Tíðindi 7. tbl. ágúst 2015

Page 1

Samband íslenskra sveitarfélaga

Tíðindi l. b t 7. st ú ág 15 20


TÍÐINDI

Norrænn framkvæmastjórafundur Af óviðráðanlegum orsökum höfðu framkvæmdastjórar KL og Danske Regioner í Danmörku ekki tök á að sitja fundinn. Á fundinum flutti Kari-Pekka Maki-Lohiluoma erindi um sameiningu sveitarfélaga í Finnlandi og Håkan Sörman og Lasse Hansen sögðu frá stöðu þeirra mála í Svíþjóð og Noregi. Þá gerði Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, grein fyrir norrænu samstarfi á sviði sveitarstjórnarmála.

Árlegur fundur framkvæmdastjóra norrænu sveitarfélagasambandanna var haldinn dagana 13.–15. ágúst sl. á Hellu á Rangárvöllum. Fundinn sátu Håkan Sörman, framkvæmdastjóri SKL í Svíþjóð, Kari-Pekka Maki-Lohiluoma, framkvæmdastjóri Kunntalitto í Finnlandi, Lasse Hansen, framkvæmdastjóri KS í Noregi og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Að auki sat fundinn Magnús Karel Hannesson, sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs sambandsins.

2

Að lokum flutti Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins, erindi um tekjur og útgjöld sveitarfélaga á Norðurlöndum í samanburði við OECD ríkin. Hann ræddi einnig um breikkun og styrkingu tekjustofna sveitarfélaga í norrænum ríkjum. Að loknum fundinum héldu framkvæmdastjórarnir, ásamt mökum og fylgdarliði, í ferð um Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og skoðuðu helstu ferðamannastaði á þessu svæði.


TÍÐINDI

Mat á framkvæmd menntastefnu um skóla án aðgreiningar Starfshópur um mat á framkvæmd menntastefnu um skóla án aðgreiningar skilaði nýverið af sér skýrslu. Vinnan hófst haustið 2013 með þátttöku menntaog menningarmálaráðuneytis, Skólastjórafélags Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara. Fljótlega bættist fulltrúi velferðarráðuneytisins í hópinn. Ráðinn var sérstakur verkefnisstjóri, Hrönn Pétursdóttir, til þess að stýra vinnunni. Starfshópurinn var settur á laggirnar haustið 2013 á grundvelli samkomulags á grundvelli kjarasamnings við Félag grunnskólakennara. Verkefnið reyndist bæði flókið og umfangsmikið og snúið reyndist að greina helstu verkþætti og móta vinnulag. Hópurinn gerði m.a. samkomulag við Menntavísindastofnun HÍ og Rannsóknastofu um skóla án aðgreiningar um greiningu og úrvinnslu gagna sem skilað var til hópsins á formi tveggja skýrslna. Þær eru: Skóli án aðgreiningar – samantekt á lögum og fræðilegu efni og Greining á gögnum um sérkennslu frá Hagstofu Íslands. Byggir skýrsla starfshópsins, og þær ábendingar sem þar koma fram, á þeim skýrslum auk

úttektar menntamálaráðuneytis á sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og bókinni Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. Það er mat starfshóps að greining umfram það sem skýrslan dregur fram sé nánast ómöguleg á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Færa megi rök fyrir því að stefnan um skóla án aðgreiningar hafi hvorki verið skilgreind né innleidd með nægilega skipulögðum hætti hér á landi eða kostnaðarmetin sem skyldi og því erfiðleikum bundið að leggja mat á árangurinn og bein áhrif hennar á þróun skólastarfs. Meginniðurstöður hópsins eru eftirfarandi: 1. Veruleg þörf er á frekari greiningu á stöðu og framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar og áhrifum hennar á skólastarf, þ.m.t. líðan og árangur nemenda. Formleg beiðni verði send sem fyrst til Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir með ósk um að miðstöðin geri sambærilega úttekt á Íslandi og nýverið var unnin á Möltu 2. Úttekt Evrópumiðstöðvar verði fylgt eftir með skipulögðum hætti með umbætur í huga.

3. Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna markvisst að því að eyða „gráum“ svæðum í þjónustu við nemendur sem þurfa sérstakan stuðning og tryggja aukna fagþekkingu starfsfólks. 4. Leggja þarf aukna áhersla á vægi snemmtækrar íhlutunar og ráðgjafar, í stað formlegra greininga. Skoða þarf sérstaklega hlutverk sérskóla í þessu samhengi, með ráðgjöf við skóla og skólasamfélög á landsvísu í huga. • Skýrsla starfshóps • Skóli án aðgreiningar samantekt á lögum og fræðilegu efni • Greining á gögnum um sérkennslu frá Hagstofu Íslands Því má svo bæta við að menntaog menningarmálaráðherra hefur fengið kynningu á tillögum starfshópsins og fallist á að leitað verði til Evrópumiðstöðvar um að gera sambærilega úttekt á Íslandi og fram fór á Möltu. Fulltrúar aðila sem skipuðu starfshópinn munu mæta til fyrsta undirbúningsfundar með fulltrúa Evrópumiðstöðvar 11. september nk.

Kjaraviðræður af stað eftir sumarleyfi Þessa dagana eru kjaraviðræður Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda þess að komast í fullan gang eftir sumarleyfi. Teknar verða upp kjaraviðræður við 63 af 64 viðsemjendum sambandsins þ.e. öll stéttarfélög nema Félag grunnskólakennara, en kjarasamningur við félagið gildir út maí á næsta ári. Venju samkvæmt var beðið

með að hefja kjaraviðræður sambandsins þar til gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði væri að mestu lokið. Að auki samdi sambandið við viðsemjendur sína um frestun viðræðna í júlímánuði. Var þar fylgt fordæmi annarra aðila á opinberum vinnumarkaði.

3


TÍÐINDI

Frá brussel til breiðdalshrepps Frá Brussel til Breiðdalshrepps, sumar 2015 , upplýsingarit skrifstofu sambandsins í Brussel um helstu nýmæli hjá ESB og EFTA sem snerta sveitarfélög er nú komið út. Upplýsingunum hefur verið skipt niður eftir efnisköflum þannig að það sé aðgengilegt fyrir stjórnendur á einstökum sviðum sveitarfélaga að nálgast upplýsingar um sín svið, s.s. um kjara- og vinnumarkaðsmál, félags- og mannréttindamál, innri markaðinn og samkeppnismál, umhverfis- og úrgangsmál, viðfangsefni EFTA og stefnumótun og stofnanauppbyggingu ESB. Þá er einnig að finna í ritinu skýringar á hlutverkum Evrópustofnana, skammstöfunum og sértækum heitum sem notuð eru yfir Evrópumál. Í ritinu er einnig að finna fjölda tengla á skjöl og heimasíður þar sem nálgast má nánari upplýsingar um einstök mál. Vakin er athygli á því að með því að smella á einstök kaflaheiti í skjalinu flyst lesandinn beint á viðkomandi kafla. Upplýsingaritið kemur út tvisvar á ári en áhugasömum um Evrópumál er einnig bent á fréttasíðu Brusselskrifstofunnar og að skrá sig á póstlista sambandsins um efnið til að fá sendar beint fréttir af nýmælum.

Frá Brussel til Breiðdalshrepps Samband íslenskra sveitarfélaga Brussel-skrifstofa

Hvað er á döfinni hjá EFTA og ESB? Upplýsingar fyrir sveitarfélög sumar 2015

11. fundur sveitarstjórnarvettvangs EFTA Sveitarstjórnarvettvangur EFTA fundaði í ellefta sinn í Stange, Noregi 11.-12. júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstigsins í EES EFTA ríkjunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti tólf kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi, sex frá hvoru landi, og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. Helstu viðfangsefni vettvangsins að þessu sinni voru frjáls för vinnuafls og fólksflutningar á EES svæðinu sem vettvangurinn ályktaði um. Einnig var fjallað um áhrif fríverslunarsamnings ESB og Bandaríkjanna, sem er í undirbúningi, og mat ESB á stöðu EES-samningsins. Nánar á vefsíðu sambandsins.

