjur af stríðsátökum þar sem skotmörk yrðu hérlendis en einnig af geislavirku ryki er fallið gæti. Fór svo að sett voru lög um almannavarnir og stofnun komið á fót í Reykjavík til þess að annast framkvæmd þeirra. Sú stofnun greip til ýmissa viðbúnaðarverka og hafði til þeirra nokkra fjármuni á milli handa. Eitt var það að gangast fyrir rannsókn á því hvaða nytjajurtir mætti hraðast og nytsamast fá til uppskeru eftir að kjarnorkusprengja hefði riðið yfir land, en sú vá var mjög í huga ráðamanna landsins á þessum árum. Stofnunin fól Bændaskólanum á Hvanneyri verkið sem þá kom í hlut Magnúsar Óskarssonar og samverkafólks hans að annast eftir nánari rannsóknaforskrift.

Og einhvern veginn þurfti nú að líkja eftir áhrifum kjarnorkusprengju. Það var að sjálfsögðu viðurhlutamikið að hleypa af einni slíkri yfir Andakíl. Því var víst sendur dúnkur að sunnan fullur einhvers eiturs er rjóða skyldi yfir tilraunaspildu til að gjöreyða hinum þjóðlega gróðri

82

þannig að gap yrði ginnunga en gras hvergi, eins og þar stendur. Í þessa manngerðu eyðimörk skyldi síðan sá efnilegum nytjajurtum. Var svo gert og allt unnið af þeirri nákvæmni sem einkenndi verk Magnúsar Óskarssonar. Ég minnist virðulegra sunnanmanna er komu og kynntu sér tilraunina og aðstæður hennar.

Allmikil umræða var um geislun í tengslum við kjarnorkuumræðu upp úr miðri síðustu öld. Þessi geislamælir var smíðaður á Eðlisfræðistofu Háskóla Íslands fyrir rannsóknastofu Bændaskólans um 1960. (Úr safni LbhÍ, Hve)

Svo ég geri langa sögu stutta man ég ekki spor um útfall rannsóknarinnar enda má sjálfsagt um það lesa í tilraunaskrám og -skýrslum frá Hvanneyri. Það situr aftur á móti eftir enn þann dag í dag nafnið á tilraunavangnum: Kjarnorkuslétta heitir spildan og er áminning um andstyggð misnotaðrar kjarnorku og það hve vel meint viðbrögð manna geta orðið skopleg þegar tímarnir hafa lagt á þau mat.

OG NOKKUR FLEIRI NÖFN

Hafa má orð um nokkur fleiri örnefni á Hvanneyri. Heiti gömlu smábýlanna lifa sum enn í dag eins og áður sagði, t.d. Tungutún, Svíri, Staðarhóll og Ásgarður. Önnur vísa til þeirrar starfsemi sem fram hefur farið á staðnum, sbr. Skólasléttur sem á sínum tíma voru nýræktarlönd austur af heimavistarhúsi Bændaskólans (nú Ásgarði); þær eru nú að mestu horfnar undir íbúðabyggð. Fjárhússflatir, þar sem nú stendur nýlegt fjós skólans, eru til minja um að eitt sinn var sauðfé á Hvanneyri. Fótboltavöllur er gamalt heiti einnar spildunnar, rétt þar sem nú liggur Ormurinn langi, skjólbelti með gönguleið, sem plantað var um 1990, og vitnar um knattvöll og tómstundir skólapilta á Hvanneyri áður fyrr. Og nokkru austar þar í syrpu framræstra mýrarspildna hét Verkfæranefndarslétta. Nafn sitt hlut hún af því að þar hafði Verkfæranefnd ríkisins, síðar bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, um árabil fastan vettvang til ýmissa tilrauna, einkum varðandi slátt og heyþurrkun.

Þegar þéttbýli óx á Hvanneyri eftir 1970 og byggðin tók á sig mynd þorps kom upp þörfin fyrir götuheiti. Ýmsar tillögur komu fram m.a. heiti sem vísuðu til búskapar svo sem Kálfhagi, Lambhagi, Hrosshagi. Þær náðu ekki hljómgrunni en Túngata varð lendingin sem eitt heiti þótt um væri að ræða fleiri en eina götu. Allt fram yfir 1980 hélst sá siður að gefa einbýlishúsum sem risu sérstök heiti. Þannig standa við Túngötu Sigtún, Hófatún, Smáratún, Lækjartún, Túnsberg, Mýrartún, Grenitún . . . Hægt og sígandi virðast þessi nöfn vera að hverfa úr daglegu tali heimamanna. Nefna má einnig að dæmi er um þá reglu sem algeng var í Reykjavík að menn tækju með sér nafn þeirrar jarðar í dreifbýli þar sem þeir komu frá, sbr. Staðarstaður, Þverá, Grund . . . Magnús B. Jónsson skólastjóri reisti á áttunda áratugnum

83

íbúðarhús á Hvanneyri fyrir sig og fjölskyldu sína. Á það var notað nafnið Gerði, sótt til samnefnds æskubýlis Magnúsar í Vestmannaeyjum.

Síðan varð sú breyting að hefðbundinn landbúnaður varð ekki lengur einráður í starfi Bændaskólans og síðar Landbúnaðarháskólans heldur voru umhverfis- og náttúrutengdar námsgreinar teknar upp í vaxandi mæli. Má vera að það sé skýring á þeim nöfnum er valin voru sem götuheiti í nýjasta hverfinu, þar sem áður voru Skólaflatir. Þar heita nú Arnarflöt og Lóuflöt. Nefna má að hverfið sem byggðist næst á undan hefur götunafnið Sóltún. Má líta á það sem millispil á milli gamla og nýja tímans.

84
85

af einu og

86 III. kafli Sögur
öðru Að gamni mínu hef ég í áranna rás tínt saman fróðleik um ýmislegt sem tengist Hvanneyri og skólanum þar. Frekar hefur þetta verið dægrastytting og hvíld frá skylduverkum heldur en markviss rannsókn á og skráning sögu. Jafnvel bregður fyrir persónulegum minningum og sjónarmiðum á stöku stað. Munið það. Viðfangsefnin eru sitt úr hverri áttinni án mikils samhengis.

Hvanneyrarmjólk

Frá náttúrunnar hendi er gott undir bú á Hvanneyri. Fyrr á tíð munaði mest um engjalöndin meðfram Hvítá. Áin með framburði sínum og samspili við salt vatn fjarðarins gerði Hvanneyri að gersemisjörð til heyskapar gamla tímans. Þegar nýrækt túna hófst reyndust hallamýrarnar austur af bænum einnig hið frjósamasta ræktunarland.

Lítið er vitað um búskap á Hvanneyri framan af öldum. Sé sagan um landnám Gríms háleyska rétt má telja víst að hann hafi þegar gert gripahald til mjólkurframleiðslu að meginstoð landbúskapar síns og þá líklega helst með ræktun nautgripa. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu Jarðabók héraðsins árið 1707 bjuggu fimm bændur á Hvanneyri. Þeir höfðu samtals 24 kýr og 85 ær, og þá líklega mjólkurær. Kúgildin hafa því reiknast 24 + 85/6 ~ 38, sem telja verður vænan bústofn í ljósi síðari tíma umfangs búskapar á Hvanneyri.

SAUÐAMJÓLK – KÚAMJÓLK

Þótt Hvanneyri hafi á síðari árum fyrst og fremst verið talin kúajörð er ljóst að sauðamjólk hefur einnig verið mikilvæg afurð Hvanneyrarbænda áður fyrr. Nægir þar að benda á örnefni og minjar, svo sem örnefnin stekkur og sel, sem bæði vísa til mjólkurfjár. Sagt er til dæmis að býlið Staðarhóll við Hvanneyri hafi verið byggt „um 1670 á stekkjarstæði“ Hvanneyrar-jarðarinnar. Þar heitir líka Stekkjarlág Skammt sunnan við bygginguna Ásgarð eru Stekkjarholt og vestanvert í þeim mótar enn fyrir tóftum eins og sagt var frá hér að framan. Tóftirnar eru tengdar grjótgirðingu (-vegg) um nátthaga sem þarna er og mun líklega vera sú sem nemendur Búnaðarskólans hlóðu þarna á árunum 1903-1905. Það bendir til þess að þá hafi enn verið mjólkurær á Hvanneyri. Við vegarslóðann sem liggur frá Tungutúnsborg suðaustur að Andakílsá eru glöggar tóftir fast við slóðann. Þar virðist hafa staðið stekkur eða að minnsta kosti mjaltakví, sjá pistil hér að framan Í Kistu, tanganum syðst í landi Hvanneyrar við Andakílsá er örnefnið Selhóll.

Og úr því að nefnd eru sel skal því haldið til haga að samkvæmt máldaga frá 1463 átti Hvanneyrarkirkja selför í Indriðastaðaland í Skorradal. Hvort og hvernig sá réttur hefur verið nýttur veit enginn lengur. Þar hefur fengist kostameira beitiland en heimalandið því varla verður sagt að Hvanneyrarjörðin hafa verið gott sauðland frá náttúrunnar hendi: Mest votlendi og blautar mýrar fyrir daga framræslu þeirra. Þegar Halldór Vilhjálmsson hóf þar rekstur skóla og búskap gramdist honum hve lömb af þessu landi voru rýr til frálags og leitaði því annarra vor- og sumarhaga fyrir sauðfé sitt.

Um minjar þessar er fjallað í öðrum Hvanneyrarpistli.

Ekki er vitað með vissu hvenær mjólkurframleiðslu með ám lauk á Hvanneyri. Sennilega

87

þó með búskap Hjartar Snorrasonar skólastjóra. Muna má samt að sumurin 1996-1997 stóð Sveinn Hallgrímsson, þá kennari á Hvanneyri, fyrir tilraun við skólann þar sem fært var frá ám um miðjan júlí og þær mjólkaðar fram í ágústlok. Úr mjólkinni voru gerðir ostar í Mjólkursamlaginu í Búðardal sem þóttu góðir.

„TEITUR BÝR MEÐ TUTTUGU KÝR Í FJÓSI“. . .

Stefán Stephensen amtmaður nýtti sér vel landkosti Hvanneyrarjarðarinnar er hann bjó á Hvanneyri um nokkurra ára skeið í byrjun nítjándu aldar. Í ferðabók sinni segir McKenzie frá komu sinni að Hvanneyri sumarið 1810. Segir hann bú amtmannsins „reconed the best in the island“. Þá voru fimmtíu kýr á Hvanneyri og tvö eða þrjú hundruð fjár auk annars búsmala. Tekur McKenzie fram að amtmaður afli nægra heyja til vetrarfóðurs fyrir hinn stóra bústofn. Ekki hefur það heldur verið lítil vinna að koma ársnyt 50 kúa í mat, sem ætla má að hafi verið 80 þúsund lítrar eða meira – það er um 220 lítrar á dag að meðaltali. Þar að auki hefur án efa fengist mikið af sauðamjólk á sumrum. Fátt er vitað um mjólkurvinnsluna

á búi amtmannsins. Hins vegar lifði fjóshaugur hans lengi – Amtmannshaugurinn – rétt framan við sáluhlið garðs Hvanneyrarkirkju. Hann var eitt af því fyrsta sem fyrstu nemendur og skólastjóri Búnaðarskólans tóku til við að gera verðmæti úr, um 1890.

Um miðbik nítjándu aldar bjó Teitur Símonarson á Hvanneyri; hann hafði einnig mikið umleikis og fór orð af búskap hans og höfðingsskap. Um hann var m.a. kveðið:

Teitur býr með tuttugu kýr í fjósi. Fingra-týrinn fanna snar fylki stýrir Hvanneyrar.

Mjólkurframleiðsla Teits hefur því verið langt umfram heimilisþarfir hans svo ætla má að hann hafi sett á markað (nær eða fjær) töluvert af afurðum sínum. Um það eru þó fáar heimildir.

Þegar settur var búnaðarskóli á Hvanneyri árið 1889 hafði verið ákveðið að nemendur skyldu m.a. læra meðferð og tilbúning á osti og smjöri, auk hirðingar nautgripa og bóklegs náms í þeirri búgrein. Sveinn Sveinsson, fyrsti skólastjórinn, kom sér upp einum tíu kúm, auk áa. Byggt var fjós. Strax fyrsta vorið aflaði Sveinn sér jarðvinnsluáhalda, enda þá allt kapp lagt á að efla jarðræktina, en einnig varð hann sér úti um mjólkurvinnsluáhöld frá Noregi. Sveinn var raunar kunnáttumaður í mjólkurmeðferð; hafði m.a. leiðbeint um hana sem búfræðingur (ráðunautur) á vegum Búnaðarfjelags Suðurtamtsins. Starfsár Sveins á Hvanneyri urðu hins vegar aðeins þrjú.

Sumarið 1896 kom Feilberg, hinn danski búfræðingur sem rækilega kynnti sér íslenskan búskap í lok nítjándu aldar, að Hvanneyri. Þá voru þar 14 kýr. Virðist smjör þá hafa verið unnið þar til sölu á Reykjavíkur-markaði enda var þá vaxandi áhugi á smjöri ekki síst á erlendum

88

mörkuðum. Feilberg taldi að með bættum samgöngum og hinum einstöku engjalöndum Hvanneyrar verði jörðin „en rentable Ejendom“ með möguleikum til kjötframleiðslu og starfrækslu mjólkurbús „som vel næppe noget andet Sted paa Island.“

HJARTARFJÓS, RAGNHEIÐUR OG MJÓLKURSKÓLINN

Áhugi fyrir mjólkurframleiðslu og vinnslu smjörs til útflutnings óx mjög á allra síðustu árum nítjándu aldar. Til þess lágu einkum tvær ástæður: Annars vegar sú að markaður fyrir lifandi sauði á Bretlandseyjum, sem skapað hafði tekjur og eflt umsvif í mörgum íslenskum sveitum, lokaðist. Það kallaði á leit að nýjum leiðum fyrir afurðir landbúnaðarins. Hin ástæðan var vaxandi markaður fyrir smjör í Bretlandi, markaður sem danskir bændur höfðu þá þegar tekið að nýta sér. Það kitlaði framsækna íslenska bændur. Í þeim hópi var Hjörtur Snorrason skólastjóri og í höndum hans efldist mjólkurframleiðslan á Hvanneyri. Árið 1900 reisti Hjörtur m.a. fjós fyrir sextán gripi, sem árið eftir var stækkað þannig að það rúmaði alls 40 kýr auk kálfa. Fjós Hjartar varð eitt fyrsta steinfjósið sem reist var hérlendis.

Hjörtur skólastjóri, kominn með hið nýja fjós, reyndi fyrir sér með smjörsölu á erlendan markað. Á síðasta sumri nítjándu aldarinnar var sent dálítið af smjöri frá Hvanneyri og tveimur öðrum búum, m.a. til Englands Hinn erlendi markaður var kröfuharður og í blaðafregn sagði meðal annars:

Fáir munu hafa varað sig á því hér, að mikill munur mundi gerður þar í milli, og líklegast alls ekki orðið hans varir, þótt bragðað hefðu á þessum smjörsendingum öllum þremur. En Englendingurinn var ekki lengi að finna muninn. Hann gaf 90 aura fyrir Hvanneyrarsmjörið, en 45 a. [aura] fyrir hitt.

Áreiðanlega lá mismunurinn í verkkunnáttu Ragnheiðar Torfadóttur verðandi húsfreyju á Hvanneyri sem lært hafði mjólkurmeðferð í Danmörku. Hún var nýlega orðin heimilismaður á Hvanneyri og hefur mjög líklega verið byrjuð að starfa að smjör- og ostagerð þar. Haustið 1900 gengu þau í hjónaband Hjörtur og Ragnheiður. Ragnheiður var dóttir Torfa Bjarnasonar skólastjóra í Ólafsdal og verðskuldar nánari kynningu:

Ragnheiður nam í Danmörku veturinn 1898 og fram í ágúst hjá frú Hanne Nielsen á búgarðinum Havarthigaard við Holtestation skammt frá Kaupmannahöfn. Frú Nielsen framleiddi bæði framúrskarandi smjör og osta, m.a. roquefort, gorgonzola og havarti, sem dregur nafn af búgarðinum. Hún hafði kynnt sér ostagerð sunnar í álfunni, hafði marga danska og erlenda nemendur og Havarthigaard var þekktur langt út fyrir landsteinana. Eftir námsdvölina hjá frú Nielsen fékk Ragnheiður að vera einn mánuð á „Andelsmejeriinu“ (mjólkursamlaginu), svo að hún hefði sem mest gott af tímanum í Danmörku.

Ragnheiður Torfadóttir frá Ólafsdal.

89

Ragnheiður hafði beðið föður sinn, Torfa, að reyna að fá handa sér styrk, „svo sem 100 kr. úr sýslusjóði og annað eins frá amtinu“, til sumarnámsins hjá frú Nielsen, sem ætlaði þá að gera roquefortost Ragnheiðar vegna. Ekki leit út fyrir, að hún fengi styrk frá amtinu og í bréfi til föður síns segir hún: „Mjer þykir það gróflega skrýtið hjá blessuðum amtmanninum að láta mig gjalda þess, að jeg er fröken.“ Ragnheiður hvatti eindregið til þess, að í Ólafsdal yrði hafin gerð roquefortosts, einkum úr sauðamjólkinni, og reynt að senda ostinn til Englands. Hún lýsir aðferðum frú Nielsen við smjör- og ostagerðina, segist ekki geta hugsað sér annað en það megi gera jafngóða osta á Íslandi og sér þætti gaman, að faðir hennar gæti sett upp svolítið „mejeri“ heima í Ólafsdal. Hún segir allar aðstæður þar góðar til ostagerðar og hún muni verða ábatasöm með tímanum . . .

Mjög líklega átti Ragnheiður einnig draum um að koma upp „mejeríi“ á Hvanneyri. Það fór hins vegar svo að hinum nýja Mjólkurskóla Búnaðarfélags Íslands, sem mennta skyldi verðandi rjómabústýrur landsins, var komið fyrir þar. Samið var um að hann nyti aðstöðu hjá Búnaðarskólanum, þ.m.t. hvað snerti kaup mjólkur til verklegu kennslunnar. Hjörtur skólastjóri var ekki fyllilega sáttur við þá ráðstöfun, eins og fjallað hefur verið um á öðrum stað, en gekk til samstarfsins skv. gerðu samkomulagi. Um hlutskipti Ragnheiðar húsfreyju er minna vitað.

Mjólkurskólanum voru útveguð tæki og áhöld til kennslunnar sem hófst 1. nóvember 1900. Gera má ráð fyrir að þá hafi tæknin við mjólkurvinnslu í Mjólkurskólanum verið eins og best gerðist á þeim tíma. Allt fékk það starf hins vegar snöggan endi með stórbruna á Hvanneyri 6. október 1903, en þá brunnu skólahúsin tvö: Búnaðarskólans og nýtt hús Mjólkurskólans. Varð að flytja starfsemi Mjólkurskólans til Reykjavíkur. Hvarf hann þá úr sögu Hvanneyrar en þar fengu menn hins vegar fullar hendur við að reisa Búnaðarskólann úr brunarústunum. Fer nú ekki sögum af mjólkurmálum á Hvanneyri fyrr en Halldór Vilhjálmsson tók við skólanum árið 1907.

HALLDÓRSFJÓS OG RÍKI KRISTJÖNU JÓNATANSDÓTTUR

Áður en Halldór tók við Hvanneyrarskóla hafði hann m.a. leiðbeint um mjólkurvinnslu hjá rjómabúunum sunnanlands. Var hann þeim málum því kunnugur að því við bættu að hann hafði numið mjólkurfræði við búnaðar- og mjólkurfræðiskólann á Dalum í Danmörku. Fáir Íslendingar voru því betur að sér um mjólk og mjólkurvinnslu á þeim árum. Halldór hófst þegar handa um frekari umbætur í nautgriparæktinni á Hvanneyri. Hann lagði herslu á að bæta ræktun kúnna og að auka afurðir þeirra, einnig með fóðurverkun og fóðrun; gerði m.a. merkar athuganir og tilraunir á því sviði. Vorið 1908 keypti Halldór nautið Cæsar, rauðan að lit og óvenju vel gerðan og kyngóðan tudda, frá Eggert Finnssyni á Meðalfelli í Kjós. Gætti áhrifa Cæsars um áratugi í nautgripunum á Hvanneyri enda mun skyldleikaræktun þar hafa verið mikil.

Svo virðist sem Halldór hafi strax tekið mjólkurvinnsluna föstum tökum. Hann réði til sín rjómabústýru, Kristjönu Jónatansdóttur frá Fjalli í Aðaldal, er numið hafði við Mjólkurskólann á Hvanneyri og síðan í Danmörku. Annaðist hún mjólkurvinnsluna

90

á Hvanneyri nær óslitið til vors 1936 , sjá mynd á bls. 20. „Voru þar um langt skeið framleiddar mjólkurafurðir, sem þóttu bera af sams konar vörum annars staðar frá, Hvanneyrarrjómi og Hvanneyrarskyr. Og Halldór fór ekki dult með það, að þetta væri fyrst og fremst rjómabústýrunni hans að þakka, henni Kristjönu“, skrifaði Guðmundur Jónsson. Mjólkurvinnsla hefur líklega ekki í annan tíma orðið umfangsmeiri Hvanneyri en á árum Halldórs Vilhjálmssonar, þegar allt að 80 kýr voru í fjósi.

Til þess að forvitnast um vinnubrögð við mjólkurvinnslu á þeim tíma bað ég tvo nemendur Halldórs rifja upp minningar sínar, þá Guðmund P. Valgeirsson í Bæ í Árneshreppi, sem nam á Hvanneyri árin 1925-1927 og Friðbert Pétursson í Botni í Súgandafirði er var nemandi á Hvanneyri 1929-1931, en þá hafði nýtt og stærra fjós verið tekið í notkun.

Guðmundur í Bæ skrifaði m.a.:

Þó við strákar gerðum okkur nokkrar ferðir í mjólkurbúið til að kaupa okkur skyr og rjóma þar, til þess að gera okkur dagamun í fremur fábreyttu daglegu lífi og til að bæta ögn úr því einhæfa og fábreytta fæði sem við bjuggum við, þá veitti maður því ekki mikla athygli hvernig þetta var unnið eða hvaða tæki voru notuð. Það má því segja að þetta sé gleymt mér a.m.k.

Í því efni er líklega minn bjálfaskapur meiri en annarra, hvað lítið ég man um þetta. Þar sem ég aðstoðaði mjólkurbústýruna í tvo eða þrjá daga við að skilja mjólkina þegar rafmagnið bilaði svo að það gat ekki nýst til að skilja mjólkina sem unnið var úr. Rafmagn var þá komið frá mótor sem komið var fyrir í neðri hluta kjallarans undir skólanum [Gamla skólanum]. – Hinum megin var matsalur skólapilta. –

Var mjólkin skilin í rafknúinni skilvindu sem nú var ekki virk. En til vara var stór skilvinda handsnúin og henni var ég látinn snúa þessa daga . . . Þann tíma sem ég var á Hvanneyri var Guðrún Guðmundsdóttir frá Skálpastöðum mjólkurbússtýra . . .

Ekki er vert að teygja meir lopann um þetta efni heldur reyna að svara þeim spurningum sem þú berð fram.

▶ 1. Mjólkurvinnslan fór fram í norðausturhorni skólastjórasetursins. Mig minnir að inngangur í hann hafi verið við eða undir tröppunum sem lágu upp á efrihæð (miðhæð hússins).

▶ 2. Eins og ég áður sagði var Guðrún frá Skálpastöðum bústýra og sá um alla vinnslu mjólkurinnar, sem ekki fór beint á sölumarkað í Reykjavík. Ég vissi ekki til að [Guðrún] hefði annað starf á hendi. Hygg líka það hafi verið meira en nóg. Man heldur ekki hvort hún hafði aðstoðarstúlku, má þó vera.

3. Að gera grein fyrir þeim áhöldum, sem notuð voru, á ég ekki hægt með svo á því sé að byggja. Ég minntist á skilvinduna. Þá rafknúnu og hina handsnúnu til vara. – Sú rafknúna var, að mig minnir nokkuð stór. Þá var þar tankur sem tók við undanrennunni. – Stórt ker var þar á gólfinu sem skyrið

91

var hleypt í (Gæti hafa verið líkt og stórt baðkar á nútímavísu). Trúlega var það emelerað að innan.

Þá hefur verið þar skyrsía, þó ég muni ekki sérstaklega eftir henni. Mysan úr skyrinu var notuð sem fóður fyrir kálfa og svín þau sem þar voru o.fl. Þá hafa verið smjörgerðaráhöld. En ég man ekki eftir þeim svo ég fari út í að lýsa þeim.

▶ 4. Nemendur skólans komu ekki að þessu svo ég muni, nema þá í tilfellum eins og ég lenti í.

▶ 5. Allt var rafknúið þar sem því var hægt að koma við – þar voru hjól og og reimar þar sem við átti.

Ekki veit ég hvaðan þessi áhöld voru komin. Líklegt þætti mér að Halldór hafi flutt þau inn frá Danmörku eða Svíþjóð. Hugsanlegt er að þau hafi verið fengin úr búinu á Hvítárvöllum, sem lagt hafði verið niður.

Mig minnir að um 60 mjólkandi kýr hafi verið á búinu þessi ár. Mjólkurframleiðsla var mikil miðað við þá tíma. Megnið af mjólkinni var strax sett í brúsa og þeim komið í kæli. – Sá kælir þætti nú ófullkominn, og var það. – Hálfgert jarðhýsi grafið í jörð neðst í túnkinninni niður af kirkjunni sem næst því er vegurinn niður á Fitina og að stokknum þar sem báturinn (Hvanneyrarbáturinn) lá. Þakið var yfir það með þykku torflagi. Í það var mokað snjó á vetrum og hann notaður til kælingar. Þessi mjólk var svo flutt í bátnum til Borgarness í sambandi við ferðir Suðurlandsins til Reykjavíkur þar sem hún fór á sölumarkað. En nokkur hluti mjólkurinnar fór í mjólkurbúið til vinnslu í mataræði heimamanna og einnig á sölumarkað í Reykjavík.

Frá búinu var selt skyr, rjómi og ostar – og líklega smjör, því lítið var notað af því á matborð vinnufólksins, þetta fór sömu leið og mjólkin með bát í Borgarnes og þaðan til Reykjavíkur á sölumarkað. Með hverjum hætti það var veit ég ekki.

. . .

Þegar ég kom að Hvanneyri bar margt fyrir augu mín, sem ég hafði aldrei áður kynnst eða látið mér til hugar koma. Eitt af því sem mér þótti bæði spaugilegt og frumstætt var að sjá Bauja gamla [Böðvar Gíslason 1886-1955, . . . „sem lengst allra hefur starfað við hirðingu [Hvanneyrarkúnna] og lengur öllum öðrum hefur unnið á Hvanneyri eftir að skóli var settur þar á stofn.“

] . . . rogast með mjólkurbrúsana frá fjósinu heim á hlað að dyrum mjólkurhússins í burðarklafa sem lá á herðum hans og öxlum. Hann var haldinn miklum astma og gekk upp og niður af mæði. Samt var hann látinn rogast með þessar þungu byrðar. Ég held hann hafi verið gæddur miklu þreki, enda samanrekinn. En þetta var honum erfitt.

Sumarið 1926, sem ég var þarna, kom nýtt tæki til að létta þessa flutninga. Það var pallvagn á lágum hjólum, sem Bauji dró og ýmsir urðu til að kippa í með honum en erfitt eigi að síður. – Þarna voru tveir harðduglegir fjósamenn, þeir Tryggvi Samúelsson, síðar fangavörður, og Jón Kristjánsson frá Skerðingsstöðum, tóku oft í vagninn með Bauja. – En það er önnur saga.

Auglýsing í Vísi 22. júní 1928. Í Tjarnargötu 5 í Reykjavík verslaði Guðrún Jónsdóttir, kölluð Gunka (1865-1937), en við hana hafði Halldór skólastjóri samið um umboðssölu mjólkurafurða frá Hvanneyri.

92

Og Friðbert í Botni skrifaði m.a.:

Rétt er muna í þessu sambandi að skólinn og búið var ekki eitt og sama, þó Halldór hefði hefði yfirstjórnina á hvorutveggja. Búið rak hann fyrir sinn reikning, en skólann fyrir ríkið. Þess vegna lærðum við t.d. Mjólkurfræði án þess að styðjast við mjólkurvinnsluna á staðnum og þótti sumum ófært. Þess vegna man ég of lítið um mjólkurvinnslutækin til þess að geta sagt frá þeim svo öruggt sé. Mjólkurvinnslan fór fram í neðri hluta kjallara íbúðarhúss skólastjóra. Þetta var í raun ríki Kristjönu Jónatansdóttur mjólkurbústýru en ekki annarra. Hún hafði enga hjálp að jafnaði, en hún kunni sitt fag, lærði mjólkurvinnslu í Danmörku var mér sagt. Þetta var framúrskarandi kona að dugnaði og þekkingu, enda voru mjólkurvörurnar frá Hvanneyri þekktar um land allt fyrir gæði, smjörið, rjóminn og ekki síst Hvanneyrarskyrið. Enda fór Halldór Vilhjálmsson hin mikla kempa ekki dult með álit sitt á Kristjönu. Hann hafði lært mjólkuriðn í Danmörku og gat því dæmt um gæðin á vörunni.

Nýtt Hvanneyrarskyr auglýst í

Morgunblaðinu 11. febrúar 1933.

Mest af vörunni var sett til Reykjavíkur – með bíl í Borgarnes og þaðan með skipi . . .

Þorsteinn Guðmundsson, nemandi á Hvanneyri 1921-1923 og síðar bóndi á Skálpastöðum í Lundarreykjadal, hafði svipaða sögu að segja og þeir Guðmundur og Friðbert. Hann sagði mjólkurafurðir hafa verið fluttar allt að því tvisvar í viku með báti úr Heimastokki á Hvanneyri í Borgarnes og þaðan með skipi til Reykjavíkur; skyr í tunnum en rjóminn í brúsum.

Þegar krafa um gerilsneyðingu mjólkurvara var sett samdi Halldór um það við Mjólkurfélag Reykjavíkur haustið 1933 að selja allan rjóma búsins „fyrir sama verð og meðlimi sína.“ Skyldi félagið afhenda Halldóri [óseldan] sama rjóma, „án þess að honum sé blandað saman við aðra vöru“, en Halldór „halda sama útsöluverði á rjóma og Mjólkurbandalag Suðurlands ákveður á hverjum tíma.“

Á þeim árum virðist Matarfélag nemenda hafa átt mjög takmörkuð viðskipti við bú Halldórs og jafnvel keypt neyslumjólk á nálægum bæjum. Reykjavíkurmarkaðurinn gaf vel enda mun bú Halldórs hafa dafnað prýðilega. Nemendur ráku sitt eigið mötuneyti, sagði Þorsteinn á Skálpastöðum, og þar var allt sparað til hins ítrasta. Aðeins var notað smjörlíki ofan á brauð, að vísu vel útilátið. Undanrenna var höfð til drykkjar og grautagerðar en nýmjólk sáralítið ef nokkuð. Undanrennan var fengin úr (rjóma)búi Halldórs. Ekki minntist Þorsteinn þeirra áhalda sem þar voru notuð. Hann taldi Hjört Snorrason ekki hafa stundað viðlíka mjólkuriðnað og Halldór enda bú Hjartar mun minna. Hefði Halldór því sennilega orðið sér úti um áhöldin sem notuð voru.

93

Halldór Vilhjálmsson sendi afurðir sínar víðar en til Reykjavíkur. Hann átti viðskipti við verslanir á Vesturlandi og Vestfjörðum, meðal annars við verslun Bjarna Eiríkssonar í Bolungavík og þá með fleiri landafurðir.

Árið 1936 urðu miklar breytingar á Hvanneyri. Halldór skólastjóri hafði veikst af ólæknandi krabbameini er dró hann til dauða þá um vorið. Búreksturinn varð hluti af rekstri skólans eftir að dánarbú Halldórs skilaði honum af sér vorið 1937. Við tóku nýir hættir undir stjórn Runólfs Sveinssonar skólastjóra. Í viðskiptaumhverfi landbúnaðarins hafði einnig mikið gerst með tilkomu nýrra laga um afurðasölu hans og –vinnslu, sem sett voru árið 1934. Með þeim var meðal annars komið á samsölu á mjólk. Þrengdust þá kostir þeirra bænda sem selt höfðu mjólk sína og mjólkurafurðir „beint frá býli“, eins og nú er sagt, en jafnframt varð afsetning mjólkurinnar bændum almennt auðveldari en áður. Þann 10. febrúar 1932 hóf Mjólkursamlag Borgfirðinga í Borgarnesi að taka á móti mjólk. Ekki mun þó hafa verið farið að senda Hvanneyrarmjólk þangað fyrr en á árinu 1935 megi marka frásagnir nemenda, sem þá voru á Hvanneyri. Lauk þar með sérstæðum kafla í mjólkurframleiðslu og –vinnslu á skólastaðnum. Rjómabústýran hans Halldórs, hún Kristjana Jónatansdóttir, var þá enda orðin roskin og farin að kröftum.

NOKKRIR SÖGUÁFANGAR

Síðustu öldina hefur margt breyst hvað varðar mjólkurframleiðslu á Hvanneyri, svo ólíklegt er að fjósamaður þar haustið 1920 mundi kannast við nokkuð nema kýrnar, mjólkina og hugsanlega heyið kæmi hann í Hvanneyrarfjósið í dag. Til gamans má tíunda nokkra söguáfanga og þá aðeins á stikkorðaformi; þeir eru þó í misnánum tengslum við mjólkina:

1890: Nýtt fjós (Sveinsfjós), fyrir 14 nautgripi, og sennilega annað árið 1895.

1900: Nýtt fjós, Hjartarfjós, reist fyrir 16 nautgripi; lengt árið eftir svo rúmaði 40 kýr og 8 kálfa.

1900: Mjólkurskólinn hóf starf 1. nóvember; sérstakt skólahús tekið í notkun á Þorláksmessu 1901.

1903: Hús Búnaðarskólans og Mjólkurskólans brunnu til grunna aðfaranótt 6. október.

1928: Nýtt fjós, Halldórsfjós, tekið í notkun.

1929: Mjaltavélar teknar í notkun; notaðar til 1937 en þá var hætt að nota þær . . . „hafa vafalaust minnkað mjólkurmagnið og skemmt kýrnar varanlega, einkum hinar ungu kýr“, skrifaði Guðmundur Jónsson.

1946: Mjaltavélar teknar upp að nýju og voru notaðar úr því.

1949: Sæðingastöð Sambands nautgriparæktarfélaga Borgarfjarðar hóf störf með aðstöðu í Halldórsfjósi, syðst í kjallara þess. Nautin voru nyrst í fjósinu.

94

Um 1950: Taða af ræktuðu landi verður meiri hluti vetrarheyfóðurs á kostnað útheys af engjalöndum Hvanneyrar.

1963: Tekið að mjólka kýrnar á mjaltabás með rörmjaltakerfi, í stað þess að mjólka þær í vélfötur á básum sínum eins og áður hafði verið gert.

1965: Naut Sæðingastöðvarinnar flutt úr Hvanneyrarfjósi í nautafjósið á Pálstanga, síðar Nautastöð Búnaðarfélags Íslands.

1966: Hafin tilraun með mjólkurtank við rörmjaltakerfið sem síðan leiddi til tankvæðingar.

1979: Básum fjóssins, jötum og fleiru breytt í samræmi við kröfur nýrra tíma. Þá (?) voru einnig settir rimlaflórar í stað hinna lokuðu flóra sem áður voru í fjósinu.

2004: Nýtt fjós, (Magnúsarfjós), tekið í notkun 11. ágúst.

2008: Fyrsti mjaltaþjónninn (robot) í Hvanneyrarfjósi tekin í notkun – í ágúst.

Frá árdögum mjaltabáss í Hvanneyrarfjósi 1963. Fjósameistarinn Bjarni H. Johansen mjólkar. (ljósm. Ólafur Guðmundsson).

95

Hvítársiglingar – Hvanneyrarlending

Hvítárbrú við Ferjukot var stórframkvæmd sem breytti mörgu í Borgarfjarðarhéraði, skapaði að ýmsu leyti nýja héraðsmynd og varð sjálf eins konar einkennismerki héraðsins enda með fegurstu samgöngumannvirkjum enn í dag.

Með tilkomu brúarinnar árið 1928 voru lagðir af Hvanneyrarflutningar þverfirðis úr Borgarnesi, og þá um leið „hafnaraðstaðan“ á Hvanneyri; „Sjóargatan“ þar varð eftir það til muna sjaldfarnari. Fljótlega varð Halldór skólastjóri Vilhjálmsson sér úti um flutningabíl – Hvanneyrar-Grána – er lengi þjónaði skóla og búi. Það varð til ný aðal-þjóðgata að skólastaðnum, norðaustur klettaásana í átt til Bárustaða, út á hinn „nýja“ þjóðveg sunnan að og norður um Hvítárbrú. Og margt breyttist: Ein stóru breytinganna varð líka sú að „andlit“ hinna snotru gömlu skólahúsa á Hvanneyri blöstu ekki lengur við gestum staðarins er þeir komu gömlu leiðina – þverfirðis úr Borgarnesi. Eftir „nýju“ leiðinni komu þeir aftan að staðarhúsunum. Við þeim breytingum höfðu staðararkitektarnir Rögnvaldur Ólafsson, Einar I. Erlendsson og Guðjón Samúelsson, eða skipuleggjandi bygginganna, Halldór skólastjóri, ekki séð. Þótt tilraunir hafi verið gerðar til að bæta hér úr hafa þær ekki tekist enn.

