10 minute read

Af berangri í Bútæknihús

Brot úr tilrauna- og rannsóknasögu

Ég sit við tölvu mína í BÚT-húsinu, sem svo er nefnt í daglegu tali, í skrifstofu sem ég hef haft til afnota í bráðum þrjá áratugi. Læt hugann reika til fyrri tíðar og til róta þessa húss. Margt hefur gerst. Viðhorf hafa breyst. Þarfir líka. Já, hugann, því hér rifja ég bara uppúr minni mínu en læt heimildarannsóknir að mestu bíða betri tíma.

Advertisement

Verkfæratilraunir og –prófanir á vegum Verkfæranefndar höfðu farið fram hingað og þangað í sveitum suðvestanlands allt frá árinu 1927. Búnaðarfélag Íslands hratt starfinu af stað til þess að unnt væri að veita bændum ráð um skynsamleg verkfærakaup. Hóf það með merkilegum verktæknitilraunum í tengslum við Búsáhaldasýninguna í Reykjavík sumarið 1921. Ræktunarfélag Norðurlands hafði raunar með vissum hætti hafið slíkt starf þegar á fyrsta áratug aldarinnar.

Starf Verkfæranefndar var slitrótt allt fram til ársins 1954 en þá komst það á fast form. Skipuð var ný Verkfæranefnd – Verkfæranefnd ríkisins – og fé hafði fengist á fjárlögum til þess að ráða henni starfsmann: Ráðinn var Jón Ólafur Guðmundsson frá Hvanneyri sem þá var nýkominn úr framhaldsnámi í bútæknifræðum við sænska landbúnaðarháskólann, SLU. Hann var ráðinn á fyrsta fundi nefndarinnar 10. maí 1954. Verkfæranefnd hafði í fyrstu skrifstofu í húsi við Austurstræti nr. 5 í Reykjavík. Ólafur hóf þegar störf að verkfæraathugunum og vinnurannsóknum víða um sveitir eins og fyrsta ársskýrsla nefndarinnar ber með sér.

Fljótlega var miðstöð Verkfæranefndar flutt að Hvanneyri án þess þó að hún hlyti þar sérstaka aðstöðu lengi vel. Má segja að Bændaskólinn hafi skotið skjólshúsi yfir starfsemi nefndarinnar. Kom þar einnig til að framkvæmdastjórinn, Ólafur eins og hann var jafnan kallaður, var sonur Guðmundar skólastjóra. Þegar skrifarinn kom til starfa hjá Verkfæranefnd sumarið 1964, að vísu launaður af Tilraunaráði búfjárræktar, en á milli þessara tveggja stofnana var náið samstarf, hafði nefndin fyrir nokkrum mánuðum fengið góða starfsaðstöðu í Nýja Verkfærahúsinu sem svo var nefnt og um er fjallað í öðrum pistli. Var um að ræða skrifstofu og vænan verkstæðissal sem hvort tveggja stórbætti starfsaðstöðu nefndarinnar.

Áður hafði starfið farið fram í ýmsu rými á vegum Hvanneyrarskóla það sem ekki var unnið á bændabýlum víðsvegar um landið. Ekki leið langur tími áður en Ólafur með fjölskyldu sinni fékk húsnæði kjallara Ráðsmannshúss en síðar í Svíra, sem var kennarabústaður á vegum skólans. Ólafur tók enda þátt í kennslu við skólann í sérgrein sinni. Smáskot hafði Ólafur til ráðstöfunar undir syðri súðinni í Syðra Verkfærahúsinu (áður Hestaréttinni). Man ég eftir dálitlu verkstæðisborði þar, nokkrum hillum og krókum þar sem hafa mátti lítilræði af því sem Ólafur var að vinna með hverju sinni í nafni Verkfæranefndar. Þar voru

m.a. handverkfæri og sláttuvélarljáir sem og varahlutir í vélar sem til prófunar voru hjá nefndinni. Líka átti Ólafur innhlaup í rannsóknastofu skólans á Fjósloftinu. Þar voru m.a. þurrkuð öll heysýni fyrir Verkfæranefnd og unnin sýni úr samstarfsverkefnum hennar og Tilraunaráðs búfjárræktar, flestum tengd heyverkun. Var það aðeins eitt dæmi um samstarf skólans og Verkfæranefndar sem ég held að aldrei hafi verið tíunduð nákvæmlega eða færðar vinnu- eða kostnaðarskrár um. Skrifstofuaðstöðu fyrstu árin mun Ólafur hafa skapað á heimili sínu.

