14 minute read

Grasgarðurinn

Stutt saga um Skólagarðinn – Frúargarðinn á Hvanneyri

Suðvestan við skólastjórahúsið á Hvanneyri, sem reist var árið 1920, er garður sem hin síðari ár hefur ýmist gengið undir nafninu Skólagarðurinn eða Frúargarðurinn. Eins og annað á hann sér nokkra sögu þótt heimildir um hana séu fremur slitróttar.

Advertisement

Þegar Sveinn Sveinsson hóf búnaðarskóla á Hvanneyri vorið 1889 varð honum hvað fyrst fyrir að reyna ræktun ýmissa jurta, þar á meðal matjurta, svo sem þá voru tilraunaefni forystumanna í garðyrkju og öðrum ræktunarumbótum. Fyrsta haustið skrifaði hann um árangurinn:

Matjurtagarðar voru hjer tveir fyrir, báðir til samans 250 (fer) faðmar á stærð; upp úr þeim fengust 25 tunnur af gulrófum, 4 tunnur af bortfelzkum rófum [næpum] og 4 tunnur af kartöflum. Rhabarber, ribs, píll og laukur, sem jeg gróðursetti í vor, spratt líka mjög vel; þannig komu fullþroskuð ber á sumt af ribstrjánum, og greinarnar á pílnum urðu sumar 1-¼ alin á hæð.11

Muna verður að á þessum árum hafði tíðarfar verið erfitt. Þá var varla komin til sú varsla lands sem nauðsynleg var til þess að stunda mætti umtalsverða matjurtarækt. Þótt Sveinn segði ástand húsa og jarðar á Hvanneyri vera í lakara lagi er hann tók við er þó athyglisvert að sjá að þar skyldu vera fyrir tveir matjurtagarðar. Það er hreint ekki útilokað að rætur þeirra hafi náð allt aftur til Mörtu Maríu amtmannsfrúar Stephensen í byrjun sömu aldar er bjó þá um tíma á Hvanneyri. Marta María varð fræg fyrir matargerð sína og matreiðslubók.12 Kann vel að vera að hún hafi átt sér dálítinn urtagarð á skjólgóðum stað þarna á þurrlendiskambinum, sem byggðin húkti á, í búskapartíð þeirra Stefáns, síðar amtmanns á Hvanneyri.13

Hér má koma því að að elstu skrúðgarðar í Borgarfirði eru taldir hafa verið gerðir árið 1898 og þá á Hvítárvöllum og í Ferjukoti. Ennfremur er talið að ræktun rifsberjarunna hafi oftar en ekki verið upphaf að gerð skrúðgarða.14 Hvort svo hefur orðið með rifsberjaræktun Sveins skólastjóra þekkjum við engar heimildir um.

Halldór Vilhjálmsson réðist til skólastjórnar á Hvanneyri vorið 1907. Hann var nýmenntaður í Danmörku og hafði fjölbreyttan áhuga á landbúnaði. Hann vildi meðal annars efla garðrækt, og þá ekki síst matjurtarækt. Fljótlega hóf hann að láta reisa skólahús það sem enn stendur (1910) og daglega er kallað Gamli skólinn. Halldór skrifaði í skólaskýrslu:

11 Ísafold 80. tbl. (1889), 318. 12 Marta María Stephensen 1800: Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur. Eftirprentun 2008. Í formála endurútgáfunnar er að vísu látið að því liggja að höfundur bókarinnar sé í raun mágur Mörtu Maríu, hann Magnús Stephensen. 13 Stefán er sagður hafa búið á Hvanneyri árin 1793-1811 (Hvanneyrarskólinn 50 ára (1939), 25), en Marta María lést árið 1805 (Ísl. æviskrár IV, 336). 14 Einar Helgason, í Garðyrkjuritinu 1924, eftir Magnúsi Óskarssyni í bókinni Byggðir Borgarfjarðar I, (1998), 486.