Í dagbókum nemenda á Hvanneyri á framanverðri síðustu öld, er þeir færðu sem hluta af námi sínu, er allvíða getið um Borgarnessferðir þeirra á báti. Raunar er saga þeirra hluti af þeim kafla samgöngusögu Borgarfjarðar er gerist á Hvítá og rekur sig sennilega allt aftur til landnámsaldar, sbr. m.a. frásagnir Egils sögu um erindi Borgar-manna til kaupstefnanna inni á Hvítárvöllum. Hvítá var samgönguæð – „hin mikla móða“ sem auðveldaði flutninga og ferðalög um neðri hluta Borgarfjarðarhéraðs en gerði líka sérstakar kröfur um aðstöðu og allan búnað þeirra er leiðina vildu nýta. Þannig var það einnig um lendingarstaði og varir bæjanna við fjörðinn og Hvítána.

Gömlu skólahúsin á Hvanneyri, séð úr vestri (óþ.ljósm.)

Það má til dæmis velta því fyrir sér hvar Hvanneyrarbáti/-skipi hefur verið ýtt á flot og því ráðið til hlunns. Vegna umfangs búreksturs og skólahalds á Hvanneyri er ljóst að flutningaþörfin þar hefur verið umtalsverð, ekki síst þegar staðið var í hinum umfangsmiklu húsbyggingum þar á fyrstu áratugum síðustu aldar. Flutningarnir gerðu ekki aðeins kröfu til fjarðarleiðarinnar heldur einnig leiðarinnar á landi.

96

Örnefnið Skipalækur gefur strax bendingu um hvar lending kunni að hafa verið en það er lítill lækur sem rann og rennur enn fram vestur undir Ásgarðshöfða fyrir „suðvestan túnið á Hvanneyri . . . mun skipum áður hafa verið lagt þar“, skrifaði Guðmundur Jónsson. Ásgarðshöfðinn er dálítil klettaborg og undir standbergi hennar vestan-og norðvestanverðri hefur verið skjól fyrir verstu veðrunum á Hvanneyri (SA-S). Hefur áreiðanlega komið sér vel að geta geymt Hvanneyrarbát þar undir klettunum. Sjálf lendingin hefur líklega verið breytingum háð því við a.m.k. norðanverðan klettinn eru (nú 2018) aðeins hinar mjúku leirur sem framundan Fitjunum eru. Hins vegar er örlítil sandfjara undir Ásgarðshöfðanum vestanverðum og upp í hana hefur hugsanlega einnig mátt lenda á flóði og ná báti þar upp í góða fjöru.

„Sjóargatan“ norðanvert í Ásgarðshöfðanum.

Túnkort og uppdráttur af mannvirkjum á Hvanneyri í lok nítjándu aldar, gerður af Magnúsi Jónssyni, nemanda þar 18971899.

En þá er það „sjóargatan“. Á uppdrættinum hér til hliðar má sjá götuna, Tröðina, sem lá frá skóla(stjóra)húsinu til suðurs (SSV) samhliða Skemmunni, sem enn stendur, og í átt að Tungutúnslæk. Virðist mér Tröðin hafa stefnt á dálítið klapparvað (hvalbak) sem þar var í læknum, vað sem lítið gat breyst. Óvíst er hins vegar hvernig og hvert sú gata lá þá áfram.

Lengi lá gata frá Tungutúni til vesturs í átt til Ásgarðshöfða. Á meðfylgjandi ljósmynd, sem tekin

97

er sunnanvert við Ásgarðshólinn, þar sem halla tekur niður á Engjarnar, má greina leiðina áfram niður að meintri Hvanneyrar-lendingu. Er hún lítið eitt hægra megin við Loftorku turninn sem greina má handan fjarðar á myndinni. Sjóargatan hefur verið sæmilega greiðfær ef frá er talið mýrarslakkið þarna undir holtunum, sem Skipalækurinn rennur um. Það má enn sjá leifar vegarslóðans í Ásgarðs-höfðanum norðanverðum, sjá myndina hér fyrir neðan. Þar virðist hafa verið rudd leið fyrir löngu og hlaðin upp að hluta. Vel getur verið að hún hafi verið til þess að flytja heim hey af Ásgarðsfitinni, sem þarna er fast norðan við. Mér þykir þó sennilegra að flutningar að og frá sjónum hafi verið ástæðan fyrir gerð götunnar.

Nú má nefna það að sunnanvert í Ásgarðshöfðanum er einnig vegarslóði sem nokkuð virðist hafa verið borið í. Hann er á leiðinni með ánni/firðinum suðvestur í Kistuhöfða. Vandséð er hvaða erindi menn áttu þangað um kerrubreiðan veg þar sem ætla má að suðvestur þangað hafi menn helst átt erindi með griparekstur. Vegarslóðinn gæti hins vegar hafa verið gerður til þess að auðvelda flutninga frá sjónum þegar lent var sunnan undir Ásgarðshöfðanum, þar sem sennilega var öllu betri lending en norðan undir honum, eins og áður var gefið til kynna.

Þótt ég kunni lítið sem ekkert til sjómennsku kæmi mér ekki á óvart að vegna sérstakra og síbreytlegra aðstæðna á Firðinum hafi Hvanneyringar stundum þurft að leita lands víðar á ströndinni frá Ásgarðshöfða út í Kistuhöfða, t.d. vegna sjávarfalla, ísreks, vindáttar og –styrks. Þá hefur þurft að gera viðeigandi ráðstafanir í landi vegna flutninganna þar, og m.a. þótt gott að eiga vegarslóða til þess að koma vögnum eða sleðum við . . .

Lendingarstaðirnir á Hvanneyri hafa því sennilega verið fleiri. Skipum (bátum) virðist einnig hafa verið lagt í Heimastokkinn en hann liggur beint fram undan Hvanneyrarstað. Frá honum er styttra að heiman og heim á staðinn en frá Skipalæknum en þar er hins vegar yfir engjar að fara. Vegur þangað niður eftir virðist hafa

98
Götusneiðin niður á Ásgarðsfitina og í framhaldi af henni gæti „sjóargatan“ gamla á Hvanneyri hafa legið.

verið gerður snemma, ef til vill þegar á níunda áratug nítjándu aldar, þegar Björn Bjarnarson bjó á Hvanneyri en hann gerði merkar vegabætur í ábúðartíð sinni þar. Jafnvel hefur verið enn betra að lenda í Hvanneyrarstokknum sem er norðar en þá var að vísu yfir lengri leið um fitjar og engjar að sullast.

Mér virðist sá kostur hafa verið við lendingu í stokkunum að á háflóði og í sæmilega kyrrum „sjó“ hafi mátt þoka skipi upp í stokkakverk þannig að mjög auðvelt hefur verið að ferma það og afferma: skipið gat jafnvel staðið á föstu/þurru á fjöru og borð þess þá í hæfilegri hæð. Má vera til dæmis að sú aðstaða í Heimastokknum hafi verið notuð árið 1910 þegar öllum þeim ósköpum byggingarefnis, sem þurftu í skólahúsið á Hvanneyri, var skipað í land þar úr Borgarnesi. Ég útiloka ekki að sambærileg aðstaða hafi einnig verið í Skipalæknum þótt nú sé umhverfi þar sennilega orðið töluvert annað en áður var. Ætla má að frá ári til árs hafi orðið nokkrar breytingar á strandlínunni frá Hvanneyrarstokki og allt suðvestur að Kistuhöfða rétt eins og við núlifandi menn höfum upplifað síðustu áratugina. Líklegt er því að lendingarstaðir /„hafnaraðstaða“ hafi verið eitthvað breytilegir –líka og jafnvel eftir aðstæðum í hverri ferð, einkum þó í vetrarveðrum og eftir ísrek.

Sem aðkomumanni þykir mér þó sennilegt að við Ásgarðshöfðann hafi helsta vör Hvanneyrarhverfisins verið. Þar er land við sjó hvað fastast undir fæti, þar rann fram lækur sem eflaust mótaði hæfilega vör – Hvanneyrarvör, þar var þægilegt og sæmilega öruggt að geyma bát og síðan það sem trúlega er helsta sönnunartáknið: að lækurinn kallaðist Skipalækur. Undir lok skipaflutninga í þágu Hvanneyrarskólans benda heimildir til þess að Heimastokkurinn hafi hins vegar verið sú „vör“ sem tíðast var notuð enda þá kominn þangað sæmilega greiður vegur.

Vitað er að ferðir á Borgarfirði/Hvítá gátu verið erfiðar og afar varhugaverðar og ekki dæmalaust að mannskaðar hafi orðið í þeim. Halldór skólastjóri Vilhjálmsson mun til dæmis aldrei hafa verið rólegur þegar hann vissi af sínu fólki á Hvanneyrarbáti á leið um fjörðinn. Hann hafði misst fjóra heimilismenn sína í ána í hræðilegu slysi á fyrsta vetri sínum sem skólastjóri. Má því ímynda sér hvílíkur léttir það varð honum og mörgum öðrum er Hvítárbrú opnaði öruggari kaupstaðarleið.

99

Kistuhöfði

Náttúra og not

Land Hvanneyrar er eins konar tunga á milli Hvítár að vestan og Andakílsár að austan. Tungan gengur því til suðvesturs og endar í Kistuhöfða sem rís þar eins og virki í miðjum Borgarfirði. Kistuhöfði stendur vestast í belti kletta, sem mjög einkennir landslag í Andakíl. Hvanneyrarhverfið stendur á því belti. Höfðinn er þó allt annarrar gerðar hvað berg snertir. Þar er líkt og smiður heimanna hafi brætt grjót í aukalega sem soðið hafi upp í eldri jarðlög eða upp úr eldri þeim. Fyrir LX árum var okkur búfræðinemum við Hvanneyrarskóla á grundvelli Jarðfræði Guðmundar G. Bárðarsonar kennt að Brekkufjallið væri „ólagskiptur bergstandur“, eins konar tappi í gígopi. Kistuhöfðinn er smátappi sömu gerðar, ef til vill bara hraungúll.

Guðmundur Jónsson skrifaði svo um þetta svæði árið 1939:

Syðst í landi Hvanneyrar skagar til vesturs klettatangi, er nefnist Kistuhöfði. Yzt á höfðanum er klettaborg allmikil með fremur litlu graslendi. Er það kallað Klif, þar sem klettaborgin er hæst þvert yfir, en vestan við Klifið hallar niður að sjó á alla vegu, og vestast í tanganum var til forna talin ágæt lending. Mátti þaðan komast með hesta upp á tangann, en aðeins á einum stað yfir Klifið. Fyrir ofan klettaborg þessa, norðan á tanganum, liggur meðfram holti einu, grasi vaxinn halli, Norðurkinn. En beint þar á móti, sunnanvert á tanganum, er Kríuholt, og við vesturenda þess var til forna lending í lítilli vík. Suður undan Kríuholti eru tvö sker, er nefnast Kríuholtssker, og er þar flæðihætt. Fyrir austan Kríuholt kemur hátt holt, sem ekki ber sérstakt nafn, og má telja, að Kistuhöfðinn nái austur að línu, sem hugsuð væri fyrir norðaustan það og þvert yfir í Hvítá, en um skörp takmörk er ekki að ræða.

Ströndin austan Kistuhöfða með Kistufirði er skorin af víkum. Stærstar eru Dauðsmannsvík, næst höfðanum, þá Miðvík en austast er Syðstavík. Vel er líklegt að í Dauðsmannsvík hafi fundist einhver slíkur rekinn sem farartálminn Hvítá hafði hremmt, eða sem farist hafði í grimmum sjóum á firðinum.

Í dagbókum nemenda á Hvanneyri frá fyrsta hluta tuttugustu aldar er getið dæma um að þeir hafi lent Hvanneyrarskipi við Kistuhöfðann við aðdrætti úr Borgarnesi. Sennilega hefur mátt velja lendingarstaði við höfðann eftir vindátt, bæði fyrir vondu áttunum S-SA og NA, jafnvel líka fyrir vestanátt. Þá hefur varningurinn verið fluttur heim að bæ á hestum eða bara á postulunum. Ég hef svipast um eftir minjum um mannvirki í höfðanum sem gætu bent til lendingar og skipsuppsáturs en ekkert fundið enn svo öruggt sé. Víst er þó að fjörubotn og strönd hafa áreiðanlega breyst töluvert í áranna rás áður en Borgarfjarðarbrú tók að raska vatna- og sjávarfari á þessum slóðum.

Klettar höfðans taka á sig ýmsar myndir. Þar má m.a. sjá þröngar skorur í þeim, sumar sem minna á kistu og gætu þess vegna verið ástæðan fyrir nafngift höfðans. Mér var bent á að

100

þarna mætti sjá svipaða landmótun og í Kistuvogi, þeim þekkta aftökustað í Trékyllisvík. Ekki er þó vitað til þess að neitt slíkt hafi gerst við Kistuhöfða. En svo er það kistulokið sem vel má sjá norðanvert í höfðanum. Dálítið þungt að vísu en sýnilega hefur einhver samt reynt að lyfta því og gægjast oní byrðuna. Þannig virðist mér auðvelt að tengja nafngift höfðans sjáanlegum landsháttum þar.

En fleira kann að hafa komið til svo hugurinn sé látinn reika. Alþekkt er frásögn Egils sögu um landnám Skalla-Gríms, m.a. um dauða Kveld-Úlfs föður hans í hafi sem þeir „lögðu í kistu ok skutu síðan fyrir borð.“ Förunautur Skalla-Gríms, Grímur hinn háleygski, var samkvæmt sögunni fyrr kominn í Borgarfjörð, og hann fann þar kistu Kveld-Úlfs rekna og jarðsetti hann. Vetri seinna flutti Skalla-Grímur hins vegar utan af Mýrum og gerði sér bústað á Borg. Þótt sagan segi að Skalla-Grímur hafi gefið Grími háleyska land í Andakíl, bendir hún einnig til þess að Grímur hafi verið landnámsmaður þar. Kominn sem slíkur á undan Skalla-Grími og hafandi þá fundið kistu Kveld-Úlfs kann hann því að hafa kosið að finna honum leg utan síns landnáms og þá þar sem líklegt var að Skalla-Grímur tæki sér framtíðar bólfestu. Þannig reki örnefnin Kista og Kistuhöfði sig allt aftur á landnámstíma!

Síðustu árin hefur reglulega sést til hafarna við Kistuhöfða. Varp þeirra mun hafa tekist í stöku árum, þótt einnig muni hann hafa átt sér setur úti í Grjóteyrarklakknum, eyju yst á Kistufirði. Skrifleg veiðisaga er til frá byrjun síðustu aldar, varðveitt í dagbók kennara á Hvanneyri 31. maí 1909, en þar sagði m.a.:

101
Á Kistuhöfða; horft til austurs yfir Víkurnar, Kistufjörður á hægri hönd.

Jeg skaut Örn úti í Kistuhöfða og tel jeg það einn af mestu merkisviðburðum í lífi mínu, því það er mjög sjaldgæft, að slíkt eigi sér stað, því ernir eru nú sjaldsjeðir fuglar.

Hvað um þennan fugl, sem mun hafa verið assa, varð er fátt vitað. Frásögnin er sögumanni svo sem ekki til vegsauka en fjórum árum síðar var haförninn alfriðaður með lögum.

Þessi árin (2020) má oft sjá þennan höfðingja kastalans, Kistuhöfðans, sitja grafkyrran þar á hæsta tróni og horfa einbeittan yfir veiðilendur sínar. Þótt farið sér rólega flýgur hann oftast upp og tekur fallegar svifæfingar yfir gestum sínum, tignarlegur og hljóðlátur.

Fyrir síðustu aldamót var hlúð að æðarvarpi á grónu svæði rétt austan við Kistuhöfðann. Munu hreiðrin hafa verið komin í 50-60 að tölu. Gekk það í nokkur ár en varð að þoka fyrir erninum er hann hóf aftur að venja komur sínar í höfðann.

Sagnir herma að gripir, og þá líklega helst geldneyti, hafi verið geymdir í höfðanum því mjög er auðvelt að girða þvert yfir tangann þar sem hann er mjóstur austan við sjálfan höfðann.

Frá háhöfðanum er afar víðsýnt. Í björtu veðri blasir gervallur fjallahringurinn frá Snæfellsjökli til Hafnarfjalla við. Lega Kistuhöfða í mynni Borgarfjarðar er þannig að óvíða er að finna hentugri varðstöðu. Í ljósi ævintýra fyrri alda má því hugsa sér að þar hefði mátt sjá til mannaferða allt um kring, bæði á landi en enn betur á sjó, auk þess sem þar hefði auðveldlega mátt reisa óvinnanlega borg – kastala. Væri staðurinn t.d. á Skotlandi mundi hann því hugsanlega hafa kallast Fort Chest ! Það að konungur fuglanna hefur valið sér Kistuhöfðann sem setur í óðali sínu segir meira en flest annað um stöðu höfðans í umhverfinu við innanverðan Borgarfjörð.

Þá má vel varpa því fram að nafn héraðsins sé allt eins dregið af þeirri einkennandi borg sem klettahöfðinn er í mynni fjarðarins eins og af klettaborginni upp af bæ Skalla-Gríms?! Kistuhöfðinn hefur blasað vel landnámsmönnum sem komu siglandi inn Borgarfjörð.

Kistuhöfðinn hefur í áranna rás verið vinsæll áfangastaður heimafólks á Hvanneyri sem þangað hefur farið gangandi, ríðandi eða akandi á torfærutækjum. Hvatt hefur verið til varkárni á þeim tíma þegar haförninn er viðkvæmastur fyrir truflun vegna umferðar fólks. Vinsældir höfðans hafa spurst út því almenn umferð þangað virðist hafa vaxið síðustu misserin. Í sjálfu sér er það af hinu góða, svæðið er bæði hrikalegt og óvenjulega í sveit sett – mikilfenglegt til að sjá þarna úti í miðjum Borgarfirði. Hins vegar þarf að fræða gesti um svæðið og gera þeim ljósar þær reglur virða skal þegar farið er um það.

102

Kolbur og hvítir sloppar

Söguþættir um efnarannsóknastofuna á Hvanneyri 1947-1987

Óljóst er hvenær efnarannsóknir hóftst við Hvanneyrarskóla. Víst er hins vegar að á tímum voru þær töluverðar að umfangi. Með 21. öldinni drógust þær saman og eru nú aðeins svipur hjá fyrri sjón. Rifja má upp nokkra söguþætti um þær. Engin tilraun verður gerð til þess að skilgreina hvað nákvæmlega er átt við með efnarannsóknum – aðeins miðað við það sem í munni staðarmanna kallaðist því nafni.

DRÖGIN LÖGÐ

Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri var áhugasamur um rannsókna- og þróunarstarf á sviði landbúnaðar, einkum þó í fóðurfræði. Fóðurtilraunir í Hvanneyrarfjósi hófust þegar veturinn 1912 og þá undir stjórn Ingimundar Guðmundssonar ráðunauts. Árangur tilraunanna var mestan part metinn í magni fóðurs og nytar en ekki er vitað til þess að eiginlegar efnarannsóknir hafi verið gerðar í tengslum við tilraunirnar. Fitumælingar í mjólk munu þó hafa verið gerðar með þeirrar tíðar tækni, enda komnar til sögu sem hluti af vaxandi starfi nautgriparæktarfélaganna. Slíkar mælingar voru líka einn þáttur í starfi Mjólkurskólans, er settur var á Hvanneyri haustið 1900, og mjög líklega hafa Hjörtur skólastjóri og Ragnheiður verðandi kona hans einnig stuðst við fitumælingar í ostagerð sinni og annarri mjólkurvinnslu um aldamótin 1900. Má því giska á að fitumælingar á mjólk hafi verið fyrstu efnarannsóknirnar sem gerðar voru á Hvanneyri.

Halldór skólastjóri virðist hafa gert töluvert af því að mæla og meta með formlegum hætti ýmislegt í búrekstri sínum. Sumt var unnið með samvinnu við aðra svo sem fóðrunartilraunir á sauðfé sem Þórir kennari Guðmundsson hóf árið 1921 að mestu kostaðar af Búnaðarfélagi Íslands og telja má „fyrstu tilraunir með fóðrun sauðfjár hér á landi, sem gerðar voru eftir vísindalegum aðferðum.“ Fleiri rannsóknir gerði Þórir á meðan honum entist aldur.

Haustið 1947 hófst kennsla í Framhaldsdeildinni á Hvanneyri, kennsla í búfræðum er vera skyldi á háskólastigi. Hluti námsins var í grunngreinum búfræða. Til þess að annast þær var ráðinn Stefán Jónsson, síðar kenndur við Kirkjubæ á Rangárvöllum. Hann var búfræðikandídat frá KVL í Kaupmannahöfn með framhaldsmenntun í fóðurefna- og lífeðlisfræði. Efnafræði varð stór hluti grunngreina. Skrifari telur sig m.a. muna að leifar einfalds búnaðar til efna- og eðlisfræðiæfinga hafi verið í Gamla skólanum, kompu sem myndaðist í lokuðum vestri inngangi að skólahúsinu, auk slíkra kennsluáhalda í geymslu vestast á annarri hæð skólahússins. Til kompunnar vísar Bjarni Arason, nemandi í fyrsta námshópi Framhaldsdeildar, sem skrifaði m.a.: „Niðri í kjallara var innréttuð kompa fyrir verklegar æfingar í efnafræði o.fl.“

103

Á rannsóknastofunni um 1960. Frá vinstri Völundur Hermóðsson, Þorgeir Örn Elíasson og Elías Sveinsson, þá nemendur við Framhaldsdeildina á Hvanneyri (ljósm. Ólafur Guðmundsson).

En sama sumar, 1947, var byggð hæð ofan á Hvanneyrarfjósið, lengst af síðan kölluð Fjósloftið. Varð þar til mikið húsrými, sem hægt og bítandi var innréttað til ýmisa þarfa. Þar hafði einnig verið innréttuð íbúð sem varð heimili Stefáns og fjölskyldu hans þau ár er þau bjuggu á Hvanneyri. Haustið 1949 var þar innréttuð efnarannsóknastofa en einnig smíðastofa. Stefán mótaði efnarannsóknastofuna sem þarna var síðan til húsa við vaxandi umsvif næstu fjörutíu árin. Áhugi kennarans Stefáns beindist einnig að rannsóknum og vann hann samhliða kennslu jafnframt fyrir Tilraunaráð búfjárræktar, einkum að votheysrannsóknum og áhrifum sláttutíma á fóðurgildi heyja, skrifaði Halldór Pálsson, er einnig sagði: „Vegna ágætrar menntunar og vísindalegrar nákvæmni í störfum var Stefán prýðilega fallinn til vísindaiðkana.“

Votheysrannsóknir þessar voru býsna merkilegar. Fyrir þeim var síðar gerð grein með fræðiriti. Í formála þess segir m.a.: „Stefán Jónsson, kennari á Hvanneyri, . . . annaðist alla framkvæmd tilraunanna á Hvanneyri og Hesti við verkun heysins, hitamælingar og sýnatöku . . . Stefán Jónsson . . . efnagreindi nokkuð af sýnishornum á efnarannsóknastofu Búnaðardeildar [svo]á Hvanneyri.“

Magnús Óskarsson kennari og tilraunastjóri taldi að Tilraunaráð búfjárræktar hafi kostað einhver rannsóknatæki í efnarannsóknastofuna og minntist m.a. skiptra skoðana þeirra Guðmundar skólastjóra Jónssonar og Halldórs Pálssonar, þá starfandi hjá Búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands, er frá leið, á því hver ætti rannsóknatækin. Og síðar í

104

formála áðurnefnds rits segir: „Nokkrar efnagreiningar voru framkvæmdar á Hvanneyri, og voru þau sýnishorn tekin beint úr gryfjunum til efnagreiningarinnar.“ Tilraunirnar voru gerðar sumarið 1951 í þremur nýlegum votheysgryfjum á Hvanneyri og einni á Hesti en einnig í votheysgryfjum suður í Mosfellssveit.

Sólveig, dóttir Stefáns Jónssonar, minnist rannsóknaverka föður síns, bæði við tilraunir á engjalöndum Hvanneyrar sem og á efnarannsóknastofunni. Hvaða mælibúnaður hefur verið kominn er ekki vitað, en giska má á að það hafi verðið tæki til pH (sýrustigs)og þurrefnismælinga (vog, þurrkofn . . . ) og hugsanlega Macro-Kjeldahl-tæki til köfnunarefnismælinga, sem lengi var til á stofunni. Með óformlegu samstarfi skólans og Atvinnudeildarinnar varð til vísir að bærilegri efnarannsóknastofu á þeirrar tíðar mælikvarða í hinu nýja húsnæði skólans þar á Fjósloftinu.

EFNARANNSÓKNASTOFAN EFLIST

Stefán Jónsson kaus að hverfa frá starfi á Hvanneyri vorið 1955 til þess að taka við hrosskynbótabúi Eggerts bróður síns að Kirkjubæ á Rangárvöllum. Þangað flutti hann því með fjölskyldu sinni. Nýir menn komu til starfa við Hvanneyrarskóla. Við kennslu Stefáns tók m.a. Örnólfur Örnólfsson sem var búfræðikandídat frá KVL eins og Stefán en hafði verið ráðunautur og kennari á Vestfjörðum í fjögur ár frá próflokum. Lítið er vitað um það hvort eða þá hvernig hann nýtti sér efnarannsóknastofuna í störfum um sínum. Haustið 1957 var Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli ráðinn til kennslu í Framhaldsdeild. Hann hafði framhaldsmenntun og rannsóknareynslu í lífefnafræði. Þorsteinn leysti Örnólf af hólmi en Örnólfur hafði brúað bilið sem varð við brotthvarf Stefáns Jónssonar frá skólanum. Það kom í hlut Þorsteins í náinni samvinnu við Magnús Óskarsson tilraunastjóra og kennara að stórefla starfsemi stofunnar, en Magnús var ráðinn til skólans árið 1955. Saman gerðu þeir rannsóknir og rannsóknastofuna að einum mikilvægasta þættinum í starfi Bændaskólans á Hvanneyri um árabil. Sá þáttur var ekki síst mikilvægur fyrir nám og starf í Framhaldsdeild skólans – og síðar Búvísindadeild. Þorsteinn hefur lýst þessum tíma þannig:

„Ég lauk magistersprófi í lífefnafræði frá Hafnarháskóla vorið 1956. Ég fékk vinnu við rannsóknir á vísindastofnun í BNA og vann þar til ársloka 1957. Það gekk allvel og birtust greinar með mínu nafni um árangurinn. Ég gerði mér ekki miklar vonir um vinnu í mínu fagi en skömmu áður en ég fór heim bárust mér tilmæli frá Guðmundi skólastjóra á Hvanneyri um að ég sækti um kennarastöðu við skólann. Hafði hann rökstuddan grun um að ráðamenn myndu skipa í stöðuna mann með ófullnægjandi menntun fyrir kennslu í Framhaldsdeild. Ég sótti um stöðuna, fékk ekki. Jónas Jónsson frá Ystafelli var skipaður. Guðmundur skólastjóri fann að þessu við embættismann. Nefndi skólastjóri að ég hefði miklu meira framhaldsnám en Jónas. Embættismaður svaraði skætingi einum. Guðmundur réði mig upp á von og óvon um að úr myndi rætast. Yfirdýralæknir bjargaði málinu svo að ég fékk laun til að rannsaka beinaveiki í kúm fyrsta árið og komst svo í stöðu sem losnaði við skólann síðar á árinu.

105

Það skal tekið fram að Jónas reyndist farsæll kennari og traustur embættismaður, hvers manns hugljúfi. Hann og hans góða kona voru alla tíð kærir vinir okkar hjóna.

Ég hóf störf á Hvanneyri í ársbyrjun 1958. Ég var settur með fjölskyldu mína í kjallarann í Ráðsmannshúsi, Jónas fékk Tungutún. Starfsmaður sem ekki vann hjá skólanum fékk Svíra en ég hafði fengið orð um að fá þar inni. Í Ráðsakjallara voru þrjú frekar lítil herbergi, eldhús og mjög lítil geymsla. Þetta hefði verið viðunandi ef íbúðin hefði ekki míglekið í rigningum. Það var bót í máli að lekinn læddist með veggjum og sytraði út á gang en lak [hvorki] ofan í húsgögn né rúm. Þarna vorum við í 3 ár en þá reyndist unnt að byggja kennarabústað á vegum skólans og fengum við hann og þar var vistin góð.

Örnólfur Örnólfsson hafði kennt í framhaldsdeild. Hann var búfræðikandídat frá Kaupmannahöfn. Hann hafði barist til mennta, stálheiðarlegur maður en þótti varla rísa undir því að kenna í deildinni. Kennslan var umsvifalaust tekin af honum og ég látin fá hana. Um vorið sagði hann upp og fór en ég fékk stöðuna hans að mig minnir. Ég starfaði á Hvanneyri til ársins 1964 en þá fékk ég vel launað starf í Reykjavík.

Guðmundur skólastjóri vissi að framhaldsnám búfræðinga krefst þess að nemendur og kennarar kynntust tilraunastarfsemi. Magnús Óskarsson var ráðinn kennari við bændaskólann árið 1955 og tók hann að sér jarðræktartilraunir. Þegar ég kom voru þær á góðum rekspeli undir hans stjórn. Allt frá dögum Halldórs Vilhjálmssonar höfðu verið gerðar búfjár- og jarðræktartilraunir en nú skyldu þær verða nauðsynlegur þáttur í fræðslu nema í framhaldsdeild. Ég kem þarna að rannsóknarstofu sem var sæmilega útbúin til efnamælinga í sambandi við jarðrækt og kennslu. Stefán Jónsson kennari lagði grunninn að henni. Hann var vel menntaður og hafði áhuga á tilraunum og kunni til verka í efnamælingum.

Halldór Vilhjálmsson lét reisa stórt fjós og hlöðu árin 1928 – 1929. Fjósið var 10,7 m breitt og 51 m að lengd. Þegar ég var nemandi sumarið 1946 voru allmargir vagnar á 4 hjólum með tveimur hestum fyrir notaðir til að flytja heyið til hlöðunnar. Á vagnana voru lagðar tvö net eða vörpur tengdar saman með tveimur trélistum eða öllu heldur grönnum plönkum í endilangan vagninn og þeir læstir saman með járnlásum sem opnuðust þegar kippt var í band. Að ofan var einhvers konar búnaður sem í mátti krækja járnkrók. Menn mokuðu heyinu á vagnana með heyforkum. Inni í hlöðunni var spil drifið rafmagnsmótor. Stálbiti var endilanga hlöðuna og eftir honum gekk hlaupaköttur tengdur í spilið. Heyhlassið var svo halað í loft upp með spilinu marga metra þangað til búnaðurinn snerti hlaupaköttinn. Þá dreif spilið vörpuna inn í hlöðuna. Þar var fyrir maður sem beindi hlassinu á réttan stað og kippti í bandið sem hékk niður úr hlassinu. Féll þá heyið niður og varpan var dregin út. Notast var við rafmagn úr vatnsaflsstöð. Hún var neðan við Kinnina og vatnið fékkst úr Vatnshamravatni með skurði. Það var ef satt skal segja tafsamt að ná heyinu inn með þessu móti. Laginn og dugmikill nemandi var fenginn til að stjórna spilinu. Mótorinn var of veikburða, sífellt stoppandi og sprengjandi öryggin enda raforkan takmörkuð með tilheyrandi spennuföllum. Síðar var gerður gangur í gegnum hlöðuna fyrir dráttarvélar.

106

Fjósið var upphaflega með hallandi skúrþaki við hlið hlöðunnar. Veit ég ekki hvort veggir og þak fjóssins voru að gefa sig eða þá að leysa þurfti húsnæðisvanda, að reist var ris við hliðina á hlöðuþakinu og fékkst þá mikið húsnæði undir þessu þaki, íbúð handa kennara, rannsóknastofa, rúmgott smíðaloft og fóðurbætisgeymsla.

Rannsóknastofa var í 40 - 50 fermetra rými. Á henni var einn kvistgluggi og nokkuð af plássinu undir súð. Aðkoman að henni var frekar óvistleg. Annað hvort var gengið eftir dráttarvélaganginum gegnum hlöðuna með gínandi súrheysgryfum á báðar hliðar, ellegar upp háan og brattan stiga neðan frá jafnsléttunni þar sem kýr gengu út og inn. Var þar gangur gegnum miðja hlöðu.

Stofunni var skipt í tvennt, annað herbergið var gluggalaust. Þar var hægt að sitja við borð og skrifa niðurstöður og reikna og teikna. Annað skrifstofuhúsnæði hafði ég ekki. Þar voru líka vogir, bæði efnamælingavog sem hægt var að vigta grömm með fjórum aukastöfum og svo grófari vog sem aðeins var næm fyrir hundraðasta hluta úr grammi. Kvörn var til að mala heysýni til efnamælinga. Ég man ekki hvar hún var en ekki var vinsælt verk að vinna við hana. Þarna var glervara til efnarannsókna, efnalager og ef til vill eitthvað fleira sem ég er búinn að gleyma.

Í herberginu með glugganum voru borð, skagi, þar sem hægt var að eima og vinna við sýni. Yfir því borði var hilla eins og svo oft sést á rannsóknastofum, á henni voru nokkrir baukar af efnum og flöskur með vökvum. Við endann á borðinu næst dyrum var postulínsvaskur og tilheyrandi krani með köldu vatni. Þar fékkst kælivatn á eimsvala og vatn á vatnssogdælur. Ég er búinn að gleyma hvað var af borðum og hillum á og með með veggjum. Klefi var fyrir efnalagerinn og stendur hann óskemmdur enn.

Einhvers staðar í þessu rými var þurrkskápur fyrir þurrefnisákvarðanir af tilraunareitum og fleiru þvílíku. Þarna var á stofunni brennsluofn til að aska sýni fyrir efnamælingar. Einnig var mælir til að meta ljósgleypni sýna, kolorímeter upp á dönsku. Með þessum búnaði gat ég strax farið að mæla kalsíum og fosfór í grassýnum af tilraunareitum. Smám saman bættist við búnaðinn. Stór og góður þurrkskápur til að ákvarða þurrefni í grasi af tilraunareitum, logaljósmælir til að mæla natrín og kalín. Engir gashitarar voru á stofunni en allmargir rafmagnshitarar til að nota við eimingar. Ekki taldi ég hægt að gera Kjeldal greiningar til ákvörðunar á proteini vegna þess að við það myndast brennissteinssýrugufur sem eyðileggja bæði dautt og lifandi því að súgskáp vantaði. Úr því rættist þegar við fengum mikro Kjeldal tæki en þá var hægt að soga eitraðan dampinn burt með vatnssogdælu.

Nemendur [Framhaldsdeildar] fengu nokkra tilsögn í efnamælingum í sambandi við nám í efnaog fóðurfræði. Var farið vandlega yfir sýnatöku á grasi, heyi og jarðvegi. Þurrefnisákvarðanir voru gerðar, sýni möluð, öskuð og steinefni mæld. Fengu þeir nokkra innsýn í þessi störf og kynntust gagnsemi þeirra.

Verkefni mitt við að rannska beinaveiki í kúm féll mæta vel að því að rannsaka heysýni af tilraunareitum Magnúsar Óskarssonar. Mátti heita að við værum sem einn maður við þessar rannsóknir.

107

Áburðarverksmiðja var stofnuð í Gufunesi 1952 og hóf hún framleiðslu 1954. Ammóníum nítrat var framleitt og selt bændum, mjög fínkornað og leystist hratt upp í jarðvegi. Ammóníum í áburði sýrir jarðveginn og það aftur veldur tregari upptöku steinefna. Ég hafði eignast sýrumælitæki með sambyggðum rafskautum og með þessu tæki sýndum við Magnús fram á það að jarðvegur í túnum þar sem áburðurinn frá Gufunesi hafði verið notaður var súrari því nær sem dró yfirborði. Á tilraunareitum reyndist kalsín í sýnum óeðlilega lágt svo ekki gat það fullnægt steinefnaþörf mjólkurkúa nema með mikilli notkun fóðursalta. Skoskur dýralæknir, Stewart að nafni, hafði um tíma rannsakað beinaveiki í kúm og sett saman forskrift að steinefnablöndu handa mjólkurkúm.

Við Magnús höfðum fundið að gras vaxið af jarðvegi blönduðum skeljasandi var kalsíumríkt. Á einum bæ þar sem kýr voru beinaveikar ráðlögðum við bónda að bera á skeljasand og gerði hann það með ágætum árangri.

Einnig reyndum við Magnús að bera saman hey af tilraunareitum þar sem annars vegar var borið á ammóníumnítrat og hins vegar kalsíumnítrat og reyndist grasið af reitum með kalsíumnítrati miklu kalsínríkara. Þessum niðurstöðum gat ég skilað með skýrslu um störf mín við rannsókn á beinaveiki kúa. Auðvitað vilja menn þakka sér og verkum sínum sitthvað gott, en líkur finnst mér til þess að okkur Magnúsi sé að þakka að lítið sem ekkert ber á beinaveiki í kúm nú, og löngu hætt að bjóða bændum hið stórhættulega, sprengifima ammóníumnítrat til áburðar.

Hanna Frímannsdóttir vann á rannsóknastofunni við efnamælingarnar. Hún var mikil starfskona og lagin við allt sem henni var falið. Á sumrin var þar að auki vinnufólk sem annaðist sýnatökur og ákvarðaði þurrefni í sýnum af tilraunareitunum og malaði síðan til efnamælinganna. Fleiri kennarar en við Magnús komu að tilraunavinnunni.

