4 minute read

Veðurathuganir á Hvanneyri

Eftirfarandi línur, sem skrifaðar eru að gefnu tilefni, byggjast ekki á mjög nákvæmum heimildarannsóknum eins og ráða má af textanum en eru tilraun til þess að taka saman nokkra þætti um veðurathuganir á Hvanneyri og notkun niðurstaðna úr þeim.

Rekja má upphaf veðurathugana á Hvanneyri til ársins 1922. Þá sneri Búnaðarfélag Íslands sér til Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra og mæltist til þess að komið yrði upp veðurathugunarstöð þar. Um þær mundir var verið að leggja drög að Veðurstofu Íslands en veðurmælingar hérlendis annaðist þá „veðurdeild löggildingarstofunnar“. Tók veðurdeildin við því hlutverki af Veðurstofunni dönsku (Meteorologisk Institut). Hver aðild og ástæða Búnaðarfélagsins fyrir beiðninni var er undirrituðum ekki kunnugt. Halldór féllst á erindi félagsins enda sæi „veðurathugunarstofan í Reykjavík“ að öllu leyti um að koma stöðinni upp og að leiðbeina um starfrækslu hennar. Ennfremur „að stöðin fái daglega sent veðurskeyti [um] heyskapartímann – ókeypis“ segir í bréfi Halldórs frá 30. okt. 1922.Hófust svo veðurathuganir er stóðu að mestu samfellt fram til 1. apríl 1944. Varð þá hlé um nærri tveggja áratuga skeið til ársins 1963 að mælingar hófust að nýju. Hafa þær staðið síðan.

Advertisement

Veðurathugunarmenn / ábyrgðarmenn Hvanneyrarstöðvarinnar frá upphafi hafa samkvæmt ársyfirlitum Veðurstofu Íslands verið:

1923-1929: Þorgils Guðmundsson kennari 1929-1932: Ásmundur Sigurðsson ráðsmaður 1932-1941: Hjörtur Jónsson ráðsmaður 1941-1944: Guðmundur Jóhannesson ráðsmaður 1944-1963: Stöðin ekki starfrækt 1963-1969: Helga Sigurjónsdóttir húsfrú 1969-1972: Óttar Geirsson kennari 1972-1984: Bjarni Guðmundsson kennari 1984-1993: Grétar Einarsson deildarstj./Hafdís Pétursdóttir ritari Frá 1993: Sjálfvirk veðurfarsstöð

Ekki veit ég með vissu hvar á Hvanneyri veðurathugunarstöðin var fyrstu tvo áratugina; hún mun þó hafa verið í næsta nágrenni skólastjórahússins, sjá meðf. mynd. Við setningu veðurstöðvarinnar árið 1963 var henni komið fyrir skammt austan við Ráðsmannshúsið, á svæði sem þá var vel opið til N-, A- og S-átta (h.u.b. N 64°33,053; V 21°45,732 en nokkrum árum síðar (1969?) færð spölkorn til austurs á N 64°33,945; V 21°45,672). Stöðin skyldi vera „veðurfarsstöð“. Í henni voru gerðar mælingar þrisvar á dag, kl. 9, 15 og 21, og uppsöfnuð úrkoma mæld einu sinni á sólarhring (kl. 9) og gögnum skilað mánaðarlega til

Veðurstofu Íslands. Um þær mundir hafði jarðræktartilraunum undir stjórn Magnúsar Óskarssonar vaxið svo fiskur um hrygg að talið var nauðsynlegt að gera athuganir á veðurfari jafnhliða, enda engin veðurfarsstöð nærlendis, að frátalinni úrkomustöð við Andakílsárvirkjun.

En fleira ýtti undir áhuga á veðurathugunum á Hvanneyri: Markús Á. Einarsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands beitti sér fyrir auknum mælingum stofunnar á búveðurfræðilegum þáttum. Gerðist það í kjölfar liðveislu sem Tækniaðstoð Sameinuðu þjóðanna veitti Veðurstofu Íslands til eflingar á „mælingum og rannsóknum í þágu landbúnaðarins og annarra aðila, sem þurfa á míkróveðurfræðilegum upplýsingum að halda.“ Kom Veðurstofan m.a. upp sérstökum reit til ýmissa mælinga á því sviði að Sóllandi í Reykjavík og vildi einnig efla slíkar mælingar á tilraunastöðvum landbúnaðarins sem þá voru á einum fimm stöðum utan Reykjavíkur, þ.m.t. á Hvanneyri. Hitt var það að undirritaður í framhaldsnámi sínu vann verkefni sem tengdist veðri og veðurfari, þ.e. þurrkun á heyi og möguleikum þeirrar aðferðar við íslenskar aðstæður. Bætt hafði verið við mælingum á jarðvegshita og með slitróttum hætti uppgufunarmælingum. Á þeim hafði Markús sérstakan áhuga sem og undirritaður vegna tengsla þeirra við vatnsbúskap gróðurs og heyþurrkunareiginleika lofts.