Um leið og eg ákvað legu nýja skólahússins, mældi eg fyrir garðstæði og legu hins fyrirhugaða leikfimishúss. . . Vildi eg mynda garð úr þessum ferhyrning, sem myndaðist á milli húsanna, og planta í hann trjám og blómum15 . . .

Sumarið 1911 var steyptur veggur um blómagarðinn, eins og hann var þá kallaður, og taldist garðurinn vera hálf dagslátta að stærð. Með þessum gerðum varð til miðsvæði sem hús Bændaskólans hverfðust um og hefur einkennt umhverfið þarna allt til þessa dags. Hvort danskar stórbýlafyrirmyndir hafa mótað skipulagsákvörðun Halldórs skal ósagt látið.

Garðurinn skyldi gegn þríþættu hlutverki: Hann átti að vera matjurtagarður, fyrir jurtir sem illa þrífast á bersvæði. Hann átti að vera grasgarður með helstu fóðurjurtum og loks skyldi hann vera trjágarður. Það var svo sumarið 1913 sem dr. Helgi Jónsson grasafræðingur safnaði grösum og blómjurtum í reitinn sem kallaður var Grasgarður. Sýnilega var þá verið að styrkja hlutverk garðsins gagnvart kennslu – að nemendur lærðu að þekkja helstu jurtir: á þetta að verða nemendum skólans til hægðarauka, að læra að þekkja jurtirnar, sérstaklega þeim, sem eru hér að sumrinu við verklegt nám og heyskap, skrifaði Halldór ennfremur í áðurnefndri skólaskýrslu. Með grasgarðinum var verið að hrinda í framkvæmd ákvæði reglugerðar frá 1908 um að koma skyldi upp gróðrarstöð við skólann.

Ljósmynd frá öðrum áratug aldarinnar sýnir hvar gangstígar liggja um garðinn í mjúkum línum og þétt er plantað fjölbreyttum gróðri í fleti á milli þeirra. Benda þær til þess að grunnskipulag garðsins hafi tekið mið af þeirri tísku sem þá réði og sjá mátti t.d. í skipulagi garðsins Skrúðs á Núpi við Dýrafjörð. Sennilega hefur trjám einnig verið plantað í garðinn þegar á þessum fyrstu árum. Mig minnir nemanda geta þess í dagbók sinni að sóttar hafi verið trjáplöntur í Grundarskóg í Skorradal.

Halldór Vilhjálmsson lagði mikla herslu á matjurtarækt og hvatti til hennar, taldi hana bæði spara matarkaup sem og verða til þess að bæta mataræði fólks. Óljósar heimildir eru um Grasgarðinn á Hvanneyri frá öðrum áratug aldarinnar og fram til ársins 1937. Þó má ráða af líkum að hann hafi orðið fyrir áfalli þegar skólahúsið á Hvanneyri brann haustið 1917; að þá hafi aska, brak og átroðningur leikið garðinn grátt sem og hreinsunar- og uppbyggingarstarf við nýtt skólahús þremur árum seinna. Garðurinn var þó endurgerður án sýnisreits.16 Þær fáu ljósmyndir sem til eru frá árunum um og eftir 1930 og sýna garðinn benda til þess að þar hafi ekki margt verið utan gras og einhverjar trjáplöntur. Þannig minnist Tómás Helgason frá Hnífsdal, er í skólann kom haustið 1937, trjáa sem stóðu þétt upp við vegg skólastjórahússins og höfðu orðið fyrir snjó og öðru er fallið hafði ofan af þaki hússins.17

Það mun svo hafa verið haustið 1937 að til Hvanneyrar kom Lilja Sigurðardóttir frá Víðivöllum í Blönduhlíð. Fylgdi hún fóstursyni sínum, Friðjóni Hjörleifssyni, til náms á

15 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 86. 16 Magnús Óskarsson: Í Byggðir Borgarfjarðar I (1998), 486. 17 Tómás Helgason frá Hnífsdal í samtali við BG 24. júlí 2010.

