Fræðsluefni KFUM og KFUK - Vor 2017

Page 1

Samtal viรฐ snjalla krakka Frรฆรฐsluefni KFUM og KFUK voriรฐ 2017

1


Fylgt úr hlaði Það efni sem hér fer á eftir er nokkuð frábrugðið því fræðslu- og hugleiðingarefni sem KFUM og KFUK hefur gefið út undanfarin misseri. Hér er um að ræða tilraunaútgáfu þar sem í grunninn er stuðst við hugmyndir úr bókinni 144 Talks for Totally Awesome Kids eftir Chris Chesteron og David T. Ward. Efnisval og þýðing var í höndum undirritaðs en fengið var leyfi frá útgefanda til að styðjast við hugmyndir og efni úr bókinni til útgáfu þessa fræðsluheftis til notkunar í starfi KFUM og KFUK á Íslandi. Kristileg boðun í nútímasamfélagi er verkefni sem við í KFUM og KFUK viljum sinna af trúmennsku og heiðarleika. Í þessum hugleiðingum er kveikjan gjarnan stutt frásaga úr samtímanum eða vangaveltur um einhverjar aðstæður sem börn og unglingar í dag tengja við. Þegar tenging við efnið er komin og þátttakendur setja sig í spor annarra kemur gjarnan Biblíutengingin sem leiðir fram í dagsljósið boðskap kristninnar inn í okkar samfélag og samhengi. Leiðtogar í starfi KFUM og KFUK þurfa að leitast við að verða sérfræðingar í því að miðla þessu efni til barnanna. Slíkt gerist með góðum undirbúningi og þjálfun. Í sumum tilfellum getur það skipt sköpum hvort efnið skilar sér til áheyrenda að leiðtoginn hafi tekið til nokkra leikmuni eða hluti sem auðvelda krökkunum að skilja betur það sem fjallað er um. Hverri samveru fylgir hugmyndabanki sem gjarnan hefur að geyma leiki eða verkefni sem gott er að grípa til og í sumum tilfellum er ágæt tenging við efni fræðslunnar en í öðrum tilfellum er aðeins um að ræða hefðbundna hópleiki. Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er að vanda til verks og leitast við að fræðsla hverrar samveru sé miðpunkturinn og að bænin sé ómissandi þáttur í því trúarlega uppeldi sem við viljum stuðla að í starfi KFUM og KFUK. Með ósk um gott gengi og Guðs blessun, Jóhann Þorsteinsson Svæðisfulltrúi á Norðurlandi

Samtal við snjalla krakka

Fræðsluefni KFUM og KFUK vormisseri 2017 Útgefandi:

KFUM og KFUK á Íslandi

2

Holtavegi 28, Reykjavík

Umsjón:

Jóhann Þorsteinsson

Uppsetning:

Tómas Torfason

Yfirlestur:

Bylgja Dís Gunnarsdóttir


Efnisyfirlit bls.

2

Fylgt úr hlaði

bls.

3

Efnisyfirlit

bls.

4

1. Guð er eilífur

bls.

6

2. Hugrekki til að fara blindandi

bls.

8

3. Tveir ólíkir fiskar

bls.

12

4. Ert þú einnota?

bls.

14

5. Öllum nöfnum æðra

bls.

16

6. Vandræðalegt augnablik

bls.

18

7. Verum öðrum hvatning

bls.

20

8. Það er ekki alltaf auðvelt að þjóna öðrum

bls.

22

9. Að velja það rétta

bls.

24

10. Það sem þú gerir heyrist hærra en það sem þú segir

bls.

26

11. Skuldin að fullu greidd

bls.

28

12. Er–fit–að–þek–kja

3


1 Guð er eilífur Þema

Spurningin um Guð hefur frá upphafi fylgt mannkyni.

Það sem þú þarft

o Tússtafla eða pappír til að skrifa á. o Dæmi um myndletur eða kínversk tákn.

vatn

auga

hús

Meginmál

Skrifaðu þennan texta upp á töflu án þess að segja neitt: „Þú skalt gefa Abubu átta skammta af…“ Þessi orð voru rituð á vegg í námu í Sínaí eyðimörkinni í Egyptalandi fyrir 4.500 árum síðan. Við vitum ekki hver Abubu var og við vitum heldur ekki hvað það var sem hann átti að fá átta skammta af. Restin af setningunni er afmáð og hefur horfið í tímans rás. Haldið þið nokkuð að hann hafi átt að fá átta pizzur? (Leyfið krökkunum að koma með hugmyndir). En þessi orð eru mjög merkileg, ekki vegna þess hvað þau segja eða hvernig þau voru skrifuð. Þessi orð sem standa á steinvegg í námu í Egyptalandi eru þau elstu sem varðveist hafa og skrifuð eru með stafrófi sem hefur bara nokkur tákn eða um þrjátíu stafi. Áður en stafrófið kom fram þá þurftu menn að skrifa allt með myndletri – sérstök mynd var þá til fyrir hvert orð. (Sýnið dæmi) Hugsið ykkur bara ef þið gætuð ekki skrifað texta með stöfunum sem við þekkjum í dag, heldur þyrftum við að læra að þekkja myndir fyrir hvert orð. Það er ekki ósvipað og að skrifa á kínversku. Stafrófið er ein af merkilegustu uppfinningum allra tíma.

Tímalaus skilaboð

Það er önnur setning sem er rituð á vegginn í þessari námu í Egyptalandi. Þar stendur nefnilega (skrifaðu í hljóði):

4

„Guð er eilífur“


Guð er eilífur. Hann breytist aldrei. Hann verður ekki fyrir áhrifum af tímanum. Guð var til áður en heimurinn varð til og hann er eilífur sem þýðir að hann mun alltaf vera til. Þegar eitthvað er skrifað þá getur það verið til að koma einföldum skilaboðum áleiðis, eins og: „Vinsamlegast lokið dyrunum á leiðinni út.“ eða „Þú skalt gefa Abubu átta skammta af súrsætu kameldýri.“ En stundum geta skilaboðin líka verið tímalaus og átt erindi við alla, hvenær sem er. Rétt hjá þessari námu í Egyptalandi er Sínaí fjall, þar sem Guð gaf Móse boðorðin tíu. En einhverjum þúsundum árum fyrr var auðmjúkur námuverkamaður sem vissi og skrifaði um þennan sannleik: „Guð er eilífur.“

Bæn

Við skulum enda með bæn sem stendur skrifuð í fyrsta Tímóteusarbréfi í Nýja testamentinu og var skrifuð 2.500 árum eftir að námuverkamaðurinn skrifaði á steinvegginn. Biðjum: (Enda svo með Faðirvorinu) „Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.“ 1. Tím.1.17.

Hugmyndabanki Whisper challenge

Whisper challenge er skemmtilegt fundarefni fyrir unglingadeildir en til að hægt sé að fara í leikinn þarf að hafa síma með tónlist og góð heyrnatól sem fara vel yfir eyrun. Tveir í einu fara upp á svið og sitja andspænir hvor öðrum. Annar er með tónlist í eyrunum og heyrir ekki hvað hinn segir en reynir að giska út frá varalestri hvað hann/hún sagði. Hægt er að leyfa þrjár til fjórar tilraunir áður en sá sem var að giska fær að heyra hvað í raun var sagt. Þá er skipt og aðrir fá að prófa. Hægt er að búa til liðakeppni með tvö lið og gefa stig eða bara hafa gaman af og engin stig. Til að fá hugmyndir og sjá hvernig leikurinn gengur fyrir sig er hægt að gúggla „whisper challenge“.

