Tíðindi 8. tbl. 2015

Page 1

Samband íslenskra sveitarfélaga

Tíðindi l. b t 8. ber tó ok 015 2


TÍÐINDI

Miklar sveiflur á fáum árum „Búsetubreytingar og breytt aldursskipting íbúanna hafa áhrif á afkomu sveitarfélaga. Sveitarstjórnir ættu að gefa þessari þróun gaum,“ sagði Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Hann brá upp myndum sem sýna mikla sögu um búsetuþróunina frá 1998. Gunnlaugur dró saman kjarna máls síns í eftirfarandi punktum: • Fólki hefur fjölgað í öllum landshlutum nema tveimur (á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra) frá 1998 til 2015. • Íbúum á Suðvesturhorninu fjölgaði um nær 50% á tímabilinu. • Verulegar breytingar hafa átt sér stað innan einstakra landshluta. • Stærri þéttbýlisstaðir hafa eflst en fólki fækkað í þeim sveitarfélögum sem fjær þeim liggja. • Tilflutningur er innan sveitarfélaga með marga þéttbýlisstaði. • Miklar breytingar hafa víða átt sér stað í aldurssamsetningu íbúanna.

Fólki hefur fækkað í meira en helmingi sveitarfélaga landsins frá 1998, í nokkrum þeirra yfir 20% og í einu yfir 30%. Slíkar sveiflar teljast mjög miklar á til dæmis norræna vísu búsetuþróunar. Íslenska þjóðin eldist hlutfallslega og það skiptir sveitarfélögin verulegu máli. Þannig er því spáð að 67 ára og eldri verði helmingi fleiri 2030 en þeir eru nú. „Sveitarstjórnir geta ekki haft áhrif á þessa þróun en sveiflurnar eru á köflum miklar, sem hefur auðvitað áhrif til lengri tíma litið. Við sjáum jafnvel miklar breytingar á fáum árum í sveitarfélögum sem teljast stór á okkar mælikvarða,“ sagði Gunnlaugur Júlíusson. Öll erindi og upptökur frá fjármálaráðstefnunni eru aðgengilegar á vef sambandsins.

Notaðu lykiltölur við stjórnun Í tengslum við árlega fjármálaráðstefnu sveitarfélaga gaf samband íslenskra sveitarfélaga út ritið „ Notaðu lykiltölur við stjórnun – þekktu sveitarfélagið þitt“. Í ritinu eru birtar nítján lykiltölur fyrir sveitarfélög landsins þar sem hægt er að bera stöðu þeirra saman á margvíslegan hátt. Lykiltölurnar tengjast niðurstöðum úr almennum rekstri sveitarfélaganna, fræðslumálum 2

og félagsþjónustu. Niðurstöður fyrir hverja lykiltölu eru birtar tölulega, myndrænt og landfræðilega. Á þennan hátt er hægt á einfaldan hátt að bera saman stöðu hvers sveitarfélags gagnvart nálægum sveitarfélögum eða sveitarfélögum sem eru áþekk að stærð. Framsetning af þessum toga nýtist vel til að glöggva sig í grófum dráttum á stöðu hvers og eins sveitarfélags.


TÍÐINDI

Frá fjármálaráðstefnunni 2015. Innfellda myndin er af Gunnlaugi Júlíussyni, sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs.

Launakostnaðurinn þungur í skauti Nýjustu kjarasamningar eru sveitarfélögum dýrir og eru samt ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum. Þá hækkuðu laun afturvirkt um 4% frá 1. maí 2014 vegna endurskoðunar starfsmats og launakostnaðurinn 2014 er því í raun umfram það sem fram kemur í ársreikningum þess árs. Þetta kom fram í máli Gunnlaugs Júlíussonar, sviðsstjóra hagog upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnunni. Viðsnúningur varð í rekstri sveitarfélaganna 2014 og afkoma þeirra versnaði almennt. Þau hafa því að óbreyttu ekki svigrúm til að greiða niður skuldir sínar í jafnríkum mæli og undanförnum árum. Veltufé frá rekstri hefur dregist saman, þ.e. sá hluti tekna

sem eftir er þegar laun og daglegur rekstrarkostnaður hefur verið greiddur. Veltufé frá rekstri er notað til að borga af lánum og til fjárfestinga. Það dró úr atvinnuleysi 2014 og fjárfestingar jukust en skuldir jukust. Gunnlaugur hvatti til þess að allra leiða yrði leitað til að nýta þá möguleika sem í kjarasamningunum fælust en benti jafnframt á að niðurstaða gerðardóms myndi hafa áhrif á rekstur sveitarfélaga. Þá væru samningar við skólastjórafélagið ófrágengnir. Hann kvað það mikilvægt að sveitarfélögin tækju ekki við „undirfjármögnuðum verkefnum“

og benti á að að ekki hefði tekist að leysa ágreining við ríkisvaldið um uppgjör vegna yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Sveitarfélögin yrðu svo að „skilgreina af festu hvað tilheyrði þeirra borði og hvað ekki“. Gunnlaugur fór yfir rekstrarafkomu A-hluta sveitarfélaganna í meðfylgjandi glæru, með samanburði lykiltalna úr ársreikningum áranna 2013 og 2014 á verðlagi hvers árs. Hér kemur skýrt fram að tekjur jukust um liðlega 5% frá ári til árs en útgjöld um nær 12%. Versnandi afkoma og viðsnúningur til hins verra sést því svart á hvítu.