Hvanneyri og hugðist vinna fyrir honum og aðstoða hann við nám sitt eins og hún mun hafa gert við dvöl hans á Héraðsskólanum að Núpi nokkru fyrr. Lilja, sem var óvenjuleg kona um frumkvæði, dugnað og hugmyndaflug, hafði m.a. menntað sig í hjúkrun, garðyrkju og til kennslu. Hún hafði einnig dvalið í Danmörku.18 Lilja gerði merkan garð heima á Víðivöllum – og reisti síðan nýbýlið Ásgarð þar í landi, með Biðlund og Brúsalund til hvorrar handar hins merkilega hliðs að bænum sem enn má sjá við þjóðveginn þar um Blönduhlíð. Lilja hélt garðyrkjunámskeið og fór um nærsveitir sínar til garðykjukennslu – ráðunautur og var brautryðjandi skógræktar í Skagafirði. Lilja stóð fyrir Skagfirðingabúð á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930: veitingum og skreytingum í stóru tjaldi. Það tjald var svo reist og notað á Hvanneyri á 50 ára afmælisafmælishátíð skólans 24. júní 1939 en þar var Lilja einnig, ásamt systrum sínum tveimur, er önnuðust kaffiveitingar. Lilja lét pilta sækja lyng til þess að skreyta súlur tjaldbúðarinnar með, sagði Tómás Helgason.19

Runólfur Sveinsson var um þessar mundir nýtekinn við skólastjórn á Hvanneyri. Hann fól Lilju að umbreyta garðinum, líklega sem hluta af umbótum vegna 50 ára afmælis skólans vorið 1939. Undir kunnáttusamlegri stjórn Lilju fékk garðurinn það meginform sem hann hefur nú. Þá virðist garðurinn hafa orðið skrúðgarður. „Í blómagarðinum var jafnan unnið, gróðursett tré og blóm, en mest og best var hann skipulagður af Lilju Sigurðardóttur frá Víðivöllum í Skagafirði“ . . . skrifaði Guðmundur Jónsson, síðar skólastjóri á Hvanneyri.20 Vorið 1939 segist Gunnar á Hjarðarfelli Guðbjartsson hafa unnið í garðinum í vikutíma í verknámi undir stjórn Lilju: „Grjót í hleðslu hringsins í miðjum garðinum var sótt upp í ás, neðan við Litla-Skarð í Stafholtstungum“. Gunnar segir að garðurinn hafi þá verið „lagfærður og plantað í hann trjáplöntum“.21

Eitt var það sem gert var í garðinum vorið 1939. Þá skyldi komið fyrir styttu af Halldóri Vilhjálmssyni áður skólastjóra. Tómás Helgason og skólafélagi hans, Örnólfur Örnólfsson, fengu það hlutverk að púkka undir stall er steyptur var undir undir styttuna er afhjúpa skyldi á afmælishátíðinni. Styttan kom með skipi erlendis frá og átti að landa henni í Stykkishólmi

Frá Hvanneyri á 50 ára afmælishátíð skólans árið 1939. Skólahúsin fánum prýdd. Skagfirðingabúð ber undir Svíra lengst til hægri. Gróðurhús sunnan undir Leikfimihúsinu (ljósm. T. Gravem).

18 Kolbrún Finnsdóttir: „Liljan í Ásgarði“. Skógræktarritið 2004 (2), 9-13. 19 Í samtali við Tómás Helgason frá Hnífsdal 24. júlí 2010. Tómás sagði Lilju einnig hafa verið með son sinn í skóla á Núpi. Sagt var, sagði Tómás eftir nokkra þögn, að hún hefði lesið allt fyrir hann. Hann lauk ekki prófi á Hvanneyri en nam þar veturna 1937-39. Lilja hugðist fylgja honum til Danmerkur og til frekara náms þar. Heimsstyrjöldin skaut loku fyrir þá ætlan. Friðjón var sonur Hjörleifs á Gilsbakka í Skagafirði; móðir hans dó við fæðingu hans og hann vóg þá aðeins sjö merkur. Lilja tók hann með sér og hjúkraði til lífs; ól síðan önn fyrir honum. Þau fósturmæðginin deildu herbergi á Hvanneyri. 20 Guðmundur Jónsson: Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára (1979), 174. 21 Gunnar Guðbjartsson o.fl.: Gunnar á Hjarðarfelli (1997), 96.