Viðbragðsleikur með flösku og peningum

Skipt er í tvö jöfn lið. Liðin eiga að raða sér í sitt hvora röðina á móti hvort öðru og leiðast. Leiðtogar koma sér fyrir við sitt hvorn enda. Á öðrum endanum er leiðtogi með tóma flösku sem börnin eiga að reyna að grípa þegar að þau finna að hönd þeirra er kreist (ath. aðeins sá aðili sem er alveg við endann næst leiðtoganum með flöskuna má reyna að hrifsa hana til sín). Á hinum endanum er leiðtogi með tvo tíkalla eða tvo samskonar peninga. Hann hristir tíkallana í lófanum á sér og opnar síðan lófann. Þá eiga þátttakendur sem eru næst honum að kíkja í lófann (a.t.h. aðeins þeir tveir sem eru fremstir í sínum röðum mega fylgjast með peningunum). Ef það er samstæða, fiskar og fiskar eða skjaldarmerki og skjaldarmerki, þá á að senda skilaboð með því að kreista hönd næsta manns. Ef samstæða kemur ekki upp gerist ekkert. Þegar maður finnur að höndin er kreist, þá kreistir maður næsta við hliðina á sér og svo koll af kolli þannig að boðið endi hjá þeim sem stendur næst flöskunni og hann reynir að grípa flöskuna. Ef sá aðilli nær að grípa flöskuna færir hann sig yfir á hinn enda raðarinnar sem má sjá peningana og þannig er markmiðið að liðið nái að klára heilan hring. Ef lið grípur flöskuna þegar það er ekki samstæða þá færast allir til baka í því liði. Mjög mikilvægt er að liðin hafi alveg þögn meðan að leikurinn er í gangi, einu samskiptin sem má hafa er í gegnum hendurnar. Tengja má leikinn við hugleiðinguna því það er margt í lífinu sem við sjáum ekki eða heyrum en við getum aðeins fundið fyrir. Það er svipað með trúna að vissu leiti. Við finnum fyrir kærleikanum, þegar einhver hjálpar okkur eða er góður við okkur. Við finnum fyrir því þegar einhverjum þykir vænt um okkur.

5


2 Hugrekki til að fara blindandi Þema

Það krefst hugrekkis að lifa eftir því sem maður trúir.

Það sem þú þarft

o Eitthvað til að binda fyrir augun. o Könnu með vatni, glas, disk, hníf, brauðsneið, smjör og tusku til að þrífa með í lokin.

Meginmál

Bindið fyrir augun á einum sjálfboðaliða. Hann á að ímynda sér að hann sé blindur og ætli að fá sér að borða. Verkefnið er að hella vatni í glasið og smyrja brauðsneiðina. Þetta þarf hann að gera án þess að sjá. Þegar allir hafa séð vandræðin sem sjálfboðaliðinn lentdir í þá má spyrja krakkana hvernig þau haldi að sé að klífa fjall ef maður er blindur. Jafnvel fjall sem er þakið snjó og ís. Biðjið þau um að benda á kosti og galla sem slík áskorun hefði í för með sér. Eitt hæsta fjall Evrópu, Mont Blanc í frönsku Ölpunum er 4.807 metra hátt. Árið 1988 voru þeir Dave Hurst og Alan Matthews, fyrstu blindu mennirnir til að ná toppi Mont Blanc en það var gríðarlegt afrek sem veitti þeim mikla ánægju.

Það krefst hugrekkis

Einn af fyrstu leiðtogum kristninnar, Páll postuli, virtist líta á lífið sem áskorun ekki ósvipaðri þeirri sem Dave og Alan tókust á við þegar þeir fóru blindir upp á Mont Blanc. Hann sagði að toppurinn sem við stefnum á sé himnaríki. Í öðru Korintubréfi í Nýja testamentinu segir Páll: „Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft. Því að við lifum í trú án þess að sjá. Já, ég er hughraustur“. Það hlýtur að hafa þurft mikið hugrekki að klífa Mont Blanc blindandi. Það er erfitt að leggja upp í ferð þegar maður sér ekki áfangastaðinn. Við sem erum kristin, lítum á lífið sem ferðalag og áfangastaðurinn er himnaríki sem við þó sjáum ekki. Við reynum að taka þeim áskorunum og hindrunum sem lífið færir okkur og um leið njótum við þeirrar gleði og ánægju sem hlýst af því að líta yfir farinn veg og sjá hversu langt við höfum náð. Við lifum í þeirri trú að við ævilok bíði okkar himnavist með Guði. Hann hefur gefið okkur fyrirheit um eilíft líf á himnum með sér.

Bæn

Góði Guð, vilt þú hjálpa okkur að ganga þinn veg. Hjálpaðu okkur að treysta því að þó við sjáum ekki með eigin augum, þá leiðir þú okkur í gegnum lífið og hefur gefið okkur fyrirheit um eilíft líf á himnum með þér. Við þökkum þér allar góðar gjafir og felum allar okkar bænir í bæninni sem þú kenndir þínum lærisveinum og segjum saman: Faðir vor......

6


Hugmyndabanki Á bakvið teppið

Skipt er í tvö lið og þurfa þau að vera sitt hvoru megin við teppi sem tveir leiðtogar halda uppi sem einskonar skjólvegg á milli liða. Einn úr hvoru liði tekur sér stöðu krjúpandi fyrir framan teppið og þegar það er látið falla þarf að segja nafnið á þeim sem krýpur á móti manni. Sá sem tapar þarf að fara yfir í hitt liðið. Þetta er góður leikur til að læra nöfnin á öllum í hópnum.

Ertu Guffi?

Allir eru með lokuð augun. Tveir úr hópnum fá pikk í bakið og eru Guffar. Leikurinn gengur svo út á það að ganga um með lokuð augun og finna Guffa. Ef ég hitti fyrir manneskju þá spyr ég: „Ertu Guffi?“ Ef sá aðilli er ekki Guffi segir hann ekkert og heldur áfram að ganga með út réttar hendurnar að finna Guffa. Ef þú finnur Guffa þá áttu að fara í halarófu á eftir honum. Tenging við efnið: Að leysa einhver verkefni blindandi getur verið erfitt og maður þarf að sýna sérstaklega mikla þolinmæði. Oft erum við hálf blind gagnvart því hvað eigi að gera í lífinu í hinum ýmsu aðstæðum. En um leið og Jesú er með okkur leiðir hann okkur rétta leið og það eru líka forréttindi, styrkur og öryggi falið í því að fá að fylgja Jesú. Þegar að þú ert búinn að finna Guffa í leiknum þá ertu búinn að vinna og þarft ekki að hafa áhyggjur lengur, Guffi sér um sína alveg eins og Jesú sér um sína. ☺

Teiknileikurinn

Þessi leikur er í pörum og má hugsa sér að hafa 2-3 pör sem taka þátt. Mikilvægt er að þeir sem ekki eru að taka þátt í leiknum geti séð vel það sem hinir eru að gera og þannig verið með í leiknum. Til að undirbúa leikinn þarf leiðtoginn að teikna á blað/blöð einfalda mynd (sjá hugmynd hér fyrir neðan) og leikurinn felst svo í því að annar aðilinn á að lýsa myndinni og hinn á að reyna að teikna hana án þess að sjá hana. Það getur hentað að pörin sitji þétt saman, bak í bak. Auðvitað má líka reyna að leyfa öllum að prófa í einu en þá þarf fleiri blöð og skriffæri svo allir geti verið með. Eftir einhvern fyrirfram ákveðinn tíma t.d. 3-4 mínútur er stoppað og myndirnar sýndar. Ef allir fá að vera með þá getur verið skemmtilegt að hafa tvær ólíkar myndir og leyfa báðum í hverju pari að prófa bæði hlutverkin. En athugið að þá tekur leikurinn svolítinn tíma í framkvæmd.

7


3 Tveir ólíkir fiskar Þema

Útskýring á grundvallaratriði varðandi kristna trú. Það sem þú þarft o Teikningu af fiski sem fylgir með á sér blaðsíðu í þessu hefti. o Eldspýtur eða tannstöngla. o Þeir sem hafa aðgang að gamaldags myndvarpa geta sýnt eldspýtnaþrautina á tjaldi.

Meginmál

Sýnið krökkunum fiskinn og spyrjið þau hvort þau hafi séð svona fisk á límmiða eða einhvers staðar. Spyrjið líka hvort þau haldi að fiskurinn tákni eitthvað sem tengist kristinni trú. Fiskurinn er talinn vera tákn sem kristnir menn notuðu í frumkristni í Róm þegar þeir voru ofsóttir og óttuðust um líf sitt. Þegar einhver sem var kristinn hitti aðra sem hann þekkti ekki gat hann teiknað fisk t.d. í sandinn á jörðinni og ef hinir voru líka kristnir þá vissu þeir hvað það þýddi. Fiskur á grísku er nefnilega „ichthus“ en fimm grísku stafirnir sem mynda orðið eru líka skammstöfun fyrir Jesús Kristur, Guðs sonur, frelsari. (Ι = Jesús, Χ = Kristur, Ø = Guðs, U = sonur, Σ= frelsari). Þannig gátu kristnir menn og konur notað þetta einfalda tákn sem trúarjátningu og þess vegna eru sumir enn í dag sem hafa límmiða í afturglugganum á bílnum eða eru jafnvel með húðflúr sem er svona fiskur sem eins konar leynileg trúarjátning að viðkomandi trúi því að Jesús Kristur sé Guðs sonur og frelsari. En nú er hér annars konar fiskur. (Sýnið krökkunum fiskinn sem gerður er með eldspýtum). Og það er ákveðin þraut í gangi. Getið þið látið fiskinn synda í öfuga átt með því að færa aðeins þrjár eldspýtur. (Lausnin er sýnd hér til hliðar).