3


TÍÐINDI

Tekjustofnar sveitarfélaga í brennidepli Tekjustofnar sveitarfélaga hafa verið áberandi í ályktunum landshlutasamtaka sveitarfélaga en þau halda aðalfundi sína nú á haustdögum. Nú þegar hafa aðalfundir SSA, Eyþings, FV og SSS farið fram, sem og haustþing SSV. SSNV heldur sinn aðalfund 16. október, SSH og SASS halda sína aðalfundi síðustu helgina í október. Í ályktun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) segir m.a.: „Mikilvægt er að renna styrkari stoðum undir tekjustofna sveitarfélaga. Útgjöld sveitarfélaga hafa vaxið og verkefnum fjölgað, en tekjuliðir hafa ekki fylgt þeirri þróun. Mikilvægt er að sveitarfélög fái aukna hlutdeild í heildarskatttekjum samfélagsins. Ýmsar atvinnugreinar, s.s. ferðaþjónusta, skapa tekjur í heimabyggð en kalla einnig á aukin útgjöld, bæði við ferðamannastaði og við ýmsa innviði samfélagsins. Því beinir fundurinn því til stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga að taka til athugunar á hvern hátt styrkja megi almennan tekjugrundvöll sveitarfélaga svo þau geti sinnt lögbundnu þjónustuhlutverki sínu á sómasamlegan hátt.“ Hið sama er uppi á teningnum í ályktunum Eyþings, þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við

4

þau verkefni sem sveitarfélögunum eru falin og bent á mikilvægi þess að sveitarfélögin fái aukna hlutdeild í heildarskatttekjum samfélagsins. Málefni fatlaðs fólks

Landshlutasamtökin hafa einnig lagt áherslu á að ríkið þurfi að auka framlag til þeirra málefna fatlaðs fólks. Í ályktun Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV) er farið fram á endurmat á jöfnun vegna þjónustu við fatlað fólk. „Ef full fjármögnun málaflokksins verður ekki tryggð eru ekki aðrir möguleikar í stöðunni fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum en að skila verkefninu til ríkisins.“ Haustþing SSV ályktar á sama hátt og FV og skorar á Alþingi að hækka fjárveitingar til málefna fatlaðra, annað hvort í gegnum hækkuð framlög Jöfnunarsjóðs eða hærra útsvarshlutfall sveitarfélaga, þannig að sveitarfélögin geti sinnt þessu mikilvæga verkefni. Ályktanir aðalfunda landshlutasamtaka • • • • •

Eyþing FV SSA SSS SSV


TÍÐINDI

Ríki og sveitarfélög þurfa að sitja við sama borð við úthlutun fjármuna til ferðamannastaða

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, 133. mál. Í umsögn sambandsins er ítrekuð sú afstaða sem tekin var um sama mál á síðasta löggjafarþingi þar sem framlangningu frumvarpsins er fagnað og það talið samræmast ágætlega stefnumörkun sambandsins sem samþykkt var á síðasta ári. Sambandið undirstrikar í umsögninni mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög sitji við sama borð við úthlutun fjármuna til ferðamannastaða. Tekjur ríkisins hafa aukist mikið vegna fjölgunar ferðamanna og telur sambandið það einungis sanngjarnt að hluti þeirra fjármuna renni til uppbyggingar sem feli í sér heildarsýn fyrir einstök svæði. Væntir sambandið þess að breytingar verði gerðar á þessu atriði

sem fyrst og óskar eftir stuðningi umhverfis- og samgöngunefndar við sanngjarnir óskir sveitarfélaga um breytingar. Náttúruverndarlög

Einnig hefur sambandið sent umsögn um frumvarp til laga um breytingu á náttúruverndarlögum, 140. mál. Sambandið gerir nokkrar athugasemdir við einstaka liði frumvarpsins en í umsögninni segir þó að það sé mat sambandsins að breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu almennt til bóta og til þess fallnar að skapa betri sátt um lögin og túlkun þeirra. • Umsögn sambandsins um frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða. • Umsögn sambandsins um frumvarp til laga um breytingu á náttúruverndarlögum.

Vegvísir í ferðaþjónustu Þann 6. október var undirritað samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar um að sett verði á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem mun starfa til ársloka 2020. Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, undirritaði samkomulagið fyrir hönd sveitarfélaganna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisins, og Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, fyrir þeirra hönd. 5


TÍÐINDI

Umsagnir um frumvarp til laga um vatnsveitur Innanríkisráðuneytið kynnir nú að nýju til umsagnar drög að lagafrumvarpi um breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Unnt er að koma umsögnum um frumvarpsdrögin á netfangið postur@irr.is til og með 30. október næstkomandi. Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta grundvöll álagningar vatnsgjalds á vegum vatnsveitna sveitarfélaga fyrir þá almannaþjónustu sem þær veita en hvorki að útvíkka né auka gjaldtökuna frá því sem verið hefur. Í frumvarpinu felast tvær meginbreytingar frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er kveðið með skýrum hætti á um það að vatnsgjald verði ekki innheimt af fasteign fyrr en hún hefur verið tengd dreifikerfi vatnsveitu um heimæð. Er þannig horfið frá þeirri framkvæmd að upphaf gjaldtöku miðist við tiltekið byggingarstig mannvirkja, óháð því hvort fasteignin hafi verið tengd vatnsveitunni með heimæð, enda markar sú tenging þann aðgang að þjónustu vatnsveitunnar sem

innheimta vatnsgjaldsins byggist á. Í öðru lagi er nú kveðið skýrt á um þá meginreglu að vatnsgjaldið skuli taka mið af fasteignarmati fasteignarinnar í heild, þótt með tilteknum undantekningum sé. Miða þessar breytingar að því að treysta grundvöll innheimtu vatnsgjalds sem þjónustugjalds þótt vatnsnotkun einstakra notenda sé almennt ekki mæld.

