Hvanneyrar-pistlar II

Page 1

Hvanneyrar-pistlar Bjarna Guðmundssonar

II 2024


Hvanneyrar-pistlar Bjarna Guðmundssonar II, 2024. ISBN 978-9935-25-512-9 https://issuu.com/bjgudm Öll réttindi áskilin. Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild án skriflegs leyfis rétthafa efnis hennar. Forsíðumynd: Litlilækur við Andakílsá sumarið 2023; horft til Brekkufjalls og Skarðsheiðar. Ljósm. BG. Uppsetning: Þórunn Edda Bjarnadóttir.


Efnisyfirlit Hvanneyri – Af byggð fyrir tíma Búnaðarskólans.............................................................6 Anna Gunnarsdóttir fyrsta konan sem nam í Hvanneyrarskóla........................................14 Búnaðarnám Önnu.............................................................................................................................................. 15 Sundkonan Anna................................................................................................................................................. 16 Annað um Önnu.................................................................................................................................................. 18

Grasasafn ...................................................................................................................20 Dagbók Koltrýnu litlu ..................................................................................................26 Kornrækt á Hvanneyri..................................................................................................32 Reykhúsaprestakall.....................................................................................................38 Skóla-Jóna..................................................................................................................44 Skóla-Jóna........................................................................................................................................................... 45 Úr Kvási – blaði nemenda.................................................................................................................................... 47

Með kór Hvanneyrarsóknar...........................................................................................50 Upphaf leikskólastarfs á Hvanneyri...............................................................................56 Hvítárós – býlið í Hólnum ............................................................................................66 Hvítárós fyrr á árum ............................................................................................................................................ 67 Býli stofnað á Hvítárósi........................................................................................................................................ 68 Landkostir og ábúð.............................................................................................................................................. 70 Svipast um á Hvítárósi......................................................................................................................................... 75 Að endingu.......................................................................................................................................................... 81 Þakkir.................................................................................................................................................................. 81

Baráttur um búvísindi..................................................................................................82


Á Hvanneyrartúni í byrjun gróanda 7. maí 2023. Ljósm. Ásdís Helga Bjarnadóttir.

4


Formáli Hér birtist önnur syrpa Hvanneyrarpistla minna. Þá eru þær orðnar þrjár, I-III. Að sinni verða þær ekki fleiri. Þegar litið er yfir pistlana sést að þeim er ekki nákvæmlega skipað niður eftir viðfangsefnum. Form þeirra er sömuleiðis ögn laust í sínum reipum. Sumt af því er gert með vilja. Öðru hefur hendingin ráðið. Tilgangur minn með pistlunum er að fræða um skólastaðinn Hvanneyri og Búnaðarskólann sem þar hefur nú starfað í eitt hundrað þrjátíu og fimm ár þegar allt er talið. Engan veginn get ég ábyrgst að rétt sé farið með allt sem í pistlunum stendur. Það hef ég þó reynt í samræmi við þær heimildir, munnlegar og skriflegar sem ég hef stuðst við. Hér og hvar er um eigin upplifanir og skoðanir að ræða. Vona ég að lesendur geti greint það efni pistlanna frá öðru. Ég vona að pistlarnir geti orðið sem flestum, bæði í hópum heimafólks á Hvanneyri og gesta staðarins, til fróðleiks og annars gagns. Skrifað 15. janúar 2024 Bjarni Guðmundsson

5


I. kafli

Hvanneyri – Af byggð fyrir tíma Búnaðarskólans Eftirfarandi er endurritun af skjali í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar, merkt þar 1996 N/1 Bændaskólinn, 50 ára, sem geymir gögn Guðmundar Jónssonar vegna ritunar fimmtíu ára sögu Hvanneyrarskóla 1939. Skjalið er ekki merkt höfundi. Sennilega á það rætur að rekja til Teits Símonarsonar (1865-1945) fyrrum bónda á Grímarsstöðum en hann ólst upp í Ásgarði á Hvanneyri. Hann var sonarsonur Teits Símonarsonar (1796-1887) frá Hæli í Flókadal. Ætt hans „bjó á Hvanneyri og í Hvanneyrarhverfinu um langt skeið, eða frá 1838 til 1896 . . . bændahöfðingi og víðþekktur maður á sinni tíð,“ skrifaði Guðmundur sem virðist hafa notað töluverðan hluta af þessari frásögn í bók sinni, sjá bls. 25-37.

6


xxxxx „Teitur hjet maður, sonur Símonar bónda Teitssonar á Hæli í Flókadal og konu hans Ingibjargar Sveinsdóttur. Teitur var fæddur á Hæli 20. nóv. 1796. Árið 1828 fór hann að búa á Litlakroppi í Reykholtsdalshreppi, með heitkonu sinni Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Norðureykjum í Hálsasveit, (og) var hún föðursystir Guðmundar Finnbogasonar landsbókavarðar. Teitur og Guðrún giftust sama ár, 28. október. Á meðan þau bjuggu á Litlakroppi eignuðust þau 5 börn, Guðmund, Símon, Ingibjörgu, Þorkel og Margrjeti. Árið 1838 fluttu þau hjón að Hvanneyri í sambýli við Jón Pálsson, sem þá bjó þar, en flutti nokkru síðar að Ausu og bjó þar til dauðadags. Kona hans hjet Gróa Gissurardóttir; þeirra börn voru Árni, Jón, Hannes og Sigríður og verður þeirra síðar getið. Þessir 4 feðgar voru allir smiðir á trje og járn, en Jón Jónsson þó bestur. Jón Pálsson var talinn hafa framsýnisgáfu og skulu tvö dæmi sögð af því. Eitt sinn er hann kom heim úr Reykjavíkurferð hafði hann keypt sjer nýjan bát sem hann ætlaði að hafa til flutninga að og frá heimili sínu. Þegar Jón lenti við Hvanneyrarfit gengu menn til móts við hann til að fagna honum og sjá bátinn. Segir þá einn af grönnum hans við hann. „Þarna hefir þú fengið þjer góðan bát Jón minn.“ Jón svarar: „Víst er báturinn góður og til ýmsra hluta nytsamlegur og síðast verður hann líkkistan mín.“ Svo liðu ár og dagar, en eitt sinn er Jón ætlaði til Reykjavíkur á bát sínum kvaddi hann börn sín á dálítið annan hátt en hann var vanur og konu sinni sagði hann að þetta mundi verða sín síðasta ferð til Reykjavíkur; en í ferð þessari týndust þeir báðir báturinn og Jón. Þá er aftur að víkja þar að er Teitur Símonarson var orðinn bóndi á Hvanneyri; fór þá brátt að koma í ljós að hann hafði framtak og hugsjónir fram yfir það sem alment var í þá tíð, hann var fyrsti maður á Hvanneyri og í stóru umhverfi hennar, að hefja túnasljettun; sljettaði hann svonefndan Hólavöll sem liggur austan við íbúðarhús það, sem nú er á Hvanneyri og er afmarkað af veginum, aðra sljettu all mikla gerði hann í norðurtúninu, en eins og að líkum lætur er nú búið að sljetta þetta alt upp aftur. Teitur var og fyrsti maður sem veiddi lax í Hvítá við Hvanneyrar land. Hann kom og betra skipulagi á margt meðal granna sinna þar í Hvanneyrarhverfinu heldur en áður var. Þetta kunnu þeir að meta og álitu hann foringja sinn og gáfu honum nafnið Fylkisvörður, því í þá tíð var Hvanneyrar hverfið eða eignin af ýmsum kölluð Fylki. Teitur var lágur vexti en þjettur á velli og þjettur í lund og þolgóður á raunastund. Öll þau ár sem hann bjó á Hvanneyri og Hvítárósi ríkti svo mikill friður og eining innan þéttbýlisins, meðal ábúenda og alls fólks að slíkt mátti telja til afbrigða, hann var og prúður maður til orða og athafna og ráðhollur í besta lagi, því var hann og vel metinn af öllum sem kyntust honum fyr og síðar.

7


Ekki hafa geymst sagnir um það hve stórt bú hafi verið á Hvanneyri eftir að Teitur varð einn ábúandi á heimajörðinni, nema þær að hann hafi haft 20 kýr í fjósi, og því til sönnunar er til vísa sem þá var um hann gerð, og er hún svona: Teitur býr með tuttugu kýr í fjósi. Framtak knýr til farsældar. Fróni stýrir Hvanneyrar. Vísan segir ótvírætt að hann hafi haft 20 kýr, vafalaust hefir hann og haft naut og svo 4-5 kálfa og vetrúnga til viðhalds svo nautgripir hafa vafalaust verið 25 til 6. Vorið 1860 flutti Teitur frá Hvanneyri og reisti nýbýli að Hvítáósi, en það land lá áður undir Hvanneyri. Aðal ástæðurnar til þess að hann tók þetta fyrir voru þær að hann gerðist maður gamall til að búa á stórri jörð og svo hitt að börn hans og Jóns Pálssonar voru þá farin að trúlofast og giftast saman og hvorttveggja það fólk vildi helst búa innan Hvanneyrarfylkis, og vildi hann hjálpa til af bestu getu (til þess) að þessi ósk þess gæti ræst, svo kom hitt og til að Hvítá var farin að draga huga hans til sín, og mun hann hafa sjeð að það var bæði gagnlegt og gaman fyrir sig þegar hann var hættur að þola að vinna almenna erfiðisvinnu, að hafa til stundunar bestu laxveiðilögn í Hvítá skamt frá bæjardyrum sínum; ekki síður fyrir það að hann hafði sjálfur komið þessu í framkvæmd. Ekki hafði hann nema þessa einu lögn til afnota meðan hann bjó í Hvítárósi, hinar fylgdu Hvanneyri eins og áður. Þá er Teitur flutti frá Hvanneyri var Guðmundur sonur hans og Sigríður Jónsdóttir Pálssonar gift og farin að búa í Ásgarði, þar í hverfinu. Guðmundur lifði ekki nema stutt eftir það, því árið 1864 var Símon bróðir hans giftur Sigríði og orðinn bóndi í Ásgarði, og það ár 17. ág. var hann af stiftamtmanni skipaður hreppstjóri í Andakílshreppi. Hvanneyri tóku til ábúðar, er Teitur flutti þaðan, Gróa Gissurardóttir og synir hennar þrír, allir þá orðnir fulltíða menn, og var Gróa talin fyrir búinu fyrstu árin, en hún hafði þá mist mann sinn á þann hátt er fyr greinir. Synir hennar giftust allir mjög svo samtímis eftir 1860. Árni fór að búa á Svíra og síðan í Ausu og síðast í Staðarhóli og var hann síðasti ábúandi þar til 1901. Þá var þar þó húsmenskufólk um nokkur ár. Árni varð þrí giftur, átti fyrst Vilborgu Sigurðardóttur svo Guðrúnu Oddsdóttur og síðast Ástríði Jónsdóttur, Runólfssonar, er var ábúandi Hvanneyrar frá 1886-1889. Hannes fjekk fyrir konu Guðrúnu Teitsdóttur Símonarsonar og Guðrúnar konu hans og var hún þeirra yngsta og síðasta barn, fædd 24. sept. 1840. Hannes og Guðrún reistu bú í Ausu og bjuggu þar meðan þau lifðu. Þriðji bróðirinn Jón gerðist bóndi á Hvanneyri og giftist Ingibjörgu Teitsdóttur. Það mun vera fátítt að tvær ættir giftist svo mikið saman sem þessar gerðu. Á þeim árum, sem framangreint var að gerast og þó nokkrum árum lengur, skein sól hamingju og hagsældar yfir Hvanneyrarhverfi og öllum íbúum þess, en það vill verða svo að á skiftast skin og skuggar og það reyndist svo þar, því árið 1870 syrti skyndilega að í lofti og þungur hrammur örlaganna lagðist yfir þetta hamingjusama fólk. Það ár þann 28. marz drukknuðu 8


Kort af Hvanneyrartúnum frá árinu 1918; verk Páls Zóphóníassonar, þá kennara á Hvanneyri. Enn eimdi þá eftir af hinni fornu skiptingu jarðarinnar: Nr. 1: Hamrakot; Nr. 2: Svíri; Nr. 3: Hvanneyri (heimajörðin); Nr. 4 Tungutún (Tunga) og Nr. 5 Ásgarður. (Þjóðskjalasafn).

þeir Símon í Ásgarði 39 ára [og] Jón á Hvanneyri 37 ára. Þetta var í einu af hinum mörgu mannskaðaveðrum þessa lands; þeir stunduðu fiskiróðra suður á Vatnsleysuströnd og voru tveir á bát, hrakti þá undan roki og ósjó upp undir Akranes, og fórust þeir í brimi þar við land. Lík þeirra ráku þar með nokkru millibili og voru þau sótt af Andkílingum og jarðsett að Hvanneyri, Símon 13. apríl en Jón 25. apríl. Að hausti þess sama árs dó úr lúngnabólgu Jón bóndi Sigurðsson í Hamrakoti innan 40 ára aldurs, hann var bróðir Vilborgar fyrstu konu Árna á Svíra. Að þessum þrem bændum var hinn mesti mannskaði því þeir voru hver um sig hinir ágætustu menn að andlegu og líkamlegu atgerfi. Það er augljóst að Andakílshreppur hefir orðið fyrir miklu tjóni við fráfall þeirra, en þó var það hjer sem oftar að harðast kom þetta niður á ekkjum þeirra og barnahóp, sem og öllu því fólki sem lifði og starfaði með þeim þarna í Hvanneyrarhverfinu. Úr þessu rættist þó vonum framar, því allar þessar ekkjur komu sjer saman um að taka þessu mikla áfalli með fullkomnum kjarki og dugnaði og bundu það fastmælum sín á milli að standa sem hetjur hlið við hlið ákveðnar í að koma barna hópum sínum upp til sem sæmilegastrar menningar en það var þungur róður því börnin voru 15 að tölu, öll meira og minna inna við fermingaraldur. En fyrir samstillingu og dugnað þeirra varð útkoman mikið betri en nokkur maður gat í byrjun hugsað sjer, því þær gengu með hinum besta sigri frá þessari hugsjón sinni. Tvær af þessum ekkjum eru áður tilgreindar en sú þriðja var Þórunn Ólafsdóttir í Hamrakoti fædd og uppalin 9


á Bárustöðum sem eru eins og kunnugt er næsti bær við Hvanneyri að norðan. En þessi slysa og rauna saga er ekki ennþá á enda því undir árslok 1874 á Þorláksmessudag drukknuðu þeir Hannes bóndi Jónsson í Ausu og Ólafur bóndi á Bárustöðum, bróðir Þórunnar í Hamrakoti, niður um ís á Norðurá í Norðurárdal; voru þeir að koma úr heimboði frá vini sínum Jóni bónda á Hvassafelli, þeir riðu báðir gæðingum, en hafa ekki gætt nægrar varfærni því undan Glitstöðum brast ísinn undan hestunum og þeir vinir og fjelagar druknuðu þar báðir í sömu vök. Lík þeirra fundust og voru jarðsett að Hvanneyri. Þegar Guðrúnu Teitsdóttur var tilkynt lát Hannesar manns síns af sóknarpresti og föður sínum lagðist hún þá þegar í rúmið og ljest eftir rúma viku. Þau hjón voru jarðsett sama dag og látin í sömu gröf; þau áttu 5 drengi, alla innan 12 ára aldurs. Hannes var fjörmaður mikill og fjölhæfur til allrar vinnu, Guðrún mesta góðvildar og sóma kona. Þeir Hannes og Ólafur voru jafnaldrar báðir 35 ára gamlir. Þessum 5 föður og móðurlausu drengjum var skift niður á milli frændfólks síns í Hvanneyrarhverfinu, einn þeirra fór þó annað til frændkonu sinnar. Eftir öll hin framangreindu slys og raunir liðu um 10 ár þar til aftur fór að rofa til og börnin að komast upp samkvæmt hinu algilda lögmáli lífsins. Þess skal hjer getið að eftir að Ingibjörg Teitsdóttir misti mann sinn bygði hún hluta af Hvanneyri ekkju er hjet Guðbjörg Erlendsdóttir 61 árs að aldri er átti 3 börn og bjó hún þar í nokkur ár þar til hún ljest. Sigríður og Þórunn bjuggu einbýli á sínum jörðum. Nú liggur frásögnin niðri til ársins 1883, þá er Björn búfræðingur Björnsson [Bjarnarson] talinn ábúandi Hvanneyrar en í raun og veru bjó hann það ár í Tungutúni, en fluttist árið eftir að Hvanneyri í sambýli við Ingibjörgu og er þar til 1885 að hún fluttist að Hamrakoti, og bjó Björn þá á allri jörðinni og var eigandi hennar, en varð að sleppa af þeirri góðu eign vegna fátæktar. Björn flutti frá Hvanneyri árið 1886 þá til Reykjavíkur, en von bráðar fór hann að Grafarholti í Mosfellssveit og lifir þar og starfar ennþá orðinn aldraður maður. Alt fólk í Hvanneyrarhverfi árnaði honum góðs er hann flutti burt þaðan. Þá tók við Hvanneyri Jón bóndi Runólfsson frá Vatnshömrum þá 56 ára að aldri og býr þar til ársins 1889, en þá er Bændaskólinn stofnaður og jörðin tekin undir hann, sömuleiðis býlið Svíri, þar bjó þá ekkja, Gróa Snæbjarnardóttir, sem hætti þá búskap og fór til Sveins Sveinssonar sem fyrstur varð skólastjóri á Hvanneyri. Teitur Símonarson bjó á Hvítárósi til vorsins 1880, hætti hann þá búskap og fór til Ingibjargar dóttur sinnar og dvaldi hjá henni til dauðadags 1. apríl 1887 þá 91 árs að aldri, hafði hann þá búið á Hvanneyri og Hvítárósi í 42 ár og jafnlengi á báðum stöðum. Hvítárós fengu þá til lífstíðar ábúðar, Daníel Andrjesson Fjeldsted frá Hvítárvöllum og Sigurlaug Ólafsdóttir kona hans, og bjuggu þau þar til 1923 (Sigurlaug dó 18. júlí 1921 en Daníel 16. sept. 1923, urðu þau bæði 82 ára gömul). Þá bjó á Hvítárósi eitt ár Þorsteinn Fjeldsted, var hann alinn upp hjá þeim hjónum og sonarsonur þeirra, en hann hafði ekki laxveiðina því hana tók Halldór Vilhjálmsson undan við fráfall Daníels, og svo jörðina að fullu undir Hvanneyrina 1925. Þegar Teitur reisti nýbýlið Hvítárós gerði hann þar meðal annars jarðeplagarð sæmilega stóran til heimilisþarfa svo var það og á öllum þeim býlum sem nú hafa verið lögð undir Hvanneyri nema í Ásgarði, þar voru þeir tveir, annar við bæinn, hinn við fjárhús. Á Hvanneyri sjálfri var jarðeplagarður nákvæmlega á sama stað og trjá og blómagarðurinn er 10


nú, og stærðin mjög svipuð. Yfir þetta árabil var sáð í þessa garða jöfnum höndum gulrófur og kartöflur, gulrófnakálið var sem sagt alt notað til manneldis. Það var soðið og sett í tunnur og viss skammtur af sýru með, síðan látin á það pressa líkt og saltkjöt, svo var það matreitt þannig að það var skorið eða saxað og haft saman við ýmsan mat og þótti bæði holl og góð fæða. Á Hvanneyrar eigninni sem nú liggur undir Bændaskóla búreksturinn var búfjenaður eins og gengur og gerist nokkuð misjafnlega margur, en þegar alt var í besta lagi og öll býlin full nýtt var búfjenaður sem hjer segir: Mjólkandi kýr 50; geldneyti 20, sauðfjenaður 350-400; hross tamin 50 og ótamin alt að 30, eða um 80 alls. Handa þessum fjenaði fjekst nægt heyfóður innan landamerkja Hvanneyrar, en þess er vert að geta að allir keptust við að láta sem sagt ekkert strá fara til ónýtis frá því að það var fyrst slegið þar til það var komið í skepnurnar. Kæmi það fyrir að einhvern í hverfinu vantaði hey, gat einhver hinna hjálpað honum, svo ekkert þurfti útfyrir þau takmörk að sækja. Mikið kapp var og lagt á það að láta ekkert af slægjulandi jarðanna verða eftir óslegið, það þótti skussa skapur sem enginn vildi fá ámæli af; sæist það að einhver ætlaði að daga uppi, slógu hinir það sem fyr voru búnir svo það yrði ekki á sinu. Það var oft tekið eitthvað af gripum til vetrarfóðurs á Hvanneyri annars staðar að, ef svo stóð á að ábúandinn hefði meiri hey en hann þurfti. Það voru oft kýr því kúahey voru þar meiri og betri en víða annars staðar; þeir sem kýrnar áttu höfðu sumargagnið. Fólk var að jafnaði margt á Hvanneyri og býlum þeim sem undir hana voru lögð, það var oft um 10 manns á býli eða um 70 manns, því býlin voru sex og heimajörðin sú sjöunda. Þessi háa tala kom til af því að börn og unglingar voru svo mörg, fyrst þau sjálfsögðu og svo töku og sveitarbörn, hitt var svo vinnufólk og þar að auki gamalmenni á flestum býlunum, þau sóttu og mikið eftir því að vera á Hvanneyri. Tungutún var lagt undir skólabúið 1890 (eða 1891). Var þar þá húsmennskufólk í nokkur ár, það þótti rjettmætt að einhverjir fengju að nota bæjarhúsin þar, og í Staðarhóli meðan þau þóttu nothæf. Vorið 1896 flutti Ingibjörg Teitsdóttir frá Hamrakoti að Ferjubakka í Borgarhreppi, og var Hamrakot þá þegar lagt undir skólabúið. Sigríður Jónsdóttir bjó í Ásgarði til vorsins 1897 og var það býli þá tekið á sama hátt og Hamrakot. Sigríður fór þá að Bárustöðum til Teits sonar síns og Ragnheiðar Daníelsdóttur frá Hvítárósi konu hans, og dvaldi hjá þeimtil dauðadags 13. marz 1911, þá 81 árs gömul (þá á Grímarsstöðum). Það virðist vel við eiga að þessi þáttur í sögu Hvanneyrar endi á að segja frá því að á sýslufundi Borgarfjarðarsýslu, sem haldinn var að Leirá 18 des. 1885 var samþykkt að Sveinn búfræðingur Sveinsson gengi inn í öll Hvanneyrarkaupin í stað sýslunefndarinnar, með því skilyrði að hann kæmi þar upp búnaðarskóla fyrir árslok 1888. Amtsráðið samþykkti þetta síðan á fundi er það hjelt þann 10. febr. 1886.“

11


Aftast á skjalið hefur Guðmundur Jónsson bætt við:

Töðufall 1880-90 Hvanneyri 130 hestb. Hamrakot 90 Svíri 40 Tungutún 40 Ásgarður 70 Staðarhóll 30 Alls 400

Hvanneyrarhverfið eða -fylkið var afmörkuð byggð á vestasta klettaásnum á „skaganum“ sem verður á milli Hvítár (t.h.) og Andakílsár (t.v.). (ljósm.: Magnús Magnússon).

12


Hvannstóð við Andakílsá á Jónsmessu 2023.

13


II. kafli

Anna Gunnarsdóttir fyrsta konan sem nam í Hvanneyrarskóla Í samræmi við aldagróna kynjaskiptingu búverka kom engum það í hug lengi vel að búnaðarskólar væru fyrir aðra en karlmenn. Um all langt skeið voru nemendahópar þeirra því eingöngu skipaðir körlum. Hins vegar starfaði vænn hópur kvenna ár hvert á skólunum við þjónustu námskarlanna, svo sem matseld, þvott og þrif, auk þess sem kaupakonur unnu við heyskap skólabúanna. Það var ekki fyrr en árið 1927 sem þessi regla var brotin. Anna Gunnarsdóttir sótti þá um nám við Hvanneyrarskóla; hafði eitt ár um tvítugt. Halldór Vilhjálmsson skólastjóri mun ekki hafa talið sig hafa aðstöðu til þess að hafa stúlku í skólanum. Engu að síður veitti hann Önnu inngöngu haustið 1927. Tíminn leiddi í ljós að hann þurfti ekki að sjá eftir því. Anna stóð sig með ágætum og gat sér raunar sérstakt orð svo það sé sagt strax. Anna Gunnarsdóttir fæddist 26. júlí 1906 í Gíslakoti í Ásahreppi, Rangárvallasýslu. Foreldrar hennar voru Gunnar Gunnarsson og Þuríður Einarsdóttir. Faðir hennar drukknaði árið 1908 á skipi frá Eyrarbakka. Þær mæðgur fluttu til Reykjavíkur árið 1915 og þar átti Anna sín ungdómsár . . .

14


Búnaðarnám Önnu Ekki er annað vitað en að Anna hafi stundað búnaðarnám sitt með sóma og náð árangri í samræmi við það. Á þeim árum skyldu nemendur á Hvanneyri stunda verknám um nær tíu vikna skeið að vori og hausti. Varðveist hefur dagbók Önnu um verknámið en slíkri bók bar hverjum nemendum að skila. Tíunda skyldi verk hvers dags – hvað gert var og vinnutími við hvert þeirra. Af dagbók Önnu má álykta að hún hefi tekið fullan þátt í öllum verkum, sem fyrir verknámsnema voru lögð. Þar sýnist enginn afsláttur hafa verið gefinn sakir kyns hennar eða hinnar hefðbundnu verkaskiptingar kynjanna. Sem dæmi má taka nokkrar dagbókarfærslur Önnu: dz

Plægði í 5 klst leikfimishúsgarðinn með 2 hestum (11.5.)

dz

Var í 2 klst að moka úr mykju í Skemmugarðinum (14.5.)

dz

6 klst herfaði jeg með 3 hestum upp í flagi (21.5.)

dz

Jeg vann í 6 klst við skurðgröft . . . 2 klst var jeg að hjálpa til við herfingu upp í flagi, það var herfað með dráttarvjel (23.5.)

dz

Vann í 9½ klst við lokræsagerð upp í Svíramýri (1.6.)

dz

Vann í 6 klst við að plægja óbrotið land upp í Svíramýri með 4 hestum (9.6.)

dz

Vann í 9 klst við skurðgröft. 3 klst við að skipa upp kolum (19.6.)

dz

. . . í 7 klst við að mæla fyrir og hlaða flóðgarð niður í mýri. 3 tíma var jeg að leita að hesti (26.6.)

dz

Var 2 klst að keyra sandi neðan af Fit og heim með 2 hestum. 8 klst var jeg að aðstoða við [land]mælingar (29.6.)

dz

Þann dag var jeg 2½ klst að læra að slá með sláttuvjel (10.9.)

dz

2½ klst var jeg að forka höfrum af vögnum og hlaða þeim í bólstra (13.9.)

dz

. . . 6 klst að taka upp rófur, skera af og sauma fyrir rófupoka. 4 klst keyrði jeg rófur úr garðinum niður á þvottastaðinn, með hesti og kerru (18.9.)

dz

3 klst var jeg að hreinsa upp jarðyrkjuvjelar og smyrja þær [til vetrargeymslu] (3.10.).