8


Guð gefur okkur mátt til að breytast

Í þessum tveimur fiskum finnum við kjarna kristinnnar trúar. Í fyrsta lagi trúa kristnir því að Guð hafi sent son sinn í þennan heim í Jesú Kristi. Hann er sá frelsari sem Gamla Testamentið boðar og hann hefur frelsað okkur frá valdi syndarinnar. Hann í raun leiðir okkur frá því sem eyðileggur og skemmir, syndinni. Hvað gerist svo í lífi fólks þegar það trúir því að Jesús sé sonur Guðs? Jú, líf þeirra breytir um stefnu og við syndum í aðra átt – í Guðs átt í stað okkar eigin. Þetta getur verið mikil breyting en Guð gefur okkur af kærleika sínum og mætti svo við getum tekið breytingum. Í bréfi Páls postula til Kólossusmanna segir Páll: „Fyrst þið því eruð uppvakin með Kristi, þá keppist eftir því sem er hið efra þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs.“ Það er að segja þegar Kristur verður frelsari okkar þá breytumst við. Páll heldur áfram og hvetur okkur: „En nú skuluð þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð. Ljúgið ekki hvert að öðru því þið hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd.“ (Kól. 3.1 og 8-10). Kærleikur Guðs getur hjálpað okkur til að hætta því sem særir og brýtur niður. Við sem viljum trúa á Jesú, leitumst við að gera það sem gott er og þannig líður okkur líka betur. Stundum er það erfitt og öll gerum við einhver mistök en þá biðjum við Guð um að hjálpa okkur að muna eftir boðum hans og hann gefur okkur af kærleika sínum.

Bæn

Góði Guð, vilt þú hjálpa okkur að segja skilið við það sem særir og brýtur niður. Hjálpaðu okkur með kærleika þínum að breyta rétt. Vilt þú gefa okkur kærleika til hvers annars og þakka þér fyrir allar góðar gjafir sem þú gefur okkur hvern dag. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Eldspýtnaþrautir

Ef byrjað er með hugleiðingu má hugsa sér að leyfa krökkunum að takast á við fleiri eldspýtnaþrautir þegar henni er lokið. Þá má hvetja þau til að sýna þrautirnar heima og athuga hvort mamma og pabbi eða systkini, ráði við þrautirnar. Hér eru gefin dæmi um tvær þrautir til viðbótar við fiskinn en áhugasamir geta líka fundið fleiri þrautir á veraldarvefnum. 1) Getur þú fært aðeins tvær eldspýtur en búið til 7 ferninga?

Lausn

9


2) Fimm eldspýtur mynda gíraffa. Getur þú með því að færa aðeins eina eldspýtu látið gíraffann færast eða snúast?

Lausn

Kristnir og Rómverjar

Þátttakendur draga miða. Á miðunum er annað hvort einn fiskur (leynimerkið) eða tvær rómverskar súlur. Á einum miða eru bæði merkin. Gott er að hafa ca 3-5 rómverja og einn af þeim er kristni rómverjinn og hinir allir kristnir. Kristnu mennirnir eiga því að vera töluvert fleiri. Mjög mikilvægt er að brýna fyrir krökkunum að það má alls ekki sýna öðrum þátttakendum miðana, sérstaklega ekki rómverjarnir því þá fatta þeir strax hver kristni rómverjinn er og þá er leikurinn strax búinn. Ef þú dregur miða með fisk ertu kristinn en ef þú dregur miða með súlum ertu rómverji. Kristni rómverjinn er aðili sem dregur miða þar sem bæði merkin eru á miðanum. Leikurinn gengur út á að rómverjarnir eiga að reyna að handsama kristnu mennina með því að klukka þá. Þegar þeir hafa verið klukkaðir verða þeir að fylgja rómverjunum í fangelsið. Rómverjarnir vinna þegar að þeir eru búnir að handsama alla kristnu mennina með sér í fangelsið. Kristnu mennirnir geta hins vegar sloppið úr fangelsinu fyrir tilstilli kristna rómverjans. Í byrjun leiks þegar kristnu mennirnir eru beðnir um að hópa sig saman og rómverjarnir eru beðnir um að hópa sig saman til að allir sjái hverjir eru hvað og þá fer kristni rómverjinn með rómverjunum. Hann þykist vera rómverji en er í raun að hjálpa kristnu mönnunum. Aðeins hann getur frelsað kristnu mennina úr fangelsinu með því að gefa þeim fimmu. Kristni rómverjinn ákveður líka hvar „kapellan” er en það er staðurinn sem kristnu mennirnir þurfa allir að safnast saman á til þess að vinna leikinn. Þegar kristnu mennirnir eru komnir í kapelluna má ekki klukka þá þar (það er stykk). Það má helst ekki vera opinbert hvar kapellan er. Kristni rómverjinn þarf ásamt kristnu mönnunum að láta það berast sín á milli hvar kapellan sé svo það sé ekki eins augljóst fyrir rómverjana. Það getur verið breytilegt hvar kapellan er. Ef að rómverjarnir fatta hvar hún er þá þarf kristinn rómverjinn að vera klógur og breyta staðsetningunni á kapellunni. Ef rómverjarnir fatta hver er kristni rómverjinn og klukka hann er leikurinn búinn. Ef rómverji klukkar annan rómverja sem ekki er kristni rómverjinn eru þeir báðir dauðir og þá fækkar verulega í liði rómverja, þess vegna þurfa rómverjarnir að vera alveg vissir þegar þeir klukka þann sem þeir halda að sé kristni rómverjinn. Tenging við efnið: Fá aðeins að upplifa leynimerkið í gegnum leik.

10


Ι Χ Ø U Σ Jesús

Kristur

Guðs

sonur

frelsari

11


4 Ert þú einnota? Þema

Það kann að vera að fólk hafni okkur en Guð gerir það aldrei.

Það sem þú þarft

o Ruslafata og ýmislegt rusl eins og umbúðir, servéttur, ónýta penna, einnota rakvél eða bara alls konar drasl sem við erum að henda. o Nokkra pappírskarla sem eru klipptir út. o Biblíu til að lesa 2. Pét. 3.9 og Sálm 70.

Meginmál

Náið athygli krakkanna með því að leita að ruslafötu til að henda einhverju sem þið eruð með án þess að tala mikið. Þið gætuð t.d. snýtt ykkur í pappír og hent honum svo í ruslið. Tekið ruslafötuna upp á borð, reynt að skrifa með penna sem virkar ekki og henda honum svo. Nú eða taka kannski upp úr töskunni sinni tómar umbúðir og henda þeim líka með svolitlum leikrænum tilburðum og jafnvel þannig að heyrist hátt þegar draslið skellur í rusladallinum. Takið svo upp einn af pappírskörlunum, lyftið honum upp og horfið á hann og segið: „Ég vil ekki vera vinur þinn lengur. “ Krumpið pappírskarlinn og hendið honum í ruslið. Takið upp annan pappírskarl og gerið eins en segið eitthvað eins og: „Þú mátt ekki vera lengur í liðinu. Þú ert ekki nógu góð/góður. “ Og við þann þriðja segið þið: „Við höfum bara ekkert efni á því að hafa þið hérna í vinnu lengur. Þú ert rekinn. “ Talið um hve sárt það getur verið að upplifa höfnun. Við erum svolítið vön því að hafa fullt af einnota hlutum í kringum okkur (lyftið einhverju drasli upp úr rusladallinum). Dót sem við hendum þegar við erum búin að nota það. Því miður eru sumir sem koma fram við aðra eins og þeir séu bara einnota. En Guð lítur aldrei á okkur sem rusl. Hann hafnar okkur aldrei og hann vill kenna okkur að bera virðingu fyrir hvert öðru og fyrir okkur sjálfum. Kærleikur Guðs til okkar er óendanlega mikill og í Rómverjabréfinu 8. kafla og versum 38-39 standa þessi orð: „Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“

12


Þó við gerum mistök og jafnvel særum aðra, þá er elska Guðs til okkar alltaf til staðar. Og kannski einmitt mest þegar okkur líður ekki nógu vel í hjartanu, þá þráir Guð að við leitum til hans í bæn, biðjum hann um að fyrirgefa okkur og taka frá okkur vanlíðanina. (Takið upp einn krumpaðan pappírskarl og sléttið úr honum). Þetta er það sem Guð vill gera í okkar lífi. Hann vill slétta krumpurnar og græða sárin sem hafa myndast þegar einhver hefur hafnað okkur eða sært. Hann vill líka hjálpa okkur að takast á við það sem við höfum gert rangt og fyrirgefa okkur. Hann meira að segja hefur gefið okkur fyrirheit um eilíft líf á himnum, vegna þess að í augum Guðs er enginn einnota.

