18 minute read

Refabúið á Hvanneyri 1937-1949

Nýsköpunartilraun í kjölfar kreppu

AÐDRAGANDINN Eitt af þeim ráðum sem gripið var til þegar mæðiveiki hóf að herja á sauðfé og ógna afkomu bænda á fjórða áratug síðustu aldar, auk annarra efnahagserfiðleika er þá steðjuðu að, var að reyna loðdýrarækt. Búgreinin var þó ekki ný hérlendis því fljótlega upp úr aldamótunum 1900 hófu nokkrir bændur að reyna markaðssetningu skinna (belgja) af villtum refum. Að norskri fyrirmynd tóku menn að fanga yrðlinga á grenjum og ala þá upp í eyjum uns þeir höfðu fengið hæfilega þroskað skinn. Aðferðin var m.a. reynd í Elliðaey á Breiðafirði og Grímsey á Steingrímsfirði. Upphaf þessa háttar var á árunum 1910-1915 en þegar árið 1907 fréttist af refaeldi vestur á Bíldudal. Það var svo á árunum 1929 og 1930 að flutt voru til landsins ræktuð loðdýr.

Advertisement

Loðdýrarækt komst á dagskrá hjá Búnaðarfélagi Íslands og fyrir tilstuðlan þess var maður sendur til Noregs að kynna sér refarækt þar. Það var Guðmundur Jónsson frá Ljárskógum í Laxárdal, sem síðan var ráðinn ráðunautur félagsins í búgreininni frá vorinu 1934. Stofnað var loðdýraræktarfélag og fenginn norskur ráðgjafi til þess að kynna sér íslenskar aðstæður til eflingar greininni. Árið 1937 voru sett ný lög um refaveiðar og loðdýrarækt og í þeim var m. a. heimild til þess að skipa ráðunaut í loðdýrarækt, launaðan beint úr ríkissjóði. Landbúnaðarráðherra skipaði H. J. Hólmjárn til starfa, er þannig varð loðdýraræktarráðunautur ríkisins. Aukið líf færðist í búgreinina, útflutningur skinna óx fram að hámarki er náðist árið 1943. Úr því dalaði hann enda heimsstyrjöldin búin að breyta markaðsmöguleikum greinarinnar. Með sjötta áratugnum má segja að útflutningur loðskinna væri að litlu sem engu orðinn. Þetta er upphafssagan í stuttu máli.

Til Íslands bárust fregnir af því að Norðmenn hefðu náð undra góðum árangri í ræktun refa og sölu skinna af þeim. Meðal annars hafði Norðmaðurinn Olmer Brager-Larsen, talinn einn

300 250 200 150 100 50 0

refarækt - fjöldi fregna

Súluritið gefur hugmynd um stöðu refaræktarinnar á 20. öld. Súlurnar tákna hve oft á áratug orðið refarækt (nf) kemur fyrir í gagnasafninu timarit.is árin 1900-1969: Fjórði áratugurinn var tími búgreinarinnar. Leit gerð 14. maí 2020.

fremsti sérfræðingur heimsins í lodýrarækt, verið á Íslandi um þriggja vikna skeið síðsumars árið 1935 og m. a. haldið fyrirlestra um greinina. Til Noregs voru silfurrefir fluttir frá Kanada árið 1914 og um miðjan fjórða áratuginn var útflutningur refaskinna orðinn stærsti hluti útflutnings norskra landbúnaðarafurða. Í grein við hlið ritstjórnargreinar Morgunblaðsins 7. apríl 1937 sagði t.d. að í Noregi væru refabúin um 15 þúsund; næmi framleiðslan um 25 milljónum skinna og fengju refaeigendur að jafnaði 150 kr. fyrir skinnið, „í stöku tilfellum upp í 700 kr.“ Ekki hafði þróun refaræktarinnar þar þó gengið án áfalla en reynsla hafði safnast. „Þessa reynslu verðum við að hagnýta okkur út í ystu æsar,“ skrifaði Morgunblaðið. „Ef það er gert þá ætti silfurrefaræktin að geta orðið hjer mjög arðvænleg atvinnugrein í framtíðinni.“ Í ljósi þeirrar stöðu sem helsta búgrein bænda, sauðfjárræktin, var í um þær mundir sakir mæðiveikinnar, má ímynda sér að fréttir af reynslu Norðmanna hafi hvatt áhugasama bændur og forystumenn þeirra til þess að reyna sömu leið.

