15 minute read

III Landbúnaðurinn í Þingeyrarhreppi 1893 – og 1710

Á síðustu tveimur áratugum nítjándu aldar urðu þær breytingar á búsetu í Þingeyrarhreppi að þurrabúðum tók mjög að fjölga. Einkum varð það á Þingeyri en það gerðist líka í Haukadal. Raunar átti það við Hvamm einnig því þurrabúðir voru settar í landi Hvamms fast við þorpsmörkin, innan við Ásgarð, en um hann lágu landamerki Hvamms og Þingeyrar. Allar jarðir í hreppnum voru þó settar áfram eins og verið hafði. Afkoma fólks byggðist á tvennu: sjónum og landinu.

Jóhannes Ólafsson hreppstjóri Þingeyrarhrepps á þeim árum færði samkvæmt skyldu sinni skýrslur um búnaðarástandið í hreppnum hvert haust. Hér hefur skýrsla hans frá haustinu 1893 verið tekin til greiningar í því skyni að athuga hvernig búskap og framfærslu hreppsbúa af landinu var háttað áður en byggð og búseta breyttust með hinni nýju öld sem þá var handan við hornið.

Advertisement

Samkvæmt sóknarmannatali Sandaprestakalls77, skráðu af sr. Kristni Daníelssyni presti á Söndum, voru íbúar hreppsins 535 í árslok 1893 á samtals 57 heimilum. Ábúð á jörðum eða jarðapörtum höfðu 36 fjölskyldur en 21 fjölskylda var án jarðnæðis. Tekið skal fram að húsfólk var á nokkrum heimilum ábúenda en það er talið með heimilisfólki ábúendanna. Tólf af þeim, sem án jarðnæðis voru, héldu sauðfé, og voru í skýrslu hreppstjóra kallaðir búlausir menn.

Meðalfjöldi ábúðarhundraða var tæplega 9 á hvern ábúanda – allt frá 26 á kirkjustaðnum Söndum til tæplega tveggja hundraða þeirra er minnst höfðu. Fimm bændur áttu hundruð í öðrum jörðum en þeir bjuggu sjálfir á:

Ólafur Guðbjartur Jónsson í Miðbæ átti 4,35 hdr. í Höfn Guðmundur Þórðarson í Hrauni átti 0,59 hdr. í Saurum Guðbjörg Bjarnadóttir á Arnarnúpi átti 4,28 hdr. í Hrauni Eggert Andrésson á Skálará átti 1,32 hdr. í Arnarnúpi Guðmundur Eggertsson í Höll átti 2,54 hdr. í Meðaldal.

Allir heyjuðu bændurnir sín afbæjar-hundruð, bæði töðu (af túni) og úthey.

Að meðaltali átti hver ábúandi tvær kýr og tuttugu ær í fardögum árið 1893. Sauðaeign var lítil: aðeins tveir sauðir að meðaltali hjá þeim sem þá áttu. Sauðaeignin var að tiltölu mest á útsveitinni, flestir hjá Guðbjarti Jónssyni í Svalvogum og Ólafi Guðbjarti Jónssyni í Miðbæ. Rifjast þá upp sagan um sauðahellinn í Höfn, sjá bls. 33-34 hér að framan. Eignarhald sauðaríks Haukadalsbónda á hluta Hafnar-jarðarinnar hefur hugsanlega átt sér rætur í gamalli skipan á nýtingu mikilvægra landkosta (vetrarbeitar).

Ábúendur áttu 1-2 hesta. Ferðahestar hafa varla verið fleiri en einn á hverjum bæ nema líklega hjá sóknarprestinum og verzlunarþjóninum á Þingeyri; hvor þeirra átti fjóra hesta. Má því ætla að allar kirkjuferðir til dæmis hafi þorri fólks farið gangandi.

Meðfylgjandi myndir gefa hugmynd um samband stærðar jarðnæðis og áhafnar, þ.e. jarðarhundraða sem hver ábúandi réði yfir og fjölda kúa og áa sem hann hafði á búi sínu í fardögum árið 1893.