Bæn

Góði Guð við þökkum þér fyrir lífið sjálft. Takk fyrir sköpun þína og allt það fallega í náttúrunni. Vilt þú hjálpa okkur til að vernda jörðina og koma fram við hvert annað af kærleika og virðingu. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Dagblaðafjör

Dagblaðafjör er í raun samansafn leikja sem hafa það sammerkt að notast við dagblöð. Gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn og leyfið jafnvel krökkunum að koma með hugmyndir að leikjum. o Dagblaðadans er leikur þar sem tveir og tveir eiga að dansa saman inn á einni opnu úr dagblaði án þess að detta út af. Eftir stuttan dans er tónlistin stoppuð og blaðið brotið saman og aftur stiginn dans. Þannig gengur leikurinn þar til allir hafa dottið út af sinni opnu. o Slá í læri er leikur þar sem allir sitja í hring. Einn er í miðjunni og þarf að slá með upprúlluðu dagblaði í lærið á þeim sem nefndur er á nafn til að reyna að komast í sæti. Sá sem situr getur bjargað sér með því að nefna nafn á einhverjum öðrum sem situr í hringnum. o Dagblaðamúmíu er hægt að gera með því að skipta upp í þriggja manna lið þar sem tveir úr liðinu reyna að pakka þeim þriðja inn í dagblöð. Gott er að hafa límbandsrúllu fyrir hvert lið. o Hvað er í pakkanum er leikur þar sem karamellu eða einhverju nammi er pakkað inn í mörg lög af dagblöðum og límbandi. Tónlist er spiluð og pakkinn gengur hringinn en um leið og tónlistin stoppar á sá/sú sem heldur á pakkanum að reyna að opna hann. Um leið og tónlistin byrjar á ný fer pakkinn aftur af stað.

Rauðhetta og úlfurinn

Þetta er hlaupaleikur sem þarf annað hvort að fara fram í stórum og rúmgóðum sal eða hreinlega úti. Allir para sig saman og krækja saman við olnboga. Tveir einstaklingar eru valdir og er annar úlfurinn og hinn Rauðhetta. Úlfurinn á að reyna að ná Rauðhettu en hún getur bjargað sér með því að grípa undir handlegg á einhverjum úr einu af pörunum sem stendur einhvers staðar út á vellinum. Þegar Rauðhetta krækir í einhvern á sá eða sú sem stendur hinum megin við viðkomandi að hlaupa af stað og er nú orðinn Rauðhetta. Ef úlfurinn nær að klukka Rauðhettu skipta þau um hlutverk og eltingarleikurinn heldur áfram.

13


5 Öllum nöfnum æðra Þema

Hversu dýrmæt erum við í augum Guðs?

Það sem þú þarft

o Nokkur pappaspjöld eða renninga sem þú getur skrifað á. Skrifaðu niður titla á „mikilvægu fólki“ eins og forseti, poppstjarna, milljónamæringur og íþróttastjarna. Skrifaðu svo nafnið Jesús á einn renning. Þú þarft að hafa nokkra auða renninga og tússpenna. o Biblíu til að lesa Fil. 2.9-11 og Efes. 2.6.

Meginmál

Spyrjið krakkana hvort þau geti nefnt eitthvað fólk sem sé mikilvægt. Ef þau nefna fólk með nafni látið þá það fólk falla inn í einhverja flokka eða búið til nýjan flokk. Skrifið niður nýja flokka um leið og þeir verða til eða takið upp spjöldin sem þið voruð búin að skrifa á. Fáið krakka til að halda uppi spjaldi með hverjum flokk þannig að spjöldin séu í röð. Haltu áfram að finna flokka eða dæmi þar til þú ert kominn með 7-8 flokka af „mikilvægu fólki“.

Dettur ykkur einhver í hug sem er mikilvægari en allir þessir?... Lesið Fillippíbréfið 2. kafla 9.-11. vers. „Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn“.

14


Fáið einn krakka til að taka spjaldið með nafni Jesú og taka sér stöðu upp á stól fyrir aftan alla hina. Jesú nafn er hverju nafni æðra. Fáið tvo sjálfboðaliða til viðbótar og skrifið nöfn þeirra á sitt hvorn renninginn. Spyrjið krakkana hvar þau haldi að þessi tvö eigi heima – eða bara þau sjálf – hvar passa þau meðal þessa mikilvæga fólks? Eiga þau kannski bara að setjast á gólfið fyrir framan? Hvar staðsetur Guð okkur? Í öðru bréfi í Nýja Testamentinu sem Páll postuli skrifaði líka segir: „Hann reisti okkur upp með Kristi Jesú og bjó okkur stað hjá honum í himinhæðum“. (Efesus 2.6) Takið tvo stóla og bjóðið krökkunum að standa sitt hvoru megin við Jesú spjaldið með nöfnin sín. Hver er mikilvægur núna? Við erum mikilvæg í augum Guðs. Við erum börnin hans og hann elskar okkur hvert og eitt.

Bæn

Góði Guð við þökkum þér fyrir kærleika þinn. Takk fyrir son þinn Jesú sem þú gafst á krossi til fyrirgefningar syndanna. Vilt þú hjálpa okkur að sjá hvert annað með augum kærleikans og læra að meta hvert annað og okkur sjálf sem þína góðu og fullkomnu sköpun. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Hvísluleikurinn

Hvísluleikurinn er löngu sígildur en þá sitja allir í hring og einhver einn hvíslar orð í eyra og það er látið ganga hringinn og svo þarf sá sem er síðastur í hringnum að segja hvað hann/hún heyrði og oft er fyndið hvernig orðin breytast. Stundum er hægt að hafa stuttar setningar. Mikilvægt er að minna krakkana á að dónaskapur og ljótt orðbragð er ekki við hæfi.

Ruslafötu-hringekja

Skiptið þátttakendum í tvö lið og raðið upp eins og sýnt er á myndinni. Í miðjunni er ruslafata með tveimur boltum og þegar leiðtoginn kallar númer stökkva þeir tveir sem hafa númer inn í hringinn, taka bolta, fara út úr hringnum og hlaupa einn hring í kringum alla, skila boltanum aftur í körfuna og taka sér loks stöðu þar sem þeir byrjuðu. Það lið sem er á undan í hverri umferð fær stig. Leiðtoginn hrópar annað númer og leikurinn heldur áfram.

15


6 Vandræðalegt augnablik Þema

Mistök eru ekki endalok heimsins.

Það sem þú þarft

o Biblíu til að rifja upp söguna um afneitun Péturs úr Mark. 14.66-72.

Meginmál

„Var ég rauð/ur í framan“? „Ég vildi að ég hefði getað látið mig hverfa“. „Mér leið eins og hálfvita“. Svona segjum við stundum þegar okkur verður eitthvað á eða við gerum mistök. Það er ekkert sérstaklega þægileg tilfinning. Það eru til ótal sögur af vandræðalegum mistökum. o Einu sinni var ákveðið að hafa pappaspjald af lögreglumanni í fullri stærð inn í matvöruverslun í litlum bæ í Bretlandi til að draga úr því að fólk væri að stela. Það fór nú ekki betur en svo að einhver stal lögreglumanninum. Þ.e.a.s. pappaspjaldinu. o Einu sinni var her að prófa sig áfram með hitasækna flaug sem átti að nota til að skjóta á skriðdreka en það var dýrt spaug því flaugin hitti ekki ónýta skriðdrekann sem átti að skjóta heldur sprengdi upp stóran bjórtank sem var rétt hjá. o Svo var það maðurinn sem var með lögguna á hælunum eftir að hafa rænt bensínstöð í Flórida. Þetta var svona týpískur eltingaleikur eins og maður sér í bíómyndunum nema hann komst ekki langt af því að hann varð bensínlaus. Löggan sagði við fréttamenn á staðnum að það væri pínu klaufalegt að fylla ekki fyrst á bensíntankinn ef maður á annað borð ætlar að ræna bensínstöð.

