18 minute read

Skemman

Stutt samantekt um sögu hússins

Skemman á Hvanneyri, sem svo er kölluð, er elsta húsið á skólastaðnum; orðið einnar aldar gamalt og fjórðungi betur.

Advertisement

Á aðalfundi amtsráðsins í Suðuramtinu um Jónsmessu sumarið 1896 var samþykkt að reisa á Hvanneyri „geymsluhús og þurrkhús, þar sem eigi lengur mátti nota gömlu kirkjuna þar sem skemmu. Áætlaður kostnaður við byggingar þessar var talinn 1550 kr.“ segir í fundargerð amtsráðsins.50

Húsið var reist síðar um sumarið 1896. Á uppdrætti Magnúsar Jónssonar nemanda af skólastaðnum, sennilega frá 1897, má sjá að tröð lá frá skólahúsinu, sem þá stóð nær því eins og núverandi skólastjórahús, suður að bæjarlæknum (Tungutúnslæk). Skemmunni var valinn staður austanvert við tröð þessa og samsíða henni. Með breyttu skipulagi skólabygginganna, er síðar risu, í ramma um Gras-/Skólagarðinn stendur Skemman að því er virðist skökk í meginskipulagi húsaþyrpingarinnar. Gegnt Skemmunni handan traðarinnar stóð þá lítið timburhús með bröttu risi, er sneri eins og skemman. Þetta var smiðjan, sem Hjörtur Snorrason skólastjóri, byggði haustið 1994, 8x5 álnir að grunnfleti með 3,5 álna stafahæð. Norðvestan við smiðjuna var mikill kálgarður. Skemman var þá ein fimm bygginga skólans að kirkju meðtalinni.

Skemman kostaði 1.804 kr. og 72 aura og hafði „farið nokkuð fram úr áætlun.“51 Þá var timburkirkja nýreist á Hvanneyri, er vígð hafði verið á öðrum degi jóla árið 1893. Gamla kirkjan, sem þá mun hafa verið orðin mjög hrörleg, stóð í miðjum kirkjugarðinum, skrifaði Ari Gíslason.52 Er ljóst að það hefur vart verið hentug staðsetning skemmu og geymsluhúss.

Skemman í forgrunni gömlu húsanna á Hvanneyri haustið 2021.

50 Stjórnartíðindi B-deild 1896, 129. 51 Stjórnartíðindi B-deild 1897, 152. 52 Kaupfélagsritið 38 (1973), 32.

Skemman taldist vera 16x12 álnir að grunnfleti. Hjörtur skólastjóri lýsti henni svo í skýrslu skólaársins 1898-1899:

. . . Stafahæð 6 álnir. Húsið er með járnþaki og járnvarið á suðurhlið og vesturgafli, loft er í því öllu og tvö þverþil með treystiviðum skifta því í 3 rúm undir lofti, eitt þeirra (við vesturgafl) er notað sem hjallur og sérstaklega útbúið í þessu skyni. Þrennar útidyr eru á húsinu og 12 gluggar, 2 á norðurhlið og 5 á hvorum gafli.53

Skemman var byggð á hlöðnum grjótgrunni, sennilega steinlímdum strax í fyrstu. Var efnið í hleðsluna fengið úr „einum steini, sem verið hafði í túnbrekkunni. Var honum að mestu sundrað með handverkfærum, enda var efni hans grágrýti (dolerit)“, segir í frásögn Magnúsar Jónssonar og Jörundar Brynjólfssonar, nemenda á þessum árum, sem tóku þátt í verkinu.54 Því miður var ekki gætt að hirðu grjótsins þegar húsið var endurbyggt en það mun þó ekki vera glatað. Timbrið í Skemmuna hefur trúlega verið flutt úr Borgarnesi upp í Ásgarðshöfða eða Heimastokk undan Hvanneyrarbænum á áttæringi eða lagt í flota, eins og venja var á þessum árum, undir stjórn Vigfúsar er síðar bjó á Kvígsstöðum.55

Líklegt er að Skemman hafi gegnt hlutverki í samræmi við nafnið, er við hana festist; að hún hafi verið geymsluhús fyrir áhöld, matvæli og annað sem tilheyrði hinu stóra skólaheimili. Þrennar dyr voru á vesturhlið Skemmunnar, þeirri er sneri út að Tröðinni heim að bænum (Skólahúsinu), benda til margra hlutverka hússins. Við suðurgafl Skemmunnar var síðar reistur hjallur.

