13 minute read

Frá bújörð til búnaðarháskóla

Sagan segir að Skallagrímur landnámsmaður Kveldúlfsson hafi gefið félaga sínum, Grími háleyska, land á Hvanneyri. Hafi engin byggð þá verið þar fyrir má velta því fyrir sér hvað gerði Hvanneyri að fýsilegum kosti til búsetu. Ekkert bendir til annars en að byggð hafi alla tíð staðið þar sem bæirnir stóðu allt fram að fyrri aldamótum og kallað var Hvanneyrarhverfið.

Advertisement

Séð yfir Hvanneyrarland úr suðri; Andakílsá liðast fram og gerir tangann Kistu langt til að eyju. Í Kistu er fornt eyðibýli.1

Án efa hafa frumbyggjar Hvanneyrarjarðarinnar velt fyrir sér náttúruskilyrðum og landsháttum þegar þeir völdu sér bæjarstæði. Elsti hluti núverandi byggðar stendur á klettaás sem gengur frá SV til NA og er hluti af einkennandi landslagi Borgarfjarðar. Raunar deilir ásinn Hvanneyrarlandinu í tvennt: Til vesturs verður nokkur halli, Kinnin (Hvanneyrarkinn), niður að Engjunum, sem ásamt Fitinni, þurrasta hluta þessa mikla flatlendis, er mótað af framburði Hvítár. Til austurs eru m.a. miklar hallamýrar, slitnar í sundur af nokkrum klettahöftum. Fyrir daga framræslunnar voru mýrarnar ekki þægilegar yfirferðar og í þeim voru víða ókræsileg leirflög.

Víst má telja að Grímur háleyski og menn hans hafi komið sjóveg, enda herma sögur, t.d. Egils saga, að Hvítá hafi verið skipgeng a.m.k. upp að Hvítárvöllum þar sem kaupstefnur voru haldnar reglulega. Þá hefur grösug Kinnin, hallinn áðurnefndi mót Hvítánni, blasað við komumönnum. Þegar nær var komið er líklegt að efst í

Elsti hluti byggðarinnar á Hvanneyri fyrir miðri mynd. Við sjáum klettaásana ganga til SV; t.h. hallar niður að Engjum og Fit með Hvítá en t.v. austur á mýrlendið þar sem nú er Hvanneyrartún (LbhÍ).

1 Nær allar ljósmyndir, sem eru ómerktar, tók BG.

honum, á klettaásnum, hafi þótt fýsilegt að setja bústað. Þar var og er flatt og þurrlent en fleiri kostir gáfust, til dæmis hentugt grjót til húsagerðar. Þaðan var líka afar víðsýnt eins og enn má reyna með því að ganga upp á Kirkjuhólinn (þar sem fánastöngin er). Kirkjuhóllinn er einn hæsti punkturinn á svæðinu. Víðsýni hafa menn víst kunnað að meta þá eins og nú, þótt ekki væri til annars en að geta fylgst með mannaferðum. Það hefur líka gert þetta svæði fýsilegra til byggingar að skammt var í vatnsból, lækinn sunnan við hólinn er síðar var kallaður Hvanneyrarlækur en er nú oftast Tungutúnslækur. Vatnið var þá eins og nú lífsnauðsyn og því réði vatnsból án efa miklu er kom að vali bústaðar.

Þegar búnaðarskóla var valinn staður á Hvanneyri og settur vorið 1889 voru þar fyrir nokkur býli. Þau kúrðu saman í hverfi á ásnum, sem áður var nefndur: afbýlin Tungutún, Staðarhóll og Hvítárós, hjáleigurnar Ásgarður, Svíri og Hamrakot og aðalbýlið Hvanneyri (kirkjujörðin). Nöfn nokkurra býlanna hafa varðveist í nöfnum húsa sem síðar voru reist og enn standa. Saman mynduðu býlin Hvanneyrarhverfið. Um sumt minnir byggðarformið á býli t.d. í Öræfasveit þar sem landshættir og óblíð náttúruöfl hafa hvatt menn til þess að þjappa byggðinni saman í þyrpingar/hverfi í stað þess að dreifa henni eins og algengast er í sveitum hérlendis.

Sýnilegar minjar um gömlu býlin eru nú fáar. Þó virðist mega greina merki um töluverðar byggðarleifar á kolli Ásgarðshólsins þar sem býlið Ásgarður stóð. Fróðlegt væri að rannsaka moldir þar. Afbýlið Hvítárós, sem tilheyrði Hvanneyrarhverfinu, stóð í Hólnum¸fast við Hvítána og ber undir Ferjubakka í NNV frá Hvanneyri. Þar má enn sjá glöggar tóftir og fleiri búsetuminjar, enda var þar búið til ársins 1925.