ef væri ofarlega í farmi og þangað skyldi hún sótt. Styttan var neðarlega í farminum svo það tókst ekki. Afhjúpunin varð því að bíða þar til við skólasetningu um haustið.

Lilja kenndi nemendum Bændaskólans einnig garðyrkju og var það liður í verknámi þeirra vorin sem Lilja bjó á Hvanneyri, sagði Tómás frá Hnífsdal. Garðurinn var vettvangur kennslunnar. Þannig eiga löngu horfnir nemendur Hvanneyrarskóla sinn þátt í tilvist garðsins.

Ljósmyndir frá fimmta áratug aldarinnar bera með sér að garðurinn varð staðarprýði í höndum Lilju, sem mest mun hafa unnið að honum árin 1937-1939. Áður er nefnd hin grjóthlaðna skeifa, hringurinn, sem Gunnar á Hjarðarfelli nefnir svo, en þar voru margar ljósmyndir teknar í áranna rás. Gosbrunnur var settur í garðinn og um garðinn lagðir gangstígar eftir beinum línum. Líklega hefur þá verið plantað því sem seinna varð að trjágöngum reynitrjáa og mörkuðu gangbraut frá Leikfimisal upp að skólastjórahúsi. Eiga ýmsir skólapiltar minningar um það er þeir leiddu Varmalandsnámsmey um göngin er marsérað var tignarlega við söng úr Leikfimisalnum til samsætis inni í borðsal skólans.

Belti ribsrunna var þvert um garðinn vestanverðan sem eftirsóttir voru. Á tímum Ragnhildar Ólafsdóttur sem húsfreyju lagði hún sig fram um að verja runnana og að nýta uppskeru þeirra. Annars var fátt matarkyns ræktað í garðinum er á þann tíma var komið en þeim mun meira af ýmsum fjölærum blómplöntum til skrauts og yndisauka.

Á sjötta og sjöunda áratugnum voru lagfæringar í garðinum fastur liður í verknámi nemenda á Hvanneyri hvert vor. Þá leiðbeindi Benedikt Guðlaugsson garðyrkjumaður frá Víðigerði í Reykholtsdal nemendum og stjórnaði verkum. Þá voru stungin beð, blómum og öðrum nýgróðri plantað auk þess sem leifar gróðurspjalla eftir veturinn voru fjarlægðar. Meðal annars man ég sem nemandi vorið 1962 eftir töluverðri vinnu í hinu svokallaða verknámi okkar skólafélaganna við að „hvítta“ lábarða steinana sem síðan var raðað á ný meðfram gangstígum garðsins. Þessi skipan garðhirðingar í vorverknámi nemenda Bændaskólans var á höfð líklega fram undir árið 1965 að sérstakt verknám við skólann að vori var lagt af.

Garðurinn á Hvanneyri, líklega á fimmta áratugnum; fólkið stendur í skeifunni sem í textanum er nefnd (ljósm. Árni G. Eylands)

Hirða garðsins fylgdi á þessum árum að öðru leyti ekki mjög öguðu skipulagi. Þannig minnir mig að sumarið 1969 hafi 25 ára búfræðingar heimsótt skólann til þess að fagna afmæli sínu. Höfðu þeir meðferðis allmargar greniplöntur sem gjöf til skólans. Óvíða var þá á staðnum sérstaklega afgirtur reitur til skógræktar. Varð skólastjóra þá fyrir að láta nemendurna stinga plöntunum niður í beðhorn og grasflatar- í vesturhluta garðsins. Fæstar af þeim náðu þroska í suðvestan-sviðrandanum þar.