Svo gerðist það nóttina á milli 5. og 6. október 1903 að eldur kom upp í húsi Búnaðarskólans. Það brann til kaldra kola sem og nýbyggt hús Mjólkurskólans er stóð suðvestan við skólahúsið og óþægilega nærri því. Stóð þá Búnaðarskólinn uppi án íbúðarhúss. Í skýrslu skólaársins 1903-1904 segir svo:

. . . ekki var völ á öðru húsi til íbúðar en skemmu portbyggðri 16x12 álna, sem innrjetta varð til bráðabirgðaíbúðar. Varð þar að hýsa allt heimilisfólkið 35-40 manns, hafa eldstó og mjólkurmatseld og geyma mikið af matvælum, því annað geymsluhús var ekki til, svo teljandi sje. Í skemmu þessari var búið meir en ár, þó þröngbýlt væri, eða þar til í nóvember árið eptir.56

Þrátt fyrir áfallið gátu nemendur Búnaðarskólans, sem munu hafa verið sjö að tölu, dvalið áfram við „skepnuhirðing og grjótvinnu, en stunduðu líka bóklegt nám sem frekast var auðið eptir ástæðum“, segir ennfremur í skýrslunni. Mjólkurskólinn var hins vegar fluttur til Reykjavíkur þar sem hann var fram á næsta ár, að hann var byggður upp á Hvítárvöllum.

53 Skólaskýrsla Hvanneyrarskóla 1898-1899, 11. 54 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára (1939), 94. 55 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára (1939), 93-94. 56 Skólaskýrsla Hvanneyrarskóla 1903-1904.

Um sama leyti var byggður skúr, líklega áður nefndur hjallur, „við vesturgafl skemmunnar til eldiviðargeymslu 12 álna langur og 10 álna breiður; hæð: 3,5 alin.“57

Eftir bruna skólahúsanna á Hvanneyri var sem sagt ekki í önnur hús að venda því Skemman var eina húsið á staðnum sem þjónað gat sem íveruhús fyrir þennan mannfjölda.

Mikil umræða varð um endurbyggingu búnaðarskólans. Kom m.a. til tals að færa hann til Reykjavíkur. Hefði það verið gert, eins og varð um Mjólkurskólann, er óvíst hvort skólinn hefði verið endurbyggður á Hvanneyri. En Skemman gat hýst heimilisfólkið eftir brunann og þangað til nýtt hús var risið fyrir Búnaðarskólann.

Skemman hélt upphaflegri gerð sinni og hlutverki aðeins í sjö ár. Á ljósmynd frá 1912, einni elstu myndinni sem er til af Hvanneyrarstað, má sjá Skemmuna og Smiðjuna, hvort tveggja virðist ómálað en nálæg hús vel máluð: Skólastjórahúsið, skólahúsið og leikfimihúsið. Ekki er þá að sjá skorstein upp úr þaki Skemmunnar en útidyr þurrkhússhluta hennar standa opnar. Þak eldiviðarskúrsins við suðurgafl Skemmunnar virðist hafa náð upp fyrir gluggaröðina á gaflinum. Samkvæmt lauslegri athugun á ljósmyndum frá Hvanneyri virðist Skemman ekki hafa verið máluð fyrr en um og upp úr 1950.