Frekar slæm tilfinning

Það er auðvelt að hlægja að svona vitleysu en það er ekki jafn fyndið þegar við sjálf gerum mistök. Tilfinningin getur verið slæm en spurningin er: Eru mistök endalok heimsins eða getum við staðið aftur upp og lært af eigin mistökum? Segið söguna af mistökum Péturs postula úr Markúsarguðspjalli 14.66-72. Takið eftir að þegar Pétur áttaði sig á mistökum sínum þá brotnaði hann niður og grét. Pétur hefði getað gefist upp og jafnvel bara látið sig hverfa en hann gerði það ekki. Pétur hitti Jesú eftir að Jesús reis upp frá dauðum og Jesús spurði hann þrisvar sinnum hvort hann elskaði sig. Þannig fékk Pétur tækifæri til að bæta fyrir mistök sín og hann fékk það stóra hlutverk að vera leiðtogi í fyrstu kirkju kristinna. Ef hann hefði gefist upp þegar hann gerði mistökin og hafnað Jesú þá hefði hann farið á mis við svo margt. Jesús hjálpaði Pétri að segja skilið við mistökin og halda áfram að gera góða hluti.

16


Bæn

Þegar kemur að bæninni má athuga hvort hægt sé að fá hópinn til að íhuga í kyrrð sín eigin mistök eða eitthvað annað sem lætur okkur líða illa. Góði Guð, vilt þú hjálpa okkur til að líða ekki illa út af mistökum okkar. Fyrirgefðu okkur og kenndu okkur hvernig við getum lært af þeim og þannig þroskast í átt að því að vera besta útgáfan af okkur sjálfum. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Handaflækja

Allir standa í hring, loka augunum, rétta fram hendurnar og ganga inn í miðjan hringinn. Þar eiga allir að finna hendur til að taka í án þess að opna augun. Þegar tryggt er að allir hafi hendur til að halda í og engin hendi er stök má opna augun og reyna að losa úr flækjunni án þess að sleppa höndum.

Býfluguleikurinn

Allir ganga um gólf og leika suðandi býflugur. Stjórnandi leiksins kallar upp tölu og þá eiga þátttakendur að búa til hópa með þeim fjölda. Gott er að telja heildarfjölda þátttakenda og byrja á tölum sem ganga upp svo enginn sé úr í upphafi. Þegar fáir eru eftir má enda leikinn á því að kalla heildarfjöldann sem kemur þá saman í einn hóp og það eru sigurvegararnir. Athugið að í þessum leik er mikilvægt að fylgjast vel með því að enginn sé skilinn útundan eða að þéttir vinahópar séu að halda hópinn endalaust í gegnum leikinn.

En ég má ekki hlægja

Þessi leikur getur verið pínu vandræðalegur svo hann passar ágætlega við þemað. Allir sitja í hring og einhver byrjar í miðjunni og á að skríða á milli og reyna að koma öðrum þátttakendum til að hlægja með því að mjálma fyrir framan viðkomandi. Sá/sú á að klappa kisu og segja: „Þú ert góð kisa en ég má ekki hlægja“. Ef það tekst þá skríður kisa að næsta fórnarlambi og reynir aftur. Ef sá sem er að svara fer að hlægja þarf hann að láta sætið sitt og verður að kisu.

17


7 Verum öðrum hvatning! Þema

Verum dugleg að hvetja hvert annað áfram.

Það sem þú þarft

o Útvarpstæki. o Hnattlíkan ef það er hægt.

Meginmál

Kveikið á útvarpstækinu og byrjið að leita að stöð og farið á milli stöðva og látið gjarnan heyrast suð á milli. Vita krakkarnir hver það var sem gerði ótal uppgötvanir sem gera okkur kleift að senda og taka á móti útvarpsbylgjum? Hann hét Marconi. Hljómar svolítið eins og makkaróna – getið þið þá giskað frá hvaða landi hann var? Hann var ítalskur. Engu að síður voru margar af hans tilraunum og uppgötvunum gerðar í Englandi. Við ætlum að fá að heyra hvers vegna hann gerði þær ekki á Ítalíu, heldur á Englandi. Hverjum finnst spennandi að gera tilraunir með rafhlöður, víra og perur? Það fannst Marconi líka en reyndar hafði hann engar perur því það var ekki búið að finna þær upp þegar hann var að prófa alls konar hluti. Marconi fæddist árið 1874. Eitt vakti hjá honum sérstaka forvitni. Hann tók eftir því að ef hann framkallaði neista í rafrás þá kom fram örlítill straumur á annarri rafrás sem var nálægt en samt ótengd. Hann vildi reyna átta sig á hvað þarna var í gangi og þetta var upphafið af þráðlausum sendingum. Marconi hélt áfram að gera tilraunir og átta sig á þessu en fékk litla sem enga hvatningu á Ítalíu svo hann flutti til Englands og þar fékk hann mikla hvatningu til að halda vinnu sinni áfram. Árið 1896 tókst honum að senda merki rúma 6 kílómetra yfir akur. Seinna sama ár tókst honum að senda merki sem náði yfir 14 kílómetra breiðan fjörð. En fólk efaðist um að hægt yrði að ná að senda útvarpsmerki um langan veg af því að menn töldu að merkið færi í beina línu og myndi því fara út í geim. Það vakti því heimsathygli þegar Marconi tókst að senda skeyti frá Cornwall á Englandi til Nýja Sjálands í desember 1901. Við skulum átta okkur á því að þegar þetta gerðist þá var fljótasta leiðin fyrir skilaboð á milli landa, gufubátur. Árið 1909 fékk Marconi Nóbelsverðlaun í eðlisfræði. Í dag eru allar sjónvarps- og útvarpssendingar byggðar á þeirri tækni sem Marconi uppgötvaði. Hugsið ykkur ef enginn hefði hvatt hann áfram. Ef hann hefði ekki flutt til Englands og haldið áfram að vinna að þessu. Kannski hefðu liðið mörg ár þar til einhver annar hefði uppgötvað það sem Marconi gerði. Við sjáum oft fólk sem fær athygli fyrir góðan og merkilegan árangur. En það sem við sjáum sjaldnar er fólkið sem er í stuðningsliðinu. Að baki hverjum þeim sem nær framúrskarandi árangri er oftast nær einhverjir sem eru á fullu að hvetja. Það verða ekki allir upppfinningamenn eða íþróttahetjur en öll getum við verið í hvatningsliðinu.

18


Frægur stuðningsmaður Einn frægasti prédikari Biblíunnar var Páll postuli. Hann fór með boðskapinn um Jesú Krist um allt Rómaveldi. Hann átti vin sem reyndar hafði kynnt hann upphaflega fyrir leiðtogum frumkirkjunnar. Vin sem fylgdi honum í margar af trúboðsferðunum. Samt lesum við bara nafn hans á einum stað í Biblíunni en hann hét Jósef. Páll kallar hann reyndar stundum Barnabas þegar hann skrifar um hann en nafnið Barnabas þýðir einmitt „sá sem hvetur“. Hvernig getum við verið eins og Barnabas? Við getum verið dugleg að segja hluti eins og: „Þetta er flott hjá þér”; „Áfram, þú getur þetta”; „Reyndu bara og ég skal svo hjálpa þér”. Eitt af því sem við fáum í staðinn fyrir að vera dugleg að hvetja aðra er yfirleitt bros og þakkir. Svo fáum við líka hvatningu til baka. Það er aldrei að vita nema við séum stundum að hvetja áfram einhvern sem á eftir að ná langt. Kannski bara næsti Marconi eða einhver sem fær Nóbelsverðlaun. Hvatningin er þessi: Verum dugleg að hvetja hvert annað áfram. Æfum okkur í því.

