10 minute read

Skólastjórahúsið

Uppdráttur Einars I. Erlendssonar og „úniversið“ á Hvanneyri

Aðfaranótt 30. október 1917 brann íbúðarhúsið á Hvanneyri til kaldra kola. Eldurinn kom upp í kjallara hússin, sennilega í móstíu. Mikið tjón varð á eignum og munum skóla og einstaklinga sem í húsinu bjuggu. Það tókst, þrátt fyrir mikla röskun, að halda skólastarfinu áfram.5 Atburðurinn gekk mjög nærri skólastjóra og fólki hans, og ekki bætti úr skák að í hönd fór harður vetur og erfiður.6

Advertisement

Brátt var undinn bugur að því að reisa nýtt hús. Halldóri skólastjóra Vilhjálmssyni var að vonum í mun að koma skólanum aftur fyrir vind og hafði þegar samband við Stjórnarráðið um byggingu nýs húss. Framvindu húsbyggingarmálsins hefur verið lýst á öðrum stað.7

Hér verður saga Skólastjórahússins ekki rakin heldur mest fjallað um eina teikningu sem gerð var að nýju húsi. Hún gæti hafa verið fyrsta tillagan sem gerð var að húsinu; er skráð í janúar 1918. Teikninguna gerði Einar I. Erlendsson byggingameistari, þá starfandi húsameistari ríkisins.

Einar I. Erlendsson hefur staðið í nokkrum skugga húsameistaranna Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar. Hins vegar brúaði hann bilið sem varð á milli þeirra og gegndi starfi húsameistara ríkisins um tveggja ára skeið. „Einars Erlendssonar mun alltaf verða minnst sem lykilmanns í íslenskri byggingarlist og föður steinsteypuklassíkurinnar. Með húsum sínum hefur hann reist sér minnisvarða sem standa mun um ókomin ár“, segir Sigríður Björk Jónsdóttir listfræðingur í grein um Einar og verk hans.8

Áhugavert er að skoða teikningu Einars með hliðsjón af því hvað af henni má ráða um skólastarf og heimilishætti á Hvanneyri á árunum laust fyrir 1920. Eflaust hefur Einar að töluverðu leyti hlustað á hugmyndir Halldórs skólastjóra hvað snerti kröfur sem gera þyrfti til rýmis og skipulags í hinni nýju byggingu. Hafði hann m.a. í erindi til Stjórnarráðsins viðrað hugmynd um „stórt og veglegt staðarhús á Hvanneyri, þar sem húsrúm verði nægjanlegt handa skólastjóra og fjölskyldu, verkafólki Hvanneyrar og gestum og heimavistir fyrir 2030 nemendur svo fjölga megi í skólanum . . . Hér er um framtíðarbyggingu að ræða, við byggjum nú fyrir aðra, komandi kynslóðir, sennilega miklu heimtufrekari en við erum“ . . . var haft eftir Halldóri.9

5 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára (1939), 195. 6 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 99-103. 7 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 103-106. 8 http://www.mbl.is/greinasafn/grein/421601/ Nú (2022) er komin út bók Björns G. Björnssonar um Einar I. Erlendsson: Húsameistari í hálfa öld. Hið íslenska bókmenntafélag. 9 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 104.

Einar gerði ráð fyrir að húsið yrði 22,5x10,5 m2 að grunnfleti, kjallari, tvær íbúðarhæðir, og rishæð, auk nokkurs rýmis í hanabjálka. Úr steinsteypu átti byggingin að vera.

Tillögubygging Einars er afar svipmikil og reisuleg með sterk stíleinkenni höfundarins. Sérkennileg þakgerð, með brotnum stöfnum gefur byggingunni óneitanlega framandi og nýtískulegan svip. Gluggagerð og vegglínur á kjallara greina hann frá hæðunum tveimur og skapa gott jafnvægi í heildarsvip hússins.

Ætla má að Einar hafi haft grunn hins brunna íbúðarhúss í huga sem stað fyrir nýju bygginguna. Aðalinngangurinn skyldi snúa til suðurs, út í skólagarðinn, eins og verið hafði á hinni eldri byggingu, en tvenn anddyri til norðurs.

Aðalinngangurinn var mikill um sig: Tvennar tröppur leiddu upp að anddyri og síðan forstofu er var á fyrstu hæð. Svipmikið skraut mótaði handriðin. Ekki verður af teikningunni dæmt um hvort Einar hefur ætlað að nýta þak anddyrisins sem svalir. Vissulega hefði það þó talist tignarlegt.

