35 minute read

V Sandar – kirkjujörðin sem varð búland kauptúnsins

Hinn forni kirkjustaður, Sandar í Dýrafirði, á sér langa og merkilega sögu. Þingeyri hét þar í landinu, segir í Jarðabók Árna og Páls frá 1710, „þar sem kaupstaðurinn stendur. Þar hefur nálægt kaupmanns búðunum fyrir vel [tuttugu] árum lítið bæjarkorn verið uppbygt af kaupmannsins forlagi, til þess að sá sem byggi vaktaði búðirnar, og fylgdi þá hjer engin grasnautn og lítil enn nú, og má þetta heldur heita tómthús en hjáleiga.“108

108 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, (1940), 49.

Advertisement

Á síðasta fjórðungi nítjándu aldar tók fólki að fjölga á hjáleigunni Þingeyri. Þar hvatti vaxandi þilskipaútgerð svo sem víða gerðist við sjávarsíðuna; á árabilinu 1880-1901 fjölgaði þorpsbúum til dæmis úr 20 í 146, og árið 1920 voru þeir orðnir 366.109 Vinna flestra var vertíðabundin og gat verið mis arðgæf. Því kusu margir að hafa nokkurn búskap sem hjáverk og til þess að efla matbjörg heimilanna. Ekki færri en 76 Þingeyringar voru skráðir eigendur sauðfjármarka árið 1943 og segir það nokkuð um þá þýðingu sem sauðfé hafði haft í lífi þorpsbúa.110 Búskapurinn, kvikfjárræktin, hafði verið hvað mikilvægasta undirstaða lífsafkomu fólks fram til þessa tíma.

Þingeyrin með næsta nágrenni sem telja mátti frá Garðsenda inn að Ásgarðsnesi er ekki víðlendi: Auk eyrarinnar sjálfrar er það aðeins allbreið en brött hlíðin mót norðri og norðaustri undir Sandafelli. Lóð Þingeyrarverslunar tók yfir stóran hluta eyrarinnar. Uppdráttur af Þingeyri frá árinu 1913111 sýnir að margir afmarkaðir túnblettir þorpsbúa voru upp af eyrinni og inn með sjónum, töluvert innfyrir Ásgarðsnes en þá var komið í land sem tilheyrði Hvammi. Auk þess er vitað að margir þorpsbúar sóttu heyskap og mó á ýmsar jarðir beggja megin fjarðarins, margir með töluverðri fyrirhöfn. Beitiland höfðu þeir afar lítið.

Með vaxandi fjölda búfjár á Þingeyri, ekki síst sauðfjár, óx álag á nágrannajarðirnar, einkum Hvamm, Sanda og í Brekkudal, Brekku og Granda. Fór svo að 20. september 1924 var undirritaður samningur á milli nábýlisjarða Þingeyrar og fjáreigenda á Þingeyri um beitarkosti. Samkvæmt samningnum skyldi fjáreigendum á Þingeyri heimil beit fyrir sauðfé sitt vor, haust og vetur í landi nábýlisjarðanna gegn beitargjaldi, kr, 0,50 fyrir hverja kind framgengna. Skyldi greiða sama gjald þó fé væri komið til beitar annars staðar einhvern tíma ársins. Fyrir hönd umráðamanna nábýlisjarðanna undirrituðu samninginn þeir sr. Þórður Ólafsson, sem svaraði fyrir Sandastað, Andrés Guðmundsson á Brekku og Sigurjón Sveinsson á Granda. Fyrir hönd fjáreigenda undirrituðu samninginn þeir Sigurjón Pétursson, trésmiður, Bjarni Guðbrandur Jónsson vélsmiður og Ólafur H. Magnússon.112

Svo virðist sem þorpsbúar á Þingeyri hafi ekki litið á samninginn sem næga lausn til frambúðar því um sama leyti beindu þeir erindi til hreppsnefndar um að gera allt sem í hennar valdi stæði til þess að útvega þeim land til slægna og beitar handa gripum sínum.113 Töldu þeir að jarðirnar Sandar og Grandi væru heppilegastar fyrir Þingeyrarbúa. Vildu þeir að hreppsnefndin leitaði upplýsinga um það hvort jarðir þessar, einkum hin fyrrtalda, mundi fást keypt eða leigð við næstu prestaskipti, og þá með hvaða kjörum.

Tillagan var vel skiljanleg því sóknarpresturinn, sr. Þórður Ólafsson, hafði setið á Þingeyri frá 1915 og meiri hluti Sandajarðarinnar var leigður öðrum til ábúðar. Ný kirkja hafði verið

109 Kristján G. Þorvaldsson: Vestur-Ísafjarðarsýsla. (1951), 21. 110 Skrá yfir sauðfjármörk í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1943. 111 Landmælingar Íslands: Lb Nr 3a/1913, Bl 12.n.v. 112 Eftirrit samnings, í vörslu BG. Athygli vekur að Hvammsbænda er ekki getið hér; hefði þó mátt ætla að ágangur fjár frá Þingeyri hefði einnig verið nokkur á jarðir þeirra. 113 Hér og síðar í skrifum þessum er byggt á fundargerðum hreppsnefndar Þingeyrarhrepps.

reist á Þingeyri og Sandakirkja tekin ofan. Kirkjustaðurinn Sandar var að breytast. Raunar voru í byrjun aldarinnar uppi hugmyndir um að sameina prestaköllin við fjörðinn og skv. lögum um skipan prestakalla frá 1907 skyldu Sandar leggjast til Dýrafjarðarþinga.114 Frá því var þó horfið. Hreppsnefndin áleit uppástungu Þingeyringa „nauðsynjamál og gat verið málhefjendum í öllum atriðum sammála“, stendur í fundargerð hennar, og samþykkti að afla umbeðinna upplýsinga.

Hér má líka nefna fund hreppsnefndar rétt fyrir göngur haustið 1925 en þá samþykkti nefndin að stækka lögréttina á Brekku. Einnig að svæðið innan merkja Þingeyrar og Hvamms skyldi lúta umsjá gangnastjórans í Hvammi, „og hafi hann ekki nægilega marga menn í sínu umdæmi til að annast leitir þar, þá leitar hann til gangnastjórans á Þingeyri, og verður hann að veita honum þá mannhjálp sem hann með þarf.“ Hvort tveggja bendir til þess að í meira mæli en áður hafi þurft að taka tillit til vaxandi fjáreignar Þingeyringa.

Tómthúsmenn í Hvammslandi guldu bændum lóðarleigu og beitartoll í svonefndan Býlissjóð. Sjóðurinn notaður „til viðhalds á sameiginlegum girðingum um Töðuvöllinn svo og í landamerkjagirðingu milli Hvamms og Ketilseyrar . . . Hefur einungis verið notaður til efniskaupa, ekki vinnu, efnis í viðhald á dilkum fjárréttar, vírnet og timbur. . . Fleira var keypt en hestasláttuvélin fyrir fjármagn úr Býlissjóðnum svo sem hestaplógur og herfi eflaust um svipað leiti og sláttuvélin, enginn gögn eru til um þessi viðskipti“. . . skrifaði Lárus Hagalínsson frá Bræðratungu. Hann taldi Magnús Lárusson lengst hafa haldið utan um sjóðinn og fært til bókar, í um eða yfir 30 ár. „Upphaf þeirrar bókar hefur hugsanlega verið um 1860-70“ . . . taldi Lárus.115 Það bendir til þess að gjöldin hafi komið til um það leiti sem þurrabúðir hófu að rísa í Hvammslandi úti undir Þingeyri.

