Landbúnaður liðinna tíma - búnaðarsögur úr Þingeyrarhreppi

Page 1

Bjarni Guðmundsson 2022 Landbúnaður liðinna tíma - búnaðarþættir úr Þingeyrarhreppi

Landbúnaður liðinna tíma - búnaðarþættir úr Þingeyrarhreppi, 2022. ISBN 978-9935-25-288-3 https://issuu.com/bjgudm

Öll réttindi áskilin. Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild án skriflegs leyfis rétthafa efnis hennar.

Forsíðumynd: Frá Söndum í Dýrafirði. Ljósm. BG, sem einnig tók flestar ómerktar ljósmyndir í þessari bók.

Uppsetning: Þórunn Edda Bjarnadóttir.

2

Landbúnaður liðinna tíma - búnaðarþættir úr Þingeyrarhreppi Bjarni Guðmundsson 2022

3

Þessi bók er tekin saman í minningu móðurömmu minnar og -afa, þeirra Guðmundu Maríu Guðmundsdóttur (1874-1943) og Bjarna Magnúsar Guðmundssonar (1878-1951), húsbænda á Kirkjubóli í Dýrafirði árin 1909-1943, en þau voru meðal þeirra fáu bænda í Þingeyrarhreppi á síðustu öld sem lifðu svo til eingöngu á landbúskap. BG

4

Efnisyfirlit

I Um búskap Gísla Súrssonar í Haukadal .........................................................................8

Inngangur 9

Gísli Súrsson og uppruni hans 9 Súrdælir setjast að í Haukadal ............................................................................................................................ 10 Sæbólsfjósið og nautgripafjöldinn þar ................................................................................................................ 12 Búhættir í Haukadal ........................................................................................................................................... 14 Selstaða Haukdæla? 16 Blót Haukdæla – korn og öl? 18 Að lokum ............................................................................................................................................................ 19

II Örnefni og aðrar minjar um landbúskap .................................................................... 22

Örnefni og minjar 23 Áveitur, beðasléttur og slægjur 26 Af seljum ............................................................................................................................................................ 29 Af hlöðum........................................................................................................................................................... 31 Ólafarkví á Arnarnúpi ......................................................................................................................................... 34 Silungalækur, Kirkjuauga . . . 39 Örnefnin segja margt . . . 40

III Landbúnaðurinn í Þingeyrarhreppi 1893 – og 1710 ................................................... 42 Úr elstu búnaðarskýrslunni – til samanburðar ................................................................................................... 48

IV Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps 1889-2011 ............................................................... 52

Inngangur 53

Félagssagan skráð .............................................................................................................................................. 53 Árið 1889 ............................................................................................................................................................ 54

Búnaðarfélagið stofnað ...................................................................................................................................... 55

Fyrstu verkefni félagsins 57 Fyrri ræktunarumbætur 59

Framtak í fjárrækt ............................................................................................................................................... 60

Andbyr ............................................................................................................................................................... 62

Tuttugasta öldin gekk í garð ............................................................................................................................... 63

Hvað unnist hafði 65

Ferð Sigurðar búfræðings 1920 66

Félag úr dvala ..................................................................................................................................................... 67 Fengin dráttarvél ................................................................................................................................................ 68

5
Formáli ................................................................................................................................................................. 7

Breytingaskeið – Þingeyrarbændur .................................................................................................................... 71

Búnaðarsjóðurinn 71

Hitamál – Nafnakall 71 Málfundadeildirnar ............................................................................................................................................ 75

Afurðasalan ........................................................................................................................................................ 76 Heimsófriður, dýrtíð en framfarir þó ................................................................................................................... 77

Jarðýtan og skurðgrafan 78

Búvélarnar og áhrif þeirra 81 Breyttir tímar ...................................................................................................................................................... 83 Fræðsla og leiðbeiningar .................................................................................................................................... 84 Stjórnarmannatal ............................................................................................................................................... 86

Af afmælum og viðurkenningum 87 Önnur búnaðarsamtök í hreppnum 89 Búnaðarfélagið rann sitt skeið ............................................................................................................................ 92

V Sandar – kirkjujörðin sem varð búland kauptúnsins ................................................... 94

VI Sauðfjárrækt hreppsbúa og ögn um mjólkurframleiðsluna ...................................... 112

Fjárræktin bjargræðisvegur .............................................................................................................................. 113 Hrútasýningarnar ............................................................................................................................................. 114 Líflambasala – fjárskipti .................................................................................................................................. 119 Sláturhús – Markaðssetning ............................................................................................................................ 120 Mjólkin og markaðurinn í þorpinu 123

VII Leitir og fjallskil í Þingeyrarhreppi fyrr á tíð ........................................................... 128

Inngangur ........................................................................................................................................................ 129 Úthagar og beitilönd ....................................................................................................................................... 129 Fjárfjöldi í hreppnum 130 Fyrirmæli, lög og fjallskilareglugerðir 131

Skipan haustleita og réttarhalds ....................................................................................................................... 134 Göngur – því menn gengu! .............................................................................................................................. 137

Meðferð óskilafjár............................................................................................................................................. 138

Brekkurétt – lögrétt sveitarinnar 140 Yfirlit 141

VIII Af skógarnytjum og trjárækt................................................................................ 142

Skógar á átjándu og nítjándu öld ...................................................................................................................... 143 Skóganot á seinni tímum 144 . . . „ í lundi nýrra skóga“ 145

IX Heimildir .............................................................................................................. 149

6

Formáli

Þeir þættir, sem fara hér á eftir, fjalla allir um landbúskap í Þingeyrarhreppi á ýmsum tímum. Þættirnir gefa þó hvorki samfellt né heildstætt lit yfir söguna. Þeir snúast einkum um tímann frá því að nútíminn, sem svo má kalla, hóf að koma sér fyrir í hreppnum. Frá fyrstu heimildum um mannlíf í sveitinni, á tíundu öld, og til dagsins í daga hefur mannlíf þar breyst, sennilega hvað mest á síðustu öldinni og hálfri betur. Alla tíð hefur þó landið með kostum sínum og takmörkunum verið mikilvægasta undirstaða búskaparins.

Búnaðarþættirnir eru byggðir á ýmsum heimildum, bæði birtum og óbirtum; prentuðum, skrifuðum og munnlegum, auk vettvangsathugana sem ég hef gert vegna þeirra. Þá hef ég í nokkrum tilvikum leyft mér að byggja á eigin minni, upplifun og skynjun. Vegna þáttaformsins koma endurtekningar efnis fyrir. Ég vona þó að þær spilli ekki að ráði. Af sömu ástæðu eru líka göt og skallar á efninu. Við það verður líka að búa.

Tveir þáttanna hafa áður birst á prenti, raunar þrír, en í útgáfu sem fremur lítið fór fyrir. Ég hef endurskoðað þá alla og lagfært eftir þörfum. Þeir birtast því hér breyttir. Við lestur þáttanna er gott að hafa Vestfjarðaritin tvö, Firði og fólk 900-1900 og 1900-1999, við hendina, þ.e. þá kafla þeirra sem fjalla um Þingeyrarhrepp.

Spyrja má um tilgang þessara búnaðarþátta. Flest er breytt. Fátt verður sem var. Af þeim sökum vildi ég bjarga undan frásögnum og nokkurri lýsingu á því hvernig fyrri kynslóðir hreppsbúa höguðu búskap sínum til þess að sjá sér og sínum farborða. Einnig vildi ég varpa dálitlu ljósi á það hvernig þjóðfélagsstraumar og framandi verkhættir fundu sér leiðir og breyttu byggð, atvinnuháttum og öllu mannlífi í sveitinni.

Ýmsir hafa lagt mér efni og lið við gerð þáttanna. Margt af því góða fólki er nú horfið af heimi enda hart nær fjörutíu ár síðan ég hóf að tína saman fyrstu sprekin í þá. Nöfnum þessa fólks hef ég safnað í skrá um heimildarmenn og hjálparhellur. Hún er þó ekki tæmandi. Öllum þeim, nefndum og ónefndum, þakka ég liðveisluna og vona að hér sé flest rétt eftir haft. Ábendingar um annað, sem og fleira varðandi þættina, þigg ég gjarnan. Þórunn Edda Bjarnadóttir braut efnið um og bjó það til þessarar birtingar.

Ég vona svo að lesendur njóti þáttanna, hvort heldur er til fróðleiksauka eða upprifjunar gamalla minninga, og bið þá vel njóta.

Á Marteinsmessu - Hrútamessu - 2022.

Bjarni Guðmundsson

7

Um búskap Gísla Súrssonar í Haukadal

I

INNGANGUR

Gísla saga er elsta heimildin um búskap í Þingeyrarhreppi. Sjálfsagt má deila um áreiðanleik hennar í einstökum atriðum. Staðfræði sögunnar er þó býsna trúverðug og fleira rennir stoðum undir hana. Þegar ég kom til barnaskóladvalar í Haukadal um miðja síðustu öld varð mér fljótlega ljóst að sagan um Gísla Súrsson var mörgum þar hugstæð. Allmörg örnefni skírskota til sögunnar og talað var um helstu persónur hennar eins og fólk er flutt hefði úr dalnum fyrir fáeinum áratugum. Haukdælir höfðu skoðun á sögupersónunum og voru stoltir af mörgum þeirra; höfðu m.a. nefnt ungmennafélag sitt eftir aðalpersónunni, Gísla Súrssyni. Ég komst því ekki hjá því að kynnast sögunni og viðhorfum Haukdæla til hennar. Við þrálestur sögunnar síðar óx hún með mér, einkum sá kafli hennar sem í dalnum gerist. Hin glögga staðfræði eykur trú lesanda á sannleiksgildi sögunnar, og flókinn örlagavefur hennar er hvort tveggja í senn heillandi og harmrænn. Við hverja heimsókn mína í Haukadal rís sagan því upp úr öllu umhverfi þar, flest trúlegt, annað orpið vafa og spurningum en um sumt er sagan steinþögul. Hvernig bjó þetta fólk og hvernig sá það sér farborða og komst af frá degi til dags? Um það á þessi hugleiðing að fjalla. Hún getur þó vart orðið meira en vangaveltur byggðar á sárafáum staðreyndum en mestan part ályktunum dregnum af Gísla sögu svo og öðrum heimildum og almennri vitneskju um náttúrulegar aðstæður og verkhætti á tímum sögunnar.

GÍSLI SÚRSSON OG UPPRUNI HANS

Þorbjörn súrr er sagður hafa komið til Haukadals frá Súrnadal á Mæri í NV-Noregi með stórfjölskyldu sinni, m.a. börnum er við þessa sögu koma: Þórdísi, Þorkatli og Gísla en Ari, er yngstur var kemur ekki við hana. Sagan segir að Þorbjörn hafi búið á bænum Stokkum (Stokke), eins og faðir hans, Þorkell. Má því ætla að um gamalgróið ættarbýli hafi þar verið að ræða. Súrnadalur, með hliðardölum sínum, var og er góðsveit: . . . „ en af de største, betydeligste og frugtbareste Dalstrækninger Nordenfields . . .“ var skrifað um hann á ofanverðri átjándu öld. Þar hafði áin Surna mótað „grøderikt kornland . . .“ og kornrækt hafist tvö þúsund árum fyrir okkar tímatal. Beitilönd í fjalldölum þóttu væn og þar var búfé haldið í seljum á sumrum; kvikfjárrækt var helsta búgreinin: . . . „ jordbruksnæringa i større monn var basert på seterbruket og fedrifta.“1

Þorkell, faðir Þorbjarnar og afi Gísla, sem var hersir, megandi maður í byggð sinni, hafði viðurnefnið Skerauki. Bent hefur verið á að það sé heiðursnefni, gefið dugandi stórbónda: hafi raunar verið Skyr-auki og merkt þann sem eykur skyrmagnið.2 Mjólk sem hleypur, skerst, og mjólkin sker sig, er sagt enn í dag þar um slóðir.3 Sagan um stórbrunann á Stokkum, sem kveiktur var í óvinafagnaði þar í kjölfar ástamála, og heimamenn reyndu að slökkva með sýru er þar stóð í tveimur keröldum, vísar líka til töluverðrar mjólkurvinnslu. Sýrukeröldin benda

1 Hyldbakk, H.: Bygesoge for Surnadal I (1957).

2 Þótt sé e.t.v. ögn úr leið má nefna að mörgum öldum seinna bjó í Yztabæ í Haukadal Hákon nokkur Jónsson. Hákon „var ekki gefinn fyrir sjósóknir, en stundaði búskapinn þess betur . . .“ Það var líklega þess vegna sem „hann var stundum kallaður“ Hákon „bóndi“, skrifaði Ólafur Ólafsson í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga, 4. ár, 1959, 87. Sérstaða Hákonar dugði til nafngiftarinnar, líklega með sama hætti og gerst hafði hvað snerti Þorkel skyrauka.

3 Mogstad, E.: Dei norske stadnamna i Gísla saga. Univ. i Oslo (2003), 11.

9

til mjólkurvinnslu svipaðrar og síðar varð algeng á Íslandi – skyrgerðar og/eða súrsöfnunar. Vafa er hins vegar undirorpið hvort nafnið Súrr, sem Þorbjörn fékk og þeir Súrs-synir, sé frá sýrukeröldunum komið, það kunni allt eins að vera tengt Súrnadal, er dregur nafn sitt af votlendi og súrri jörð ósengja árinnar sem lengi fyrir landris þar voru umflotin sjó.4 Líklega ekki ósvipaðar aðstæður og sjá má til dæmis við engi og ósa Hvítár í Borgarfirði. Komnir til Íslands hafi því Stokka-menn verið nefndir Súrdælir einfaldlega af því að þeir komu frá Súrnadal.

Hverfum samt aftur til Gísla. Hann var sagður . . . „hagr maðr ok iðjumaðr mikill, hógværr í skapi.“ Og á öðrum stað segir . . . „sat Gísli í stofu ok smíðaði“5. Helsta ástæðan fyrir því að Gísli slapp með sínum úr brunanum á Stokkum var að við byggingu bæjarins (sem var stokkahús?) hafði hann komið fyrir hugvitsamlegum flóttabúnaði er . . . „þótti útan að sjá sem heilt væri. . .“ svo opna mátti vegginn með því að hrinda „út stokkinum . . .“ 6

Þegar Gísli, nauðugur viljugur, yfirgefur Súrnadal í kjölfar harðvítugra deilna og stórbrunans á Stokkum má því ætla að hann hafi verið orðinn reynsluríkur framkvæmdamaður til smíða og sennilega einnig til búskapar í ljósi ættarsögunnar á Stokkum og þeirra góðu skilyrða og hvetjandi er þar voru til búskapar frá náttúrunnar hendi. Bent hefur verið á að landþröng hafi einnig ýtt undir leit landnámsmanna að betri afkomumöguleikum og þá sókn þeirra til Íslands.7 Gerðahægð Þorkels bróður Gísla, sem var yngri, og sagan getur um, hefur án efa aukið ábyrgð og annan hlut Gísla við búskapinn. Að öllu eðlilegu hefði Gísli sennilega tekið við föðurleifð sinni á Stokkum enda virðist forystuhlutverkið orðið hans þegar stórfjölskyldan hóf að nema land á nýjum slóðum – í Haukadal við Dýrafjörð.

SÚRDÆLIR SETJAST AÐ Í HAUKADAL

Nokkuð er á reiki hvernig byggð var háttað við Dýrafjörð er skip Súrndæla kenndu þar grunns. „Öll lönd váru þá ónumin á hvárritveggju strönd“ segir sagan, og Þorbjörn Súr . . . „ keypti land á inni syðri strönd, á Sæbóli í Haukadal.“8 Í yngri gerð Gísla sögu segir hins vegar að þá væri . . . „ byggt víðast um Vestfjörðu . . . Byggt var áðr fyrir innan [Haukadals]ána. . .“9 en þar bjó Þorgrímur nef. Landnámabók segir líka: „Þorbjörn súrr kom út at albyggðu landi. Honum gaf Vésteinn Végeirsson hálfan Haukadal.“10 Síðan varð Gísli tengdasonur Vésteins, kvæntist Auði dóttur hans. Það skapaði Gísla áreiðanlega mikilvægari stöðu þar í dalnum en ella hefði orðið, eins og nánar verður vikið að.

4 Mogstad, E.: Dei norske stadnamna i Gísla saga. (2003), 10-11.

5 Íslendinga sögur V, Gísla saga (Y), 110 og 114. Vísað til texta Gísla sögu er Guðni Jónsson bjó til prentunar og Íslendingasagnaútgáfan gaf út, V. bindi (1953), og ómerkt orð innan gæsalappa eru þaðan fengin; (Y) merkir að stuðst er við yngri gerð sögunnar.

6 Íslendinga sögur V. Gísla saga (Y), 118.

7 Kristján Eldjárn: „Hugleiðing um land og þjóð“. Búnaðarblaðið Freyr, LXXVII (1981), 10-11.

8 Íslendinga sögur V. Gísla saga, 8.

9 Íslendinga sögur V. Gísla saga (Y), 121.

10 Íslendinga sögur I. Landnámabók, 105.

10

Hvað sem byggð líður að öðru leyti var fljótlega á blómatíð Gísla í Haukadal getið nokkurra nágranna svo sem Þorkels landnámsmanns á Saurum í Keldudal, Önundar í Meðaldal, Þorvaldar gneista á Þingeyri; einnig var búið í Hólum. Síðan eru það önnur setin býli í Haukadal, dreifð um dalinn: á Nefsstöðum, Orrastöðum, Skammfótarmýri og Annmarkastöðum.11 Á sögunni má einnig skilja að margmenni hafi verið með Súrndælum.

Þótt vopnaburður hafi eflaust verið tamur þeim Súrndælum er næsta líklegt að það hafi einnig verið vel kunnandi bændur sem réðust til búsetu í Sæbóli í Haukadal. Við þeim lá því beinast að taka upp búskaparhætti sem þeim voru tamir úr heimahéraði þegar að því kom að tryggja afkomu fjölskyldu og vinnufólks á nýjum og um margt framandi slóðum . . . „ hér fundu þeir fyrir skilyrði sem gerðu þeim kleift að stunda áfram hefðbundna kvikfjárrækt sína í óbreyttri mynd“, svo gripið sé til orða dr. Kristjáns Eldjárns.12 Nokkur viðbrigði hafa það samt verið að koma úr víðlendi og frjósemi Súrnadals í heldur þröngan Haukadalinn. Flatlendið áttu þó botnar dalanna sameiginlegt sem og fjöll er afmörkuðu þá. Viðbrigðin urðu þó varla jafn mikil og Önundur tréfótur lýsti í vísu sinni:

Hefk lönd ok fjölð frænda flýit, en hitt es nýjast: Kröpp eru kaup, ef hreppik Kaldbak, en lætk akra 13

Og þar sem kallaðist Sæból hófst Þorbjörn þegar handa með fólki sínu, sonunum Gísla og Þorkatli og dótturinni Þórdísi. Gísli, er snemma virðist hafa farið þar fyrir, „vann nótt með degi“; hafði lítið lið af Þorkatli bróður sínum, segir þar, enda skiptu þeir bræður búi sínu bráðlega –. . . „ Gísli hafði bú eftir og saknar engis í, að nú sé búit verra en áður.“14 Nöturlegar mátti vart lýsa búmennsku Þorkels. Gísli, verkmaðurinn, reisti bæ í Sæbóli, en síðar á Hóli, aðeins um 250 m framan við Sæból, og hafði þá þokað fyrir Auði systur sinni og manni hennar Þorgrími goðorðsmanni. Líklega hafði þá þrengst svo um í Sæbólsskála.

11

Sjá uppdrátt; Kristján G. Þorvaldsson: „Vestur-Ísafjarðarsýsla“. (1951), 127.

12 Kristján Eldjárn: „Hugleiðing um land og þjóð“. (1981), 12.

13 Íslendinga sögur VI, Grettis saga Ásmundarsonar. (1953), 19, eða með öðrum orðum: „Eg hefi flúið lönd mín og frændlið, en hitt er mér efst í huga: Það eru kröpp kaup, ef eg hreppi Kaldbak, en missi akra mína.“

14 Íslendinga sögur V. Gísla saga, 20.

11

Í samræmi við fyrri stórbúnað með nautgriparækt á Stokkum reisti Gísli með fólki sínu myndarlegt fjós í Sæbóli: „Þar stóðu þrír tigir kúa hvárum megin“, hermir sagan.15 Um Sæból skráðu Árni Magnússon og Páll Vídalín í Jarðabók sumarið 1710: „Fornt eyðiból skamt austur frá heimatúninu; þar eru girðingar stórar og tóftaleifar miklar, en ekki hefur verið hjer bygð verið síðan í gamallri tíð.“ Segja þeir ennfremur að á sérhverju eyðibólanna í dalnum séu „ . . . ljós byggingamerki af tóftarústum og sumstaðar af túngarðsleifum, nema á Annmarkastöðum, þar er stórt jarðhlaup yfir runnið . . .“16

Hluti uppdráttar Sigurðar Vigfússonar byggður á fornminja-rannsókn hans að Sæbóli í Haukadal hans sumarið 1882, er sýnir skálann þar sem og fjósið. Örin vísar til norðurs.

SÆBÓLSFJÓSIÐ OG NAUTGRIPAFJÖLDINN ÞAR

Sigurður Vigfússon fornfræðingur taldi sig með rannsókn sinni undir lok nítjándu aldar hafa fundið Sæbóls-fjósið og hann staðfesti rými þess: . . . „ er auðsætt, að í fjósinu hefir verið hæfilegt rými fyrir þessar 60 kýr“, skrifaði Sigurður enda hafi það verið fjórstætt.17

„Eg gerði mér mikið far um að ransaka gólf tóttanna,“ skrifaði Sigurður, „því að það sýnir bezt, hvað þær hafa verið.“ Hann gróf því sjö grafir í ætlaða fjóstóft og: „ þar fann eg svarta flekki neðan í öllum hnausunum, í öllum gröfunum nema einni; þetta var því auðsjáanlega vottr af gamalli mykju, sem aldrei getr leynt sér, þó gamall verði í moldinni; og þar sem eg fann þetta hingað og þangað innan um alla tóttina þori eg að fullyrða, að hér sé fundið hið gamla fjós á Sæbóli.“18

Síst er að undra að afkomendur Þorkels „Skyr-auka“ komnir á nýjar slóðir vildu áfram leggja rækt við framleiðslu mjólkurmetis. Myndarleg fjós og fjöldi nautgripa virðast að vísu einkenni

15

Íslendinga sögur V. Gísla saga, 35.

16

Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók. (1940), 39.

17

Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882“. (1884), 16.

18

Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882“. (1884), 19.

12

eldri stórbýla þessara tíma19 en sextíu nautgripa fjós er samt stærra en önnur miðaldafjós hérlend sem rannnsökuð hafa verið.

Tvennt má athuga sérstaklega, þó nátengt. Annars vegar er það stærð fjóssins sem gripahúss en hins vegar gripafjöldinn. Að koma upp sextíu nautgripum tekur nokkurn tíma; rúm í skipum eða eftirbátum leyfði aðeins flutning örfárra gripa yfir hafið, ef til vill einungis 1-2 mylkra og fenginna kúa og 3-5 kvígu- og nautkálfa. Fræðilega er mögulegt að ná þessum gripafjölda upp á fáum árum.20 Það er heldur ekki útilokað að nautgripi til ásetnings hafi Sæbólsbændur einnig fengið frá nágrönnum, í ljósi þess hve byggð virðist hafa verið orðin þétt er þeir komu til Haukadals. Geldneyti munu hafa verið stærri hluti nautgripastofns á þessum árum en síðar varð; þau m.a. notuð til dráttar, svo nautgripastofninn í Sæbóli var því blandaður; sennilega hafa allir kálfar verið settir á. Ekki er óhugsandi að Gísli og félagar hans hafi byggt fjósið með hliðsjón af framtíðarþörfum og með reynslu og hefðir heiman frá Súrnadal í huga; því hafi fjósið verið nokkuð við vöxt allra fyrstu ár stórfjölskyldunnar í Haukadal.

Sigurði Vigfússyni mældist fjósið hafa verið 32 x 18 álnir (um 20 x 11 m) að flatarmáli. Um er að ræða utanmál en gera má ráð fyrir fast að 2 m veggjaþykkt. Hve margir gripir gætu hafa rúmast þar?

Gísli Gestsson rannsakaði fornt fjós að Gröf í Öræfum. Þar reyndist básabreiddin vera tæpur 1 m og lengdin um 1,6 m; flórinn var 0,7 m og þannig var innanbreidd fjóssins 3,4-3,8 m (tvístætt).21 Tæpur möguleiki er á því að fjórstætt hafi gripirnir komist fyrir; til þess hefði þurft 8 m breidd, en fast að 15 gripir hefðu komist fyrir á lengdina. Nautgripirnir, sem þá voru áreiðanlega smærri að vexti en eru nú, voru án efa á ýmsum aldursstigum og vera má að básastærð hafi verið mismunað samkvæmt því. Þá má taka tillit til hugsanlegrar vetrarbeitar þeirra; kunna t.d. fleiri en einn gripur að hafa verið saman á bás en þannig nýttist plássið betur, jafnvel einhvers konar stíu-„bæsing“ gripanna sbr. það að Sigurður fann mykjuleifar . . . „ hingað og þangað innan um alla tóttina. . .“ – hugsanlega þá einhvers konar lausagöngu að hætti síðari tíma.

Stærðirnar má meta á ýmsa vegu en gripafjöldinn samkvæmt sögunni er þó í efstu mörkum þess að hafa getað rúmast í Sæbólsfjósinu er Sigurður taldi sig hafa fundið. En í öllu falli er ljóst að fjósið hefur verið stórfengleg bygging í ljósi þeirra tíma, bygging sem mikils þurfti hvað snerti vinnu og hráefni, þar með talið stórviði í burðarvirki.22

19

Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands IV. (1989), 77.

20 Magnús B. Jónsson búfjárfræðingur hefur reiknað það út fyrir mig að ein kýr geti alið af sér nær fimmtíu nautgripi á tíu árum, hafi öll afkvæmi lifað og öll verið sett á; í samtali 18. janúar 2018.

21 Hér má benda á rannsókn Gísla Gestssonar á fjósinu í Gröf í Öræfum, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. (1959), 36-43.

22 Vísa má til athyglisverðrar frásagnar Þorbergs Steinssonar, sem hann skráði 1. maí 1942 (sjá Örnefnaskrá Hvammur). Í Hvammi segir hann „merki til, að höfðingi hafi búið til forna, bæði stórar bæjarrústir, stórir öskuhaugar, stórt fjós með vatnsleiðslu í, þannig að læk, sem rennur í gegnum túnið, hefur verið veitt í gegnum fjósið, og varð þessa vart nú á síðustu árum, er sléttað var í tóttum þeim.“ Í samtali BG við Garðar Sigurðsson

13

BÚHÆTTIR Í HAUKADAL

Eins og þegar hefur verið ráðið af Gísla sögu virðist mjólkurmeti hafa verið mikilvæg, ef ekki mikilvægasta undirstaða manneldis Súrndælinga, bæði þar eystra sem og eftir að þeir settust að í Haukadal, rétt eins og síðar varð helsta einkenni daglegrar fæðu Íslendinga.23 Sagan studd minjum í Haukadal bendir til þess að nautgripir hafi verið helsti búpeningurinn og mannfjöldinn, sem sagan segir að þar hafi verið, þurfti mikinn mjólkurmat. Rannsóknir sýna enda að á þessum tímum byggðist kvikfjárhald á nautgripum öðrum fremur.24

En eitt er að reisa sextíu kúa fjós og annað er að sjá þeim bústofni og öðru kvikfé fyrir nauðsynlegu fóðri. Þar kom til sumarbeit, heyskapur vegna vetrarfóðurs og ef til vill einnig takmörkuð vetrarbeit. Hagstæðara veðurfar og ráðandi búnaðarhættir geta þó hafa gert hana drýgri en ætla mætti af seinni tíma reynslu. Ganga má út frá því að sumarið með gróanda sínum hafi eins og allt fram á síðustu öld verið tími framleiðslu og verkunar mjólkurmatarins; veturinn var tími takmarkaðrar viðhaldsfóðrunar húsdýranna með lítilli (mjólkur)framleiðslu. Innistaða nautgripa í hinu stóra Sæbólsfjósi kallaði þó á umfangsmikla heyöflun. Gísli „vann nótt með degi“ og „lét alla menn vinna heyverk“ segir á einum stað. Heyin voru Gísla dýrmæt eins og ráða má af viðbrögðum hans er af tók aðra síðu þaksins á Hólsbænum í SV-stórviðrinu haustið þegar Vésteinn bóndi á Hesti í Önundarfirði gisti Haukadal með sögulegum afleiðingum. Stórvirði af suðvestri eru vel þekkt í Haukadal en það er ein varhugaverðasta vindáttin þar og í nágrannadölum: . . . „ Gísli fór ok nær allir mennirnir með honum til heyjanna, at duga við þeim.“25 Þá hefur auðsýnilega verið búið að bera upp hey sumarsins til vetrargeymslu í útihey eða dyngjur sem svo voru nefndar þar í sveit á síðustu öld. Vésteinn, þá gestur að haustblóti í Haukadal, bauð aðstoð sína en Gísli þáði hana ekki. Vésteinn hefði betur gert það því þá hefði hann sennilega sloppið undan launmorðingjanum er vó hann á meðan heimilismenn á Hóli sinntu heybjörgunarstörfunum.

Lítið vitum við um heyskaparhætti eða heyskapar-amboð Haukdæla. Gísla saga greinir frá húskörlum Þorvarðar í Holti í Önundarfirði er „hjuggust með ljám“. Vésteinn, á leið sinni til haustblótsins í Haukadal, skildi þá að og stillti til friðar þar í slægjunni. Gætu húskarlarnir þá hafa verið við síðbúinn heyskap fyrir húsbónda sinn á engjablettunum kringum selið frá Holti, sem enn má sjá á Bjarnardal. Má ætla að ljáir hafi því einnig tíðkast í Haukadal enda þeir hið forna uppskeruáhald í Norðurálfu en það er önnur saga. Sambærilegur haustheyskapur við sel kann einnig að hafa verið stundaður í Haukadal.

frá Neðsta-Hvammi 10. ágúst 1980 nefndi hann að við jarðvinnslu vegna túnasléttunar í Hvammi hefðu komið í ljós hleðslur sem vöktu grun um allstórt fjós, m.a. hellur á milli bása. Ekkert frekar var gert með þær minjar. Ég bar frásögnina undir Lárus Hagalínsson frá Bræðraparti í Hvammi er svaraði með tölvubréfi 19. apríl 2018: „Ég get því miður engu bætt við frásögn Garðars um hin fornu fjós í Hvammi, [öðru en því] sem maður heyrði sem barn/unglingur af vörum eldra fólks, að í ljós [hefði] komið fornt Fjós við jarðrask vestan við „Flötina,“ Bæjarhólinn [í Mið-Hvammi] “. . . Þá gefa fornleifarannsóknir bendingar um allstórt miðaldafjós í Kjaransstaðakoti, innan við Kjaransstaði, skv. Margréti Hallmundsdóttur fornleifafræðingi, í samtali við BG 22. júlí 2019. 23 Hallgerður Gísladóttir: Íslensk matarhefð. (1999), 53-54. 24 Øye, Ingvild: „Utmarka i vestnordisk perspektiv“. (2012), 68. 25 Íslendinga sögur V. Gísla saga. (1981), 26.

14

Gætu skáli og fjós í Sæbóli hafa litið svona út?! Alger í-mynd mín byggð á uppdrætti Sigurðar Vigfússonar frá 1882 af tóftum bygginganna.26

Sextíu nautgripir, og þó eitthvað færri væru, kröfðust mikils fóðurs bæði með beit og vetrarfóðri. Má vera að útiganga nautgripa, meiri en síðar tíðkaðist, hafi heppnast, m.a. í ljósi sagna um Haukadalsskóga27. Miðað við lágmarks vetrarfóðrun, 10-20 hestburði á grip (1000-2000 kg) að hámarki, hefur þurft um 20 x 60 = 1200 hestburði til vetrarfóðurs gripanna í Sæbólsfjósi. Það svarar til heys af að minnsta kosti 40 hekturum vel sprottins úthaga, en það slagar upp í samanlögð tún ræktunaraldar í Haukadal saman talin. Hafa því varla margir engjablettir verið óslegnir í Haukadal, eða hagar óbitnir á þeim árum. Mikinn mannafla hefur einnig þurft til heyöflunarinnar. Hér má minna á Vatnið, er Haukdælir nítjándu aldar nefndu svo28, Seftjörn í Haukadal, en það gaf 40-50 hestburði af kúgæfu starheyi árlega. Gísla saga, eins og Haukdælir síðustu aldar29, kallar það sef en það nýttist Gísla er hann fór hina örlagaríku hefndarför til Sæbóls í skjóli myrkurs og vó Þorgrím mág sinn.30 Sef virðist hafa verið notað sem eins konar teppalögn á skálagólfið í Sæbóli. Sú notkun þess bendir a.m.k. ekki til fóðurskorts í Sæbólsfjósi.

Sagan og minjarnar benda til þess að fyrstu árin a.m.k. hafi lífsbarátta Súrndæla í Haukadal einkennst af eindrægni og samstöðu stórfjölskyldunnar undir forystu dugnaðar- og hagleiksmannsins Gísla, sem auk þess hefur haft styrka stöðu í byggðinni vegna venzla, verandi

26 Höfunda/umráðamanna mynda er jafnan getið í myndatextum; ómerktar myndir eru frá BG.

27

Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882.“ (1884), 29.

28 Ólafur Ólafsson: „Nokkur atriði úr Gísla sögu Súrssonar.“ (1954), 75-81.

29 Kristín Jónsdóttir frá Vésteinsholti í tölvubréfi til BG 7. janúar 2018. Knútur Bjarnason (1917-2013), er dvaldi sem barn nokkra hríð í Árholti í Haukadal vegna skólagöngu, heyrði einnig nafnið vatnstaða notað um sefið af tjörninni.

30 Íslendinga sögur V. Gísla saga. (1981), 35.

15

tengdasonur Vésteins, eiganda Haukadals. Líklega hefur þröngbýli, auk atgervismunar Gísla og Þorkels, bróður hans, auk tilkomu mægða við Þorgrím, ýtt undir það að hann reisti bæ á Hóli. Sá bær lá hins vegar aðeins örskots veg, um 250 m, frá Sæbóli. Tæpast hefur því verið um að ræða nýtt (lög)býli sakir hins takmarkaða landrýmis, miklu frekar „viðbótarhús á jörð“ svo líkt sé við nútímann. Því er reist sú tilgáta að Gísli hafi áfram staðið fyrir rekstri hins stóra bús í Sæbóli enda enn ekki vitað til mikilla gripahúsa á Hóli. Hins vegar lifðu í Haukadal munnmæli, studd óljósum minjum, um smiðju Gísla á Miðhól31 sem er skammt undan Hóli og upp af Sæbóli.

SELSTAÐA HAUKDÆLA?

Mikill heyskapur Gísla og þeirra Haukdæla þótt ekki væri nema vegna Sæbólsfjóssins þrengdi beitarkosti heimavið sem og slægnaþörf annarra býla í dalnum; það fólk þurfti líka að komast af með nokkurn búskap. Hvernig gæti Gísli hafa komist af með hinn stóra bústofn?

Gróðurlendi Haukadals hefur sýnilega þurft að nýta til hörguls með slægjum og beit að ekki sé nú gleymt skóginum sem sagan greinir frá. Varla hafa þó Haukadalsskógar verið miklir beitarskógar að því er sagan hermir: . . . „ heldr ógreiðfært [var] um skóginn“32 og þá ekki síst nautgripum. Ekki skal útilokað að leitað hafi verið eftir slægjum út fyrir dalinn þótt engar frásagnir séu um það. En Gísli hefur kunnað annað ráð, ráð sem beitt var á heimaslóðum hans í Súrnadal. Það var að hafa málnytupening í seli um hásumar. Selför var eldforn búskaparháttur sem þróast hafði upp úr hjarðbúskap þar sem fólk reikaði um með hjarðir sínar eftir hentugum beitilöndum á hverjum tíma. Með seljum mátti nýta beitilönd í nokkurri fjarlægð frá bæ yfir hásumarið og hlífa um leið heimalöndum (slægjum og akurlendi) fyrir beit og öðrum ágangi búsmalans. Þótt slíkir úthagar virtust fjarstæðir í þrengsta búskapar-tilliti gátu þeir verið búunum – heimilunum – miðlæg verðmæti þegar horft var til heildarhags þeirra.33

Á dögum Ólafs konungs Haraldssonar er getið um seljabúskap á Suður-Mæri í Noregi og má því ætla að hann hafi verið útbreiddur. Í Súrnadal lágu selin uppi í hlíðabrúnum dalsins, flest í svo sem „fjerdings“ fjarlægð frá bæ, en það er um 2,8 km vegalengd (fjórðungur). Selin voru talin vera jafngömul bæjunum sem þau tilheyrðu. Góð selstaða ásamt slægjulandi heima fyrir töldust eftirsóknarverð verðmæti, „store herlegdomar“.34 Fornsögur geta um sel og selfarir norrænu nýbúanna hérlendis, sbr. frásagnir Laxdælu um selin í Sælingsdal og í Vatnshorni í Skorradal.35 Þeir fluttu verktæknina með sér. En hvar gæti Gísli Súrsson og þeir Haukdælir hafa haft búpening sinn í seli?

31 Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882.“ (1884), 21.

32 Íslendinga sögur V. Gísla saga. (1981), 47.

33 Ingvild Øye orðar þetta þannig: „Det som fra en snevrere jordbrukssynsvinkel kan oppfattes som marginale områder, kunne være sentrale i et videre økonomisk perspektiv“, sjá Øye:„Utmarka i vestnordisk perspektiv,“ (2012), 52.

34 Hyldbakk, H.: Setrane i Surnadal. Útg. höfundar (1998), 7-9. Ennfremur eftir sama höfund: Bygdesoga for Surnadal II. Surnadal kommune. (1957), 218.

35 Íslendinga sögur IV. Laxdæla saga. (1981), 169-173 og 189-199.

16

Þótt komin séum út á þunnan ís er freistandi að fylgja þeirri tilhneigingu, sem jafnvel má kalla reglu, um að hefðir og venjur eigi það til að berast lítt breyttar á milli ótrúlega margra kynslóða á sömu slóðum. Gjarnan er tilhneigingin/reglan þá byggð á mannlegum frumþörfum sniðnum að aðstæðum, náttúrulegum og/eða félagslegum: Að sömu þarfir leiði til sömu eða svipaðra lausna.

Minjar um selstöðu er enn að finna í Haukadal, selstöðu sem sögð er hafa verið lögð niður árið 1828.36 Enginn veit hve gamlar þær minjar eru að stofni til. Ólafur Ólafsson, lengi skólastjóri á Þingeyri, sem staðkunnugur var í Haukadal enda fæddur þar og upp alinn, áleit að Annmarkastaðir Gísla sögu hafi verið þar sem síðar stóð Selið37, rétt framan við Þverá er fellur fram úr Lambadal en hann gengur til vesturs úr Haukadal um miðbik hans (sjá mynd á bls. 11). Til gamans má geta þess að fjarlægðin heiman frá Sæbóli og fram að Seli er einmitt „fjórðungs“-vegur, 2,8 km, hvort sem þar er um að ræða súrndælska meðalreglu um lengd seljagötu eða hreina tilviljun. . .

Athuganir á minjum um selstöður við Dýrafjörð38 sýna að skipulag þeirra í landinu fylgir mjög skýrri reglu: Selin voru sett á framdölum og undra oft má draga tvo jafnstóra hringi, er snertast, með miðpunkta annars vegar við heimabæinn en hins vegar í selstöðu viðkomandi bæjar. Þekja hringarnir þá mestan hluta af gróðurlendi þeirrar jarðar. Gróðurlendið skiptist þannig í heimaland og úthaga (sellandið).39 40 Með því móti mátti lágmarka rekstur með málnytupening og aðra fyrirhöfn en hámarka nýtingu landsins til beitar og slægna með hætti sem Súrs-feðgum var án efa tamur úr heimahögum þeirra í Súrnadal. Reglan fellur prýðilega að Haukadal. Vel er grösugt kringum Selið svo maklega kann engjaheyskapur að hafa verið stundaður þar líkt og Vésteinn kom að hjá Holtsseli á Bjarnardal á leið sinni til hins örlagaríka veturnáttablóts í Haukadal.

Og fleira kann að styðja tilgátuna um að selstaðan hafi verið á Annmarkastöðum: Þar bjó ekkjan Auðbjörg með syni sínum Þorsteini. Hann var sagður nær jafnsterkur Gísla og þeir „jafnan sér í leik“. Í átakadeilum Haukdæla skaut Gísli skjólshúsi yfir Þorstein og kom honum raunar undan er óvinir vildu sækja að honum.41 Af því má ráða að góður vinskapur hafi verið með Gísla og mæðginunum á Annmarkastöðum og ef til vill hafa þau búið þar undir verndarvæng hans. Sagan greinir ekki frá öðrum sambærilegum þar í dalnum. Það skyldi þó ekki vera að vinskapurinn hafi átt staðfestu í (fyrstu?) selstöðunni þar; að mæðginin hafi verið selfólk Gísla en haft þar fasta búsetu?

36

Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 58.

37 Ólafur Ólafsson: „Nokkur atriði úr Gísla sögu Súrssonar.“ (1954), 78.

38 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður í Dýrafirði“. (2020).

39 Bjarni Guðmundsson: „ef vaxinn ertu hrjóstrum þessum af.“ (2012), 95-103.

40 Daugstad, Karoline: Mellom romantikk og realisme – om seterlandskapet som ideal og realitet. (1999), 283352.

41 Íslendinga sögur V. Gísla saga. (1981), 42.

17

Hér má líka auka því við að frammi á Haukadal fann Sigurður Vigfússon fornfræðingur minjar um voldugan garð um dalinn þveran: „Mun garðrinn vera fornmannaverk, og hefir verið hlaðinn upp í hlíðar báðu meginn . . .“42 Leifar garðsins eru enn vel sýnilegar frammi þar sem heitir í Ártungum þó horfnar séu úr hlíðum beggja megin hafi garðurinn náð svo langt. Garðurinn hefur sýnilega verið töluvert mannvirki því leifar hans eru 2-3 m á breidd og allt að 0,8 m á hæð. Framan hans og uppi á Koltursdal gæti geldgripum verið haldið43 en á dalnum eru dágóðir hagar, einkum til haustbeitar, sem og skjólsælt, segir vel kunnugur heimamaður.44 Þar gæti því hafa verið þriðja deilingin í landnýtingu dalsins, þ.e. heimaland, selland og geldneytaland. 45

Þegar horft er til landshátta og landkosta í Haukadal og hugmynda um nýtingu þeirra virðast nokkur líkindi með honum og Súrnadal: Flatlent heimaland, kyrrlát á fellur til sjávar, beitiland á framdölum til selstöðu og fjalldalir til geymslu geldpenings þótt allt umhverfi í Haukadal hafi verið þrengra og gróðurfar markað af svalara veðurfari. Ýmislegt kann því að hafa minnt Gísla og aðra Haukdæli á fornar heimaslóðir og auðveldað þeim að halda áfram fyrri búskaparháttum.

BLÓT HAUKDÆLA – KORN OG ÖL?

Þann 25. maí 2018 skoðaði ég leifar garðsins. Þær eru enn vel sjáanlegar þar í Ártungum (N 65°50,652; V 23°38,864). Gróður á garðsleifunum sker þær frá umhverfinu. Garðsleifarnar eru um 3 m á breidd og hnéháar, þar sem þær eru gleggstar. Augljóslega hefur garðurinn því verið efnismikill á sínum tíma. Í honum eru stórir hleðslusteinar svo vandað hefur verið til verks.

En fleira þurftu Haukdælir sér til uppheldis en mjólkurmatinn. Í Gísla sögu fer töluvert fyrir frásögnum af blótum þeirra, drykkjum og ölærum mönnum. Þær vekja spurninguna um áfeng drykkjarföngin, hvaðan eða hvernig fengin voru? Ekki glöddu þeir gesti sína með kaffi svo mjöður af einu eða öðru slagi var því það sem gestum var borinn og eflaust af metnaði bæði hvað snerti magn og gæði.

„Víst er að landnámsmenn hafa reynt allt sem hægt var til að rækta korn í hinum nýju heimkynnum“, skrifaði Jónatan Hermannsson og áfram:  „Vafalaust hafa þeir samt orðið fyrir vonbrigðum með kornþroskann því að sumarhiti er hér 3-4 °C lægri en á heimaslóðum þeirra.  Í Eiríkssögu rauða er átakanleg saga af óyndinu sem sótti á húsbóndann þegar leið að jólum og hann átti ekkert korn til að brugga úr jólaölið.“46

Í vestnorrænum miðaldabúskap var akuryrkja nauðsynleg vegna daglegs framfæris og hún gaf mikilvægan hluta orku daglegrar fæðu.47 Mjög er því sennilegt að Haukdælir hafi að hætti

42 Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882.“ (1884), 28.

43 Sagnir eru um slíka skipan í nágrenni Haukadals, t.d. í landi Hrauns í Keldudal, sjá Örnefnaskrá Hrauns, og á Nesdal frá Ingjaldssandi.

44 Kristján Gunnarsson bóndi frá Miðbæ í Haukadal í samtali við BG 28. maí 2018.

45 Hér má minna á örnefnið Geldingadalur sem m.a. kemur fyrir við svipaðar aðstæður á Keldudal.

46 Jónatan Hermannsson áður tilraunastjóri LbhÍ á Korpu í greinargerð til BG 17. maí 2019.

47 Øye, Ingvild: „Utmarka i vestnordisk perspektiv“, (2012), 51.

18

forfeðra sinna, bændanna heima í góðsveitum Súrnadals, að minnsta kosti reynt að rækta bygg í þessum tilgangi eða aðrar jurtir er gefið gátu kolvetni til ölgerðar. Einnig má vera að grautar og öl hafi verið unnið úr aðfengnu korni, til dæmis keyptu af farandkaupmönnum á vorþingum.48

Í rækilegri greiningu fornra heimilda fann Björn M. Ólsen ekki marga kornyrkjustaði á Vestfjörðum en benti á að örnefni þar gætu tengst kornyrkju, eins og Garðar og Tröð; sagði þó örnefni „fá og engin óræk“.49 Ólafur Olavíus fann samt leifar fornra akra, „fyrir komið að hinni fornu akuryrkjuvenju“, að Kollsá í Grunnavík.50 Hafi menn getað ræktað korn þar, ætti það við sama stig verkþekkingar einnig að hafa lukkast í Haukadal, enda taldi Olavíus Dýrafjörð meðal fimm vænlegustu staða í Ísafjarðarsýslu(m) vildu menn gera tilraunir til kornræktar.51

Tilraun með ræktun byggs á Vestfjörðum var gerð sumarið 1998: „Mjög kom á óvart góður þroski korns í Dýrafirði og á Rauðasandi“ sagði í skýrslu um hana.52 Ekki hefur þó enn spurst til neinna kornyrkjuminja í Haukadal eða nágrenni hans né heldur er vikið að kornyrkju í sögu Gísla. Vel mætti samt kanna þennan þátt nánar. Nefna má að Gísla saga er heldur ekki margorð um sjósókn eða sjávargagn. Við sögu í framhjáhlaupi kemur að vísu „fiskistöng“ Önundar í Meðaldal en fátt annað. Þarf það ekki að þýða það að sjósókn hafi verið lítill þáttur í lífi Haukdæla. Hugsanlega getur það þó hafa skipt máli að Súrnadalur er við fjörð langt inni í landi, þar sem afkoman byggðist meira á jarðyrkju og kostum gróðurlendis með nýtingu þeirra heldur en útræði; að sjósókn hafi ekki verið Súrndælum mjög töm.53 Þótt áin Súrna og Haukadalsá séu ekki sambærilegar kann sú síðarnefnda samt að hafa orðið Gísla og hans mönnum nokkur búbót.

AÐ LOKUM

Árétta verður að hér er aðeins um vangaveltur að ræða byggðar á misskýrum (eða óskýrum) bendingum. Helstu þætti þeirra má draga saman þannig: dz Þorbjörn og þeir Súrssynir komu úr góðsveit Súrnadals þar sem afkoma byggðist öðru fremur á nýtingu lands með kvikfjárrækt við grónar verkhefðir. Fjölskyldan hörfaði undan ófriði en hugsanlega einnig landþrengslum og skorti á olnbogarými. Gísli var dugandi og hagur eljumaður af góðum bændum kominn enda hafði Þorkell afi hans fengið viðurnefnið Skyr-auki.

48 Hér má minna á frásögn Fóstbræðrasögu er Jöður Klængsson á Skeljabrekku í Andakíl fór „út á Akranes at mjölkaupum“ svo sem frægt varð. Má vera að á Akranesi hafi menn ræktað korn og selt, örnefnið ýtir a.m.k. undir þá hugmynd (Íslendinga sögur V, 206). Svo kann einnig að hafa verið á fleiri stöðum.

49 Björn M. Olsen: „Um kornyrkju á Íslandi til forna“. (1910), 121-125.

50 Ólafur Olavíus: Ferðabók I. (1964), 159.

51 Ólafur Olavíus: Ferðabók I. (1964), 174.

52 Hólmgeir Björnsson og Þórdís Anna Kristjánsdóttir (ritstj.): „Jarðræktarrannsóknir 1998“. (1999), 63. Áréttað í tölvubréfi Jónatans Hermannssonar til BG 21. júní 2018.

53 Hér er tekið mið af byggðalýsingu H. Hyldbakks: Bygdesoge for Surnadal I.

19

Gísli virðist, bæði sakir eigin verðleika en einnig vegna vensla sinn, hafa orðið forgöngumaður þeirra Súrndæla í daglegri lífsbaráttu er í Haukadal kom, sem í fyrstu virðist hafa verið mjög eindræg en síðan raknað upp í misklíð og morð. dz

Kominn til Haukadals tók Gísli með sínum að nýta dalinn til framfærslu með líkum verkháttum og hann hafði vanist í uppvexti sínum í Súrnadal – of hið sama far. Þrönga landkosti við mikla matvælaþörf mátti bæta upp með selför – skipulegri úthaganýtingu sem fólkið kunni full skil á frá fyrri heimkynnum. dz

Að reisa sextíu kúa/nautgripa fjós í Sæbóli sýnir mikla og inngróna búnaðarkunnáttu og bendir til þess að mjólkurmatur hafi verið meginuppistaða fólksins, svo sem síðar varð Íslendinga um aldir. Hinn stóri bústofn krafðist mikillar elju við heyöflun.

dz

Stærð fjóssins samkvæmt fornleifarannsókn Sigurðar Vigfússonar árið 1882 svo og tímgunargeta nautgripa varpar nokkrum efa á þann nautgripafjölda sem Gísla saga getur um; hann er í efri mörkum þess líklega.

dz

Giskað er á að selstaða Gísla hafi verið sú er síðar stóð um aldir í Haukadal. Ennfremur að selstaðan, á einu eða öðru formi, hafi verið Gísla og fólki hans hvað traustasta undirstaðan til öflunar matvæla til daglegra þarfa um ársins hring; að vel fylltir skyr- og sýrusáir eftir nytgóð sumur hafi bjargað lífi Haukdæla oftar en aðeins í stórbrunanum þar austur í Súrnadal.

dz

Skipting landsins í heimaland, selland og geldingahaga, sem bent er á, gæti verið helsta skýringin á því að stunda mátti stórbúskap að þeirrar tíðar hætti í Haukadal.

Vakin er spurning um hugsanlega akuryrkju til kornræktar í Haukadal í ljósi tíðra blóta og annarra mannfagnaða þar er kölluðu á ríkuleg ölföng. dz

dz

Frásagnir Gísla sögu benda til afar mikils þröngbýlis í Haukadal. Þótt ástamál hafi verið áhrifamikil undirrót deilna sem alvarlegar afleiðingar höfðu, er ekki ósennilegt að nágrannaerjur vegna karps um landkosti og landnýtingu hafi einnig kynt undir óeiningu og ófriði þar í dalnum. dz

Þótt kominn væri í framandi umhverfi gat Gísli með dugnaði sínum, arfborinni og traustri verkþekkingu úr heimasveit sinni í Súrnadal séð sér og sínum farborða uns flýja varð úr Haukadal undan grimmum örlögum og óvinum sem settust um líf hans. dz

Því verður ekki betur séð en að Gísli Súrsson hafi fyrst og fremst talist til dugandi og iðjusamra bænda sem . . . „þaulkunnugir [voru] blönduðum búskap . . .“, rétt eins og

20
dz

Kristján Eldjárn, fyrrum forseti vor, sagði þorra landnámsmanna raunar hafa verið.54 Félagslegar aðstæður ófu hins vegar grimm örlög er urðu tilefni hinnar magnþrungnu frásagnar sem öðrum fremur skóp sögudalinn Haukadal.55

Þakkir Kristínu Jónsdóttur frá Vésteinsholti í Haukadal, áður kennara við MR, þakka ég kærlega fyrir yfirlestur greinarinnar á vinnslustigi svo og fyrir gagnlegar ábendingar um efnið og atriði þess sem betur máttu fara. Sömuleiðis þakka ég Magnúsi B. Jónssyni á Hvanneyri, Jónatan Hermannssyni frá Galtalæk og Sigrúnu Guðmundsdóttur á Kirkjubóli liðveizlu, sem og Kristjáni Gunnarssyni frá Miðbæ í Haukadal. Sérstakar þakkir fær svo Steinar Hasselø bókavörður við Bókasafnið í Súrnadal fyrir verðmæta aðstoð við útvegun heimilda þaðan (http://www. mrbibliotek.no/surnadal )

54 Kristján Eldjárn: „Hugleiðing um land og þjóð“. (1981), 10-11. 55 Ritgerðin birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 2019. 57 (2019), 9-26. Hér hafa verið gerðar á henni minni háttar breytingar.

