7 minute read

Þróunarstarf Grönfeldts

Nauðsynlegt er nefna þátt í starfi Grönfeldts sem hann sinnti strax á fyrsta starfsári og allmörg ár síðan. Það var að ferðast á milli rjómabúanna og leiðbeina starfsmönnum og innleggjendum um verkhætti og vinnubrögð. Má ljóst vera hver fengur það hefur verið byrjendum í iðnvæddri smjörvinnslu og samvinnurekstri rjómabúa að fá til leiðsagnar mann sem vaxinn var upp við þess störf í Danmörku og hafði að auki staðgóða mjólkurfræðimenntun.

Fyrir leiðbeiningaferðunum gerði Grönfeldt jafnan grein í starfsskýrslum sínum sem reglulega birtust í Búnaðarriti. Efnisatriði úr þeim verða ekki tíunduð hér; aðeins þess getið til að líklegt er að eftirlits- og ráðgjafarferðirnar hafi mjög styrkt kennslu hans við Mjólkurskólann og gert hana enn hagnýtari en ella mundi. Mjólkurfræðingurinn Grönfeldt sá hvar í atvinnugreininni skórinn kreppti og gat lagt grunn að umbótum í kennslu sinni.

Advertisement

Sakir tengsla sinna við Danmörku átti Grönfeldt einnig aðvelt með að liðsinna bændum og rjómabúum við

útvegun áhalda og efna til mjólkurvinnslunnar. Skömmu fyrir jólin 1902 auglýsti hann útvegun efnis í 100 pd smjörtunnur; „Ennfremur panta eg alt annað sem til mjólkurbúa heyrir…“140 og árið eftir hafði hann gert „… stórar pantanir fyrir ýmis rjómabú.“141 Þá lét hann leggja nafn sitt við mat á skilvindum: „»PERFECT« er af … mjólkurfræðingi Grönfeldt talin bezt af öllum skilvindum“, sagði í blaðaauglýsingu142 en þá voru sveitaheimilin í óða önn að væðast þeim þörfu tækjum. Má auðveldlega skynja þá miðlægu stöðu til áhrifa sem mjólkurfræðingurinn Grönfeldt hafði á bernskuárum íslensks mjólkuriðnaðar í byrjun tuttugustu aldarinnar.

Grönfeldt var ljóst að smjörsmekkur Íslendinga og hins erlenda markaðar var ekki að öllu leyti hinn sami:

Síðan eg kom til Íslands og fór að fást við að búa til sýrt smjör, með því að láta í rjómann séralda mjólkursýrugerla, hefir smjör frá mér orðið fyrir töluverðum aðfinslum úr ýmsum áttum, og verð eg að segja, að þær horfi ekki til heilla smjörgerðinni hér á landi.143

… skrifaði Grönfeldt þegar árið 1902 og í þeirri grein skýrði hann fyrir landsmönnum hve mikilvægt væri að stýra súrsun rjómans svo smjörið fengi hinn „þægilega, ísúra keim“ sem einkenndi vel verkað smjör. Þarna var við ramman reip að draga því bæði geymsluskilyrði rjómans á búunum svo og geymslu- og flutningstími hans gátu auðveldlega kallað fram vöxt óæskilegrar

NAUTASMJÖR – SAUÐASMJÖR

Í tímamótariti sínu um smjörgerð árið 1780 vék Ólafur Olavíus að mismuninum á nautasmjöri og sauðasmjöri:

… en um nauta og sauðariómann er staðfastliga athugandi, at þeim hvergi se blandið, og sauða og kúasmiøri helldr eigi, einkum ef seliaz á til útlendra þióða, þvíat sauðasmiør giørir kúasmiør hvítdrøfnótt, og þeßar drøfnur hallda útlendir menn, er eigi eru vanir við sauðasmiør, óhreinindi tóm, eðr farða í kúasmiørinu, sem bera skal rettu lagi gulann lit; enda er sauðasmiør, þótt eintómt se, helldr eigi svo gott til sølltunar sem nautasmiør eitt; af því er sauðasmiørins náttúru er øðruvís varið, enn nautasmiørsins.145

gerlaflóru og gert rjómann „feyrinn, væminn …“ eins og þar sagði. Í bréfi amtmanns til Hjartar skólastjóra Snorrasonar nokkru seinna virðist hann að gefnu tilefni árétta að þótt tilgangurinn með mjólkurmeðferðarkennslunni á Hvanneyri væri að framleiða smjör til útflutnings, sem hann telur þó næsta þýðingarlítinn sakir samgönguannmarka, útiloki það ekki að á Hvanneyri sé framleitt smjör „… með þeim hætti sem mönnum geðjast að hér“ og að nemendur þar læri að búa til smjör „ … sem menn vilja hafa hér, svo gott og fullkomið sem unnt er …“144 Þannig virðist hafa verið gerðar tvenns konar kröfur til smjör-

gæðanna; annars vegar þær gömlu íslensku og hins vegar þær sem erlendi (enski) markaðurinn krafðist. Þar mættust því ólíkir heimar.

Önnur sérstaða íslenska rjómans, sem Grönfeldt glímdi við, var það hve stór hluti hans var skilinn úr sauðamjólk. Ekki var víst að hinum kröfuharða erlenda markaði félli sauðasmjör. Til að ganga úr skugga um það gerði Grönfeldt rannsókn með atbeina Bøggilds, hins danska mjólkurfræðiprófessors. Sumarið 1901 sendi Grönfeldt utan þrjú smjörsýni sem nemendur hans höfðu verkað. Það segir sitt um samgöngur þeirrar tíðar að smjörið var gert 2. ágúst en í hendur Bøggilds til rannsóknar kom það 20. september. Sýnin þrjú voru unnin úr kúamjólk, sauðamjólk og loks blöndu beggja til helminga.

Sýnin voru tekin til gæðamats en einnig rækilegra efnagreininga. Mæld var smjörfita, eggjahvítuefni og mjólkursykur, auk matarsalts, annarra ólífrænna efna og vatns í smjörinu. Þá var nánari eðlis- og efnagreining gerð á smjörfitunni svo hér var gengið nákvæmlega til verka. Helst var það að sauðasmjörið væri eggjahvítu- og mjólkursykurríkara en kúasmjörið en gera má söguna stutta með því að samkvæmt gæðamatinu („som Handelsvare“) voru öll sýnin metin sem „… gammelt og simpelt Smør…“ Blandsmjörið en einkum sauðasmjörið stóð kúasmjörinu framar og hin varlega ályktun Bøggilds í svarbréfi var þannig:

Sauðamjólk var drjúgur hluti hráefnis til mjólkurvinnslu á fyrstu árum Mjólkurskólans. Ekki var sjálfgefið að hinum erlenda markaði félli íslenska sauðasmjörið og því var gerð á því rannsókn með samanburði við kúasmjör. Myndin sýnir Bessabe Halldórsdóttur og systur hennar, Júlíönu, mjólka ærnar í færikvíunum á Kirkjubóli í Bjarnardal.

Det her foreliggende sparsomme Materiale tyder vel ikke paa, at det maa fraraades at blande Faaremælk i Komælken for Fremstilling af Smør …

… að hin fáu sýni bentu ekki til þess að ráðið skyldi frá því að blanda sauðamjólk í kúamjólk við smjörgerð en samt hvatti hann til þess að fleiri sýni yrðu rannsökuð áður en opinber niðurstaða yrði gefin út.146 Tilraunin mun hafa verið endurtekin sumarið 1902. „Rannsóknirnar virtust bera með sér að sauðamjólk hefði eingin áhrif á gæði smjörsins.“147

