4 minute read

Þar sem englajurtin vex

Hvanneyri? Það var áreiðanlega erkienglajurtin Angelica archangelica – Ætihvönn – sem var tilefni nafnsins. Ef til vill þegar Grímur háleyski, sagður fylgdarmaður Skalla-Gríms, gerði sér þar bústað. Ef til vill fyrr. Að þessi gróskumikla jurt hafi þá prýtt lækjarbakka og lindadrög í meira mæli en menn þekktu á öðrum stöðum.

Og komumenn völdu sér bústað á þurrlendum klettaásnum, einum af þeim mörgu sem þarna ganga frá norðaustri til suðvesturs, skammt frá hentugum bæjarlæk sem líklega réði mestu um val bæjarstæðis. Mýraflákarnir á milli þeirra og austan við klettaásinn, sem þarna ber hátt, voru hið mesta ótræði. Það var því ekki auðvelt að skjótast til næstu nágranna landveginn. Með tímanum kusu menn líka að leggja þjóðleiðina víðs fjarri þessum stað; nær fjöllunum þar sem þurrara var og byggð samfelldari.

Advertisement

Má vera að þessi einangrun hafi ýtt undir myndun byggðahverfis á Hvanneyri – Hvanneyrarhverfisins. Það var meira að segja um tíma kallað fylki. Það urðu til kot og smábýli umhverfis aðalbýlið – heimajörðina. Eiginlega ögn sérstæð byggðaskipan í Borgarfirði þar sem stakbýli varð hin ráðandi skipan svo sem víðast um landið. Um aldabil virðast fleiri eða færri fjölskyldur hafa átt sér bólstað í Hvanneyrarhverfinu, allt eftir árferði og afkomumöguleikum. Lifðu þar á kvikfjárrækt. Sóttu áreiðanlega einnig vertíðir í fjarlægum verstöðvum.

Ætli engja- og fitjalöndin með Hvítánni hafi ekki snemma þótt góð beitilönd kúnum? Minjar og örnefni benda til þess að kvíaánum hafi verið haldið til beitar stekkjarveg sunnan við byggðina – þar sem við nú köllum „suður í Landi“. Jafnvel að bændur haft málnytupeninginn þar í seli. Ef til vill gæti hvönnin sagt okkur söguna um það ef tala mætti? Hún var og er ein Hvanneyri. Málverk Ásgríms Jónssonar. Borgfirskir vinir Halldórs eftirsóttasta beitarjurt sem Vilhjálmssonar skólastjóra gáfu honum verkið á fimmtugs afmæli sauðfé þekkir. Svo getur verið hans árið 1925. (Eigandi myndar: Sveinn Runólfsson). að Hvanneyringar fyrri tíðar hafi grafið hvannarætur sér til næringar ellegar notað hina helgu jurt á annan máta. Ef til vill hefur kunnáttan glatast í umróti síðustu alda. En svo komu framandi menn ríðandi austan yfir Hvanneyrarmýrina, þurftu ef til vill að leiða hesta sína yfir og um verstu pælurnar.

Höfðu með sér vitneskju um nýjan himinn og nýja jörð. Ætluðu, eins og þeir í útlöndum, að gera þjóðina sjálfstæða og ríka í krafti búfræða og nýrrar búnaðarkunnáttu, sem þar spratt sífellt fram. Þeir þurftu ekki aðeins á heimajörðinni að halda heldur einnig kotunum og smábýlunum umhverfis. Hverfið breyttist.

Stofnaður var búnaðarskóli og umsvif búrekstrar aukin til jafns við það sem verið hafði hjá amtmanninum, Stefáni Stephensen, er sat Hvanneyri fyrstu ár 19. aldar við mikla rausn. Þótt flestar jarðir væru og séu betur fallnar til sauðfjárræktar varð sauðfé margt á þessum skeiðum báðum. Sauðféð sótti stíft í hvönnina og á tímabili virtist nafn jarðarinnar fjarri raunveruleika; svo lítið fór fyrir hvönninni.

En tímar breyttust og menn breyttu líka skipulaginu; vildu nýta tiltæk lönd með öðrum hætti. Sauðfé hvarf frá Hvanneyri þangað sem aðstæður voru betri. Hvönnin tók aftur að breiðast út meðfram lækjum og lindum. Annars konar hverfi varð til. Margmennt svo sem var tíðum áður en ekki lengur lokað og einangrað af mýrum og vilpum. Menn þjóta þaðan og þangað hvern dag um langa vegu og geta átt samskipti við allar heimsins álfur á meðan þeir eta morgunverðinn sinn.

En hvönnin breiðir úr sér hægt og rólega svo sem hæfir jurt erkiengilsins. Hún hefur lært það að sígandi lukka er best. Og við höfum lært það að hlutirnir hanga saman: Að lítið þarf oft til þess að raska samspili náttúru og umhverfis.

Ég kom fyrst að Hvanneyri um mánaðamótin september-október 1961. Hef verið viðloða staðinn síðan, með misnánum tengslum þó. Ýmislegt hefur borið fyrir augu og eyru mín á þessum áratugum. Sumt af því hef ég hripað hjá mér. Annað hefur sest að í mis traustu minni. Nú hef ég dregið nokkuð af þessu efni saman í syrpu þá sem hér birtist. Pistlarnir eru afar sundurlausir. Líka er nokkuð um skörun efnis þeirra, enda pistlarnir skrifaðir á ýmsum tímum. Afsakið það.

Þórunn mín Edda hefur brotið efnið um og gengið frá því til þessarar birtingar.

Ekki má líta á öll skrifin sem garfaða sagnfræði. Til þess hef ég ekki kannað tiltæk gögn allra efniskaflanna til hlítar. Á nokkrum stöðum glittir í munnmæli. Líka í eigið mat og skoðanir – að ógleymdu því að minni mitt er fráleitt svo trútt að ekki megi um deila. Ég vona að þrátt fyrir þessa annmarka hafi einhverjir gagn eða ánægju af lestrinum.

Svo bið ég ykkur bara að njóta.

Lækjartúni á Hvanneyri – Fyrsta vetrardag 2022.

Bjarni Guðmundsson

7

I. kafli Saga og byggð

Stofninn að þessum kafla rekur rót sína til sögugöngu sem Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt bað mig fara með nemendum LbhÍ (Umsk. IV) um Hvanneyri. Skyldi athyglinni einkum beint að staðarsögu, menningarminjum og þróun byggðar. Daginn, sem fara átti, viðraði ekki til gönguferðar svo úr varð 3-4 stunda myndskreyttur fyrirlestur í hlýrri kennslustofu. Hann var síðan endurtekinn um árabil með minni háttar breytingum. Meginefni hans fer hér á eftir, og í skyldum pistlum síðar í bókinni, en líka með viðbótum t.d. kafla um einstaka byggingar.