Fannars Valssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, sem yfirfór frumvarpsdrögin með hliðsjón af þeim kröfum sem Hæstiréttur Íslands hefur gert til lagasetningar og skilyrða um þjónustugjöld. Samhliða hefur verið unnið að drögum að frumvarpi til sambærilegra breytinga á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009.

Frumvarpsdrögin eru samin í innanríkisráðuneytinu í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Orkuveitu Reykjavíkur. Þá var jafnframt byggt á vinnu Trausta

Drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, (skilgreining og álagning vatnsgjalds).

Breytingar á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur fram til kynningar að nýju drög að frumvarpi til breytinga á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu lúta að gjaldtökuheimildum fráveitna sveitarfélaga. Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta grundvöll álagningar fráveitugjalds sem fráveitur sveitarfélaga innheimta fyrir þá almannaþjónustu sem þær veita. Frumvarpinu er enn fremur ætlað að skýra og styrkja gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna gagnvart viðskiptavinum þeirra. Mikilvægt er að almennar og hlutlægar reglur gildi um innheimtu fráveitugjalds. Í frumvarpinu 6

er kveðið skýrt á um að heimilt verði að heimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengjast fráveitu sveitarfélags og þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar. Lagt er til að sett verði ákvæði um hámarksgjald sem er tiltekið hlutfall af heildarfasteignarmati þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir, en tenging er fyrir hendi. Í frumvarpinu er gengið út frá því að þegar fráveitufyrirtæki hefur lokið skyldum sínum varðandi tengingu fasteignar sé heimilt að hefja innheimtu fráveitugjalds. Skýrð er heimild fráveitufyrirtækja til innheimtu fráveitugjalds af öllum mannvirkjum innan fasteignar sem frá kemur skólp sem fer í fráveitu.


TÍÐINDI

SVEITARSTJÓRNARSTIGIÐ Á 21. ÖLDINNI Ráðstefna á Grand hóteli Reykjavík 26. október 2015 10:00 Skráning og kaffi 10:15 Opnunarávarp Ólöf Nordal innanríkisráðherra 10:30

1. hluti Viðhorf og þróun í norrænum grannríkjum

Stjórnandi: Anna Karlsdóttir, Senior Research Fellow, Nordregio Municipal reforms in the Nordic countries - motivation and outcomes“: Lisbeth Greve Harbo, Research Fellow, Nordregio „Carrots and sticks; failures and successes. The amalgamation reform(s) in Finland 2005-2014“: Siv Sandberg, Researcher, Åbo Akademi University, Finland „Small and shrinking municipalities Sweden - is there a new amalgamation reform on the agenda?“, Gissur Erlingsson, Associate Professor in political science, Centre for Municipality Studies, Linköping University. Norska umbótaverkefnið, Helene Ohm, fulltrúi í sérfræðingahópi norsku ríkisstjórnarinnar um umbætur á sveitarstjórnarstiginu og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Finnøy. Eftir framsögur verða umræður við borðin og síðan almennar umræður í salnum með þátttöku framsögumanna. 12:30 Hádegisverður. 13:15 II. hluti Hvað getum við lært og hagnýtt okkur af norrænu reynslunni

og hvað segja íslenskar rannsóknir okkur? Stjórnandi Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Framsögur: • Grétar Þór Eyþórsson, prófessor, Háskólanum á Akureyri • Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor, Háskóla Íslands Umræður við borðin og panelumræður með þátttöku: • Evu Marínar Hlynsdóttur, doktorsnema við Háskóla Íslands • Magnúsar Árna Magnússonar, dósents, Háskólanum á Bifröst • Vífils Karlssonar, dósents, Háskólanum á Akureyri Lokaorð: Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

7


TÍÐINDI

Mikilvægt að fylgjast með þróun móttöku flóttamanna í Evrópu

Sveitarfélög í flestum ríkjum Evrópu búa sig nú undir að taka á móti auknum fjölda flóttamanna. Hingað til hefur álagið vegna straums flóttamanna verið mjög misjafnt eftir löndum. Nýlegar samþykktir ESB um úthlutun flóttamannakvóta á aðildarríki munu væntanlega leiða til þess að flóttamenn munu dreifast meira niður á aðildarríki og alls staðar er litið til sveitarfélaga sem lykilaðila við móttöku þeirra. Málefni flóttamanna eru því mál málanna í evrópsku samstarfi sveitarfélaga. þau mun verða á dagskrá haustþings Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins sem haldið verður 20.-22. október nk. Halldór Halldórsson formaður sambandsins, Gunnar Axel Axelsson fulltrúi í stjórn sambandsins og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og Elín R. Líndal fulltrúi í sveitarstjórn Húnaþings vestra munu taka þátt í þinginu. Evrópusamtök sveitarfélaga, CEMR, sem sambandið á aðild að, hafa líka sett flóttamannamálin á oddinn. Þau hafa sett á laggirnar aðgerðarhóp um málefni flóttamanna og í undirbúningi er að skipa pólitískan talsmann um málefni flóttamanna og innflytjenda sem myndi tala máli sveitarfélaga og héraða gagnvart pólitískum stofnunum ESB. CEMR hefur þrýst á ESB að veita sveitarfélögum fjárhagslegan stuðning til að taka á móti flóttamönnum. ESB samþykkti nýlega að veita auknu fjármagni til málaflokksins, m.a. í sérstakan sjóð, Asylum, Migration and Integration Fund, sem

