9 minute read

Kista – fornbýli og fleira við Andakílsá

Suður með Andakílsá og vestur með Kistufirði myndar land Hvanneyrar totu sem segja má að mörkuð sé frá megin landi jarðarinnar með stokki, Litla-læk, sem fellur út í Andakílsána. Þannig afmarkast land sem er um 40 hektarar að flatarmáli. Að mestum hluta er það votlendi – engjaland – vaxið hálfgrösum. Meðfram ánni, mót austri, er þó röð klapparhóla með stefnuna SSV-NNA og er þar þurrlendi, að nokkru vallgróið, en að nokkru hálfhulið holtagróðri. Þarna stóð býlið Kista, en um það segir í örnefnalýsingu:

Var sjálfstætt býli, ein af þeim jörðum, sem Auðunn Salómonsson greiddi kirkjunni fyrir afa sinn 1420, er þá fyrst nefnd. Er þá í byggð til 1518, fer svo í eyði um tíma, er aftur byggð um 1570, svo um 1700 fer hún í eyði fyrir vatnsfjúk og fyr, er sagt, og hefur ekki byggst síðan. Var talin 12 hdr.83

Advertisement

Jörðin er sögð hafa verið í eyði í 15 ár árið 1707, áður byggð í 5 ár en lengi í eyði þar á undan. Síðan mun ekki hafa verið búið í Kistu.

Til heyskapar sýnist landið í dag hafa verið kostamikið með Kistuengið syðst. Þó segir í Jarðabókinni 1707:

Horft af Hrosshól norður yfir land Kistu. Dökkgrænn Bæjarhóllinn til hægri við miðja mynd.

Það ætla menn, að því hafi jörðin eyðst, að heyskapur var lítill, árið hart og landþröng fyrir jörðina Hvanneyri, ef það byggi peníngamaður . . . Örvænt þykir mönnum aftur hjer að byggja, nema til skaða jörðunni Hvanneyri og hennar býlum. Þar með og segja menn, að vatnsfjúk úr Andakílsá fyrir landsynníngs stórviðrum hafi hjer merkilega fordjarfað hús og hey, helst innhirð í garði.84

83 Örnefnaskrá Hvanneyrar. Örnefnaskrár í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 84 Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók IV (1925 og 1927), 179.

Langt hefur þó verið að sækja heyskap þangað frá Hvanneyri eftir að Kistu-byggð lagðist af, a.m.k. landveg. Hins vegar eru dæmi um að menn hafi komið langt af til heyskapar þar og þá sjóveg:

Skólapiltur á Hvanneyri skrifaði í dagbók sína 2. ágúst 1913: „Við Helgi vorum fram yfir miðdag úti í Kistu að taka saman hey undan flóði með fólkinu hans Jóh. Reykdals.“ 15. ág.: „Gísli var úti í Kistu að vinna fyrir Jóh. Reykdal.“ 16. ág.: „Var að binda hey fyrir Jóh. Reykdal.“ Og 17. ág.: „Ég svaf út í Kistu í nótt. Fór að vinna kl. 4 og vann til kl. 9 í morgun. Var að bera hey út í skip fyrir Jóh. Reykdal og flytja niður á bakkann.“85

Þurrlendishagar Kistu eru mjög knappir. Þar heitir þó á einum stað Rjómafit, meðfram Andakílsánni. Hún er að hluta vallgróin en að hluta votlend; nafnið gæti vísað til beitagæða þar. Bagi við búsetu í Kistu er að neysluvatn hefur verið afar takmarkað þar og líklega vont. Leirugt vatn Andakílsár eða sigvatn af votlendinu. Hvar átt hefur að fá eldivið er ekki ljóst. Hins vegar hefur Kistubýlið legið sérlega vel við samgöngum þarna við ós Andakílsár í botni Kistufjarðar. Örstuttur spölur hefur verið frá bæ og niður að ánni þar sem góð lending hefur verið, auk þess sem hleypa hefur mátt skipum upp í stokka á flóðum; „sjóargatan“ hefur verið mun styttri í Kistu en á bæjunum sunnan árinnar hvað þá á höfuðbýlinu, Hvanneyri. Raunar má ímynda sér að Kistubóndi hafi getað verið eins konar varðmaður þarna við ósinn með lendingarstaðinn Skiplæk rétt handan ár. Varla hefur mikið farið fram hjá honum á þeim tímum þegar Andkílingar, Skorrdælir og eflaust fleiri áttu þarna sjó- og vatnaleið.