Verknámið fólst einkum í ræktunarstörfum; 60% heildarvinnutíma síns skráði Anna við nýrækt og gulrófnaog kartöflurækt. Áreiðanlega hefur sú þjálfun komið Önnu vel síðar þegar hún hóf frekara nám og störf að garðyrkju. Á þessum árum voru dráttarhestar aflgjafarnir. Nemendur fengu því þjálfun í notkun þeirra eins og dagbók Önnu ber glöggt með sér. Alls vann Anna 615 klst í verknáminu og skráði 268 „dráttarhesta-klukkustundir“ með þeirri vinnu. Nemendum var þó kynnt dráttarvél til ræktunarverka en Fordson-dráttarvél var þá nýkomin að Hvanneyri.

Anna Gunnarsdóttir búfræðingur (1906-1984). (Ljósmyndasafn Þingeyinga)

15


Vorið 1929 var Anna Gunnarsdóttir brautskráð sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri. Fyrst kvenna varð hún til þess að ljúka slíku námi hérlendis. Auk hennar voru það vor brautskráðir 19 piltar frá skólanum.

Sundkonan Anna Það hefur ekki spillt fyrir Önnu þegar hún gekk til verklega námsins á Hvanneyri að hún hafði áður stundað líkamsrækt. Sá bakgrunnur ungra kvenna var óvenjulegur á þeim árum. Því hefur hún ekki verið eftirbátur piltanna nema síður væri, eins og óbeint má ráða af verknáms-dagbók hennar. Í Íþróttablaðinu 1928 segir m.a.: Einnig má nefna Þorgils Guðmundsson, kennara á Hvanneyri, sem í vor sendi þaðan mikinn hóp nýrra kaupenda. Mun Anna Gunnarsdóttir, fyrsta ísl. búfræðinámsstúlkan, sem þar er nú að læra, [hafa] átt töluverðan þátt í að undirbúa það. Hún hefir feikna íþróttaáhuga.1

Anna mun snemma hafa lært að synda og fékk mikinn áhuga á þeirri íþróttagrein: Svo var það sumarið 1924, þegar Íslandssundið var tekið upp aftur, að byrjað var á að láta fleiri sund fara fram um leið. Þá fengust í fyrsta sinn tvær stúlkur til að synda kappsund. Þessar stúlkur voru Regína Magnúsdóttir (1908– 1991) á Kirkjubóli við Laugarnesveg, sem síðan hefur oft synt og ætíð við ágætan orðstír fyrir fagurt sund og flýti, og Anna Gunnarsdóttir. Anna hefur síðan öll sumrin tekið þátt í kvennasundum hér með góðum árangri og sýnt bæði dugnað og þol. Þannig varð hún fyrst þeirra þriggja stúlkna, er fyrstar kepptu um sundþrautarmerki Í.S.Í. sumarið 1925.2

Halldór Vilhjálmsson skólastjóri var líka áhugasamur um líkamsmennt og hreystibrögð. Ekki er því ósennilegt að þessi bakgrunnur Önnu hafi átt sinn þátt í því að hann ákvað að fara á svig við viðtekna venju og taka Önnu til náms við skólann þótt hann teldi aðstöðu að öðru leyti ekki henta rétt vel. Sumarið á 1928 á milli námsvetranna mun Anna hafa unnið á Hvanneyri, svo sem ýmsir nemendur gerðu til þess að létta sér kostnað við námsdvölina en einnig til lærdóms. Í samræmi við áhuga sinn og reynslu af sundi virðist Anna Gunnarsdóttir hafa fengið þá hugmynd að synda yfir Borgarfjörð. Og á veðragóðum sunnudegi hratt hún hugmyndinni í framkvæmd. Trausti Jónsson veðurfræðingur var svo vinsamlegur að taka saman það sem vitað er um veður og sjávarstöðu sundsdaginn. Trausti skrifaði: 1 Íþróttablaðið 3 (1928), 228. 2 Íþróttablaðið 3 (1928), 238-239.

16


Sundkonan Annar Gunnarsdóttir með stöllum sínum sumarið 1926 (Þjóðm.safn Ísl. Lpr./2009-155).

Það voru gerðar athuganir á Hvanneyri um þessar mundir – Þorgils Guðmundsson [kennari við Bændaskólann] kvittar fyrir þær. Þennan dag 22. júlí var alveg sérlega gott veður. Þorgils segir logn á öllum athugunartímum (kl.8, 14 og 21). Það er léttskýjað kl. 8 en síðan heiðskírt. Athugasemd: „Mjög góður þurrkur“. Hiti kl.8 13 stig, 19 stig kl.14 og 13 stig kl. 21. Hámarkshiti dagsins 22,1 stig - hæsti hiti ársins. Tunglið var á 5. degi, stórstreymi líklega 2 til 3 dögum fyrr. Það þýðir væntanlega að reiknað háflóð hefur verið undir kl. 10 (að okkar tíma) – líklega um kl. 9 að þeirra tíma klukku – nema að einhver búmannsklukka hafi verið notuð á Hvanneyri – þá er klukkan meira, 10 eða 11. Alla vega hafa verið óskaskilyrði til sunds – besti dagur sumarsins.3 Sundafreki Önnu verður ekki betur lýst en með hluta greinar um framtakið sem birtist í Íþróttablaðinu um haustið. Þar segir m.a.: Sunnudaginn 22. júlí í sumar mönnuðu Hvanneyringar bát með 10 manns og héldu norður yfir Fjörðinn. Meðal þeirra, sem í bátnum voru má nefna elstu dætur Halldórs skólastjóra tvær, Jakob Jónsson leikfimiskennara (frá Ollerup) svo og Önnu Gunnarsdóttur. Förin var gerð þess vegna að Anna ætlaði að reyna að synda yfir fjörðinn til baka.

3 Trausti Jónsson veðurfræðingur í tölubréfi til BG 9. nóvember 2023.

17


Suður og niður frá bænum Bóndhól í Borgarhreppi er lítið hólmyndað nes, sem Kóngshóll heitir. Þaðan lagðist Anna til sunds í jökulvatnsblandaðan fjörðinn kl. 10 og 4 mín. um morguninn. Veðrið var gott og sæmilegur hiti í vatninu á yfirborðinu: 13° við Kóngshól, 13,5° á miðjum firði og 14° við landtökustaðinn. Stefna var tekin beint á Hvanneyrarbæinn. En svo reyndist mikill útstraumur í firðinum að Anna náði ekki landi fyr en úti við Ásgarðshöfða og varð þó að synda skáhalt upp og austur með landi til þess að verða innan við hann. Þá var kl 11 og 25 mín. Bein lína yfir fjörðinn þarna er 2,6 til 2,7 km., en sundið hefir verið mun lengra, eitthvað yfir 3 km. Og þetta synti Anna á 1 klt. og 21 mín. hvíldar- og næringar-laust, með að meðaltali 29 sundtökum á mínútu (fæst 26, flest 30). Tíminn var tekinn á 5 skeiðklukkur.

Hér fylgir mynd af Önnu, af Hvanneyri og af Borgarfirðinum, og er á fjarðarmyndina markaðar línurnar: beina stefnan frá Kóngshól á Hvanneyrarbæinn og sú lína sem Anna mun hafa hérumbil synt. Anna er, eins og áður er getið, harðdugleg stúlka og áhugasöm. Hefir hún iðkað leikfimi – í Í. R. á meðan hún var þar félagi – og svo Mullersæfingar auk sundsins. Nú er hún félagi í K. R. (síðan vorið 1926). Íþróttablaðið óskar henni heilla og hamingju bæði með þetta sundafrek sitt og þau önnur, er á eftir kunna að fara, svo og með búnaðarnám sitt.4

Annað um Önnu Fljótlega að búnaðarnáminu á Hvanneyri loknu mun Anna hafa haldið til Danmerkur til náms í garðyrkju. Til námsins hlaut hún m.a. fjárstyrki frá Búnaðarfélagi Íslands, bæði á árunum 1928-1929 og árið 1933.5 Á þeim árum lagði félagið nokkra herslu á öflun og útbreiðslu þekkingar um garðyrkju. Sú búgrein var þá flestum landsmönnum framandi. Garðyrkjunámið stundaði Anna á dönskum garðyrkjustöðvum en líka á Garðyrkjuskólanum í Vilvorde, þaðan sem hún brautskráðist árið 1933. Í Danmörku mun Anna alls hafa dvalist um fjögurra ára skeið. Sá tími nýttist henni einnig til annars nám, varð vel að sér í tungumálum og tók þar bílpróf. 4 Íþróttablaðið 3 (1928), 238-239. 5 Búnaðarrit 49 (1935), 20; Búnaðarrit 54 (1931), 58.

18


Heim komin hóf Anna störf við garðyrkju. Hún vann m.a á Vífilsstöðum og í Reykholti, herma heimildir. Einnig mun hún hafa stundað garðyrkju á Korpúlfsstöðum, þar sem Thor Jensen hafði þá hafið öflugan búskap svo sem alþekkt er. Önnu er líka getið sem leiðbeinanda í garðyrkju í tengslum við námsstyrki Búnaðarfélags Íslands.6 Anna varð ævifélagi þess og var í skrá félagsins sem birtist árið 1941 titluð garðyrkjukona, þá nýsest að búi á Borgum í Þistilfirði.7 Hverfa má aftur að Hvanneyri og geta sér þess til að Anna Gunnarsdóttir hafi vakið athygli skólabræðra sinna, bæði sakir þess nýnæmis sem það var að stúlka væri í hópnum en líka sakir atgerfis hennar. Það síðarnefnda má nokkuð ráða af framansögðu. Hvort piltar hafa barist um hylli hinnar knáu stúlku látum við liggja á milli hluta. Grunar það þó. Fór svo að í fyllingu tímans stofnaðist til formlegs sambands hennar við skólabróður, Norður-Þingeyinginn Kristján Eiríksson frá Kollavík/Grasgeira við Þistilfjörð. Kristján var jafnaldri Önnu en var einu ári á undan henni í námi á Hvanneyri. Hann hafði lokið búnaðarnáminu vorið 1928. Telja má víst að Anna hafi átt marga kosti á Hvanneyri en Kristján dró lengsta stráið. Jafnræði var með þeim hvað hreysti og dugnað snerti. Bæði vissu vel að hverju þau gengu, komin nokkuð á fjórða aldursáratuginn er þau hófu sambúð og búskap að Borgum. Þau Kristján og Anna bjuggu að Borgum frá 1940 til ársins 1974, að Kristján lést.8 Þá flutti Anna til Reykjavíkur.9 Þar bjó hún hjá dóttur sinni uns hún andaðist árið 1984. Þau hjón eignuðust sex börn, m.a. Eirík, sem tók við búinu að Borgum við andlát föður síns. Anna hafði ekki mikinn tíma til þess að nýta sérmenntun sína í garðyrkju. Stækkandi fjölskylda og bústörf tóku tíma hennar. Grænmeti ræktaði hún þó umfram það sem almennt gerðist í sveitinni, en áhrif af því á nágranna urðu lítil. Orð fór af hreysti hennar og dugnaði enda var hún með stærstu kvenmönnum. Borgir voru mikil rekahlunnindajörð og var tekið til þess m.a. hve hraustlega Anna gekk fram í því með sínu fólki að bjarga rekabolungum á land úr ölduróti. Anna Gunnarsdóttir var hreinskiptin, hafði ríka réttlætiskennd og jafnrétti kynjanna var henni baráttumál. Hún var víkingur til vinnu, hörð í horn að taka og gaf karlmönnum í engu eftir.10 Langsund hennar yfir Borgarfjörð júlídaginn 1928 var því hvorki tilviljun né stundarafrek.

6 Búnaðarrit 49 (1935), 8. 7 Búnaðarrit 55 (1941), 313. 8 Runólfur Elentínusson (ritstj.): Land og fólk, (2003), 408. 9 DV 21. mars 1984. 10 Hér er einnig byggt á samtölum við Eirík Kristjánsson á Borgum, 11. október og 5. nóvember 2023, og Stefán Eggertsson í Laxárdal 4. október 2023.

19


III. kafli

Grasasafn – kennt að lesa grös og jurtir Þann 9. júní 2022 kviknaði í skrifum okkar Eddu Þorvaldsdóttur kennara spurningin um hlut grasasafns í búnaðarkennslu á Hvanneyri, hvernig þróast hefði í áranna rás. Eftirfarandi eru drög að götóttri greinargerð þar um.

Í safni Bændaskólans á Hvanneyri varðveittist þetta eintak úr fórum Helga Jónssonar grasafræðings dr. phil. (1867-1925). Sjóarkræða (Gigartina mammillosa nú Mastocarpus stellatus).

20


xxxx Grasafræði var ein af fyrstu námsgreinunum við íslensku búnaðarskólana. Nemendur skrifuðu fræðin niður eftir lestri kennara sem hafði þá snarað þeim úr erlendum málum, þar sem grasafræði hafði skapast sem mikilvæg grein náttúrufræðanna. Bóklegt nám fór þá fram á vetrum, þegar erfitt var um útvegun lifandi kennsluefnis. Efast má um að miklum tíma sumarnáms (-vinnu) nemenda hafi verið varið til grasafræðikennslu, nema þá í framhjáhlaupi; aðrar og brýnni þarfir þurfti þá að uppfylla. Fyrsta útgáfa Flóru Íslands eftir Stefán Stefánsson kom út árið 1900, fyrsta heilstæða bók þess efnis sem byggð var á íslenskum rannsóknum. Íslensk grasafræði Odds Hjaltalín hafði komið út árið 1830. Líklega hefur náms- og stuðningsefni nemenda og kennara þó fyrst og fremst verið erlent fram að útkomu Flóru Stefáns. Halldór Vilhjálmsson skólastjóri lét gera Grasgarð, er hann kallaði svo, þar sem nú er Skólagarðurinn [Frúargarðurinn]. Sumarið 1913 fékk hann dr. Helga Jónsson grasafræðing til þess að safna í garðinn íslenskum jurtum: . . . „á þetta að verða nemendum skólans til hægðarauka, að læra að þekkja jurtirnar, sérstaklega þeim, sem eru hér að sumrinu við verklegt nám og heyskap.“1 Hvergi er þess getið í skólaskýrslum langt fram eftir tuttugustu öld að nemendur Hvanneyrarskóla hafi sem lið í námi sínu safnað jurtum og búið til varðveislu í grasasafni. Í inngangi Flóru Stefáns er þó rækileg lýsing á vinnubrögðum við það2, enda taldi Stefán það geta „aukið þekkingu manna á gróðurríki landsins að miklum mun“. . . Raunar benti Stefán á fleiri leiðir til útbreiðslu grasafræðiþekkingar; taldi t.d. að læknar, prestar og aðrir menntamenn gætu aukið þekkingu manna á gróðurríki landsins að miklum mun . . . með því að safna plöntum og athuga gróðurinn hver í sínu byggðarlagi, án þess að vanrækja í nokkru skyldustörf sín. Í öðrum löndum stunda margir sveitaprestar grasafræði, og hafa oft getið sér með því mikinn orðstír. Hér er slíkt fáheyrt. Ég á bágt með að trúa því, að kirkjurnar yrðu ekki fullt svo þéttskipaðar á messudögum vor og sumar, ef prestar gerðu sér að reglu, hvenær sem því yrði við komið, að fara með söfnuðinn eða þá, sem þess óskuðu, á dálitla grasagöngu eftir messu. Þykist ég þess fullviss, að útskýringar á völdum köflum úr hinni miklu bók náttúrunnar, t.d. eðli blómsins og gerð, er fullt eins vel fallið, ef laglega er á haldið, til þess að vekja lotningu fólksins fyrir speki og forsjón skaparans, eins og hinar vanalegu útleggingar af hinum lögboðnu textum úr hinni stóru bókinni. . .

Þótt lítið virðist lengi vel hafa farið fyrir grasasöfnun nemenda á Hvanneyri mun eitthvað hafa verið um að alþýða manna sinnti henni. Sjálfur man ég eftir að í dóti móðursystur minnar, 1 Bjarni Guðmundsson: Halldór á Hvanneyri (1995), 86. 2 Stefán Stefánsson: Flóra Íslands III (1948), xxiv-xxxv.

21


Margrétar Bjarnadóttur, var heima á Kirkjubóli m.a. plöntupappír til þurrkunar jurta. Kann það að hafa verið fyrir áhrif frá Skrúði sr. Sigtryggs á Núpi, þar sem hún hafði verið við nám laust fyrir 1930. Sr. Sigtryggur og garður hans höfðu mikil áhrif á viðhorf til gróðurs og garðyrkju á nágrannabyggðum. Þessi pappír sem og leiðsögn Þorsteins Gunnarssonar kennara á Núpi haustið 1959 vakti áhuga minn á söfnun grasa og uppsetningu þeirra. Þegar ég kom til náms á Hvanneyri haustið 1961 varð ég fljótlega var við deilur út af grasasöfnun félaga minna í Eldri deild skólans er áttu sér þessa skýringu: Jónas Jónsson, síðar búnaðarmálastjóri, hafði þá verið kennari við skólann um nokkurra ára skeið. Áhugasamur um gróður og jarðyrkju var Jónas og sömuleiðis mjög vel látinn kennari, heyrði ég á eldri nemendum. Vorið 1961 hafði Jónas lagt fyrir nemendur yngri deildar að þeir skyldu safna grösum um sumarið og hafa með sér til náms um haustið. Einhverjir höfðu til og með orðið sér úti um Flóru Íslands til þess að skerpa námið. Nú fór svo að um haustið 1961 var Jónas horfinn til námsdvalar erlendis, auk hins að við sem komum í skólann til eins vetrar náms (vetrungar) mættum grasalausir. Hér stefndi því í mismunun og vandræði. Guðmundur skólastjóri leysti málið lipurlega: Hann lét það falla niður og allir sáttir. Ekki var frekar minnst á grasasöfnun nemenda og ekki minnist ég þess að málið hafi með neinum hætti borið á góma þá um veturinn. Við lærðum nytjajurtafræðin þennan vetur af bók, en Jónas kennari hvarf til starfa hjá Búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands, síðar Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Í grasafræðitíma á Hvanneyri sennilega veturinn 1958. Nemendur vinna með plöntusöfn sín. (Ljósm. Ól.Guðm. eða MÓ).

Mig grunar að Jónas kennari hafi árin áður látið nemendur sína vinna að söfnun sumarið á milli námsvetra. Þá voru vetrungar, þeir sem luku námi á einum vetri, færri, svo auðveldara var að halda þeim kennsluhætti til streitu. Það er minn skilningur að grasasafn á þessum tímum hafi helst gagnast þannig til aukinnar grasafræðiþekkingar: Kennari hafði aðgang að grasasafni, sínu eigin eða skólans, og notaði það sem nýsigögn til þess að kynna einstakar jurtir og náttúrur þeirra. Þegar kom að prófi voru síðan hinar þurrkuðu og uppsettu jurtir dregnar fram nafnlausar og nemandi krafður nafna á þeim. Guðmundur skólastjóri, sem kenndi okkur jurtafræði, hafði auðheyrilega takmarkað álit á þessari aðferð við mat á kunnáttu. Sagði hann okkur sögur frá skólaárum sínum þar sem 22


nemendur báru kennsl á plöntur grasasafnsins á prófi eftir brotum á spjöldunum, sem þær voru límda upp á, ellegar blettum eða öðru sem þar sást – sem sagt öðru en hinum grasafræðilegu einkennum. Sjálfur átti Guðmundu mikið grasasafn. Því hafði hann komið upp sem lið í námi sínu við KVL í Kaupmannahöfn á þriðja áratug síðustu aldar. Þegar Framhaldsdeild var sett á stofn árið 1947 var grasafræði meðal grunngreina. Til kennslunnar var fenginn Ingólfur Davíðsson, líklega færasti grasafræðingur þjóðarinnar á þeim árum. Ingólfur annaðist kennsluna fram um miðjan sjöunda áratuginn.3 Hann hélt sumarnámskeið í greininni. Liður í þeim var að hver nemandi skyldi koma upp grasasafni, að mig minnir með amk 100 íslenskum plöntum.

Ingólfur Davíðsson kennir nemendum Framhaldsdeildarinnar á Hvanneyri grasafræði, líklega sumarið 1954. (Ljósm.:Ól.Guðm.)

Minnist ég Ingólfs Davíðssonar fyrir afar vandaða kennslu en hógværa. Hann gjörþekkti öll gróðurhverfi hér í nágrenni Hvanneyrar og skipulagði plöntufræðsluferðir með mjög markvissum hætti: Í vot- og mólendi (Hvanneyri), strandjurtir (Borgarnes, Mýrar), laugar (Efri-Hreppur, Deildartunga), skóglendi (Skorradalur) . . . Vinnan að grasasafninu var mikil en skemmtileg. Hins vegar skorti nokkuð á að safnið væri tengt inn í annað nám í plöntufræðum við deildina. Það stóð stakt. Hlutur grasasafnsins hélst hinn sami allt til þess tíma að Bændaskólinn með Framhaldsdeild og síðar Búvísindadeild rann inn í LbhÍ árið 2005. Við kennslu Ingólfs tók Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur og síðar Björn Þorsteinsson líffræðingur. Þegar búnaðarnámið á Hvanneyri var endurskoðað frá grunni – um 1980 – og því breytt til þess forms sem það hefur í meginatriðum enn í dag, var söfnun grasa og gerð grasasafns eitt af þeim verkefnum sem rétt þótti að færa inn á verkefnaskrá nemenda. Lagt var fyrir nemendur 3 Ingólfur Davíðsson mun með sambærilegum hætti hafa annast grasafræðikennslu við Húsmæðrakennaraskóla Íslands um árabil, og að ég held lyfjafræðinemum einnig. BG

23


að safna um fimmtíu4 tegundum íslenskra jurta og setja upp í grasasafn. Söguna síðustu árin kunna aðrir betur. Meðal annars Edda Þorvaldsdóttir kennari við LbhÍ, sem skrifaði mér: Því má við bæta að undanfarin áratug (a m k) hefur markviss útikennsla á 1. hausti og örlítið verklegt próf úr þeim ferðum, stutt verulega við framhald og gerð plöntusafns og á svipuðum tíma var tekið upp að búfræðinemar kæmu í verklega 2-3 daga törn með kennara í júníbyrjun (á undan háskólanemum) og margir hafa á þeim dögum náð að safna nánast heilu safni (aðeins eftir tegundir sem ekki hafa verið komnar í blóma). Ég fullyrði að með þessum hætti hafi orðið til miklu vandaðri söfn og það sem meira er að nánast allir nemendur þekki eftir þetta tegundirnar í sínu safni og e.t.v. meira en það. Gengið frá grösum til þurrkunar (ljósm.: Krafa um að gera þetta myndrænt (skila myndum af

Edda Þorvaldsdóttir).

plöntum í stað þurrkaðra tegunda), varð hávær með tilkomu digitalmyndatöku. Því var mætt með því að hver nemandi ætti að skila 5 slíkum með dálitlum texta. Með því varð mönnum ljóst að það er ekki einfalt verk að taka plöntumyndir sem skila öruggri greiningu til þess sem skoðar. Eins og fyrr sagði held ég að bæði verklegir tímar á 1. hausti og þessir söfnunardagar í júní hafi gjörbreytt þeirri þekkingu sem nemendur taka með sér úr náminu.

Grasapressa BG (“fergifjalir”), smíðuð

Síðan þarf að koma með safnið tilbúið til upplímingar

undir leiðsögn Ellerts Finnbogasonar

að hausti (ekki skila því uppsettu – sem skilaði stundum

smíðakennara Bændaskólans veturinn

sömu plöntum ár eftir ár). Uppsetning og frágangur á

1961-1962.

staðnum með leiðbeiningum kennara og síðan bæði munnlegt próf (ekki ósvipað og þú getur um að hafi verið í den tid) eftir plöntusafnsskil og svipað (í mýflugumynd og í hópum) á 1. hausti hefur líka skilað aukinni þekkingu.

Ekki er vafi á að mörgum nemendum hefur námsgreinin með plöntusafninu opnað nýja sýn á gróðurríki Íslands, líkt og Stefán Stefánsson grasafræðingur og skólameistari, óskaði sér um fyrri aldamót, og aukið þeim grasafræðiáhuga til frambúðar. Öðrum hefur hún verið skyldubundin fyrirhöfn sem hvarf úr huga jafnskjótt og einkunn fyrir verkið lá fyrir – eins og gengur. 4 „Þetta var örlítið mismunandi“, segir Edda Þorvaldsdóttir mér, en hún kenndi þessa námsgrein við Hvanneyrarskóla um árabil, „– minnir að 45 hafi verið viðmið fyrst; 15 ákveðnar tegundir, 15 af lista sem mátti velja úr og 15 val úr íslensku flórunni – síðar bættust við 5 trjátegundir (það var fellt út fljótlega ef ég veit rétt).“

24


Úr grasafræðitíma á Hvanneyri um miðja síðustu öld. Ólafur Guðmundsson skýrir blómskipun jurtar fyrir kennaranum, Guðmundi Jónssyni skólastjóra, föður sínum (ljósm. úr fórum GJ).

Mér kæmi ekki á óvart að grasafræðinám með áskilnaði um gerð grasasafns svipað og nú gerist við deildir LbhÍ sé fágætt, ef ekki einstakt í námframboði íslenskra framhalds- og háskóla. Rök fyrir slíku námi þeirra sem hyggjast vinna með eða í nánum tengslum við íslenska náttúru eru síst veikari nú – á tímum nauðsynlegrar umhverfishyggju – en fyrr á árum, til dæmis þegar Stefán skólameistari hóf að ryðja þessum fræðum braut hérlendis.