Hér má nefna að áþekkur háttur var hafður á í Haukadal þar sem tómthúsmenn höfðu fengið útmælingu lóða fyrir íbúðarhús, svo ríflega að þeir gátu „ræktað út túnbletti sína og komið sér upp sauðfjáreign og garðstæðum“, skrifaði Ólafur Ólafsson og ennfremur:

Í dagbókum Sighvatar Gr. Borgfirðings er á nokkrum stöðum vikið að búskap á Þingeyri, svo sem 27. apríl 1877:

„eg var með að flytja 12 fjár fyrir Wendel yfir að Höfða.“ Og þremur dögum fyrr: „Fluttum skipsfarm af mykju inn að Hvammi.“ Landkostir til búskapar á Þingeyri voru nefnilega takmarkaðir. Raunar er síðari færslan sérstaklega athyglisverð í vistfræðilegu ljósi! Wendel hefur sennilega átt eða haft á leigu túnblett til heyskapar í Hvammi og haft aðgang að hagabeit yfir á Höfða. . .

Smölun var sameiginleg fyrir allan dalinn og önnuðust bændurnir hana, en eigendur fjárins greiddu þeim mjög vægt gjald fyrir slægjuland, ef þess þurfti með, hagagöngu og smölun. Gjald þetta var látið renna í sameiginlegan býlissjóð, sem síðan var ráðstafað til sameiginlegra þarfa, en ekki skipt milli bænda. Minnir mig að 35 aurar væru greiddir fyrir hverja kind frá því hún fór úr húsi og til gangna í beitartoll og smölun. Lóðargjald var þar fyrir utan.116

114 Nýtt kirkjublað 2 (1907), 208. 115 Lárus Hagalínsson í greinargerð til BG 21. ágúst 2021. 116 Ólafur Ólafsson: „Endurminningar úr heimahögum“. (1959), 89.

Líða nú árin án þess að mikil tíðindi virðist hafa orðið í málum þessum og Þingeyrarþorp óx. Það er svo á hreppsnefndarfundi 10. mars 1929 að ákveðið var að fela nefnd þriggja manna „að gera uppástungu með leigumála fyrir matjurtagarða, grasbletti, grunnleigur fyrir skepnuhús, uppsátur fyrir báta, og fleiri hjer á Þingeyri“. Í nefndina voru tilnefndir þeir Guðmundur J. Sigurðsson, Angantýr Arngrímsson og Ólafur Hákonarson. Mál var komið til þess að formgera landnot þorpsbúa og ákveða gjald fyrir þau, enda hreppurinn þá nýbúinn að kaupa Þingeyrareignina, þrotabú Bræðranna Proppé sem Landsbankinn hafði haft á sínum vegum.117 Megi marka ljósmyndir og munnlegar heimildir hafði skipan allra þessara mannvirkja í þorpslandinu verið ærið frjálsleg. Í þeim efnum skar Þingeyri sig ekki frá öðrum vaxandi sjávarplássum. Það einfaldaði hins vegar ekki skipulag og leigumála að töluverð og vaxandi byggð grasbýla og þurrabúða var í landi Hvamms, fast innan við Ásgarð/Ásgarðsnes, þar sem mörkin eru á milli Þingeyrar og Hvamms. Yfir því landi hafði hreppsefndin því ekki lögsögu.

En nú leið að breytingum á forræði Sandastaðar. Árið 1929 lét sr. Þórður Ólafsson af embætti fyrir aldurs sakir. Embættið var lýst laust og sóttu tveir ungir prestar um það, þeir sr. Sigurður Z. Gíslason í Staðarhólsþingum og sr. Sigurður Haukdal í Flatey. Í aðdraganda prestskosninga kynntu þeir sig og sóknarbörn höfðu eðlilega hug á því að kynnast þeim og hugmyndum þeirra. Skiptust þau brátt í tvo hópa er hvor studdi sinn umsækjanda og urðu töluverðar deilur.118 Sr. Sigurður Z. lýsti því yfir að Sandajörðina mundi hann vilja láta til þess að fátækt fólk á Þingeyri fengi þar aðstöðu fyrir fénað sinn. Sr. Sigurður Haukdal vildi hins vegar sitja Sanda sem prestur og bóndi þar, nýkvæntur mikilli búkonu, Benediktu Eggertsdóttur frá Laugardælum í Flóa. Sr. Sigurð Haukdal mátti einnig kalla heimamann, en hann var sonur Bjargar Guðmundsdóttur frá Höll í Haukadal, og átti því stóran frændgarð á Útsveitinni. Faðir hans var Sigurður búfræðingur Sigurðsson, er m.a. hafði starfað við jarðabætur og kennslu í sveitinni sem ungur maður. Haukdal hafði auk þess sem kandídat komið og predikað hjá sr. Þórði. Allt þetta skerpti andstæðurnar á milli stuðningsmannahópanna: Þingeyringum féll vel hugmyndin um nýtingu Sanda í þágu þorpsins en sveitarfólkið, og þá einkum margt sveitarfólk, horfði með hlökkun til þess að Sandar yrðu á ný bújörð setin af dugmiklum presti. Merki um fylgi sást þegar sr. Sigurður Haukdal hélt kynningarmessu í Barnaskólanum í Haukadal og eins konar söngskemmtun á eftir við undirleik afa míns, Bjarna Magnúsar á Kirkjubóli: Þangað fjölmennti fólk af öllum bæjum þar út frá. Til kynningarmessu Haukdals á Þingeyri komu hins vegar fáeinar hræður. – Þar stóð fylgi sr. Sigurðar Z.

Kosningar fóru þannig að sr. Sigurður Z. Gíslason var kjörinn prestur Sandaprestakalls lögmætri kosningu. Honum var veitt prestakallið frá og með 1. júní 1929. Niðurstaðan skerpti línur á milli kauptúnsins og sveitarinnar, einkum Útsveitarinnar. Einhverja stund tók það öldurnar að lægja svo sem vænta mátti en það er önnur saga. Þröngt var um húsnæði á Þingeyri. Nýkjörnum presti reyndist erfitt að fá þar inni með fjölskyldu sinni, svo hann varð að flytja í

117 Kristinn Guðlaugsson, Jóhannes Davíðsson og Valdimar Gíslason: Kaupfélag Dýrfirðinga 1919-1979. (1979), 37-38. 118 Um það er byggt á frásögn móður minnar, Ásdísar Bjarnadóttur á Kirkjubóli, 14. ágúst 1991.

gamla bæinn á Söndum og vera þar um tíma. Yfirlýstri stefnu sinni fylgdi sr. Sigurður Z. þegar hann 15. júlí 1930 leigði þeim vélsmiðunum Bjarna Sigurðssyni og Ólafi R. Hjartar, báðum á Þingeyri, til fimmtíu og fimm ára, 10.000 m2 „lóðarspildu í hlíðinni norðan í Sandafellinu, rjett utan við landamerki Þingeyrar og Sanda. Lóð þessi er óbyggð og óræktuð. Meirihlutinn stórgert, hálfgrýtt stórþýfi.“ Lóðin, löngum kölluð Garðsendi, skyldi vera afgjaldsfrí fyrstu sjö árin. Raunar var þarna fylgt fordæmi sem forveri sr. Sigurðar Z., sr. Þórður Ólafsson, hafði gefið á síðasta embættiári sínu er hann leigði . . .

