14 minute read

Minjar í fornum búlöndum Hvanneyrarkirkju

SKÓGARKOT Hvanneyrarkirkju tilheyrðu ýmsar eignir, þar á meðal jörðin Skógarkot. Hún var yst/syðst jarða í Andakílshreppi. Í Jarðabók Árna og Páls fyrir Andakílshrepp frá 23. júní 1707 segir svo um jörðina: „Bygð fyrst þar sem aldrei hafði fyrr bær verið innan 40 ára, í landi því sem eignað er Hvanneyrarkirkju.“

Skógarkotið taldist þá vera sex hundruð að dýrleika og var kallað nýlenda (nýbýli?). Var þá meðtalið engi sem kotinu fylgdi frá því að það var byggt „og liggur sunnan til við Andakílsá.“66 Tveimur og hálfri öld fyrr (1463) er Hvanneyrarkirkja sögð hafa átt „skógarpart“ í Grjóteyrarskógi.67 Líklega hefur kotið verið reist á þeim parti. Árið 1560 voru taldar jarðeignir kirkjunnar og „að auki xc kot heiter j Tungu j eyði.“68 Þar sem Jarðabókarmenn skráðu Skógarkot sem nýlendu er það líklega ekki sú Tunga, sem þarna er nefnd, heldur Grjóteyrartunga.

Advertisement

Þegar Jarðabókin var skráð 1707 voru í Skógarkoti þrír nautgripir, þar af tvær kýr, sautján fjár, þar af níu ær með lömbum, og tvö hross. Leigukúgildi voru eitt og hálft, og fyrir þau greitt í smjöri. Þetta voru kjör ábúandans, Runólfs Jónssonar, og fjölskyldu hans. Talið var að jörðin bæri aðeins tvær kýr og tólf lömb. Virðist því búpeningur Runólfs bónda hafa verið nokkuð umfram það sem kostir jarðarinnar voru taldir leyfa. Um það segir enda í Jarðabókinni: „Hvað meira er ásett, er vogað á vetrargæsku eður nábúa þolinmæði.“

Lömbin tólf og hálf kýrnyt hefur því nokkurn veginn verið það sem kom í hlut kotbóndans, að leigum greiddum, ef fullt tillit hefði verið tekið til landkosta við ásetning.

Sunnudaginn 31. júlí 1988 gerði ég ferð til þess að leita að Skógarkoti. Ég hafði aldrei haft sinnu á að spyrja einhvern kunnugan um bæjarstæðið. Sagt var að það stæði innst í Hafnarskógi og á kortum Landmælinga Íslands er kotið merkt.69 Við þá merkingu studdist ég í fyrstu.

Horft til gamla bæjarhólsins í Skógarkoti. Sér til róta Tungukolls nær en Hafnarfjalls fjær.

66 Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók IV (1925 og 1927), 173-174. 67 Íslenskt fornbréfasafn V, 409. 68 Íslenskt fornbréfasafn XIII, 553. 69 Landmælingar Íslands: 26 Borgarfjörður NA; 1:50.000.

Eftir nokkra leit taldi ég mig finna allmikinn þúfnakarga sem minnti á tóftabrot. Er hann svo sem miðja vegu á milli fjallsróta og Borgarfjarðarbrautar, beint upp af þriðja staurapari í Skaga-raflínu talið frá hitaveitutankinum sem stendur þarna á Grjóteyrarhæðum, eins og sumir kalla nú. Fjallið Tungukollur gnæfir yfir staðnum. Þarna sást móta fyrir U-laga tóftum er snúa dyrum mót norðvestri. Þýfið er mjög gróft og í því er augljóslega mikið af grjóti. Þúfurnar voru þá snöggbitnar og trúlega mótaðar af langvarandi traðki beitarpenings: sauðfjár og ekki síst hrossa. Erfitt var nú sakir grasvaxtar (2021) að gera sér grein fyrir tóftaskipan en ljóst virtist mér að nokkuð stórt mannvirki hefur staðið þarna. Líklega hafa húsin verið fleiri og þá samstæð.