Í framhjáhlaupi má nefna það á sömu síðum dagblaðanna og lesa mátti fréttir af vexti og viðgangi refaræktar voru m.a. fregnir um vaxandi spennu á milli Þjóðverja og nágrannaþjóða þeirra vegna stöðu Gyðinga í Þýskalandi – vísir að því sem með sínum hætti átti eftir að vera banabiti búgreinarinnar í fyllingu tímans.

SAMVINNUBÚ TIL REFARÆKTAR Bændur í Andakílshreppi skáru sig ekki úr hópi þeirra er sáu þörf fyrir nýjar afkomuleiðir. Mjólkurframleiðsla var efld, enda mjólkursamlag nýstofnað í Borgarnesi, garðyrkja við jarðhita lofaði góðu, og svo var það refaræktin: Þetta sama vor, nánar tiltekið 29. apríl 1937, héldu þeir árlegan aðalfund búnaðarfélags síns. Á fundinum hóf formaður félagsins, Guðmundur á Hvítárbakka, máls á stofnun samvinnubús um refarækt. Málinu virðist hafa verið vel tekið og eftir nokkrar umræður var kjörin nefnd „til þess að rannsaka málið og undirbúa það til vorhreppsfundar.“ Í nefndina voru kosnir þeir Runólfur Sveinsson skólastjóri á Hvanneyri, sr. Eiríkur Albertsson á Hesti og Sigurður Jakobsson bóndi á Varmalæk. Málið kom aftur til umræðu á næsta vorhreppskilaþingi, eins og ákveðið hafði verið. Runólfur hafi framsögu um málið fyrir hönd nefndarinnar. Hafði hann „talað við bankastjóra Búnaðarbankans og Gjaldeyrisnefnd, og gaf ýmsar upplýsingar um málið.“ Á fundinum var „ákveðið að fela nefndinni að starfa áfram og semja uppkast að lögum fyrir félagið, og boða til stofnfundar.“ Gekk það eftir.

Hér má skjóta því inn að refarækt var ekki með öllu óþekkt í Borgarfirði á þessum árum því árið 1927 var stofnað refaræktarfélag, sem aðsetur hafði í Svignaskarði, og var hlutverk þess að rækta íslenska blárefi.

Og Runólfur hafði áfram forystu í málinu, án efa með dyggum atbeina Guðmundar á Hvítárbakka. Til varð Loðdýraræktarfélag Andakílshrepps og af óþekktum ástæðum var refabúinu valinn staður á Hvanneyri. Mannvirki refabúsins voru reist á klettarindunum skammt sunnan við hjáleiguna Tungutún. Má segja að þannig hafi það staðið utan túns

og ekki í umferðinni um eða heim á skólastaðinn; áreiðanlega gert með nokkrum vilja til þess að dýrin yrðu fyrir sem minnstri utanaðkomandi truflun. Runólfur skólastjóri var nýkominn frá námi í Danmörku og hefur því eflaust verið aflögufær um ýmsa þekkingu á greininni sem til þurfti. Ráðist var í smíði búranna. Bændur í hreppnum lögðu fram vinnu við smíðina, sumir svo mörgum dagsverkum skipti.Fyrstu mannvirkin voru búr, reist sem grind úr timbri klædd með vírneti. Trékassi var í hverju búri þar sem refirnir gátu leitað skjóls. Og fleiri mannvirki bættust við eins og brátt verður vikið að. Komið var upp öflugri girðingu umhverfis „refagarðinn“ svo eiginlega svipaði mannvirkinu til fangelsis, megi marka myndir af því.

STARFSMENN REFABÚSINS – HEIMILDARMENNIRNIR Áður en lengra er haldið er rétt að nefna helstu heimildarmenn að þessari sögu. Frásagnir um refabúið komu upp við öflun heimilda um Búnaðarfélag Andakílshrepps vegna starfssögu þess og aldarafmælis árið 1981. Mér fannst framtakið forvitnilegt og minntist líka leifa af refabúinu sem lágu undir tönn tímans sunnan túns á fyrstu árum mínum á Hvanneyri í byrjun sjöunda áratugs síðustu aldar. Mér datt því í hug að afla frekari fróðleiks um málið og eftir nokkra leit hafði ég upp á þremur mönnum sem unnið höfðu við refabúið og voru þá enn á lífi. Ég sendi þeim lista með nokkrum spurningum sem þeir svöruðu vel og vinsamlega, hver með sínum hætti. Þessir menn voru:

Agnar Leví Jónsson (1917-2006) frá Heggsstöðum, V.-Hún.: Starfaði frá hausti 1937 til hausts 1938. Bergur Þórmundsson (1915-1991) frá Bæ, Borg.: Starfaði frá hausti 1938 til jóla 1941. Hjalti Jósefsson (1916-2007) frá Stórhól í Víðidal, V.-Hún.: Starfaði frá hausti 1941 út árið 1942 og „leiðbeindi og hjálpaði fram eftir 1943.“

Það sem hér fer á eftir er fyrst og fremst byggt á upplýsingum þeirra félaganna, en auk þess vill svo vel til að varðveist hafa nokkrar ljósmyndir úr og af refabúinu sem fyrsti stjórnandi þess tók, Norðmaðurinn Trond H. Gravem, en af honum segir brátt nánar.

Loðdýraræktarfélag Andakílshrepps var stofnað sem hlutafélag og áttu flestir bændur í hreppnum hlut í því. Hlutirnir miðuðust við dýr, skrifaði Bergur, og „var algengt að 1-3 dýr væru í hlut.“ Dæmi virðast hafa verið um að menn ættu einstök dýr. Þannig gat Agnar um eina læðu sem utanfélagsmaður átti í búinu og að veturinn 1938-39 hafi verið „5 fóðradýr, sem sr. Eiríkur [Albertsson] á Hesti átti og kom þar í hirðingu.“ Árið 1938 var tekið 15.000 kr. lán til búsins með ábyrgð Andakílshrepps sennilega vegna stofnkostnaðar búsins.

REFABÚIÐ REIST Nú kemur til sögunnar Norðmaðurinn Trond H. Gravem, þá tuttugu og sex ára gamall. Hann kom frá Romfo, litlu sveitaþorpi í Sunndal á Mæri. Gravem hafði rekist á blaðaauglýsingu, skrifaði Agnar . . .

. . . þar sem óskað var eftir tveim refahirðum að refabúum á Íslandi. Búnaðarfélag Íslands hafði milligöngu um ráðningu mannanna, en þeim var ætlaður staður á Hvanneyri og Melstað í Miðfirði, en þar var einnig verið að koma upp refabúi. Það var nánast tilviljun að Gravem lenti að Hvanneyri, því sá sem fór að Melstað var honum samskipa til Reykjavíkur en dvalarstaður þeirra ekki ákveðinn endanlega fyrr en eftir komu þeirra til landsins.

Laun Gravems voru í byrjun um 100,- á mánuði, frítt fæði, húsnæði og þjónusta en hækkaði fljótlega nokkuð. Gravem var ekki langskólagenginn en þó víða vel að sér, t.d. góður reikningsmaður, ágætur trésmiður, hafði fallega rithönd, með afbrigðum þrifinn og reglusamur. Hann hafði prýðilega þekkingu á loðdýrarækt, sem hann hafði aflað sér með langri reynslu í hirðingu og lestri fagrita. Hann var sérlega áhugasamur í starfi og það var honum metnaðarmál að refabúið á Hvanneyri mætti eflast, dafna og verða til fyrirmyndar.

Agnar taldi að Gravem hafi að mestu haft umsjón með allri smíði, bæði búra og læðukassa, en kassarnir sem dýrin komu í frá Noregi voru látnir duga fyrir steggina. Félagsmenn lögðu fram vinnu við smíðarnar, eins og fyrr sagði, m.a. Sigurður Sigurðsson á Ytri-Skeljabrekku og Jón Jónsson í Árdal, en einnig heimamenn á Hvanneyri þeir Ingimar Guðmundsson, Magnús Hrólfsson og Hjörtur ráðsmaður Jónsson. Fleiri voru nefndir til sögunnar svo sem þeir Bæjarbræður, Júlíus og Bergur Þórmundssynir. Í desember 1937 var lokið við að smíða dýrabúrin og koma upp girðingunni umhverfis þau. Gravem hannaði hvolpahúsið (uppeldishús, sjá mynd) og byggði það með aðstoð annars manns vorið 1938. Kapp var lagt á að koma húsinu upp í tæka tíð til þess að hýsa fyrstu hvolpana, þegar kom að því að skilja þá frá læðunum.