. . . herra Guðmundi J. Sigurðssyni, mótormeistara á Þingeyri, lóðarspildu kringum og útfrá svonefndum Skálatóftum, niður af Fögrubrekku, en upp af og innan við svokallaðar Sandeyrar. Lóð þessi er óbyggð og óræktuð. Meiri hlutinn stórgerðar mosaþúfur. Lóðin leigist honum frá fardögum 1929 með rjetti til að selja eða veðsetja afnotarjett sinn á lóðinni ásamt íbúðar-, penings- og heygeymsluhúsum er á henni kunna að vera byggð, á þann hátt sem ekki kemur í bága við brjef þetta.

Lóðin skyldi vera 20.000 m2 (2 hektarar), leigð til 55 ára, afgjaldsfrí fyrstu fimm árin. Hvorugur þessara samninga skyldi ganga í gildi fyrr en Stjórnarráðið hefði samþykkt þá.

Ekki er ólíklegt að hugmynd sr. Sigurðar Z. um nýtingu Sandajarðarinnar í þágu þorpsbúa hafi átt stoð þeim umræðum sem hafnar voru um landþörf þorpsins og viðbrögðum sr. Þórðar við þeim með samningnum við Guðmund J. Sigurðsson. Því má skjóta hér inn að afi og nafni Guðmundar, Guðmundur Guðmundsson, oft kallaður norðlenski, hafði reist Skála (Fögrubrekku) árið 1858 með leyfi Sandaprests og búið þar um tíu ára skeið. Fleiri höfðu ekki búið þar.

Sr. Sigurður Z. vann áfram að breytingunum með bréfi sínu til hreppsnefndar sumarið 1931 þar sem hann fór fram á „að fá lóð á Þingeyri undir væntanlegt prestsetur til æfarandi [svo] eignar, 400-500 [fer]metra.“ Hreppsnefndin samþykkti „að verða við þessum tilmælum, jafnvel stærri lóð, gegn því að kauptúnið Þingeyri fái beitarland á Galtardal, með viðunandi skilyrðum.“

Fleiri vötn tóku nú að falla til sömu áttar. Borgarafundur haldinn af kauptúnsbúum á Þingeyri 3. apríl 1932 skoraði á hreppsnefndina með samþykkt studdri 42 samhljóða atkvæðum . . .

Snemma á síðustu öld starfaði málfundafélag á Þingeyri. Á skemmtun hjá kvenfélaginu Von var flutt kvæði Kristjáns Sigurðar Kristjánssonar um fund málfundafélagsins þar sem menn höfðu látið hugann reika um mögulega nýsköpun atvinnuhátta í byggðarlaginu:

. . . „Guðmundur Ágúst [Pálsson], sem síðar varð bóndi á Laugabóli í Mosdal, kom með það að stofnað yrði til þess að hafa sel; að Þingeyringar hefðu sel á Galtadal:

Gústi er sleipur, götuna hleypur, Galtadalsselið heimsfrægast er. Mjólk veitir, skekur, lemur, og heggur, laun fær hann aldrei, sem honum ber. Seldans að halda um haustkvöldin blíð, hljóðlega er kysst í blómskreyttri hlíð. Lúðrarnir gjalla, glymur í hjalla, Fagurt er fjallslífið. “ . . .

Heimildarmaður var Kristján Guðmundsson á Akranesi, 1980.

Fallega afmarkaður reitur með nokkrum minningamörkum og snotrum krossi er það helsta sem í dag minnir á fornfrægan kirkjustaðinn á Söndum í Dýrafirði.

. . . að gera allt sem í hennar valdi stæði til þess að fá jörðina Sanda keypta, til afnota, sundurskiptingar, ræktunar og beitar fyrir fénað innbúa kauptúnsins Þingeyrar og biður þingmann kjördæmisins að flytja á alþingi frumvarp um sölu nefndrar jarðar til Þingeyrarhrepps í þessu augnamiði.

Hreppsnefndarmenn ræddu samþykktina rækilega en síðan komu fram tvær tillögur: Önnur um að leita heimildarlaga Alþingis um sölu Sandajarðarinnar „nú þegar.“ Hin um að bera málið undir almennan sveitarfund áður en leitað yrði til Alþingis. Fyrri tillögunni var hafnað með þremur atkvæðum gegn tveimur, en sú síðari samþykkt með sama atkvæðahlutfalli. Þingeyrarbúarnir Jóhannes Ólafsson og Þorbergur Steinsson vildu ganga hratt til verks en hinir hreppsnefndarmennirnir, Ólafur Ólafsson, Stefán í Hólum og Andrés í Meðaldal kusu að fara hægar og kanna hug hreppsbúa almennt áður en falast yrði eftir kaupum á Söndum í þessu skyni.

Aftur kom málið til umræðu á almennum sveitarfundi 3. janúar 1933 eftir áskorun frá þorpsbúum. Miklar umræður urðu um málið og upp var borin eftirfarandi tillaga:

Fundurinn leggur eindregið til þess, að hreppsnefndin gjöri alt, sem í hennar valdi stendur til þess að ná umráðarétti á jörðinni Söndum til hagsmuna fyrir kauptúnsbúa, annað tveggja til kaupa eða leigu á jörðinni. En[n] urðu nokkrar umræður um málið, og var þá, eftir tilmælum sóknarprestsins bætt við tillöguna: að undanskildu landi því, sem prestsetrinu á Þingeyri kann að verða úthlutað til afnota.

Tillagan var samþykkt með 85 atkvæðum gegn 21. Málið hefur sýnilega verið heitt; það sýnir bæði mætingin og það að 44 ræður voru fluttar um málið „með nokkrum skoðanamun, en alt þó með fullri kurteisi“, segir í fundargerð. Skiptar skoðanir voru líka í hreppsnefnd og að ári liðnu var ákveðið að leggja málið enn fyrir sveitarfund og kynna skilyrði fyrir kaupum, en leigja jörðina ella. Slíkur fundur var haldinn 10. mars 1935 þar sem samþykkt var að halda áfram samningaumleitunum um kaupin. Á hreppsnefndarfundi 12. september 1936 var oddvita falið að semja um jarðarkaupin við ríkisstjórnina. Þrír fulltrúar samþykktu, einn var á móti og annar sat hjá.