21

II

Örnefni og aðrar minjar um landbúskap

Um miðbik tuttugustu aldar voru skráð örnefni á öllum jörðum í hreppnum, tuttugu og einni að tölu, auk Þingeyrar. Að stofni til var það verk Ara Gíslasonar í samvinnu við kunnuga heimamenn á hverri jörð. Síðar voru margar skránna endurskoðaðar og endurbættar. Í skránum er getið fjölda örnefna sem beint eða óbeint tengjast landbúskap. Sum þeirra vísa til minja sem taldar voru sýnilegar á þeim tíma þegar örnefnaskrárnar voru gerðar.

Hér á eftir verður fjallað um nokkur þessara örnefna og þá helst þau sem sögð eru tengjast sýnilegum minjum. Tekið skal fram að ekki er um tæmandi umfjöllun að ræða, enda líklega seint sem svo getur orðið.

ÖRNEFNI OG MINJAR

Í aðalatriðum tengjast búskaparörnefnin tvennum starfa fyrri kynslóða: Sauðfjárhaldi með einum eða öðrum hætti, þar með talið beit, annars vegar, en hins vegar heyskap. Fyrri flokkurinn er þó mun stærri. Sauðfé og afurðir þess voru kjölfestan í lífi hreppsbúa allt fram á tuttugustu öld. Sauðland var sagt vera gott í dölum við Dýrafjörð „enda leggja menn hér meira kapp á sauðfjárrækt en nautgripa“, skrifaði Olavius á átjándu öld.56

Síst er því að undra að örnefnin stekkur og sel séu skráð á þorra jarðanna. Raunar má telja víst að stekk hafi verið að finna á flestum ef ekki öllum jörðum og þá fleiri en einn á fleirbýlisjörðunum, þótt örnefnið hafi ekki varðveist og minjar séu horfnar. Rétt er að gera greinarmun á stekk og kví. Stekkurinn er mjaltastaður með lambakró. Það form má t.d. sjá á stekkum Arnarnúps og Kirkjubóls. Kví var aðeins mjaltastaður og þá oftast nær bæ en stekkurinn, kallaður kvíaból. Á Brekku voru þrír stekkir, einn fyrir hvert býli, segir í örnefnaskrá, kallaðir ból. Sama var í Haukadal: Þrír stekkir, jafnmargir gömlu býlunum þar. Stekkjar-heitið, eitt sér eða sem hluti örnefnis er að finna á 17 jörðum.

Stekkur á Kirkjubóli; einfalt málsett riss. Við hlið kvíarinnar var lambakró. Talið er að stekkurinn hafi verið notaður fram á fyrsta tug tuttugustu aldar.

Örnefnið sel, eitt eða sem hluti örnefnis, er að finna á 16 jörðum. Um selin í sveitinni, raunar firðinum öllum, hefur sérstaklega verið fjallað á öðrum stað.57 Þeirra verður því aðeins getið stuttlega og þá í kafla hér á eftir. Þær minjar sem bera örnefnið sel eru mjög mismunandi að íburði – allt frá einföldum mannvirkjum, með kví og hugsanlega litlu skýli til tófta af nokkrum húsum þar sem sýnilega var dvalið um lengri tíma.

Jafn algengt örnefninu seli er örnefnið ból – eða bæli. Aðeins í 2-3 tilvikum kemur bæli fyrir í samsettu orði, sem kvíaból. Má ef til vill túlka það svo að það hafi verið staður þar sem búsmali bældi sig, lagðist til hvíldar, en sjaldnast mjaltastaður. Því til stuðnings má líka nefna örnefnið stöðul. Það kemur fyrir á einni jörð – í Höfn – og þar er einnig nefnt ból. Útbeit á vetrum var mikilvægur þáttur sauðfjárhalds fyrri tíðar. „Beitarhús eru sumstaðar höfð á vetrum, einkum við sjóa“ segir í sóknalýsingum frá því um 1840.58 Margar jarðir hreppsins buðu sauðfé útbeit á vetrum og þá sérstaklega fjörubeit. Minjar eru nokkrar um þennan þátt

56 Ólafur Olavius: Ferðabók I (1964), 146.

57 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður við Dýrafjörð“. (2020). Sjá líka „„ef vaxinn ertu hrjóstrum þessum af”. Um forna landnýtingarhætti við Dýrafjörð“. (2012), 89-105.

58 Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 61.

23

Höfundur stendur á tóftum beitarhúsanna frá Brekku sem eru skammt ofan við núverandi Spennistöð á innanverðu Skeiði. Til vinstri er lauslegur uppdráttur af tóftunum. Minni tóftin gæti hafa verið heytóft eða hlaða en hin „sauðahúsið“, sem Þorbergur Steinsson getur um; hún er um 7,1 x 2,6 m að stærð. Til sjávar er vegalengdin tæplega 150 m.

búskaparins. Þær lýsa sér til dæmis í örnefnunum hlað og byrgi. Að þeim verður sérstaklega vikið í kafla hér á eftir

Beitarhús gegndu sama hlutverki og hlöðin en voru vandaðri. Frá Svalvogum voru beitarhús á Sléttanesi. Í seljatóftunum þar má raunar líka greina hlaðforma tóftir. Beitarhús voru frá Hrauni hið næsta Skeri og um þau segir örnefnaskrá: „Þar var búðartóft, og þar voru fjárhús, sauðahús; þegar hlíðin var beitt, var hún ætluð 60 sauðum, og þótti harður vetur, ef þurfti poka af heyi fyrir hvern sauð. Beitin þótti ágæt í hlíðinni og Koppum . . . [sauðirnir gengu] að mestu sjálfala . . . og þari með sjónum inn í Bóluvík.“ Við sjóinn á Arnarnúpi, skammt innan við ós Langár, eru þrjár tóftir beitarhúsa sem þar stóðu fram yfir aldamótin 1900. Heyhlaða var nærri enda heitir þar Hlöðubali.

Athyglisverð er frásögn Þorbergs Steinssonar (1878-1954) um beitarhúsin frá Brekku, á Steinkunesi undir Brekkuhálsi. Þar er nú . . .

24

. . . sauðhústótt frá Brekku, og voru þar á vetrum hafðir sauðir, til að geta notið fjörubeitar, en Brekka er fyrir ofan háls þann, er um getur, og þaðan erfitt að koma sauðum til fjöru, en Brekka á ekki beitiland fyrir neðan [Háls] og því enga fjörubeit, fengu svo sauðabeit hjá Hvammi gegn því, að Hvammsbóndinn mátti reka vorlömb sín eftir fráfærur yfir fjallið og niður í Brekkuhvilft hins vegar í fjallinu, og hélzt fram á mína daga, nema hvað sauðahúsið var þá lagt orðið niður, en í þess stað kom aftur uppsáturspláss fyrir einn bát frá Brekku til hrognkelsaveiða að vori; fyrst var það í Miðskeiðslág, en fluttist síðan út í Gras. Nú eru báða þessar kvaðir niður lagðar59

Nokkur örnefni tengjast beitarkostum. Flest hafa þau Smjör að forskeyti, og er að finna á einum sex bæjum.

Kemur þá að öðru. Nokkru fyrir framan miðjan Gjálpardal, sem gengur upp (vestur) af Hrauni er mikill grjóthóll sem heitir Afréttarhóll og Dalbotnahillur „eru klettahillur fyrir botni dalsins efst. Sagt er, að geldneyti hafi verið geymd þar áður fyrr.“ Frammi í Ártungum í Haukadal eru leifar mikils garðs sem þar gengur þvert á dalinn, á milli tveggja áa sem þar falla fram.60 Um garð þennan, sem sýnilega er mjög forn, er fjallað á öðrum stað í þessu riti. Ef til vill hefur hlutverk hans verið að halda geldneytum í haga þar fremst á Koltursdalnum með svipuðum hætti og gert hefur verið fremst á Gjálpardal. Hvort Veturlönd fremst á Ketilseyrardal vísa til svipað hlutverks skal ekki fullyrt um. Á fyrri hluta tuttugustu aldar var þar á dalnum komið fyrir girðingu fyrir þarfanaut félags bænda um nautahaldið.

Á gróinni eyri við Kjaransstaðaána hefur nátthaga verið komið haganlega fyrir. Stutt hefur verið að sækja grjótið í girðinguna umhverfis hagann. Hann er um 1350 m2 að flatarmáli – tæp hálf dagslátta. Í fremra horni hans eru tvær tóftir, neðst til hægri á myndinni. Tóftin t.h. hefur sýnilega verið mjaltakví, allstór, 1,8 x 6,3 m að innanmáli.

59 Þorbergur Steinsson skráði 1. maí 1942. Örnefnaskrá Hvammur. 60 Sjá bls. 18 hér að framan.

25

Á ofanverðri nítjándu öld óx umræða um nátthaga og notagildi þeirra. Aðeins einn slíkur er nefndur í örnefnaskrám hreppsins. Hann í Haukadal, sagður vera „afgirt svæði“ innan við Nasa. Úr öðrum heimildum er vitað um nátthaga á Múla og á Brekku. Ef til vill voru þeir svo „ungt“ örnefni, ung mannvirki, að heimildarmönnum um örnefni þótti ekki ástæðu til þess að tíunda þá? Á Kjaransstöðum fast utan við Kjaransstaðaána, skammt ofan Vestfjarðavegar er svæði umgirt miklum grjótvegg. Verður ekki betur séð en að þarna hafi verið gerður nátthagi með töluverðri fyrirhöfn megi marka grjótið í girðingu um hann. Nátthagans er þó ekki getið í örnefnaskrá. Mjög er ósennilegt að þarna hafi verið heyjað.

ÁVEITUR, BEÐASLÉTTUR OG SLÆGJUR

Áveita er eldgamall háttur við ræktun. Áveitna er m.a. getið í lagaákvæðum Grágásar. Minnast má frásagnar Landnámu um lækinn Ósóma á Ingjaldssandi sem Grímur kögur, bóndi á Brekku, veitti á engi sín, og af hlutust alvarlegar nágrannaerjur.61 Þessi áhrifamikli ræktunarháttur efldist aftur þegar kom að endurreisn ræktunar á nítjándu öld. Á fáeinum bæjum í Þingeyrarhreppi kemur fyrir örnefnið veita. Hvort það örnefni eigi fremur við votlendi en land sem veitt hefur verið á skal ekki fullyrt; ég hallast þó að hinu síðarnefnda: Vitað er að form áveitu voru ýmis, allt frá einfaldri stíflu í læk, sem breiddi út rennsli hans, eða smágarði, er skapaði uppistöðu til formlegra kerfa uppistöðu og dreifirása (seytluveitu) yfir stærra engjaland. Áveitu er aðeins getið á einum stað í örnefnaskrám sveitarinnar. Það er á Sveinseyri. Til stóð að nota Eyrarána í því skyni. Það tókst ekki því áin hljóp í læk sem þar er. Áveita hefði áreiðanlega komið sér vel þar því hinn sendni jarðvegur Eyraroddans er gróðri afar þurr á sprettutíma. Á Söndum má enn sjá glöggar minjar um áveitu. Það er langur skurður sem gerður hefur verið framan úr Brekkudalsánni undir Holtsmúla og heim á Sandatún. Talið er að hann sé frá tíma sr. Jóns Jónssonar sem sat Sanda árin 1882-1884. Hann lét „gjöra vatnsveitingaskurð til að veita Sandaá heim á túnið, og er það talin talsverð jarðabót og þykir til nytsemdar vera“, segir í vísitazíubók prófastsdæmisins. Má ætla að þurft hafi að leiða vatnið um 500 m vegalengd. Þá segja kunnugir að í Hvammi hafi verið lækur, forn og í manngerðum farvegi á svo sem 500 m kafla. Lækurinn átti uppsprettur sínar undir fjallinu, en úr þeim var fyrir áratugum virkjað neysluvatn í veitu fyrir Þingeyri. Sagt var að hluta af hinum manngerða læk hafi verið veitt niður yfir Yxnavöll er svo heitir þar í Hvammstúni, skammt fyrir utan Mið-Hvamms-bæina. Mun lengi vel hafa sést móta fyrir framrásinni, skarði efst í Yxnavelli.62

Á milli heimabæjanna og holtabæjanna í Haukadal er mýrlendi, jafnan kallað Veitan. Um það skrifaði Ólafur Ólafsson skólastjóri frá Miðbæ: „Mýrlendi þetta var nefnt „Veitan“, vegna þess að báðum bæjarlækjunum, sem runnu gegnum hana, var veitt yfir hana vor og haust [lbr. hér]. Vegurinn, er lá frá heimabæjunum niður í þorpið, var því upphlaðinn og nefndist Veitugarður.“

61 Íslendinga sögur Landnámabók (1981), 107-108.

62 Lárus Hagalínsson frá Bræðratungu í Hvammi, í tölvubréfi til BG 25. apríl 2018.

26

Áveituskurðurinn á Söndum þar sem hann liggur heim á Sandatún, sennilega frá árunum 1882-1884. Skurðurinn virðist hafa verið býsna mikil framkvæmd á sínum tíma.

Annar garður, Sjóargarðurinn, lá yfir mýrina allnokkru utar.63

Annar ræktunarháttur, sem á sér eldfornar rætur eins og áveita, eru beðaslétturnar. Á fyrstu árum skipulegrar túnasléttunar – á ofanverðri nítjándu öld – var hvatt til þess að slétta túnin í beðum. Búnaðarskólar kenndu þá aðferð og búfræðingar frá þeim kynntu og kenndu aðferðina. Hugsunin, auk þess að fá slétta bletti til að auðvelda þurrkun heysins og umferð um túnin, var að vatnið stæði ekki uppi á túnunum og ylli kali. Grasrótin var rist ofan af og síðan var jarðvegurinn pældur eða plægður upp. Búfjáráburði eða móösku var jafnvel blandað saman við jarðveginn eftir að mótað hafði verið bungulaga beð, 4-6 m á breidd og að lengd eftir aðstæðum. Þá var þakið að nýju. Gjarnan voru gerð fleiri beð hlið við hlið – gerð beðaslétta. Þegar sláttuvélar tóku að sigra heiminn þóttu beðasléttur til trafala; þær hentuðu ekki vélslætti. Því lögðust þær af í hinu gamla formi.

Minjar um beðasléttur má nú hvað helst sjá í Haukadal: Innan við Sæbólsbæinn eru glögg beð, svo sem 4 m breið hvert. Þau virðast mynda þar tvær sléttur. Sömuleiðis eru glögg beð á Kaupstaðartúninu; þau liggja þar mörg samhliða, um 5 m breið. Fjallmegin í Miðhól framan við Höll liggja ein þrjú svo sem 5 m breið beð. Framan til við Meðaldalsbæinn voru fjögur beð, tæplega 5 m breið en rúmlega 40 m löng, sjá næstu mynd. Minjarnar hafa dofnað og að hluta spillst við ræktun golfvallarins.

63 Ólafur Ólafsson: „Endurminningar úr heimahögum“. (1959), 86.

27

Hugsanlega eru allar þessar beðasléttur frá fyrstu árum Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps; jafnvel unnar undir stjórn Sigurðar búfræðings Sigurðssonar, sem vann á vegum félagsins í hreppnum á árunum kringum 1890, sjá bls. 57-58. Vafalítið hafa beðasléttur verið gerðar í túnum margra annarra bæja í hreppnum þótt þær hafi síðar horfið fyrir sléttun túnanna með stórvirkum vélum. Þá eru það minjar og merki um slátt og heyskap. Örnefnin Sláttunes, -vík og -hvolf finnum við í graslendi á Dröngum. Þá má minna á örnefnið Samvinnu fram undir Fornaseli í Keldudal. „Það var óskipt land milli ábúenda á Arnarnúpi, en þeir voru oft margir áður fyrr“, segir í örnefnaskrá. Í slægjulandi heiman við Þverá, handan Langár í landi Saura, heitir einnig Samvinna. Sennilega dæmi um gott samkomulag þar sem margir ábúendur voru um takmarkaða heyskaparkosti.

Þá er það örnefnið Stagggarðar/garður, svo skrifað eftir framburði. Það er á Hofi, Kirkjubóli og í Meðaldal. Á öllum stöðunum hagar eins til: Líklegt slægjuland og hóll/ hæð eða annað þurrlendi þar sem setja má hey. Stórar þúfur þar eru líklega leifar af torfi sem notað hefur verið til þess að verja þurrkuð og uppborin heyin fram á vetur. Örnefnið hefur sennilega lagast til frá upphaflegu innihaldi þess

28
–Stakkgarðar/Stakkgarður. Beðaslétta í Meðaldal á þriðja áratug síðustu aldar. Þarna má sjá ein fjögur beð (ljósm.: Kristján Helgi Kristjánsson). „Staggarður . . . ; ágætar slægjur í Krókunum, rétt fyrir neðan“, segir í örnefnaskrá Hofs. Myndin er af slægjunni og hólnum þar sem þúfnagerið geymir líklega leifar heystakka, sem þar voru settir ár eftir ár.

AF SELJUM

Sem fyrr sagði má finna minjar um sel á sextán jörðum í sveitinni; ýmist örnefni eða sýnilegar minjar. Selin voru lögð niður áður en stekkir og kvíar voru af lagðar. Munaði þar einni öld eða meiru. Samkvæmt sóknalýsingum frá því um 1840 virðast selin hafa verið aflögð á þriðja áratug þeirrar aldar þannig:

Svalvogar 1830 Meðaldalur 1833 Hraun 1820 Kirkjuból 1823 Haukadalur 1828 Sandar á Galtadal 1827-1828

„Allar þessar selstöður hafa niðurlagzt vegna illviðra, líka hafa þær þótt fólkskilar [mannfrekar] en ábati ekki samsvarandi fyrirhöfn“ segir þar.64 Heimildir eru fyrir því að selfarir hafi verið teknar upp að nýju a.m.k. á Söndum svo og í Meðaldal en þar var haft í seli á síðasta fjórðungi nítjándu aldar. Má raunar gera ráð fyrir að þannig hafi það einnig gerst á fyrri öldum. Svo virðist því sem „kerfið“ sel – stekkur hafi verið breytilegt í þeim skilningi að aðstæður, svo sem tiltækur mannafli o.fl., hafi að einhverju marki ráðið því hvort búpeningurinn hafi verið hafður í seli yfir hásumarið eða hvort honum hafi verið haldið til beitar frá stekknum allan þann tíma. Jafnvel hefur munurinn á seli og stekk í einhverjum tilvikum verið óljós – eða að minnsta kosti ekki einhlítur og skýr.

Sel eru talin hafa fallið heldur fyrr úr notkun í Þingeyrarhreppi en norðan fjarðarins. Hugsanlega stóð það að einhverju leyti í sambandi við það að í Þingeyrarhreppi tóku bændur upp færikvíar í meira mæli en Mýrhreppingar á ofanverðri nítándu öld.

Tvenn sel í Þingeyrarhreppi: T.v. er selið frá Brekku. Það er hálftíma gang frá bæ. Margar tóftir; það bendir til fjölbreyttra verkefna og líklega fastrar búsetu selfólks – að þar hafi verið alsel. Einnig virðast vera þar tóftir af eldra seli; það gæti bent til fleiri tímaskeiða seljabúskaparins. T.h. er selið frá Hólum sem er í tæplega tuttugu mínútna gang frá bæ. Tóftir benda til mjög einfaldra mannvirkja – e.t.v. var það aðeins mjaltasel.

64 Sóknalýsingar

II (1952), 59.

29
Vestfjarða

Minjar um selin sýna að þau hafa verið mjög mismunandi að gerð. Sum hafa sýnilega verið alsel skv. hinni norrænu gerð þar sem seljafólkið hefur haft fasta búsetu um seljatímann. Önnur hafa verið mjaltasel, með eða án aðstöðu til næturhvíldar. Myndir sýna dæmi um gerðirnar tvær.

Flest liggja selin á framdölum. Meðalvegalengd á hvert sel frá bæ er um tveir og hálfur kílómeter og göngutíminn um fjörutíu mínútur. Breytileikinn er þó mikill (staðalfrávikið er um 20 mín).

Svo er að sjá af staðsetningu seljanna að úr henni megi lesa mjög hyggilega reglu sem varðar nýtingu gróðurlendis: Með því að draga hringi í kringum sel og bæ með geisla (radius) sem er hálf vegalengdin á milli sels og bæjar má sjá að saman þekja hringirnir svo til allt gróið land jarðarinnar. Þetta er skýrt með dæmi úr Meðaldal á meðfylgjandi mynd.

Þá má spyrja hvort þetta hafi verið grundvallarhugsunin við staðarval seljanna: Að fullnýta takmarkað gróðurlendið með skipulögðum hætti án óþarfa reksturs eða ráps málnytupeningsins, sem jafnframt var þá haldið fjarri húshögum, eins og þeir hétu í hinni fornu lögbók, Jónsbók. Tilgátan gæti því verið sú að gróðurlendinu hafi verið skipt í húshaga og selhaga, þannig að til alls gróðurlendisins mætti ná með hóflegri fyrirhöfn málnytupenings til beitarleitar og vinnufólks til gangs og flutninga mjólkurinnar og afurða úr henni. Húshaginn var einkum slægjulönd (tún) og takmörkuð sumarbeit t. d. fyrir kýr en selhaginn beitilönd með takmörkuðum slægjulöndum (engjar og útheyskapur) og eftir því sem við átti öðrum landnýtingarkostum (mótekju, grasatekju o.fl.).

Annars má lengi gamna sér við að lesa í örnefnin og finna þar skírskotun til mannlegra athafna.

Tilgáta um landnýtingu: Hringirnir þrír í Meðaldal – frá húshaga heima við bæ (nyrst – efst), um selhagana frá Heimraseli (í miðju) til selhaga Fremrasels (syðst –neðst).

Í Keldudal má til dæmis sjá afar athyglisvert dæmi um nýtingu landkosta og þá ekki aðeins með hliðsjón af staðsetningu seljanna. Minjar um sel frá bæjunum í dalnum standa í þyrpingu niður undan Álftaskál en í henni var af mörgum talið vera . . . „eitt besta sumarbeitiland í Dýrafirði. Þarna er mjög fjölbreyttur gróður, brok, stargresi, víðir, fjalldrapi og birki mun hafa lifað þar lengst á láglendi í Keldudal“, skrifaði Guðmundur Sören, síðasti bóndinn í Hrauni.65 Í þeirri þyrpingu er einnig Nýjasel frá Arnarnúpi. Það hefur á einhverju stigi verið flutt þangað frá Fornaseli, sem er heimar á dalnum, sennilega til þess að nýta kosti nábýlis við sel annarra bæja í dalnum. Nábýlið létti selfólkinu vistina.

65 Guðmundur Sören Magnússon frá Hrauni í bréfi til BG 3. maí 1982.

30

Húshagar og selhagar í Keldudal, þar sem örnefnin Geldingadalur og Lambaskál bæta við landnýtingarmyndina með athyglisverðum hætti.

Og reglan frá Meðaldal, sem áður var nefnd, endurtekur sig. Á Keldudals-myndinni, sem hér fylgir, má sjá hringina tvo – húshaga og selhaga – sem hvor um sig marka nýtingarsvæði gróðurlendis annars vegar frá stærstu býlum dalsins, Arnarnúpi og Hrauni, og frá seljaþyrpingunni hins vegar, en hún stóð við ármót Langár/Geldingadalsár og Þverár úr Álftaskál. Stutt var að víkja ánum upp í hið góða beitiland uppi í Álftaskál. Í dalbotninum eru hins vegar tvær hvilftir: Geldingadalur og Lambaskál. Nöfn þeirra gætu bent til þess að þar hafi hinn hluti fjárstofnsins haldið sig. Fyrr á tímum skiptist fjárstofninn í þrjá nokkurn veginn jafnstóra hluta sem hver þurfti sérstaka umhirðu: ær, lömb og sauði.66 Hér höfum við því sterkar vísbendingar um vel skipulagt landnýtingarkerfi í þessum annars harðbýla dal, opnum mót úthafi. Svipaða bendingu gefa Geldinga- og Lamba-örnefni á fleiri jörðum við Dýrafjörð.

Seljum var því valinn staður með skipulegum hætti og með þann ásetning að nýta vel kosti jarðanna hvað snerti gróður og beit. Má jafnvel ímynda sér að þannig hafi tekist, þrátt fyrir hið takmarkaða gróðurlendi, að framfleyta bústofni sem varð – með sjósókn – undirstaða þéttrar byggðar og þess margmennis sem löngum var í hreppnum.67

Hvað nærumhverfi seljanna snerti er líka um allskýra samsvörun að ræða: Flest virðast þau hafa verið sett nálægt vatnsfalli, á eða læk og gjarnan á dálítilli þurrlendishæð þaðan sem vel sést til beitilands. Á sumum selstöðunum hefur verið hægt að afla heyja í nokkrum mæli, svo sem frá Arnarnúpi, í Haukadal, á Kirkjubóli og Söndum (á Galtadal), þótt víðast virðist þeir kostir hafa verið takmarkaðir. Um aðra nýtingu landkosta nálægt seljunum virðist ekki hafa verið að ræða.

AF HLÖÐUM

Á Leitinu innan við Múla, skammt frá merkjum á móti Bakka hét Hlað. Um það segir í örnefnaskrá: „Gömlu mennirnir byggðu þetta sem skjól fyrir fé; hlöð þessi voru yfirleitt hringmynduð.“ Því miður var minjum þessum rutt upp í bílveginn þegar gerður var á milli Múla og Bakka á sjötta áratug síðustu aldar. Hlað heitir á Sveinseyri utan við hæðina Nasa; þar er „gömul, löng skálatóft og smátúnstæði.“ Hlaðsnes kallast í Svalvogum „lítið nes fram

66 Arnór Sigurjónsson: „Þættir úr búnaðarsögu“. (1970), 65. Sjá líka bls. 48.

67 Bjarni Guðmundsson: „„ef vaxinn ertu hrjóstrum þessum af“ Um forna landnýtingarhætti við Dýrafjörð“. (2012), 89-105. Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður í Dýrafirði“. (2020).

31

úr bökkum.“ Þar eru tóftir, sennilega þó frá útræði sem þar er sagt hafa verið. Á Ketilseyri er Lambabyrgi en um það segir í örnefnaskrá:

Það er grjótborg, hlaðin í hring og veggirnir hlaðnir úr hellum, þannig að þeir hölluðust að sér og veittu því skjól í hretum. Þar í voru fráfærulömb höfð á nóttinni, þar til þau voru rekin á fjall, um 2 vikur, voru svo geymd á daginn í Partinum niður af Byrgi. Ærnar voru reknar þar fram dalinn, utan við ána, og komu því aldrei nálægt lömbunum. Byrgislaut er svolítil laut í kringum Byrgið. Þetta er skjólgóð laut ofan til í svonefndum Parti.

Finna má viðlíka minjar á fleiri jörðum: Á Dröngum til dæmis skammt utan við læk úr Haukshvilft. Líka á Kjaransstöðum, við Kjaransstaðakot. Hlað blasir við á Ketilseyri, fast við þjóðveginn svo sem 70 metrum fyrir utan við mót Vestfjarðavegar og vegarins út til Þingeyrar. Á Stekkanesi [athugið örnefnið!] í Hvammi „er hlaðinn allstór garður í hring með einu opi inn; sést vel enn.“ Svipaðar minjar eru við Selið frá Hvammi á Ausudal og við Heimrasel á Meðaldal. Skrifarinn telur sig muna hlaðforma tóft á Eyjunni í Hólum og svipað mannvirki virðist hafa verið á Selinu í Haukadal rétt framan við Þverá. Tvenn hlöð. Efra á Ketilseyri og það neðra á Dröngum. Þau standa bæði skammt upp af fjöru. Í gerð þeirra hefur verið lögð mikil vinna. Torf og grjót voru byggingarefnin. Hringlaga form. Einar dyr sem á báðum hlöðunum snúa eins: Örlítið undan austan/norðaustanáttinni sem þarna getur orðið ári stíf – út Fjörðinn.

32

Ekki stóðu öll hlöðin við sjó. Hér er hlað við selið frá Hvammi frammi á Ausudal (ljósm.: Lárus Hagalínsson).

Að hlöð hafi verið við einhver seljanna kann að skýrast af því að fé hafi verið haldið þar á haustum fram til jóla líkt og vitað er að gert var í Holtsseli á Bjarnardal í Önundarfirði.68 Þá komu þau sauðunum vel í áhlaupaveðrum á vetrum. Vitað er að sauðahald var töluvert í hreppnum á fyrri tímum, sjá bls. 48-50. Í Skjólvík á Þingeyri er sagt að verið hafi skúti þar sem fé gat fundið skjól. Nokkur flæðihætta var talin þar, segir í örnefnaskrá. Skútinn mun löngu fallinn.

Hlöðin virðast hafa verið misstór en lögun þeirra hin sama: Hringur með einum dyrum. Hér má sjá dæmi um stærðir nokkurra hlaða sem mæld hafa verið:

Innanmál Flatarmál

Drangar 6,8-7,4 m 40 m Kjaransstaðir 6,0 - 28Ketilseyri 5,5-6,0 - 26Hvammur 4,4-5,2 - 18Meðaldalur 6,5-7,0 - 36Haukadalur 7,3-7,8 - 45Arnarnúpur (Ólafarkví) 5,3-5,5 - 23 -

Ólafarkví á Arnarnúpi er sett í þennan flokk, þótt hlutverk hennar hafi líklega verið fleiri. Frá henni er sagt í næsta kafla.

Merkilegt var líka skjólið sem sauðirnir í Höfn höfðu. Um það segir í örnefnaskrá Hafnar: „Framan í Svaðshól . . . liggur gata. Undir Svaðshól er hellir skammt frá flæðarmáli. Var hann alltaf nefndur Hellir. Um 1875 rúmaði hann 30-40 sauði (sögn).“

Hellumynnið er greitt aðgöngu. Er svo sagt, að það hafi áður verið notað sem sauðabyrgi á vetrum. Er sú sögn sennileg, því oft urðu sauðirnir að bjargast mest við fjörubeit. Og þá hægur nærri að reka þá í hellismynnið, þegar verst voru veður, og ekki var stórstreymt. Um stórstreymi gat sjór gengið í hellismunnann svo engri skepnu hefir þar frítt verið. . . Gamalt fólk mundi til þess, að hellirinn hefði verið notaður sem fjárbyrgi. . .

Gömul sögn var einnig að hellirinn næði alla leið frá sjó upp í Hafnarkarlinn sem er ofarlega í bæjarfjallinu, en það er önnur saga og ævintýralegri.69

68 Ólafur Þ. Kristjánsson: „Vinnubrögð í Holtsseli“. (1979), 137-145.

69 Arngrímur Fr. Bjarnason: „Hellir í Hafnarfjalli“. Vestfirzkar þjóðsögur II (1954-1956), 175-176.

33

Á miðri mynd glittir í mynni sauðahellisins í Höfn undir Svaðshól. Brim hefur á seinni árum borið grjót upp í hellismynnið. Einnig hefur efni sem rutt var niður við gerð Svalvogavegar, er liggur á brúninni ofan hellisins, borist fyrir mynni hans. Kristján Gunnarsson frá Miðbæ man hellinn fast að 20 m langan og vel gengan um miðbikið en hoknum manni innst og við inngönguna.

ÓLAFARKVÍ Á ARNARNÚPI

34
Ólafarkví á Arnarnúpi; horft til norðurs.

Þegar komið er út fyrir Eyrarófæru á leið í Keldudal liggur bílvegurinn utan í holtarana og sveigir þar fram til dalsins. Þannig sveigir hann mjúklega ofan við og fram hjá hringmyndaðri tóft við áberandi stóran stein, sem þar stendur. Heimafólk á Arnarnúpi taldi þetta vera gamlan stekk, Ólafarkví. Þótt hún sé ekki nefnd því nafni í örnefnaskrá jarðarinnar er þar um hana eftirfarandi saga:

Áður fyrr bjó ríkur bóndi á Núpi í Dýrafirði. Eins og siður var, hafði hann fé sitt í seli á Núpsdal á sumrin. Hann átti dóttur sem var selráðskona. Ungan mann hafði hann fyrir smala. Sagt er, að dóttirin hafi orðið vanfær af völdum smalans. Er bóndi komst að þessu ætlaði hann að fyrirfara piltinum, en vinnumenn földu hann milli þúfna í túninu, meðan bóndi leitaði. Smalinn náði loks í reiðhest bónda og komst þannig undan. Það fylgir sögunni, að hann hafi farið til útlanda. Barnið, sem þau áttu, bóndadóttir og smali, var stúlkubarn og var það látið heita Ólöf. Hún varð síðar búkona á Arnarnúpi og var kölluð Ólöf ríka, því faðir hennar átti að hafa komið hingað til lands á kaupskipi og fært henni mikinn auð. Stekkurinn, sem áður er getið, á að vera stekkjarkví hennar.70

Ólafarkví á Arnarnúpi. Teikning Sigurðar E. Breiðfjörð frá 1. mars 1934, varðveitt með gögnum hans í Skjalasafninu á Ísafirði. Málin 1x150 eiga ekki við því teikningin hefur verið minnkuð hér.

70 Örnefnaskrá, Arnarnúpur.

35

Ólafarkví er langt til hringlaga og er 5,3-5,5 m þvermáls að innan. Á henni sýnist hafa verið op eða dyr mót norðri. Í veggi kvíarinnar hefur verið borið mikið efni, grjót og torf, eins og sjá má á bls 34. Veggir eru þykkir, allt að 2 m, og nú afar vel grónir grasi. Til viðmiðunar um gildleik kvíarveggjanna má hafa það að steinninn stóri, sem kvíin er byggð utan í, er um 1,7 m á hæð. Undir steininum og inni í kvínni er mikið af grjóti, stóru hleðslugrjóti, og virtist það mynda óljósa en líklega ferhyrnda hleðslu, líkt og þar hafi verið sjálf mjaltakvíin (?). GPS-punktar kvíarsteinsins stóra (R) eru N 65°54,589 og V 23°43,569 Í grasþykkninu umhverfis kvína má hér og hvar greina vegghleðslur sem saman mynda eins konar girðingu í kringum hana. Girðingin er mjög nærri því að vera ferningur að lögun, um 40 m á hvora hlið – 1600 m2. Hleðslan hefur verið vönduð og gerð úr vænum steinum, sem nóg hefur verið af þarna úr holtunum við rætur Arnarnúpsins. Raunar virðist mannvirkið allt hafa með haganlegum hætti verið fellt að stórgrýti, nánast steinbjörgum, sumum jarðföstum, sem þarna hefur verið fyrir, ættað úr fjallinu, sem gnæfir yfir staðnum.

Langfrændi minn, Lárus Hagalínsson frá Bræðratungu í Hvammi, vakti athygli mína á teikningu af Ólafarkví, sem hagleiksmaðurinn Sigurður E. Breiðfjörð (1904-1957) hafði gert, og væri í gögnum hans í Héraðsskjalasafninu á Ísafirði.71 Fylgir hún hér með. Það sem upp veit á teikningunni snýr upp að akveginum; það sem veit niður er í átt til sjávar og snýr nokkurn veginn til norðurs. Teikning Sigurðar virðist vera býsna nákvæm og er með glöggum skýringum. Hún er eftir því vel gerð enda var Sigurður listfengur svo af bar.72

Horft upp til Ólafarkvíarinnar. Stóri steinninn er hluti af veggnum, og undir honum er grjótrúst, líklega úr annarri hleðslu.

71 Skjalasafnið Ísafirði: Einkaskjalasafn Sigurðar E. Breiðfjörð.

72 Frá Sigurði E. Breiðfjörð var sagt í Alþýðublaðinu 18. október 1957.

36

En hver var Ólöf sem kvíin er kennd við?

Ólöf hét húsfreyja á Arnarnúpi á árunum í kringum 1870 og var Jónsdóttir. Hún var gift Guðmundi Guðmundssyni bónda þar. Þau urðu m.a. foreldrar Guðmundar, langafa míns, sem tók við búi af þeim á Arnarnúpi, en drukknaði á besta aldri, árið 1888. Mjög ósennilega er það þó sú Ólöf, sem sagan í upphafi greinarinnar fjallar um. Líklegra er að til hafi verið önnur Ólöf húsfreyja á Arnarnúpi, áratugum eða hundruðum fyrr, og hugsanlega búið þar sem ekkja – eða ein, því varla hefði kvíin verið kennd við hana annars. Nafnið gæti hins vegar bent til skyldleika yngri Ólafar við hina eldri. Sérstakt ættfræðiverkefni væri að grafast fyrir um það.

En Ólöf hefur orðið heimilisfólki á Arnarnúpi hugstæð fyrir fleira ef marka má munnmæli, sem þar hafa lifað, og náð inn örnefnaskrá jarðarinnar. Fyrst er það, að á hlaðinu á Arnarnúpi stóð steinn . . .

. . . á að gizka 60-80 cm á kant og um 80 cm á hæð. Virðist hafa verið klöppuð laut í hann, og var sagt, að hún hafi tekið 10 merkur. Hafði Ólöf átt að flytja steininn heim og haft hann fyrir mjaltakonur til að þvo sér um hendurnar, þegar þær komu frá mjöltum. Átti hún að hafa sagt að ekki mundu verið [svo] fleiri mjaltakonur á Arnarnúpi en gætu þvegið sér úr skálinni. Steinninn var nefndur Holusteinn. Hann var farinn að slitna þegar Guðbjörg [húsfreyja á Arnarnúpi 1922-1956 og heimildarmaður um örnefnin] man til, því að fiskur hafði verið barinn á steininum.

Holusteinninn á

Bjarni og Sigrún (ljósm.: Ásdís B. Geirdal).

Þá segir í örnefnaskránni: „Um fjárfjölda Ólafar er það sagt, að þegar fé hennar rann til fjöru af dal, hver kind af annarri, og fyrsta kind var á Stapahrygg, hafi sú síðasta verið á Stekkahrygg“. . . Þar á milli eru nær tveir kílómetrar svo eftir því hefur fjárfjöldinn á Arnarnúpi verið ævintýralegur í bókstaflegri merkingu.73

Dálítið undrunarefni er að Ólafarkví skuli vera kennd við stekk, eins og haft var eftir Arnarnúpsfólki í örnefnaskrá. Ber þar einkum tvennt til: Í fyrsta lagi er lögun mannvirkisins

73 Kjartan Ólafsson taldi líklegt að Ólöf sú, sem sagan um Holustein tengist, hafi verið Ólöf húsfreyja á Arnarnúpi, kona Össurar Jónssonar, sem í sumum útgáfum þjóðsagnanna er nefnd Ólöf ríka og kynni þannig að vera ruglað saman við Ólöfu Björnsdóttur, húsfreyju í Hrauni, Guðnasonar í Ögri, sem uppi var nokkru fyrr . . . Sjá Firði og fólk 900-1900 Úr vinnuhandriti Kjartans Ólafssonar Þingeyrarhreppur Arnarnúpur, (án ártals), 2-5. Hugsanlega er Ólafarkví þá einnig kennd við Ólöfu, sem hér er fyrr nefnd.

37
Arnarnúpi. Kirkjubólssystkin,

ólík stekkjum. Tóftin við steininn stóra er hringlaga, þótt vera kunni að grjótrústin fast við steininn sé úr mjaltakví sem þar hafi staðið. Í öðru lagi er óvanalegt á þessum slóðum að stekkir standi sjávarmegin við bæ. Venjulega var sótzt eftir dalbeitinni og stekkum komið fyrir í samræmi við það. Þá er varla hægt að segja að beitilandið umhverfis Ólafarkví sé mjög sumarvænt. Í sömu átt fellur það svo einnig að „stekkjarveg“, eða svo sem 1200 m, framan við Arnarnúpsbæ eru samkvæmt örnefnaskrá „tvær grjóttóftir með litlu millibili. Sú efri er minni. Þetta eru stekkjartóftir. Amma Guðbjargar [áðurnefnds heimildarmanns] sagði henni, að lömb hefðu verið höfð í hinni minni en ær mjólkaðar í þeirri stærri.“ Þarna í kring eru mörg Stekkjar-örnefni, svo sem Stekkahryggur, Stekkagil, Stekkeyri, Stekkalækur og Stekkapartar. Fjöldi örnefnanna bendir til þess að þarna hafi landnýtingin verið hefðagróin og sambærileg við það sem finna má minjar um á öðrum jörðum við Dýrafjörð. Án þess að útiloka hlutverk Ólafarkvíar sem stekkjar á einhverjum tíma sumars eða ára grunar mig að líklegra hlutverk hennar hafi verið hlað – sauðabyrgi. Íburðarmiklir veggir kvíarinnar (innri hleðslan) svara til hlaðs eða fjárborga, eins og verið hafa á fleiri jörðum í hreppnum. Með girðingunni umhverfis hefur verið enn auðveldara að halda utan að fénu og veita því skjól í hrakviðrum. Þarna er stutt til sjávar, rétt liðlega 200 m, þar sem fjörubeit kom sér vel á vetrum, sem og beitin í teigunum inn undir Ófæruna, því með sjónum er snjóléttara en frammi á dalnum. Flöturinn innan girðingarinnar hefur líka að vissu marki getað gegnt hlutverki nátthaga, þótt lítill sé, auk skjóls. Mikilvægt hefur hlutverkið alla vega verið úr því svona mikið hefur verið lagt í mannvirkið: kvína og girðinguna.

38
Horft út yfir Ólafarkví í átt til Helgafells. Í forgrunni myndarinnar og frá hægri brún hennar má sjá móta fyrir girðingunni sem umlykur kvína, sjá teikningu Sigurðar E. Breiðfjörð hér framar. Ólíklegt er að heyjað hafi verið innan girðingarinnar; frekar að hún hafi verið aðhald fyrir sauðfé sem skjól hafði í kvínni/hlaðinu, jafnvel lítill nátthagi?

En huga má að fleiru. Getur verið að grjótrústin undir stóra steininum, sem áður var nefnd, hafi verið einhvers konar var eða geymsla fyrir hey? Hringlaga hlöð fyrir sauðfé voru einnig þekkt í Skotlandi og þá meðal annars þannig að fé var að einhverju marki fóðrað í þeim. Hringjötu var komið fyrir í miðju hlaðsins og með útvegg.74 Arnarnúpur var líklega besta heyskaparjörðin í hreppnum í fornum sið svo hugsanlegt er að Arnarnúpsbóndi hafi haft tök á því að hára útigangsfé sínu með fjöru og annarri útbeit. Þá hefur verið hagræði af því að koma nauðsynlegum heyforða fyrir í dálitlu skýli hlöðu úr grjóti þar undir steininum stóra. Já, hver veit?

Annars má helst álykta að auk þess að hafa getað gegnt hlutverki stekkjar hafi meginhlutverk Ólafarkvíar verið að létta fjárgæslu á vetrum og þá einkum við beit í fjöruna. Svo mikil mannvirki hafa Arnarnúpsmenn, hverjir sem það nú voru, varla reist til fárra vikna notkunar á ári hverju – eins og hefur verið bent á varðandi mörg selmannvirkin í Dýrafirði.

En svona í lokin væri gaman að vita, hví Sigurður E. Breiðfjörð hafi lagt svona mikla vinnu og alúð í að mæla upp mannvirkið og búa út vandaða teikningu af því. Fremur sjaldgæft mun það hafa verið á þeim árum að menn utan þröngs fræðimannahóps gæfu sig að slíku verki. Sigurður var óvenjulegur og sérstæður um margt og kann það hafa ráðið. Einnig má vera að sr. Sigurður Z. Gíslason (1900-1943), sóknaprestur í Sandaprestakalli, sem lét sig varða ýmislegt óhefðbundið í umhverfi sínu, hafi hvatt nafna sinn Breiðfjörð til verksins. Prestur hefur oft átt leið fram hjá Ólafarkví á leið sinni til embættis á annexíunni í Hrauni. Kvíin hefur þá ef til vill vakið sérstaka athygli hans.

SILUNGALÆKUR, KIRKJUAUGA . . .

Nokkurt gagn höfðu heimilin af silungi og er fáeinna dæma getið um það í örnefnaskrám Þingeyrarhrepps. Úr Brekkuhvilft í Brekkudal fellur til dæmis lækur sem heitir Reiðarlækur (Reyðar-?). Nafnið gæti vísað til bleikjusilungsgengdar. Örnefnið Klegghólar á Söndum (framborið Kleggjhólar) hefur valdið heilabrotum, hvort tengist klaki (silungs) á einhvern hátta. Þar eru sögð vera „nokkur djúp vatnsaugu, sem heita Pyttir (í þá gekk silungur snemma á vorin)“, hermir örnefnaskrá. Skammt fyrir framan Hof, á allbreiðu flatlendi meðfram Kirkjubólsá, tekur við „landsvæði, sem heitir Krókar, þetta er grösugt land með smátjörnum, en þurrum bökkum í kring. Helzt virðist þarna vera silungaklakstöð, og í Krókalænu, sem er djúp læna um Krókana, er hægt að veiða silungana með berum höndum.“ Í bréfi Kristjáns V. Guðmundssonar frá Kirkjubóli segir svo frá veiði þar í septemberlok 1905: „Þegar ég kom heim var Helgi á Hofi . . . kominn með tvo silunga úr Krókunum. Var þá bannað að veiða meira“. . .75 Þórður Flóventsson hét maður þingeyskur, kunnáttusamur um veiðiskap sem m.a. ferðaðist um héruð og kynnti sér fiskræktarmöguleika. Hann kom að Hofi sumarið 1927 og skoðaði Krókalænuna, sem hann taldi mjög góða . . .

74 Schumann, Johan: Faarehold i Norge II Praktisk faarestel. (1899), 864-866.

75 Bjarni Guðmundsson: „Guðmundar saga og Margrétar“. (2001), 128.

39

. . . til að varðveita silunginn fyrir öllum rándýrum, og rennur í mjög góða á, sem rennur hiklaust ofan til sjávar, með góðum fljótum líka, og sýndi jeg samferðamönnum mínum polla í læknum, sem gott væri að geyma laxa eða silungssíli í yfir sumarið, sem hefði þá samgang til sjávar76

Raunar skrifaði Þórður einnig að svo mikill silungur hafi verið í lænunni að goldið hafi verið eftir hana „sem jarðarkúgildi (6 ær)“. Aðrar heimildir um það mat hef ég ekki rekist á . . .

Í Keldudal geta örnefnaskrár um vatnagagn, enda skilyrði þar góð frá náttúrunnar hendi: „Í Kirkjuauganu og Garðalæk í Hrauni veiddist töluvert af silungi áður fyrr“, skrifaði Kristján Jón Guðmundsson frá Arnarnúpi í örnefnaskrá fyrir Hraun frá árinu 1953. Og ekki munaði minna um Silungalækinn á Skálará að því er segir í örnefnaskrá:

Upp af Oddnýjareyri eru svo Bugar, það eru mýrar, er fer að draga til hlíðarinnar. Í Bugunum er lækur, sem heitir Silungalækur. Hafði verið svo mikil silungaveiði í þessum litla læk, að hún var metin til kúgildis. En svo gerðist það eitt sinn, er bændurnir að framan komu frá kirkju á hvítasunnudag, að þeir veiddu silung í læknum. En himnaföðurnum blöskraði sú andskotans græðgi, svo ekki hefur sézt þar branda síðan.

Minni sem þetta eru þekkt allvíða. Þau má taka sem dæmi sjálfbæri og umhverfisvernd fyrri tíðar – að taka ekki meira af auðlindinni en nemur vöxtum af henni.

Þótt ár og lækir hafi ekki boðið mikla veiði hefur mátt sækja þangað nokkur búdrýgindi eins og áðurnefnd dæmi benda til. Þau eru áreiðanlega fleiri.

ÖRNEFNIN SEGJA MARGT . . .

Það sem hér hefur verið rakið um búskaparörnefni og -minjar í Þingeyrarhreppi ber fremur að líta á sem dæmi en tæmandi upptalningu. Sjálfur hef ég sannfærst um að minjadæmin eru mun fleiri. Á nokkrum stöðum í úthögum er að finna minjar eða grun um minjar sem fátt er vitað um. Mjög líklega tengjast þær búskap og þá einkum sauðfjárhaldi, sem var svo mikilvægt fyrir afkomu fyrri kynslóða. Verðugt væri að leita þeirra minja með skipulegum hætti, skrá þær og rannsaka í því skyni að varpa sterkara ljósi á það hvernig gengnar kynslóðir nýttu sér landið og kosti þess til framfærslu. Þá væri einnig æskilegt að gera rækilegri rannsóknir á ýmsum þeim minjum sem vakin hefur verið athygli á með þessum skrifum. 76 Þórður Flóventsson: „Laxa- og silungaklak á Íslandi”. (1927), 148.

40
41

III

Landbúnaðurinn í Þingeyrarhreppi 1893 – og 1710

Á síðustu tveimur áratugum nítjándu aldar urðu þær breytingar á búsetu í Þingeyrarhreppi að þurrabúðum tók mjög að fjölga. Einkum varð það á Þingeyri en það gerðist líka í Haukadal. Raunar átti það við Hvamm einnig því þurrabúðir voru settar í landi Hvamms fast við þorpsmörkin, innan við Ásgarð, en um hann lágu landamerki Hvamms og Þingeyrar. Allar jarðir í hreppnum voru þó settar áfram eins og verið hafði. Afkoma fólks byggðist á tvennu: sjónum og landinu.

Jóhannes Ólafsson hreppstjóri Þingeyrarhrepps á þeim árum færði samkvæmt skyldu sinni skýrslur um búnaðarástandið í hreppnum hvert haust. Hér hefur skýrsla hans frá haustinu 1893 verið tekin til greiningar í því skyni að athuga hvernig búskap og framfærslu hreppsbúa af landinu var háttað áður en byggð og búseta breyttust með hinni nýju öld sem þá var handan við hornið.

Samkvæmt sóknarmannatali Sandaprestakalls77, skráðu af sr. Kristni Daníelssyni presti á Söndum, voru íbúar hreppsins 535 í árslok 1893 á samtals 57 heimilum. Ábúð á jörðum eða jarðapörtum höfðu 36 fjölskyldur en 21 fjölskylda var án jarðnæðis. Tekið skal fram að húsfólk var á nokkrum heimilum ábúenda en það er talið með heimilisfólki ábúendanna. Tólf af þeim, sem án jarðnæðis voru, héldu sauðfé, og voru í skýrslu hreppstjóra kallaðir búlausir menn. Meðalfjöldi ábúðarhundraða var tæplega 9 á hvern ábúanda – allt frá 26 á kirkjustaðnum Söndum til tæplega tveggja hundraða þeirra er minnst höfðu. Fimm bændur áttu hundruð í öðrum jörðum en þeir bjuggu sjálfir á:

Ólafur Guðbjartur Jónsson í Miðbæ átti 4,35 hdr. í Höfn Guðmundur Þórðarson í Hrauni átti 0,59 hdr. í Saurum Guðbjörg Bjarnadóttir á Arnarnúpi átti 4,28 hdr. í Hrauni Eggert Andrésson á Skálará átti 1,32 hdr. í Arnarnúpi Guðmundur Eggertsson í Höll átti 2,54 hdr. í Meðaldal.

Allir heyjuðu bændurnir sín afbæjar-hundruð, bæði töðu (af túni) og úthey.

Að meðaltali átti hver ábúandi tvær kýr og tuttugu ær í fardögum árið 1893. Sauðaeign var lítil: aðeins tveir sauðir að meðaltali hjá þeim sem þá áttu. Sauðaeignin var að tiltölu mest á útsveitinni, flestir hjá Guðbjarti Jónssyni í Svalvogum og Ólafi Guðbjarti Jónssyni í Miðbæ. Rifjast þá upp sagan um sauðahellinn í Höfn, sjá bls. 33-34 hér að framan. Eignarhald sauðaríks Haukadalsbónda á hluta Hafnar-jarðarinnar hefur hugsanlega átt sér rætur í gamalli skipan á nýtingu mikilvægra landkosta (vetrarbeitar).

Ábúendur áttu 1-2 hesta. Ferðahestar hafa varla verið fleiri en einn á hverjum bæ nema líklega hjá sóknarprestinum og verzlunarþjóninum á Þingeyri; hvor þeirra átti fjóra hesta. Má því ætla að allar kirkjuferðir til dæmis hafi þorri fólks farið gangandi.

Meðfylgjandi myndir gefa hugmynd um samband stærðar jarðnæðis og áhafnar, þ.e. jarðarhundraða sem hver ábúandi réði yfir og fjölda kúa og áa sem hann hafði á búi sínu í fardögum árið 1893.

77 Skjalasafn.is Vefsjá kirkjubóka.

43

Sambandið er býsna eindregið. Þó er það eitt gildi sem sker sig úr á báðum myndunum, við ~25 jarðarhundruð. Þau gildi eiga við Sandaprest, sem hefur mun færri gripi en sem svarar til jarðnæðis hans (eða fleiri jarðarhundruð en svöruðu til bústofns!). Í ljósi sérstöðu Sandaprests hvað lifibrauð og búskaparaðstöðu snerti hef ég leyft mér að fella tölur um Sanda út við útreikning á fylgni stærðar bústofns og jarðnæðis (X, ábúðarhundruð):

Kýr: 0,2 X + 0,54 r2 = 0,51 Ær: 1,9 X + 4,54 r2 = 0,65

Tölur jafnanna merkja að 0,2 kýr komu á hvert jarðarhundrað en 1,9 ær. Fylgnitölurnar (r2) sýna að stærð jarðnæðis – ábúðarhundruðin – skýrði 51% af breytileika kúafjöldans en 65% af breytileikanum í fjölda áa.78 Með öðrum orðum: Bústofninn réðist að meirihluta af burðargetu

78 Hér er rétt að nefna að í ljósi hefðbundins fjölskyldubúskapar, sem á þessum árum ríkti, er þess sennilega ekki að vænta að línulegt samband gripafjölda og ábúðarhundraða sé nema e.t.v. upp að 15-20 hundruðum. Væri jarðnæðið meira tóku aðrir þættir að ráða meiru, svo sem mannafli fjölskyldunnar á býlinu til þess að nýta jarðnæðið og svo hitt að mjólkurmatarþörf fjölskyldunnar um ársins hring var þá fullnægt. – Það þurfti ekki að framleiða meira. Vel getur verið að þetta skýri frávik gildanna tveggja á Söndum og að þau séu einmitt dæmi um að svo hafi verið

44

ábýlisins metinni í jarðarhundruðum með takmörkuðum frávikum. Ekki er af myndunum að sjá að neitt annað býli en Sandar hafi með áberandi hætti skorið sig úr með ásetningi í ósamræmi við landkosti eins og þeir endurspeglast í metnum jarðadýrleika.