Tóftirnar standa fremst á allnokkru þurrlendiskasti sem allt er grasi gróið, svo og næsta umhverfi allt. Ofan og neðan við kastið er hins vegar deiglent. Enn neðar og innar (til NA) fer að bera á uppblæstri og rofi. Suður af líklegri bæjartóft er hringlaga grjótrúst á dálitlum hól með grónum fleti í miðju, sýnilega úr völdu grjóti sem þarna hefur verið borið saman. Ég giskaði á að þarna hefði verið hlað eða fjárborg, nú hrunin til grunna. Skammt vestan við hana sýnist hafa staðið kví, 1,8 x 3,0 m. Norðurveggur hennar er mjög hruninn og ógreinilegur. Dyr kvíarinnar hafa vitað í vestur og þar er veggstubbur sem ef til vill hefur auðveldað aðhald og innrekstur. Kvíin ætti að hafa rúmað svo sem 15 ær.

Merki um tún eru þarna engin. Styður það lýsingu Jarðabókarinnar sem segir: „tún er nær því ekkert“ . . . Hins vegar segir að þar sé hætt fyrir fjallskriðum og að þær vaxi árlega. Þótt smágil sé rétt inn af ætluðum tóftahól verður í dag ekki séð að skriður ógni þessum stað og grjóthrun úr fjallinu er óverulegt. Allt graslendi umhverfis tóftahólinn er þýft og ógreiðfært til sláttar; hvergi samfellda teiga að sjá.

Frá ætluðum tóftum sér vel yfir hérað, allt frá Andakíl í norðaustri (Vatnshamraholti) til róta Hafnarfjalls í vest-suðvestri. Sennilega er veðrasamt á tóftahólnum því hann ber nokkuð yfir næsta umhverfi sitt. Var heyjum enda hætt í stórviðrum, að því er segir í Jarðabók. Sitt hvorum megin hólsins falla litlar lækjarsitrur fram. Mynda þær tungu sem tóftirnar standa á. Lækirnir eru litaðir mýrarauða og geta því tæpast talist góðar lindir neysluvatns. Um það bil 200 m innan við tóftirnar fellur hins vegar fram tær lækur (í Flæðihöfðagil ?).

Sjáanlegar minjar í Skógarkoti; kvíin er þeirra greinilegust og það sem hugsanlega hefur verið hlað – eða fjárborg.

Um það bil 300-400 m austan við ætlaðan tóftahól mátti allglöggt greina gamla mógröf. Engar skógarleifar er nú að sjá í nágrenni tóftanna, enda segir í Jarðabókinni: „Skógur er so þrotinn, að nú er hann valla til kolagjörðar og eldiviðar bjargligur.“

Nú má leiða hugann að því sem þarna hefur gerst. Fyrst nafninu Skógarkot. Einfaldasta skýringin á því er kot í skógi. Þegar byggð var sett þarna á ofanverðri sautjándu öld, um 1670 (?), er sennilegt að skógur hafi verið þar nærlendis, hugsanlega á því svæði sem nú einkennist af jarðvegsrofi og –eyðingu. Að minnsta kosti greinir Jarðabókin frá skógi í landi Grjóteyrar, sem er næsti bær innan við Skógarkot, nægum til „raftviðar, kolgjörðar og eldiviðar, brúkast sjaldan til að bjarga peníngi í heyskorti.“ Í Tungu (Grjóteyrartungu) hafði skógur verið „en nú rifhrís alleina, brúkast til eldiviðar og kolgjörðar.“ Sömuleiðis í Árdal „en nú nær eyddur, brúkast þó til kolgjörðar og eldiviðar.“ Ekki getur Jarðabókin skóga á Ytri Skeljabrekku og þurfti þar „allan eldivið út að kaupa.“ Er því líklegast að skóglendi hafi teygt sig allt að Árdalsá að minnsta kosti, hugsanlega yfir það svæði sem nú einkennist af lynggróðri og hálfberum holtum. Má geta þess að í snarbröttum skriðuteigunum innanvert í Árdalsgilinu eru enn allnokkrar og sæmilega gildar birkihríslur. Kann Skógarkot því að hafa verið umlukt skógi, hafa verið kot í skógi eins og fyrr segir, og að það hafi að einhverju leyti skýrt þá landþröng kotsins sem Jarðabókin greinir frá?