8

sveitarfélög í ESB ríkjum munu geta sótt í. Mörg sveitarfélög eru þegar í afar erfiðri stöðu og geta ekki veitt flóttafólki viðunandi aðstoð. Þau þurfa í raun á neyðaraðstoð að halda og CEMR sendi nýlega út könnun til að fá yfirsýn yfir hvaða sveitarfélög eru í þeirri stöðu. Verst standa þau sem eru á landamærum Evrópu, s.s. í Ítalíu og Grikklandi en 200.000 manns komu til Grikklands á síðustu þremur mánuðum. Sveitarfélög í Þýskalandi og Svíþjóð eiga einnig í erfiðleikum með að tryggja viðeigandi húsnæði og félagsþjónustu. Þannig búa tugir þúsunda flóttamanna í Svíþjóð í bráðabirgðahúsnæði. CEMR birti nýlega yfirlýsingu þar sem kallað er eftir auknu samráði ríkisstjórna og ESB við sveitarstjórnarstigið til að meta stöðuna, m.a. þörfina fyrir aukinn fjárstuðning. Einnig leggja samtökin áherslu á samstarf allra stjórnsýslustiga, og samvinnu við félagasamtök og íbúa til að tryggja flóttafólki viðeigandi aðstoð og gera því kleift að fóta sig í nýju landi. Mikilvægt er að fylgjast með þróun í Evrópu á þessu sviði því ákvarðanir ESB hafa áhrif á Íslandi sem aðila að Schengen. Þannig gæti breyting á svokallaðri Dyflinnar-reglugerð, sem kallað er eftir, leitt til þess að Ísland geti ekki lengur endursent hælisleitendur til þess Evrópuríkis sem þeir komu til fyrst, eins og tíðkast hefur hingað til.


TÍÐINDI

Rafræn skjalavarsla sambandsins

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur fengið heimild Þjóðskjalasafns Íslands til þess að hefja rafræna skjalavörslu frá og með 2. nóvember nk.

lýkur árið 2020 mun sambandið mynda rafræna vörsluútgáfu gagna úr rafræna mála- og skjalavörslukerfinu og afhenda Þjóðskjalasafni Íslands.

Sambandið og samstarfsstofnanir þess hafa notað rafrænt mála- og skjalavörslukerfi frá árinu 2004, en það er ekki fyrr en nú að sótt hefur verið eftir heimild til þess að hafa skjalavörsluna eingöngu rafræna og öll varðveisla gagna verður framvegis rafræn. Fram að þessu hefur orðið að prenta öll skjöl út úr kerfinu til vörslu í skjalasafni.

Á vef Þjóðskjalasafns Íslands má lesa nánar um rafræna skjalavörslu og þar segir m.a.:

Þegar nýju skjalavörslutímabili, sem hefst 2. nóvember nk.,

„Reglur um rafræn opinber gögn og skil á þeim eru reglur um rafræn gagnakerfi afhendingarskyldra aðila. Ríkisstofnanir og sveitarfélög sem hyggjast varðveita gögn sín á rafrænu formi verða að fylgja þessum reglum, þ.m.t. að tilkynna öll rafræn kerfi þar sem varðveita á gögnin á rafrænu formi.

Tilgangurinn er að tryggja örugga vörslu rafrænna gagna til framtíðar og að um gögnin séu til samræmdar upplýsingar til að auðvelda komandi kynslóðum að nota gögn frá okkar dögum. Rafræn gögn verða varðveitt á kerfisóháðum sniðum til þess að tryggja að hægt verði að lesa gögnin um alla framtíð.“ Samhliða verður tekinn upp nýr málalykill hjá sambandinu og samstarfsstofnunum þess og gefnar hafa verið út verklagsreglur um skjalavörslu og skjalagerð.

Börn á flótta – Sköpum frjóa jörð Samtök félagsmálastjóra á Íslandi efna til málþings um móttöku og þjónustu íslenskra sveitarfélaga við flóttabörn undir yfirskriftinni: „Börn á flótta, sköpum frjóa jörð“. Málþingið verður haldið í Salnum í Kópavogi föstudaginn 6. nóvember nk. frá kl. 09:00-12:00. Meðal frummælenda á fundinum er Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar og Unnur V. Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar. Þátttökugjald er 6.500 krónur og er tekið á móti skráningu á málþingið í gegnum netfangið snorri@seltjarnarnes.is.

9


TÍÐINDI

Lestur ársreikninga Í ársreikningi kemur fram yfirlit um rekstur sveitarfélagsins, fjárstreymi á árinu og stöðu efnahags í ársbyrjun og árslok. Einnig eru settar fram skýringar með ársreikningi. Í ársreikningi skal einnig birta niðurstöður ársreiknings frá fyrra ári svo og niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið eins og hún var afgreidd. Það er gert til að gefa kost á samanburði því niðurstöður eru alltaf afstæðar. Á hvaða leið er reksturinn? Hvernig er staðan borið saman við fyrri ár. Hvernig tókst að halda samþykkta fjárhagsáætlun? Í þessum kafla og nokkrum þeim næstu verður varið nokkrum orðum um einstaka þætti ársreiknings. Byrjað verður á rekstrarreikningi.