Af búfénum var kýrin var dýrasta eignin. Það voru aðeins þrír ábúendur í Þingeyrarhreppi sem ekki töldu fram kýr. Kúafjöldinn var nátengdur öðrum einkennum heimilis og bús eins og eftirfarandi tafla sýnir:

Kýr á býli ≤1 2 3 ≥4 Fjöldi heimilismanna 9,1 9,8 11,4 13,2 Ábúðarhundruð 5,7 8,7 11,3 13,4 Ær 11,6 19,7 24,7 32,2 Mjólk, lítrar/heimilismann (reikn.) 290 518 645 740

Framfærslugrundvöllurinn var þeim mun traustari sem ábúðarhundruðin voru fleiri; þá var unnt að ala fleira búfé og metta fleiri munna. Það er svo sem hvorki ný speki né langsótt. Reiknað eftir meðaltölum í töflunni kom einn heimilismaður á hvert jarðarhundrað á stærstu búunum. Á þeim minnstu kom hins vegar 1,6 heimilismaður á hvert jarðarhundrað. Mjólkin var mikilvægasta afurð heimilanna á þessum árum. Áætla má mjólkurmagnið eftir fjölda kúa og áa og tengja það fjölda heimilismanna, sjá töfluna hér á undan. Kristján Andrésson bóndi í Meðaldal hélt skýrslu um afurðir kúa sinna árið 1890. Meðalnyt þriggja kúa þar, sem á skýrslu voru allt árið, var 2.104 pottar.79 Þá má gera ráð fyrir að hver kvíaær hafi skilað 55-60 pottum yfir sumarið.80 Í töflunni er reiknað með 2.000 pottum eftir kúna og 55 pottum eftir ána. Að meðaltal hefur mjólkurmagnið skv. þessari áætlun þá verið um 390 pottar (sem setja má jafngildi lítra) á hvern heimilismann. Það er nokkru meira en mjólkurneysla Íslendinga er um þessar mundir (2022), um 360 lítrar á íbúa (samanlögð neyzlu- og vinnslumjólk). Að vísu þarf að muna að árið 1893 fór nokkur hluti mjólkur á einhverjum heimilanna til þess að greiða jarðarleigu (leigusmjör), svo ekki kom öll ársnyt á hverju heimili til neyslu þar.

Kýrnar hafa þannig verið allskýr mælikvarði á hag heimilanna. Fjöldi kúa óx með stærð jarðnæðis, sbr. myndirnar hér að framan, og fylgdi einnig fjöldi áa, sem á þeim árum voru enn nytkaðar í kvíum sumarlangt. Sauðamjólkin taldi mest að hjá þeim sem fæst ábúðarhundruðin höfðu – um fjórðung, en þeim mun minna sem kýrnar voru fleiri.

Meðaltúnið í Þingeyrarhreppi var fjórar dagsláttur að stærð og töðufengurinn skv. búnaðarskýrslu Jóhannesar hreppstjóra 36 hestburðir. Það svarar til níu hb/dagsláttu sem jafngildir um þrjátíu hestburðum af hektara. Það telst vera býsna góð heyuppskera þegar aðeins var hægt að hvetja grassprettu með búfjáráburði, og þó varla öllum sem til féll árlega því sennilega hefur eitthvað af honum verið notað til eldsneytis. Þar að auki aflaði hver ábúandi

79 Bjarni Guðmundsson: Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps 1889-2011, hér á bls. 61.

80 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður í Dýrafirði“. (2020).

45

45 hestburða af útheyi með engjaheyskap. Heyskapur hvers ábúanda sumarið 1893 nam því að meðaltali um 80 hestburðum. Mestur var heyskapurinn í Meðaldal, um 200 hestburðir alls.

Nú má gizka á ásetninginn. Vetrarþörf hverrar kýr hefur vart verið minni en 20-25 hestburðir. Þungatölur sauðfjár í hreppnum samkvæmt mælingum veturinn 1890-1891 sýndu að þungi fjárins stóð í stað yfir veturinn, þannig að tæpast hefur verið um viðhaldsfóðrun að ræða. Gizkað er á að vetrarfóður hverrar ær og gemlings hafi verið 0,5-0,7 hestburðir. Meðalbúandinn hefur því þurft um það bil 22,5x2 + (20+12)x0,6 = 64 hestburði. Því gætu svo sem 15 hestburðir hafa verið eftir til þess að fóðra aðra gripi svo sem geldneyti, sauði og hesta. Vetrarbeitin hefur því sennilega enn verið allstór hluti vetrarfóðrunarinnar.

Búlausu heimilin áttu, samkvæmt skýrslu Jóhannesar hreppstjóra, ær 3-10 að tölu, mjög líklega fyrst og fremst til öflunar sumarmjólkur með fráfærum. Aðeins eitt þeirra, heimili Jóhannesar sjálfs, átti kú, og tvær ær að auk. Þótt það liggi í brún þessarar frásagnar er sennilegt að þurrabúðarheimilin á Þingeyri og í Haukadal hafi haft samvinnu um sumarhirðingu ánna, svo sem við fjárgæslu og ef til vill einnig mjaltir.

Séu búfjártölurnar úr Þingeyrarhreppi skoðaðar nánar vekur það m.a. athygli hve „aðrir“ nautgripir en kýr eru fáir, eða aðeins 10 á móti 80 kúm. Það bendir til þess að kýr hafi almennt verið „gerðar gamlar“ og kálfum þeirra slátrað mjög ungum. Búféð var talið í fardögum. Þá voru að jafnaði 0,6 gemlingar á hverja fullorðna á. Líklega hefur frjósemi vart verið meiri en svo sem 1,0-1,2 lömb á hverja á. Hvort eftir því má áætla að 0,4-0,6 lömb/ hafi komið til frálags að hausti er óvíst. Á umdeilanlegum grunni má því reyna að áætla kjötmagnið (fallþunga) á hvert heimili: 20 ær/ár x 0,5 lömb/á x 12 kg/fall lambs + 3 ær/ár x 20 kg /fall ær + 0,5 sauðir/ár x 30 kg/fall sauðar = 195 kg/ár.

Þá kæmu liðlega 20 kg á heimilismann. Þessu til viðbótar kæmi kjöt af nautgripum, sem er enn erfiðara að áætla; mundi þó vart vera meira en 30-50 kg/ár. Kjötmeti hefur því í mesta lagi numið 20-25 kg á heimilismann, sem er þriðjungur af kjötneyzlu meðal-Íslendingsins í dag. Þá má ekki gleyma innmatnum – sláturmat o.fl. Hann gæti hafa numið fjórðungi-fimmtungi kjötþungans. Svo til viðbótar var fiskmetið sem líklega eru engar heimildir til um. Áreiðanlega hefur mjög munað um það, auk nokkurs kornmetis úr kaupstað. En svo má líta á garðyrkjuna sem þá var nokkur í Þingeyrarhreppi.

Um 40% heimila þeirra, sem ábúð höfðu, ræktuðu kartöflur en 65% ræktuðu rófur. Kartöfluuppskeran nam 0,9 tunnum en rófnauppskeran 2,3 tunnum hjá þeim sem þessa jarðarávexti ræktuðu. Heildaruppskera rófna í hreppnum var fjórum sinnum meiri en kartöfluuppskeran. Rófnaræktunin var mest á Innsveitinni; heilar 5 tunnur rófna fékk til dæmis Kristján Einarsson í Hæsta-Hvammi. Hákon Jónsson í Yztabæ ræktaði hins vegar mest af kartöflunum, fékk einnig fimm tunnur af þeim.

46

Þótt munað hafi um ræktun þessara rótarávaxta á einstökum heimilum er ósennilegt að hún hafi miklu skipt í heildarfæðu hreppsbúa. Gott hefur þó verið að eiga rófur og kartöflur til bragðbætis og ef til vill hátíðarbrigða fram yfir jól. Víst má telja að aðstaða til lang-geymslu uppskerunnar hefur verið takmörkuð á flestum bæjum. Gera má ráð fyrir að þurrabúðarmenn hafi stundað einhverja garðyrkju, þótt ekki hafi tölur um það ratað inn á búnaðarsýrslur Jóhannesar hreppstjóra. Hinir dönsku kaupmenn á Þingeyri höfðu komist í annála fyrir garðyrkju. Því má ætla að það orðspor og minjar um það hafi einnig hvatt einhverja þurrabúðarmenn til slíkrar ræktunar.

Mór var tekinn upp á 55% ábýlanna, mest í Keldudal og Haukadal, en á báðum stöðum var og er ágætt mótak. Meðaltal hjá þeim sem mó skáru var 36 tunnur. Reiknað eftir rúmmáli (100 lítrar/ tunnu) gæti það svarað til móhlaða sem væri um 1,5 m á hvern veg (1,5 m3). Atkvæðamestir mótökubændur voru þeir Júst Guðmundsson í Hrauni (sem e.t.v. hefur tekið sinn mó úr Lómatjörn í Hrauni); hann taldi fram 100 tunnur. Mestan mó skar Ólafur Guðbjartur í Miðbæ: 150 tunnur. Mjög líklega hafa þeir báðir selt mó. Þá eins og í annan tíma var eldsneyti verðmæt vara og eftirsótt. Sennilega hefur taðbrennsla ekki með öllu verið aflögð á þessum árum eins og fyrr var nefnt. Hugsanlega hafa einhverjir líka keypt kol til híbýlahitunar. o o O o o

Með því að byggja á búnaðarskýrslum Jóhannesar hreppstjóra Ólafssonar frá haustinu 1893 og sóknarmannatali sr. Kristins Daníelssonar á Söndum er gizkað á að heimilin í Þingeyrarhreppi hafi þá mátt greina í fjóra hópa, þannig:

1. Vel sett heimili með fleiri en 10 ábúðarhundruð og fleiri en 2 kýr og 20 ær í kvíum. Þessi heimili voru fjórðungur heimila í hreppnum. Þau höfðu meira en 600 lítra mjólkur á hvern heimilismann á ári. Rófna- og kartöflurækt á nær öllum heimilunum.

2. Heimili með innan við 10 ábúðarhundruð, 1-2 kýr og færri en 20 ær í kvíum. Þau höfðu 400-600 lítra mjólkur á hvern heimilismann. Þessi heimili voru tæpur helmingur (45%) heimila í hreppnum. Rófna- og kartöflurækt á helmingi þeirra.

3. Búlaus heimili með 3-10 kvíaær; þau höfðu innan við 50 lítra mjólkur á hvern heimilismann. Óvíst um garðyrkju.

4. Þurrabúðarfólk. Án eigin mjólkurframleiðslu og óvíst um garðyrkju.

Nú veit enginn hvort, í hvaða mæli eða hvernig hinum nauðsynlegu matvælum var miðlað á milli heimila. Sumir þurrabúðarmenn bjuggu í sérbýli en aðrir (húsmenn) voru skráðir undir þaki húsbænda sem ábúð höfðu, unnu þeim og nutu í viðurgerningi launa sinna þar. Þannig var ýmislegt sem mildað gat þann mismun sem þurrar hagtölur leiða okkur að. Hér hefur líka aðeins eitt ár verið tekið til skoðunar en auðvitað voru árasveiflur alltaf einhverjar. Þess vegna er lesandinn varaður við því að túlka niðurstöður þessar of bókstaflega. Betra er að taka þær sem bendingar um það hvernig aðstæður íbúa Þingeyrarhrepps gætu hafa verið á þeim árum þegar þéttbýlismyndun hófst þar – fyrir einni öld og þriðjungi aldar betur.

47

Nú má velta því fyrir sér hvernig málum þessum var háttað á þeim tíma þegar byggð í Þingeyrarhreppi var öll bundin við lögbýlin, fyrir daga eiginlegrar þéttbýlismyndunar. Í dálitlum viðauka verða því hér á eftir skoðaðar tölur úr elstu búnaðarskýrslunni, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

ÚR ELSTU BÚNAÐARSKÝRSLUNNI – TIL SAMANBURÐAR

Síðsumars 1710 voru Jarðabókarmenn á ferð um Þingeyrarhrepp (sem þá var nefndur Dýrafjarðarhreppur) og skráðu þá margvíslegan fróðleik um búskap þar.81 Þá var búið á öllum jörðum í hreppnum, nema hálfri Ketilseyri, sem þá var sögð vera í eyði. Setnir jarðarpartar voru 40 en fleiri heimili á sumum þeirra, húsfólk og líklega þurrabúðir. Fleiri en tveir ábúendur voru á þessum jörðum:

Haukadalur 7 Meðaldalur 5 Hvammur 7 Arnarnúpur 4 Hraun 5 Brekka 3

Alls töldust 93 kýr í sveitinni, 2,3 hjá hverjum ábúanda. Alls voru þar 1928 fjár; 48 fjár hjá hverjum ábúanda, er þannig skiptust:

Ær 656 = 34% Sauðir, veturg. 315+ Sauðir, eldri 370 = 36% Lömb 587 = 30 %

Fjárhjörðin skiptist því í þrjá álíka stóra hópa svo sem gerðist á þeim tímum – í ær, sauði og lömb – þar sem hver hópur þurfti sérstaka umhirðu.82 Mikil breyting hafði orðið á sauðaeigninni frá 1710 til 1893; í lok nítjándu aldar var hún innan við 15% af því sem hún hafði verið liðlega 180 árum fyrr. Mest var sauðaeignin á Útsveitinni; 40% sauðanna voru á bæjunum utan Eyrarófæru en 32% ánna og 34% kúnna. Þá virtist hestaeignin hafa verið almennari og jafnari árið 1710 en 1893. Að jafnaði var þá skráður einn hestur hjá hverjum ábúanda en 1893 voru nokkrir þeirra hestlausir.

Ekki er til manntal frá Jarðabókarárinu. Manntalið 1703 er það næsta í tíma.83 Þá voru 355 manns í hreppnum, á 54 heimilum. Breytingar hafa áreiðanlega einhverjar orðið á milli áranna 1703 og 1710 svo rétt er að tengja tölur þeirra varlega saman. Sé nú líklegt mjólkurmargn reiknað út með sama hætti og gert var hér að framan með tölurnar frá 1893 fæst þessi niðurstaða: (93 kýr x 2000 l/kú*ár + 656 ær x 55 l/á*ár) / 355 manns = 625 lítrar á íbúa hvar af 83% er kúamjólk. Þótt meðalnyt kúa og áa kunni að hafa verið eitthvað minni í byrjun

81 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. VII (1940), 28-54. 82 Arnór Sigurjónsson: „Þættir úr íslenzkri búnaðarsögu“. (1970), 65. 83 Þjóðskjalasafn Íslands: skjalasafn.is/manntalsvefur

48

átjándu aldar benda tölurnar til þess að mjólkurmeti á hvern íbúa hafi þá verið mun meira –yfir 50% meira. Sé með sama hætti horft til kjöts og feitmetis af sauðum hefur sá kostur einnig verið stórum ríkulegri í byrjun 18. aldar. Reyna má reikning: (656 ær/ár x 0,5 lömb/á x 12 kg/fall lambs + 75 ær/ár x 20 kg /fall ær + 120 sauðir/ár x 30 kg/fall sauðar) / 355 = 25 kg/íbúa.

Það er tæpum fjórðungi meira kjötmagn en reiknaðist hafa verið árið 1893, en samt aðeins þriðjungur af meðalkjötneyslu Íslendings um þessar mundir (2022).

Ekki má gleyma ullinni sem líka var mikilvæg afurð. Af tölum um sauðfjárfjölda má ráða að tiltækt magn hennar hafi verið til muna meira í byrjun átjándu aldar en í lok þeirrar nítjándu. Sé nú gert ráð fyrir að reifi fullorðinnar ær hafi verið 1,25 kg en af sauð 2,5 kg líta tölurnar svo út, séu þær reiknaðar á hvern íbúa (í kg):

1710 1893

Ull af ám 820 1.154

Ull af sauðum 1.712 220

Ull alls 2.532 1.374

Ull á íbúa ~ 7,1 ~ 2,6

Munurinn verður sennilega meiri sé þess gætt að sauðaullin mun hafa verið talin betri til vinnslu en ull af ám einkum sú mislita.84 Sauðaullin, sem reiknaðist þriðjungur ullar árið 1710, var orðin aðeins sjöttungur árið 1893.

84 Jóhanna E. Pálmadóttir bóndi og textílfræðingur á Akri í samtali við BG 22. mars 2022.

49
Hagalín Ásbjörnsson í Bræðratungu tekur af ám sínum um miðbik síðustu aldar (ljósm. frá Lárusi, syni hans).

Tölur Jarðabókarinnar benda til þess að landbúnaðarframleiðslan, reiknuð á hvern íbúa Þingeyrarhrepps, hafi verið töluvert meiri í byrjun átjándu aldar en undir lok þeirrar nítjándu: 1,2x meira kjöt, 1,6x meiri mjólk og 2,7x meiri ull. Hvort af því má ráða að lífskjörum hafi hrakað verður ekki fullyrt. Til þess þyrfti einnig að athuga fiskafla sem og verslun heimilanna. Á meðan það er ógert er þó freistandi að álykta að það hafi ekki verið slæm lífskjör að hafa liðlega 600 lítra mjólkur og 7 kíló af ull til ráðstöfunar á íbúa á hverju ári.

Meiri sauðaeign hreppsbúa í byrjun átjándu aldar hefur leitt af sér meira beitarálag á úthaga þá en síðar varð. Sauðum hefur vart verið ætlað mikið vetrarfóður annað en það sem þeir sjálfir gátu afla sér á útigöngu þar sem snjóléttara var og við sjóinn. Því var sauðaeignin tiltölulega meiri á Útnesinu. Þar má líka finna ýmsar minjar um sauðahaldið, svo sem Hellirinn í Höfn sem sagður var hafa rúmað 30-40 sauði.85 Líka tóft beitarhúsa frá Hrauni á Bólubökkum og sauðlandið á Hlíðinni út með Hjallafjalli86 og minna má á beitarhús (og sauðahlöð) á Sléttanesi. Þá gæti Ólafartóft á Arnarnúpi einnig hafa gegnt veigamiklu hlutverki í sauðahaldi fyrri tíma. Um hana og fleira því tengt er fjallað í II. kafla þessarar ritsmíðar.

85 Örnefnaskrá, Höfn.

86 Guðmundur Sören Magnússon frá Hrauni í bréfi til BG 27. nóvember 1999.

50
51

Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps 1889-2011

IV

INNGANGUR

Lengi vel bjó hvert heimili að sínu; var sjálfstæð eining, jafnvel sjálfbær eins og sagt er nú á dögum. Hinir félagslegu innviðir byggðarlaganna voru fáir og einfaldir. Mikilvægir þó, svo sem hreppsskipanin, til sinna hlutverka. Hvað landbúnaðinn í skilningi nútímans varðaði lutu fjallskil snemma á sögulegum tíma fastmótuðum reglum, eins og síðar verður vikið að; sjósóknin sömuleiðis svo og önnur nýting auðlinda til lands og sjávar. Búnaðarbylting nítjándu aldar, sem átti þó eldri rætur, var að verulegu marki félagsleg bylting: Menn sóttu þrótt í samneyti og samvinnu við að fylgja eftir hugmyndum til nýsköpunar verkhátta eins og fréttir bárust af á rísandi upplýsingaöld. Félög um búnaðarumbætur urðu til.

Hérlendis var stofnað til fyrsta búnaðarfélagsskaparins árið 1837 með Suðuramtsins Húss- og bústjórnarfélagi, forvera Búnaðarfélags Íslands og síðar Bændasamtaka Íslands. Fyrirmyndin var sótt til evrópskra nágrannalanda þar sem félagslegar hreyfingar bænda voru þá komnar vel á legg. Búnaðarfélag Suðuramtsins var í fyrstu frjáls félagsskapur sérstakra áhugamanna um búnaðarframfarir, sem flestir komu úr röðum embættismanna og betur megandi bænda. Brátt komu til fyrstu hreppabúnaðarfélögin; það fyrsta árið 1842 í Svínavatnshreppi í A.Húnavatnssýslu. Almennir bændur tóku vaxandi þátt.

Með endurreisn Alþingis um miðja nítjándu öld, og ekki síst markvissri baráttu og forystu Jóns Sigurðssonar forseta var vaxandi þungi lagður á umbætur í atvinnumálum þjóðarinnar, tiltekið jarðyrkju svo auka mætti og bæta fóðrun búpenings til meiri og betri afurða. Búnaðarfræðsla og ráðgjöf efldust. Fyrir allt þetta voru hreppabúnaðarfélögin mikilvægur farvegur sem brátt var markaður með landslögum. Fór svo að á áratugnum 1880-1890 voru búnaðarfélög stofnuð í flestum sveitum landsins. Hreppabúnaðarfélögin áttu eftir að gegna mjög áhrifamiklu hlutverki í nýsköpun búnaðarhátta og raunar framförum þjóðlífs.

Hér verður að öðru leyti ekki fjallað um almenna sögu búnaðarfélagsskparins heldur eiga þessi orð að verða almennur inngangur að sögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Um margt er hún lík sögu annarra hreppabúnaðarfélaga landsins. Í öðru vatt henni fram eftir sérstökum aðstæðum á félagssvæðinu, svo og atvikum og einstaklingum, sem í því störfuðu á hverjum tíma. Vel má því halda til haga áhrifum Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps á byggð og búskap í hreppnum á starfstíma þess.

FÉLAGSSAGAN SKRÁÐ

Í tilefni aldarafmælis Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps samþykkti aðalfundur þess þann 15. maí 1987 að láta skrá sögu félagsins og að stefna að því að koma henni út á afmælisárinu 1989. Að beiðni þáverandi formanns félagsins, Kristjáns E. Björnssonar á Múla, tók ég verkið að mér.

Á grundvelli gagna Búnaðarfélagsins og fleiri heimilda tók ég saman þætti úr aldarsögu félagsins en vék einnig að ýmsum atriðum úr búskapar- og atvinnusögu hreppsins. Af miklu er að taka en í aldarsögu félagsins var aðeins hægt að stikla á stóru. Til varð 32 blaðsíðna rit sem út kom á afmælisárinu: Úr aldarsögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps 1889-1989.

53

Nú, aldarþriðjungi síðar, tók ég efnið fram að nýju. Textinn, sem fer hér á eftir, er að miklum hluta sá sem birtist í áðurnefndu afmælisriti. Ég hef endurskoðað hann, breytt og lagfært eftir ástæðum og þörfum en einnig bætt við efni m.a. um síðustu starfsár Búnaðarfélagsins en það var lagt niður árið 2011.

Sögu Búnaðarfélagsins þótti mér síðan við hæfi að fella inn í þessa bók því að sagan gefur nokkra hugmynd um félagslegar aðstæður varðandi landbúskapinn í Þingeyrarhreppi á einu mesta breytingaskeiði í lífi þjóðarinnar.

„Þessi fjarðarbyggð, Dýrafjörðurinn, hefur verið mjög farsæl alla tíma sögu okkar, boðið fram þægilega leið til hafs og veiða og góð veður inn með firðinum. Sveitin hefur alltaf haft margt fram að bjóða, sem íbúum hennar hefur þótt gott við að una“ . . . Arnór Sigurjónsson: Vestfirðingasaga (1975). Myndin er tekin við Meðaldalsvör; sér til Sandafells t.h.

ÁRIÐ 1889

Þótt níundi áratugur nítjándu aldar hafi verið erfiður hvað tíðarfar og árferði snerti dró það ekki úr viðleitni manna til búnaðarbóta. Búnaðarfélög urðu til og stofnaðir voru búnaðarskólar. Með verðlaunaveitingum og verkfæraútvegun að erlendum fyrirmyndum hafði einnig verið reynt að hvetja til framfara. Árið 1875 fór Alþingi að veita fé til starfs landsbúnaðarfélagsins og ekki munaði minna um það þegar þingið tók að veita almennum búnaðarfélögum starfsstyrk árið 1887. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar fjölgaði þeim. Sú hreyfing náði einnig til Þingeyrarhrepps og árið 1889 var stofnað búnaðarfélag þar.

Skoða má hvernig umhorfs var í hreppnum um þær mundir. Þá (1890) bjuggu 493 manns í hreppnum, þar af 427 í sveitinni og 66 í þorpinu. Í Sandasókn töldust vera 389 en 104 í

54

Býlin í Þingeyrarhreppi sem frá fornu hafa verið, auk Botns í

og bæja á Arnarfjarðarströnd. Merktar eru seinni tíma samgönguleiðir, þó ekki Dýrafjarðargöng.

Hraunssókn. Allar jarðir frá Svalvogum til Dranga voru setnar. Á sumum þeirra var fleirbýli. Landbúskapur í bland við sjósókn var lifibrauð alls þorra hreppsbúa. Verslun var stunduð bæði í Haukadal og á Þingeyri, en á báðum stöðum óx þéttbýli. Fardagaárið 1889-1890 voru gjaldendur í hreppnum 63. Tæpur helmingur þeirra var bændur, 31 að tölu; búlausir voru 16, og jafnmargir töldust húsmenn og vinnumenn. Í hópi gjaldenda voru aðeins tvær konur.

Af ræktuðu landi í hreppnum voru 153 dagsláttur (um 50 hektarar) og 984 ferfaðmar (3.500 m2) í kálgörðum og öðru sáðlandi. Búfjáreign hreppsbúa var 79 nautgripir, þar af 71 kýr og kefld kvíga, 1365 fjár og 65 hross. Meðalfjáreignin var 38 fjár; fjárríkastur var Sandaprestur með 96 fjár. Sjá einnig III. kafla.

BÚNAÐARFÉLAGIÐ STOFNAÐ

Stofndagur Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps var 9. mars 1889. Fyrstu lög félagsins voru samþykkt á fundi þess á Þingeyri 25. mars sama ár. Lögin lýsa því hvað fyrir mönnum vakti með félagsstarfinu:

1. grein

Það er tilgangur fjelagsins, að efla og bæta landbúnað í Þingeyrarhreppi, og skal það því í orði og verki og á hvern hátt, sem því þykir við eiga, stuðla til þess að auka og bæta jarðrækt, garðrækt, skepnukyn og skepnumeðferð í hreppnum og yfir höfuð allt sem að landbúnaði lýtur.

2. grein Fjelagsmaður getur hver orðið, sem vill, hvort heldur er karl eða kona, utan eða innan sveitar, en hafa þó samþykki fjelagsins.

55
Mýrahreppi

3. grein

Hverjum fjelagsmanni, sem er búandi í Þingeyrarhreppi, er skylt að greiða fjelaginu á hverju ári 2 kr. Búlausir fjelagar og allir fjelagar utan sveitar greiði því 1 kr. á ári.

4. grein

Hver fjelagsmaður skal hafa lokið árstillagi sínu til formanns fyrir lok ágústmánaðar ár hvert. Nú hefur einhver eigi greitt tillag í 2 ár og er hann þá rækur úr fjelaginu, en gjaldi eigi að síður tillög sín. En heimil er honum þó innganga á ný er hann greiðir hin ógoldnu tillög sín.

5. grein

Stjórn fjelagsins er 3 manna nefnd, formaður og 2 meðstjórar, og skulu þeir kosnir árlega úr flokki fjelagsmanna á aðalfundi. Fjelagsstjórnin skal vinna kauplaust, en ritföng og önnur bein gjöld, er leiðir af embættisstörfum í þarfir fjelagsins, má endurgjalda úr fjelagssjóði.

6. grein

Formaður stjórnar öllum fundum fjelagsins og sjer um að þar fari allt fram með reglu. Hann skal sjá um að fjelagslaganna sje vandlega gætt. Hverju áríðandi máli, sem eigi má bíða fundar til úrslita, má formaður með ráði meðstjóra ráða til lykta, og sje þá að minnsta kosti annar þeirra honum samþykkur. Á hverjum aðalfundi skal hann gjöra grein fyrir framkvæmdum fjelagsins og ráðsmennsku stjórnarinnar. Formaður hefur á hendi fjárgæzlu fjelagsins, tekur við öllum tekjum þess og greiðir öll gjöld þess og heldur glögga dagbók yfir. Hann skal sjálfur varðveita eða láta á sína ábyrgð varðveita allar eignir fjelagsins. Hann skal hafa bók, er rita skal í ályktanir funda þegar á fundunum og getur kosið einhvern fundarmanna til skrifara. Í þess bók skal og skrifa ársreikning fjelagsins og skal honum vera lokið fyrir aðalfund og þar til sýnis. Fela má formaður meðstjórum sínum hver embættisstörf sín, sem eru, en þó á sína ábyrgð.

7. grein

Fjelagið hefur á hverju ári aðalfund 9. marz, stofnunardag fjelagsins. En beri þennan dag upp á sunnudag eða sje þá ófært veður, skal fundi frestað til næsta rúmhelgs dags eða veðurfærs dags á eftir. Til aukafunda boðar formaður, þegar honum þykir þörf, eða ef að minnsta kosti helmingur fjelagsmanna skorar á hann um það. Alla fundi skal formaður boða með nægilegum fyrirvara. Á fundum hafa allir fjelagsmenn atkvæði og ræður meiri hluti úrslitum mála.

8. grein Á aðalfundi skal rætt um, hvað fjelagið skuli framkvæma á því ári. Skal formaður þá skýra frá framkvæmdum fjelagsins á umliðnu ári og gefa glögga skýrslu um framfarir þær, er fjelagið hefur á því komið til vegar. Hann hefur þá og til sýnis ársreikning fjelagsins, og kýs fundurinn 2 menn, sem ekki eru í stjórninni, til að endurskoða reikninginn. Á aðalfundi skal formaður skýra frá, hverjir hafa eigi greitt tillög sín.

9. grein

Enginn fundur er lögmætur nema ¼ hluti fjelagsmanna mæti. Lögum fjelagsins má eigi breyta nema 2/3 fjelagsmanna mæti.

10. grein

Hvenær sem efni fjelagssjóðs leyfa má á aðalfundi veita verðlaun 1 eða 2 mönnum, sem, eptir mati 3 manna, þar til kvaddra af fundinum, hafa komið á hjá sjer mestum jarðabótum eða gjört sjer mest í þá átt, er til einhverra framfara í landbúnaði [lýtur] fyrir lok yfirstandandi árs.

11. grein

Vilji einhver segja sig úr fjelaginu er það ógilt, nema hann hafi skýrt formanni brjeflega frá því fyrir árslok, og hefur formaður brjefið til sýnis á aðalfundi. Þótt einhver flytji búferlum úr hreppnum, er hann eigi vikinn úr fjelaginu fyrir það.

Fyrsta árið gengu 32 menn í félagið, þar af 21 bóndi. Kristján Andrésson, skipstjóri í Meðaldal, var kjörinn fyrsti formaður félagsins en meðstjórar með honum þeir Guðmundur Eggertsson bóndi í Höll og Guðmundur Nathanaelsson bóndi á Kirkjubóli.

56

Kristján Andrésson (1851-1941) bóndi og skipstjóri í Meðaldal, fyrsti formaður Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps, og kona hans Helga Bergsdóttir (1866-1932) (Einkasafn).

Ekki er til skrá um stofnfélaga en hins vegar félagatalið árið 1890. Þá hafði félögum fjölgað í 36. Voru „22 búandi menn en 14 búlausir“. Fer félagatalið hér á eftir eins og það var skráð í fundargerðabók félagsins:

1. F.R. Wendel verzlunarstjóri á Þingeyri 2. Oddur Jónsson læknir s.st. 3. Kristinn Daníelsson prestur á Söndum 4. Bjarni G. Jónsson söðlasmiður í Haukadal 5. Kristján Andrjesson skipstjóri í Meðaldal 6. Andrjes Pjetursson skipstjóri í Haukadal 7. Hákon Jónsson bóndi sama st. 8. Steinþór Egilsson skipstjóri á Brekku 9. Guðmundur Nathanelsson bóndi á Kirkjubóli 10. Benjamín Bjarnason skipstjóri á Múla 11. Guðleifur Jónsson bóndi á Bakka 12. Guðmundur Eggertsson bóndi í Höll 13. Ólafur G. Jónsson bóndi s.staðar 14. Eggert Andrjesson bóndi á Skálará 15. Ólafur Jónsson bóndi á Sveinseyri 16. Ólafur Guðmundsson bóndi í Hólum 17. Aðalsteinn Pálsson bóndi á Hrauni 18. Guðrún Ívarsdóttir ekkja á Hrauni

19. Jón Jónsson skipstjóri sama st. 20. Þorvaldur Þorvaldsson vinnum. í Hólum 21. Magnús Jónsson skósmiður á Sveinseyri 22. Guðbjartur Jónsson bóndi í Svalvogum 23. Guðbrandur Guðmundsson tómthúsm. á Þingeyri 24. Guðbjörg Bjarnadóttir ekkja á Arnarnúpi 25. Kristján Fr. Einarsson bóndi í Hvammi 26. Gísli Björnsson bóndi sama st. 27. Sigurður Jónsson skipstjóri í Haukadal 28. Ari Kristjánsson vinnum. á Sveinseyri 29. Jóhannes Ólafsson hreppstjóri á Þingeyri 30. Óli Kr. Kristjánsson tómthúsm. á Ásgarði 31. Jón Eggertsson tómthúsm. í Sæbóli 32. Helgi Einarsson bóndi á Hofi 33. Guðmundur Jensson bóndi á Brekku 34. Finnur Thordarson verzlunarm. á Þingeyri 35. Lárus Einarsson vinnum. í Hvammi 36. Sigurður Sigurðsson búfræðingur í Meðaldal

Liðlega tveir þriðju allra bænda í hreppnum höfðu gerst félagar, allir embættismenn þar og margir lausamenn. Félagsmenn voru af flestum bæjum utan frá Svalvogum og inn í Hvamm en af þremur innstu bæjunum var enginn í félaginu.

FYRSTU VERKEFNI FÉLAGSINS

Fyrsta árið var ekkert unnið að jarðabótum á vegum félagsins þar eð ekki tókst að útvega búfræðing til starfa. Engu að síður hlaut félagið 40 króna starfsstyrk úr landssjóði að tilhlutan sýslunefndar. Sumarið 1890 réði félagið til sín Sigurð Sigurðsson (1864-1926) frá Langholti í Flóa, þá nýútskrifaðan búfræðing frá Búnaðarskólanum á Hólum í Hjaltadal. Sigurður varð síðar kunnur undir nafninu Sigurður ráðunautur til aðgreiningar frá Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra en báðir störfuðu þeir hjá Búnaðarfélagi Íslands. Í Þingeyrarhreppi var Sigurður frá Langholti hins vegar þekktur sem Sigurður búfræðingur.

57

Sigurður Sigurðsson (1864-1926) búfræðingur og síðar ráðunautur Búnaðarfélags Íslands var fyrsti starfsmaður Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Hann átti þátt í mótun þess fyrstu starfsárin. Hann kom að ýmsum félagsmálum í hreppnum á árunum 1890-1895, m.a. barnakennslu og útgáfu handskrifaða blaðsins Kveldúlfs (Einkasafn).

Elsta fundargerðin sem varðveist hefur er frá aukafundi Búnaðarfélagsins höldnum á Þingeyri 20. desember 1890. Á þeim fundi pöntuðu félagsmenn alls 136 dagsverk er búfræðingurinn skyldi vinna á næsta sumri. Ákveðið var að ráða mann „er ynni með búfræðingnum yfir vorið eða sumarið 8 vikur alls.“ Þá var rætt um verkfærakaup fyrir félagið og samþykkt „að fara þess á leit við sýslunefnd Ísafjarðarsýslu, að hún lánaði fjelaginu næsta sumar eða gæfi því herfi og aktygi.“ Þá var ennfremur samþykkt, að fela Kristjáni Einarssyni í Hvammi „að smíða fyrir fjelagið 1 ristuspaða og 1 skera fyrir sama verð sem Torfi í Ólafsdal smíðar þá, sem sje 4 kr.“

Skoðum fyrsta ársreikning Búnaðarfélagsins; hann var fyrir árin 1889 og 1890. Félagið naut opinber stuðnings og árgjöld innheimtust vel. Gjöldin voru laun búfræðingsins, ferðakostnaður hans og skóleður. Einnig virðist hafa verið útveguð taðkvörn, sem þá var nýjung á landsvísu, sem og áhöld úr smiðju Kristjáns í Hvammi. Til viðmiðunar um verðlag má nefna að um þær mundir var kýrverð skv. verðlagsskrá liðlega 107 kr. Má því telja að árskaup Sigurðar búfræðings hafi verið dágott, tæplega tvö kýrverð.

Fyrsta ræktunarár félagsins voru unnin 132 dagsverk að jarðabótum hjá 18 jarðabótamönnum. Framkvæmdirnar voru þessar:

Skurðir „til veitu“ 1434 faðmar (2.700 m) 17.847 teningsfet (~ 500 m3) Kálgarðar 33 ferfaðmar (117 m2) Túnasléttur 675 ferfaðmar (2.394 m2)

Í skýringum með skýrslunni segir að allir skurðir hafi verið grafnir með 45 gráðu halla og 300 teningsfet (8,5 m3) lögð í hvert dagsverk. Túnaslétturnar voru „gjörðar með skera, spaða og skóflu.“ Tíu ferfaðmar (~35 m2) voru lagðir í dagsverkið við túnasléttun. Ræktunartækni þeirra ára var þaksléttun í beðum: Rist var ofan af, jafnað, borið í og síðan þakið að nýju.

Fyrsti ársreikningur Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps.

58

FYRRI RÆKTUNARUMBÆTUR

Ræktunarumbætur voru ekki nýmæli í Þingeyrarhreppi þegar Búnaðarfélagið hóf störf. Hvað elstu heimildir um þær eru frá ofanverðri átjándu öld. Þá var danskur undirkaupmaður á Þingeyri, Jens Larsen Busch að nafni. Hann hlaut verðlaun konunglega danska búnaðarfélagsins, „hinn stærri silfurpening“ fyrir garðrækt sína árið 1776. Tveimur árum síðar sendi félagið honum eina tunnu af útsæði; ennfremur tvo plóga, ásamt ritlingum um notkun þeirra, er afhenda skyldi mönnum.87 Olavius taldi sig sumarið 1775 sjá leifar fornra akra „hjá verzlunarstaðnum á Þingeyri. Þar virðist akuryrkjan alls ekki hafa verið svo lítils háttar, nema ef akurreinarnar eru aðeins leifar endurtekinna tilrauna“, skrifaði hann. Olavius lýsti einnig garðyrkju Larsen Busch, sem virðist hafa verið afar fjölbreytt með grænmeti, kartöflum rúgi og byggi, í garði „sem var umgirtur traustum torfgörðum.“88 Þegar Ebenezer Henderson fór um Þingeyri árið 1815 vakti athygli hans fallega umgirtur blettur að baki verslunarhúsunum „sem mjög prýðir staðinn og stingur ánægjulega í stúf við skuggaleg fjöllin í kring“89 . . . Búnaðarskýrslur þessara ára greina líka frá nokkrum áhuga hreppsbúa á garðyrkju, sveiflukenndum þó eftir aðstæðum, eins og eftirfarandi tölur um fjölda heimilisgarða (køkkenhaver) sýna:

Skýrslur greina frá ýmsum jarðabótum hreppsbúa er kom fram á nítjándu öldina. Fram til 1890 var þar helst um að ræða vatnsveitingar, en einnig nokkra túnasléttun svo og kálgarðagerð. Í sóknalýsingum frá því um 1840 sagði þó m.a.: „Ekki er nokkurskonar almenn jarðarrækt stunduð, utan máske greftir til vatnsveitinga . . . Mjög fáir stunda hér kálgarðarækt, en aðrar jarðar- eða sáðjurtir enginn.“90

Í Hvammi um 1900. Mynd úr safni Lauritz og Martha Berg. Af þýfinu var nóg (Þjóðminjasafn).

87 Ólafur Olavius: Ferðabók I (Forspjall Jóns Eiríkssonar) (1964), 26 og 29.

88 Ólafur Olavius: Ferðabók I (1964), 146 og 174-174.

89 Henderson: Ferðabók (1957), 296.

90 Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 61.

59
1819 á 4
1826 á 17
1833 á 5 bæjum
bæjum
bæjum

Á Fögrubrekku – tóftum Skála þar sem Guðmundur Guðmundsson, kallaður norðlenski, reisti sér bústað árið 1858. Sunnan undir húsatóftunum má enn greina 80 m2 garð. Í honum hefur Guðmundur sennilega ræktað kartöflur sínar og ef til vill einnig jurtir sem hann nýtti síðan í seyði sín og lækningameðöl. Garðurinn er því minningamark um merkilegt ræktunarstarf í Þingeyrarhreppi á nítjándu öld.

Nefna má Guðmund Guðmundsson (1799-1885) er um tíma (1858-1868) bjó á Fögrubrekku (Guðmundarskála) í landi Sanda. Hann varð þekktur fyrir lækningar sínar og ýmislegt fleira, sigldur maður, sérstæður mjög en sagður vel verki farinn og driftugur og duglegur búhöldur.91 Knútur Bjarnason hafði það eftir föður sínum að Guðmundur, sem kallaður var norðlenski, hafi verið frumkvöðull kartöfluræktar í Þingeyrarhreppi.92 Líklegt er að fleiri jurtir hafi hann ræktað vegna lækningastarfa sinna á meðan hann bjó á Fögrubrekku.

Sr. Jón Jónsson, sem sat Sanda árin 1882-1884 lét „gjöra vatnsveitingaskurð til að veita Sandaá heim á túnið, og er það talin talsverð jarðabót og þykir til nytsemdar vera,“ segir í vísitazíubók prófastsdæmisins, sjá mynd á bls. 60. Hugsanlega er eitthvað af Veitunum sem svo heita á nokkrum stöðum í sveitinni frá þessum tíma. Áttundi áratugur aldarinnar fram til hörðu áranna um 1880 varð allmikið ræktunarskeið.

FRAMTAK Í FJÁRRÆKT

Í samræmi við lög Búnaðarfélagsins var það ekki aðeins til eflingar jarðrækt heldur skyldi einnig sækja fram í meðferð búfjárins sem og því að bæta skepnukyn, eins og þar stóð. Í því skyni gekkst Búnaðarfélagið fyrir vigtun fjár í hreppnum veturinn 1890-1891. Félagssvæðinu var skipt í þrennt: Innan frá og út að Kirkjubóli, frá Hólum til Sveinseyrar og svo bæirnir utan við Hálsa. Tveir félagsmenn önnuðust verkið á hverju svæði. Fé á flestum bæjum var vigtað og nákvæm skrá um niðurstöður færð í gjörðabók félagsins. Til fróðleiks eru meðaltölur þeirra birtar hér á eftir:

91 Halldór Kristjánsson: „Guðmundur norðlenski“. (1992), 67-116.

92 Knútur Bjarnason í samtali við BG 3. ágúst 1993.

60

Meðalþyngd ær veturg. lömb í 2. viku vetrar 1890 47 kg 45 kg 27 kg 21.-24. janúar 1891 43 - 39 - 263.-6. apríl 1891 45 - 40 - 27 -

Þungatölurnar sýna að féð hefur að jafnaði aðeins verið fóðrað til viðhalds og raunar mjög tæplega það, eins og tölurnar um lömbin sýna. Ætla má að vetrarbeit hafi verið hin viðtekna venja og hey sparað. Óbreyttur þungi lamba frá hausti til vors lýsir alvarlegu næringarástandi þeirra jafnvel þó þau hafi ekki verið með fangi. Til samanburðar má bregða upp meðalþunga fjár á svæðinu um það bil einni öld síðar: Meðalþyngd ær lömb

15. október 1987 65 kg 38 kg 1. febrúar 1988 68 - 4530. apríl 1988 79 - 58 -

Hér hafa miklar breytingar orðið í kjölfar kynbóta og stórbættrar fóðrunar og annarrar umhirðu, rétt eins og Búnaðarfélagið ætlaði sér, skv. fyrstu grein félagslaganna . . . að bæta . . . skepnukyn og skepnumeðferð

Veturinn 1891-1892 var féð enn vigtað á vegum félagsins. Vorvigtunin féll þó niður á Innsveitinni það ár. Hinn þriðja vetur mun ekki hafa orðið af vigtun fjár í hreppnum þótt félagsfundur haustið 1892 hafi kosið menn til þess.

Búnaðarfélagið gerði nautgriparæktinni ekki viðlíka skil. Hins vegar er vitað að formaður félagsins, Kristján í Meðaldal, hélt skýrslur um nyt kúa sinna árið 1890. Meðalnyt þriggja kúa þar, sem voru á skýrslu allt árið, var 2.104 pottar.

Um og upp úr 1890 virðist mikill framfarahugur hafa gert um sig í hreppnum hvað búskapinn snerti. Líklega má rekja hann að töluverðu marki til Sigurðar búfræðings en fleiri beittu sér. Þessara hræringa gætti líka í nágrannabyggðunum. Þannig var haldinn almennur búnaðarfundur á Þingeyri 17. mars 1893 fyrir vesturhluta Ísafjarðarsýslu. Matthías Ólafsson úr Haukadal stýrði fundinum en þar tóku ríkan þátt í fundarstarfinu auk hans þeir búfræðingarnir Sigurður Sigurðsson og Kristinn Guðlaugsson á Núpi, einnig sr. Þórður Ólafsson og fleiri. Fundargerðin sýnir að stór mál voru tekin til umræðu: Um [sauð]fjárskoðanir. Um stofnun kornforðabúra. Um ábyrgðarsjóði fyrir kýr. Um sundurpörtun jarða í smá ábúðir. Um búnaðarnám og loks Um vinnutíma. 93 93

Þjóðviljinn ungi II (1893), 50, 54-55.

61

ANDBYR

Ekki hafði Búnaðarfélagið starfað lengi þegar af því tók að draga. Til þess lágu vafalaust ýmsar ástæður. Erfiðlega gekk að útvega menn til jarðabótastarfa. Samkeppnin um vinnuafl var orðinn talsverð sakir þess að sjávarútvegur við Fjörðinn var vaxandi á þessum árum. Þar munaði til dæmis um hvalveiðistöðina í Framnesi og atvinnu sem þar var að hafa. Vegna erfiðra ræktunarskilyrða vannst oft minna eftir dagsverkatali en ákveðið var í reglum landshöfðingja. Gekk því illa að fullnægja skilyrðum fyrir veitingu landssjóðsstyrksins til jarðabótanna á vegum Búnaðarfélagsins. Það var ef til vill af þeim sökum sem rætt var um það á félagsfundi haustið 1892 að breyta lögum félagsins á þann veg að hver búandi félagsmaður væri „skyldur að láta vinna árlega í minnsta lagi 8 til 10 dagsverk“. Það ákvæði var í anda hinna eldri laga um jarðabætur – Þúfnatilskipunarinnar, er svo var kölluð, frá 1776.

Fróðlegt er að grípa niður í bréfi sr. Kristins á Söndum til Sigurðar búfræðings frá 15. ágúst 1892. Þá var prestur nýlega orðinn formaður Búnaðarfélagsins. Sigurður hafði haft milligöngu um útvegun búfræðings fyrir félagið í sinn stað; Stefán hét hann Sigurðsson, líklega búfræðingur frá Hólum 1889. Í bréfinu segir sr. Kristinn m.a.:

. . . hann kom of seint, allt of seint. Við þurftum að hafa ársmann, en ekki daglaunamann því að með ársmanninn hefði þá minna gjört, þótt nokkrir dagar hefðu liðið, sem eigi varð unnið, en daglaunamann var náttúrl. ekki gott að fá, upp á það, að hann fengi eigi strax að taka til vinnu. Jæja, þeir Stefán geta ekki nærri því unnið upp þá vinnu, sem félagsmenn hafa pantað. En þeir láta sér nú standa á sama því árferði er vont. – Ekki getur verið um að tala að fá neinn, enda hefur þeim ekki unnizt eins mikið eptir dagsverkatali, eins og lagt er í dagsverk eptir alþingisreglunum. Túngarðsspotti t.d. sem þeir hlóðu hjá mjer, varð rjettum helmingi styttri, en átt hefði að vera eptir nefndum reglum. Ekki er þetta af því, að mennirnir sjeu ekki fullduglegir, heldur af því að hjer er svo illt til allra jarðabóta. Í þennan túngarðsspotta fengu þeir t.d. ekkert efni, því að ekki er nema svo sem 2 þuml. alstaðar ofan að grjótharðri, óvinnandi mölinni, altsvo enginn hnaus, ekkert innaní nema möl.

Ég met nú reyndar lítils landssjóðsstyrkinn, en það er ómennskulegt, að geta ekki komið til greina. Landssjóður ætti ekki að kasta út neinu fje í þessi gorkúlu-búnaðarfélög út um allt land, nema ef vera skyldi bara til þess, að menn spjöruðu sig svona ögn betur, til að geta með herkjum talizt með, þá mundi kannski margt fjelagið þykjast gott fyrir sinn hatt og eigi hirða að hlaupa meira, og er þá lítið unnið. Nei, bara burt með styrkinn, því fje skyldi heldur verja til fárra stærri fyrirtækja, sem gagn væri að, t.d að brúa einhverja lækjarsprænu . . . Búnaðarfjelagið er annars ómögulegt og gagnslaust í því horfi, sem það er; það er ekki nema tómt kál. Það þarf að taka til með krapti í túngörðunum. . .

Utan dagskrár má geta þess að sr. Kristinn á Söndum var tengdasonur Halldórs Kr. Friðrikssonar yfirkennara og forseta Búnaðarfjelags Íslands á þessum árum; kvæntur Ídu, dóttur hans. Undir forystu Halldórs mótaði Búnaðarfjelagið sennilega öðrum fremur þær reglur um opinberan stuðning við búnaðarbætur sem í gildi voru. Hér var því með skildum að skipta – hvort sem það nú breytti einhverju.

62

Vonbrigðin virðast hafa náð til fleiri því töluverðar hræringar voru í Búnaðarfélagi Þingeyrarhrepps um þær mundir. Meðal annars voru skipti stjórnarmanna tíð og allmikið um úrsagnir úr félaginu. Eftir þessu fór félagsstarfið og á aðalfundi 1899 kom fram að félagið „sá sjer eigi fært að ráðast í jarðabætur á næsta sumri sökum mannfæðar“. . . Var þá samþykkt sú „bráðabirgðaákvörðun um hag fjelagsins, að næstu 3 ár greiði fjelagsmenn að eins 50 aura tillag á ári, þó svo þessi ákvörðun fellur niður jafnskjótt sem fjelagið starfar svo mikið, að það getur fengið landssjóðsstyrk og skal þá tillagið verða sem áður“ . . .

Má segja að með nítjándu öldinni hafi lokið fyrsta skeiði í starfi Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Það einkenndist af snöggu risi, þar sem starf umferðarbúfræðinganna og þá sérstaklega Sigurðar búfræðings, og jarðabætur voru allar unnar með handafli og hinum einföldu verkfærum. Hnignunin gerðist jafnskjótt, árferði var erfitt og bændur að því er virtist ekki tilbúnir til stórátaka í ræktun með þeim áhöldum sem tiltæk voru og fyrir þá hvatningu er bauðst. En búnaðarframfarir voru þó hafnar. Til þess hafði Búnaðarfélagið séð.

TUTTUGASTA ÖLDIN GEKK Í GARÐ

Með tuttugustu öldinni tók félagsmönnum Búnaðarfélagsins aftur að fjölga þótt engin straumhvörf yrðu í félagsstarfinu. Á aðalfundi 1901 kom til tals að hækka árstillag í því skyni að félagið gæti framvegis . . . „með fleiri verðlaunum hvatt menn til búnaðarframfara.“ Samþykkt var að félagið héti tvennum verðlaunum, . . . „10 og 5 kr. að upphæð, fyrir bezta meðferð á áburði.“ Skyldu verðlaunin veitast tveimur félagsmönnum, er tilkjörnir menn álitu verðugasta, og skyldi um þau sótt fyrir áramót hverju sinni. Árið 1902 sótti Matthías Ólafsson um verðlaunin og fékk „hin meiri verðlaun 10 kr.“ Það ár ákvað félagið að veita auk þess verðlaun fyrir kartöflurækt . . . „þeim þurrabúðarmanni, sem er fjelagsmaður og álitinn verðastur til, þó má framleiðslan eigi vera minni en 4 tunnur.“ Um þetta leyti var þurrabúð fólks orðin algeng í Þingeyrarhreppi, einkum á Þingeyri og að nokkru í Haukadal. Virðist félagið hafa ætlað að örfa þurrabúðarfólkið til sjálfsbjargar um það meðlæti sem kartöflur voru. Það setti mark á búskapinn í hreppnum að sjórinn kallaði nú á meira vinnuafl en áður. Í bréfkafla heimamanns til Sigurðar búfræðings frá haustinu 1903 er dregin upp þessi mynd:

Nú sem stendur drejer allt sig um ráðningar bæði til sjós og lands, en það er eins og fólkið sökkvi þegar það kemur af skipunum á haustin, alltaf vantar fólk. Útgjörðarmaðurinn og Bóndinn keppa hver við annan að ná í þessa hausa sem upp úr standa, báðir hræddir um ekki að geta rekið sínar Forretningar, annar með að koma skipunum á vatnið, hinn með að fá slegin túnin, sem þó víst bráðum verður farið að hætta við í Dýrafirði, því enginn vill verða til að bera á að haustinu94

94 Guðmundur Kristjánsson skipstjóri í bréfi til Sigurðar Sigurðssonar búfræðings 3. nóvember 1903. Þjskjs. E.76.2 [Sig.Sig. búfr.]

63
Sr. Kristinn Daníelsson prestur á Söndum. (Alþingi)

Hafið var það skeið þegar varanlegar breytingar urðu á atvinnulífi í hreppnum og til sögunnar kom sérhæfður sjávarútvegur með fiskverkun og vaxandi þéttbýli á Þingeyri. Svipuð varð þróunin í Haukadal þar sem fólki fjölgaði fram á annan áratug tuttugustu aldar.

Um þessar mundir beindist athygli bænda í vaxandi mæli að beitingu hestafls við búverk. Á aðalfundinum 1905: „Fundurinn heitir þeim manni, sem á komandi sumri vildi læra plægingar með plógi 100 krónu styrk, gegn því að hann að afloknu námi setjist að í hreppnum og plægi eða kenni plægingu.“ Hér var um myndarlegan fjárstyrk að ræða sem m.a. sést af því að þá voru árslaun aukakennara á Hvanneyri 300 kr. – skólaárið 1906-1907.