Meðfylgjandi uppdráttur gefur hugmynd um form og legu Kistu-jarðarinnar. Með örnefnaskrá hennar í hendi gekk ég um landið 10. og 12. ágúst 2021, svipaðist um eftir minjum og brá máli á þær sem ég taldi mig greina. Flestar eru þær mjög óljósar svo greinargerð mín verður í ýmsu nær hugarflugi en harðmældum vísindum. Í henni er vísað til uppdráttarins.

Lauslegur uppdráttur af landi Kistu í Andakíl þar sem vísað er til helstu skráðra örnefna og talinna minja. (Ég hef fyrirvara á túlkun minni á örnefnalýsingu Kistu, einkum því hvar Litli-lækur liggur; tel þetta þó líklega legu).

85 Guðjón F. Davíðsson frá Álfadal: Dagbók. Óbirt, ljósrit í vörslu BG. Hér mun um að ræða Jóhannes Reykdal, sem þá rak bú á Setbergi við Hafnarfjörð en sótti heyskap um hinn langa sjóveg.

Fyrstur er Bæjarhóllinn (1), lágur en mikill um sig. Urmull stórra þúfna og önnur og dekkri gerð gróðurs (sem einkum er língresi) en umhverfis leyna þarna minjum um mannvirki. Hvað skýrust er tóft á NV-hluta hólsins ~2,2 x 5,5 m (N 64°32,404 og V 21°46,441) með stefnu SV-NA. Tófugras er ríkjandi í botni hennar. Þar sem einna hæst ber á hólnum virðist Án mikillar ábyrgðar er hér dregin hugmynd að bæjarhúsum í vera önnur tóft, óljós að lögun (N Kistu. Aðeins er lauslega stuðst við legu minja, sem virðast vera 64°32,395 og V 21°46,455). Fast eftir hús sem þarna hafa staðið. Óvíst er þó hvort þau öll hafi gert vestan við hana sýnist sú þriðja það samtímis. vera, um 2,1 m á breidd en allt að 4,8-5,0 m á lengd; snýr til vesturs, grænni í tóftarbotninn en umhverfið. Þarna virðast vera mun fleiri tóftabrot. Þau benda til þess að Kista hafi ekki verið smákot, fremur býli þar sem töluvert var umleikis. Af þessum myndarlega bæjarhóli er mjög gott útsýni til umhverfis og á sólríkum sumardögum bylgjaðist gljáandi stargresið á Kistuenginu suður af bænum. Gleggstu minjarnar í Kistu eru garður (2), sem hlaðinn hefur verið þvert yfir hólahrygginn nokkru norðan við Bæjarhólinn. Garðurinn liggur í mjúkum sveig frá austri til vesturs. Endahnit hans eru N 64°32,497 og V 21°46,294 að austan, en N 64°32,497 og V 21°46,424 í vesturenda. Hann er fast að 120 m langur. Garðurinn virðist að mestu hlaðinn úr torfi og hefur verið töluvert mannvirki. Vel má vera að hann sé mun yngri en bæjartóftirnar, svo vel sem hann heldur sér enn. Hvort hann hefur náð vestur yfir votlendið verður ekki greint. Garðurinn gæti til dæmis hafa verið hlaðinn um eða skömmu fyrir fyrri aldamót til þess að verja verðmætt slægjuland á Kistuengi, og að léttari girðing hafi þá verið sett upp yfir votlendið þar sem vetraflóð með ísreki geta farið hamförum? Örnefnaskrá segir Hrosshól (3) vera frammi við Kistufjörðinn. Raunar eru hólarnir tveir og mjög skammt á milli þeirra. Verður ekki séð hvort hinn er ónefndur eða hvort um er að ræða ónákvæmni í örnefnalýsingu. Þá segir í örnefnaskrá: . . . „sjávarmegin við hann [Hrosshól] var byggð rétt til að rétta í fé.“ Þar var engar minjar að sjá enda eira vatnagangur og ísrek fáu sem þar er undir bergvegg hólsins. Hins vegar virtust mér í grasi gróinni austurhlið vestari hólsins vera misfellur í landinu sem gætu bent til réttar (N 64°32,293 og V 21°46,748). „Réttin“ gæti hafa verið svo sem 2,4 x 4,3 m að grunnfleti. Hvað greinilegastur er veggurinn sem upp í brekkuna veit og er heildreginn á meðfylgjandi rissi. Í „réttinni“ bar öllu meira á heilgrösum en í gróðri næsta umhverfis.

Sé nú haldið norður fyrir garðinn áðurnefnda (2), kemur Miðhóll. Þar var ekki að sjá neitt sem benti til minja. Hólaröðin rís allhátt nyrst þar sem við komum á Norðasta hól (5); þó er Miðhóll ívið hærri. Áðurnefnd Rjómafit sveigir sig um Norðastahól.