Fyrstu árin varði Ólafur töluverðu af tíma sínum til vinnurannsókna og mats á mismunandi vinnuaðferðum við bústörf, ekki síst heyskap. Síðan óx hlutur heyverkunartilrauna og beinna prófana á nýjum búvélum sem urðu er frá leið hvað gildasti þátturinn í starfi Verkfæranefndar. Samsetning, mælingar, stillingar og lagfæringar búvéla, sem í prófun voru, fóru þá ýmist fram utan dyra á Hvanneyrarhlaði ellegar á verkstæði skólabúsins í Nyrðra Verkfærahúsinu, eftir því sem aðstæður leyfðu. Gekk þetta svo til í nærfellt áratug. Veit ég ekki til þess að til óleysanlegra árekstra hafi komið. Húsbóndinn var enda sá sami: Guðmundur skólastjóri sem einnig var formaður Verkfæranefndar. Starfsaðstaða Ólafs var á margan máta frumstæð og takmörkuð en nægjusemi og lipurð kölluðu fram árangursríka samvinnu þeirra Ólafs og Guðmundar Jóhannessonar ráðsmanns og Magnúsar Óskarssonar tilraunastjóra. Fór alla tíð mjög vel á með þeim.

Umsvif Verkfæranefndar uxu. Æ fleiri verkfæri komu til prófunar og ráðist var í ýmis verkefni er stuðla skyldu að hagræðingu búverka og betri árangri í búrekstri. Jafnan fór nokkur hluti starfsins fram á nágrannabæjum og víðar þar sem hentug aðstaða stóð til boða. Kallað var á meiri kennslu í bútæknigreinum við Bændaskólann þar sem sveitirnar voru óðum að vél- og tæknivæðast. Verkleg kennsla í þeim greinum var stóraukin frá áramótum 1961-1962 með ráðningu Péturs Haraldssonar vélvirkja í fast kennarastarf en áður hafði vélfræðikennsla fyrir nemendur bændadeildar að mestu farið fram með styttri námskeiðum að vori. Allt þetta kallaði á meira húsnæði.

Guðmundur skólastjóri brá því á það ráð að ráðast í byggingu eins konar „fjölnota“ húss, skála sem mætti nota undir sérhæft kennsluverkstæði, aðra kennsluaðstöðu, skrifstofur, fræðibókasafn og fleira. Fyrirtækið Þorgeir & Ellert á Akranesi var þá að þreifa sig áfram með hús úr forsteyptum einingum. Guðmundur samdi við fyrirtækið um að reisa slíkt hús eftir teikningum Björgvins Sæmundssonar: Einfalda en stóra skúrbyggingu. Reis hún sumarið 1963.

Það kom einkum í hlut Haraldar Sigurjónssonar staðarsmiðs að smíða innréttingar í húsið sem fljótlega var tekið í notkun. Með húsinu stórbatnaði aðstaða til kennslu og rannsókna. Þarna fékk Verkfæranefnd inni eins og áður sagði. Í suðurenda hússins varð til dálítið skrifstofuumhverfi nefndarinnar og Tilraunastöðvarinnar sem líka hafði vaxið fiskur um hrygg árin á undan. Þarna varð því til vísir að faglegu umhverfi tilraunastarfsins. Bókasafni var komið fyrir þar í litlu herbergi, en vetrarmenn Hvanneyrarbúsins bjuggu um sig í öðru

herbergi; alls voru herbergin fjögur og snyrtingar. Þá tók við salur til verklegrar kennslu í vél- og verkfærafræði með litlu kennaraherbergi. Norðan við hann fékk Haraldur smiður sal fyrir trésmíðaverkstæði skólans. Nyrsti salurinn kom svo í hlut Verkfæranefndar.

Verkfæranefnd hafði nú fengið hinn ágætasta samastað. Þótt starfsemin rynni undir Rannsóknastofnun landbúnaðarins vorið 1966 í samræmi við ný lög og fengi heitið Bútæknideild varð lítil breyting á starfi eða daglegum háttum. Guðmundur Jónsson skólastjóri reyndi þó að halda starfsemi, sem Verkfæranefnd hafði annast, áfram undir skólanum, en á það féllst Ingólfur ráðherra Jónsson ekki. Sambýlið gekk þó áfram vel og leið svo tíminn við ljúft gengi. Nýja verkfærahúsið, eins og það var kallað, varð brátt helsta miðstöð mannlegra samskipta við Hvanneyrarhlaðið og þar var oft gestkvæmt, bæði heima- og afbæjarmanna í ýmsum erindum.