Ekki munu hafa orðið bein viðbrögð við þessari samþykkt. Hitt má þó nefna að þetta haust hóf Ólafur Hákonarson frá Ystabæ í Haukadal nám við Hvanneyrarskóla. Hann átti eftir að koma mjög við sögu Búnaðarfélagsins. Við hann bundu menn þá þegar vonir og á aðalfundi veturinn 1907 var málið rætt og þannig fært til bókar:

Formaður [þá Matthías Ólafsson í Haukadal] stakk upp á, að félagið útvegaði sér, þegar á næsta sumri, plægingarmann, plægingarhesta, plóg, herfi og aktygi. Kvaðst hann hafa augastað á Ólafi Hákonarsyni frá Haukadal, er nú stundar búfræðinám á Hvanneyri til að læra plægingar nú á næsta vori í Brautarholti og ætti hann að hafa hesta þá, er félagið keypti með sér þangað og fá þá æfða þar við plægingu. Ef það brygðist, að Ólafur fengist til þess, skyldi snúa sér til Búnaðarfél. Ísl. með útvegun á plægingarmanni, en áhöld og hesta skyldi farið fram á við Jón bústjóra Jónatansson í Brautarholti að útvega, nema plægingarmaðurinn hefði þá sjálfur til og skyldi honum þá gefinn kostur á að félagið keypti hestana. . .

Uppástungan var samþykkt. Síðan segir í fundargerðinni:

Á fundinum var gert ráð fyrir, að búfræðingnum mundi vinnast tími til að slá fóður handa hestunum að vetrinum og var þess farið á leit við síra Þórð Ólafsson á Söndum, að hann lánaði slægjur og kvað hann líklegt, að hann mundi geta lánað slægjur á Galtardal.

Í helstu atriðum gekk þetta eftir. Ólafur búfræðingur Hákonarson kom um vorið, lærður plægingarmaður frá Brautarholti á Kjalarnesi, og að því er best er vitað með tvo plægingarhesta úr Borgarfirði. Í Reykjavík biðu hans aktygi á tvo plóghesta, plógur og herfi, sem Búnaðarfélagið hafði keypt að forgöngu Matthíasar Ólafssonar, formanns þess.95 Næstu árin vann Ólafur að jarðabótum í hreppnum, einkum túnasléttun, megi marka jarðabótaskýrslur. Einnig lánaði félagið hesta sína og verkfæri til vinnu. Nutu félagsmenn sérstakra kjara umfram aðra hreppsbúa. Ólafur Hákonarson þótti vandvirkur og mikilvirkur plægingamaður. Nokkrir bændur einnig unnu að jarðabótum með eigin hestum áður en dráttarvélar komu til sögunnar, svo sem bændurnir á Brekku, Kirkjubóli og í Hólum.96

95 Jón Friðrik Matthíasson frá Haukadal í samtali við BG 27. apríl 1983.

96 Kristján Guðmundsson frá Höll, síðar á Akranesi, í samtali við BG 16. mars 1983.

64

En félagsstarfið seig aftur í lægð, fundir voru fáir og fundasókn dræm. Aðalfundur félagsins árið 1912 skoraði á stjórnina að gera allt sem hún gæti . . . „til að glæða áhuga á búnaði t.d. meðal annars með því að gangast fyrir búnaðarsamkomum og tíðari fundum.“ Það kom fyrir ekki. Félagið lognaðist út af um 1915. Lá starfsemi þess niðri allt til ársins 1922. Um 1910 tók fólki í sveitinni að fækka og nokkur deyfð færðist yfir búskap þar. Þorpið á Þingeyri var hins vegar í örum vexti. Þangað fór vinnuafl úr sveitinni svo búskapurinn þar gerðist óhægari en áður. Ekki bætti það heldur að árferði var iðulega erfitt á þessum árum. Árin 1914-1921 voru skýrslufærð dagsverk við jarðabætur engin í hreppnum.

HVAÐ UNNIST HAFÐI Áður en lengra er haldið er rétt að draga upp tölur um jarðabætur í Þingeyrarhreppi á tímabilinu fram til þess að Búnaðarfélagið lagðist í dvala. Meðfylgjandi mynd gefur hugmynd um jarðabætur í hreppnum á tímabilinu 1877-1911:

Jarðabætur í hreppnum hófust, eins og áður sagði, fyrir daga Búnaðarfélagsins. Af hinum skýrslufæru verkum fór mest fyrir veituskurðunum. Af þeim var mikið gert á áttunda áratug nítjándu aldar, enda voru áveitur þá sú ræktunaraðgerð sem hvað áhrifamest þótti á þeim árum. Sömuleiðis óx þá útbreiðsla kálgarðanna. Má segja að þá hafi risið fyrsta bylgja ræktunarumbóta í hreppnum. Sú næsta reis með stofnun og starfi Búnaðarfélagsins. Þá fór mest fyrir jarðabótum með þúfnasléttun og túngarðahleðslu en veituskurðirnir voru þó áfram á dagskrá. Ætla má að á þessu skeiði hafi sérstaklega munað um þá verkþekkingu sem Búnaðarfélagið hafði forgöngu um að afla með búfræðingunum. Líka komu til hentug verkfæri svo sem undirristuspaðinn. Enn í dag sjá minjar um túnasléttun á þurrlendi nálægt bæjum sem sennilega eru frá þessum tímum. Skrifarann grunar að minjar um beðasléttur sem má sjá í Meðaldalstúninu framan og ofan við bæinn, á Kaupstaðartúninu svonefnda í Haukadal, innan við Sæbólsbæinn og framan við bæinn í Höll (vestan í Miðhólnum) séu sléttur gerðar á fyrstu árum Búnaðarfélagsins.

65

Á þriðja tímabilinu, 1905-1910, komu hestaverkfærin til sögunnar. Þá færðist túnasléttunin aftur í vöxt. Um þær mundir voru gaddavírsgirðingarnar að ryðja sér til rúms sem búnaðarnýjung. Þær breyttu miklu um ræktun og nýtingu lands. Með þeim mátti friða tún og önnur slægjulönd fyrir beit. Heyfengur hreppsbúa fór jafnt og þétt vaxandi allt fram til 1918 að árferði spillti svo grasvexti á túnum að allmörg ár liðu áður en hann náði sér að nýju.

FERÐ SIGURÐAR BÚFRÆÐINGS 1920

Sumarið 1920 ferðaðist Sigurður búfræðingur, sem nú var orðinn ráðunautur Búnaðarfélags Íslands, um Vestfirði að tilhlutan Búnaðarsabands Vestfjarða. Tilgangur ferðar hans var að leiðbeina um áveitur, framræslu og túnrækt, kynna sér verkfæranotkun og skilyrði fyrir notkun sláttuvéla, svo og að afla upplýsinga um afurðir búfjárins, einkum sauðfjár. Sigurður skrifaði ítarlega greinargerð um ferð sína. Þar sagði hann m.a. um Þingeyrarhrepp . . .

. . . Margbýlt er þar á sumum jörðum. Í Haukadal búa 7 bændur. Þar bjuggu lengst af áður þrír og þótti nóg. Í Hrauni eru ábúendur 5 og í Hvammi er fjórbýli. - En af þessu margbýli á jörðunum leið meðal annars, að túni og engjum er skift í ótal smáskákir milli búendanna, og hefir það í för með sjer margskonar óþægindi, tímatöf og ýmsa aðra annmarka . . .

Jarðabætur töluverðar voru gerðar þar um eitt skeið, en nú um all-mörg ár, eða síðan 1910, hefir lítið verið átt við þær . . . Girðingar um tún, nokkurnveginn gripheldar og góðar, eru á 6 jörðum í hreppnum, og á 4 jörðum eru túnin girt með 1-2 strengjum.

Áburðarhús eru 5 í sveitinni og forir eru á 5 eða 6 bæjum. Vatn til neyslu er leitt inn á 6 heimilum, og á sumum þeirra er því einnig veitt inn í fjenaðarhús.

Garðrækt er meiri eða minni á hverju býli. – Fyrir 30 árum gætti hennar lítið þar. Þá voru að nafninu til garðholur á öðrumhvorum bæ. Hefir því garðræktinni farið þarna mikið fram síðan.

Húsakynni mega teljast góð í Þingeyrarhreppi. Íbúðarhús úr steini eru þar á tveimur eða þremur bæjum, utan Þingeyrar. Íbúðar-timburhús eru víða, og ella góðir torfbæir. - Peningshús eru þar víða góð og nálega alstaðar sæmileg. Líklega óvíða betri í sýslunni. Steinsteypt fjós eru þar á 6 eða 7 jörðum, og hlöður, steyptar, gerðar úr timbri eða hlaðnar úr torfi eru á flestum, ef ekki öllum jörðum í hreppnum, og víða fyrir alt heyið. – En votheysgerð hefir víst lítið eða ekkert verið reynd til þess.

Margir færa enn frá í Dýrafirði, þar á meðal í Haukladal og víðar.

Jafnvel þó landbúskapur sje lítið eitt meiri í Dýrafirði en Arnarfirði (Auðkúluhreppi), þá er þó sjómennskan þar, bæði á þilskipum, mótorskipum og opnum bátum, annars vegar, og stunduð jöfnum höndum, og landbúnaðurinn. Samt sem áður eru þar fáeinir bændur, er teljast mega lifa að mestu eða öllu leyti á landbúskap97. . .

97

Sigurður Sigurðsson: „Landbúnaðurinn á Vestfjörðum“, 17-19.

66

Þannig kom búskapurinn í Þingeyrarhreppi skömmu áður en ný tíð í landbúnaði gekk í garð fyrir augu búfræðingsins. Margt var nú að breytast.

FÉLAG ÚR DVALA

Á þriðja áratug tuttugustu aldar urðu miklar breytingar í landbúnaði. Með vissum hætti má segja að þá tæki hann af fullum þunga að mótast sem atvinnuvegur. Í vaxandi mæli fór íslenskt samfélag að skipast í sérhæfðar atvinnugreinar í kjölfar markaðs- og tæknivæðingar.

67
Sjóarhúsið í Hólum, meira en aldar gamalt, er minnir á að sjósókn og landbúskapur voru jafngildar stoðir flestra heimila í Þingeyrarhreppi langt fram á tuttugustu öld. Hestarnir lögðu bændum lið við jarðvinnslu og nýrækt. Hér plægir Gunnar á Hofi með hestum sínum land í Kirkjubólsdal. Myndin gæti hafa verið tekin um 1930 en hún er úr myndasafni Gunnars.

Búskapartækni tók stakkaskiptum. Æ fleiri búvélar og búverkfæri komu til sögunnar og tilbúinn áburður var innan seilingar. Þá breytti tilkoma jarðræktarlaga nr. 43 1923 miklu. Með þeim var skerpt á skipulagi ræktunarmála og opinberu fjármagni beint til þess að efla ræktun og framleiðni búvöruframleiðslunnar. Með lögunum var lagður nýr og traustari grundvöllur að túnrækt og fóðuröflun en áður var. Ekki spillti heldur að í garð gekk tímabil hlýinda og árgæsku sem átti eftir að vara fram yfir miðja öldina. Allt þetta er óþarfi að tíunda frekar hér en staðreyndin varð sú að það lifnaði einnig yfir Búnaðarfélagi Þingeyrarhrepps.

Þann 18. mars 1922 var haldinn fundur í Búnaðarfélaginu og . . . „var tilgangurinn að endurreisa það“ . . . Samþykkt var „að félagið tæki til starfa“ sem og „að sækja um inntöku í Búnaðarsamband Vestfjarða fyrir næsta aðalfund þess.“ Upp frá þessu starfaði félagið reglulega um áratuga skeið. Félagsmönnum fjölgaði. Félagið réði sér mann til jarðabótavinnu hjá félagsmönnum nokkur sumur. Frá aðalfundi 1926 segir m.a. í fundargerð: „Ólafur Hákonarson gaf kost á sér að taka þessa vinnu að sér og var því tekið með þökkum.“ Ólafur var þá og hafði raunar verið lengi formaður Búnaðarfélagsins og hafði á blómaskeiði félagsins unnið mikið á vegum þess, eins og áður var getið.

Ólafur Hákonarson (18861976) búfræðingur og bóndi í Yztabæ. Hann starfaði um nær fjörutíu ára skeið á vegum Búnaðarfélagsins við jarðabætur og var formaður þess um árabil. Hann var kosinn fyrsti heiðursfélagi Búnaðarfélagsins árið 1945 (Einkasafn).

Ýmis nýmæli tóku að skjóta upp kollinum. Á fundinum 1926 var t.d. samþykkt að styrkja Gunnar Guðmundsson bónda á Hofi til þess að kaupa hestasláttuvél . . . „með þeim skilyrðum að hann láni öðrum félagsmönnum vélina til reynslu.“ Nokkru áður hafði Gunnar eignast rakstrarvél. Þar með mun vélvæðing heyskapar í Þingerarhreppi hafa hafist. „Rófnafrag“ pantaði félagið fyrir meðlimi sína og það festi kaup á hestareku til jarðvegsvinnu.

Til er skrá um verkfæraeign bænda í hreppnum frá 1931. Fara fjöldatölur verkfæra hér á eftir: Kerrur og vagnar 17 Steingálgar 1 Plógar 2 Forardælur 2 Herfi 3 Áburðardreifarar 3 Valtar 3 Sláttuvélar 1 Hestarekur 1 Rakstrarvélar 1

Vélvæðingarstig búanna í hreppnum var nálægt meðaltali búnaðarsambandssvæðisins alls; heldur undir hvað jarðyrkjutæknina snerti en ofan meðaltals í tækni við meðferð áburðar.

FENGIN DRÁTTARVÉL

Þann 1. desember 1927 var haldinn aukafundur í Búnaðarfélaginu. Í fundargerð segir m.a.:

68

Rætt um kaup á dráttarvél, til að plægja og herfa. Um málið var talað frá ýmsum hliðum og allir eindregið því fylgjandi. Samþykkt að fela stjórninni að leita samvinnu við Búnaðarfélag Mýrahrepps og jafnvel fleiri félög um undirbúning til kaupa á vélinni, ef mönnum virðist leggjandi í fyrirtækið. Aftur kom málið til umræðu seinna um veturinn. Í millitíðinni hafði upplýsinga verið aflað, meðal annars um reynslu Djúpmanna sem þá höfðu nýlega fengið Fordson-dráttarvél til starfa. Í bréfi Jóns H. Fjalldal bónda á Melgraseyri til Bjarna á Kirkjubóli, dags. 17. janúar 1928, voru lokaorðin þessi: „Ráðlegg ykkur að hefjast handa og fá ykkur eina. Ykkur mun ekki iðra þess. En gáið að, að velja vel hæfan mann til að stjórna henni, hann þarf að vera búfræðingur vanur jarðvinnslu.“ Að lokinni umræðu var hins vegar samþykkt:

Af gefnum upplýsingum ræður fundurinn til að kaup á vélinni séu látin bíða næsta ár, en árið notað til undirbúnings undir það annaðhvort að kaupa vél eða taka hana að láni.

Menn vildu hugsa sig vel um. Þann 3. desember 1928 var svo haldinn sérstakur félagsfundur um dráttarvélamálið. Sextán félagar voru mættir. Umræður urðu miklar og vildu flestir að stofnað yrði til kaupanna. Það þótti stórkostlegt að fá vél sem gæti brotið landið til ræktunar. Samþykkt var einróma að kaupa vélina í félagi við Mýrhreppinga. Var hófanna leitað um frjáls framlög til kaupanna. Á fundinum fengust loforð fyrir 855 kr. en vélin kostaði 3.000 krónur. Samkomulag um kaupin náðist við Búnaðarfélag Mýrahrepps. Þá fékkst 600 kr. styrkur til kaupanna frá Búnaðarsambandi Vestfjarða.

.

. . hin eina trygga undirstaða . . .

Bjarni M. Guðmundsson [á Kirkjubóli] kvaðst vera þeirrar skoðunar nú eins og áður að hin eina trygga undirstaða búskaparins væri aukin túnrækt og taldi að það mundi vera álitleg leið til framfara að ná tökum á þessu verkfæri . . .

Í umræðum um dráttarvélakaupin á félagsfundi 3. desember 1928.

Það var svo um sólstöðurnar 1929 að dráttarvélin kom í Dýrafjörð: Fordson-dráttarvél þrjátíu og tveggja hestafla, írsk að gerð, smíðuð í Cork, en keypt af Páli Stefánssyni frá Þverá, umboðsmanni fyrirtækisins. Vélin var fyrst reynd við herfingu á Fögrubrekku í landi Sanda. Þar var reynt herfi smíðað í Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri en að tillögu Snorra Arnfinnssonar frá Brekku í Langadal. Snorri var fyrsti vélstjórinn. Herfið var rótherfi er að miklu leyti skyldi koma . . . „í stað plógs til jarðvinnslu með dráttarvél,“ eins og segir í ársskýrslu Búnaðarsambandsins um verkfærið. Herfið reyndist ekki eins og vonir stóðu til og segir ekki meira af því.

Fyrsta sumarið var unnið með dráttarvélinni allvíða um sveitir. Meðal annars var brotist með hana yfir Sandsheiði út á Ingjaldssand. Þar gerðist það að dráttarvélin bilaði alvarlega við plægingu í stórþýfi. Guðmundur Bernharðsson bóndi í Ástúni hefur lýst þessum atvikum.98 Á aðalfundi Búnaðarfélagsins veturinn 1930 . . . „lýstu menn sem vonlegt var óánægju sinni yfir

98 Guðmundur Bernharðsson: Bærinn í hlíðinni. (1985), 110-117.

69

Gunnar Guðmundsson á Hofi við Fordsondráttarvélina. Á hana byggði hann haganlegt ekilshús, sem til mikilla þæginda var í hrakviðrum (ljósm. úr safni GG frá Hofi).

þeim óhöppum, sem fyrir hana hafa komið, þar sem ekki er fyrirsjáanlegt annað en félagið sé neytt til að líða það bótalaust eða bótalítið,“ eins og segir í fundargerð. Óvíst var hvort sami maður fengist áfram á vélina svo stjórn Búnaðarfélagsins var falið að útvega og senda mann með styrk félagsins á námskeið sem þá stóð til að halda fyrir stjórnendur dráttarvéla.

Á námskeiðið fór Gunnar Guðmundsson bóndi á Hofi. Heim kominn og útlærður tók hann við dráttarvélinni, vann með henni og annaðist viðhald hennar um langt árabil. Reyndist hann afar farsæll í þeim störfum. Með Fordson breytti Gunnar mörgum þúfnakarga á bæjunum við Dýrafjörð í véltækan töðuvöll. Eftir byrjunarerfiðleikana átti dráttarvélin eftir að þjóna bændum við fjörðinn dyggilega allt fram til ársins 1948 að beltavélar með ýtitönn leystu hana af hólmi.

Dráttarvélafélag Dýrafjarðar rak vélina en það var sameignarfélag búnaðarfélaganna tveggja við fjörðinn. Auk Fordson-vélarinnar átti félagið í árslok 1947 diska-, rót- og fjaðraherfi, plóg, flaggrind og „dúnkraft“. Dráttarvélafélaginu var formlega slitið árið 1949. Þá keypti Gunnar á Hofi Fordson-vélina og notaði hana í nokkur ár á búi sínu. Upp úr síðustu aldamótum tóku snæfellskir sonarsynir Gunnars dráttarvélina til aðhlynningar og hafa nú gert hana fagurlega upp.

Gunnar á Hofi og dráttarvélin:

[Árið] 1929 kom fyrsta dráttarvélin hingað á vegum Búnaðarfélagsins, af Fordson gerð. Enginn kunni á [hana] fyrr en ég hafði farið á námskeið fyrir sunnan, enda vann ég gríðarlega mikið með henni fyrir bændurna næstu ár. Ég plægði, herfaði og sléttaði tún út um allt, þótt sumir væru að vísu tregir til að láta slétta mikið hjá sér í upphafi. Það var mikill hugur í mér þegar ég sótti Véla- og ræktunarnámskeið Búnaðarfélags Íslands í 6 vikur 1930. Verklega kennslan fór fram í Steðja og Landsmiðjunni í Reykjavík en útivinnan við Hveragerði í Ölfusi. Bóklegt nám stunduðum við í Iðnskólanum. Alls voru nemendurnir 29, hver af sínu landshorni. Þetta námskeið hafði geysileg áhrif á minn búskap.

Þegar heim kom hóf ég fljótlega störf fyrir Búnaðarfélög Mýra- og Þingeyrarhrepps, stundaði þau síðan árin 1930-1944 og vann oft 16 tíma á dag við jarðvinnsluna, auk minna föstu bústarfa. Auðvitað mæddi þá mikið á konunni, sem sat heima með barnahópinn.

Árin 1930-1942 vann ég stundum dag og nótt með dráttarvélinni, en stöku sinnum leystu aðrir mig af. Það var byrjað í endaðan apríl og verið að fram í miðjan október eða eins lengi og hægt var fyrir frostinu . . . Úr viðtali við Gunnar í tímaritinu Heima er bezt nr. 9-10, 1984.

70

BREYTINGASKEIÐ – ÞINGEYRARBÆNDUR

Tímabilið 1930-1948, sem vissulega má kenna við Fordson-dráttarvélina, var mikið framkvæmdaskeið í Þingeyrarhreppi. Það einkennir líka framkvæmdir á fjórða áratugnum hve stór hluti jarðabótamanna voru Þingeyringar. Hreppurinn keypti land kirkjustaðarins á Söndum í því skyni að útvega þorpsbúum sem kvikfé áttu framfærslu þess. Þéttbýlið á Þingeyri óx meðal annars með fólki sem þangað flutti úr sveitinni eða átti þar rætur. Margir þeirra tóku landbúskapinn með sér til búdrýginda. Í smáum stíl þó og að mestu til þess að styrkja matbjörg heimilanna. Um Sanda og búskap þorpsbúa er fjallað í V. kafla þessa rits svo nánar verður ekki um þau efni fjallað hér. Þess skal aðeins getið að framan af tuttugustu öldinni var bústofn þorpsbúa einkum kýr og kindur. Er leið á öldina fækkaði kúm þar og mjólkursala úr sveitinni til þorpsins færðist í vöxt, sjá VI. kafla. Þingeyringar urðu margir hverjir vel virkir í búnaðarfélagsskap hreppsins enda mjög áhugasamir bændur í eðli sínu.

Á þessu tímabili urðu allmikar hræringar í búnaðarfélagsskapnum rétt eins og varð á landsvísu. Nokkur sérfélög um búnaðarmál urðu til eins og í öðrum sveitum. Þannig var stofnað nautgriparæktarfélag árið 1929 og fóðurbirgðafélagið Græðir árið 1938, hvort tveggja fyrir nokkra hvatningu Búnaðarsambands Vestfjarða. Verður vikið að þeim síðar.

BÚNAÐARSJÓÐURINN

Jarðabætur kosta og kostuðu þá jafnvel þótt mikill hluti þeirra væri eigin vinna sem misjafnlega hefur jafnan verið verðlögð. Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 16. janúar 1932 var staðfest skipulagsskrá fyrir Búnaðarsjóð Þingeyrarhrepps. Stofnendur voru 14 bændur og var Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli kosinn fyrsti formaður hans. Stofnfé sjóðsins var kr. 1963,72 . . . „þar af kr. 956,16 í peningum og skuldabréf Nautgriparæktarfélags Þingeyrarhrepps að upphæð kr. 1008,56“, eins og segir í fyrstu grein skipulagsskrárinnar. Það skyldi vera hlutverk sjóðsins samkvæmt reglugerð um hann . . . „að veita bændum og þurrabúðarmönnum í Þingeyrarhreppi lán, fyrst og fremst til alls konar jarðyrkju, svo sem grasræktar, garðræktar, áburðarkaupa, frækaupa, girðinga o.fl. sem að jarðyrkju lýtur, svo og til annarra búnaðarframkvæmda svo sem bygginga íbúðarhúsa og fjárhúsa.“ Þá var Fordson-dráttarvélin komin til jarðvinnslunnar, tilbúinn áburður og sáðvara; m.ö.o. viðskiptabúskapurinn var að vaxa með tilheyrandi fjármagnsþörf.

Búnaðarsjóðurinn reyndist á tíðum drjúgur til þess að styðja við jarðabætur í sveitinni. Hann veitti mönnum lán til framkvæmda. Jarðabótasstyrkir skv. gildandi jarðræktarlögum hverju sinni og veð í skepnum voru tryggingar fyrir lánum. Vextir voru heldur lægri en í sparisjóði en þar munu lán til búnaðarumbóta lengst af hafa verið torfengin.

HITAMÁL

– NAFNAKALL

Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 28. mars 1935 var meðal annars lagt fram frumvarp til nýrra laga fyrir félagið, samið af nefnd sem til þess hafði verið kosin. Þeir tíu félagsmenn, sem á

71

fundinn mættu, samþykktu frumvarpið „án nokkurra verulegra breytinga“, segir í fundargerð. Með frumvarpinu var gerð veruleg breyting á hinum eldri lögum sem virtust þá hafa staðið óbreytt frá stofnun félagsins. Lögin voru í flestum greinum samin að nýjum tímum. Eitt ákvæði laganna átti eftir að draga dilk á eftir sér. Það var ákvæðið um félagsaðild. Áður en frá því verður sagt má minna á að á landsvísu var orðin allmikil umræða um félagskerfi bænda og stöðu heildarsamtakanna, Búnaðarfélags Íslands, í ljósi framlaga ríkis til ræktunarstyrkja og þjónustu sem Búnaðarfélagið var tekið að veita. Einnig skal minnt á vaxandi áhrif búskapar þorpsbúa á Þingeyri og samskipti þeirra við bændur á nágrannajörðum þorpsins, sem nánar er sagt frá í þættinum um Sandabúskap, V. kafla.

Í hinum nýju lögum var gerður greinarmunur á félögum og aukafélögum. Reglulegir félagar munu þeir hafa talist sem fullnægðu settum skilyrðum reglugerðar um kosningu til Búnaðarþings og voru búsettir á félagssvæðinu. Aðrir töldust aukafélagar og guldu lægra félagsgjald. Að baki þessu lá meðal annars það að í hreppnum voru tveir hópar jarðabótamanna. Annars vegar voru þeir sem sátu lögbýlin og höfðu landbúnað sem staðfestu. Hins vegar voru þeir sem atvinnu höfðu í þorpinu en stunduðu nokkurn búskap með bæði til heimils og til tekjuauka. Þeir síðarnefndu voru um þær mundir stór hópur og margir hverjir hinir áhugasömustu um búskapinn. Vegna ákvæða jarðræktarlaga um styrki til jarðabóta var búnaðarfélagsaðildin þeim mikilvæg.

Árið 1936 urðu miklar og heitar umræður meðal bænda, ekki síst á Búnaðarþingi, um ný jarðræktarlög (nr. 101 1936). Deiluatriðið var einkum það hvort Búnaðarfélag Íslands ætti með ákveðnum skilyrðum að taka að sér framkvæmd laganna eða ekki. Deilurnar verða ekki raktar hér að öðru leyti en því sem þær bárust inn á aukafund Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps skömmu fyrir jólin árið 1936, þann 15. desember:

Í fundarbyrjun óskuðu ýmsir aukafélagar eftir því að fá að greina atkvæði á fundinum. Urðu um það allsnarpar umræður. Varð niðurstaðan sú . . . „að þeim var neitað um atkvæðisréttinn samkvæmt lögum félagsins.“ Gekk þá annar þeirra, er sótt hafði um félagsaðild á þessum fundi, Ólafur kennari Ólafsson á Þingeyri, af fundi eftir að hafa dregið umsókn sína til baka. Hinn var Eiríkur kaupfélagsstjóri Þorsteinsson, er fyrstur tók til máls um aðalefni fundarins –jarðræktarlögin nýju. Flutti hann svofellda tillögu:

Fundurinn lýsir því yfir, að hann telur jarðræktarlögin nýju til bóta í öllum atriðum, frá því sem áður var. Jafnframt vítir hann þá framkomu meiri hluta Búnaðarþings, að neita að taka við framkvæmd laganna og skorar á næsta Búnaðarþing að samþykkja að Búnaðarfélag Íslands taki við framkvæmd hinna nýju laga og breyti lögum sínum í samræmi við þau.

Þá tók til máls Jón Þórarinsson í Hvammi, einn stjórnarmanna Búnaðarfélagsins, og flutti tillögu er hófst svo:

72

Fundurinn viðurkennir fúslega að hin nýju jarðræktarlög eru að ýmsu leyti til bóta frá því, sem áður var. En jafnframt lætur hann eindregið það álit sitt í ljósi, að ýmis ákvæði þeirra laga sjeu miður heppileg fyrir þann farsæla félagsskap, sem bændur hafa starfrækt um margra ára skeið með góðum árangri fyrir sín áhugamál. Síðan komu beinar tillögur til breytinga á jarðræktarlögunum og var hin síðasta þessi: Fundurinn hyggur að bændur hafi skoðað styrk þann sem Alþingi hefur veitt þeim til umbóta á jörðum sínum, sem verðlaun fyrir vel unnið starf, einkum fyrir eftirkomendurna, en ekki til að skapa nýjan meðeiganda að jörðum sínum.

Í síðustu málsgreininni er sýnilega vísað til þess atriðis hinna nýju jarðræktarlaga er kvað á um sérstaka skráningu verðmætaaukningar sem nam jarðabótastyrknum og telja skyldi fylgifé jarðanna – vera ríkiseign sem fylgdi þeim.

Umræður um málið stóðu í fimm stundir að því er segir í fundargerð. Yfir tuttugu ræður voru fluttar áður en gengið var til atkvæða um tillögu Eiríks. Nafnakall var viðhaft. Mun þetta vera eina skiptið í allri sögu Búnaðarfélagsins sem sá háttur var við hafður við afgreiðslu mála. Tillaga Eiríks var samþykkt með 13 atkvæðum gegn 12 svo ekki gat munurinn orðið minni. Ekki verður þeirri hugsun varist að viðhorf félagsmanna til stjórnmála hafi að einhverju leyti ráðið afstöðu þeirra til hins umdeilda máls – rétt eins og gerst hafði þegar um það var fjallað á landsvísu. En málinu var ekki lokið.

Lög Búnaðarfélagsins voru enn til umfjöllunar veturinn 1937. Þá lagði stjórnin fram tillögu til lagabreytinga því aðalfundur félagsins árið 1936 hafði falið henni tillögugerð . . . „að því er viðvíkur réttindum meðlima félagsins innbyrðis í félaginu.“ Tillaga stjórnarinnar var þessi:

Reglulegir félagar eru þeir einir, sem hafa jörð til ábúðar, svo og þeir þurrabúðarmenn, sem hafa 2/3 hektara af ræktuðu landi til umráða, samkvæmt samningi til fleiri ára. Vottorð trúnaðarmanns útheimtist um að land sé ræktað. Aðrir eru aukafélagar.

Í umræðum kom fram breytingartillaga frá Andrési Guðmundssyni á Brekku:

Fullgildir eru þeir, er hafa búsforráð í sveit og þeir er hafa minnst tvo hektara af ræktuðu og brotnu landi. Þeir er minna land hafa til nytja teljast félagar með takmörkuðum réttindum og hafa þeir ½ atkvæði, enda borgi þeir ekki nema ½ árstillag. Aukafélagar með engar búsnytjar, hafa ekki atkvæðisrétt, aðeins málfrelsi og tillögurétt á fundum. Hver félagsmaður, sem skuldar tveggja ára félagsgjald, missir atkvæðisrétt sinn, þar til hann hefur greitt þá skuld sína við félagið.

Fór svo eftir miklar umræður að tillaga Andrésar var samþykkt með 13 atkvæðum gegn 7. Fleiri breytingar gerði aðalfundurinn á lögunum, m.a. þá að tillögu Andrésar á Brekku að

73

Heyskapur

kjörgengir í stjórn félagsins væru aðeins . . . „fullgildir félagar búsettir í sveit.“ Ekki virtust fundarmenn þó telja að landi væri náð hvað lagabreytingar snerti því enn var kosin nefnd til þess að athuga félagslögin og gera tillögur þar um til næsta aðalfundar. Kom því næst að stjórnarkjöri. Um það segir í fundargerð: „Í tilefni af því urðu töluverðar umræður um framkomu ýmissa félagsmanna á fundi félagsins 15. desember 1936, og komu fram harðar árásir á stjórnina, sem henni fundust ómaklegar; svaraði hún fyrir sig og margir félagsmenn tóku svari hennar.“ Fram kom tillaga með ákúrum á stjórnina og áskorun um að meiri hluti hennar, þeir Ólafur Hákonarson í Yztabæ og Jón Þórarinsson í Neðsta Hvammi, segðu af sér. Ólafur, sem var formaður, kvaðst ekki taka tillöguna til greina. Jón sagði sig hins vegar þegar úr félaginu og gekk af fundi. Var Andrés á Brekku kjörinn stjórnarmaður í hans stað. Eftir þetta kyrrðist um í félaginu. Atburðina má taka sem dæmi um nokkra spennu á milli manna vegna breyttra búskaparhátta – á milli þorpsbænda og þeirra sem lögbýli sátu – sem og vegna þeirra deilna sem þá voru á landsvísu um framkvæmd gildandi jarðræktarlaga. Árið 1938 samþykkti aðalfundur ný félagslög sem stóðu að meginstofni óbreytt það sem eftir var af starfstíma Búnaðarfélagsins. Sérstök ástæða er til þess að nefna nýmæli sem í þeim var:

74
í Haukadal – í Höll; heyflekkir í rifgörðum allt fram á Miðhól. Myndina tók Hans Kuhn sumarið 1938, (Þjóðminjasafn). Sjá einnig bók Hans Kuhn og Reinhard Prinz: Úr torfbæjum inn í tækniöld II (2003), 366-367.

Nú vill félagsmaður ráðast í stórvirki, eða einhverja þá framkvæmd, er mikinn vinnukraft þarf til. Getur þá aðalfundur, eftir ósk hans og tillögum stjórnar, ákveðið, að aðrir félagsmenn veiti honum hjálp til að framkvæma verkið.

Deilurnar virtust því ekki hafa haft djúpstæð áhrif í félaginu. Mikið var um samhjálp bænda í hreppnum að ræða við verklegar framkvæmdir, þótt hvergi finnist í bókum félagsins bein aðalfundarsamþykkt fyrir því – í samræmi við lagaákvæðið frá 1938.

MÁLFUNDADEILDIRNAR

Á fundum Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps hefur fleira verið rætt en hin hreinræktuðu búnaðarmál svo sem nærri má geta. Hér má til dæmis minnast framtaks, sem rekja má til tillögu Stefáns Guðmundssonar í Hólum:

Fundurinn ályktar að reyna að vekja áhuga manna fyrir vaxandi félagsþroska, með því að skipta félaginu [hreppnum] niður í fjórar deildir

1. frá Hvammi til Kjaransstaða

2. frá Brekkuhálsi að Hólahrygg

3. frá Hólahrygg að Hálsum

4. Keldudalur og Nesið

Hvert þessara svæða kjósi sér formann til þess að koma á fundi einu sinni í mánuði, til þess að ræða áhugamál búnaðarfélagsins og mál, sem varða hreppsfélagið í heild. Elsti maður hvers svæðis boðar til fyrsta fundar.

Ekki er vitað hvernig tókst til með framkvæmd tillögunnar. Þó er til gerðabók annarrar deildar, þ.e. málfundadeildar Brekku- og Kirkjubólsdals. Sýnir hún að deildarfundir voru haldnir nokkrir veturna 1943 og 1944. Fundirnir voru haldnir til skiptis á bæjunum. Formleg framsaga var höfð um mál og ítarlegar fundargerðir færðar. Ýmis mál voru tekin til umfjöllunar í deildinni. Af þeim má nefna varnir gegn landbroti Sandár, ítölumál og um beitartoll á fé úr kaupstaðnum, frumvarp Gunnars Bjarnasonar um ráðunautaþjónustu o.fl., og afurðasölumálið en um það var rækilega fjallað eins og nánar verður vikið að. Menn ræddu um sjálfstæðismálið þegar 17. júní 1944 nálgaðist og . . . „voru flestir á því að fá sér fána og vinna sem mest að framgangi sjálfstæðismálsins með góðri þátttöku í atkvæðagreiðslunni [um lýðveldisstofnunina].“

Í ljósi mikillar umræðu sem varð um og upp úr síðustu aldamótum um félagskerfi landbúnaðarins er athyglisvert að skoða tillögu sem Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli lagði fram á einum þessara málfunda í deildinni (nr. 2). Hún gekk út á að sameina öll félögin sem tilheyra landbúnaðinum í hreppnum: Búnaðarfélagið, Fóðurbirgðafélagið, Nautgriparæktarfélagið og Búnaðarsjóðinn. Skyldu öll þessi félög vera undir einni fimm

75

manna stjórn, þar sem hver meðstjórnandi væri fulltrúi sinnar greinar. Í umræðu um tillöguna kom m. a. fram það sjónarmið að menn hefðu ekki enn nægan félagsþroska til slíkra breytinga og að þær yrðu því til einskis ef hann væri ekki þroskaður fyrst! Varð svo ekki meira úr þeim.

Það vekur athygli að Þingeyri var ekki með í afmörkun deildasvæðanna. Voru þó margir þorpsbúar félagsmenn Búnaðarfélagsins. Hugmyndin kann að einhverju leyti hafa verið sú að í deildunum gæfist bændum betra tækifæri til þess að ræða sérmál sín. Val viðfangsefna á fundum annarrar deildar bendir meðal annars til þess.

AFURÐASALAN

. . . kominn upp á faktorinn

Miklar breytingar urðu á afurðasölu bænda á tímum Búnaðarfélagsins. Taka má dæmi frá haustinu 1904 en þá þurfti Guðmundur Nathanaelsson á Kirkjubóli að koma fé sr. Kristins Daníelssonar á Söndum í kaupstaðinn. Sr. Kristinn var þá nýfluttur frá Söndum og tekinn við Útskálaprestakalli. Guðmundur skrifaði presti svo, fyrst 11. ágúst 1904:

Nú fyrst þann 9. þ.m. gat eg náð í Wendel [faktor á Þingeyri] til að semja við hann um verð á fénu yðar og varð niðurstaðan, að hann lofaði 18 aurum fyrir pundið af kjötinu yfirleitt, 25 aura fyrir pundið af gærunum líka yfirleitt og 35 aura fyrir pundið af mörnum og 1 kr. fyrir innan úr kindinni. Mér var ekki í neinu falli mögulegt að komast lengra og síst þar sem hann setti fyrir sig peningaborgunina og þóttist hann þá gjöra okkur vel. Að reka [féð] til Ísafjarðar gat eg ekki með neinu móti séð að svaraði kostnaði . . .

Og úr bréfi Guðmundar dagsettu 16. október sama ár:

Lengi vel snerust viðfangsefni Búnaðarfélagsins fyrst og fremst um það hvernig bæta mætti búreksturinn með aukinni túnrækt til fóðuröflunar. Það virðist ekki hafa verið fyrr en um miðjan fjórða áratug tuttugustu aldar sem afurðasölumál komu fyrst upp á félagsfundi. Að einhverju leyti var það endurómur umræðu meðal bænda almennt í landinu en um það leyti voru afurðasölumál landbúnaðarins í mikilli deiglu. Það ýtti sýnilega undir umræðuna í Búnaðarfélagi Þingeyrarhrepps. Vaxandi sérhæfingar gætti í búrekstri félagsmanna og búvörumarkaður fór stækkandi á Þingeyri.

Jeg rak [féð] til Þingeyrar þann 21.[sept.]. Þegar eg kom á Þingeyri skellir hann á því óviðri, að það varð ekkert slaktað þann dag, og var jeg þá kominn upp á faktorinn [Wendel], sem reyndist mér svo mæta lipur í þeim snúningum, og varð eg þar þangað til daginn eftir, af því að mig langaði til að sjá um slöktun á því og vigtun. . .

Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 20. janúar 1934 hóf Stefán Guðmundsson í Hólum máls á mjólkursölunni (til Þingeyrar) og taldi of lágt verð að selja mjólkina á 25 aura lítrann. Kjörin var nefnd „til að koma á skipulagi á afurðasölumál bænda.“ Ekki virðist sú nefnd hafa skilað áliti, en réttum áratug síðar voru afurðasölumálin til umræðu í Málfundadeild Brekku- og Kirkjubólsdals, þeirri er fyrr var sagt frá. Þar samþykktu bændur m.a. eftirfarandi ályktun: Þar sem vitað er að bændur hér innan hrepps selja nokkrar landbúnaðarafurðir sínar misháu verði, sömu vörutegund, en slíkt misræmi veldur óáænægju meðal kaupenda og skaða mörgum seljendum þá leggur fundurinn til, að bændur komi sér saman um sama verð á sömu vörutegund, án þess þó að það brjóti í bág við fastákveðið verð verðlagsnefndar.

76

Hæsti-Hvammur. Steinhúsið byggt á grunni hægri hluta torfbæjarins. Þilin snúa til austurs. Þversum að bæjarbaki er baðstofa, á öðru húsi frá vinstri eru bæjardyr, þá skemma og lengst t.h. er eldiviðargeymsla (mógeymsla). Skúrinn við steinhúsið er matvælageymsla (búr). Timburbyggingin lengst. t.h. er hlaða sem var svo gisin að hún virkaði eins og súgþurrkunarhús. Kálgarður er framan við bæinn og framan við hann „Hlaðbrekka“. Hvítklæddu konurnar eru Ágústa Guðjónsdóttir og Ingibjörg Kristjánsdóttir. Sveinn Þorvaldsson silfur- og gullsmiður 17981834 bjó þarna. Þarna bjuggu tvær fjölskyldur er myndin var tekin líklega á milli 1935-´40. (Minjasafnið á Akureyri, ljósm.: Jón og Vigfús).

Kosin var nefnd til að vinna að málinu „með því að fá helst alla bændur til samstarfs og ákveða verð, sem allir geta sér að skaðlausu gengið að.“ Á þessa samþykkt mun lítið hafa reynt því brátt komst á farsæl skipan á landsvísu sem greiddi að mestu úr þeim vanda sem við var að glíma. Samþykktirnar gefa þó dálitla hugmynd um það hvernig afurðasölumálin blöstu við bændum í Þingeyrarhreppi en frá þeim er annars nánar sagt í VI. kafla.

Vaxandi mikilvægi þess málaflokks leiddi öðru frekar til þess að gengist var fyrir stofnun Stéttarsambands bænda. Þann 7. júlí 1946 kusu bændur í Þingeyrarhreppi atkvæði um skipulag Stéttarsambandsins. Á kjörskrá voru 39 félagar; 32 greiddu atkvæði, 4 voru fjarverandi en 3 neyttu ekki atkvæðisréttar. Verður því ekki annað sagt en að áhugi bænda á málefnum stéttarinnar hafi verið mikill.

HEIMSÓFRIÐUR, DÝRTÍÐ EN FRAMFARIR ÞÓ

Heimsstyrjöldin síðari varð íbúum Þingeyrarhrepps þung í skauti. Framfarahugur virðist þó hafa verið í bændum framan af því tímabili. Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 1942 var gerð grein

77

fyrir jarðabótum félagsmanna á liða árinu. Jarðabótamenn voru þá 48 að tölu og túnræktin nam alls tæpum 7 hekturum. Þá segir í fundargerð: „Auk þess hefir nokkuð verið unnið að jarðabótum sl. haust bæði á túni og óræktuðu landi, svo að þrátt fyrir dýrtíð og stríð hafa jarðabætur orðið hér svipaðar að vöxtum og að undanförnu, þegar dráttarvélin hefir verið allt árið í hreppnum.“

Á aðalfundinum 1940 hafði trúnaðarmaður Búnaðarfélags Íslands, Jóhannes Davíðsson í Neðri Hjarðardal, getið þess að „komið gæti til mála, að bændur yrðu að taka hestana meira til jarðvinnslu en verið hefur undanfarið.“ Menn óttuðust siglingastöðvun og vöruskort. Í svipaða átt hneig ábending Sigurjóns Sveinssonar á Granda um „að bændur gerðu of lítið af kornrækt, sérstaklega til alifuglafóðurs.“ Hér má raunar geta þess að samkvæmt jarðabótaskýrslum árin 1938 og 1940 voru kornakrar í hreppnum, smáir að vísu – fyrra árið hjá Gunnari á Hofi en seinna árið hjá Jóni Arasyni í Hæsta Hvammi. Ekki er vitað til þess að korn hafi í annan tíma verið ræktað á seinni tímum í Þingeyrarhreppi, með þeirri undantekningu þó að á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins var kornræktartilraun gerð á Sveinseyri sumarið 1998. Hún skilaði furðu góðum árangri.99 Í stríðsbyrjun varð Búnaðarfélagið að falla frá stækkun steypumóta sem það kom sér upp árið 1936, því „ekkert efni hefði fengist, sem nothæft hefði verið“ eins og segir í fundargerð. Er leið á seinni hluta stríðsins dró úr framkvæmdum bænda, einkum jarðræktinni. Þannig mældust túnrækt og nýrækt í hreppnum aðeins 0,6 hektarar árið 1943.

JARÐÝTAN OG SKURÐGRAFAN

Á dögum heimsstyrjaldarinnar síðari komu tvær vinnuvélar sem áttu eftir að valda straumhvörfum í framvindu undirstöðuþáttar landbúnaðar hérlendis – túnræktinni. Hafði þó margt gerst í þeim efnum. Þetta voru beltavélin sem brátt fékkst með ýtitönn – jarðýtan, og skurðgrafan. Á landsvísu var ákveðið að greiða fyrir notkun stórvirkra vinnuvéla með stuðningi ríkisvaldsins á grundvelli laga sem sett voru um bygginga- og ræktunarsamþykktir í sveitum, lög nr. 7 1945. Búnaðarsamband Vestfjarða setti sér ræktunarsamþykkt samkvæmt þeim árið 1946. Á grundvelli hennar varð til Ræktunarfélag Vestur-Ísafjarðasýslu, oftast kallað Ræktunarsambandið. Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps samþykkti á aðalfundi sínum 24. mars 1948 að ganga til liðs við Ræktunarsambandið með greiðslu stofngjalds er var 3.000 kr. Með þeirri gerð lauk að mestu afskiptum Búnaðarfélagsins af ræktunarmálum. Samgöngur á landi voru að batna og til sögunnar að komu vélar sem gátu komist yfir vinnu á mun stærri svæðum en áður höfðu þekkst.

Ræktunarsambandið festi kaup á vélum til jarðvinnslu sem síðan fóru um félagssvæðið, sýsluna, hvert vor um árabil, brutu land og unnu til túns, bæði með endurvinnslu hinna gömlu túna sem og nýrækt. Má segja að á flestum bæjum í hreppnum hafi þessar vélar komið að

99 Hólmgeir Björnsson og Þórdís Anna Kristjánsdóttir (ritstj.): „Jarðræktarrannsóknir 1998“. Fjölrit Rala nr. 198, (1999), 63.

78

Áhuginn á mýrunum

Eg komst fyrir nokkrum árum yfir fá hundruð af Haukadal, aðeins 1/12 jarðarinnar og fékk þá í skiptunum allstórt mýrarstykki, sem lá innagarðs, móti öllu tilkalli til útengis, en þetta mýrarstykki liggur ágætlega vel við, með afardjúpum jarðvegi grjótlausum, og hæfilegum halla og er sem næst 6 vallardagsláttur. Mér er því mikið hugleikið að koma þessu í verk, eigi svo mjög vegna hagnaðarvonarinnar, heldur af því, að hér liggur allmikið land rétt við túnið í mestu vanrækt, en bændur eru að basla við að slá fjarlægar mjög rýrar mýrar, þar sem maður sjaldnast fær meira en 3-4 kapla á dag af misjöfnu mýrargrasi og oft minna. Það er trú mín, að ef mér heppnast þetta mitt fyrirtæki, þá muni þeir eigi lengur geta látið það viðgangast að land það, er eg nefndi, liggi lengur í órækt, og þá gæti orðið gaman að sjá þessa eign. . .

Úr bréfi Matthíasar Ólafssonar í Haukadal til Torfa skólastjóra í Ólafsdal, dags. 18. desember 1912.

ræktun: International TD6, TD9 og síðar TD14, með diskaherfum og rótherfum, en einnig plógi, jafnvel Skerpiplógi, eftir því sem átti við eftir gerð og gæðum landsins. Árleg ræktun nam mest 22,5 ha, árið 1953, þar af voru 15,9 ha nýrækt. Þótt gamli Fordson undir stjórn Gunnars á Hofi hafi dugað vel og valdið byltingu, voru nú komin til sögunnar tæki sem enn bættu afköstin við túnræktina.

En nýja tæknin ruddi fleiri brautir. Með jarðýtunum var einnig unnt að bæta samgöngur með vegagerð um sveitir. Á þessum fyrstu árum vélanna opnuðust til dæmis bílvegir fyrir Dýrafjörð, yfir Hrafnseyrarheiði og út yfir Hálsa og Ófæru til Keldudals. Jarðýturnar komu sér líka vel við snjóruðning. Bæjarleiðir styttust. Samgöngur og samskipti fólksins breyttust verulega.

Mýrlendi hafði allvíða verið undirstaða útheysskaparins. Nú tóku menn að renna hýru auga til mýranna sem túnræktarlands. Því skoraði aðalfundur Búnaðarfélagsins vorið 1948 á stjórn Ræktunarsambandsins „að hraða því eins og hægt er að fá leigða skurðgröfu nú í vor.“ Slíkar vélar voru þá ríkiseign en útgerð þeirra stjórnaði Vélasjóður fyrir hönd ríkisins. Bændur í hreppnum máttu bíða eftir skurðgröfunni enda biðu þeirra véla afar mikil verkefni á landsvísu. Það var fyrst sumarið 1955 sem skurðgrafa kom í hreppinn, Priestman Wolf-grafa með dragskóflu frá Vélasjóði. Það sumar og raunar fram á haust gróf hún um 20 km af skurðum í Þingeyrarhreppi – um 86 þúsund rúmmetra. Lítils háttar var grafið vorið eftir, eða um 3,6 km, mest á vegum Þingeyrarhrepps í Sandhúsamýrum (Glámumýrum).

Gunnar

79
Friðfinnsson vinnur að sléttun túnspildu á Kirkjubóli vorið 1961 með IHC TD 9 jarðýtu Ræktunarsambandsins sem þarna er beitt fyrir diskaherfi. Fjær vinnur Guðmundur bóndi Jónsson að grjótnámi.

Votheysgryfja á Kirkjubóli, steypt sumarið 1954 með mótum þeim sem Búnaðarfélagið hafði þá nýlega keypt. Gryfjur úr þeim risu á nokkrum bæjum. Næst á myndinn má sjá trékubba sem marka brún hringlaga votheystóftar sem þarna var grafin og hlaðin að innan með torfi. Gryfjan sú var gerð um 1930 og stýrði Gunnar Guðmundsson á Hofi gerð hennar.

Með tilkomu „traktorsins“ um 1930 óx túnræktin en tvöfaldaðist rúmlega þegar vélar Ræktunarsambandsins komu til sögu um 1950 – jarðýturnar. Nýtt land var brotið og gömlu túnin sléttuð. Það ræktunarskeið stóð út sjötta áratuginn.

Þar með gátu bændur ráðist til atlögu við mýrarnar og látið heilgrös og heyvinnuvélar leysa starir og orf af hólmi. Á þessum árum – um og upp úr 1955 –lagðist heyskapur á engjum að mestu af í hreppnum. Eftir 1960 var hann með öllu úr sögunni. Töðufengur óx úr 5-7 þúsund hestburðum á ári í 9-10 þúsund hestburði. Hlöður voru byggðar. Búnaðarfélagið gekkst árið 1954 fyrir kaupum á mótaviði til byggingar votheysgeymslna (gryfjum). Kostaði hann liðlega 7.000 kr. og í fjáröflunarskyni var m.a. stofnað til hlutaveltu á Þingeyri um haustið. Allmargir bændur steyptu votheysgryfjur. Komu þær sér vel strax árið eftir þegar óminnilegir óþurrkar gengu sumarlangt. Mót þessi reyndust notadrjúg við byggingar í sveitinni uns steypumót Búnaðarsambandsins komu til sögunnar (Húsagerðarsamþykktin).

80

BÚVÉLARNAR OG ÁHRIF ÞEIRRA

Nú verður um stund vikið frá félagssögunni að þætti sem mikil áhrif hafði á framvindu búskapar í Þingeyrarhreppi – rétt eins og í öðrum sveitum. Sá þáttur er búvélarnar; ný verktækni, sem létti mannshöndinni störfin, leysti hana jafnvel að öllu leyti af hólmi. Vinnuaflsþörf búanna minnkaði án þess að afurðamagn þeirra skryppi saman. Það óx jafnvel og stundum til muna. Kom sér enda vel, því spurn annarra atvinnugreina eftir vinnuafli, svo sem þeirra sem mynduðu Þingeyrarþorp, svo og þéttbýlisins „fyrir sunnan“, fór vaxandi. Landbúskapurinn þurfti einnig að tæknivæðast. Það var sá þungi súgur sem tók að líða yfir allar sveitir á fimmta áratug síðustu aldar.

Skrifarinn telur að hestasláttuvél Gunnars á Hofi, sem áður er getið og Búnaðarfélagið studdi hann til kaupa á, marki upphaf vélvæðingar utanstokks bústarfa í hreppnum. Það gerðist árið 1926. Má þó hafa í huga að nokkru fyrr, eða á fyrsta áratug aldarinnar, komu fyrstu skilvindurnar á bæi þar – engu ómerkari búverkfæri en mörg þeirra er síðar áttu eftir að snúast um tún og grundir.

Með Fordson-dráttarvélinni 1929 kom fyrsti fulltrúi vélarafls til ræktunarverka í Þingeyrarhreppi. Hún var sá eini næsta áratuginn og vel það. Á þeim tíma gerðist margt í búvélasmiðjum heimsins. Farið var að hugsa fyrir dráttarvélum sem hentuðu hverju búi. Krafan var um meiri afköst og meiri framleiðni vinnuaflsins. Til þess þurfti vélar.