Gögn veðurstöðvarinnar nýttust vel við að lýsa aðstæðum jarðræktar á Hvanneyri og ekki síður tilraunum Verkfæranefndar ríkisins með þurrkun og aðra meðferð heys á velli sem og súgþurrkunarrannsóknirnar er stundaðar voru um árabil á Hvanneyri. Vegna heyverkunartilraunanna voru mælingar á lofthita og loftraka mikilvæg forsenda er kom að úrvinnslu og túlkun. Til viðbótar mælingum í veðurstöðinni hafði Verkfæranefnd og síðar Bútæknideild Rala jafnan uppi síritandi mæla á heyskapartíma (hita og loftraka) sem bætti notagildi veðurathugananna. Samtenging þurrkunartilrauna og veðurathugana skilaði ýmsum fróðleik.

Á túnkorti Jóhanns G. Björnssonar nemanda frá 1922 má trúlega greina hvar veðurmælingatækjum, úrkomu- og hitamælum, var komið fyrir á fyrstu árum veðurstöðvarinnar á Hvanneyri: Í varpanum norðvestan við Skólastjórahús og kirkju.

Um 1980 voru á Hvanneyri gerðar umfangsmiklar rannsóknir á húsvist búfjár, einkum sauðfjár, undir stjórn Grétars Einarssonar. Nýttust þá heldur betur veðurathuganir gerðar í veðurfarsstöðinni á Hvanneyri.

Ég tek þessi tvenn rannsóknasvið sem dæmi um það hvernig veðurathuganirnar nýttust í öðru rannsóknarstarfi Bændaskólans á sviði búvísinda – og þá til viðbótar þeim mikilvæga bakhjarli sem þær höfðu verið tilraunum og rannsóknum á sviði jarðræktar og áður var minnst á.

Veðurfarsstöðin stóð á sama stað á árunum 1963-1980, undir ásnum skammt austan við Ráðsmannshúsið. Árið 1980 var stöðin flutt bæði vegna þess að hún þótti standa á stað sem þröngt var um hana með tilliti til þess að nema veðurþætti án mikilla hindrana í umhverfinu en ekki síður vegna þess að umsjónarmenn hennar færðu sig um set í hverfi sem þá var að byggjast upp, nyrst á svonefndum Skólaflötum, þar sem hún stendur enn.

Það má skjóta því hér inn að við flutning veðurstöðvarinnar 1980 var haft í huga það sem komið hafði til formlegrar umræðu nokkru fyrr, að koma fyrir sólstundamæli á Hvanneyri. Gert var ráð fyrir að skólinn keypti mælinn en Veðurstofa Íslands annaðist alla þjónustu við hann. Framkvæmdin lenti í útideyfu, m.a. vegna þess að undirritaður lenti í öðru starfi um tíma.

Síðustu 10-15 árin hefur rannsóknastarf á Hvanneyri breyst og þá um leið not þeirra gagna sem veðurfarsstöðin þar safnaði – og safnar. Ljóst er þó að þar hafa áfram hlaðist upp gögn sem til ýmissa verka munu nýtast, og þá ekki síst með endurreisn og eflingu þess rannsóknastarfs á sviði ræktunar sem nú er hafin á Hvanneyri.

Veðurfarsstöðin er nú á stað sem ekki hentar vel. Hún liggur þétt við mikla umferð fólks og hefur goldið nokkuð fyrir það, m.a. athafnaþrá ungs og námfúss fólks á leið heim frá ölstofu staðarins að næturþeli; þó mun minna en að óreyndu hefði mátt ætla.

Hyggilegt er því, líka í ljósi þess að stöðin er orðin sjálfvirk í verulegum mæli og þarf því ekki jafn náið nábýli við athugunarmann og áður, að skoða nýjan stað fyrir hana sem og mæliþætti hennar og þá með hliðsjón af helstu þörfum sem stöðin á að mæta á næstu árum.