Það var svo veturinn 1937 sem Ásgeir Ásgeirsson, þá alþingismaður Vestur-Ísfirðinga, bar fram frumvarp á Alþingi um heimild til ríkisstjórnarinnar „að selja Þingeyrarhreppi kirkjujörðina Sanda“ . . . Voru þá fjögur ár liðin frá því samningaumleitanir hófust á milli ríkisstjórnarinnar og hreppsnefndar Þingeyrarhrepps um kaup hreppsins á Sandajörðinni. Í frumvarpinu var tilgangur kaupanna sagður vera „að allur almenningur í Þingeyrarhreppi geti fengið þar jarðnæði. Jörðinni er skipt í skákir og allt ræktað sem ræktanlegt er, en afgangurinn notaður til beitar.“ Var kaupsamningur þá sagður nær fullbúinn. Allsherjarnefnd þingsins tók vel í málið og var sammála um framgang þess. Prestur skyldi fá nokkurn hluta landsins til umráða og skilyrði sett um að landið gæti ekki gengið úr eign hreppsins eða safnast á fárra hendur. „Hreppsnefndin hefur ákveðið að hafa samvinnuræktun þarna“, sagði framsögumaður nefndarinnar. „Þykir því vera tryggt með þeim samningum, sem liggja á bak við þessi l.[lög], að landið verði notað til hagsbóta fyrir íbúa hreppsins.“119 Söluheimildin var veitt með lögum nr. 47 1937 frá Alþingi, sem Kristján X konungur staðfesti þá um sumarið.120

Afsal með tilheyrandi samningi var staðfest í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 9. maí 1938; rækileg plögg bæði og skal aðeins getið helstu ákvæða þeirra:

Kaupverð lands Sandajarðarinnar var kr. 600,00 – sex hundruð krónur. Í hvikulu verðlagi segir talan svo sem lítið en á þessum tíma var meðalverð mjólkurkýr kr. 234,96 og dagsverk á heyönnum metið á kr. 8,83 svo dæmi séu tekin.121 Landverðið svaraði því til andvirðis tveggja mjólkurkúa og hálfri betur, eða tæplega 70 dagsverka um heyskap. Íþyngjandi urðu kaupin því Þingeyrarhreppi ekki.

Í samkomulaginu var í fyrsta lagi áskilnaður um ævarandi eign hreppsins á landi Sandajarðarinnar og undir stjórn hans og að hreppurinn „leigi aldrei utanhreppsmönnum hið selda land, hvorki í heild né nokkurn hluta þess“ . . .

Í öðru lagi var áskilnaður um hámarksstærð á leigulandi sem „hver fjölskylda eða félag“ fái til afnota: Að hún fari ekki fram úr ½ - 2 ha „til grasræktar, kornræktar, slægna eða til framleiðslu

119 Alþingistíðindi B-deild 1937, 205-206. 120 Stjórnartíðindi A-deild 1937, 83-84. 121 Magnús S. Magnússon: Landauraverð á Íslandi 1817-1962. (2003), 153 og 271.

annara landbúnaðarafurða“ og ekki stærra land en 500 fermetra „til jarðeplaræktunar, blómaræktunar eða annarar garðræktar.“

Þá var í þriðja lagi, og ekki þýðingarminnst, undanskilin við söluna aðstaða fyrir prest til búskapar. Hefði hún gert honum kleift að reka allvænt bú á Söndum: „Fjórir hektarar lands, 2 ha úr túni og 2 ha af óræktuðu landi sem eiga að fylgja prestsetrinu á Þingeyri“. . . Einnig fjögur kúgildi sem fylgt hafa jörðinni og réttindi til skógarhöggs í Botni. Þá skyldi prestssetrið/ presturinn án endurgjalds hafa mótaksrétt í landi Sanda, grjót-, sand- og malartekju til eigin þarfa og heimil „hagabeit í Sandalandi fyrir búfé sitt, minnst 30 sauðkindur, 3 kýr og 1 hest, og að öðru leyti fyrir búfé það, sem hægt er að fóðra á landi því, 4 ha, sem kirkjustjórnin hefir útlagt sóknarprestinum til afnota úr landi jarðeignarinnar Sandar.“

Þann 27. janúar 1937 var kaupsamningurinn kynntur á almennum sveitarfundi í þinghúsi hreppsins og Sanda-kaupin samþykkt.

Þannig má segja að bræddar hafi verið saman hugmyndir umsækjendanna tveggja um embætti Sandaprests, sem fyrr voru nefndar, um framtíðarnotkun Sanda: Búskap prests annars vegar og land fyrir smábúskap þorpsbúa hins vegar. Á þessum árum óx hraði breytinga bæði innan Þingeyrarhrepps sem og í samfélaginu öllu; veröldin þróaðist á annan veg en líklegastur var þegar gengið var frá samningum um framtíð Sandalands vorið 1938. Hér verða þær ekki raktar. Þó má nefna það að búskapur á vegum Sandapresta lagðist af áður en tuttugasta öldin var hálfnuð.

Veturinn 1937 kaus hreppsnefnd fimm manna nefnd til þess að annast um málefni Sanda, svonefnda Sandanefnd. Í fyrstu var hún kosin til eins árs en fljótlega til fjögurra ára og þá kosin í upphafi hvers sveitarstjórnatímabils. Nokkuð verk hefur verið að starfa í Sandanefnd því veturinn 1938 var samþykkt að þóknun til nefndarmanna næði samtals 10% af tekjum af jörðinni.

Í samræmi við nýja fjallskilareglugerð ákvað hreppsnefnd á fundi sínum í ágústlok 1938 að aukaréttir skyldu vera í Keldudal, Haukadal og í Hvammi, en aðalrétt var á Brekku. Nefndin skipaði gangnastjóra og réttarbændur; Sigmundur kaupmaður Jónsson var gangnastjóri á Þingeyri. Tveimur árum seinna, 15. september 1940, samþykkti hreppsnefndin eftirfarandi erindi:

Samkv. fundarsamþ. fjáreigenda á Þingeyri 6. seft. 1940 er Þingeyrarhrepp hjer með afhent til fullrar eignar fjárrjett sú, sem stendur í hlíðinni ofanvert við kauptúnið. – Rjettin er almenningur með fjórum dilkum, staura- og [vír og -ógr.] borða girðingu, áklædd refaneti – ef hreppurinn sjer sjer fært að fullnægja því setta skilyrði fyrir gjöfinni að rjettin verði nú þegar gerð að aukarjett með sömu rjettindum og skyldum sem aðrar aukarjettir hreppsins. . .

Fjáreigendur á Þingeyri vildu sýnilega búa við sama hlut og aðrir fjáreigendur í hreppnum. Hreppsnefndin sá hins vegar ekki ástæðu til þess að breyta út frá þeirri reglu að þar sem þorp eða býli höfðu fengið þau sérréttindi að hafa aukarétt „hafa [þau] bæði byggt þær og haldið þeim við.“

Á hreppsnefndarfundi 25. júní 1942 lagði Bjarni M. Guðmundsson á Kirkjubóli fram tillögu um að athugað yrði að byggja nýja aðalrétt „með svo mörgum dilkum, sem þurfa þykir“, og á nýjum stað, með afgirtu svæði sem auðveldaði vörslu fjár og afgreiðslu. Var helst bent á hentugt svæði ofan Sandafells. All löngu fyrr (1894), hafði komið fram hugmynd um að færa aðalréttina að Söndum, en ekkert varð af því. Tillögu Bjarna var vísað til nýrrar hreppsnefndar er taka átti við í næsta mánuði. Ekkert varð heldur úr breytingum þá, en líta má á tillöguna sem leið til þess að laga sauðfjárhaldið í hreppnum að nýjum aðstæðum.