Árið 1942 kom og var sett saman á Þingeyri dráttarvél af gerðinni Farmall W4, frá International Harvester Co í Chicago.100 Hana höfðu Kjaransstaðamenn keypt í nafni Búnaðarfélags

Gunnar á Hofi fór um sveitina á sameignarvélinni Fordson og vann að túnasléttun. Þannig skapaðist stærri grundvöllur, í bókstaflegri merkingu, fyrir notkun véla við slátt og heyskap. Þessi mynd, sem er úr safni GG á Hofi, gæti hafa verið tekin um eða skömmu eftir 1930. Þarna er plægt. Á myndina vantar þann sem stýrði plógnum; því hlutverki gegndi gjarnan Magnús Lárusson í Efri-Mið-Hvammi að sögn Gunnars.

100 Það sem hér á eftir stendur er að stofni til skrifað eftir samtali mínu við Guðbrand Stefánsson bónda í Hólum 14. ágúst 1991. Hann var mikill áhugamaður um vélar og tæki og hafði sem unglingur fylgst vel með þegar tímar þeirra gengu í garð.

81

Þingeyrarhrepps. Þá höfðu búnaðarfélög nefnilega forgang að slíkum kaupum enda hugsunin sú að vélarnar nýttust á félagslegum grunni. Að nokkru marki gerðist það með Kjaransstaðavélina, sem hvað mest var notuð til jarðvinnslu með viðeigandi verkfærum. Óskar Friðfinnsson á Kjaransstöðum sótti námskeið á Hvanneyri vorið 1944 í meðferð dráttarvéla, sem fulltrúi Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps.101

Bylgja aflvæðingar íslenskra sveita með dráttarvélum var nú að rísa og náði hún strax til Þingeyrarhrepps. Farmall A-dráttarvél kom að Brekku árið 1945 og árið eftir sameinuðust bændurnir í Hólum og Meðaldal um kaup á slíkri vél, sem þá kostaði um sex þúsund krónur. Grandamenn fylgdu fast á eftir. Farmall-vélunum fylgdu sláttuvélar. Koma þeirra auðveldaði heyskap til muna, ekki aðeins á þessum bæjum heldur nutu nágrannar einnig góðs með slætti vélfærra bletta. Plóga fengu menn einnig með Farmölunum en þeir dugðu þó lítt til plæginga nema í matjurtagörðum.

Á Ásgarðsnesi var um tíma rekinn umfangsmikill kúabúskapur. Sigrún J. G. Sigurðardóttir kaupakona ekur Farmall Cub sem dregur McCormick snúnings- og múgavél. Myndin var tekin sumarið 1957 (ljósm. frá Helga Magnúsi Gunnarssyni).

Eiríkur kaupfélagsstjóri Þorsteinsson keypti Massey Harris dráttarvél (20 G) á árunum 1946 eða 7 sem hann síðar lánaði Einari Guðmundssyni á Bakka. Sú vél var búin öflugri sláttuvél, en einnig moksturstækjum, sem þóttu mikil nýjung. Reyndust þau þó ekki sem skyldi. Slík tæki munu einnig hafa komið á Kjaransstaðavélina.

Um og upp úr 1950 fetuðu fleiri bændur sömu slóð: Fyrstu Ferguson-vélarnar komu að Bakka og í Mið-Hvamm, sameignar-Ferguson-vélar að Kirkjubóli og Múla, og að Vésteinsholti og Sveinseyri. Þá sameinuðust Miðbæjar- og Húsatúnsmenn um kaup á Massey-Harris Pony dráttarvél.

Þá má nefna að vorið 1955 kom fyrsta dísel-dráttarvélin í hreppinn. Það var Deutz (F1l 514), þeirra feðga Kristjáns og Finnboga Lárussonar í Hæsta-Hvammi. Á Ásgarðsnesi ráku þau Gunnar og Ólafía umfangsmikinn heyskap sinn á Söndum og víðar með smávöxnum Farmall Cub, þeim fyrsta sem í hreppinn kom.

101 Freyr 39 (1944), 79.

82

Þannig rak hver dráttarvélin aðra. Jeppasagan er annar kafli. Enginn nýtti sér jeppa til búverka í sama mæli og Gunnar á Hofi gerði með fjölskyldu sinni. Á því sviði tækninnar var Gunnar einnig brautryðjandi; að Hofi kom Willys-jeppi árið 1946.102 Willys-landbúnaðarjeppar komu síðar í Höll og að Arnarnúpi; einnig í Efri-Mið-Hvamm (1956), að ógleymdum „Rússunum“ að Múla, Ásgarðsnesi og Vésteinsholti um og eftir 1956. Land-Rover tíminn rann svo upp fyrir alvöru 1962 með Hóla-jeppanum, þótt allnokkru áður hafi jeppi þeirrar tegundar komið til Andrésar á Brekku.

Eitt var vélaaflið en annað verkfærin sem breyttu því í gagnlega vinnu. Þegar er nefnd hestasláttuvélin á Hofi. Þangað kom einnig rakstrarvél um svipaði leiti (1926), einnig fyrir dráttarhest. Fleiri bændur fetuðu í spor Hofsbænda og keyptu rakstrarvélar fyrir hesta, meðal annars afi minn og nafni á Kirkjubóli. Hún varð því sú fyrsta sem mér var trúað fyrir; Deering hét hún, sem unun var að vinna með í þurrum flekk á sléttum og sólvermdum töðuvelli.

Flestum dráttarvélunum fylgdu sláttuvélar eins og þegar er nefnt en síðar fóru að koma fleiri heyvinnuvélar ætlaðar vélarafli. Til heysnúnings kom hvað fyrst gafflasnúningsvél að Granda; síðar snúningsvélar að Brekku, í Hóla og að Hofi, 1948 og 1949.

Gunnar á Hofi varð fyrstur til þess að reyna súgþurrkun heys, árið 1947; fyrstur Vestfirðinga ásamt Sigurði Þórðarsyni á Laugabóli við Djúp.103 Kjaransstaðamenn fylgdu fast á eftir og Stefán í Hólum árið 1955. Aflgjafarnir voru víðast olíumótorar, og nýttust sumir einnig til ljósa. Vatnsaflsvirkjun var sett í Meðaldal 1927, sú fyrsta í hreppnum. Síðar risu vatnsaflsvirkjanir á Kjaransstöðum og á Ketilseyri. Vindrafstöðvar voru settar upp á nokkrum bæjum. Það var hins vegar ekki fyrr en á árunum 1969-1973 að samveiturafmagn var lagt um sveitina.

Líta ber á framantalda punkta sem „staka jaka á reki“ í þeim straumi verktæknibreytinga er urðu í sveitinni um miðbik síðustu aldar. Í verulegum atriðum komu til sögunnar nýir búhættir, sérstaklega hvað snerti jarðrækt og heyskap. Á sumum jörðum kusu bændur að stækka bú sín að fengnum meiri afköstum við heyöflun með vélknúinni verktækni. Aðrir kusu að hætta búskap og/eða snúa sér að öðrum framfærslukostum. Áfram voru þó flest ræktunarlönd á bæjunum nýtt. Búvöruframleiðslan varð síst minni. Þetta er hin alþekkta saga úr öðrum sveitum landsins.

Er þá mál að hverfa aftur að hinni eiginlegu sögu Búnaðarfélagsins.

BREYTTIR TÍMAR

Um 1960 urðu ýmsar breytingar á búskap í Þingeyrarhreppi. Á árunum 1954-1962 brugðu margir búi og jarðir lögðust í eyði. Má segja að þá hafi röskun byggðarinnar í sveitinni orðið mest. Eftir stóðu bú sem að meira eða minna leyti löguðu sig að nýjum tímum, hvað

102 Bjarni Guðmundsson: „Vökustund við vélahljóð“. Frá Bjargtöngum að Djúpi. 9, 2006, 33-42.

103 Heima er bezt. (9.-10.), 1984, 279.

83

ræktun og tækni snerti. Áfram var Búnaðarfélagið hinn sameiginlegi vettvangur bændanna, þar sem ýmis framfaramál bar á góma, þótt ekki væri starf félagsins umfangsmikið; það var ef til vill meira til þess að gegna skyldum sínum sem hluti af félagskerfi bænda á landsvísu. Geta má nokkurra viðfangsefna á fundum Búnaðarfélagsins:

Árið 1964 var sett nefnd til viðræðna við sveitarstjórn um breytta skipan fjallskila í sveitinni, m.a. í kjölfar breyttrar byggðar. Félagið keypti árið 1966 steypuhrærivél til sameiginlegra nota. Árið 1972 knúði félagið á um að fá kýr í hreppnum sæddar og árið 1977 gekk félagið til aðildar við nágranna-búnaðarfélögin um húsagerðarsamþykktina sem fyrr var nefnd (steypumótin).

Um miðja síðustu öld var ekki hlaupið að því að kaupa efni til framkvæmda. Hér hefur Búnaðarfélagið fengið heimild Fjárhagsráðs til þess að kaupa 180 rúmfet af timbri í steypumót til votheysgeymslubyggingar. Einstakir bændur þurftu svo að sækja um fjárfestingaleyfi fyrir hverri geymslu, þar með talið fyrir timbri í þök yfir þær.

Þá fjallaði Búnaðarfélagið um ýmis hagsmunamál bændanna í hreppnum, svo sem um rafvæðingu frá samveitu (1964), og að fá ráðunautaþjónustu á sviði búfjárræktar og dýralækni til starfa á Ísafirði (1968). Búnaðarfélagið hvatti eindregið til þess að sláturhúsið á Þingeyri yrði endurbætt fremur en að reist yrði sameiginlegt sláturhús á Ísafirði (1978). Þangað þótti bændum í hreppnum of langt yrði að sækja, og töldu líka að erfitt mundi reynast að manna sláturhús þar. Á aðalfundunum 1984 og 1985 snerist umræðan mjög um riðuveiki sem þá hafði nýlega herjað grimmilega á sauðfé sunnar á Vestfjörðum og ógnað afkomu bænda þar.

FRÆÐSLA OG LEIÐBEININGAR

Með beinum og óbeinum hætti hefur Búnaðarfélagið komið að búnaðarfræðslu og leiðbeiningum. Á fyrstu árunum gerðist það með ráðningu og starfi búfræðinganna sem fóru bæ frá bæ og unnu að jarðabótum fyrir bændur og með bændum. Með búfræðingunum barst ný verkþekking og hún breiddist út með þeim.

84

Þegar Búnaðarsamband Vestfjarða var stofnað 1907 hófst þáttur fræðslufunda og námskeiða um landbúnaðarmál. Það mun hafa verið í janúar 1910 sem fyrsta búnaðarnámskeiðið var haldið. Það var á Þingeyri og þar fluttu fyrirlestra Hannes Jónsson ráðunautur Búnaðarsambandsins, og Kristinn Guðlaugsson búfræðingur og bóndi á Núpi.

Árið 1923 var haldið bændanámskeið í Haukadal að tilhlutan Búnaðarsambandsins. Stóð það dagana 18.-21. mars. Það var vel sótt, oftast 30-50 áheyrendur.104 Alls voru fluttir 16 fyrirlestrar. Það gerðu þeir Jón Á. Guðmundsson ostagerðarmaður (6), Sigurður Sigurðsson búfræðingur/ ráðunautur (4), Hannes Jónsson ráðunautur (5) og Ólafur Ólafsson kennari (1). Jón fjallaði um meðferð mjólkur og ostagerð, Sigurður um hirðingu á kúm, túnrækt, votheysgerð og verkfæri. Hannes ræddi um sjúkdóma í kúm og óþrif í fénaði og Ólafur um siðfræði forfeðranna.

Tveggja daga námskeið var haldið á Þingeyri í marsmánuði árið 1936. Þar voru fyrirlesarar ráðunautarnir Ragnar Ásgeirsson, Gunnar Árnason og Ólafur Sigurðsson frá Búnaðarfélagi Íslands.

Í febrúarmánuði 1955 var haldinn fræðslufundur á Þingeyri að tilhlutan Búnaðarfæðslu Búnaðarfélags Íslands er svo nefndist. Þar mættu „flestir bændur úr hreppnum.“ Frummælendur voru ráðunautarnir Agnar Guðnason og Þorsteinn Valgeirsson. Fjallað var um jarðrækt og hvatt til stofnunar nautgripa- og sauðfjárræktarfélags. Þar voru einnig sýndar skuggamyndir af verðlaunagripum, kúm, nautum og sauðfé og ennfremur af vélum. Á þessum fundi var ákveðið „að áburðartilraunir undir eftirliti ráðunautanna yrðu framkvæmdar

Mynd þessi er talin hafa verið tekin á samfundi bændafólks úr Þingeyrarhreppi, af Ingjaldssandi og úr Önundarfirði einn sunnudag sumars um miðjan sjötta áratuginn. Kveðjusöngur við Holtssel á Bjarnardal (Einkasafn).

104 Skráðir voru 52 nemendur á námskeiðinu í skýrslu í Búnaðarriti (1925), 148.

85

næsta vor á Kirkjubóli“. . . Þær voru gerðar sumarið eftir (1955) og voru nokkrir bændur viðstaddir þegar sáning fór fram. Um haustið komu svo ráðunautarnir aftur og gerðu grein fyrir niðurstöðum tilraunanna á fundi með bændunum. Tilgangur tilraunanna var að vekja almenna athygli á gagnsemi tilbúins áburðar og þá einkum fosfóráburðar. Skyldu þær standa í fjögur ár.105 Framkvæmdaárið varð þó aðeins eitt.

.

. . áburðartilraunirnar á Kirkjubóli . . .

Skrifaranum er í barnsminni er ráðunautarnir tveir, Agnar og Þorsteinn frá Búnaðarfélagi Íslands, hófu tilraunirnar í maí 1955: Mældir voru og merktir reitir á túninu utan við bæinn. Áburður var veginn og borinn á reitina eftir sérstöku skipulagi. Bændurnir fylgdust áhugasamir með verkum ráðunautanna, sem þeir útskýrðu jafnharðan. Síðar um sumarið voru reitirnir slegnir og uppskeran vegin. Sýni úr henni voru sett í netpoka til þurrks í hjallinum á bænum. Skyldu þau síðan efnagreind fyrir sunnan. Má segja að það væri eina heyið sem náðist grænverkað á Kirkjubóli það magnaða óþurrkasumar! Um haustið var boðað til búnaðarfélagsfundar á Þingeyri þar sem fyrstu niðurstöður voru kynntar. . .

Um 1960 tók Búnaðarsamband Vestfjarða að hafa fastráðna héraðsráðunauta í þjónustu sinni, ýmist einn eða fleiri. Við það færðist leiðbeiningastarfið í reglulegra og fastara form en verið hafði, bæði með heimsóknum ráðunauta til einstakra bænda svo og þátttöku ráðunautanna og annarra ráðgjafa í fundum Búnaðarfélagsins.

Síðast en ekki síst skal nefna fræðsluþátt, sem lengi hefur staðið, og alltaf vakið áhuga bænda í hreppnum. Það eru hrútasýningarnar. Þangað komu lengi vel ráðunautar Búnaðarfélags Íslands og Búnaðarsambandsins, dæmdu hrúta og fluttu ávörp og erindi um sauðfjárrækt. Þáttur þessi er dæmi um fræðslu og skipulag sem skilað hefur bændum góðum árangri í ræktunarstarfinu, sjá VI. kafla

STJÓRNARMANNATAL

Samkvæmt gögnum Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps hafa eftirtaldir menn skipað sæti í stjórn félagsins:

Formenn

Kristján Andrésson í Meðaldal 1889-1892 Sr. Kristinn Daníelsson á Söndum 1892-1893 Matthías Ólafsson í Haukadal 1893-1894 og 1904-1909

Sigurður Jónsson á Húsatúni 1894-1895 Sr. Kristinn Daníelsson á Söndum 1895-1904 Ólafur Hákonarson í Ystabæ 1909-1915 og 1922-1938

Einar Guðmundsson á Bakka 1938-1957

Þórður Jónsson á Múla 1957-1958 Knútur Bjarnason á Kirkjubóli 1958-1980 Kristján E. Björnsson á Múla 1980-1992 Guðmundur Grétar Guðmundsson á Kirkjubóli 1992-2011

105 Fræðslurit Búnaðarfélags Íslands. Nr. 22, 1956.

86

Meðstjórnendur

Guðmundur Eggertsson í Höll 1889-1892, 1894-1895 og 1897-1898

Guðmundur Nathanelsson á Kirkjubóli 1889-1891 og 1902-1905

Ólafur Guðbjartur Jónsson í Miðbæ 1891-1894, 1895-1897, 1898-1902 og 1905-1907

Benjamín Bjarnson á Múla 1892-1893

Sigurður Jónsson á Húsatúni 1893-1894 Kristján Andrésson í Meðaldal 1894-1895 og 1896-1902

Hákon Jónsson í Ystabæ 1895-1896 Jóhannes Ólafsson á Þingeyri 1902-1907 Sr. Þórður Ólafsson á Söndum 1907-1911

Carl Proppé á Þingeyri 1907-1911

Guðmundur Jónas Guðmundsson í Hólum 1911-1915 . . . Matthías Ólafsson í Haukadal 1911-1914 Jón G. Guðmundsson í Höll 1914-1915 . . .

Ritarar

Jón Þórarinsson í Neðsta-Hvammi 1922-1937 Andrés Guðmundsson á Brekku 1937-1956 Gunnar Guðmundsson á Hofi 1956-1984 Sigurbjörn Sigurðsson á Ketilseyri 1984-1990 Sigrún Guðmundsdóttir á Kirkjubóli 1990-2011

Gjaldkerar

Stefán Guðmundsson í Hólum 1922-1942 Sigurjón Sveinsson á Granda 1942-1948 Jens Kr. Gestsson í Miðbæ 1948-1952 Hjörleifur Guðmundsson á Húsatúni 1952-1955 Jón Guðmundsson á Vésteinsholti 1955-1962 Gunnar Jóhannesson á Ásgarðsnesi 1962-1982 Guðmundur Grétar Guðmundsson á Kirkjubóli 1982-1992 Guðmundur Sören Magnússon á Brekku 1992-2006 Guðrún Íris Hreinsdóttir á Ketilseyri 2006-2011

Ekki verður annað sagt en festa hafi einkennt forystu félagsins, ef frá eru talin fyrstu starfsárin. Þannig eru það aðeins ellefu menn sem gegnt hafa stöðu formanns á öllum starfstíma Búnaðarfélagsins.

AF AFMÆLUM OG VIÐURKENNINGUM

Ekki hefur Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps varið miklum tíma til hátíðarhalda á ferli sínum eins og sjá má þegar stiklað er á helstu atburðum sem tengjast afmælisáföngum í félagssögunni.

Tilraun var gerð til þess að halda upp á hálfrar aldar afmæli félagsins árið 1939. Þátttaka í fagnaðinum var ekki næg og mun hann því hafa fallið niður. Í fundargerð er skráð það álit Eiríks kaupfélagsstjóra „að ekki kæmi til mála að halda umgetinn fagnað annarsstaðar en á

87

Þingeyri“ . . . Bendir það til þess að aðrir staðir hafi komið til álita svo sem samkomuhús Kvenfélagsins Hugrún í Haukadal sem þá var nýbyggt.

Hér má einnig geta þess að í fundargerðabók Búnaðarfélagsins var á fimmtíu ára afmæli þess, 25. mars 1939, teiknað svonefnt „minningablað“. Það gerði Sigurður E. Breiðfjörð á Þingeyri, sá einstaklega drátthagi maður. Á minningablaðið eru skráðar þrjár vísur, sennilega eftir Sigurð:

Hræðist eigi heimsins kvöl hatrömm þó að ýli, meðan stillt á stýrisvöl stæltar hendur hvíli.

Tjaldið ekki á tæpust vöð né tildrið undir friðinn, því hálfrar aldar ára röð er að baki liðin.

Eignist nú við birtu brún bjartan minnisvarða. Fyrir akra, engi, tún, áveitur og garða.

Á sjötugsafmæli félagsins árið 1959 var enn rætt um afmælisfagnað, nú í Haukadal um mánaðamótin apríl-maí. Heimildir eru ekki um að hann hafi verið haldinn. Snemmsumars árið 1967 gekkst Búnaðarfélagið hins vegar fyrir eins dags skemmtiferð um Vatnsfjörð, Barðaströnd, í Sauðlauksdal og um firði til baka. Nær tuttugu manns tóku þátt í ferðinni sem tókst með ágætum. Fleiri slíkar skemmtiferðir voru farnar á vegum félagsins.

Minningarblað í gerðabók Búnaðarfélagsins frá 1938 sem Sigurður E. Breiðfjörð teiknaði.

Níutíu ára afmælisins minntist Búnaðarfélagið með því að gefa Elliheimilinu á Þingeyri eitthundrað þúsund krónur, að tillögu þeirra Valdimars Þórarinssonar á Húsatúni og Gunnars Guðmundssonar frá Hofi.

Á aðalfundi Búnaðarfélagsins 1987 var samþykkt tillaga um að fela formanni „að fá mann til að skrá sögu félagsins og stefna að því að koma henni út á 100asta afmælisárinu.“ Varð það ritið Úr aldarsögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps 1889-1989 sem hér hefur verið endurgert með nokkrum lagfæringum og viðbótum.

Búnaðarfélagið hefur í áranna rás kjörið sér heiðursfélaga. Samkvæmt gerðabókum félagsins eru þeir þessir, taldir í þeirri röð sem þeir voru kjörnir:

88

1. Ólafur Hákonarson í Ystabæ, 1945. Ólafur hafði þá starfað í og á vegum Búnaðarfélagsins um nær fjörutíu ára skeið, m.a. í umferðarvinnu við jarðabætur og sem formaður félagsins í liðlega tuttugu ár; einnig var hann formaður Nautgriparæktarfélagsins. Ólafur var bóndi í Ystabæ 1919-1945.

2. Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli, 1945. Bjarni hafði eins og Ólafur starfað lengi í félaginu og m.a. annast vörslu Búnaðarsjóðs þess. Hann var bóndi á Kirkjubóli 1909-1943.

3. Lárus Einarsson í Efri-Mið-Hvammi, 1956. Lárus stundaði þar búskap í meira en hálfa öld 1895-1951. Hann var orðinn félagi Búnaðarfélagsins árið 1891, þá vinnumaður í Hvammi.

4. Einar Guðmundsson á Bakka, 1957. Einar hafði þá verið formaður Búnaðarfélagsins frá árinu 1938. Hann var bóndi á Bakka 1929-1957.

5. Stefán Guðmundsson í Hólum, 1961. Stefán sat í stjórn Búnaðarfélagsins um nær tuttugu ára skeið. Hann var bóndi í Hólum1915-1970.

6. Gunnar Guðmundsson á Hofi, 1967. Gunnar starfaði í Búnaðarfélaginu í rúmlega sextíu ár, þar af sem ritari þess í tæp þrjátíu ár. Hann vann mikið að jarðabótum í hreppnum með Fordson-dráttarvélinni, fyrstu dráttarvélinni sem í Fjörðinn kom. Hann var bóndi á Hofi 1923-1958.

7. Gunnar Einarsson í Miðbæ, 1983. Gunnar hafði verið félagsmaður í liðug þrjátíu ár og var þá elsti bóndi hreppsins. Hann var bóndi í Miðbæ frá 1952 til dauðadags, 1986.

8. Þórður Jónsson frá Hvammi, 1984. Hann var bóndi á Rana í Hvammi 1936-1949 en var félagsmaður til æviloka.

9. Sigurður Friðfinnsson á Ketilseyri, 1987. Sigurður hafði þá verið félagsmaður í nær fimmtíu ár og var bóndi til æviloka, 2002; hafði búið á Ketilseyri frá 1945.

10. Knútur Bjarnason á Kirkjubóli, 1987. Knútur var formaður Búnaðarfélagsins í liðlega tuttugu ár. Hann annaðist Búnaðarsjóð þess frá 1950. Hann var bóndi á Kirkjubóli til æviloka, 2013, í sextíu ár.

Að lokum er þess að geta að á aðalfundi 1942 var samþykkt „að félagið veiti árlega viðurkenningu fyrir búnaðarframkvæmdir innan félagsins á undanförnum árum eða eftirleiðis“ . . . Viðurkenningin skyldi vera áletraður peningur. Kosin var þriggja manna nefnd til þess að meta verðuga, ásamt stjórn Búnaðarfélagsins. Árið 1943 var þessi viðurkenning veitt Jóni Þórarinssyni, sem hafði verið bóndi í Neðsta Hvammi 1912-1933. Hann hafði starfað að búnaðarmálum í hreppnum. Hann gerði m.a. túnkort á bæjum í hreppnum um 1920, þegar öll tún og garðlönd á Íslandi skyldu mæld og kortlögð.106 Jón sat í stjórn Búnaðarfélagsins um skeið. Þetta mun hafa verið í eina skiptið sem þessi viðurkenning var veitt, ef til vill vegna þess að heiðursfélagakjör leysti hana af hólmi.

ÖNNUR BÚNAÐARSAMTÖK Í HREPPNUM

Fleiri samtök um búnaðarmál en Búnaðarfélagið hafa starfað í Þingeyrarhreppi um lengri eða skemmri tíma. Þar er fyrst að nefna nautgriparæktarfélag. Á fyrri hluta tuttugustu aldar munu nokkrir bændur í sveitinni hafa sameinast um nautahald og stofnun „nautafélags.“

89
106 Sjá https://skjalasafn.is/tunakort_i_thjodskjalasafni_islands

Á Búnaðarfélagsfundi í fundarsal Kaupfélags Dýrfirðinga um 1960. Stjórnarmenn sitja: Jón Guðmundsson Vésteinsholti, Knútur Bjarnason Kirkjubóli og Gunnar Guðmundsson Hofi. Aftar frá vinstri: Garðar Sigurðsson Neðsta Hvammi, Gunnlaugur Sigurjónsson Bakka, Gunnar Jóhannesson Ásgarðsnesi, Þórður Jónsson Múla, Guðmundur Jónsson Kirkjubóli, Sigurður Friðfinnsson Ketilseyri, Gunnar Einarsson Miðbæ, Elís Kjaran Friðfinnsson Kjaransstöðum, Valdimar Þórarinsson Húsatúni, Sigurjón Andrésson Sveinseyri, Guðmundur Sören Magnússon Brekku, Gunnar H. Jónsson Höll, Guðbrandur Stefánsson Hólum og Finnbogi Lárusson Hæsta Hvammi (ljósm. úr safni GG frá Hofi).

Heimildir um það eru af skornum skammti. Þó er vitað að félagið starfaði á árunum 19131929. Það kom upp nautagirðingu á Ketilseyrardal. Jón Þórarinsson í Hvammi mun hafa verið formaður félagsins lengst af. Þetta félag varð undanfari Nautgriparæktarfélags Þingeyrarhrepps sem stofnað var á Þingeyri 30. desember 1929. Það keypti eignir hins eldra félags – naut og fóður. Félagssvæðið var frá Sveinseyri að Dröngum. Bændurnir í Keldudal og á Útnesinu héldu skýrslur um fóðrun og afurðir kúa sinna á vegum fóðurbirgðafélagsins, sem brátt verður getið. Vegna erfiðra samgangna gátu þeir ekki verið virkir í starfi nautgriparæktarfélagsins. Á stofnfundi þess var ákveðið að fá Helga Guðmundsson á Brekku á Ingjaldssandi sem eftirlitsmann félagsins. Gegndi hann því starfi á meðan félagið starfaði. Helgi „mælir“, eins og menn nefndu hann gjarnan, mætti jafnan á aðalfundi og gerði félögum grein fyrir mælingum sínum og athugunum, jafnframt því sem hann ráðlagði um ræktun nautgripanna. Á blómaskeiði félagsins virðist mikill áhugi hafa verið á kynbótum nautgripanna og líflegar

90

umræður á félagsfundum um nautgriparæktina. Tilfæra má eitt dæmi um það úr fundargerð aðalfundar árið 1939, en þar segir m.a.:

Athugavert þótti, að aðeins 1 kvíga af 10 sem nú eru látnar lifa, sé undan kú, sem hefir yfir 3000 lítra meðalnyt yfir árið. – Allir sem tóku til máls, voru á einu máli um að úr þessu yrði að bæta. Þeim tilmælum var beint til stjórnarinnar, að hún drægi út úr [árs]skýrslunni, hverjar kýr væru bestar til undaneldis, svo að félagsmönnum sé greiður aðgangur að velja. . .

Nokkrum erfiðleikum var bundið að koma þarfanautunum fyrir á vetrum en á sumrin gengu þau oftast í girðingunni á Ketilseyrardal. Lengi var rætt um að byggja yfir naut félagsins á einhverju fleirbýlanna. Var það að lokum gert með bás í fjósi Hjörleifs Guðmundssonar á Húsatúni í Haukadal. Þarfanaut voru á fleiri bæjum. Bændur greiddu bolatollana ýmist í peningum eða heyi.

Fyrstu skýrslunni skilaði Nautgriparæktarfélagið um árið 1930. Voru félagsmenn þá 28 frá Sveinseyri inn að Kjaransstöðum. Áttu þeir alls 29 kýr á skýrslu. Í þessum hópi voru einnig kýreigendur á Þingeyri. Síðasta skýrsla félagsins var um árið 1946. Þá hafði félagsmönnum fækkað í ellefu.

Ýmsan fróðleik má lesa úr kúaskýrslunum: Á árunum 1932-1933 var að mestu hætt að gefa kúm í hreppnum úthey. Votheysfóðrun kúnna færðist mjög í vöxt um miðjan fjórða áratuginn. Notkun annars fóðurs (kjarnfóðurs) varð hins vegar áberandi um miðjan fimmta áratuginn. Á starfstíma félagsins óx nyt fullmjólka kúa félagsmanna úr tæplega 2.600 kg í 3.000 kg.

Kvöldmjaltir á Kvíabólinu á Kirkjubóli sumarið 1958. Bændurnir þar, Knútur Bjarnason (t.v.) og Guðmundur Jónsson, mjólka Skrauturnar sínar. Líklega er þetta með síðustu dæmunum um notkun kvíabóla og stöðla í Þingeyrarhreppi (ljósm.: Þráinn Þorvaldsson).

Formaður Nautgriparæktarfélagsins var lengst af Ólafur Hákonarson í Ystabæ en Andrés Guðmundsson á Brekku tók við af honum árið 1944. Félaginu var formlega slitið 17. september 1950.

91

Það var svo á aðalfundi Búnaðarfélagsins 26. nóvember 1938 að samþykkt var að stofna fóðurbirgðafélag. Hafði Búnaðarsamband Vestfjarða hvatt til þess. Stofnfélagar voru 11. Félagið var nefnt Græðir. Fyrstu stjórn þess skipuðu þeir Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli og Jón Fr. Arason í Hæsta-Hvammi. Til eru skýrslur um félagið fyrir árin 1938-1945. Þær bera það til dæmis með sér að veturinn 1939-1940 var meðalærfóðrið í hreppnum 54 kg af töðu, 61 kg af útheyi, 21 kg af votheyi og 11 kg af fóðurbæti (beinum, síld og síldarmjöli), samtals um 61 fóðureining á á. Árið 1940 var meðalfóður kúnna 2.700 kg af töðu, 339 kg af votheyi og 62 kg af fóðurbæti, samtals um 1.460 fóðureiningar á kú.

Auk skýrsluhalds og eftirlits með fóðurbirgðum og fóðrun, hafði Fóðurbirgðafélagið milligöngu um útvegum fóðurbætis. Félagið starfaði fram undir 1950. Félagar þess urðu flestir 25 og stóðu þá aðeins örfáir bændur í hreppnum utan félagsins. Kristján Guðmundsson á Arnarnúpi var forðagæslumaður allan þann tíma sem félagið starfaði.

Loks er að geta Sauðfjárræktarfélagsins Kaldbaks sem stofnað var 15. júlí 1981. Starfssvæði þess var Þingeyrarhreppur og Auðkúluhreppur. Stofnendur voru ellefu. Um miðjan sjötta áratuginn hafði verið gerð tilraun til þess að stofna sauðfjárræktarfélag í Þingeyrarhreppi en það félag náði ekki nægum vindi í segl. Á vegum Kaldbaks hófust sæðingar áa á félagssvæðinu árið 1981. Í stjórn félagsins voru þeir Guðmundur Grétar Guðmundsson á Kirkjubóli, formaður, Kristján E. Björnsson á Múla, ritari, og Hreinn Þórðarson á Auðkúlu, gjaldkeri. Með breyttu skipulagi sauðfjárkynbóta á landsvísu, og stóraukinni þátttöku bænda í sauðfjársæðingum og almennu skýrsluhaldi, þvarr þörfin fyrir sérstakt sauðfjárræktarfélag svo starfsemi Kaldbaks leið undir lok.

BÚNAÐARFÉLAGIÐ RANN SITT SKEIÐ

Það var á aðalfundi Búnaðarfélagsin 21. janúar 1905, sem haldinn var á Þingeyri, að tekið var til umræðu málefni frá Guðmundi Nathanaelssyni á Kirkjubóli „eftir áskorun frá Þingmálafundi á Flateyri um sameiginlegt búnað[ar]fjelag fyrir Vestur-Ísafjarðarsýslu. Eptir töluverðar umræður komst fundurinn á þá niðurstöðu að slíkur fjelagsskapur mundi vera ákjósanlegur en með því skilyrði, að aðeins búnaðarfjelög hreppanna væru meðlimir þess og hefði 1 fulltrúa í stjórn þessa aðalfjelags, sem annist alla sameiginlega hagsmuni búnaðarfjelaganna.“ Kosinn var fulltrúi til þess að mæta á undirbúningsfund að slíku félagi – Matthías Ólafsson í Haukadal.

Fátt er nýtt undir sólu, þar með taldar hugmyndir, þótt tími þeirra sé ekki alltaf hinn rétti. Félagslegar hræringar urðu í byrjun tuttugustu aldar m.a. til aukinnar samvinnu byggðarlaga. Segja má að hugmynd Flateyrartillögunnar um sameiginlegan búnaðarfélagsskap hafi þróast í stofnun Búnaðarsambands Vestfjarða, sameiginlegan vettvang hreppabúnaðarfélaganna, sem áfram störfuðu þó sem sjálfstæðar einingar.

92

Einni öld síðar höfðu þær breytingar hins vegar orðið á byggð og búskap að grundvöllur margra búnaðarfélaga, þar með talið Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps, var ekki lengur sá sem verið hafði. Félagsmenn voru innan við tíu, þar af nokkrir aukafélagar. Var þá gripið til svipaðrar hugmyndar og fram kom á þingmálafundi sýslunnar á Flateyri.

Þann 30. júní 2011 var samþykkt að leggja Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps niður. Eignum þess, sem námu þá um 450 þúsundum króna var skipt á milli félagsmanna þess. Áður hafði Búnaðarsjóðurinn verið sameinaður félagssjóði. Ákveðið var að félagsmenn gengju til liðs við nýtt búnaðarfélag sem í undirbúningi hafði verið og þannig var sagt frá í héraðsfjölmiðli:

Fjögur búnaðarfélög í Ísafjarðarbæ sem starfað höfðu í Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði og Skutulsfirði voru sameinuð í eitt undir nafninu Búnaðarfélagið Bjarmi. Stofnfundurinn var haldinn í Holti í Önundarfirði þann 4. apríl 2011. Í tilkynningu um sameininguna sagði að félagið vænti þess að geta á hverjum tíma átt gott samstarf við stjórnsýslu bæjarfélagsins um þau mál sem snerta sérstaklega dreifbýli Ísafjarðarbæjar. Félagið áleit mikilvægt að halda því til haga að hagsmunir dreifbýlis og þéttbýlis í bæjarfélaginu væru gagnkvæmir bæði í atvinnu og menningarlegu samhengi.107

Þar með lauk sögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Hún varð 122 ára löng og spannaði mesta breytingaskeiðið sem orðið hafði í sögu þjóðarinnar. Ekki höfðu breytingarnar orðið minni á félagssvæðinu: Þegar Búnaðarfélagið var stofnað var hver jörð þar setin. Menn bjuggu að sínu með verkháttum sem landnámsbóndinn níu hundruð árum fyrr hefði sennilega kannast við. Við félagslok var byggð orðin gisin, búið var á innan við tíu jörðum, við tækni- og viðskiptahætti sem flestir voru óralangt frá því sem stofnendum Búnaðarfélagsins hefði til hugar komið.

93
107
http://www.thingeyri.is/frettir/Bunadarfelagid_Bjarmi_stofnad/

V

Sandar – kirkjujörðin sem varð búland kauptúnsins

Hinn forni kirkjustaður, Sandar í Dýrafirði, á sér langa og merkilega sögu. Þingeyri hét þar í landinu, segir í Jarðabók Árna og Páls frá 1710, „þar sem kaupstaðurinn stendur. Þar hefur nálægt kaupmanns búðunum fyrir vel [tuttugu] árum lítið bæjarkorn verið uppbygt af kaupmannsins forlagi, til þess að sá sem byggi vaktaði búðirnar, og fylgdi þá hjer engin grasnautn og lítil enn nú, og má þetta heldur heita tómthús en hjáleiga.“108

108 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, (1940), 49.

Á síðasta fjórðungi nítjándu aldar tók fólki að fjölga á hjáleigunni Þingeyri. Þar hvatti vaxandi þilskipaútgerð svo sem víða gerðist við sjávarsíðuna; á árabilinu 1880-1901 fjölgaði þorpsbúum til dæmis úr 20 í 146, og árið 1920 voru þeir orðnir 366.109 Vinna flestra var vertíðabundin og gat verið mis arðgæf. Því kusu margir að hafa nokkurn búskap sem hjáverk og til þess að efla matbjörg heimilanna. Ekki færri en 76 Þingeyringar voru skráðir eigendur sauðfjármarka árið 1943 og segir það nokkuð um þá þýðingu sem sauðfé hafði haft í lífi þorpsbúa.110 Búskapurinn, kvikfjárræktin, hafði verið hvað mikilvægasta undirstaða lífsafkomu fólks fram til þessa tíma. Þingeyrin með næsta nágrenni sem telja mátti frá Garðsenda inn að Ásgarðsnesi er ekki víðlendi: Auk eyrarinnar sjálfrar er það aðeins allbreið en brött hlíðin mót norðri og norðaustri undir Sandafelli. Lóð Þingeyrarverslunar tók yfir stóran hluta eyrarinnar. Uppdráttur af Þingeyri frá árinu 1913111 sýnir að margir afmarkaðir túnblettir þorpsbúa voru upp af eyrinni og inn með sjónum, töluvert innfyrir Ásgarðsnes en þá var komið í land sem tilheyrði Hvammi. Auk þess er vitað að margir þorpsbúar sóttu heyskap og mó á ýmsar jarðir beggja megin fjarðarins, margir með töluverðri fyrirhöfn. Beitiland höfðu þeir afar lítið. Með vaxandi fjölda búfjár á Þingeyri, ekki síst sauðfjár, óx álag á nágrannajarðirnar, einkum Hvamm, Sanda og í Brekkudal, Brekku og Granda. Fór svo að 20. september 1924 var undirritaður samningur á milli nábýlisjarða Þingeyrar og fjáreigenda á Þingeyri um beitarkosti. Samkvæmt samningnum skyldi fjáreigendum á Þingeyri heimil beit fyrir sauðfé sitt vor, haust og vetur í landi nábýlisjarðanna gegn beitargjaldi, kr, 0,50 fyrir hverja kind framgengna. Skyldi greiða sama gjald þó fé væri komið til beitar annars staðar einhvern tíma ársins. Fyrir hönd umráðamanna nábýlisjarðanna undirrituðu samninginn þeir sr. Þórður Ólafsson, sem svaraði fyrir Sandastað, Andrés Guðmundsson á Brekku og Sigurjón Sveinsson á Granda. Fyrir hönd fjáreigenda undirrituðu samninginn þeir Sigurjón Pétursson, trésmiður, Bjarni Guðbrandur Jónsson vélsmiður og Ólafur H. Magnússon.112

Svo virðist sem þorpsbúar á Þingeyri hafi ekki litið á samninginn sem næga lausn til frambúðar því um sama leyti beindu þeir erindi til hreppsnefndar um að gera allt sem í hennar valdi stæði til þess að útvega þeim land til slægna og beitar handa gripum sínum.113 Töldu þeir að jarðirnar Sandar og Grandi væru heppilegastar fyrir Þingeyrarbúa. Vildu þeir að hreppsnefndin leitaði upplýsinga um það hvort jarðir þessar, einkum hin fyrrtalda, mundi fást keypt eða leigð við næstu prestaskipti, og þá með hvaða kjörum.

Tillagan var vel skiljanleg því sóknarpresturinn, sr. Þórður Ólafsson, hafði setið á Þingeyri frá 1915 og meiri hluti Sandajarðarinnar var leigður öðrum til ábúðar. Ný kirkja hafði verið

109 Kristján G. Þorvaldsson: Vestur-Ísafjarðarsýsla. (1951), 21.

110 Skrá yfir sauðfjármörk í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1943.

111

Landmælingar Íslands: Lb Nr 3a/1913, Bl 12.n.v.

112 Eftirrit samnings, í vörslu BG. Athygli vekur að Hvammsbænda er ekki getið hér; hefði þó mátt ætla að ágangur fjár frá Þingeyri hefði einnig verið nokkur á jarðir þeirra.

113 Hér og síðar í skrifum þessum er byggt á fundargerðum hreppsnefndar Þingeyrarhrepps

95

reist á Þingeyri og Sandakirkja tekin ofan. Kirkjustaðurinn Sandar var að breytast. Raunar voru í byrjun aldarinnar uppi hugmyndir um að sameina prestaköllin við fjörðinn og skv. lögum um skipan prestakalla frá 1907 skyldu Sandar leggjast til Dýrafjarðarþinga.114 Frá því var þó horfið. Hreppsnefndin áleit uppástungu Þingeyringa „nauðsynjamál og gat verið málhefjendum í öllum atriðum sammála“, stendur í fundargerð hennar, og samþykkti að afla umbeðinna upplýsinga.

Hér má líka nefna fund hreppsnefndar rétt fyrir göngur haustið 1925 en þá samþykkti nefndin að stækka lögréttina á Brekku. Einnig að svæðið innan merkja Þingeyrar og Hvamms skyldi lúta umsjá gangnastjórans í Hvammi, „og hafi hann ekki nægilega marga menn í sínu umdæmi til að annast leitir þar, þá leitar hann til gangnastjórans á Þingeyri, og verður hann að veita honum þá mannhjálp sem hann með þarf.“ Hvort tveggja bendir til þess að í meira mæli en áður hafi þurft að taka tillit til vaxandi fjáreignar Þingeyringa.

Í dagbókum Sighvatar Gr. Borgfirðings er á nokkrum stöðum vikið að búskap á Þingeyri, svo sem 27. apríl 1877: „eg var með að flytja 12 fjár fyrir Wendel yfir að Höfða.“ Og þremur dögum fyrr: „Fluttum skipsfarm af mykju inn að Hvammi.“ Landkostir til búskapar á Þingeyri voru nefnilega takmarkaðir. Raunar er síðari færslan sérstaklega athyglisverð í vistfræðilegu ljósi! Wendel hefur sennilega átt eða haft á leigu túnblett til heyskapar í Hvammi og haft aðgang að hagabeit yfir á Höfða. . .

Tómthúsmenn í Hvammslandi guldu bændum lóðarleigu og beitartoll í svonefndan Býlissjóð. Sjóðurinn notaður „til viðhalds á sameiginlegum girðingum um Töðuvöllinn svo og í landamerkjagirðingu milli Hvamms og Ketilseyrar . . . Hefur einungis verið notaður til efniskaupa, ekki vinnu, efnis í viðhald á dilkum fjárréttar, vírnet og timbur. . . Fleira var keypt en hestasláttuvélin fyrir fjármagn úr Býlissjóðnum svo sem hestaplógur og herfi eflaust um svipað leiti og sláttuvélin, enginn gögn eru til um þessi viðskipti“. . . skrifaði Lárus Hagalínsson frá Bræðratungu. Hann taldi Magnús Lárusson lengst hafa haldið utan um sjóðinn og fært til bókar, í um eða yfir 30 ár. „Upphaf þeirrar bókar hefur hugsanlega verið um 1860-70“ . . . taldi Lárus.115 Það bendir til þess að gjöldin hafi komið til um það leiti sem þurrabúðir hófu að rísa í Hvammslandi úti undir Þingeyri.

Hér má nefna að áþekkur háttur var hafður á í Haukadal þar sem tómthúsmenn höfðu fengið útmælingu lóða fyrir íbúðarhús, svo ríflega að þeir gátu „ræktað út túnbletti sína og komið sér upp sauðfjáreign og garðstæðum“, skrifaði Ólafur Ólafsson og ennfremur:

Smölun var sameiginleg fyrir allan dalinn og önnuðust bændurnir hana, en eigendur fjárins greiddu þeim mjög vægt gjald fyrir slægjuland, ef þess þurfti með, hagagöngu og smölun. Gjald þetta var látið renna í sameiginlegan býlissjóð, sem síðan var ráðstafað til sameiginlegra þarfa, en ekki skipt milli bænda. Minnir mig að 35 aurar væru greiddir fyrir hverja kind frá því hún fór úr húsi og til gangna í beitartoll og smölun. Lóðargjald var þar fyrir utan.116

114 Nýtt kirkjublað 2 (1907), 208.

115 Lárus Hagalínsson í greinargerð til BG 21. ágúst 2021. 116 Ólafur Ólafsson: „Endurminningar úr heimahögum“. (1959), 89.

96

Líða nú árin án þess að mikil tíðindi virðist hafa orðið í málum þessum og Þingeyrarþorp óx. Það er svo á hreppsnefndarfundi 10. mars 1929 að ákveðið var að fela nefnd þriggja manna „að gera uppástungu með leigumála fyrir matjurtagarða, grasbletti, grunnleigur fyrir skepnuhús, uppsátur fyrir báta, og fleiri hjer á Þingeyri“. Í nefndina voru tilnefndir þeir Guðmundur J. Sigurðsson, Angantýr Arngrímsson og Ólafur Hákonarson. Mál var komið til þess að formgera landnot þorpsbúa og ákveða gjald fyrir þau, enda hreppurinn þá nýbúinn að kaupa Þingeyrareignina, þrotabú Bræðranna Proppé sem Landsbankinn hafði haft á sínum vegum.117 Megi marka ljósmyndir og munnlegar heimildir hafði skipan allra þessara mannvirkja í þorpslandinu verið ærið frjálsleg. Í þeim efnum skar Þingeyri sig ekki frá öðrum vaxandi sjávarplássum. Það einfaldaði hins vegar ekki skipulag og leigumála að töluverð og vaxandi byggð grasbýla og þurrabúða var í landi Hvamms, fast innan við Ásgarð/Ásgarðsnes, þar sem mörkin eru á milli Þingeyrar og Hvamms. Yfir því landi hafði hreppsefndin því ekki lögsögu.

En nú leið að breytingum á forræði Sandastaðar. Árið 1929 lét sr. Þórður Ólafsson af embætti fyrir aldurs sakir. Embættið var lýst laust og sóttu tveir ungir prestar um það, þeir sr. Sigurður Z. Gíslason í Staðarhólsþingum og sr. Sigurður Haukdal í Flatey. Í aðdraganda prestskosninga kynntu þeir sig og sóknarbörn höfðu eðlilega hug á því að kynnast þeim og hugmyndum þeirra. Skiptust þau brátt í tvo hópa er hvor studdi sinn umsækjanda og urðu töluverðar deilur.118 Sr. Sigurður Z. lýsti því yfir að Sandajörðina mundi hann vilja láta til þess að fátækt fólk á Þingeyri fengi þar aðstöðu fyrir fénað sinn. Sr. Sigurður Haukdal vildi hins vegar sitja Sanda sem prestur og bóndi þar, nýkvæntur mikilli búkonu, Benediktu Eggertsdóttur frá Laugardælum í Flóa. Sr. Sigurð Haukdal mátti einnig kalla heimamann, en hann var sonur Bjargar Guðmundsdóttur frá Höll í Haukadal, og átti því stóran frændgarð á Útsveitinni. Faðir hans var Sigurður búfræðingur Sigurðsson, er m.a. hafði starfað við jarðabætur og kennslu í sveitinni sem ungur maður. Haukdal hafði auk þess sem kandídat komið og predikað hjá sr. Þórði. Allt þetta skerpti andstæðurnar á milli stuðningsmannahópanna: Þingeyringum féll vel hugmyndin um nýtingu Sanda í þágu þorpsins en sveitarfólkið, og þá einkum margt sveitarfólk, horfði með hlökkun til þess að Sandar yrðu á ný bújörð setin af dugmiklum presti. Merki um fylgi sást þegar sr. Sigurður Haukdal hélt kynningarmessu í Barnaskólanum í Haukadal og eins konar söngskemmtun á eftir við undirleik afa míns, Bjarna Magnúsar á Kirkjubóli: Þangað fjölmennti fólk af öllum bæjum þar út frá. Til kynningarmessu Haukdals á Þingeyri komu hins vegar fáeinar hræður. – Þar stóð fylgi sr. Sigurðar Z.

Kosningar fóru þannig að sr. Sigurður Z. Gíslason var kjörinn prestur Sandaprestakalls lögmætri kosningu. Honum var veitt prestakallið frá og með 1. júní 1929. Niðurstaðan skerpti línur á milli kauptúnsins og sveitarinnar, einkum Útsveitarinnar. Einhverja stund tók það öldurnar að lægja svo sem vænta mátti en það er önnur saga. Þröngt var um húsnæði á Þingeyri. Nýkjörnum presti reyndist erfitt að fá þar inni með fjölskyldu sinni, svo hann varð að flytja í

117 Kristinn Guðlaugsson, Jóhannes Davíðsson og Valdimar Gíslason: Kaupfélag Dýrfirðinga 1919-1979. (1979), 37-38.

118 Um það er byggt á frásögn móður minnar, Ásdísar Bjarnadóttur á Kirkjubóli, 14. ágúst 1991.

97

gamla bæinn á Söndum og vera þar um tíma. Yfirlýstri stefnu sinni fylgdi sr. Sigurður Z. þegar hann 15. júlí 1930 leigði þeim vélsmiðunum Bjarna Sigurðssyni og Ólafi R. Hjartar, báðum á Þingeyri, til fimmtíu og fimm ára, 10.000 m2 „lóðarspildu í hlíðinni norðan í Sandafellinu, rjett utan við landamerki Þingeyrar og Sanda. Lóð þessi er óbyggð og óræktuð. Meirihlutinn stórgert, hálfgrýtt stórþýfi.“ Lóðin, löngum kölluð Garðsendi, skyldi vera afgjaldsfrí fyrstu sjö árin. Raunar var þarna fylgt fordæmi sem forveri sr. Sigurðar Z., sr. Þórður Ólafsson, hafði gefið á síðasta embættiári sínu er hann leigði . . . . . .

herra Guðmundi J. Sigurðssyni, mótormeistara á Þingeyri, lóðarspildu kringum og útfrá svonefndum Skálatóftum, niður af Fögrubrekku, en upp af og innan við svokallaðar Sandeyrar. Lóð þessi er óbyggð og óræktuð. Meiri hlutinn stórgerðar mosaþúfur. Lóðin leigist honum frá fardögum 1929 með rjetti til að selja eða veðsetja afnotarjett sinn á lóðinni ásamt íbúðar-, penings- og heygeymsluhúsum er á henni kunna að vera byggð, á þann hátt sem ekki kemur í bága við brjef þetta.

Lóðin skyldi vera 20.000 m2 (2 hektarar), leigð til 55 ára, afgjaldsfrí fyrstu fimm árin. Hvorugur þessara samninga skyldi ganga í gildi fyrr en Stjórnarráðið hefði samþykkt þá.

Ekki er ólíklegt að hugmynd sr. Sigurðar Z. um nýtingu Sandajarðarinnar í þágu þorpsbúa hafi átt stoð þeim umræðum sem hafnar voru um landþörf þorpsins og viðbrögðum sr. Þórðar við þeim með samningnum við Guðmund J. Sigurðsson. Því má skjóta hér inn að afi og nafni Guðmundar, Guðmundur Guðmundsson, oft kallaður norðlenski, hafði reist Skála (Fögrubrekku) árið 1858 með leyfi Sandaprests og búið þar um tíu ára skeið. Fleiri höfðu ekki búið þar.

Snemma á síðustu öld starfaði málfundafélag á Þingeyri. Á skemmtun hjá kvenfélaginu Von var flutt kvæði Kristjáns Sigurðar Kristjánssonar um fund málfundafélagsins þar sem menn höfðu látið hugann reika um mögulega nýsköpun atvinnuhátta í byggðarlaginu: . . . „Guðmundur Ágúst [Pálsson], sem síðar varð bóndi á Laugabóli í Mosdal, kom með það að stofnað yrði til þess að hafa sel; að Þingeyringar hefðu sel á Galtadal:

Gústi er sleipur, götuna hleypur, Galtadalsselið heimsfrægast er. Mjólk veitir, skekur, lemur, og heggur, laun fær hann aldrei, sem honum ber. Seldans að halda um haustkvöldin blíð, hljóðlega er kysst í blómskreyttri hlíð. Lúðrarnir gjalla, glymur í hjalla, Fagurt er fjallslífið. “ . . .

Heimildarmaður var Kristján Guðmundsson á Akranesi, 1980.

Sr. Sigurður Z. vann áfram að breytingunum með bréfi sínu til hreppsnefndar sumarið 1931 þar sem hann fór fram á „að fá lóð á Þingeyri undir væntanlegt prestsetur til æfarandi [svo] eignar, 400-500 [fer]metra.“ Hreppsnefndin samþykkti „að verða við þessum tilmælum, jafnvel stærri lóð, gegn því að kauptúnið Þingeyri fái beitarland á Galtardal, með viðunandi skilyrðum.“

Fleiri vötn tóku nú að falla til sömu áttar. Borgarafundur haldinn af kauptúnsbúum á Þingeyri 3. apríl 1932 skoraði á hreppsnefndina með samþykkt studdri 42 samhljóða atkvæðum . . .

98

Fallega afmarkaður reitur með nokkrum minningamörkum og snotrum krossi er það helsta sem í dag minnir á fornfrægan kirkjustaðinn á Söndum í Dýrafirði.