77 Skjalasafn.is Vefsjá kirkjubóka.

Sambandið er býsna eindregið. Þó er það eitt gildi sem sker sig úr á báðum myndunum, við ~25 jarðarhundruð. Þau gildi eiga við Sandaprest, sem hefur mun færri gripi en sem svarar til jarðnæðis hans (eða fleiri jarðarhundruð en svöruðu til bústofns!). Í ljósi sérstöðu Sandaprests hvað lifibrauð og búskaparaðstöðu snerti hef ég leyft mér að fella tölur um Sanda út við útreikning á fylgni stærðar bústofns og jarðnæðis (X, ábúðarhundruð):

Kýr: 0,2 X + 0,54 r2 = 0,51 Ær: 1,9 X + 4,54 r2 = 0,65

Tölur jafnanna merkja að 0,2 kýr komu á hvert jarðarhundrað en 1,9 ær. Fylgnitölurnar (r2) sýna að stærð jarðnæðis – ábúðarhundruðin – skýrði 51% af breytileika kúafjöldans en 65% af breytileikanum í fjölda áa.78 Með öðrum orðum: Bústofninn réðist að meirihluta af burðargetu

78 Hér er rétt að nefna að í ljósi hefðbundins fjölskyldubúskapar, sem á þessum árum ríkti, er þess sennilega ekki að vænta að línulegt samband gripafjölda og ábúðarhundraða sé nema e.t.v. upp að 15-20 hundruðum. Væri jarðnæðið meira tóku aðrir þættir að ráða meiru, svo sem mannafli fjölskyldunnar á býlinu til þess að nýta jarðnæðið og svo hitt að mjólkurmatarþörf fjölskyldunnar um ársins hring var þá fullnægt. – Það þurfti ekki að framleiða meira. Vel getur verið að þetta skýri frávik gildanna tveggja á Söndum og að þau séu einmitt dæmi um að svo hafi verið.

ábýlisins metinni í jarðarhundruðum með takmörkuðum frávikum. Ekki er af myndunum að sjá að neitt annað býli en Sandar hafi með áberandi hætti skorið sig úr með ásetningi í ósamræmi við landkosti eins og þeir endurspeglast í metnum jarðadýrleika.

Af búfénum var kýrin var dýrasta eignin. Það voru aðeins þrír ábúendur í Þingeyrarhreppi sem ekki töldu fram kýr. Kúafjöldinn var nátengdur öðrum einkennum heimilis og bús eins og eftirfarandi tafla sýnir:

Kýr á býli

Fjöldi heimilismanna Ábúðarhundruð ≤1 2 3 ≥4

9,1 9,8 11,4 13,2 5,7 8,7 11,3 13,4 Ær 11,6 19,7 24,7 32,2 Mjólk, lítrar/heimilismann (reikn.) 290 518 645 740

Framfærslugrundvöllurinn var þeim mun traustari sem ábúðarhundruðin voru fleiri; þá var unnt að ala fleira búfé og metta fleiri munna. Það er svo sem hvorki ný speki né langsótt. Reiknað eftir meðaltölum í töflunni kom einn heimilismaður á hvert jarðarhundrað á stærstu búunum. Á þeim minnstu kom hins vegar 1,6 heimilismaður á hvert jarðarhundrað.

Mjólkin var mikilvægasta afurð heimilanna á þessum árum. Áætla má mjólkurmagnið eftir fjölda kúa og áa og tengja það fjölda heimilismanna, sjá töfluna hér á undan. Kristján Andrésson bóndi í Meðaldal hélt skýrslu um afurðir kúa sinna árið 1890. Meðalnyt þriggja kúa þar, sem á skýrslu voru allt árið, var 2.104 pottar.79 Þá má gera ráð fyrir að hver kvíaær hafi skilað 55-60 pottum yfir sumarið.80 Í töflunni er reiknað með 2.000 pottum eftir kúna og 55 pottum eftir ána. Að meðaltal hefur mjólkurmagnið skv. þessari áætlun þá verið um 390 pottar (sem setja má jafngildi lítra) á hvern heimilismann. Það er nokkru meira en mjólkurneysla Íslendinga er um þessar mundir (2022), um 360 lítrar á íbúa (samanlögð neyzlu- og vinnslumjólk). Að vísu þarf að muna að árið 1893 fór nokkur hluti mjólkur á einhverjum heimilanna til þess að greiða jarðarleigu (leigusmjör), svo ekki kom öll ársnyt á hverju heimili til neyslu þar.