Í garðinn komu styttur skólastjóranna ein af annarri. Áður er getið styttu af Halldóri Vilhjálmssyni. Stytta af Hirti Snorrasyni kom áratug á eftir henni, afhjúpuð af forgöngumanni framtaksins, Jörundi Brynjólfssyni, bónda og alþingismanni. Því næst mun hafa komið styttan af Runólfi Sveinssyni sömu gerðar og sú sem afhjúpuð var í Gunnarsholti og stendur þar enn. Vorið 1968 var afhjúpuð stytta af fyrsta skólastjóranum, Sveini Sveinssyni, við brautskráningu búfræðikandídata.22 Mig minnir að þá hafi röð styttanna verið endurgerð og Runólfur færður neðst í hana þannig að aldursröð væri að nokkru virt. Styttan af Guðmundi Jónssyni kom svo sumarið 1999 og var sett framan við hinar fjórar sem fyrir voru.

Og úr því að nefndur er Guðmundur skólastjóri er rétt að geta þess að hann hafði mikinn hug á því að endurverkja grasgarð skólans. Hann fól m.a. Magnúsi Óskarssyni nýráðnum að skólanum árið 1955 það sem fyrsta verkefni að safna fóðurjurtum og öðrum íslenskum plöntum í slíkan grasgarð. Ekki tókst að vinna það verk til enda.23

Laust upp úr 1960 var vestast í garðinum, á flötinni undir gluggum kennslustofa Gamla skólans, komið fyrir stórum bekk undir hartnær 60 Mitscherlich-potta. Voru það sérstakir pottar til nákvæmnisrannsókna á jarðvegi og gróðri, svo sem á útskolun og nýtingu næringarefna jarðvegsins. Voru anstölt þessi á vegum Tilraunastöðvarinnar á Hvanneyri og undir stjórn Magnúsar Óskarssonar tilraunastjóra. Aðstaða þessi var notuð um árabil. Til Hvanneyrar komu pottarnir frá Búnaðardeild Atvinnudeildar HÍ um Tilraunastöðina á Sámsstöðum þar sem þeir höfðu ekki komist í notkun. Magnús telur að pottana hafi Guðmundur skólastjóri fengið í tengslum við þann mikla áhuga sem hann hafði á því að koma upp „lysimeter“ við skólann en það er búnaður til nákvæmnisrannsókna á vatns- og efnajafnvægi jarðvegs.24

Fram undir 1980 var skólagarðinum lítið sinnt sérstaklega, svo ég muni. Þó var hann þrifinn á hverju vori og reynt eftir megni að hirða hann sumarlangt með slætti og hreinsun illgresis. Á einhverju haustanna eftir 1980 gerði stórvirði á ófreðna jörð svo reynitrén í garðinum gáfu sig mörg; rætur losnuðu og sum trjánna féllu eða varð að fella þau. Kveikti það þörf fyrir umbætur í garðinum sem gerðar voru 1996, m.a. með ráðgjöf Auðar Sveinsdóttur

22 Tómás Helgason kveðst hafa haldið útvarpserindi um Svein Sveinsson, sem hann nefndi Fyrsta búfræðinginn. Eftir útsendingu þáttarins hafði Ólafur, sonur Sveins, samband við Tómás og tjáði honum hug sinn til þess að minnast föður síns. Mun hann hafa haft forgöngu um að Ríkarður Jónsson gerði brjóstmynd af Sveini. Mér finnst eins og landbúnaðarráðuneytið, sem þá laut stjórn Ingólfs á Hellu, hafi átt hlut að verkinu, víst með afkomendum Sveins. Kassi með brjóstmyndinni var góða stund úti á kennsluverkstæði skólans sumarið 1966 eða 7, merktur ráðuneytinu, ef mig misminnir ekki. Frumgerð myndarinnar hvílir nú í kassa uppi á lofti Halldórsfjóss. 23 Sjá pistil um Magnús Óskarsson hér síðar í ritinu. 24 http://en.wikipedia.org/wiki/Lysimeter