. . . að gera allt sem í hennar valdi stæði til þess að fá jörðina Sanda keypta, til afnota, sundurskiptingar, ræktunar og beitar fyrir fénað innbúa kauptúnsins Þingeyrar og biður þingmann kjördæmisins að flytja á alþingi frumvarp um sölu nefndrar jarðar til Þingeyrarhrepps í þessu augnamiði.

Hreppsnefndarmenn ræddu samþykktina rækilega en síðan komu fram tvær tillögur: Önnur um að leita heimildarlaga Alþingis um sölu Sandajarðarinnar „nú þegar.“ Hin um að bera málið undir almennan sveitarfund áður en leitað yrði til Alþingis. Fyrri tillögunni var hafnað með þremur atkvæðum gegn tveimur, en sú síðari samþykkt með sama atkvæðahlutfalli. Þingeyrarbúarnir Jóhannes Ólafsson og Þorbergur Steinsson vildu ganga hratt til verks en hinir hreppsnefndarmennirnir, Ólafur Ólafsson, Stefán í Hólum og Andrés í Meðaldal kusu að fara hægar og kanna hug hreppsbúa almennt áður en falast yrði eftir kaupum á Söndum í þessu skyni.

Aftur kom málið til umræðu á almennum sveitarfundi 3. janúar 1933 eftir áskorun frá þorpsbúum. Miklar umræður urðu um málið og upp var borin eftirfarandi tillaga: Fundurinn leggur eindregið til þess, að hreppsnefndin gjöri alt, sem í hennar valdi stendur til þess að ná umráðarétti á jörðinni Söndum til hagsmuna fyrir kauptúnsbúa, annað tveggja til kaupa eða leigu á jörðinni. En[n] urðu nokkrar umræður um málið, og var þá, eftir tilmælum sóknarprestsins bætt við tillöguna: að undanskildu landi því, sem prestsetrinu á Þingeyri kann að verða úthlutað til afnota.

99

Tillagan var samþykkt með 85 atkvæðum gegn 21. Málið hefur sýnilega verið heitt; það sýnir bæði mætingin og það að 44 ræður voru fluttar um málið „með nokkrum skoðanamun, en alt þó með fullri kurteisi“, segir í fundargerð. Skiptar skoðanir voru líka í hreppsnefnd og að ári liðnu var ákveðið að leggja málið enn fyrir sveitarfund og kynna skilyrði fyrir kaupum, en leigja jörðina ella. Slíkur fundur var haldinn 10. mars 1935 þar sem samþykkt var að halda áfram samningaumleitunum um kaupin. Á hreppsnefndarfundi 12. september 1936 var oddvita falið að semja um jarðarkaupin við ríkisstjórnina. Þrír fulltrúar samþykktu, einn var á móti og annar sat hjá.

Það var svo veturinn 1937 sem Ásgeir Ásgeirsson, þá alþingismaður Vestur-Ísfirðinga, bar fram frumvarp á Alþingi um heimild til ríkisstjórnarinnar „að selja Þingeyrarhreppi kirkjujörðina Sanda“ . . . Voru þá fjögur ár liðin frá því samningaumleitanir hófust á milli ríkisstjórnarinnar og hreppsnefndar Þingeyrarhrepps um kaup hreppsins á Sandajörðinni. Í frumvarpinu var tilgangur kaupanna sagður vera „að allur almenningur í Þingeyrarhreppi geti fengið þar jarðnæði. Jörðinni er skipt í skákir og allt ræktað sem ræktanlegt er, en afgangurinn notaður til beitar.“ Var kaupsamningur þá sagður nær fullbúinn. Allsherjarnefnd þingsins tók vel í málið og var sammála um framgang þess. Prestur skyldi fá nokkurn hluta landsins til umráða og skilyrði sett um að landið gæti ekki gengið úr eign hreppsins eða safnast á fárra hendur. „Hreppsnefndin hefur ákveðið að hafa samvinnuræktun þarna“, sagði framsögumaður nefndarinnar. „Þykir því vera tryggt með þeim samningum, sem liggja á bak við þessi l.[lög], að landið verði notað til hagsbóta fyrir íbúa hreppsins.“119 Söluheimildin var veitt með lögum nr. 47 1937 frá Alþingi, sem Kristján X konungur staðfesti þá um sumarið.120

Afsal með tilheyrandi samningi var staðfest í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 9. maí 1938; rækileg plögg bæði og skal aðeins getið helstu ákvæða þeirra:

Kaupverð lands Sandajarðarinnar var kr. 600,00 – sex hundruð krónur. Í hvikulu verðlagi segir talan svo sem lítið en á þessum tíma var meðalverð mjólkurkýr kr. 234,96 og dagsverk á heyönnum metið á kr. 8,83 svo dæmi séu tekin.121 Landverðið svaraði því til andvirðis tveggja mjólkurkúa og hálfri betur, eða tæplega 70 dagsverka um heyskap. Íþyngjandi urðu kaupin því Þingeyrarhreppi ekki.

Í samkomulaginu var í fyrsta lagi áskilnaður um ævarandi eign hreppsins á landi Sandajarðarinnar og undir stjórn hans og að hreppurinn „leigi aldrei utanhreppsmönnum hið selda land, hvorki í heild né nokkurn hluta þess“ . . .

Í öðru lagi var áskilnaður um hámarksstærð á leigulandi sem „hver fjölskylda eða félag“ fái til afnota: Að hún fari ekki fram úr ½ - 2 ha „til grasræktar, kornræktar, slægna eða til framleiðslu

119

Alþingistíðindi B-deild 1937, 205-206.

120 Stjórnartíðindi A-deild 1937, 83-84.

121 Magnús S. Magnússon: Landauraverð á Íslandi 1817-1962. (2003), 153 og 271.

100

annara landbúnaðarafurða“ og ekki stærra land en 500 fermetra „til jarðeplaræktunar, blómaræktunar eða annarar garðræktar.“

Þá var í þriðja lagi, og ekki þýðingarminnst, undanskilin við söluna aðstaða fyrir prest til búskapar. Hefði hún gert honum kleift að reka allvænt bú á Söndum: „Fjórir hektarar lands, 2 ha úr túni og 2 ha af óræktuðu landi sem eiga að fylgja prestsetrinu á Þingeyri“. . . Einnig fjögur kúgildi sem fylgt hafa jörðinni og réttindi til skógarhöggs í Botni. Þá skyldi prestssetrið/ presturinn án endurgjalds hafa mótaksrétt í landi Sanda, grjót-, sand- og malartekju til eigin þarfa og heimil „hagabeit í Sandalandi fyrir búfé sitt, minnst 30 sauðkindur, 3 kýr og 1 hest, og að öðru leyti fyrir búfé það, sem hægt er að fóðra á landi því, 4 ha, sem kirkjustjórnin hefir útlagt sóknarprestinum til afnota úr landi jarðeignarinnar Sandar.“

Þann 27. janúar 1937 var kaupsamningurinn kynntur á almennum sveitarfundi í þinghúsi hreppsins og Sanda-kaupin samþykkt.

Þannig má segja að bræddar hafi verið saman hugmyndir umsækjendanna tveggja um embætti Sandaprests, sem fyrr voru nefndar, um framtíðarnotkun Sanda: Búskap prests annars vegar og land fyrir smábúskap þorpsbúa hins vegar. Á þessum árum óx hraði breytinga bæði innan Þingeyrarhrepps sem og í samfélaginu öllu; veröldin þróaðist á annan veg en líklegastur var þegar gengið var frá samningum um framtíð Sandalands vorið 1938. Hér verða þær ekki raktar. Þó má nefna það að búskapur á vegum Sandapresta lagðist af áður en tuttugasta öldin var hálfnuð.

Veturinn 1937 kaus hreppsnefnd fimm manna nefnd til þess að annast um málefni Sanda, svonefnda Sandanefnd. Í fyrstu var hún kosin til eins árs en fljótlega til fjögurra ára og þá kosin í upphafi hvers sveitarstjórnatímabils. Nokkuð verk hefur verið að starfa í Sandanefnd því veturinn 1938 var samþykkt að þóknun til nefndarmanna næði samtals 10% af tekjum af jörðinni.

Í samræmi við nýja fjallskilareglugerð ákvað hreppsnefnd á fundi sínum í ágústlok 1938 að aukaréttir skyldu vera í Keldudal, Haukadal og í Hvammi, en aðalrétt var á Brekku. Nefndin skipaði gangnastjóra og réttarbændur; Sigmundur kaupmaður Jónsson var gangnastjóri á Þingeyri. Tveimur árum seinna, 15. september 1940, samþykkti hreppsnefndin eftirfarandi erindi:

Samkv. fundarsamþ. fjáreigenda á Þingeyri 6. seft. 1940 er Þingeyrarhrepp hjer með afhent til fullrar eignar fjárrjett sú, sem stendur í hlíðinni ofanvert við kauptúnið. – Rjettin er almenningur með fjórum dilkum, staura- og [vír og -ógr.] borða girðingu, áklædd refaneti – ef hreppurinn sjer sjer fært að fullnægja því setta skilyrði fyrir gjöfinni að rjettin verði nú þegar gerð að aukarjett með sömu rjettindum og skyldum sem aðrar aukarjettir hreppsins. . .

101

Fjáreigendur á Þingeyri vildu sýnilega búa við sama hlut og aðrir fjáreigendur í hreppnum. Hreppsnefndin sá hins vegar ekki ástæðu til þess að breyta út frá þeirri reglu að þar sem þorp eða býli höfðu fengið þau sérréttindi að hafa aukarétt „hafa [þau] bæði byggt þær og haldið þeim við.“

Fjöldi sauðfjár í Þingeyrarhreppi á 20. öld [fjártölur kauptúnsbúa vantar um töluvert skeið]

Á hreppsnefndarfundi 25. júní 1942 lagði Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli fram tillögu um að athugað yrði að byggja nýja aðalrétt „með svo mörgum dilkum, sem þurfa þykir“, og á nýjum stað, með afgirtu svæði sem auðveldaði vörslu fjár og afgreiðslu. Var helst bent á hentugt svæði ofan Sandafells. All löngu fyrr (1894), hafði komið fram hugmynd um að færa aðalréttina að Söndum, en ekkert varð af því. Tillögu Bjarna var vísað til nýrrar hreppsnefndar er taka átti við í næsta mánuði. Ekkert varð heldur úr breytingum þá, en líta má á tillöguna sem leið til þess að laga sauðfjárhaldið í hreppnum að nýjum aðstæðum.

Nú er maklegt að koma að þeim kafla sögunnar sem varðar búfjárfjölda á Þingeyri og fleira sem lesa má úr búnaðarskýrslum Súluritið hér ofar byggist á tölum sem mér voru tiltækar við þessi skrif. Árið 1918 voru 36 búlausir framteljendur búfjár á Þingeyri. Þeir átti 13 kýr og kefldar kvígur og 192 ær með lömbum í fardögum, en alls 279 fjár. Fjáreign var almenn, fjáreigendurnir mjög margir en þeir áttu fáar kindur hver, eða svo sem 5-6 ær. Ljóst er að sú eign hefur varla dugað fjölskyldu til framfæris um ársins hring hvað snerti ull, mjólk og kjöt. Árið 1961 hafði fjárstofn hvers framteljanda á Þingeyri nær fjórfaldast, en framteljendum hafði hins vegar fækkað um helming. Mætti því álykta sem svo að sauðfjárhaldið hafi á tímabilinu 19201960 breyst frá því að vera hluti af almennu heimilishaldi margra fjölskyldna í þorpinu til þess að vera allnokkur búrekstur fækkandi framteljenda, sauðfjárhald sem var orðið grundvöllur nokkurra aukatekna, svo sem með innleggi í verslun eða afurðasölu á milli manna/fjölskyldna. Um og upp úr miðri öldinni náði fjártalan á Þingeyri nær sjöttungi alls fjár í hreppnum; var fast við 500 fjár, og mun sú tala hafa verið hámarkið. Þörf þess stofns fyrir beitiland var því töluverð. Sé miðað við hefðbundinn ásetning hefði sá bústofn allur þurft um það bil 1000 hestburði af heyi. Árið 1918 hefði bústofn þorpsbúa hins vegar þurft 13x40 + 279x2 ~ 800 hestburði.122 Heyskaparland hefði því þurft að vera 20-25 hektarar túna eða 50-60 hektarar engjalanda.

122 Í þessum reikningi hef ég ekki talið með bú Ólafíu og Gunnars Jóhannessonar á Ásgarðsnesi, enda var það rekið á sama grundvelli og bú á lögbýlum hreppsins.

102

Með því að fyrirkomulag það, sem hingað til hefur átt sér stað, viðkomandi sauðfjáreign þorpsbúa á Þingeyri, er ekki viðunandi, mælir fundurinn svo fyrir:

1. Hreppsnefndin innheimti það beitargjald fyrir sauðfé, sem hreppnum ber fyrir þau ár, sem liðin eru síðan hann fékk jarðirnar Sanda og Þingeyri til eignar.

2. Vegna þess, að land til sauðfjárbeitar er takmarkað á þessum jörðum samanborið við þörf þorpsbúa, verður hreppsnefndin að ákveða, hve margt sauðfé, hver fjáreigandi í þorpinu má hafa, svo jarðirnar lendi ekki í örtröð.

3. Álíti hreppsnefndin og fjáreigendur á Þingeyri nauðsynlegt, að þorpsbúar eigi fleira fé en nefndar jarðir bera til hagagöngu, skal hreppsnefndin semja um beitarland fyrir það fé, við þá jarðeigendur, sem nóg landrými hafa til að veita það (t.d. Botn).

4. Hreppsnefndin ákveður beitargjald á sínum jörðum og innheimtir það.

Nú, nú. Um og upp úr 1940 virðast beitarmál vegna Þingeyrarfjár aftur hafa borið ofarlega í umræðu. Á almennum sveitarfundi 15. mars 1942 var rætt um beitargjald og fjölda fjár á Þingeyri. Jón Þórarinsson hafði framsögu og lagði fram ályktun, sem lýsti stöðu málsins: Ályktunin kom ekki til atkvæðagreiðslu en eftir umræður um málið var hreppsnefnd hvött til þess útvega beitiland.

Á fundi í Málfundadeild Brekku- og Kirkjubólsdals123 í febrúar 1944 greindi Andrés Guðmundsson á Brekku frá beitarsamningi við fjáreigendur á Þingeyri, sem gilda átti um tímabilið 1939-1944. Taldi hann fjáreigendur hafa leitað ýmissa undanbragða til þess að komast hjá hámarki beitartollsins. Þeir, „sem ræddu samninginn“, töldu rétt að segja honum upp fyrir komandi áramót, og jafnframt að hækka beitargjaldið „og takmarka fjáreign kauptúnsbúa ef hægt er.“ Ályktaði fundurinn að segja samningnum upp að gildistíma hans liðnum.

Umræddur samningur virðist hafa verið gerður eftir fund á Brekku á jólaföstunni 1939, og þá sem endurskoðaður eldri samningur, sjá áður sagt. Fundarmenn, sem voru af öllum bæjum í Brekkudal, svo og Kirkjubóli og Hólum, auk Sigurðar Jóhannessonar frá Þingeyri voru óánægðir með framkvæmd þess samnings; eldri skuldir beitartolls höfðu safnast upp. Bent var á að „næstu býli við Þingeyri yrðu fyrir tilfinnnalegum ágangi af sauðfé kauptúnsbúa, sem ráða þyrfti bót á.“ Samþykkt var að endurskoða beitarsölusamninginn og kosin stjórn fyrir Beitarsölufélagið, sem svo var nefnt í fundargerðinni. Kosningu hlutu Andrés á Brekku, Einar á Bakka og Bjarni Magnús á Kirkjubóli. Þá var skorað á fjáreigendur á Þingeyri að stofna með sér félag „svo að stjórn þess, eða þar til kjörnir menn geti komið fram sem gildir aðilar við endurskoðun beitarsölusamningsins.“

123 Deildin var skipuð í samræmi við ákvörðun aðalfundar Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps 1943 eftir tillögu Stefáns Guðmundssonar í Hólum. Skyldi skipta félagssvæðinu í fjórar málfundadeildir til mánaðarlegra funda um málefni Búnaðarfélagsins og hreppsfélagsins í heild, sjá IV. kafla.

103

Gunnhildur Sigurðardóttir í Laufási við heyskap á Þingeyri. Í baksýn eru m.a. kartöflugarður og peningshús til smábúskapar eins og víða voru í þorpinu (ljósm. frá Sigþóri Gunnarssyni).

Réttu ári síðar funduðu stjórnarmenn Beitarsölufélagsins og Sigurður Jóhannesson enn og þá til þess að ræða skiptingu beitargjalds sem innheimtst hafði á árunum 1937-1940. Sú upphæð nam kr. 794,10. Stefán í Hólum, sem mætti sem varamaður í stjórn, lagði fram ályktun um að brýna „nauðsyn bæri til, að dreifa fjáreign kaupstaðarbúa út um alla sveitina til sumarbeitar, þar eð alment er litið svo á að nágrenni kaupstaðarins sé þegar orðið ofbeitt, en því bæri að hlífa sem hægt væri, með hliðsjón til haust- og vorbeitar“ . . . Ályktunin var ekki afgreidd og fyrir fundarmönnum vafðist einnig að ákveða hvernig það fé beitartolls skyldi nýtt – hvort lagt skyldi í sjóð til framtíðarþarfa, eða notað til umbóta á jörðunum, sem undirgangast vildu samkomulagið um dreifingu Þingeyrarfjár um hreppinn . . .

Á sama vettvangi urðu í aprílmánuði 1944 umræður um gerð ítölu í samræmi við nýleg lög. Samþykkt var svohljóðandi undirskriftaskjal til hreppsnefndar:

Þar sem margra ára reynsla hefir sýnt að þrátt fyrir bætta meðferð sauðfjárins, meira og betra fóður og auknar kynbætur, hafa afurðir þess ekki aukist síðustu árin, nema síður sé, einkum um miðbik hreppsins, þá er það álit flestra að þetta stafi að langmestu leyti af því að landið sé ofbeitt.

Til þess að fá úr því skorið hvort ofbeit veldur, krefjumst við undirritaðir bændur og jarðeigendur í Þingeyrarhreppi, að ítölumat verði framkvæmt á jörðum okkar og öðrum þeim jörðum í hreppnum sem nauðsyn þykir til bera, samkv. lögum um ítölu nr. 85, 16. des. 1943.

Ekkert virðist hafa orðið úr ítölugerð og er svo að sjá að tíminn hafi liðið án þess að til róttækra aðgerða hafi verið gripið varðandi beitarmál í hreppnum.

Ýmislegt var að breytast á þessum árum sem einnig voru erfið hvað atvinnu og afkomu fólks snerti. Hreppurinn hafði þá fyrir ekki löngu ráðist í að kaupa Þingeyrareignina, þorpið hafði í hröðum vexti verið að mótast sem formlegt þéttbýli og kallað var á samgöngubætur í sveitinni, bæði vega til Haukadals og um Innsveitina. Knúið var á um brú á Sandaá „á þessu sumri, til þess að bæta úr atvinnuþörf manna“, eins og haft var eftir Ólafi Ólafssyni á almennum sveitarfundi 18. mars 1933.124

124

Utan dagskrár má geta þess að í umræðum á þessum fundi um samgöngumál í hreppnum tóku konur til máls eigi síður en karlarnir: Í fundargerð er til dæmis getið álita þeirra Bergþóru Kristjánsdóttur, Estívu Björnsdóttur og Guðrúnar Benjamínsdóttur.

104

Þó árin tæki að komast að endanlegri niðurstöðu um kaup hreppsins á Sandjörðinni, eins og áður hefur verið lýst, hafði þó vötnum lengi hallað að henni. Má líka marka það af því að sumarið 1933 kom Pálmi Einarsson jarðræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, vestur í Dýrafjörð til verks sem hann lýsti svo í starfsskýrslu sinni:

Sandar í Dýrafirði. Jörðin er í eign ríkisins, var fyrr prestsetur en er ákveðin til afnota fyrir Þingeyrarkauptún. Ræktun var fremur lítil heima í þorpinu enda eru ræktunarskilyrði þar ekki góð. Sandar liggja 3,5 km frá kauptúninu. Mældir voru um 150 ha af landi jarðarinnar og var lagt á uppdráttinn útskiptingar og framræslukerfi á 64,73 ha af landi jarðarinnar, sem fyrst verða teknir til ræktunar.

Verk Pálma var í anda VI. kafla jarðræktarlaga nr. 43 frá 1923 er m.a. skyldaði hreppsnefndir til þess að senda Búnaðarfélagi Íslands skýrslu um vænleg ræktunarlönd innan kaupstaðar eða kauptúns, ellegar þjóðjörð eða kirkjujörð sem lægi að landi slíks þéttbýlis. Að fengnum þessum skýrslum skyldi Búnaðarfélagið gera . . . . . . eins fljótt og verða má, uppdrátt af landinu og skiftir því í skákir, eigi minni en 2 og eigi stærri en 5 ha. Hver skák skal ætluð einum manni til ræktunar, og skal þeim skift þannig, að sem kostnaðarminnst verði vegalagning um svæðið, lagning vatnsæða, rafmagnstauga og gerð annara mannvirkja, sem vinna þarf.125 Í þessum anda vann Pálmi samviskusamlega eins og sjá má þegar skoðaður er uppdrátturinn af Söndum sem hann gerði og dagsetti 10. ágúst 1933. Grundvöllur áðurnefnds ákvæðis jarðræktarlaga var sá vilji stjórnvalda á þeim árum að tryggja sem flestum ræktunarland þó ekki væri nema til smábúskapar er dygði til þess að styrkja framfærslugrundvöll þeirra.

Uppdráttur Pálma er mikið verk og vandað, sjá næstu mynd, og er fróðlegt að skoða hugmyndir hans:

Frá Sandaskörðum og út að Fuglstapaþúfu innan við Sandabrú gerði Pálmi ráð fyrir 36 reitum til garðræktar, flestum um 100 m2 eða rúmlega það að flatarmáli. Þar hefðu reitirnir legið vel við sólu og fengið skjól af holtunum fyrir hafátt og innlögn. Þá gerði hann ráð fyrir 54 spildum, flestum 1-1,5 hektarar að stærð, til túnræktar. Glámumýrar126 eru mikið votlendi sem til ræktunar hefði krafist mikillar framræslu eins og lesa má af uppdrætti Pálma. Umfangsmikið kerfi vega átti síðan að tryggja umferð um ræktunarlandið. Allar þessar framkvæmdir munu hafa verið hugsaðar sem samræmd heild – félagslegt framtak.

Til umræðu virðist hafa komið að stofna félag um ræktun Sandalands því Ólafur Ólafsson kynnti uppkast að lögum fyrir félagið á almennum sveitarfundi árið 1936. Þótt uppkastið hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum virðist það ekki hafa komist á laggir.

125

Jarðræktarlög nr. 43 1923, IV. kafli, 32. gr. 126 Frændi minn, Knútur Bjarnason, sagði mér að svæðið hefði verið kallað Sandhúsamýrar. Mér er enn ókunnugt um nafnabreytinguna; að kenna mýrarnar við Glámu sýnist ekki liggja beint við . . .

105

Uppdráttur Pálma Einarssonar ráðunauts og áætlun hans um ræktun á Söndum (ljósrit í vörslu BG).

106

Fjöldi jarðabótamanna í Þingeyrarhrepppi 1926-1955; jarðabæturnar voru bæði ræktun og húsabætur. Upplýsingar vantar um þrjú ár. Í örfáum tilvikum unnu menn jarðabætur á tveimur stöðum og eru þá báðir taldir. Nokkrir unnu jarðabætur í landi Hvamms þótt þeir byggju á Þingeyri (innan við Ásgarðsnes).

Búskapur Þingeyringa á fjórða tug aldarinnar var allmikill fyrirferðar. Þótt menn byndu vonir við Sandaland með Galtadal var á almennum sveitarfundi haustið 1937 rætt um kaup á jörðunum Dröngum og Botni, sem hugsanlega yrðu falar þá á næstunni. Skoðanir um málið voru skiptar en þó var samþykkt að afsala ekki forkaupsrétti hreppsins á jörðunum. Höfðu menn þá í huga beitiland, veiðirétt og vatnsorku en beislun hennar var þá að komast á dagskrá. Sá sem í dag stendur á Sandholtunum með tillöguuppdrátt Pálma gæti ef til vill séð fyrir sér gróskumikil garðlönd og grasgefnar túnspildur sem reiti á taflborði þar sem fyrir voru móar í holtajöðrum og marflatar fúamýrar. Þetta var vönduð áætlun en mikla og dýra vinnu hefði það kostað að koma henni í framkvæmd. Fór enda svo að lítið varð úr henni – ef nokkuð. Samt var það að á hreppsnefndarfundi vorið 1938 báru þeir Ólafur Ólafsson og Bjarni Magnús Guðmundsson (einnig Sandanefndarmenn) fram tillögu yrðu Glámumýrarnar, eins og segir í fundargerð – ræstar fram. Verkið álitu þeir að mundi kosta 3.000 kr. og skyldi fjármagnað þannig að Þingeyrarhreppur legði fram 1.400 kr., frá ríki af atvinnubótafé kæmu 1.000 kr. og 600 kr. sem gefins dagsverk þeirra er verkið ynnu. Tillagan var samþykkt. Óvíst er hvort af verkinu varð en þá um sumarið var á hreppsnefndarfundi rætt um „skurðgerð og útmælingar“ á Söndum „til samanburðar við gildandi uppdrátt Pálma Einarssonar og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki var farið eftir tilgreindum uppdrætti, hvorki með skurðgröft nje útmælingu ræktunarlóða og fól oddvita sínum að skrifa Sandanefnd því viðvíkjandi.“

Síðsumars 1940 virðist Sandanefnd aftur hafa ætlað að fara aðra leið en hreppsnefnd þegar sú fyrri hafði samþykkt að láta slétta hinar svonefndu Þúfnadagsláttur í Sandatúni á kostnað hreppsins. Hreppsnefnd taldi hvern landleigjanda eiga að kosta ræktun sinnar spildu enda væri landleigan „haganleg“, eins og þar sagði. Féllst meirihluti nefndarinnar ekki á erindið „á meðan engar eftirspurnir eru fyrir hendi um að brjóta áðurnefndar dagsláttur eða aðrar í Sandatúni til aukinna grasnytja af einstaklingum þeim er nú hafa þær á leigu“. . .

107

Haustið 1940 beindi Sandanefnd erindi til hreppsnefndar sem borist hafði frá Jóni Þórarinssyni um lækkun á beitargjaldi kúa þorpsbúa á Söndum, úr 12 kr. í 10 „og gengi lækkunin til þess að greiða fyrir smölun á kúnum kvöld og morgun.“ Meirihluti hreppsnefndar tók undir álit Sandanefndar og hafnaði erindinu; einn var á móti og einn sat hjá. Er ekki annað að sjá en að á þessum árum hafi vel farið á með nefndunum tveimur. Þann 30. apríl 1942 samþykkti hreppsnefnd að hækka leigur eftir aðstöðu á Söndum þannig: Dagsláttuna úr 15 í 18 krónur; kýrbeit úr 12 í 15 krónur og mópokann úr 12 í 15 aura. Til tals hafði þá komið að leggja Sandanefnd niður en á það féllst hreppsnefnd ekki.

Garðar þorpsbúa, sem garðyrkju vildu sinna, voru áfram hér og hvar í þorpinu, en einnig varð til röð kartöflugarða þeirra á sendnum fjörukambi Þingeyraroddans utanverðum. Spurn þorpsbúa eftir ræktunarlandi var mætt með útmældum spildum í landi Sanda, bæði hið næsta gamla Sandatúninu sem og á öðru þurrlendi þar sem ekki þurfti á mikilli framræslu að halda. Á útmánuðum 1941 tók hreppsnefnd undir álit Sandanefndar um það að leita eftir styrk eða láni til þess að ræsa Glámumýrar fram. Í september það ár var framræslan enn á dagskrá hreppsnefndar. Þá var samþykkt að fresta framkvæmdum til næsta vors „vegna þess að þá sé sennilega meiri þörf fyrir atvinnu en nú.“ Ekki er að sjá að mikið hafi orðið úr verkinu. Eiríkur kaupfélagsstjóri Þorsteinsson var stórhuga framkvæmdamaður. Hann sat í hreppsnefnd um tíma og 23. nóvember 1945 bar hann fram tillögu um kaup á skurðgröfu: Hreppsnefndarfundur á Þingeyri ákveður að leitað verði hófa með kaup á skurðgröfu fyrir hreppinn er komi til afnota næsta ár. Ennfremur skal hefja undirbúning að stórfelldri ræktun að Söndum á komandi vori, fyrst og fremst skal nægilegt ræktað beitiland haft til hliðsjónar fyrir Þingeyrarkýr. Tillagan féll á jöfnum atkvæðum en einn hreppsnefndarmaður sat hjá. Eindregnari var afstaða hreppsnefndar til tillögu Sigurðar Breiðfjörð vorið 1950 um að fela Sandanefnd að undirbúa tillögu um ræktunarframkvæmdir á Söndum og ákveða leigumála jarðarinnar „það hátt að hún bæri sig með árlegum rekstri“. . . Tillagan var samþykkt samhljóða.

108
Horft af Sandholtum yfir Glámumýrar (Sandhúsa-mýrar) á Söndum vorið 2021 þar sem framræsluskurðirnir frá 1957 sjást enn. Gripahús tómstundabænda á Söndum til vinstri.

Heyflutningar frá Söndum til Þingeyrar um miðja síðustu öld. Heysátunum hlaðið á vörubíl. Á tímum takmarkaðra kosta til flutninga var heyskapur á Söndum ekki auðsóttur öllum þorpsbúum jafnvel þótt vegalengdin væri aðeins um það bil þrír kílómetrar (Ljósm.safn Reykjavíkur).

Árið 1957 réðist Þingeyrarhreppur hins vegar í stórfellda framræslu Glámumýra með skurðgröfu. Spurn þorpsbúa eftir landi þar til ræktunar reyndist engin en skurðirnir hafa að einhverju leyti nýst síðari árin til bóta á beitilandi hrossa þar. Sú framræsla var skipulögð með stórvirkar vélar í huga og varð önnur að gerð en Pálmi Einarsson hafði gert áætlun um.

Mér telst til að liðlega tugur Þingeyringa hafi „haslað sér velli“ með ræktun til heyskapar á Söndum fram um 1950. Fæstir þeirra töldust til hins efnaminna fólks á Þingeyri sem sr. Sigurður Z. hafði þó haft í huga með ráðstöfun jarðar kirkjustaðarins. Hinir efnaminni réðu illa við leigugjald eftir land á Söndum. Þannig var það til dæmis um afa minn, Jón G. Jóhannsson í Lækjartungu, sem kaus heldur að snapa slægjur fyrir heyskap ofaní kindur sínar annars staðar, svo sem uppi á Bakkahlíð. Og svo var víst um fleiri.127 En hugsun sr. Sigurðar Z. var góð; heimurinn breyttist bara svo hratt.

Á Þingeyri var og hefur allt til þessa verið áhugi fyrir búskap, þótt vart teldist vera almennur; hjá flestum í smáum stíl en byggður á miklum áhuga. Um tíma voru umsvif í búskapur einstakra „Sandabænda“ þó töluverð, til dæmis þeirra Eiríks Þorsteinssonar kaupfélagsstjóra og bændahjónanna á Ásgarðsnesi, Ólafíu Jónasdóttur og Gunnars Jóhannessonar, sem um tíma ráku myndarlegt kúabú þar en sóttu heyskap og haga einkum að Söndum.

Fleira kom til þegar tímarnir liðu: Á sjötta áratugnum gerðu nokkrir hreppsbúar, flestir frá Þingeyri, garðlönd á utanverðum Sandasandi þar sem hann hallaði mót Fögrubrekku. Kartöflur

Frásögn Ásdísar, móður minnar, 14. ágúst 1991.

109
127

Hin snyrtilegu fjárhús Gunnlaugs Magnússonar frá Hól taka sig vel út í kvöldblíðunni á sauðburði 2022. Þau höfðu þá ekki verið notuð um nokkurra ára skeið. Þau eru verðugar minjar um blómlegan smábúskap þorpsbúa á síðustu öld.

reyndust spretta þar með ágætum. Forgöngumaður um landnámið mun hafa verið Gunnar Guðmundsson bóndi á Hofi. Og úr því að nefndur er Sandasandur má minnast forgöngu sr. Stefáns Eggertssonar um gerð flugvallar þar um miðjan sjötta áratuginn, er varð upphafið að miklum umbótum í flugsamgöngum við byggðarlagið.

Um 1970 hóf Hestamannafélagið Stormur að byggja upp aðstöðu á Söndum til þess mæta vaxandi áhuga sem þá var fyrir hestamennsku. Áratug síðar var hafin umfangsmikil skógrækt í innri (syðri) hluta Sandalands – inn með Sandafelli – undir heitinu landgræðsluskógrækt. Þar vex nú upp myndarlegur skógur birkis og barrviða á landi sem áður var mestan part lyngmór og graslautir millum berra holta. Svæðið er orðið vinsælt til útivistar.

Heyskapur Þingeyringa á Mýrum

Jón Gíslason frá Mýrum sendi mér 11. ágúst 2014 lýsingu á heyskap Þingeyringa þar fyrir handan sem gefur nokkra hugmynd um þann þátt í búskap þorpsbúa; ég hef endurraðað texta Jóns lítillega: Þú rifjar upp heyskaparsögur frá Söndum og þá vil ég rifja upp heyskapar sögu Þingeyringa á Mýrum. Fyrstum man ég eftir Jónasi Oddssyni um 1940 og með honum var Ella nafna og Valur síðar heyflutnings bílstjóri. Ég verð líka að nefna flutnings bátana: Það var Tóki og Grjótboli, eign Sigmundar Jónssonar, skipstjóri Óskar Jóhannesson, einhentur. Ég horfði með undrun á hann einhendis hlaða sátunum í Grjótbola og út á borðstokka og 3-4 stæður uppfyrir. Ég minnist þessa sérstaklega vegna þess að Óskar var einhendur og þeir Jónas féllu frá fljótlega uppúr 1940.

Fjölskyldur sem ég man eftir og flestar höfðu sín föstu stykki, sumar meir en áratug: Bjarni Jóhannsson, Samson Jóhannsson, Lauga Runólfs, bóndinn á sjó, Helgi Símonarson, Sigurjón Pétursson, Einar Jensson, Svenni Breiðfirðingur, Kristján Jakobsson og Kristján Tómasson og líka Beggi Gísla. Ekki voru allar þessar fjölskyldur á sama tíma en sumar nokkur ár, jafnvel yfir áratug. Tjald á Sjóartúni var ætíð ofan við hlöðutóttina. Einar Jensson var með tjald saumað úr pokum undan Noregs-saltpétri, seinna gróf Svenni Breiðfirðingur gryfju í Hrólfsnaustum og sett ris yfir, tjöldin inni á Mel standa það lágt að Kambarnir skyggja á þau. Kristján Tómasson var með tjald út og niður af kirkjunni. Kristján Jakobsson, dæturnar og Dói, sváfu í hlöðu, en Guðrún og Kristján Halldórsson uppi í baðstofu og þar var eldað. Ýmislegt bar við eins og gefur að skilja, t.d. eignaðist Inga Tom sinn yngri son Hermann, heima [á Mýrum væntanlega] þegar þau voru að heyja. Engin slys urðu og gott samkomulag, en oft mikið fjör. Flestir mættu eftir Verslunarmannahelgi, svo réði veður og magn, hve þeir voru lengi. Sumir sváfu í hlöðu en flestir í tjöldum, en einstaka eldri kona inni í bæ. Ég hef ekki fundið neitt skráð um þessa starfsemi og finnst það miður, því þetta er ósköp ófullkomin samantekt, en verður víst að duga. Ég nefndi Tóka en svo var líka Refur kaupfélagsins og ferjan og margir notuðu sína eigin báta.

110

Núverandi búskaparaðstaða þorpsbúa á Söndum. Reiðhöll, hesthús og fjárhús nær en fjær eru tún og hagar. Sér til Kirkjubóls og Hóla. Fyrir miðri mynd gnæfir Þríhyrna/Hólafjall.

EFTIRMÁLI:

Heyskapartjöldin á Söndum

Kveikjan að Sanda-skrifunum var gömul minnisgrein mín:

Ég sé fyrir mér dagana fyrir svo sem sextíu árum þegar Þingeyrarbændur komu upp að Söndum til heyskapar, gjarnan kringum Verslunarmannahelgi. Stundum litlu fyrr. Þeir reistu þar tjöld sín. Sumir lágu við en aðrir höfðu þau aðeins sem afdrep í matarhléum. Mér finnst ég muna flest átta eða níu hvít tjöld á Söndum; innan frá Múlaeyri, út á Sólvang og upp á Stekk. Og þarna heyjuðu þeir með sínum, eina tvær dagsláttur, jafnvel fleiri. Brandur í Hólum sló fyrir suma með Farmalnum. Aðrir notuðu orfið og eigið afl. Þessi heyskapur stóð 1-2 vikur, stundum lengur. Það var tilbreyting og óbeinn selskapur af heyskap kaupstaðarbúa á Söndum – kennd samstöðu smeygði sér að, hópur sömu hagsmuna stækkaði, hvort sem þurrkar gengu eða barist var við óþurrk. Þeir höfðu með fólki sínu rakað og rifjað, sætt og breitt, rifjað og rakað, uns taðan var fullþurr, komin í lanir ellegar stærri sæti þar sem hún beið heimkeyrslu. Kannski fengu þeir svo vegagerðarvörubíl, t.d. hann Tomma í Tröð, um helgi til þess að sækja töðufenginn, kannski Óskar á Kjaransstöðum. Tilkomumest var ef töðusóknarbíllinn var hún Litla-Gunna eða Litli-Jón, fornvörubílarnir tveir sem þá voru á Eyrinni og menn mundu borga óf fjár fyrir í dag ef til væru enn og falir. Hvað karlarnir gátu hlaðið á þessa litlu bíla! Lön eftir lön hvarf upp á pallinn, svo brátt var stykkið alhirt. Háfermin þokuðust löturhægt út í gegnum Sandatúnið; það sást varla í sjálft ökutækið. Kvöldsólin roðaði háfermið þar sem það hvarf niðrúr Skörðum; það var lengi að hverfa undir Holtin. Ferð eftir ferð.

Ætli það hafi ekki verið hann Mangi á Hól sem síðastur felldi sitt Sanda-tjald? Þá hafði hann verið hinn fasti punktur Sandaheyskapar um árabil, á stykkinu sínu frammi undir Brekkudalsánni.

Eftir sat einhver tómleiki. Þar sem áður var líf við heyskap blöstu nú við ljósleit og alhirt tún; það varð mannlaust á Söndum, heyskaparfólkið horfið með töðufeng sinn og tjöldin hvítu. Ef til vill voru það fyrstu merkin um að brátt tæki að hausta . . .

111

VI

Sauðfjárrækt hreppsbúa og ögn um mjólkurframleiðsluna

Í lýsingum á Sanda- og Hraunssóknum frá því um 1840 segir m.a.: „Fjárrækt og sjóarafli eru hér bjargræðisvegir, hinn fyrri þessara arðsamari og mest ræktaður.“ Þá voru fráfærur enn alsiða og mjólk kvíaánna mikilvæg undirstaða fæðuöflunar heimilanna. Seljabúskapur var að mestu aflagður, hugsanlega þó enn stundaður á tveimur þremur jörðum í hreppnum (t.d. Meðaldal, Söndum . . . ?). Stekkir á flestum bæjum í fjarlægð frá þeim sem nam „stekkjarveg.“ Þegar leið á nítjándu öldina fjölgaði færikvíum enda var ágæti þeirra prísað af sumum búnaðarfrömuðum á þeim tíma.

FJÁRRÆKTIN BJARGRÆÐISVEGUR

Á fyrsta starfsári Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps vógu félagsmenn fé sitt þrisvar yfir veturinn, ef til vill fyrir áhrif búfræðinga sem þá voru komnir til starfa við fjörðinn. Frá vetrarbyrjun til sumarmála héldu ærnar tæplega haustþunga sínum en það gerðu lömbin. Afurðafóðrun var engin, aðeins lífi haldið í sauðfénu, með útbeit og takmarkaðri heygjöf. Einni öld síðar voru ær og lömb um 40% þyngri að hausti og bættu 20% við þunga sinn yfir veturinn (ærnar) en lömbin bættu meira en 50% við þunga sinn. Í raun má tala um tvo ólíka heima – þann gamla og þann nýja. Fóður og fóðrun, aðbúnaður og umhirða búfjárins hafði gerbreyst.

Jón H. Þorbergsson sauðfjárræktarráðunautur ferðaðist um Vestfirði árið 1920 að ósk Búnaðarsambands Vestfjarða til þess að kynna sér „vænleik og afurðir sauðfjárins í þessum útkjákahjeruðum“, eins og hann skrifaði.128 Þar segir m.a.:

Í Dýrafirði (Þingeyjarhr.[svo]) er fje einna best á Kirkjubóli, hjá Bjarna Guðmundssyni, Kjaransstöðum og hjá Gunnlaugi lækni Þorsteinssyni á Þingeyri. – Hjá Bjarna á Kirkjubóli er meðalvigt á kjöti af dilkum, 15-16 kg. en best 20-21 kg. Geldar ær skerast með 25 kg. falli og best 30 kg. Mörinn 7-9 kg. Haustið 1918 fargaði hann 3. vetra hrút, og vó kjötið af honum 41 kg. og mörinn 9,5 kg. En hann var farinn að leggja af, er honum var slátrað. Þá um haustið fargaði hann öðrum hrút tvævetrum, og vó kjötið af honum 41,5 kg. Haustið 1919 skar hann dilká. Hún gerði 22,5 kg. fall og 5 kg. mör. Dilkurinn undan henni gerði 20 kg kropp og 3,5 kg mör.

Meðalvigt á ám Gunnlaugs læknis, 26 að tölu, var 16. nóv. 1918, 56 kg. en þyngsta ærin var 73 kg. og sú ljettasta 46 kg. Hrútur, tvævetur – tvílembingur, – vó 89 kg. Vænsti hrútdilkurinn hans vó 51 kg. og vænsta gimbrarlambið 48 kg. – Fjárstofn læknisins er Þingeyskur að uppruna.

Haustið 1919 fargaði hann geldri á, 4 vetra, og vó kjötið af henni 30 kg. en mörinn 8,5 kg.

Frásögnin mótast sýnilega af því að nú var það kjötið og fallþunginn sem málinu skipti, auk feitmetisins. Sr. Þórður Ólafsson á Söndum greindi frá afburða mjólkurá sem hann átti: Það var ærin Fjóskolla, fjósalin veturinn 1914-1915, þá 9 vetra, færðist með presti og fjölskyldu hans til Þingeyrar vorið 1915, þar sem hún gekk frjáls til haga. „Eftir að fært var frá Kollu þetta vor mjólkaði hún fram undir 5 pela í mál, en ofan í tæpan pott í mál var hún komin um Höfuðdag“, skrifaði prestur, sem áleit Fjóskollu hafa mjólkað 293 potta frá 21. júní 1915 til 30. apríl 1916. Sumarið 1916 taldi prestur eigi oftalið að ærin hefði mjólkað 190 potta frá fráfærum, 25. júní, þar til henni var slátrað í lok október.129 Töluverð afurðasæld hefur því verið til í fénu.

Fráfærur munu víða hafa verið lagðar af á öðrum áratug aldarinnar. Héldust þó lengur á sumum bæjum. Á Kirkjubóli var fært frá fram til ársins 1926 eða 7, en svo voru þær teknar upp aftur árin 1933 og 1934. Gamla fólkið taldi sig hafa einhvers misst; kýrnar voru líka fáar

128 Freyr 19 (1922), 59-60.

129 Freyr 19 (1922), 98.

113

og það skorti mjólk.130 Í Svalvogum var síðast fært frá 1942 eða 1943.131 Ýmsar ástæður lágu að baki breytingunum eins og Jens Kr. Gestsson frá Miðbæ lýsti til dæmi í bréfi:

Ekki man eg uppá ár hvenær fráfærur lögðust af. Jeg man samt að við Jón [Guðmundsson] í Höll færðum síðast frá 1938 eða 39, þá voru fráfærur hættar í Keldudal að mig minnir. Að við Jón í Höll hjeldum þetta lengur á með fráfærur kom til af því að eg fékk brjósthimnubólgu og mátti ekkert á mig reyna í eitt ár, svo eg færði frá nokkrum ám og passaði þær sjálfur og eins gerði Jón í Höll, því hann var farinn að verða linur við heyskapinn vegna lasleika því allt var unnið með orfi og hrífu í þá daga.132

Þó alltaf hafi bændur líklega haft auga fyrir vali vænlegra gripa til ásetnings og undaneldis efldist það starf með þeim aðgerðum til skipulegra kynbóta sem Búnaðarfélag Íslands tók að annast um er leið á tuttugustu öldina. Grundvöllur starfsins var lagður með heildarlögum um búfjárrækt sem sett voru árið 1931.133 Einn þáttur þeirra var að komið var á sýningarhaldi í sauðfjárrækt. Hófst þá tímabil hrútasýninganna, sem efldu áhuga á sauðfjárræktinni og framfarir í henni næstu hálfa öldina og raunar lengur.

HRÚTASÝNINGARNAR

Með reglulegum hætti voru haldnar hrútasýningar um landið. Þingeyrarhreppur var þar engin undantekning. Gerð var grein fyrir niðurstöðum sýninganna í Búnaðarriti. Það þótt ekki ónýtt að komast með nafngreinda hrúta á síður ritsins. Hér á eftir hafa verið klipptar saman umsagnir um hrútasýningarnar, sem í ritinu birtust:

1935: Fyrstu verðlauna hrútar voru Kollur á Þingeyri, frá Hjarðardal (Einar Guðm. á Bakka,) og Kollur á Þingeyri, frá Ósi (Lárus Einarsson í Hvammi). (Brit 51 (1937, 82).

1940: Vestur-Ísafjarðarsýsla: Fremur fátt var um úrvalshrúta í þessari sýslu, enda þótt fé sé þar víða sæmilega vænt. Það skortir holdsöfnunareiginleika, og er margt of beinabert til þess að fullnægja núlímakröfum. Þetta er að nokkru leyti auðskilið, því gæðamat á kjöti hefur aldrei farið fram á Vestfjörðum, vestanverðum, en reynslan sýnir, að það er fyrst og fremst gæðamatið, sem knýr bændur, til þess að kynbæta fé sitt með tilliti til vaxtarlags og holdarfars. Ella hættir þeim um of á að einblína á þungann á fæti, meira en á allt annað. Bezti hrúturinn í Vestur-Ísafjarðarsýslu, er Prúður Ágústs Guðmundssonar á Sæbóli á Ingjaldssandi. Hann er ættaður frá Jóhannesi Davíðssyni í N.- Hjarðardal í Dýrafirði, áhugasömum fjárræktarmanni. Prúður þessi er með lýtaminnstu hrútum, sem völ er á, bæði þolslegur, vel vaxinn, holdgóður, og þó sérstaklega ullarmikill og ullin bæði þelgóð, togmikil og sterk. Féð í V.-ísafjarðarsýslu er flest hyrnt, Kleifablendingar eru þó til. Þingeyskt fé hefur ekki náð þar mikilli útbreiðslu, en flest féð líkist mest húnvetnsku og skagfirzku fé í útliti. [1. verðl. hrútar voru Hnífill Friðfinns á Kjaransstöðum og Þröstur Jóns í Höll] (Brit 55 (1941), 211-212).

130 Ásdís Bjarnadóttir í Kirkjubóli í samtali við BG 11. apríl 1982.

131 Ottó Þorvaldsson: Svalvogar. (1980), 27.

132 Jens Kr. Gestsson frá Miðbæ í bréfi til BG 18. janúar 1983.

133 Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára 1837-1987.1 (1988), 268-270.

114

1945: Í Þingeyrarhreppi er góður hrútur, Spakur í Múla [3 vetur 1945, sagður frá Ketilseyri út af Hnýfli, I v 1940].

Eigandinn Jón Samsonarson, kominn úr Strandasýslu, hyggst að koma upp stofni líkum þeim, sem hann á að venjast úr átthögum sínum, og hefur hann byrjað álitlega með Spaki, sem er af Kleifakyni og ber öll góðu einkenni þess. (Brit 59 (1946), 216).

Jóhannesson á Ásgarðsnesi með hrúta sína og hundinn Busa um eða laust fyrir seinna stríðið (ljósm. frá Helga Magnúsi Gunnarssyni).

1948: Þar voru sýndir 37 hrútar. Fullorðnu hrútarnir vógu að meðaltali 89,1 kg eða 4,2 kg meira en 1945. Þeir veturgömlu vógu 73,3 kg eða 4,5 kg meira en 1945 og 10,7 kg meira en 1931. Nú hlutu 6 hrútar I. verðlaun en 1945 aðeins 1. Þetta sýnir mikla framför. Sómi Finnboga í Hvammi er afbragðs vel gerður hrútur. Faðir hans var frá Fremri-Hjarðardal. Jón í Múla á ágætan hrút, Spak. Sá er kollóttur, frá Magnúsi á Ketilseyri. Kollur Knúts á Kirkjubóli er sonur Spaks í Múla, rígvænn hrútur og að mörgu leyti ágætur. Blettur á Kirkjubóli er miklum góðum kostum búinn. Kúfur Friðfinns á Kjaransstöðum er frá Jóhannesi Davíðssyni, Neðra-Hjarðardal. Hann er ágætlega holdfylltur og góður hrútur. (Brit 61 (1948), 238-239).

1952: Þátttaka í sýningunni þar var ágæt. Sýndir vorn 56 hrútar eða 19 fleiri en 1948. Af þeim voru 39 fullorðnir og 17 veturgamlir. Þeir voru aðeins léttari en meðaltal fyrir sýsluna, tafla 1. Fyrstu verðlaun hlutu 12 hrútar, 11 fullorðnir, er vógu 94,8 kg, og 1 veturgamall, sem vóg 97,0 kg. Hann er fram úr skarandi kind að vænleika og vaxtarlagi, eign Péturs [í Höll] í Haukadal, sonur Prúðs sama eiganda, sem einnig er ágæt kind, ættaður frá Kirkjubóli. Snöggur og Öngull Knúts á Kirkjubóli eru báðir ágætir, en Prúður Guðmundar á Kirkjubóli er þó enn betri kind. Jón Samsonarson og Eiríkur Þorsteinsson hafa keypt sinn hrútinn hvor úr Nauteyrarhreppi, Jón frá Laugalandi, en Eiríkur frá Laugabóli. Hrútar þessir hlutu báðir fyrstu verðlaun og eru kostamiklir, en hrútur Jóns þó aðeins betri. Spakur Einars á Bakka frá Múla í Nauteyrarhreppi er vel gerður, en aðeins of léttur. (Brit 67 (1953), 93).

1956: Þar var sýning ágætlega sótt. Sýndir voru 53 hrútar. Þeir voru aðeins léttari til jafnaðar en hrútarnir í sýslunni í heild. Fyrstu verðlaun hlutu 14 fullorðnir og 4 veturgamlir eða um þriðjungurinn af sýndum hrútum. Þeir fullorðnu vógu 95,7 kg, en þeir veturgömlu 81,8 kg að meðaltali. Af þriggja vetra og eldri hrútum voru þeir beztir Græðir í Vésteinsholti og Gulltoppur í Höll. Þeir eru albræður, báðir synir Prúðs í Höll frá Knúti á Kirkjubóli. Græðir er metfé, í senn mjög lágfættur, þykkvaxinn og holdgóður. Gulltoppur er enn þyngri en Græðir, en varla eins holdgróinn á baki. Bræður þessir hafa óvenju sterkleg höfuð og bera þess eindregið vott, að þeir séu komnir út af ræktuðu fé. Lengra fram eru þeir taldir vera af þingeysku fé. Sá þriðji var Mökkur á Sveinseyri. Hann er djásn að gerð og líka sonur Prúðs frá Kirkjubóli. Sá fjórði í röðinni var Sómi Guðmundar

115
Gunnar

Magnús Lárusson á Vegamótum, einn af þeim sem lengi stundaði smábúskap á grasbýlunum innan við Þingeyri (ljósm. frá Lárusi Hagalínssyni).

á Kirkjubóli, þar heimaalinn. Hann er ágætur einstaklingur. Næstur honum var Spakur sama eiganda frá Neðri-Hjarðardal, sonur Eyris. Spakur er prýðileg kind, lágfættur eins og faðir hans, útlögumikill, bakbreiður og holdgóður. Bezti tvævetlingurinn var Spakur á Sveinseyri, metfé að gerð og prýðilega vænn. Hann er sonarsonur Prúðs frá Kirkjubóli. Næstur honum stóð Prúður í Höll, sonur Prúðs frá Kirkjubóli, fagur hrútur og ágætum kostum búinn. Þriðji tvævetlingurinn var Atgeir á Kjaransstöðum, frá Fremstu-Húsum í Mýrahreppi, vænn hrútur, en hefur herðakamb í hærra lagi. Álitlegasti veturgamli hrúturinn var Kolur í Húsatúni, þéttur hrútur, en ekki þungur. Næstur honum stóð Jökull í Meðaldal frá Kirkjubóli, þyngri hrútur en Kolur, en ekki eins þéttholda. Sá þriðji var Spakur í Múla, álitleg kind. Í hrútunum i Þingeyrarhreppi eru margir mjög kostamiklir einstaklingar, margir þeirra í röð hinna allra beztu í sýslunni. Það er augljóst mál, að Prúður frá Kirkjubóli hefur verið frábær kynbótakind, og víst má telja, að Kirkjubólsféð sé miklum kostum búið. Frá Kirkjubóli og Múla hafa margar ágætar kindur komið í fjárskiptin á undanförnum árum. Nokkur galli er á ræktun fjár í Þingeyrarhreppi, að blandað hefur verið saman í allstórum stíl kollóttu fé og hyrndu. Sumir af beztu hrútunum eru þannig ræktaðir. Bezta hyrnda féð í hreppnum er upprunnið úr Suður-Þingeyjarsýslu, út af fé, sem flutt var vestur fyrir 20-30 árum síðan. Það eru til svo kostamiklar kindur í Þingeyrarhreppi, að auðvelt ætti að vera að rækta þar upp ágætt fé. (Brit 70 (1957), 207-208).