4


TÍÐINDI

Fundir og RÁÐSTEFNUR Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2015

Hilton Reykjavík Nordica 24. og 25. september 2015 Fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica hótel 24.-25. september 2015. Ráðstefnan verður sett kl. 10:00 þann 24. september en slitið kl. 12:00 þann 25. september. Ekki hefur enn verið opnað fyrir skráningu en hún mun fara fram á vef sambandsins og verður send tilkynning til sveitarfélaga þegar þar að kemur. Að venju verða fjölbreytt erindi flutt á fjármálaráðstefnunni báða dagana en meðal þess sem áhersla er lögð á fyrri daginn má nefna áhrif kjarasamninga á fjármál sveitarfélaga, notkun skýrslunnar „Best Practice“ á undirbúning fjárhagsáætlana og ráðstöfum stöðugleikaskatts

og áfnám fjármagnshafta. Þá verða samræður milli Halldórs Halldórssonar, formanns sambandsins, og Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Föstudaginn 25. september fer dagskráin fram í tveimur málstofum í A hluta verður m.a. rætt um innleiðingu og áhrif vinnumats grunnskólakennara, gildi forvarnarstarfs og samstarfsmöguleika sveitarfélaga á hagkvæmum innkaupum. Í B hluta verður áherslan m.a. á fasteignaskatt og undanþágur í fasteignamati, fjarvistir á vinnustað, veikindadaga og mannauðsmál sveitarfélaga.

Hafnafundur Hafnafundur verður haldinn í Firði í Hafnarfirði föstudaginn 28. ágúst 2015. Skráning er hafin á vef hafnasambandsins og þar má einnig finna dagskrá fundarins.

5


TÍÐINDI

Þjóðarsáttmáli

um læsi

Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðherra, Kennarasamband Íslands og Heimili og skóli, landssamtök foreldra hafa undirritað Þjóðarsáttmála um læsi. Með sáttmálanum taka viðkomandi aðilar saman höndum um að öll börn, sem hafa til þess getu, geti lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Takist að ná því markmiði mun það hafa víðtæk áhrif á einstaklinga og þjóðfélagið allt. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög einsetji sér sameiginlega að bæta læsi barna á Íslandi til framtíðar, en í Hvítbók um umbætur í menntun er sett fram það metnaðarfulla markmið að 90% nemenda í 10. bekk nái lágmarksviðmiðum um að geta lesið sér til gagns í PISA könnuninni sem lögð verður fyrir árið 2018, en í dag ná einungis 79% nemenda því markmiði. Öllum bæjar- og sveitarstjórum er boðið að undirrita Þjóðarsáttmála um læsi þar sem aðilar samningsins, ríki og sveitarfélög, skuldbinda sig til að vinna að því með öllum tiltækum ráðum að ná settu markmiði um læsi.