Á fyrstu árum tilraunastarfsins undir stjórn Magnúsar Óskarssonar uppgötvaði hann að ekki er hægt að rækta heilgrös á framræstum mýrarjarðvegi án fosfóráburðar. Tilraunareitir án hans voru aðeins moldin blökk.

Árið 1959 var þremur mönnum boðið til BNA á vegum stjórnarinnar þar í landi til að kynna sér notkun geislavirkra ísótópa í rannsóknum. Var boðið til þriggja mánaða dvalar. Ég fór sem fulltrúi landbúnaðarins, Jóhann Jakobsson efnaverkfræðingur á vegum iðnaðarins og Kolbeinn Kristófersson læknir á vegum læknisfræðinnar. Við vorum mánuð á námskeiði í Oak Ridge í Tennessee og tvo mánuði fórum við milli háskóla til að sjá tilraunir.

Eftir þessa dvöl hjálpaði Þorbjörn Sigurgeirsson við Eðlisfræðistofnun Háskólans okkur við að gera tilraunir með geislavirkt fosfat, útvegaði okkur efni og sá í fyrstu um að telja geislavirk sýni og síðan útvegaði hann okkur góðan geislateljara. Hann var að vísu nemendasmíð en ágætt tæki.

Við komumst að þeirri niðurstöðu að fosfatið binst í efstu sentimetrum jarðvegsins og skolast alls ekki þaðan. Þetta staðfesti að fosfat er mjög fast bundið í mýrarjarðvegi þurrkaðara túnsléttna á Hvanneyri eins og tilraunir Magnúsar höfðu sýnt. Þessi þekking er nauðsynleg við ræktun á mýrarjarðvegi.

108

Ég mun alltaf verða Guðmundi Jónssyni skólastjóra þakklátur fyrir að hafa ráðið mig til þessara starfa þó svo að hann hafi ekki boðið mér háreista höll að búa í né heldur rúmt og bjart skrifstofuhúsnæði fyrstu 3 árin eins og nú er í tísku. Ég kynntist ágætum nemendum sem urðu leiðtogar bænda, og tel að við Magnús Óskarsson höfum orðið íslenskum landbúnaði til varanlegs gagns með rannsóknum okkar.

Skrifað í ágúst 2015. Þorsteinn Þorsteinsson“

Það var einkenni vaxtaráranna að rými og innréttingum efnarannsóknastofunnar á Fjósloftinu var breytt og það aukið eftir þörfum og aðstæðum hvers tíma. Séð með augum nútíma mannsins mundi því margt vekja undrun og spurningar. Stofan bjó jafnan við þröngan húsakost, aðgengi að henni var bæði þröngt og erfitt, jafnvel hættulegt, það sama átti við um öryggismál eins og brunavarnir og meðferð hættulegra efna, sem og frárennsli. Einhverjar áhyggjur höfðu menn en þetta voru tímarnir og valdboð og eftirlit höfðu ekki náð þeim hæðum sem í dag þekkjast.

Um og upp úr 1960 var starfið á efnarannsóknastofunni orðið það umfangsmikið að fleiri komu þar að verkum en forstöðumaðurinn einn með aðstoðarstúlku. Ekki síst voru það jarðræktartilraunirnar undir stjórn Magnúsar Óskarssonar sem ólu af sér þörfina fyrir fjölbreyttar efnagreiningar gras- og jarðvegssýna. Af starfsmönnum er þegar nefnd Hanna Frímannsdóttir úr Reykjavík, sem varð afar fjölhæfur rannsóknamaður, sumarstarfsmaður í fyrstu en síðan ársmaður. Við sögu kom einnig Magnús Ellertsson búfræðikandídat og síðar mjólkurfræðingur sem við stofuna vann í hlutastarfi. Einnig Jón S. Snæbjörnsson búfræðikandídat. Húsmæður á staðnum lögðu sumarstarfi Tilraunastöðvarinnar lið, þær Erla Ragna Hróbjartsdóttir og Eygló Gísladóttir, en Ragna varð er frá leið ársmaður við tilraunastarfið, á sumrum sem aðstoðarmaður við jarðræktartilraunirnar en við efnagreiningar á vetrum.

Þorsteinn Þorsteinsson hvarf frá Hvanneyri vorið 1964 en árið eftir kom Friðrik Pálmason lic. agro til starfa en sérsvið hans var plöntunæringarfræði. Jón S. Snæbjörnsson var ábyrgðarmaður stofunnar tímabilið á milli Þorsteins og Friðriks. Friðrik hélt starfinu áfram í líkum anda og Þorsteinn en meðal nýmæla sem Friðrik tók upp voru sykrumælingar í grösum og síðan mælingar á meltanleika heys (in vitro) sem þá voru almennt að ryðja sér til rúms.

Friðrik hvarf til annarra starfa árið 1967 en kom aftur 1977 og tók þá við sama starfi og fyrr. Jón S. Snæbjörnsson hafði þá enn verið eins konar ábyrgðarmaður stofunnar og hafði aflað sér viðbótarmenntunar í efna- og fóðurfræði við norska landbúnaðarháskólann. Starfsemi stofunnar var þá komin í all mótaðan farveg og má segja að Erla Ragna Hróbjartsdóttir hafi verið orðinn hinn fasti starfsmaður er þar hélt utan um daglegt starf er mestan part snerist um efnagreiningar á grassýnum úr hinum umfangsmiklu jarðræktartilraunum Magnúsar Óskarssonar og heysýnum úr tilraunum Bútæknideildar Rala (áður Verkfæranefndar ríkisins).

109

Vegna þessara sýna reyndist einnig brátt nauðsynlegt að hafa sérstakan sumarstarfsmann við það eitt að þurrka, mæla þurrefni og búa gras- og heysýni til varðveislu og frekari efnagreininga. Þessu starfi gegndu m.a. Þóra Guðjónsdóttir frá Syðstu-Fossum, Helga Sigurjónsdóttir á Hvanneyri, Sigríður Laufey Einarsdóttir, síðar á Hesti, Jóhanna Hauksdóttir í Neðri-Hrepp og fleiri.

Merkur áfangi þótti það þegar tekið var að mæla meltanleika í heyi er gerði kleift að ákvarða orkugildi þess. Á Rannsóknastofnun landbúnaðarins höfðu verið gerðar mælingar á meltanleika heys með lifandi dýrum (sauðum). Nú varð mögulegt að stytta sér leið með því að nota vambarsafa úr þeim en herma eftir ferlinum í tilraunaglösum (í „glervömb“ eins og kölluð var – in vitro). Með samvinnu við Rala var aðferðin tekin upp á Hvanneyri. Kom sér nú vel að nóg pláss var á Fjósloftinu svo hægt var að ala þar hrúta til þess að skaffa vambarsafann. Brátt leið þó að því að létta þeirri nauð af dýrunum og herma meltingarferilinn með efnafræðilegum aðferðum einum. Kom það í hlut Friðriks Pálmasonar að leiða þá vinnu á efnarannsóknastofunni. Gerðist það laust fyrir 1970. Í kjölfar efldrar samvinnu búnaðarsambandanna á Vesturlandi og Bændaskólans voru þá teknar upp heyefnagreiningar fyrir bændur, efnagreiningar sem urðu um tíma gildur þáttur í starfi efnagreiningastofunnar.

AF FJÓSLOFTI Í FÍNT RANNSÓKNAHÚS Á Fjósloftinu hafði rannsóknastofu verið búinn staður, smár í fyrstu og einfaldur að útbúnaði en smátt og smátt var aukið við. Undra mörgu var hægt að koma fyrir í þessu frumstæða húsnæði. Menn bjuggu í hendur sér og ekki var ónýtt að hafa staðarsmiðinn, Harald Sigurjónsson, nærri sem flestu gat bjargað og flest smíðað. Með tímanum urðu annmarkar á húsnæðinu æ ljósari. Aðgengi að stofunni var afar erfitt eins og fyrr sagði, loftræsting ófullkomin sem og frárennsli og öryggisbúnaður, þar með taldar eldvarnir, þótt asbest væri helsta klæðningarefnið. Mengandi áhrif frárennslis frá stofunni sem gjarnan fór sömu leið og mykjan frá kúnum á neðri hæðinni varð ábyrgum aðilum stofunnar mjög mikill þyrnir í augum og áhyggjuefni um langt árabil. Má segja að flest sem prýða mátti nútíma efnarannsóknastofu hvað umhverfi og aðbúnað snerti hafi verið ófullkomið og sumt beinlínis stórhættulegt.

Hins vegar hafði á stofunni fyrir löngu skapast notalegt og hvetjandi andrúmsloft sem ræktaði skemmtilegan starfsanda. Nemendur Framhalds- og síðar Búvísindadeildar fundu það en um nær 40 ára skeið var stofan helsti vettvangur verklegra æfinga þeirra í efna- og eðlisfræði, líffræði og gerlafræði. Þar urðu fyrstu kynni þeirra af öguðum vinnubrögðum við rannsókna- og fræðistörf. Minnist skrifarinn þess til dæmis að hafa hjá kennaranum Þorsteini Þorsteinssyni frá Húsafelli lært að umgangast öll mælitæki af virðingu og nákvæmni, þrífa vel eftir sig og að koma hverjum hlut á sinn stað aftur að lokinni notkun, auk þess að klæðast hvítum sloppi við efnagreiningar og að forðast að hafa útvarp glymjandi á stofunni.

110

Litrófsmælir til efnagreininga, frá Klett-Summerson, fenginn á rannsóknastofu Bændaskólans árið 1947. (Úr safni LbhÍ, Hve)

Það má kalla guðs þakkar vert að slys eða meiri háttar óhöpp urðu engin á fjörutíu ára starfstíma stofunnar á Fjósloftinu. Segir það meira um verkhætti og umgengni starfsfólksins en aðstöðu og búnað stofunnar.

Fyrsta „analysu“-vog Hvanneyrarskóla, frá Eimer & Amend, fengin á rannsóknastofu Bændaskólans árið 1947. (Úr safni LbhÍ, Hve)

Um 1980 var farið að ræða um nýja aðstöðu til efnarannsókna við Hvanneyrarskóla. Má segja að það hafi verið angi af þeim áhuga sem var á því að efla búvísindanámið enn sem og rannsóknastarf skólans. Hér verður sú saga ekki rakin; aðeins nefnt að haustið 1986 var tekið í notkun stórt, vandað og vel búið rannsóknahús á Hvanneyri. Lausamunir voru fluttir úr stofunni á Fjósloftinu í hina nýju rannsóknastofu en nýr búnaður fenginn að öðru leyti. Varla er hægt að lýsa þeirri breytingu sem varð á allri aðstöðu til efnagreininga og annarra rannsókna með flutningunum. Það kom einkum í hlut Þorsteins Guðmundssonar jarðvegsfræðings og síðar prófessors að leiða starfið, að búa um og móta fyrstu árin í hinu nýja rannsóknahúsi. Ekki má gleyma hlut Aðalsteins Geirssonar örverufræðings og kennara er kom upp á stofunni prýðilegri aðstöðu til örverurannsókna sem þar voru stundaðar um skeið.

En það er af hinu gamla húsnæði að segja að það var tekið til nýrra þarfa. Elísabet Haraldsdóttir keramiker fékk þar hlutaaðstöðu til listsköpunar og vinnslu- sinnar, vel búinni mjaltatækni-kennslustofu var komið þar upp, og síðast en ekki síst var elsta hlutanum breytt í vinnustofu fyrir nemendur fyrsta árgangs í Umhverfisskipulagi, síðar landslagsarkitektúr, við LBH haustið 2000.

Þannig hélt saga húsnæðisins áfram að þræða sig í gegnum árin. Þarfir hvers tíma réðu nýtingu Fjósloftsins og breytingum á því.

111

Veðurathuganir á Hvanneyri

Eftirfarandi línur, sem skrifaðar eru að gefnu tilefni, byggjast ekki á mjög nákvæmum heimildarannsóknum eins og ráða má af textanum en eru tilraun til þess að taka saman nokkra þætti um veðurathuganir á Hvanneyri og notkun niðurstaðna úr þeim.

Rekja má upphaf veðurathugana á Hvanneyri til ársins 1922. Þá sneri Búnaðarfélag Íslands sér til Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra og mæltist til þess að komið yrði upp veðurathugunarstöð þar. Um þær mundir var verið að leggja drög að Veðurstofu Íslands en veðurmælingar hérlendis annaðist þá „veðurdeild löggildingarstofunnar“. Tók veðurdeildin við því hlutverki af Veðurstofunni dönsku (Meteorologisk Institut). Hver aðild og ástæða Búnaðarfélagsins fyrir beiðninni var er undirrituðum ekki kunnugt. Halldór féllst á erindi félagsins enda sæi „veðurathugunarstofan í Reykjavík“ að öllu leyti um að koma stöðinni upp og að leiðbeina um starfrækslu hennar. Ennfremur „að stöðin fái daglega sent veðurskeyti [um] heyskapartímann – ókeypis“ segir í bréfi Halldórs frá 30. okt. 1922. Hófust svo veðurathuganir er stóðu að mestu samfellt fram til 1. apríl 1944. Varð þá hlé um nærri tveggja áratuga skeið til ársins 1963 að mælingar hófust að nýju. Hafa þær staðið síðan.

Veðurathugunarmenn / ábyrgðarmenn Hvanneyrarstöðvarinnar frá upphafi hafa samkvæmt ársyfirlitum Veðurstofu Íslands verið:

1923-1929: Þorgils Guðmundsson kennari 1929-1932: Ásmundur Sigurðsson ráðsmaður 1932-1941: Hjörtur Jónsson ráðsmaður 1941-1944: Guðmundur Jóhannesson ráðsmaður 1944-1963: Stöðin ekki starfrækt 1963-1969: Helga Sigurjónsdóttir húsfrú 1969-1972: Óttar Geirsson kennari 1972-1984: Bjarni Guðmundsson kennari 1984-1993: Grétar Einarsson deildarstj./Hafdís Pétursdóttir ritari Frá 1993: Sjálfvirk veðurfarsstöð

Ekki veit ég með vissu hvar á Hvanneyri veðurathugunarstöðin var fyrstu tvo áratugina; hún mun þó hafa verið í næsta nágrenni skólastjórahússins, sjá meðf. mynd. Við setningu veðurstöðvarinnar árið 1963 var henni komið fyrir skammt austan við Ráðsmannshúsið, á svæði sem þá var vel opið til N-, A- og S-átta (h.u.b. N 64°33,053; V 21°45,732 en nokkrum árum síðar (1969?) færð spölkorn til austurs á N 64°33,945; V 21°45,672). Stöðin skyldi vera „veðurfarsstöð“. Í henni voru gerðar mælingar þrisvar á dag, kl. 9, 15 og 21, og uppsöfnuð úrkoma mæld einu sinni á sólarhring (kl. 9) og gögnum skilað mánaðarlega til

112

Veðurstofu Íslands. Um þær mundir hafði jarðræktartilraunum undir stjórn Magnúsar Óskarssonar vaxið svo fiskur um hrygg að talið var nauðsynlegt að gera athuganir á veðurfari jafnhliða, enda engin veðurfarsstöð nærlendis, að frátalinni úrkomustöð við Andakílsárvirkjun.

En fleira ýtti undir áhuga á veðurathugunum á Hvanneyri: Markús Á. Einarsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands beitti sér fyrir auknum mælingum stofunnar á búveðurfræðilegum þáttum. Gerðist það í kjölfar liðveislu sem Tækniaðstoð Sameinuðu þjóðanna veitti Veðurstofu Íslands til eflingar á „mælingum og rannsóknum í þágu landbúnaðarins og annarra aðila, sem þurfa á míkróveðurfræðilegum upplýsingum að halda.“ Kom Veðurstofan m.a. upp sérstökum reit til ýmissa mælinga á því sviði að Sóllandi í Reykjavík og vildi einnig efla slíkar mælingar á tilraunastöðvum landbúnaðarins sem þá voru á einum fimm stöðum utan Reykjavíkur, þ.m.t. á Hvanneyri. Hitt var það að undirritaður í framhaldsnámi sínu vann verkefni sem tengdist veðri og veðurfari, þ.e. þurrkun á heyi og möguleikum þeirrar aðferðar við íslenskar aðstæður. Bætt hafði verið við mælingum á jarðvegshita og með slitróttum hætti uppgufunarmælingum. Á þeim hafði Markús sérstakan áhuga sem og undirritaður vegna tengsla þeirra við vatnsbúskap gróðurs og heyþurrkunareiginleika lofts.

Á túnkorti Jóhanns G. Björnssonar nemanda frá 1922 má trúlega greina hvar veðurmælingatækjum, úrkomu- og hitamælum, var komið fyrir á fyrstu árum veðurstöðvarinnar á Hvanneyri: Í varpanum norðvestan við Skólastjórahús og kirkju.

Gögn veðurstöðvarinnar nýttust vel við að lýsa aðstæðum jarðræktar á Hvanneyri og ekki síður tilraunum Verkfæranefndar ríkisins með þurrkun og aðra meðferð heys á velli sem og súgþurrkunarrannsóknirnar er stundaðar voru um árabil á Hvanneyri. Vegna heyverkunartilraunanna voru mælingar á lofthita og loftraka mikilvæg forsenda er kom að úrvinnslu og túlkun. Til viðbótar mælingum í veðurstöðinni hafði Verkfæranefnd og síðar Bútæknideild Rala jafnan uppi síritandi mæla á heyskapartíma (hita og loftraka) sem bætti notagildi veðurathugananna. Samtenging þurrkunartilrauna og veðurathugana skilaði ýmsum fróðleik.

113

Um 1980 voru á Hvanneyri gerðar umfangsmiklar rannsóknir á húsvist búfjár, einkum sauðfjár, undir stjórn Grétars Einarssonar. Nýttust þá heldur betur veðurathuganir gerðar í veðurfarsstöðinni á Hvanneyri.

Ég tek þessi tvenn rannsóknasvið sem dæmi um það hvernig veðurathuganirnar nýttust í öðru rannsóknarstarfi Bændaskólans á sviði búvísinda – og þá til viðbótar þeim mikilvæga bakhjarli sem þær höfðu verið tilraunum og rannsóknum á sviði jarðræktar og áður var minnst á.

Veðurfarsstöðin stóð á sama stað á árunum 1963-1980, undir ásnum skammt austan við Ráðsmannshúsið. Árið 1980 var stöðin flutt bæði vegna þess að hún þótti standa á stað sem þröngt var um hana með tilliti til þess að nema veðurþætti án mikilla hindrana í umhverfinu en ekki síður vegna þess að umsjónarmenn hennar færðu sig um set í hverfi sem þá var að byggjast upp, nyrst á svonefndum Skólaflötum, þar sem hún stendur enn.

Það má skjóta því hér inn að við flutning veðurstöðvarinnar 1980 var haft í huga það sem komið hafði til formlegrar umræðu nokkru fyrr, að koma fyrir sólstundamæli á Hvanneyri. Gert var ráð fyrir að skólinn keypti mælinn en Veðurstofa Íslands annaðist alla þjónustu við hann. Framkvæmdin lenti í útideyfu, m.a. vegna þess að undirritaður lenti í öðru starfi um tíma.

Síðustu 10-15 árin hefur rannsóknastarf á Hvanneyri breyst og þá um leið not þeirra gagna sem veðurfarsstöðin þar safnaði – og safnar. Ljóst er þó að þar hafa áfram hlaðist upp gögn sem til ýmissa verka munu nýtast, og þá ekki síst með endurreisn og eflingu þess rannsóknastarfs á sviði ræktunar sem nú er hafin á Hvanneyri.

Veðurfarsstöðin er nú á stað sem ekki hentar vel. Hún liggur þétt við mikla umferð fólks og hefur goldið nokkuð fyrir það, m.a. athafnaþrá ungs og námfúss fólks á leið heim frá ölstofu staðarins að næturþeli; þó mun minna en að óreyndu hefði mátt ætla.

Hyggilegt er því, líka í ljósi þess að stöðin er orðin sjálfvirk í verulegum mæli og þarf því ekki jafn náið nábýli við athugunarmann og áður, að skoða nýjan stað fyrir hana sem og mæliþætti hennar og þá með hliðsjón af helstu þörfum sem stöðin á að mæta á næstu árum.

114

Komist frá krít og blýanti

Drög að kennslutækjasögum frá Hvanneyri

TAFLA OG KRÍT . . .

Mér þykir líklegt að fyrstu eiginlegu kennslutæki skólans hvað bóklegar greinar varðar hafi verið krítin og tafla. Áreiðanlega eiga þau lengstu söguna. Nær hún langt fram á áttunda áratug síðustu aldar; telur meira en 90 ár af sögu skólans. Sáraeinföld tækni og eftir því ódýr en mótuð af kennaranum í öllum atriðum – hjá sumum skýr, skipuleg og auðlesin en hjá öðrum ósköp mikill hrærigrautur, illa skrifaður og torlesinn. Sjálfur minnist ég krítar með hóflegum söknuði: Væri maður í dökkum fötum og „krítaði liðugt“ kom maður yfirkrítaður úr tíma og með lungun ert af kalkryki. Ekki batnaði standið ef taflan hafði verið þvegin með sápuvatni við síðasta þvott kennslustofunnar.

Snemma komu til ýmis konar spjöld, líkön og sýnishorn, sem notuð voru við búnaðarkennsluna, m.a. spjöld um grasafræði og fleiri líffræðigreinar, og síðar vélaog verkfærafræði, prentuð á þykkan pappa og í mörgum litum, að ógleymdum kennsluspjöldum um Müllers-æfingarnar. Fjölritun var tekin upp um 1920. Lengi vel sprittfjölritun en síðan blekfjölritun með „stenslum“. Þótti það mikil framför við gerð kennsluefnis sem losaði nemendur undan umfangsmiklum eftirritunum fyrirlestra. Í ársritinu Búfræðingurinn, sem hóf göngu sína á fjórða áratugnum fyrir atbeina Guðmundar Jónssonar, þá kennara á Hvanneyri, voru birtar efnismiklar ritgerðir um ýmis búnaðarmál. Þær voru síðan notaðar sem kennsluefni um árabil. Búfræðingurinn varð sameiginlegur vettvangur beggja búnaðarskólanna.

Á sjötta áratugnum komu til fjölritaðar kennslubækur býsna vandaðar að frágangi, m.a. um fóðurfræði og almenna búfjárrækt. Aðstaða til fjölritunar efnis stórbatnaði á Hvanneyri um og upp úr 1960. Mér finnst eins og Áburðarfræði Magnúsar Óskarssonar og Jarðvegsfræði Óttars Geirssonar, að ekki sé nú gleymt Ritgerðatali, séu dæmi um verk sem unnin voru heima á Hvanneyri með nýjum og vönduðum blekfjölrita frá Rex Rotary er skólinn fékk á þessum árum.

Vinnan við stenslana, sem ég kynntist allvel sem teiknari, var snúningasöm þótt væri afar hagnýt fyrir skólann og nemendur. Vesen gat verið að leiðrétta innsláttarvillur hins vélritaða texta og svo var nokkur kúnst að teikna myndir á stenslana. Það var að mestu gert með sérstökum pennum sem minntu mjög á örsmá kleinujárn. Gat þó tekist allvel ef myndin var einföld og teiknarinn einbeittur. Því varð tæknistökkið mikið þegar fenginn var „brennari“ fyrir stensla, einnig frá Rex Rotary, ef mig misminnir ekki. Með honum varð sára auðvelt að færa skýrar strikamyndir yfir á stensla og fjölrita síðan á venjulegan máta. Kennsluefnið batnaði stórlega að öllum frágangi.

115

Brautryðjandi innan stensla-fjölritunartækninnar á Hvanneyri var Hanna Frímannsdóttir, rannsóknamaður á Rannsóknastofu Bændaskólans, en byltingin með bókunun 1965 var rekin áfram af ritaranum Hafdísi Pétursdóttur (líklega fyrsta ritara skólans í formlegu starfi). Brátt varð til starf í kringum fjölritunina. Því sinnti lengi framan af Guðný Halldórsdóttir Arndal. Enn er byggt á rótum þess starfs en með mjög breyttri tækni.

„TEKIÐ UPP“

Þó það tilheyri ekki kennslutækjum má hér víkja að kennsluháttum sem beitt hefur verið við skólann. Heimildir benda til að fyrirlestrar hafi verið mikið stundaðir á fyrstu áratugunum, og þá líklega fyrirlestrar sem fluttir voru þannig að nemendur (flestir) gátu skrifað þá niður frá orði til orðs. Dæmi um þá hafa mörg safnast í gagnasafn skólans. Eimdi eftir af þessari kennslutækni nokkuð fram á sjöunda áratuginn. Með bættum aðgangi að kennslubókum þykir mér líklegt að yfirheyrslur hafi orðið hið viðurkennda verklag. Nemendur voru teknir upp að töflu og látnir svara spurningum kennarans um tiltekna kennslubókarkafla eða taka þátt í spjalli um þá. Ég hygg að þessi háttur hafi að mestu lagst af um og upp úr 1970. Þá fóru að taka við verkefni, bæði tímaverkefni og stærri, ætluð bæði einstaklingum og hópum.

Mér finnst eins og árin eftir 1972 hafi tekið að einkennast af þesu verklagi – sem og ritgerðasmíði. Innan skólans varð á þeim árum (1972-78) mikil umræða um kennslufræði. Haldin voru lengri og skemmri námskeið fyrir kennara sem mikil áhrif höfðu á vinnulag þeirra og verkhætti. Búnaðar- og garðyrkjukennarafélag Íslands (BGÍ) vann mikið og gott verk á því sviði. Kennarar skólans voru fyrst og fremst menntaðir í búfræðum og öðrum greinum náttúrufræði, ráðnir sem kunnáttumenn á þeim sviðum en lítið lagt upp úr kennsluhæfileikum þeirra. Gert var ráð fyrir að þeir væru meðfæddir. Það breyttist undir aldarlokin er til sögu fóru að koma búnaðarkennarar er einnig höfðu aflað sér staðgóðrar formlegrar háskólamenntunar í uppeldis- og kennslufræðum.

Próf og námsmat við skólann í gegnum tíðina er sérstakur kafli sem ég hætti mér ekki út í að fjalla um að svo stöddu.

REIKNIVÉL NÝRRA TÍMA

En svo gerist frásögnin örlítið sjálfhverf og skreppur út úr skipulegu fari kennslutækjanna um stund. Upp úr miðri öldinni efldist tilrauna- og rannsóknastarf við Hvanneyrarskóla til muna. Kom þá til tækni því tengd, ekki síst til útreikninga. Flestar voru það fremur einfaldar reiknivélar, séðar með augum nútímans. Þó minnist ég reiknivélar frá árunum 1963-1964 með allflóknu og hallandi talnaborði sem notuð var við útreikning uppskeru af tilraunareitum og umbreytingu hennar í þurrefnismagn. Vélin var það flókin að Magnús Óskarsson tók okkur nemendur Framhaldsdeildar í sérstakan verktíma til þess að sýna okkur notkun vélarinnar í þessu skyni. Í minni mínu hefur hún sest að sem stór og fyrirferðarmikil, þung og hávær reiknivél sem fátt gerði nema margfalda, deila, draga frá og leggja saman. Af einhverjum ástæðum varð hún skammlíf á Hvanneyri og mér ekki sérlega minnisstæð.

116

„Handreikningar“ voru í hávegum hafðir. Minnisstætt er mér það atvik frá vorinu 1965 er við tveir námsfélagar í Framhaldsdeild vorum að ljúka við verkefni vetrarins í búreikningum hjá Guðmundi skólastjóra er fræðin kenndi. Vegna kunnugleika komst ég í reiknivél á skrifstofu Verkfæranefndar og með henni lögðum við saman og stemmdum af dálkana löngu. Vorum fljótir. Er Guðmundur komst að þessu snupraði hann okkur félagana; sagði okkur læra svo mikið á því að leggja saman í huganum . . .

Skömmu áður en ég lauk prófi við NLH á Ási veturinn 1971 og hélt heim kynntist ég nýrri Facit-rafreiknivél, sem mér þótti hið mesta þing. Hún var með sérstöku minni og undarlegum skjá þar sem tölurnar virtust birtast sem rauðglóandi þræðir. Reiknivélin var geymd í sérstöku herbergi stofnunarinnar og var töluverð ásókn í hana af starfmönnum deildarinnar (Landbruksteknisk Institutt) sem von var.

Er ég kom heim og hóf störf hjá Bútænideild Rala á Hvanneyri, í febrúar 1971, voru þar tvær reiknivélar; Odhner hét önnur, forn að gerð með pappírsstrimli, og hana notaði Ólafur deildarstjóri Guðmundsson mest til bókhaldsreikninga. Hin var Contex 20 vél, rafknúin en mekanisk með miklum hávaða og ágætlega lipur. Ætli hún hafi ekki komið á deildina í kringum 1963-64. Þá vél notaði ég mikið á fyrstu mánuðum mínum þar eftir heimkomuna. Vissulega þótti mér afturförin töluverð, en sætti mig við hana. Þá þegar var ég nefnilega búinn að detta um þá reglu að fátt er tilraunamanninum mikilvægara en að fá tilfinningu fyrir tölum rannsóknarinnar með eigin innslætti eða hægvirkum og endurteknum útreikningi (. . . ef til vill það sem Guðmundur skólastjóri var að segja okkur með áðurnefndum snuprum vorið 1965. . . !)

Svo gerðist það undir áramótin 1971-72 að mig minnir ákveðið að Ólafur deildarstjóri tjáir mér að nokkrir fjármunir deildarinnar muni verða afgangs um komandi áramót og að rétt væri að nota þá til fjárfestingar í þarfahlutum. Ég vék að hugmyndum um rafreiknivél „með minni“. Ólafur tók strax vel í tillöguna enda mun ég eitthvað hafa nuddað um hana fyrr á árinu. Við ræddum málið nánar og veltum fyrir okkur kostum sem við höfðum haft spurnir af.

Úr Reykjavíkurferð skömmu fyrir jólin kemur svo Ólafur með nýja reiknivél, af gerðinni Ricomac 1620R model 7468, keypta hjá Skrifstofuvélum hf /Otto Michelsen á Hverfisgötu 33, með tveimur minnum hvorki meira né minna, vél sem var fjarska fallega hönnuð: hljóðlát, nett og með grænum talnaskjá. Mér fannst við hafa himin höndum tekið. En dýr var gripurinn. Ég man ekki betur en vélin hafi kostað 72 þús.kr. Það var mikið fé. Má hafa það til samanburðar að þá voru mánaðarlaun mín víst um 36 þús.kr., samkvæmt launakvarða sérfræðings á lista BSRB.

Ég beið ekki boðanna að hefja notkun reiknivélarinnar, sem komið var fyrir á skrifborði mínu þarna á þremenningaskrifstofu okkar Ólafs og Árna Snæbjörnssonar innst í suðurenda (nýja) Verkfærahússins. Ég hafði í námi mínu við NLH komist upp á lag með

117

tölfræðireikninga, einkum aðhvarfsreikninga og fervikagreiningu, og tók nú að beita þeim í tíma og ótíma á eldri og yngri tilraunagögn frá Verkfæranefnd og Bútæknideild. Þar þurfti því á stundum að reikna langar talnaraðir til summu og fertölu(kvaðrat-)summu. Hafði það áður kostað a.m.k. tvöfaldan innslátt hverrar frumtölu. Með hinni nýju vél dugði hins vegar að slá hverja frumtölu inn aðeins einu sinni; minnin tvö björguðu restinni. Mér fannst ég kominn í nýjan heim og reiknaði allt sem ég kom höndum yfir. Ricoh-reiknivélin varð mér brátt ómissandi hjálpartæki.

Ég hafði um þetta leiti verið settur til þess að kenna nemendum Framhaldsdeildar frumatriði tölfræði-greiningar. Nú voru þeir að komast á skrið með lokaverkefni sín, þ.e. hópurinn sem útskrifaðist vorið 1973. Í þeim verkefnum sumum reyndi töluvert á tölfræði. Eðlilegt þótti að veita þeim tilsögn á reiknivélina góðu og að veita þeim aðgang að henni þegar hún væri ekki í notkun Bútæknideildarmanna. Gekk það allt hnökralítið að ég best man ekki síst vegna þess að sumir nemendanna unnu það til að vaka um nætur til þess að geta nýtt sér hægindin. Minnist ég sérstaklega þeirra Jónatans Hermannssonar Tungnamanns frá Galtalæk og Hauks Júlíussonar Rauðsendings frá Móbergi í þeim efnum. Af langdregnum næturreikningum þeirra spunnust sögur sem síðar hafa orðið munnmæli og skemmtiefni á nemendamótum.

Ricoh-vélin dugði í þó nokkur ár, en var að hluta leyst af hólmi með „vasareiknivélum“ sem Bútæknideild keypti, þær mátti bókstaflega setja í vasa og þær gengu fyrir rafhlöðum. Mig minnir að sú fyrsta hafi komið á árinu 1974; alla vega var ég að vinna með slíka vél að láni frá Bútæknideild heima í Steinbæ þegar í útvarpinu komu fregnir um hið hrikalega snjóflóð á Neskaupstað og hörmulegar afleiðingar þess.

Steininn tók þó úr líklega í kringum 19789 er ég keypti fyrir eigin reikning CASIO fx-19 scientific calculator. Sú kostaði aðeins hluta úr mánaðarlaunum, en olli enn meira stökki í notkun heldur en Ricohvélin góða gerði. Í snarhasti mátti reikna ýmsar tölfræðistærðir á CASIO-vélina, sem fór vel í vasa og var drifin rafhlöðum. Varð hún dyggasti fylgifiskur minn í kennslu og á bændafundum um langt árabil en raftengda borðvélin Ricoh rykféll.

Það má svo botna þessa frásögn með því þegar Guðmundur skólastjóri Jónsson sá Ricoh-vélina í fyrsta skipti hjá okkur Bútæknikörlum og hafði fengið stutta en upphafna kynningu mína á fídúsum

Ricomac 1620R-reiknivélin frá 1971; hún hafði tvenn minni og þótti mikið þing. (Úr safni LbhÍ, Hve).

118

vélarinnar sagði hann bara: „Hva, enginn strimill?“ Hann var vanur að bera prentaðan strimil reiknivélarinnar saman við frumgögnin. Og þótt ég segði honum að álíka langan tíma tæki að slá tölurnar inn aftur eins og að fara yfir strimilinn þótti honum það fánýt skýring. Honum fannst sýnilega ekki mikið til hinnar nýju reiknivélar koma.

RISSAÐ Á SELLÓFAN

Mig minnir að myndvarpinn (Over Head Projector – OHP) hafi haldið innreið sína í Hvanneyrarskóla á útmánuðum veturinn 1966. Daglangt þann 4. mars, skv. dagbók minni, sat ég alla vega við og teiknaði kennslumyndir án afláts á varpann fyrir meistara minn og brautryðjanda myndvarpatækninnar á Hvanneyri, Ólaf Guðmundsson, sem þá var að kynna hina nýju tækni. Rissaði ég allmargar slíkar myndir fyrir hann síðar þann vetur. Mér finnst það hafi verið fyrir áhrif bræðra hans, Sigurðar og Ásgeirs, sem báðir voru skólastjórar, að Óli ýtti á eftir að svona apparat yrði fengið til kennslu á Hvanneyri. Við höfðum ekki einu sinni almennilegt nafn á verkfærið, kölluðum það bara prósjektor. . . Var hann ekki af gerðinni 3M? (og er líklega til enn). Ég teiknaði með tússi á sellófanskæni, stórar og smáar myndir, aðallega tengdar verkfærarfræðikennslu Ólafs. Það var hægt að bæta litum inná, leggja aðra mynd yfir og hvaðeina . . . Últramóderne, þótti manni, þó sellófanið væri bæði þunnt og vildi verpast í lampavarmanum; sérstöku glærurnar komu síðar . . . Toppurinn var þó á teikna á sellófanrúlluna, sem fylgdi græjunni og lögð var yfir birtuflöt hennar, mátti þannig gera myndasögu: Svo var bara að snúa sveif og ný mynd birtist á veggnum – Og það þurfti ekki einu sinni að myrkva gluggastórar kennslustofurnar á Hvanneyri!

Á þessum árum voru reglulega haldnir fundir í Hvanneyrar-akademíunni, en hana skipuðu kennarar, tilraunamenn, ráðsmaður og fleiri megandi staðarmenn og gestir eftir atvikum. Og þennan vetur, 9. mars 1966, var haldinn sérstakur kynningarfundur í akademíunni um notkun OHP-tækninnar. Hún var raunar hluti AV-byltingarinnar (Audio Visual Technology) sem brátt tók að breiðast út í skólum hérlendis. Ólafur kynnti hið nýja tæki, sem vakti töluverða athygli. Engin örtröð varð þó að notkun þess sem bera varð á milli kennslustofa því aðeins eitt slíkt var til við skólann í fyrstu.

Það var helst Ólafur sem tækninni beitti, enda mikil þörf myndskýringa í kennslugrein hans. Krítin dugði þeim eldri hins vegar enn um stund. Byltingin varð á árunum 197274 hvað Hvanneyri snerti; kennarar fengu nokkur námskeið í meðferð OHP-tækninnar og í kennslufræðum í sambandi við hana. Fleiri myndvarpar voru keyptir og settar voru sérstakar töflur í stærstu kennslustofurnar tvær sem hentuðu til glærusýninga. Þær urðu hluti af hinum nýja kennslubúnaði.

