10 minute read

Leikfimisalurinn

Þættir úr aldarsögu 1911-2011

I. Í upphafi síðustu aldar var leikfimi- og íþróttakennsla fátíð í íslenskum skólum. Þegar Halldór Vilhjálmsson kom til skólastjórnar á Hvanneyri árið 1907 hóf hann strax að kenna leikfimi. Halldór hafði sjálfur sem ungur maður verið hneigður til íþrótta, og í námi sínu í Danmörku, einkum þó við Lýðháskólann í Askov, hafði hann kynnst þeirri herslu sem um þær mundir var lögð á líkamsmennt ungmenna samhliða bóklegri menntun. Var það einn þáttur hinnar þekktu skólastefnu, sem kennd hefur verið við danska prestinn Nikolaj Grundtvig. Fyrstu árin kenndi Halldór leikfimi við næsta frumstæðar aðstæður, m.a. á lofti Skemmunnar, sem nú hefur verið endursmíðuð sem safnaðarheimili.

Advertisement

Í hugmyndum sínum um bændaskóla og menntun sem Halldór kynnti í bréfi árið 1905, kom glöggt fram hve hann hafði hrifist af lýðháskólahreyfingunni dönsku og kenningu gamla Grundtvigs. Þar nefndi Halldór m.a. leikfimina. Hann mótaði strax hugmyndir sínar um skólabyggingar á Hvanneyri. Leikfimihús var ein þeirra og hluti húsaþyrpingarinnar er lykjast skyldi um grasgarð skólans. Láttu þingmenn vita að byggja þurfi leikfimishús og skólahús á Hvanneyri, skrifaði Halldór í bréfinu, sem var til frænda hans, sr. Þórhalls í Laufási, síðar biskups.

Í þorralokin 1911 skrifaði Halldór Alþingi bréf og bað um 4.000 krónur til þess að koma upp leikfimihúsi við Bændaskólann. Einar I. Erlendsson, síðar húsameistari ríkisins, hafði þá gert uppdrátt að húsinu, og áætlað að það mundi kosta 6.000 krónur. Af þeim töldust 2.000 krónur vera til í nothæfu afgangsefni frá skólahúss-byggingunni á Hvanneyri árið áður:

Um þörf leikfimishússins þarf jeg auðvitað ekki að ræða, skrifaði Halldór. En bætt get jeg því við, hve mikil bót það væri fyrir skólann að eignast stóran fyrirlestrasal við bændanámskeiðin og önnur fyrirlestrahöld. Kom það ljóslega fram við hið fjölsótta námskeið nú í vetur . . .

Engin ríkisfjárveiting fékkst til byggingarinnar. Halldór skólastjóri fylgdi málinu hins vegar fast eftir og mun sjálfur hafa snarað út úr eigin vasa drjúgum hluta byggingarkostnaðarins. Allavega reis Leikfimihúsið sumarið 1911, og Halldór skrifaði í skólaskýrslu:

Ekkert hefir verið þráð eins mikið hér við skólann og leikfimishús, og líklega af því, að ekkert hefir verið eins örðugt við að fást og óvíst hvort fengist. En nú er það þó komið: 36a x 13a, en þar af eru 6 álna breiðir skúrar við hvorn enda . . . Gluggar eru stórir á suðurhlið, ná þeir alveg niður að gólfi. Er það gert til þess að sólin skíni á gólfið og sótthreinsi það.

Húsið var og er járnklætt timburhús á steinlímdum grunni, sennilega kynt með einum ofni og þá örugglega með mó og kolum fyrstu árin.

Á þessum tíma höfðu verið reist sérstök leikfimihús við Menntaskólann í Reykjavík, Möðruvallaskóla og við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Leikfimihúsið hér á Hvanneyri er hins vegar eitt elsta leikfimihús á landinu sem í dag er notað til íþróttakennslu.

II. Leikfimisalurinn hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar á aldarinnar rás. Þannig benda ljósmyndir frá fyrstu dögum hans til þess að salurinn hafi verið panilklæddur að innan, bæði veggir og loft þar sem sást í sperrur. Á bak við klæðinguna hér á suðurveggnum eru gluggar sem ná allt niður að gólfi, en hlutverk þeirra var, eins og fyrr sagði, að hleypa inn sólarljósi er sótthreinsaði gólfið.

