5 minute read

Rætt um húsnæði fyrir skólann

Kemur þá að húsnæði og kennsluaðstöðu fyrir hinn nýja skóla. Ráðamönnum Hvanneyrarskóla var í mun að nýta það fyrirheit sem gefið hafði verið um stuðning við mjólkurmeðferðarkennsluna þar sem stungið hafði verið upp á Hvanneyri sem kennslustað. Stjórnarnefnd Búnaðarskólans skrifaði amtmanni því ítarlegt bréf þar um í september árið 1899. Taldi nefndin nauðsynlegt að byggja til mjólkurmeðferðarkennslunnar hús „… 10x12 álna, með kjallara undir, en loptinu löguðu til svefnherbergja handa nemöndum.“ Höfðu stjórnarmenn heyrt að Búnaðarfélagið væri ekki tilbúið til að leggja fé til byggingarinnar og fóru því fram á að bréflega yrði kannað hvort amtsráðið vildi hrinda byggingunni af stað svo unnt væri að hefja kennsluna árið eftir, en amtsráðsfundir voru aðeins haldnir einu sinni á ári og þá á hásumri. Kváðust stjórnarmenn gera sér grein fyrir að töf gæti orðið á því að amtsráðið legði fé „til haughúsbyggingar með nautafjósi og súrheystópt [fyrir Búnaðarskólann], sem bagalegt

er án að vera lengr, en við sjáum engin önnur úrræði til þess að skólinn geti notið fjárlagastyrksins …“62

Advertisement

Um þessar mundir var Hjörtur Snorrason skólastjóri Búnaðarskólans á Hvanneyri. Má segja að hann hafi á þessum árum verið að móta Hvanneyrarskólann fyrir komandi öld. Hjörtur fylgdi mjólkurskólamálinu eftir með bréfi til amtmanns í október sama haust (1899) og skrifaði m.a.:

Fjárhagsleg framtíð Hvanneyrarbúsins er undir kúabúinu komin og því, að það takist að framleiða hér smjör, sem selst geti háu verði, en um hátt smjörverð á innlendum markaði er ekki að tala, en kæmist hér á mjólkurmeðferð eptir því sem bezt getur orðið á slíku búi, get ég ekki annað ætlað en að fá mundi mega allhátt verð fyrir smjörið héðan erlendis og að skólabúið gæti að töluverðum mun notið góðs af lögunum frá alþingi í sumar um verðlaun fyrir útflutt smjör. En eina ráðið til þess að smjörgjörðin geti orðið nógu góð til þess, er það, að útlendur maður með nógri þekkingu og æfingu í smjörgjörð komi henni á …

Hjörtur áleit slíkan kennara geta orðið skólanum afar verðmætan til framtíðar en „ekki get ég hugsað mér að útlendur maður, sem vanur er góðum húsakynnum til mjólkurmeðferðar, geti unað við kjallara kytru þá, sem búið hérna hefur verið að notast við, enda ekki unnt að láta mjólkurmeðferðina vera í fullkomnu lagi, nema hæfilegt húsrúm sé til hennar.“ Síðan lýsti Hjörtur erfiðri fjár-

hagsstöðu Búnaðarskólans. Það er til marks um það hve Hjörtur áleit mjólkurskólann mikilvægan á skólastaðnum að hann telur ekki frágangssök að búnaðarskólinn taki frekari lán: „4000 kr. lán, sem tekið væri til að koma upp arðberandi eign, mundi trauðlega valda þeim ósköpum“ skrifaði hann.63

Á þessum árum stóð Hjörtur skólastjóri í miklum byggingaframkvæmdum á Hvanneyri. Skólahúsið, með „kjallarakytrunni“ sem hann kallaði svo, var reist á stofnári Búnaðarskólans, 1889, en hafði verið stækkað í tvígang, 1894 og 1897. Fjós og hlaða voru reist 1895, bráðabirgðafjós (12 kúa) lagfært árið 1899. Hirti var mjög í mun að efla nautgriparækt skólabúsins því sumarið 1900 reisti hann 16 kúa fjós og stækkaði það árið eftir svo tók 40 kýr.64 Öllu stærri gerðust kúabúin ekki hérlendis á þeim árum.