Bæn

Góði Guð við þökkum þér fyrir alla þá sem hvetja okkur áfram. Hjálpaðu okkur að vera hvetjandi við aðra og gefðu okkur aukna trú á eigin getu, svo við gefumst ekki upp þó á móti blási. Takk fyrir að þú hefur trú á okkur og hvetur okkur áfram til góðra verka. Viltu blessa fjölskyldur okkar og ástvini og vertu með okkur í starfinu hér í KFUM og KFUK. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Minute to win it

Minute to win it er skemmtilegur leikur sem auðvelt er að tengja við mikilvægi þess að vera hvetjandi. Þrautirnar má finna á veraldarvefnum og best er að gúggla „Minute to win it blueprints” en þá fær maður mikið úrval þrauta sem þátttakendur eiga að reyna að leysa á innan við mínútu. Á youtube eru líka nokkrar útgáfur af Minute to win it klukkunni sem telur niður eina mínútu með skemmtilegu og spennandi stefi í bakgrunni en það eykur nokkuð á eftirvæntinguna ef klukkan er látin ganga á meðan að þraut er leyst. Ef hópurinn er mjög fjölmennur má skipta í lið og fyrir hverja þraut þarf að senda einn úr hverju liði. Eins er stundum skemmtilegt að hafa nokkrar þrautir í gangi á sama tíma og krakkarnir fara þá í röð við hverja stöð og fara á milli.

Nafnabingó

Allir fá í hendurnar blöð sem búið er að skipta í 16 reiti, fjóra á hvorn veg. Þegar merki er gefið eiga allir að ganga um og safna 16 eiginhandaráritunum. Þegar því er lokið hefst bingóið. Dregið er úr potti þar sem er að finna nöfn allra þátttakenda. Sá/sú sem fyrst fær fjögur nöfn í röð vinnur. Ef færri en 16 eru á fundinum má leyfa sama nafn tvisvar en þá má það ekki vera í sömu línu.

Barnabas merki

Það má hugsa sér að búa til sérstök Barnabas merki á fundinum og nota jafnvel til þess barmmerkjavél sem til er hjá félaginu. Merkin eru þá hugsuð sem viðurkenning til þeirra sem duglegir eru að hvetja aðra. Annað hvort geta leiðtogar tekið öll merkin sem útbúin eru og gefið krökkunum þau á næstu fundum eða leyft krökkunum að fá 2-3 merki sem þau geta gefið einhverjum sem hvetja þau áfram. Á merkjunum gæti t.d. staðið „Takk fyrir hvatningu“ og krakkarnir gætu gefið foreldrum, kennurum, þjálfurum eða vinum. Hægt er að fá barmmerkjavél lánaða á Holtavegi en mikilvægt er að panta tímanlega svo tryggt sé að vélin sé á lausu og nóg til að efni.

19


8 Það er ekki alltaf auðvelt

að þjóna öðrum Þema

Að þjóna náunganum í kærleika.

Það sem þú þarft

o Skál, vatn, sápu og handklæði. o Undirbúðu þig að endursegja söguna af því þegar Jesús þvoði fætur lærisveinanna. (Sjá Jóh. 13.1-20).

Meginmál

Fáið tvo sjálfboðaliða og biðjið annan þeirra um að þvo fætur hins. Vonandi munu krakkarnir segja „oojj“. Endursegið söguna af því þegar Jesús þvoði fætur lærisveinanna. Biðjið krakkana um að hjálpa ykkur með því að segja „oojj“ í hvert sinn sem þið réttið upp aðra höndina. Útskýrið fyrir krökkunum að á dögum Jesú gengu menn um berfættir og því voru fæturnir oft skítugir („oojj“). Mengunin var ekki frá bílum, heldur miklu frekar asnaskítur („oojj“) eða frá Kameldýrum („oojj“). Svo sátu menn á gólfinu eða þannig að fæturnir á næsta manni voru kannski bara næstum því framan í manni („oojj“). Og þá voru gjarnan þrælar sem þurftu að þvo fætur gestanna („oojj“). En það eru engir þrælar í þessari sögu. Það er Jesús sem þrífur fætur lærisveinanna og hann segir að við eigum að gera það líka. Ekki bókstaflega - við göngum í skóm og sokkum og förum í sturtu sjálf ef við erum skítug. Það sem hann átti við er að við eigum að vera tilbúin til að þjóna hvert öðru. Taka að okkur verkin sem jafnvel enginn annar vill gera. Dettur ykkur í hug einhver verk sem flestir forðast? Hverjir gera skítverkin? Jesús kennir okkur mikilvægi þess að þjóna hvert öðru í kærleika. Stundum þýðir það að við þurfum að gera eitthvað sem okkur finnst leiðinlegt eða pínu ógeðslegt en við gerum það til að fylgja fordæmi Jesú, að þjóna náunganum í kærleika.

Íhugun og umræða

Getum við, hvert í sínu lagi, hugsað um eitthvað verkefni sem við gætum tekið að okkur? Þetta gæti verið heima eða í skólanum og kannski þannig að mamma eða pabbi þurfi ekki alltaf að sjá um það. Hjálpsemi og þjónusta er eitthvað sem gerir okkur að betri manneskjum. Eru einhverjir sem vilja deila sínum hugmyndum með hópnum?

20


Bæn

Góði Guð við þökkum þér fyrir son þinn Jesú sem þú sendir í þennan heim. Hjálpaðu okkur að læra hvernig við getum þjónað náunganum í kærleika. Hjálpaðu okkur að vera tilbúin að aðstoða þá sem þurfa á hjálp að halda. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Ha-ha-ha

Þessi leikur er ágætis hlátursprengja. Allir þurfa að leggjast á bakið og raða sér þannig að höfuðið (hnakkinn) liggur á maganum á næsta þátttakanda. (sjá mynd). Sá sem er fyrstur í röðinni segir eitt „ha“ og næsti segir tvö, þriðji þrjú og þannig koll af kolli án þess að neinn fari að hlægja. Ef einhver í hópnum fer að hlægja þarf að byrja upp á nýtt. Markmiðið er að komast út á enda án þess að nokkur springi úr hlátri. Athugið að ekki er ráðlegt að vera með fleiri en 12-15 í hverri röð því annars getur leikurinn orðið óendanlegur og langdreginn fyrir þá sem bíða út á enda og fá aldrei að vera með af því að einhver er alltaf sprunginn úr hlátri löngu áður.

Zip Zap Booojjng:

Þátttakendur standa í hring. Zip hljóð er látið ganga til næsta manns á vinstri hönd með því að segja Zip og benda á næsta mann, eða segja Zap og láta ganga til hægri.. Hægt er að breyta stefnu hljóðsins á tvennan hátt. Annars vegar ef sá sem fær Zip, snýr hringnum við með því að segja Zap og þá fer Zap til baka eða hann hoppar upp og æpir af lífs og sálar kröftum BOOOJJNG og bendir á hvern sem er inni í hringnum. Þá á sá sem fær BOOOJJNG að halda áfram að senda Zip til næsta manns til vinstri eða Zap til hægri, eða svara með BOOOJJNG. Markmið leiksins er að efla hópinn í að vinna saman og einbeita sér þannig að hægt sé með æfingu að ná auknum hraða í leikinn.

21


9 Að velja það rétta Þema

Það er mikilvægt að velja að gera það sem er rétt.

Það sem þú þarft

o Biblíu til að undirbúa þig að endursegja söguna úr 1. Sam. 24.

Meginmál

Það er mikilvægt að velja rétt og breyta rétt. Það fylgir því mikið lán og blessun að gera það rétta hverju sinni. Hvern einasta dag erum við að velja ýmislegt. Sumt skiptir ekki miklu máli eins og í hvaða röð við gerum hlutina. En annað getur skipt meira máli. Það að við höfum val og getu til að taka ákvörðun um hvað við gerum eða gerum ekki er eitt af því sem gerir okkur að manneskjum. Í 1. Samúelsbók í Gamla Testamentinu lesum við frásögn af Davíð sem felldi Golíat. Eftir að hann hafði fellt Golíat varð hann að hetju. Konungur Ísraelsmanna, Sál, varð afbrýðissamur út í hann og hélt jafnvel að Davíð ætlaði að drepa sig. Svo var það eitt sinn að Sál var ásamt hermönnum sínum að leita að Davíð til að drepa hann að þeir komu að stórum helli og fóru inn í hann til að hvílast. Það sem Sál vissi ekki var að innar í hellinum var Davíð að fela sig með sínum mönnum. Davíð fór svo þegar Sál var sofandi og skar hluta af skikkju Sáls en í hjarta sínu þá vildi hann ekki drepa Sál. Daginn eftir þegar Sál var farinn úr hellinum kom Davíð út og hrópaði á eftir honum og sýndi honum hvað hann hafði gert. Þá skyldi Sál að Davíð var góður maður og að Guð var í hjarta hans. Seinna átti Davíð svo eftir að verða konungur og taka við af Sál en þessi ákvörðun að þyrma lífi Sáls og gera það rétta í stöðunni var kannski lykillinn að því að hann varð síðar konungur.