EITT GAMALT „EPÍSKÓP“

Frá fyrsta námsári mínu á Hvanneyri, 1961-62, þykist ég muna apparat sem örlítið var notað, einkum þó af Ólafi Guðmundssyni. Það var kallað episkóp. Það minnti töluvert á fallbyssu

119

að ytri gerð. Setja mátti bók eða mynd á plötu undir því og varpa myndinni upp á tjald. Myndin varð ósköp dauf nema því aðeins að herbergið væri myrkvað. Hve gamalt tækið var á skólanum veit ég ekki. Sennilega hefur það verið endurnýjað því á árunum í kringum 1970 var komið nýlegra tæki en sömu megingerðar. Líklega var það þá sáralítið ef nokkuð notað. Fór svo að það var lánað út í Heiðarskóla til Sigurðar, bróður Ólafs, er þar var skólastjóri. Þróunin hljóp frá tækinu og það dró úr notkun þess þar einnig. Ég vissi alltaf af því þar út frá og nauðaði í Birgi Karlssyni, góðum ungmennafélaga mínum, sem þar var þá orðinn skólastjóri, að skila því aftur heim að Hvanneyri, hvað hann gerði samviskusamlega. Tækið er nú uppi á lofti Bútæknihúss, að því er virðist í góðu standi. Það heitir Pentascope og er þýskrar gerðar, svo vart mun þá að spyrja að vöndun smíðinnar. Við leit á Netinu komst ég að því að episkóp-tæknin er mjög gömul, rekur rætur allt aftur á 18. öld.

Mér finnst ég muna eftir episkópi í nútímalegum kennslusal Landbruksteknisk Institutt við NLH, þar standandi á allháu borði á hjólum, en sá skóli var á mínum árum þar (19661971) ekki búinn flóknum kennslutækjum. Sáralítið var það notað enda voru ljósmyndavélar og skuggamyndir (dias) þá orðnar almannaeign, og um flest þægilegri en hinar gömlu „fallbyssur“. Myndvarparnir ruddu þeim svo endanlega úr vegi og vaxandi tækni til þess að útbúa myndefni fyrir þá. Með komu þeirra lauk hins vegar því tímaskeiði er nemendur og fyrirlestragestir gátu fengið sér sætan lúr í myrkvaðri stofunni og undir svæfandi suði sýningarvélarinnar. Myndvarpinn gegndi sínu hlutverki nefnilega með ágætum í fullri dagsbirtu.

TÖLVA TIL SÖGU

Árið 1979 fagnaði Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára afmæli sínu. Þá var ýmislegt gert til hátíðarbrigða og mörkunar áfangans. Eitt af því var að starfsmenn gengust fyrir fjársöfnun til þess að kaupa tölvu. Það flokkast undir sjálfsdýrkun að nefna það að hugmyndin mun hafa verið runnin undan mínum rifjum. Nokkurt fé safnaðist, þótt ég muni nú ekki lengur hvernig það féll til eða hvernig, hluti þess var alla vega kominn frá starfsmönnum, og sjóðurinn varð nægur til þess að tölvan var keypt. Hún leit út eins og uppþvottavél með áföstum prentara og lyklaborði. Fáir kunnu með verkfærið að fara, en það varð fljótlega áhald Jóns Viðars Jónmundssonar, sem líka gerði sér lítið fyrir er frá leið og keypti fyrir eigin reikning skjá við tölvuna. Jók skjárinn stórlega þægindi við notkun hennar. Notkunartími þessarar tölvu varð ekki langur því stutt var í það að einmenningstölvur (PC) héldu innreið sína í skólann. Gísli Sverrisson var auk Jóns Viðars hvað helsti forgöngumaðurinn á því sviði . . . Einn millileikur í tölvusögu staðarins var koma Burroughs borðreiknivélar; mér finnst hún hafa verið nokkru fyrr á ferðinni en afmælistölvan 1979. Burroughs-vélin var þeirrar náttúru að hana mátti forrita til einfaldari verka og geyma síðan forritið á segulspjaldi í greiðslukortastærð. Kom vélin sér einkar vel við ýmsa runureikninga til dæmis á efnarannsóknastofu skólans.

Upp úr 1990 tóku einmenningstölvurnar að ryðja sér til rúms á skrifstofum starfsmanna og hjá nemendum skólans. Tekin var upp kennsla í meðferð hinnar nýju tækni. Einhvern veginn held ég nú samt að jafningjafræðsla hafi verið hvað drýgsta menntunarleiðin á því

120

sviði innan skólans – hver kenndi öðrum. Sjálfur eignaðist ég tölvu árið 1988, Macintosh SE, kostaði þá á kennaraverði liðlega 130 þús. kr. með prentara. Þá notuðu nær allir PCtölvur, en mér þótti Macintosh hæfa betur áráttu minni að skrifa ekki bara texta heldur geta ögn leikið mér með letur og uppsetningu. Kostaði það að sönnu nokkrar stympingar á milli manna með mismunandi tölvugerðir en tíminn leysti úr þeim. Við Björn Þorsteinsson, sem kom til skólans árið 1990, vorum Macintosh-menn og því í stórum minnihluta gagnvart PCmönnum.

Hér má skjóta því inn áður en hefst næsti kafli að á árunum 1992-93, að mig minnir, var keyptur búnaður við tölvu og myndvarpa er þótti boða enn nýja tíð. Eins konar skjár/gluggi, er hét Syett Datashow 480, var tengdur við tölvu og hann lagður ofan á myndvarpa. Með því að vinna á tölvuna, t.d. Excel-reikinga, mátti færa þá yfir á gluggann sem myndvarpinn endursendi síðan upp á tjald. Daufar voru að vísu tölurnar en með því að skyggja rýmið og rína í myndina mátti njóta þess að sjá dæmið reiknast áfram á tölvunni. Gísli Sverrisson varð aðalkunnáttumaður á þennan búnað og sá sem helst notaði hann. Notkunartíminn var skammur enda stutt í næstu byltingu. Tækið er þó til enn.

. . . OG SVO KOM KRAFT PUNKTUR (PPT)

Það var svo árið 1997 í tilefni 50 ára afmælis búfræðikennslu á háskólastigi að tölvan hélt fyrir alvöru innreið sína í kennslustundir á Hvanneyri. Velvildarstofnanir skólans, ýmis þjónustufyrirtæki landbúnaðarins, lögðu af myndarskap fram fjármuni til þess að búa kennslustofur nýjum og góðum tækjum til kennslu. Keyptur var fjarfundabúnaður, vígður á afmælishátíð Framhaldsdeildar síðsumars 1997 með ávarpi rektors danska Landbúnaðarháskólans, sem sent var þaðan til afmælissamkomunnar.

Og í hinar þá nær níræðu kennslustofur Gamla skólans voru settar tölvur með tilheyrandi skjávörpum en einnig eins konar nútímavæddri gerð episkóps. Notkun tækisins varð þó lítil og tók brátt enda því í þennan mund var forritið PowerPoint að ryðja sér til rúms. Var nú hægt að útbúa í tölvu allt efni sem nota þurfti með fyrirlestrum svo sem texta, bæði lengri og skemmri, sem og myndir af öllum gerðum. Framan af þurftu nemendur áfram að skrifa niður helstu atriði fyrirlestranna en brátt var tekið að afhenda þá ljósritaða, þ.e. „afhendin“ með helstu efnispunktum.

Ekki leið þó á löngu áður en nemendur tóku að koma með fartölvur sínar í kennslustundir. Í gegnum þær fengu þeir aðgang að öllu efni kennarans, að ekki sé nú gleymt aðgengi að Netinu og öllum leyndardómum þess. Með komu þessarar tækni varð kennslan skipulegri á flestan máta og auðveldaði kennaranum vinnu sína. En hræddur er ég um að hún hafi fremur en hitt ýtt undir það að nemendur lærðu aðeins efni glæranna en létu lestur tilvísaðra heimilda oftast sitja á hakanum.

Í kjölfar tölvu-skjávarpakennslunnar og æ betri tölvutenginga kom fjarkennsla/fjarnám til sögunnar. Gerðist það með fyrsta tug 21. aldarinnar m.a. með þjónustu tölvufyrirtækisins

121

Nepal/Bjarka Más Karlssonar (sem ég held að segja megi að kviknað hafi undir þaki Bændaskólans laust fyrir aldamótin). Nýbreytnin mæltist vel fyrir þótt við ýmsa byrjunarörðugleika væri að etja. Hún var svar við kalli og möguleikum tímanna, m.a. til fjarnáms, en ósköp var ég feginn að hafa horfið frá kennaraborðinu áður en verulega reyndi á nýja verkhætti við kennsluna.

KRÍT GEYMD TIL ÖRYGGIS

Þannig hefur tæknin velzt fram og steypt stömpum í áranna rás. Spannar þó þessi saga mín ekki nema liðlega hálfa öld. Hverjum áfanga hefur verið tekið af hrifningu og verklag hefur við hann breyst, alltaf til bóta í helstu atriðum. Þótt dýr hafi tæknin jafnan verið í upphafi hefur verðið hríðfallið, jafnframt því sem möguleikar og afkastageta tækninnar hefur vaxið að mun. Tveggja minna reiknivélin sem fékkst fyrir tvenn mánaðarlaun mín haustið 1971 verður til dæmis broslega lítil í samanburði við tölvu sem í dag mundi kosta tvenn mánaðarlaun! Eiginlega er ekki hægt að bera þær saman enda er á milli þeirra heil eilífð.

Og þegar ég horfi til baka eru þau margs konar tækin sem áttu að leysa vanda heimsins –kennarans og rannsóknamannsins – en lutu hinum þunga straumi tíma og tækniframfara, hurfu í hringiðuna. Þannig mun einnig fara um þau sem í dag móta starfsumhverfi arftaka minnar kynslóðar . . .

Ég geymi krítarmola og blýantsstubb til öryggis.

122

Ræðustóllinn hans Ríkarðs

Gersemisgjöf til Hvanneyrarskóla

Á fimmtíu ára afmælishátíð Bændaskólans á Hvanneyri 24.-25. júní árið 1939 færðu Mýraog Borgarfjarðarsýslur ásamt Búnaðarsambandi Borgarfjarðar skólanum af gjöf ræðustól sem gerður var af listamanninum Ríkarði Jónssyni. Jón Steingrímsson sýslumaður afhenti gjöfina á sérstökum fundi nemenda félagsins „Hvanneyrings.“

Ræðustóllinn er mikið og forkunnarfallegt listaverk. Hann hefur alla tíð síðan verið notaður við allar stærri athafnir skólans. Lengi vel var hann einnig kennslupúlt eldri deildar. Margir hafa flutt mál sitt úr þessum ræðustóli, meðal annars fyrstu ræður sínar skjálfandi af ótta við áheyrendur. Líka hafa þeir verið til er litu á stólinn sem hvatningu til þátttöku í skoðanaskiptum. Þannig lét einn af ágætustu nemendum skólans, Jón M. Guðmundsson á Reykjum í Mosfellssveit, þau orð falla fyrir nokkrum áratugum að sig langaði alltaf til þess að halda ræðu þegar hann sæi þennan ræðustól. Svo mun vera um fleiri.

Ræðustóllinn er smíðaður úr eik: Megin hluti hans er raunar læsanlegur skápur er opnast að ræðumanni. Ofan á honum hvílir púlt, einnig með læsanlegu loki er hallast að ræðumanni. Ræðustóllinn er allur útskorinn. Ber mest á lágmynd framan á honum er sýnir sáðmann með skeppu sína er fellir fræ í akur. Yfir henni er síðan skráð höfðaletri:

Akrar voru frjóvir og aldingarðar Gladdist arður í grænum sverði Bændaskólinn á Hvanneyri Gjöf frá Borgfirðingum 1939

Fléttusúlur mynda fremri horn ræðustólsins og efst á þeim eru mikilúðleg höfuð karls og konu – bónda og húsfreyju, sem minna mjög á Torfa Bjarnason og Guðlaugu konu hans í Ólafsdal á styttum Ríkarðs er standa þar vestra.

Ýmis búskapartengd tákn eru síðan á stólnum, svo sem búfé, jarðyrkja, heyskaparamboð og mjólkurvinnsluáhöld. Töluvert hefur mætt á ræðustólnum í áranna rás enda var hann lengi kennslupúlt eins og fyrr sagði. Það var því fyrir aldarafmæli Hvanneyrarskóla, árið 1989, að Halldór Sigurðsson listamaður á Miðhúsum við Egilsstaði og nemandi frá Hvanneyri tók ræðustólinn til sín og hreinsaði hann og lagfærði svo varð sem nýr.

123
Hvanneyrarstóll Ríkarðs Jónssonar.

Ræðustóllinn er án efa eitt af mestu listaverkum Ríkarðs Jónssonar. Hann er líka einn mesti dýrgripur í eigu Landbúnaðarháskóla Íslands. Þótt orðinn sé meira en 80 ára gamall, eða þess vegna, er hann áhrifamikið tákn um hlutverk og starf skólans. Ræðustóllinn glæðir mikilvægar stundir í lífi nemenda og starfsfólks sérstökum blæ.

124

Refabúið á Hvanneyri 1937-1949

Nýsköpunartilraun í kjölfar kreppu

AÐDRAGANDINN

Eitt af þeim ráðum sem gripið var til þegar mæðiveiki hóf að herja á sauðfé og ógna afkomu bænda á fjórða áratug síðustu aldar, auk annarra efnahagserfiðleika er þá steðjuðu að, var að reyna loðdýrarækt. Búgreinin var þó ekki ný hérlendis því fljótlega upp úr aldamótunum 1900 hófu nokkrir bændur að reyna markaðssetningu skinna (belgja) af villtum refum. Að norskri fyrirmynd tóku menn að fanga yrðlinga á grenjum og ala þá upp í eyjum uns þeir höfðu fengið hæfilega þroskað skinn. Aðferðin var m.a. reynd í Elliðaey á Breiðafirði og Grímsey á Steingrímsfirði. Upphaf þessa háttar var á árunum 1910-1915 en þegar árið 1907 fréttist af refaeldi vestur á Bíldudal. Það var svo á árunum 1929 og 1930 að flutt voru til landsins ræktuð loðdýr.

Loðdýrarækt komst á dagskrá hjá Búnaðarfélagi Íslands og fyrir tilstuðlan þess var maður sendur til Noregs að kynna sér refarækt þar. Það var Guðmundur Jónsson frá Ljárskógum í Laxárdal, sem síðan var ráðinn ráðunautur félagsins í búgreininni frá vorinu 1934. Stofnað var loðdýraræktarfélag og fenginn norskur ráðgjafi til þess að kynna sér íslenskar aðstæður til eflingar greininni. Árið 1937 voru sett ný lög um refaveiðar og loðdýrarækt og í þeim var m. a. heimild til þess að skipa ráðunaut í loðdýrarækt, launaðan beint úr ríkissjóði. Landbúnaðarráðherra skipaði H. J. Hólmjárn til starfa, er þannig varð loðdýraræktarráðunautur ríkisins. Aukið líf færðist í búgreinina, útflutningur skinna óx fram að hámarki er náðist árið 1943. Úr því dalaði hann enda heimsstyrjöldin búin að breyta markaðsmöguleikum greinarinnar. Með sjötta áratugnum má segja að útflutningur loðskinna væri að litlu sem engu orðinn. Þetta er upphafssagan í stuttu máli.

Til Íslands bárust fregnir af því að Norðmenn hefðu náð undra góðum árangri í ræktun refa og sölu skinna af þeim. Meðal annars hafði Norðmaðurinn Olmer Brager-Larsen, talinn einn

refarækt - fjöldi fregna

Súluritið gefur hugmynd um stöðu refaræktarinnar á 20. öld. Súlurnar tákna hve oft á áratug orðið refarækt (nf) kemur fyrir í gagnasafninu timarit.is árin 1900-1969: Fjórði áratugurinn var tími búgreinarinnar. Leit gerð 14. maí 2020.

125
0 50 100 150 200 250 300

fremsti sérfræðingur heimsins í lodýrarækt, verið á Íslandi um þriggja vikna skeið síðsumars árið 1935 og m. a. haldið fyrirlestra um greinina. Til Noregs voru silfurrefir fluttir frá Kanada árið 1914 og um miðjan fjórða áratuginn var útflutningur refaskinna orðinn stærsti hluti útflutnings norskra landbúnaðarafurða. Í grein við hlið ritstjórnargreinar Morgunblaðsins 7. apríl 1937 sagði t.d. að í Noregi væru refabúin um 15 þúsund; næmi framleiðslan um 25 milljónum skinna og fengju refaeigendur að jafnaði 150 kr. fyrir skinnið, „í stöku tilfellum upp í 700 kr.“ Ekki hafði þróun refaræktarinnar þar þó gengið án áfalla en reynsla hafði safnast. „Þessa reynslu verðum við að hagnýta okkur út í ystu æsar,“ skrifaði Morgunblaðið. „Ef það er gert þá ætti silfurrefaræktin að geta orðið hjer mjög arðvænleg atvinnugrein í framtíðinni.“ Í ljósi þeirrar stöðu sem helsta búgrein bænda, sauðfjárræktin, var í um þær mundir sakir mæðiveikinnar, má ímynda sér að fréttir af reynslu Norðmanna hafi hvatt áhugasama bændur og forystumenn þeirra til þess að reyna sömu leið.

Í framhjáhlaupi má nefna það á sömu síðum dagblaðanna og lesa mátti fréttir af vexti og viðgangi refaræktar voru m.a. fregnir um vaxandi spennu á milli Þjóðverja og nágrannaþjóða þeirra vegna stöðu Gyðinga í Þýskalandi – vísir að því sem með sínum hætti átti eftir að vera banabiti búgreinarinnar í fyllingu tímans.

SAMVINNUBÚ TIL REFARÆKTAR

Bændur í Andakílshreppi skáru sig ekki úr hópi þeirra er sáu þörf fyrir nýjar afkomuleiðir. Mjólkurframleiðsla var efld, enda mjólkursamlag nýstofnað í Borgarnesi, garðyrkja við jarðhita lofaði góðu, og svo var það refaræktin: Þetta sama vor, nánar tiltekið 29. apríl 1937, héldu þeir árlegan aðalfund búnaðarfélags síns. Á fundinum hóf formaður félagsins, Guðmundur á Hvítárbakka, máls á stofnun samvinnubús um refarækt. Málinu virðist hafa verið vel tekið og eftir nokkrar umræður var kjörin nefnd „til þess að rannsaka málið og undirbúa það til vorhreppsfundar.“ Í nefndina voru kosnir þeir Runólfur Sveinsson skólastjóri á Hvanneyri, sr. Eiríkur Albertsson á Hesti og Sigurður Jakobsson bóndi á Varmalæk. Málið kom aftur til umræðu á næsta vorhreppskilaþingi, eins og ákveðið hafði verið. Runólfur hafi framsögu um málið fyrir hönd nefndarinnar. Hafði hann „talað við bankastjóra Búnaðarbankans og Gjaldeyrisnefnd, og gaf ýmsar upplýsingar um málið.“ Á fundinum var „ákveðið að fela nefndinni að starfa áfram og semja uppkast að lögum fyrir félagið, og boða til stofnfundar.“ Gekk það eftir.

Hér má skjóta því inn að refarækt var ekki með öllu óþekkt í Borgarfirði á þessum árum því árið 1927 var stofnað refaræktarfélag, sem aðsetur hafði í Svignaskarði, og var hlutverk þess að rækta íslenska blárefi.

Og Runólfur hafði áfram forystu í málinu, án efa með dyggum atbeina Guðmundar á Hvítárbakka. Til varð Loðdýraræktarfélag Andakílshrepps og af óþekktum ástæðum var refabúinu valinn staður á Hvanneyri. Mannvirki refabúsins voru reist á klettarindunum skammt sunnan við hjáleiguna Tungutún. Má segja að þannig hafi það staðið utan túns

126

og ekki í umferðinni um eða heim á skólastaðinn; áreiðanlega gert með nokkrum vilja til þess að dýrin yrðu fyrir sem minnstri utanaðkomandi truflun. Runólfur skólastjóri var nýkominn frá námi í Danmörku og hefur því eflaust verið aflögufær um ýmsa þekkingu á greininni sem til þurfti. Ráðist var í smíði búranna. Bændur í hreppnum lögðu fram vinnu við smíðina, sumir svo mörgum dagsverkum skipti. Fyrstu mannvirkin voru búr, reist sem grind úr timbri klædd með vírneti. Trékassi var í hverju búri þar sem refirnir gátu leitað skjóls. Og fleiri mannvirki bættust við eins og brátt verður vikið að. Komið var upp öflugri girðingu umhverfis „refagarðinn“ svo eiginlega svipaði mannvirkinu til fangelsis, megi marka myndir af því.

STARFSMENN REFABÚSINS – HEIMILDARMENNIRNIR

Áður en lengra er haldið er rétt að nefna helstu heimildarmenn að þessari sögu. Frásagnir um refabúið komu upp við öflun heimilda um Búnaðarfélag Andakílshrepps vegna starfssögu þess og aldarafmælis árið 1981. Mér fannst framtakið forvitnilegt og minntist líka leifa af refabúinu sem lágu undir tönn tímans sunnan túns á fyrstu árum mínum á Hvanneyri í byrjun sjöunda áratugs síðustu aldar. Mér datt því í hug að afla frekari fróðleiks um málið og eftir nokkra leit hafði ég upp á þremur mönnum sem unnið höfðu við refabúið og voru þá enn á lífi. Ég sendi þeim lista með nokkrum spurningum sem þeir svöruðu vel og vinsamlega, hver með sínum hætti. Þessir menn voru:

Agnar Leví Jónsson (1917-2006) frá Heggsstöðum, V.-Hún.: Starfaði frá hausti 1937 til hausts 1938. Bergur Þórmundsson (1915-1991) frá Bæ, Borg.: Starfaði frá hausti 1938 til jóla 1941. Hjalti Jósefsson (1916-2007) frá Stórhól í Víðidal, V.-Hún.: Starfaði frá hausti 1941 út árið 1942 og „leiðbeindi og hjálpaði fram eftir 1943.“

Það sem hér fer á eftir er fyrst og fremst byggt á upplýsingum þeirra félaganna, en auk þess vill svo vel til að varðveist hafa nokkrar ljósmyndir úr og af refabúinu sem fyrsti stjórnandi þess tók, Norðmaðurinn Trond H. Gravem, en af honum segir brátt nánar.

Loðdýraræktarfélag Andakílshrepps var stofnað sem hlutafélag og áttu flestir bændur í hreppnum hlut í því. Hlutirnir miðuðust við dýr, skrifaði Bergur, og „var algengt að 1-3 dýr væru í hlut.“ Dæmi virðast hafa verið um að menn ættu einstök dýr. Þannig gat Agnar um eina læðu sem utanfélagsmaður átti í búinu og að veturinn 1938-39 hafi verið „5 fóðradýr, sem sr. Eiríkur [Albertsson] á Hesti átti og kom þar í hirðingu.“ Árið 1938 var tekið 15.000 kr. lán til búsins með ábyrgð Andakílshrepps sennilega vegna stofnkostnaðar búsins.

REFABÚIÐ REIST

Nú kemur til sögunnar Norðmaðurinn Trond H. Gravem, þá tuttugu og sex ára gamall. Hann kom frá Romfo, litlu sveitaþorpi í Sunndal á Mæri. Gravem hafði rekist á blaðaauglýsingu, skrifaði Agnar . . .

127

. . . þar sem óskað var eftir tveim refahirðum að refabúum á Íslandi. Búnaðarfélag Íslands hafði milligöngu um ráðningu mannanna, en þeim var ætlaður staður á Hvanneyri og Melstað í Miðfirði, en þar var einnig verið að koma upp refabúi. Það var nánast tilviljun að Gravem lenti að Hvanneyri, því sá sem fór að Melstað var honum samskipa til Reykjavíkur en dvalarstaður þeirra ekki ákveðinn endanlega fyrr en eftir komu þeirra til landsins.

Laun Gravems voru í byrjun um 100,- á mánuði, frítt fæði, húsnæði og þjónusta en hækkaði fljótlega nokkuð. Gravem var ekki langskólagenginn en þó víða vel að sér, t.d. góður reikningsmaður, ágætur trésmiður, hafði fallega rithönd, með afbrigðum þrifinn og reglusamur. Hann hafði prýðilega þekkingu á loðdýrarækt, sem hann hafði aflað sér með langri reynslu í hirðingu og lestri fagrita. Hann var sérlega áhugasamur í starfi og það var honum metnaðarmál að refabúið á Hvanneyri mætti eflast, dafna og verða til fyrirmyndar.

Agnar taldi að Gravem hafi að mestu haft umsjón með allri smíði, bæði búra og læðukassa, en kassarnir sem dýrin komu í frá Noregi voru látnir duga fyrir steggina. Félagsmenn lögðu fram vinnu við smíðarnar, eins og fyrr sagði, m.a. Sigurður Sigurðsson á Ytri-Skeljabrekku og Jón Jónsson í Árdal, en einnig heimamenn á Hvanneyri þeir Ingimar Guðmundsson, Magnús Hrólfsson og Hjörtur ráðsmaður Jónsson. Fleiri voru nefndir til sögunnar svo sem þeir Bæjarbræður, Júlíus og Bergur Þórmundssynir. Í desember 1937 var lokið við að smíða dýrabúrin og koma upp girðingunni umhverfis þau. Gravem hannaði hvolpahúsið (uppeldishús, sjá mynd) og byggði það með aðstoð annars manns vorið 1938. Kapp var lagt á að koma húsinu upp í tæka tíð til þess að hýsa fyrstu hvolpana, þegar kom að því að skilja þá frá læðunum.

Agnar kvað Gravem einnig hafa hannað og smíðað öll drykkjarílát, sem til búsins þurfti: „Þau voru sérlega hentug og betur gerð en önnur, sem ég hef séð,“ skrifaði Agnar. Er frá leið var útbúin svokölluð fæðingar-„klinik“, en þar voru læðurnar hafðar þegar þær voru að gjóta þannig að eftirlit væri auðveldara með þeim. Sama átti við um „útsýnisturninn“ er Agnar kallaði svo, hann kom síðar. Sennilega hefur hann auðveldað eftirlit með dýrunum í búrum sínum sem og svæðinu innan vörslugirðingarinnar.

Frétt í Tímanum 8. nóvember 1938 er til marks um áhuga á refarækt í Borgarfjarðarhéraði um þær mundir: Refabú eru sex í uppsveitum Borgarfjarðarsýslu. Eru þar silfurrefir, blárefir og Alaska-refir. Hið elzta mun vera að Litlu-Drageyri í Skorradal, en önnur að Múlakoti, Húsafelli, Vilmundarstöðum, Hvanneyri og Sturlureykjum. Sturlureykja-búið eiga fimmtán menn sameiginlega. Fyrir vestan Hvítá eru mörg refabú og standa sum þeirra á gömlum merg. Frá Svignaskarði voru í ár fluttir út blárefir til Svíþjóðar. Loðdýrasýning er nýafstaðin í Borgarnesi og þótti bera vott um mikla framför loðdýrastofnsins í héraðinu. Stórum fleiri dýr verða sett á að þessu sinni heldur en áður hefir verið.

128

DÝRASTOFNINN Á BÚINU

Dýrin til refabúsins komu öll, taldi Agnar, frá þekktum loðdýrabúum í Noregi, flest frá Per Svartstad á Svartstad Pelsdyrgård, skammt frá Lillehammer, og nokkur frá Ole Ruud, sem mun hafa verið í Hallingdal. „Öll dýrin voru á fyrsta aldursári, allt silfurrefir. Þetta voru góð dýr, sérlega hreinlit og flest alsilfur sem kallað var (1/1), en nokkur ¾ silfur. „Mig minnir“, skrifaði Agnar ennfremur, „að kaupverð dýranna hafi verið að meðaltali um 500,- krónur auk flutningskostnaðar, en algengasta skinnaverð á erlendum uppboðum mun þá hafa verið 70,- - 160,- krónur. Til gamans má geta þess að meðal lambsverð var á þessum tíma nálægt 20,krónum, svo að um það bil 25 lömb mun hafa þurft á móti einum ref, (lífdýri).“ Agnar minnti að dýrin hafi verið um tuttugu fyrsta veturinn, skipt þannig að tvær læður voru á móti einum stegg – refatríó eins og sumir munu hafa kallað það.93

Refahirðarnir bregða á leik. Til hægri er Trond Gravem, hinn norski bústjóri, og hefur refatöng sína á Bergi Þórmundssyni frá Bæ, sem var refahirðir á búinu. Myndin gæti hafa verið tekin árið 1939. (THG)

Haustið 1938 voru keyptir blárefir til búsins, nokkrir þeirra sóttir norður í Þingeyjarsýslu, og munu hafa verið hvolpar af grenjum, taldi Agnar, frá því um vorið og því óræktaðir; tvær læður og tveir steggir. Einnig voru keyptir á sama tíma 13 Alaskablárefir, 10 læður og 3 steggir. Misjafnlega gekk tímgun hjá þeim því aðeins ein læða fæddi lifandi hvolpa, níu að tölu sem allir komust upp.

Nákvæmar skár voru jafnan haldnar um dýrin á búinu og ættartölur fylgdu þeim sem keypt voru frá Noregi. Skemmtun höfðu refahirðarnir af því að gefa læðunum nöfn, og þá meðal annars eftir kvenfólkinu sem var á Hvanneyri: Hanna, Gauja, Gýgja, Hilda, Sigga, Magga, Begga o.s.frv. Agnar nefndi líka Lóu og skrifaði: „hún var fallegasta læðan á búinu, lítil vexti, alsilfruð með mjög ljósan og þéttan, glansandi feld, smáleit og afar fríð, róleg í fasi og íhugul. Hún var frá Ole Ruud.“ Svo sem gerist hjá góðum gripahirðum hafa augljóslega myndast sterk tengsl á milli dýra og hirðis. Nöfn steggjanna mundi Agnar einnig: Óðinn, Óli, Ólafur, Óskar, Óttar og Ófeigur . . . „Upphafsstafurinn Ó í nafni steggjanna táknaði fæðingarár dýranna, þ. e. að viðkomandi væri fæddur 1937. “

FÓÐRIÐ OG FÓÐRUNIN

Agnar sagði uppistöðu fóðurs dýranna hafa verið kjöt, en einnig var gefið refakex, fiskmjöl, mjólk, lýsi, steinefnablanda (mineraler) og grænmeti (grænkál), þegar var til. Fiskur og fiskimjöl var keypt frá Akranesi, en kjöt fengið frá Hvanneyrarbúinu, aðallega hrossakjöt, 93 Í umræðum um endurreista loðdýrarækt á Ráðunautafundi í Reykjavík fjórum áratugum síðar minnist ég þess til dæmis að Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri orðaði það svo að hentugt gæti verið að sauðfjárbændur kæmu sér upp „refatríói“ sem aukagetu til búdrýginda.

129

auk þess sem bændur í nágrenninu „sendu mikið af kjöti af mæðiveikirollum og annað rusl á lágu verði,“ skrifaði Hjalti refahirðir. Bergur taldi bændurna hafa haft af þessu „nokkrar tekjur.“

Nokkrir erfiðleikar voru á geymslu kjötsins því þá voru frystigeymslur ekki komnar til sveita. Gravem brá þá á það ráð að hanna og smíða sérstaklega útbúinn geymsluskáp, klæddan flugnaneti þannig að loftað gat um hann en útilokaði fluguna. Í þessum skáp geymdist kjötið í þó nokkurn tíma, skrifaði Agnar.

Veturinn 1939-1940 komst refabúið í fréttir fyrir tilraun sem þar var verið að gera með fóðrun refanna á osti úr undanrennu. Hugmyndina átti Sigurður mjólkurbústjóri Guðbrandsson í Borgarnesi er fékk Loðdýraræktarfélagið til þess að reyna hana. Áttatíu refum, silfur-, blá- og hvítrefum hafði þá verið gefinn osturinn, 100 g á dag og dýr síðan í nóvember, auk annars fóðurs. Dýrin voru sögð hafa etið fóðrið af græðgi, heilsast vel og „útlit þeirra fullt eins gott og áður.“94 Runólfur skólastjóri áleit að á vissum tímum árs mætti fóðra refi, með góðum árangri, með allt að helmingi fóðurs af þessum osti.

94 Morgunblaðið 11. febrúar 1940, 3.

130
Horft til norðvesturs á refabúið á Hvanneyri. Hvolpahúsið er byggingin til hægri er stendur þvert á búraröðina. (AJ) Refabúrin ásamt vinnuskúr og útsýnisturninum. Næst má sjá staura varnargirðingarinnar um refabúið. (THG)

REKSTUR OG AFKOMA REFABÚSINS

Af lýsingum heimildarmanna má ráða að refahirðarnir hafi verið býsna sjálfstæðir hvað snerti daglegan rekstur refabúsins. Runólfur skólastjóri „sá alveg um rekstur búsins, bókhald, útvegun fóðurs og byggingarefnis,“ skrifaði Agnar. Runólfur „bar hag þess mjög fyrir brjósti og lét búinu í té alla aðstöðu sem þurfti á staðnum, “ skrifaði Hjalti Jósefsson. Í stjórn félagsins voru lengst af auk Runólfs þeir Guðmundur á Hvítárbakka og Sigurður á Varmalæk. Agnar telur að Kristján Guðmundsson á Indriðastöðum hafi verið formaður félagsins um tíma. Leitað var til ráðsmanns Hvanneyrarbúsins, einkum hvað snerti aðstoð við aðdrætti fóðurs. Við einstök verk er meira lá við veittu nemendur Bændaskólans aðstoð en til kennslu virðist búið lítið sem ekkert hafa verið notað. Þó getur Agnar um einn nemanda á tíma hans sem vildi kynna sér refarækt og vann á búinu til þess. Í skýrslu Hvanneyrarskóla árið 1938 segir einnig að „Norskur refahirðir [sjái] um dýrin, en tveir Hvanneyringar dvelja hér í því skyni að læra af honum það starf.95

Víst er að refabúið á Hvanneyri var reist á traustum grunni bæði hvað snertir verkþekkingu, bústofn og bakhjarla reksturs. Dýrin sem refabúið fékk fyrst voru silfurrefir af góðum kynjum. Þau urðu eftirsótt til undaneldis svo að fyrstu þrjú árin seldust nær allir hvolpar til lífs. Dýrin gátu sér gott orð á sýningum sem reglulega voru haldnar. Um það skrifaði Hjalti refahirðir m.a.:

Hann (þ.e. Gravem) lagði allt kapp á að vera með góð sýningardýr, og mun hafa verið snjall að búa þau undir sýningar, en þá voru refasýningar mikið spennandi. Man ég eftir Hvanneyrardýrunum 19371938. Fór Gravem með þau á allar sýningar frá Reykjavík vestur í Stykkishólm og norður fyrir heiðar.

V (1938), 128.

131
95 Búfræðingurinn
Refahirðar að störfum á Hvanneyri. Bergur Þórmundsson mun vera sá til vinstri en hinn er óþekktur. (THG)

Þótti mörgum nóg um sýningakeppnina því margt af dýrunum skilaði engum arði, enda fóðruð til sýninga en ekki frjósemi. –

Orðum Hjalta til áréttingar má geta þess að á refasýningum Loðdýraræktarfélags Íslands haustið 1938 unnu dýr frá refabúinu á Hvanneyri til fjölmargra verðlauna. Sýnd voru 24 dýr frá búinu og hlaut 21 þeirra fyrstu verðlaun. Var það hærra verðlaunahlutfall en á nokkru öðru refabúi um þær mundir.96 Á sýningu í Borgarnesi 2. nóvember 1938 var besta dýrið silfurrefur frá Hvanneyri „keyptur frá Svarstad í Noregi í fyrra.“ Refurinn sá hlaut heiðursverðlaun, silfurbikar frá Loðdýraræktarfélagi Íslands. Dómarar voru þeir Ole Aurdal, norskur sérfræðingur í refarækt, og H. J. Hólmjárn loðdýraræktarráðunautur.97

Í ljósi mikillar lífdýrasölu frá búinu má ætla að sárafá refaskinn hafi farið á markað frá því. Markaðurinn mun hafa verið hjá fyrirtækinu ANNING CHADWICK & KIVER Ltd í London, þekktu uppboðs- og grávörufyrirtæki á þeirri tíð. Það mun hafa annast sölu á framleiðslu íslensku refabúanna.

UNDANHALD OG ENDALOK

Haustið 1938 voru á búinu 32 silfurrefir og 18 blárefir, bæði íslenskir og Alaskarefir.98 Árið 1941 voru settar á 34 silfurrefalæður og 18 steggir, 13 blárefalæður og 6 steggir, og mun það hafa verið það flesta sem sett var á á Hvanneyrarbúinu að áliti Hjalta refahirðis, sem einnig skrifaði:

Arður af búinu þótti allt of lítill sökum ófrjósemi, eða um 100 silfurrefahvolpar til förgunar um haustið.

En þá var komin sölutregða og verðlækkun á skinnum. Lífdýramarkaður enginn, enda heimsstyrjöld í algleymingi, öll Evrópa í uppnámi og ekkert með glysvarning að gera, jafnvel svo að skinnauppboðin í London lögðust af.

Bæta má við ummælum Bergs refahirðis er skrifaði að auk þess . . . hækkaði fóður í verði og má segja að hinn mikli uppgangstími sem í hönd fór hafi kollvarpað þessum atvinnurekstri og hann hafi í rauninni ekki haft tíma til að sanna ágæti sitt.

Menn sáu að grundvöllur refaræktarinnar var brostinn. Litlar heimildir eru um undanhaldið í refarækt hreppsbúa. Þó segir í fundargerð frá hreppsskilaþingi á Hvítárvöllum 8. júní 1944 að haldinn hafi verið skilafundur Loðdýraræktarfélags hreppsins. Á þinginu var lesin skipulagsskrá fyrir „Búfjársjóð Andakílshrepps“ sem stofnaður var á skilafundinum að því er virðist með eigum Loðdýraræktarfélagsins. Dýrin höfðu getið sér gott orð, eins og fyrr sagði, og Bergur refahirðir skrifaði m.a.: „við urðum mjög sigursælir og unnu dýrin mörg heiðursverðlaun bæði skjöl og bikara sem ég held að hafi verið 12.“ Við félagslok mun bikurunum hafa verið skipt á milli manna, ef til vill á milli stjórnarmanna félagsins: Þannig

Freyr 34 (1939), 113-119.