25


IV. kafli

Dagbók Koltrýnu litlu – dagar starfsstúlku á Hvanneyri Í einni af skjalageymslum Hvanneyrarskóla rakst ég fyrir allmörgum árum á bláa stílabók með gulnuðum blöðum. Þéttskrifuð er hún frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. Á hvítum miða á kápu hennar stendur: „Dagbók Koltrýnu litlu, byrjar 11. september 1916. Þ-j-ó-r-s-á-r-b-r-ú.“ Ekkert höfundarnafn er að finna á bókinni eða í texta hennar. Vandséð er líka að nota megi þau fáu nöfn sem nefnd eru í bókinni til þess að finna uppruna höfundar. Í skjalasafninu var dagbókin meðal dagbóka nemenda Bændaskólans. Mér þótti bókin forvitnileg og skoðaði hana því nánar. Allnokkrar dagbækur nemenda Hvanneyrarskóla eru til, flestar skrifaðar af skyldu í verknámi þeirra. Þær eru því næsta fáorðar um annað sem drifið hefur á daga þeirra. Hins vegar er mér aðeins kunnugt um þessa einu bók sem dagbók starfsstúlku á Hvanneyri. Að því leiti er bókin hennar Koltrýnu litlu forvitnilegri en aðrar dagbækur þaðan. Þetta er dagbók stúlku sem var í kaupavinnu austur í Holtum sumarið 1916. Stúlkan réðist svo til vetrarstarfa á Hvanneyri. Færslur bókarinnar gefa aðeins örstutt blik af æviskeiði höfundarins. Af textanum má sjá að höfundurinn var mjög vel ritfær. En eins og áður segir, skírnarnafn Koltrýnu litlu er óþekkt. Orð á einum stað í dagbókinni gæti bent til þess að hún hafi verið að norðan. Það eina sem vitum með vissu er að hún var ung kona, sem vóg 122½ pund liðlega 60 kg, skömmu eftir að hún kom að Hvanneyri; við komum að ástæðunni fyrir þeirri vitneskju síðar. Við sjáum því fyrir okkur fremur lágvaxna stúlku – en knáa. Það síðarnefnda má ráða af því sem einnig kemur fram síðar. 26


Flettum svo dagbókinni Koltrýna litla verður á vegi okkar þegar langt er liðið á engjaslátt á Suðurlandi sumarið 1916. Hún er að raka að síðustu sátunum, að því er virðist á bænum Þjótanda í Villingaholtshreppi. Skýst líka í sama verk að Þjórsártúni. Kemur sér vel að brú er yfir stórfljótið. Veðrin eru misjöfn eins og jafnan. Rigning og sunnan stormur einn daginn en allra frægasti vestanþurrkur annan, eins og hún skrifar 12. september: „Eg var að raka á Þjótandatúninu framan af deginum, svo var farið að binda inn. Eg var að fanga um kvöldið til kl. 12 í glaða tunglskini, ó, sú dýrð og himinsæla!“. Dagarnir liðu við rakstur uppi í engjum, heima við gærurakstur og þvotta; þá var norðvestan stormur og rigningarhraglandi. Aftur birti og þá var bundið á engjum en ekkert flutt heim. Laugardaginn 23. september skrifaði Koltrýna: „Sunnangola, þurt veður, en þurklaust. Eg var uppfrá að raka ljá, sem eg átti frá því um daginn. Bjarni var að flytja eldivið. Þetta er nú lokadagurinn minn, í vinnu hjá þeim hjónum og segi eg því: „Guðlaun og sleptu!“ Kaupavinnan var að baki; komið að vertíðaskiptum að hætti þeirra tíma. Koltrýna tók saman föggur sínar og hélt til Reykjavíkur. Varð samferða Landeyjamönnum; keyrði á „hriktkerru“, sýnist mér mega lesa úr skriftinni! Þau gistu á Kotströnd en síðan á Lögbergi með Hellisheiði og stutta áningu á Kolviðarhóli að baki. „Á Lögbergi var svo þröngt að eg gat ekkert rúm fengið, lá bara á gæruskinni“, skrifaði hún. Komin til höfuðborgarinnar leitaði hún uppi frændfólk sitt og kunningja. Næstu daga lagði hún þeim lið við haustverk. Skrapp líka út á kvöldin með jafnöldrum: „Eg fór og skoðaði söfnin . . . Ágæt skemtun.“ Eftir tæplega vikudvöl í Reykjavík hélt unga stúlkan með Flóaskipinu „Ingólfi“ upp í Borgarnes: „Norðaustan kaldi, dimmviðri og regnskúrir á milli“, skrifaði hún og síðan: „En eg fór með vélarbátnum „Hvítá“ upp að Hvanneyri, þar verð eg í vetur. Nokkrir skólapiltar komu um leið og eg, en eg veit ekki um nöfn á þeim.“ Og á Hvanneyri var Koltrýnu litlu þegar skipað til starfa: Sláturgerð úr kindum og hrossum var fyrsta verkið. Mikið var umleikis á skólaheimilinu því hún skrifar: „Gestir komu víst í tuga vísu, en eg er alveg ófróð um þá.“ Stöðugt fjölgaði í hópi skólapilta, sláturgerð, svið voru verkuð og hreingerningum sinnt. Sunnudaginn 15. október setti Halldór Vilhjálmsson svo skóla sinn með ræðu eftir að allir höfðu sungið „Hvað er svo glatt“ o.fl. og hún skrifaði áfram:

27


„Um kvöldið afhenti frúin [Svava Þórhallsdóttir skólastjórafrú] okkur Guðmundu þjónustumennina 15 að tölu og svo hef eg Pál Jónsson kennara að nokkru“. . . „Mitt ætlunarverk er að þvo borðstofuna, eldri deild, 4 stiga og kjallaraganginn og herbergi tvö, sem Páll Jónsson kennari hefur.“ Nokkrar setningar úr dagbókinni gefa hugmynd um verkefni Koltrýnu: dz

Eg var við bætingar o.fl. Stúlkur hinar í slátri

dz

Við Guðmunda hnoðuðum 50 brauð niður í skóla

dz

Eg var allan daginn í hreingerningum, burstaði skó o.m.fl.

dz

Eg var að gjöra við föt

dz

Við vorum í hreingerningum, lögðum í bleyti þvott o.fl.

dz

Eg var mest allan daginn að merkja föt

dz

Stúlkur þvoðu húsþvottinn, eg var við fatabætingar . . .

Koltrýna nefnir stórþvottana (skólaþvottana er hún nefnir svo) nokkrum sinnum, hvað fyrst 23. október: „Við fórum á fætur kl. 4 Gudda, Guðmunda og eg til að þvo skólaþvottinn, vorum að allan daginn og til kl. 1 um nóttina. Það var ljóta púlið!“ Rúmlega 20 klst törn við stórþvott. Bót var að daginn eftir var sunnan blástur, „besti þurkur, við Guðmunda vorum altaf að hirða um þvottinn.“ Slíkra þvottatarna getur Koltrýna oftar í dagbók sinni. En líf vinnukonu skólaheimilisins á Hvanneyri var ekki bara daglegt strit. Af og til var messað í Hvanneyrarkirkju eða í skólastofu ef kalt var. Það var tilbreyting. Líka voru haldnir fundir í Ungmennafélaginu. Söngflokkurinn Bræðurnir ofan úr Reykholtsdal kom . . . „söng hér um kvöldið og hættum við við þvottinn til þess að skemta okkur við söng og dans. Fjöldi fólks aðkomandi, einkum stúlkur“, skrifaði Koltrýna. Dans í Leikfimishúsinu eða forsal skólahússins nefnir hún alloft. Til dæmis sunnudaginn 19. nóvember: „Um daginn fór frúin [Sv. Þórh.d.] með okkur út í forsal og byrjaði að kenna okkur „Lancie“[hópdansinn Lancier]. Síðar um daginn var venjul. dans og upplestur.“ Og „Lancie“-æfingarnar urðu fleiri. Skyldan kallaði með nýrri viku, mánudeginum 20. nóvember: „Við fórum þessar þrjár þvottakerlingar á fætur kl. 3 um nóttina og vorum að þvo í 22 kl.tíma. Þvílíkt strit!“ Jólaþvotturinn tók 23 klst. Koltrýna getur vandans við að þurrka allan þvottinn. Það gekk stundum treglega: „Við létum út þvott en það dugði ekkert . . . við vorum dálítið að brjóta upp þvott og halda honum til þurks, en það gekk illa.“ Og þvottarullan fékk sýnilega að snúast. Svo komu jólin. Á Þorláksmessu skrifaði Koltrýna litla: „Eg þvoði borðstofuna, stigann og burstaði skó, o.fl.“ Og daginn eftir: „Eg var í ýmsum snúningum og gólfþvottum fram eftir deginum, alt flaut í vatni í skólanum vegna hlákunnar.1 Kl. 6 var etinn kvöldverður niður í borðstofu [í kjallara skólahússins] – allir saman – og þá 1 Skólahúsið mun hafa verið mjög illa á þessum árum, þótt nýlegt væri, byggt 1910. Veggir hússins „grétu“ því iðulega í og eftir frosthörkur; líklega er það vandinn sem þarna var við að glíma. . .

28


var hátíðin byrjuð. [Öllum piltum] sem eftir voru heima var boðið inn [til skólastjóra] og var þá gengið í kringum jólatréð, fyrst lesinn lesturinn, svo drukkið kaffi, og kökur. Eftir það var farið í alskonar leiki, [ill læsilegt: hlerunar?]leik, „blik“-leik, taka menn í Oddfellowaregluna o.s.frv. Menn gengu til hvílu kl. 4. Eg fékk 12 [?] kort frá fólki hér og svo gaf frúin mér slifsi í jólagjöf.“ Á jóladag var sofið út en „er kvölda tók, lifnaði yfir flestum og var þá farið í ýmsa leiki, þjóðdansa og svo las Halldór [skólastjóri] upp kvæði. Við skemtum okkur til kl. 4 og fórum þá að sofa“. Annan dag jóla messaði sr. Jóhann frá Stafholti [Þorsteinsson], „gamall fauskur og lélegur ræðumaður . . . Fjöldi fólks var við kirkju. Eftir messu var farið að dansa út í leikfimishúsi, kl. 8 var hætt. Um kvöldið spilaði eg hjónasæng inn á Kleppi o.fl.“ Þá var einnig dansað á nýársdag til kl. 1 um nóttina. „Ágæt skemtun.“ Svo tóku virkir dagar við á ný með sínum stórþvottum, brauðhnoðun, fataviðgerðum, gólfþvotti og „venjulegum laugardagsönnum“ eins og segir í dagbókinni. Hvítárvellir voru þingstaður Andakílshrepps um langan aldur og því eðlilegur staður annarra mannamóta einnig. Veturinn 1916-1917 starfaði Mjólkurskólinn þar eins og hann hafði gert um árabil. Þar námu nokkrar ungar stúlkur mjólkurmeðferð og smjörgerð hjá Hans J. Grönfeld mjólkurfræðingi og skólastjóra. Samband var með skólaheimilunum á Hvanneyri og Hvítárvöllum. Á Þrettándanum 1917 var skemmtun á Hvítárvöllum sem Koltrýna lýsti í dagbók sinni: „Eg var í venjulegum laugardagsönnum. Síðari part dagsins lögðum við af stað inn að Hvítárvöllum 20-30 í hóp, þar átti að verða Ungmennafélagskemtun. . . Inn að Völlum komum við eftir rúman kl.tíma og var þá byrjað að setja samkomuna. Fyrst var glímt, svo hélt M. Pétursson [Magnús Pétursson] kennari á Hvítárbakka fyrirlestur. Svo var farið að bjóða upp böggla og fór mikill tími til þess. Eftir að þetta alt var skeð las Páll Jónsson upp kafla úr „Syndum annara“ og svo fóru menn að dansa og gekk það í 1 klst. Þá hélt Páll Zóphóníasson fyrirlestur. Þegar hann var búinn fóru Hvanneyringar að fara heim til sín enda var kl. þá orðin 5. En hitt hélt áfram að dansa af krafti miklum.“ Daginn eftir kveðst Koltrýna litla hafa sofið „lengi dagsins og gjörði ekkert gagnlegt.“ Stúlkurnar þjálfuðust við stórþvottana. Mánudaginn 15. febrúar skrifaði Koltrýna: „við þvoðum skólaþvottinn 4, fórum ofan kl. 6 og vorum búnar kl. 10½ [. . . líklega um kvöldið]. Fyrirtaks skrið á skútunni !“ . . . Og áfram tveimur dögum seinna: „Við þvoðum gólf að vanda og svo rulluðum við þvottinn, nutum aðstoðar Óskars Jakobs [frá Kornsá í Vatnsdal] og Sigga Sigurðssonar [frá Hofsstöðum í A.-Barð.]. Við skiluðum þvotti eftir 8, mesta komedia úti.“ Ráða má af skrifunum að kynni unga fólksins hafi vaxið með vetrinum svo að spennukennd glaðværðin ríkti við verkið.

29


Dagbókinni hennar Koltrýnu litlu lýkur svo í föstuinnganginn veturinn 1917. Þar segir: [Sunnud.18.2.] . . . „Um kvöldið var dansað af krafti miklum og fylgdi eg þar með af lífi og sál? Hættum eins og venjulega kl. 11.“ [Mánud.19.2.] . . . „Þennan morgun gekk mikið á. Við fórum 5 út í skóla kl. að ganga 7 og flengdum strákana alveg miskunnarlaust. Ég hýddi 27 stráka. Allan daginn gjörðum við lítið annað en taka á móti bollum, eg fékk einar 40.“ [Þriðjud. 20.2.] . . . Kantu ekki vísuna um þennan dag, dagbók mín? Hún er svona: Þriðjudaginn í föstuinngang, það er mér í minni; þá á hver að þjóta í fang á þjónustunni sinni! Heldurðu nú að eg hafi gjört annað í dag, en að faðma þjónustumennina mína? [Miðvikud.21.2.] „Öskudagur. Fyrst þvoði eg nú gólfin eins og venjulega, en svo fór eg að Síða úr dagbók Koltrýnu litlu. ralla um skólann, bæði til að bera steina og til að láta piltana bera ösku. Mikið gekk nú á ! Páll Zóphóníasson [kennari] fór í skinnstakk svo okkur skyldi veita örðugra að krækja í hann pokunum, enda bar hann víst engan. Eg sendi Sv.b. silkipoka innan í umslagi.“ Þar með laukst aftur sá gluggi sem Koltrýna litla veitti okkur inn í líf sitt með stuttri en vel ritaðri dagbók. Ókunn hafði hún komið að Hvanneyri austan úr sveitum. Á skólaheimilinu var hlutverk hennar þjónusta við skólapilta og aðra heimilismenn hvað snerti fatnaðarhirðu og þrif. Vinna hennar var mikil og erfið, einkum skólaþvottarnir enda hjálpartæki fá á þeim árum. Vel hafði hún þó þrifist í vistinni á Hvanneyri, því hún hafði bætt á sig 5½ pundi (um 2,5 kg) á liðlega þriggja mánaða tímabili, skv. vigtartölum sem hún skráði samviskusamlega í dagbók sína ! Þá var nefnilega til siðs að vigta skólapilta reglulega til þess að fylgjast með þrifum þeirra. Líklega var það fjörið á skólaheimilinu – glaðvær hópur ungs fólks – sem jafnaði erfiðið út, fjörið sem hún í vaxandi mæli virðist hafa tekið þátt í og notið . . . „rallað“ eins og hún kallaði það. Hvort fleira hefur komið til gefur dagbókin enga hugmynd um. En velta má því fyrir sér hvort síðasta setning dagbókarinnar: Eg sendi Sv.b. silkipoka innan í umslagi, geymir eitthvað sem varð meira? Ef til vill lýsir setningin bara litlum neista, augnabliks gleði sem aðeins eignaðist stað á aftasta blaði lúinnar dagbókar.

30


31


V. kafli

Kornrækt á Hvanneyri Í áranna rás hef ég tekið á móti mörgum hópum gesta á Hvanneyri og sagt þeim frá stað og skóla. Þar í eru m.a. afmælisárgangar Hvanneyringa. Fyrir allnokkrum árum komu rosknir búfræðingar, mig minnir að þeir hafi verið að fagna 50 ára útskriftar-afmæli sínu; brautskráðir á síðustu árum fjórða áratugar síðustu aldar. Samkvæmt venju tók ég á móti þeim í Hvanneyrarkirkju og sagði þeim sögur þar. Er ég hafði lokið því héldu skólabræður áfram að spjalla saman og að rifja upp gamla daga. Ég tók eftir tveimur sem töluðu í hálfum hljóðum, sposkir á svip. Þeir vildu auðsýnilega ekki láta mig heyra hvað þeir ræddu og felldu talið þegar ég nálgaðist. Ég gekk á þá. Í fyrstu vildu þeir ekkert láta uppi en gáfu sig svo. Þeir höfðu verið að rifja upp skólaminningu:

32


xxxx Það var búið að skera og þreskja korn, sem þá var ræktað á Hvanneyri. Hins vegar hafði það sakir vætutíðar og sennilega vanþroska ekki náðst nægilega þurrt. Þá brugðu ráðamenn á það að slá saman tréramma á miðgólfi Hvanneyrarkirkju og hella korninu þar í þunnt lag. Kirkjan var ekki mikið notað húsnæði en um hitt munaði sennilega meira að rifur í kirkjugólfinu tryggðu nokkra loftun um rakt kornið – eins konar súgþurrkun. Þannig mun kornið hafa bjargast. Á þeim árum mun einhver hafa ýjað að því að ráðstöfunin væri ekki kristileg; jaðraði jafnvel við guðlast. Við ræddum frásögnina. Urðum svo sammála um að gerðin hlyti að hafa verið Guði þóknanleg í hæsta máta: Að bera uppskeru jarðar fram fyrir altari hans og fela honum þar forsjá hennar og varðveislu. Nánast sem haustfórn að fornum sið. Að sögn þeirra skólafélaganna fékk málið enga eftirmála. Á fjórða áratug síðustu aldar var töluverður áhugi fyrir kornrækt hérlendis. Margir reyndu hana. Fyrst og fremst í smáum stíl. Til voru þeir þó sem hugsuðu stærra. Meðal þeirra voru framsæknir menn í Reykholtsdal í Borgarfirði. Þeir stofnuðu Kornræktarfélag Reykdæla í árslok 1933. Lengst af var Andrés Kerúlf kornræktarmaður verkstjóri félagsins. Brotnir voru akrar í Reykholti og kornrækt stunduð um nokkurra ára skeið. Árangurinn varð ekki sem bestur og féll starfsemin fljólega niður. Andrés sagði mér að ein ástæðan fyrir því hefði verið sú að jarðvegurinn þar efra væri „svo drífandi“, sem ég skildi á þann veg að hann hafi verið of frjósamur (köfnunarefnisríkur) fyrir kornið. Drífandi jarðvegur stuðlar að blaðvexti en getur hamlað axþroska. Einnig var skjólleysi kennt um, næturfrosti á sumrum, misjöfnu árferði og breyttum atvinnuháttum. Tilraunin í Reykholti var talin merkilegt framtak manna til þess að brjótast undan oki Kreppunnar.1 Fór svo að verkfæri félagsins voru seld að Hvanneyri eða eins og í skýrslu um Bændaskólann segir: 1 Björk Ingimundardóttir (ritstj.): Byggðir Borgarfjarðar I (1998), 489-490.

33


Skólabúið keypti kornyrkjuverkfæri frá Reykholti, en kornyrkjubúið, sem þar starfaði nokkur ár, var leyst upp 1937. Þau verkfæri, sem við fengum, voru: Sáðvél, hringvaltari, áburðardreifari fyrir tilbúinn áburð, kornskurðarvél og þreskivél.2

Og Hvanneyringar tóku til við kornræktina. Ungur og hress var Runólfur Sveinsson tekinn við skólastjórn (1936) og svo virðist sem hugur hafi verið í mönnum. Hann mun fyrst hafa látið sá korni sumarið eftir. Líklega var það eftir sumarið 1938 sem skráð var í skýrslu um skólastarfið: Korni var sáð í ca 2 ha, byggi í 0,6 ha. Uppskeran varð minni en við var búizt. Hafrarnir þroskuðust alls ekki og voru allir slegnir til grænfóðurs, en af bygginu fengust 13 tunnur af sæmilegu korni, en 3-4 tunnur af úrgangskorni. Svarar það til h. u. b. 11 tn af ha.3

Hvort þetta var byggkornið sem lagt var til þerris á gólf Hvanneyrarkirkju veit ég ekki með vissu. Sumarið eftir, 1939, sem í bækur komst fyrir gæsku sína, skrifaði Runólfur skólastjóri: Vinnan í verklega náminu byrjaði 22. apríl. Nemendur voru 34. Byrjað var á að vinna akra undir korn. Enn fremur voru kartöflugarðar undirbúnir undir sáningu. Korninu var sáð 27. apríl, 1., 2. og 4. maí. Var byggi sáð í 1,35 ha og þroskaðist mjög vel. Uppskera varð 21 tunna pr. ha (sex raða bygg). Höfrum til þroskunar var sáð í þriðjung ha, sem einnig náðu fullum þroska.4

Síðan virðist hafa hallað undan. Eftir sumarið 1941 var uppskeran sögð hafa verið 9 tunnur.5 Brást með öllu sumarið 1952.6 Í yfirliti skrifaði Guðmundur Jónsson skólastjóri að kornræktin hafi verið stunduð á Hvanneyri af og til, „aðallega á árunum 1937-1957, þó tæplega samfellt og alltaf í smáum mælikvarða. Uppskeran var oftast lítil, að meðaltali um 10-12 hgk/ha.“7 Með kornræktinni virðist því ekki hafa verið fleginn feitur göltur. Heimildir um kornræktina á Hvanneyri eru að öðru leyti ákaflega takmarkaðar. Má því áætla að hún hafi ekki markað djúp spor í sögu skólans. Til er gömul mynd, sú sem birt er hér til hliðar (því miður aðeins eftirgerð prentmyndar úr bók Guðmundar Jónssonar Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára . . . frumgerð hennar hefur ekki fundist enn). Af henni verður ekki betur séð en um hafi verið að ræða allstóran akur. Kornið hefur verið bundið í skrýfi og stendur til þerris á akrinum. Kornskrýfin standa ekki mjög þétt og gæti það rímað við hina takmörkuðu uppskeru. Miðað við stærð akursins gæti myndin hafa verið tekið haustið 1938 eða 1939. Hvar myndin er tekin verður ekki auðveldlega greint; hugsanlega austur af skólastaðnum? 2 Búfræðingurinn 6 (1939), 128. 3 Búfræðingurinn 6 (1939), 128. 4 Búfræðingurinn 7 (1940), 73. 5 Búfræðingurinn 9 (1942), 177. 6 Búfræðingurinn 17 (1954), 141. 7 Guðmundur Jónsson: Bændaskólinn á Hvanneyri 90 ára. (1979), 177.

34


Kornakur á Hvanneyri á fjórðaáratuginum.

Rifja má upp að á Hvanneyri er til örnefnið Akurtungur. Það er spilda suð-suðaustur af Tungutúni. Óþekkt er tilurð örnefnisins. Má vel vera að það sé ungt örnefni; frá þeim tíma þegar tilraunir með kornrækt hófust þarna á fjórða áratugnum. Eldri heimildir um kornrækt á Hvanneyri eru mér ekki kunnar. Frá náttúrunnar hendi voru skilyrði til kornræktar á Hvanneyri óhagstæð. Landið lá opið fyrir veðri og vindum. Mýrlendi ríkjandi jarðvegur; fremur blautur og súr. Klemenz Kr. Kristjánsson tilraunastjóri á Sámsstöðum taldi þó mega vænta þroskaðs korns á Hvanneyri í átta árum af hverjum tíu og byggði það á veðurfarsgögnum og reynslu sinni frá Sámsstöðum.8 Þegar Magnús Óskarsson tók til við jarðræktartilraunir og -rannsóknir á Hvanneyri árið 1955 var kornrækt brátt eitt af viðfangsefnum hans. Kornræktartilraununum kaus hann stað á Bæjarmelum í Bæjarsveit; hann hafði ekki trú á Hvanneyrarlandi í því skyni. Seinni tíma tilraunir með kornrækt hafa heldur ekki sýnt að Hvanneyri sé kjörlendi fyrir korn. Með kunnáttu og viðráðanlegum umhverfisbótum hefur þó tekist að ná þar vel viðunandi kornfalli.

Óttar Geirsson handleikur kornband byggs úr tilraun á Hvanneyri á sjöunda áratug síðustu aldar (ljósm.: Magnús Óskarsson).

En Runólfur skólastjóri hafði sýnilega mikið í huga þegar hann keypti útgerð Kornræktarfélags Reykdæla. Um þær mundir virðist all nokkuð hafa verið keypt af kornyrkjuvélum til landsins. Jarðvinnslutækin, fyrir utan sáðvélarnar, samnýttust til almennrar túnræktar. Klemenz á Sámsstöðum sagði þannig frá árið 1944: 8 Klemenz Kr. Kristjánsson: „Fóðurjurtir og korn“. (1944), 41.

35


Það hafa verið fluttar nokkrar sjálfhreinsi-þreskivélar hingað til lands, síðan kornrœkt hófst. Vélar, sem fyrst voru fluttar inn, voru frá Noregi, „Björnerud F“, og hafa reynzt ágætlega, og eru nú 4 slíkar vélar til í landinu. Sú fyrsta kom til Sámsstaða 1929. Þá hafa 3 danskar þreskivélar (Dania) verið fluttar inn og einnig reynzt vel, en þær eru minni en Björnerud F og voru helmingi ódýrari, en afkasta ekki eins miklu og þær norsku vélar, sem fyrst voru hingað fengnar. Auk þess hafa verið fluttar inn allmargar handþreskivélar og hreinsivélar, sem eru afkastaminnstar, en geta þó gert sitt gagn, þar

Gaddþreskivél, handknúin. Vélin er

sem ekki er um betri vélar að ræða.9

upphaflega komin frá Dagverðareyri við Eyjafjörð en er nú í Landbúnaðarsafni. Nokkrar slíkar munu hafa verið keyptar til landsins. Þær hentuðu vel þeirri

umfangslitlu kornrækt sem stunduð var á Segja má að með fimmta áratugnum hálfnuðum fyrri hluta síðustu aldar. Kornið var látið hafi kornrækt að mestu vikið fyrir annarri ræktun þorna í skrýfum og stökkum úti á akri eða hérlendis. Bændur beindu ræktunarkröftum jafnvel undir þaki og síðan þreskt þegar vel að endurvinnslu gömlu túnanna en þó fremur þurrt var orðið (Ljósm.: Áskell Þórisson). stækkun þeirra einkum með sókn út í nýframræst mýrlendi. Aðeins fáir héldu kornræktinni áfram. Þar var Klemenz á Sámsstöðum fremstur í flokki sem fyrr. Þorvaldseyrar-bændur urðu svo öðrum fremur til þess að tengja saman kornrækt þeirra ára og endurreisnarskeiðsins sem hófst undir lok tuttugustu aldar. Það er ærin saga sem ekki verður sögð hér.

En hvað varð um kornyrkjuverkfærin, sem keypt voru að Hvanneyri 1937?

Kornsáðvélin í notkun í Reykholti, dregin af tveimur hestum. Andrés Kerúlf kornyrkjumaður (t.v.) að kornsáningu ásamt aðstoðarmanni sínum, Guðjóni Jónssyni (Ljósm.: Þorsteinn Jósepsson). 9 Klemenz Kr. Kristjánsson: „Fóðurjurtir og korn“. (1944), 72-73.