Kýrnar hafa þannig verið allskýr mælikvarði á hag heimilanna. Fjöldi kúa óx með stærð jarðnæðis, sbr. myndirnar hér að framan, og fylgdi einnig fjöldi áa, sem á þeim árum voru enn nytkaðar í kvíum sumarlangt. Sauðamjólkin taldi mest að hjá þeim sem fæst ábúðarhundruðin höfðu – um fjórðung, en þeim mun minna sem kýrnar voru fleiri.

Meðaltúnið í Þingeyrarhreppi var fjórar dagsláttur að stærð og töðufengurinn skv. búnaðarskýrslu Jóhannesar hreppstjóra 36 hestburðir. Það svarar til níu hb/dagsláttu sem jafngildir um þrjátíu hestburðum af hektara. Það telst vera býsna góð heyuppskera þegar aðeins var hægt að hvetja grassprettu með búfjáráburði, og þó varla öllum sem til féll árlega því sennilega hefur eitthvað af honum verið notað til eldsneytis. Þar að auki aflaði hver ábúandi

79 Bjarni Guðmundsson: Búnaðarfélag Þingeyrarhrepps 1889-2011, hér á bls. 61. 80 Bjarni Guðmundsson: „Sel og selstöður í Dýrafirði“. (2020).

45 hestburða af útheyi með engjaheyskap. Heyskapur hvers ábúanda sumarið 1893 nam því að meðaltali um 80 hestburðum. Mestur var heyskapurinn í Meðaldal, um 200 hestburðir alls.

Nú má gizka á ásetninginn. Vetrarþörf hverrar kýr hefur vart verið minni en 20-25 hestburðir. Þungatölur sauðfjár í hreppnum samkvæmt mælingum veturinn 1890-1891 sýndu að þungi fjárins stóð í stað yfir veturinn, þannig að tæpast hefur verið um viðhaldsfóðrun að ræða. Gizkað er á að vetrarfóður hverrar ær og gemlings hafi verið 0,5-0,7 hestburðir. Meðalbúandinn hefur því þurft um það bil 22,5x2 + (20+12)x0,6 = 64 hestburði. Því gætu svo sem 15 hestburðir hafa verið eftir til þess að fóðra aðra gripi svo sem geldneyti, sauði og hesta. Vetrarbeitin hefur því sennilega enn verið allstór hluti vetrarfóðrunarinnar.

Búlausu heimilin áttu, samkvæmt skýrslu Jóhannesar hreppstjóra, ær 3-10 að tölu, mjög líklega fyrst og fremst til öflunar sumarmjólkur með fráfærum. Aðeins eitt þeirra, heimili Jóhannesar sjálfs, átti kú, og tvær ær að auk. Þótt það liggi í brún þessarar frásagnar er sennilegt að þurrabúðarheimilin á Þingeyri og í Haukadal hafi haft samvinnu um sumarhirðingu ánna, svo sem við fjárgæslu og ef til vill einnig mjaltir.

Séu búfjártölurnar úr Þingeyrarhreppi skoðaðar nánar vekur það m.a. athygli hve „aðrir“ nautgripir en kýr eru fáir, eða aðeins 10 á móti 80 kúm. Það bendir til þess að kýr hafi almennt verið „gerðar gamlar“ og kálfum þeirra slátrað mjög ungum. Búféð var talið í fardögum. Þá voru að jafnaði 0,6 gemlingar á hverja fullorðna á. Líklega hefur frjósemi vart verið meiri en svo sem 1,0-1,2 lömb á hverja á. Hvort eftir því má áætla að 0,4-0,6 lömb/ hafi komið til frálags að hausti er óvíst. Á umdeilanlegum grunni má því reyna að áætla kjötmagnið (fallþunga) á hvert heimili:

20 ær/ár x 0,5 lömb/á x 12 kg/fall lambs + 3 ær/ár x 20 kg /fall ær + 0,5 sauðir/ár x 30 kg/fall sauðar = 195 kg/ár.