Þegar Halldór Vilhjálmsson kom að skólanum árið 1907 var þar ekkert leikfimihús. Innblásinn anda danskra lýðháskóla var honum hins vegar í mun að kenna skólapiltum leikfimi. Halldóri varð því fyrir að gera Skemmuloftið að íþróttasal. Eru til myndrænar lýsingar skólapilta á fimleikum og öðrum íþróttum þar, svo og glímum og hólmgöngum en í þeim mátti hver beita þeim brögðum sem honum hentaði, öðrum en bolabrögðum og klækitökum, eins og frásagnir hermdu. Mun þá mjög hafa reynt á loftbita og milligólf hússins. Þessu hlutverki Skemmunnar lauk með tilkomu leikfimihúss Bændaskólans er byggt var handan Traðarinnar árið 1911.

Árið 1939 skrifaði Guðmundur Jónsson að Skemman stæði enn og að húsið væri mjög traustlegt að viðum; það gæti með sæmilegu viðhaldi staðið enn í mörg ár eða áratugi. Reyndist hann sannspár.

Smám saman hvarf Skemman úr iðu skólalífsins og fjölmargir eru þeir nemendur Hvanneyrarskóla sem fráleitt festu þetta látlausa hús í minni sér. Löngum var Skemman líka óhrjáleg að sjá, og lítt um hana hirt, enda ekki auðsætt hvert erindi hún ætti við framtíðina.

Lengstan hluta tuttugustu aldarinnar, og að því er skrifarinn ætlar eftir 1920 þegar rýmkaðist um húsnæði skólans, var hlutverk Skemmunnar það að geyma ýmsa hluti sem voru í mislítilli notkun. Haustið 1993 sagði Guðmundur fyrrum skólastjóri mér að á hans tíð hefði fremur lítill umgangur verið um Skemmuna; hún hefði mest verið notuð sem geymsluhús. Í þeim

57 Skólaskýrsla 1898-1899.

efnum var það hlutverk hennar merkast að hýsa og vernda um langt árabil nokkra af þeim merkisgripum búnaðarsögu áranna eftir 1880 er Guðmundur var svo framsýnn og lánsamur að skjóta þar skjólshúsi yfir í kjölfar stofnunar Verkfærasafnsins á Hvanneyri árið 1940. Verkfærasafnið og gripir þess urðu svo vísirinn að Landbúnaðarsafni Íslands.

Í sögunni leynir Skemman þannig á sér, ekki aðeins fyrir það að vera einn fyrsti „skólaíþróttasalur“ landsins og að varðveita vísinn að Landbúnaðarsafni Íslands. Tilvist Skemmunnar var það að þakka að ekki þurfti að fella niður skólahald á Hvanneyri eftir brunann mikla haustið 1903. Ef til vill varð sú björgun afdrifaríkari en í fljótu bragði virðist því að um það leyti þótti ýmsum að fækka bæri búnaðarskólunum, m.a. vegna lélegrar aðsóknar, og til þess að spara í rekstri þeirra. Þær raddir heyrðust meðal annars eftir brunann að búnaðarskólann skyldi leggja niður á Hvanneyri og flytja til Reykjavíkur.58 Mjög líklega má því þakka Skemmunni það að enn er skólastarf á Hvanneyri.

Er kom fram á tíunda áratug síðustu aldar var séð að eitthvað yrði að gera í málefnum Skemmunnar, því óvarlegt sýndist að treysta eingöngu verndarhendi góðra vætta yfir húsinu. Þeir reyndust þó tryggir hrörnandi viðum þess og veggjum í Skarðsheiðarveðrum og öðrum ógnum daganna. Þó gerðist það vor eitt undir síðustu aldamót að eldur varð laus í Skemmunni í kjölfar fikts óvita er þangað höfðu laumast inn. Snarræði nærstaddra, m.a. úr hópi nemenda, varð til þess að húsið bjargaðist án teljandi skemmda.