Nú er maklegt að koma að þeim kafla sögunnar sem varðar búfjárfjölda á Þingeyri og fleira sem lesa má úr búnaðarskýrslum. Súluritið hér ofar byggist á tölum sem mér voru tiltækar við þessi skrif. Árið 1918 voru 36 búlausir framteljendur búfjár á Þingeyri. Þeir átti 13 kýr og kefldar kvígur og 192 ær með lömbum í fardögum, en alls 279 fjár. Fjáreign var almenn, fjáreigendurnir mjög margir en þeir áttu fáar kindur hver, eða svo sem 5-6 ær. Ljóst er að sú eign hefur varla dugað fjölskyldu til framfæris um ársins hring hvað snerti ull, mjólk og kjöt. Árið 1961 hafði fjárstofn hvers framteljanda á Þingeyri nær fjórfaldast, en framteljendum hafði hins vegar fækkað um helming. Mætti því álykta sem svo að sauðfjárhaldið hafi á tímabilinu 19201960 breyst frá því að vera hluti af almennu heimilishaldi margra fjölskyldna í þorpinu til þess að vera allnokkur búrekstur fækkandi framteljenda, sauðfjárhald sem var orðið grundvöllur nokkurra aukatekna, svo sem með innleggi í verslun eða afurðasölu á milli manna/fjölskyldna. Um og upp úr miðri öldinni náði fjártalan á Þingeyri nær sjöttungi alls fjár í hreppnum; var fast við 500 fjár, og mun sú tala hafa verið hámarkið. Þörf þess stofns fyrir beitiland var því töluverð. Sé miðað við hefðbundinn ásetning hefði sá bústofn allur þurft um það bil 1000 hestburði af heyi. Árið 1918 hefði bústofn þorpsbúa hins vegar þurft 13x40 + 279x2 ~ 800 hestburði.122 Heyskaparland hefði því þurft að vera 20-25 hektarar túna eða 50-60 hektarar engjalanda.

Fjöldi sauðfjár í Þingeyrarhreppi á 20. öld [fjártölur kauptúnsbúa vantar um töluvert skeið]

122 Í þessum reikningi hef ég ekki talið með bú Ólafíu og Gunnars Jóhannessonar á Ásgarðsnesi, enda var það rekið á sama grundvelli og bú á lögbýlum hreppsins.

Nú, nú. Um og upp úr 1940 virðast beitarmál vegna Þingeyrarfjár aftur hafa borið ofarlega í umræðu. Á almennum sveitarfundi 15. mars 1942 var rætt um beitargjald og fjölda fjár á Þingeyri. Jón Þórarinsson hafði framsögu og lagði fram ályktun, sem lýsti stöðu málsins:

Ályktunin kom ekki til atkvæðagreiðslu en eftir umræður um málið var hreppsnefnd hvött til þess útvega beitiland.

Á fundi í Málfundadeild Brekku- og Kirkjubólsdals123 í febrúar 1944 greindi Andrés Guðmundsson á Brekku frá beitarsamningi við fjáreigendur á Þingeyri, sem gilda átti um tímabilið 1939-1944. Taldi hann fjáreigendur hafa leitað ýmissa undanbragða til þess að komast hjá hámarki beitartollsins. Þeir, „sem ræddu samninginn“, töldu rétt að segja honum upp fyrir komandi áramót, og jafnframt að hækka beitargjaldið „og takmarka fjáreign kauptúnsbúa ef hægt er.“ Ályktaði fundurinn að segja samningnum upp að gildistíma hans liðnum.

Umræddur samningur virðist hafa verið gerður eftir fund á Brekku á jólaföstunni 1939, og þá sem endurskoðaður eldri samningur, sjá áður sagt. Fundarmenn, sem voru af öllum bæjum í Brekkudal, svo og Kirkjubóli og Hólum, auk Sigurðar Jóhannessonar frá Þingeyri voru óánægðir með framkvæmd þess samnings; eldri skuldir beitartolls höfðu safnast upp. Bent var á að „næstu býli við Þingeyri yrðu fyrir tilfinnnalegum ágangi af sauðfé kauptúnsbúa, sem ráða þyrfti bót á.“ Samþykkt var að endurskoða beitarsölusamninginn og kosin stjórn fyrir Beitarsölufélagið, sem svo var nefnt í fundargerðinni. Kosningu hlutu Andrés á Brekku, Einar á Bakka og Bjarni Magnús á Kirkjubóli. Þá var skorað á fjáreigendur á Þingeyri að stofna með sér félag „svo að stjórn þess, eða þar til kjörnir menn geti komið fram sem gildir aðilar við endurskoðun beitarsölusamningsins.“

Með því að fyrirkomulag það, sem hingað til hefur átt sér stað, viðkomandi sauðfjáreign þorpsbúa á Þingeyri, er ekki viðunandi, mælir fundurinn svo fyrir: 1. Hreppsnefndin innheimti það beitargjald fyrir sauðfé, sem hreppnum ber fyrir þau ár, sem liðin eru síðan hann fékk jarðirnar Sanda og Þingeyri til eignar. 2. Vegna þess, að land til sauðfjárbeitar er takmarkað á þessum jörðum samanborið við þörf þorpsbúa, verður hreppsnefndin að ákveða, hve margt sauðfé, hver fjáreigandi í þorpinu má hafa, svo jarðirnar lendi ekki í örtröð. 3. Álíti hreppsnefndin og fjáreigendur á Þingeyri nauðsynlegt, að þorpsbúar eigi fleira fé en nefndar jarðir bera til hagagöngu, skal hreppsnefndin semja um beitarland fyrir það fé, við þá jarðeigendur, sem nóg landrými hafa til að veita það (t.d. Botn). 4. Hreppsnefndin ákveður beitargjald á sínum jörðum og innheimtir það.

123 Deildin var skipuð í samræmi við ákvörðun aðalfundar Búnaðarfélags Þingeyrarhrepps 1943 eftir tillögu Stefáns Guðmundssonar í Hólum. Skyldi skipta félagssvæðinu í fjórar málfundadeildir til mánaðarlegra funda um málefni Búnaðarfélagsins og hreppsfélagsins í heild, sjá IV. kafla.

Gunnhildur Sigurðardóttir í Laufási við heyskap á Þingeyri. Í baksýn eru m.a. kartöflugarður og peningshús til smábúskapar eins og víða voru í þorpinu (ljósm. frá Sigþóri Gunnarssyni). Réttu ári síðar funduðu stjórnarmenn Beitarsölufélagsins og Sigurður Jóhannesson enn og þá til þess að ræða skiptingu beitargjalds sem innheimtst hafði á árunum 1937-1940. Sú upphæð nam kr. 794,10. Stefán í Hólum, sem mætti sem varamaður í stjórn, lagði fram ályktun um að brýna „nauðsyn bæri til, að dreifa fjáreign kaupstaðarbúa út um alla sveitina til sumarbeitar, þar eð alment er litið svo á að nágrenni kaupstaðarins sé þegar orðið ofbeitt, en því bæri að hlífa sem hægt væri, með hliðsjón til haust- og vorbeitar“ . . . Ályktunin var ekki afgreidd og fyrir fundarmönnum vafðist einnig að ákveða hvernig það fé beitartolls skyldi nýtt – hvort lagt skyldi í sjóð til framtíðarþarfa, eða notað til umbóta á jörðunum, sem undirgangast vildu samkomulagið um dreifingu Þingeyrarfjár um hreppinn . . .