Rekstrarreikningur Rekstrarreikningur sýnir samantekið yfirlit um það sem hefur gerst í daglegum rekstri sveitarfélagsins á síðasta starfsári. Hann samanstendur af nokkrum afmörkuðum hlutum. Þar getur bæði verið um að ræða raunverulegar tekjur og gjöld en einnig reiknaðan kostnað sem ekki er útlagður á árinu. Þeir eru sem hér segir: 1. Tekjur 2. Rekstrarkostnaður =Framlegð 3. Afskriftir =Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði 4. Fjármagnsliðir =Rekstrarniðurstaða af hefðbundnum rekstri 5. Óreglulegir liðir = Rekstrarniðurstaða að teknu tilliti til óreglulegra liða Hér verður farið nokkrum orðum um hvern og einn þátt rekstrarreiknings:

Tekjur Tekjustofnar sveitarfélaga eru fastmótaðir og uppbygging þeirra er hin sama óháð stærð þeirra. Hlutdeild hvers tekjustofns getur á hinn bóginn verið mjög mismunandi milli einstakra sveitarfélaga. • Útsvarið er stærsti og mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga. Að jafnaði er útsvarið nálægt 60% af heildartekjum sveitarfélaganna en breytileikinn er töluverður eftir því hve útsvarsstofninn er sterkur. • Fasteignaskattur er næst mikilvægasti skattstofn sveitarfélaganna. Að jafnaði er hann 12-15% af heildartekjum sveitarfélaganna. Það er einnig verulegur breytileiki í mikilvægi hans milli sveitarfélaga. Það fer eftir því hve 10

mikið er af fasteignum innan sveitarfélagsins. Sumarhúsahverfi, fasteignir tengdar virkjunum og stór iðnaðarmannvirki hafa veruleg áhrif á styrk fasteignaskattsstofnsins. • Tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er að jafnaði þriðji mikilvægasti skattstofn sveitarfélaganna. Að jafnaði eru greiðslur frá jöfnunarsjóðnum 12-13% af heildartekjum þeirra. Breytileiki er hins vegar mjög mikill milli einstakra sveitarfélaga eins og gefur að skilja. Það er eðli jöfnunarkerfa að þau hafi mismikil áhrif á einstakar einingar. Greiðslur úr jöfnunarsjóðnum vegna lítið hjá fjölmennustu sveitarfélögunum en hlutdeild tekna úr honum er á bilinu 25-40% hjá mjög mörgum sveitarfélögum. Nokkur fá hlutfallslega enn hærri greiðslur úr sjóðnum. • Þjónustutekjur eru að jafnaði um 15% af tekjum sveitarfélaga. Þjónustutekjur eru þær greiðslur sem greiddar eru fyrir margháttaða þjónustu sveitarfélagsins sem fellur undir A-hluta. Þar má t.d. leikskólagjöld, greiðslur fyrir þjónustu í grunnskólanum, s.s. fæði og lengda viðveru, aðgangseyrir í sundlaugar, leyfisgjöld svo nokkur dæmi séu nefnd. • Aðrar tekjur eru litlar eða um 1% heildartekna að jafnaði.

Gjöld

Almenn rekstrargjöld sveitarfélaga skiptast fyrst og fremst í tvo hluta, laun og launatengd gjöld og kaup á vörum og þjónustu. Hér er um að ræða útlagðan kostnað. Laun og launatengd gjöld samanstanda af greiddum launum og öllum launatengdum gjöldum svo sem tryggingargjaldi, greiðslum í lífeyrissjóð og fl. Kaup á vörum og þjónustu er allur annar breytilegur kostnaður sem fellur undir daglegan rekstur. Mismunur tekna og gjalda er framlegð.

Reiknaðir liðir Afskrift fastafjármuna og breyting á lífeyrisskuldbindingum eru reiknaðir liðir en ekki útlagðir. Þeir flokkast ekki sem útgjöld (greiddur kostnaður á árinu) heldur er hér um að ræða kostnað sem getur fallið með meiri þunga á einstök ár en önnur enda þótt hann sé færður árlega á rekstrarreikning. Í afskriftum felst árleg rýrnum á verðmæti fastafjármuna (mannvirkja og stærri tækjabúnaðar). Með afskriftum eru kostnaðarreiknaðar þær fjárhæðir sem samanlagt eiga að nægja til að endurnýja viðkomandi fastafjármuni þegar að því kemur. Afskriftahlutfall getur verið mismunandi t.d. eftir byggingarformi en eru mjög áþekkar milli ára. Afskriftatími mannvirkis getur þannig verið á bilinu


TÍÐINDI

Fjármál sveitarfélaga

Niðurstaða þessa (tekjur að frádregnum gjöldum, afskriftum, breytinga á lífeyrisskuldbindingum og að teknu tilliti til fjármagnsliða) er rekstrarniðurstaða af hefðbundnum rekstri sveitarfélagsins. Til að jafnvægi sé í rekstrinum til lengri tíma litið þarf þessi niðurstaða að vera jákvæð. Hún gefur til kynna afkomu sveitarfélagsins af hefðbundnum rekstri þess (hefðbundnum tekjum og hefðbundnum rekstrarkostnaði). Það er hins vegar fleiri atriði sem þarf að halda til haga.