Það má telja til þróunarstarfs Grönfeldts að hann ól

svín á Hvítarvöllum að hætti danskra bænda og mjólkurbúa þeirra.148 Áfir sem til féllu við rjómavinnsluna voru nefnilega verðmætt svínafóður en þó verðmætari til manneldis. Í skólaskýrslu skrifaði Grönfeldt m.a.: „Hér við mjólkurskólann höfum við áfagraut tvisvar í viku, og ennfremur notum við þær í brauð, bæði rúgbrauð og hveitibrauð.“149 Um sama leyti skrifaði hann fræðslugrein um það hvernig áfir frá rjómabúunum gætu nýtst til svínaræktar.150

Þótt ekki tengist það beinlínis Mjólkurskólanum má nefna það frumkvæði í mjólkurvinnslu sem Grönfeldt hafði er hann kom upp niðursuðu á rjóma í vinnslubúi sínu að Beigalda. Var það þá nýlunda og upphaf að frekara starfi á því sviði í Borgarnesi.

Undir lok þessa kafla má árétta það hversu iðinn Grönfeldt var við að hvetja til umbóta í mjólkurvinnslu með greinaskrifum sínum, rækilegum ársskýrslum, og síðast en ekki síst með Leiðarvísi um meðferð mjólkur, nær 90 blaðsíðna riti sem hann skrifaði strax á fyrsta starfsári sínu, og áður hefur verið nefnt. Þegar við bættist starf Sigurðar ráðunauts Sigurðssonar á sama sviði má fullyrða að landsmenn hafi átt greiðan aðgang að nýjustu þekkingu á mjólkurmeðferð. Hröð fjölgun rjómabúanna á fyrstu árum aldarinnar og starfsárangur þeirra byggðist ekki síst á þessari grunnþekkingu.

Það hefur þegar komið fram hve Grönfeldt var hugað um allt hreinlæti í meðferð mjólkurinnar. Það var for-

senda þess að gera mætti gæðasmjör. Í bréfi sínu til Ágústs Helgasonar bónda í Birtingaholti, sumarið 1906 skrifaði Grönfeldt m.a.:

Derfor havde jeg tænkt mig næste sommer, naar jeg rejser omkring og om det vinder bifald, at holde korte foredrag om „mælkens benhandling i hjemmene“, for om mulig derved, at bidrage lidt til at skaffe bedre, friskere og renere fløde til mejeriene.“151

Grönfeldt hugðist m.ö.o. í leiðbeiningaferð komandi sumars flytja, ef samþykkt yrði, stutta fyrirlestra um meðferð mjólkur á heimilunum og stuðla með því að til búanna bærist betri, ferskari og hreinni rjómi.

Grönfeldt einskorðaði ekki ráðgjöf sína og hvatningu við mjólkurfræðina í þrengsta skilningi. Verslunarhætti vildi hann einnig bæta: „Eins og ástandið er hér, þá er það fyrst 1–2 mánuðum eftir að smjörið er sent, að vér fáum að vita um galla þess, og tíðast ekki fyr en eftir að bústörfum er hætt það árið,“ skrifaði hann, og lýsti því hvernig við mætti bregðast:

… áður en langt um líður, [ætti] að selja smjörið til kaupmanna hér innanlands, er síðan selja það fyrir eigin reikning til útlanda. Með því móti gætu rjómabúin fengið strax að vita um galla þá, er kynnu að vera á smjörinu, og þá um leið aðstoð þeirra manna, er vit hefðu á smjörgerð, til þess að lagfæra það, er aflaga færi, ef sú, er stæði fyrir búinu, væri eigi fær um það sjálf…152

Einnig í þessu efni vildi Grönfeldt að Íslendingar nýttu sér góða reynslu Dana í smjörviðskiptunum. Á breytingaárunum í upphafi fyrra stríðsins hvatti hann bændur til samstöðu um kjarakröfur sínar og lýsti því með dæmum hvernig danskir bændur hefðu myndað samtök til sölu afurða sinna og kaupa á aðföngum: „Fleiri dæmi mætti telja,“ skrifaði Grönfeldt „en þetta nægir til að sýna, að félagsskapurinn er það eina, sem framtíð bænda verður að byggjast á.“153