Atburðurinn herti á aðgerðum. Bréfaskriftir og fundarhöld hófust. Húsafriðunarnefnd offraði einni milljón króna til endurbyggingar Skemmunnar. Dugði upphæðin nokkurn veginn fyrir launum arkitekts sem nefndin réði til þess að mæla upp húsið og teikna það. Verk arkitektsins fól ekki í sér mikla könnun á sögu hússins. Að hæfilegu skrafi loknu hófu kunnandi smiðir og aðrir vel hæfir handverksmenn endurgerð hússins, með árangri sem fyrirstöðumenn verksins tíunduðu og hrifnir gestir sáu með eigin augum þegar Skemman var tekin í notkun sem Safnaðarheimili sunnudaginn 7. febrúar 2010.

Það er því ljóst að Skemman, eins og við sjáum hana í dag, er töluvert annarrar gerðar en geymsluhúsið einfalda sem reist var árið 1896. Aðalatriðið er samt að húsið hefur fengið nýtt og fullgilt hlutverk. Við endurgerðina hið innra hefur verið reynt að halda til haga einkennum, sem kallað geta fram í hugum gesta hússins tilfinninguna fyrir aldurdómi Skemmunnar og merkilegri sögu hennar.

Að sínum hætti reyndist Skemman, þetta elsta hús skólastaðarins, hinn trúi þjónn í starfi skólans: Skemman var tilbúin og hlutverki sínu fullkomlega vaxin þegar mest á reyndi en hélt sér látlaus og þurftalítil til hlés þar í millum, stundum nær öllum gleymd. Því er myndarleg endurreisn Skemmunnar til nýrra og gefandi hlutverka í vaxandi byggð maklegt endurgjald fyrir langa og dygga þjónustu hússins við stað og skóla.59

58 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára. (1939), 104. 59 Skrifað 16. febrúar 2010 og í ágúst 2011; endurskoðað í desember 2020.

Nýja verkfærahúsið – Gamla Bút

„Ljóti andarungi“ Gamla staðarins á Hvanneyri?

Árið 1963 ákvað Guðmundur Jónsson skólastjóri að reisa fjölnota hús til ýmissa þarfa rannsókna og kennslu við Hvanneyrarskóla. Vélakostur skólabúsins tók æ meira pláss og verkstæðið í Hjartarfjósi uppfyllti ekki lengur kröfur sem kennsluverkstæði. Til skólans hafði líka ráðist ungur og öflugur vélakennari, Pétur Haraldsson. Trésmiður skólans, Haraldur Sigurjónsson, var á hrakhólum með aðstöðu. Verkfæranefnd ríkisins, sem var undir verndarvæng Hvanneyrarskóla, hafði líka ófullnægjandi aðstöðu til vaxandi verkefna sinna svo fátt eitt sé nefnt af því sem kallaði á meira húsrými.

Guðmundur skólastjóri samdi vafningalítið við verktaka á Akranesi um að reisa hús er sett var austan við hlaðið. Þannig luktist hlaðið og varð ferhyrningur markaður af norðurvegg kirkjugarðsins, Halldórsfjósi, gömlu hestaréttinni (Syðra verkfærahúsinu) og hinu nýja húsi, sem fljótlega var farið að kalla Nýja verkfærahúsið. Byggingin var um 500 m2, að mestu á einu gólfi með mikilli lofthæð. Byggt var úr forsteyptum einingum, sem þá þótti nokkur nýlunda, hannað af Björgvin Sæmundssyni verkfræðingi, síðar bæjarstjóra á Akranesi, muni ég rétt. Haustið 1963 unnu Haraldur Sigurjónsson smiður, Þórhallur Þórarinsson rafvirki og fleiri iðnaðarmenn við að innrétta bygginguna með margvíslegar þarfir skólans í huga. Þá um haustið var byggingin tekin í notkun.

Margt í húsinu var smíðað heima á Hvanneyri, m.a. hinar stóru verkstæðahurðir og allur lokubúnaður þeirra. Meira að segja einn miðstöðvarofninn, sem ekki mátti taka mikið rými og enn gerir fullt gagn, smíðaði staðarsmiðurinn Haraldur úr prófíljárni.