Vísir 5. nóvember 1938, 3.

Búfræðingurinn 6 (1939), 135.

132
96
97
98

Verðlaunagripir fyrir dýr búsins, varðveittir í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Áletranir eru þessar: T.v.: Heiðursverðlaun frá L.R.Í. 1939. M: Heiðursverðlaun fyrir besta silfurref á loðdýrarsýningunni á Hvammstanga 21. og 22. nóv. 1939. T.h.: ANNING CHADWICK & KIVER LONDON Heiðursverðlaun fyrir besta silfurref á sýningunni í Reykjavík 1939.

hermir sonarsonur Guðmundar á Hvítárbakka að í hlut afa hans hafi komið fimm bikarar.99

Að minnsta kosti þrír slíkir eru enn til á Hvanneyri.

Þar með var lokið sameiginlegri tilraun bænda í Andakílshreppi til loðdýraræktar. Refabúið var þó rekið áfram í umsjá Bændaskólans en í öllu var reksturinn smár í sniðum miðað við blómaskeið búsins. Það var endanlega lagt niður í árslok 1949; þá var síðustu refunum fargað enda „lítill markaður fyrir skinnin“.100 Nefna má að á árunum 1943-44 dvaldi Runólfur skólastjóri um nær eins árs skeið í Bandaríkjunum. Þar kynnti hann sér meðal annars loðdýrarækt hjá áðurnefndum Brager-Larsen er þá rak myndarlegt loðdýrabú í Michiganfylki. Í dagbók sinni gerði Runólfur rækilega grein fyrir ýmsu er snerti refa- og minkarækt.101 Það bendir til þess að hann hafi ekki verið búinn að missa trú á búgreininni og kann að vera skýring á því að hann hélt refabúinu á Hvanneyri áfram þótt Loðdýraræktarfélaginu hafi verið slitið – að hann hafi haft von um að betri tíðir væru í vændum. En Runólfur hvarf frá skólanum til annarra verka vorið 1947, og þá um leið sá staðarmaður sem var helsti kunnáttu- og áhugamaðurinn um refaræktina.

Refaræktin á Hvanneyri á árunum 1937-1944 var „tilraun bænda til að bæta afkomu sína í þeirri efnahagskreppu sem þá þjakaði landsbyggðina,“ skrifaði Bergur Þórmundsson. Lítinn hagnað höfðu bændur í Andakílshreppi af refaræktinni en skaðlaust munu þeir hafa komist frá henni, töldu þeir Björn J. Blöndal í Laugarholti og Júlíus Þórmundsson í Laugabæ, er

99 Jón Friðrik Jónsson frá Hvítárbakka í tölvuskrifum til BG 15. maí 2020.

100 Dagbók Guðmundar Jónssonar skólastjóra. Óbirt. Í vörslu LbhÍ.

101 Í óbirtri dagbók Runólfs Sveinssonar; í vörslu Sveins, sonar hans, sbr. bréf SR 27. maí 2020.

133

rætt var við þá um málið nær fjórum áratugum síðar. Óhætt mun þó að fullyrða að á meðan búreksturinn stóð í hvað mestum blóma hafi refabú Andakílshrepps verið á meðal stærstu og virtustu refabúa landsins.

Lokaorð Agnars refahirðis frá 6. apríl 1982 eru hæfilegur endir á þessari samantekt: „Mér finnst ánægjulegt að vita, að þetta framtak bænda í Andakílshreppi í loðdýrarækt skuli ekki með öllu gleymast, því á þessum tíma var þetta í raun stórt átak fyrir efnalitla bændur að hrinda þessu fyrirtæki í framkvæmd og við þetta bú voru bundnar miklar vonir, sem að öllu eðlilegu hefðu átt að geta ræst, því til alls var vandað og vel að öllu staðið, en breyttir þjóðfélagshættir, sem af heimsstyrjöldinni leiddu [ullu] því, að framtíð þessarar búgreinar varð á þessum tíma alveg vonlaus, enda ekkert gert henni til styrktar.“102

Helstu heimildarmenn um refabúið:

Agnar Jónsson: Bréf til BG 6. apríl 1982.

Bergur Þórmundsson: Bréf til BG 22. janúar 1982.

Björn J. Blöndal: Viðtal 28. nóvember 1981.

Hjalti Jósefsson: Bréf til BG 20. janúar 1982.

Júlíus Þórmundsson: Viðtal 29. mars 1982.

134
102 Skrifað í maí 2020.

Álagabruni á Hvanneyri?

– þegar „Byggingin“ í Þórulág brann

Það var sunnudagurinn 15. september 1968. Bjart veður og stillt allan daginn; hlýtt, segir í dagbók minni.103 Við hjónakornin skruppum í berjamó suður í Land eftir hádegið og síðan fékk ég mér blund.

En kyrrðin var rofin um kvöldmatarleitið þegar mikill reykur sást stíga til himins frá húsunum norðurfrá, Byggingunni sem svo var kölluð, sambyggingu fjárhúsa, hesthúss og kálfafjóss með heygeymslum, er stóð þar sem heitir í Þórulág. Þegar betur var að gáð sást að eldur var þar laus. Uppi varð fótur og fit og allir sem vettlingi gátu valdið hlupu norðureftir. Kafarauk þá úr öllum götum Byggingarinnar. Er að var komið heyrðust hvellir og smellir þegar asbestið á þakinu hitnaði og sprakk. Stuttu síðar gaus eldur upp úr þaki hússins er þakviðir tóku að falla. Má segja að húsið hafi verið orðið alelda um kl. hálf átta. Símstöðin skólans var opnuð og kallað á slökkviliðin úr Borgarnesi og Reykholti sem komu á níunda tímanum.

Þegar slökkviliðin komu að eldsvoðanum var gengið í það að dæla vatni á tilraunahlöðurnar, sem stóðu norðan við Bygginguna. Tókst að miklu leyti að verja þær. Er hér var komið sögu hafði drifið að margt fólk, áhorfendur mjög marga, bændur úr nágrenni til að hjálpa o.fl. Miklum erfiðleikum olli það slökkviliði hve erfitt var að ná í vatn til slökkvistarfanna. Vatnsból voru engin örugg nærri.

Um kl. 22 var tekið til við að moka heyi út úr nyrðri tilraunahlöðunni. Var unnið í hópum sem voru inni í 1-2 mínútur hver. Lengur gekk það ekki vegna reyks þar inni. Gekk allvel að slökkva elda í Norðurhlöðunni þar sem heyið var laust í stæðu, en það gekk verr með vélbundna heyið í Suðurhlöðunni; þar logaði mjög í „djö . . . böggunum“ hef ég skrifað í dagbókina. Man ég að eldurinn laumaðist á milli bagganna enda voru þar hinir ágætustu loftstokkar fyrir súrefnið.

Hér má bæta því við sem skýringu að í hlöðunum höfðum við Bútæknideildarmenn komið fyrir súgþurrkunar- og -geymslutilraun til samanburðar á lausu og vélbundnu heyi, en þá var sú tækni að ryðja sér til rúms. Höfðum við hirt heyið með ærinni fyrirhöfn og meðal annars bæði vegið hey í sérstakar grisjur sem og vegið og merkt bagga til þess að geta mælt þurrefnistap við þurrkun og geymslu. Legu hins merkta heys í stæðunum höfðum við Ólafur Guðmundsson til þæginda er að gjöfum kæmi merkt með gulum borðum, sem á stóð VARÚÐ – JARÐSTRENGUR eða eitthvað í þá áttina. Borðana munum við hafa komist yfir með sérstökum hætti, líklega ófrjálsum, í von um að meinlaust teldist. Þórhallur Þórarinsson

103 Frásögnin er að mestu leyti byggð á dagbók BG frá þessum dögum.

135

staðarrafvirki, sem aldrei mátti vamm sitt vita blessaður í neinu sem við kom rafmagni, varð hins vegar alveg æfur er hann sá borðana þarna í eld- og reykhafinu og vandaði okkur bútæknimönnum ekki kveðjur sem von var. Fyrsta hugsun hans var nefnilega sú að hér hefði kviknað í út frá rafmagni, sem hreint ekki var, eins og síðar verður sagt frá.

Nú, nú. Er hér var komið sögu hafði eldur að mestu kulnað í fjárhúsunum sjálfum. Þar var flest brunnið sem brunnið gat. Þess vegna var unnt að brjótast um rústirnar þvert í gegnum þau að gafli Suðurhlöðunnar. Varð þannig auðveldara að vinna á eldinum í heyinu. Þarna var nú mokað, grafið og sprautað vatni lengi nætur uns eldur hafði kulnað. Upp úr stæðunum komu í henglum hinir gulu jarðstrengsborðar sem og merkt hey, laust hey og bundið í vel merktum grisjum. Margir kunningjar mínir vissu að ég hafði verið við heyverkunartilraunir til þess að safna efni í námsritgerð mína í Noregi og spurðu mig nú áhyggjufullir hvað yrði um áform mín í þeim efnum. Sem betur fór hafði þessi tilraun ekkert með námsrannsóknir mínar að gera. Ég hafði aðeins unnið að henni með starfsmönnum skólabús og Bútæknideildar. Illt var þó að sjá á eftir allri vinnunni og fyrirhöfninni sem í tilraunina hafði farið; tilraunin var bæði vönduð og í fullri stærð. Hún hefði því getað gefið okkur gagnlegar upplýsingar til viðbótar þeim sem við höfðum aflað með þurrkunartilraunum í minni mælikvarða. En þarna hvarf hin vandaða tilraun sem sagt í vatni, eldi og reyk og varð að hluta að ösku.

Mér varð það hins vegar mikill lærdómur að upplifa þennan bruna: Að sjá eins og áður sagði hvernig eldurinn dreifðist um meginhluta baggastæðunnar, er þegar þurrt heyið, sem sneri inn að loftgöngunum á milli þeirra, brann. Hins vegar að finna brunagöngin – kanalana –sem urðu til í lausa heyinu: þar var hægt að stinga brunaslöngunum all langt ofan í göngin án minnstu mótstöðu. Þá vakti það ekki síður furðu mína að sjá hey sem mokað var út á hlöðuvöllinn verða skyndilega alelda þar um leið og súrefnið komst að því – líkt og í því yrði sprenging. Ég lærði það að minnsta kosti að hlöðueldar eru ekki auðveldir viðfangs.

„Byggingin“ brennur 15. september 1968; þakið að falli komið (ljósm. Ólafur Guðmundsson).

136

Gríðarleg hugaræsing með fáti greip um sig við eldsuppkomuna, sem von var. Þetta var óhugnanleg sjón þar sem dökkur reykjarmökkurinn steig hátt til himins þarna í kvöldkyrrðinni. Hann mun hafa sést langt að. Guðmundur skólastjóri „var hálf-ruglaður, að því er virtist“, hef ég skrifað í dagbókina. Mér er í minni að þeir nafnarnir, skólastjóri og ráðsmaður, drógu sig eiginlega í hlé um tíma á fyrsta skeiði brunans, hurfu okkur á brunastaðnum að minnsta kosti. Mér er það hins vegar jafnskýrt í minni að þá gekk Grétar Einarsson, þá starfsmaður Bútæknideildar, fram fyrir skjöldu í verkstjórn. Skipaði hann fyrir um varnaraðgerðir þangað til slökkviliðin voru komin í fullan gang, og beitti sér mjög til skynsamlegrar og árangursríkrar verkstjórnar á meðan atið stóð hæst. Taldi ég að mikið hefði munað um frumkvæði og forystu Grétars í björgunaraðgerðum er við var komið.

Heima í mötuneyti í kjallara Skólastjórastjórahússins voru matföng dregin fram. Kaffi var á boðstólum og önnur hressing fyrir þá sem að slökkvistörfunum unnu. „Þáðu menn hressinguna með þökkum, flestir“, stendur þar.

Hægt og sígandi tók að róast yfir og menn að ná tökum á framvindunni. Það munaði mjög um að veður hélst kyrrt um nóttina líka. Þarna í rústunum fór því að gefast tími til þess að blása úr nös og spjalla saman, líka um óskylda hluti til þess að dreifa huganum. Þannig man ég að við Jón Blöndal í Langholti settumst saman þar á steinvegg til þess að kasta mæðinni. Þá fór hann í undrun sinni að segja mér frá því að það þyrfti hálfs-tonns átak til þess að snúa við stimpli í Fólksvagen-mótor: Hafði það eftir Pétri Haraldssyni verkstæðisformanni í Bæ en síðan vélakennara á Hvanneyri, en á honum tóku allir mikið mark. Jóni þótti þetta mikil firn og hló sínum hvella og sterka hlátri á eftir. Þetta vor fyrstu kynni mín af Jóni Blöndal, sem áttu eftir að verða mikil síðar.

Um þrjúleytið um nóttina var ég orðinn slituppgefinn og labbaði heim til að sofa. „Hef ég sjaldan verið þreyttari“ stendur í dagbókinni.

. . . En svo reis nýr dagur, mánudagur, með bjartviðri og sólskini. Fyrir mörgum runnu dagarnir tveir saman í eitt. Mig grunar til dæmis að Guðmundur ráðsmaður hafði lítið sofið þessa nótt. Ég kom að brunarústunum kl. 9. Rauk þá enn úr heyi. Voru flestir farnir að sofa en nýir menn voru á verði við rústirnar ef eldur kynni að blossa upp að nýju.

Þegar var hafist handa við að galta minnst skemmda heyið en breiða annað til þerris og viðrunar. Notuð var flötin norðan við Bygginguna – Kálgarðurinn, sem svo var þá kölluð. Um það verk að mestu sáum við Ríkharð Brynjólfsson sumarstarfsmaður, Árni Guðjónsson frá Stafholtsveggjum, sem þá var kaupamaður Hvanneyrarbúsins í hlutastarfi, svo og líklega Kristján Gunnarsson, en þeir tveir síðartöldu voru starfsmenn Sigurgeirs Ingimarssonar, byggingarmeistara í Borgarnesi, er um þær mundir vann að byggingu Nýja skólans. Man ég enn hve þykkt var á flekknum í Kálgarðinum, því mikið var heyið sem þurfti að viðra og þurrka. Þá kom sér vel að þurrkur var góður og að við höfðum aðgang að því undratæki sem heyþyrlan var. „Margir forvitringar komu heim að skoða vegsummerkin, en enginn til

137

að hjálpa til við björgun heyjanna!“ stendur í dagbók. En hagstætt veður bjargaði því sem bjargað varð. Taka má fram að engar skepnur voru í Byggingunni þegar bruninn varð.

Áður en vikið verður að orsökum brunans má geta frétta sem birtust um hann. Ekki veit ég hvað olli því að þær bárust fjölmiðlum svo fljótt sem varð: Tekið var til þess að egypskur kaupamaður, sem á Hvanneyri var þetta sumar, Muhamed Ali Murad að nafni, sat einn síns liðs og í rólegheitum niðri í sjónvarpsstofu Gamla skólans og fylgdist með kvöldfréttum Ríkisútvarpsins – Sjónvarps þennan sunnudag þegar skyndilega kom upp á skjáinn mynd af Hvanneyri sem hann kenndi. Fréttir hófust þá kl. 20. Muhamed hafði ekki fyrr orðið var látanna, en þetta með öðru varð til þess að honum varð ljóst hvað gerst hafði.

Eins og verða vill voru fréttir í fyrstu ekki nákvæmar: Í dagbók segir m.a.: „Fréttir eru brenglaðar, m.a. var bjargað út hrossum og sauðfé og fleiri þúsundir heyhesta brunnu!“ Ég gríp ofan í fréttir dagblaðanna Vísis og Tímans og tek með ljósmynd Einars Ingimundarsonar í Borgarnesi er birtist með fréttinni í Morgunblaðinu:

Heyhlaða og 300 kinda fjárhús brunnu á Hvanneyri

— Tjónið nemur hundruðum þúsunda

■ Þúsund hestar af heyi hlaða og fjárhús brunnu í nótt á Hvanneyri. — Eldurinn kom upp um kvöldmatarleytið í gær og kviknaði út frá mótor, sem notaður er til kyndingar. Brann allt timburverk bæði í hlöðunni og fjárhúsinu, sem er um 300 kinda hús og eina fjárhúsið á staðnum.

Í hlöðunni voru þúsund hestar af heyi og skemmdist það mikið, en ef til vill mun vera hægt að nýta eitthvað af því. — Við lendum óneitanlega í dálitlum vandræðum vegna þessa skaða, sagði Guðmundur Jónsson, skólastjóri á Hvanneyri, þegar Vísir ræddi við hann í morgun. Húsin eru mikils virði og eitthvað verður að koma í þeirra stað.

Guðmundur kvaðst ekki geta gizkað á hversu mikið tjónið væri, en vísast næmi það hundruðum þúsunda. — Heyið sem var í hlöðunni er um það bil 1/5 af heyfeng Hvanneyrarbúsins í sumar og kvaðst Guðmundur ekki geta sagt til um það á þessu stigi málsins, hvort gera þyrfti einhverjar ráðstafanir til frekari heyfanga vegna þessa skaða, en í þessari hlöðu var geymt fóður ofan í kindur og hesta.

Slökkvistarfið stóð enn þá yfir, þegar Vísir hafði samband við Hvanneyri í morgun. Að slökkvistarfinu unnu brunaliðsmenn úr Borgarnesi og slökkviliðinu í Reykholti. Auk þess dreif að mikinn mannfjölda úr sveitinni í kring.104

138
104 Vísir 16. september 1968.

HLAÐA, FJÁRHÚS OG HESTHÚS BRUNNU

FB-Reykjavík, mánudag.

Á sunnudagskvöldið um klukkan 7 kom upp eldur í hlöðu á Hvanneyri. — Slökkvilið var þegar kvatt á staðinn og kom það bæði frá Borgarnesi og Reykholti. Var unnið að því að ráða niðurlögum eldsins í nótt og fram eftir degi í dag. Eldurinn mun hafa kviknað út frá olíukyndingu.

Blaðið hafði í dag samband við Guðmund Jónsson, skólastjóra á Hvanneyri. Sagði hann að eldurinn hefði komið upp í kjallara undir hlöðunni. En þar voru kynditækin. Við hlöðuna voru áföst fjárhús og hesthús, en allar þessar byggingar skemmdust mikið, þó hesthúsin minnst. Hefur í dag verið unnið að því að lagfæra húsin eftir því sem hægt er.

Í hlöðunni voru 1000 hestar af heyi og mun um helmingur þess hafa eyðilagzt í fjárhúsunum var rúm fyrir 300 fjár og í hesthúsinu var rúm fyrir 30 hross.

Í bókinni Landið þitt eftir Þorstein Jósepsson, segir um Hvanneyri, að þegar búnaðarskóli var þar stofnaður árið 1889, hafi verið mörg smábýli þar í kring, og hafi leiguliðar, sem þar bjuggu verið reknir burtu vægðarlaust, sumir sárnauðugir, aðrir í heiftarhug. Kona ein var í þeirra hópi. Hún mælti svo um og lagði á, að þrír stórbrunar yrðu á Hvanneyri.

„Síðan hafa orðið þar tveir stórbrunar,“ segir í bókinni. Í dag spurðum við Guðmund, hvort þetta hefði þá ekki verið þriðji stórbruninn.

— Nei, það held ég ekki, svaraði hann, það mun hafa verið átt við íbúðarhúsin, en ekki útihús, svo hér á eftir að brenna enn.105

Í fréttunum var vikið að meintum upptökum brunans. Nú hef ég ekki undir höndum rannsóknaskýrslur lögreglu eða tryggingafélags um málið svo hér er byggt á því sem mér sem heimamanni kom fyrir sjónir sem líklegasta skýring.

Guðmundur ráðsmaður var á þessum misserum mjög upptekinn af ýmsum nýjungum sem leitt gætu til hagræðingar í bústörfum. Skurðflórar í fjárhús voru honum t.d. hugleiknir, og hugmynd um þá kynnti hann m.a. á Landbúnaðarsýningunni í Reykjavík fyrr þetta sumar. Þeim búnaði hafði hann komið fyrir í kjallara fjárhússins. Hann velti fyrir sér hvort ekki mætti líka nota flórana sem súgþurrkunarstokka fyrir hey, sem lagt væri ofan á grindur

105 Tíminn 17. september 1968.

139 ÁLAGABRUNI Á HVANNEYRI?

þeirra. Það hafði í tilraunaskyni verið gert þarna í Byggingunni: Blautt hey hafði verið hirt á flórgrindurnar og blásara komið fyrir við enda þeirra, hæð neðar en flórarnir voru og vestast í Byggingunni. Blásarinn var knúinn frá dráttarvél, í þessu tilviki nýlegri John Deere Lanzdráttarvél Hvanneyrarbúsins. Við blásarann var komið fyrir olíukyndibúnaði til þess að hita loftið upp, sömu gerðar og Verkfæranefnd hafði reynt með góðum árangri nokkrum árum áður.106 Allt virkaði þetta með ágætum sbr. skrif mín í dagbók föstudaginn 13. september þetta ár: „Fór með ráðsa [en svo var Guðmundur jafnan kallaður] í kvöld inn í Byggingu, en þar hafði hann sett upp lofthitara sem varmaði loftið upp um 26°C. Stóð dampurinn þykkur upp úr stæðu, en Ráðsi brosti í kampinn og lyfti annarri brúninni.“

Það sem gerðist var að eldsneyti dráttarvélarinnar þraut svo á henni drapst. Þar með stöðvaðist loftblásturinn. Hins vegar logaði áfram í olíukyndingunni. Aukinn eldur í henni var talinn hafa náð í þurrlegt hey sem hékk þar víða niður úr rifum í lofti blásararýmisins; að svo hafi eldur glæðst er hann náði í þornandi heyið uppi í þurrkstæðunni. Þar með varð eldurinn laus og breiddist greiðlega út til annarra hluta Byggingarinnar.

Tal heyrðist strax um að kviknað hefði í út frá rafmagni. Olli það Þórhalli rafvirkja Þórarinssyni miklu hugarvíli en hann var alþekktur fyrir staka nákvæmni og verkvöndun í iðn sinni og sem ábyrgðarmaður allra rafmagnsmála á vegum skólans, eins og fyrr sagði. Um tíma var hann því mjög æstur vegna málsins, raunar „alveg snaróður“ segir í dagbók. Ég tel að brátt hafi öllum verið ljóst að skýring á brunanum var einföld og óskyld rafmagni, svo sá hluti málsins leið hjá. Ég varð þess hins vegar aldrei var að Guðmundi ráðsmanni væri á neinn máta kennt um brunann eða hann gerður ábyrgur fyrir tjóninu sem varð. Litið var á brunann sem hvert annað óhapp og kröftum beint að því að bæta tjónið og laga það sem lagað varð.

Strax á þriðjudegi 17. september var Sigurgeir byggingameistari Ingimarsson mættur með sína menn til þess að endurreisa Bygginguna. Þá var strax ákveðið að „hækka veggi fjárhússins um 1,2 m í ca. 2 m og setja flatara þak.“ Það reið á að koma húsinu undir þak fyrir vetur og hýsingu heys og búpenings.

Úr heyafla greiddist og man ég ekki til þess að kæmi til vandræða vegna heyskorts þótt nokkur hluti heyfengs skólabúsins hefði þarna farið forgörðum. Miklu af heyi tókst að bjarga með aðferðum sem áður var lýst. Byggingin reis og varð bara vel brúkanlegt hús eftir, eiginlega öllu betra en það var fyrir brunann, a.m.k. sem fjárhús.

106 Verkfæranefnd ríkisins Skýrsla um tilraunir ... á árinu 1955 (1956), 31-33.

140

Hvað álögin snerti var sú alþekkta saga vissulega rædd á skólastaðnum. Æ síðan hefur atburðurinn staðið í ljósi vafans – hvort þarna varð þriðji stórbruninn á Hvanneyri eða hvort hann er enn óorðinn. Dálitla löngun hef ég til þó þess að hallast að hinu fyrra: Við sem upplifðum atburðinn sáum að um stórbruna var að ræða og mikið tjón – hefði raunar getað farið mun verr. Hagstætt veður hjálpaði til að svo fór ekki, að ei sé nú gleymt því öfluga hjálparliði er kom að slökkvistörfum og fyrstu björgun. Rangalar Byggingarinnar og afkimar hennar hefðu hins vegar getað valdið ókunnugum hjálparmönnum skaða og jafnvel fjörtjóni í eldinum, hitanum og reyknum, sem um tíma umlék gjörvallt mannvirkið.

Hins vegar minnir mig að ýmsir staðarmenn hafi hallast að þeirri skoðun Guðmundar skólastjóra er höfð var eftir honum í blaðaviðtalinu að hér væri ekki um þriðja álagabrunann að ræða . . . “svo hér á eftir að brenna enn“. Sannarlega má vona að svo verði ekki.

Guði má þakka fyrir að enginn slasaðist í þessum bruna. Efnisleg verðmæti mátti þá sem endranær bæta. Það var gert.107

141
107 Skrifað 2. september 2012.

Af berangri í Bútæknihús

Brot úr tilrauna- og rannsóknasögu

Ég sit við tölvu mína í BÚT-húsinu, sem svo er nefnt í daglegu tali, í skrifstofu sem ég hef haft til afnota í bráðum þrjá áratugi. Læt hugann reika til fyrri tíðar og til róta þessa húss. Margt hefur gerst. Viðhorf hafa breyst. Þarfir líka. Já, hugann, því hér rifja ég bara uppúr minni mínu en læt heimildarannsóknir að mestu bíða betri tíma.

Verkfæratilraunir og –prófanir á vegum Verkfæranefndar höfðu farið fram hingað og þangað í sveitum suðvestanlands allt frá árinu 1927. Búnaðarfélag Íslands hratt starfinu af stað til þess að unnt væri að veita bændum ráð um skynsamleg verkfærakaup. Hóf það með merkilegum verktæknitilraunum í tengslum við Búsáhaldasýninguna í Reykjavík sumarið 1921. Ræktunarfélag Norðurlands hafði raunar með vissum hætti hafið slíkt starf þegar á fyrsta áratug aldarinnar.

Starf Verkfæranefndar var slitrótt allt fram til ársins 1954 en þá komst það á fast form. Skipuð var ný Verkfæranefnd – Verkfæranefnd ríkisins – og fé hafði fengist á fjárlögum til þess að ráða henni starfsmann: Ráðinn var Jón Ólafur Guðmundsson frá Hvanneyri sem þá var nýkominn úr framhaldsnámi í bútæknifræðum við sænska landbúnaðarháskólann, SLU. Hann var ráðinn á fyrsta fundi nefndarinnar 10. maí 1954. Verkfæranefnd hafði í fyrstu skrifstofu í húsi við Austurstræti nr. 5 í Reykjavík. Ólafur hóf þegar störf að verkfæraathugunum og vinnurannsóknum víða um sveitir eins og fyrsta ársskýrsla nefndarinnar ber með sér.

Fljótlega var miðstöð Verkfæranefndar flutt að Hvanneyri án þess þó að hún hlyti þar sérstaka aðstöðu lengi vel. Má segja að Bændaskólinn hafi skotið skjólshúsi yfir starfsemi nefndarinnar. Kom þar einnig til að framkvæmdastjórinn, Ólafur eins og hann var jafnan kallaður, var sonur Guðmundar skólastjóra. Þegar skrifarinn kom til starfa hjá Verkfæranefnd sumarið 1964, að vísu launaður af Tilraunaráði búfjárræktar, en á milli þessara tveggja stofnana var náið samstarf, hafði nefndin fyrir nokkrum mánuðum fengið góða starfsaðstöðu í Nýja Verkfærahúsinu sem svo var nefnt og um er fjallað í öðrum pistli. Var um að ræða skrifstofu og vænan verkstæðissal sem hvort tveggja stórbætti starfsaðstöðu nefndarinnar.

Áður hafði starfið farið fram í ýmsu rými á vegum Hvanneyrarskóla það sem ekki var unnið á bændabýlum víðsvegar um landið. Ekki leið langur tími áður en Ólafur með fjölskyldu sinni fékk húsnæði kjallara Ráðsmannshúss en síðar í Svíra, sem var kennarabústaður á vegum skólans. Ólafur tók enda þátt í kennslu við skólann í sérgrein sinni. Smáskot hafði Ólafur til ráðstöfunar undir syðri súðinni í Syðra Verkfærahúsinu (áður Hestaréttinni). Man ég eftir dálitlu verkstæðisborði þar, nokkrum hillum og krókum þar sem hafa mátti lítilræði af því sem Ólafur var að vinna með hverju sinni í nafni Verkfæranefndar. Þar voru

142

m.a. handverkfæri og sláttuvélarljáir sem og varahlutir í vélar sem til prófunar voru hjá nefndinni. Líka átti Ólafur innhlaup í rannsóknastofu skólans á Fjósloftinu. Þar voru m.a. þurrkuð öll heysýni fyrir Verkfæranefnd og unnin sýni úr samstarfsverkefnum hennar og Tilraunaráðs búfjárræktar, flestum tengd heyverkun. Var það aðeins eitt dæmi um samstarf skólans og Verkfæranefndar sem ég held að aldrei hafi verið tíunduð nákvæmlega eða færðar vinnu- eða kostnaðarskrár um. Skrifstofuaðstöðu fyrstu árin mun Ólafur hafa skapað á heimili sínu.

Fyrstu árin varði Ólafur töluverðu af tíma sínum til vinnurannsókna og mats á mismunandi vinnuaðferðum við bústörf, ekki síst heyskap. Síðan óx hlutur heyverkunartilrauna og beinna prófana á nýjum búvélum sem urðu er frá leið hvað gildasti þátturinn í starfi Verkfæranefndar. Samsetning, mælingar, stillingar og lagfæringar búvéla, sem í prófun voru, fóru þá ýmist fram utan dyra á Hvanneyrarhlaði ellegar á verkstæði skólabúsins í Nyrðra Verkfærahúsinu, eftir því sem aðstæður leyfðu. Gekk þetta svo til í nærfellt áratug. Veit ég ekki til þess að til óleysanlegra árekstra hafi komið. Húsbóndinn var enda sá sami: Guðmundur skólastjóri sem einnig var formaður Verkfæranefndar. Starfsaðstaða Ólafs var á margan máta frumstæð og takmörkuð en nægjusemi og lipurð kölluðu fram árangursríka samvinnu þeirra Ólafs og Guðmundar Jóhannessonar ráðsmanns og Magnúsar Óskarssonar tilraunastjóra. Fór alla tíð mjög vel á með þeim.

Umsvif Verkfæranefndar uxu. Æ fleiri verkfæri komu til prófunar og ráðist var í ýmis verkefni er stuðla skyldu að hagræðingu búverka og betri árangri í búrekstri. Jafnan fór nokkur hluti starfsins fram á nágrannabæjum og víðar þar sem hentug aðstaða stóð til boða. Kallað var á meiri kennslu í bútæknigreinum við Bændaskólann þar sem sveitirnar voru óðum að vél- og tæknivæðast. Verkleg kennsla í þeim greinum var stóraukin frá áramótum 1961-1962 með ráðningu Péturs Haraldssonar vélvirkja í fast kennarastarf en áður hafði vélfræðikennsla fyrir nemendur bændadeildar að mestu farið fram með styttri námskeiðum að vori. Allt þetta kallaði á meira húsnæði.

Guðmundur skólastjóri brá því á það ráð að ráðast í byggingu eins konar „fjölnota“ húss, skála sem mætti nota undir sérhæft kennsluverkstæði, aðra kennsluaðstöðu, skrifstofur, fræðibókasafn og fleira. Fyrirtækið Þorgeir & Ellert á Akranesi var þá að þreifa sig áfram með hús úr forsteyptum einingum. Guðmundur samdi við fyrirtækið um að reisa slíkt hús eftir teikningum Björgvins Sæmundssonar: Einfalda en stóra skúrbyggingu. Reis hún sumarið 1963.

Það kom einkum í hlut Haraldar Sigurjónssonar staðarsmiðs að smíða innréttingar í húsið sem fljótlega var tekið í notkun. Með húsinu stórbatnaði aðstaða til kennslu og rannsókna. Þarna fékk Verkfæranefnd inni eins og áður sagði. Í suðurenda hússins varð til dálítið skrifstofuumhverfi nefndarinnar og Tilraunastöðvarinnar sem líka hafði vaxið fiskur um hrygg árin á undan. Þarna varð því til vísir að faglegu umhverfi tilraunastarfsins. Bókasafni var komið fyrir þar í litlu herbergi, en vetrarmenn Hvanneyrarbúsins bjuggu um sig í öðru

143

herbergi; alls voru herbergin fjögur og snyrtingar. Þá tók við salur til verklegrar kennslu í vél- og verkfærafræði með litlu kennaraherbergi. Norðan við hann fékk Haraldur smiður sal fyrir trésmíðaverkstæði skólans. Nyrsti salurinn kom svo í hlut Verkfæranefndar.

Verkfæranefnd hafði nú fengið hinn ágætasta samastað. Þótt starfsemin rynni undir Rannsóknastofnun landbúnaðarins vorið 1966 í samræmi við ný lög og fengi heitið Bútæknideild varð lítil breyting á starfi eða daglegum háttum. Guðmundur Jónsson skólastjóri reyndi þó að halda starfsemi, sem Verkfæranefnd hafði annast, áfram undir skólanum, en á það féllst Ingólfur ráðherra Jónsson ekki. Sambýlið gekk þó áfram vel og leið svo tíminn við ljúft gengi. Nýja verkfærahúsið, eins og það var kallað, varð brátt helsta miðstöð mannlegra samskipta við Hvanneyrarhlaðið og þar var oft gestkvæmt, bæði heima- og afbæjarmanna í ýmsum erindum.

Haustið 1973 urðu miklar skemmdir á húsinu í ofviðri sem gekk yfir: Hluti þaks hússins rofnaði svo húsið varð ónothæft um tíma; var þó strax undinn bugur að viðgerðum. Flytja þurfti skrifstofur úr húsinu út í Gamla skólahúsið, þar sem nú hafði rýmkast um því flestir nemendur bjuggu nú í Nýja skólahúsinu, nú Ásgarði. Fór svo að jarðræktarmenn (Tilraunastöðvarinnar) ílentust í Gamla skólanum en bútæknimenn hurfu aftur út í Nýja verkfærahúsið eftir að viðgerð þess lauk. Fékk Bútæknideild þá meira skrifstofurými, enda þá búið að ráða henni fastan viðbótarstarfsmenn – sérfræðing, Grétar Einarsson lic agro, auk aðstoðarmanns en sú staða varð ársstaða laust fyrir 1970. Skrifarinn hafði að vísu verið fastur starfsmaður, einnig sk. sérfræðingur, frá útmánuðum 1971 til hausts 1973, en óvissa um íbúðarhúsnæði batt endi á þá ráðningu.

Tímar breyttust og þróun kallaði á meira rými og betri vinnuaðstæður. Þótt herlegt hafi þótt að flytja inn í Nýja verkfærahúsið árið 1963 uxu kröfur enda húsið háð ýmsum annmörkum og byggt af nauðsynlegri naumhyggju. Er leið fram á áttunda áratuginn var farið að ræða um umbætur í húsnæðismálum Bútæknideildar. Skrifarinn minnist m.a. heimsóknar Halldórs E. Sigurðssonar alþingismanns fyrir kosningarnar 1971 til okkar þriggja starfsmanna Bútæknideildar sitjandi nær því hver undir öðrum í hornskrifstofu Nýja verkfærahússins. Hafði alþingismaðurinn orð á þrengslunum og taldi nauðsynlegt að bæta út. Göntuðumst við Ólafur og Árni Snæbjörnsson, þáverandi aðstoðarmaður deildarinnar, með að við hefðum minni gólfflöt hver heldur en ætlaður væri einni mjólkurkú. Halldór varð í kjölfar kosninganna bæði landbúnaðar- og fjármálaráðherra. Umbætur í húsnæðismálum Bútæknideildar létu þó á sér standa.

Hvað úrbæturnar snerti höfðu forystumenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sáralítinn áhuga framan af. Hann átti þó eftir að vaxa. Tekist hafði að fá reist hús fyrir deildarstjórann 1967-1968, Hófatún var það kallað, nú Túngata 1, sem var fyrsta bygging fyrir Verkfæranefnd/ Bútæknideild sem reis á Hvanneyri. Þá var byggt hús fyrir starfsmann (Grétar Einarsson) árið 1977, kallað Smáratún, nú Túngata 3.

144

Ólafur Guðmundsson féll frá vorið 1985, langt um aldur fram, en á hans herðum hafði húsnæðisbaráttan að mestu hvílt. Við henni tók Grétar Einarsson. Bútæknideildin naut álits víða á meðal bænda og búaliðs, enda hafði starfsmönnum hennar tekist að byggja upp traust með góðu starfi, starfi sem snerist um viðfangsefni sem bændur höfðu mikinn áhuga á og vörðuðu mjög rekstur þeirra.

Og hlutir fóru að gerast: Mér er í minni dagur laust fyrir jól 1986 er ég mætti Valdimar Indriðasyni alþingismanni í útidyrum Alþingishússins. Hann tjáði mér að 1,5 mkr. hefðu við þriðju umræðu um fjárlög ársins 1987 fengist til undirbúnings bútæknihúss á Hvanneyri. Hafði þá verið fallist á tillögu Jóns Helgasonar landbúnaðarráðherra þar um. Þótti mér þá horfa vænlega. En meiri peninga þurfti.

