7 minute read

Fyrsti íslenski búvísindakennarinn

Stefán Jónsson

Stefán Jónsson var skagfirskur að uppruna; fæddur 2. janúar 1915 í Eyhildarholti en var gjarnan kenndur við Nautabú en síðar Kirkjubæ á Rangárvöllum. Stefán var afar vel menntaður maður; hann var stúdent úr MA, búfræðingur frá Hólum, og búfræðikandídat frá KVL í Kaupmannahöfn. Er hann lauk námi þar ytra 1942 hindraði heimsstyrjöldin heimför hans svo hann réðst til frekara náms og starfa þar ytra, einkum í fóðurefna- og lífeðlisfræði; starfaði m.a. við rannsóknir.111

Advertisement

Um þær mundir mátti kalla danskan landbúnað háþróaðan. Hann var byggður á öflugum rannsóknum og markvissri notkun verklegrar og fræðilegrar þekkingar, bæði í jarð- og búfjárrækt. Þangað var því margt að sækja fyrir íslenskan landbúnað sem var að hefja nýtt skeið í kjölfar mikilla þjóðlífsbreytinga, skeið tæknivædds búskapar í verkaskiptu samfélagi, þar sem fræðileg þekking skyldi nýtt í meira mæli en áður. Við þessar aðstæður kom Stefán til starfa fyrir íslenskan landbúnað ásamt fleiri löndum sínum. Fyrst til forfallakennslu á Hvanneyri veturinn 1945-46 en síðan til starfa hjá búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Búnaðardeildin var vísir að rannsóknastofnun fyrir landbúnaðinn, þá ung að árum, sett á fót árið 1937.

Haustið 1947 var sett framhaldsdeild við Bændaskólann á Hvanneyri. Skyldi hún sérmennta starfsmenn til ráðgjafar og annarra fagstarfa í þágu bænda – og var þannig vísir að innlendum landbúnaðarháskóla. Stefán var þá ráðinn til kennslu við deildina, einkum í grunnfögum, svo sem efnafræði, stærðfræði og lífeðlisfræði. Þá kennslu annaðist hann til vorsins 1955 er hann tók við búi á Kirkjubæ á Rangárvöllum. Þar hafði Eggert bróðir hans stofnað til kynbótabús í hrossarækt en fallið frá svo nokkur óvissa ríkti um framhald búsins. Á Kirkjubæ bjó Stefán með fjölskyldu sinni næstu árin, allt þar til hann hélt til kennslu að Hólum veturinn 1963-64. Hann lést úr krabbameini 7. október 1964 en hafði þá kennt heilsubrests um nokkurt skeið.

Stefán var kvæntur Sesselju Jóhannsdóttur úr Svarfaðardal. Þau eignuðust sex börn: Sólveigu, Sturlu, Steinunni, Þórunni, Sigurveigu og Önnu Margrétu. Þau féllu vel inn í hið fámenna samfélag kennarafjölskyldnanna á

Stefán Jónsson og Sesselja Jóhannsdóttir. (ljósm. úr einkasafni).

111 Nokkrir punktar til minnis BG skrifaðir vegna heimsóknar fjölskyldu Stefáns að Hvanneyri í júlí 2015 með viðbótarfróðleik frá fjölskyldunni.

Hvanneyri. Sesselja tók þátt í starfi kirkjukórsins, meðfram umönnun stækkandi fjölskyldu og Stefáns er minnist sem hægláts nágranna er var mikill tóbaksmaður.112

Um starf Stefáns liggja fyrir nokkrar frásagnir nemenda og samstarfsmanna hans:

Persónunni Stefáni Jónssyni lýsti Halldór Pálsson113 svo: Hann var gáfaður, í senn viðkvæmur í lund og skapríkur en þó stilltur vel enda karlmenni. Hann var hægur í viðmóti, seintekinn í viðkynningu, orðvar, einlægur drengskaparmaður, hlýr og traustur vinur vina sinna, einbeittur í skoðunum og lét lítt sinn hlut. Hann þoldi ekki kauðaskap og smámunasemi.

Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli kynntist Stefáni fyrsta kennsluvetur hans á Hvanneyri 1945-46. Hann kvað Stefán hafa verið afbragðs kennara sem borið hefði af öðrum í þeim hópi sakir menntunar sinnar og kunnáttu „sem gull af eiri“.114 Bjarni Arason var í fyrsta námshópi Framhaldsdeildarinnar sem Stefán kenndi; Bjarni skrifaði: Ég get ekki rifjað svo upp minningar frá þessum tíma að ég minnist hans ekki sérstaklega. Svo ríkan þátt átti hann í að móta andrúmsloft þessarar stofnunar. Stefán var afbragðs kennari. Hann hafði skapgerð vísindamannsins, var nákvæmur og síleitandi að kjarna hvers viðfangsefnis. Framkoma hans og persónuleiki var með þeim hætti, að hann naut virðingar, þar sem hann fór.115 Magnús Óskarsson, líka nemandi Stefáns við Framhaldsdeild orðaði sín ummæli svo: Góður kennari þótt iðkaði það að koma í tíma lítt undir búinn til kennslu. Hann kvað Stefán vera þann kennara sem hann hefði vitað best komast þannig frá verki – og með góðum árangri; Stefán hafi verið mjög vel kunnandi í kennslugreinum sínum en þegar hann rak í vörður fékk hann nemendur til þess að leita hinnar réttu lausnar með sér, hvað jafnan hefði tekist; sá ferill hefði verið mjög lærdómsríkur.116

Dóttursonur Stefáns, Stefán Sturla, rifjaði upp söguna um afa sinn er hafði fengið heimild til þess að reykja í kennslustund með því að standa í dyrum kennslustofunnar, að hann sagði tvær „rettur“ í 45 mín kennslustund, sem ég trúi vart en víst er um það að Stefán Jónsson var gríðarmikill tóbaksmaður enda dó hann úr krabbameini aðeins 49 ára gamall.117

Halldór Pálsson taldi það mikinn skaða er Stefán Jónsson hvarf frá Hvanneyri. Stefán tók þó að sér að endurskoða eldri kennslubækur um líffræði búfjár og um efnafræði fyrir Búnaðarfélag Íslands. Steingrímur Steinþórsson sagði í formála líffærafræði-bókarinnar Stefán hafa lagt við verkið mikla alúð og vandvirkni, enda ágætlega til þess fallinn að leysa slíkt starf vel af höndum, sökum hæfileika sinna og þekkingar.118

112 Jóhannes Ellertsson í samtali við BG 22. júlí 2015. 113 Halldór Pálsson: Tíminn 13. október 1964. 114 Þorsteinn Þorsteinsson í samtali við BG 24. júlí 2015. 115 Bjarni Arason: Í Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára. (1979), 250. 116 Magnús Óskarsson í samtali við BG 20. júlí 2015. 117 Stefán Sturla Sigurjónsson í samtali við BG 25. júlí 2015. 118 Þórir Guðmundsson: Líffæri búfjár [Endurskoðað og stytt hefur Stefán Jónsson], (1959), 6.

Árið 1947 var byggð hæð ofan á Hvanneyrarfjósið (Fjósloftið í Halldórsfjósi). Var þar m.a. komið fyrir íbúð, sem varð heimili Stefáns og fjölskyldu hans þau ár er þau bjuggu á Hvanneyri. Fyrstu misserin munu þau þó hafa búið þröngt í Skólastjórahúsinu. Að auki var þar á Fjósloftinu m.a. komið fyrir efnafræðistofu, einkum vegna efnafræðikennslu. Stefán mótaði stofuna, sem þarna var síðan til húsa við vaxandi umsvif næstu fjörutíu árin. Áhugi hans beindist einnig að rannsóknum. Vann Stefán með kennslu fyrir Tilraunaráð búfjárræktar, einkum að votheysrannsóknum og áhrifum sláttutíma á fóðurgildi heyja, skrifaði Halldór Pálsson, er einnig sagði: Vegna ágætrar menntunar og vísindalegrar nákvæmni í störfum var Stefán prýðilega fallinn til vísindaiðkana.

Votheysrannsóknirnar voru býsna merkilegar. Fyrir þeim var gerð rækileg grein með fræðiriti.119 Má hiklaust jafna þeim við það besta sem á þeim tíma sást hér á Norðurlöndum. Í formála ritsins segir m.a.: Stefán Jónsson, kennari á Hvanneyri, . . . annaðist alla framkvæmd tilraunanna á Hvanneyri og Hesti við verkun heysins, hitamælingar og sýnatöku. . . . Stefán Jónsson, kennari, efnagreindi nokkuð af sýnishornum á efnarannsóknastofu Búnaðardeildar [svo!] á Hvanneyri. Magnús Óskarsson minnti að Tilraunaráðið hafi kostað einhver rannsóknatæki í stofuna á Hvanneyri, og kann það að skýra orðalagið. Og síðar í formálanum segir: Nokkrar efnagreiningar voru framkvæmdar á Hvanneyri, og voru þau sýnishorn tekin beint úr gryfjunum til efnagreiningarinnar. Tilraunin var gerð sumarið 1951, í þremur nýlegum votheysgryfjum á Hvanneyri, og einni á Hesti, og einnig í fleiri votheys-geymslum suður í Mosfellssveit.