Byggingunni var skipt í fjóra jafnstóra hluta: Nyrsti fjórðungurinn varð verkfærasalur Verkfæranefndar ríkisins, nýttur í þágu verkfæraprófana nefndarinnar undir stjórn Ólafs Guðmundssonar. Þá kom salur sem Haraldur smiður Sigurjónsson fékk til starfsemi sinnar en hann annaðist um viðhald og hvers kyns smíðavinnu í þágu skólans. Í þeim fjórðungi var líka kyndiklefinn, en þrenn verkstæðahólfin voru yljuð með olíukyntum lofthitara. Þá kom salur sem notaður var til málmsmíða- og vélfræðikennslu skólans, en einnig sem vélaverkstæði. Þar réði Pétur Haraldsson vélakennari ríkjum. Syðsti fjórðungurinn var innréttaður sem tvær hæðir. Á neðri hæð voru snyrtingar, en þrjú herbergi sunnan gangsins sem inn í hann lá frá hlaðinu. Austasta herbergið fékk Verkfæranefnd en miðherbergið jarðræktarmennirnir Magnús Óskarsson og Óttar Geirsson. Þar fékk einnig inni sennilega fyrsti ritari skólans, hún Hafdís Pétursdóttir, haustið 1965. Fram að þeim tíma má segja að skólastjóri hafi einn annast öll skrifstofustörf fyrir skólann. Varð þetta eiginlegt upphaf að svo til samfelldu skrifstofuhaldi skólans sem ærið hefur vaxið með árunum. Vestasta herbergið var í fyrstu notað sem íbúðarherbergi fyrir starfsmenn skólabúsins. Síðar varð það bókasafn skólans þegar ekki dugði lengur til þess litla herbergið til vinstri við innganginn (en á nyrðri

vegg hans er áðurnefndur heimasmíðaði miðstöðvarofn!). Það herbergi var einnig nýtt sem skrifstofa fyrir starfsmann Bútæknideildar á árunum 1971-1973.

Þarna bjuggu menn strax við þann munað að eitt símtæki var á ganginum fram við skrifstofurnar. Eftir mismunandi hringingum hins handvirka símakerfis, sem þá tíðkaðist, voru menn kallaðir í símann: Verkfæranefnd hafði langa og stutta, jarðræktarmennirnir langa og tvær stuttar, en kennsluverkstæðið langa og þrjár stuttar, muni ég rétt.

Á loftinu urðu til tvær stórar stofur og tvær litlar geymslukompur austast undir súð. Á syðra loftinu var fljótlega komið fyrir fjölritunarstofu skólans, og ekki leið á löngu áður en útibú Kleppjárnsreykjaskóla fékk um nokkur ár inni á nyrðra loftinu sem kennslustofu, fram til vors 1973. Bændaskólinn nýtti rýmið á loftinu líka sem kennslustofu m.a. í verklegri eðlisfræði. Haustið 1972 var afgreiðsluskrifstofu skólans komið fyrir þar á loftinu um tíma. Í suðvesturhorni þar var innréttuð skrifstofa fyrir Ólaf R. Dýrmundsson yfirkennara Framhaldsdeildar, embætti sem stofnað var við skólastjóraskiptin haustið 1972.

Vart er hægt að ímynda sér nú, hálfri öld seinna, hve miklu Nýja verkfærahúsið breytti fyrir kennslu og tilraunastarf á Hvanneyri. Áhöld tilrauna- og rannsóknamanna höfðu verið geymd í hornum og skotum hér og hvar, helst á Fjóslofti og í Syðra verkfærahúsinu. Fagbókasafnið, þótt smátt væri í sniðum þá, bjó við þröngan kost á efnarannsóknastofu skólans á Fjósloftinu, og staðarsmiðurinn var á hrakhólum með áhöld sín og efni, það sem ekki rúmaðist í bílskúr við íbúðarhús hans. Kennarar höfðu skrifstofuaðstöðu heima hver hjá sér.