1959: Þar var sýningin vel sótt. Sýndir voru 54 hrútar. Þeir voru aðeins þyngri en hrútar í sýslunni í heild. I. verðlaun hlutu 15 fullorðnir og 5 veturgamlir eða rúmlega þriðjungur sýndra hrúta. Þeir fyrrnefndu vógu 97,6 kg að jafnaði, en þeir síðarnefndu 84,4 kg. Af þriggja vetra hrútum og eldri voru beztir: Jökull Guðm. á Kirkjubóli, heimaalinn, sonur Sóma og Jökull í Meðaldal frá Kirkjubóli í Dýrafirði. Þeir eru báðir þungir, útlögugóðir og holdmiklir. Næstir þeim komu: Víkingur á Kjaransstöðum, heimaalinn, sonur Prúðs frá Múla og Spakur Guðmundar á Kirkjubóli frá Neðri-Hjarðardal, sonur Eyris. Víkingur hefur þróttmikið höfuð og góða afturbyggingu. Hann er ræktarlegur. Spakur er prýðileg kind, útlögumikill, bakbreiður og holdgóður. Beztu tvævetlingarnir voru: Spakur á Þingeyri og Spakur á Sveinseyri. Spakur á Þingeyri er frá Hrafnabjörgum, sonur Svals frá Selárdal, en Svalur er sonur Storms. Spakur á Sveinseyri er kostamikil kind, en hefur varla nógu þróttmikið höfuð. Af veturgömlum hrútum stóðu efstir Prúður í Svalvogum og Kollur í Múla, báðir prýðilegar kindur. Auk þessara hrúta, sem hér hafa verið nefndir, eru margir álitlegir hrútar og má þar nefna Vin á Kirkjubóli, Spak í Múla og Atgeir á Kjaransstöðum. Hrútarnir í Þingeyrarhreppi eru margir prýðilega gerðir og ræktarlegir, og ætti

116

að vera auðvelt fyrir hreppsbúa að rækta gott fé upp úr þeim efnivið, sem þeir nú hafa. Sumir hrútanna eru með hinum beztu í sýslunni. (Brit 74 (1961), 271-272).

1964: Þar voru sýndir 44 hrútar, 30 fullorðnir, er vógu 96,6 kg, og 14 veturgamlir, sem vógu 75,6 kg til jafnaðar. Þeir fyrrnefndu voru þyngri en jafnaldrar þeirra í öðrum hreppum sýslunnar, en þeir veturgömlu aðrir þeir léttustu. Fyrstu verðlaun hlutu 28 hrútar eða 63,6% sýndra hrúta, og er þar um mikla framför að ræða frá 1960. Fullorðnu hrútarnir eru margir ágætlega vænir og vel gerðir, enda áhugamenn um fjárrækt innan hreppsins. Þyrftu þeir sem fyrst að koma á fjárræktarfélagsstarfsemi, svo unnt sé að vinna sem bezt úr þeim stofni, sem nú er til staðar. Veturgömlu hrútarnir voru mjög misjafnir að gæðum, sumir ágætir, en aðrir ónothæfir. Bezti hrútur sýningarinnar mun hafa verið Kollur Þórðar Jónssonar í Múla. (Brit 78 (1965), 397-398).

1968: Þar voru sýndir 47 hrútar, 31 fullorðinn, og vógu þeir 93,8 kg, og 16 veturgamlir, sem vógu 80,8 kg. Þeir fyrrnefndu voru nú léttari en jafnaldrar þeirra 1964, en þeir veturgömlu þyngri. Fyrstu verðlaun hlutu 25 eða 53.2% sýndra hrúta, sem er lakari röðun en 1964. Af tvævetrum hrútum voru taldir beztir Gráni Gránason og Roði Guðmundar á Kirkjubóli, Roði ættaður frá Felli í Dýrafirði. Af veturgömlum Kollur Kollsson Þórðar í Múla og Kurfur Bítilsson Þorláks í Svalvogum, ættaður frá Guðmundi á Hrafnabjörgum. (Brit 82 (1969), 512).

1972: Þeir fullorðnu voru nú um 5 kg þyngri en jafnaldrar þeirra 1968, og þeir veturgömlu álíka þungir og jafngamlir hrútar fyrir fjórum árum, en röðun hrúta var mun lakari að þessu sinni. Margir hrútar voru blendingsæxlaðir og sumir hníflóttir, nokkrir um of háfættir, og misheppnað uppeldi eða val á mörgum veturgömlum hrútum. Á héraðssýningu mættu Blakkur Þórðar í Múla, ættaður frá Björgmundi á Kirkjubóli [í Valþjófsdal], og hlaut hann I. verðlaun A, Maó Garðars og Jóhanns í Hvammi, veturgamall, og Kútur Þorláks í Svalvogum, ættaður fra Lokinhömrum, hlutu I. verðlaun B. Loki Knúts á Kirkjubóli, veturgamall, ættaður frá Lokinhömrum, var varafulltrúi á héraðssýningu. (Brit 86 (1973), 422-423).

Hugað að fé í Kirkjubólsrétt haustið 1960; Guðmundur Jónsson (t.v.) og Knútur Bjarnason.

1976: Þar voru sýndir 36 hrútar, 19 fullorðnir og 17 veturgamlir. Af þeim fullorðnu hlutu 12 I. verðlaun eða 63%, en aðeins 1 veturgamall, en mjög margir voru of þroskalitlir. Hrútar í Þingeyrarhreppi eru margir fremur stórbeinóttir. Á héraðssýningu fóru eftirtaldir hrútar; Prúður, 2 vetra, Jónasar Ólafssonar, Þingeyri; Gullhöttur, 3 vetra, Gunnars Jóhannessonar, Þingeyri; Roði, 2 vetra,

117

kollóttur, og Bjartur, 2 vetra, báðir eign Knúts á Kirkjubóli. Til vara var Passi Þórðar í Múla. (Brit 90 (1977), 424).

1980: Þar voru sýndir 30 hrútar, 20 fullorðnir og 10 veturgamlir. 60% fullorðnu hrútanna og 20% af veturgömlu hrútunum hlutu I. verðlaun í Þingeyrarhreppi er mikið af meðalgóðum hrútum, m. a. voru þar 2 mórauðir hrútar, Móri Kristjáns í Múla og Hnoðri Guðmundar á Kirkjubóli, sem hlutu I. verðlaun. Aðeins einn hrútur hlaut III. verðlaun og engum var hent. 3 hrútar fóru á héraðssýningu, þeir Hreinn 3 v. er hlaut I. verðlaun A, Glanni, 3 v. er hlaut I. verðlaun B, báðir eign Guðmundar á Kirkjubóli, og Drellir, 3 v. Kristjáns í Miðbæ, er hlaut I. verðlaun A. (Brit 94 (1981), 468).

Tvennt má úr greinargerðunum lesa: Annars vegar það að bændur hafa gert í því að fá góða hrúta að, bæði utan sveitar og innan, framan af tímabilinu hrúta sem röktu ættir norður í Inn-Djúp. Hins vegar það að bestu gripir sýninganna hafa dreifst á býsna marga bæi í hreppnum.

Árið 1981 voru fyrst reyndar sæðingar áa í hreppnum og þær stundaðar flest árin síðan. Uxu þá möguleikar til öflunar fjölbreyttara erfðaefnis og öllu meiri framfara en áður. Þá má ekki gera minna úr áhrifum skýrsluhalds sem undir lok nítjándu aldarinnar var orðið mjög almennt meðal sauðfjárbænda. Í fyrstu, um 1960, voru bændur með hluta ánna á skýrslum innan sauðfjárræktarfélags. Leið ekki á mjög löngu áður en allar ær búanna voru færðar á afurðaskýrslur.

118
Haustlömb á Kirkjubólstúni 26. september 2022.

LÍFLAMBASALA – FJÁRSKIPTI

Á árunum 1946-1956 voru líflömb seld úr hreppnum nær því hvert haust til svæða þar sem fjárstofn hafði verið skorinn niður sem liður í útrýmingu mæðiveikinnar. Þorri gimbrarlamba var seldur og vænleg hrútlömb. Þannig dreifðist erfðaefni úr hreppnum til fjarlægra svæða.

Eftirfarandi er úr minningabrotum mínum um fjárskiptin, sem geymd eru á öðrum stað134: Þegar ég kem í sláturhússrétt og sé þar gimbrar fer enn um mig einhver ónota-tilfinning. Ég óx nefnilega upp við það heima í Dýrafirði að öll gimbrarlömb væru seld til lífs í fjarlægar sveitir. Það komu framandi menn að sunnan, vógu og merktu gimbrarlömbin eitt af öðru, og kíktu svo kannske á fáeina lambhrúta. Komu síðan inn í kaffi. Dögum seinna var lambahópurinn rekinn til Þingeyrar, settur um borð í skip og þaðan siglt með hann norður til Arngerðareyrar við Djúp eða suður í Salthólmavík í Saurbæ, þar sem bílar voru sagðir bíða hópanna og flytja þá í hinar nýju heimasveitir.

Fjárskiptin og fjárkaupmennskan kölluðu á heilmikið skipulag. Fyrir því öllu stóð „Sæmundur í sexmannanefndinni“, eins og hann var kallaður, Sæmundur Friðriksson frá Efri-Hólum í Núpasveit. Hann gerði fjárkaupmennina, sem ferðuðust saman tveir og tveir, út með stóra skýrslubók og sérstaka reislu í strigapoka, sem þeir meðhöndluðu sem helga dóma, enda reislan jústeruð til löglegra stórviðskipta undir forsjá og með miklum tilstyrk ríkisins.

Fjárkaupmennirnir urðu margir eftirminnilegir. Sumir gistu heima á Kirkjubóli. Það þótti sérlega áhugavert því þá gafst langur tími til samræðna og fréttaspurnar úr framandi sveitum. Mér, barninu, er til dæmis minnistætt, hve Ásgrímur fjárkaupmaður frá Borg í Miklaholtshreppi, var lengi að raka sig eftir næturgistinguna; hann hafði frá svo mörgu að segja. Og ekki var minni stíll yfir Þórði fjárkaupmanni og bónda í Hjarðarholti í Dölum, sem fór á milli bæja á einkabifreið sinni, Willys 1947, minnir mig, og hafði sérstakan bílstjóra. Borgfirsku fjárkaupmennirnir, Sigurður Daníelsson á Indriðastöðum og Jón Gíslason frá Innri-Skeljabrekku, voru lengi um talaðir á mínu heimili, ekki síst Jón, sem í gegnum mægðir var tengdur

Mótorbáturinn Sæhrímnir frá Þingeyri flytur líflömb til fjarlægs héraðs vegna fjárskipta á fimmta áratug síðustu aldar (Þjóðminjasafn).

134 Textinn er úr pistli BG Fjárskipti, sem geymdur er í Gullastokki Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum (2021).

119

heimilisfólkinu. Jón var þá ungur maður, dökkur á brún og brá, hraustlegur og þéttur á velli og ferðaðist um í merkilegum klæðnaði, að mér fannst, buxum með undravíðum uppskálmum og þröngum stígvélum, svipuðum þeim sem Danakonungur gekk í á ferðalögum sínum meðal þegnanna, skv. myndum í Familie Journal.

Margvísleg kynni urðu til. Bændur á fjárkaupasvæðunum urðu sér úti um markaskrár svo þeir gætu fregnað hvaðan lömb að nýjum fjárstofni væru komin. Ég man eftir að bréf bárust frá þeim. Þannig urðu stundum til nokkur tengsl á milli sveita. Sjálfur kom ég á bæ hér skammt undan, líklega sumarið 1966, þar sem ég var þráspurður um fé og fjárhald heima á Kirkjubóli, en þaðan hafði bóndi fengið eitt eða tvö gimbrarlömb og lambhrút á sínum tíma. Hann virtist vita og muna nákvæmlega hvaðan líflömb hans höfðu komið.

Við vissum hins vegar minna um líðan lambanna, sem urðu að ferðast um langan veg við misjafna aðbúð, rekstur, sjóferð og síðan skakstur á vörubílspalli um frumstæða vegi, þar sem oft varð langt á milli brynningarstaða, fóðurs og beitarhvílda. Þegar hingað í sveitir kom var lömbunum skipt á bæina eftir reglum Sæmundar „í sexmannanefndinni“, sem tryggja skyldu jafnræði viðtakenda. Bændur tóku spenntir við hinum nýja fjárstofni og gerðu áreiðanlega eins vel við lömbin og aðstæður og geta leyfðu.

En líklega hafa blessuð lömbin, nú móðurlaus, haldið hikandi út á haustföl túnin og annað víðlendi borgfirskra sveita, áður vön sumarvist í þröngum dölum og bröttum fjallahlíðum: Aðrir landshættir og annar gróður: „Og því geng ég fár og fölur með framandi jörð við il, það vex eitt blóm fyrir vestan og veit ekki að ég er til“, kvað Steinn Steinarr, og hefði þá allt eins getað verið að kveða fyrir munn lambanna okkar heima á Kirkjubóli kominna í Borgarfjörð. Sjálfur velti ég því fyrir mér, sjö eða átta ára gamall, hvar gimbrin mín hefði lent, gimbrin undan henni Kolu minni. En hún hvarf í gleymskuna – hún fékk alla vega að lifa lengur en eitt sumar. . .

SLÁTURHÚS – MARKAÐSSETNING

Óvíst er hvenær telja skal að markaðssetning sauðfjárafurða í hreppnum hafi hafist. Heimilin voru sjálfum sér næg um mjólk og kjöt en snemma varð ullin markaðsvara, ýmist unnin eða óunnin eins og alþekkt er. Áreiðanlega var alltaf eitthvað um það að afurðum væri miðlað á milli heimila, til dæmis í skiptum fyrir sjávarafurðir, að ógleymdum leigum (sauðasmjöri). Þingeyrarkaupmaður tók að einhverju marki við sauðfjárafurðum. Hvað kjötið snerti óx markaður fyrir það á öðrum áratug tuttugustu aldar, og þá saltað kindakjöt því ekki var um aðrar geymsluaðferðir kjötsins að ræða.

Löng hefð var fyrir slátrun og vinnslu kjöts heima á bæjunum. Ekki er vitað hvenær Þingeyrarkaupmaður hóf að taka við fé á fæti og slakta þar á eyrinni. Heimildir eru fyrir því að það var byrjað haustið 1904 því þá tók Wendel faktor við fé sr. Kristins Daníelssonar á Söndum til slátrunar, sem langafi minn, Guðmundur Nathanaelsson á Kirkjubóli, hafði umsjón með, sjá

120

bls 76. Slátrunaraðstaða hefur til að byrja með verið frumstæð; sjálfsagt útbúin á fjörukambi undir beru lofti og einhver smáskýli.

Það var svo sumarið 1934 sem Kaupfélag Dýrfirðinga (KD) reisti sláturhús á Þingeyri enda þörfin fyrir það orðin mjög knýjandi. Fyrsti sláturhússtjórinn þar var Jón Þórarinsson bóndi í Neðsta-Hvammi. Hafði hann sinnt því starfi frá 1920 að slátrun hófst á vegum Kaupfélagsins.135 Um þær mundir var samræmd skipan að komast á afurðasölumál bænda með svonefndum afurðasölulögum og mikið líf að færast í starf Kaupfélagsins undir forystu Eiríks Þorsteinssonar kaupfélagsstjóra. Enn um sinn var þó söltun eina verkunarleiðin. Því var brytjun kjöts og söltun þess í tunnur veigamikill þáttur í meðferð og frágangi. Það var svo árið 1942 sem Kaupfélagið kom upp sérstöku frystihúsi á Þingeyri. Þá fyrst var unnt að mæta kröfum nýrra tíma um frystingu kjötsins svo brátt lagðist söltunin af enda spurn eftir söltuðu kjöti þverrandi. Frystiskip komu til sögu og umfangsmikið sölukerfi Sambands íslenskra samvinnufélaga sá með hagkvæmum hætti um markaðssetningu kjötsins.

Frétt úr Bæjarins besta frá slátrun á Þingeyri haustið 1989.

Á vegum KD var fé slátrað úr Mýrahreppi, þó ekki af Ingjaldssandi, Þingeyrarhreppi og úr Auðkúluhreppi að Laugabóli. Fé frá Hokinsdal mun hafa verið slátrað á Bíldudal. Sláturfé var ýmist rekið til Þingeyrar ellegar flutt með ferjubáti, áður en akvegir lengdust og til sögunnar komu hentugir vörubílar. Lengi vel var lítil sem engin aðstaða til þess að hýsa fé í sláturhúsinu svo það varð að geyma nóttina fyrir slátrun á túnblettum á Þingeyri, svo sem úti á Þingeyrarodda, eða í útiréttum. Óneitanlega var tilkomumikið að sjá misstóra fjárhópa rekna til Þingeyrar, suma langt að komna, til dæmis utan úr Lokinhamradal.

Sláturhús KD þar við „Plássið“ á Þingeyri var notað fram til ársins 1964. Þá var slátrunaraðstaðan færð í móttökusal hraðfrystihúss KD og útbúin þar aðstaða. Byggt var yfir sund sem var á milli frystihúss og fiskimjölsverksmiðjunnar sem þar stóð yst í húsaröðinni. Þar var gerð fjárrrétt með grindagólfi og stíum svo hægt var að hýsa allt fé dagsslátrunar en hún var um 400 fjár. Byggður var nýr frystiklefi og „er kroppunum rennt þangað beint af vigtinni“, segir í sögu KD.136 Úr gamla sláturhúsinu hafði þurft að flytja allt kjöt á bíl eða viðlíka farartæki til frystingar og geymslu í hraðfrystihúsinu; vinnufrekt verk og ekki haganlegt. En þetta var samt bráðabirgðalausn.

135 Kristinn Guðlaugsson o.fl.: Kaupfélag Dýrfirðinga 1919-1979 (1979), 40 og 145.

136 Sama heimild, 69-70.

121

Til tals kom að reisa sameiginlegt sláturhús fyrir svæðið og þá á Ísafirði. Því voru bændur í Þingeyrarhreppi mótfallnir, eins og fram kemur í IV kafla. Kaupfélag Dýrfirðinga réðst í byggingu sláturhúss utarlega á Þingeyrarodda sem tilbúið var haustið 1980. Mátti þá segja að aðstaða til slátrunar væri orðin svo sem tímarnir kröfðust og þess vænst að sauðfjárslátrun væri komin í framtíðarskorður. Svo var þó ekki.

Rekstur KD þyngdist og brugðið var á það ráð að stofna stofna sérstakt félag um rekstur sláturhússins með aðild nágranna. Við það varð til Sláturfélagið Barði árið 1988. Til slátrunar hjá Barða var tekið fé allt frá Arnarfirði og norður í Djúp. Félagið setti einnig upp kjötvinnslu á Ísafirði. Reksturinn reyndist ekki auðveldur en stóð þó fram til hausts 1996 að ekki var lengur gerlegur án breytinga. Samvinnu var leitað við Kaupfélag Steingrímsfjarðar um slátrun á Hólmavík það haust. Bændur lögðu að forminu til fé sitt inn hjá sláturhúsinu á Hólmavík en Sláturfélagið Barði sá um slátrun sem eins konar verktaki. Kaupfélagið gerði síðan upp við bændur í stað Barða áður.137

Veturinn eftir hætti Sláturfélagið Barði hf formlegri starfsemi vegna rekstrarörðugleika, einkum þó vegna skulda kjötvinnslunnar og Kaupfélags Ísfirðinga að því er blaðafregnir hermdu.138 Leitað var lausna til lengri tíma og til varð leið sem greint var þannig frá sumarið 1997: Félag um slátrun við Húnaflóa og Breiðafjörð, „Norðvesturbandalagið“ sem yfirtekur sláturhúsrekstur Kaupfélags V-Húnvetninga á Hvammstanga, Kaupfélags Hrútfirðinga á Borðeyri, Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík og Afurðastöðvarinnar í Búðardal. Þessir aðilar eru jafnframt megin eigendur nýja félagsins. Félagið mun starfrækja 3 sláturhús á Hvammstanga, Hólmavík og í Búðardal. 139

Þessi skipan stóð næstu þrjú haustin. Haustið 2000 hófu bændur í Þingeyrarhreppi að senda sláturfé sitt til sláturhúsa á Norðurlandi vestra, ýmist hjá Kaupfélagi V.-Húnvetninga á Hvammstanga, Sölufélagi Húnvetninga á Blönduósi eða Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki.140 Hefur svo verið síðan. Komst þá fastara form á greiðslur fyrir afurðirnar en misjafnlega hafði tekist til um þær nokkrum sinnum á þessu breytingaskeiði frá því Kaupfélag Dýrfirðinga var hinn fasti grundvöllur sauðfjárbænda í Þingeyrarhreppi. Áhyggjur voru í fyrstu hins vegar nokkrar af óralangri flutningsleið sláturfjárins í annan landshluta og velferðar þess. Reynsla sýndi fljótt að þær voru óþarfar. Síðan hafa vegir batnað og sömuleiðis bílar og verklag við flutningana svo nú eru þær áhyggjur að mestu úr sögunni.

137

DV 20. Sept. 1996. 138

Morgunblaðið 12. febrúar 1997. 139 Morgunblaðið. 7. júlí 1997. 140 https://www.althingi.is/altext/131/s/1035.html

122

MJÓLKIN OG MARKAÐURINN Í ÞORPINU

Um langan aldur hafði hvert heimili verið sjálfu sér nægt með mjólk og mjólkurafurðir. Til forna virðist mjólkurframleiðsla með nautgripum hafa varið gildur þáttur búskapar í sveitinni, eins og raunar mun hafa verið á landsvísu. Hvað Þingeyrarhrepp varðar er að þessu vikið í I. kafla. Með tilkomu þurrabúðanna á ofanverðri nítjándu öld má ætla að til hafi orðið fyrstu vísar að eiginlegum mjólkurmarkaði, þótt grasbýlingar og þurrabúðarmenn hafi reynt að afla sér einhverrar sumarmjólkur með fáeinum ám. Geitur munu einnig hafa verið í örlitlum mæli á Þingeyri um tíma á framanverðri tuttugustu öld.

Með vaxandi þéttbýli á Þingeyri varð þar til markaður fyrir mjólk. Af ýmsum búum víðs vegar við fjörðinn voru unnar mjólkurafurðir, smjör, skyr, rjómi og súr, seldar kaupstaðarbúum, ýmist í vöruskiptum eða gegn peningagreiðslum. Verslanirnar, og þá einkum Kaupfélag Dýrfirðinga, tóku slíkar vörur til sölu. Meðal annars seldi Kaupfélagið smjör (bögglasmjör) í verslun sinni fram undir 1970. Óvíst er hvenær sala á neyslumjólk til kaupstaðarbúa hófst. Ef til vill var það frá Hólum en þar byggði búfræðingurinn Guðmundur Jónas Guðmundsson steinsteypt fjós árið 1914 (?). Það rúmaði sjö gripi.141 Má telja það fyrsta „nútímafjósið“ í hreppnum. Mjög bráðlega mun hafa hafist mjólkursala úr Hólum til Þingeyrar.

Fjósið og hlaðan í Hólum utan við íbúðarhúsið. Tímamótabyggingar úr steinsteypu reistar um 1914.

Telja má víst að umhirða kúnna hafi að miklu leyti hvílt á kvenfólkinu hefðunum samkvæmt. Kýrnar voru svo nátengdar heimilishaldi og daglegri fæðuöflun. Meðferð og vinnsla mjólkurinnar var í höndum kvenna. Sagt hefur verið að þær hafi skilið kýrnar betur en karlar. Konur mjólkuðu kýrnar. Skrifarinn man ömmusystur sína sem annaðist fjósverk og

141 Eldri bærinn í Hólum var steyptur árið 1914 (sjá Firði og fólk 1900-1999, 177); fjósið var steypt um svipað leiti, líklega sama árið.

123

Gluggi í vegg steinfjóssins í Hólum sem nú (2022) er meira en aldar gamalt. „Danskur“ járngluggi í steyptum og múrhúðuðum fjósveggnum sem vel hafði verið borið í af grjóti að þeirrar tíðar hætti.

umgekkst kýrnar af kunnáttu og skilningi, sat til dæmis yfir kúnum við burð . . . Fyrir tíma lærðra dýralækna hefur heilsugæsla kúnna og lækningastörf helst verið í höndum kvenna. Um aldamótin 1900 óx áhugi á ræktun kúnna í kjölfar stækkandi mjólkurmarkaða. Þingeyrarhreppur var engin undantekning í þeim efnum og til varð nautgriparæktarfélag, eins og sagt hefur verið frá. Forystu hafði búfræðingurinn Jón Þórarinsson í Hvammi. Ólafur Hákonarson í Ystabæ, einnig búfræðingur, fór fyrir endurreistu Nautgriparæktarfélagi. „Natinn við skepnur var hann mikið“, var skrifað um Ólaf, „og hjálpaði skepnum, sem sjúkar urðu t.d. kom hann mörgum kúm á fætur með doðasprautunni sinni. Ólatur var hann að koma, hvernig sem á stóð og án fjármunavonar.“142 Andrés Guðmundsson á Brekku varð einnig mjög liðtækur við hjúkrun kúa eins og fram kemur í afmæliskvæði Elíasar Þórarinssonar frá Hrauni til hans, áttræðs, haustið 1972:

Ruddir þú í búskap braut, bændur gott af hlutu. Málleysingjar þjáðir þraut þinna handa nutu.

Þér hafði Drottinn lagni léð langt við oft þig sóttum. Ekki var þá eftir séð ótal vökunóttum.

Árangurinn yfirleitt ekki í minni rýrnar. Lítt var oft um launin skeytt, lifnuðu doða kýrnar143

Ýmsir fleiri gátu sér orð fyrir aðhlynningu sjúkra dýra sem kom sér vel þar sem erfitt var að nálgast þjónustu embættisdýralækna. Þannig fór til dæmis orð af liðveislu Lárusar Einarssonar bónda í Efri-Mið-Hvammi við að líkna skepnum og lækna þær.144 Þjónusta lærðra dýralækna efldist á síðasta fjórðungi tuttugustu aldar.

Aldrei kom mjólkursamlag til sögu í Þingeyrarhreppi í anda afurðasölulaganna frá 1934. Verðlagning mjólkurafurðanna mun líka hafa verið með ýmsum hætti þar til kom

142 Þorleifur Eggertsson í minningargrein um Ólaf í Morgunblaðinu 15. apríl 1976. 143 Íslendingaþættir 4. janúar 1973. Hluti afmæliskveðju Elíasar Þórarinssonar til Andrésar. 144 Gunnar Hvammdal Sigurðsson: „Guðrún Helga Kristjánsdóttir“. Morgunblaðið 15. nóvember 1969.

124

„Við bárum mjólk fyrir ungbörn og sjúklinga á bakinu úr sveitinni til Þingeyrar, þegar hvorki var hægt að beita hestum né jeppanum, og einu sinni man ég eftir því að lokað var frá því á Þorláksmessu og fram til 10. maí.“. . .

Gunnar á Hofi í viðtali við Heima er bezt 1984.

að Framleiðsluráði landbúnaðarins sem stofnað var til með lögum árið 1947 til að sjá um sölu, verðmiðlun og verðskráningu á íslenskum landbúnaðarvörum. Veturinn 1934 hóf Stefán Guðmundsson í Hólum máls á mjólkursölumálum á aðalfundi Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps. Á þeim fundi var kosin nefnd „til að koma á skipulagi á afurðasölumál bænda.“ Ekki virðist sú nefnd hafa skilað áliti. Réttum áratug síðar kom málið aftur upp á fundi bænda. Sagt var að bændur seldu sömu landbúnaðarafurðir sínar misháu verði til óánægju bæði kaupendum og seljendum. Málið leystist á þann veginn að til sögu komu ákvarðanir verðlagsnefndar landbúnaðarafurða sem gilda skyldu fyrir allt landið.

Um miðjan fimmta áratug síðustu aldar hóf Gunnar Guðmundsson á Hofi einnig mjólkursölu til Þingeyrar, þar sem markaður hafði enn vaxið. Hann fjölgaði kúm sínum enda Hofsjörðin, eins og fleiri jarðir um miðja sveitina, ágætlega fallin til mjólkurframleiðslu með kúm. „Nýsköpunarstjórnin óskaði eftir því að ég setti upp mjólkurbú [kúabú] á Hofi, og hét mér leyfi fyrir jeppa í staðinn. Svo ég fjölgaði kúnum í 7, og fór mest upp í 14 mjólkandi kýr og geldar kvígur“, sagði Gunnar í blaðaviðtali.145 Jók Gunnar þá ræktun á Hofi en sótti einnig heyskap að Söndum. Hann kom sér upp súgþurrkun á heyinu fyrstur manna í hreppnum. Með bættum vegi og brú á Kirkjubólsá var Gunnari gert kleift að færa þorpsbúum mjólk dag hvern eins og Stefán í Hólum hafði gert. Mjólkina færðu þeir kaupendum heim að dyrum. Einnig hafði Gunnar afgreiðslustað í bakinngangi Gamla kaupfélagsins er svo var kallað (Gramsverslunar), fyrir kaupendur þar í nágrenninu. Með fjölskyldu sinni stundaði Gunnar mjólkurframleiðslu til 1958.

Kýrnar þeirra Ólafíu og Gunnars Jóhannessonar á Ásgarðsnesi sáu þorpsbúum á Þingeyri fyrir mjólk um árabil ásamt kúm á fleiri bæjum (ljósm. frá Helga Magnúsi Gunnarssyni).

Um það leiti komu tveir nýir mjólkurframleiðendur til sem um munaði. Annars vegar voru það Jón Samsonarson með fólki sínu á Múla en hins vegar Gunnar Jóhannesson sem með Ólafíu konu sinni. Þau byggðu upp kúabú á Ásgarðsnesi, sem verið hafði eitt af grasbýlunum innan við Þingeyri. Reistu m.a. sex kúa fjós árið 1954 og viðbót árið 1957. Á þessum árum voru

145 Heima er bezt. Október 1984, 272-283.

125

Varðveizt hefur skrá um mánaðarlega mjólkursölu frá Hólum til heimila á Þingeyri árin 1927-1930. Meðalsalan á ári nam 5.534 lítrum. Mjólkurverðið var 0,40 kr./l öll árin. Andvirði seldrar ársmjólkur svaraði til rúmlega sjö kýrverða og nær 250 dagsverka um heyannir, skv. verðlagsskrám þeirra ára.

Magnús S. Magnússon: Landauraverð . . . (2003).

margir að hætta með skepnur í plássinu og markaður fyrir afurðirnar vaxandi. Heyskap sóttu þau á túnspildur, sem þau keyptu, í Þingeyrarplássi en mest þó upp að Söndum, þar sem kýrnar gengu einnig til beitar. Í huga skrifarans kemur kúahópurinn frá Ásgarðsnesi, sem taldi 15 kýr þegar flestar urðu, þar sem hann röltir í gegnum plássið og út Sneiðinga eftir morgunmjaltir. Þau hjón á Ásgarðsnesi ráku kúabúskap sinn fram til 1974 að þau hættu mjólkurframleiðslu og -sölu.146

Á Múla tók Þórður Jónsson við mjólkurframleiðslu og -sölu um 1960 með sinni fjölskyldu, byggði m.a. sérstakt og vel búið fjós í því skyni, og jók nauðsynlega ræktun. Við fráfall Þórðar árið 1979 tók Kristján Björnsson með Nönnu konu sinni við Múlabúinu. Þau stunduðu mjólkursölu fram um miðjan níunda áratuginn.

Guðbrandur Stefánsson í Hólum tók við búi foreldra sinna og stundaði mjólkursölu til Þingeyrar lengi. Á Kirkjubóli var farið að selja neyslumjólk í kaupstaðinn um 1960 en um langt árabil áður hafði rjómi og skyr verið unnið þar og selt í kaupstaðnum.

Mjólkurflutningarnir í kaupstaðinn voru með ýmsu móti. Frá Hólum og Múla fóru mjólkurpóstarnir mörg ár daglega með hest undir reiðingi. Á honum héngu mjólkurbrúsarnir. Hver kaupandi átti sinn brúsa. Leiddu mjólkurpóstarnir reiðingshestana í kaupstaðinn en máttu sitja ofan í milli á heimleið. Gunnar bóndi á Hofi notaði Willys-jeppa sinn, en þurfti að grípa til hests og sleða þegar ófærðin var hvað mest, svo sem veturinn 1957. Dráttarvélar voru notaðar til flutninganna bæði í Hólum og á Kirkjubóli. Rússajeppi kom að Múla 1956, og Land-Rover í Hóla 1962 og að Kirkjubóli 1963. Frá Ásgarðsnesi var mjólkin flutt á Farmall Cub til kaupenda í þorpinu frá árinu 1952, á Rússajeppa frá 1956 og á Land-Rover frá 1963. Með undantekningum, t.d. eins og áður

Guðbrandur í Hólum kemur með mjólkina í kaupstaðinn á jeppa sínum – að morgni dags skv. fastri venju – líklega á níunda áratugnum. Hjá honum stendur Hallgrímur Sveinsson skólastjóri (Einkasafn/Freyr Jónsson).

146 Helgi Magnús Gunnarsson í skrifum til BG 5. mars 2022.

126

var nefnd um mjólk frá Hofi, var mjólkin flutt heim til kaupenda í því magni sem þeir voru áskrifendur að.

Þar sem ekki var um mjólkursamlag að ræða er tæki við afurð bænda, nutu seljendur mjólkur opinberra niðurgreiðslna á henni sem í gildi voru hverju sinni, á því magni sem þeir sannanlega seldu. Skilaverð mjólkurinnar var því hlutfallslega hagstætt sem kom sér vel því markaðssetning hennar krafðist all nokkurrar fyrirhafnar.

Á sjöunda áratugnum fleygði geymslutækni matvöru fram, en einnig vöruflutningum, ekki síst með tilkomu flugvallarins í landi Hóla. Þangað hófst reglubundið áætlunarflug frá Reykjavík með farþega og vörur, og um tíma flug með póst o.fl. frá Ísafirði. Samgöngur á landi bötnuðu einnig með Dýrafjarðarbrú og Breiðadalsgöngum en norðan þeirra var Mjólkursamlagið á Ísafirði. Þingeyrarverslun gat því í vaxandi mæli boðið viðskiptavinum sínum mjólkurafurðir, þar með talið nýmjólk, með sæmilega öruggum hætti.

Mjólkurviðskipti þorpsbúa við kúabændur í sveitinni drógust hægt og sígandi saman undir aldarlokin þótt sumir kaupendur héldu mikilli tryggð við framleiðendur sína eftir að fá mátti „fernumjólk í búðinni“.

En svo kom að því að þessi sérstæði þáttur búskapar og afurðasölu í Þingeyrarhreppi lagðist endanlega af. Þann 1. september 1991 var beinni mjólkursölu úr sveitinni til Þingeyrar hætt. Síðustu mjólkursölubýlin voru Hólar og Kirkjuból. Lauk þar með merkilegum kafla í búskaparsögu hreppsins. Var þá skammt í að nautgripir hyrfu með öllu úr Þingeyrarhreppi. Aldrei kom til þess að bændur þar legðu mjólk inn í Mjólkursamlagið á Ísafirði.

127

í

Leitir og fjallskil

Þingeyrarhreppi fyrr

á

tíð

. . eins mig fýsir alltaf þó: aftur að fara í göngur.

VII

INNGANGUR

Fjárleitir og fjallskil eru eitt elsta form samvinnu íslenskra bænda. Haustleitum hefur með vissum hætti mátt líkja við herkvaðningu meðal nágrannaþjóða. Lagaákvæði um fjallskil rekja sig til fyrstu lagabálka þjóðarinnar. Í Grágás segir til að mynda svo: Búandi hver er skyldur að láta safna geldfé öllu um land það er hann býr á, því er aðrir menn eigu, og láta reka til lögrétta þeirra er hreppsmenn [K: héraðsmenn] eru sáttir á að vera skulu.147

Framkvæmdin hefur trúlega verið í sífelldri mótun, löguð að reynslu, héraðabundnum aðstæðum148 og þörfum hvers tíma. Hér verða rifjuð upp fáein einkennisatriði þessara mikilvægu hauststarfa í Þingeyrarhreppi, einkum með herslu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þá er einnig litið til eldri tíma svo langt sem helstu heimildir leyfa.

Brekkurétt – lögrétt Þingeyrarhrepps lengst af tuttugustu aldar.

ÚTHAGAR OG BEITILÖND

Beitilönd búfjár í Þingeyrarhreppi eru heimalönd sem tilheyra einstökum jörðum – dalirnir. . . . „Í dölum þessum er gott sauðland, enda leggja menn hér meira kapp á sauðfjárrækt en nautgripa“. . . , skrifaði Olavius undir lok 18. aldar.149 Um afrétti í almennri merkingu hefur því vart verið að ræða. Nefna má þó að á miðjum Gjálpardal í landi Hrauns í Keldudal er örnefnið Afréttishóll og allglöggur vörslugarður þar hjá.150 Hvort tveggja gæti bent til einhvers konar skiptingar lands líkt og alþekkt er í landmeiri héruðum þar sem um almenninga er að ræða. Svipað gilti um kirkjujörðina Sanda sem átti Galtadal að upprekstrarlandi. Frá Söndum

147 Grágás (1992), 168.

148

Bragi Sigurjónsson: Göngur og réttir III (1985), 129.

149 Ólafur Olavius: Ferðabók I (1964), 146.

150 Frásögn Guðmundar S. Magnússonar frá Hrauni.

129

fram að Seli á Galtadal er fast að 2 klst rekstur með fé.151 Fleirbýli hefur verið á nokkrum jörðum í Þingeyrarhreppi og þótt tún væru aðskilin var úthagi jafnan óskiptur og beitiland því sameiginlegt. Átti það t.d. við um Hraun, Haukadal, Brekku og Hvamm.

Fram undir lok nítjándu aldar var öll byggð í Þingeyrarhreppi jarðaskipt og dreifð. Hún breyttist með þorpsmyndun á Þingeyri um og upp úr 1880. Margir þorpsbúar komu sér upp fjárstofni. Fjáreign varð mikil og almenn vel fram yfir 1960. Það ásamt fækkun fólks og byggðra jarða leiddi til breytinga á fjallskilum og smölunum í hreppnum.

Fyrstu frásagnir um afrétti og göngur í Þingeyrarhreppi eru í sóknalýsingum frá því um 1840. Þar segir m.a. um Sanda- og Hraunssóknir í frásögn sr. Bjarna Gíslasonar prests á Söndum:

Afréttarlönd eða almenningar eru hér hvergi, og er geldfé rekið í ýmsra jarða búfjárhaga, t.d. á Drangahlíð, land, sem liggur undir Dranga, á Brekkudal, landareign Brekku, á Stúfudal, landareign Granda, á Galtardal, landareign Sanda, á Meðaldal, landareign Meðaldal[s], á Haukadal, landareign Haukadal[s], á Eyrarhlíð, landareign Sveinseyr[ar]. Gengið er að fé 22 vikur af sumri og þá aðskilið nálægt eða við bæi, þar eð réttir eru hér engar og aðrar sveitir hafa hér ekki heldur upprekstur.152

Lýsingin er skýr og minnir á áðurnefnda lýsingu Grágásar: Fé var gengið í sundur og réttir engar. Ær voru jafnan nálægt bæjum á meðan fært var frá. Geldfé og lömb héldu sig fjær. Þeirra vegna helst varð að gera fjallskil.

FJÁRFJÖLDI Í HREPPNUM

Margir þættir hafa ráðið því hvernig fjallskil hafa breyst og þróast í áranna rás. Þar kemur fjárfjöldinn mjög við sögu, samsetning hans og fleira. Verulegar breytingar hafa orðið á fjárfjölda í Þingeyrarhreppi á því tímabili sem hér er einkum til athugunar. Það má m.a. sjá á meðfylgjandi mynd sem byggð er á búnaðarskýrslum:153

Langt fram eftir nítjándu öldinni var fjöldi fullorðins fjár í hreppnum nálægt einu þúsundi. Undir lok aldarinnar tók fjáreignin að vaxa og með mestum þunga á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldarinnar. Á fjórða áratugnum hafði fjárfjöldinn náð þeim hjalla sem hann hélt allt fram til 1980. Á næstu 15 árum fækkaði fé í hreppnum um nær helming. Síðustu 15-20 árin hefur fjárfjöldi í fyrrum Þingeyrarhreppi verið svipaður; í kringum 17-18 hundruð fjár á fóðrum.

Framanvert á nítjándu öldinni var sauðaeign mikil. Almenna reglan var þá víðast sú að sauðféð skiptist í þrjá nærri jafnstóra hópa sem hver um sig krafðist sinnar sérstöku umhirðu: ær, lömb og sauðir.154 Samkvæmt búnaðarskýrslum frá fyrri hluta þeirrar aldar nam sauðafjöldi

151

152

Guðmundur S. Magnússon, í bréfi til BG 10. apríl 1998.

Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 59.

153 Búnaðarskýrslur (í Skýrslum um landshagi, Stjórnartíðindum og Hagskýrslum Íslands).

154 Arnór Sigurjónsson: „Þættir úr íslenzkri búnaðarsögu“, 65.

130

Sauðfjáreign hreppsbúa 1820-2020.

í Þingeyrarhreppi þriðjungi og allt að helmingi fullorðins fjár, sem þá var tíundað. Upp úr 1860 tók sauðum mjög að fækka og virðast þeir hafa verið orðinn óverulegur hluti fjáreignar hreppsbúa undir aldamótin 1900.

Þriðji þátturinn sem nokkru réði um fjallskilaskipanina var fjáreign þéttbýlisbúa á Þingeyri. Hún óx með þorpinu og komst í það að nema sjöttungi alls fjár í hreppnum um miðbik tuttugustu aldarinnar. Um fjáreign Þingeyringa var fjallað fyrr í þessari bók.

FYRIRMÆLI, LÖG OG FJALLSKILAREGLUGERÐIR

Það var fyrst árið 1969 sem Alþingi setti sérstök lög um afréttarmálefni og fjallskil. Voru þá felld úr gildi ákvæði annarra laga um þetta efni sem gilt höfðu í hart nær sjö aldir.155 Með tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi árið 1872 var sýslunefndum falin yfirstjórn fjallskila.156 Árið 1890 voru sett lög um löggiltar reglugerðir sýslunefnda (nr.14, 22. mars 1899). Með skírskotun til laganna var Ísafjarðarsýslu sett fjallskilareglugerð árið 1894 er sýslunefndin hafði samið.157 Vafalítið hefur hún borið blæ af þeirri skipan fjallskila í sýslunni sem áður hafði gilt. Í reglugerðinni sagði m.a. að í hverjum hreppi skyldi vera ein lögrétt; þó mætti „brúka smárjettir, þó hvergi fleiri en 2 í sama hreppi“. . . Bændum, sem að þeim ráku, var skylt að reka óskilafé („sem þeim ekki tilheyrir eða nágrönnum þeirra“) tafarlaust til lögréttar. Það er einnig athyglisvert ákvæði 16. greinar reglugerðarinnar er segir:

Á vorhreppsskilaþingi ákveður hreppsnefndin með samkomulagi við bændur, hvar lögrjett og aðrar rjettir skuli standa í þeim hreppum, sem þetta er enn óákveðið [leturbr. hér] og skipar fyrir um byggingu þeirra

Þetta sýnist ekki hafa átt við Þingeyrarhrepp því um þessar mundir virðist sveitarrétt (lögrétt?) hafa verið komin að Brekku ef marka má bókun á hreppsnefndarfundi í Meðaldal 9. júní 1894:

155

156

Lýður Björnsson: Saga sveitarstjórnar, seinna bindi (1979), 275-276.

Lýður Björnsson: Saga sveitarstjórnar, fyrra bindi (1972), 252.

157 Stjórnartíðindi 1894 B-deild: Reglugjörð fyrir Ísafjarðarsýslu . . . nr. 56, 18. júní 1894, 69-70 og 73-75.

131

. . . rætt um byggingu á sveitarrétt, sem hrundi í vetur [á Brekku] og var samþykt að flytja hana þaðan sem hún hefur verið, þar eð hún liggur undir skemmdum, og var ályktað, að fengnu samþykki prestsins að flytja hana að Söndum ef þar fengist svo mikið og gott verkefni að það álítist fært, ella uppi í Brekkuhálsi. . . 158

Þá þegar hefur komið til álita að færa lögréttina svo sem síðar var gert. Líklega hefur efnisskortur komið í veg fyrir flutninginn þá því hleðslugrjót var torfengið á Söndum (verkefni skorti eins og hreppsnefndarmenn virðast hafa haft grun um!).

Heimildirnar benda til þess að á árabilinu 1840-1894 hafi nokkur breyting orðið á fjallskilum í hreppnum; frá því að ókunnugt fé var gengið úr heima við bæi, eins og sagði í sóknalýsingunum, til þess að reka hafi átt til lögréttar í samræmi við skerptar lands- og héraðsreglur. Hugsanlega hefur það gerst og sveitarréttin verið reist í framhaldi af áðurnefndri nýskipan sveitarstjórna árið 1872. Hafa verður í huga að á þessum tíma var mest um lausagöngu geldfjár að ræða og óskilafé því nær eingöngu úr þeim hópi sauðfjárstofns hreppsbúa. Flestum ám hefur verið haldið heimavið fram undir göngur, vegna málnytunnar, eins og raunar tíðkaðist svo lengi sem fært var frá ánum.159

Lögréttin á Brekku; lausleg grunnmynd hennar.

Árið 1902 var Vestur-Ísafjarðarsýslu sett ný fjallskilareglugerð.160 Samkvæmt henni virðist lögréttarákvæðið hafa verið rýmkað nokkuð: Í hverjum hreppi skyldi vera að minnsta kosti ein lögrétt. Hreppsnefnd mátti heimila þær fleiri en „þó aldrei fleiri en 3 lögrjettir í hverjum hreppi“. . . að því er virðist allar jafnt settar. Sama skylda var áfram á hverjum búanda að reka óskilafé til lögréttar; hann mátti þó undanskilja fénað . . . „sem hann [vissi] hver eigandinn er og hann sje nær en lögrjettin.“

Ný fjallskilareglugerð var sett árið 1914.161 Réttarákvæðum var þá breytt þannig að í hverjum hreppi skyldi . . . „að minsta kosti ein lögrétt vera og svo margar aukaréttir sem hreppsnefnd ákveður“. . . Enn var slakað á gangnaákvæðum: Ekki þurfti að reka kvíaaær til lögréttar eða aukaréttar. Réttarbóndi skyldi hafa umsjón með sundurdrætti. Nýmæli var að hreppsnefnd

158 Fundargerðabók hreppsnefndar Þingeyrarhrepps.

159 Ottó Þorvaldsson frá Svalvogum, í bréfi til BG 14. maí 1981.

160 Stjórnartíðindi 1902 B-deild: Fjallskilareglugerð f. V.-Ís. nr. 56, 12. maí 1902.

161 Stjórnartíðindi 1914 B-deild: Fjallskilareglugerð f. V.-Ís. nr. 131, 11. nóv. 1914.

132

mátti . . . „– vegna sjerstakra staðhátta – leyfa að fjeð sje dregið sundur á einstökum heimilum, en reka skal þá alt það fje, sem ekki tilheyrir heimilinu, til næstu rjettar samdægurs.“ Í reglu gerðinni var ekki skilgreint hvort væri lögrétt eða aukarétt. Frá aukaréttum skyldi fé rekið . . . „bæ frá bæ til lögrjettar svo fljótt sem auðið er“. . . Virðist þarna vera fest í reglum sú skipan fjallskila sem gilti síðan lengi fram eftir tuttugustu öldinni og nánar verður lýst hér á eftir. Af breytingum reglugerðanna má sjá að menn hafa lagað ýmis ákvæði þeirra að aðstæðum og staðháttum. Þar skipti hvað mestu máli að allir hagar tilheyrðu heimalöndum. Eftir þeim skiptust fjárhjarðirnar. Hjörð frá hverri jörð hélt sig að mestu sér og blandaðist lítt nágranna hjörðum. Hentugt var því að hafa margar aukaréttir (heimaréttir) til þess að spara rekstur á hagföstu heimafé en fylgja þeim mun fastar eftir reglum um meðferð óskilafjár.

Fróðleg er lýsing Þorbergs Steinssonar á hagafestu fjárins í Hvammi um fyrri aldamót. Hann sagði hverja Hvamms-jarða hafa haft sitt upprekstrarland því . . . frá því sögur fóru af og fram á síðustu ár beitti Lægri-Hvammur Innrihlíð og Ausudal, en hinir báðir bæirnir Ytri-Hlíð og Hvammsdal og takmörkin voru svo skýr í mínu ungdæmi, að Lægri-Hvamms búpeningur kom aldrei saman við efri bæja búpening, aðskildi þó annað ekki en Hvammsáin, örlítil spræna á flestum tímum, og sýnir það, hvað vel má venja sauðskepnuna, þegar einbeittur vilji og festa er með í verki og aldrei brugðið út af því vanalega. Meðan fráfærur tíðkuðust, var féð frá Lægri-Hvammi ávallt látið morgunmálið á Ausudal, en kvöldmálið inn á hlíðina millum Hvamms og Ketilseyrar, og aldrei þurfti að vísa því leiðina, þegar sleppt var út úr kvínni, það beindi för sinni í rétta átt. Nú hefir nýi tíminn brotið niður þessa ævagömlu reglu með aðskilnað á fé neðri og hærri bæjar . . . svo nú hefir skapazt sá glundroði, að fé allra bæjanna er alls staðar og hvergi, svo enginn veit nú, hvert leita skal, þegar einhver einn vill smala sínu fé; allt á víð og dreif um alla landareignina.162

Þótt fjallskil hafi orðið eitt af hlutverkum sveitarstjórna við nýskipan þeirra árið 1872 eru gjörðabækur Þingeyrarhrepps fáorðar um þann málaflokk. Hreppsnefndin virðist hafa falið einum nefndarmanna að annast fjallskilamál og aðeins gripið inn í ef meira bar til. Gæti það bent til þess að málin hafi verið í fremur föstum skorðum frá fyrri tíð, sennilega undir stjórn gangnastjóranna (hreppstjóranna?) á hverju svæði. Áður er nefnd bókun hreppsnefndar 1894 um sveitarréttina á Brekku. Þann 22. september 1925 voru fjallskil til umræðu á hreppsnefndarfundi til þess . . .

. . . sérstaklega að koma sjer niður á tilhögun um fjallgöngur í innfirðinum, eða frá landamerkjum Þingeyrar og Hvamms og inn úr.

Hreppsnefndin samþykti að framvegis skyldi ofannefnt svæði vera í umsjón gangnastjórans í Hvammi, og hafi hann ekki nægilega marga menn í sínu umdæmi til að annast leitir þar, þá leitar hann til gangnastjórans á Þingeyri, og verður hann að veita honum þá mannhjálp sem hann með þarf.163

162 Þorbergur Steinsson skráði 1. maí 1942. Örnefnaskrá Hvammur.

163 Fundargerðabók hreppsnefndar Þingeyrarhrepps.

133

Um þetta leyti fór fé á Þingeyri fjölgandi. Þorpslandið bar aðeins mjög takmarkaðan fjölda fjár. Leiddi það til aukinnar þarfar á því að hreppsnefnd hlutaðist til um beitarmál og fjallskil. Þegar kom fram á þriðja áratug tuttugustu aldar var því töluvert þrýst á hreppsnefnd með að útvega fjáreigendum í þorpinu búskaparland. Frá því er sagt í öðrum kafla bókarinnar.

SKIPAN HAUSTLEITA OG RÉTTARHALDS

Þann 5. september 1931 var fyrsti dagskrárliður hreppsnefndarfundar þessi: Fjallskil þetta haust. Allar ráðstafanir sendar með gangnaseðli, er birtur skyldi á mánudaginn 7. þ.m., af Andrési Kristjánssyni [hreppsnefndarmanni í Meðaldal], frá Sandá og út á hreppsenda, en oddvita var falin birtingin frá Sandá að Dröngum. . . 164

Þótt skipan haustleita hafi lengi haldist í svipuðum skorðum urðu hægfara breytingar á þeim, a.m.k. á meðan sauðfjárbúskapurinn miðaðist einvörðungu við þarfir hvers heimilis. Líklegt er að töluverðar breytingar hafi hins vegar orðið þegar fráfærurnar lögðust af og fé tók að fjölga í kjölfar vaxandi markaða fyrir dilkakjöt. Á mörkum þessara tímaskeiða sem voru á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldarinnar mun skipan réttarhalds í Þingeyrarhreppi í stórum dráttum hafa verið þannig:

Svalvogar og Höfn: Á báðum þessum bæjum var heimarétt; óskilafé komið til Keldudals. Hraun, Skálará, Saurar og Arnarnúpur: skilarétt (aukarétt) var í landi Hrauns fast við landamerkin á móti Skálará sem smalað var til sameiginlega í dalnum; óskilafé komið til Haukadals.165

Sveinseyri, bæirnir í Haukadal, Meðaldalur og Hólar: Á fyrstu árum aldarinnar var sameiginleg skilarétt fyrir þessa bæi á Saltnesi undan Merkishrygg þar sem eru landamerki Haukadals og Meðaldals.166 Það er hún sem enn sér fyrir þar niður við sjóinn, sjá næstu mynd. Síðar var sett aukarétt í Haukadal fyrir bæina þar, en réttað heima á Sveinseyri, í Meðaldal og í Hólum. Frá aukaréttinni í Haukadal var óskilafé rekið til Brekkuréttar.

Kirkjuból, Hof, Múli, Sandar: Ekki er annað vitað en á þessum bæjum hafi alla síðustu öld verið réttað heima á hverjum bæ. Frá bæjunum í Kirkjubólsdal var óskilafé rekið sameiginlega til Brekkuréttar.

Bakki, Brekka og Grandi: Á þessum bæjum var fé rekið til réttarinnar á Brekku, lögréttar sveitarinnar, þó aðeins óskilafé frá Bakka þar sem fé var jafnan rekið heim á tún daginn fyrir gangnadag.167

164

165

Fundargerðabók hreppsnefndar Þingeyrarhrepps.