Með vísun til þess að Skógarkot var talið tilheyra Hvanneyrarkirkju langt fram á tuttugustu öld voru uppi hugmyndir hjá Hvanneyrarskóla, eiganda kirkjunnar, um að koma upp beitargirðingu í landi kotsins. Í dagbók Guðmundar skólastjóra Jónssonar segir að 25. apríl 1953 hann hafi ásamt Guðmundi Jónssyni á Hvítárbakka og Sigurði Sigurðssyni á YtriSkeljabrekku athugað land Skógarkots með tilliti til þess að koma þar upp girðingu fyrir naut og stóðhross. „Leizt okkur vel á þetta“, skrifaði Guðmundur. Samkvæmt sömu heimild mótmælti Óskar Hjartarson bóndi á Grjóteyri hugmyndinni þá um haustið, þar sem um væri að ræða ítak Hvanneyrar í Grjóteyrarlandi. Guðmundur skrifar að þá hafi hann fundið skjal um Skógarkot sem jörð (væntanlega sem sérmetna fasteign) og látið, þann 9. september, ýta

[Hér er skotið inn hluta af skrifum mínum á Facebook 16. febrúar 2021: . . . á heilsubótargöngu í sumarblíðu dagsins með sinni neðan við Skógarkot . . . Ég þóttist sjá bæjarhúsin þar sem við gengum hjá. Ég reisti við tóftakarga, sá ég ekki kotbæinn? Jú. Hækkaði þekjuna. Setti svo hrossin Runólfs austur á túnpentuna. Stækkaði hana ögn. Ímyndaði mér hana umlukta túngarði með birkiskóg utan við. Hann er minnsta kosti að vaxa núna. . . ES: Sagnfestufólk! Takið EKKI mark á þessu rissi.]

„fyrir girðingarstæði með jarðýtu.“70 Ekki mun hafa orðið af frekar framkvæmdum en sátta leitað. Tveimur árum seinna „eða þ. u. b. keypti Óskar Hjartarson Skógarkotið af Hvanneyri á fimm þúsund og fimm hundruð krónur og lagði undir Grjóteyri.“71

SELSTÖÐUR FRÁ HVANNEYRI Hvanneyrarkirkja átti rétt til selfara sem Hvanneyrarbóndi hefur mjög líklega nýtt á tímum seljabúskapar. Samkvæmt máldaga frá árinu 1257 átti Hvanneyrarkirkja selför í Indriðastaðaland.72 Þremur öldum seinna er þeirrar selfarar enn getið en að auki selfarar í Kirkjutungur.73 Ekki er vitað hvenær selfarir frá Hvanneyri í þessi lönd lögust af. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1707 er þeirra ekki getið. Hins vegar segir þar um Horn í Skorradal en Kirkjutungur eru í landi þeirrar jarðar, sem var ein af jörðum Hvanneyrarkirkju: „Selstöðu hefur jörðin fyrir sig sjálfa í heimalandi, hana má ábúandinn öðrum ljá, ef hann vill ei sjálfur brúka, og hefur það sjaldan gjört verið, en þá skeð hefur, fyrir einhvörn góðvilja minni en xx álnir.“74 Má skilja frásögnina svo að á selstöðuna á Horni hafi verið litið sem sérstakan hluta jarðarinnar, eins konar „ítak“, sem fleiri en ábúandi gátu nýtt, til dæmis kirkjubóndinn á Hvanneyri. Ekki er ljóst hvort þarna er um að ræða sama ítak og skráð var í máldaga kirkjunnar á Hvanneyri. Orðalagið bendir ekki til þess að selstaðan hafi verið nýtt þegar Jarðabókin var tekin saman árið 1707. Seljabúskapur hafði þá líklega fallið niður því Jarðabókin getur ekki um neina jörð í Andakílshreppi sem hafði búpening í seli um þær mundir.