Þá kæmu liðlega 20 kg á heimilismann. Þessu til viðbótar kæmi kjöt af nautgripum, sem er enn erfiðara að áætla; mundi þó vart vera meira en 30-50 kg/ár. Kjötmeti hefur því í mesta lagi numið 20-25 kg á heimilismann, sem er þriðjungur af kjötneyzlu meðal-Íslendingsins í dag. Þá má ekki gleyma innmatnum – sláturmat o.fl. Hann gæti hafa numið fjórðungi-fimmtungi kjötþungans. Svo til viðbótar var fiskmetið sem líklega eru engar heimildir til um. Áreiðanlega hefur mjög munað um það, auk nokkurs kornmetis úr kaupstað. En svo má líta á garðyrkjuna sem þá var nokkur í Þingeyrarhreppi.

Um 40% heimila þeirra, sem ábúð höfðu, ræktuðu kartöflur en 65% ræktuðu rófur. Kartöfluuppskeran nam 0,9 tunnum en rófnauppskeran 2,3 tunnum hjá þeim sem þessa jarðarávexti ræktuðu. Heildaruppskera rófna í hreppnum var fjórum sinnum meiri en kartöfluuppskeran. Rófnaræktunin var mest á Innsveitinni; heilar 5 tunnur rófna fékk til dæmis Kristján Einarsson í Hæsta-Hvammi. Hákon Jónsson í Yztabæ ræktaði hins vegar mest af kartöflunum, fékk einnig fimm tunnur af þeim.

Þótt munað hafi um ræktun þessara rótarávaxta á einstökum heimilum er ósennilegt að hún hafi miklu skipt í heildarfæðu hreppsbúa. Gott hefur þó verið að eiga rófur og kartöflur til bragðbætis og ef til vill hátíðarbrigða fram yfir jól. Víst má telja að aðstaða til lang-geymslu uppskerunnar hefur verið takmörkuð á flestum bæjum. Gera má ráð fyrir að þurrabúðarmenn hafi stundað einhverja garðyrkju, þótt ekki hafi tölur um það ratað inn á búnaðarsýrslur Jóhannesar hreppstjóra. Hinir dönsku kaupmenn á Þingeyri höfðu komist í annála fyrir garðyrkju. Því má ætla að það orðspor og minjar um það hafi einnig hvatt einhverja þurrabúðarmenn til slíkrar ræktunar.

Mór var tekinn upp á 55% ábýlanna, mest í Keldudal og Haukadal, en á báðum stöðum var og er ágætt mótak. Meðaltal hjá þeim sem mó skáru var 36 tunnur. Reiknað eftir rúmmáli (100 lítrar/ tunnu) gæti það svarað til móhlaða sem væri um 1,5 m á hvern veg (1,5 m3). Atkvæðamestir mótökubændur voru þeir Júst Guðmundsson í Hrauni (sem e.t.v. hefur tekið sinn mó úr Lómatjörn í Hrauni); hann taldi fram 100 tunnur. Mestan mó skar Ólafur Guðbjartur í Miðbæ: 150 tunnur. Mjög líklega hafa þeir báðir selt mó. Þá eins og í annan tíma var eldsneyti verðmæt vara og eftirsótt. Sennilega hefur taðbrennsla ekki með öllu verið aflögð á þessum árum eins og fyrr var nefnt. Hugsanlega hafa einhverjir líka keypt kol til híbýlahitunar.

o o O o o

Með því að byggja á búnaðarskýrslum Jóhannesar hreppstjóra Ólafssonar frá haustinu 1893 og sóknarmannatali sr. Kristins Daníelssonar á Söndum er gizkað á að heimilin í Þingeyrarhreppi hafi þá mátt greina í fjóra hópa, þannig:

1. Vel sett heimili með fleiri en 10 ábúðarhundruð og fleiri en 2 kýr og 20 ær í kvíum. Þessi heimili voru fjórðungur heimila í hreppnum. Þau höfðu meira en 600 lítra mjólkur á hvern heimilismann á ári. Rófna- og kartöflurækt á nær öllum heimilunum.

2. Heimili með innan við 10 ábúðarhundruð, 1-2 kýr og færri en 20 ær í kvíum. Þau höfðu 400-600 lítra mjólkur á hvern heimilismann. Þessi heimili voru tæpur helmingur (45%) heimila í hreppnum. Rófna- og kartöflurækt á helmingi þeirra.