Fornt eyðibýli er einnig í Kistu, suður undir Andakílsá. Þar má enn sjá nokkra búsetuminjar m.a. garðbrot og tóftir. Um þær er fjallað í öðrum pistli.

Rissmynd af Hvanneyrarstað.1. Ásgarður (miðstöð LbhÍ); 2. Tungutún; 3. Skemman; 4. Leikfimihúsið; 5. Skólagarður; 6. Gamli skólinn; 7. Skólastjórahúsið; 8. Hvanneyrarkirkja; 9. Halldórsfjós með Landbúnaðarsafni og Ullarseli; 10. Mylluhóll; 11. Gamla Ullarselið; 12. Verkfærahús; 13. Hestaréttin (nú Kráin) og Hjartarfjós, nyrðri burstin; 14. Bút-húsið; 15. Ásgarður; 16. Rannsóknahús; 17. Hvanneyrarfjós.

Flatlendið með Hvítá, Fitin og Engjarnar, var gósenland á tímum útheysöflunar: Greiðfært og grasgefið víðlendi. Þar mátti afla mikils vetrarforða með góðri nýtingu vinnuafls. Þar var meðaldagsverk talið vera að slá 20 hestburði af heyi. Ekki síst af þessum ástæðum þótti gott undir bú á Hvanneyri.

Með göngu um land Hvanneyrarjarðarinnar má gera sér nokkra mynd af dreifbærum búskaparháttum fyrri alda. Um það bil 700-800 m suðvestur af Ásgarði (Nýjaskóla) eru Stekkjarholtin. Þarna hefur stekkurinn frá Hvanneyri verið, stekkjarveg frá bæjum. Þar mótar einnig fyrir rústum. Meira er þó áberandi þar nátthagi með fjárrétt. Réttin og mikill garður um nátthagann eru hlaðin úr grjóti. Er hvort tveggja mjög vel sýnilegt enn, minjar um gamla landnýtingarhætti með sauðfé, sjá síðar.

Syðst í landi Hvanneyrar, þar sem heitir í Kistu og áður var nefnd, er örnefnið Selhóll, sem bendir til selstöðu þar. Hvanneyrarkirkja átti líka selför í Indriðastaðaland, enda var ekki óalgengt að jarðir hefðu hefðu í seli á fleiri en einum stað. Ef til vill er Kista dæmi um býli sem ýmist var setið um ársins hring eða aðeins um seljatímann? Hugleiðing um það kemur hér síðar.

Upp úr miðri 19. öld óx áhugi á ræktunarumbótum hérlendis. Í Hvanneyrarhverfinu eru þær fyrstu taldar hafa verið framræsluskurður á milli Tungutúns og Ásgarðs (býlisins) og sléttugerð í Tungutúni árið 1874. Vera má að það hafi einnig verið merki þeirra er lengi sáust sem beðasléttur suðvestan við húsið Tungutún. Þær hurfu endanlega þegar Rannsóknahúsið var reist á níunda áratug síðustu aldar.

Og höfum við þá nefnt þær ræktunarminjar sem töluvert fer fyrir á Hvanneyri – beðaslétturnar. Beðaslétturnar eru mest áberandi í Ásgarðshól, í Kinninni og annars staðar á þurrlendinu heima við Gamla staðinn sem svo er oft nefndur. Meira um þær seinna.

Á Fit og Engjum má sjá mikla áveitu- og flóðgarða. Þeir eru fulltrúar engjaræktunartímabilsins í íslenskri búnaðarsögu. Ekki er vitað hvenær þeir fyrstu voru hlaðnir en á árunum eftir 1917 var mikið gert af þeim á Hvanneyri. Áveituvatnið var m.a. tekið úr Hvanneyrarlæknum (Tungutúnslæknum) en líka með miklum skurði úr Vatnshamravatni sem liggur austan við Hvanneyrarhverfið. Um skeið var fall vatns þaðan notað til raforkuframleiðslu (6 kW). Má enn sjá leifar virkjunargrunnsins neðan við Þórulág (þar sem hesthúsið er). Í áveituhólfin barst einnig flóðavatn úr Hvítá, auðugt af næringarríkum jarðefnum. Áveitur eru ræktunartækni sem á sér árþúsunda langa sögu hjá fornum og fjarlægum menningarþjóðum. Eins og beðaslétturnar voru þær lagaðar að íslenskum aðstæðum hvað efni, form og framkvæmd snerti. Hvort tveggja eru verndunarverðar minjar um forna verkhætti.