Agnar kvað Gravem einnig hafa hannað og smíðað öll drykkjarílát, sem til búsins þurfti: „Þau voru sérlega hentug og betur gerð en önnur, sem ég hef séð,“ skrifaði Agnar. Er frá leið var útbúin svokölluð fæðingar-„klinik“, en þar voru læðurnar hafðar þegar þær voru að gjóta þannig að eftirlit væri auðveldara með þeim. Sama átti við um „útsýnisturninn“ er Agnar kallaði svo, hann kom síðar. Sennilega hefur hann auðveldað eftirlit með dýrunum í búrum sínum sem og svæðinu innan vörslugirðingarinnar.

Frétt í Tímanum 8. nóvember 1938 er til marks um

áhuga á refarækt í Borgarfjarðarhéraði um þær mundir:

Refabú eru sex í uppsveitum Borgarfjarðarsýslu. Eru þar silfurrefir, blárefir og Alaska-refir. Hið elzta mun vera að Litlu-Drageyri í Skorradal, en önnur að Múlakoti, Húsafelli, Vilmundarstöðum, Hvanneyri og Sturlureykjum. Sturlureykja-búið eiga fimmtán menn sameiginlega. Fyrir vestan Hvítá eru mörg refabú og standa sum þeirra á gömlum merg. Frá Svignaskarði voru í ár fluttir út blárefir til Svíþjóðar. Loðdýrasýning er nýafstaðin í Borgarnesi og þótti bera vott um mikla framför loðdýrastofnsins í héraðinu. Stórum fleiri dýr verða sett á að þessu sinni heldur en áður hefir verið.

DÝRASTOFNINN Á BÚINU Dýrin til refabúsins komu öll, taldi Agnar, frá þekktum loðdýrabúum í Noregi, flest frá Per Svartstad á Svartstad Pelsdyrgård, skammt frá Lillehammer, og nokkur frá Ole Ruud, sem mun hafa verið í Hallingdal. „Öll dýrin voru á fyrsta aldursári, allt silfurrefir. Þetta voru góð dýr, sérlega hreinlit og flest alsilfur sem kallað var (1/1), en nokkur ¾ silfur. „Mig minnir“, skrifaði Agnar ennfremur, „að kaupverð dýranna hafi verið að meðaltali um 500,- krónur auk flutningskostnaðar, en algengasta skinnaverð á erlendum uppboðum mun þá hafa verið 70,- - 160,- krónur. Til gamans má geta þess að meðal lambsverð var á þessum tíma nálægt 20,- krónum, svo að um það bil 25 lömb mun hafa þurft á móti einum ref, (lífdýri).“ Agnar minnti að dýrin hafi verið um tuttugu fyrsta veturinn, skipt þannig að tvær læður voru á móti einum stegg – refatríó eins og sumir munu hafa kallað það.93

Haustið 1938 voru keyptir blárefir til búsins, nokkrir þeirra sóttir norður í Þingeyjarsýslu, og munu hafa verið hvolpar af grenjum, taldi Agnar, frá því um vorið og því óræktaðir; tvær læður og tveir steggir. Einnig voru keyptir á sama tíma 13 Alaskablárefir, 10 læður og 3 steggir. Misjafnlega gekk tímgun hjá þeim því aðeins ein læða fæddi lifandi hvolpa, níu að tölu sem allir komust upp.

Nákvæmar skár voru jafnan haldnar um dýrin á búinu og ættartölur fylgdu þeim sem keypt voru frá Noregi. Skemmtun höfðu refahirðarnir af því að gefa læðunum nöfn, og þá meðal annars eftir kvenfólkinu sem var á Hvanneyri: Hanna, Gauja, Gýgja, Hilda, Sigga, Magga, Begga o.s.frv. Agnar nefndi líka Lóu og skrifaði: „hún var fallegasta læðan á búinu, lítil vexti, alsilfruð með mjög ljósan og þéttan, glansandi feld, smáleit og afar fríð, róleg í fasi og íhugul. Hún var frá Ole Ruud.“ Svo sem gerist hjá góðum gripahirðum hafa augljóslega myndast sterk tengsl á milli dýra og hirðis. Nöfn steggjanna mundi Agnar einnig: Óðinn, Óli, Ólafur, Óskar, Óttar og Ófeigur . . . „Upphafsstafurinn Ó í nafni steggjanna táknaði fæðingarár dýranna, þ. e. að viðkomandi væri fæddur 1937. “