Í sóknalýsingum héraðsins skráðum veturinn 1840 segir: „Selstöður veit eg ei til að aðrir bæir eigi en Hvanneyri í Kaldárdal í Indriðastaðalandi sem orðin er óbrúkanleg af skriðum og fönnum og aðra í Kirkjutungum í Skarðsheiði norðanvert, er vel brúkanleg en notast nú ekki nema til að leigja hana nálægum bæjum til beitar og slægna . . . Nær þessar selstöður hafa niðurlagst held eg nú ei gott að uppgötva.“75 En hvar voru selstöður Hvanneyrarkirkju þær er sagðar voru í Kirkjutungum og í Indriðastaðalandi?

Skoðum fyrst Kirkjutungur: Kirkjutungur eru graslendi á milli Álfsteinsár og Hornsár í Skorradal. Tungurnar eru tvær og skilur Kirkjutungnalækur á milli þeirra. Land þetta er sérlega vel gróið, einkum þó vesturtungan: graslendi að meginhluta sem hallar til norðausturs. Þann 24. júlí 1983 gekk ég um Kirkjutungurnar og svipaðist um eftir mannvirkjaleifum sem bent gætu til selstöðunnar. Í vestari tungunni, nokkuð upp með Kirkjutungnalæknum, er eins konar hóll, eða þúfnakargi, á að giska 12 m á breidd og 23 m að lengd, og er lengd hans samsíða læknum. Þegar ég gekk þarna um var þúfnakarginn greinilega dekkri að grænum lit en umhverfið, einkum vegna þess að þar uxu aðrar grastegundir en í kring. Lýsinguna gat ég í aðalatriðum staðfest þegar ég leitaði staðarins 20. júlí 2021. Af þúfnakarganum var erfitt að

70 Dagbók Guðmundar Jónssonar skólastjóra. Óbirt. Í vörslu LbhÍ. 71 Orðsending Guðmundar B. Guðmundssonar til BG 17. febrúar 2021. 72 Íslenskt fornbréfasafn I, 589. 73 Íslenskt fornbréfasafn XIII, 553: „Jtem selfor. heiter Kyrkiutunga.“ 74 Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók IV (1983), 156. 75 Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar. (2005), 256.

greina form sem bent gæti til skipulags mannvirkja. Þó sýndist mér mega greina þá skipan sem dregin er upp á meðfylgjandi mynd:

Þarna er sennilega um rúst hins forna sels frá Hvanneyri að ræða. Í þúfunum bar nokkuð á grjóti líkt og væri í veggjahleðslum en af grjóti er annars lítið þarna í næsta nágrenni. Minjarnar eru sýnilega mjög gamlar, svo grónar eru þær orðnar. Skammt er í vatnsból; aðeins á að giska 50 m austur í Kirkjutungnalækinn. Frá „selinu“ sést vel niður yfir vesturtunguna. Meintar minjar eru í fast að 200 m hæð. Áætla má að „selgatan“ frá Hvanneyri hafi verið 6-7 km löng.

Þarna í kring er mikið graslendi, þar sem skiptast á votlendisgróður og þurrlendi, sýnilega gott beitiland sem og heyskaparland. Þess má geta að um það bil 200 m neðan (norðan) við meintar seltóftir eru leifar af garði þvert um Kirkjutungurnar. Garðurinn er svo sem eitt fet á breidd og áberandi beinn. Bjarni Vilmundarson (1928-2016) bóndi á Mófellsstöðum kvað þetta vera garð sem hlaðinn var undir girðingu er þarna var gerð til þess að halda neðsta hluta Kirkjutungnanna hreinum fyrir fé svo slægjulönd þar spilltust ekki. Girðingin mun líklega hafa verið gerð á árunum upp úr 1930.