Með nýja verkfærahúsinu kom hins vegar rúmgott hús þar sem hver hafði sitt, enda virtist svo sem starfið í húsinu tæki brátt að blómstra. Til varð vinnuumhverfi 5-8 starfsmanna. Dró brátt að því að húsið yrði eins konar miðstöð skóla og bús, sem margir áttu leið um, bæði heimamenn og gestir. Starfsmenn voru flestir á líkum aldri – í yngri kantinum – og til varð frjótt og lifandi umhverfi.

Í tímans rás breyttust not hússins. Ýmislegt af því er nú horfið í gleymsku en nefna má nokkur atriði:

Bútæknideild Rala sem tók við starfi Verkfæranefndar, í reynd á árunum 1966-1967, hafði nyrsta salinn til sinna þarfa allt fram til 1992 að deildin fékk eigið hús. Um 1970 fékk deildin einnig „miðsalinn“ svonefnda til ráðstöfunar, enda staðarsmiðurinn Haraldur þá horfinn til annarra starfa, og þarfir skólans á því sviði leystar með aðkomnum iðnaðarmönnum –

oftast verktökum. Vélakennslan var í sínum sal allt til ársins 2003 að henni var búinn staður í vesturenda hins nýja Bútæknihúss. Árið 1987 var Búvélasafninu búin aðstaða í „miðsalnum“. Markaði hún upphaf þess að safnið yrði gestum sýnilegt. Þar var nokkrum merkum gripum safnsins komið fyrir svo sumargestir að minnsta kosti gátu notið þeirra. Verktakafyrirtækið Jörvi hf fékk aðstöðu í Norðursalnum til aðhlynningar stórvéla sinna þegar Bútæknideild flutti í nýtt hús. Þar bjó Jörvi í sambýli við safnhornið um nokkurra ára skeið, og vann fyrir húsleigu með pússun nokkurra forndráttarvéla safnsins o.fl.

Það var svo árið 2003 sem salirnir allir þrír voru lagðir undir Búvélasafnið, síðar Landbúnaðarsafn Íslands. Stóð svo til síðsumars 2014 að safnið var opnað í Halldórsfjósi.

Þótt Nýja verkfærahúsið þætti ekki sterkviðað hefur það sloppið furðanlega vel við áföll í áranna rás. Þó gerðist það í stórvirði, sem gekk yfir Suðvesturland mánudaginn 24. september 1973, að þak hússins stórskemmdist. Ég gríp niður í dagbók mína frá þeim degi:

Við gátum lítið sofið vegna veðurgnauðar. Baromet féll um nær 5 mb/klst um miðnættið, fór niður undir 960 mb . . . Kl. 06.30 komu Kalli (Sig. Karl Bjarnason ráðsmaður) og Ól. Dýrm. (Ólafur R. Dýrmundsson yfirkennari Framhaldsdeildar) og sögðu þakið fokið af verkfærahúsinu. Fór ég þá heim og blasti við ljót sjón: Allar plötur af húsinu, og opið ofan í tóftina. Sem betur fór rigndi lítið. Fljótlega var skotið á fundi MÓ, ÓRD og BG til að ræða flutning verðmæta. MBJ var alveg við rúm (hafði verið veikur). . . Nemendur UBD (Undirbúningsdeildar) og fastafólk hóf síðan flutning alls úr suðurenda, lauk því kl. 17, einnig var rutt til í vélasölum og utan dyra. Járn lá eins og hráviður niður um Engjar og Fit. Sá dálítið á Fjósinu, en á því buldu plöturnar. Minnstu munaði að baggagat austan á Fjósi opnaðist. Hefði það gerst má telja víst að Hlaðan hefði skaddazt. – Tók að rigna undir kvöldið.