FÓÐRIÐ OG FÓÐRUNIN Agnar sagði uppistöðu fóðurs dýranna hafa verið kjöt, en einnig var gefið refakex, fiskmjöl, mjólk, lýsi, steinefnablanda (mineraler) og grænmeti (grænkál), þegar var til. Fiskur og fiskimjöl var keypt frá Akranesi, en kjöt fengið frá Hvanneyrarbúinu, aðallega hrossakjöt,

Refahirðarnir bregða á leik. Til hægri er Trond Gravem, hinn norski bústjóri, og hefur refatöng sína á Bergi Þórmundssyni frá Bæ, sem var refahirðir á búinu. Myndin gæti hafa verið tekin árið 1939. (THG)

93 Í umræðum um endurreista loðdýrarækt á Ráðunautafundi í Reykjavík fjórum áratugum síðar minnist ég þess til dæmis að Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri orðaði það svo að hentugt gæti verið að sauðfjárbændur kæmu sér upp „refatríói“ sem aukagetu til búdrýginda.

Horft til norðvesturs á refabúið á Hvanneyri. Hvolpahúsið er byggingin til hægri er stendur þvert á búraröðina. (AJ)

Refabúrin ásamt vinnuskúr og útsýnisturninum. Næst má sjá staura varnargirðingarinnar um refabúið. (THG)

auk þess sem bændur í nágrenninu „sendu mikið af kjöti af mæðiveikirollum og annað rusl á lágu verði,“ skrifaði Hjalti refahirðir. Bergur taldi bændurna hafa haft af þessu „nokkrar tekjur.“

Nokkrir erfiðleikar voru á geymslu kjötsins því þá voru frystigeymslur ekki komnar til sveita. Gravem brá þá á það ráð að hanna og smíða sérstaklega útbúinn geymsluskáp, klæddan flugnaneti þannig að loftað gat um hann en útilokaði fluguna. Í þessum skáp geymdist kjötið í þó nokkurn tíma, skrifaði Agnar.

Veturinn 1939-1940 komst refabúið í fréttir fyrir tilraun sem þar var verið að gera með fóðrun refanna á osti úr undanrennu. Hugmyndina átti Sigurður mjólkurbústjóri Guðbrandsson í Borgarnesi er fékk Loðdýraræktarfélagið til þess að reyna hana. Áttatíu refum, silfur-, blá- og hvítrefum hafði þá verið gefinn osturinn, 100 g á dag og dýr síðan í nóvember, auk annars fóðurs. Dýrin voru sögð hafa etið fóðrið af græðgi, heilsast vel og „útlit þeirra fullt eins gott og áður.“94 Runólfur skólastjóri áleit að á vissum tímum árs mætti fóðra refi, með góðum árangri, með allt að helmingi fóðurs af þessum osti.

94 Morgunblaðið 11. febrúar 1940, 3.

Refahirðar að störfum á Hvanneyri. Bergur Þórmundsson mun vera sá til vinstri en hinn er óþekktur. (THG)

REKSTUR OG AFKOMA REFABÚSINS Af lýsingum heimildarmanna má ráða að refahirðarnir hafi verið býsna sjálfstæðir hvað snerti daglegan rekstur refabúsins. Runólfur skólastjóri „sá alveg um rekstur búsins, bókhald, útvegun fóðurs og byggingarefnis,“ skrifaði Agnar. Runólfur „bar hag þess mjög fyrir brjósti og lét búinu í té alla aðstöðu sem þurfti á staðnum, “ skrifaði Hjalti Jósefsson. Í stjórn félagsins voru lengst af auk Runólfs þeir Guðmundur á Hvítárbakka og Sigurður á Varmalæk. Agnar telur að Kristján Guðmundsson á Indriðastöðum hafi verið formaður félagsins um tíma. Leitað var til ráðsmanns Hvanneyrarbúsins, einkum hvað snerti aðstoð við aðdrætti fóðurs. Við einstök verk er meira lá við veittu nemendur Bændaskólans aðstoð en til kennslu virðist búið lítið sem ekkert hafa verið notað. Þó getur Agnar um einn nemanda á tíma hans sem vildi kynna sér refarækt og vann á búinu til þess. Í skýrslu Hvanneyrarskóla árið 1938 segir einnig að „Norskur refahirðir [sjái] um dýrin, en tveir Hvanneyringar dvelja hér í því skyni að læra af honum það starf.95