Málið var komið á dagskrá hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og forstjórinn, Þorsteinn Tómasson, kynnti það vel fyrir Rannsóknaráði ríkisins. Man ég eftir nokkrum hvössum umræðum þar um umsóknina þar sem sitt sýndist hverjum um mikilvægið. Fastastur var í gagnrýnni andstöðu fyrir Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Okkur Vilhjálmi Lúðvíkssyni, framkvæmdastjóra ráðsins, kom til hugar að Rannsóknaráð skryppi í heimsókn að Hvanneyri til þess að skoða aðstæður. Var degi varið til þess. Munaði litlu eftir þá heimsókn að Jón næði með skerpu sinni og rökvísi að snúa okkur niður en ég þakka það eingöngu víðsýni og rökhyggju Vilhjálms að umsóknin fékkst samþykkt, líka því að Framleiðnisjóður landbúnaðarins lagði málinu hliðstætt lið. Það gerði sjóðurinn, sem þá var undir formennsku Jóhannesar Torfasonar bónda á Torfalæk. Voru fjármunir nú tryggðir svo framkvæmdir gátu hafist.

Þeir Ólafur og Grétar höfðu um nokkurt skeið haft auga á hentugu skipulagi nýs húss fyrir Bútæknideild, m.a. með norræna reynslu og fyrirmyndir að bakhjarli. Reyndist því Karli Erik Rocksén arkitekt auðvelt að draga upp teikningu af hentugu húsi sem Pétur Jónsson byggingameistari síðan reisti með mönnum sínum. Að útliti svaraði húsið til Rannsóknahússins á Hvanneyri sem tekið hafði verið í notkun nokkrum árum fyrr. Má segja að staðarval Bútæknihússins hafi enn aukið á þá dreifni sem einkenndi skipulag á Hvanneyri lengi vel. Bútæknihúsið stóð fullbúið og var vígt með pompi og prakt að viðstöddu fjölmenni 23. október 1992.

145
Bútæknihúsið á 30 ára afmæli sínu í október 2022.

Tók nú við skeið þar sem starfsemi Bútæknideildar var með enn meiri blóma en áður: Við frábæra aðstöðu til flestra verka og allnokkurn mannafla er taldi tvo sérfræðinga, aðstoðarmann, verkstæðismann og skrifstofumann, auk þess sem Grétar deildarstjóri bauð skrifaranum, sem þá var aðalkennari í bútækni við Búvísindadeild skólans, starfsaðstöðu í húsinu. Mátti því tala um „bútæknilegt miljø“ upp á besta máta í húsinu. Prófanir búvéla, í góðu samstarfi við búvélainnflytjendur, voru umfangsmiklar, en einnig ýmsar rannsóknir, kennsla, námskeiðahald fyrir bændur og norrænt samstarf í bútæknimálum fyllti starfsdaga.

En undir aldamót tók að þrengja að. Fjármunir til rannsókna skruppu saman og það dró úr áhuga fyrir prófunum búvéla. Raunar voru það líka örlög sem systurstofnanir Bútæknideildar á Norðurlöndum höfðu mætt nokkrum árum fyrr. Það lífgaði hins vegar mjög upp á starfið í húsinu að öll bútæknikennsla skólans var flutt þangað haustið 2003, og meðal annars innréttað mjög vandað kennsluverkstæði til málmsmíða o.fl. undir stjórn Jóhannesar Ellertssonar nýráðins vélfræðikennara. Á þessum árum leituðu Búnaðarsamtök Vesturlands m.a. eftir því að fá inni í húsinu fyrir starfsemi sína en af því varð ekki.

Er til sögunnar kom Landbúnaðarháskóli Íslands í ársbyrjun 2005 má segja að fyrri starfsemi Bútæknideildar væri af ásetningi lögð til hliðar: Búvélaprófanir, námskeiðahald, rannsóknir og þróunarstarf á fagsviðinu hurfu að mestu á næstu misserum. Starfsmönnum í húsinu fækkaði af þeim sökum. Yfirstjórn búreksturs Landbúnaðarháskólans undir daglegri umsjá Snorra Sigurðssonar var hins vegar sett í húsið um tíma. Nokkur þróunarverkefni voru sett af stað undir hatti hennar en fengu fæst teljandi vind í segl.

Síðustu árin hefur hlutur BÚT-húss, sem svo er jafnan nefnt í daglegu tali, áfram og í vaxandi mæli verið tengdur almennri verkstæðisþjónustu vegna reksturs Hvanneyrarbúsins og umhverfishirðu á staðnum, auk vélfræðikennslu Bændadeildar sem áfram er mikilvægur þáttur. Til minningar um fyrri tíð eru í húsinu geymd ýmis frumgögn, skýrslur og rit er varða bútækni og starfsemi Bútæknideildar Rala og Verkfæranefndar ríkisins allt frá árinu 1954.

Þannig stendur Bútæknihúsið í dag, mjög til gagns á þeim sviðum sem það sinnir, en rannsókna- og þróunarhlutverkið sem var veigamikill tilgangur með byggingu þess, og helsta forsenda fyrir fjármögnun þess úr sjóðum ríkis og bænda, er að mestu upp þornað. Það skeið varð stutt. Enginn veit hvert hlutverk hússins verður í framtíðinni. Við henni getur húsið tekið enn, svo traustlega var það byggt í upphafi.108

146
108 Skrifað 10. nóvember 2017.
147
148 IV. kafli Sagt frá merkismönnum Hér á eftir fara afar sundurleitir kaflar um fimm starfsmenn Bændaskólans á Hvanneyri; sundurleitir af því að tilefni ritunar þeirra voru mjög ólík. Þess vegna eru kaflarnir hvorki samanburðarhæfir á neinn máta né mælikvarðar á þá einstaklinga sem um er fjallað í þeim.

Farsæll brautryðjandi

Guðmundur Jónsson skólastjóri

Þegar Verkfærasafni var með lögum komið upp á Hvanneyri árið 1940, munu fyrstu verk við það hafa komið í hlut Guðmundar Jónssonar, þá kennara hér við skólann. Guðmundur gerði m.a. fyrstu munaskrá safnsins, og mér þykir sennilegt, að hann hafi átt mikinn þátt í að velja þá gripi, sem til álita komu, gripi sem nú mynda elsta kjarnann í Landbúnaðarsafninu. Með safninu höfðu menn ekki síst í huga, hvað gagnlegt væri bændum á þeim gríðarlega breytingatíma, sem þá var að hefjast í íslenkum landbúnaði.

Guðmundur verðskuldar því minningamark hér í safninu, sem og fyrir það að hafa starfað hér á Hvanneyri, og stýrt staðnum um langt árabil. Að fjalla um Guðmund er efni í langan fyrirlestur, en hér ætla ég eingöngu að fjalla í örstuttu máli um bakgrunn hans, og hlut að safninu og starfsemi þess.

Guðmundur var mjög vel menntaður búfræðingur, fyrst úr Hólaskóla og síðan úr danska landbúnaðarháskólanum. Það má segja, að hann hafi haft nokkra sérstöðu meðal ungra búfræðinga, er til starfa komu á þessum árum. Sú sérstaða fólst í áhuga hans á hagfræði og búrekstri. Guðmundur varð brautryðjandi í bókhaldi bænda, þar sem hersla var lögð á rekstrarafkomu búa sem fyrirtækja, með góðri ávöxtun rekstrarfjármuna búanna og aukinni framleiðni vinnuafls þeirra.

Nú er hvers konar bútækni, með vélum og verkfærum, það sem breytir grunnfræðum náttúrunnar eins og t.d. efna- og eðlisfræði, jarðvegsfræði, áburðarfræði og fóðurfræði í nýtanlegar afurðir og verslunarvöru með vinnusparandi hætti. Það nægir að líta í ársritið Búfræðinginn, sem Guðmundur var maðurinn á bak við, til þess að sjá, hve honum var sú staðreynd ljós. Fjölmargar greinar, fréttir og hugmyndir, svo og tíðindi frá nemendum hans, sem birtust í Búfræðingnum, varða einmitt bútæknilausnir, vélar og verkfæri, sem talin voru líkleg til þess að létta og spara bændum og búaliði vinnu.

Það var því ekki tilviljun, að Guðmundur sat í Verkfæranefnd ríkisins um liðlega tveggja áratuga skeið, nefnd er gegndi mikilvægu forystuhlutverki í vélvæðingu landbúnaðarins á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina, einkum á sviði landnáms með nýrækt, en síðar búvélaprófunum og verktæknitilraunum. Í Verkfæranefnd átti Guðmundur strax hlut að merkum athugunum og tilraunum, m.a. á súgþurrkun heys, sem þá var nýmæli, er átti eftir að gerbreyta heyskap landsmanna.

Guðmundur naut þess líka að sjá son sinn, Jón Ólaf, sækja sér sérmenntun á sviði bútækni til Svíþjóðar; Sennilega var það heldur ekki tilviljun, Ólafur tók síðan við forystu Verkfæranefndar á miklu breytingaskeiði landbúnaðar og leiddi það starf, bændum til

149

Guðmundur Jónsson skólastjóri með kennurum og nemendum Framhaldsdeildarinnar 1947-1949. Stefán Jónsson kennari er lengst t.v. en á hina hlið Guðmundar er Haukur Jörundarson kennari. (ljósm. í eigu LbhÍ).

mikillar farsældar. Því miður féll Ólafur frá í miðju starfi, en við minnumst verka hans með virðingu og þakklæti.

Það má velta því fyrir sér, hvað vakti áhuga Guðmundar á bútækni og hagræðingu búverka – því sem þá kallaðist „rationalisering“ í nágrannalöndunum? Ég nefni nokkra þætti, sem í huga minn koma:

1. Skólaumhverfið á Hólum, er Guðmundur dvaldi þar ungur, mótað af hugsjónamanninum Sigurði Sigurðssyni skólastjóra og faglegu starfi Ræktunarfélags Norðurlands. Sigurður átti hvað mestan þátt í Búsáhaldasýningunni sumarið 1921, sýningu sem Guðmundur kenndi okkur löngu síðar að gríðarmiklu hefði skipt fyrir tæknivæðingu og framfarir íslensks landbúnaðar.

2. Sem ungur námsmaður í Danmörku kynntist Guðmundur því vel, hvernig danskur landbúnaður hafði orðið að öflugri atvinnugrein, með því að nýta fagkunnáttu, verktækni, bókhald og hagræðingu með markvissum hætti til þess að auka framleiðni og arðsemi greinarinnar þjóðinni allri til farsældar.

3. Ég hef þegar nefnt starf Guðmundar að búreikningum, stórmerkilegt brautryðjendastarf, sem sýndi honum betur en flestum öðrum, hve miklu varðaði að huga að greiningu á rekstri búanna og markvissri leit að leiðum til hagræðingar hans.

150

4. Á tíð hans, sem skólastjóra hér á Hvanneyri efldist mjög staðarumhverfi, sem nú mætti kalla nýsköpunarumhverfi, þar sem margt var reynt til verkumbóta og framfara í búnaðarháttum. Komu þar mjög við sögu hugvitsmaðurinn Guðmundur ráðsmaður Jóhannesson, Ólafur Guðmundsson með starfi Verkfæranefndar, tilraunastjórinn Magnús Óskarsson og raunar margir fleiri sem nefna mætti.

5. Loks nefni ég tengslin sem Guðmundur var iðinn við að rækta við nágrannalöndin og stofnanir þar, tilraunastöðvar og landbúnaðarháskóla, en þannig kynntist hann ýmsum nýjungum sem hann með beinum eða óbeinum hætti færði til landsins, m.a. vélum og verkfærum . . . - - ooo - -

Þetta var aðeins ágrip þess, sem tengir nafn Guðmundar Jónssonar við Landbúnaðarsafnið. Það fer því vel á því, að hann horfi hér til safnmuna og sýningarinnar, sem varpar ljósi á þróun landbúnaðarins á tuttugustu öld, muna og gripa sem leiddu til hagræðingar, vinnusparnaðar og vinnuléttis – og breyttu erfiðri lífsbaráttu í nútímalega og tæknivædda atvinnugrein. Það var draumur Guðmundar skólastjóra, sem við getum lesið úr ýmsum skrifum hans, og sem við minnumst líka úr fjölmörgum kennslustundum hjá honum.

Að endingu vil ég svo fyrir hönd Landbúnaðarsafnsins þakka ykkur, búfræðingar vorsins 1963, fyrir þessa myndarlegu gjöf. Hún kemur safninu vel, hún styrkir rætur þess og heldur á lofti minningu um eljustarf merkilegs brautryðjanda.109

Sigurður R. (t.v.) og Ásgeir Guðmundssynir við afhjúpun lágmyndar af föður þeirra í Landbúnaðarsafni.

109 Ávarp flutt við afhjúpun lágmyndar af Guðmundi Jónssyni skólastjóra í Landbúnaðarsafni 6. júní 2015.

151

Hann gladdi með tónlist sinni

Það þyrfti nokkrar blaðsíður til þess að minnast Jóns Ólafs Guðmundssonar og starfa hans á Hvanneyri og í Borgarfjarðarhéraði. Hér verður þó aðeins birt ávarp sem flutt var í Reykholtskirkju 10. apríl 2011, þegar Reykholtskórinn söng lög eftir eða útsett af nokkrum héraðsbúum . . .

Næstu þrjú lög eiga það sameiginlegt að vera útsett af Ólafi Guðmundssyni frá Hvanneyri. Margir muna enn Óla Guðmunds, eins og hann var kallaðir af kunnugum, þótt hann hafi fallið frá fyrir meira en aldarfjórðungi, þá á besta aldri.

Aðalstarf Ólafs var á sviði bútæknirannsókna og –kennslu. Ungur hafði hann þó numið tónlist og tónlist stundaði hann alla tíð með öðrum störfum sem hljóðfæraleikari, kennari og kórstjóri. Ólafur var m.a. organisti og söngstjóri við Hvanneyrarkirkju um langt árabil. Um tíma var hann líka skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar.

Óli var fjölhæfur hljóðfæraleikari: Lék jöfnum höndum á píanó, harmoníku og orgel, bæði alvarlegri tónverk og dægurflugur í danssölum. Hljómvís Hreppamaður sagði mér eitt sinn að hann teldi Óla þá vera einn besta djasspíanista landsins. Svei mér ef hann hafði ekki nokkuð til síns máls, eins og við samferðamenn heyrðum þegar hann komst í stuð og elti upp einhverja hljómaganga Óskars gamla Petersons eða tók strófur úr Ain´t Misbehaven að hætti Fats Waller. Þótt Óli væri handsmár átti hann auðvelt með að leika eftir frægar vinstri handar sveiflur Wallers á hljómborðinu.

Mér er í minni þegar eins konar Hammond, franskættaður, kom í Hvanneyrarkirkju, líklega árið 1967, að ráðum Hauks Guðlaugssonar, en með tregaskotnu samþykki annarra kirkju-tónlegra yfirvalda þeirra tíma. Ég heyri þá félagana enn þar sem þeir þeyta fimlega splunkunýtt og hljómfagurt orgelið, jafnt með fingrum og fótum. – Öllu fjær vondleik heimsins var varla hægt að komast en þar sem þeir músíseruðu saman, Haukur Guðlaugsson söngmálastjóri og Óli.

Og þó. Kannski komst maður jafnlangt þegar Óli hafði spennt á sig harmoníkuna og fengið til liðs góðvin sinn af Akranesi, hann Eðvarð Friðjónsson. Líka með nikku. Ebbi taldi í og svo hljómaði þétt sveiflan í lögum eins og All of me, On the sunny side of the street eða bara í laginu Til þín liggja leiðir sem Svavar Lárusson hafði gert frægt með ofursykruðum söng sínum. Ótal sólóa tóku þeir félagarnir til skiptis og satt að segja voru fáa nótur látnar vera

Jón Ólafur Guðmundsson (1927-1985).

152

iðjulausar eftir á hljómborðum dragspilanna – og allir fingur hægri handa í fullri vinnu samtímis. Bassatakkarnir lágu fráleitt eftir.

Formlega gerði Óli ekki mikið af því að útsetja tónlist. Það var líka í samræmi við hógværð hans að fáar útsetningar merkti hann sér eða hélt sérstaklega til haga. Helst var það í kringum skólakórana á Hvanneyri og þá einkum eftir að stelpum fjölgaði svo efna mátti í blandaðan kór. Ég minnist haustsins 1963. Þá hafði ekki tekist að koma saman hefðbundnum karlkór fyrir árshátíðina, Fyrsta-des., eins og oft hafði áður tekist. Óli tók sig þá til og útsetti léttar lagasyrpur að hætti Fjórtán Fóstbræðra sem þá voru að hefja sinn frægðarferil. Hann réði Hauk rakara Gíslason í Borgarnesi sem kontrabassaleikara og skrifarann, þá nýgræðing, á rafgítar til undirleiks með honum á harmoníku. En með virðulega skrifuðum nótum og hljómum höfðum við okkur í gegnum þetta. Kórinn gerði stormandi lukku í hópi heiðursgetsanna – Varmalandsmeyja.

Mér er líka í minni vönduð útsetning Óla á Overtýru – forleik að Deleríum búbónis, söngleik Jónasar og Jóns Múla Árnasona sem Ungmennafélagið Íslendingur færði upp félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit veturinn 1978. Óli vildi hafa undirleikinn nákvæman og skrifaði því fyrir okkur Hauk rakara allt sem spila skyldi. Óli vildi enga ofbrúkun á sjöundarhljómum en skýran valstakt þar sem hann átti við: Kontrabassann kláran á fyrsta slagi og gítarinn nett á hinum tveimur, helst sleginn upp. Sjálfur fyllti hann í allt hitt með píanóinu og fór víða um nótnaborðið og tryggði rétta hrynjandi.

Nokkra kvartettútsetningar, afar snotrar, lét Óli eftir sig, orðnar til fyrir söngflokka Bændaskólans eða í tengslum við hann. Ég nefni lög eins og Erla, góða Erla, Er einmana geng

153
Ólafur við flygilinn í óþekktri hljómsveit á sjötta (?) áratugnum (Ljósm.safn Akraness).

ég, og jólalagið fræga, White Christmas. Jass-skotna hljómvísi og glettni mátti gjarnan heyra í útsetningum Óla, takið t.d. eftir lögunum‚ Óla lokbrá og Litla kvæðinu um litlu hjónin hér á eftir.

Hér og hvar laumaði Óli inn skemmtilegri krómatík og stundum kom það fyrir að hann samdi sérstaklega við einhvern úr söngflokknum að stinga inn aukatóni eða tveimur, til þess að fá örlitla ómstríðni hér og hvar. Það er líklega þess vegna sem mig langar svo oft til þess að raula sexundartón í lok lags, sérstaklega ef útsetningin er mjög flöt . . .

En málið mesta er það að Ólafur Guðmundsson var strax frá æsku sinni fús að leggja öllum lið með tónlistarhæfileikum sínum: Þess vegna bar hann harmoníku sína á böll fram í Lundarreykjadal og miklu víðar um sveitir. Lék matar- og afþreyingarmúsík við urmul tækifæra, stjórnaði fjöldasöng, lék í danshljómsveitum og stjórnaði kórum.

Fæst af þessu gerði hann ríkan. Kannski ekkert. Með tónlist sinni gladdi hann hins vegar samferðamenn sína, og stytti þeim stund. Hann ljúfa minning eftir skildi eins eins og þar stendur. Minningu Ólafs Guðmundssonar heiðrum við með því að syngja þrjú lög í útsetningum hans.110

154
110 Skrifað vorið 2011.

Fyrsti íslenski búvísindakennarinn

Stefán Jónsson var skagfirskur að uppruna; fæddur 2. janúar 1915 í Eyhildarholti en var gjarnan kenndur við Nautabú en síðar Kirkjubæ á Rangárvöllum. Stefán var afar vel menntaður maður; hann var stúdent úr MA, búfræðingur frá Hólum, og búfræðikandídat frá KVL í Kaupmannahöfn. Er hann lauk námi þar ytra 1942 hindraði heimsstyrjöldin heimför hans svo hann réðst til frekara náms og starfa þar ytra, einkum í fóðurefna- og lífeðlisfræði; starfaði m.a. við rannsóknir.111

Um þær mundir mátti kalla danskan landbúnað háþróaðan. Hann var byggður á öflugum rannsóknum og markvissri notkun verklegrar og fræðilegrar þekkingar, bæði í jarð- og búfjárrækt. Þangað var því margt að sækja fyrir íslenskan landbúnað sem var að hefja nýtt skeið í kjölfar mikilla þjóðlífsbreytinga, skeið tæknivædds búskapar í verkaskiptu samfélagi, þar sem fræðileg þekking skyldi nýtt í meira mæli en áður. Við þessar aðstæður kom Stefán til starfa fyrir íslenskan landbúnað ásamt fleiri löndum sínum. Fyrst til forfallakennslu á Hvanneyri veturinn 1945-46 en síðan til starfa hjá búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Búnaðardeildin var vísir að rannsóknastofnun fyrir landbúnaðinn, þá ung að árum, sett á fót árið 1937.

Haustið 1947 var sett framhaldsdeild við Bændaskólann á Hvanneyri. Skyldi hún sérmennta starfsmenn til ráðgjafar og annarra fagstarfa í þágu bænda – og var þannig vísir að innlendum landbúnaðarháskóla. Stefán var þá ráðinn til kennslu við deildina, einkum í grunnfögum, svo sem efnafræði, stærðfræði og lífeðlisfræði. Þá kennslu annaðist hann til vorsins 1955 er hann tók við búi á Kirkjubæ á Rangárvöllum. Þar hafði Eggert bróðir hans stofnað til kynbótabús í hrossarækt en fallið frá svo nokkur óvissa ríkti um framhald búsins. Á Kirkjubæ bjó Stefán með fjölskyldu sinni næstu árin, allt þar til hann hélt til kennslu að Hólum veturinn 1963-64. Hann lést úr krabbameini 7. október 1964 en hafði þá kennt heilsubrests um nokkurt skeið.

Stefán var kvæntur Sesselju Jóhannsdóttur úr Svarfaðardal. Þau eignuðust sex börn: Sólveigu, Sturlu, Steinunni, Þórunni, Sigurveigu og Önnu Margrétu. Þau féllu vel inn í hið fámenna samfélag kennarafjölskyldnanna á 111 Nokkrir punktar til minnis BG skrifaðir vegna heimsóknar fjölskyldu Stefáns að Hvanneyri í júlí 2015 með viðbótarfróðleik frá fjölskyldunni.

Stefán Jónsson og Sesselja Jóhannsdóttir. (ljósm. úr einkasafni).

155

Hvanneyri. Sesselja tók þátt í starfi kirkjukórsins, meðfram umönnun stækkandi fjölskyldu og Stefáns er minnist sem hægláts nágranna er var mikill tóbaksmaður.112

Um starf Stefáns liggja fyrir nokkrar frásagnir nemenda og samstarfsmanna hans:

Persónunni Stefáni Jónssyni lýsti Halldór Pálsson113 svo: Hann var gáfaður, í senn viðkvæmur í lund og skapríkur en þó stilltur vel enda karlmenni. Hann var hægur í viðmóti, seintekinn í viðkynningu, orðvar, einlægur drengskaparmaður, hlýr og traustur vinur vina sinna, einbeittur í skoðunum og lét lítt sinn hlut. Hann þoldi ekki kauðaskap og smámunasemi.

Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli kynntist Stefáni fyrsta kennsluvetur hans á Hvanneyri 1945-46. Hann kvað Stefán hafa verið afbragðs kennara sem borið hefði af öðrum í þeim hópi sakir menntunar sinnar og kunnáttu „sem gull af eiri“.114 Bjarni Arason var í fyrsta námshópi Framhaldsdeildarinnar sem Stefán kenndi; Bjarni skrifaði: Ég get ekki rifjað svo upp minningar frá þessum tíma að ég minnist hans ekki sérstaklega. Svo ríkan þátt átti hann í að móta andrúmsloft þessarar stofnunar. Stefán var afbragðs kennari. Hann hafði skapgerð vísindamannsins, var nákvæmur og síleitandi að kjarna hvers viðfangsefnis. Framkoma hans og persónuleiki var með þeim hætti, að hann naut virðingar, þar sem hann fór.115 Magnús Óskarsson, líka nemandi Stefáns við Framhaldsdeild orðaði sín ummæli svo: Góður kennari þótt iðkaði það að koma í tíma lítt undir búinn til kennslu. Hann kvað Stefán vera þann kennara sem hann hefði vitað best komast þannig frá verki – og með góðum árangri; Stefán hafi verið mjög vel kunnandi í kennslugreinum sínum en þegar hann rak í vörður fékk hann nemendur til þess að leita hinnar réttu lausnar með sér, hvað jafnan hefði tekist; sá ferill hefði verið mjög lærdómsríkur.116

Dóttursonur Stefáns, Stefán Sturla, rifjaði upp söguna um afa sinn er hafði fengið heimild til þess að reykja í kennslustund með því að standa í dyrum kennslustofunnar, að hann sagði tvær „rettur“ í 45 mín kennslustund, sem ég trúi vart en víst er um það að Stefán Jónsson var gríðarmikill tóbaksmaður enda dó hann úr krabbameini aðeins 49 ára gamall.117

Halldór Pálsson taldi það mikinn skaða er Stefán Jónsson hvarf frá Hvanneyri. Stefán tók þó að sér að endurskoða eldri kennslubækur um líffræði búfjár og um efnafræði fyrir Búnaðarfélag Íslands. Steingrímur Steinþórsson sagði í formála líffærafræði-bókarinnar Stefán hafa lagt við verkið mikla alúð og vandvirkni, enda ágætlega til þess fallinn að leysa slíkt starf vel af höndum, sökum hæfileika sinna og þekkingar.118

112 Jóhannes Ellertsson í samtali við BG 22. júlí 2015.

113 Halldór Pálsson: Tíminn 13. október 1964.

114 Þorsteinn Þorsteinsson í samtali við BG 24. júlí 2015.

115 Bjarni Arason: Í Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára. (1979), 250.

116 Magnús Óskarsson í samtali við BG 20. júlí 2015.

117 Stefán Sturla Sigurjónsson í samtali við BG 25. júlí 2015.

118 Þórir Guðmundsson: Líffæri búfjár [Endurskoðað og stytt hefur Stefán Jónsson], (1959), 6.

156

Árið 1947 var byggð hæð ofan á Hvanneyrarfjósið (Fjósloftið í Halldórsfjósi). Var þar m.a. komið fyrir íbúð, sem varð heimili Stefáns og fjölskyldu hans þau ár er þau bjuggu á Hvanneyri. Fyrstu misserin munu þau þó hafa búið þröngt í Skólastjórahúsinu. Að auki var þar á Fjósloftinu m.a. komið fyrir efnafræðistofu, einkum vegna efnafræðikennslu. Stefán mótaði stofuna, sem þarna var síðan til húsa við vaxandi umsvif næstu fjörutíu árin. Áhugi hans beindist einnig að rannsóknum. Vann Stefán með kennslu fyrir Tilraunaráð búfjárræktar, einkum að votheysrannsóknum og áhrifum sláttutíma á fóðurgildi heyja, skrifaði Halldór Pálsson, er einnig sagði: Vegna ágætrar menntunar og vísindalegrar nákvæmni í störfum var Stefán prýðilega fallinn til vísindaiðkana.

Votheysrannsóknirnar voru býsna merkilegar. Fyrir þeim var gerð rækileg grein með fræðiriti.119 Má hiklaust jafna þeim við það besta sem á þeim tíma sást hér á Norðurlöndum. Í formála ritsins segir m.a.: Stefán Jónsson, kennari á Hvanneyri, . . . annaðist alla framkvæmd tilraunanna á Hvanneyri og Hesti við verkun heysins, hitamælingar og sýnatöku. . . . Stefán Jónsson, kennari, efnagreindi nokkuð af sýnishornum á efnarannsóknastofu Búnaðardeildar [svo!] á Hvanneyri. Magnús Óskarsson minnti að Tilraunaráðið hafi kostað einhver rannsóknatæki í stofuna á Hvanneyri, og kann það að skýra orðalagið. Og síðar í formálanum segir: Nokkrar efnagreiningar voru framkvæmdar á Hvanneyri, og voru þau sýnishorn tekin beint úr gryfjunum til efnagreiningarinnar. Tilraunin var gerð sumarið 1951, í þremur nýlegum votheysgryfjum á Hvanneyri, og einni á Hesti, og einnig í fleiri votheys-geymslum suður í Mosfellssveit.

Fitugreiningartæki, frá Soxhlet, sem Stefán Jónsson kennari fékk til rannsókna og kennslu. (Úr safni LbhÍ, Hve).

Sólveig, dóttir Stefáns, minnist rannsóknaverka föður síns, bæði við tilraunir á engjalöndum Hvanneyrar sem og á efnarannsóknastofunni. Nokkur mælibúnaður mun hafa verið til á stofunni, megi marka frásagnir, svo sem til pH- og þurrefnismælinga. Þurrefnismæling var hins vegar ekki flokkuð með efnagreiningum í daglegu tali. Meiri búnaður hefur því

119 Stefán Aðalsteinsson, Stefán Jónsson og Pétur Gunnarsson: Áhrif fergingar á verkun votheys Rit landb.deildar A-flokkur – nr 13. (1960).

157

verið til staðar, hugsanlega Kjeldahl-tækin, sem lengi voru til á stofunni og notuð voru til mælinga á köfnunarefni (N).

Sem fyrr sagði hvarf Stefán með fjölskyldu sinni austur að Kirkjubæ vorið 1955, m.a. fyrir hvatningu Pálma bróður hans.120 Þá höfðu mál skipast svo að ríkið keypti jörðina en Stefán vélar og bústofn, þar með talið hrossastofninn sem Eggert bróðir hans hafi ræktað um árabil. Hrossaræktarbúið á Kirkjubæ rak Stefán með fjölskyldu sinni til dauðadags.121 Björn Franzson vakti athygli á markvissu en hljóðlátu ræktunarstarfi Stefáns þar eystra, því að honum hafi verið allra manna fjarst skapi að berast á eða halda eigin verðleikum á lofti, skrifaði Björn.122 Má telja að í dag séu Kirkjubæjarhrossin lifandi vottur um farsælt kynbótastarf Stefáns, sem vildi hreinrækta ákveðna stofna eða viðhalda þeim óblönduðum . . . fremur en blöndun hinna ólíkustu stofna og einstaklinga . . . eins og Halldór Pálsson lýsti starfinu.

Sé reynt að leggja mat á ævistarf Stefáns, sem aðeins náði að spanna tæpa tvo áratugi, yrði það eitthvað á þessa leið:

Stefán Jónsson var afar vel menntaður maður með með eiginleika og hæfni vísindamanns. Hógværð, annir og takmörkuð efnisleg aðstaða settu honum skorður við nýtingu hæfileika sinna til fræðiiðkana. Það hversu ungur hann hvarf frá kennslu og rannsóknum og hve fá starfsár voru honum gefin veldur því einnig hve lítið fer fyrir honum í búnaðarsögu tuttugustu aldar. Stefán mótaði kennslu við Framhaldsdeildina á Hvanneyri fyrstu ár hennar. Með rökum má því kalla hann fyrsta íslenska búvísindakennarann. Það starf og áhrif hans á nemendur skólans ættu því að duga til þess að halda nafni hans á lofti.123

120 Sólveig Stefánsdóttir í samtali við BG 25. júlí 2015. Elín Pálmadóttir blaðamaður, bróðurdóttir Stefáns, sagði einnig í samtali við BG 13. ágúst 2015, að það hefði ýtt undir ákvörðunina að Stefán hefði verið „svikinn um aðstöðu á Hvanneyri, íbúð, hefði verið ráðinn til þess að koma nýrri deild á fót, en allt það hefði verið svikið og þess vegna hefði hann farið burt, austur að Kirkjubæ.“

121 Hjalti Jón Sveinsson: Hrossin frá Kirkjubæ (1984).

122 Björn Franzson: Þjóðviljinn 13. október 1964.

123 Pistillinn var skrifaður 26. júlí 2015 vegna heimsóknar fjölskyldu Stefán kennara að Hvanneyri og lagfærður 3. desember 2020.

158

Við minningamark á Mylluhóli

Gunnar Bjarnason

Hver haldiði, strákar, að fari með elskuna sína út í votheysgryfju?

Komið með mér 77 ár aftur í tímann – til haustsins 1935. Kannski sjáum við héðan af Mylluhólnum til skólapilta, sem tínast heim að Hvanneyri. Halldór skólastjóri, glaðbeittur og fyrirmannlegur en ögn farinn að reskjast tekur á móti þeim, einum af öðrum. Einn piltanna er kominn norðan af Húsavík. Hann ætlar að taka námið á einum vetri af því hann var búinn að vera í skóla hjá skáldprestinum sr. Friðrik A. Friðrikssyni. Ég gef mér það, að pilturinn hafi ekki farið með veggjum, heldur talað hátt og hlegið enn hærra, ódeigur og vanur að bjarga sér í stórum og brasthörðum systkinahópi þar í húsi athafnahjónanna, Bjarna og Þórdísar –búinn að þroskast hjá Hallgrími á Halldórsstöðum í Laxárdal, og læra það, að Þingeyingar væru fæddir til þess að leiða þessa þjóð.

Okkar maður stundaði nám og félagslíf hér úti í Gamla skólanum, sem við nú köllum svo; hvort hann náði einhverjum frama í leikfimihúsinu hér vestan við veit ég ekki; efast eiginlega um það, en á skemmtunum þar tvíla ég að hann hafi þó setið kyrr. Honum sóttist vel námið, en sinnti fleiru. Sjarmör með gott auga fyrir kvenfólki. Bráðfalleg dóttir skólastjórans fangaði hug hans, og hana nam hann á brott úr skólastjórahúsinu að námi loknu. . .

Við rekumst næst á okkar mann úti í Kaupmannhöfn, hann les þar búfræði hjá Møllgård og Clausen, og Jepsen, eða hvað þeir nú hétu. Fór ekki í launkofa með, að hann væri af töluvert eldra konungakyni en kverkmæltir Danir á tréskóm. Slapp heim til Íslands fyrir hildarleikinn stóra, og var áður en varði orðinn ráðunautur þessarar nýlendu Danakonungs í hrossarækt: Kannski ekki spennandi hlutskipti fyrir ungan búvísindamann, því bændur voru óðum að leysa sín hross undan aktygjum og reiðingi – trúðu á traktorana og ógnarafl olíunnar, en ekki mó-merar eða mis lata vinnujálka. Kallaður til kennslu á Hvanneyri árið sem Ísland var lýðveldi: varð einn af kennara-kollegíinu, sem í ill-skiljanlegri bjartsýni hóf háskólakennslu á rúmlega 20 fermetrum hér úti í skólahúsinu haustið 1947. Ekkert gefið eftir og nemendur dregnir sofandi ofan af heimavist ef þeir ekki hundskuðust á réttum tíma til fyrirlestra . . . Hér er nú orðinn alvöru-háskóli og nemendur sofa eins og þá lystir.

Nemendur Bændaskólans kunnu margir að meta það hversu fús ungi kennarinn var til rökræðna, tímarnir fóru stundum út um víðan völl, svo margir vissu stundum ekki hvar í dauðanum þeir voru staddir, öðrum líkaði þetta stórvel: Augnablikið var aðalatriðið, ekki pensúmið eða einhver smáatriði úr fóðurfræði, búfjárrækt eða búnaðarsögu. Og í þéttu samspili við áhugasama nemendur hóf hann tamninga- og reiðkennslu hér við

159

Hvanneyrarfjósi á sjötta áratugnum. Gunnar t.v., þá Pétur Gunnarsson fóðurfræðingur og Ólafur E. Stefánsson ráðunautur (ljósm. Ólafur Guðmundsson).

skólann. Alger nýlunda. Umburðarlyndur skólastjórinn lét það eftir starfsmanni sínum, þótt þorra manna þætti þetta nú hið mesta fánýti, hrossin væru liðin tíð. Við sjáum úlpuklædda menn bisa við fola sína hérna á hlaðinu norðan við og austan af ísilögðu Vatnshamravatni heyrist hófadynur. Okkar maður er þar með nemendum sínum, þykir að vísu heldur slakur reiðmaður, en það er samt eitthvað sem gerist . . . og áður en varir er farið að efna til keppni í þessum hestakúnstum. Að vísu fylgja þessu hestastússi heilmikil óformlegheit, sumir kölluðu það drykkju og djöfulgang. En hvað gerist? Hægt og sígandi verða til menn sem sjá, að okkar maður hefur lög að mæla: íslenski hesturinn hefur ekki runnið sitt skeið –hans bíða ný hlutverk . . .

Okkar maður er kannski ekki sá allra praktískasti í veröldinni: Hugur hans svífur oft fjöllunum hærra. Skagfirskur iðnaðarmaður, staddur hér hjá dóttur sinni, hjálpar honum til dæmis við að koma íbúðarhúsinu á Álfhól undir þak, þegar haustið virtist ætla að bera hinn unga húsbyggjanda ofurliði.