Haustið 1973 urðu miklar skemmdir á húsinu í ofviðri sem gekk yfir: Hluti þaks hússins rofnaði svo húsið varð ónothæft um tíma; var þó strax undinn bugur að viðgerðum. Flytja þurfti skrifstofur úr húsinu út í Gamla skólahúsið, þar sem nú hafði rýmkast um því flestir nemendur bjuggu nú í Nýja skólahúsinu, nú Ásgarði. Fór svo að jarðræktarmenn (Tilraunastöðvarinnar) ílentust í Gamla skólanum en bútæknimenn hurfu aftur út í Nýja verkfærahúsið eftir að viðgerð þess lauk. Fékk Bútæknideild þá meira skrifstofurými, enda þá búið að ráða henni fastan viðbótarstarfsmenn – sérfræðing, Grétar Einarsson lic agro, auk aðstoðarmanns en sú staða varð ársstaða laust fyrir 1970. Skrifarinn hafði að vísu verið fastur starfsmaður, einnig sk. sérfræðingur, frá útmánuðum 1971 til hausts 1973, en óvissa um íbúðarhúsnæði batt endi á þá ráðningu.

Tímar breyttust og þróun kallaði á meira rými og betri vinnuaðstæður. Þótt herlegt hafi þótt að flytja inn í Nýja verkfærahúsið árið 1963 uxu kröfur enda húsið háð ýmsum annmörkum og byggt af nauðsynlegri naumhyggju. Er leið fram á áttunda áratuginn var farið að ræða um umbætur í húsnæðismálum Bútæknideildar. Skrifarinn minnist m.a. heimsóknar Halldórs E. Sigurðssonar alþingismanns fyrir kosningarnar 1971 til okkar þriggja starfsmanna Bútæknideildar sitjandi nær því hver undir öðrum í hornskrifstofu Nýja verkfærahússins. Hafði alþingismaðurinn orð á þrengslunum og taldi nauðsynlegt að bæta út. Göntuðumst við Ólafur og Árni Snæbjörnsson, þáverandi aðstoðarmaður deildarinnar, með að við hefðum minni gólfflöt hver heldur en ætlaður væri einni mjólkurkú. Halldór varð í kjölfar kosninganna bæði landbúnaðar- og fjármálaráðherra. Umbætur í húsnæðismálum Bútæknideildar létu þó á sér standa.

Hvað úrbæturnar snerti höfðu forystumenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sáralítinn áhuga framan af. Hann átti þó eftir að vaxa. Tekist hafði að fá reist hús fyrir deildarstjórann 1967-1968, Hófatún var það kallað, nú Túngata 1, sem var fyrsta bygging fyrir Verkfæranefnd/ Bútæknideild sem reis á Hvanneyri. Þá var byggt hús fyrir starfsmann (Grétar Einarsson) árið 1977, kallað Smáratún, nú Túngata 3.

Ólafur Guðmundsson féll frá vorið 1985, langt um aldur fram, en á hans herðum hafði húsnæðisbaráttan að mestu hvílt. Við henni tók Grétar Einarsson. Bútæknideildin naut álits víða á meðal bænda og búaliðs, enda hafði starfsmönnum hennar tekist að byggja upp traust með góðu starfi, starfi sem snerist um viðfangsefni sem bændur höfðu mikinn áhuga á og vörðuðu mjög rekstur þeirra.

Og hlutir fóru að gerast: Mér er í minni dagur laust fyrir jól 1986 er ég mætti Valdimar Indriðasyni alþingismanni í útidyrum Alþingishússins. Hann tjáði mér að 1,5 mkr. hefðu við þriðju umræðu um fjárlög ársins 1987 fengist til undirbúnings bútæknihúss á Hvanneyri. Hafði þá verið fallist á tillögu Jóns Helgasonar landbúnaðarráðherra þar um. Þótti mér þá horfa vænlega. En meiri peninga þurfti.

Málið var komið á dagskrá hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og forstjórinn, Þorsteinn Tómasson, kynnti það vel fyrir Rannsóknaráði ríkisins. Man ég eftir nokkrum hvössum umræðum þar um umsóknina þar sem sitt sýndist hverjum um mikilvægið. Fastastur var í gagnrýnni andstöðu fyrir Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Okkur Vilhjálmi Lúðvíkssyni, framkvæmdastjóra ráðsins, kom til hugar að Rannsóknaráð skryppi í heimsókn að Hvanneyri til þess að skoða aðstæður. Var degi varið til þess. Munaði litlu eftir þá heimsókn að Jón næði með skerpu sinni og rökvísi að snúa okkur niður en ég þakka það eingöngu víðsýni og rökhyggju Vilhjálms að umsóknin fékkst samþykkt, líka því að Framleiðnisjóður landbúnaðarins lagði málinu hliðstætt lið. Það gerði sjóðurinn, sem þá var undir formennsku Jóhannesar Torfasonar bónda á Torfalæk. Voru fjármunir nú tryggðir svo framkvæmdir gátu hafist.