6


TÍÐINDI

Leikskóli að loknu fæðingarorlofi Alþingi samþykkti þingsályktun nr. 5/143, dagsett 19. desember 2013, sem fól mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að skipa starfshóp til að meta kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur. Starfshópurinn hefur nú lokið störfum en honum var ætlað að greina faglegar kröfur og fjárhagsleg sjónarmið sem taka þurfi tillit til, þar á meðal varðandi mannafla og húsnæðisþörf leikskóla miðað við áætlaða fjölgun leikskólabarna á aldrinum eins til tveggja ára, ásamt leiðum til fjármögnunar. Helstu niðurstöður hópsins snúa m.a. að því að þróun í dagvistunarmálum barna á síðustu tveimur áratugum er í þá átt að gæsla, umönnun og nám barna utan heimilis, frá lokum fæðingarorlofs til upphafs skyldunáms í grunnskóla, hefur færst í æ ríkari mæli inn í leikskóla. Tölur sýna einnig að hlutfall barna á öðru aldursári sem sækja leikskóla hefur haldist nokkurn veginn það sama undanfarin ár. Ef tillaga um leikskóla að loknu fæðingarorlofi á að ná fram að ganga er ekki hægt að reiða sig á að þróun undanfarinna áratuga muni sjálfkrafa leiða í þá átt. Yfirstíga þarf ákveðnar hindranir varðandi húsnæði, starfsfólk og fjármagn. Starfshópurinn telur að stefna ætti að því að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla frá 12 mánaða aldri. Þróunin undanfarin 20 ár sýnir glögglega mikla þörf fyrir leikskóla strax að fæðingarorlofi loknu með kröfum bæði frá foreldrum og atvinnulífi. Fagleg rök eru einnig fyrir því að bjóða frekar leikskóla en daggæslu í heimahúsum. Ljóst er að þetta er kostnaðarsamt og að möguleikar sveitarfélaga til að standa undir slíkri uppbyggingu á næstu árum eru mjög misjafnir. Benda má á að á vegum Reykjavíkurborgar er starfshópur að skoða möguleika á að bjóða leikskóla frá 12 mánaða aldri. Skýrsla starfshópsins

7


TÍÐINDI

Lestur ársreikninga

Starfsemi sveitarfélags samanstendur af tveimur meginhlutum, A-hluta og B-hluta. A-hlutinn er sá hluti af starfsemi sveitarfélags sem er að mestu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Skatttekjur eru útsvar, fasteignaskattur og greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Undir A-hlutann fellur starfsemi eins og fræðslustarfsemi (grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli), félagsþjónusta sveitarfélaga, æskulýðs- og íþróttamál, umhverfismál, skipulagsmál og hreinlætismál. Undir B-hlutann fellur sá hluti af starfsemi sveitarfélags sem er að mestu eða öllu leyti fjármagnaður með þjónustutekjum. Það eru fyrirtæki sveitarfélaganna. Sem dæmi um fyrirtæki í B-hluta má nefna hafnarsjóð, vatnsveitur og hitaveitur og félagslegt húsnæði.

8

A-hlutinn, sem fjármagnaður er að mestu leyti með skatttekjum, er kjölfestan í rekstri sveitarfélaga. Ef rekstur B-hluta fyrirtækja gengur illa þá hleypur A-hlutinn gjarna undir bagga. Á hinn bóginn er miklum takmörkunum háð að flytja fjármagn úr B-hluta fyrirtæki sem gengur vel yfir í A-hlutann enda þótt rekstur hans sé erfiður. Einnig er ekki heimilt að flytja fjármagn úr einu B-hluta fyrirtæki yfir í annað. Uppsetning ársreikninga fyrir sveitarfélögin tekur mið af þessum forsendum. Sérstakur ársreikningur er settur upp fyrir A-hlutann. Sérstakur ársreikningur er síðan settur upp fyrir hvert fyrirtæki í B-hluta og að lokum er settur upp einn samstæðureikningur fyrir samanlagðan A-hluta


TÍÐINDI

Fjármál sveitarfélaga

Fjárhagur 6. hluti

síðan niður á nokkrar tiltölulega sjálfstæðar rekstrareiningar.

og B-hluta. Niðurstaða samstæðureiknings leiðir í ljós heildarveltu sveitarfélagsins, heildareignir þess og heildarskuldir. Ársreikningar fyrir bæði A-hluta og B-hluta fyrirtæki skulu settir upp á sama hátt þannig að þeir séu eins sambærilegir og fært er. Með hliðsjón af fyrrgreindum takmörkunum um flutning fjármagns frá B-hluta fyrirtækjum til A-hlutans og eins þeim takmörkunum sem eru á því að flytja fjármagn milli einstakra B-hluta fyrirtækja þá ber að varast að líta á niðurstöður ársreiknings fyrir A+B hluta sem rekstur eins fyrirtækis eða stofnunar. Þar er fyrst og fremst um að ræða samantekt á heildarumsvifum, eignum og skuldbindingum sem fara fram á vegum sveitarfélagsins og sveitarstjórnin ber endanlega ábyrgð á. Heildarumsvifin deilast