Tjónið á Nýja verkfærahúsinu varð verulegt og breytti ýmsu í starfi skólans. Flytja varð meginhluta starfseminnar í syðsta fjórðungi þess út í skólahúsið (Gamla skóla), þar sem rýmkast hafði við flutning skólastarfsins í Nýja skólahúsið (Ásgarð). Upp úr því urðu þær breytingar að kennarar sátu áfram þar úti en starfsmenn Bútæknideildar fengu mest af skrifstofurýminu á neðri hæð syðsta fjórðungsins til sinna þarfa. Er þeir fluttu út í Bútæknihúsið nýja var rýmið lagfært nokkuð og því breytt með þarfir Ullarselsins í huga sem þá flutti inn á neðri hæðina. Ullarselið fékk einnig rými á loftinu til sinna þarfa. Vegna komu Ullarselsins var suðurenda hússins gert nokkuð til góða með einangrun og útiklæðningu. Hafði hann þá látið ásjá af hörðu gnauði sunnanveðra um árabil. Þá má heldur ekki gleyma því að þar á ganginum var póstdreifing fyrir Hvanneyrarstað um árabil, áður en tekið var að bera póst í hvert hús.

Á loftinu, suðurhlutanum, hafði Andakílshreppur síðustu skrifstofu sína, áður en sameinaður var nágrannahreppum. Þar var einnig tölvumaðurinn Bjarki Már Karlsson með fyrirtæki sitt laust fyrir aldamótin (er síðar varð Nepal). Nú síðustu árin hefur Ungmennafélagið Íslendingur haft þar skrifstofu- og geymsluaðstöðu.

Um 1980 kom til álita að stækka húsið til austurs um helming af núverandi breidd m.a. með þarfir Verkfærasafns (síðar Búvélasafns) í huga. Karl Rochsén arkitekt hafið dregið upp hugmynd að einu og samhverfu þaki yfir bygginguna. Til sögunnar höfðu komið styrktarfjármunir til safnsins, m.a. frá búnaðarsamböndum og fleiri aðilum, til eflingar safninu. Voru þeir notaðir til þess að koma upp grunni að stækkuninni, þann er enn má sjá. Hins vegar þraut örendið og framkvæmdir stöðvuðust vegna fjárskorts. Þær voru ekki endurvaktar.

Ýmsir hafa hnýtt í útlit hússins sem og gerð þess – talið það bæði staðarlýti og ónýtt orðið fyrir löngu. Tillögur hafa verið um að jafna það við jörðu svo lóð þess mætti nýta til þekkilegri byggingar. Víst er um það að Verkfærahúsið, sem upp úr árinu 1992 fékk heitið Gamla-Bút, fellur ekki hvað arkitektúrinn snertir að hinum gömlu skólabyggingum á Hvanneyri. Vart er heldur hægt að segja að mjög hafi verið vandað til grunns hússins. Frá náttúrunnar hendi er hann afar erfiður þarna sem mætast mýri og klettaköst Hvanneyrarássins. Byggingarefni hússins og byggingaraðferð eru börn síns tíma, en þó afar athyglisverð tilraun til þess að byggja einfalt og ódýrt fjölnotahús.

Ég er ekki viss um að Guðmundur Jónsson skólastjóri hafi þurft mikinn tíma til þess að skipuleggja bygginguna. Engum var betur ljós þörfin sem hún átti að fylla. Þegar Guðmundur sá möguleika fátækrar ríkisstofnunar til framkvæmda, er alls óvíst að hann hafi þurft meira en eina samræðu við Ingólf landbúnaðarráðherra Jónsson um málið og síðan klárað það í einni ferð sinni á Oddfellow-fund úti á Skaga þar sem voru kunningjar hans er ráð höfðu á svona fjölnotahúsi. Það má fylgja sögunni að þeir reistu einnig annað hús, sömu gerðar en minna, fyrir Andakílsárvirkjun um svipað leyti. Stendur það enn, í góðu standi, fyrst húsa á vinstri hönd þegar ekið er heim að húsaþyrpingunni við Andakílsárfossa.