En þá á ég eftir að koma fyrir einum hóli enn og það er Selhóll. Hann er í örnefnaskrá sagður vera „norðvestan við Bæjarhólinn“ og ennfremur segir þar: „skammt norðan við hann rennur lítill lækur í Andakílsá, sem heitir Litli-lækur . . . næstum því á móti Fossaoddanum, þar var byggður yfirsetukofi við Selhól.“ Önnur lýsing, líklega byggð á sömu frumheimildum, er þessi:

Norðvestan við Kistu er Selhóll, rétt við Andakílsána. Þar var áður setið yfir kvíám. Skammt fyrir norðan Selhól er Litli-lækur og rennur hann í Andakílsá.86

Ekki verður af þessum lýsingum auðveldlega ráðið nú hvar Selhóllinn er. Norðvestan við Bæjarhólinn er engan hól að sjá. Hvað átt er við með seli hefur verið ýmislegt eins og vikið hefur verið að á öðrum stað, jafnvel allt frá einföldu skýli smalans í sellandinu til fullbúinnar aðstöðu til mjalta fastbúandi selfólks, vinnslu mjólkurinnar og jafnvel annarra verka, svo sem heyskapar.87 Sel voru jafnan sett nokkuð frá bæ. Fráleitt var þetta sel frá Kistu, til þess var það of nærri þeim bæ. Líklegra er að það hafi verið frá Hvanneyri eða einhverju býlanna þar í hverfinu. Votlendið, meginhluti Kistulandsins, hefur varla verið eftirsóknarvert beitiland fyrir kvíaær, megi marka almenna reynslu um kröfur sauðfjár á sumarbeit. Hins vegar vekur örnefnið Rjómafit grun: Vísar nafnið ef til vill á staðinn þar sem vænlegast var að halda ánum til beitar?

Eftir allnokkra rannsókn á Norðasta hól og næsta umhverfi sýndist mér að á tveimur stöðum gætu leynst minjar, á uppdrættinum merktar (6) og (7). Báðar eru á mishæðum, öllu minni en svo að kalla megi hóla. Númer (6) hefur hnitin N 64°32,710 og V 21°46,023. Kollur þeirrar hæðar er þéttvaxinn öðrum gróðri en umhverfi hans, eins og greina má á meðfylgjandi mynd.

Smáhóll (6) norðvestan í Norðasta hóli (5) í Kistu, hugsanlega eftir smalakofa úr torfi. Göngustafir rétt til hægri við miðja mynd vísa á staðinn.

86 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára. (1939), 40. 87 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður við Dýrafjörð“. Rit LbhÍ nr. 131 (2020), 39-41.

Vera kann að þarna hafi verið hlaðið skýli eða kofi fyrir smalann, sem hélt kvíaám til beitar þarna í næsta nágrenni Rjómafitjar. Dugði það ef til vill til þess að örnefnið Selhóll varð til? Ekkert grjót er þó að sjá úr hleðslu enda hefur þarna trúlega verið auðveldara að afla torfs en grjóts.

Ögn vestan við stað (6) er þúfnakraðak á dálítilli hæð (7) sem hefur hnitin N 64°32,682 og V 21°46,171. Hvort kraðakið leynir fornri tóft t.d. af kví verður ekki séð, en mætti vel rannsaka nánar. Því verður skilið svo við leitina að Selhól að hann sé annar hvor þessara staða og þá frekar staður (6). Það virðist oft hafa verið hjáverk smalanna og hluti af því að fá hjásetutímann til þess að líða að byggja einfalt skýli eða smalakofa. Um það gætu minjarnar verið. Við staðina (6) og (7) er alla vega skammt í Litla-læk, og þá má báða telja vera „rétt við Andakílsána“; hvort tveggja passar við örnefnalýsingarnar.

Afar ólíklegt er að selstaða í Kistu hafi verið nýtt á sama tíma og jörðin var setin. Miklu líklegra er að þau ár sem ekki var föst búseta á jörðinni hafi landið verið nýtt sem selland á hásumrum. Þá hefur einnig legið beint við að nýta jarðarhús fyrir smalann og jafnvel til íveru fyrir annað selfólk. Leiðin frá Hvanneyri er þrátt fyrir allt það löng að tæplega hefur hentað að ganga þaðan til mjalta í Kistu á hverju máli. En jarðarhús fyrri tíma gengu úr sér á tveimur til þremur áratugum ef ekki var haldið við, m.a. með ábúð. Varla hefur komið til greina að halda þeim við aðeins til takmarkaðra sumarnota. Þá var einfaldara að reisa smalakofa. Tilvísun fólksins heima í Hvanneyrarhverfi varð einfaldari og Selhóll látið duga. Jafnvel gæti þá hafa verið átt við Norðasta holtið allt, ja, hver veit?