Þegar ársreikningar sveitarfélags eru skoðaðir og niðurstaða þeirra greind, þá er mest lagt upp úr því að fara yfir stöðu A-hlutans eða sveitarsjóðs eins og hann er einnig nefndur. Hann er kjölfestan í rekstri sveitarfélagsins. Undir hann falla flest þau lögbundnu verkefni sem tengjast þjónustu við íbúa í sveitarfélaginu. Í A-hlutanum er skattfé íbúanna ráðstafað. Ef A-hlutinn stendur illa fjárhagslega þá líður ekki á löngu þar til áhrif þess fara að birtast íbúunum á einn eða annan hátt s.s. í skertri þjónustu eða hækkun skatta og gjaldskráa eftir því sem fært er. Því er eðlilegt að athyglin beinist fyrst og fremst að honum.

9


TÍÐINDI

Skipulagsdagurinn 2015 Skipulagsdagurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica, þann 17. september nk. Til Skipulagsdagsins er boðið sveitarstjórnarfólki, skipulagsfulltrúum og öðrum sem starfa að skipulagsmálum. Viðfangsefni Skipulagsdagsins að þessu sinni hverfist um þrjú þemu, vindorku, ferðamannastaði og búsetumynstur. Fyrir hádegi mun sérfræðingur frá skipulagsyfirvöldum í Skotlandi miðla af reynslu þeirra við skipulag vindorkunýtingar. Þá mun verða gerð grein niðurstöðum rannsóknar um tengsl ímyndar og skipulags auk þess sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúar Skipulagsstofnunar verða með innlegg af vettvangi skipulagsmála.

Opnað hefur verið fyrir skráningu á vef Skipulagsstofnunar en nauðsynlegt er að skrá sig fyrir 10. september. Þátttökugjald er kr. 5.000. Húsið verður opnað kl. 9:00 og er fólk beðið að mæta tímanlega til að ganga frá skráningu. Dagskrá hefst kl. 9:30 og lýkur kl. 16:00. Eftir hádegi verða haldnar vinnustofur um skipulagsviðfangsefnin vindorku, ferðamannastaði og búsetumynstur.

Að vera í sveitarstjórn Önnur útgáfa námsheftisins „Að vera í sveitarstjórn - Námskeið fyrir sveitarstjórnarmenn“, sem dreift var til þeirra sem sótt hafa samnefnt námskeið fyrr á þessu ári og í lok þess síðasta, er nú væntanleg. Námsheftið skiptist upp í tvo meginþætti: • Hlutverk og ábyrgð sveitarstjórnarmanna. • Fjármálastjórn sveitarfélaga. Ritið er væntanlegt úr prentun innan tíðar og verður til sölu á skrifstofu sambandsins á 2.500 kr. með virðisaukaskatti. Hægt er að panta ritið með því að senda póst á sigridur@samband.is eða í síma 515 4900.

10


TÍÐINDI

Ábendingar til sveitarfélaga um fasteignaskatt o.fl. á mannvirki tengd ferðaþjónustu Uppsveifla í ferðaþjónustu undanfarin misseri felur í sér nýjar áskoranir fyrir sveitarfélögin, m.a. vegna breyttrar nýtingar á fasteignum. Þannig hefur framboð á heimagistingu aukist mikið, auk þess sem algengt er að íbúðarhúsnæði sé leigt út á bókunarvefjum. Töluverður misbrestur hefur verið á því að aflað sé tilskilinna leyfa til slíks rekstrar og hluti þessara auknu umsvifa tengjast svonefndri svartri atvinnustarfsemi.