Fjárhagur 7. hluti Óreglulegir liðir.

40-50 ár. Þannig getur afskriftahlutfall á mannvirki verið á bilinu 2,5%% niður í 2,0%. Breyting á lífeyrisskuldbindingum tekur mið af þeim breytingum sem eiga sér stað milli ára í þróun launa hjá viðkomandi starfstéttum svo og í lífaldri þeirra. Þannig geta lífeyrisskuldbindingar tekið mjög mismiklum breytingum milli ára. Áhrifin eru því einnig mismikil útgjaldalega séð á einstök rekstrarár eftir því hvenær lífeyrisskuldbindingar koma til útgreiðslu. Við samanburð á rekstrarniðurstöðu eru breytingar lífeyrisskuldbindinga taldar með launakostnaði.

Hér er um að ræða tekju- eða útgjaldaliði sem falla ekki undir hefðbundinn rekstur sveitarfélagsins, koma sjaldan eða jafnvel bara einu sinni fyrir og hafa veruleg fjárhagsleg áhrif. Því þykir rétt að halda sérstaklega utan um þá í stað þess að fella þá inn í almennan rekstur sveitarfélagsins. Sem dæmi um slíkar tekjur má nefna sölu eigna. Þar getur verið um að ræða sölu lands, hlunninda eða fyrirtækja sem sveitarfélagið á hlutdeild í. Slíkt fellur ekki undir þá almennu starfsemi sveitarfélagsins að veita íbúunum þjónustu. Sala stórra eigna gerist yfirleitt mjög sjaldan. Fjárhagsleg áhrif geta hins vegar verið mikil. Ef slíkar fjárhæðir eru taldar með almennum tekjum sveitarfélagsins getur það t.d. brenglað allan samanburð á fjárhagslegri stöðu þess, bæði milli einstakra ára svo og í samanburði við önnur sveitarfélög. Útgjöld sem falla undir óreglulega liði er t.d. kostnaður sem fellur til vegna náttúruhamfara. Slíkur kostnaður fellur yfirleitt til mjög sjaldan og telst því ekki til reglubundinnar starfsemi sveitarfélagsins. Fjárhagsleg áhrif geta á hinn bóginn verið veruleg. Miklar afskriftir á útistandandi kröfum er annað dæmi um óreglulega liði.

Fjármagnsliðir

Rekstrarniðurstaða að teknu tilliti til óreglulegra liða Fjármagnsliðir samanstanda bæði af reiknuðum er síðan reiknuð út. liðum og tekjum/útgjöldum. Stærstur hluti reiknaðs fjármagnskostnaðar eru áhrif verðbótaþáttar lána þar sem áhrif verðtryggingar eru reiknuð út, hvort sem þau koma til útgreiðslu eða ekki. Þar sem um erlend lán er að ræða eru áhrif gengisbreytinga reiknuð út, bæði til tekna og gjalda. Rauntekjur og kostnaður eru aftur á móti vaxtatekjur og greiddir vextir og verðbætur á árinu. 11


TÍÐINDI

Skólaþing sveitarfélaga Hilton Reykjavík Nordica, 2. nóvember 2015

8:30 9:00

Skráning og tónlistarflutningur nemenda frá Tónskóla Eddu Borg Setning og inngangserindi Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

I. hluti Læsi – metnaðarmál ríkis og sveitarfélaga 9:15 9:30 10:00 10:30 10:50

11:20 11:35

Ávarp Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra Fram og aftur Hvítbókina – hvernig náum við markmiðum hennar? Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri matssviðs Menntamálastofnunar Næstu skref í borginni Dröfn Rafnsdóttir, sérfræðingur á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar Kaffihlé „Á bjargi byggði hygginn maður hús“ - mótun stefnu og aðgerðir til að efla læsismenntun Rúnar Sigþórsson prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri Saman náum við árangri Anna Margrét Sigurðardóttir, formaður Heimilis og skóla. Umræðuhópar að störfum um læsi

Fundarstjóri: Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði 12:30 Hádegishlé 13:20 Mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar - stutt innslag Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi sambandsins

II. hluti Vinnumat grunnskólakennara 13:30 Sjónarhorn sveitarstjórnarmanns Karl Frímannsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit 14:00 Sjónarhorn kennara Lísa S. Greipsson, trúnaðarmaður kennara í Lágafellsskóla 14:20 Sjónarhorn skólastjóra Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla 14:40 Umræðuhópar að störfum um vinnumat 15:40 Samantekt og lokaorð Ragnar Þorsteinsson, fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík 15:50 „Hefurðu húmor fyrir þessu?“ Ari Eldjárn Fundarstjóri: Ragnar Þorsteinsson, fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík Ítarefni er að finna á slóðinni www.samband.is/skolathing-2015 Skráning fer fram á vef sambandsins 12


