4 minute read

Bólgur - Mataræði og náttúruefni

Ásdís Ragna Einarsdóttir útskrifaðist með BSc í grasalækningum frá University of East London árið 2005 og hefur rekið eigin stofu um árabil þar sem fjöldi einstaklinga hefur leitað til hennar í ráðgjöf.

Ásdís Ragna Einarsdóttir útskrifaðist með BSc í grasalækningum frá University of East London árið 2005 og hefur rekið eigin stofu um árabil þar sem fjöldi einstaklinga hefur leitað til hennar í ráðgjöf.

Bólgur - Mataræði og náttúruefni

Mataræði er sá hluti lífsstíls okkar sem vegur hvað þyngst þegar kemur að heilsu og sjúkdómum og mikil vakning hefur orðið síðustu ár um tengsl mataræðið og heilsufars.

Nú til dags eru flestir almennt sammála um að krónískar bólgur séu grunnorsök margra sjúkdóma í nútímasamfélagi s.s. liðagigtar, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2, Alzheimer sjúkdóms og ýmissa tegunda krabbameina. Lífsstílstengdir þættir geta haft áhrif á og aukið bólguvirkni s.s. mikil streita og álag, óhollt mataræði, offita, hreyfingarleysi og sýkingar. Bólgur eru eðlilegt varnarviðbragð ónæmiskerfisins við áreiti s.s. sýklum, áverkum og vefjaskemmdum. Bráða bólgusvörun er því nauðsynleg en þegar bólgusvörunin verður þrálát þá verður hún skaðleg heilsu okkar og veldur langvinnum bólgusjúkdómum.

Bólgur eru eðlilegt varnarviðbragð ónæmiskerfisins við áreiti s.s. sýklum, áverkum og vefjaskemmdum.

Mataræði gegnir stóru hlutverki þegar kemur að bólguvirkni og getur mataræði sem er næringarsnautt, hátt í sykri, úr unnum kolvetnum og transfitusýrum haft áhrif og aukið bólguvirkni í líkamanum. Að sama skapi þá getur heilsusamlegt mataræði haft mikið forvarnargildi, dregið úr bólguvirkni og bætt heilsu og líðan okkar. Miðjarðarhafs mataræðið er eitt mest rannsakaða mataræðið með tilliti til bólgu- og lífsstílssjúkdóma og er gott dæmi um mataræði sem dregur úr bólguvirkni. Miðjarðarhafsmataræðið samanstendur af ríkulegri inntöku á fæðu úr jurtaríkinu s.s. grænmeti, ávöxtum, fræjum, hnetum, heilkorni, baunum, góðri fitu s.s. ólífuolíu, jurtakryddum, ásamt fisk, eggjum, kjöti í lágmarki og hreinum mjólkurvörum. Fjöldi lífvirkra náttúruefna í fæðunni okkar hafa verið rannsökuð síðustu ár og eru þessi virku náttúruefni talin hafa fyrirbyggjandi og verndandi áhrif gegn krónískum bólgusjúkdómum og getahugsanlega gagnast okkur í baráttunni við þessa sjúkdóma.

Boswellia

Boswellia er jurtaþykkni unnið úr Boswellia trénu sem hefur verið notað frá örófi alda í Ayurvedískum lækningum. Vegna bólgueyðandi eiginleika sinna hefur Boswellia verið talið gagnlegt gegn slitgigt og liðagigt, krónískum bólgusjúkdómum og astma. Boswellia inniheldur virk efni, boswellic sýrur, sem rannsóknir hafa sýnt fram á að hafi hamlandi áhrif á bólgumyndandi ensímin lípóxygenasa og cýklóoxygenasa, en bæði þessi ensím eru þekktir bólguhvatar í líkamanum. Boswellia getur því mögulega reynst gagnlegt náttúrefni til þess að draga úr bólguvirkni.