22


Til umhugsunar

Hve mörg okkar hafa sagt eða hugsað nýlega, „ég skal sko hefna mín á þér“? Kannski höfum við meira að segja ímyndað okkur hvað við ætluðum að gera til að hefna okkar. En hvað ætli gerist þegar við ákveðum að launa illt með góðu? Guð launaði Davíð að hann skyldi þyrma lífi Sáls þó svo að Sál hefði verið búinn að hóta því að drepa Davíð.

Bæn

Góði Guð vilt þú hjálpa okkur til að velja það rétta. Vilt þú hjálpa okkur að koma fram við náungann af kærleika og vinsemd. Við þökkum þér fyrir allt sem þú gefur okkur og biðjum þig að blessa fjölskyldur okkar og vini. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Baunaleikurinn

Í þessum leik fá allir fimm maísbaunir í upphafi. Allir ganga um gólf og þegar tveir þátttakendur mætast réttir annar þeirra fram krepptan lófa og segir hvaða fjölda af baunum hann er með í hendinni. Hinn þátttakandinn þarf að gera upp við sig hvort þetta sé satt eða logið. Ef hann hefur rétt fyrir sér fær hann eina baun en annars þarf hann að gefa eina baun. Þannig heldur leikurinn áfram í nokkurn tíma þar til stjórnandinn segir stopp og þá er að athuga hver sé með flestar baunir. Athugið að hægt er að halda áfram þó maður hafi tapað öllum sínum baunum, en þá getur maður ekki gefið baunir, bara fengið. Leiðtogar sem taka þátt í leiknum t.d. stjórnandinn, getur prófað að segja alltaf satt og reyna samt að vinna nokkrar baunir. Í lokin má svo benda á að í leiknum höfðu allir val um að segja satt eða ekki. Kannski var ekkert verra að segja bara alltaf satt. En ekki ásaka krakkana um að hafa verið að ljúga heldur notið bara tækifærið til að benda á hve algengt það sé að við stöndum frammi fyrir valinu.

Tvennt satt, ein lygi

Í þessum leik eiga allir að fá lítið blað og penna og skrifa þrjár staðreyndir um sjálfa sig á blaðið. Tvær eiga að vera sannar en ein lygi. Þegar allir hafa skilað inn blöðunum dregur stjórnandi upp eitt blað í einu og les allar fullyrðingarnar þrjár. Hópurinn má giska þrisvar hver það sé sem á blaðið en ef það tekst ekki fer það neðst í bunkann. Þegar búið er að finna út hver það er sem á blaðið þarf að giska á hvaða staðreynd sé ekki sönn. Skemmtilegur leikur þar sem þátttakendur kynnast betur. Mikilvægt er í upphafi að minna krakkana á að vera ekki með dónaskap eða óviðeigandi staðreyndir á blöðunum. Ef það gerist þá á stjórnandinn ekki að lesa upp af því blaði.

23


10 Það sem þú gerir heyrist

hærra en það sem þú segir Þema

Það sem við gerum er mikilvægara en það hvað við segjum.

Meginmál

Spurðu krakkana hvað þau segðu ef sérfræðingur væri væntanlegur í skólann til að fjalla um efnið: „Að lifa af út í villtri náttúrunni“ en tíminn frestaðist því hann lenti í sjálfheldu og þurfti að fá hjálp frá björgunarsveitinni. Þetta gerðist í raun og veru í október 1992 í skóla í Englandi sem heitir All Hallows. Skólinn er staðsettur í sveitahéraði, nálægt sjónum og ekki langt frá eru brattir klettar niður við sjó. Fyrirlesarinn, Alistair Emms, var mættur tímanlega og ákvað að fá sér göngutúr. Þegar hann hafði ekki skilað sér eftir klukkutíma var farið að leita að honum. All Hallows er sérstakur skóli fyrir þær sakir að þetta er eini skólinn á Englandi sem er með sína eigin björgunarsveit því landslagið í kring er svo stórskorið og margar hættur allt í kring. Leitarhópurinn stækkaði smátt og smátt því Alistair fannst ekki svo auðveldlega. Þegar hann loksins fannst eftir 5 klukkustunda leit þá höfðu um 40 leitarmenn, 5 lögregluþjónar, hundur og tvær björgunarþyrlur tekið þátt í leitinni. Alistair hafði lent í sjálfheldu á lítillri klettasyllu niður við sjóinn og komst ekki til baka. Að lokum þurfti að hífa hann upp í þyrlu til að bjarga honum. Einhverra hluta vegna þótti skólayfirvöldum ekki ástæða til að bóka nýjan tíma fyrir fyrirlestur Alistair um hvernig maður ætti að bjarga sér út í villtri náttúrunni.

Það sem við segjum - Það sem við gerum.

Hvort er mikilvægara: Það sem við segjum eða það sem við gerum? Við getum nefnt sem dæmi: Hver er umhverfisvænni, sá sem býr til flott veggspjald eða sá sem tínir upp rusl og slekkur ljós? Jesús sagði einu sinni einfalda sögu sem endaði með spurningu. Kannski svarar hún þessum pælingum. Hún er í Mattheusarguðspjalli í Nýja Testamentinu. Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“ (Matt. 21.28-31a). Það er gamalt orðtæki sem segir: Það sem þú gerir heyrist hærra en það sem þú segir. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við vöndum það sem við gerum og reynum auðvitað líka að haga orðum okkar í samræmi við verkin.

24


Bæn

Góði Guð, þakka þér fyrir að þú sleppir aldrei af okkur hendinni og yfirgefur okkur aldrei. Viltu hjálpa okkur að vera boðberar kærleikans og láttu verkin okkar bera þess vitni að við erum börnin þín. Takk fyrir að þú heyrir allar okkar bænir. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Öskur-leikur

Þátttakendur standa í hring og horfa allir niður í gólf. Stjórnandinn segir einn, tveir og nú og þá eiga allir að horfa ákveðið í augu annars þátttakanda í hringnum. Ef augnaráð tveggja mætast eiga þeir að öskra, þeir eru þá úr og það fækkar í hringnum.

Villta vestrið

Þátttakendur standa í hring og mynda byssu með því að leggja saman hendur og beygja olnboga þannig að vísifingur hvorrar handar hvíla við hökuna. Einn fær að byrja með ímyndaða kúlu og skýtur einhvern í hringnum. Sá sem er skotinn þarf að vera snöggur að beygja sig niður og þeir tveir sem standa sitt hvoru megin við hinn skotna eiga að reyna að vera fyrri til að skjóta hvorn annan. Ef sá sem skotinn var í upphafi er of seinn að beygja sig þá verður hann skotinn af þeim sem standa honum til vinstri eða hægri handar. Ef hins vegar hann nær að beygja sig verður sá úr sem seinni er að skjóta, annað hvort sá sem stóð vinstra megin eða hægra megin. Sá sem ekki er úr er nú kominn með kúluna og skýtur einhvern í hringnum og leikurinn heldur áfram.

25


11 Skuldin að fullu greidd Þema

Boðskapur föstudagsins langa

Meginmál

Í þessari samveru reynum við að útskýra fyrir krökkunum hvað gerðist á föstudeginum langa þegar Jesús var krossfestur. Til að einfalda boðskapinn er sögð saga af konu sem ekki gat greitt skuld og var dæmd í fangelsi. Hvað er líkt með konu sem ekki gat borgað sekt og föstudeginum langa? Einu sinni var kona í Bandaríkjunum, Sharon Jones, sem þurfti að mæta fyrir dómara því hún hafði ekki greitt 10.000 króna sekt. Konan var ólétt og átti að eiga barn eftir aðeins tvær vikur og hún átti 6 börn fyrir. Dómarinn dæmdi hana í 5 daga fangelsi vegna þess að hún hafði ekki getað greitt sektina. Konan brotnaði saman og grét yfir því að þurfa að fara í fangelsi. En í dómssalnum var lögfræðingur, kona að nafni Carole Anthony, henni fannst sárt að horfa upp á þetta og fékk nokkra úr salnum með sér til að leggja í púkk og saman greiddu þau sektina fyrir Sharon. Sekt sem hún gat ekki borgað sjálf. Nú var hún frjáls, sektin að fullu greidd og hún þurfti ekki að fara í fangelsi.