Töluverðir hagsmunir felast í því að sveitarfélög lagi stjórnsýslu sína að þessum breytingum og þau gæti þess m.a. að álagning fasteignaskatts taki mið af nýtingu húsnæðis.

ræða lítillega uppfærða útgáfu af leiðbeiningum sem sendar voru til allra sveitarfélaga í lok apríl 2015. Lögfræðingar sambandsins eru jafnframt til frekari ráðgjafar um málið ef þörf er á.

Í leiðbeiningum sem sambandið hefur birt á heimasíðu sinni er að finna ábendingar um ýmis álitaefni sem nýst geta sveitarfélögum við ákvörðun um álagningu fasteignaskatts á mannvirki sem tengjast ferðaþjónustu. Um er að

Leiðbeiningarnar hafa vakið töluverð viðbrögð og er ljóst að víða er áhugi á því að vanda betur til verka við álagningu fasteignaskatts á þessar fasteignir.

11


TÍÐINDI

Drög að reglugerð um

héraðsvegi til umsagnar Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins um héraðsvegi kemur fram að þar sem skilgreiningu héraðsvega var breytt lítillega með breytingu Alþingis á vegalögum nr. 80/2007 í febrúar síðastliðnum er nauðsynlegt að breyta reglugerð um héraðsvegi. Unnt er að senda innanríkisráðuneytinu umsögn um reglugerðardrögin til 24. ágúst næstkomandi og skulu umsagnir sendar á netfangið postur@irr.is. Með lagabreytingunni var felld brott heimild til að taka í tölu héraðsvega vegi að sumarbústaðahverfum sem tengja a.m.k. 30 sumarbústaði við þjóðveg. Til héraðsvega teljast áfram vegir sem liggja að býlum, atvinnustarfsemi, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis samkvæmt nánari skilgreiningu.

12

• Drög að reglugerð um héraðsvegi

Umsögn sambandsins Sambandið hefur sent ráðuneytinu umsögn um reglugerðardrögin þar sem lagðar eru til tvær breytingar á reglugerðinni. Snúa þær annars vegar að ákvæði 1. gr. um vegi að opinberum skólum og hins vegar að því að tryggja að Vegagerðin sendi ávallt tilkynningu til viðkomandi sveitarfélags vegna áforma um breytingar á vegaskrá. • Umsögn sambandsins


TÍÐINDI

Styrkir til meistaranema Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var föstudaginn 3. júlí 2015, var samþykkt að veita árlega á árunum 2016-18 styrki til allt að þriggja meistaranema við viðurkennda háskóla. Samþykkt þessi er gerð í tilefni af 70 ára afmæli sambandsins, sem stofnað var í júní árið 1945. Skilyrði fyrir styrkveitingunni er að verkefnin sem sótt er um styrk til hafi skírskotun til markmiða eða aðgerða í stefnumörkun sambandsins 2014-2018. Á hverju ári er gert ráð fyrir að sambandið tilgreini þá stefnumörkunarþætti, sem leggja ber áherslu á að fjallað verði um í þeim lokaverkefnum sem verða styrkt. Þannig getur sambandið forgangsraðað þeim málum, sem það kallar eftir umfjöllun um, í lokaverkefnum þeirra meistaranema sem fá samþykkta styrki. Samþykktin verður kynnt í háskólum landsins næstkomandi haust. Með samþykktinni væntir stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að vitund meistaranema og áhugi þeirra á starfsemi sveitarfélaga, sambandsins og sveitarstjórnarstigsins muni aukast og tengsl sambandsins og háskólasamfélagsins munu að líkindum eflast. Augýst verður eftir umsóknum um styrkina um næstu áramót. Á stjórnarfundinum voru einnig samþykktar verklagsreglur vegna úthlutunar styrkja til meistaranema. Verklagsreglurnar má nálgast á vef sambandsins.