Á sama vettvangi urðu í aprílmánuði 1944 umræður um gerð ítölu í samræmi við nýleg lög. Samþykkt var svohljóðandi undirskriftaskjal til hreppsnefndar:

Þar sem margra ára reynsla hefir sýnt að þrátt fyrir bætta meðferð sauðfjárins, meira og betra fóður og auknar kynbætur, hafa afurðir þess ekki aukist síðustu árin, nema síður sé, einkum um miðbik hreppsins, þá er það álit flestra að þetta stafi að langmestu leyti af því að landið sé ofbeitt.

Til þess að fá úr því skorið hvort ofbeit veldur, krefjumst við undirritaðir bændur og jarðeigendur í Þingeyrarhreppi, að ítölumat verði framkvæmt á jörðum okkar og öðrum þeim jörðum í hreppnum sem nauðsyn þykir til bera, samkv. lögum um ítölu nr. 85, 16. des. 1943.

Ekkert virðist hafa orðið úr ítölugerð og er svo að sjá að tíminn hafi liðið án þess að til róttækra aðgerða hafi verið gripið varðandi beitarmál í hreppnum.

Ýmislegt var að breytast á þessum árum sem einnig voru erfið hvað atvinnu og afkomu fólks snerti. Hreppurinn hafði þá fyrir ekki löngu ráðist í að kaupa Þingeyrareignina, þorpið hafði í hröðum vexti verið að mótast sem formlegt þéttbýli og kallað var á samgöngubætur í sveitinni, bæði vega til Haukadals og um Innsveitina. Knúið var á um brú á Sandaá „á þessu sumri, til þess að bæta úr atvinnuþörf manna“, eins og haft var eftir Ólafi Ólafssyni á almennum sveitarfundi 18. mars 1933.124

124 Utan dagskrár má geta þess að í umræðum á þessum fundi um samgöngumál í hreppnum tóku konur til máls eigi síður en karlarnir: Í fundargerð er til dæmis getið álita þeirra Bergþóru Kristjánsdóttur, Estívu Björnsdóttur og Guðrúnar Benjamínsdóttur.

Þó árin tæki að komast að endanlegri niðurstöðu um kaup hreppsins á Sandjörðinni, eins og áður hefur verið lýst, hafði þó vötnum lengi hallað að henni. Má líka marka það af því að sumarið 1933 kom Pálmi Einarsson jarðræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, vestur í Dýrafjörð til verks sem hann lýsti svo í starfsskýrslu sinni:

Sandar í Dýrafirði. Jörðin er í eign ríkisins, var fyrr prestsetur en er ákveðin til afnota fyrir Þingeyrarkauptún. Ræktun var fremur lítil heima í þorpinu enda eru ræktunarskilyrði þar ekki góð. Sandar liggja 3,5 km frá kauptúninu. Mældir voru um 150 ha af landi jarðarinnar og var lagt á uppdráttinn útskiptingar og framræslukerfi á 64,73 ha af landi jarðarinnar, sem fyrst verða teknir til ræktunar.

Verk Pálma var í anda VI. kafla jarðræktarlaga nr. 43 frá 1923 er m.a. skyldaði hreppsnefndir til þess að senda Búnaðarfélagi Íslands skýrslu um vænleg ræktunarlönd innan kaupstaðar eða kauptúns, ellegar þjóðjörð eða kirkjujörð sem lægi að landi slíks þéttbýlis. Að fengnum þessum skýrslum skyldi Búnaðarfélagið gera . . .

. . . eins fljótt og verða má, uppdrátt af landinu og skiftir því í skákir, eigi minni en 2 og eigi stærri en 5 ha. Hver skák skal ætluð einum manni til ræktunar, og skal þeim skift þannig, að sem kostnaðarminnst verði vegalagning um svæðið, lagning vatnsæða, rafmagnstauga og gerð annara mannvirkja, sem vinna þarf.125

Í þessum anda vann Pálmi samviskusamlega eins og sjá má þegar skoðaður er uppdrátturinn af Söndum sem hann gerði og dagsetti 10. ágúst 1933. Grundvöllur áðurnefnds ákvæðis jarðræktarlaga var sá vilji stjórnvalda á þeim árum að tryggja sem flestum ræktunarland þó ekki væri nema til smábúskapar er dygði til þess að styrkja framfærslugrundvöll þeirra.

Uppdráttur Pálma er mikið verk og vandað, sjá næstu mynd, og er fróðlegt að skoða hugmyndir hans:

Frá Sandaskörðum og út að Fuglstapaþúfu innan við Sandabrú gerði Pálmi ráð fyrir 36 reitum til garðræktar, flestum um 100 m2 eða rúmlega það að flatarmáli. Þar hefðu reitirnir legið vel við sólu og fengið skjól af holtunum fyrir hafátt og innlögn. Þá gerði hann ráð fyrir 54 spildum, flestum 1-1,5 hektarar að stærð, til túnræktar. Glámumýrar126 eru mikið votlendi sem til ræktunar hefði krafist mikillar framræslu eins og lesa má af uppdrætti Pálma. Umfangsmikið kerfi vega átti síðan að tryggja umferð um ræktunarlandið. Allar þessar framkvæmdir munu hafa verið hugsaðar sem samræmd heild – félagslegt framtak.

Til umræðu virðist hafa komið að stofna félag um ræktun Sandalands því Ólafur Ólafsson kynnti uppkast að lögum fyrir félagið á almennum sveitarfundi árið 1936. Þótt uppkastið hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum virðist það ekki hafa komist á laggir.

125 Jarðræktarlög nr. 43 1923, IV. kafli, 32. gr. 126 Frændi minn, Knútur Bjarnason, sagði mér að svæðið hefði verið kallað Sandhúsamýrar. Mér er enn ókunnugt um nafnabreytinguna; að kenna mýrarnar við Glámu sýnist ekki liggja beint við . . .

Uppdráttur Pálma Einarssonar ráðunauts og áætlun hans um ræktun

á Söndum (ljósrit í vörslu BG).

Fjöldi jarðabótamanna í Þingeyrarhrepppi 1926-1955; jarðabæturnar voru bæði ræktun og húsabætur. Upplýsingar vantar um þrjú ár. Í örfáum tilvikum unnu menn jarðabætur á tveimur stöðum og eru þá báðir taldir. Nokkrir unnu jarðabætur í landi Hvamms þótt þeir byggju á Þingeyri (innan við Ásgarðsnes).

Búskapur Þingeyringa á fjórða tug aldarinnar var allmikill fyrirferðar. Þótt menn byndu vonir við Sandaland með Galtadal var á almennum sveitarfundi haustið 1937 rætt um kaup á jörðunum Dröngum og Botni, sem hugsanlega yrðu falar þá á næstunni. Skoðanir um málið voru skiptar en þó var samþykkt að afsala ekki forkaupsrétti hreppsins á jörðunum. Höfðu menn þá í huga beitiland, veiðirétt og vatnsorku en beislun hennar var þá að komast á dagskrá.