landslagsarkitekts. Skipulagi garðsins var í engu breytt en margt lagfært og endurgert, meðal annars grjóthlaðna skeifan sem áður var nefnd. Þó var skipt um grjót í henni, fengnir hleðsluvænni steinar en fyrir voru. Í garðinum skyldi vera safn skrautjurta sem algengar voru í skrúðgörðum á fyrri hluta 20. aldar.25 Með slætti og reglulegri hirðingu, síðustu árin undir stjórn Kára Aðalsteinssonar garðyrkjustjóra LbhÍ, tókst að halda garðinum snotrum svo gott var að ganga þangað með gesti skólans þegar saga hans og starf fyrr og síðar var kynnt. Nú bíður þar töluvert umbótaverk.

En þá er það þetta með nafnið Grasgarður – Skólagaður – Frúargarður. Sennilega hefur nafnið Grasgarður ekki náð að festast við reitinn og því fljótlega horfið úr daglegu tali. Skólagarður er líklega það nafn sem flestir hafa notað og lengst af hefur fylgt garðinum. Frúargarður hefur þá skírskotun að garðurinn var heimilisgarður skólastjórafjölskyldunnar. Á tímum Ragnhildar Ólafsdóttur, konu Guðmundar Jónssonar, notaði hún garðinn oft til útiveru, svo sem sólbaða, með fólki sínu og gestum. Var þá ekki alltaf vel séð að vandalaust fólk væri þar á rápi eða að glápi. Það var heldur ekki vel séð að starfsfólk búsins flykktist þangað í hádegishléum til sólbaða eða ærsla en Ragnhildur lét sér annt um að garðurinn væri eftir hætti þokkalega um genginn. Lá þá beint við að kenna garðinn við þá sem þar réði ríkjum og kalla hann Frúargarðinn. Hefur nafnið orðið furðu lífseigt í ljósi þess að frúr síðari skólastjóra hafa ekki sérstaklega haslað sér völl á þessari hálfu dagsláttu sem í öndverðu var afmörkuð sem garður til yndis, fræðslu og annarra nytja.

Þótt það liggi utan veggja Skólagarðsins má hér nefna framtak sem líklega skrifast á reikning Hauks Jörundarsonar (Brynjólfssonar, sem fyrr var nefndur) kennara. Hann var áhugasamur um skógrækt. Um tíma var hann formaður Skógræktarfélags Borgarfjarðar, gott ef ekki sá fyrsti. Þá mun hafa verið komið á fót eins konar gróðrarstöð fyrir trjáplöntur á Hvanneyri. Í tengslum við þetta starf var síðan plantað í lægðina við Tungutúnslækinn, einkum norðanvert við lækinn, með það í huga að þar yxi upp dálítill skógur. Ljósmyndir frá því um 1950 sýna að trjágróður þessi komst nokkuð af stað. Á þeim árum voru skiptar skoðanir um skógrækt. Það tókst misjafnlega að vernda þennan ungskóg fyrir ágangi og svo fór að hann komst aldrei á legg. Nokkrar reynihríslur í kröm norðvestan undir Ásgarðshólnum, sem lifað hafa til skamms tíma, vitna þó enn um framtakið sem og vöxtuleg grenitrén í Tungutúnsgarði en þar bjó Haukur með fjölskyldu sinni. Synd er að þessi gróður skyldi ekki fá að dafna eins og til var ætlast en tilraunin og útfall hennar lýsa viðhorfum og andblæ tímanna sem í dag er ekki auðvelt að setja sig sem dómara yfir.26

25 Magnús Óskarsson: Í Byggðir Borgarfjarðar I (1998), 486. 26 Tekið saman 2. júlí 2010; endurskoðað 1. des. 2020.