Nú leið af veturinn 1899–1900 og mun fátt hafa gerst í húsbyggingarmálum mjólkurskólans utan það að 1. febrúar 1900 skrifaði forseti Búnaðarfélagsins amtmanni og kvað félagið aðeins hafa bolmagn til þess að ráða kennara til skólans og að útvega teikningu af húsinu og að hafa fyrirsögn um fyrirkomulag þess.65

Ugg setti að stjórnarnefnd Hvanneyrarskóla vegna þeirrar afstöðu Búnaðarfélagsins að „annað hvort byrji kennslan hér [á Hvanneyri] í ár, eða hún verði sett á fót annarsstaðar …“ Í bréfi til amtmanns vorið 1900 lagði stjórnarnefndin því til við hann að bæði yrði byrjað á

áformuðum fjósumbótum búnaðarskólans og byggingu fyrir mjólkurskólann; bætti síðan við:

Við skulum leyfa okkr að geta þess, að mjólkuráhöld þau er keypt voru í fyrra sumar, hafa flest verið látin ónotuð til þessa, og hefir svo verið gjört í því skyni, að Búnaðarfélagið kaupi þau áhöld fullu verði til kennslunnar.66

Samkvæmt þessu hefur Hvanneyrarskólinn verið á veg kominn með að setja upp tæknivædda mjólkurvinnslu þegar árið 1899. Er þá rétt að minna á að einn þáttur verklegrar búnaðarkennslu skólans skv. fyrstu reglugerð hans (1890) skyldi vera „meðferð á mjólk og tilbúning á osti og smjöri“ og skyldi gefa sérstaka einkunn fyrir árangurinn við burtfararpróf.67 Má vera að með mjólkuráhöldunum hafi átt að hefja eða efla þessa kennslu við búnaðarskólann.

Að sjálfsögðu spurðust út hugmyndir um væntanlega mjólkurskólabyggingu á Hvanneyri og um miðjan apríl árið 1900 barst amtmanni tilboð frá Brydes-verslun í Borgarnesi þess efnis að verslunin væri reiðubúin að „skaffa byggingarefni sem mest mun verða sement og skal byggingarefnið koma hingað svo fljótt sem unnt er, t.d. í august, og með svo lágu verði sem kostur er á.“68

Ekki sá amtsráðið sér fært að verða við tillögunni um byggingu mjólkurskólahúss þetta sumar. Var borið við fjárskorti sem og ófullkomnum upplýsingum um hina fyrirhuguðu skólabyggingu. Einnig því „að það liti

út fyrir, að fjárveitingavaldið hefði ekki hugsað sjer eða ætlazt til, að sjerstakt hús yrði bygt til þessarar kenslu.“ Var þar vísað til orðalags fjárlaganna 1900–1901 en þar var eingöngu vísað til útvegunar kennara og til kennslunnar.69

En málið þokaðist áfram, að því er virðist með samræðum Hjartar skólastjóra og sr. Þórhallar Bjarnarsonar, stjórnarmanns Búnaðarfélagsins, sem falið hafði verið skömmu eftir fund amtsráðsins sumarið 1900 að koma við á Hvanneyri til þess að athuga „hvað mjólkurmeðferðarkennslunni liði og gjöra nauðsynlegar ráðstafanir fyrir stjórnarinnar hönd.“70 Varð það að samkomulagi á milli félagsins og stjórnarnefndar Hvanneyrarskóla

… upp á væntanlegt samþykki amtsráðsins … að setja á stofn mjólkurmeðferðarkennslu á Hvanneyri í minni stýl, til þess að nokkur not gætu orðið að tilsögn mjólkurmeð-

ferðarkennarans, sem fjelagið hefir fengið til landsins frá Danmörku, og gjöra nokkrar breytingar á húsakynnum til þess, og útvega hin nauðsynlegustu verkfæri, sem vantaði til þess, að kennslan geti farið fram. Var svo um samið, að amtsráðið legði til svo sem 250 kr., til þess að setja ofna í 2 herbergi, og gjöra nokkrar breytingar við annað þeirra, til að gjöra þau hæf til íbúðar, en búnaðarfjelagið skyldi leggja til á móti kostnað þann, sem leiddi af því, að gjöra nauðsynlega breytingu á kjallaranum í húsinu á Hvanneyri, svo hann yrði notaður í bráðina til kennslunnar, setja í hann eldavjel og leggja til þau áhöld, sem eigi væru til á Hvanneyri; var ætlazt á, að kostnaður fjelagsins yrði 6000 kr. Ennfremur var svo ákveðið, að nemendur mættu vera 4 í senn, og kennsluskeiðið 3 mánuðir, en námsstúlkur skyldu greiða 25 kr. á mánuði fyrir fæði, ljós og hita.“

Á þetta féllst amtsráðið á fundi sínum um Jónsmessuna 1900 þar eð ráðstöfun þessi var í anda fjárlaga fyrir árin

1900–1901 og að „aðeins [væri] gjört ráð fyrir tilbúningi osta og smjörs með þeim áhöldum, sem hægt er að koma við á hinum stærri sveitabúum.“71