Víst er að refabúið á Hvanneyri var reist á traustum grunni bæði hvað snertir verkþekkingu, bústofn og bakhjarla reksturs. Dýrin sem refabúið fékk fyrst voru silfurrefir af góðum kynjum. Þau urðu eftirsótt til undaneldis svo að fyrstu þrjú árin seldust nær allir hvolpar til lífs. Dýrin gátu sér gott orð á sýningum sem reglulega voru haldnar. Um það skrifaði Hjalti refahirðir m.a.:

Hann (þ.e. Gravem) lagði allt kapp á að vera með góð sýningardýr, og mun hafa verið snjall að búa þau undir sýningar, en þá voru refasýningar mikið spennandi. Man ég eftir Hvanneyrardýrunum 19371938. Fór Gravem með þau á allar sýningar frá Reykjavík vestur í Stykkishólm og norður fyrir heiðar.

95 Búfræðingurinn V (1938), 128.

Þótti mörgum nóg um sýningakeppnina því margt af dýrunum skilaði engum arði, enda fóðruð til sýninga en ekki frjósemi. –

Orðum Hjalta til áréttingar má geta þess að á refasýningum Loðdýraræktarfélags Íslands haustið 1938 unnu dýr frá refabúinu á Hvanneyri til fjölmargra verðlauna. Sýnd voru 24 dýr frá búinu og hlaut 21 þeirra fyrstu verðlaun. Var það hærra verðlaunahlutfall en á nokkru öðru refabúi um þær mundir.96 Á sýningu í Borgarnesi 2. nóvember 1938 var besta dýrið silfurrefur frá Hvanneyri „keyptur frá Svarstad í Noregi í fyrra.“ Refurinn sá hlaut heiðursverðlaun, silfurbikar frá Loðdýraræktarfélagi Íslands. Dómarar voru þeir Ole Aurdal, norskur sérfræðingur í refarækt, og H. J. Hólmjárn loðdýraræktarráðunautur.97

Í ljósi mikillar lífdýrasölu frá búinu má ætla að sárafá refaskinn hafi farið á markað frá því. Markaðurinn mun hafa verið hjá fyrirtækinu ANNING CHADWICK & KIVER Ltd í London, þekktu uppboðs- og grávörufyrirtæki á þeirri tíð. Það mun hafa annast sölu á framleiðslu íslensku refabúanna.

UNDANHALD OG ENDALOK Haustið 1938 voru á búinu 32 silfurrefir og 18 blárefir, bæði íslenskir og Alaskarefir.98 Árið 1941 voru settar á 34 silfurrefalæður og 18 steggir, 13 blárefalæður og 6 steggir, og mun það hafa verið það flesta sem sett var á á Hvanneyrarbúinu að áliti Hjalta refahirðis, sem einnig skrifaði:

Arður af búinu þótti allt of lítill sökum ófrjósemi, eða um 100 silfurrefahvolpar til förgunar um haustið. En þá var komin sölutregða og verðlækkun á skinnum. Lífdýramarkaður enginn, enda heimsstyrjöld í algleymingi, öll Evrópa í uppnámi og ekkert með glysvarning að gera, jafnvel svo að skinnauppboðin í London lögðust af.

Bæta má við ummælum Bergs refahirðis er skrifaði að auk þess

. . . hækkaði fóður í verði og má segja að hinn mikli uppgangstími sem í hönd fór hafi kollvarpað þessum atvinnurekstri og hann hafi í rauninni ekki haft tíma til að sanna ágæti sitt.

Menn sáu að grundvöllur refaræktarinnar var brostinn. Litlar heimildir eru um undanhaldið í refarækt hreppsbúa. Þó segir í fundargerð frá hreppsskilaþingi á Hvítárvöllum 8. júní 1944 að haldinn hafi verið skilafundur Loðdýraræktarfélags hreppsins. Á þinginu var lesin skipulagsskrá fyrir „Búfjársjóð Andakílshrepps“ sem stofnaður var á skilafundinum að því er virðist með eigum Loðdýraræktarfélagsins. Dýrin höfðu getið sér gott orð, eins og fyrr sagði, og Bergur refahirðir skrifaði m.a.: „við urðum mjög sigursælir og unnu dýrin mörg heiðursverðlaun bæði skjöl og bikara sem ég held að hafi verið 12.“ Við félagslok mun bikurunum hafa verið skipt á milli manna, ef til vill á milli stjórnarmanna félagsins: Þannig