Kannski var hann þá að hugsa út flórristarnar, sem síðan var gerð tilraun með hér í Hvanneyrarfjósinu: að láta þyngdaraflið um það sem þúsundir manna höfðu sér til leiðinda verið bundnir við í hundruð ára: að moka kúaskít. Kokmæltir Danir töldu sig síðar hafa fundið þetta upp en okkar maður í samvinnu við Guðmund ráðsa og Halla smið höfðu komið þessu á koppinn löngu fyrr. . . Og héðan af stað tóku að streyma menn sem leiddu íslenska hestinn fram á völlinn að nýju, innblásnir af ræðum okkar manns, . . . þeir gerðust postular hans, Þorkell, Einar Eylert, Bogga, Reynir, Gunna í Koti, Siggi Sæm., Ragnar, Trausti, Benni, og hver þau nú annars eru . . . Og þarna í Álfhólnum tók okkar maður að skrifa greinar og bréf, og hringja út og suður til þess að vinna íslenska hestinum álits, stofnaði félög og alþjóðasamtök, einhver kallaði það maníu, en áður en varði hafði hann hrundið af stað stórri áhugabylgju, m.a. með þýskum glæsikvinnum. Okkar maður orðaði það þannig, að ekkert væri tilkomumeira en þegar frísandi og vöðvastæltur, sumargljándi íslenskur fákur af guðakyni með gneista úr augum og flenntar nasir lyti mildu oki fagurrar konu. Og Þýðverjar meðal annarra sáu skyndilega fegurðina í því sem þeir áður höfðu álitið vera syfjuð og sljó vinnudýr hvunndagsins. Búnaðarfélagsmenn töldu þetta að vísu fyrir utan erindisbréf okkar manns, þrösuðu smá, en létu þetta annars óátalið.

160
Tilraun með flórristar Gunnar Bjarnasonar í

Svo vildi okkar maður meiri frama, sem von var. Fékk staðarforráð á Hólum í Hjaltadal, en þá gerðist það, að tímarnir og okkar maður áttu ekki samleið. Líkaböng hringdi, ekki bara á Hólum, heldur víða um kerfið.

Næst hittum við okkar mann bókstaflega af baki dottinn með trosnaðan písk og slitna gjörð úti í Kaupmannahöfn. Honum verður þó ekki meira um útreiðina en svo, að hann nemur nýja tíma í landbúnaði og fóðurfræði sérstaklega – fyllist enn þrótti, og heldur heim eins og forfeður hans á þjóðveldisöld úr vel lukkaðri útlegð, með stóran feng í sínum mal. Tók að boða nýja tíma – tíma „rasjonaliseringar“ eins og hann kallaði þá, tíma skynvæðingar. Sumir urðu þá sannfærðir um að okkar maður væri endanlega genginn í bland við tröllin. Í vesturhorninu á skólastjórahúsinu sat hins vegar enn hinn umburðarlyndi skólastjóri, Guðmundur Jónsson, sem aftur tók á móti okkar manni.

Úti í skólahúsinu tekur hinn endurreisti vígamaður enn til þar sem frá var horfið: hneykslar suma nemendur, hrífur aðra. Ekki bara unga menn úr Flóanum, heldur flesta þá, sem síðar stóðu fyrir því að hrossarækt og hestamennska breyttust úr fokki í fag – fag, sem í dag er viðurkennt sem eitt af styrkustu stoðum íslenskrar þjóðmenningar: fag, sem Landbúnaðarháskóli Íslands er líka í forystu fyrir, með vaxandi hópi af ungu fólki.

En yfir í Álfhól heyrum við ritvélina tifa seint og snemma þar sem okkar maður er m.a. að banka saman stórt ritverk um búfjárrækt: Nú er ekkert sirka og hérumbil eða hugarflug í þrjátíu þúsund fetum: Það er að verða til kennslubók, eitt merkasta búfræðirit 20. aldar: Hvanneyrarskóli brást ekki, og norðlenskir höfðingjar gáfu verkið út, Prentverk Odds Björnssonar á Akureyri. Því verr sögðu ýmsir aðrir humm og kannski, jafnvel nei. . .

Jæja, ég skal stytta mál mitt: Hérna undir Kirkjuhólnum er verið að hlaða vegg. Steinarnir eru misjafnir að lögun, sumir reglulegir, aðrir kantaðir og hrufóttir, svo vandséð er að þeir passi í nokkra hleðslu. En sé þeim raðað rétt saman falla þeir og mynda fallegan vegg. Þannig var okkar maður, Gunnar Bjarnason: hrufóttur og með óvænta kanta oft og tíðum. En inn í þetta umhverfi féll hann, og nágrannasteinarnir féllu að honum. Hér á Hvanneyri og héðan vann hann flest sín merkustu verk: Hann reyndi á umhverfið og umhverfið reyndi á hann: Það agaði hann bæði og veitti honum kjör til þess að fylgja eftir lífsskoðunum sínum og hugmyndum.124

Búfjárfræði Gunnars Bjarnasonar; eitt stærsta og athyglisverðasta búfræðirit sem út var gefið á Íslandi á tuttugustu öld.

161
124 Pistill fluttur við afhjúpun minningamarks um Gunnar Bjarnason á Hvanneyri 22. júní 2012.

„við lesum eins og flóðhestar í flagi“

hnýzt í dagbækur Magnúsar Óskarssonar

Ég sit yfir syrpu af dagbókum Magnúsar Óskarssonar, lengst af kennara og tilraunastjóra á Hvanneyri, frá því aldursskeiði hans þegar menn eru að mótast – eru horfnir af unglingsaldri, hafa valið sér leið, eru í óða önn að undirbúa starfsævina og stíga fyrstu skref hennar. Ég ætla að búa til dálitla einsögu, eins og sagnfæðingarnar kalla hana, úr knöppum dagbókarfærslum Magnúsar. Hann var athyglisverður maður og mörgum þeim, sem honum kynntust, hugstæður. Magnús fæddist árið 1927, Mýramaður var hann, en fluttist í Kópavog þar sem hann ólst upp við bústörf. Landbúnaður höfðaði til hans og vorið 1949 göngum við í veg hans þar sem hann hafði stundað bóklegt nám við Bændaskólann

á Hvanneyri í einn vetur og komið var að verklegu námi við skólann:

AF VERKNÁMI Á HVANNEYRI 1949

Nemendum Bændaskólans bar að stunda verknám að vori og hausti eftir fyrri námsvetur sinn við skólann og færa dagbók. Sú námsskipan hafði haldist lengi en nú var farið að styttast í henni. Fyrsta dagbók Magnúsar í syrpunni er einmitt verknámsdagbókin. Hún varpar ljósi á námið og ýmsa verkhætti sem voru að hverfa, því tímarnir voru að breytast svo um munaði, ekki síst hvað snerti landbúnaðinn.

Verknáminu var skipt á tvö tímabil: 1. maí til 15. júní og 14. sept. til 13. okt., eða tæpar ellefu vikur. Samtals vann Magnús á því tímabili í 779 stundir – rúmlega 10 stundir á dag, alla daga verknámsins. Af dagbókinni má ráða að hóflegt skipulag hafi verið á náminu, að piltar hafi nánast verið í almennri vinnu á skólabúinu og gengið í þau störf sem efst voru á baugi eða kölluðu að á hverjum tíma. Af og til komu þó upp viðfangsefni sem sýnast hafa verið formleg kennsla. Getið er þeirra helstu:

Vélanámskeið: Þegar verknámið hófst, 1. maí, var allt á öðrum endanum á Hvanneyri, skrifaði Magnús: „Það var verið að gera öll húsin hrein og útbúa leikfimihúsið sem íbúð fyrir vélanámskeiðsmenn125, en um kvöldið komu nokkrir þeirra og voru þeir ´tolleraðir´“. Skólapiltar munu einnig hafa fengið að taka þátt í námskeiðinu, en þau voru árlega á þessum árum. „Við vorum 16 sem látnir voru fara í vélanám. Fyrst vorum við hjá Hauk Jörundarsyni í eldri deild, og sagði hann okkur frá tilhögun námsins. Síðan vorum við látnir fara út í verkfærahús að rífa í sundur vélar. Við skoðuðum niður í „gírkassann“, stilltum legu, slípuðum „ventla“ o. fl. Þetta er mjög lærdómsríkt og greiðlega svarað spurningum nemenda.“

125

Vélanámskeiðin voru haldin nokkur vor á þessum árum, líklega allt frá 1945, einkum til þess að mæta ört vaxandi þörf fyrir starfsmenn á vinnuvélar búnaðar- og ræktunarsambandanna. Þau voru haldin að tilstuðlan Verkfæranefndar/ Vélanefndar ríkisins en á Hvanneyri í samvinnu við Bændaskólann. Nokkrir nemendur skólans tóku gjarnan þátt í námskeiðunum hvert vor

162

Kartöfluspírun: Verkefnið var „. . . að koma fyrir kössum með hálf spíruðum kartöflum og stráðu þeir mold ofan á suma kassana. Ég hefi aldrei séð þetta gert og veit ekki til hvers það er gert, og það vissu hinir strákarnir ekki heldur.“

Hallamælingar lands: Verkinu, sem Gunnar Bjarnason kenndi, lýsti Magnús samviskusamlega.

Fjósaverkin: Fjórðungur verknámstíma Magnúsar fór til ýmissa fjósverka. „Ég hjálpa Guðmundi [mun vera Guðmundur Þorsteinsson frá Efri-Hrepp] til að gefa kálfunum, er það skemmtilegt starf.“ Þarna var Stefán Jónsson kennari að gera tilraun „með kálfauppeldi, það er á hvern hátt sé ódýrast að ala upp kálfa.“

Dráttarvélarnar: „Við héldum áfram að setja ´John Deere´saman. Gekk það heldur seinlega vegna þess að allar skrúfur voru ryðgaðar . . . ´John Deere´er tveggja [cylindra], með vökvalyftu að aftan. Það heyrist hátt í honum, og hann er heldur klunnalegur í útliti. Hér var sýnd í dag [19. maí] Ferguson dráttarvél með tilheyrandi útbúnaði. Þetta virðast mjög þægilegar vélar fyrir minni búskap.“

Sæðingar: „Við áttum að halda kú undir Brand en það tókst ekki svo að fjósameistarinn ákvað að láta tæknifrjóvga kúna. Ólafur Stefánsson [Ólafur E. Stefánsson ráðunautur] gerði það kl. 3, og var ég viðstaddur, er það í fyrsta skipti sem ég hefi séð það gert.“

Skurðahreinsun: „Síðan fórum við upp á tún á Case og Farmal W4 en með þeim er hreinsað upp úr skurðunum, á þann hátt að þeir eru látnir aka sitt hvoru megin við skurðinn með sama hraða en á eftir sér draga þeir í ca. 15 m löngum stálkapli herfi með 4 diskum, sem losar úr skurðbotninum. Ég var á Case en Tómas [Gíslason Vestur-Skaftfellingur] á Farmal W4, okkur gekk heldur illa að stilla vélarnar á sama hraðastig.“

Dreifing tilbúins áburðar: „Ég var í dag [27. maí] sendur tvívegis til Gunnars Bjarnasonar til að læra dreifingu tilbúins áburðar, í annað skiptið með höndum en hitt skipti með vél. Í báðum tilfellum dreifðum við sprengisaltpétri NH4NO3.“ Verkum var síðan lýst af kostgæfni.

Heybinding: Í byrjun júní var flokkur pilta sendur til þess að binda hey - „troða heyinu í balla“, upp að Rauðsgili og Kalmanstungu, og einnig að Breiðabólsstöðum.126

126 Vorið 1949 var mikið heyleysi og þurfti því að miðla heyi til illa staddra héraða. Lesaranum þykir sennilegt að þarna hafi verið um að ræða hey fyrir Hvanneyrarbúið því 25. maí skrifaði Magnús: „Það horfir all ískyggilega með heyin hér á Hvanneyri, það er eftir hálf súrheysgryfja og lítils háttar af þurrheyi, það er sparað við kýrnar eins og hægt er en heyin minka stöðugt. Ekki bætir ástandið að ærnar eru farnar að bera en það verður þrátt fyrir það að gefa þeim inni vegna kulda.“

163
Magnús Óskarsson í knattspyrnuliði Hvanneyringa um 1950.

Byggingarframkvæmdir: Vorið 1949 var verið að steypa næturhitunina svonefndu [varmaskiptistöðina er nýtti næturrafmagn frá nýreistri Andakílsárvirkjun til upphitunar vatns til kyndingar skólahúsanna – þá kölluð hitaveita], og að ljúka byggingu votheysgryfju, einnar eða fleiri, í fjóshlöðunni. Tóku nemendur sýnilega virkan þátt í þeim verkum.

Flóðgarðar: Ein rækilegasta verknámslýsing Magnúsar er af flóðgarðahleðslu er þeir námu 8. og 9. júní. Birti hann einnig í dagbók sinni málsetta þverskurðarteikningu af flóðgarði. „ … Til þess að hlaða flóðgarðinn rétt verður að strengja snúrur til að hlaða eftir, og hafa stikur til að merkja hæðina á . . . “

Verknámsferð: Hefðbundin verknámsferð, þriggja daga, var farin, um Suðurland og stofnanir heimsóttar, allt austur að Sámsstöðum og síðan til Reykjavíkur þar sem endað var að Keldum. Gist var á Laugarvatni og í Menntaskólaselinu.

Hausthluti verknámsins: Það leið við mörg hefðbundin haustverk, af beinni kennslu nefndi Magnús gerð opinna skurða, og lokræsa, en lokræsagerð lýsir hann nákvæmlega, allt unnið með handverkfærum. Þá virðist nokkur tími nemenda hafa farið í kynningu og athuganir á sláttuvélagreiðum hjá Guðmundi skólastjóra. Dagbókinni lýkur Magnús 13. október, og skrifar: „Ég hefi verið í allan dag að vinna við að setja þak á hestaréttina [syðra Verkfærahúsið – nú Kráin]. En það er verið að búa til hús fyrir verkfærin úr réttinni. Yfirsmiðurinn er úr Reykjavík og heitir Jósep. Við vorum í allan dag að setja upp silluna og steypa hana fasta, ég vann til 7½“. Vinnuhestarnir voru sem sagt að hverfa frá Hvanneyri – vinnuvélarnar að koma í þeirra stað.

Af upptalningunni má sjá að nýir tímar voru að ganga í garð. Ýmis verk, unnin með handverkfærum, voru að hverfa. Vélar og nýir verkhætti að taka við. Má því segja að Magnús hafi þarna staðið á mærum tveggja tíma. Tuttugu og þriggja ára gömlum búfræðingi var því spennandi kostur að ráðast til frekara búnaðarnáms og það gerði Magnús. Hann innritaðist í nýlega stofnaða Framhaldsdeild á Hvanneyri haustið 1951 og þar hittum við hann fyrir á ný skömmu eftir áramót 1953, nánar tiltekið 17. janúar.

ÚR FRAMHALDSDEILD TIL FRAMHALDSNÁMS

Dagbók sína færði Magnús fyrir hvern dag, formlega og skipulega, en var ekki mjög margorður um einstaka viðburði daganna frekar en fyrr. Framhaldsnám sitt virðist hann hafa stundað af mikilli samviskusemi. Hann telur sig ekki sterkan námsmann, en sýnt er að hann hefur lesið mikið og raunar unnið mikið, „við lesum eins og flóðhestar í flagi“, skrifaði hann 23. maí 1953. Þegar að skemmtunum kemur, sem á skólanum voru all tíðar, meðal annars með meyjum Varmalandsskóla, lýsir Magnús þátttöku sinni í dansi en drykkja og viðlíka fyrirgangur er ekki að hans skapi, getur þess raunar alloft að hann hafi gengið til náða þegar aðrir héldu lengur til næturinnar.

164

Veturinn 1953 er tvennt námstengt glöggt í færslum Magnúsar: Fyrst það hve margir gestakennarar komu við sögu Framhaldsdeildarinnar, kennarar sem dvöldu við skólann nokkra daga í senn og fyrirlásu um efni sérgreina sinna. Verður ekki betur séð en að þarna hafi mætt hinir lærðustu menn, hver á sínu fagsviði landbúnaðar, sem þannig áttu hlut að því að mennta sem best verðandi íslenska búfræðikandídata. Nefna má t.d. Halldór Pálsson, Hjalta Gestsson, Ólaf Jónsson, Klemenz Kr. Kristjánsson, Stefán Björnsson, Geir Gígja, Þór Guðjónsson, Björn Bjarnarson, Gísla Kristjánsson o.fl. Búfjárræktarmennirnir kenndu jafnt bóklega sem verklega, og þá með búfjárdómum; meira að segja Gísli Kristjánsson, sem kenndi hænsnarækt, tók nemendur sína til þjálfunar í hænsnadómum.

Hitt atriðið er það að nemendum Framhaldsdeildar bar að læra tamningar. Í þeirri sögu Magnúsar virðist hann m.a. hafa komið að þjálfun dráttarklárs sem faðir hans hugðist síðan kaupa og nota. Svo er það Stjarna, sem mikið rými fær á síðum dagbókarinnar fram til vors, en það var tryppi fengið að láni frá Pétri Þorsteinssyni á Miðfossum, alvitlaust í byrjun, skrifaði Magnús, en róast síðan fyrir elju hans, sem stundaði Stjörnu daglega með kembingum og annarri önn. Virðist hann hafa náð að temja gripinn til nokkurs gagns og skilar hann Pétri Stjörnu um vorið, hafði þá þurft að draga undan henni því hófarnir voru „alltof þurrir … Ég uppgötvaði að hófarnir á Stjörnu eru illa sprungnir“, segir í dagbók. Tamninguna stundaði Magnús af eðlislægri samviskusemi en mun ekki hafa komið að hestamennsku eftir þetta námskeið.

Sunnudaginn 6. júní 1953 útskrifuðust þeir félagar sem búfræðikandídatar, er auk Magnúsar voru þeir Egill Jónsson, síðar ráðunautur og alþingismaður, og Ingi Garðar Sigurðsson, síðar ráðunautur og tilraunastjóri. Athöfnin hófst með þrírétta máltíð kl. 12 en kl. 2½ var brautskráningin. „Það lítur út fyrir að það séu að aukast atvinnumöguleikar búfræðikandidata. U.S.A. ætlar að styrkja dreifðar áburðartilraunir og fyrirlestrahald að einhverju leyti“, hafði Magnús skrifað nokkru fyrr. Sjálfur hélt hann strax að brautskráningu lokinni heim í

165
Magnús og félagi hans Einar Eylert Gíslason við tamningu dráttarklárs á Hvanneyri, líklega 1953. (ljósm. úr safni EEG).

Kópavog með föður sínum og bróður sem komu á bíl með “boddíi” téðan sunnudag.

Sýnilega var Magnús farinn að velta fyrir sér framhaldi er dró að lokum námsins á Hvanneyri. Í ljósi ævistarfs hans er athyglisvert að ein þeirra námsritgerða sem hann glímdi við þennan vetur fjallaði um sögu tilrauna á Íslandi. Og þann 4. apríl skrifaði Magnús: „Ég talaði við skólastjórann en hann er búinn að fá bréf frá Askov þar sem mér verður leyft að vera … frá miðjum okt.“ en á Askov var mjög þekkt tilraunastöð í jarðrækt á þessum árum. Þann 4. maí segir í dagbók: „Ég skrifaði Klemenz á Sámsstöðum í dag og sagði honum að ég gæti ekki farið til hans fyrir 1600 kr., en hann bauð mér það í bréfi, sem að hann skrifaði mér nýlega.“ Ljóst er því að Magnús hefur þá þegar verið farinn að velta fyrir sér jarðræktarrannsóknum sem viðfangsefni til framtíðar.

Sumarið 1953 var Magnús heima í Kópavogi. Hann lagði fjölskyldu sinni lið við búrekstur vegna Kópavogshælisins, þar sem faðir hans var bústjóri, og við smíði íbúðarhúss fjölskyldunnar auk þess að grípa í önnur verk, m.a. „að gera skipulagsuppdrátt að skrúðgarði í lóðina hans pabba.“ Hafa verður í huga anda og sið þeirrar tíðar þegar þessi orð dagbókarinnar 5.7. eru lesin: „Fávitarnir á hælinu hérna eru 30 og við það starfa 12 manns. Pabbi hefur einn fávitann stöðugt í vinnumennsku og heitir sá Leifur og ´gengur fyrir´ neftóbaki. Um daginn fékk hann ekki tóbak, varð hann þá reiður, svo reiður að það varð að setja á hann bönd.“

Magnús gerðist einnig verkstjóri unglingavinnuflokks hreppsins og vann að bryggjusmíði. Hann naut bæjarlífsins með bræðrum sínum og félögum, fór í bíó, á íþróttamót og sótti söfnin heim: Listasafn ríkisins, hreifst af „afar vel upp settri sýningu Þjóðminjasafnsins, en um Listasafn Einars Jónssonar skrifaði hann: „ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum, mér fannst vera töluvert of skrautleg! en einföldustu myndirnar voru góðar. Bezt fannst mér Útlaginn og Jónas Hallgrímsson.“

Undir haustið var utanferðin ráðin og 19. september skrifaði Magnús eftir kaupstaðarferð til Reykjavíkur:

En ég keypti töskur og vinnuföt fyrir ferðalagið. Ég fór líka í Fjárhagsráð að reyna að fá mér gjaldeyri. Ég skrifaði umsókn, en þeir vildu fá skilríki frá stofnuninni sem ég færi til, en þar sem ég hafði ekkert slíkt í höndum (nema þá á Hvanneyri) þá lofuðu þeir að taka gilt bréf frá Páli búnaðarmálastjóra . Ég fór til hans og fékk þar bréf sem sagt var í að ég þyrfti sem svaraði 500 ísl. kr. á mánuði til framfærslu. Þetta verður svo lagt fyrir fund hjá Fjárhagsráði í næstu viku og ég fæ þá svarið.

Pál Zóphoníasson búnaðarmálastjóra hafði Magnús heimsótt nokkru fyrr „til að vita hvort ég mætti eiga von á styrk til námsins. Hann gaf heldur góðar vonir um það, þegar þar að kæmi.“ (22.8.). Og undir septemberlokin skrapp Magnús niður að Marbakka „að fá mér vottorð um að ég sé skuldlaus við hreppinn,“ líklega vegna væntanlegrar utanfarar sinnar.

166

Og þriðjudaginn 29. september var Magnús kominn með í hendur farseðil með Gullfossi til Kaupmannahafnar, á II farrými er kostaði 824 kr. Daginn eftir kom Egill [Jónsson síðar á Seljavöllum], skólabróðir Magnúsar í heimsókn: „Hann er búinn að hafa öll ósköpin upp á jarðýtu í sumar. Nú kemur til mála að hann verði umferðarráðunautur hjá Búnaðarfélaginu eftir nýju Marshallplani.“ Hinn skólafélaginn, Ingi Garðar Sigurðsson, „er enn hjá Birni Bjarnarsyni og getur verið að hann verði fastráðinn þar hjá Búnaðarfélaginu.“ (8.10.)

SIGLT TIL DANMERKUR – ÁRIÐ Á ASKOV

Þriðjudaginn 13. október hafði Magnús kvatt nágranna sína, vini og félaga, og ekki síst ömmusystur sína, Jóhönnu Magnúsdóttur sem varð „85 ára um daginn. Hún ráðlagði mér meðal annars að koma ekki heim með danska stelpu aftur til baka.“ Í tollskýlinu kvaddi hann foreldra sína og steig um borð í Gullfoss er lét síðdegis úr höfn:

Ég varð dálítið sjóveikur eftir að [skipið] kom út fyrir Reykjanes en gubbaði þó ekki en fór snemma í rúmið. Félagar mínir þrír, Einar, Jobbi og Stebbi voru að skemmta sér fram á nótt.

Líf og fjör var um borð í Gullfossi, dansað og hlaupið í skarðið uppi í sólskýli I farrýmis. Mikið fyllerí um borð, segir í dagbók, en landsýn góð í Skotlandi og Orkneyjum. Viðdvöl í Leith gaf Magnúsi og ferðafélögum hans, nokkrum strákum, einnig færi á að skoða Edinborg, sem ekki reyndist þeim aðlaðandi, „allt kolsvart af kolareyk og sér ekki neitt frá sér fyrir mistri…“ Gott var leiðið yfir Norðursjó en gutlandi er nálgaðist Skagen. „Ég var bara „askolli“ sjóveikur“, skrifaði Magnús.

Upp úr kl. 10 sunnudaginn 18. október 1953 lagðist Gullfoss svo að bryggju í Kaupmannahöfn, sem ekki heilsaði glaðlega – með þoku og rigningarsúld. Kunningjahópurinn tók inni á heldur lélegu en ódýru hóteli í Helgolandsgade og leit þegar á borgarlífið, fór m.a. á Røde Pipinellen, „drukkum þar bjór og dönsuðum og fórum heim kl. 1.“ Nýhöfnina litu þeir á daginn eftir, „fórum þaðan eiginlega strax aftur, en nóg var þar af vændiskonum og rónum…“

Gullfoss var helsti farkosturinn á milli Íslands, Bretlandseyja og Danmerkur um miðbik síðustu aldar, og með honum tók Magnús sér fari báðar leiðir vegna Danmerkurdvalar sinnar. Hér lætur Gullfoss úr erlendri höfn sumarið 1957. Ljósmynd Sigurhans Vignir. Ljósm.safn Reykjavíkur.

Nú, nú. Magnús dreif sig með lest til áfangastaðar síns þegar þann 20. október – til Askov, svo sem um hafði verið samið. Hann hóf strax þátttöku í fjölbreyttum verkum á tilraunastöðinni sem og búrekstri hennar. Þar voru stundaðar umfangsmiklar jarðræktartilraunir, meðal annars með áburð og afbrigði nytjajurta, fyrst og fremst rófur. Aðbúnaður Magnúsar var frumstæður, í

167

köldu herbergi uppi á lofti í gömlu húsi, ekki langt frá stalli kláranna, sem stundum héldu fyrir honum vöku með brölti sínu. Brátt fékk hann þó vistlegra herbergi. Ýmislegt kom honum nýtt fyrir sjónir svo sem nefna má dæmi um:

Það er bezt að lýsa mataræðinu hér á Askov en maturinn hér er afar góður. Á morgnana er étið haframjöl með sultutaui og sykri út á eða hafragrautur, svo er kaffi eða te og brauð með osti og jarðarberjasultu. Þetta er kl. 6.45-7. Síðan er byrjað að vinna og unnið til kl. 12, en þá er miðdegisverður. Hann er tvíréttaður, grautur eða súpa og svo eitthvað annað. Stundum er eintómt kálmeti og það líkar mér einna verst en svo er oftast annað hvort fiskur eða kjöt. Kvöldverður er kl. 6.15, þá kemur fyrst heitur réttur og svo ´smörrebrød´ og te, mjólk eða súrmjólk. Ofanálegg er aldrei minna en 4-8 tegundir. Stundum er svo kvöldkaffi. (29.10.)

Í kvöld voru öll áhöld tekin og allt burstað og þvegið, eins og gert er á hverju kvöldi. Skóflur eru sprautaðar og borin á þær olía á eftir. (24.10.)

…síðasti klukkutíminn fór í venjulega laugardagshreingerningu, meðal annars vorum við látnir sópa veginn hingað heim. Ég er viss um að ef einhver bóndi á Íslandi léti sópa svona að hann væri álitinn hættulegur umhverfinu og sendur á Klepp.

… eftir hádegið fór ég á námskeið sem að búnaðarfélögin halda fyrir unga menn frá 15-25 ára. Ráðunauturinn notar bæklinga, kvikmyndir og venjulegar skuggamyndir við kennsluna og svo gerði hann kalk-´regastion´ [svo] fyrir nemendur. Námskeið þetta á að standa í 12 laugardaga og vera 3 klst í hvert sinn. Á námskeiðinu talar hann aðeins um nytjaplönturnar og jarðvinnslu. Svona starfsemi þyrfti líka að vera heima. (5.12.)

Í kvöld fór ég á skemmtun hjá Stjörnuklúbbnum og gerðist meðlimur í honum, þetta er víst fyllerís og kvennafarsfélag, svoleiðis var ballið, en þarna spiluðu og skemmtu 5 sænskar stúlkur og voru þær fjörugar og gaman að þeim… (6.12.)

Eiginlega finnst mér Danirnir fara öllu verr með dýr en við heima, þeir hugsa fyrst og síðast um hvað borgar sig. (27.12.). … Annars finnst mér Danmörk allsstaðar vera eins, hæðir, búgarðar og skjólbelti. (18.4.)

Af dagbók Magnúsar má ráða að á Askov hafi hann tekið þátt í afar fjölbreyttu tilraunastarfi og kynnst vinnubrögðum við jarðræktartilraunir til nokkurs hlítar, vinnubrögðum sem virðast hafa verið í afar öguðu formi. Þá vann hann um stund á rannsóknastofu stöðvarinnar, meðal annars við þurrefnismælingar sem og mælingar á köfnunarefni (N) í gróðursýnum. Af nákvæmni skráði hann margt sem fyrir bar í tilraunastarfinu, ýmist með orðum eða einföldum teikningum af verkfærum og áhöldum. En svo var það við köfnunarefnis-mælingar á efnarannsóknastofunni sem Magnús varð fyrir all alvarlegu slysi: Mælikolba með natríumlút sprakk í höndum hans, „slæmir skurðir komu í hendina á mér og það skarst í sundur sinin að löngutöng og hálf sinin að baugfingri“. Kostaði það Magnús tíu daga dvöl á sjúkrahúsi og

168

uppskurð á hendinni um vorið 1954. Varð var hann af þessum sökum frá vinnu um nokkurra vikna skeið.

Myndina tók Magnús sennilega í Jótlandsferð Framhaldsdeildunganna; hún er af þremur Danmerkurförum, f.v. Sigurmundi, Sveini og Gísla. Þarna eru þeir líklega nálægt

Himmelbjerget megi marka gerð göngustafanna. Skv. dagbók Magnúsar mun hann snemma hafa eignast myndavél og notað mikið og skipulega.

Magnús getur tveggja ferðalaga um Danmörku sumarið 1954. Annars vegar með Guðmundi skólastjóra og nemendum Framhaldsdeildarinnar, þ.e.a.s. hópsins sem myndaði næstu framhaldsdeild á eftir hópi Magnúsar, er í voru Sveinn Guðmundsson, Einar Eylert Gíslason, Kjartan Georgsson, Gísli Einarsson og Sigurmundur Guðbjörnsson. Stóð sú ferð dagana 29. júní til 7. júlí og voru merkir staðir heimsóttir, einkum landbúnaðarstofnanir. Var Magnús fararstjóri þeirra um Jótland. Hins vegar var það í vikuferð upp úr miðjum júlí sem Magnús heimsótti tilraunastöðvar á Jótlandi og einnig á Fjóni og kynnti sér verkefni þeirra og aðstöðu. Askov-menn höfðu skipulagt honum ferðina, sem sýnilega varð Magnúsi áhrifamikil. Færir hann margt í dagbók sína er þar bar fyrir augu.

Af lestri dagbókarinnar má glöggt greina að með dvölinni á Askov hefur Magnús orðið sér úti um mjög víðtæka og hagnýta þekkingu á og reynslu af jarðræktarrannsóknum á tilraunastöð sem hafði af miklu að miðla. Jafnframt virðist hann hafa tekið virkan þátt í lífi og starfi þar í byggðinni með lýðháskólann víðkunna í næstu grennd.

NUMIÐ OG LIFAÐ Í KAUPMANNAHÖFN

Í ágústlok 1954 hélt Magnús til Kaupmannahafnar og innritaðist til náms í Landbúnaðarháskólann þar (KVL) sem óreglulegur nemandi. Hann tók á leigu herbergi á 5. hæð í húsi nr. 74 við Nørrebrogade, en hafði fæði á Kannibalen, hinu þekkta mötuneyti stúdenta. Iðulega naut hann þó veitinga hjá leigusölum sínum, þótt honum félli miður vel við frúna þar, frú Hougaard, en látum það liggja á milli hluta. Hann var þó ekki alveg laus frá Askov því þangað var hann kallaður til uppskerustarfa við tilraunir um nokkurra daga skeið í öndverðum sepember þá um haustið.

Magnús virðist hafa gengið til fyrirlestra í ýmsum greinum við KVL. Áburðarfræðin var kjörgrein hans og uppáhald, en þar sat á tróni próf. Steenbjerg, sem hann hafði regluleg samskipti við. Hjá honum gekk Magnús upp til prófs 22. apríl 1955: „Ég fékk kölkun og uppskerulínurit, var bullandi „nervös“ , fékk líklega mg÷“. Virðist það hafa verið eina prófið sem Magnús tók við KVL. Hins vegar sótti hann kennslustundir í ýmsum öðrum greinum,

169

bæði fyrirlestra og verklega tíma, svo sem í efnafræði, plöntulífeðlisfræði, grasafræði, tilraunafræði og jafnvel fóðurfræði. Meðal annars náði hann að kynnast próf. Møllgaard, fóðurfræðingnum sem leiðandi var í greininni um þær mundir, skemmtilegum fyrirlesara en afar harðneskjulegum við nemendur sína. Ekki virðist Magnús hafa kynnst mörgum dönskum samnemendum sínum, en fór þó stuttar námsferðir með þeim. Þeim mun meiri samskipti hafði hann við landa sína í Landbúnaðarháskólanum, Einar Þorsteinsson, síðar héraðsráðunaut, og Jóhannes Eiríksson, síðar nautgriparæktarráðunaut, sem og Jón Guðbrandsson verðandi dýralækni. Þorsteinn Þorsteinsson lífefnafræðingur frá Húsafelli, sem þá var við nám í Kaupmannahafnarháskóla, var einnig innarlega í „omgangskreds“ Magnúsar.

Magnús fylgdist sýnilega vel með í fræðastarfi utan háskólans því hann getur m.a. þátttöku sinnar í fagfundum jarðræktarmanna, „Planteavlsmødet“, veturinn 1955, bæði í Jótlands- og Sjálandsmótunum. Þar komu saman helstu kanónur á fræðasviðinu og kynntu rannsóknir sínar og aðrar nýjungar. Einnig á þeim fundum hafði Magnús „stillt á upptöku“ og gerir grein fyrir efnisatriðum og upplifunum sínum í dagbókinni góðu.

Fram kemur í dagbók að Magnús hefur sem fyrr verið iðinn við lesturinn. Helsta dægrastyttingin var að fara í bíó. Raunar undrar það dagbókarlesarann hve oft Magnús fór í bíó í Kaupmannahöfn, úti á Askov og einnig heima í Kópavogi. Hefur Magnús því áreiðanlega verið afar vel að sér um kvikmyndamenningu þessara tíma. Íslenska stúdentalífið í Kaupmannhöfn stundaði Magnús, en sýnilega af hófsemd, þótt oft hafi samkomurnar þar verið líflegar. Í ljósi þess að hann hefur verið einhleypur alla tíð virðist hann ekki hafa verið einangrunarsinni gagnvart kvenfólki á þessum árum; dansþátttöku sína nefnir hann iðulega og nafngreinir stúlkur sem á vegum hans urðu, auk krúsar af öli, þótt fáorður sé og hófsamur í allri frásögn sinni. Lýsir þó þungri drykkju á mörgum dönsku samkomanna og jafnvel slagsmálum.

Jólum 1954 varði Magnús í Kaupmannahöfn, rétt eins og Askov-jólum sínum árið áður. Hann naut tilbreytingar hjá leigusölum sínum, og Jóhannesi Eiríkssyni og fjölskyldu hans, sem fengið hafði hangikjöt sjóveg með Gullfossi. Varði öðrum degi jóla á Þjóðminjasafninu, skoðaði deildina um Indíána og Eskimóa: „Mér finnst Þjóðminjasafnið vera skemmtilegasta safn sem ég hefi séð á ævinni,“ skrifaði hann. Um áramótin skrapp Magnús hins vegar norður að Limafirði, hitti þar m.a. vin sinn Jens Hougård og átti góðar stundir með honum og nokkrum kunningjum sínum frá Askov.

Skömmu eftir nýárið 1955 bað UMFÍ Magnús að fara sem annan af tveimur fulltrúum Íslands á norrænt námskeið [í lýðháskólanum] á Önnestad yfir á Skáni í Svíþjóð, tveggja vikna námskeið á vegum 4H-hreyfingarinnar um starfsíþróttir, vinnufræði og verkstjórn. Þarna kynntist Magnús meðal annars dr. Birger Tvedt, norskum sérfræðingi í vinnuheilsufræði og skrifaði: „Dr Tvedt hefur afar einkennilegan máta að kenna á, hann rabbar við nemendur og gerir grín að þeim. Annars er það sem hann segir um líffærafræði afar merkilegt.“ Magnús

170

varð síðar brautryðjandi í vinnufræðikennslu hérlendis og vitnaði þá oft í fræði Tvedts, man lesarinn. Skömmu eftir heimkomuna hélt Magnús erindi um vinnutækni á þingi UMFÍ á Akureyri og síðan annað um sama efni í Búnaðarþætti Ríkisútvarpsins.

Það heyrir til sögunni um Svíþjóðarnámskeiðið að Magnús af alþekktri samviskusemi sinni kunni ekki við að stökkva frá fyrirlestrum án leyfis þó í háskóla væri, og 21. janúar færði hann til bókar:

Eftir tíma í áburðarfræði talaði ég við prófessor Steenbjerg um hvort ekki væri í lagi að ég færi til Svíþjóðar, sagði hann það vera. Hann var í bezta skapi og sagði að þegar ég yrði mikils ráðandi heima þá skyldi ég láta bjóða honum heim til að rannsaka fosfórsýruþörfina o.fl.127

Á dvalartíma Magnúsar með Dönum fór ekki mikið fyrir samskiptum hans við Ísland að því er segir í dagbók. Og þó. Hann getur bréfaskrifta, keypti dagblaðið Tímann og fékk hann í stórum sendingum, las Búnaðarblaðið Frey á bókasafni KVL, fór á blaðafundi í Stúdentafélaginu en sérstök og fágæt tilbreyting var það honum að heyra sendingar íslenska ríkisútvarpsins.