36


Af þeim lifir aðeins þreskivélin. Hún fékk húsaskjól innst í Verkfærahúsinu (Hestaréttinni – nú Kollubar), þar sem hún var í mörg ár. Varðveittist því býsna vel eins og meðfylgjandi mynd gefur hugmynd um. Hún er nú komin á skrá hjá Landbúnaðarsafni Íslands. Þreskivélin er frá Vélasmiðju Edvard Björnrud í Osló, númer 2972; staðbundin þreskivél, sem hefur verið knúin mótor um flatreimardrif. Ætla má að hún sé ein elsta ef ekki elsta vélknúna þreskivélin sem nú er til hérlendis. Myndirnar hér á eftir sýna þreskivélina.

Kornþreskivél frá Edvard Björnrud í Osló. Að Hvanneyri mun vélin hafa komið úr Reykholtsdal eins og í textanum segir. Vélin er svo til alheil.

Í megindráttum er þreskiverk Björnruds-vélarinnar sömu gerðar og er í sláttuþreskjurum nútímans – með þreskivindu, blásara og sáldum auk hálmrista! Við hafa hins vegar bætst mæli- og stjórntæki sem stuðla að mun betri vinnubrögðum við þreskinguna en áður þekktust. Önnur kornyrkjuverkfæri, sem keypt voru, hafa glatast í tímans rás. Með nokkru stökki í tíma má ljúka þessum pistli með því að nefna að nú um nokkurra ára bil hafa verið tilraunir með kornrækt á Hvanneyri á vegum Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ. Virðist árangur af þeim vera jafnbetri en reyndist á kornræktarskeiðinu þar á síðustu öld. Bæði munar þar um mun betra sáðkorn – sáðkorn sem bætt hefur verið með markvissum kynbótum – og einnig meiri verkkunnáttu við alla þætti kornræktarinnar. En einhvers staðar varð þó að byrja.

Hafrar í tilraunareitum á Hvanneyri 13. október 2022.

37


VI. kafli

Reykhúsaprestakall Í lífi nemenda Hvanneyrarskóla lifði um langa hríð hugtakið Reykhúsaprestakall. Nú er það horfið flestum eða að minnsta kosti hulið móðu. Rétt er því að rifja það lauslega upp. Fyrst með því að endurtaka kynningarorð Magnúsar Óskarssonar yfirkennara, sem voru inngangur að sögusýningu er sett var upp á aldarafmælis-hátíð Bændaskólans á Hvanneyri. Hún var haldin 24. júní árið 1989:

38


„Um 1740 er getið um svonefnda Herranótt nemenda í Skálholtsskóla. Líklega hafa svipaðar skemmtanir verið í Hólaskóla en það voru kallaðar leikveislur. Slíkir leikir gátu hafa tíðkast mikið lengur og eiga e.t.v. uppruna í katólskum sið. Séra Jón Steingrímsson segir að í Skálholti hafi menn leikið flæking og sýslumann. Aðrar heimildir segja að þetta hafi verið skopleg krýningarathöfn. Einn nemandi var krýndur konungur, annar biskup, þriðji sýslumaður o.s.frv. Hinn nýkrýndi biskup varð síðan að halda Skraparotspredikun, sem var skopstæling á ræðu prests. Herranóttin flytst í Hólavallaskóla 1786 og Bessastaðaskóla 1805. Gamla atriðinu með krýningu nemenda í embætti er haldið þangað til í kringum 1800. En hluti hátíðarinnar verður sjónleikur og síðan leggjast embættaveitingarnar niður. Ein heimild segir að gamla Herranóttin hafi verið lögð niður 1798, hafi verið bönnuð vegna frönsku stjórnarbyltingarinnar. Árni Helgason biskup segir að Herranóttin hafi verið bönnuð vegna þess að „það hneykslaði, að svona var að farið, vissa menn, héldu að hér stæði til revolution, eins og þá var á ferð í París.“ Víst er að um eða kringum aldamótin 1800 er Herranótt í gamalli mynd lögð niður í Hólavallaskóla. Eftir stóð að nemendur léku leikrit sem síðan hefur verið kölluð Herranótt og hélst við í Menntaskólanum í Reykjavík. Þessa visku alla hef ég úr greinum eftir Svein Einarsson1 og Svein Skorra Höskuldsson. Sveinn Einarsson segir að svipaðir siðir hafi þekkst í Bretlandi, Danmörku og Frakklandi. Í Bretlandi var leikurinn kallaður The Boy Bishop. En ég skil það svo að leikurinn sé löngu niðurlagður. Hér á eftir fer fram ótrúlega svipaður leikur. Nú verða sjálfsagt veitt embætti biskups, prests, meðhjálpara og sýslumanns. Allt embætti sem voru veitt í Skálholtsskóla hinum forna. Ég trúi ekki öðru en þarna séu tengsl á milli. Það furðulega er að það líða líklega minnst 100 ár frá því að hætt er við leikinn í latínuskólanum gamla og þar til hann er tekinn upp hér [á Hvanneyri]. Ég skal engum getum leiða að því hvernig á því stendur. Mig minnir að embættaveitingarnar hafi fyrst verið skrifaðar upp í Kvási [handskrifuðu skólablaði nemenda á Hvanneyri] 1922. En ekkert er líklegra en siðurinn sé mun eldri hér á skólanum. Ég veit ekki hvernig stendur á því að hið háa dómsmálaráðuneyti veitir embættin, en í leiknum forna voru dómarar mjög atkvæðamiklir. Reykhús nefndist herbergi í Gamla skólanum einhvern tímann fyrir löngu. Þar hvu 1 Hér má m.a. benda á grein Sveins Einarssonar: „Helgileikir og herranætur.“ Skírnir 139 (1965), 103-126. /BG

39


nemendur hafa verið svo miklir reykingamenn að ætíð var mökkur inni hjá þeim. Að lokum: Katólskir skólar héldu uppi helgileikum. Mótmælendaskólar breyttu leikunum í skemmtileiki. Á Hvanneyri taka menn upp hina fornu leiki 100 árum eftir að þeir lögðust niður annars staðar, e.t.v. sem hluti að þjóðernisbaráttu [svo]. Göngum þá til hins forna skólaleikjar, sem trúlega fyrirfinnst ekki lengur í neinum skóla á Íslandi og kannski ekki í neinum skóla í öllum heiminum. Ég vona að hið háa ráðuneyti hagi svo orðum sínum að enginn hljóti af andleg örkuml.“ Skrifaðar heimildir um sið embættaveitinganna eru fáar að frátöldum pistlum sem hafa verið færðir inn í bækur Kvásis en það var handskrifað blað nemenda á Hvanneyri sem hóf göngu sína með skólaárinu 1907-1908. Efni þess var lesið upp á skemmtifundum í skólanum. Í hvorugri sögubók sinni um Hvanneyrarskóla hefur Guðmundur skólastjóri Jónsson vikið að þessum sið, sem þó virðist á stundum hafa verið allgildur í skólastarfinu. Kíkjum aðeins í Kvási. Í níunda tölublaði Kvásis árið 1920 er skýring gefin á Reykhúsanafninu: „Reykhúsabúar dýrkuðu guðinn „Nikotín“ og færðu honum margar brennifórnir á degi hverjum.“ Árið áður kemur heitið fyrir í blaðinu því nefndur er reykhússtjóri, sagt er á Reykhúsum, kom að Reykhúsum . . . Þá var skólahúsið aðeins átta ára gamalt. Þannig hefur herbergisnafnið komið til strax á fyrsta áratug hússins. Elsta heimildin um einstök embætti á Reykhúsum og vígslu til þeirra er að finna í Kvási 11. nóvember 1922. Þar segir: . . . herra biskup Þorlákur Björnsson fyrrum prestur að Reykhúsum vígði til prests að Reykhúsum cand. theol Karl Ingólfsson. Víxlan fór fram að viðstöddu miklu fjölmenni og þóttust fáir hafa sjeð hátíðlegri athöfn. – Fyrst ávarpaði biskupinn lýðinn með nokkrum hjartnæmum orðum og lýsti blessun sinni yfir prestsefninu og síðan vígði hann prestsefnið með svo miklu andríki og glæsimennsku að enginn þóttist vita slík dæmi áður. Þá stje hinn ungi prestur í stólinn og blessaði yfir söfnuðinn, og það þóttust menn ráða af orðum hans að ekki mundi hann lakari kennimaður en fyrirennari hans hefði verið. . .

Þá var Páll Methúsalemsson kallaður til meðhjálpara með þreföldu húrrahrópi og „síðan tolleraður með mikilli viðhöfn.“ Þá sungu viðstaddir sálminn „Hve gott og fagurt og indælt er“. Biskup lýsti þá með einum hjónaefnum áður en hann ávarpaði viðstadda og hét á söfnuðinn að sýna hinum unga presti fulla virðingu og að ástunda heiðarlegt líferni.

40


Karl og Páll, sem nefndir eru í frásögninni, voru þennan vetur, 1922-1923, nemendur í yngri deild skólans en hurfu svo frá námi. Þorlákur hafði aftur á móti lokið námi þremur árum fyrr, vorið 1919.2 Þorlákur kann að hafa verið starfsmaður skólans er þarna var komið. Hér gæti einnig verið um að ræða endurvakningu siðarins – að Þorlákur hafi gegnt embættinu á skólatíma sínum en að dráttur hafi orðið á endurnýjun embættismanna og umboða þeirra. Ekki er hægt að útiloka að Þorlákur Björnsson hafi verið fyrsti Reykhúsapresturinn? Næstu árin er af og til í Kvási getið um embættaveitingar Reykhýsinga. Haustið 1924 skorðuðu sóknarbörn á kirkjumálastjórnina, eins og hún var kölluð, að ráða meðhjálpara, sem þá virðist hafa skort. Skömmu síðar sama haust var óskað eftir söngstjóra. Við báðum áskorunum var orðið. Haustið 1926 voru stöður veittar við Reykhúsaprestakall með sérstakri greinargerð um hvern embættismann: prest, forsöngvara, meðhjálpara og biskup. Undir jól 1927 skipaði biskup lækni og blessaði hann eftir að hafa fengið heimild kirkjumálastjórnar til ráðningarinnar. Um þær mundir virðist komið nokkuð fast form á embættaveitingarnar. Þær virðast hafa byggst á umsóknum til kirkjumálastjórnarinnar og fóru jafnan fram í vetrarbyrjun skólaárs. Embættisþegi mun alltaf hafa verið úr hópi nemenda skólans. Samfélag þeirra var prestakall Reykhúsa. Ekki er vitað til að það heiti þess hafi verið notað um nemendahópinn í öðru samhengi. Ekki er vitað nákvæmlegar hvaða herbergi Gamla skólans, sem nú kallast svo, bar Reykhúsanafnið. Af frásögnum skráðum í Kvási virðist þó mega giska á að það hafi verið á efsta gangi skólahússins, þar sem herbergjanúmerin voru 11-20. Nemendur eldri deildar skólans voru jafnan í þeim vistarverum. „Síðan var haldið upp á Reykhús að heimsækja Reykhúsbúa“, segir í Kvási 14. janúar 1922. Í frásögn í blaðinu af fyrirgangi starfsstúlkna að morgni bolludags 1920 er atgangurinn sagður hafa verið hvað harðastur á herbergi nr. 10, sem er að vísu á annarri hæð, en þaðan barst hann á herbergi nr. 12, 13 og yfir á 11. Síðan segir: „vér fylgjum nú dísunum yfir á Reykhús“; þá yfir á „pósthús“ og þar næst á nr. 15. . . Gæti því verið að Reykhús hafi verið eitt af herbergjunum þar vestan við ganginn, nr. 17-20. Svo liðu árin. Eflaust geymir Kvásir einhver orð sem varpa ljósi á framvindu kirkjustjórnarinnar í prestakalli Reykhúsa. Leit að þeim bíður seinni tíma. Hins vegar rifjar skrifarinn upp úr minni sínu eigin kynni af Reykhúsaprestakalli frá sjöunda áratugnum. Eins og meira en aldarþriðjungi fyrr var fljótlega eftir að Hvanneyrarskólinn hóf starf að hvert haust blásið til 2 Hér er lesið úr nemendatali Guðmundar Jónssonar í bók hans: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára. (1939).

41


fundar þar sem viðfangsefnið var „embættaveitingar“. Fólust þær eins og áðir í því að fluttir voru stuttir innsetningarpistlar um þá sem embættin hlutu. Höfundar pistlanna voru oftast nemendur úr eldri deild og aðrir sem með einhverjum hætti þekktu eða töldu sig þekkja til þeirra sem tilnefndir voru. Veitt voru embætti biskups, sýslumanns, prests og fleiri hliðstæðra úr samfélaginu. Sú breyting var orðin að nú var það Dómsmálaráðuneytið sem embættin veitti. Önnur breyting og ekki ómerkilegri var að embættin höfðu tekið mið af breyttum samfélagsháttum. Báru jafnvel sterkan blæ líðandi stundar. Til komu meðal annarra embættin kynbótastjóri, danskennari, baðstjóri. Innsetningarpistlarnir voru gjarnan í spaugilegum stíl. Stundum festust titlarnir við þá sem þá hlutu. Oftar held ég þeir hafi þó fljótlega gleymst. Ekki minnist ég þess að titilhafar hafi allir tekið þá alvarlega. Ég man þó að nemandi sem sleginn var til danskennara tók titil sinn svo alvarlega að hann gekkst fyrir nokkrum æfingum í þeirri grein fyrir skólafélaga sína. Siður embættaveitinga í Hvanneyrarskóla lagðist af um miðbik níunda áratugs síðustu aldar, megi marka svör við fyrirspurn skrifarans á facebook í mars 2023. Síðustu árin héldu nemendur Búvísindadeildar (áður Framhaldsdeildar) skólans siðnum við. Breyting hafði orðið þegar bændadeild Hvanneyrarskóla varð eins vetrar nám. Við það rofnuðu ýmsar hefðir sem nemendur fyrra árs báru gjarnan á milli eldri og yngri bændadeilda skólans. Hver hópur var nýr að hausti og færra en áður var til þess að rækja hefðir og venjur. Eins og kynning Magnúsar Óskarssonar ber með sér bendir margt til þess að embættaveitingar í Hvanneyrarskóla eigi tengsl við og ef til vill beinlínis rætur í siðum hinna fornu íslensku skóla, m.a. Skálholtsskóla. Engar beinar heimildir eru þó finnanlegar um það hvort eða hvernig þær rætur liggja. Ekki þarf alltaf mikið til þess að kveikja hefð. Hugmyndaríkur og framtakssamur nemandi við skólann í byrjun síðustu aldar – eða kennari – með nasasjón eða önnur kynni af hinum forna sið kann að hafa hlutast til um fyrstu embættaveitinguna. Hún getur hafa tekist svo vel að varð að sið. Það er aðeins getgáta. Um gæti t.d. verið að ræða nemanda sem kynnst hefði sögu þessa siðar í öðrum skóla, t.d. Menntaskólanum í Reykjavík, áður en hann kom til náms á Hvanneyri? Og leiðirnar geta hafa verið fleiri.

42


Skólahúsið á Hvanneyri 1945.(Ljósm. úr fórum Sveins Runólfssonar).

43


VII. kafli

Skóla-Jóna Í skólahúsinu á Hvanneyri, sem byggt var árið 1911 og nú er jafnan nefnt Gamli skólinn, hefur lengi verið sagt að dularfull vofa haldi til. Frásagnir af henni hafa rásað um sem flökkusögur. Þær hafa borist manna á milli á ýmsu formi eins og fara gerist gjarnan um slíkar sögur. Frásagnir um Skóla-Jónu hafa lifað fram á síðustu ár. Jafnvel er talið að hún hafi fært sig um set eftir að minna varð um mannvist í Gamla skóla í kjölfar breyttra búsetuhátta nemenda.1 Sennilega hefur Ólafur Jónsson skrifað heilstæðustu frásögnina um Skóla-Jónu. Frásögnina birti hann í ævisögu sinni.2 Ólafur Jónsson (1895-1980) var frá Freyshólum á Völlum. Hann nam á Hvanneyri árin 1915-1917. Hann lauk búfræðikandídatsprófi frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1924. Þá varð hann

framkvæmdastjóri

Ræktunarfélags

Norðurlands

og tilraunastjóri á Akureyri. Hann var mjög virkur í félagsmálum landbúnaðar, skrifaði afar mikið um fagmál atvinnugreinarinnar sem og um náttúrufræði og þjóðmenningu almennt, auk þess að taka mjög virkan þátt í leiðbeiningastarfi fyrir bændur. Fortakslaust má kalla Ólaf meðal merkustu búfræðinga þjóðarinnar á tuttugustu öld. Hann kom m.a. um tíma að stundakennslu í Framhaldsdeildinni á Hvanneyri. Í ævisögu sinni lýsti hann ítarlega dvöl sinni á Hvanneyri, umhverfinu, náminu og félagslífinu. Þar dvaldi hann í tvo vetur og við verknám sumarið á milli þeirra. Frásögn Ólafs um Skóla-Jónu, eins og hún stendur í ævisögu hans, fer hér á eftir. Ólafur Jónsson tilraunastjóri (Minjasafnið á Akureyri).

1 https://www.mannlif.is/frettir/innlent/draugagangur-a-hvanneyri-vildi-meina-ad-einhverjir-fleiri-hefdu-flutt-hingadinn-med-okkur/ 2 Ólafur Jónsson: Á tveimur jafnfljótum I (1971), 241-244. Rvík. Prentsmiðjan Leiftur H.F.

44


Skóla-Jóna Það þykir nokkurn veginn sjálfsagt, að fornar hallir eigi sinn draug, stundum fleiri en einn. Þær eiga flestar langa sögu og næsta höttótta. Þar kunna oft að hafa gerzt óhugnanlegir atburðir, sem engar skráðar heimildir greina frá. Hallir þessar eru oft fornlegar og undarlegar að gerð, með þykkum múrveggjum, litlum gluggum í djúpum gluggakistum, dularfullum hringstigum, leynigöngum og turnherbergjum, og með djúpum, rökum og skuggalegum kjallarakompum. Þessar byggingar eru eins og skapaðar til að varðveita voveiflega atburði og reimleika. Hér á landi, þar sem fornar byggingar eru engar og flestar byggingar nýtízkulegar og tiltölulega einfaldar að gerð, eru viðvarandi reimleikar í húsum mjög sjaldgæfir, og bregði slíku fyrir, er það venjulega aðeins um skamma hríð og þá oft bundið, að því er virðist, návist ákveðinna persóna. Þó mun ekki ótítt, að einhvers konar ókyrrleika geri vart við sig á skólasetrum hér á landi og þá jafnvel í tiltölulega nýjum byggingum. Vaknar þá sú spurning, hvort slæðingur sá sé á einhvern hátt tengdur byggingunum beinlínis, eða hvort hann tilheyri staðnum, þar sem byggingarnar eru reistar, og hafi þess vegna leitað sér athvarfs í þeim. Fundið þar, ef svo má segja, fastan samastað. Ég ætla, að þeir séu nú orðnir margir, sem ekki neita slíkum skiljanlegum fyrirbærum, eða telja þau helbera hégilju, en skýringarnar á eðli þeirra og uppkomu munu vera margar, og leiði ég þær algerlega hjá mér. Skólinn á Hvanneyri átti sinn draug, eða ég ætla réttara að nefna hann svip eða vofu. Hún gekk undir nafninu Skóla-Jóna, en hvernig það nafn var tilkomið, á því hefi ég aldrei fengið viðhlítandi skýringu. Ef til vill hafði einhver harmsaga gerzt á þessum stað endur fyrir löngu og skilið eftir sig slæðing, er þarna hafði fengið inni, þegar skólahúsið var reist, eða þá að þetta var aðeins hugarfóstur ungra manna, er þeir af einhverjum rómantískum ástæðum höfðu fóstrað, og síðan farið að trúa á tilveru þessa svips, magnað hann og alið, unz hann fór að ganga ljósum logum, sem kallað er. Það undarlega var, að vofa þessi sást aðeins á mjög afmörkuðum stað í húsinu, í nánd við svokallað Horn. Nánar tiltekið í vesturhorni skólans, neðan úr kjallara og upp í stigann, sem lá upp á aðra hæð hússins. Þegar komið var upp úr kjallaranum, upp á fyrstu hæð, voru beint á móti stiganum dyr inn á eina heimavistarherbergið, sem var á þeirri hæð. Það var í suðurhorni skólans og jafnan nefnt Hornherbergið eða bara Hornið. Þar bjuggu að öllum jafnaði 5-6 piltar, og var það því fjölmennasta íbúðarherbergið í skólahúsinu. Af stigapallinum, framan við þetta herbergi, var svo til hægri uppgangur á aðra hæð, en til vinstri illa lýstur gangur inn í svokallaðan Forsal. Í ganginum voru 45


dyr til hægri inn í skólastofu eldri deildar, en til vinstri inn í bókasafn skólans. Úr Forsalnum voru svo dyr inn í skólastofu yngri deildar, og aðrar, beint á móti ganginum, en þá var komið fram í uppganginn í norðurhorni hússins. Svo sem áður er sagt, sást SkólaJóna aldrei nema í nágrenni Hornherbergisins eða í kjallaraganginum, þar beint niður undan, að minnsta kosti ekki svo mér sé kunnugt um. Aldrei held ég hún hafi heldur sézt nema í myrkri eða mjög skuggsýnu, og ávallt sem mjög ljósklædd kvenvera. Oftast nær sást hún aðeins andartak. Mikill minni hluti þeirra, er á skólanum voru eða til heimilis á Hvanneyri, urðu hennar varir, og aldrei varð ég hennar var, ekki einu sinni, þegar hún stóð rétt fyrir framan mig, en það var þannig: Kvöld eitt í svartamyrkri kom ég ásamt félaga mínum, Tómasi Jóhannssyni3, ofan af annarri hæð skólahússins. Við fórum hægt, gengum samhliða og vorum að ræða eitthvert hversdagslegt málefni, sem ég man nú ekki hvað var, en áreiðanlega var gersneytt allri dulúð og forneskju. Þegar við vorum að koma niður hjá Horninu, grípur Tómas allt í einu þéttingsfast í handlegginn á mér og snarstanzar. Mér fannst þetta undarlegt og spyr, hvort nokkuð sé að. Spurði hann þá, hvort ég hefði ekkert séð, en ég neitaði því. Sagði hann þá, að hann hefði skyndilega séð konu í hvítum klæðum standa framan við okkur, en svo hefði hún horfið með jafnskjótri svipan og hún hafði birzt. Það var einmitt með þessum hætti, sem Skóla-Jóna sást oftast. Ekki minnist ég þess, að neinum yrði meint af að mæta Skóla-Jónu í minni tíð, en flestum mun hafa orðið bilt við í bili. Áhrifamesti vitnisburðurinn um flökt hennar er saga sú, er ég nú vil greina og mun hafa gerzt veturinn 1923-24, eða ef til vill 1925. Hefi ég söguna eftir beztu heimildum, einum af kennurum skólans og áhorfanda að atburðinum. Það mun hafa verið síðdegis einn sunnudag, að efnt hafði verið til dansskemmtunar í Forsalnum, svo sem títt var. Nú hafði orðið hlé á dansinum, því stúlkurnar höfðu farið niður í eldhús4 að fá sér kaffisopa, en herrarnir biðu á meðan og höfðust ekki að. Sögumaður minn stóð við dyrnar, sem lágu að norðurstiganum, beint andspænis gangi þeim, er fyrr var lýst og lá frá Hornherberginu til Forsalarins. Þar, rétt við ganginn, stóð einn skólapiltur og hallaðist upp að veggnum. Dauf lýsing var í salnum og gangurinn í skugga. Nú var liðið að þeim tíma, að þess mátti vænta, að stúlkurnar kæmu aftur neðan úr kjallaranum og þá eftir ganginum. Harmoníkuleikarinn var byrjaður að 3 Tómas Jóhannsson frá Sigríðarstöðum í S.-Þing., síðar kennari á Hólum í Hjaltadal. /BG 4 Á þessum árum var mötuneyti skólans – eldhús og borðstofa – í kjallara skólahússins. /BG

46


leika rólegt danslag á nikkuna. Allt í einu sér kennarinn, að pilturinn við gangopið andspænis honum réttir úr sér, víkur sér að ganginum, hneigir sig, réttir hægri arminn fram í boga, eins og hann sé að taka utan um mittið á stúlku, til þess að dansa við hana, en í sömu andránni hnígur hann niður meðvitundarlaus. Allir þustu til og tóku að stumra yfir piltinum og einhver náði í kalt vatn, sem þarna var nærtækt, og dreypti á hann. [Rankaði] hann þá skjótt við. Hafði hann þá sögu að segja, þegar hann kom til sjálfs sín, að er hann stóð þarna við gangopið, fannst honum stúlka koma utan eftir ganginum. Hugði hann það vera eina af stúlkunum neðan úr kjallaranum, ætlaði að grípa hana glóðvolga og verða fyrstur til að hefja dansinn, en þegar hann hugðist leggja arminn um stúlkuna, greip hann í tómt, og í sömu svifum hvarf honum meðvitund. Höfðu menn það fyrir satt, að þarna hefði Skóla-Jóna verið að verki. Ekki mun pilturinn hafa beðið neitt varanlegt mein við þessi nánu kynni sín af henni. Engra heimilda hef ég leitað, er varpað gætu ljósi á tilveru SkólaJónu, og ekki hefi ég fylgzt neitt með háttum hennar síðan ég yfirgaf Hvanneyri. Veit ég því eigi, hvort hún heldur enn uppteknum hætti, eða hefur orðið að víkja fyrir nýjum tímum og venjum, rafljósum og breyttum hugsunarhætti. Í minni tíð var hún fast tengd skólanum, undarlegt, tiltölulega meinlaust, en dálítið kitlandi krydd í hversdagsleika skólalífsins. Ef til vill hafði hún sinn tilgang. Hún minnti á dulúð hins óræða þáttar tilverunnar og takmörkun mannlegrar þekkingar, mitt í gáska, ofmetnaði og áhyggjuleysi æskunnar. Minnti á, að ef til vill marka allar athafnir og jafnvel hugsanir mannanna dulda slóð á leikvelli lífs og örlaga. Hver var hún? Hvers vegna hafði hún hlotið þetta nafn og hvað hafði tengt hana þessum ákveðna stað? Því verður ef til vill aldrei svarað. Friður sé með henni.