Frásögn Guðmundar S. Magnússonar frá Hrauni.

166 Örnefnaskrá, Meðaldalur.

167 Frásögn Knútar Bjarnasonar á Kirkjubóli, 29. nóvember 2006.

134

Sameiginleg rétt Haukadals og nágrannabæja.

Bæirnir í Hvammi: Þar var réttað sameiginlega í einni rétt sem þó mun ekki hafa verið aukarétt.168 Frá Hvammi var óskilafé rekið til Brekkuréttar.

Ketilseyri, Kjaransstaðir og Drangar: Heimarétt var á hverjum þessara bæja, allar niðri við sjóinn þótt síðar á öldinni væru þær færðar heim að bæjum.169 Óskilafé var rekið bæ frá bæ, eins og síðar verður greint frá.

Þar sem fé er rekið í sameiginlegan afrétt blandast hjarðir frá viðkomandi bæjum gagnstætt því sem gerist þar sem hjörðum er sleppt í heimalönd einstakra jarða. Þá ganga hjarðirnar langoftast hver fyrir sig á sínu heimalandi og blandast óverulega fé frá öðrum bæjum þótt hindranir á landamerkjum séu litlar sem engar. Slíkar hjarðir láta ekki auðveldlega reka sig langt um framandi slóðir og haga nágrannabæja. Það var því einfaldlega léttara að hafa heimaréttir fremur en sameiginlegar réttir nema þéttbýli væri þeim mun meira, svo sem var að nokkru leyti í Keldudal, en fremur þó í Haukadal og í Hvammi þar sem úthagi jarðanna var og er óskiptur.

Gangnaseðillinn var mikilvægt plagg um skipan fjallskila. Var áhersla lögð á að hann bærist skilvíslega rétta boðleið á milli bæja. Það var líklega fyrsta opinbera embættisverk höfundar þessa pistils að fara með gangnaseðilinn boðleið frá Kirkjubóli að Hofi. Þótti honum það bæði ábyrgðarstarf og vegsauki.

Á gangnaseðlinum var tekið fram hvenær réttað skyldi. Réttardagarnir voru tveir: mánudagurinn í 22. viku sumars (fyrri leitir) og mánudagurinn næstur á eftir (seinni leitir).

168

Frásögn Jóhanns Sigurðssonar í Lægsta Hvammi, 1. maí 1997.

169 Frásögn Elísar Kjarans Friðfinnssonar frá Kjaransstöðum 19. maí 2004.

135

Þingeyrarhreppur skiptist í nokkur svæði sem landfræðilega eru allvel afmörkuð. Má segja að þau marki eins konar fjallskilasvæði sem lengi héldust skýrt afmörkuð. Sumpart var smalað til einnar réttar sameiginlega frá nokkrum bæjum (aukaréttar) en sumpart var réttað á hverjum bæ, eins og fjallskilareglugerð eftir 1914 heimilaði. Á gangnaseðli var hreppnum skipt í þessi svæði, t.d. Hvammsbæi, Kirkjubólsdal, Haukadal og á seðlinum var ákveðið hverjir væru embættismenn þar, þ.e. gangnastjóri og réttarbóndi. Lýsa heitin hlutverkum þeirra. Á gangnaseðli kom einnig fram hve marga menn hvert lögbýli skyldi senda í göngur. Hér má skjóta því inn að frá fornu fari var mikil ábyrgð fólgin í þessum embættum. Í reglugerð Ólafs amtmanns Stephensen, sem fjallaði um fjallskil og fleira í Borgarfjarðarsýslu frá 1792 en sem gera má ráð fyrir að í allmörgum greinum hafi lýst landsvenju, segir m.a. að gangnamönnum beri að sýna fjallkóngi (gangnastjóra) tilhlýðilega virðingu að viðlagðri sekt. Ennfremur að réttarbóndi væri einvaldur í réttum er sýna skyldi hlýðni – einnig að viðlagðri sekt.170 Í bernskuminningu höfundar frá miðbiki fyrri aldar telur hann gæta leifa þessarar virðingar en minnist þess þó ekki að komið hafi til tyftana vegna þess að út af hafi verið brugðið. Það mun hafa verið á þriðja áratugnum sem farið var að taka tillit til fjáreignar á Þingeyri þannig að fjáreigendum þar var gert að senda menn til smalana á nágrannajörðum, fyrst og fremst í Inn-sveitinni, eins og þegar hefur verið minnst á. Að Dröngum bar t.d. að senda tvo menn úr þorpinu. Fóru þeir inn eftir kvöldið fyrir gangnadag og gistu þar. Þeim sem bjuggu innan við Ásgarðsnes bar hins vegar að gera fjallskil með Hvammsbændum.171 Síðar var einnig farið að senda smala frá Þingeyri til haustleita á Kirkjubólsdal, sennilega um eða uppúr 1940. Smölum frá Þingeyri var jafnan skipað þar sem hættuminna var að fara.172

Hvammsbændur hjálpuðust að við smölun og réttarhald. Mannmargt var þá á bæjum og hver lagði til mannafla eftir getu. Eldri fjáreigendum var liðsinnt um smala. Gjarnan komu unglingar frá Þingeyri og hjálpuðu til. Grjóthlaðin rétt var þar við ána, með almenningi og þremur dilkum, sennilega mjög forn. Magnús Lárusson var þar lengi gangnastjóri auk þess sem hann stjórnaði réttarhaldi. Síðar var réttin flutt niður fyrir þjóðveg og byggð timburrétt þar skammt fyrir innan Neðsta Hvamm.

Á fyrri árum fjárbúskapar á Þingeyri mun fé þaðan hafa verið réttað á Brekku og að einhverju leyti í Hvammi. Á Brekkurétt var byrjað á því að draga Þingeyrarfé úr safninu. Það var dregið í tvennu lagi til skiptis að fyrirsögn réttarbónda: Innri Þingeyri (innan Barnaskólans) dró sér og Ytri Þingeyri sér. Síðan drógu heimamenn í dalnum sitt fé. Þetta reyndist tafsamt, einkum eftir að Þingeyrarfénu fjölgaði. Mun það hafa kallað á stækkun réttarinnar á þriðja tug aldarinnar. Gátu heimamenn þá dregið samtímis Þingeyringum svo réttarhaldið gekk allt hraðar. Síðan breyttist réttarhald Þingeyringa á þann veg að þeir tóku að rétta þar í þorpinu í eigin rétt. Þeir

170

Lýður Björnsson: Saga sveitarstjórnar, fyrra bindi (1972), 187.

171 Frásögn Knútar Bjarnasonar á Kirkjubóli, 7. jan. 1997.

172 Sama heimild.

136

höguðu smölun þannig að nokkrir fóru inn í Grófir á milli Þingeyrar og Hvamms og smöluðu úteftir; aðrir fóru upp á Brekkuháls og smöluðu Sandaland út fyrir Sandafell og inn Sneiðinga. Rekið var til réttar upp og inn af Barnaskólanum en þar í hlíðinni höfðu fjáreigendur byggt all stóra timburrétt, sjá mynd. Þar var Sigmundur kaupmaður Jónsson lengi réttarstjóri. Réttina notuðu Þingeyringar líka við vorsmölun og aftekt. Þeim þótti að vonum úrleiðis að reka fé sitt upp að Brekku.173

GÖNGUR – ÞVÍ MENN GENGU!

Heiti þessa haustverks mun lengst af hafa verið réttnefni í Þingeyrarhreppi því langalgengast var að menn smöluðu gangandi. Fyrir tíð erlends skófatnaðar var það töluvert verk að útbúa hina heimagerðu gangnaskó. Sunnudagurinn í 22. viku mun allvíða hafa verið notaður til skó gerðarinnar.174 Hestaeign í Þingeyrarhreppi var takmörkuð og hestar lítt þjálfaðir til smölunar. Jón Samsonarson bónda á Múla, sem þangað fluttist norðan úr Strandasýslu, átti þó iðulega vel færa hesta sem hann notaði í göngum, og vera má fleiri. Þar við bættist að alltaf þurfti og þarf nokkur hluti smalanna að fara brattar hlíðar að ógleymdum hvilftum fjalla og dalverpum sem fé sækir jafnan töluvert í. Kom sér vel að einhverjir væru vel færir í fjöllum. Hunda höfðu menn sér til léttis (oftast. . . ). Fátítt var þó að menn ættu þjálfaða fjárhunda. Fáeinir tíðkuðu það að fara ríðandi með rekstur óskilafjár til Brekkuréttar. Á fjórða áratugnum vakti t.d. Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli athygli ungs pilts úr Hvammi fyrir það hann kom þannig á Brekkurétt.175

Á flestum bæjum hreppsins tók smölunin um og innan við 4-5 klst í skaplegu veðri og við eðlilegar aðstæður. Því var ekki til siðs að smalar hefðu með sér nesti. Þess í stað var vel borið í þann mat er beið smalanna heima. Að vænni máltíð lokinni var tekið til við réttarhaldið.

173 Sama heimild.

174 Dagbók Margrétar Bjarnadóttur frá Kirkjubóli árið 1939.

175 Frásögn Gunnars Hvammdal í maí 1997.

137
Fjárrétt Þingeyringa í hlíðinni ofan við Barnaskólann (ljósm. úr bókinni Ljósmyndir gamla tímans. Þingeyri).

MEÐFERÐ ÓSKILAFJÁR

Að fjárdrætti á heimaréttum bæjanna loknum var komið að því að reka óskilaféð til lögréttarinnar á Brekku. Óskilafé skyldi hafa forgang svo sem landslög og fjallskilareglugerð sögðu. Bar hverjum bónda að koma því tafalaust áfram til lögréttar. Úr Kirkjubólsdal kom óskilafé síðdegis gangnadaginn. Kjaransstaðamenn biðu óskilafjár frá Dröngum gagnadaginn, og ráku það út að Ketilseyri eftir að hafa tekið úr sitt fé. Með sama hætti komu Ketilseyrarmenn óskilafé út í Hvamm. Hvammsmenn skiluðu því síðan á aðalréttina á Brekku daginn eftir.176 Óskilafé utan af Sveit (utan Kirkjubólsdals) var sömuleiðis komið með á þriðjudegi. Búið var að koma óskilafé úr Keldudal, Höfn og frá Svalvogum inn í Haukadal að kvöldi gangnadags.

Fé úr Þingeyrarhreppi hefur löngum sótt töluvert vestur á Arnarfjarðarströnd enda liggja dalbotnar saman og á fáeinum stöðum er auðvelt fyrir fé að komast yfir fjallgarðinn á milli fjarðanna tveggja. Óskilaféð, annað en áður var um getið, varð að sækja vestur að Hrafnseyri en þar var lögrétt Auðkúluhrepps. Á þriðjudegi eftir gangnadaginn fóru því fjórir menn ríðandi vestur til þess að sækja óskilaféð undir stjórn gangnastjóra. Komu þeir til baka samdægurs, jafnan eftir góðar veitingar húsbænda á Hrafnseyri. Í þennan skilamannahóp bar fjáreigendum á Þingeyri að útvega einn mann, Hvammsbændum annan, bændum í Brekkudal þann þriðja og bændum í Kirkjubólsdal þann fjórða. Inn á Hrafnseyrarrétt hafði óskilafé komið daginn áður. Erfitt gat reynst að reka féð yfir Hrafnseyrarheiði og vildu kindur oft gefast upp á leiðinni. Stundum nam fjárfjöldinn að vestan 100-150 fjár. Iðulega var fólk komið fram að Þverá í Brekkudal til þess að taka á móti rekstrinum og aðstoða við að koma honum heim í skilarétt á Brekku.

138
176 Frásögn Elísar Kjarans Friðfinnssonar frá Kjaransstöðum 19. maí 2004. Rétt Kelddælinga í landi Skálarár, horft til Arnarnúps; t.h. er lausleg grunnmynd, að hluta löguð eftir ábendingum Guðmundar Sören Magnússonar frá Hrauni.

Seinni göngur fóru fram mánudaginn í 23. viku sumars. Var þá staðið eins að flestum verkum nema hvað óskilafé var þá ekki sótt sameiginlega í Arnarfjörð. Bændur urðu að nálgast það hver fyrir sig ef þurftu.

Guðmundur Sören Magnússon frá Hrauni fræddi mig um Keldudalsréttina í bréfi 2. febrúar 1999. Hún var gömul þegar hann mundi fyrst eftir sér, um 1930: Það var samvinna um að halda réttinni við, skrifaði Guðmundur. Í vikunni fyrir fyrrileitar komu flestir verkfærir menn í Keldudal saman við réttina til að stinga klömbruhnaus og hlaða upp í það sem hrunið hafði. Hvort þetta var sjálfboðavinna eða borgað af hreppnum veit ég ekki. . . dilkarnir voru kenndir við bæina, dilkurinn yst til vinstri [á uppdrættinum] var Arnarnúpsdilkur. Þegar ég fer að muna eftir mér var Arnarnúpsbóndinn orðinn það fjármargur að almenningurinn var hafður fyrir Arnarnúpsféð en Arnarnúpsdilkurinn fyrir óskilafé. Dilkurinn í miðið var Skálarár- og Sauradilkur . . . Þá var Hraunsdilkurinn yst til hægri . . . Arnarnúpsmenn og Saura- og Skálarármenn ráku inn í almenninginn en Hraunsmenn ráku beint inn í sinn dilk . . .Tóftin að sunnanverðu við réttina var kölluð Oddnýjarstaðir, ég man ekki eftir að ég heyrði neitt um ástæðu fyrir þessu nafni. [Oddnýjareyri (Ullareyri) heitir eyrin niður af réttinni, skv. örnefnaskrár Skálarár.]

Keldudalsréttin sker sig frá öllum öðrum réttum í sveitinni þannig að hún var að miklum hluta byggð úr torfi eins og Guðmundur Sören skrifaði. Flestar aðrar réttir, sem enn standa minjar um, voru hlaðnar úr grjóti einu saman.

Aukarétt var í Keldudal eins og áður sagði. Í henni voru fjórir dilkar, sjá mynd. Í dalnum voru sex býli, þar af þrjú í Hrauni. Hverju þeirra bar að leggja til tvo menn til smölunar í fyrri leitir en fleiri fóru þar að auki. Það bar að senda einn mann í Lokinhamra í samfloti við býlin tvö á Nesinu, Svalvoga og Höfn, sem sendu mann þangað sitt hvort árið. Í Lokinhamra var farið að morgni gangnadags og komið með féð til baka að kvöldi. Það var gömul hefð að sækja fé þannig í Lokinhamradal svo ekki þyrfti að eltast við það inn á lögréttina að Hrafnseyri. Tveir menn skyldu fara frá Hrauni með rekstur óskilafjár úr Keldudal inn í Haukadal. Var það gert síðdegis réttardaginn. Lagt var upp þegar bændur af Nesinu höfðu komið með óskilafé þaðan. Aldrei fóru menn frá sama bæ í báðar áttir, í Lokinhamra og inn í Haukadal. Arnarnúpsbóndi var bæði réttarbóndi og gangnastjóri í Keldudal og gegndi Kristján Guðmundsson embættunum lengi.

Kelddælingar sendu jafnan tvo menn vestur í Lokinhamradal. Eftir að Höfn fór í eyði 1943 sendu þeir aðeins einn mann og þá í samvinnu við Haukdæli er sendu annan. Saman ráku þessir menn óskilaféð úr Lokinhamradal til Haukadals. Þessi háttur var þó ekki hafður á lengi, sagði Guðmundur S. Magnússon frá Hrauni, og bætti við:

Ég man að einu sinni var ég sendur í þessa ferð. Venjan var að fara fyrir Nes sem var allt að fimm klukkutíma gangur en ég fór upp úr svokölluðu Hafnarskarði fyrir framan Hraun og yfir Tóarfjall og niður í Dalsdal. Þessi ferð tók rúma tvo tíma. Það mun hafa verið gömul hefð að Haukdælir sendu tvo menn í fyrri leitum vestur í Lokinhamradal.177

Frá merkjum Dranga og Botns var smalað út að Lambadal en þangað var óskilafé úr Þingeyrarhreppi sótt.178

177 Úr bréfi Guðmundar S. Magnússonar frá Hrauni, 10. apríl 1998.

178 Frásögn Jóhanns Sigurðssonar í Neðsta Hvammi, 1. maí 1997.

139

BREKKURÉTT – LÖGRÉTT SVEITARINNAR

Brekkuréttin gamla stendur á skriðu fram úr gilinu úr Brekkuhvilft skammt ofan við þjóðveginn um Brekkudal. Réttin er hlaðin úr grjóti sem gnægð er af nærlendis. Engar heimildir eru tiltækar um hvenær henni var valinn staður þar að öðru leyti en giskað var á hér að framan né heldur hvenær eldri hluti hennar var reistur. Sennilega hefur hann verið endurbættur um 1894 eins og áður var vikið að. Hins vegar er vitað að yngri hluti réttarinnar var hlaðinn um 1925 því á fundi sínum 22. september það ár ákvað hreppsnefndin að . . . „stækka lögréttina . . . þegar á þessu hausti“. . . og fá Ásbjörn Björnsson í Hvammi . . . „til þess að standa fyrir verkinu“. Hreppsnefnd taldi líklegt að fá mætti menn úr Brekkudal til þess að vinna verkið segir í fundargerðarbók hennar.

Á Brekku, þar sem lögréttin stóð, var gæslumaður óskilafjár. Það starf annaðist Árni Guðmundsson, bóndi á fremri bænum þar, um áratuga skeið. Ef þurfti var óskilafé geymt í nátthaganum á Brekku sem var nokkuð framan við bæina þar. Óskilafé á Brekkurétt var fyrst og fremst úr Auðkúluhreppi en fyrir kom að þangað slæddist fé af Barðaströnd og norðan úr Djúpi.

Eldri hluti Brekkuréttar er aðeins eitt hólf; um það bil 13 x 18 m að stærð. Viðbótin eru tveir dilkar misstórir, 7 x 10 og 7 x 7 m sem settir voru neðan við eldri hlutann. Er hæðarstig nokkuð á milli réttarhlutanna tveggja vegna halla sem réttin stendur í þar á skriðufætinum.

Rétt eins og í öðrum sveitum var réttardagurinn hátíðisdagur í augum flestra og lögskilaréttin samkomustaður fólks. Þangað komu margir, bæði fjáreigendur og aðrir. Munaði ekki síst um fjáreigendurna á Þingeyri en nokkuð af fé þeirra kom jafnan á Brekkurétt.

140
Á Brekkurétt um miðja tuttugustu öldina. (ljósm. úr safni GG frá Hofi).

Veitingar hafði fólk gjarnan með sér á Brekkurétt, veikar og sterkar eftir hætti. Komu þær sér vel á meðan beðið var eftir rekstrum óskilafjár en það tók oft tíma. Sumir fóru heim að Brekku og biðu þar. Andrés bóndi Guðmundsson á Brekku var réttarbóndi þar um árabil og rækti það starf af myndugleik og röggsemi sem ýmsum er enn í góðu minni. Réttarbóndi lögréttar var undanþeginn fjallskilum; hann skyldi hafa réttina tilbúna til réttarhaldsins og stjórna því.

Árið 1964 var lögrétt Þingeyrarhrepps færð frá Brekku að Söndum. Þar var byggð timburrétt skammt utan við Sandatúnið. Vel var þar rúmt um réttina og auðvelt að koma bílum að en þeir gegndu þá vaxandi hlutverki við alla fjárflutninga. Á Söndum var réttað meðan sameiginleg skipun var á göngum í Þingeyrarhreppi. Eftir 1985 varð sú breyting að hinar eiginlegu göngur féllu niður og tekið var að miða smalanir fyrst og fremst við slátrunardaga. Réði því mannfæð og fækkun býla með sauðfé. Fjallskilum og réttarhaldi var því enn breytt til hægræðis vegna breyttra aðstæðna og nýrra þarfa.

YFIRLIT

Hér hefur verið gerð nokkur grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á fjallskilum í Þingeyrarhreppi síðustu mannsaldrana. Þær eru miklar og augljóslega tengdar breytingum á búsetu og atvinnuháttum í byggðinni. Ekki síst eru þær nátengdar breytingum á fjölda og dreifingu sauðfjár í hreppnum. Greina má breytingarnar í þrennt eftir tímabilum:

Fyrsta tímabili nær fram á nítjándu öldina. Fjárfæð og jarðaskipt dreifbýli kallaði ekki á flókna skipan fjallskila. Sauðir voru stór hluti fjárhjarða og ær við kvíar og/eða sel meginhluta sumars. Hver ábúandi gerði lögskil líklega á hinum gamla grundvelli þjóðveldislaganna með því að ganga í sundur fé án sérstaks og umfangsmikils réttarhalds.

Annað tímabilið rann upp með mikilli fjölgun sauðfjár og breyttum nytjum þess, þ.e. fækkandi sauðum og síðar einnig fækkandi kvíaaám en aukinni rækt við kjötframleiðslu. Þá óx sýnilega þörf formlegs réttarhalds. Með vaxandi fjáreign bænda og ekki síst þorpsbúa á Þingeyri svo og landþröng fjáreigenda þar má ætla að einnig hafi vaxið hlutur þess fjár sem gekk utan heimalands eigenda. Þörfin fyrir rækileg fjallskil og lögskilarétt og vinna þessu fylgjandi varð því meiri en áður. Fjallskilareglugerð sýslunnar var mikilvæg opinber fyrirsögn um verklag. Þriðja tímabilið má síðan greina síðustu árin þegar bæði fé en þó fremur fjáreigendum og tiltækum smölum hefur fækkað. Fjallskil og smalanir til slátrunar hafa þá að mestu runnið saman í eitt – fjárbændum til sparnaðar og hagræðis.

Eins og í flestum öðrum sveitum er þó ljóst að göngur og réttir hafa verið það viðfangsefni sem allir bændur áttu sameiginlegt og gerði hvort tveggja í senn að kalla á víðtæka og skipulega samstöðu hreppsbúa og að skapa mikilvæga tilbreytingu í amstri daganna.179

179 Að stofni til birtist þessi kafli sem grein í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 2007, 47 (2007), 43-62. Hér hefur henni verið breytt.

141

VIII

Af skógarnytjum og trjárækt

Þingeyrarhreppur er ekki þekktur fyrir skógarbúskap hvað sem síðar verður. Einustu merki um náttúrulegan skógargróður í dag eru að finna við botn fjarðarins. Gildir lurkar skógviðar sjást í mýrum eru tákn um annað loftslag fyrir árþúsundum. Í Gísla sögu er getið um skóga í Haukadal, hvað sem það nú annars var sem kallað var skógur á tímum hennar. Þar segir að Gísli hafi starfað í skógum þegar Þorkell bróðir hans bar honum njósn af stefnuför Barkar digra til Haukadals. Þegar óvinir þeir sóttu að Gísla leitaði hann felustaðar í skóginum. Við eftirför sögðu leitarmenn „heldr ógreiðfært um skóginn“. Þeir leituðu „um skóginn og finna Gísla eigi“181. . . Sé frásögnin tekin bókstaflega gæti hún bent til eftirfarandi einkenna skóganna í Haukadal:

181 Íslendinga sögur Gísla saga (1981), 47-48.

Í fyrsta lagi að skógurinn hafi verið þéttvaxinn og ógreiðfær af þeim sökum rétt eins og við merkjum í dag á göngu um gamla birkiskóga, t.d. Botnsskóg. Í öðru lagi að skógurinn hafi verið það hávaxinn að fullvaxinn maður hafi getað falið sig í honum. Vissulega þarf ekki nema birkikræðu í mittishæð eða svo til þess að skríðandi maður geti leynst þar. Til þess að maður gæti leynzt uppréttur og gangandi þyrfti skógur áreiðanlega að vera tveir metrar á hæð eða meira. Í þriðja lagi mætti lesa úr frásögninni að þarna hafi verið um gagnskóg að ræða þar sem Þorkell kemur að Gísla í skógum. Gísli var sagður góður smiður og hefur því ef til vill verið að afla sér smíðaviðar þar? Hús virðast hafa verið mikil í Haukadal, þó ekki væri nema fjósið, sjá I kafla. Varla hefur verið komið með allan við í þau erlendis frá?

En svo liðu árin . . .

SKÓGAR Á ÁTJÁNDU OG NÍTJÁNDU ÖLD

Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín skráðu býli og búnaðarhag við Dýrafjörð í jarðabók sína síðasumars árið 1710 gátu þeir aðeins um skóglendi á einni jörð í Þingeyrarhreppi.182 Það var á Dröngum. Um jörðina skrifuðu þeir: „Skógur til raftviðar þrýtur mjög og fellur í fauska, en til kolgjörðar og eldiviðar nægur.“ Í Drangaskógi áttu þá tveir aðilar ítök. Það voru Hraunskirkja sem átti . . . „skógarhögg til kolgjörðar . . . á Kleifum“ . . . og Hvammur sem átti skógarítak . . . „í takmörkuðu plátsi, hann er nú að kalla gjörsamlega eyddur og ekki nýtandi til kolgjörðar.“

Hins vegar áttu þrír aðilar skógarítak í Botni: Meðaldalur „þar sem heitir Meðaldalsskógur . . . hann brúkast til kolgjörðar, en eyðist þó mjög. Líklega er það sama ítakið og nefnt er Meðaldalsteigur í landamerkjabók. Þá átti Brekka skógarítak í Botnslandi sem „brúkast til kogjörðar og hingað til til raftviðar, þó að raftviðurinn sé nú að mestu eyddur.“ Í landamerkjabók er ítakið nefnt Brekkuteigur. Þá átti kirkjustaðurinn Sandar skógarítak „millum Seljageila og Miðdæla, hann er nú mjög þrotinn og varla nýtur til kolgjörðar.“

Lýsingarnar bera það allar með sér að skógurinn hafi á öndverðri átjándu öld verið mjög úr sér genginn svo helst hafi mátt nýta hann til kolagerðar. Verður þó að minnast þess að í Jarðabók Árna og Páls mun ekki hafa verið gert meira úr verðmæti jarðahlunninda en efni stóðu til. Kolaþörfin á þeim öldum var mikil, einkum til heitdengingar sláttuljáa. Kol til þess þurftu þó að vera unnin úr sæmilega gildum skógarviði ættu þau að gefa nægan hita til dengingarinnar.183

Botnsskógur hefur verið mesta kolagerðarsvæðið í Dýrafirði, en ekki opinn öllum. Um skóginn segir í Jarðabókinni: „Skógur til raftviðar nærri eyddur, en til kolgjörðar og eldiviðar nægur, og mega ábúendur brúka skóginn so sem þeir fá við komið, ef þeir leggja sjálfir við til húsabyggingar.“

Í sóknalýsingum frá því um 1840 segir svo um Drangaskóg:

182

Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók VII (1940), 28-54.

183 Bjarni Guðmundsson: Íslenskir sláttuhættir (2015), 45-50.

143

Drangaskógur kallast inn í Dýrafjarðarbotni, þó vestanvert við fjörðinn, pláss eitt mjög víðlent. Þar hefur fyrrum tilverið með bezta skógi, en er nú sökum árlegra skriðufalla og usla sveitamanna, sem ekki eiga annarstaðar tiltölu til skógar mjög eyddur og upprættur orðinn. Hér og hvar vex þar einir og víðir.“184

Um sama leiti segir um skóglendið í Mýrahreppi norðan fjarðarins: „Enginn raftskógur vex hér heldur, nema einungis til kolagjörðar og húsatróðs,“ á nokkrum jörðum, þar sem einkum er getið um hrís til eldsneytis.185

Í þessum kafla má gæta að örnefnum þótt þau eigi mjög misgamlar rætur. Sárafá skógar-tengd örnefni er að finna í heimildum. Þegar er nefndur Drangaskógur, nafn sem ekki hefur þó komist inn í örnefnaskrár. Á Arnarnúpi er Skóghlíðarfjall utan við Arnarnúpshvilftina. Um það segir í örnefnaskrá: „Ekki eru skógarleifar þar, en sagt var, að þarna hefði verið skógur áður fyrr.“ Í utanverðum Meðaldal eru Hríshjalli og Hríshjallaklettar þar undir sem Meðaldalshæðin er hæst á svæði sem varla telst gróðurvænt. Fjarskyldari skógarörnefni má finna eins og t.d. Koleyri í landi Hóla, og Hærri og Lægri-Kolviðarhjalla í landi Saura, sagðir vera „lyng- og grashjallar“ . . . Virðist þá listinn tæmdur. Ef til vill bendir örnefnafæðin til þess að mjög langt sé síðan skógar stóðu í Þingeyrarhreppi utan Dranga, hafi þeir verið þar að ráði. Á göngu um gróðurlendi hreppsins má samt allvíða rekast á lágvaxinn trjákenndan gróður svo sem víðitegundir, eini og fjalldrapa. Innan um fjalldrapann má vera að leynist birkivísar sem kynnu að spretta upp í kjarr við alfriðun fyrir beit.

Danski grasafræðingurinn C.H. Ostenfeld skoðaði skóglendi á Vestfjörðum sumarið 1896 og þá einkum við Dýrafjörð. Hann skrifaði m.a.:

Krattene lider øjensynlig stærkt ved Faarene og vel ogsaa ved Hugning til Brændsel; Birkebuskene er mangestemmede og daarligt udviklede; ogsaa i Sammenligning med den Udvikling, som Birken faar i de saakaldte „Skove“ i Island . . . er tarvelige; sin bedste Udvikling naar de i Fjordens Bund.186

Ostenfeld taldi m.ö.o. skóginn í Botni hvað vöxtulegastan en að hann stæði þó að baki öðrum svokölluðum „skógum“ landsins; birkið væri margstofna og illa þroskað og liði auðsýnilega af ágangi sauðfjár og höggi til eldsneytis. Kjarrið í Dýrafjarðarbotni kvað hann mest vera birki, fjalldrapa, gulvíði og loðvíði sem og eini.

SKÓGANOT Á SEINNI TÍMUM

Sóknalýsingarnar sýna að umfangsmestu skógarnotin hafa verið með kolagerð og til húsatróðs. Í munnmælum lifir sú saga að kolagerð hafi verið stunduð í Botnsskógi fram á seinni hluta nítjándu aldar: Langafi skrifarans, Guðmundur Guðmundsson (1850-1888), bóndi og

184

Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 51-52.

185 Sóknalýsingar Vestfjarða II (1952), 63-94.

186 Ostenfeld, C.H.: Botanisk Tidsskrift 27 (1906), 117-118.

144

skipstjóri á Arnarnúpi, er sagður hafa kunnað að gera til kola. Á hann að hafa á hverju ári dvalið um tíma í Botni við kolagerð fyrir N. Chr. Gram kaupmann á Þingeyri.187 Má vera að þetta hafi á einhvern hátt tengst því að Hraunskirkja, sóknarkirkja Guðmundar, átti skógarítak til kolagerðar í Drangaskógi, eins og áður sagði. Kolagerð kann því að hafa verið stunduð þar í skógum allt fram yfir 1880. Þá var hins vegar farið að draga stórlega úr þörfinni fyrir kol til dengingar því komnir voru ljáir sem ekki þörfnuðust hennar heldur voru dregnir á hverfistein – skosku ljáirnir er svo voru nefndir og Torfi Bjarnason í Ólafsdal kynnti Íslendingum.

Vitað er að hrís mátti finna í þökum útihúsa er stóðu fram á tuttugustu öld. Fram á fjórða áratug hennar stóð til dæmis útihús á Kirkjubóli sem hafði skógarhrís í þaki, raunar það eina sem þannig var vitað til þar.188 Gæti þess hríss hafa verið aflað um eða nokkru fyrir aldamótin 1900. . . . „ Í

LUNDI NÝRRA SKÓGA“

Í starfssögu Kaupfélags Dýrfirðinga 19191944 eftir Kristinn Guðlaugsson á Núpi er sagt frá athyglisverðum áformum félagsins varðandi skógrækt:

Aðalskóglendið, sem til er í Dýrafirði, er í landi áðurnefndra jarða; [Botns og Dranga sem KD keypti er þær losnuðu úr ábúð 1938] er því samkvæmt áður sögðu eign kaupfélagsins að mestu. Skógurinn er smávaxinn og víða aðeins kjarr. Enda hefur ei verið um hann hirt. Félagið hefur fullan hug á að reynast þessum veikburða og vanhirta gróðri hollur húsbóndi, þótt það hafi enn í litlu verið sýnt. Sumarið 1940 skoðaði skógræktarstjórinn þetta skóglendi að tilhlutan félagsins og gaf ýmsar góðar ábendingar. Mun félagið hagnýta sér þær, til aðhlynningar skóginum, þegar út fjara örðugleikar þeir, er styrjöldin veldur.

Lítið mun hafa orðið framkvæmdum.

Í byrjun síðustu aldar lifaði áhugi fyrir trjá- og skógrækt, svo sem alkuna er. Skáld vöktu rómantískar hugmyndir og blésu mönnum krafta í brjóst. Viðfangsefnið varð eitt af baráttumálum ungmennafélagshreyfingarinnar sem þá var að skjóta rótum er rekja mátti til Norðurlanda. Dýrfirðingar voru svo lánssamir að þangað kom mann- og gróðurræktarfrömuðurinn sr. Sigtryggur Guðlaugsson. Hann sýndi m.a. með Skrúði, gróðurreit sínum á Núpi, hvers vænta mátti af framandi gróðri aðeins ef honum væru búin rétt skilyrði og að honum hlúð af kunnáttu og natni. Sú saga verður ekki sögð hér, enda mörgum vel kunn.189 Fullyrða má að starf sr. Sigtryggs hafði firna mikil áhrif á ræktun í Dýrafirði, áhrif sem enn má sjá. Nemendur Núpsskóla kynntust ræktuninni í Skrúði og reyndu síðan fyrir sér er heim kom. Það sama átti við gesti sem heimsóttu Skrúð á hásumri og sáu hverju sr. Sigtryggur og Hjaltlína Guðjónsdóttir kona hans fengu áorkað þar í grýttri en sólvermdri hlíðinni innan við Núp.

Hin sýnilegu áhrif aldamótahugsjóna og Skrúðs á Núpi fólust m.a. í því að trjá- og annarri yndisrækt var komið upp á nokkrum bæjum. Máske voru það nokkur straumhvörf – að

187 Sæmundur K. Jónsson: „Hugleiðing um eyðingu skóga“. (1979), 55-56.

188 Frásögn Knútar Bjarnasonar á Kirkjubóli.

189 Sigtryggur Guðlaugsson: Skrúður á Núpi Græðsla og gróður í 40 ár. (2004).

145

tekið var til við ræktun sem ekki var aðeins til fæðis og klæða heldur ræktun eingöngu vegna huglægra áhrifa, fegurðar og yndis.

Heilstætt eða skipulegt lit yfir yndisræktun í hreppnum hef ég ekki. Hins vegar sat ég með skriffæri hjá móður minni, Ásdísi Bjarnadóttur, 27. apríl 1985, og skráði frásögn hennar, sem ég felldi síðan saman í eftirfarandi texta með fáeinum eigin viðaukum: Hjördís Hall [1895-1979] á Þingeyri sótti sumarnámskeið í Gróðrarstöðinni á Akureyri árið 1922 er stóð frá 1. maí til 15. september.190 Hún vann skrifstofustörf hjá Guðmundi J. Sigurðssyni en leiðbeindi um garðyrkju á Þingeyri. Hún kom víðar við sögu; var forstöðukona garðyrkju hjá kvenfélaginu Brynju á Flateyri sumarið 1933.191 Vorið 1934 var hún ráðin til „garðyrkju og trjáræktar á Ísafirði“ hjá Blómaog trjáræktarfélagi Ísfirðinga192 og á sjötta áratugnum annaðist hún leiðbeiningar um gróður hjá Blómabúðinni Flóru í Reykjavík.193

Dagrún Friðfinnsdóttir á Kjaransstöðum setti um 1930 birki þar heima sem hún hafði sótt inni í Botn. Við fremri bæinn á Brekku setti Guðrún Steinþórsdóttir tvö reynitré, skömmu eftir að bæjarhúsið var byggt, um 1930. Á Hofi var settur garður framan við bæinn, það mun Björgvin Gunnarsson hafa gert um svipað leiti og Umf. Vorboði hóf trjáplöntun, sjá síðar. Á Kirkjubóli var trjám plantað framan við bæinn árið 1924 eða 1925. Hjördís Hall pantaði þau frá Gróðrastöðinni á Akureyri; birki, reynivið og lerki. Hjördís setti trén niður og leiðbeindi Margréti Bjarnadóttur heimasætu á Kirkjubóli í fyrstu við ræktunarverkin. Í Hólum setti Sigrún Árnadóttir húsfreyja þar trjá- og blóma- og matjurtgarð framan við bæinn fyrir 1920. Í fyrsta minni skrifarans var það afar fallegur garður að skipulagi og ræktun. Í Meðaldal mundi móðir mín eftir einu tré, þar framan við hjallinn, varið grindverki, rétt eins og hún mundi frá Sveinseyri. Í Meðaldal var það blaðmikill víðir sem átti sér samsvörun í Yztabæ enda fjölskyldutengsl á milli bæjanna. Það mun svo hafa verið um 1910-1911 sem þær systur Guðbjörg og Sigríður Ólafsdætur frá Miðbæ komu með fyrstu trén frá Núpi og settu trjágarð þar framan við bæinn; sóttu síðar fleiri. Þar urðu tré afskaplega gróskumikil. Aspartré þar náði tæplega 20 m hæð sumarið 2019.194 Jón Þorberg Eggertsson mun hafa sett tré ofan við Sæbóls-bæinn í tengslum við skóggræðslu Umf. Gísla Súrssonar. Kvenfélagið Hugrún setti dálítinn trjáreit framan við Samkomuhús sitt, laust fyrir 1940. Á fleiri stöðum í Haukadal má nú sjá prýðilegan vöxt trjáa. Utan Eyrarófæru var fátt um trjárækt, þótt á síðari tímum hafi komið í ljós að trjágróður þrífst þar líka með ágætum, sbr. lundina sem nú má sjá í Hrauni.

Dönsku kaupmennirnir reyndu garðyrkju á Þingeyri, svo sem nefnt er á öðrum stað, bls. 59. Þegar leið á tuttugustu öldina mátti sjá myndarleg tré vaxa þar í fallegum görðum – ræktun sem gaf þorpinu og gefur afar þekkilegt yfirbragð. Móðir mín minntist bjarkar ofan við Vertshúsið og Ingibjörg Hákonardóttir setti birki og ribs ofan við Gamla spítalann. María Ísaksdóttir, kona sr. Þórðar Ólafssonar, setti reynitré

190

Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 20.-21. (1922), 29. 191

Morgunblaðið 26. október 1934. 192

Morgunblaðið 29. apríl 1934. 193 Morgunblaðið 12. apríl 1958. 194 https://www.bb.is/2019/06/haesta-tre-vestfjarda-er-2006-metrar-ad-haed/

146

og björk í garð innan við hús þeirra og muna má garðyrkjustörf Hjördísar Hall sem fyrr var nefnd. Laust fyrir 1930 var farið að planta trjám í kirkjugarðinn á Þingeyri. Þar reis síðan gróskumikill trjálundur. Upp úr 1950 gerðust sr. Stefán Eggertsson og Þorgeir Jónsson héraðslæknir athafnasamir trjáræktendur og fallegur varð garðurinn hennar Guðmundu Gunnarsdóttur í Tröð. Á Þingeyri voru margir snotrir húsagarðar áhugasams ræktunarfólks, einhverjir þeirra orðnir til með atbeina Hjördísar Hall. Á utanverðum Þingeyrarodda var lengi fjöldi samliggjandi kartöflugarða sem yrktir voru ár hvert.

Vöxtulegur trjágróðurinn í kirkjugarðinum á Þingeyri haustið 2022.

Framanskráð yfirlit má ekki taka sem tæmandi, fremur sem dæmi um vaxandi áhuga fyrir trjárækt og garðyrkju fólki til yndis og umhverfisbóta í anda tímanna. Vel getur okkur mæðginum hafa yfirsést og gleymt einhverjum óverðugum og á því biðjum við afsökunar.

Með ungmennafélögunum tveimur sem stofnuð voru í hreppnum, Umf. Vorboða og Umf. Gísla Súrssyni, vaknaði áhugi á skógrækt. Stefán Guðmundsson bóndi í Hólum gaf þar land, líklega einn hektara, ofan við holtin þar sem nú er innri endi flugvallarins. Var þar komið í dálítið skjól fyrir vindum úr hafi. Þar plöntuðu Vorboða-félagar birki, að mestu, sem var að koma til þegar leggja þurfti landið undir flugvöll laust fyrir 1960. Þar voru líka um tíma ræktaðar kartöflur ungmennafélaginu til tekjuöflunar. Tvær þrjár raðir birkis voru komnar þar neðst í reitnum en þeim fór lítt fram, sennilega sakir magurs jarðvegs. Trjáræktin var færð inn að Brekku þar sem Skógræktarfélagið tók síðar við að planta, svo vaxið hefur upp nokkur teigur grenis og furu. Þar setti Skógræktarfélag Vestur-Ísfirðinga m.a. 1000 birkiplöntur árið 1952. Bætt var í lundinn um og eftir 1960 og þá barrplöntum. Með sama hætti haslaði Umf. Gísli Súrsson sér land framan til við Brúar- og Þorgrímsholtin í Haukadal og plantaði þar barrplöntum, líklega um miðja öldina. Hefur greni sýnt þar býsna góð þrif þótt lítt hafi um lundinn verið hirt frekar en ungmennafélagslund Vorboða.

Undir lok tuttugustu aldar höfðu mörg viðhorf breyst hvað snerti trjá- og skógrækt hérlendis. Má sérstaklega nefna tvennt þess efni í sagnabálki um Þingeyrarhrepp. Annars vegar er það verkefnið Landgræðsluskógar. Í landi Sanda, á svæðinu innan við gamla kirkjustaðinn, var markað landssvæði sem hafin var trjáplöntun í m.a með tilstyrk Toyota umboðsins. Einkaaðilar hafa einnig lagt fram krafta sína til plöntunarinnar. Þarna er nú farið að hilla undir víðan skóg

147

Guðbrandur Stefánsson í Hólum stendur hér við nýplantað skjólbelti þar, varið af fornum túngarði á aðra hlið en netgirðingu á hina (ljósm.: Sæmundur Þorvaldsson).

sem bætir þetta land og þrífst sjálfur prýðilega. Skógræktarsvæðið er þegar orðinn vinsæll umferðar- og áningarstaður útivistarfólks.

Hitt var það að héraðsverkefnið Skjólskógar kom til sögu árið 1996. Á vegum þess var stofnað til skjólbelta- og skógræktar á bújörðum á Vestfjörðum. Má nú á þremur bæjum í Þingeyrarhreppi sjá dæmi um slíka ræktun: Á Ketilseyri er bærinn þegar vafinn skógi, sem Sigurður Friðfinnsson, áður bóndi þar, plantaði á efri árum sínum. Skjólbelti voru sett í Hólum og á Kirkjubóli. Þá er í undirbúningi skógrækt á Bakka.

148

IX Heimildir

PRENTAÐAR HEIMILDIR:

Alþingistíðindi

Arngrímur Fr. Bjarnason: Vestfirzkar þjóðsögur II. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1954-1956.

Arnór Sigurjónsson: „Þættir úr íslenzkri búnaðarsögu“. Árbók landbúnaðarins 1970, 11-100.

Arnór Sigurjónsson: Vestfirðingasaga. Leiftur. Reykjavík, 1975.

Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók VII. Hið íslenska fræðafjelag. Kaupmannahöfn, 1940.

Bjarni Guðmundsson: Úr aldarsögu Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps 1889-1989. Bf. Þingeyrarhrepps, 1990.

Bjarni Guðmundsson: „Guðmundar saga og Margrétar“. Frá Bjargtöngum að Djúpi. 4 (2001), 117-149. Vestfirska forlagið.

Bjarni Guðmundsson: „„ef vaxinn ertu hrjóstrum þessum af.“ Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 52 (2012), 89-105.

Bjarni Guðmundsson: Íslenskir sláttuhættir. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík, 2015.

Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður við Dýrafjörð“. Rit LbhÍ nr. 131, 2020.

Björn M. Olsen: „Um kornyrkju á Íslandi til forna.“ Búnaðarrit (1910), 121-125.

Bragi Sigurjónsson: Göngur og réttir III. Skjaldborg. Akureyri, 1985.

Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára 1837-1987 1 (Ritstj.: Hjörtur E. Þórarinsson, Jónas Jónsson og Ólafur E. Stefánsson), Búnaðarfélag Íslands. Reykjavík, 1988.

Daugstad, Karoline: „Mellom romantikk og realisme – om seterlandskapet som ideal og realitet“. Rapport 16/99. Bygdeforskning (dr.avhandling), 1999.

Fræðslurit Búnaðarfélags Íslands (Höf.: Agnar Guðnason og Ásgeir L. Jónsson), nr. 22, 1956.

Gísli Gestsson: „Gröf í Öræfum“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags. 56 (1959), 5-87.

Grágás. Mál og menning. Reykjavík,1992.

Guðmundur Bernharðsson: Bærinn í hlíðinni. Útg. höfundar. Reykjavík, 1985.

Gunnar Guðmundsson: „Ég er hagfæringur“. Heima er bezt (viðtal), 34 (9-10), (1984), 272-283.

Gunnar Hvammdal Sigurðsson: „Guðrún Helga Kristjánsdóttir“. Morgunblaðið 15. nóvember 1969.

Hagskinna (1997) og Hagskýrslur Íslands. Hagstofa Íslands. Reykjavík.

Halldór Kristjánsson: „Guðmundur norðlenski“. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 33 (1992), 67-116.

Hallgerður Gísladóttir: Íslensk matarhefð. Mál og menning. Reykjavík, 1999.

Hans Kuhn og Reinhard Prinz: Úr torfbæjum inn í tækniöld II. Bókaútgáfan Örn og Örlygur ehf. Reykjavík, 2003.

Henderson, Ebenezer: Ferðabók. Útg. ekki getið. Reykjavík, 1957.

Hólmgeir Björnsson og Þórdís Anna Kristjánsdóttir (ritstj.): „Jarðræktarrannsóknir 1998“. Fjölrit Rala nr. 198, 1999.

Hyldbakk, Hans: Bygdesoga for Surnadal I. Surnadal kommune, 1957.

Hyldbakk, Hans: Setrane i Surnadal. Útg. höfundar. Surnadal, 1998.

Íslendinga sögur I. Landnámabók. Íslendingasagnaútgáfan, 1981.

Íslendinga sögur V. Gísla saga. Íslendingasagnaútgáfan, 1981.

149

Íslendinga sögur VI. Grettis saga Ásmundarsonar. Íslendingasagnaútgáfan, 1953.

Kristinn Guðlaugsson, Jóhannes Davíðsson og Valdimar Gíslason: Kaupfélag Dýrfirðinga 1919-1979. KD, Þingeyri, 1979.

Kristján Eldjárn: „Hugleiðing um land og þjóð“. Búnaðarblaðið Freyr, LXXVII (1981), 10-11.

Kristján G. Þorvaldsson: „Vestur-Ísafjarðarsýsla“. Árbók Ferðafélags Íslands MCMLI (1951).

Landmælingar Íslands: Lb Nr 3a /1913, Bl 12.n.v.

Ljósmyndir gamla tímans. Þingeyri. Bókaforlagið Líf og saga, 1989.

Lýður Björnsson: Saga sveitarstjórnar I. Almenna bókafélagið. Reykjavík, 1972.

Lýður Björnsson: Saga sveitarstjórnar II. Almenna bókafélagið. Reykjavík, 1979.

Magnús S. Magnússon: Landauraverð á Íslandi 1817-1962. Hagstofa Íslands. Reykjavík, 2003.

Mogstad, E.: „Dei norske stadnamna i Gísla saga“. Semesteroppgåve i nordisk språk, Univ. i Oslo, 2003.

Ostenfeld, C.H.: „Skildringer af Vegetationen i Island. III-IV. III. Om Vegetationen paa Islands Nordvesthalvø“. Botanisk Tidsskrift 27 (1906), 111-121.

Ólafur Þ. Kristjánsson: „Vinnubrögð í Holtsseli“. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 22 (1979), 137-145.

Ólafur Olavius: Ferðabók I. Bókfellsútgáfan hf. Reykjavík, 1964.

Ólafur Ólafsson: „Nokkur atriði úr Gísla sögu Súrssonar.“ Helgafell Janúar-Júní 1954, 75-81.

Ólafur Ólafsson: „Endurminningar úr heimahögum“. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 4 (1959), 85-107.

Schumann, Johan: Faarehold i Norge II Praktisk faarestel. Fabritius. Christiania, 1899.

Sigtryggur Guðlaugsson: Skrúður á Núpi Græðsla og gróður í 40 ár. Framkvæmdasjóður Skrúðs, 2004.

Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands IV. Hið ísl. bókmenntafélag og Sögufélag. Reykjavík, 1989.

Sigurður Sigurðsson: „Landbúnaðurinn á Vestfjörðum“. Sérprentun úr Skýrslu Búnaðarsambands Vestfjarða 1918 og 1919.

Sigurður Vigfússon: „Rannsókn um Vestfirði 1882.“ Árbók Hins ísl. fornleifafélags. (1884), 1-70.

Skýrslur um landshagi.

Sóknalýsingar Vestfjarða II. Samband vestfirskra átthagafélaga. Reykjavík, 1952.

Skrá yfir sauðfjármörk í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1943. Stjórnartíðindi.

Sæmundur K. Jónsson: „Hugleiðing um eyðingu skóga“. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1979, 55-56. Vestfjarðarit I og II. Útgáfufélag Búnaðarsambands Vestfjarða, 1999. Þórður Flóventsson: Laxa- og silungaklak á Íslandi. Fjölritunarstofa Pjeturs G. Guðmundssonar. Reykjavík, 1929.

Øye, Ingvild: „Utmarka i vestnordisk perspektiv.“ From nature to script. (Ritstj.: Helgi Þorláksson og Þóra Björg Sigurðardóttir). Rit VII. Reykholt. Snorrastofa, 2012, 49-78.

Ótalin eru nokkur blöð og tímarit, sem fróðleikur var sóttur í; þeirra er getið í neðanmáls-greinum. Þær eru flestar fengnar úr gagnasafninu www.timarit.is

AÐRAR HEIMILDIR:

Bjarni Guðmundsson: „Fjárskipti”. Gullastokkur; óbirt greinasafn Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum (2021). Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps; ljósrit og endurrit af ýmsum skjölum félagsins í vörslu BG. Þórir Örn Guðmundsson á Þingeyri sendi BG einnig ljósrit (pdf) af fyrstu fundargerðabók félagsins, sem nær yfir árin

150

1890-1940.

Dagbók Margrétar Bjarnadóttur frá Kirkjubóli, í vörslu BG.

Dagbók Sighvatar Grímssonar Borgfirðings; Lbs. 2374 4to – 2377 4to. Sjá handrit.is/manuscript/view/is . . .

Fundargerðabók hreppsnefndar Þingeyrarhrepps. Flest gögn Þingeyrarhrepps skoðaði BG á meðan þau voru á skrifstofu hreppsins á Þingeyri. Gögnin eru nú komin í Skjalasafnið á Ísafirði: Þingeyrarhreppur Skjalanr. 5207-5210, askja 1024-1025.

Guðmundur S. Magnússon frá Hrauni. Bréf til BG dags. 10. apríl 1998 og 2. febrúar 1999.

Jónatan Hermannsson í greinargerðum til BG 17. maí 2017 og 21. júní 2018.

Kjartan Ólafsson: Firðir og fólk 900-1900. Úr vinnuhandriti. Þingeyrarhreppur. Ljósrit án ártals.

Lárus Hagalínsson frá Bræðratungu. Greinargerð til BG um byggð í Hvammi 21. ágúst 2021 og ýmis önnur atriði send í töluvubréfum.

Skjalasafnið Ísafirði: Einkaskjalasafn Sigurðar E. Breiðfjörð. Teikningar.

Ottó Þorvaldsson frá Svalvogum. Bréf til BG dags. 14. maí 1981.

Örnefnaskrár úr Þingeyrarhreppi í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

HEIMILDARMENN OG HJÁLPARHELLUR:

Ásdís Bjarnadóttir frá Kirkjubóli. †

Bergþóra Valsdóttir í Reykjavík.

Elís Kjaran Friðfinnsson frá Kjaransstöðum. †

Friðbert Jón Kristjánsson í Hólum.

Guðbrandur Stefánsson í Hólum. †

Guðmundur Grétar Guðmundsson á Múla.

Guðmundur Jónsson frá Kirkjubóli. †

Guðmundur S. Magnússon frá Hrauni. †

Guðríður Gestsdóttir frá Sæbóli. †

Gunnar Hvammdal frá Hæsta-Hvammi. †

Gunnar Guðmundsson frá Hofi. †

Gunnar Guðmundsson frá Kirkjubóli

Helga Kristjánsdóttir í Reykjavík. †

Helgi Magnús Gunnarsson frá Ásgarðsnesi.

Jens Kr. Gestsson frá Miðbæ. †

Jóhann Sigurðsson í Lægsta Hvammi. †

Jóhanna Erla Pálmadóttir á Akri, A.-Hún.

Jón Gíslason frá Mýrum. †

Jón Friðrik Matthíasson frá Haukadal. †

Knútur Bjarnason frá Kirkjubóli. †

Kristín Jónsdóttir frá Vésteinsholti.

Kristján Guðmundsson á Akranesi (frá Höll og Kirkjubóli). †

Kristján [Guðberg Kristján] Gunnarsson frá Miðbæ.

Kristján Helgi Kristjánsson frá Meðaldal. †

Lárus Hagalínsson frá Bræðratungu.

151

Magnús B. Jónsson á Hvanneyri.

Margrét Hallmundsdóttir á Rein í Ölfusi.

Ómar Dýri Sigurðsson á Ketilseyri.

Sigrún Guðmundsdóttir á Kirkjubóli.

Sigþór Gunnarsson á Þingeyri.

Steinar Hasselø í Surnadal, Noregi.

Sæmundur Þorvaldsson á Lyngholti/Læk.

Þórir Örn Guðmundsson á Þingeyri.

Þórunn Edda Bjarnadóttir á Hvanneyri.

Þráinn Þorvaldsson í Reykjavík.

152
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.