Lítum þá á hverja hæð með hliðsjón af þörfum er þar skyldi mæta í gerð og skipulagi byggingarinnar:

KJALLARINN:

Tvennt skyldi kjallarinn einkum rúma: Annars vegar rúmgott eldhús og matsal með sérstöku anddyri vegna aðkomu að austan. Líklega var sú aðstaða einkum fyrir starfsmenn

Hvanneyrarbúsins því mötuneyti nemenda var þá þegar til staðar í kjallara skólahússins sem byggt var árið 1910. Hins vegar var „rjómabúi“ skólans ætlaður staður í austurhluta kjallara hinnar nýju byggingar, en þar virðist hafa átt að vera ögn lægra undir loft. Til kælingar þurfti mikinn ís og rými undir hann skyldi vera undir aðalanddyri byggingarinnar. Hvanneyrarfjósið, með sínum 40 kúm, stóð norðan við skólahúsin.

Því var sýnilega gert ráð fyrir að komið væri með Kristjana Jónatansdóttir rjómabústýra mjólkina til vinnslu í rjómabúinu um anddyri við á Hvanneyri við vélknúna skilvinduna austurhorn kjallarans. Þar áttu fjósamenn að geta (Ljósm.safn Borgarfjarðar). gengið að skjólum sínum rétt innan við dyrnar og skilað spenvolgri mjólkinni í skilvinduna þar í horninu. Síðan ráku rýmin hvert annað: smjörgerðin, skyrgerðin og dálítill ostaklefi. Anddyri var undir aðalanddyri er vissi til suðurs. Þannig getur maður séð fyrir sér mjólkurafurðirnar hafa „flætt“ þvert í gegnum bygginguna – frá mjólk til unninna afurða, sem tilbúnar voru til flutnings á markað,

og þá líklega sjó-/árleiðina í Borgarnes, þær sem ekki fóru til heimanota á Hvanneyri. Mjótt rými var fyrir móinn og þar handan gangs miðstöðin og rými sem kallað var „rafmagn“. Halldóri skólastjóra var snemma í mun að rafvæða skólann og þarna var þá gert ráð fyrir þeirri tækni.

1. HÆÐ:

Fyrstu og annarri hæð svipar saman um það að gangur er eftir endilangri byggingunni og herbergi til hvorrar handar. Úr forstofu aðalanddyris var til vinstri komið að skrifstofu (skólastjóra), en úr henni skyldi gengt til íbúðar hans til dagstofu, borðstofu, og svefnherbergja. Hins vegar er eldhús ekki að finna þarna og því væntanlega gert ráð fyrir að þar nýttist eldhúsið í kjallaranum. Norðan við ganginn skyldu koma tvö gestaherbergi en athygli vekur að gert var ráð fyrir herbergi fyrir ráðsmann og sjúkrastofu. Sjúkrastofa kom sér án efa vel á mannmörgum og þéttsetnum stað. Hvort gert var ráð fyrir að ráðsmaður væri án fjölskyldu er óvíst en vel kom sér að hann byggi nálægt vinnufólki sínu sem átti rými á 2. og 3. hæð.

2. HÆÐ:

Á þessari hæð fór mest fyrir rými handa vinnufólki, skv. tillögu Einars. Þótt nemendur tækju nokkurn þátt í búverkum þurfti þó allstóran hóp vinnumanna og –kvenna til þess að mynda hinn fasta kjarna vinnuaflsins um ársins hring. Áætla má að 4-5 manns af hvoru kyni hafi verið meðalfjöldinn. Athygli vekur að tvö lítil herbergi eru ætluð 1. og 2. ráðskonu. Halldór skólastjóri bjó við hjúasæld, hafði bæði ráðskonu og rjómabústýru, sem lengi þjónuðu honum, þær Þorbjörg Björnsdóttir og Kristjana Jónatansdóttir.

Í vesturenda hæðarinnar er sýnilega gert ráð fyrir fjölskylduíbúð, sennilega kennarafjölskyldu, og annarri slíkri í austurhluta hæðarinnar.

ÞAKHÆÐ:

Einar húsameistari hefur ekki gert ráð fyrir miklum innréttingum þakhæðarinnar: Hún skyldi vera geymsluloft að meginhluta. Vinnumannaherbergi og geymsla í vesturenda og þar einnig rúmgott bað, líklega fyrir vinnufólkið.