Úr Kvási – blaði nemenda Lengi héldu nemendur á Hvanneyri úti handskrifuðu blaði sem kallaðist Kvásir. Kvasir var til í norrænni goðafræði, skapaður úr hráka Ása og Vana, maður svo vitur að hann vissi svar við öllu. Hann var drepinn eftir launráð. Úr blóði hans var bruggaður mjöður sem gaf hverjum sem hann drakk skáldskapargáfu. En það er önnur saga. Í blaðinu, sem kom 47


lengi vel út, þ.e. úr því var lesið á skemmtisamkomum nemenda, kenndi ýmissa grasa: Svo sem um hugðarefni nemenda og einnig sögur, baráttugreinar, kveðskapur og stuttar fréttir úr skólalífinu, sumar færðar í framandi stíl. Ég fletti Kvási frá tímabilinu 1913-1928. Ég sá Skóla-Jónu aðeins getið á þremur stöðum. Þeir geta þó verið fleiri því ég fínkembdi ekki hverja einustu síðu þótt ég liti yfir þær allar: Fyrst var það í 1. tölublaði Kvásis 1920 þar sem talað var um þau skötuhjúin Skóla-Jónu og Bratta-Rass „sem bæði eru þekkt hérna“ segir þar. Bratta-Rass sá ég aðeins nefndan á þessum stað. Í Kvási þann 3. desember 1927 segir frá því í léttum dúr að Skóla-Jóna sé grunuð um að hafa lokað herbergjum ákveðinna pilta þannig að þeir gátu ekki mætt í tíma á morgnana. En svo er það í Kvási 4. mars 1922 að birtist heilt kvæði um Skóla-Jónu. Höfundur kvæðisins kallaði sig Skáld-Hrafn. Kvæðið fer hér á eftir: Hún Skóla-Jóna gengur um skólann hjer í kvöld, því skuggarnir og náttmyrkrið ennþá hafa völd, þó áliðið sje vetrar hún enn er samt á sveimi og ekki skal mig furða að suma illa dreymi. Hún hefir oft þann sið að híma í skúmaskotum, úr holum augna tóftum að renna ljótum gotum til þeirra, sem ganga framhjá grunlausir með sneið, það getur skeð hún andi á þá köldum gusti um leið. Hún hefir oft þann sið að skella hurðum hart og hamast eins og vitlaus, þótt tunglskin[ið] sje bjart. Þá ufsasóttarsjúklingar til [örna] sinna reika er ekki nýtt þeir sjái smettið hennar bleika. Hún leikur sjer og dansar svo ljett er syrtir að og leitun mun það vera, á öðrum slíkum stað. Þar, sem gengur ljósum logum líkt og hjer er nú, jafnleiðinlegur draugur og þetta skötuhjú. Þannig líða nætur og þannig líða ár, hún þráfalt er á sveimi, sem urðarköttur grár. Þá degi halla tekur og dimma fer af nótt, draugnum henni Skóla-Jónu verður aldrei rótt. Þegar sjest í austurátt hinn upprennandi dagur undanfari sólarinnar ljómandi og fagur, hún Skóla-Jóna dregur sig í dimman skuggakrók dottandi, svo fellur hún í svefnværðarmók. 48


Og meðan sól á lofti, í heiðríkju hlær og hellir niður geislum svo blóm á jörðu grær þá Skóla-Jóna sefur, sem barn hún brosir þá þá birtist henni landið, sem hún fær ekki að sjá. Á þessum árum – í kringum 1920 – má sjá í Kvási nokkrar greinar um drauga og aðra yfirnáttúrulega hluti, auk þess sem vikið er að dulspeki og spiritisma. Það er án efa endurómun umræðu í samfélaginu um þau mál sem töluverð var á þeim árum. Líklegt er að sú umræða hafi átt einhvern þátt í tilurð sagnanna um Skóla-Jónu eins og þeirra sem Ólafur Jónsson rakti í ævisögu sinni og sömuleiðis þess að nafn hennar rataði inn í skólablað nemenda. Hvaðan Jónu-nafnið er komið eða hvernig veit sennilega enginn. Ég fletti prestþjónustubókum Hestþinga allt aftur fyrir síðasta fjórðung nítjándu aldar. Engin með því nafni hafði verið burt kölluð á þeim tíma í prestakallinu. Nafnið gæti hafa verið gripið úr lausu lofti eða af litlu tilefni, ef til vill þegar sagan varð til. Hver veit? Nú er það svo að draugar eða vofur virðast hafa verið þekktar í mörgum heimavistarskólum, rétt eins og slíkar verur eru þekktar í höllum og nær hverjum kastala erlendis. Sá er þó munurinn að erlendis er oftast um mjög gamlar byggingar að ræða. Þau geyma gjarnan sögur um stríðsátök og mannfall. Íslenskar skólabyggingar eru hins vegar tiltölulega ungar og ekki hafa stríðsátök markað sögu þeirra þótt einhverjir kunni að hafa kvatt lífið þar með voveiflegum hætti. Lengi voru íslenska skólabyggingarnar, og þá einnig skólahúsið á Hvanneyri, illa upp lýst miðað við það sem síðar varð. Lengi upp eftir árum voru til dæmis útikamrar fyrir skólahúsið þangað sem menn máttu paufast til erinda sinna, eins og í kvæðinu sagði: „Þá ufsasóttarsjúklingar til [örna] sinna reika“. . . Nemendur urðu ekki strax vel kunnugir rangölum og skúmaskotum hússins. Svo er hitt líka alþekkt að nemendahópur á heimavistarskóla getur myndað viðkvæma hópsál sem lítið áreiti þarf til þess að raskist að stillingu og jafnvægi. Ímyndunaraflið övast og styrkist. Í fásinninu fá sögurnar fætur. Nútíminn talar um upplýsingaóreiðu og fake news; líklega eitthvað svipað. Sögurnar eru þó í eðli sínu oftast þannig að sjaldnast eru þær skráðar. Þær verða þjóðsögur. Þjóðsögur varðveitast í munnlegri geymd; ganga frá manni til manns. Á þeirri leið hnoðast þær gjarnan til og mótast margvíslega: Heimildagildi sagnanna skreppur oftast saman en afþreyingargildið vex. Sagan verður sjálfstæð með litla og oft umdeilanlega skírskotun til efnislegra staðreynda. Það rýrir ekki gildi sögunnar en krefur neytanda hennar hins vegar um skýran skilning á eðli sögunnar og tilgangi. Eftir stendur að sögur sem þessi auðga umhverfi sitt og gefa því viðbótar líf – örfa ímyndunaraflið og hafa prýðilegt afþreyingar- og skemmtigildi.

49


VIII. kafli

Með kór Hvanneyrarsóknar Ég komst fyrst í kynni við starfið í Hvanneyrarkirkju á námsárum mínum. Gerðist það með þeim hætti að Guðmundur skólastjóri auglýsti gjarnan í lok hádegisverðar á sunnudegi að messað yrði í Hvanneyrarkirkju þá um daginn og hvatti nemendur um leið til kirkjugöngu og „til þess að taka þátt í söngnum,“ eins og hann sagði. Við nemendur sinntum því kalli misvel. Það var hins vegar haustið 1965 sem ég gekk formlega til liðs við kirkjukórinn. Þá hafði (Jón) Ólafur Guðmundsson, organisti kirkjunnar, stjórnað kórnum um áratugs skeið af mildi sinni og tónvísi. Þá átti kórinn nær tveggja áratuga starfssögu að baki en hann var stofnaður í árslok 1947.1 Áður hafði sönglíf þó verið töluvert í kirkjunni, m.a. á tíð Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra sem var áhugasamur um söng og tónlist.

1 Guðmundur Jónsson: Dagbók 1947-1951, óbirt. Kristín Pétursdóttir á Innri-Skeljabrekku rakti sögu kórsins fyrsta aldarfjórðunginn í prýðilegri grein er birtist í Nýjum Ljósbera, ársriti Ungmennafélagsins Íslendingur árið 1973, 13-15.

50


Haustið 1965 var enn í kórnum söngfólk sem verið hafði með frá fyrstu árum hans svo sem Bárustaðahjónin Hólmfríður Jóhannesdóttir og Ellert Finnbogason, InnriSkeljabrekkuhjónin Jón Gíslason og Kristín Pétursdóttir, Guðrún Davíðsdóttir á Grund og hjónin í Garði á Hvanneyri, Eygló Gísladóttir og Haraldur Sigurjónsson. Kórinn kom mér því fyrir sjónir sem allgróin og formföst stofnun. Þarna um haustið 1965 var einkum tekið til við að æfa jólasálma og annað tengt jólum, þ.á.m. hátíðasöngva sr. Bjarna Þorsteinssonar. Skal ég viðurkenna að mér fannst þar opnast heimur sem mér féll afar vel. Jólalögin og hátíðatónar sr. Bjarna hafa æ síðan verið þau kórverk sem hvað mesta gleði hafa fært mér. Mér var skipað í tenór ásamt Pétri Haraldssyni kennara og félaga mínum Snorra Hjálmarssyni, sem byrjað hafði í kórnum nokkru fyrr – báðir voru þeir afar góðir og öruggir söngmenn. Kirkjuathafnir bar að, sumar samkvæmt messureglu sr. Guðmundar Þorsteinssonar sóknarprests, sem var afar góður kirkjuþjónn og félagi kórsins, en aðrar með óreglulegri hætti, svo sem útfarir. Vissulega tóku þær á í fyrstu en sakir þess að kjarni hópsins var ríkur af reynslu fann byrjandinn glöggt til skjóls og styrks þar sem kórinn þjappaði sér saman í austurhorni kirkjunnar á bak við Ólaf og orgelið. Lengi vel stóð kórinn þar á flötu gólfi áður en einhverjum datt í hug að koma þar fyrir pöllum svo raddir söngfólksins gætu betur notið sín. Um leið voru sett þar einföld sæti svo söngfólkið gæti tyllt sér á milli sálma og söngatriða. Þótti mikil bót af hvoru tveggja. Messuformið var þá og lengi síðan afar fast: sálmar sungnir í röddum og messusvör sömuleiðis. Lengi vel voru það aðeins sálmabækurnar sem við studdumst við, þ.e. textarnir.

Kór Hvanneyrarkirkju, hugsanlega við stofnun hans 1947. Sóknarpresturinn, sr. Guðmundur Sveinsson fremst fyrir miðju. Honum á hægri hönd er Sigurður Birkis söngmálastjóri, en skólastjórahjónin, Ragnhildur Ólafsdóttir og Guðmundur Jónsson, til vinstri handar (Mynd úr fórum GJ; ljósm. óþ.).

51


Messusvör voru þó sungin eftir skrifuðum röddum í viðeigandi söngbókum Sigfúsar Einarssonar og sr. Bjarna Þorsteinssonar. Síðar var farið að ljósrita sálmanóturnar og kórinn þjálfaðist í því að syngja eftir nótum. Um tíma var nokkuð um það að raddir væru leiknar inn á segulband er kórfélagar æfðu sig eftir. Æft var í kirkjunni, lengi vel á fimmtudagskvöldum (sjónvarpslausum) en þegar samkvæmishluti Nýja skólans var tekinn í notkun, (Stáss-stofan, um 1976), voru æfingar færðar þangað svo jafnframt gafst kostur á að fá sér kaffisopa í hléi. Til undirbúnings og upphitunar fyrir messur og aðrar athafnir í kirkjunni fékk kórinn að skjótast inn á bókasafn Bændaskólans eftir að það var flutt í kjallara Skólastjórahússins þar sem áður hafði verið mötuneyti skólans. Ólafur Guðmundsson lagði sig fram um að æfa kórinn vel af mildi sinni og þolinmæði. Í kórnum var ágætt söngfólk svo ég held að fullyrða megi að kórinn hafi verið hinn prýðilegasti þá og löngum síðar. Kórinn tryggði líka að messusókn varð jafnan sæmileg, því alltaf slæddust nokkrir almennir kirkjugestir með söngfólkinu. Þótt kjarni kórsins héldist lengi vel þéttur og traustur var töluvert um söngfólk sem kom og fór, oftast fólk tengt starfi Bændaskólans, en einnig úr hópi nemenda hans – margt úrvals liðsmenn. Ólafur var iðinn við að krækja í nýtt söngfólk, þótt ekki ættu allir langa samleið með kórnum.

Kór Hvanneyrarkirkju starfsárið 1961-1962 með stjórnanda sínu, Jóni Ólafi Guðmundssyni. Myndin mun hafa verið tekin í Akranesskirkju á söngmóti borgfirskra héraðskirkjukóra. Kunnugum lesendum er boðin sú dægradvöl að nafngreina þennan myndarlega hóp. Flest af þessu fólki átti langan starfsaldur á Hvanneyri og í nærsveitum (Ljósm. óþekktur. Mynd úr fórum GJ).

52


Um tíma voru reglulega fengnir söngleiðbeinendur fyrir kórinn. Um það var Ólafur mjög áhugasamur en einnig gætti þar áhrifa Kirkjukórasambands Borgarfjarðarprófastsdæmis er gjarnan útvegaði söngkennarana. Þannig hafði verið stofnað til kórsins í byrjun, með komu og starfi Sigurðar Birkis söngmálastjóra. Ég minnist leiðbeininga söngþjálfaranna Einars Sturlusonar, Sigurveigar Hjaltested, Ágústu Ágústsdóttur og Más Magnússonar, að ég nú ekki gleymi Hauki söngmálastjóra Guðlaugssyni sem við ýmis tækifæri kom og hressti upp á kórinn. Með Hauki og Ólafi var mikill og traustur vinskapur og fáir náðu að teyma kórinn til betri árangurs á skemmri tíma en tónfagurkerinn Haukur Guðlaugsson. Megin starf kórsins var við kirkjulegar athafnir en með ýmsum frávikum þó: Tekinn var þáttur í samstarfi héraðskóra með kóramótum, sungið við hátíðir á vegum Bændaskólans á Hvanneyri sem og við ýmsa tilfallandi atburði í héraði. Lítið var um annað félagsstarf á vegum kórsins. Um tíma var reynt að samræma klæðnað kórfélaga. Þannig fengu konur dumbrauðar alskykkjur, sem notaðar voru um tíma á áttunda áratugnum. Karlar skyldu þá vera dökkklæddir og gjarnan í hvítri skyrtu og með þverslaufu. Síðar, á tíunda áratugnum, var gerð tilraun með þverslaufur og klúta í kirkjuárslegum litum fyrir alla kórfélaga. Upphlutur var þó hinn klassíski klæðnaður kvenna þegar meira lá við – og dökk föt karla. Árið 1965 var í kirkjunni orgelharmoníum, ágætt hljóðfæri svo sem, en tekið að reskjast. Metnaður Ólafs stóð hins vegar til meira hljóðfæris svo árið 1967 var keypt nýtt orgel í góðu samráði við Hauk söngmálastjóra. Var það franskt, af gerðinni Dereux, og hafði m.a. eiginleika Hammond-orgels. Það átti systurorgel í Gaulverjabæjarkirkju, læt ég segja mér. Hljómaði mjög vel úr miklum hátalara orgelsins sem komið var fyrir á hillu hátt í austurhorni kirkjunnar. Mér skildist að ekki hefðu allir þjóðkirkjunnar menn verið á einum máli um hvort svo tæknivætt hljóðfæri ætti heima í húsi Guðs. Það leið þó hjá. Ekki entist hljóðfærið tiltakanlega vel og fór svo að það tók að bregðast á óheppilegum augnablikum. Kom sér þá vel að eiga að snillingin Eyjólf Hjálmsson í Þingnesi sem lífi gat blásið í hljóðfærið á ný. Menn sáu þó að hljóðfærið var orðið vonarpeningur. Því var það að á tíma Hannesar Baldurssonar organista kirkjunnar var fengið nýtt hljóðfæri, raforgel sem verið hafði æfingahljóðfæri Guðna Guðmundssonar organista í Bústaðakirkju: Prýðilegt hljóðfæri bæði að gerð og útliti sem mér fannst fara afar vel í kirkjunni. Litið var á það sem bráðabirgðaráðstöfun og í sókninni vaknaði áhugi á því að kaupa kirkjunni framtíðarhljóðfæri. Samið var við Björgvin Tómasson um smíði pípuorgels sem í kirkjuna kom haustið 1997. Mikið stykki og dágott hljóðfæri, sem hafði númerið Opus 15 frá orgelsmiðnum. Sjálfum hefur mér þó alltaf fundist að það færi alls ekki vel í hinni litlu og látlausu kirkju – en það álit liggur þó utan þessarar sögu. . . Um þau fimmtíu og fimm ár sem ég þekki til söngstarfs í Hvanneyrarkirkju hefur það eðlilega mótast af organistum og söngstjórum hverju sinni sem og áhuga prestanna. Tíðarandi og 53


almennur áhugi á kirkjustarfi hefur einnig tekið breytingum. Draga má saman annál sem eingöngu er byggður á eigin upplifun og minni: Fram til vors 1985: Starf kórsins var í föstum skorðum og í góðri sátt við presta kirkjunnar á hverjum tíma undir farsælli stjórn Ólafs Guðmundssonar, en hann tók við kórnum í ársbyrjun 1959. Á tímaskeiðið var bundinn snöggur endir með fráfalli Ólafs í maí 1985. Kórinn kvaddi hann við útför í Fossvogskirkju; söng þar undir stjórn þeirra Jóns Þ. Björnssonar í Borgarnesi og Hauks Guðlaugssonar söngmálastjóra. Við tók tímabil nokkurrar óvissu þar sem ýmsir organistar lögðu lið, oftast þó Gyða Bergþórsdóttir, sem gjarnan hafði leikið við messur í Hvanneyrarkirkju í forföllum Ólafs en hún hafði áður verið organisti kirkjunnar.2 1986-1990: Á þessu tímabili lagði Bjarni Guðráðsson í Nesi kirkju og kór lið sem organisti og söngstjóri. Naut hann reynslu kórsins og byggði á starfi Ólafs heitins en lagði í vaxandi mæli áherslu á samstarf Hvanneyrar- og Reykholtskóra. Sameinaðir sungu kórarnir til dæmis við vígslu Reykholtskirkju sumarið 1996 og Snorrastofu sumarið 2000 og fóru söngferðir til Noregs 2004 og til Kanada árið 2007. Kórarnir sungu inn á geisladiska og fleiri verkefnum var sinnt í afar farsælu samstarfi sem með tímanum varð undir heitinu Reykholtskórinn. 1990-1995: Á tímabilinu var Hannes Baldursson, eiginmaður sóknarprestsins, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, organisti og söngstjóri; afar tónvís, fjölhæfur og góður hljóðfæraleikari. Töluverðar breytingar urðu hins vegar í flokki söngfólks svo misjafnlega gekk að halda fyrra starfi í horfi. Áðurnefnt samstarf við Reykhyltinga hvatti bæði og latti heimastarfið. Hannes efldi söngsamstarf við Bæjar- og Lundarsóknir. Öflugur formaður kórsins, Aðalsteinn Geirsson, þá kennari á Hvanneyri, gerði sitt til þess að halda utan um starf kórsins og að efla það. Eftir 1995: Áðurnefnt samstarf við Reykhyltinga undir stjórn Bjarna Guðráðssonar varð minnisverðast. Við organistastarfinu á Hvanneyri tók Steinunn Árnadóttir frá Brennistöðum í Flókadal og stýrði kórnum áfram með mildilegri samviskusemi. Áfram var nokkurt samstarf við nágrannasóknir þar sem Pétur Jónsson á Hellum var organisti. Æfingar voru reglulegar og m.a. hélt Steinunn um hríð uppi skipulegri tónfræðikennslu kórnum til gagns. Árið 2000 kom sr. Flóki Kristinsson til starfa í prestakallinu. Steinunni tókst dável að tengja sóknarprest og kór í söngstarfinu, þótt ljóst væri að sr. Flóki teldi að Guð mætti vissulega tigna og tilbiðja á fleiri máta en með sérstökum kórsöng í kirkjunni. Mis heppilegt brölt meðal forystumanna þjóðkirkjunnar á þessum árum, sem og breytt viðhorf samfélags til kristnihalds átti áreiðanlega einnig sinn þátt í því að kór Hvanneyrarsóknar tók mjög að skreppa saman. Má segja að líf kórsins fjaraði að mestu út þegar Steinunn hvarf til organistastarfs við Borgarnesskirkju. 2 Sjá áðurnefnda grein Kristínar Pétursdóttur á Innri-Skeljabrekku.

54


Lokasöngurinn: Fljótlega að Steinunni horfinni frá Hvanneyrarkirkju var Dóra Erna Ásbjörnsdóttir á Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum fengin til organleiks við helgiathafnir í Hvanneyrarkirkju. Kallaði hún til það söngfólk sem áhuga og aðstöðu hafði til liðveislu, einkum á stórhátíðum. Fækkaði þó hægt og bítandi í þeim hópi. Það var svo á aðventunni 2013 að fyrrverandi sóknarprestur, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sem þá var orðinn biskup Íslands, ákvað að halda árlegan aftansöng biskups í Sjónvarpi RÚV í Hvanneyrarkirkju. Fimmtudaginn 12. desember var aftansöngurinn tekinn upp með tilheyrandi tilstandi. Kallaður hafði verið saman hinn fyrri kór kirkjunnar styrktur fáeinum röddum úr kór Reykholtskirkju. Tókst athöfnin, sem send var út að kvöldi aðfangadags 2013, hið besta. Með vissum hætti markaði þessi aftansöngur tímamót. Árin síðan hefur kórsöngur í Hvanneyrarkirkju verið afar óformlegur. Sjaldnast hefur tekist að manna allar raddir eða æfa til nokkurs hlítar. Miðað hefur verið við almennan kirkjusöng, sem alls ekki að forakta, því hann er hollur. Á stórhátíðum hafa fengist 4-6 eldri kórfélagar til þess að leiða kirkjusönginn með Dóru Ernu organista og þá sjaldnast með rödduðum söng. Þar hafa lengst dugað Dagný Sigurðardóttir á Innri-Skeljabrekku, Ragnhildur Helga Jónsdóttir í Ausu, Sigrún Kristjánsdóttir á Hvanneyri og við hjónin, Ásdís B. Geirdal og undirritaður.

Frá upptöku aftansöngs í Hvanneyrarkirkju vegna jóla 2013 (RUV).

Á því tímaskeiði, sem hér segir frá, hefur meginbreytingin hvað Hvanneyrarkirkju varðar orðið Orgel Hvanneyrarkirkju, smíði Björgvins Tómassonar, opus 15 sú að formlegur og skipulega (RÚV). æfður kirkjukór, sem átti sinn þátt í formfestu almennra kirkjuathafna og bærilegri kirkjusókn á seinni hluta tuttugustu aldar, er horfinn af heimi. Eftir standa að liðnum tveimur áratugum tuttugustu og fyrstu aldar fámennisathafnir þar sem byggt er á fjöldasöng mættra. Óbreytt hefur þó enst sú lukka kirkjunnar að eiga ávalt að prýðilega organista sem tryggt hafa þann grunnþátt kirkjustarfsins.

55


IX. kafli

Upphaf leikskólastarfs á Hvanneyri Eftirfarandi pistill var að stofni til skrifaður í september 1991 að beiðni Sigríðar Jóhannesdóttur í Álfhól sem þá veitti Leikskólanum Andabæ forstöðu. Ég byggði skrifin mest á minni mínu og nokkrum lausum heimildablöðum sem mér voru nærtæk þá. Einnig studdist við dagbók mína frá árum sem hér er fjallað um. Við afritun hinnar gömlu samantektar hef ég snyrt hana ögn og bætt inn fáeinum atriðum, einkum þeim sem varða aðdraganda að hinu formlegu leikskólastarfi. Enga ábyrgð get ég tekið um villuleysi, nema að þær eiga ekki að vera til komnar með vilja. . .

Jól í Andabæ, mynd af heimasíðu leikskólans.

56


Hvanneyri var lengi fram eftir síðustu öld skólaheimili ungs fólks. Kennarar við Bændaskólann voru fáir og starfsmenn búsins oftast ungir og einhleypir karlar. Um önnur störf á staðnum var varla og ekki að ræða. Eiginkonur kennaranna, sem undantekningalaust lengi vel voru karlar, sinntu heimilisverkum og umönnun barna sinna. Á árunum 1965-1970 tók þetta að breytast. Til urðu hlutastörf sem hentuðu konum, fyrst og fremst sumarstörf. Húsmæður tóku að sinna verkum sem áður höfðu verið á höndum ungra stúlkna, svo sem við jarðræktartilraunir og annan rekstur Bændaskólans. Viðhorf voru einnig að breytast. Fyrstu áhrif 68-kynslóðarinnar tóku að segja til sín. Um og upp úr 1972 urðu miklar breytingar á starfsmannahópnum á Hvanneyri. Ungum fjölskyldum fjölgaði. Ný hugsun gerði um sig. Samfélagið hóf að gera nýjar kröfur. Ýtt hafði verið á um skólasel á Hvanneyri í stað heimavistar á Kleppjárnsreykjum og ungar konur kusu einnig að vinna utan heimilis, m.a. við ýmis störf hjá Bændaskólanum, svo sem á skrifstofu, rannsóknastofu og í mötuneyti og þvottahúsi skólans. Dagvist barnanna var þá ýmist leyst með skiptigæslu eða „barnapíum“ en löng hefð var fyrir þeim starfa á Hvanneyri eins og víðar gerðist. Það mun hafa verið veturinn 1980-1981 að umræður um leikskóla/dagvistun hófust meðal foreldra á Hvanneyri. Þau mál hafði áður borið á góma án þess að til framkvæmda kæmi. Má þó minnast einfalds leikvallar sem komið var upp norðan við Svíra sumarið 1969. Höfðu þar frumkvæði nokkrir foreldrar (. . . samtökin kölluðu sig „Feðrafélagið“) sem lögðu fram vinnu við girðingu, leiktæki og fleira, að mig minnir með nokkrum fjárstyrk hreppsins og fyrirgreiðslu Bændaskólans í vélavinnu og efni. Má segja að það hafa verið upphaf aðgerða í átt til félagslegrar dagvistunar barna á staðnum. Í janúar-mánuði 1981 barst hreppsnefnd Andakílshrepps áskorun 43 hreppsbúa, flestra á Hvanneyri, um að sköpuð yrði aðstaða til leikskóla/dagvistunar fyrir börn. Hreppsnefnd1 ræddi málið og var almennt hlynnt því þótt nefnt væri í umræðum að konur ættu sjálfar að annast börn sín. Hreppsnefnd lét fulltrúa sinn (Bj.Guðm.) kanna tiltæka kosti. Þann 29. janúar 1981 boðuðu nokkrir foreldrar til fundar um málið í Odda á Hvanneyri. Þar mættu eftirtaldir: Elísabet Haraldsdóttir, Odda,

Petra Ólafsdóttir, Steinbæ,

Gunnar Örn Guðmundsson, Odda,

Rósa Marinósdóttir, N.-skóla,

Sesselja Bjarnadóttir, Garði,

Þóra Stefánsdóttir, Hvítárskála,

Sigurður Karl Bjarnason, Álfhól,

Jakobína B. Jónasdóttir, Túnsbergi og

Hafdís Pétursdóttir, Smáratúni,

Magnús B. Jónsson, Ásgerði.