Bíður töluvert verk að færa húsið að þessum hlutum til upprunalegs horfs. Þá hefur kyndingarháttum að sjálfsögðu verið breytt. Lengi vel mun leikfimisalurinn hafa verið óupphitaður. Baðaðstaðan í austurenda leikfimihússins var lengi frumstæð. Um árabil var aðeins um kalt vatn að ræða í húsinu. En menn voru hraustir og gerðu sér ekki rellu út af því. Komið var upp gufubaði sem þótti mikið þing og var mikið notað.

Mig minnir að það hafi verið um miðjan sjöunda áratuginn að töluverð umræða varð um baðaðstöðuna. Nemendum þótti hún úr hófi takmörkuð og kröfðust úrbóta á henni. Skólayfirvöld réðust þá í það að bæta aðstöðuna. Varð það fréttnæmt, er frá leið, að hún hafði verið tvöfölduð: Í stað einnar sturtu á rörenda hafði þar verið sett T-rör, og þá með tveimur sturtuhausum. – En þannig verða nú framfarirnar, að bætt er úr frá degi til dags í samræmi við þarfir og getu.

Leikfimihúsið átti eftir að reynast mjög notadrjúgt Bændaskólanum og nágrenni hans. Leikfimi var kennd þar daglega. Á þessum árum var kennt í 6 tíma á dag og var síðasti tíminn alltaf leikfimi. Þar var líka kennd og iðkuð glíma.

Leikfimishúsið kom sér vel fyrir Bændaskólann við hin fjölsóttu bændanámskeið, sem flest voru haldin á árunum 1911-1918. Þau voru stórmerkilegur þáttur í skólastarfi hér á Hvanneyri og í menningarlífi héraðsins. Þar voru tekin til meðferðar fjölbreytt viðfangsefni, bæði um landbúnað og önnur þjóðþrifamál. Gestir skiptu tugum, og jafnvel hundruðum, þegar mest var. Upp úr námskeiðinu veturinn 1912 spratt t.d. stofnun Ungmennasambands Borgarfjarðar, og veturinn 1928 var á námskeiði rætt um héraðsskóla og hafin fjársöfnun til þess að efla hann í Reykholti.

Á fyrstu árum síðustu aldar störfuðu þrír skólar í Andakílshreppi og voru mikil samskipti á milli þeirra: Bændaskólans á Hvanneyri, Mjólkurskólans á Hvítárvöllum og Alþýðuskólans á Hvítárbakka. Rúmbesti samkomusalurinn til sameiginlegra skemmtana var Leikfimihúsið.

Þar var því oft fjörugt. Þótt húsið hafi ekki verið nema tæpir 190 fermetrar að grunnfleti var það . . . „um langt árabil stærsta samkomuhús í Borgarfirði“, skrifaði Guðmundur Jónsson.27

III. Húsmæðraskóli Borgfirðinga að Varmalandi hóf starf árið 1946. Strax var tekið upp samstarf á milli skólanna tveggja. Skemmtanir Hvanneyringa og Varmalandsmeyja eru sérstakur kafli í ævisögu Leikfimihússins, allt fram til ársins 1976, að mig minnir, en þá voru þær færðar í nýjan matsal Bændaskólans. Vetur hvern voru gagnkvæm boð skólanna. Varmalandsmeyjar voru boðnar til árshátíðar Bændaskólans, sem lengi vel var haldin 30. nóvember („1.des. hátíðin“) sem þær endurguldu með árshátíðarboði á útmánuðum. Stundum var líka efnt til dansæfinga þar á milli. Árshátíðir Hvanneyringa í Leikfimisalnum hófust með skemmtiatriðum nemenda en síðan var tekið til við dans. Á einhverju stigi var liðið parað saman, oftast með því að fyrirfram hafði verið raðað saman nöfnum Hvanneyrings og Varmalandsmeyjar. En fleiri aðferðum var líka beitt. Síðan var marserað virðulega, fyrst nokkra hringi í salnum en síðan út í myrkrið og um reyniviðargöngin í Skólagarðinum og inn í borðsal þar sem sest var að veitingum. Þar bar hverjum herra að annast sína dömu í samræmi við ríkjandi mannasiði.