Í fönninni sjáum við að skafið hefur ofan af bökum beðasléttnanna í Hvanneyrarkinn.

Horft vestur yfir Hvanneyrarstað um síðustu aldamót. Sér í Hvítá og Fitina á bökkum hennar: Ásgarðsfit til vinstri við Heimastokk en Hvanneyrarfit til hægri. Flóð- og áveitugarðar áberandi (LbhÍ).

Horft til norðausturs yfir byggðina um síðustu aldamót, Vatnahamravatn ofarlega á myndinni. Við sjáum framræslukerfið sem mótar svip ræktunarlandsins. Hluti þess fjærst byggðinni er dæmigerður fyrir íslenska ræktunarhætti á mýrlendi á tímabilinu eftir 1945 (LbhÍ).

Með komu véla til jarðvinnslu, grasfræs og tilbúins áburðar óx áhugi á túnrækt á kostnað engjaræktar og útheyskapar. Mýrlendið á Hvanneyri krafðist framræslu. Í fyrstu var mest um handgrafna skurði. Var þá byrjað í smáum stíl að þurrka landið austan og suðaustan við byggðina. Flestir skurðanna eru nú horfnir eða hafa verið grafnir upp.

Það voru fyrst og fremst nemendur skólans sem unnu að jarðræktinni á Hvanneyri allt til þess tíma að ræktunin varð einhliða vélavinna. Jarðrækt hvers konar var meginhluti verklegs náms þeirra í búfræðum.

Á fimmta áratug síðustu aldar komu skurðgröfurnar. Með þeim opnuðust Hvanneyrarmýrarnar til túnræktar og til varð það svipmót sem nú einkennir Hvanneyrartúnið. Þar sem nú eru megintún skólabúsins voru áður „flóatetur, fífusund“ en líka mógrafir því þar eru töluverð mólög í jörðu, beitilönd hrossa og sauðfjár, og hin villta náttúra. Beitilönd Hvanneyrarkúnna voru á Engjunum. Á hverju ári var brotið land til nýræktar og var það m.a. liður í verknámi nemenda. Í Hvanneyrarmýrinni, ef við köllum hana einu nafni, var töluvert gert af lokræsum, einkum í mýrinni næst byggðinni. Það verk var líka liður í verknámi nemenda. Fæst af þessum lokræsum er lengur sýnilegt en þó má bæði af loftmyndum og á stöku stað greina reglulegar lægðir/rendur í túni sem vitna um undirliggjandi lokræsi.

Og fyrst nefnd eru lokræsi skulum við skjótast í dálítið jarðfall sem er rétt suðvestan hússins Ásgarðs, til hægri rétt eftir að komið er suður fyrir túnhliðið þar við lækinn. Þarna má sjá opnast í jarðfallið mynni vélgerðra lokræsa frá miðjum sjöunda áratugnum. Húnvetnskur maður, Eggert Hjartarson, hannaði lokræsaplóg fyrir jarðýtu sem hann reyndi þarna fyrsta sinni. Svo vel vann plógurinn að töluvert var unnið með honum í mýrlendinu þaðan „suður í Landi“ eins og svæðið er oftast nefnt. Við þessa framræslu þornaði landið og hlutur heilgrasa í gróðurþekjunni óx. Eggert fékk einkaleyfi á plógi sínum og mun hann vera eina íslenska landbúnaðarverkfærið sem formlegt einkaleyfi hefur hlotið.

Ef við bregðum okkur aftur heim að Tungutúnslæk og stoppum á göngubrúnni horfum við upp til Skemmunnar hægra megin við götuslóðann. Hún er elsta húsið sem nú stendur á Hvanneyri. Skemman var byggð árið 1896 og reyndist skólanum notadrjúg m.a. þegar skólahúsið brann árið 1903 og nemendur og starfsfólk stóðu uppi húsnæðislaus. Sjálfsagt rekur einhver augun í það að skemman stendur á skjön við önnur staðarhús. Ástæðan er sú að skemman var sett samsíða tröðinni heim að fyrsta skólahúsinu á Hvanneyri. Komum við þá að áhrifum samgangna á skipulag staðarins og kafla „siðaskiptanna“ í samgöngumálum Hvanneyrar. Þau breyttu undra miklu um svip staðarins í augum komumanna.