Þórfríður Guðmundsdóttir, Mýrartúni, Ágústa Hólm, A-götu 6 (Grenitúni?), Berghildur Jóhannsdóttir, Sigtúni, 1 Í hreppsnefnd Andakílshrepps voru þá Jón Blöndal í Langholti, oddviti; Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri; Pétur Kr. Jónsson á Hellum; Ófeigur J. Gestsson á Hvanneyri og Jón Sigvaldason í Ausu.

57


Undirritaður var fulltrúi hreppsnefndar á fundinum. Eftir töluverðar umræður var starfshópur settur til þess að þoka málinu áfram. Skyldi rekstur verða í höndum foreldra en styrks beðist frá hreppssjóði. Foringi starfshópsins var Elísabet Haraldsdóttir en auk hennar var þar skrifarinn og síðan „fóstran“, þegar málið komst svo langt. Reyndist Elísabet drjúg við að ýta málinu áfram. Fjármunir fengust frá Andakílshreppi til nokkurra leikfangakaupa en einnig voru foreldrar duglegir við að útvega ýmislegt efni. Ekki man ég betur en að tengdamóðir Elísabetar, Elín Torfadóttir leikskólastjóri í Reykjavík, hafi lánað fyrstu húsgögnin til skólans. Leitað var til Bændaskólans með húsnæði. Leigði hann það fyrir lítið: Tvö herbergi, að mig minnir í kjallaraálmu Nýja skólans, sem þá var svo kallaður. Ráðin var stúlka til gæslu barnanna, Vilborg Kristinsdóttir frá Halakoti í Flóa, áður nemandi við Bændaskólans. Ekki minnist ég neinna formlegheita varðandi leigu húsnæðis, heilbrigðisvottorða þess, trygginga ellegar annarra rekstrarleyfa fyrir leikskólann. Það var bara byrjað. Og einhvern dag í febrúar-mánuði 1981 þokaðist starf leikskólans formálalítið af stað. Mig minnir að gæsla væri aðeins eftir hádegið – kl. 12.45 – 17.15 – og þá fimm daga vikunnar. Börnin voru fá, mun færri en undirskriftir forráðamanna barnanna höfðu gefið bendingu um. Munu þau hafa verið sex eða sjö. Foreldrarnir tóku að sér þrif húsnæðis strax í upphafi og flest var reynt til þess að halda rekstrarkostnaði í lágmarki. Reksturinn hvíldi hvað alla ábyrgð og framkvæmd snerti á foreldrunum og starfshópi þeirra. Mig minnir að rekstur hafi staðið með þessu formi út skólatímann – til svo sem 10. maí, en að þá hafi komið fram nokkur áhugi á sumarstarfi leikskólans. Ráðin var Jóninna Haraldsdóttir á Jaðri í Bæjarsveit til gæslu (ég held að ég rugli þessu ekki saman við sumarið eftir). Mjög fá börn nýttu sér þjónustuna. Fólk var í sumarfríum og leystu mál sín með öðrum hætti. Því var þetta ekki reynt næstu sumur. Næsta vetur var rekstrarform leikskólans hið sama. Hann starfaði áfram á sama stað, og nú minnir mig að Guðrún Kristjánsdóttir á Ferjubakka, lærður leikskólakennari, hafi ráðist til starfa. Hreppsnefndarkosningar voru árið 1982. Að þeim loknum var nokkuð rætt um leikskóla á fundum nýrrar hreppsnefndar, m.a. útvegun frambúðar húsnæðis, þjónustu við börn í Bæjarsveit o.fl. Hreppsnefnd kaus sérstakan fulltrúa í „stjórn Leikskóla Andakílshrepps“, sem nú var orðin stofnun í kerfi hreppsins. Sumarið eftir (1983) var reynt að reka leikskóla í Bæjarsveit en sú tilraun stóð ekki lengi. Á þeim árum þurfti nefnilega mjög að gæta jafnræðis á milli íbúa Bæjarsveitar og neðri hluta Andakílshrepps.

58


Um þær mundir var nýtt húsnæði Andakílsskóla á Hvanneyri að verða tilbúið. Eftir japl og bauk fékk leikskólinn þar inni haustið 1982 fyrir atbeina oddvita skólahverfisins. Munaði þar um að Andakílshreppur hafði lagt mikið (bráðabirgða)fé til byggingarinnar, sem bæði flýtti byggingunni og gerði hana ódýrari en ella hefði orðið. Naut skólahverfið þar sem löngum áður framsýni og atbeina Jakobs Jónssonar á Varmalæk, sem lengi fór fyrir byggingarnefnd skólahverfisins. Þáverandi skólastjóri Andakílsskóla lagðist hins vegar gegn þessari húsnæðisráðstöfun, án þess að það breytti afstöðu oddvitanna. Vænkaðist nú hagur Leikskólans að mun. Enn komu foreldrar til stuðnings og verka við leiktæki utan- og innan dyra skólans og gerðu honum gott með ýmsum hætti. Nú var Kristín Árnadóttir í Tungutúni orðin fulltrúi þeirra í Leikskólastjórn. Það mun hafa verið á árinu 1983 að Andakílshreppur óskaði ríkisframlags til byggingar leikskóla. Sérstaklega benti hreppsnefndin á þann kost að samnýta húsnæði og jafnvel starfsfólk leik- og grunnskóla. Erindi þar um var kynnt menntamálaráðuneyti í nóvember 1983. Hugmyndin þótti athyglisverð og henni var vel tekið af fulltrúa ráðuneytisins, Svandísi Skúladóttur. Hlaut málið náð fyrir Alþingi og á fjárlögum 1984 var 5.000 kr. veitt til byggingarinnar (ég held að það hafa verið einu framkvæmdina í þessu skyni utan Reykjavíkur og þéttbýlis það árið). Að skilningi menntamálaráðuneytisins skyldi Andakílshreppur sjálfur finna út hvort hagkvæmara væri að bæta við Andakílsskóla aðstöðu til leikskóla eða byggja sérstakt húsnæði. Var ráðuneytið fremur á upphaflegri hugmynd um að samnýta skólahúsnæði. Mig minnir að fé kæmi líka á fjárlögum 1985 en ekki var litið á fyrstu fjárveitingu sem heimild til framkvæmda. Af þeim varð ekki fyrr en síðar svo sem kunnugt er. Fram til hreppsnefndarkosninga 1986 var form reksturs leikskólans svipað: Starfshópurinn bar ábyrgð á rekstri. Í honum voru fóstran, fulltrúi foreldranna, sem sáu um ýmislegt í daglegri framkvæmd og annað stúss, svo sem stjórn þrifa, skipulag o.fl, og fulltrúi hreppsnefndar (Bj. Guðm.) sem annaðist launamál og reikningshald. Bakhjarlinn var hreppssjóður, sem reiddi fram mismun innheimtra daggjalda og kostnaðar, sem varð mikill eða lítill eftir hætti – mest vegna mismunandi fjölda barna sem þjónustu leikskólans nutu. Framlag hreppsins fór einkum til launa, a.m.k. framan af, svo og annars reksturs (húsaleigu, rafmagns o.fl.). Ekki má gleyma Kvenfélaginu 19. júní sem strax sýndi Leikskólanum mikla velvild með höfðinglegum gjöfum eins og gögn í vörslu skólans bera með sér. Framlög Andakílshrepps voru fyrstu árin þessi: Ár

kr.

% af gjöldum hreppsins

1981 29.959 2,9 1982 36.158 2,7 1983 68.286

59


+ 17.468 til Bæjarsv.

2,7

1984 127.575 3,7 1985

142.811

+ 25.964 til fjárfest.

3,6

Drög að starfsmannatali fyrstu árin: Vilborg Kristinsdóttir frá Halakoti

Guðrún Kristjánsdóttir, Ferjubakka

Jóninna Haraldsdóttir, Jaðri

Rósa Marinósdóttir, Hvanneyri

Ingibjörg Jónasdóttir, Hvanneyri

Sigrún Kristjánsdóttir, Hvanneyri

... Þetta er í afar grófum dráttum meginhluti sögunnar fram til vors 1986 að undirritaður hætti afskiptum af Leikskólanum. Minni mitt er ekki óbrigðult en ekki man ég betur en að í júlí 1986 hafi ég raðað saman öllum gögnum um rekstur skólans sem ég hafði varðveitt frá upphafi og annað hvort fengið það Rósu Marinósdóttur sem var burðarás Leikskólans þau árin – eða oddvita sem þá var Sturla Guðbjarnason í Fossatúni. Rétt er að hafa upp á þessum gögnun. Afrit af þeim mikilvægustu má varðveita í hinu fallega húsnæði sem skólinn hefur eignast, þótt frumgerð verði varðveitt í skjalasafni sveitarfélagsins. Mig minnir að í upphafi hafi verið búin til skrá með nöfnum og myndum þeirra barna sem þar voru. Ef til vill er hún til enn? Leikskólinn, nú Andabær, húsnæðið eru gott vitni um frumkvæði og dugnað foreldranna sem hrundu málinu af stað við stígandi stuðning hreppsins.

Ég legg hér við afrit af nokkrum skjölum mismerkilegum sem varða Leikskólann og ég hélt til haga:

60


61


62


63


64


65


X. kafli

Hvítárós – býlið í Hólnum Áður en Hvítá tekur að breiða úr sér fyrir botni Borgarfjarðar fellur hún fram á milli tveggja klettóttra höfða. Að vestanverðu við ána er það Ferjubakkahöfðinn, sem er allmikill um sig en sunnan árinnar er stakur hóll, mun minni um sig, með reisulegum klettaveggjum mót Hvítánni, nefndur Skálahóll. Þar verður botn Borgarfjarðar segir í sóknalýsingum nítjándu aldar.1 Norðantil í síðarnefnda hólnum var skömmu eftir miðja nítjándu öld sett nýbýli – á Hvítárósi var það kallað.2 Það varð vestasta (nyrsta) býli Borgarfjarðarsýslu og þá einnig Sunnlendingafjórðungs á meðan sú skipting landsins gilti. Bæjarstæðið telst afskekkt í dag. Þangað er engin leið að komast á hefðbundnum bifreiðum, nema við sérstakar aðstæður á snjóa- og ísavetrum. Þó er loftlínan þangað frá næstu bæjum innan við 1500 metrar. Á aðra hliðina hindra ósar Hvítár en á hina votar engjar, Hvanneyrarengjarnar. Lárétt flatlendið er mótað af framburði Hvítár um þúsundir ára. Í stærstu vetrarflóðum fellur árvatnið yfir það, meira eða minna blandað sjó. Af Skálahólnum er mikilfenglegt útsýni til allra átta.

1 Mýra- og Borgarfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar Hins ísl. bókmenntafélags 1839-1873. (2005), 106. 2 Í eldri gögnum um Hvítárós virðist mér oftast skrifað á Hvítárósi. Þeim hætti er haldið hér þótt á seinni tímum muni oftar hafa verið sagt í Hvítárósi.

66


Hvítárós fyrr á árum Nokkrar sagnir lifa um Hvítárós fyrr á öldum. Þannig geta Íslendingasögur um farmenn sem þar tóku land eða létu úr höfn. Má því vera að einhver mannvirki, jafnvel mannvist, hafi snemma verið sett þar. Almenningsferja var þar eins og örnefnið Köllunarklettur í Ferjubakkahöfða vísar til.3 Sama nafn er á hæsta kolli Skálahóls, sunnan óssins.4 Gleggri fregnir af Hvítárósi bárust hins vegar árið 1648 þegar Jóhann nokkur Mumm, hollenskur maður, hafði fengið leyfi Danakonungs til þess að veiða lax í Hvítá. Hann kom sér vel fyrir; lagði skipi sínu „undan ósnum, rak staura niður yfir hann þveran og lagði þar netum á milli“ . . . Þær aðferðir kærðu bændur við Grímsá og Norðurá.5 Þá mun Mumm hafa byggt hús á Hvanneyri, „líklega bæði íbúðarhús og aðgerðarhús“, segir Sigríður Svana Pétursdóttir í grein um þennan sérstæða athafnamann.6 Um þær mundir var lax munaðarvara í Evrópu og útvegurinn því afar ábatasamur. Sennilegra er að mannvirkin hafi verið reist á Hvítárósi fremur en heima á Hvanneyrarstað. Á Hvítárósi lágu þau mun betur við gagnvart veiðiskapnum, vinnslu og útflutningi laxins. Nafn hólsins, Skálahóll, telur Björn J. Blöndal vera síðan „útlendir laxveiðimenn byggðu þar skála árið 1648.“7 Í Jarðabók Árna og Páls frá 1707 er hvorki á Hvanneyrarjörðum né á Hvítárvöllum getið um laxveiði; aðeins um veiði í Grímsá og Flókadalsá. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, sem á ferð voru hálfri öld síðar, geta heldur ekki sérstaklega um laxveiðar í Hvítá í Ferðabók sinni.8 Í Sýslulýsingum skráðum um 1840 segir: „Á Hvítárvöllum er laxveiði í lagnetastúfum í Hvítá“. . .9 Í byrjun nítjándu aldar þótti Magnúsi Stephensen landar sínir linir við nýtingu laxgengndar þótt ýmis veiðitækni væri þekkt . . . svosem með neta-ádráttum og rek-netum í stór-ám, eða lag-netum hvar straumur bar út frá eyrumog backataungum þeirra; með laxa-kistum og afhleypingum vatna þess á milli, með króa-hleðslu undir fossum af grjóti, og nú seinast stór-laxa-voðaleggíngum í sjó við tánga og sund í innfjørðum og í grend við ár-ósa10 . . .

Þrátt fyrir þessar litlu heimildir um laxveiðar við Hvítárós gætu þær vel átt sér langa sögu. Minna má á frásögn Egils sögu um Sigmund ráðsmann Skalla-Gríms á Haugum, sem færði bústað sinn

3 Byggðir Borgarfjarðar III (1999), 197. Ennfremur örnefnalýsing Ferjubakkabæja, skv. frásögn Þórólfs Sveinssonar 4. júlí 2023. 4 Björn J. Blöndal: Vötnin ströng. (1972). 71. 5 Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson: Ferðabók I. (1981), 134. 6 Sigríður Svana Pétursdóttir hefur sagt frá þessum athafnamanni í greininni „Fálkafangari við Hvítárós“: Veiðimaðurinn nr. 16 (2000). 7 Björn J. Blöndal: Vötnin ströng. (1972). 72. 8 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. IV (1925 og 1927); Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar I (1981), 134. 9 Sýslu- og sóknalýsingar Mýra og Borgarfjarðarsýslna. (2005), 256. 10 Magnús Stephensen: Eptirmæli Átjándu Aldar (1805), 531.

67


í Munaðarnes, „þótti þar hægra til laxveiða.“11 Varla var það eini staðurinn í Borgarfjarðarhéraði þar sem laxveiðar höfðu verið stundaðar og tæplega voru þær lagðar af að tímum Skalla-Gríms liðnum. Óvíða voru náttúruleg skilyrði til slíkra veiða betri en við Hvítárós. Svo virðist því sem fátt sögulegt hafi tengst Hvítárósi og Skálahól, að minnsta kosti hvað byggð og fasta búsetu snerti, fyrr en til sögunnar kom maður að nafni Teitur Símonarson. Segir nú af honum og verkum hans.

Býli stofnað á Hvítárósi Sonarsonur og alnafni Teits Símonarsonar hefur sagt frá stofnun býlisins í Skálahólnum: Vorið 1860 flutti Teitur frá Hvanneyri og reisti nýbýli að Hvítárósi, en það land lá áður undir Hvanneyri. Aðal ástæðurnar til þess að hann tók þetta fyrir voru þær að hann gerðist maður gamall til að búa á stórri jörð og svo hitt að börn hans og Jóns Pálssonar voru þá farin að trúlofast og giftast saman og hvorttveggja það fólk vildi helst búa innan Hvanneyrarfylkis, og vildi hann hjálpa til af bestu getu (til þess) að þessi ósk þess gæti ræst, svo kom hitt og til að Hvítá var farin að draga huga hans til sín, og mun hann hafa sjeð að það var bæði gagnlegt og gaman fyrir sig þegar hann var hættur að þola að vinna almenna erfiðisvinnu, að hafa til stundunar bestu laxveiðilögn í Hvítá skamt frá bæjardyrum sínum; ekki síður fyrir það að hann hafði sjálfur komið þessu í framkvæmd. Ekki hafði hann nema þessa einu lögn til afnota meðan hann bjó í Hvítárósi, hinar fylgdu Hvanneyri eins og áður.12

Teitur (eldri) var frá Hæli í Flókadal. Kona hans var Guðrún Guðmundsdóttir frá Norðureykjum í Hálsasveit. Þau höfðu um árabil búið við rausn á Hvanneyri þegar þau færðu sig á nýbýlið á Hvítárósi, sem einnig var nefnt Hóllinn í daglegu tali. Áður en lengra er haldið má nefna að þótt Teitur yngri telji árið 1860 upphafsár býlisins á Hvítárósi má í sóknarmannatali Hestþinga sjá að Teitur eldri er með fjölskyldu sinni skráður þar í janúar-mánuðum áranna 1846, 1847, 1849 og líklega einnig árið1852(?). Önnur ár var hann skráður á Hvanneyrar-býlum (2., 3. býli eða heimajörð). Sömuleiðis skráir hann sig á Hvítárósi í apríl árið 1855 við undirritun greinar í blaðinu Þjóðólfur þar sem hann fyrstur manna lýsti nýrri aðferð við netaveiði á laxi. Sú aðferð varð síðan alkunna við neðanverða Hvítá í Borgarfirði. Hér verður ekki grafist fyrir um skýringar á búferlum Teits og fjölskyldu hans; aðeins staðfest að Hvítárósi hefur hann verið tengdur áður en hann hóf þar fasta og samfellda búsetu. 11 Egils saga (1981), 73. 12 Frásögnin er í skjali í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar, merktu1996 N/1 Bændaskólinn, 50 ára, sem geymir gögn Guðmundar Jónssonar vegna ritunar fimmtíu ára sögu Hvanneyrarskóla 1939. Frásögnin er ekki merkt höfundi og er að finna sem I. kafli í þessu riti, bls. 7-12. Sennilega er hún eftir Teit Símonarson (1865-1945) fyrrum bónda á Grímarsstöðum en hann ólst upp í Ásgarði á Hvanneyri. Hann var sonarsonur Teits Símonarsonar (1796-1887) frá Hæli í Flókadal, þess sem reisti nýbýlið á Hvítárósi. Ætt hans „bjó á Hvanneyri og í Hvanneyrarhverfinu um langt skeið, eða frá 1838 til 1896 . . . bændahöfðingi og víðþekktur maður á sinni tíð,“ skrifaði Guðmundur sem virðist hafa notað töluverðan hluta af þessari frásögn í bók sinni, Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára, sjá bls. 25-37.

68


Í Þjóðólfi 2.og 9. júní 1855 birtist lýsing Teits Símonarsonar [þá sagður á Hvanneyrarskála] á laxveiðiaðferð sem hann og Andrés bóndi Andrésson [Fjeldsted] á Hvítárvöllum höfðu lært af Carli Siemsen kaupmanni. Lýsingin hófst þannig: „Út í ána er hlaðinn garður af grjóti á þeim stað, sem haganlegast sýnist, og að lax muni gánga sem næst landi, en hann gengur bezt á hreinum botni og straum. Bezt ætla eg, að garðurinn nái sem lengst út í ána að verður, eða þángað út, sem hún er búin að ná fullu dýpi“. . .

Í áðurnefndri greinargerð segir svo um Teit sem bónda á Hvanneyri: . . . fór þá brátt að koma í ljós að hann hafði framtak og hugsjónir fram yfir það sem alment var í þá tíð, hann var fyrsti maður á Hvanneyri og í stóru umhverfi hennar, að hefja túnasljettun; . . . Teitur var og fyrsti maður sem veiddi lax í Hvítá við Hvanneyrar land. Hann kom og betra skipulagi á margt meðal granna sinna þar í Hvanneyrarhverfinu heldur en áður var. Þetta kunnu þeir að meta og álitu hann foringja sinn og gáfu honum nafnið Fylkisvörður, því í þá tíð var Hvanneyrar hverfið eða eignin af ýmsum kölluð Fylki.

Orð fór af búskap Teits og fjölskyldu hans á heimajörð Hvanneyrar eins og vísan segir sem um hann var kveðin: Teitur býr með tuttugu kýr í fjósi. Framtak knýr til farsældar. Fróni stýrir Hvanneyrar.

Þegar prestur Hestþinga skráði sóknarmannatal árið sem Teitur færði sig á Hvítárós, í Hólinn, samkvæmt frásögn Teits yngra, fardagaárið 1859-1860, voru þar tólf manns í heimili. Teitur hafði þá skömmu áður misst Guðrúnu, konu sína, en kvænst aftur, Kristínu Guðmundsdóttur.13 Fimm börn Teits voru þar til heimilis, öll á þrítugsaldri. Áður en lengra verður haldið má nefna til sögunnar Einar nokkurn Þórólfsson (eldri). Hann var fæddur um 1740 og dó upp úr 1790. Framkvæmdamaður, „fríhöndlari“, og sá fyrsti sem fékk borgarabréf í Reykjavík (1787). Einar hefur líklega verið fyrsti Íslendingurinn sem stundaði laxveiðar í sjó hér við land, segir í Borgfirskum æviskrám. Þar segir ennfremur að vitað sé að Einar . . .

13 Borgfirskar æviskrár XI (2000), 334-335.

69


. . . stundaði þessar laxveiðar við Hvítárós í Borgarfirði um nokkurra ára skeið. Fékk hann af því viðurnefni og var kallaður „laxafangari“. Byggði hús við Hvítárós (líklega í „Hólnum“) og saltaði þar niður lax til útflutnings. Hús þetta keypti sr. Þorsteinn Sveinbjarnarson á Hesti að Einari látnum.14

Mjög líklega hafa sögur um iðju Einars „laxafangara“ lifað þegar Teitur Símonarson hóf laxveiðar við Hvítárós. Jafnvel hafa líka staðið þar leifar mannvirkja Einars.

Landkostir og ábúð Á Hvítárósi bjó Teitur Símonarson með fólki sínu til ársins 1880. Þá fengu þau Daníel Andrjesson Fjeldsted frá Hvítárvöllum og Sigurlaug Ólafsdóttir jörðina til lífstíðar ábúðar með samningi, dags. 28. maí 1880, við umboðsmann eiganda Hvanneyrarjarðarinnar sem þá var Oddgeir Stephensen í Kaupmannahöfn.15 Í samningnum eru hús jarðarinnar sögð léleg . . . „ber leiguliða að byggja upp þar baðstofu í 4 stafgólfum á bekk og sömuleiðis fjós, er geti tekið 10 nautgripi á sinn eigin reikning“, segir þar. Í viðauka (P.S.) segir: Daníel Fjeldsted hefur rétt til, á meðan hann býr á framangreindri jörðu, að hafa lagnarstæði til laxveiði á sama stað (við Hvítá) og fyrrverandi ábúandi Hvítáróss Teitur Símonarson hafði.

Búreksturinn á Hvítárósi var umfangsmikill miðað við það sem þá gerðist almennt. Á árunum 1904-1914 voru þar jafnan skráðar í hreppsbækur 8-12 kýr, 45-40 ær og 25-35 gemlingar auk 5-7 fullorðinna hrossa. Heyskapur var 30-40 hestburðir (hb) af töðu og 400500 hb útheys. Árið 1918 voru til hlunnindaskrár sömu bóka færðir 200 laxar og 30 silungar. Á Hvanneyri voru þá skráðir 250 laxar en 600 á Hvítárvöllum. Bú Daníels og Sigurlaugar stóð því áreiðanlega styrkum fótum. Hvítárós taldist vera 16 hundruð úr landi Hvanneyrar með óskiptu beitilandi. Landið var að mestu þýfðar engjar meðfram Hvítá frá Hvanneyrarstokki (Stóra-Stokki) að sunnanverðu að Kvígsstaðaengi að norðanverðu. Túnstæði er lítið sem ekkert á Hvítárósi. Samt voru sagðar vera þar sjö mjólkandi kýr árið 1886 og tíu árið 1901-1902. Heyfengurinn var sóttur á engjarnar sem gefið hafa mikið gras í flestum árum. Nemandi á Hvanneyri árin 1912-1914 lýsti jörðinni þannig: Hvítárós var sérkennilegasta bújörð sem ég hef séð. Túnið var ekki annað en gróinn hóll þar sem húsin stóðu, ekki mikill ummáls, varla mikið yfir vallardagssláttu að stærð, að ég ætla. Um stórstraumsflæðar, þá er þær verða mestar, var hóllinn umflotinn, en slægjulandið var gulstararengi, kólfur stararinnar var gildur eins og mannsfingur og mældist mér hún víða um 1 metri á hæð, allt kýrgæft, grunnurinn sléttur og harður, þegar út féll, en flóð voru sjaldgæf að sumrinu. Þarna var þá stórt bú, að mér fannst: 10-12 nautgripir, á annað hundrað fjár og nokkrir hestar.16. . .

14 Borgfirzkar æviskrár II (1971), 189-190. 15 Samningurinn (byggingarbréfið) og ýmis fleiri skjöl varðandi Hvítárós, sem hér er byggt á, eru varðveitt í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar, EE-178 45-1 og 45-2. 16 Jóhannes Davíðsson: „Í Borgarfjarðarhéraði“. Freyr 68 (1972), 507.

70


Á meðan siglt var um Hvítá lá Hvítárós afar vel við samgöngum. Var raunar mikilvægur áfangastaður í siglingum um ána. Lending þar hefur verið ágæt, einkum suðvestanvert við Hólinn. Stærsti kostur jarðarinnar lá í laxveiðinni. Hún var orðin mikil og verðmæt um það leyti sem búnaðarskóli var settur á Hvanneyri (1889), eins og Guðmundur Jónsson skrifaði: Veiddist sum árin lax fyrir 1500-2000 krónur „brúttó“. Haft er eftir Teiti gamla Símonarsyni, að hann hafi keypt Ferjubakka í Borgarhreppi fyrir veiði þá, er hann fékk úr „Hólslögninni“, og var þó verðið á laxinum ekki nema um 8 skildingar fyrir pundið.17

Með samanburði við verðlagsskrár gæti (árs)laxveiðin að verðmæti hafa svarað til 15-20 kýrverða.18 Skiljanleg er því löngun Teits til þess að einbeita sér á efri árum að nýtingu þessara hlunninda. Þau urðu síðan traustur grunnur að langri búsetu Daníels Fjeldsted og Sigurlaugar þar. Orð fór af Daníel sem bónda eins og segir í Borgfirzkum æviskrám: . . . Var lagtækur á ýmiss konar smíðar, smíðaði m.a. hornspæni og skar út. Mun síðastur manna í Borgarfirði hafa haft selstöðu, þó með nokkuð sérstökum hætti. Hvítárós er lítil fjárjörð, því landið kringum „hólinn“ er allt flæðiengjar. Daníel hafði þann hátt á, að um 20 ára skeið rak hann allt fé sitt á hverju vori, strax og sauðgróður var kominn, að Hrísum í Flókadal og hafði það þar, unz hann tók það á gjöf að hausti. Hann lét færa frá ánum, hafði þær í kvíum á Hrísum og fékk úr mjólk þeirra allmikið smjör19. . .