Skorsteinar í byggingunni skyldu vera fjórir og þeim komið fyrir með samhverfum hætti. Tvær pípur lágu frá smjörgerðarherberginu í kjallaranum enda þörf mikillar kyndingar þar. Hennar skyldi einnig njóta sjúkrastofan á 1. hæð. Fimm vatnssalerni skyldu vera í byggingunni. Athygli nútímafólks vekur hve langt er frá rjómabúinu til næsta salernis sem og að íbúð í austurenda 2. hæðar fylgir ekki vatnssalerni.

Miðað við heimildir gætu á þessum tíma um 20-30 manns hafa verið í hópnum sem þarna skyldi eiga heimili. Auk þeirra voru svo gestir sem jafnan voru þar, einkum á sumrin.

Teikning Einars I. Erlendssonar varð ekki að raunveruleika heldur var hús byggt eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar húsameistara. Grunnflötur þess var mjög svipaður en hins vegar var það einni hæð lægra. Kjallarinn var útfærður með öðrum hætti og að hluta var hann á tveimur hæðum – undir vesturhluta byggingarinnar. Fyrstu hæðum beggja húsanna svipar saman utan hvað Guðjón kaus að hafa aðalanddyrið á vesturgafli. Féll það mun betur að ríkjandi vindáttum.

Kvistirnir þrír fengu breytt form hjá Guðjóni; sóttu meira af útliti sínu til Bessastaðastofu og Stjórnarráðshússins í Reykjavík. Þótt leikmanni þyki tillaga Einars I. Erlendssonar bæði mikilfengleg og svipsterk skal viðurkennt að líklega tók Guðjón öllu meira tillit til skólahúss Rögnvaldar Ólafssonar, næsta nágrannahúss sem fyrir var á staðnum. Verður ekki annað séð og sagt en að vel fari á með þeim tveimur, skólahúsi Rögnvaldar frá 1910 og skólastjórahúsi Guðjóns frá 1920.

Tillaga Einars var barn síns tíma. Hún var einkum sérstæð fyrir hina umfangsmiklu iðju sem mjólkurvinnslan á stórbýlinu Hvanneyri var á þeirri tíð og gera þurfti ráð fyrir í rými og skipulagi. Hún var líka, rétt eins og verk þeirra Rögnvaldar og Guðjóns, dæmi um athyglisverða nýbreytni í íslenskri húsagerðarlist frá fyrstu árum heimastjórnar.

„ÚNIVERSIГ Þetta var um hugmyndavinnu og aðdraganda endurbyggingar staðarhússins á Hvanneyri í kjölfar brunans mikla 1917. Það reis og hefur nú náð heilli öld að aldri. Aldarsaga þess er efni í heila bók. Ég ætla þó að láta algeran stytting ráða, mest til þess að Skólastjórahúsið, eins og það er jafnan kallað, fái stað í Hvanneyrarpistlasafni mínu.

Í ljósi hlutverka Hvanneyrarhúsa í tímans rás held ég að Skólastjórahúsið komist hvað næst Hvanneyrarhúsa að kallast „únivers“, sé hugsað til þeirrar mörkuðu veraldar sem þar hefur tilheyrt. Svo ótal mörgum og ólíkum hlutverkum hefur það gegnt.

Kjarnahlutverkið var lengst af að vera „stýrishús“ Bændaskólans á Hvanneyri. Lengst af var það aðeins eitt herbergi: Skrifstofa skólastjóra í vesturhorni á miðhæð byggingarinnar. Þar var hún sem hluti af íbúð skólastjóra og fjölskyldu hans. Vissulega var það rúmgóð og lengst af mjög vel búin íbúð en hún þjónaði einnig þeim hlutverkum að vera móttaka gesta skólans og viðhafnarstofa. Einnig fundastaður. Þar var tekið á móti hinum fjölmörgu gestum skólans og alin önn fyrir þeim. Á tímum hægari samgangna var gisting oftar en ekki

Skólastjórahúsið veturinn 1938; óþekktur fimleikari sýnir listir sínar (ljósm. Þórður Gíslason).

hluti gestamóttöku – eins konar hótelrekstur. Vitað er að þetta hlutverk húss og skólastjórahjóna var afar umfangsmikið. Umsjón landssímastöðvar og raunar pósthirða einnig var í verkahring skólastjóra. Skólastjórafjölskyldan bjó þannig, að segja má „um þjóðbraut þvera“. Það lét þeim flestum afar vel. Ekki þoldu allir þó álagið en það er önnur saga.