Snemma á síðustu öld var Hvanneyrarfé jafnan fært í Kirkjutungurnar síðsumars og þar mun hafa verið fenginn maður til þess að ganga í kringum það daglega gegn nokkurri þóknun. Nemandi á Hvanneyri skrifaði 26. nóvember 1912: „Eg fór með tveimur öðrum mönnum uppí Skarðsheiði að sækja rollur Halldórs [skólastjóra Vilhjálmssonar], ca. 320 lömb var búið að taka áður og ca. 50 rollur.“76 Bjarni á Mófellsstöðum vissi ekki um sel frá Hvanneyri á þessum slóðum en benti mér á að selið frá Mófellsstöðum, Gljúfrasel, væri svo sem hálftíma gang frá Mófellsstaðabæ, fast austan við Hornsána.77

En þá var það selstaðan í Indriðastaðalandi. Ég innti Þorgeir Þorsteinsson (1902-1999) á Grund í Skorradal eftir henni, en Þorgeir var mjög vel kunnugur þeim slóðum. Þrátt fyrir örnefnin minntist Þorgeir ekki seltófta í Selskógi eða á Selflötum, grasi grónu mýrlendi upp af sumarbústöðunum í Indriðastaðalandi austanverðu. Hafði Þorgeir þó oft farið þar um, m.a. með símalínum í bilanaleit.78 Lausleg leit, sem ég gerði 30. júlí 1983 með dætrum mínum,

Lauslega dregin mynd af meintu seli frá Hvanneyri í Kirkjutungum í Skorradal.

76 Aðalsteinn Magnússon frá Grund í Eyjafirði, nemandi í Hvanneyrarskóla, í óbirtri dagbók. Í vörslu LbhÍ. 77 Bjarni Vilmundarson á Mófellsstöðum í samtali við BG 26. desember 1983. 78 Þorgeir Þorsteinsson á Grund í Skorradal í samtali við BG 19. júlí 1982.

Tóftir af hinu meinta seli Hvanneyrar í Kirkjutungum eru á miðri mynd, vestan Kirkjutungulækjarins, eilítið grænni en umhverfið. Stafur stendur í meintri tóft. Fjær sér yfir Borgarfjörð/Hvítá og vestur um Mýrar.

Selstaðan við Kaldá. Tóft kvíarinnar fyrir miðri mynd; þúfnakraðakið til hægri gæti falið minjar fleiri mannvirkja.

Ásdísi Helgu og Sólrúnu Höllu, að hugsanlegri selstöðu í og upp af Selskógi bar ekki árangur. Þann 27. júlí 2021 gerði ég leit að selstöðunni með tilvísun áðurnefndra sóknarlýsinga frá 1840 í huga . . .„á Kaldárdal“. Og mikið rétt: Á vel gróinni eyri fast austanvert við Kaldá gekk ég fram á mjög greinilega kví, sjá meðfylgjandi mynd. Þarna er komið í um það bil 180 m hæð y.s.

Frá selinu, sem þarna virðist hafa verið, er útsýni til selhaganna mjög takmarkað. Aðeins u.þ.b. 80 m eru í Kaldána og þar hefur verið auðvelt að nálgast hleðslugrjót, sem mér sýndist allnokkuð vera í kvínni. Hún er töluvert mannvirki, 1,9 x 6,8 m með vænum veggjum. Gæti því hafa rúmað 30-35 ær við mjaltir. Þær virðast því hafa verið álíka stórar kvíin á Kaldárdal og kvíin/stekkurinn á Suðurholtunum heima á Hvanneyri sem sagt var frá hér að framan. Þær skyldu þó ekki hafa verið hlutar í sama fráfærna-/selstöðukerfi reistar fyrir sama ærhópinn – sem fyrst eftir fráfærur var heima á Hvanneyri, síðan hafður í seli um 4-6 vikna skeið og loks heima á Hvanneyri er ærnar tóku að geldast undir haust?