All nokkur fyrirhöfn hefur það verið að koma lambfé úr Hvítárósi upp að Hrísum í Flókadal. Þar kom Hvítáróssféð í framandi haga. Meiri snúningar urðu því við það en heimaféð þótt yfir báðum ærhópum muni hafa verið setið sameiginlega.20 Með búskap Daníels og Sigurlaugar lauk hlutverki Hvítáróss sem ferjustaðar. Þótt ferjuleiðin yfir Hvítá við Hvítárós væri oftast mjög greið var ekki það sama sagt um landleiðina þaðan og að Hvanneyri eða annarra bæja í Andakíl. Námspiltur á leið í Hvanneyrarskóla haustið 1915, sagði svo frá m.a.: . . . Loks komum við að Hvítá hjá Hvítárósi. Á höfða handan árinnar stóð þá dálítill bær, sem venjulega var nefndur Hóllinn. Þarna kölluðum við ferju, og leið ekki á löngu þar til ferjumaður kom og flutti okkur yfir . . . Frá Hólnum var stefnan tekin þvert upp yfir Hvanneyrarmýrarnar, upp að melunum, norður frá Hvanneyrartúninu. Eitthvað skeikaði fararstjóranum þarna, því að við lentum í hálfgerðum ógöngum. Þarna gengur stokkur mikill frá firðinum upp í mýrarnar, og lentum við í drögum hans. Óðum við þar ekki aðeins vætu, heldur einnig leir, og bætti það ekki útlit okkar og fótabragð. Þó sluppum við slysalaust úr þessum vanda, og var þá skammt eftir og dável greiðfært heim á staðinn.21.

17 Guðmundur Jónsson: Hvanneyrarskólinn fimmtíu ára (1939), 36. 18 Magnús S. Magnússon: Landauraverð á Íslandi 1817-1962 (2003), 152. 19 Borgfirzkar æviskrár II (1971), 13-14. 20 Haft eftir Þórdísi Sigurbjörnsdóttur í Hrísum 26. mars 2023. 21 Ólafur Jónsson: Á tveimur jafnfljótum I (1971), 219.

71


Daníel og Sigurlaug bjuggu á Hvítárósi til vors 1921 en þá gerði Daníel samning við sonarson sinn, Þorstein [Vernharðsson] Fjeldsted, um leigu á búinu. Í fyrstu grein samningsins, sem dagsettur var 29. maí, segist Daníel sakir aldurs „lítt fær til búsýslu“ og felur „uppeldissyni“ sínum er hann nefnir svo öll afnot af jörðinni . . . „Jörðin telst útá við jafnt eptir sem áður í ábúð minni.“ Þá lánar Daníel Sigurlaug Ólafsdóttir og Daníel Andrjesson Fjeldsted í Þorsteini innanstokksmuni og skepnur Hvítárósi (Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar). sem Þorsteinn má nýta sér „þar til í næstu fardaga eptir fráfall mitt“. . . Síðan fylgir listi yfir búsáhöld og skepnur sem Daníel lánar uppeldissyni sínum. Listinn er hinn áhugaverðasti. Í upptalningunni er allt frá 3 uppbúnum rúmum og skilvindu til mósleða með grind, 20 meisa, 5 ljáa, 2 silunganeta, pramma, 2 kúa, 20 áa, 3 hesta auk einnar kýr sem „afhendist honum [Þorsteini] að gjöf “. . . Allt þetta skyldi Þorsteinn hafa leigufrjálst. Síðan segir: Að því er snertir laxveiði þá er jörðinni fylgja komum við okkur sjálfir saman um afnot hennar meðan mín nýtur við, en falli jeg frá ber að líta svo á að þau afnot renni að öllu leyti til Þorsteins frá andláti mínu.22

Nú er skrifarinn ekki lesinn í lögum þessara liðnu tíma. Hann sér þó ekki betur en að Daníel hafi, alla vega hvað laxveiðina, verðmætustu hlunnindi Hvítáróssbýlisins, snertir gert samning við uppeldisson sinn við ytri brún þess ramma sem ábúðarlög settu. Gerðina má í reynd kalla ráðstöfun ábúðaréttar sem ábúanda er óheimil án vitundar og samþykkis landsdrottins. Þegar hér var komið sögu hafði sú breyting orðið að nýr eigandi var kominn að Hvanneyrareigninni. Dugmiklir menn höfðu hlutast til um kaup á jörðinni fyrir búnaðarskóla. Í framhaldi af því eignaðist Suðuramtið jörðina með gögnum hennar og gæðum. Við breytingu á stjórnskipun landsins í byrjun tuttugustu aldar færðist eignarhaldið til íslenska ríkisins. Í umboði þess var það skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri, Halldór Vilhjálmsson, sem nú fór með forráð jarðarinnar, og þar með Hvítáróss. Býlið þar var orðið síðast eftir í hópi hjáleigna og grasbýla Hvanneyrar-eignarinnar sem áður voru. Halldóri skólastjóra varð strax ljóst verðmæti laxanna í Hvítá. Hann gerði sér því far um að auka netaveiði fyrir löndum Hvanneyrar. Vorið 1913 sendi Halldór Daníel línur og skrifaði: „Nú eru piltar búnir að [týna] fyrir mér prammanum. Get því ekki lagt og vitjað um út 22 Héraðsskjalasafn EE-178 45-2.

72


Eignaskrá dánarbús Daníels Fjeldsted (d.1923) varpar ljósi á heimilið og búið í Hvítárósi eins og læsileg skráin hér t.v. sýnir. Hefðbundið heimilishald um margt en benda má á sleða með aktygjum, 20 meisa („laxakör“ fremur en heymeisar?), fimm rokka, tvo strokka og skilvindu, saumamaskínu og þrjá hverfisteina. Enginn bátur (prammi) er nefndur. Ekki er útilokað að eitthvað af munum hafi Daníel verið búinn að afhenda/selja Þorsteini uppeldissyni sínum á þeim tíma sem sá síðarnefndi hafði jörðina „á leigu.“

við hólmann.“ Hólminn mun hafa verið klakkurinn í Hvítá fram undan skólastaðnum – Hvanneyrarklakkurinn. Pramminn er bátur með hinu sérstæða lagi sem tíðkaðist við Hvítá.23 Og áfram skrifaði Halldór: „Getur þú ekki selt mér pramma eða útvegað mér einhversstaðar. Eg vil endilega reyna að leggja við hólmann og það sem fyrst. Blessaður hjálpaðu mér sem fyrst að koma netinu niður ef þú mögulega getur.“ Loks falar Halldór lax hjá Daníel að því er virðist vegna lítillar veiði þetta vor. Hér má skjóta því inn að orðalag Halldórs um prammann bendir til þess að Daníel, sem var afar góður smiður, hafi smíðað slíka farkosti. Og árin liðu. Megi marka bréfaskipti þeirra Daníels og Halldórs í júní 1921 virðist annað hljóð hafa þá verið komið í strokk hins síðarnefnda. Hugsanlega stóð það í tengslum við samninginn sem Daníel og uppeldissonur hans höfðu þá nýlega gert um ábúð á Hvítárósi og sagt var frá hér að framan. Halldór skrifar Daníel 8. júní: Eins og þú veist liggur „lögnin“ þín þannig, að hún útilokar alla arðsama veiði í Hvítá í Hvanneyrarlandi, eða svo hefir reynsla verið undanfarin ár. Jeg hefi því nú nokkur ár verið að biðja þig að selja mér lax þann sem þú veiddir og boðið þér fult svo gott verð og Sig. Fjeldsted aðalkaupandinn. Þú hefir slett í mig lax og lax á stangli til þess að „hafa mig góðan“, eins og þú sjálfur sagði, og hefi jeg verið undra lítil þægur við þig og þolað þér ýmislegt, sem fáir landsdrottnar og nágrannar mundu gert hafa. Nú vil jeg ekki lengur vera þitt gustuka grey. Annað hvort vil jeg hafa allan lax, sem þú veiðir og notar ekki til heimilis, með sama verði og Sig. Fjeldsted býður nágrönnum sínum og borgar þeim fyrir veiddan lax, eða jeg vil engan lax hafa. Laxinn sé sendur út fyrir „Stóra stokk“. Svar óskast strax.24

23 Sjá t.d. lýsingu Sigurðar Fjeldsted í grein hans „Laxveiði“í Héraðssögu Borgarfjarðar II (1938), 242-243. Sjá einnig grein Sveinbjargar Sumarliðadóttur um Furubátana við Hvítá í NT 7. nóvember 1985, 12-13. 24 Héraðsskjalasafn EE-178 45-2.

73


Á mynd til hægri er horft til suðvesturs til Hólsins; fjær sér til Hvanneyrarengja og óslanda Hvítár. Til vinstri er horft til austur yfir engjalöndin og nyrsta hluta byggðarinnar á Hvanneyri.

Samdægurs gerði Daníel uppkast að svari. Kveðst hann þar vera til búinn að selja Halldóri lax út sumarið fyrir sama verð og hann nú fái hjá Jóni Björnssyni kaupmanni, „90 aurana pundið heima hjá mjer . . . en 95 aura fyrir pundið í Borgarnesi . . . Það nær væntanlega engri átt að jeg selji þjer laxinn fyrir lægra verð en jeg get fengið annars staðar, enda skilst mjer á brjefi þínu að þú ekki kærir þig um að heimta hann af mjer fyrir lægra verð.“ Og áfram segir Daníel í uppkasti sínu: Laxinn verður þú að taka heima hjá mjer, enda sje jeg ekki að það þurfi að verða kostnaðarauki, þar sem sami maður gæti þá sjeð um leið um að stunda Hvanneyrarlagnirnar, sem væntanlega yrðu þá betur stundaðar en þjer hefur þótt hingað til. Þú gefur í [skyn] í brjefinu að jeg hafi sýnt þjer margskonar yfirgang, þessu átti jeg ekki von á, því jeg

hefi aldrei í stórræðum staðið, og mundi síst kjósa að standa í óbættri sök við þig og það er von mín að þessi ummæli þín sjeu ekki í alvöru meint.

Daníel biður Halldór síðan láta sig vita hvort hann gangi að framansögðum kostum; ella þurfi hann að láta Jón kaupmann í Borgarnesi vita „ef breyting verður.“25 Þremur dögum síðar brást Halldór við. Hann endurtók tilboð sitt um „85 aura fyrir pundið í laxinum kominn út fyrir stokk [Stóra-Stokk]. Við það situr.“ Segir Daníel hafa svikið sig um svar og skrifar: . . . Seinna komu nokkrir laxar. Það var svarið. Líkt og undanfarin ár, að sletta í mig fáeinum löxum, til þess að hafa mig góðan. Það var sem mér þótti. Þú lætur mig vita, ef þú vilt ekki lengur stunda lagnir mínar í Hvítárósi.26

25 Héraðsskjalasafn EE-178 45-2. 26 Héraðsskjalasafn EE-178 45-2.

74


Eins og áður sagði var Daníel þarna orðinn aldraður og „lítt fær til búsýslu“, eins og hann sjálfur skrifaði. Þorsteinn Fjeldsted hafði sýnilega áhuga á að taka við búinu á Hvítárósi af afa sínum, sem lést haustið 1923. Þann 8. október 1923 skrifaði Þorsteinn atvinnumálaráðuneytinu svohljóðandi bréf: Frá því árið 1880 hefir afi minn, Daníel Fjeldsted, er andaðist 16. fyrra mánaðar búið í Hvítárósi í Borgarfjarðarsýslu. Reisti hann jörðina svo við að húsum, að við fráfall hans átti hann nálega öll stæðileg jarðarhús; þegar hann kom að Hvítárósi var þar ekkert tún, en nú er þar túnblettur, er gefur af sér 50 hesta, meiri túngræðsla getur ekki orðið, vegna staðhátta. Eg undirritaður hefi verið í Hvítárósi frá bernsku, og öll hin síðari árin stundað búið fyrir afa minn sáluga og veitt því sífelt meiri forstöðu eftir því, sem kraftar hans minkuðu. En af þessum ástæðum hefi eg tekið ástfóstri við Hvítárós og þykir mjög fyrir að fara þaðan, ef til þess kæmi. Eg fór því á fund umsjónarmanns jarðarinnar, herra skólastjóra Halldórs Vilhjálmssonar á Hvanneyri og fór þess á leit að fá ábúð á jörðinni framvegis, en hann gaf mér engan ádrátt um það. Fyrir því sný eg mér til hins háa ráðuneytis og óska þess að því megi þóknast að veita mér ábúð téðrar jarðar, helst ekki skemur en til 10 ára með öllum gögnum og gæðum og lýsi hér með yfir, að eg er fús á að greiða hátt eftirgjald fyrir jörðina.27

Framhald sögunnar má stytta. Þorsteini varð ekki að bón sinni. Hann hóf að leita annars jarðnæðis. Úr varð að hann keypti Vatnshamra í Andakíl vorið 1924. Hann byggði jörðina Jóni Guðmundssyni, sem þar hafði búið um árabil, í eitt fardagaár28 en flutti sjálfur þangað vorið 1925 og bjó þar æ síðan. Þar með gekk Hvítárós með gögnum sínum og gæðum að nýju undir Hvanneyrareignina. Tún og hagar býlisins urðu beitiland Hvanneyrarkúa.29 Undir búskaparlokin munu í Hvítárósi hafa verið „milli 10 og 20 nautgripir, um 80 fjár og 10-20 hross.“30 Verðmæti jarðarinnar lá þó fyrst og fremst í laxveiðinni. Á henni hafði Halldór skólastjóri mikinn áhuga eins og glöggt má ráða af framansögðu. Skiljanlega var honum því ekki í mun að framlengja ábúð á Hvítárósi með sömu kjörum og áður. Hvítárós fór því í eyði.

Svipast um á Hvítárósi Færum okkur þá til nútímans. Í sólbirtu sextánda dags marsmánaðar 2023 gekk ég „niður í Hól“ til þess að átta mig aðeins á aðstæðum þar. Ég hafði komið þar alloft áður án þess að leita sérstaklegra minja um byggð. Auðgengið var þangað eftir gömlum vegarslóðum nokkurn veginn beint af augum frá Staðarhóli; um það bil 1300 m leið, sem nú var stokkfreðin eftir kulda undanfarinna daga.

27 Héraðsskjalasafn EE-178 45-2. 28 Héraðsskjalasafn EE-178 45-1. Sjá einnig Byggðir Borgarfjarðar IV (1998), 114. 29 Búfræðingurinn 17 (1954), 84. 30 Nýja dagblaðið 2. september 1934.

75


Hóllinn rís yfir flatlendið og er vart meira en 1,3 hektarar að ofanvarpi. Austur og suðurhliðar hans eru grasi grónar en að vestanverðu eru klettaveggir. Giskað er á að klettaborgin sem þarna er undir gróðurþekjunni sé berginnskot eins og víða má sjá í nágrenninu, t.d. í Ásgarðs- og Kistuhöfðunum. Sunnan í Hólnum hefur manngerð tröðin legið heim að bænum. Hún er enn glögg og virðist hafa verið mikið verk á sínum tíma. Þorri tóftanna er norðaustanvert í Hólnum og þar á tiltölulega litlu svæði. Þær eru ógreinilegar, að hluta vegna þess hve grasvöxtur hefur verið mikill og sinurubbinn hnausþykkur. Til er mynd af jarðarhúsum á Hvítárósi sem líklega hefur verið tekin á fyrsta fjórðungi síðustu aldar. Má af henni ráða landslag Hólsins:

Horft úr norðri til bygginga á Hvítárósi. Myndin er líklega frá fyrsta fjórðungi síðustu aldar.

Myndin sýnir líka mjög reisulegar byggingar, margar og þéttstæðar. Bærinn er byggður úr nútímalegu efni; önnur hús að einhverju marki líka þó sennilega hafi torf og grjót verið helstu byggingarefnin. Mér virtist sem húsin hafi kúrt í nokkru skjóli gagnvart verstu veðraáttunum, af suðri og suðaustri. Svo virðist á myndinni sem bátur standi í góðri hæð yfir „sjávarmáli“ þótt flóð geti þarna náð býsna hátt. Bátur hefur verið Hvítáróssheimilinu afar nauðsynlegur. Þegar gengið er um „Hólinn“ og minjasvæði hans verður ekki í fljótu bragði séð hvort og þá hvar vatnsból heimilisins hefur verið. Vera má að brunnur hafi verið grafinn í faldi hólsins sem í hefur síast vatn úr Hvítá eða jafnvel engjalöndunum suðaustan við hann? Ef til vill nýttu heimilismenn með einum eða öðrum hætti vatn úr Hvítá til þarfa sinna? Spurningunni um þessa mikilvægu lífslind Hólsbúenda verður að öðru leyti ekki svarað að sinni . . .

76


Mynd af Hólnum tekin sumarið 2023 á svipuðum slóðum og myndin hér næst á undan (ljósm. Þórólfur Sveinsson).

Haustið 1920 gerði Páll Zóphóníasson uppdrátt af túni og görðum á Hvítárósi, eins og þá var gert á landsvísu. Uppdrátturinn sýnir einnig hve jarðarhúsin hafa staðið þétt þarna á norðaustur-vanga Hólsins með túnið þar til austurs.31 Dálítill túnblettur hefur líka verið suðvestan við Hólinn, sennilega á þurrlegum árbakkanum þar. Páll skráir túnið girt og slétt, 0,7 hektara að flatarmáli og telur auk þess hann garða 886 m2: „Þegar Teitur reisti nýbýlið Hvítárós gerði hann þar meðal annars jarðeplagarð sæmilega stóran til heimilisþarfa“ . . . sagði í áðurnefndri lýsingu Teits sonarsonar hans. Uppdráttur af ræktuðu landi á Hvítárósi haustið 1920

Teikning Páls leyfir ekki greiningu á stærð og stöðu einstakra húsa. Hún lýsir hins vegar vel hinni þéttu skipan þeirra.

(Þjóðskjalasafn).

Ég athugaði lauslega nokkrar tóftir á Hvítárósi og þá einkum þær sem mér virtust gleggstar. Gagnlegt væri að rannsaka svæðið í heild. Til þess gefst vonandi tækifæri síðar. 31 https://skjalasafn.is/tunakort_i_thjodskjalasafni_islands

77


A. Útihús. Hvað skýrustu tóftirnar virðast vera fjárhús, tvenn en misstór. Þau eru nyrst í tóftaþyrpingunni. Svo virðist sem heygarður frekar en hlaða hafi staðið að baki þeim. Myndin sýnir lauslega málsettan uppdrátt minn af tóftunum. Hvort fjárhús virðist hafa verið tvístæðingur með jötu í miðju; annað um 4,0 m að lengd en hitt 5,0 metrar. Breidd krónna hefur verið 1,4-1,5 m. Jötustallur er um 0,8 m breiður. Vegna hæðar hans er ágiskun mín sú að í húsunum hafi verið gólfgrindur. Fullsetin ættu fjárhúsin að hafa tekið fast að 50 fjár (0,35-0,40 m/kind). Þetta eru líklega húsin sem eru lengst til vinstri á gömlu ljósmyndinni hér að framan. B. Útihús. Til suðurs frá A og þar undir dálitlum kletti eru afar ógreinilegar en efnismiklar tóftir. Sú stærsta þeirra er hvað skýrust, en nokkuð kraðak er vestan við hana, eins og gefið er til kynna á rissinu, þar af ein undarlega djúp. Ekki mundi mig undra að fleiri tóftir leyndust þar í sinuflókanum. Hugsanlega er stóra tóftin undan því húsi sem virðist í miðju þyrpingarinnar á ljósmyndinni hér að framan. Hugmynd, nær því úr lausu lofti gripin, er að þarna hafi fjóshlaða verið (?)

C. Bærinn/íbúðarhúsið. Sé farið eftir ljósmyndinni virðist ekki að finna augljósan grunn eða merki eftir íbúðarhúsið, nema ef væri alldjúp ferhyrnd laut/hola (64.34,913; 21.45,675), sem þar er, vart meira en 2 m í þvermál. D. Skemma (???). Húsið sem hæst ber á ljósmyndinni gæti hafa átt grunn í þúfnakraðaki, sem er á smá hæð suðvestan við tóftirnar A og B. Ólíklega hefur svo háreist hús verið gripahús. Möguleiki er þá að það hafi verið skemma. Vegna veiðiskaparins hefur þörf á slíku húsi verið meiri á Hvítárósi en á öðrum bæjum. Hér fer ég því enn með hreinar getgátur. E. Útihús. Vestan til í hólnum ofanverðum, skammt frá klettabrún hans, er ógreinileg tóft lítils kofa. Verður ekki betur séð en það mannvirki sjáist á túnkorti Páls Zóphóníassonar þar fast við girðinguna. Tóftin er hvorki djúp né mikið í hana borið. Lét ég hjá líða að sinni að mæla hana.

78


Hóllinn séður frá nyrðri bökkum Hvítár sunnan við Ferjubakkabæina (ljósm.: Þórólfur Sveinsson).

F. Útihús við rætur hólsins mót suðri, örskammt ofan hæstu flóðmarka sýnist mér. Verður ekki betur séð en að þarna hafi staðið fjárhús – tvístæðingur, mjög líkur A-tóftunum því sömu mál eru bæði á jötustalli og króm. Dyr hafa verið til suðurs. Miðað við mál tóftanna gætu þessi hús hafa rúmað 3035 fullorðnar kindur.

Tóftir tvístæðings-fjárhúss (F, merkt c á uppdrætti hér t.v.). Í fjarska sér til hóls þar sem hey gæti hafa verið borið upp (G).

G. Heystakkur (???). Á ljósmyndinni af tóftunum F má sjá tvær mishæðir í nokkrum fjarska (150 m). Sú til hægri er lágt klettaholt sem þar stingur upp kolli. Norðaustanvert í því er mikill hóll – þúfnakraðak vaxið heilgrösum sem þess vegna stingur í stúf við hálfgrasa-votlendið umhverfis. Hóllinn rís vel yfir flatlendi engjanna og virðist þurrlendur og öruggur staður gagnvart flóðum. Helst kom mér í hug að þarna hafi verið borið upp hey af engjunum umhverfis til vetrargeymslu. Stutt hefur verið þangað af slægjulöndunum og einnig stutt að sækja heyið þegar kom að gjöfum að vetri.

79


Eftir nánari könnun tófta og mannvirkjaleifa á Hvítárósi má maklega efna til „púsl-keppni“. Það er nefnilega til skrá um mannvirki þar, sem er afrit af „Virðingargjörð á dánarbúi Daníels Fjeldsteds bónda í Hvítárósi.“ Hús eru þá talin þessi: Heimahlaðan

Hænsnakofi

Fjárhúsahlaðan

Íshúskofi

Fjárhús

Skemma

Hesthús

Smiðjukofi

Lambhús

Hrútakofi

Hesthús

Girðingar og lausavír

Allt var þetta virt á kr. 3.570,- Þar af var íbúðarhúsið metið á kr. 1.540,- Þótt ekki komi fram ástand húsanna er ljóst að þau hafa verið mörg á Hvítárósi. Húsaskráin rímar því býsna vel við það tóftakraðak sem í dag má finna á hinum býsna takmarkaða „byggingareit“. Hvað um húsin varð eftir að eldar voru slökktir í Hólnum er ekki vitað. Sjálfsagt hafa sum hrörnað til tófta og efni úr öðrum verið tekið til nota annarsstaðar. Heimild er þannig fyrir því að Bjarni Jónsson í Hvammi í Skorradal hafi keypt íbúðarhúsið til niðurrifs og byggt úr efninu bæ þar fram frá.32

Sumarið 2019 athugaði Þórólfur Sveinsson veiðistaðinn við Hólinn og tók af honum þessa mynd. Þá var enn nokkuð eftir af garðinum fram undan Hólnum. Hnit hans eru N 64°34.912 og W021°45.743. Þarna mun hafa verið ein besta laxveiðilögnin í Hvítá.

32 Morgunblaðið 25. október 1992.

80


Að endingu Það sem hér hefur verið skrifað eru nokkrar hugleiðingar eftir stutta heimsókn í Hvítárós og nokkra leit í prentuðum og skriflegum heimildum. Ýmsar fleiri þarf að skoða. Frásagnir lifa enn meðal fólks sem kynntist þeim er síðast áttu heima á Hvítárósi. Á Hvítárósi mun aðeins hafa verið búið í tæpa sjö áratugi. Miðað við svo skamma búsetu kemur á óvart hve margar og fyrirferðarmiklar mannvistarleifar eru þar. Þegar ljósmyndin af jarðarhúsunum þar frá fyrstu árum síðustu aldar er skoðuð má skilja tóftamergðina og stærðir sumra tóftanna. Eignaskrá dánarbús Daníels Fjeldsted skýrir líka umsvifin. Með innleiðingu nýrra hátta við netaveiði í Hvítá á ofanverðri nítjándu öld renndi Teitur Símonarson eldri styrkum stoðum undir búsetu á nýbýlinu Hvítárósi. Á þeim byggði Daníel Fjeldsted síðan umfangsmikinn búrekstur með sínu fólki. Sonarsonur hans, Þorsteinn Fjeldsted, hafði fullan hug á að halda þeim rekstri áfram. Hvanneyrin, sem Hvítáróss-jörðin var og er hluti af, var þá öll komin undir Bændaskólann. Halldór skólastjóri Vilhjálmsson mun ekki hafa léð máls á framhaldi ábúðar á Hvítárósi að Daníel látnum, m.a. vegna verðmætis laxveiðihlunnindanna þar fyrir rekstur Bændaskólans. Búskapur lagðist þá af á Hvítárósi og jörðin með gögnum og gæðum varð (aftur) hluti Hvanneyrarinnar. Búskaparhættir voru þá einnig almennt að breytast. Næsta víst er líka að búskaparskilyrði á Hvítárósi eru þannig að þeir leyfðu ekki hefðbundna kvikfjárrækt eins og hún þróaðist á tuttugustu öld í þeim mæli að dygði til framfærslu fjölskyldu. Umhverfi nýbýlisins á Hvítárósi – í Hólnum – er heillandi meðal annars vegna torleiðis þangað og hins einstaka víðsýnis þaðan. Stutt saga býlisins er líka merkileg. Hvítárós er sennilega eina býlið í Borgarfirði á seinni öldum sem fyrst og fremst var byggt á laxveiðihlunnindum. Fróðlegt væri að skoða sögu búsetu og búskapar á Hvítárósi nánar og gera hana aðgengilega þeim sem þangað vilja leggja leið sér til fróðleiks og upplifunar.