Fyrstu fimm árin var rjómabú skólans á neðstu hæð hússins eins og rakið er í öðrum pistli. Því hlutverki lauk þegar farið var að senda Hvanneyrarmjólk í Mjólkursamlagið í Borgarnesi. Leið þá brátt að því mötuneyti skólapilta væri flutt úr Skólahúsinu í rými rjómabúsins. Raunar var fyrsta hæðin öll lögð undir sameinað mötuneyti skólapilta og skólastjóra. Þar stóð mötuneytið árabilið 1939-1976. Vék þá einnig smíðastofa er verið hafði sambýlingur við rjómabúið.

Fljótlega að horfnu mötuneyti var bókasafni skólans búin herleg aðstaða þar á fyrstu hæðinni. Bókageymsla var gerð í hinu eiginlega kjallararými og all vandaðar skjalageymslur í rýmum þeim sem áður höfðu geymt mjölvöru, saltfisk og sláturmeti mötuneytis skólapilta. Í austurhorni var komið fyrir bókasafni Tómásar Helgasonar og Vigdísar Björnsdóttur er þau gáfu Hvanneyrarskóla á aldar afmæli hans 1989 – líklega besta búnaðarbókasafni landsins.

Kennarar bjuggu einnig með fjölskyldum sínum í Skólastjórahúsinu. Þröngt að vísu eins og flestir máttu sætta sig við. Á efstu hæð hússins voru vistarverur þeirra og annars starfsfólks. Mjög rúmkaðist um þegar kennarabústaðirnir tveir, Svíri og Tungutún, risu, árið 1939. Líklega hefur Magnús Óskarsson átt lengstan búsetualdur þarna á lofti Skólastjórahússins. Í meira en þriðjung aldar bjó hann þar á suðurloftinu, alltaf einn, enda færðu nemendur á sjöunda áratugnum honum skilirí hvar á stóð að „betri væri vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.“ Sóttu þeir tilvitnunina í Biblíuna – Orðskviðina 21:9.

Merkilegt er það tímabil í sögu Skólastjórahússins er starfsstúlkur skóla og mötuneytis bjuggu í herbergjum annarrar hæða. Var þá oft líflegt þar á slóðum er piltar gerðu sig þar heimakomna ýmist með eindregnum vilja stúlknanna eða ákafri andstöðu þeirra en sjaldan kæruleysi. Mest af því lét herra hússins, skólastjóri, óátalið þótt vitað væri að ekki væri umgangur alltaf hljóðlátur. Margt mættu veggir þessara herbergja segja gætu þeir mælt. Vitað er að í þeim hefur verið stofnað til margra farsælla hjónabanda – en líka einhverra sem skemur entust. Líka að þar voru líf kveikt er urðu gæfufólk.

Nöfn herbergjanna þar á loftinu segja eflaust sögur þótt huldar séu skrifaranum að mestu: Sjálfstæðishúsið, Eden, Paradís, Kleppur, Skessuhorn, Ausa. . .

En svo rak að því að skólastjóri flutti í eigið húsnæði. Það var seint á áttunda áratugnum. Skólastjórahúsinu var gert til góða. Þar var skrifstofum skólastjórnar komið fyrir í vesturenda fyrstu hæðar þar sem þær voru fram á fyrstu daga LbhÍ, og íbúð lagfærð í austurenda. Rektor LbhÍ bjó með fjölskyldu sinni í húsinu fyrstu (5) árin en kaus síðan að búa annars staðar. Má segja að þá hafi hlutverki þess sem Skólastjórahúss brátt lokið.

Úr grasgarðinum/skólagarðinum til Skólastjórahússins sumarið 2020.

Síðan tók að falla út. Það hljóðnaði heldur yfir Skólastjórahúsinu. Nú er þar aðeins teiknistofa byggingafræðings, íbúðir fárra, safníbúð skólans, og skjala- og bókageymsla, auk þess sem prestur sóknarinnar hefur þar starfsaðstöðu. Húsið er hins vegar það vel byggt á flestan máta að það getur gegnt ýmsum hlutverkum í framtíð.10

10 Skrifað 28. júlí 2014; lagfært og endurskoðað 8. maí 2022.