96 Freyr 34 (1939), 113-119. 97 Vísir 5. nóvember 1938, 3. 98 Búfræðingurinn 6 (1939), 135.

Verðlaunagripir fyrir dýr búsins, varðveittir í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Áletranir eru þessar: T.v.: Heiðursverðlaun frá L.R.Í. 1939. M: Heiðursverðlaun fyrir besta silfurref á loðdýrarsýningunni á Hvammstanga 21. og 22. nóv. 1939. T.h.: ANNING CHADWICK & KIVER LONDON Heiðursverðlaun fyrir besta silfurref á sýningunni í Reykjavík 1939.

hermir sonarsonur Guðmundar á Hvítárbakka að í hlut afa hans hafi komið fimm bikarar.99 Að minnsta kosti þrír slíkir eru enn til á Hvanneyri.

Þar með var lokið sameiginlegri tilraun bænda í Andakílshreppi til loðdýraræktar. Refabúið var þó rekið áfram í umsjá Bændaskólans en í öllu var reksturinn smár í sniðum miðað við blómaskeið búsins. Það var endanlega lagt niður í árslok 1949; þá var síðustu refunum fargað enda „lítill markaður fyrir skinnin“.100 Nefna má að á árunum 1943-44 dvaldi Runólfur skólastjóri um nær eins árs skeið í Bandaríkjunum. Þar kynnti hann sér meðal annars loðdýrarækt hjá áðurnefndum Brager-Larsen er þá rak myndarlegt loðdýrabú í Michiganfylki. Í dagbók sinni gerði Runólfur rækilega grein fyrir ýmsu er snerti refa- og minkarækt.101 Það bendir til þess að hann hafi ekki verið búinn að missa trú á búgreininni og kann að vera skýring á því að hann hélt refabúinu á Hvanneyri áfram þótt Loðdýraræktarfélaginu hafi verið slitið – að hann hafi haft von um að betri tíðir væru í vændum. En Runólfur hvarf frá skólanum til annarra verka vorið 1947, og þá um leið sá staðarmaður sem var helsti kunnáttu- og áhugamaðurinn um refaræktina.

Refaræktin á Hvanneyri á árunum 1937-1944 var „tilraun bænda til að bæta afkomu sína í þeirri efnahagskreppu sem þá þjakaði landsbyggðina,“ skrifaði Bergur Þórmundsson. Lítinn hagnað höfðu bændur í Andakílshreppi af refaræktinni en skaðlaust munu þeir hafa komist frá henni, töldu þeir Björn J. Blöndal í Laugarholti og Júlíus Þórmundsson í Laugabæ, er

99 Jón Friðrik Jónsson frá Hvítárbakka í tölvuskrifum til BG 15. maí 2020. 100 Dagbók Guðmundar Jónssonar skólastjóra. Óbirt. Í vörslu LbhÍ. 101 Í óbirtri dagbók Runólfs Sveinssonar; í vörslu Sveins, sonar hans, sbr. bréf SR 27. maí 2020.

rætt var við þá um málið nær fjórum áratugum síðar. Óhætt mun þó að fullyrða að á meðan búreksturinn stóð í hvað mestum blóma hafi refabú Andakílshrepps verið á meðal stærstu og virtustu refabúa landsins.

Lokaorð Agnars refahirðis frá 6. apríl 1982 eru hæfilegur endir á þessari samantekt: „Mér finnst ánægjulegt að vita, að þetta framtak bænda í Andakílshreppi í loðdýrarækt skuli ekki með öllu gleymast, því á þessum tíma var þetta í raun stórt átak fyrir efnalitla bændur að hrinda þessu fyrirtæki í framkvæmd og við þetta bú voru bundnar miklar vonir, sem að öllu eðlilegu hefðu átt að geta ræst, því til alls var vandað og vel að öllu staðið, en breyttir þjóðfélagshættir, sem af heimsstyrjöldinni leiddu [ullu] því, að framtíð þessarar búgreinar varð á þessum tíma alveg vonlaus, enda ekkert gert henni til styrktar.“102

Helstu heimildarmenn um refabúið: Agnar Jónsson: Bréf til BG 6. apríl 1982. Bergur Þórmundsson: Bréf til BG 22. janúar 1982. Björn J. Blöndal: Viðtal 28. nóvember 1981. Hjalti Jósefsson: Bréf til BG 20. janúar 1982. Júlíus Þórmundsson: Viðtal 29. mars 1982.

102 Skrifað í maí 2020.