13


TÍÐINDI

Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara

Fundur um hlutverk, ábyrgð og skyldur Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara stendur fyrir opnum fundi mánudaginn 31. ágúst 2015 kl. 10:00-14:00 í Gerðubergi, Reykjavík, um hlutverk, ábyrgð og skyldur aðila fagráðs hvað varðar málefni starfsþróunar kennara, ráðgjafa og skólastjórnenda í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum. Aðilar fagráðs eru menntamálaráðuneyti, háskólar sem mennta kennara, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands. Fulltrúar aðila munu greina frá sinni sýn og fyrir munu liggja skrifleg svör þeirra við ákveðnum spurningum frá stýrihópi fagráðs um hlutverk, ábyrgð og skyldur. Svörin má nálgast á slóðinni: http:// starfsthrounkennara.is/opinn-fundur-31-agust/

Þess er vænst að umræður á þessum fundi geti orðið mikilvægt framlag til stefnumótunarvinnu fagráðsins um starfsþróun kennarastéttarinnar. Fundinum verður streymt á vef sambandsins og hægt verður að vera í sambandi í gegnum twitter #starfsthrounkennara3108 með innlegg og spurningar. Fundurinn er opinn öllum áhugasömum um málefnið, en fólk er vinsamlega beðið að skrá sig á þessum tengli eigi síðar en 26. ágúst. Nánari upplýsingar veitir Sólrún Harðardóttir starfsmaður fagráðsins – solrun. hardardottir@mms.is Aðgangur er ókeypis.

Bæjarstjórnarbekkurinn - aðgerðir til að auka sjálfsstjórn og lýðræði í sveitarfélögum

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins vinnur að því að auka sjálfsstjórn og lýðræði í evrópskum sveitarfélögum. Það stendur árlega fyrir átaki sem felst í því að hvetja sveitarfélög til að skipuleggja sérstakar aðgerðir í eina viku í október til að vekja athygli á lýðræðislegu hlutverki sveitarfélaga og mikilvægi lýðræðislegrar þátttöku íbúa. Að þessu sinni verður lýðræðisvikan dagana 12.-18. október en tímasetningin í október var valin vegna þess að 15. október 1985 var Evrópusáttmáli um sjálfsstjórn sveitarfélaga opnaður til undirritunar. Ísland hefur fullgilt þennan sáttmála sem er mikilvægur hornsteinn fyrir sjálfstjórn sveitarfélaga og er vísað til hans í nýju sveitarstjórnarlögunum. Nánar á vefsíðu sambandsins. Nokkur íslensk sveitarfélög hafa sýnt áhuga á að taka þátt í lýðræðisvikunni. Fljótsdalshérað mun m.a. setja upp bæjarstjórnarbekk á fjölförnum stað í sveitarfélaginu þar sem íbúum gefst tækifæri til að ræða milliliðalaust við bæjarfulltrúa og koma sínum erindum og skoðun á framfæri við þá. Einnig hefur komið fram sú hugmynd að fara með hefðbundinn bæjarstjórnarfund út í dreifbýlið og efla þannig tengslin við íbúana í dreifbýli Fljótsdalshéraðs.

14


TÍÐINDI

Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður afhendir Sigrúnu Árnadóttur, bæjarstjóra Sandgerðisbæjar, heimild til að hefja rafræna skjalavörslu.