TÍÐINDI

Drög að nýrri reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga til umsagnar Reikningsskila- og upplýsinganefnd hefur unnið drög að endurskoðaðri reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga. Reglugerðardrögin eru nú til kynningar og er unnt að senda ráðuneytinu umsagnir til og með 30. október. Skulu þær berast á netfangið postur@irr.is . Reikningsskila- og upplýsinganefnd skal samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 gera tillögu að reglugerð um bókhald sveitarfélaga, þar á meðal samræmdan upplýsingalykil, vinnslu, meðferð, form og efni fjárhagsáætlana og vinnslu, meðferð, form og innihald ársreiknings og meðferð á skýrslum

endurskoðanda um hann. Núgildandi reglugerð er frá árinu 2000, nr. 944/2000 með síðari breytingum. Í drögunum sem nú eru til kynningar hefur meðal annars verið tekið tillit til þeirra breytinga sem ný sveitarstjórnarlög höfðu í för með sér en þau tóku gildi 1. janúar 2012. Við vinnu nefndarinnar var haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, ráðgjafa tveggja fjármálastjóra sveitarfélaga og leitað óháðrar ráðgjafar frá sérfræðingum á sviði reikningsskila. Er lagt til að hin endurskoðaða reglugerð taki gildi 1. janúar 2016. Nánar á vef innanríkisráðuneytisins.

Samningur um málog talþjálfun Karlar í yngri barna kennslu

Þann 9. október sl. var haldinn morgunverðarfundur á Grand Hótel Reykjavík sem bar yfirskriftina „Karlar í yngri barna kennslu – hvað ætlar þú að gera?“ Að fundinum stóðu Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda leikskóla (FSL), Samráðshópur karlkennara á leikskólastiginu (SKÁL), Rannsóknarstofa í menntunar-fræðum ungra barna (RannUng) og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Umfjöllunarefni fundarins var sú staðreynd að einungis um 1% leikskólakennara eru karlmenn og spurt var hvað er hægt að gera í því? Frummælendur voru Sigurður Sigurjónsson varaformaður FSL, Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri Reykjavíkur, Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Fjóla Þorvaldsdóttir varaformaður FL. Mæting á fundinn var góð, milli 70 og 80 manns og umræður fjörlegar. Aðstandendur fundarins standa fyrir ráðstefnu þann 12. febrúar 2016. Streymt var frá fundinum og má nálgast upptökur á vef sambandsins.

Skólaþjónusta Rangárvalla- og VesturSkaftafellssýslu gerði, fyrst skólaþjónusta á landinu, samning við Sjúkratryggingarnar um kostnaðarþátttöku ríkisins í mál- og talþjálfun leik- og grunnskólabarna. Fram til þessa höfðu Sjúkratryggingarnar eingöngu gert slíka samninga við sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga en ekki við sveitarfélög sem réðu til sín talmeinafræðinga. Vinna við málið fór af stað í upphafi ársins og naut skólaþjónustan mikils og góðs liðsinnis starfsmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga, en uppfylla þurfti ákveðin skilyrði til að mögulegt væri að fá aðild að samningnum. Þann 1. ágúst 2014 réði skólaþjónustan talmeinafræðing til starfa. Verkefni talmeinafræðingsins verða, auk lögbundinna greininga og ráðgjafar, almenn talþjálfun barna sem falla undir verksvið sveitarfélaga samkvæmt samningi sambandsins og velferðarráðuneytisins, frá júni 2014, um verkaskiptingu vegna barna með málþroskavanda, en einnig barna með alvarlegri vanda sem eiga að fá þjálfun með kostnaðarþátttöku ríkisins. Samningurinn gerir sveitarfélögum nú kleift að ráða talmeinafræðinga sem sinna, auk greininga og ráðgjafar, einnig mál- og talþjálfun leik- og grunnskólabarna. Þetta fyrirkomulag er sérstaklega hugsað til þess að mæta þörf fyrir talmeinaþjónustu víðs vegar um landið þar sem aðgengi að slíkri þjónustu hefur verið stopult.

13


TÍÐINDI

Rekstur grunnskóla 2014 Á árinu 2014 nam rekstrarkostnaður grunnskóla 55,6 ma.kr. Það er um 25% af skatttekjum sveitarfélaganna. Launakostnaður í grunnskólum sveitarfélaga nam um 82% af heildarrekstrarkostnaði þeirra. Athygli er vakin á því að innri leiga er ekki

meðtalin í þessum tölum. Tekjur fyrir veitta þjónustu í grunnskólunum voru tæpir 5 ma.kr. á árinu þannig að nettókostnaður við rekstur grunnskólanna var 50,6 ma.kr. Í töflu 1. er birt sundurliðað yfirlit um heildarkostnað við rekstur grunnskóla landsins.

Tafla 1. Rekstrarkostnaður grunnskóla 2014 Heildarrekstrarkostnaður Beinn rekstrarkostnaður v grunnskóla

grunnskóla sveitarfélaga

Þjónustutekjur og aðrar tekjur

4.983.133

3.192.188

Tekjur alls

4.983.133

3.192.188

Laun og launatengd gjöld

42.583.652

40.602.684

Annar rekstrarkostnaður

13.028.789

9.040.803

Kostnaður alls (brúttó)

55.612.441

49.643.487

Rekstrarútgjöld (nettó)

50.629.308

46.451.299

Kostnaður vegna innri leigu grunnskóla var 13,4 ma.kr. árið 2014. Samanlagt er því heildarkostnaður vegna grunnskóla árið 2014 64 ma.kr. Inn í þeirri

tölu er einnig talinn með kostnaður vegna sjálfstætt starfandi skóla og frístundaheimila.