Væri Tröðinni áðurnefndu fylgt áfram til suðvesturs er mjög líklegt að okkur bæri eftir gömlum slóðum niður að Hvítá. Norðan við Ásgarðshöfðann rann Skipalækurinn fram og gæti nafnið komið upp um hlutverk hans. Hér má nefna að gömul lending mun einnig vera úti í Kistuhöfða, klettarananum sem gengur lengst til suðvesturs í Hvanneyrarlandi.

Sjóleiðin var hin algenga komuleið að skólastaðnum allt fram yfir 1930. Borgarnes var viðkomustaður Flóaskipa/-báta, eins konar samgöngumiðstöð fyrir Vestur- og Norðurland. Þegar komin var sjóleiðin úr Borgarnesi var farið upp í Hvanneyrarstokkinn eða uppundir Ásgarðshöfðann, í Skipalækinn áðurnefnda. Frá þessu sjónarhorni sjáum við hve gömlu skólahúsin njóta sín vel. Ekki er ósennilegt að húsameistararnir Rögnvaldur Ólafsson og Guðjón Samúelsson hafi haft það í huga þegar þeir gerðu uppdrætti sína að staðarhúsunum sem mynda eina einstæðustu heildarmynd húsa í sveit á Íslandi. Þau eru talin í aldursröð: Hvanneyrarkirkja, Gamli skólinn, Leikfimihúsið (sem telja má í þessum hópi, teiknað af Einari I. Erlendssyni), Skólastjórahúsið og Halldórsfjós.

Horft til gömlu staðarhúsanna á Hvanneyri úr suðvestri skömmu eftir miðja síðustu öld. Matjurtagarður í suðurhallanum að Tungutúnslæk (LbhÍ).

Þessi hús, sem hvert með sínum hætti eru merkilegur þáttur í byggingarsögu landsins að ógleymdri búmenntasögunni, mynda einkennandi heild – gömlu Hvanneyri sem úr engri átt nýtur sín betur en suðvestri og vestri.

Með skólahúsinu og leikfimihúsinu er reist voru 1910 og 1911 afmarkaðist garður suðvestan við skólahúsið sem fyrir var. Þar var áður „jarðeplagarður“ skrifaði Teitur bóndi Símonarson (1865-1945).2 Garðurinn frá 1910 var í fyrstu nefndur Grasgarður, og eins og nafnið bendir til, ætlað hlutverk í kennslu við skólann. Síðar var garðinum breytt í einskonar skrúðgarð, sem af mörgum var kallaður Frúargarðurinn. Skólagarðurinn mun þó vera það nafn sem oftast hefur verið haft um garðinn.

Þess má geta að skömmu eftir aldamótin fyrri (1901) var reist hús fyrir Mjólkurskólann á Hvanneyri. Það stóð nokkurn veginn þar sem nú er miðja Skólagarðsins. Hins vegar stóð það ekki lengi því í skólahússbrunanum mikla á Hvanneyri haustið 1903 varð það einnig eldinum að bráð.3

Eftir að brú kom á Hvítá við Ferjukot árið 1928, og bílfær vegur var gerður fyrir Hafnarfjall og um Hvalfjörð breyttist komuleið að Hvanneyri. Af þjóðvegi (Norðurlandsvegi) um Andakíl varð heimreið að staðnum skammt suðvestan Bárustaða heim klettaásinn (Gamla heimreiðin). Þegar Norðurlandsvegur var færður á Borgarfjarðarbrú um 1980 kom enn til færslu á heimreiðinni að Hvanneyri. Einkenni heimreiðanna beggja og einkum hinnar síðartöldu var að þær leiddu gesti eiginlega aftan að skólabyggingunum. Skipulag staðarins og stækkun hans hafa þó mildað þessa tilfinningu nokkuð. Við sjáum þó hér skýrt dæmi um áhrif tæknibreytinga í samfélaginu á skipulag einstakra staða og byggðakjarna.

Segja má að gervallt land Hvanneyrarjarðarinnar beri merki mikilla umsvifa og margs konar breytinga á notkun landsins og umgengni við það allt frá stofnun búnaðarskólans árið 1889. Annars vegar snúa breytingarnar að búrekstri og rannsóknum og tilraunum tengdum jarðrækt og búfjárhaldi. Hins vegar snúa breytingarnar að búsetu stækkandi hóps starfsmanna skólans og annarra sem og þeirra stofnana og fyrirtækja sem valið hafa sér setur á Hvanneyri.