Fitugreiningartæki, frá Soxhlet, sem Stefán Jónsson kennari fékk til rannsókna og kennslu. (Úr safni LbhÍ, Hve).

Sólveig, dóttir Stefáns, minnist rannsóknaverka föður síns, bæði við tilraunir á engjalöndum Hvanneyrar sem og á efnarannsóknastofunni. Nokkur mælibúnaður mun hafa verið til á stofunni, megi marka frásagnir, svo sem til pH- og þurrefnismælinga. Þurrefnismæling var hins vegar ekki flokkuð með efnagreiningum í daglegu tali. Meiri búnaður hefur því

119 Stefán Aðalsteinsson, Stefán Jónsson og Pétur Gunnarsson: Áhrif fergingar á verkun votheys Rit landb.deildar A-flokkur – nr 13. (1960).

verið til staðar, hugsanlega Kjeldahl-tækin, sem lengi voru til á stofunni og notuð voru til mælinga á köfnunarefni (N).

Sem fyrr sagði hvarf Stefán með fjölskyldu sinni austur að Kirkjubæ vorið 1955, m.a. fyrir hvatningu Pálma bróður hans.120 Þá höfðu mál skipast svo að ríkið keypti jörðina en Stefán vélar og bústofn, þar með talið hrossastofninn sem Eggert bróðir hans hafi ræktað um árabil. Hrossaræktarbúið á Kirkjubæ rak Stefán með fjölskyldu sinni til dauðadags.121 Björn Franzson vakti athygli á markvissu en hljóðlátu ræktunarstarfi Stefáns þar eystra, því að honum hafi verið allra manna fjarst skapi að berast á eða halda eigin verðleikum á lofti, skrifaði Björn.122 Má telja að í dag séu Kirkjubæjarhrossin lifandi vottur um farsælt kynbótastarf Stefáns, sem vildi hreinrækta ákveðna stofna eða viðhalda þeim óblönduðum . . . fremur en blöndun hinna ólíkustu stofna og einstaklinga . . . eins og Halldór Pálsson lýsti starfinu.

Sé reynt að leggja mat á ævistarf Stefáns, sem aðeins náði að spanna tæpa tvo áratugi, yrði það eitthvað á þessa leið:

Stefán Jónsson var afar vel menntaður maður með með eiginleika og hæfni vísindamanns. Hógværð, annir og takmörkuð efnisleg aðstaða settu honum skorður við nýtingu hæfileika sinna til fræðiiðkana. Það hversu ungur hann hvarf frá kennslu og rannsóknum og hve fá starfsár voru honum gefin veldur því einnig hve lítið fer fyrir honum í búnaðarsögu tuttugustu aldar. Stefán mótaði kennslu við Framhaldsdeildina á Hvanneyri fyrstu ár hennar. Með rökum má því kalla hann fyrsta íslenska búvísindakennarann. Það starf og áhrif hans á nemendur skólans ættu því að duga til þess að halda nafni hans á lofti.123

120 Sólveig Stefánsdóttir í samtali við BG 25. júlí 2015. Elín Pálmadóttir blaðamaður, bróðurdóttir Stefáns, sagði einnig í samtali við BG 13. ágúst 2015, að það hefði ýtt undir ákvörðunina að Stefán hefði verið „svikinn um aðstöðu á Hvanneyri, íbúð, hefði verið ráðinn til þess að koma nýrri deild á fót, en allt það hefði verið svikið og þess vegna hefði hann farið burt, austur að Kirkjubæ.“ 121 Hjalti Jón Sveinsson: Hrossin frá Kirkjubæ (1984). 122 Björn Franzson: Þjóðviljinn 13. október 1964. 123 Pistillinn var skrifaður 26. júlí 2015 vegna heimsóknar fjölskyldu Stefán kennara að Hvanneyri og lagfærður 3. desember 2020.