Skammt norður af kvínni er þúfnakraðak, eiginlega tvískipt. Ekki var mögulegt að greina tóftir þar en dekkri litur á gróðrinum vakti grun minn um að þar kunni fleiri mannvirki að hafa staðið.

Ekki sýnist mögulegt að stunda heyskap þarna nærlendis. Í landinu austur og upp af selinu skiptast á grasteigar, gil og holtaranar, en í þeim er ljóst líparítið áberandi og leyfir engan gróður. Lengra til norðurs tekur hins vegar við býsna þéttur birkiskógur.

Kindagötur greiddu leit mína að selstöðunni. Beggja megin hennar og samhliða Kaldánni eru göturnar býsna glöggar, raunar eins og manngerðar þar sem þær hafa myndað beina og skýra sneiðinga í brekkurnar. Er því líkt og selstaðan hafi verið um þvera götu sem lá annars vegar til skóglendisins norðan við selstöðuna en hins vegar suður og upp í teigana undir Skarðsheiði.

Greiðust gönguleið að selinu er upp með Kaldá að vestanverðu þar sem skýr fjárgata liggur fast meðfram gili og gljúfrum Kaldár. Að austanverðu, Indriðastaðamegin, er leiðin hins vegar afar ógreiðfær því þar þarf að brjótast í gegnum birkiskóg, sem á pörtum er hávaxinn og afar þéttur.

Gera má tilraun til þess að bera selstöðurnar tvær saman. Engin leið er að giska á hvenær þær lögðust af eða eins og segir í sóknalýsingunum frá 1840: „Nær þessar selstöður hafa niðurlagst held eg nú ei gott að uppgötva.“79 Séu þær bornar saman við selstöður við Dýrafjörð80 er það ágiskun mín að Hvanneyrarselstöðurnar hafi varla verið í notkun eftir aldamótin 1800. Ég tel

Minjar um selstöðu á Kaldárdal í landi Indriðastaða í Skorradal. Myndarleg kví er það helsta sem nú má greina þar.

79 Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar. (2005), 256. 80 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður við Dýrafjörð“. Rit LbhÍ nr. 133 (2020).

einnig líklegt að selstaðan í Kirkjutungum hafi lagst fyrr af, ef til vill vegna þess að það land var hentugra til annarra nota svo sem heyskapar og haustbeitar.

Selstöðurnar eru í svipaðri hæð yfir sjó, báðar eiga örskammt í vatnsból en útsýni yfir sellöndin og þá til hjarðanna er gerólíkt: mikið og gott í Kirkjutungum en nær ekkert við Kaldá. Sellönd á Kaldárdal bera meiri hálendiseinkenni en sellöndin í Kirkjutungum sem eru vel grösug – heil- og hálfgrösum. Þar hefur selfólkið getað stundað heyskap sem nær útilokað hefur verið nær selinu á Kaldárdal. Ósennilegt er annað en að selfólkið hafi dvalið í seljunum um seljatímann þó reglulega hafi afurðir verið fluttar heim að Hvanneyri. Leiðirnar eru of langar til daglegra ferða, um 6-7 km í Kirkjutungur en um 10-11 km í Kaldárdal.81 Ekki verður neitt af minjunum ráðið um íverustaði fólksins. Kvíin á Kaldárdal er sú eina sem skýra sögu segir um starfið í seljunum.

Sennilega hafa tvenn sel staðið í landi Indriðastaða: Áðurnefnt sel frá Hvanneyri á Kaldárdal annars vegar en hins vegar sel heimajarðarinnar nærri austurmörkum hennar megi marka örnefnin Selflatir og Selskógur sem þar eru. Máske finnast minjar um það einhvern daginn.82

81 Hér er byggt á líklegustu leiðum og áætlun með google earth. 82 Skrifað 2. ágúst 2021.