Þegar hefur verið getið ræktunarminja á Hvanneyrarengjum og Hvanneyrarfit. Líka þess hvernig vélvæðing og þá einkum véltækni við framræslu breytti Hvanneyarmýrum í tún og

2 Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar 1996 N/1 Bændaskólinn, 50 ára. 3 Af skólanum segir í bók BG: Konur breyttu búháttum (2016).

akurlönd. Ógetið er þá ýmissa búsetuminja sem greina má í úthaga jarðarinnar, einkum á því svæði sem almennt gengur undir nafninu Suður í Landi. Það er svæðið suðvestan við byggðina og túnið á Hvanneyri.

Framræsla hefur breytt gróðurfari mikils hluta þess svæðis og greitt heilgrösum leið á kostnað hálfgrasa. Beitargildi gróðurs landsins hefur því vaxið að mun enda er það núorðið að mestu nýtt til hrossabeitar. Suður af Stekkjarholtunum, vestan vegarslóðans út að Andakílsá, má t.d. sjá merki brauta sem gerðar voru um miðbik sjöunda áratugsins til þess að auðvelda dreifingu tilbúins áburðar á úthaga sem þá þótti skynsamleg hagabót.

Á svæðinu má líka sjá tilraunir til trjá- og skógræktar sem hófust í kjölfar vaxandi áhuga manna á skógrækt er líða tók á níunda áratug síðustu aldar.

Þróun byggðar á Hvanneyri væri tilefni sérstakrar greinargerðar en orða má framvinduna þannig:

Yfir garð um gamla Nátthagann á Stekkjarholtunum og til hægri við vegarslóðann sjáum við minjar um hagabætur sem nýlunda þóttu um miðjan sjöunda áratuginn: Herfaðar brautir sem aka mátti dráttarvél með áburðardreifara. Á myndinni má sjá áhrifin. Fyrir daga búnaðarskólans: Byggðarhverfi aðalbýlis með nokkrum afbýlum og hjáleigum í kring. Sjálfsþurftarbúskapur að hætti aldarfars. Eignarhald margbrotið. Hvanneyrarkirkja efnaður jarðaeigandi.

Búnaðarskóli frá 1889: Býlin í hverfinu hverfa undir vaxandi stórbýli skólans sem fengið hefur alla jörðina til umráða. Framan af má líta á nemendur sem ársmenn ráðna til bónda (skólastjóra) sem aftur hafði fræðsluskyldu við ársmenn sína (nemendur). Starfsmenn (kennarar) flestir einnig ársmenn í þjónustu hans. Tímabilið 1889 fram til 1936.

Bændaskóli: Stórbúskaparform á búrekstri og staðarstjórn en afskipta ríkis og reglna þess gætir í vaxandi mæli, þ.m.t. samræmis í rekstrarháttum við aðra opinbera skóla. Kennurum búin aðstaða til smábúskapar, svo sem aðgangur að landi. Tímabilið frá1936 fram undir 1970.

Bændaskóli – þorpsmyndun: Æ fleiri starfsmennn kjósa að setjast að á staðnum, einnig óskyldir aðilar. Skólinn er þó enn umráðaaðili lóða, lendna og lagna, og hefur forsögu um staðarskipulag. Þörf fyrir skipulag íbúðabyggða vaxandi, lóðir, lagnir o.fl. Áhersla á fremur stórar einbýlishúsalóðir og lágreista byggð. Þarfir annarra skóla koma til, s.s. grunnskóla og leikskóla. Tímabilið 1970 fram undir aldamótin 2000.

Hvanneyri sumarið 2022 (ljósm. Magnús Magnússon/Skessuhorn).

Sveitaþorp – Háskólaþorp: Sveitarfélagið hefur tekið að sér skipulagsmál, lóðir og lagnir en skólinn færist meira í þá átt að vera ein meðal fleiri stofnana og aðila á staðnum þótt sé hinn formlegi eigandi jarðarinnar í skilningi laga. Breyttir búsetuhættir nemenda kalla fram þörf á nýrri gerð bygginga – fjölbýli nemendagarða, gerð lóða fjölbreyttari (parhús, einbýlishús). Takmarkað landrými og fleiri sjónarmið kalla á minni lóðir en áður. Aðrar þarfir, svo sem útivist og hestamennska kalla á aðra landnýtingu en áður var. Tímabilið eftir aldamótin 2000.