Þeir áttu oft leið um „Nýja verkfærahúsið“ Ólafur Guðmundsson frkvstj., Guðmundur Jóhannesson ráðsmaður og Magnús Óskarsson tilraunastjóri (ljósm. Sævar Geirsson).

- ooo -

Ég hef fylgst með þessu Nýja verkfærahúsinu allt frá október-byrjun 1963, að ég hóf nám við Framhaldsdeildina á Hvanneyri. Í húsinu átti ég vinnustað um nokkurra ára skeið, auk þess að hafa fylgt því á vegum Búvéla- og síðar Landbúnaðarsafns Íslands. Mér er til efs að önnur bygging á Hvanneyri hafi rentað sig betur en Gamla-Bút. Fyrir því hef ég m.a. þessi rök:

dz Búvélaprófanir Verkfæranefndar og síðar Bútæknideildar Rala spöruðu íslenskum bændum stórfé, sem og bútæknirannsóknir þessara aðila. Raunverulegt leiðbeiningastarf á þessu mikilvæga fagsviði fór líka fram í þessu húsi um langt árabil. Þangað leituðu margir bændur tækniráðgjafar. dz Verkfæra- og vélfræðikennsla skólans fór þarna fram við býsna góðar aðstæður. Ófáir nemendur skólans hafa í mín eyru borið lof á það sem þeir lærðu þarna og varð þeim til gagns síðar í lífinu. dz Metnaðarfullar og umfangsmiklar jarðræktarrannsóknir Hvanneyrarskóla áttu miðstöð í húsinu. Á löngu tímabili var skólinn leiðandi á þessu sviði á landsvísu, t.d. á hinum erfiðu kalárum í kringum 1970. dz Nýja verkfærahúsið gat rúmað grunnskóladeild svæðisins á viðkvæmum tíma (um 1970) þegar tekist var á um að fá heimangönguskóla á Hvanneyri fyrir vaxandi barnafjölda þar í stað heimavistar barnanna á Kleppjárnsreykjum. Varð það upphaf að grunnskóla á staðnum sem haldist hefur síðan. Við það bötnuðu starfsskilyrði barnafjölskyldna á skólastaðnum til muna. dz Hvanneyrarskóli bar gæfu til þess að skjóta skjólshúsi yfir Ullarselið sem bæði hefur skapað fjölda manns í héraðinu vettvang fyrir handverksvörur sínar og dregið þúsundir gesta á staðinn. Má því kalla Gamla-Bút atvinnuhúsnæði fjölda fólks, þótt ekki fari mikið fyrir því. dz Hlutverk hússins í þágu safns um sögu og þróun landbúnaðarins hefur aukið veg skóla og staðar sem ekki þarf að fjölyrða um. Í húsinu hefur Landbúnaðarsafn Íslands orðið til. dz Vegna einfaldrar hönnunar og ódýrs byggingarforms kostaði jafnan sáralítið að breyta byggingunni í samræmi við hinar síhviku þarfir eiganda síns og notenda. . .

Hlutskipti Gamla-Bút minnir um margt á gamlingjans sem kominn er í hornið: Hann er ef til vill ekki mjög ásjálegur lengur og sakir æsku sinnar vita fæstir að hann átti líka sína daga; daga þar sem hann vann verk er urðu grunnur að ýmsu því sem í dag stendur og þykir sjálfsagður hlutur og vart fréttnæmur.

Gamla-Bút getur með nokkru stolti horft til baka til þarfra og fjölbreyttra ævihlutverka sinna. Þann daginn sem hússins verður ekki lengur þörf og stórvirk tæki mola það niður og flytja byggingarleifarnar burtu má ganga út frá því sem vísu að fjarlægð verður fullnýtt fjárfesting. Eftir stendur hins vegar saga, ekki ómerkari en margra annarra húsa þótt fallegri kunni að þykja, saga sem átti sér upphaf, ris og endi í góðum takti við þarfir hvers tíma.60

60 Skrifað í september 2016.