Sandgerðisbær fyrsta sveitarfélagið í rafræna skjalavörslu Þjóðskjalasafn Íslands hefur veitt Sandgerðisbæ heimild til að hefja rafræna skjalavörslu og skila gögnum á rafrænu formi til safnsins til langtímavarðveislu. Sandgerðisbær er fyrsta sveitarfélagið hérlendis sem fær slíka heimild. Um er að ræða heimild til að afhenda gögn á rafrænu formi úr skjalavörslukerfi bæjarins. Sandgerðisbær mun því hætta að prenta út gögn úr kerfinu til varðveislu og varðveita gögnin eingöngu á rafrænu formi. Undanfarna mánuði hafa starfsmenn Sandgerðisbæjar og Þjóðskjalasafns unnið að málinu í góðu samstarfi. Fyrsta afhending á rafrænum gögnum Sandgerðisbæjar verður árið 2017. Sandgerðisbær

er afhendingarskyldur til Þjóðskjalasafns þar sem sveitarfélagið er ekki aðili að héraðsskjalasafni. „Sandgerðisbær leggur áherslu á faglega stjórnsýslu og liður í því er rafræn skráning skjala og mála sem til vinnslu eru hjá bæjarfélaginu. Rafræn skjalastjórnun auðveldar yfirsýn og rekjanleika mála, þjónusta við bæjarbúa og viðskiptavini verður áreiðanlegri. Um leið verður umtalsverður sparnaður á pappír og geymsluplássi“, segir Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði. Þjóðskjalasafn setti árið 2009 fyrst reglur um rafræn opinber gögn og skil á þeim. Síðan hafa stofnanir og embætti ríkisins tilkynnt alls 146 gagnakerfi til safnsins og fjöld ríkisstofnana fengið heimild til rafrænnar skjalavörslu.

Þjóðskjalasafn hefur fengið til varðveislu alls 17 afhendingar á rafrænum gögnum og á næstu árum munu rafræn gögn í safnkosti Þjóðskjalasafns margfaldast. Að sögn Eiríks G. Guðmundssonar, þjóðskjalavarðar, eru enn fjölmörg gagnakerfi hjá hinu opinbera sem eftir á að tilkynna safninu svo hægt sé að tryggja varðveislu og aðgengi að upplýsingum í þeim til framtíðar: „Stofnanir ríkisins ráða yfir nokkrum gagnakerfum og aðeins brot af þeim hefur verið tilkynnt til Þjóðskjalasafns. Það er ánægjulegt að fyrsta sveitarfélagið hafi nú hafið rafræna skjalavörslu og er von til þess að sporganga Sandgerðisbæjar verði sveitarfélögum og stofnunum ríkisins til eftirbreytni.“

15


Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir

Þórður Kristjánsson

Nýir starfsmenn á lögfræðiog velferðarsviði Þórður Kristjánsson og Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir hafa hafið tímabundið störf á lögfræðiog velferðarsviði sambandsins 1. ágúst sl. Vigdís Ósk er lögfræðingur og mun hún m.a. fylgjast með lögfræðilegum þáttum í starfsemi og starfsumhverfi sveitarfélaganna og miðla þeirri þekkingu innan sambandsins og til sveitarfélaga. Hún vinnur einnig að undirbúningi og gerð umsagna um lagafrumvörp, önnur þingmál og drög að reglugerðum, tekur þátt í samskiptum við Alþingi og ráðuneyti og sinnir lögfræðilegri ráðgjöf og upplýsingagjöf til sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélaga. Vigdís er ráðin til eins árs til afleysinga vegna fæðingarorlofs.

Þórður, sem áður var skólastjóri Seljaskóla, mun starfa ásamt skólamálafulltrúa sambandsins og skólamálanefnd að margþættum og síbreytilegum verkefnum sem einkum varða leik- og grunnskóla, og vinna að hagsmunagæslu fyrir hönd sveitarfélaga á þeim sviðum. Þórður er ráðinn í hlutastarf til eins árs vegna tímabundins verkefnaálags. Við bjóðum Vigdísi og Þórð velkomin til starfa.

© Samband íslenskra sveitarfélaga Borgartúni 30 • Pósthólf 8100 • 128 Reykjavík Hönnun og umbrot: Ingibjörg Hinriksdóttir Myndir: Ingibjörg Hinriksdóttir og af vefsíðum Ritstjóri og ábm.: Magnús Karel Hannesson 2015/22 Afritun og endurprentun er heimil svo fremi að heimildar sé getið.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.