Engifer

Engifer er algeng kryddjurt og lækningajurt sem er notuð víða um heim og á sér langa sögu vegna heilsueflandi áhrifa. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á þessari merku jurt og eru heilsufarsleg áhrif engifers vel þekkt. Jurtaþykkni úr engiferrótinni inniheldur virk efni sem nefnast gingerols sem hafa sýnt sig í rannsóknum að hafi bólgueyðandi áhrif með því að hamla framleiðslu á bólguhvetjandi efnum í líkamanum s.s. prostaglandína og cýtókína. Engifer virðist þannig geta dregið úr bólguvirkni og hefur verið notað gegn liðagigt og bólgum í stoðkerfinu.

Astaxanthin

Astaxanthin tilheyrir flokki náttúruefna sem nefnast karótenóíð en astaxanthin er aðallega unnið úr smáþörungum. Astaxanthin er kröftugt andoxunarefni og gegna andoxunarefni mikilvægu hlutverki í að verja frumur gegn skemmdum af völdum oxunarálags, en það er talið vera einn orsakaþáttur öldrunar og margra sjúkdóma. Astaxanthin virðist hafa bólgueyðandi áhrif með því að koma í veg fyrir framleiðslu á bólguhvetjandi efnum s.s. cýklóoxygenasa ensími. Vegna sterkrar andoxunarvirkni og bólgueyðandi áhrifa er astaxanthin talið gagnlegt gegn bólgum í húð s.s. exemi og ótímabærri öldrun.

Curcufresh

Curcufresh er unnið úr ferskri turmerikrót í sínu náttúrulega formi. Turmerik er krydd og lækningajurt sem hefur verið notað á Indlandi í þúsundir ára. Turmerik hefur verið rannsakað mikið síðustu ár og flest allar rannsóknir hafa verið gerðar á virka efninu curcumin, sem er kröftugt náttúruefni með mikla virkni. Curcumin virðist hafa sterk bólgueyðandi áhrif með því að hamla framleiðslu á bólguhvetjandi efnum s.s. NF-kB, TNF-alpha og IL-1. Curcumin hefur einnig sterka andoxunarvirkni og bæði virkjar framleiðslu á mikilvægum andoxunarensímum í líkamanum ásamt því að hlutleysa skaðleg sindurefni sem geta valdið frumuskemmdum. Rannsóknir sýna að turmerik rótin getur talist gagnleg gegn ýmsum bólgusjúkdómum vegna andoxunarvirkni og bólgueyðandi áhrifa.

Omega 3

Það eru fá næringarefni sem hafa verið jafn mikið rannsökuð og fjölómettaðar Omega 3 fitusýrur og fjöldi rannsókna sýna fram á gagnsemi þeirra í meðferð langvinnra bólgusjúkdóma s.s. liðagigtar og astma- og bólgusjúkdóma í þörmum. Omega 3 fitusýrur hafa bólgu- og ónæmishemjandi áhrif og virðast hafa bælandi áhrif á marga bólgusjúkdóma samkvæmt rannsóknum. Einnig hefur verið sýnt fram á að inntaka á Omega 3 fitusýrum minnki fjölda bólginna og aumra liða og dragi úr morgunstirðleika hjá fólki með liðagigt. Omega 3 fitusýrur geta minnkað framleiðslu á bólguhvetjandi efnum s.s. eikósanóíðum og cýtókínum og sýna rannsóknir fram á tengsl milli hærri inntöku á Omega 3 fitusýrum og minni bólgumyndunar. Omega 3 fitusýrur samanstanda aðallega af þremur mikilvægum fitusýrum, EPA og DHA úr dýraríkinu og ALA úr plöntum. Omega 3 fitusýrur er helst að finna í feitum kaldsjávarfiski s.s. villtum laxi, síld, þorski, sardínum og ansjósum og þar sem líkaminn getur ekki framleitt þessar nauðsynlegu fitusýrur, þurfum við að fá þær úr fæðunni eða taka þær inn í bætiefnaformi.