Þeir Ólafur og Grétar höfðu um nokkurt skeið haft auga á hentugu skipulagi nýs húss fyrir Bútæknideild, m.a. með norræna reynslu og fyrirmyndir að bakhjarli. Reyndist því Karli Erik Rocksén arkitekt auðvelt að draga upp teikningu af hentugu húsi sem Pétur Jónsson byggingameistari síðan reisti með mönnum sínum. Að útliti svaraði húsið til Rannsóknahússins á Hvanneyri sem tekið hafði verið í notkun nokkrum árum fyrr. Má segja að staðarval Bútæknihússins hafi enn aukið á þá dreifni sem einkenndi skipulag á Hvanneyri lengi vel. Bútæknihúsið stóð fullbúið og var vígt með pompi og prakt að viðstöddu fjölmenni 23. október 1992.

Bútæknihúsið á 30 ára afmæli sínu í október 2022.

Tók nú við skeið þar sem starfsemi Bútæknideildar var með enn meiri blóma en áður: Við frábæra aðstöðu til flestra verka og allnokkurn mannafla er taldi tvo sérfræðinga, aðstoðarmann, verkstæðismann og skrifstofumann, auk þess sem Grétar deildarstjóri bauð skrifaranum, sem þá var aðalkennari í bútækni við Búvísindadeild skólans, starfsaðstöðu í húsinu. Mátti því tala um „bútæknilegt miljø“ upp á besta máta í húsinu. Prófanir búvéla, í góðu samstarfi við búvélainnflytjendur, voru umfangsmiklar, en einnig ýmsar rannsóknir, kennsla, námskeiðahald fyrir bændur og norrænt samstarf í bútæknimálum fyllti starfsdaga.

En undir aldamót tók að þrengja að. Fjármunir til rannsókna skruppu saman og það dró úr áhuga fyrir prófunum búvéla. Raunar voru það líka örlög sem systurstofnanir Bútæknideildar á Norðurlöndum höfðu mætt nokkrum árum fyrr. Það lífgaði hins vegar mjög upp á starfið í húsinu að öll bútæknikennsla skólans var flutt þangað haustið 2003, og meðal annars innréttað mjög vandað kennsluverkstæði til málmsmíða o.fl. undir stjórn Jóhannesar Ellertssonar nýráðins vélfræðikennara. Á þessum árum leituðu Búnaðarsamtök Vesturlands m.a. eftir því að fá inni í húsinu fyrir starfsemi sína en af því varð ekki.

Er til sögunnar kom Landbúnaðarháskóli Íslands í ársbyrjun 2005 má segja að fyrri starfsemi Bútæknideildar væri af ásetningi lögð til hliðar: Búvélaprófanir, námskeiðahald, rannsóknir og þróunarstarf á fagsviðinu hurfu að mestu á næstu misserum. Starfsmönnum í húsinu fækkaði af þeim sökum. Yfirstjórn búreksturs Landbúnaðarháskólans undir daglegri umsjá Snorra Sigurðssonar var hins vegar sett í húsið um tíma. Nokkur þróunarverkefni voru sett af stað undir hatti hennar en fengu fæst teljandi vind í segl.

Síðustu árin hefur hlutur BÚT-húss, sem svo er jafnan nefnt í daglegu tali, áfram og í vaxandi mæli verið tengdur almennri verkstæðisþjónustu vegna reksturs Hvanneyrarbúsins og umhverfishirðu á staðnum, auk vélfræðikennslu Bændadeildar sem áfram er mikilvægur þáttur. Til minningar um fyrri tíð eru í húsinu geymd ýmis frumgögn, skýrslur og rit er varða bútækni og starfsemi Bútæknideildar Rala og Verkfæranefndar ríkisins allt frá árinu 1954.

Þannig stendur Bútæknihúsið í dag, mjög til gagns á þeim sviðum sem það sinnir, en rannsókna- og þróunarhlutverkið sem var veigamikill tilgangur með byggingu þess, og helsta forsenda fyrir fjármögnun þess úr sjóðum ríkis og bænda, er að mestu upp þornað. Það skeið varð stutt. Enginn veit hvert hlutverk hússins verður í framtíðinni. Við henni getur húsið tekið enn, svo traustlega var það byggt í upphafi.108

108 Skrifað 10. nóvember 2017.

147