3. Búlaus heimili með 3-10 kvíaær; þau höfðu innan við 50 lítra mjólkur á hvern heimilismann. Óvíst um garðyrkju.

4. Þurrabúðarfólk. Án eigin mjólkurframleiðslu og óvíst um garðyrkju.

Nú veit enginn hvort, í hvaða mæli eða hvernig hinum nauðsynlegu matvælum var miðlað á milli heimila. Sumir þurrabúðarmenn bjuggu í sérbýli en aðrir (húsmenn) voru skráðir undir þaki húsbænda sem ábúð höfðu, unnu þeim og nutu í viðurgerningi launa sinna þar. Þannig var ýmislegt sem mildað gat þann mismun sem þurrar hagtölur leiða okkur að. Hér hefur líka aðeins eitt ár verið tekið til skoðunar en auðvitað voru árasveiflur alltaf einhverjar. Þess vegna er lesandinn varaður við því að túlka niðurstöður þessar of bókstaflega. Betra er að taka þær sem bendingar um það hvernig aðstæður íbúa Þingeyrarhrepps gætu hafa verið á þeim árum þegar þéttbýlismyndun hófst þar – fyrir einni öld og þriðjungi aldar betur.

Nú má velta því fyrir sér hvernig málum þessum var háttað á þeim tíma þegar byggð í Þingeyrarhreppi var öll bundin við lögbýlin, fyrir daga eiginlegrar þéttbýlismyndunar. Í dálitlum viðauka verða því hér á eftir skoðaðar tölur úr elstu búnaðarskýrslunni, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

ÚR ELSTU BÚNAÐARSKÝRSLUNNI – TIL SAMANBURÐAR Síðsumars 1710 voru Jarðabókarmenn á ferð um Þingeyrarhrepp (sem þá var nefndur Dýrafjarðarhreppur) og skráðu þá margvíslegan fróðleik um búskap þar.81 Þá var búið á öllum jörðum í hreppnum, nema hálfri Ketilseyri, sem þá var sögð vera í eyði. Setnir jarðarpartar voru 40 en fleiri heimili á sumum þeirra, húsfólk og líklega þurrabúðir. Fleiri en tveir ábúendur voru á þessum jörðum:

Haukadalur 7 Meðaldalur 5 Hvammur 7 Arnarnúpur 4 Hraun 5 Brekka 3

Alls töldust 93 kýr í sveitinni, 2,3 hjá hverjum ábúanda. Alls voru þar 1928 fjár; 48 fjár hjá hverjum ábúanda, er þannig skiptust:

Ær 656 = 34% Sauðir, veturg. 315+ Sauðir, eldri 370 = 36% Lömb 587 = 30 %

Fjárhjörðin skiptist því í þrjá álíka stóra hópa svo sem gerðist á þeim tímum – í ær, sauði og lömb – þar sem hver hópur þurfti sérstaka umhirðu.82 Mikil breyting hafði orðið á sauðaeigninni frá 1710 til 1893; í lok nítjándu aldar var hún innan við 15% af því sem hún hafði verið liðlega 180 árum fyrr. Mest var sauðaeignin á Útsveitinni; 40% sauðanna voru á bæjunum utan Eyrarófæru en 32% ánna og 34% kúnna. Þá virtist hestaeignin hafa verið almennari og jafnari árið 1710 en 1893. Að jafnaði var þá skráður einn hestur hjá hverjum ábúanda en 1893 voru nokkrir þeirra hestlausir.

Ekki er til manntal frá Jarðabókarárinu. Manntalið 1703 er það næsta í tíma.83 Þá voru 355 manns í hreppnum, á 54 heimilum. Breytingar hafa áreiðanlega einhverjar orðið á milli áranna 1703 og 1710 svo rétt er að tengja tölur þeirra varlega saman. Sé nú líklegt mjólkurmargn reiknað út með sama hætti og gert var hér að framan með tölurnar frá 1893 fæst þessi niðurstaða:

(93 kýr x 2000 l/kú*ár + 656 ær x 55 l/á*ár) / 355 manns = 625 lítrar á íbúa

hvar af 83% er kúamjólk. Þótt meðalnyt kúa og áa kunni að hafa verið eitthvað minni í byrjun