Þakkir Ég þakka Þórólfi Sveinssyni á Ferjubakka ýmsa aðstoð við verkið, svo sem ábendingar um heimildir, ljósmyndun og fyrir yfirlestur handrits;Trausta Jónssyni með sama hætti en hann benti mér á gagnlegar heimildir. Líka þakka ég Jóhönnu Skúladóttur í Safnahúsinu í Borgarnesi fyrir aðstoð við útvegun ljósmynda og fleiri heimilda sem Hvítárósi tengjast.

81


XI. kafli

Baráttur um búvísindi Það var ekki langt liðið á búnaðarnám mitt þegar ég fór að kynnast þeim stofnunum sem landbúnaðinn mörkuðu á þeim tíma. Á árunum upp úr 1960 var landbúnaður enn fjölmenn atvinnugrein og kerfið öflugt sem um hann snerist. Afurðavinnslu- og söluhliðin var sérstök og afar öflug veröld með kaupfélögin og Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) sem hin ráðandi samtök. Liggja þau þó utan minnar sögu. Hvað snerti hinn faglega þátt virtist mér þrír aðilar einkum ráða leiknum: Búnaðarfélag Íslands með bakland sitt í búnaðarsamböndum og búnaðarfélögum í öllum sveitum landsins, Hvanneyrarskólinn og Atvinnudeild Háskólans / búnaðardeild, síðar Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Á öllum þessum stofnunum störfuðu (karl)menn með mjög svipaðan bakgrunn hvað uppvöxt snerti, og að nokkru leyti einnig menntun. Og er þá nefndur þátturinn sem þessi pistill mun öðrum fremur snúast um.

82


Er leið fram á fyrri hluta tuttugustu aldar sóttu æ fleiri ungir menn til æðra búnaðarnáms erlendis, einkum til Landbúnaðarháskólans í Kaupmannahöfn. Nokkrir námu í Noregi og er fram undir miðja öldina leið urðu Bretlandseyjar og Bandaríkin einnig námsstaðir verðandi búvísindamanna. Heimsstyrjöldin síðari truflaði öll samskipti þjóða. Á þeim árum og að henni lokinni varð mikil breyting á högum íslensks landbúnaðar. Krafan um þekkingu óx og henni var reynt að svara með rannsóknum og mjög vaxandi leiðbeiningaþjónustu. Það tók að skorta starfsmenn til hennar. Skortinum skyldi m.a. svarað með stofnun Framhaldsdeildarinnar á Hvanneyri haustið 1947. Tekið var upp tveggja ára nám við Hvanneyrarskóla sem framhald af almennu búnaðarnámi, enda sú deild kölluð Framhaldsdeild.1 Námið var skipulagt með það í huga helst að nemendur yrðu færir um að veita almennar leiðbeiningar á sviði jarðræktar og búfjárræktar sem starfsmenn búnaðarsamtakanna en gegna um leið þeim verkum sem hinir svonefndu trúnaðarmenn Búnaðarfélags Íslands höfðu sinnt. Þau voru mats- og úttektarstörf í samræmi við þágildandi jarð- og búfjárræktarlög. Svo virðist sem ríkur einhugur hafi verið um menntun hinna ungu manna, sem hlutu námstitilinn búfræðikandidatar, í þeim skilningi að flestir af færustu búvísindamönnum þeirra tíma komu að kennslunni, auk kennara á Hvanneyri með Stefán Jónsson fremstan í flokki. Nefna má Halldór Pálsson, Hjalta Gestsson og þá Ásgeir L. Jónsson og Ólaf Jónsson er meira að segja frumsömdu sérfræðinámsefni til nota við deildina, í landmælingum og tilraunafræði.2 Það varð lukka Framhaldsdeildarinnar að í fyrsta námshópinn völdust mjög öflgir nemendur. Þeir réðust strax að námi loknu til ýmissa verka í þágu landbúnaðarins og tóku brátt að hafa þar áhrif. Reyndust sumir þeirra afburða áhrifamiklir í störfum sínum enda drifnir áfram af miklum metnaði. Nægir þar að nefna Bjarna Arason, Egil Bjarnason og Aðalbjörn Benediktsson sem dæmi. Síðan bættust fleiri námshópar við, annað hvert ár, svo jafnt og þétt stækkaði hinn nýi hópur liðsmanna bænda. Sjálfsagt hefur það verið tengt starfsráðningum, launum og öðrum kjaramálum að brátt fór að bera á nokkrum flokkadráttum í hópi búfræðinga með framhaldsmenntun og með skil á milli þeirra sem menntaðir voru erlendis og hinna sem heimamenntun höfðu. Langflestir Framhaldsdeildunganna réðust sem héraðsráðunautar til búnaðarsambandanna og áttu þar annasama og langa starfsdaga. En svo voru fáeinir ráðnir til starfa hjá Búnaðarfélagi Íslands og hjá Atvinnudeild. Þannig var t.d. Bjarni Arason ráðinn e-s konar aðstoðar-nautgriparæktarráðunautur hjá BÍ um hríð og Einar Erlendsson til aðstoðar við tilraunir á Atvinnudeild. Hinar leiðandi stöður sátu kandídatar með erlenda menntun, enda með nokkuð forskot þó ekki væri nema sakir lengri starfsaldurs. Nokkrir Framhaldsdeildungar réðust til framhaldsnáms erlendis. Yfirleitt var þar um stutt og mis formlegt nám að ræða, ýmist við háskóla eða tilraunastöðvar. Margt af því reyndist 1 Guðmundur Jónsson: Íslenskir búfræðikandídatar. (1985), 20-21. 2 Ásgeir L. Jónsson: Leiðarvísir í hraðmælingu (1952); Ólafur Jónsson: Gróðurtilraunir (1951).

83


þeim þó mjög notadrjúgt. Nefna má Magnús Óskarsson, Ólaf Guðmundsson og Kristinn Jónsson sem fulltrúa þeirra. Ætli Óttar Geirsson hafi ekki verið sá fyrsti sem þreifaði fyrir sér og hóf skipulegt framhaldsnám (við KVL), nám sem hann varð þó að hverfa af einhverjum ástæðum. Staðfest er að ungur og virtur búvísindamaður hérlendur skrifaði bréf til KVL þar sem átti að hafa verið bent á vanbúnað Hvanneyrarkandídata til þess að hefja framhaldsnám í búvísindum við háskólann og að bréfið hafi átt þátt í að leggja stein í námsgötu Óttars.3 Að sögn Magnúsar Óskarssonar má segja að Guðmundur skólastjóri Jónsson hafi beinlínis sent útskrifaða nemendur til viðbótarnáms erlendis með starf í huga að því loknu. Það kvað Magnús að minnsta kosti eiga við þá félagana, hann og Ólaf Guðmundsson.4 Þegar ég með félögum mínum kom til náms við Framhaldsdeildina, sem var með undirbúningsnámi við MA haustið 1962, duldist engum okkar að nokkur skil voru orðin með kandídatahópunum tveimur. Í augum okkar voru þau mörkuð eins konar „upstairsdownstairs“-syndrómi: Að Hvanneyrarmenntunin væri annars flokks menntun, eiginleg skemmri skírn samanborið við búvísindamenntun frá erlendum háskólum. Gætti þess í ýmsu: Aðkomukennurum við Framhaldsdeild, úr hópi sérfræðinga annarra stofnana, virtist hafa fækkað að tiltölu er frá leið byrjun deildarinnar. Í vaxandi mæli var sótt að framhaldsnáminu á Hvanneyri. Fóru þar framarlega í flokki Halldór Pálsson og Ólafur E Stefánsson, sbr. m.a. greinar þeirra í afmæliskveðjuriti til Háskóla Íslands fimmtugs 1961.5 Aðrir héldu hinu gagnstæða fram, t.d. Árni G. Eylands en hann studdi Hvanneyrarmenntun kröftuglega með skrifum sínum.6

Gestir með Guðmundi skólastjóra Jónssyni í Hvanneyrarfjósi á sjötta áratugnum. Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri fremst t.v. Þeir tveir sem aftar standa eru óþekktir (ljósm.: Ólafur Guðmundsson). 3 Magnús Óskarsson staðfesti í samtali þann 13. mars 2014 að þetta bréf hefði verið til á Hvanneyri og að hann hefði séð það. Bréfritarinn var að hans sögn Björn Sigurbjörnsson. 4 Frásögn Magnúsar Óskarssonar 13. mars 2014. 5 Vísindin efla alla dáð (1961) [Ritnefnd Kristján Eldjárn, Ólafur Bjarnason, Sigurður Þórarinsson]. Sjá þar: Halldór Pálsson: Tilrauna- og rannsóknamál landbúnaðarins, bls. 256-290, og Ólafur Stefánsson: Þróun búvísinda og hlutverk háskóla í æðri búnaðarmenntun, bls. 391-306. 6 Árni G. Eylands: „Mold eða möl“ (1957) Ársrit RN 54:1-48 og „Hugsað heim“ (1958) Ársrit RN 55:65-96.

84


Sem nemanda í Undirbúningsdeild Framhaldsdeildarinnar við MA veturinn 1962-1963 varð mér ljós spennan sem upp var komin. Um miðjan vetur klofnaði deildin í tvennt. Á yfirborðinu virtist mér óánægjan snúast um annmarka Framhaldsdeildarnámsins gagnvart erlendu háskólanámi og óvissu um framhald þess á Hvanneyri, m.a. sakir kennaraskorts. Helmingur námshópsins kaus að hætta undirbúningsnáminu og taka stefnu á nám við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Er mér kunnugt um að starfsmenn Búnaðarfélags Íslands urðu sumir hverjir sporléttir við að hvetja félaga mína og að greiða götu þeirra til náms ytra. Nefni ég þar sérstaklega til sögu Gísla Kristjánsson ritstjóra Freys. Þykir mér líklegt að klofningur þessi hafi vakið „óvinafagnað“ einhverra. Um þessan sérstæða vetur hef ég skrifað nokkrar minningar mínar á öðrum stað.7 Margt var rætt í Undirbúningsdeildinni þann vetur um tilvist og framtíð Framhaldsdeildar. Í dagbók mína 6. apríl 1963 hef ég fært: „Halldór Pálsson kvað deild við Háskóla Íslands mundu hafa verið stofnaða að 2 árum liðnum, ef deildin hér [Undirbúningsdeildin við MA] hefði hætt“. Ég þykist muna það frá þessum árum að nemendur Framhaldsdeildar hafi litið á það sem nokkra skyldu að standa sig í baráttunni fyrir hönd Hvanneyrarskólans, bæði í námi en einnig á hinum daglega vettvangi í hæfilegu kappi við nefndar systurstofnanir skólans. Hvað skólastarfið snertir finnst mér lengst hafa gengið veturinn 1964 er Gunnari Bjarnasyni tókst að heilla svo nemendur, fyrst og fremst Bændadeildar á Hvanneyri, með skynvæðingarboðskap sínum og fjöllun sinni um meintan hægagang Búnaðarfélags Íslands í átt til nýrra tíma að nemendur gerðust svo einlægir liðsmenn hans að þeir beittu sérstöku blaði sínu, Brimir, ótæpilega. Svo hörð var málafylgja þeirra að sagt var að Guðmundur Jónsson hefði verið tekinn á beinið hjá Búnaðarfélaginu og betrunar krafist. Mun Guðmundur hafa hlustað á kvartanirnar en ekki gert mikið úr þeim er heim að Hvanneyri kom. Fleiri spennuatvika af þeim toga má minnast. Nú, nú. Opinberar nefndir voru skipaðar til þess að íhuga framtíðarskipan framhaldsmenntunar, án þess að leiddi til grundvallarbreytinga á námsskipan. Einna lengst mun einmitt hafa unnist á árunum 1963-1964, þegar, að ég álit, Guðmundur Jónsson skólastjóri og Ingólfur Jónsson landbúnaðarráðherra gengu til þess að breyta reglugerð um framhaldsnámið. Man ég ekki betur en að á afmælishátíð Hvanneyrarskóla 75 ára, sumarið 1964, hafi ráðherrann tilkynnt um væntanlega breytingu, er tók gildi með námshópi Framhaldsdeildar, þeim sem að Hvanneyri kom haustið 1965. Meginbreytingin varð sú að námið var lengt í þrjú ár og ýmis ákvæði varðandi kennslu og próf skýrð og hert. Meðal annars kom til sögu sérstök og utanaðkomandi prófnefnd er meta skyldi námsefni, kennsluhætti og próf. Vissulega var sjálfdæmi Hvanneyrarskóla um framhaldsnámið skert með þessum breytingum en þar á móti kom að faghópur innlendra búvísindamanna var dreginn til formlegrar ábyrgðar um menntun Hvanneyrar-kandídatanna, sem styrktist, að ég tel, einnig til muna við lengingu námsins. 7 Bjarni Guðmundsson: Námsvetur í „hinum norðlenzka skóla“. Hvanneyrar-pistlar Bjarna Guðmundssona III (2023), 25-32, sjá https://issuu.com/bjgudm/docs/hvanneyrar_pistlar_23_loka

85


Í þessum breytingum munaði um seiglu Guðmundar skólastjóra. Hitt má líka nefna að hann rækti mjög vel samband sitt við forystumenn norrænu landbúnaðarháskólanna, einkum í Kaupmannahöfn og að Ási í Noregi, en líka í Ultuna í Svíþjóð. Hann fékk þar skólavist fyrir nemendur sína, t.d. úr deildinni sem námi lauk vorið 1961. Þeir sóttu nám án þess að ljúka stærri lokaprófum, t.d. Þorgeir Örn Elíasson, Gunnar Gunnarsson og Völundur Hermóðsson. Tímamót urðu þegar Sveinn Hallgrímsson og síðar Magnús B. Jónsson réðust til formlegs framhaldsnáms við NLH að Ási, sem þeir síðan luku (lisensiat var námstitillinn sem fljótlega var breytt í dr. scient). Mátti segja að þar með væri ísinn brotinn á leið Framhaldsdeildunga til formlegs framhaldsnáms erlendis. Ég álít að nám þeirra tvímenninganna, Sveins og Magnúsar, hafi miklu breytt um stöðu Framhaldsdeildarinnar á Hvanneyri – líka hér innan lands. Svona í framhjáhlaupi get ég smáatriða sem vöktu athygli okkar sem nýgræðinganna í hópi búvísindamanna og varða samskipti hópanna tveggja. Á fyrsta Ráðunautafundi mínum, veturinn 1965, tókum við eftir því að til fundarstjórnar voru eingöngu kallaðir búvísindamenn með erlenda kandídatsmenntun að baki. Til þess sá Gísli Kristjánsson, sem mun þá hafa verið eins konar ábyrgðarmaður Ráðunautafundanna. Á sama fundi þótti Bjarna Arasyni og Aðalbirni Benediktssyni það vera þeim mikið gleðiefni að okkur Framhaldsdeildungum skyldi boðið til lokaveislu Ráðunautafundar. Dagana á undan höfðu þeir fylgst spenntir með því hvort boð þar um bærist. Ég skildi það glögglega á þeim félögum að þeir litu á þetta litla og eiginlega ómerkilega atvik sem mikilvægan áfanga í baráttu Hvanneyrarkandídata fyrir jafnrétti! Vitanlega fannst okkur það líka kátlegt hvernig Bjarna Arasyni var lengi vel tafin framganga á sviði nautgriparæktar innan kerfis BÍ, maður sem bar höfuð og herðar yfir aðra kunnáttumenn í þeim efnum eins og fleirum. Það voru menn eins og Bjarni og félagar hans í ráðunautastétt sem með framgöngu sinni í störfum og frekara námi ruddu framhaldsnáminu á Hvanneyri braut og öfluðu því viðurkenningar. Þeir eignuðust trúnað bænda og annarra með eljusömu starfi sínu og góðri nýtingu þeirra fræða sem þeir höfðu numið á Hvanneyri. Þeir unnu þétt að jarðræktinni og áttu stóran hlut í framförum á sviði búfjárræktar. Í skjóli þessara frumherja gátum við, er síðar komum, fetað okkur áfram. Á áttunda áratugnum kom til starfa á Hvanneyri allnokkur hópur manna með erlenda framhaldsmenntun í búfræði. Að Framhaldsdeildinni var ráðinn sérstakur deildarstjóri, Ólafur R. Dýrmundsson, er hafði framhaldsmenntun frá Bretlandi. Lagði hann rækt við að auka formlegheit náms og kennslu. Þá var sett ný reglugerð um námið. Nafn framhaldsdeildar var gengishækkað; varð Búvísindadeild. Æ fleiri umsækjendur um nám í deildinni höfðu stúdentspróf auk búfræðiprófsins er áfram var grunnkrafa. Jafnframt þessu tókst að efla rannsókna- og tilraunastarf við Hvanneyrarskóla, mest með störfum Magnúsar Óskarssonar og Ólafs Guðmundssonar. Fræðastarfið efldist einnig með mörgum afar vönduðum lokaritgerðum (BS) nemenda búvísindadeildar. Sumar þeirra voru unnar undir leiðsögn sérfræðinga hjá BÍ og Rala. Má segja að með þessu öllu hafi orðið til tímabil 86


þar sem framhaldsnámið sigldi fremur lygnan sjó án mikilla deilna á yfirborði en vaxandi viðurkenningar. Allmargir nemendur héldu til framhaldsnáms erlendis og luku þar formlegu rannsóknanámi. Fagþjónustugeiri bænda varð hægt og sígandi skipaður nemendum með grunnnám búvísinda frá Hvanneyri að mestum hluta. Í huga mér settist atvik sem mér, er frá leið, þótti marka endalok þeirrar spennu á milli stofnana, sem ég hef hér gert að umtalsefni. Það var við setningu Ráðunautafundar 8. febrúar 1988.8 Það hafði komið í hlut Hjartar E. Þórarinssonar formanns stjórnar BÍ að setja fundinn í þéttsetnum fundarsal Hótel Sögu á mánudagsmorgni. Í ávarpi sínu bauð Hjörtur nemendur Búvísindadeildar á Hvanneyri sérstaklega velkomna til fundar og vék síðan frekari orðum að mikilvægi hóps þessara ungu námsmanna fyrir framvindu landbúnaðar og fagþjónustu við hann. Það að nemendur deildarinnar voru með svo formlegum hætti boðnir velkomnir í hús BÍ þótti mér mikilvægur áfangi og eiginlega marka endalok þeirrar viðurkenningarbaráttu Framhaldsdeildar sem þá hafði í misáberandi mæli verið háð í fjóra áratugi. Mundi þá ekki vera rétt að víkja lítillega að titli þessarar samantektar. Í megninatriðum hvíldi fagþjónusta landbúnaðarins á þremur stöplum seinni helming tuttugustu aldar, á tímabili er varð mikið breytinga- og framkvæmdatímabil í sveitum. Hér hefur nokkuð verið vikið að hlut Hvanneyrarskóla. Atvinnudeildin/Rannsóknastofnun landbúnaðarins með tilraunastöðvunum þróaðist til ýmissa sérhæfðra rannsóknaverka í þágu hefðbundins andbúnaðar og síðar til umhverfis- og fæðutengdra viðfangsefna. Í samræmi við það að Rala varð til úr mörgum og ólíkum starfseiningum varð stofnunin aldrei að þeirri landbúnaðarmiðuðu stofnun sem Hvanneyrarskólinn og Búnaðarfélag Íslands voru. Þess vegna varð hún oft fyrir harðri gagnrýni bænda fyrir störf sín og stefnu, einkum er leið á tuttugustu öldina. Atvinnudeildin/Rala (höfuðstöðvar) varð aldrei stór vinnustaður nemenda frá Hvanneyri en nokkrir sérfræðingar stofnunarinnar urðu áhrifamiklir stundakennarar þar, t.d. Stefán Aðalsteinsson, og ekki má gleyma starfsmönnum Bútæknideildar stofnunarinnar á Hvanneyri. Þótt hið milda stríð á milli pólanna tveggja – erlendra kandídata og innlendra – stæði í ýmsum „grjótkletti forðum tíð“, eins og Bjartur í Sumarhúsum kvað, voru það sennilega Húnvetningarnir tveir sem kalla má hina eiginlegu hershöfðingja, Guðmundur Jónsson skólastjóri og Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri. Framganga hvors þeirra var ólík og hvor beitti sinni aðferð. Guðmundur, skólastjóri árin 1947-1972, var fádæma eljusamur og þrautseigur, hæfilega kærulaus þannig að hann missti ekki svefns þótt á gæfi. Hann var heppinn með samstarfsmenn og ávann sér traust og vinsældir flestra nemenda sinna, álit sem með mörgum óx að 8 Daginn áður hafði verið haldinn aðalfundur Félags ísl. búfræðikandídata þar sem einnig var rætt um framtíðarþörf fyrir búfræðikandidata og menntun þeirra. Rætt var um Búvísindadeild „sem gefna stærð og viðurkennda“ ... „í heild jákvæð umfjöllun“ segir í dagbók minni frá 7. febr. 1988.

87


staðnum kvöddum. Urðu Guðmundi þannig til verðmætir liðsmenn, ekki síst úr fyrstu nemendahópum Framhaldsdeildarinnar. Þá naut Guðmundur mjög þeirra góðu tengsla sem hann ræktaði við systurskólana á Norðurlöndum, eins og fyrr sagði. Áhugi Guðmundar á tilraunum og rannsóknum varð skólanum og nemendum til góðs þótt ekki væri hægt að telja Guðmund djúpt hugsandi fræðimann. Hins vegar skorti líklega á að hann sinnti hinum enskumælandi heimi nægjanlega. Halldór, búnaðarmálastjóri árin 1963-1980, var afar vel menntaður í sínum fræðum, raunar fræðimaður á heimsvísu, mælskur og orðheppinn og átti auðvelt með að tala fyrir málum og að ná sínu fram með rökvísum hætti. Honum leið vel í hópi viðhlæjenda en hætti til að flokka menn í sína og hina. Hann hafði mikinn metnað fyrir hönd íslenskra bænda, einkum og sér í lagi sauðfjárbænda. Með námsreynslu sína frá virtum menntastofnunum nágrannalanda, s.s. í Edinborg og Cambridge, var ekki undarlegt að hann hefði efasemdir um getu Íslendinga til þess að halda uppi verðugri búvísindamenntun og það utan Háskóla Íslands. Yfirleitt virtist fara vel á með þeim Guðmundi og Halldóri í öllu dagfari. Þeir vissu að hvor hafði sitt sjónarmið er hann vann að með sínum hætti; Guðmundur með seiglu og bjartsýni, en Halldór af klókindum og mælsku. En eins og hæfileg spenna getur verið tákn um sköpunarkraft má segja að svo hafi einnig verið um samskipti landbúnaðarstofnananna þriggja. Spennan hvatti þær til þess að gera betur um leið og hún hélt við því þjóðareinkenni Landans að sitja á öndverðum meiði og sækja í þá setu mikilvægan lífsþrótt – þótt ekki væri til annars en að deila. Ég minnist til dæmis starfsgleði sumra kennara minna og samstarfsmanna á Hvanneyri er átti sér rót í því að fyrir þörfu væri verið að berjast þótt ýmislegt skorti á hin ytri kjör. Þótt hér hafi verið fjallað um stofnanir og einstaklinga má ekki undanskilja hvað þá gera lítið úr áhrifum almennra samfélagsbreytinga á framvindu faggeira landbúnaðarins. Þar má nefna breyttan hlut greinarinnar, sem hefur minnkað en jafnframt vaxið að fjölbreytni, viðhorf til menntunar og þá sérstaklega háskólamenntunar, sem nú er orðinn valkostur margra en ekki aðeins fáeinna eins og var um miðja síðustu öld. Höfðingjalotning þeirrar tíðar hefur líka dvínað: Þá gátu fáir í krafti kunnáttu sinnar og/ eða félagslegrar stöðu öðlast samfélagsleg tök sem nú er vart mögulegt. Héraðsráðunautar þeirrar tíðar urðun nánast goðum líkir á skömmum tíma, jafnan að verðleikum. Ég nefni t.d. Hjalta Gestsson, Egil Bjarnason, Aðalbjörn Benediktsson, Brynjólf Sæmundsson, Leif Kr. Jóhannesson og gleymi ég þó ekki Agli Jónssyni. Fleiri mætti nefna. Landbúnaðarlöggjöfin, sem gjarnan var mjög tengd fjárstreymi til bænda og samtaka þeirra breyttist þótt hún einfaldaðist ekki. Um miðbik síðustu aldar og lengi síðan var t.d. Búnaðarfélag Íslands að segja mátti armur Stjórnarráðsins í landbúnaðarmálum. Félagið hafði því gríðarleg völd gagnvart bændum og gagnvart Stjórnarráði og Alþingi, völd sem nú eru að mestu horfin. Í mörgu urðu þau til góðs en dæmi um hið gagnstæða er auðvelt að finna. Í ljósi þess hvert 88


afl Búnaðarfélags Íslands var þykir mér líklegt, að a.m.k. á tíð Halldórs Pálssonar, hefði félaginu með atbeina Atvinnudeildar/ Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, reynst auðvelt að hlutast til um flutning/stofnun búvísindanáms við Háskóla Íslands í Reykjavík. Er þá heldur ekki gleymt sterkri stöðu Halldórs innan Framsóknarflokksins, sem lengi hafði mikil ítök í landsstjórninni. Vera kann að sakir þess að ýmsir af sterkustu liðsmönnum Halldórs í hópi ráðunauta með sauðfjárrækt að viðfangsefni og áhugamáli voru einmitt úr hópi Framhaldsdeildunga hafi hann umborið óbreytt ástand. Grunur minn er þó sá að þyngra hafi vegið, þrátt fyrir allt, að Halldór hafi séð að færsla námsins til Háskóla Íslands gæti þýtt það að burst væri dregin úr veldi landbúnaðarins, veldi sem hann gekk mjög hart fram í að verja til síðustu ævidaga. En vitanlega eru þetta allt vangaveltur og hugmyndir eins aðila sem fylgdist sem fótgönguliði með hinum daglega leik um nokkurt skeið mikilla breytinga. Skrifað 17. janúar 2014 og lagfært í mars s.á.

Búnaðarfélags- og Iðnskólahúsið við Lækjargötu í Reykjavík. Í suðurenda hússins (t.v.) var lengi áhrifamesta stjórnstöð íslensks landbúnaðar. (Minjastofnun).

Höfuðstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands á

Hús Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, síðar

Hvanneyri. (LbhÍ)

Landbúnaðarháskóla Íslands, á Keldnaholti. (Mats Wibe Lund).

89


90


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.