Leikfimisalurinn hefur aldrei verið mjög vel búinn ljósum og síst var við þau aukið á þessum skemmtunum skólanna. Gladdi það marga, ekki síst þá uppburðarminni, þegar leið á dansleikinn, og þótti mjög auka á hina rómantísku stemningu í leikfimisalnum. Guðmundur skólastjóri hafði litlar áhyggjur af hinu skuggum vafða umhverfi, en sama varð ekki sagt um a.m.k. Steinunni skólastýru Ingimundardóttur. Hún sagði að hinir fallegu kjólar stúlknanna yrðu að fá að njóta sín í birtu; vildi því fá aukið ljósmagn. En Guðmundur skólastjóri bauð henni og öðrum kennurum skólanna þá í kaffisopa í skólastjóraíbúðinni á meðan unga fólkið dansaði sem ákafast og ótruflað í salnum.

Tvennt má þá nefna dansinum tengt:

Annars vegar það að þegar leið á ævi hússins tók að gæta vaxandi mýktar burðarbita gólfs þess, einkum þegar margmenni safnaðist í salinn. Fór mýktin þó mjög eftir takti þeirrar danstónlistar sem leikin var hverju sinni. Sjálfur minnist ég þess þegar danstegundin jenka reið yfir á árunum í kringum 1965 að mjög reyndi á gólfið. Þegar tugir dansenda náðu samstilltum jenka-takti gætti verulegrar hviku gólfsins. Jenka féll úr móð, kannski sem betur fór, og gólfbitarnir hafa því dugað allt til þessa.

Það fór heldur ekki hjá því þegar æskufólk úr skólunum tveimur kom hér saman að neistar kviknuðu með einhverjum. Sumir urðu bara að saklausum skotum, sem nú er minnst með ljúfsárum trega, – eða með öllu gleymd. Aðrir urðu að föstum samböndum er báru ávöxt, sem nú má sjá í myndarlegum stórfjölskyldum víða um land. Vitað er að ærinn fjöldi ágætra

27 Guðmundur Jónsson: Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára (1979), 171.

hjónabanda rekur upphaf sitt til þessa húss. Húsið gæti því sagt marga sögu þar um, mættu veggir þess mæla. En þögn veggjanna er hluti af hinu sögulega verðmæti þeirra . . .

IV. Halldór Vilhjálmsson skólastjóri var einhleypur er hann kom til skólastjórnar árið 1907. Árið 1911 kvæntist hann frændkonu sinni, Svövu Þórhallsdóttur, sem þar með varð skólastjórafrú á Hvanneyri. Svava var afar vel menntuð kona og þjálfuð á sviði félagsmála. Á Hvanneyri, og þá líklega í Leikfimissalnum nýjum hóf hún að segja nemendum Bændaskólans og heimafólki til í dönsum sem kallaðir voru þjóðdansar. Svava hafði dvalist á Lýðháskólanum að Nesi í Svíþjóð og kynnst þjóðdönsum þar. Hún starfaði í Umf. Iðunn í Reykjavík og hafði kennt þjóðdansa þar áður en hún kom að Hvanneyri. Þjóðdansarnir þótt hvað mesta tilbreytingin í skemmtanalífi þessara tíma. Ingimar Jóhannesson, sem var nemandi hér á Hvanneyri (1911-1913), skrifaði m.a.:

Þjóðdansar þessir þóttu sjálfsagt skemmtiatriði á öllum samkomum Hvanneyringa, stórum og smáum, enda þótt við værum margir hinir mestu dansarar og margar fallegar stúlkur voru á samkomum hjá okkur frá Hvítárvalla- og Hvítárbakkaskólunum, að ógleymdum ljóshærðu blómarósunum úr dölum Borgarfjarðar. En því segi ég þetta hér að ég minnist hrifningar okkar á dansleikjum, þegar okkur tókst að fá skólastjórahjónin til þess að „færa upp“ mars fyrir okkur.28

Dansmenntin í Leikfimisalnum hér á Hvanneyri breiddist án efa út um landið með nemendum skólans. Ég hef til dæmis grun um að danshættir fyrrum nágranna minna í Mýrahreppi við Dýrafjörð – m.a. sérstæð marsahefð, kunni að rekja sig allt aftur til óvenju margra sveitunga þaðan sem dvöldu í Hvanneyrarskóla á öðrum áratug síðustu aldar.

Leikfimisýning skólapilta á Hvanneyri í salnum, líklega á árunum 1923-1925 (óþekktur ljósmyndari).