81 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. VII (1940), 28-54. 82 Arnór Sigurjónsson: „Þættir úr íslenzkri búnaðarsögu“. (1970), 65. 83 Þjóðskjalasafn Íslands: skjalasafn.is/manntalsvefur

átjándu aldar benda tölurnar til þess að mjólkurmeti á hvern íbúa hafi þá verið mun meira – yfir 50% meira. Sé með sama hætti horft til kjöts og feitmetis af sauðum hefur sá kostur einnig verið stórum ríkulegri í byrjun 18. aldar. Reyna má reikning:

(656 ær/ár x 0,5 lömb/á x 12 kg/fall lambs + 75 ær/ár x 20 kg /fall ær + 120 sauðir/ár x 30 kg/fall sauðar) / 355 = 25 kg/íbúa.

Það er tæpum fjórðungi meira kjötmagn en reiknaðist hafa verið árið 1893, en samt aðeins þriðjungur af meðalkjötneyslu Íslendings um þessar mundir (2022).

Ekki má gleyma ullinni sem líka var mikilvæg afurð. Af tölum um sauðfjárfjölda má ráða að tiltækt magn hennar hafi verið til muna meira í byrjun átjándu aldar en í lok þeirrar nítjándu. Sé nú gert ráð fyrir að reifi fullorðinnar ær hafi verið 1,25 kg en af sauð 2,5 kg líta tölurnar svo út, séu þær reiknaðar á hvern íbúa (í kg):

Hagalín Ásbjörnsson í Bræðratungu tekur af ám sínum um miðbik síðustu aldar (ljósm. frá Lárusi, syni hans).

1710 1893 Ull af ám 820 1.154 Ull af sauðum 1.712 220 Ull alls 2.532 1.374 Ull á íbúa ~ 7,1 ~ 2,6

Munurinn verður sennilega meiri sé þess gætt að sauðaullin mun hafa verið talin betri til vinnslu en ull af ám einkum sú mislita.84 Sauðaullin, sem reiknaðist þriðjungur ullar árið 1710, var orðin aðeins sjöttungur árið 1893.

84 Jóhanna E. Pálmadóttir bóndi og textílfræðingur á Akri í samtali við BG 22. mars 2022.

Tölur Jarðabókarinnar benda til þess að landbúnaðarframleiðslan, reiknuð á hvern íbúa Þingeyrarhrepps, hafi verið töluvert meiri í byrjun átjándu aldar en undir lok þeirrar nítjándu: 1,2x meira kjöt, 1,6x meiri mjólk og 2,7x meiri ull. Hvort af því má ráða að lífskjörum hafi hrakað verður ekki fullyrt. Til þess þyrfti einnig að athuga fiskafla sem og verslun heimilanna. Á meðan það er ógert er þó freistandi að álykta að það hafi ekki verið slæm lífskjör að hafa liðlega 600 lítra mjólkur og 7 kíló af ull til ráðstöfunar á íbúa á hverju ári.

Meiri sauðaeign hreppsbúa í byrjun átjándu aldar hefur leitt af sér meira beitarálag á úthaga þá en síðar varð. Sauðum hefur vart verið ætlað mikið vetrarfóður annað en það sem þeir sjálfir gátu afla sér á útigöngu þar sem snjóléttara var og við sjóinn. Því var sauðaeignin tiltölulega meiri á Útnesinu. Þar má líka finna ýmsar minjar um sauðahaldið, svo sem Hellirinn í Höfn sem sagður var hafa rúmað 30-40 sauði.85 Líka tóft beitarhúsa frá Hrauni á Bólubökkum og sauðlandið á Hlíðinni út með Hjallafjalli86 og minna má á beitarhús (og sauðahlöð) á Sléttanesi. Þá gæti Ólafartóft á Arnarnúpi einnig hafa gegnt veigamiklu hlutverki í sauðahaldi fyrri tíma. Um hana og fleira því tengt er fjallað í II. kafla þessarar ritsmíðar.

85 Örnefnaskrá, Höfn. 86 Guðmundur Sören Magnússon frá Hrauni í bréfi til BG 27. nóvember 1999.

51