Sá sem í dag stendur á Sandholtunum með tillöguuppdrátt Pálma gæti ef til vill séð fyrir sér gróskumikil garðlönd og grasgefnar túnspildur sem reiti á taflborði þar sem fyrir voru móar í holtajöðrum og marflatar fúamýrar. Þetta var vönduð áætlun en mikla og dýra vinnu hefði það kostað að koma henni í framkvæmd. Fór enda svo að lítið varð úr henni – ef nokkuð. Samt var það að á hreppsnefndarfundi vorið 1938 báru þeir Ólafur Ólafsson og Bjarni Magnús Guðmundsson (einnig Sandanefndarmenn) fram tillögu yrðu Glámumýrarnar, eins og segir í fundargerð – ræstar fram. Verkið álitu þeir að mundi kosta 3.000 kr. og skyldi fjármagnað þannig að Þingeyrarhreppur legði fram 1.400 kr., frá ríki af atvinnubótafé kæmu 1.000 kr. og 600 kr. sem gefins dagsverk þeirra er verkið ynnu. Tillagan var samþykkt. Óvíst er hvort af verkinu varð en þá um sumarið var á hreppsnefndarfundi rætt um „skurðgerð og útmælingar“ á Söndum „til samanburðar við gildandi uppdrátt Pálma Einarssonar og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki var farið eftir tilgreindum uppdrætti, hvorki með skurðgröft nje útmælingu ræktunarlóða og fól oddvita sínum að skrifa Sandanefnd því viðvíkjandi.“

Síðsumars 1940 virðist Sandanefnd aftur hafa ætlað að fara aðra leið en hreppsnefnd þegar sú fyrri hafði samþykkt að láta slétta hinar svonefndu Þúfnadagsláttur í Sandatúni á kostnað hreppsins. Hreppsnefnd taldi hvern landleigjanda eiga að kosta ræktun sinnar spildu enda væri landleigan „haganleg“, eins og þar sagði. Féllst meirihluti nefndarinnar ekki á erindið „á meðan engar eftirspurnir eru fyrir hendi um að brjóta áðurnefndar dagsláttur eða aðrar í Sandatúni til aukinna grasnytja af einstaklingum þeim er nú hafa þær á leigu“. . .

Haustið 1940 beindi Sandanefnd erindi til hreppsnefndar sem borist hafði frá Jóni Þórarinssyni um lækkun á beitargjaldi kúa þorpsbúa á Söndum, úr 12 kr. í 10 „og gengi lækkunin til þess að greiða fyrir smölun á kúnum kvöld og morgun.“ Meirihluti hreppsnefndar tók undir álit Sandanefndar og hafnaði erindinu; einn var á móti og einn sat hjá. Er ekki annað að sjá en að á þessum árum hafi vel farið á með nefndunum tveimur. Þann 30. apríl 1942 samþykkti hreppsnefnd að hækka leigur eftir aðstöðu á Söndum þannig: Dagsláttuna úr 15 í 18 krónur; kýrbeit úr 12 í 15 krónur og mópokann úr 12 í 15 aura. Til tals hafði þá komið að leggja Sandanefnd niður en á það féllst hreppsnefnd ekki.

Garðar þorpsbúa, sem garðyrkju vildu sinna, voru áfram hér og hvar í þorpinu, en einnig varð til röð kartöflugarða þeirra á sendnum fjörukambi Þingeyraroddans utanverðum. Spurn þorpsbúa eftir ræktunarlandi var mætt með útmældum spildum í landi Sanda, bæði hið næsta gamla Sandatúninu sem og á öðru þurrlendi þar sem ekki þurfti á mikilli framræslu að halda.

Á útmánuðum 1941 tók hreppsnefnd undir álit Sandanefndar um það að leita eftir styrk eða láni til þess að ræsa Glámumýrar fram. Í september það ár var framræslan enn á dagskrá hreppsnefndar. Þá var samþykkt að fresta framkvæmdum til næsta vors „vegna þess að þá sé sennilega meiri þörf fyrir atvinnu en nú.“ Ekki er að sjá að mikið hafi orðið úr verkinu.

Eiríkur kaupfélagsstjóri Þorsteinsson var stórhuga framkvæmdamaður. Hann sat í hreppsnefnd um tíma og 23. nóvember 1945 bar hann fram tillögu um kaup á skurðgröfu:

Hreppsnefndarfundur á Þingeyri ákveður að leitað verði hófa með kaup á skurðgröfu fyrir hreppinn er komi til afnota næsta ár. Ennfremur skal hefja undirbúning að stórfelldri ræktun að Söndum á komandi vori, fyrst og fremst skal nægilegt ræktað beitiland haft til hliðsjónar fyrir Þingeyrarkýr.

Tillagan féll á jöfnum atkvæðum en einn hreppsnefndarmaður sat hjá. Eindregnari var afstaða hreppsnefndar til tillögu Sigurðar Breiðfjörð vorið 1950 um að fela Sandanefnd að undirbúa tillögu um ræktunarframkvæmdir á Söndum og ákveða leigumála jarðarinnar „það hátt að hún bæri sig með árlegum rekstri“. . . Tillagan var samþykkt samhljóða.

Horft af Sandholtum yfir Glámumýrar (Sandhúsa-mýrar) á Söndum vorið 2021 þar sem framræsluskurðirnir frá 1957 sjást enn. Gripahús tómstundabænda á Söndum til vinstri.

Heyflutningar frá Söndum til Þingeyrar um miðja síðustu öld. Heysátunum hlaðið á vörubíl. Á tímum takmarkaðra kosta til flutninga var heyskapur á Söndum ekki auðsóttur öllum þorpsbúum jafnvel þótt vegalengdin væri aðeins um það bil þrír kílómetrar (Ljósm.safn Reykjavíkur).

Árið 1957 réðist Þingeyrarhreppur hins vegar í stórfellda framræslu Glámumýra með skurðgröfu. Spurn þorpsbúa eftir landi þar til ræktunar reyndist engin en skurðirnir hafa að einhverju leyti nýst síðari árin til bóta á beitilandi hrossa þar. Sú framræsla var skipulögð með stórvirkar vélar í huga og varð önnur að gerð en Pálmi Einarsson hafði gert áætlun um.

Mér telst til að liðlega tugur Þingeyringa hafi „haslað sér velli“ með ræktun til heyskapar á Söndum fram um 1950. Fæstir þeirra töldust til hins efnaminna fólks á Þingeyri sem sr. Sigurður Z. hafði þó haft í huga með ráðstöfun jarðar kirkjustaðarins. Hinir efnaminni réðu illa við leigugjald eftir land á Söndum. Þannig var það til dæmis um afa minn, Jón G. Jóhannsson í Lækjartungu, sem kaus heldur að snapa slægjur fyrir heyskap ofaní kindur sínar annars staðar, svo sem uppi á Bakkahlíð. Og svo var víst um fleiri.127 En hugsun sr. Sigurðar Z. var góð; heimurinn breyttist bara svo hratt.

Á Þingeyri var og hefur allt til þessa verið áhugi fyrir búskap, þótt vart teldist vera almennur; hjá flestum í smáum stíl en byggður á miklum áhuga. Um tíma voru umsvif í búskapur einstakra „Sandabænda“ þó töluverð, til dæmis þeirra Eiríks Þorsteinssonar kaupfélagsstjóra og bændahjónanna á Ásgarðsnesi, Ólafíu Jónasdóttur og Gunnars Jóhannessonar, sem um tíma ráku myndarlegt kúabú þar en sóttu heyskap og haga einkum að Söndum.

