3 minute read

Inngangur

Þegar gengið er um matvöruverslanir nútímans blasa við tegundir innlendra mjólkurafurða svo nemur mörgum tugum – raunar hundruðum. Fjölbreytni afurðanna er til komin vegna margra ára þróunarstarfs innanlands og utan. Tímabilið, sem það hefur staðið, er þó vart meira en liðug öld eða svo. Í samanburði við sögu þjóðar er það skammur tími.

Margir áhrifaþættir mótuðu upphaf mjólkuriðnaðar hérlendis og framvindu hans. Því má þó slá föstu að miklu réði Mjólkurskólinn sem settur var á Hvanneyri í Andakíl haustið 1900 en var síðan fluttur að Hvítárvöllum í sömu sveit. Þá var hafin skipuleg kennsla í frumatriðum mjólkurfræði og mjólkurvinnslu hérlendis. Að sönnu varð Mjólkurskólinn ekki langlífur en áhrif hans urðu víðtæk. Nemendur skólans réðust margir hverjir til forystu fyrir rjómabúin svonefndu er spruttu upp á fyrsta áratug tuttugustu aldar.1 Þau byggðust á samvinnufélagsskap bænda og mörkuðu nýja viðskiptahætti með búsafurðir hérlendis.2

Advertisement

Um aldamótin 1900 var íslensk skólaflóra ekki fjölskrúðug og síst sú er náði til verklegs náms. Með Mjólkurskólanum auðgaðist hún og þá ekki síst fyrir það að skólinn var eingöngu ætlaður konum en á þeim tíma áttu íslenskar konur ekki marga kosti til sérmenntunar innanlands.

Að fyrsta stofni byggist þessi bók á efnisöflum og rannsóknum vegna erindis sem ég flutti í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 1. nóvember árið 2000 í tilefni þess að þá var rétt öld liðin síðan Mjólkurskólinn hóf starf sitt. Efni fyrirlestrarins tók ég síðan saman í grein sem birtist í búnaðarblaðinu Frey veturinn 2001.3 Síðan þá hafa fleiri heimildir komið í ljós er gefið hafa færi á endurskoðun efnisins og breyttri framsetningu þess á margan veg.

Fyrir löngu síðan fékk ég áhuga á sögu Mjólkurskólans. Fyrir því voru ýmsar ástæður: Fyrst þær sem ég hef þegar nefnt og varða brautryðjendastarf skólans. Í öðru lagi löng búseta mín á sögusviði Mjólkurskólans í Borgarfirði. Og síðast það, sem síst spillti áhuga mínum, að móðuramma mín, Guðmunda María Guðmundsdóttir frá Kirkjubóli í Dýrafirði, var nemandi í skólanum. Því varð Mjólkurskólinn snemma á ævi minni partur af sagnaarfi fjölskyldunnar.

Tveimur einstaklingum, er auðvelduðu mér verkið, á ég sérstaklega mikið að þakka: Annars vegar er það Tómás Helgason frá Hnífsdal sem rétt óþreytandi var við að færa mér og benda á heimildir og upplýsingar um við-

GUÐMUNDA MARÍA GUÐMUNDSDÓTTIR

frá Kirkjubóli í Dýrafirði. Hún var nemandi við Mjólkurskólann á Hvanneyri veturinn 1902–1903, rjómabústýra á Rauðalæk í Holtum sumurin 1903 og 1904, síðar húsfreyja á Kirkjubóli. „Eg hef lært að mjólka síðustu sumarvikuna, og hef heitið á Dýrafjörð að kenna honum öllum að mjólka, ef eg geti lært svo vel að stjórna mjólkurbúi að sumri komanda“… skrifaði hún í dagbók sína 24. október 1902.4

Guðmundu Maríu Guðmundsdóttur (1874–1943) er bók þessi tileinkuð.

fangsefnið. Sumt hafði hann að frumkvæði sínu unnið sérstaklega fyrir mig. Hins vegar er það dr. Anna Sigurðardóttir, stofnandi og fyrsti forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands: Veturinn 1987 heimsótti ég hana á Hjarðarhaga 26 í Reykjavík, þar sem safnið þá stóð í stofunni hennar, í leit að heimildum um Mjólkurskólann. Hún tók mér af hvetjandi ljúfmennsku, reiddi fram öll líkleg gögn úr safninu og aðstoðaði mig af lifandi áhuga. Síðar sendi hún viðbótarefni er kom mér vel.

Heimildir um Mjólkurskólann eru margar og af ýmsum toga, einkum hvað snertir ytra starf hans og tengsl við umhverfið. Hins vegar þykir mér sérstætt hve fátt hefur komið í ljós af námsefni úr fórum nemenda skólans og afkomenda þeirra. Má vera að það sé vegna þess að hinn verklegi hluti námsins hafi verið fyrirferðarmestur. Líka kann það að tengjast því að þetta var skóli kvenna og að þess vegna hafi verið litið til varðveislu efnis frá honum með öðrum hætti en hefði þar verið karlaskóli – t.d. bændaskóli. Mig grunar að seinni skýringin sé líklegri.

Fyrstu rætur þess öfluga og fjölbreytta mjólkuriðnaðar sem við eigum í dag má með ýmsum hætti rekja til starfs Mjólkurskólans eins og áður sagði. Saga skólans er því mikilvægur hluti íslenskrar landbúnaðar- og atvinnusögu og mjög þess virði að henni sé til haga haldið.