Í byrjun maí 1955 átti Guðmundur skólastjóri Jónsson leið um Kaupmannahöfn á ferð sinni til Þýzkalands og þann tíunda maí skráir Magnús: „Í kvöld fór ég að tala við Guðmund. Ég réði mig hjá honum í sumar við tilraunir og við að búa til grasafræðigarð.“ Stefnan var mörkuð. Eins og fara gerist hafði Magnús þó sýnilega verið að velta fleiri möguleikum fyrir sér því að í einu af samtölum sínum við próf. Steenbjerg fyrr um veturinn hafði prófessorinn lofað Magnúsi að hjálpa honum með vinnu í Englandi „ef að til kæmi og ég hefði ekki önnur úrræði.“ Liðlega mánuði síðar skrifaði hann: „Ég hefi þvælst mikið um í dag og skoðað húsgögn. Ég endaði með því að festa kaup á skrifborði, 2 djúpum stólum, sófaborði og sófa.“ Sýnilega hefur Magnús þá verið farinn að velta fyrir sér nokkurri staðfestu.

Maí-mánuður fór í síðustu námsgreinarnar, stutt skólaferðalag, auk þess sem Magnús skrapp út á Askov og hitti fólkið þar, m.a. Iversen tilraunastjóra (?): „Hann gerir heldur lítið úr uppskerulínuritum og efnarannsókn af jörð, sérlega kalítölunni. Hann ráðlagði mér að prufa afar stóra skammta af N, vegna þess að okkur vantar smára“, skráði Magnús í dagbók. Þarna skoðaði hann einnig ´lysemeter´sem verið var að byggja, en það er eiginlega jarðvegstankur sem gefur færi á mjög nákvæmum jarðvegsrannsóknum á vatns- og efnabúskap jarðvegs. Sem sagt að búa sig undir væntanlegt starf, auk þess sem hann brá sér dagsferð til Hróarskeldu með Einari skólabróður sínum Þorsteinssyni til að kaupa „tilraunatæki fyrir Hvanneyri fyrir tæpar 300,00 kr.“

127 Prófessor Steenbjerg kom til Íslands sumarið 1967 og að Hvanneyri. Hafði raunar áður komið til landsins laust fyrir 1940. Áreiðanlega hefur fosfórinn borið á góma Magnúsar og Steenbjergs, því þá hafði Magnús með rannsóknum sínum, byggðum á fyrstu tilraununum sem hann gerði, sýnt hve mýrarnar vestanlands halda fast á fosfór sínum og þarfnast því ríkulegs fosfór-áburðar.

171

Föstudagurinn 20. maí 1955 var síðasti skóladagurinn í KVL. Ýmsu þurfti að ljúka – fara á manntalsskrifstofuna, pósthúsið, skrifstofu háskólans, kveðja próf. Steenbjerg, sem hann fann þó ekki sjálfan, og drekka kveðjukaffi með leigusölum sínum á hæðinni undir. Árdegis, viku síðar steig Magnús svo um borð í Gulllfoss, og hafði þá með nokkurri fyrirhöfn komið öllu sínu góssi á skipsfjöl. Í blíðu veðri var Danmörk kvödd og Gullfoss tók samkvæmt áætlun sinni stefnu á Skotland. Þar var áð svo Magnúsi og ferðafélaga hans, Jens Hougård, sem áður kom við sögu, gafst kostur á að kíkja á Leith og Edinborg með næsta nágrenni, m.a. brugðu þeir sér stutta ferð upp í Hálöndin. Um borð var unað við spil og dans. Undir kvöld miðvikudaginn 1. júní reis Eyjafjallajökull úr hafi, „. . . sigldum síðan fyrir innan Vestmannaeyjar. Farþegar voru hrifnir af landsýn og ekki síst ég sjálfur.“ Árla morguns var komið til Reykjavíkur og urðu fagnaðarfundir. Magnús var kominn heim eftir nær 20 mánaða námsdvöl með Dönum.

AFTUR AÐ HVANNEYRI

Magnús gekk þegar frá ýmsum málum vegna flutningsins og sunnudaginn 5. júní 1955 hélt hann ásamt Jens upp að Hvanneyri. Þar var þeim vísað til vistar á herbergi nr. 12 í Skólahúsinu. Daginn eftir skráir Magnús: „Ég byrjaði strax í morgun að vinna. Ég setti upp svolitla athugun eftir Björn Jóhannesson [jarðvegsfræðing] með kalk, 7,5 t pr ha og svo með skeljasandi 25 t pr ha. Jens var með mér í þessu.“ Og þar með var ævistarfið hafið. Magnús fékk þegar fulla hendur verkefna. Hann lagði út tilraunir, meðal annars með vöxt grasa í mismunandi jarðvegi sem komið var fyrir í jarðgryfjum og römmum [austan við kirkjugarðinn] og hóf að taka til í rannsóknastofunni á Fjósloftinu „en Stefán [Jónsson] hefur skilið heldur illa við þar.“ Tilraun með fosfóráburð (P2O5) var sett upp, sennilega í kjölfar brýningar próf. Steenbjerg. Magnús vann að vinnumælingum með Ólafi Guðmundssyni og lagði Atvinnudeildarmönnum Háskólans lið við tilraunir þeirra með votheysverkun: „Eftir

Eitt fyrsta verk Magnúsar var að athugun á vexti grasa í mismunandi jarðvegi, sem komið var fyrir í trérömmum (-reitum). Þarna hugar Magnús að tilraun sinni sem sett var fast austan við kirkjugarðinn á Hvanneyri (ljósm. úr safni MÓ).

172

hádegið byrjaði ég að moka út úr húsinu sem að tilraunagryfjurnar eru í. Stefán Jónsson hafði þar áður kindur“, skrifaði Magnús 21. september. Haraldur staðarsmiður Sigurjónsson hjálpaði honum með lagfæringar og nýsmíði á efnarannsóknastofunni; það kom svo í hlut Magnúsar að mála hana og þrífa. Nokkuð af tækjum og búnaði var þar þegar fyrir en Magnús nefnir ´photometer´ sem nýjan feng til stofunnar þetta sumar, og líklega einnig pH-mæli. Þá hóf hann að leggja drög að grasafræðigarðinum, girti um hann og færði í hann fyrstu plöntuna þann 8. ágúst: Baldursbrá. Annars varð sumarið afskaplega vætusamt og erfitt til búverka eins og víða kemur fram í dagbók Magnúsar, óþurrkasumarið 1955. Hann greip því líka í heyskapinn þegar mest lá við, og lagði Guðmundi ráðsmanni Jóhannessyni lið við tilraunir með súgþurrkun heys með upphituðu lofti.

2. september 1955 skráir Magnús: „Í dag réði ég mig við kennslu og fleira hér í vetur“ og um miðjan október hófst kennslan samkvæmt venju. „Ég á að kenna fram að jólum stærðfræði í eldri deild, grasafræði í yngri deild og lög í framhaldsdeild“, segir hann mánudaginn 17. október. Byrjunin varð brösótt því umgangspest hafði lagt Magnús að velli; varð hann því að sleppa fyrsta kennsludegi. Fallið reyndist hins vegar fararheill því daginn eftir segir: „Ég hefi haft mínar fyrstu kennslustundir í dag og get varla sagt annað en að þeim reiddi vel af. Ég er að minnsta kosti vel ánægður með byrjunina. Mér er samt hálf illa við stærðfræðina . . .“

Auk kennslunnar virðist Magnús hafa unnið töluvert á rannsóknastofunni, meðal annars við að aðstoða Örnólf kennara Örnólfsson við undirbúning efnafræðiæfinga þar. Efnarannsóknastofan var Magnúsi nærri, því nú hafði hann fengið húsnæði til íbúðar þar á Fjósloftinu. Þá hófst hann handa við verk sem átti eftir að verða stórt og merkilegt, því 16. nóvember skrifar hann: „Eftir hádegið byrjaði ég að vinna í Frey, að safna saman ritgerðum, ég er viss um að ég verð ekki hálfnaður með Frey um jól.“ Þetta verk dugði Magnúsi og síðar öðrum starfsmönnum skólans næstu tólf árin; kom út 1967, mikið rit og vóg ein fjögur kíló [Ritgerðatal].

173

Utan vinnu tók Magnús virkan þátt í félagslífi bæði í Bændaskólanum, þar sem hann einnig sá um bókasafnið gagnvart nemendum, spilaði bridge með félögum sínum á Hvanneyri og sótti skemmtanir í sveitinni. Undir þessari málsgrein má skjóta að orðum frá laugardeginum

30. júlí 1955: „Og þau tíðindi gerðust að ekkert ball er í öllum Borgarfirði, merk nýung.“

Kyrrt var að mestu til jóla og áramóta og hátíðunum fagnaði Magnús með fjölskyldu sinni í Kópavogi. Hún var þá flutt í nýbyggt hús sitt; „. . . er það óskaplegur munur“, skrifar Magnús. Einhvern daginn eftir áramótin hélt svo Guðmundur skólastjóri „blaðamannafund á Hótel Borg og sagði frá ýmsu á Hvanneyri“, segir í dagbók. Reykjavíkurblöðin gerðu fundinum góð skil [sjá mynd].

„Ég fór upp að Hvanneyri 8 janúar [1956]. Daginn eftir var próf og um kvöldið fóru nemendur niður á Akranes og fór ég með þeim. Það var hvasst og skafrenningur svo erfitt var að fara niður á Akranes. En þegar við snérum til að halda til baka komumst við ekki heim og urðum að fara niður á Akranes og fá gistingu á hótelinu þar. Þetta gekk vel fyrir sig og fengu flestir sæmilegan svefnfrið en urðu þó að liggja á gólfinu flestir. Næsta morgun komumst við með mestu prýði heim.“ Þar eð 9. janúar bar þá upp á mánudag er líklegt að þarna hafi nemendur skólans verið kallaðir til upp- eða útskipunarstarfa á Akranesi, eins og iðulega gerðist á þeim árum, þegar mikinn mannafla þurfti til afmarkaðra verka, bæði þar og í Borgarnesi.

Eftir áramótin þyngdi á með kennslu hjá Magnúsi því nú var kollegi hans, Haukur Jörundarson, farinn í námsleyfi til USA. Á Magnús bættist kennsla í tilraunafræði, teikningu og síðan vinnutækni í eldri deild, ein kennslustund á viku, en sú grein var þá nýung í búfræðináminu og sennilega í framhalds- og iðnskólum hérlendis yfirleitt. „Ég hefi fyrsta tímann alla daga í framhaldsdeild“ skrifaði Magnús, en alls virðist hann hafa kennt 16 tíma á viku, auk verklegra æfingatíma, á seinni helmingi þessa fyrsta kennsluvetrar síns, 1956.

Er leið á janúar-mánuð urðu dagbókarfærslurnar strjálari, Magnús dregur gjarnan saman viku tíma í skrifum sínum, sennilega hafa annirnar verið orðnar nokkrar og tilbreytingin að sama skapi minni enda segir hann í síðustu færslunni, sem er fyrir sunnudaginn 29. jan. til laugardagsins 4. febr.: „Kennslan gekk sinn vana gang, og er ekkert sérstakt um það að segja.“ Dagbókinni lýkur hins vegar þannig: „Á laugardaginn fór ég á þorrablót, var ég með dömu, Ídu Sigurðard. Það er óhætt að segja að skemmtunin fór vel fram.“128

FYRSTU STARFSÁRIN – STÖRFIN MÓTAST

Þótt Magnús Óskarsson legði dagbókarfærslur um eigin hag til hliðar í febrúar 1956 tók hann hins vegar til við að færa dagbók fyrir jarðræktartilraunirnar á Hvanneyri. Sú bók hefur einnig varðveizt og nær yfir tímabilið 25. apríl 1956 til 7. maí 1960, á köflum samfelld en með löngum hléum, einkum utan sumartímans svo sem vænta mátti. Lesarinn stöðvaðist

128 Ída var Sigurðardóttir, Gíslasonar, áður bónda á Hamraendum í Stafholtstungum. Ída mun þá hafa verið starfsstúlka á Hvanneyri. Hún giftist árið 1959 Jóni Þ. Björnssyni, kennara og skólastjóra, lengst af í Borgarnesi, látin 2019.

174

við nokkra þætti sem greiða má út úr dagbókarfærslum Magnúsar sem flestar eru stuttar og nánast í skeytastíl.

Vorið 1956 var hafist handa við að brjóta nýræktarland og undirbúa sem sérstaklega var ætlað til tilrauna. Magnúsi til aðstoðar voru ýmsir, einkum úr hópi nemenda og starfsmanna Hvanneyrarbúsins. Ýmsar tilraunir voru „lagðar út“, mest tilraunir með mismunandi áburðarskammta. Þarna eru að mótast nöfn tilraunaspildnanna, A-land, B-land og C-land; nöfnin minna á svipað kerfi sem Magnús nefndi í dagbókum sínum frá Askov. Tilraunir með afbrigði byggs, kartaflna, sáðskipti, svo og fóðurkál komu á dagskrá sem og hör (lín) en þær munu hafa verið verkefni Steinþórs Runólfssonar nemanda í Framhaldsdeild.

Tilraunasláttur á nýræktum við Bárustaðavatn á Hvanneyri sumarið 1964. Myndina tók Ólafur Guðmundsson.

Flestar voru tilraunirnar gerðar úti á nýræktum Hvanneyrartúns. Vorið 1960 fékk Bændaskólinn Mitcherlichræktunarpotta til nákvæmnisrannsókna á efnahag nytjajurta, potta sem settir voru niður í skólagarðinum. Þá komu til dreifðar tilraunir – tilraunir á bæjum í héraði. Á dagskrá voru einnig tilraunir með ýmis eyðingarlyf sem á boðstólum voru á þessum árum, t.d. gagnvart illgresi og kartöflumyglu. Magnús umgekkst þau þá þegar af mikilli varúð en varð síðan fráhverfur þeim með öllu.129

Vorið 1957 var mælt fyrir skjólbeltunum, og 14. júní skrifaði Magnús: „Einnig var gróðursett í skjólbeltin, kom maður frá skógræktinni til að stjórna því verki (Guðmundur Jónsson [garðyrkjumaður á Akranesi ? – Guðmundur-Garða]).“ Með sínu fólki var það síðan hlutverk Magnúsar að bæta plöntum í skörðin sem urðu til vegna vetrarkals næstu árin.

Magnús átti þátt í að koma upp steyptum tilraunagryfjum fyrir vothey og lagði jafnan Atvinnudeildarmönnum lið við verkun heys í þeim. Gryfjurnar voru í skála undir klettinum norðan við Fjóshlöðuna.

Svo kom að því að Magnúsi gáfust aðstoðarmenn við tilraunastörfin um lengri eða skemmri tíma sumars, bæði til útiverka sem og til vinnu á rannsóknastofunni. Hvað fyrstur var þar Magnús Ellertsson búfræðikandídat, „sem mun hjálpa mér í tilraununum í sumar“ skrifaði Magnús

129

Sagan segir að gestir hafi verið á Hvanneyri þar sem Magnús kom utan af tilraunalöndum með illgresisdælu sína, klæddur varnarbúning gagnvart eyðingarefnunum, í stóru rauðbotna tilraunastjórastígvélunum, í miklum hlífðarklæðnaði og með veglega grímu auk stórrar húfu. Gestir munu hafa undrast búnað mannsins. Nálægur heimakúskur á þá að hafa hughreyst þá með orðunum. „Iss, hann er ekkert hættulegur þessi, hann er bara svona.“

175

vorið 1958, en einnig þær Hildur Guðmundsdóttir og Hanna Frímannsdóttir. Vorið 1959 kom nýr og vandaður þurrkskápur á rannsóknastofuna, sem auðveldaði þurrefnismælingar á sýnum sem urðu æ fleiri eftir því sem tilrunastarfseminni óx fiskur um hrygg.

Allvíða getur Magnús samstarfs við Ólaf Guðmundsson framkvæmdastjóra Verkfæranefndar og 4. júlí 1958 segir: „Eftir hádegið komu Davíð Davíðsson prófessor og Guðm. Arnlaugsson frá Vísindasjóði vegna umsóknar okkar Þorsteins um styrk.“ Þorsteinn Þorsteinsson lífefnafræðingur frá Húsafelli var þá nýráðinn til skólans og var þarna að mótast mjög farsælt starf þeirra Magnúsar einkum á sviði steinefnafræða gróðurs og búfjár sem og beinaveiki í kúm – rannsókna sem bættu við mikilli þekkingu um áburð á túngrös og fóðrun mjólkurkúa hvað steinefni snerti. Þorsteinn tók við rekstri efnarannsóknastofunnar. Satt að segja mun það hafa verið fátt sem þeir félagarnir ekki tóku sér fyrir hendur, sbr. færslu 3. september 1958:

Suð-austanátt, hægviðri og hiti. Ég sló 17-56A og 13-56B, tók jarðvegssýni og leitaði að jarðhita með Þorsteini í Báreksstaðavatni og víðar.

Samkvæmt tilraunanúmerunum virðist fjöldi tilraunaverkefna, sem hófust á árinu 1956, hafa verið kominn upp í a.m.k. sautján. Segir það nokkuð um verkefni og virkni Magnúsar sem tilraunastjóra. Dagbókin, þótt slitrótt sé, gefur til kynna að jarðræktarverkefnin sem tekin voru fyrir, voru afar fjölbreytt að efni. Má líta á fjölbreytni sem dæmi um þá miklu gerjun er var á umræddu árabili í flestu er snerti nýrækt og jarðyrkju. Verkefnin, sem Magnús hóf fyrsta sumar sitt á Hvanneyri, grasafræðigarðurinn og ræktun í mismundandi jarðvegi, að hluta sýnisreitir, virðast hins vegar brátt hafa lagst til hliðar því þeirra er lítt og ekki getið í dagbókinni.

Magnús Óskarsson (t.h.) og Þorsteinn Þorsteinsson, staddir í Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri 1. september 2015. Samstarf þeirra á Hvanneyri varð bæði farsælt og árangursríkt. Þeir efldu kennslu og rannsóknastarf Bændaskólans til mikill muna. (BG)

176

Er leið á tímabil dagbókarinnar sést að nokkra sumardaga hefur Magnús notað til uppgjörs tilrauna, auk þess sem jafnaðarlega er getið þátttöku í kennslu og öðrum verkum við framhaldsdeildina. Örfárra sumarleyfisdaga getur Magnús en er að öðru leyti fámáll um eigin hagi enda var dagbókin miðuð við jarðræktartilraunirnar og tíðindi af þeim.

EFTIRMÁLI

Hér hefur verið hámað yfir lífshlaup Magnúsar Óskarssonar um áratugs skeið – frá upphafi framhaldsskólanáms hans til þess að hann, að loknu sérfræðinámi, hefur mótað sér það starf er hann síðan stundaði allan embættisferil sinn – sem kennari og tilraunastjóri við Bændaskólann á Hvanneyri nokkuð sem skapar honum athyglisverða sérstöðu meðal starfsmanna Hvanneyrarskóla. Þetta varð dálítil einsaga, byggð á misrækilegum dagbókarfærslum hans. Mörgu og merkilegu úr dagbókunum er sleppt. Einnig er að mestu látið vera að spá í orð dagbókarinnar ellegar lesa á milli lína hennar; Magnús gefur að vísu sárafá efni til þess, svo málefnalegur sem hann er í skrifum sínum. Frumheimildin, dagbækurnar, fær vonandi geymslu á verðugum stað.

Dagbækur Magnúsar spanna þann hluta æviskeiðs æskumanns sem leiðir frá nýlega mótaðri lífsstefnu til fyrstu ára einstaklega farsæls ævistarfs. Lesaranum hefur þótt býsna gaman að sjá hin ýmsu lífsstef Magnúsar stíga þar fram og mótast eins og í forleik tónverks, stef sem síðan vefja sig áfram eftir því sem tónverkinu vindur fram. Það er ekki öllum gefið að færa slíka dagbók, og enn síður að skapa sér þann lífsstíl og –feril sem varð tilefni hennar.130

130 Lokið fyrsta vetrardag 2019; lagfært á góu 2020.

177

V. kafli

Ungmennafélagið Íslendingur –undan þaki Bændaskólans

178
Ef til vill finnst þér að þessi kafli framandi á þessum stað. Bíddu samt dálitla stund: Á milli Ungmennafélagsins Íslendingur og Bændaskólans á Hvanneyri eru nánari bönd en ætla mætti. Hér segir m.a. af þeim.

INNGANGUR – AÐDRAGANDI

Í dag fögnum við því að 100 ár eru liðin frá því Ungmennafélagið Íslendingur var stofnað. Ég ætla að greina hér í fáum orðum frá sögu félagsins. Mér nægir annars að vísa til afmælisrits félagsins – Ungmennastarf um aldarskeið – sem kom út í dag. Þar eru helstu atburðir og afrek í sögu félagsins rakin í máli og myndum. Líka í minningaþáttum nokkurra ungmennafélaga sem lögðu mér lið með skrifum sínum:

Ungmennafélagið Íslendingur varð til þegar áhrifa heimastjórnar var farið að gæta í nokkrum mæli. Ungmennafélagshreyfingin var raunar mikilvægur gerandi í þeim miklu hræringum sem einkenndu fyrstu ár 20. aldarinnar.

Hreyfingin þótti víst nokkuð róttæk á upphafsárum sínum. Þannig sagði einn af stofnendum Íslendings, hún Svava Þórhallsdóttir, biskupsdóttir úr Laufási í Reykjavík og skólastjórafrú hér á Hvanneyri, sem tekið hafði virkan þátt í starfi Ungmennafélags Reykjavíkur:

Þegar Ungmennafélagsskapurinn var að byrja 1907 og 1908, þá var það heldur á móti venjum í Reykjavík að fara í félagsskap með ungu fólki, sem maður þekkti ekki og frá heimilum, sem ekki voru kunn manns eigin foreldrum. En þessu breyttu Ungmennafélögin. Í fyrstu var ekki vitað, hver áhrif þetta hefði, og mættu félögin nokkurri mótspyrnu.131

Ungmennafélagið Íslendingur braut líka í bág við strauminn. Það mun m.a. hafa fengið á sig orð fyrir að draga úr kirkjusókn hér í sveit. Það leiddi til þess að félagið vildi gjöra iðran. Það gekkst því fyrir söfnun fjár til kaupa á altarismynd í Hvanneyrarkirkju. Ef til vill var það kitlandi að eiga samneyti við framandi jafnaldra af báðum kynjum á vettvangi ungmennafélaganna, bæði til baráttu fyrir spennandi verkefnum en líka til þess að skemmta sér við íþróttir, dans, söng og hvers kyns félagsmálastarf í þágu lýðs og lands.

STOFNUN UNGMENNAFÉLAGSINS

Ungmennafélagið Íslendingur varð til hér á Hvanneyri. Ástæðurnar fyrir því virðast einkum hafa verið tvennar: Fyrst sú að Hvanneyrarskólinn var áfangastaður fjölda ungs fólks: nemenda, kennara og starfsfólks, sem hafði kynnst ungmennafélagshreyfingunni í öðrum sveitum: í Reykjavík, austur í Flóa, vestur í Dýrafirði og hér í Borgarfirði, en líka fólks sem orðið hafði fyrir áhrifum ungmenna- og lýðháskólahreyfingarinnar á Norðurlöndum, einkum þó í Danmörku.

131 Svava Þórhallsdóttir: Móðir mín (1949), 101-102.

179

Hin ástæðan var sú deigla sem Hvanneyrarskólinn var á þessum árum: Endurskipulagður í anda nýrrar aldar og nýrra hugmynda, öðru frekar með það í huga að móta nýja stétt manna til þess að taka ábyrgð á framkvæmd nýfenginnar heimastjórnar. Að skólanum voru komnir ungir menn til stjórnar og kennslu, menn sem kynnst höfðu norrænum félagsmálahreyfingum og voru tilbúnir að vinna Íslandi allt.

Hér á Hvanneyri hafði því orðið til einstakur gróðurreitur félagsstarfs, sem tók fljótt og vel undir hugmynd Vigfúsar Guðmundssonar, er þá var nemandi hér á Hvanneyri en síðar landsþekktur veitingamaður, um að stofna ungmennafélag. Þjálfað félagsmálafólk var kallað til undirbúnings félagsstofnuninni. Lög voru samþykkt. Í 3. grein laganna var ákvæði er markaði nokkra sérstöðu félagsins. Þar sagði m.a.: Tilgangi sínum hugsar félagið sér að ná með því að halda fundi, þar sem aðallega verða rædd ungmennafélagsmál og félagar sem eru frá ýmsum ungmennafélögum út um land skýri frá starfsemi og fyrirkomulagi sinna félaga

Félagið hlaut nafnið Íslendingur, og skyldi starfssvæðið vera Andakíls- og Skorradalshreppar. Félaginu var kosin fyrsta stjórnin. Hana skipuðu þau

Páll Zóphoníasson, kennari, sem varð formaður Svava Þórhallsdóttir, skólastjórafrú, ritari og Einar Jónsson, kennari og ráðsmaður á Hvanneyri, sem kosinn var gjaldkeri.

Stjórnarmenn Ungmennafélagsins og varamenn þeirra voru ýmist starfsmenn Hvanneyrarskóla eða nemendur hans. Það var ekki tilviljun að félagið skyldi stofnað 12. desember, né heldur að það fengi nafnið Íslendingur: Þennan dag árið 1911 voru einmitt liðin 200 ár frá fæðingu Skúla Magnússonar fógeta. Dagurinn var valinn sérstaklega, eða eins og segir í fyrstu árskýrslu stjórnarinnar:

Það þótti eiga vel við að stofna þá félag, sem hlúði að því er honum var kærast, hlúði að því sem þjóðlegt var og þarflegt og öllu því, er göfgar og bætir manninn.

Sakir hinna nánu tengsla Ungmennafélagsins við Hvanneyrarskóla hlaut það marga þjálfaða liðsmenn úr ungmennafélögum úti um land, sem þá þegar voru starfandi, og, eins og þegar er nefnt, áttu þeir hvað mestan þátt í stofnun félagsins.

Hitt var ekki síður mikilvægt, að fjölmargir Hvanneyringar kynntust þarna ungmennafélagshreyfingunni af eigin raun og hlutu þjálfun, sem nýttist þeim í félagsmálastarfi, þegar heim kom. Ef til vill má því segja að Ungmennafélagið Íslendingur hafi verið einn fyrsti vísirinn að Félagsmálaskóla UMFÍ.

UNGMENNAFÉLAGIÐ SEM FORM OG ÞÁTTUR Í FRAMVINDU BYGGÐARINNAR

Og svo hóf Ungmennafélagið Íslendingur starf sitt. Um margt bar það blæ verkefna annarra ungmennafélaga, sem þó var lagað að aðstæðum í sveitinni. Félagsfundir voru bæði fjölsóttir

180

og tíðir framan af, enda þeir kærkomin tilbreyting unga fólkinu, sem naut þess að koma saman, hitta jafnaldra og deila með þeim stundum frá erfiði daganna. Ekkert var félagshúsið. Fundir voru því haldnir utandyra, í tjaldi ellegar þá undir þaki Bændaskólans, en í nyrðri stofu Gamla skólahússins hér á Hvanneyri – Yngri-deildar-stofunni – var félagið stofnað. Skólahúsið var þá splunkunýtt – eitt glæsilegasta skólahúsið á landinu um þær mundir.

Þegar á fyrsta starfsári varð sund mikilvæg íþróttagrein Ungmennafélagsins. Hefur svo verið allar götur síðan. Til var gömul torfsundlaug við Efri-Hrepp, sem ungmennafélagar endurbættu í sjálfboðavinnu. En líka var synt í Hvanneyrarstokknum hér við Fitina, í Vatnshamravatni, að ógleymdri sjálfri Hvítá, þar sem héraðsmótin fóru fram.

Minningaspjald fyrir Ungmennafélagið fertugt, málað af Birni Sigurbjörnssyni, þá nemanda á Hvanneyri, en síðar forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, ráðuneytisstjóra o.fl.

En laust fyrir 1930 lagði Ungmennafélagið í stórátak til eflingar sundaðstöðu, sem var bygging sundlaugar við Efri-Hrepp. Ég veit ekki hvort við gerum okkur í dag nokkra grein fyrir því hversu risavaxið verkefni þetta var fátæku Ungmennafélagi. Verkið hvíldi ekki á herðum margra. En það tókst að koma lauginni upp. Hún varð þó ekki sú efling félagsstarfsins sem menn höfðu vænst. Félagið gekk eiginlega fram af sér, og ekki bætti Kreppan alræmda, er reið yfir rétt í þann mund sem sundlaugin stóð nothæf. Íslendingur lagðist í dvala um tíma.

En dugmiklir menn gættu glóðarinnar og reistu félagið við að nýju. Sundlaugin varð, er frá leið, miðpunktur félagsstarfsins í mörgu tilliti, og hefur verið allt til þessa dags. Hún hefur kallað á mikið starf félagsmanna en líka skilað miklu í öflugu sundfólki félagsins og í þúsundum ánægðra sundlaugargesta hvert sumar.

Fljótlega gekkst Íslendingur fyrir eflingu andans með því að létta félagsmönnum og öðrum aðgang að bókum og öðru lesefni. Raunar hafði félagið forystu um bókasafnsmál byggðarlagsins allt til efstu ára síðustu aldar að sveitarfélagið tók við þeim. Lengi átti Ungmennafélagið draum um félagshús. Hugmyndin var að reisa það á bletti sem Fossabændur gáfu félaginu árið 1916 við Andakílsárfossa. Hann var ræktaður og skógarplöntum víða að úr Borgarfirði plantað í hann. Húsdrauminn átti félagið lengi. Ræddi hann mikið. Hann varð hins vegar að engu þegar kom að virkjun fossafallsins árið 1947 og Andakílsárvirkjun leitaði eftir kaupum á blettinum. Með trega var fallist á að þiggja nokkrar bætur fyrir hann, sem Ungmennafélagið gat m.a. nýtt til þess að bæta aðstöðu sína við Hreppslaug.

181

Þar reis félagshúsið, líka fyrir fjármuni sem Ungmennafélagið aflaði með ýmsum samkomum, m.a. þátttöku í hinum frægu Húsafellsmótum Ungmennasambands Borgarfjarðar.

Elstu þekktu dæmi um leikstarf hér á sveit eru frá byrjun síðustu aldar og þá hér á Hvanneyri. En á vegum Ungmennafélagsins kom leikstarfið fyrst til sögu á fimmta áratugnum. Um miðjan áttunda áratuginn varð leikstarfið svo að föstum lið á vettvangi félagsins. Hefur svo verið samfellt nú um 35 ára skeið. Mikill fjöldi félagsmanna hefur komið að leikstarfinu og lagt fram umtalsverða vinnu. Leikstarfið hefur einkennst af metnaði, notið mikilla vinsælda og borið hróður Ungmennafélagsins víða.

Árið 1967 urðu eiginlega straumhvörf í starfi Ungmennafélagsins. Með Jónsmessuhátíð, sem þá var haldin á Mannamótsflöt, var blásið til nýrrar sóknar. Starfið var eflt til stórra muna m.a. með því að sinna félagsþörfum barna og unglinga á félagssvæðinu. Stofnuð var ungmennadeildin Æskan. Starf hennar skilaði mörgum ungmennum inn í raðir Ungmennafélagsins, ungmennum, sem hafa átt þátt í að bera starf félagsins áfram með þróttmiklum hætti. Á þessu sviði var Íslendingur eiginlega í fararbroddi ungmennafélaga. Starf Æskunnar varð burðarás félagsstarfs unga fólksins þar til fast form komst á grunnskóla byggðarlagsins, sem þá tók að miklu leyti við hinum félagslega þætti.

Þótt sundið hafi eiginlega verið íþrótt Íslendings um áratuga skeið hafa aðrar íþróttir ekki setið á haka. Þótt árasveiflur hafi orðið í ástundun og árangri hefur fjöldi félagsmanna getið sér gott orð á sviði frjálsra íþrótta sem og hópíþrótta. Þannig hefur félagið eignast nokkra meistara á Landsmótum UMFÍ og íþróttamenn félagsins hafa keppt fyrir Íslands hönd á fjölþjóðamótum. Vart er á marga hallað þótt minnt sé á eiginlega gullöld Íslendings á sviði frjálsra íþrótta um miðja síðustu öld: Félagsstarfið stóð þá með blóma og Ungmennafélagið var nær ósigrandi á íþróttamótum í héraðinu.

Nefna má hlut Íslendings að eflingu og viðhaldi þjóðdansa. Félagið tók þá upp á fyrstu árum sínum og hefur rækt þá meira og minna síðan, eiginlega allt til þessa dags. Nemendur Hvanneyrarskóla kynntust þeim á vettvangi Ungmennafélagsins á fyrstu starfsárum þess. Grun hef ég um að einhverjir Hvanneyringar a.m.k. hafi borið þá með sér heim í héruð, og þannig átt hlut að því að útbreiða áhugann fyrir þeim.

Ónefndur er þá urmull annarra verkefna, og í engu ómerkari, sem Ungmennafélagið Íslendingur hefur unnið að á 100 ára ferli sínum. Tíminn leyfir ekki upptalningu þeirra allra. Margra er getið í hinu nýútkomna afmælisriti. Önnur eru bréfuð í miklu gagnasafni félagsins, eða hafa bara geymst í minningu þeirra fjölmörgu sem á hverjum tíma hafa tekið þátt í starfi Ungmennafélagsins.

UNGMENNAFÉLAGIÐ – SAMTÍÐ OG FRAMTÍÐ

Margt ræður framvindu eins ungmennafélags: Einstaklingarnir, sem það mynda, og það hvernig þeir ná að stilla saman vilja sinn, áhugamál og starfskrafta. Umhverfið ræður einnig

182

miklu, bæði á félagssvæðinu sem og á héraðs- og landsvísu: Það er bæði þegið og gefið. Þetta sýnir félagssaga Íslendings.

Greiningu á því hvernig umhverfið hefur mótað starf Ungmennafélagsins læt ég liggja á milli hluta, þótt engu ómerkara sé. Þar má nefna samskiptin við Ungmennasamband Borgarfjarðar, Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands og fleiri skylda aðila, að ógleymdum sveitarstjórnunum.

Í byggðum Andakíls, Skorradals og Bæjarsveitar hefur Ungmennafélagið í 100 ár verið misáberandi áhald og vettvangur þarfra og góðra verka. Það hefur svo sem ekki gert harðar kröfur til félagsmanna sinna eða annarra, en höfðað þeim mun sterkar til áhuga þeirra og þegnskyldu. Og einmitt þess vegna er það enn til. Ungmennafélagið er ekkert annað en fólkið sjálft – Við.

Á eitt hundrað ára skeiði hefur starf Ungmennafélagsins breyst gríðarlega, enda aðstæður, viðhorf og raunar menning þjóðar orðin allt önnur en var við stofnun félagsins. Ég geri ekki tilraun til þess að meta breytingarnar. Þær endurspeglast hins vegar glöggt í köflum afmælisritsins og þá ekki síður í skrifum félaga okkar sem í ritinu rifja upp minningar sínar.

En við sjáum líka það sem ekki hefur breyst: Það er hinn mannlegi þáttur, er snýst um þörfina fyrir samneyti í starfi og leik, samneyti til þess að leggja góðum málum lið, bæta sjálfan sig og umhverfi sitt, og njóta stundanna. Hver að hætti sinnar tíðar. Íslandi þó alltaf allt! Vonandi breytist sá þáttur ekki í veltingi veraldarinnar næstu hundrað árin hið minnsta.

Ég þakka ykkur áheyrnina – og óska Ungmennafélaginu til hamingju með aldarafmælið.132

132 Söguþáttur fluttur á aldarafmælisfagnaði Ungmennafélagsins Íslendingur að Hvanneyri 11. desember 2011.

183

Articles inside

Við minningamark á Mylluhóli

6min
pages 159-161

við lesum eins og flóðhestar í flagi“

42min
pages 162-184

Fyrsti íslenski búvísindakennarinn

7min
pages 155-158

Hann gladdi með tónlist sinni

4min
pages 152-154

Farsæll brautryðjandi

4min
pages 149-151

Af berangri í Bútæknihús

10min
pages 142-148

Álagabruni á Hvanneyri?

13min
pages 135-141

Refabúið á Hvanneyri 1937-1949

18min
pages 125-134

Komist frá krít og blýanti

17min
pages 115-122

Veðurathuganir á Hvanneyri

4min
pages 112-114

Ræðustóllinn hans Ríkarðs

1min
pages 123-124

Kolbur og hvítir sloppar

19min
pages 103-111

Kistuhöfði

5min
pages 100-102

Hvítársiglingar – Hvanneyrarlending

6min
pages 96-99

Hvanneyrarmjólk

18min
pages 87-95

Minjar í fornum búlöndum Hvanneyrarkirkju

14min
pages 65-72

Beðasléttur

3min
pages 78-79

Örnefni í Hvanneyrartúni og tilurð þeirra

10min
pages 80-86

Kista – fornbýli og fleira við Andakílsá

9min
pages 73-77

Skemman

18min
pages 49-58

Nátthagi og kvíar

9min
pages 59-64

Byggingin“ – gripahúsin í Þórulág

4min
pages 46-48

Gömlu fjósin – Tímamótabyggingar

6min
pages 42-45

Skólastjórahúsið

10min
pages 19-24

Grasgarðurinn

14min
pages 25-30

Þar sem englajurtin vex

4min
pages 5-8

Altarismyndin í Hvanneyrarkirkju

9min
pages 37-41

Leikfimisalurinn

10min
pages 31-36

Frá bújörð til búnaðarháskóla

13min
pages 9-16

Gamla skólahúsið

3min
pages 17-18
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.