Við áttum ógreidda sekt

Hvernig tengist þessi saga föstudeginum langa? Í Biblíunni segir að við öll skulduðum sekt sem var svo stór að við gátum ekki borgað hana sjálf. Páll postuli orðar það svona: Hann afmáði skuldabréfið sem þjakaði okkur með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn (Kól. 2.14). Skuldabréfið sem Páll postuli er að tala um er synd. Synd er þegar við breytum rangt gegn Guði og gegn náunganum. Þetta er langur listi því við gerum öll mistök. Því miður komum við stundum illa fram við aðra, segjum kannski ósatt eða jafnvel tökum eitthvað án þess að mega það. En Jesús dó á krossinum fyrir syndir okkar í eitt skipti fyrir öll. Hann negldi þennan langa lista á krossinn. Páll segir: Í Jesú eigum við endurlausnina, fyrirgefningu synda okkar (Kól. 1.14). Á ensku heitir föstudagurinn langi „Good Friday“ eða góði föstudagurinn. Góður, vegna þess að á þeim degi tók Jesús á sig allar okkar syndir og hjá honum fáum við fyrirgefningu. Við þurfum ekki að láta slæma hluti þjaka okkur heldur getum við í bæninni afhent Guði þá og beðið hann um að fyrirgefa okkur. En við biðjum Guð líka að hjálpa okkur að gera það sem er rétt og láta af því sem særir eða brýtur niður. Því það er vilji Guðs að við reynum öll okkar besta. 26


Bæn

Góði Guð, við biðjum þig um að fyrirgefa okkur allar okkar syndir. Þakka þér fyrir að þú gafst son þinn á krossi til að deyja fyrir okkar misgjörðir. Hjálpaðu okkur að lifa í kærleika og sátt við alla menn. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Ég er frábær

Þátttakendur sitja allir í hring nema einn sem ekki hefur sæti og byrjar því inn í hringnum. Hann segir eitthvað sem er satt um sjálfan sig en byrjar á orðunum: ég er frábær af því að… Allir sem geta tekið undir fullyrðinguna eiga að finna sér nýtt sæti og þá er tækifæri fyrir þann sem var í miðjunni að ná lausu sæti.

Bobbity Bob Bob Bob

Þessi leikur er til í nokkrum útgáfum og ekkert að því að leyfa hugmyndafluginu að flæða og bæta við eða breyta að vild. Bæði er hægt að spila leikinn þannig að einn leiðtogi sé stjórnandi allan tímann og þeir sem gera mistök verða úr eða að sá sem gerir mistök fari inn í hringinn og verði stjórnandi. Stjórnandinn stendur inn í miðjum hring, bendir á einhvern, gefur skipun og telur upp á fimm á meðan skipuninni er framfylgt. Yfirleitt þurfa þrír þátttakendur að taka þátt í að gera eitthvað þegar stjórnandinn bendir á einhvern (þá þeir sem standa honum til beggja hliða). Nema þegar stjórnandinn segir Bobbity Bob Bob Bob eða bara Bob þá beinast spjótin bara að þeim sem bent er á (sjá nánari útskýringu hér að neðan). Hér að neðan koma nokkrar skipanir sem hægt er að nota en stundum þegar þátttakendur eru yngri er gott að hafa færri skipanir í gangi. Brauðrist – Sá sem bent er á þarf að hoppa eins brauð sem er að skjótast upp úr brauðrist og segja boíng, boíng. Þeir sem eru til hliðar eiga að snúa sér að brauðinu og rétta fram báðar hendur lárétt og mynda þannig brauðrist. Charlies angels – Sá sem bent er á tekur sér stellingu með byssu í báðum höndum og þeir sem eru til hliðar snúa baki í viðkomandi með byssuna á lofti. Þvottavél – Sá sem er í miðjunni snýr hausnum í hringi eins og hann sé inn í þvottavél. Hinir tveir taka höndum saman fyrir framan andlitið á honum og mynda hring. Bobbity Bob Bob Bob – Sá sem bent er á þarf að ná að segja Bob áður en stjórnandinn hefur náð að segja Bobbity Bob Bob Bob.

27


12 Er-fit-tað-þek-kja Þema

Vegurinn til Emmaus. Hluti af páskafrásögninni.

Það sem þú þarft

o Að búa til nokkur orð eins og dæmin sýna hér að neðan. Taka þarf tillit til aldurs krakkanna. o Biblíu til að rifja upp frásögnina af veginum til Emmaus úr Lúk. 24.13-35.

Meginmál

Skrifaðu upp á töflu eða blað nokkur orð þar sem búið er að slíta þau í sundur og fáið krakkana til að lesa þau upphátt. Sýnið bara eitt orð í einu og sjáið hvernig þeim gengur að þekkja orðin. Dæmi: slök – kvi – lið – sma – ður, ístru – flan - ir, me – iri – hát – tar, súk – kul – aðir – ús – ína. Til að gera þetta jafnvel enn erfiðara má líka skrifa orðin upp svona App els ínu mar me laði Sumum kann að finnast þetta erfitt. Aðrir sjá ekki orðið strax en fatta það svo.

Vegurinn til Emmaus

Í Biblíunni er þekkt páskafrásögn af tveimur vinum sem voru lengi að koma fyrir sig náunga sem þeir áttu að þekkja mjög vel. Leggið áherslu á hvenær þetta gerðist. Þetta var sunnudaginn eftir að Jesús hafði verið krossfestur á föstudegi. Jesús birtist tveimur lærisveinum sem voru að ganga veginn til Emmausar. Frásögnina er að finna í Lúk. 24. 13-35. Tengið þetta við það þegar maður sér orð sem er tekið úr samhengi eða hluta af orði getur það reynst erfitt að átta sig á því. Rétt eins og þegar maður hittir einhvern sem maður þekkir en átti alls ekki von á. Þeir héldu náttúrulega að Jesús væri dáinn. Kannski voru fötin hans eitthvað öðruvísi. Kannski var þeim ekki ætlað að sjá hann fyrr en í lok samtalsins því annars hefðu þeir ekki getað hlustað á það sem hann var að segja. Það hefur náttúrulega verið gríðarlega spennandi að uppgötva að Jesús var risinn upp frá dauðum. Við vorum aðeins að æfa heilann áðan með því að þekkja orðhluta og tengja saman. Pælið í hvað það hefur reynt verulega á heilann fyrir þessa tvo lærisveina að meðtaka allt sem Jesús sagði þeim. Að hann sé í raun sá sem spáð er fyrir um í Gamla Testamentinu. Að hann hafi sigrað dauðann á krossi og fari nú upp í himininn.

28


Til umhugsunar

Kannski er hægt að enda þessa hugleiðingu með því að hlusta á rólega tónlist og bjóða krökkunum að íhuga frásögnina. Kannski geta þau velt því fyrir sér hvernig það hefði verið ef þau hefðu mætt Jesú á veginum. Hvernig hefðu þau brugðist við?

Bæn

Góði Guð, við þökkum þér fyrir páskana. Takk fyrir upprisu Jesú og fyrirheit um eilíft líf. Lifandi Drottinn, við þökkum þér fyrir starf KFUM og KFUK í vetur og fyrir alla krakkana sem hafa tekið þátt. Viltu blessa okkur og vera með okkur. Í Jesú nafni, amen.

Hugmyndabanki Þakkarbænir

Þar sem að þetta er síðasta samvera misseris fer vel á því að bjóða krökkunum að semja þakkarbænir. Þau geta skrifað þær á lítil kartonspjöld og svo má bjóða þeim að eiga spjöldin til að minna sig á bænina. Hvetja þau til að muna eftir að biðja og láta þau vita að við bíðum með eftirvæntingu eftir því að starfið hefjist á ný næsta haust.

Ég er einstakur

Þátttakendur sitja í hring og einhver byrjar og segir: Ég er einstakur af því að…og reynir að segja eitthvað sem gerir hann eða hana alveg einstaka. Ef einhver annar í hópnum getur tekið undir fullyrðinguna þá á sá eða sú að koma og setjast á þann sem var að gera. Þá þarf að finna eitthvað annað sem gerir viðkomandi svo einstakan að enginn sest á hann og þeir sem voru búnir að setjast fara aftur í sín sæti. Hvetja má þátttakendur til að hafa staðreyndirnar fyndnar og skemmtilegar.

29


30


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.