2 minute read

Krydd án aukaefna

Krydd án aukaefna

Hjónin Ólöf Einarsdóttir og Omry Avraham eru eigendur vörumerkisins Kryddhúsið. Bakgrunnur Ólafar er náttúrulækningar en hún er menntuð í kínverskum lækningum frá Brighton University. Heilsa, hreysti og góð næring eru henni því mjög hugleikin.

Krydd er magnað

„Þegar við Omry ákváðum að fara að vinna með krydd árið 2015 lagði ég nálastungumeðferðarferilinn á hilluna og sneri mér alfarið að kryddinu sem er jú þekkt lækningarvara,“ segir Ólöf. „Krydd er merkilegt fyrir margar sakir og hefur verið samofið sögu mannkyns frá upphafi. Það kemur fyrir í ýmsum ævafornum heimildum og á það er minnst í Biblíunni á mörgum stöðum. Þar er krydd dýrmæt vara sem notuð var til að bragðbæta mat sem og við hinum ýmsu kvillum, til að hreinsa heimkynni manna, smyrja lík fyrir greftrun svo eitthvað sé nefnt. Það segir manni hve mögnuð krydd eru.“

Aftur til upprunans

Ég hef alltaf heillast af lækningarmætti kryddsins og mér finnst það svo heillandi að enn þann dag í dag notist fólk af fullum krafti við húsráð og alþýðulækningar tengdum kryddi á t.d. Indlandi og í löndum þar sem aðgengi að lyfjum er minna en við eigum að venjast í okkar nútíma samfélagi. Í þessum löndum grípur fólk til krydds ef það finnur fyrir krankleika eins og t.d. flensu-, meltingar- og/eða hormónaeinkennum. Þá eru vel valin krydd hituð í seyði eða sett í bakstra eða áburði.

Heilsusamlegt fæði þarf ekki að vera óspennandi

Omry kemur úr menningu þar sem allur matur er kryddaður eða allt frá meðlætinu til aðalréttanna og jafnvel kökurnar eru vel kryddaðar. Þegar maður kynnist svoleiðis matarmenningu þá verður ekki aftur snúið.

Þegar ég kynntist Omry varð ég dolfallin yfir því hvað hann borðaði hollan og bragðgóðan mat algjörlega ómeðvitað. Það er honum í blóð borið að elda allan mat frá grunni og nota fjölbreytt gæðakrydd og jurtir til að bragðbæta matinn, formúla sem klikkar ekki. Á þessum tíma var ég upptekin við að hugsa um næringargildið í máltíðinni, passa að borða kínóa, grænmeti og prótein en kunni ekkert að krydda það og því varð maturinn frekar óspennandi þótt hann væri hollur. Í gegnum Omry hef ég lært að allur matur, þar með talið baunir, grænmeti, salat og kornmeti, getur orðið að dýrindis máltíð sé hann rétt kryddaður.

Að velja krydd

Það skiptir máli að kryddið sem notað er til matargerðar sé náttúrulegt og án allra aukaefna. Það er vel þekkt ráð í kryddbransanum að bæta við ýmiss konar uppfyllingarefnum til að drýgja dýrt krydd. Einnig er saltmagnið lykilatriði en oft eru kryddblöndur að megninu til ódýrt salt sem búið er að vinna þannig að það hefur verið tekið úr samhengi við náttúruna og öll helstu næringarefnin fjarlægð, rétt eins og hvítur sykur og hveiti. Í Kryddhúsinu leitumst við við að vera með krydd í góðum gæðum, ómeðhöndlað og án allra aukaefna. Við leggjum áherslu á að hafa ekki salt í kryddblöndunum. Í einstaka Kryddhúss kryddblöndum er þó salt en þá yfirleitt í litlu magni og er þá yfirleitt sjávarsalt og alltaf vandað salt. Þetta er lykilatriði þegar krydd er valið. Salt er líkamanum nauðsynlegt en það þarf þá að vera rétt salt og það er efni í aðra grein,“ segir Ólöf.

Nánari upplýsingar og uppskriftir á kryddhus.is og á Facebook: Kryddhúsið Netfang: info@kryddhus.is - Kryddhúsið Flatahraun 5B 220 Hafnarfjörður