Fleira kom til þegar tímarnir liðu: Á sjötta áratugnum gerðu nokkrir hreppsbúar, flestir frá Þingeyri, garðlönd á utanverðum Sandasandi þar sem hann hallaði mót Fögrubrekku. Kartöflur

127 Frásögn Ásdísar, móður minnar, 14. ágúst 1991.

Hin snyrtilegu fjárhús Gunnlaugs Magnússonar frá Hól taka sig vel út í kvöldblíðunni á sauðburði 2022. Þau höfðu þá ekki verið notuð um nokkurra ára skeið. Þau eru verðugar minjar um blómlegan smábúskap þorpsbúa á síðustu öld.

reyndust spretta þar með ágætum. Forgöngumaður um landnámið mun hafa verið Gunnar Guðmundsson bóndi á Hofi. Og úr því að nefndur er Sandasandur má minnast forgöngu sr. Stefáns Eggertssonar um gerð flugvallar þar um miðjan sjötta áratuginn, er varð upphafið að miklum umbótum í flugsamgöngum við byggðarlagið.

Um 1970 hóf Hestamannafélagið Stormur að byggja upp aðstöðu á Söndum til þess mæta vaxandi áhuga sem þá var fyrir hestamennsku. Áratug síðar var hafin umfangsmikil skógrækt í innri (syðri) hluta Sandalands – inn með Sandafelli – undir heitinu landgræðsluskógrækt. Þar vex nú upp myndarlegur skógur birkis og barrviða á landi sem áður var mestan part lyngmór og graslautir millum berra holta. Svæðið er orðið vinsælt til útivistar.

Heyskapur Þingeyringa á Mýrum

Jón Gíslason frá Mýrum sendi mér 11. ágúst 2014 lýsingu á heyskap Þingeyringa þar fyrir handan sem gefur nokkra hugmynd um þann þátt í búskap þorpsbúa; ég hef endurraðað texta Jóns lítillega:

Þú rifjar upp heyskaparsögur frá Söndum og þá vil ég rifja upp heyskapar sögu Þingeyringa á Mýrum. Fyrstum man ég eftir Jónasi Oddssyni um 1940 og með honum var Ella nafna og Valur síðar heyflutnings bílstjóri. Ég verð líka að nefna flutnings bátana: Það var Tóki og Grjótboli, eign Sigmundar Jónssonar, skipstjóri Óskar Jóhannesson, einhentur. Ég horfði með undrun á hann einhendis hlaða sátunum í Grjótbola og út á borðstokka og 3-4 stæður uppfyrir. Ég minnist þessa sérstaklega vegna þess að Óskar var einhendur og þeir Jónas féllu frá fljótlega uppúr 1940.

Fjölskyldur sem ég man eftir og flestar höfðu sín föstu stykki, sumar meir en áratug: Bjarni Jóhannsson, Samson Jóhannsson, Lauga Runólfs, bóndinn á sjó, Helgi Símonarson, Sigurjón Pétursson, Einar Jensson, Svenni Breiðfirðingur, Kristján Jakobsson og Kristján Tómasson og líka Beggi Gísla. Ekki voru allar þessar fjölskyldur á sama tíma en sumar nokkur ár, jafnvel yfir áratug. Tjald á Sjóartúni var ætíð ofan við hlöðutóttina. Einar Jensson var með tjald saumað úr pokum undan Noregs-saltpétri, seinna gróf Svenni Breiðfirðingur gryfju í Hrólfsnaustum og sett ris yfir, tjöldin inni á Mel standa það lágt að Kambarnir skyggja á þau. Kristján Tómasson var með tjald út og niður af kirkjunni. Kristján Jakobsson, dæturnar og Dói, sváfu í hlöðu, en Guðrún og Kristján Halldórsson uppi í baðstofu og þar var eldað.

Ýmislegt bar við eins og gefur að skilja, t.d. eignaðist Inga Tom sinn yngri son Hermann, heima [á Mýrum væntanlega] þegar þau voru að heyja. Engin slys urðu og gott samkomulag, en oft mikið fjör. Flestir mættu eftir Verslunarmannahelgi, svo réði veður og magn, hve þeir voru lengi. Sumir sváfu í hlöðu en flestir í tjöldum, en einstaka eldri kona inni í bæ. Ég hef ekki fundið neitt skráð um þessa starfsemi og finnst það miður, því þetta er ósköp ófullkomin samantekt, en verður víst að duga. Ég nefndi Tóka en svo var líka Refur kaupfélagsins og ferjan og margir notuðu sína eigin báta.

Núverandi búskaparaðstaða þorpsbúa á Söndum. Reiðhöll, hesthús og fjárhús nær en fjær eru tún og hagar. Sér til Kirkjubóls og Hóla. Fyrir miðri mynd gnæfir Þríhyrna/Hólafjall.

EFTIRMÁLI:

Heyskapartjöldin á Söndum

Kveikjan að Sanda-skrifunum var gömul minnisgrein mín:

Ég sé fyrir mér dagana fyrir svo sem sextíu árum þegar Þingeyrarbændur komu upp að Söndum til heyskapar, gjarnan kringum Verslunarmannahelgi. Stundum litlu fyrr. Þeir reistu þar tjöld sín. Sumir lágu við en aðrir höfðu þau aðeins sem afdrep í matarhléum. Mér finnst ég muna flest átta eða níu hvít tjöld á Söndum; innan frá Múlaeyri, út á Sólvang og upp á Stekk. Og þarna heyjuðu þeir með sínum, eina tvær dagsláttur, jafnvel fleiri. Brandur í Hólum sló fyrir suma með Farmalnum. Aðrir notuðu orfið og eigið afl. Þessi heyskapur stóð 1-2 vikur, stundum lengur. Það var tilbreyting og óbeinn selskapur af heyskap kaupstaðarbúa á Söndum – kennd samstöðu smeygði sér að, hópur sömu hagsmuna stækkaði, hvort sem þurrkar gengu eða barist var við óþurrk. Þeir höfðu með fólki sínu rakað og rifjað, sætt og breitt, rifjað og rakað, uns taðan var fullþurr, komin í lanir ellegar stærri sæti þar sem hún beið heimkeyrslu. Kannski fengu þeir svo vegagerðarvörubíl, t.d. hann Tomma í Tröð, um helgi til þess að sækja töðufenginn, kannski Óskar á Kjaransstöðum. Tilkomumest var ef töðusóknarbíllinn var hún Litla-Gunna eða Litli-Jón, fornvörubílarnir tveir sem þá voru á Eyrinni og menn mundu borga óf fjár fyrir í dag ef til væru enn og falir. Hvað karlarnir gátu hlaðið á þessa litlu bíla! Lön eftir lön hvarf upp á pallinn, svo brátt var stykkið alhirt. Háfermin þokuðust löturhægt út í gegnum Sandatúnið; það sást varla í sjálft ökutækið. Kvöldsólin roðaði háfermið þar sem það hvarf niðrúr Skörðum; það var lengi að hverfa undir Holtin. Ferð eftir ferð.

Ætli það hafi ekki verið hann Mangi á Hól sem síðastur felldi sitt Sanda-tjald? Þá hafði hann verið hinn fasti punktur Sandaheyskapar um árabil, á stykkinu sínu frammi undir Brekkudalsánni.

Eftir sat einhver tómleiki. Þar sem áður var líf við heyskap blöstu nú við ljósleit og alhirt tún; það varð mannlaust á Söndum, heyskaparfólkið horfið með töðufeng sinn og tjöldin hvítu. Ef til vill voru það fyrstu merkin um að brátt tæki að hausta . . .