Tafla 2. Yfirlit yfir stöðugildi og rekstrarútgjöld 2012 - 2014 Fjöldi nemenda

Fjöldi stöðu- Nettó rekstrarkostnaður gilda alls

- innri leiga

2012

42.320

6.551,00

49.051.460

2013

42.734

6.584,00

50.105.856

2014

43.136

6.831,40

50.629.308

Breyting 2012 - 2014

816

280,4

1.577.848

% breyting 2012 - 2014

2%

4%

3%

Í töflu 2 kemur fram yfirlit um þróunina í fjölda nemenda og stöðugilda sið skólana. Sé litið til þróunar frá 2012 má sjá að nemendum hefur fjölgað lítillega eða um 2%, stöðugildum alls

14

hefur fjölgað um 4% eða 280 og rekstrarkostnaður aukist að raungildi um 1,6 ma.kr. eða 3%.


TÍÐINDI

Tafla 3. Rekstrarkostnaður á hvern nemanda eftir stærð skóla Stærð skóla

fjöldi Fj. Stöðugilda Stöðugildi Nettó rekstur á Launakostnaður nemenda v kennslu alls nem - innri leiga á nemanda

0 - 20

124

33

40

2.782

2.141

21 - 50

480

87

130

1.996

1.728

51 - 100

1528

224

331

1.503

1.355

101 - 200

3233

413

653

1.357

1.197

201 - 300

3693

432

681

1.253

1.101

301 - 400

7.719

787

1.176

1.023

930

401 - 500

11.364

1.050

1.539

953

862

501 >

13.630

1.272

1.888

958

841

Allir grsk. svf.

41.788

4.296 6.831,40

1.065

948

Í töflu 3. kemur fram yfirlit um nemendafjölda, fjölda stöðugilda og rekstrarniðurstöður þar sem grunnskólar landsins eru flokkaðir eftir fjölda nemenda. Nettó rekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum sveitarfélaga var um 1.065 þús. krónur

árið 2014 þegar búið er að draga innri leigu frá. Launakostnaður vegur þar þyngst en hann er tæplega 950 þús. kr. á hvern nemenda. . Tafla 3 sýnir glöggt hve rekstrarkostnaður á nemanda er misjafn eftir stærð grunnskóla.

15


Framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks Við gerð samkomulags um yfirfærslu málefna fatlaðs fólks í upphafi árs 2011, var m.a. fjallað um framtíðarverkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á sviði atvinnumála fatlaðs fólks. Vinna skyldi að því máli á reynslutímabili yfirfærslunnar með það fyrir augum að tryggja öruggan grundvöll undir samstarf milli Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga. Nokkuð skiptar skoðanir reyndust vera um útfærslur og leiðir. Verkefnisstjórn sem unnið hefur að endurmati á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna lagði drög að málamiðlun um tiltekna útfærslu. Viljayfirlýsing sem nú hefur verið undirrituð byggist á þessari útfærslu, en yfirlýsingin er hluti af væntanlegu heildarsamkomulagi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins fyrir hönd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um að ljúka endurmatinu.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni mun Vinnumálastofnun sjá um almennar vinnumarkaðsaðgerðir, verndaða vinnustaði, starfsþjálfun, atvinnu með stuðningi og aðra atvinnutengda endurhæfingu. Hlutverk sveitarfélaga verður að annast framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem tengjast iðju og hæfingu og starfrækslu „blandaðra“ vinnustaða, iðju, hæfingar og verndaðrar vinnu. Stefnt er að gerð samstarfssamninga milli Vinnumálastofnunar og þjónustusvæða í málefnum fatlaðs fólks þar sem rammi verður settur um teymisvinnu og samráð við notendur.

Í viljayfirlýsingunni er lögð áhersla á að litið verði á atvinnu- og hæfingartengda þjónustuþætti sem eina heild og að framkvæmd þeirra verði skilgreind sem vinnumarkaðsúrræði. Aðgengi að öllum atvinnutengdum aðgerðum verði þannig á sama stað, óháð því af hvaða ástæðum einstaklingar þurfa á þeim að halda. Þar sem vinnumarkaðsaðgerðir eru á verksviði Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum, mun það falla í hlut Vinnumálastofnunar að taka við öllum umsóknum, meta færni einstaklinga og beina þeim á þær brautir sem best henta hverjum og einum eftir því sem kostur er.

Ályktanir landshlutasamtaka um almenningssamgöngur Í niðurtöðum aðalfunda landshlutasamtaka er víða að finna ályktanir um almenningssamgöngur. Í ályktununum er lögð áhersla mikilvægi góðra almenningssamgangna til að jafna búsetuskilyrði og því verði að tryggja rekstrargrundvöll þeirra.

því að tryggja að þær verði ekki sakattlagðar og að grunnframlag og þróunarstyrkur til verkefnisins verði hækkað. á

Landshlutasamtökin leggja áherslu á að einkarétt-ur landshlutasamtakanna til að starfrækja almenningssamgöngur á tilteknum leiðum verði tryggður með lagasetningu og að skýr greinarmunur verði gerður á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Þá er í ályktunum lögð áhersla á að ríkið tryggi að landshlutasamtökunum verði gert kleyft að standa undir almenningssamgöngum, m.a. með

© Samband íslenskra sveitarfélaga Borgartúni 30 • Pósthólf 8100 • 128 Reykjavík Hönnun og umbrot: Ingibjörg Hinriksdóttir Myndir: Ingibjörg Hinriksdóttir og af vefsíðum Ritstjóri og ábm.: Magnús Karel Hannesson 2015/24 Afritun og endurprentun er heimil svo fremi að heimildar sé getið.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.