28 Ingimar H. Jóhannesson í Morgunblaðinu 30. janúar 1979.

Í gögnum Ungmennafélagsins Íslendingur, sem stofnað var árið 1911, kemur allvíða fram að eftir fundi, sem gjarnan voru haldnir í annarri kennslustofu skólans, hafi verið haldið út í leikfimisal og dansað um stund. Sama virðist heimilisfólk skólans hafa gert, t.d. á sumarsunnudögum.29

V. Hér verður ekki reynt að telja upp allt það sem farið hefur fram í þessu aldargamla leikfimihúsi. Þar kemur til íþróttakennsla og íþróttaþjálfun, fjölmenn bændanámskeið, skólaskemmtanir, brautskráning nemenda, leiksýningar, samkomur, markaðir, og nú síðustu tvo áratugina nýársnætursamkomur staðarbúa.

Vetrarsamkomur hér í húsinu á fyrri hluta síðustu aldar eru ýmsum hugstæðar: Til skamms tíma hafa verið meðal okkar hér í Borgarfirði rosknar konur, sem með gleðibragði á yfirborði dulins trega minntust vetrarsamkomanna, sem haldnar voru í salnum, þar sem þær ræktu hlutverk hinnar svokölluðu „Vetrarhjálpar.“ Hér voru nefnilega eingöngu piltar við nám. Því þurfti að leita út fyrir skólann eftir stúlkum. Reyndist það ekki vandasamt því óvíða á landinu voru saman komnir jafn fjallmyndarlegir menn og hér á Hvanneyri á þessum árum.

Fyrir mörgum árum lýsti heimamaður líka fyrir mér söngskemmtun MA-kvartettsins hér í salnum. Fjölmennið var slíkt að drepið var í hvert skot enda þar á ferð vinsælustu poppsöngvarar þeirra tíðar.30 Fyrrum húsmóðir á staðnum minntist sérstaklega hinna svokölluðu Húskarlaskemmtana hér í salnum. Húskarlar á Hvanneyri stóðu fyrir henni um árabil; Þar var haldið uppi skemmtun og leikum. Þóttu þær mikil og góð tilbreyting.

Landsfrægt var Landsmót UMFÍ hér á Hvanneyri sumarið 1943. Það var ekki síst rúmgott húsnæði sem réði staðarvalinu. Í skýrslu um mótið er m.a. sagt að 3-400 manns hafi verið á kvöldskemmtun í fimleikahúsinu troðfullu.

Vafalaust minnast ýmsir hinnar einstæðu sýningar, þegar Benedikt Erlingsson og Halldóra Geirharðsdóttir fluttu sögu Gunnlaugs Ormstungu hér í salnum fyrir mörgum árum. Og þannig má lengi telja.

VI. Leikfimihúsið hefur síðustu öldina átt stóran þátt í félagslífi Hvanneyrarskóla og byggðarlagsins. Það, sem þetta hús hefur horft upp á, er ærið margt:

- Það hefur heilsað meira en eitt hundrað kynslóðum Hvanneyringa. - Það hefur séð lýðveldi verða til. - Það hefur upplifað það að rafmagn og jarðhiti leystu steinolíu, mó og kol af hólmi til ljósa og hitunar.

29 Frá ungmennafélaginu segir í riti BG: Ungmennastarf um aldarskeið. Ungmennafélagið Íslendingur 1911-2011. 30 Eygló Gísladóttir frá Hvanneyri staðfesti þetta í samtali við BG 31. júlí 2011.

Frá afmælishátíð Hvanneyrarskóla árið 1939 (ljósm. T. Gravem).

- Það hefur mátt þola nær allar tegundir danstónlistar, allt frá vikivaka og norrænum forndönsum um rokk og tvist, til danshátta nútímans. - Gólffjalir þess hafa slitnað undan berum iljum, ullarsokkum og sauðskinnskóm, leðurstígvélum og gerviefnasólum. - Leikfimihúsið hefur séð Hvanneyri breytast úr einangruðu en fjölmennu stórbýli til háskólaþorps í alfaraleið . . .

Og í lokin getum við spurt okkur að því, hvaða breytingar á Leikfimihúsið eftir að upplifa og hvaða hlutverki á það eftir að gegna fyrir umhverfi sitt? Ef við hugsum hlýlega til hússins, verndum það og verjum mun það að sínu leyti geta orðið vettvangur félagslífs og annars menningarstarfs í byggðarlaginu önnur eitt hundrað ár hið minnsta.31

31 Tekið saman í júlí-september 2011 og flutt á 100 ára afmælishátíð hússins 29. september 2011; lagfært 3. desember 2020.